Ráðherrasamanburður: Sveitarstjórnarreynsla
27.4.2014 | 21:11
Það hefur ýmsu verið haldið fram um pólitík og pólitíkusa. Kjarninn í slíkum staðhæfingum snýr gjarnan að eðli hvoru tveggja en minna hefur farið fyrir umræðu um tilgang og hlutverk. Það má auðvitað halda því fram að tilgangur og hlutverk hvoru tveggja sé það sama en þegar betur er að gáð er líklegra að flestir séu sammála um að hlutverk pólitíkunnar svo og pólitíkusa sé það að þjóna hagsmunum samfélagsins.
Hins vegar bendir samfélagsumræðan til þess að ekki séu allir jafn sannfærðir um að tilgangur stjórnmálaflokka og flokksfélaga þeirra snúist einlæglega um samfélagshagsmuni. Sumir virðast þvert á móti vera sannfærðir um að tilgangur pólitíkusa snúist um hagsmuni flokksins og þeirra sem vilja koma sér áfram í pólitíkinni án þess að þessir hafi neinar sérstakar hugmyndir um það hvort það þjóni fleirum en þeirra eigin metnaði.
Á næstunni er ætlunin að skoða stöðu þeirra, sem gegna ráðherraembættum í núverandi ríkisstjórn og þeirra ráðherra sem voru leystir frá störfum vorið 2013, innan viðkomandi flokka. Í þessari og næstu færslu verður pólitísk starfsreynsla þessara dregin saman. Með pólitískri starfsreynslu er átt við reynslu af sveitarstjórnarmálum annars vegar en hins vegar reynslu af ráðgjöf eða öðrum trúnaðarstörfum á vegum eldri ríkisstjórna. Hér er það reynsla af sveitarstjórnarmálum sem verður í brennidepli.
Reynsla af sveitarstjórnarmálum
Það hlýtur að teljast líklegt að þeir sem setjast inn á Alþingi leyti í aðra sambærilega reynslu sem þeir hafa aflað sér. Reynsla af öðru stjórnmálastarfi eins og sveitarstjórnarmálum hlýtur þar af leiðandi að teljast nokkuð dýrmæt reynsla þó það hljóti að teljast hæpið að hún dugi ein og sér þegar kemur að því að stýra heilu ráðuneyti. Margir þeirra sem gegndu embætti ráðherra á síðasta kjörtímabili svo og þeir sem eru ráðherrar nú höfðu aflað sér reynslu af þessu sviði áður en þeir settust inn á þing og tóku við skipun til ráðherraembættis. Þeir sem þetta á við um verða taldir hér.
Það er rétt að taka það fram að hér eru aðeins talin upp helstu störf. Þannig eru taldar nefndir þeirra sem störfuðu eingöngu innan nefnda á vegum borgar-, bæjar- og sveitastjórna. Þeir sem áttu sæti í slíkum -stjórnum eða -ráðum eru að sjálfsögðu taldir en eingöngu nefndirnar sem hafa einhver tengsl við þá málaflokka sem heyra til þeim ráðherraembættum sem viðkomandi var skipaður til síðar. Þær nefndir sem óvefengjanlegast tengjast málaflokkum ráðuneytanna sem viðkomandi ráðherra var skipaður yfir eru feitletraðir.
Þess ber að geta að reynsla eftirtaldra af sveitarstjórnarmálum er á nokkuð mismunandi sviði og þar af leiðandi mjög mismunandi hversu yfirgripsmikil hún er. Samantektin í töflunum hér að neðan gefur væntanlega einhverja hugmynd en árafjöldinn sem hver og einn kom að sveitarstjórnarmálum er tekinn saman í undir nafni og embættisheiti í vinstra dálkinum. Þar er líka tekið fram frá hvaða ári viðkomandi hefur setið inni á þingi.
Eins og áður er hægt að fylgja krækju sem er undir nöfnum fyrrverandi og núverandi ráðherra til að komast inn á ferilsskrár hvers og eins. Þeir sem vilja átta sig enn frekar á því hversu víðtæk reynsla þeirra, sem eiga sér langan feril á sviði sveitarstjórnarmála, er, er bent á þessa leið til þess en svo má minna á að ferilskrár allra var tekin saman í þessari færslu.
Ráherrar síðustu ríkisstjórnar | helstu ábyrgðarstöður |
Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra 26 ár í bæjarmálum á Akranesi Á þingi frá 2007 | Í bæjarstjórn Akraness 1986-1998. Fulltrúi skólastjóra í skólanefnd Akranesbæjar 1981-2007. |
Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmála- ráðherra 4 ár í borgarmálunum Á þingi frá 2007 | Varaborgarfulltrúi fyrir Reykjavíkurlistann 2002-2006. Fulltrúi í fræðsluráði, síðar menntaráði, Reykjavíkur 20022005. |
Svandís Svavarsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra 5 ár í borgarmálunum Á þingi frá 2009 | Í borgarráði Reykjavíkur 2007-2009. Í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur 2007-2009. |
Þrjú af þeim átta sem sem létu af ráðherraembætti vorið 2013 höfðu reynslu af borgar- og bæjarstjórnarmálum áður en þau settust inn á Alþingi. Þetta eru þau Guðbjartur Hannesson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi mennta og menningarmálaráðherra og Svandís Svavarsdóttir, fyrrverandi umhverfis- og auðlindaráðherra.
Af þessum þremur hefur Guðbjartur Hannesson langlengstu og fjölbreytilegustu reynsluna. Hann hóf þátttöku í bæjarmálunum á Akranesi árið 1981 þá rétt rúmlega þrítugur. Upphafið var seta í nefndum sem sneru að æskulýðs- og bæjarmálum en fimm árum síðar var hann kominn í bæjarstjórn Akraness þar sem hann átti sæti í 12 ár. Hins vegar átti hann sæti í skólanefnd Akranessbæjar, sem fulltrúi skólastjóra, í 26 ár.
Katrín Jakobsdóttir og Guðbjartur Hannesson komu bæði inn á þing vorið 2007. Katrín hafði verið varaborgarfulltrúi fyrir Reykjavíkurlistann í fjögur ár þegar hún var kjörin inn á þing fyrir Vinstri græna. Svandís Svarsdóttir var hins vegar ný inni á þingi þegar hún var skipuð ráðherra vorið 2009 en hafði verið viðloðandi borgarmálin í fimm ár þegar hún var kosin þingmaður Vinstri grænna í þar síðustu alþingiskosningum.
Þó tími Katrínar og Svandísar sé áþekkur í árum talið þá er reynsla Svandísar nokkru meiri en Katrínar. Svandís sat í borgarráði í tvö ár áður en hún tók sæti á þingi. Töluvert meiri sögum fór líka af þátttöku Svandísar í borgarstjórnarmálunum og olli þar mestu barátta hennar í REI-málinu svokallaða. Svandís Svavarsdóttir var 40 ára þegar hún hóf afskipti af borgarmálum. Katrín Jakobsdóttir aðeins 26.
Ráðherrar núverandi stjórnar | helstu ábyrgðarstöður |
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra 1 ár í borgarmálunum Á þingi frá 2009 | Fulltrúi í skipulagsráði Reykjavíkurborgar 2008-2010. |
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra 5 ár í bæjarmálunum í Garðabæ Á þingi frá 2003 | Í stjórn Heilsugæslu Garðabæjar 1998-2002. Í skipulagsnefnd Garðabæjar 2002-2010. |
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra 20 ár í bæjarmálum þriggja kaup- staða Á þingi frá 2007 | Bæjarstjóri Dalvíkur 1986-1994. Bæjarstjóri Ísafjarðar 1994-1997. Bæjarstjóri Akureyrar 1998-2006. Í bæjarstjórn Akureyrar 1998-2009. |
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðisráðherra 2 ár í bæjarmálum Vestmannaeyja Á þingi frá 2008 | Í skólamálaráði Vestmannaeyja 2003-2004. Varamaður í félagsmálaráði Vestmannaeyja 2003-2005. |
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðar- ráðherra umhverfis- og auðlindaráðherra 15 ár í sveitarmálum Hrunamannahrepps Á þingi frá 2009 | Oddviti Hrunamannahrepps 2002-2009. Formaður stjórnar skipulags- og byggingafulltrúaembættis uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps 2008-2009. Formaður skipulags- og bygginganefndar uppsveita Árnessýslu 2006-2008. Í samgöngunefnd Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga 2003-2006. |
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra 7 ár í sveitarmálum Skagafjarðar Á þingi frá 2009 | Annar varaforseti sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2002-2006, varaforseti 2006-2009. |
Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra 11 ár í borgarmálunum Á þingi frá 2013 | Borgarfulltrúi 2002-2013. Í stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu 20082010. |
Sjö af níu ráðherrum núverandi ríkisstjórnar hafa einhverja reynslu af sveitar-, bæjar- og borgarstjórnarmálum. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Bjarni Benediktsson og Eygló Harðardóttir sátu í nefndum á vegum sinna flokka áður en þau gengu til þingmennsku en reynsla þeirra Kristjáns Þórs Júlíussonar, Sigurðar Inga Jóhannssonar, Gunnars Braga Sveinssonar og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur er ívið meiri.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, var með eins árs reynslu af setu í skipulagsráði Reykjavíkurborgar þegar hann var kosinn inn á þing fyrir Framsóknarflokkinn vorið 2009. Hann átti sæti í ráðinu í eitt ár eftir að hann var kosinn inn á þing.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðisráðherra átti viðlíka reynslu að baki af bæjarmálum í Vestmannaeyjum en hún átti sæti í skólamálaráði Vestmannaeyja í eitt ár og var varamaður í félagsmálaráði á sama tíma og einu ári betur áður en hún kom fyrst inn á þing sem varaþingmaður sama flokks. Hún tók sæti Guðna Ágústssonar þegar hann sagði af sér þingmennsku haustið 2008.
Sigmundur Davíð var 33ja ára þegar hann hóf afskipti af borgarmálum og Eygló 31s þegar hún tók sæti í skólamálaráði Vestmannaeyja. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, var hins vegar aðeins 28 ára þegar hann hóf að beita sér á pólitískum vettvangi sinnar heimabyggðar. Hann var í stjórn Heilsugæslu Garðabæjar í fjögur ár og hafði verið í skipulagsnefnd sama bæjarfélags í eitt ár þegar hann var kosinn inn á þing. Hann sat þar áfram í sjö ár samhliða þingmennsku eða til ársins 2010.
Sá sem hefur lengstu stjórnmálareynsluna af þessu tagi er Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, en hann var bæjarstjóri í þremur bæjarfélögum í alls 19 ár, og var í bæjarstjórn Akureyrar einu ári betur, áður en hann var kosinn inn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn vorið 2007. Kristján Þór var aðeins 29 ára þegar hann varð bæjarstjóri Dalvíkur i fyrsta skipti. Á bæjarstjórnarferlinum átti hann sæti í fjölda stjórna, ráða og nefnda þó þau séu ekki talin hér þar sem flest snerta stjórnsýsluleg málefni, efnahags- og sjávarútvegsmál (sjá hér).
Næstur á eftir Kristjáni Þór, hvað reynslu af þessu tagi varðar, er Sigurður Ingi Kristjánsson en hann sat í sveitarstjórn Hrunamannahrepps í alls 16 ár. Þar af var hann oddviti sveitarstjórnarinnar í sjö ár eða þar til hann var kosinn inn á þing fyrir Framsóknarflokkinn vorið 2009 en hann sat í sveitastjórninni í eitt ár eftir að hann kom inn á þing. Sigurður var 32ja ára þegar hann hóf afskipti af sveitarstjórnarmálum sinnar heimabyggðar.
Hanna Birna Kristjánsdóttir átti ellefu ára setu í borgarráði Reykjavíkur að baki þegar hún kom ný inn á þing síðastliðið vor. Hún var borgarstjóri í tvö ár. Gunnar Bragi Sveinsson átti sæti í sveitarstjórn Skagafjarðar í sjö ár áður en hann var kosinn þingmaður Framsóknarflokksins vorið 2009. Hanna Birna og Gunnar Bragi voru jafngömul þegar þau hófu pólitísk afskipti af málefnum sinnar heimabyggðar.
Hér að neðan er myndræn samantekt sem dregur fram á hvaða aldri ofantalin voru þegar þau hófu afskipti af sveitarstjórnarmálum og hversu langan starfsaldur þau áttu að baki áður en þau voru kjörin inn á þing. Það ber að hafa í huga að starfsaldur í þessu tilviki segir þó afar takmarkaða sögu þar sem reynsla þeirra sem er talin hér er afar mismunandi eða allt frá því að hafa aðeins átt sæti í einni nefnd á vegum bæjar- eða borgarráðs til 19 ára embættisferlis sem bæjarstjóri.
Þó það beri að taka upplýsingum um starfsaldur af sveitarstjórnarsviðinu með fyrirvara hlýtur það að vekja nokkra athygli hversu margir þeirra sem eru ráðherrar sitjandi ríkisstjórnar hafa einhverja reynslu af pólitísku starfi á sviði sveitarstjórnarmála miðað við þann ráðherrahóp sem var leystur frá störfum síðastliðið vor.
Í þessu samhengi er rétt að taka það fram að fjórir af þeim sjö sem gegndu ráðherraembættum tímabundið á síðasta kjörtímabili höfðu umfangsmeiri reynslu af þessu sviði en þau Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Eygló Harðardóttir og Bjarni Benediktsson. Þau verða talin hér á eftir en fyrst verða þau úr ofantöldum hópi, sem gegndu embættum í samtökum sveitarfélaganna, dregin fram.
Nafn ráðherra | Staða innan samtaka og Sambands ísl. sveitarfélaga |
Guðbjartur Hannesson | Í fulltrúaráði Sambands ísl. sveitarfélaga 1994-1998 |
Gunnar Bragi Sveinsson | Formaður stjórnar Samtaka sveitarfél. á Norðurl. vestra 2006-2009 |
Hanna Birna Kristjánsdóttir | Í stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga 2006-2013 Í stjórn Samtaka sveitarfél. á höfuðborgarsv. 2008-2010 |
Kristján Þór Júlíusson | Í stjórn Sambands ísl. sveitarfél. 1998-2007 |
Sigurður Ingi Jóhannsson | Í stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfél. 2007-2009 |
Svandís Svavarsdóttir | Varaformaður Sambands ísl. sveitarfélaga 2007-2009 |
Það ætti að vera óhætt að gera ráð fyrir að þau sex sem eru talin hér að ofan hafi víðtækustu reynsluna af sveitarstjórnarsviðinu enda stendur sú ályktun í ágætu samhengi við bæði starfsaldur þeirra og hlutverk innan þeirra sveitarstjórna þar sem þau áttu sæti.
Eins og tekið var fram hér litlu fyrr þá eiga fjórir af þeim sjö sem gegndu ráðherraembættum tímabundið á síðasta kjörtímabilið einhverja starfsreynslu af sveitarstjórnarsviðinu að baki. Þau verða talin hér.
Það var bent á það í síðustu færslu að Kristján L. Möller varð æskulýðs- og íþróttafulltrúi Siglufjarðar aðeins 17 ára gamall. Embættinu gegndi hann, með fjögurra ára hléi, í alls 14 ár. Kristján var líka bæjarfulltrúi á Siglufirði frá 1986 til 1998 og gegndi ýmsum ábyrgðar- og trúnaðarstörfum á vegum bæjarstjórnarinnar þar á þeim tíma. Kristján var 33ja ára þegar hann hóf afskipti af bæjarmálunum á Siglufirði en 46 ára þegar hann var kjörinn inn á þing.
Oddný Harðardóttir var bæjarstjóri sveitarfélagsins Garðs frá árinu 2006 til 2009 eða þar til hún var kjörin inn á þing 52ja ára gömul. Þau þrjú ár sem hún var bæjarstjóri var hún í stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum auk þess að gegna ýmsum ábyrgðar- og trúnaðarstörfum svæðisins.
Jón Bjarnason var oddviti Helgafellssveitar frá árinu 1978 til 1982 eða um fimm ára skeið. Hann var 35 ára þegar hann tók við oddvitaembættinu en hann hefur setið á þingi frá árinu 1999. Á sama tíma og hann var oddviti í Helgafellssveit var hann fulltrúi sveitarinnar á aðalfundum Stéttarsambands bænda.
Álheiður Ingadóttir hóf sína stjórnmálaþátttöku sama ár og Jón Bjarnason en hún var varaborgarfulltrúi í átta ár. Á þessum tíma átti hún sæti í umhverfisráði og jafnréttisnefnd um fjögurra ára skeið. Í framhaldinu gegndi hún ýmsum ábyrgðar- og trúnaðarstörfum á vegum borgarinnar. Álfheiður var 27 ára þegar hún hóf afskipti af borgarstjórnarmálum en 56 ára þegar hún var kjörin inn á þing vorið 2007.
Að lokum má taka það fram að það kemur fram í ferilskrá Árna Páls Árnasonar að hann hafi verið í yfirkjörstjórn Reykjavíkurkjördæmis norður árin 2000 til 2007 eða fram til þess að hann settist inn á þing á sama tíma og Álfheiður. Árni Páll var 41s árs þegar hann tók sæti á þingi fyrir Samfylkinguna.
Samdráttur og niðurlag
Í eftirfarandi töflu er gerð tilraun til að draga saman það sem hefur verið í brennidepli hér að ofan. Starfsaldur þeirra ráðherra sem eru í sama flokki hefur verið lagður saman ásamt því sem fjöldi þeirra sem hafa reynslu af sveitarstjórnarmálum er tilgreindur. Aftast er meðalstarfsaldur á ráðherrahópinn eftir flokkum.
Þær upplýsingar sem eiga við um núverandi ríkisstjórn eru bláar en rauðar fyrir þá fyrrverandi. Þar er fyrst tilgreindur fjöldi þeirra sem sátu í ráðherraembættum við lok síðasta kjörtímabils ásamt samanlögðum starfsaldri þeirra af sveitarstjórnarsviðinu og svo þeir sem gegndu slíkum embættum einhvern tímann á kjörtímabilinu. Rauðu tölurnar eru svo samtalan ásamt meðaltalsstarfsaldrinum.
Reynsla af sveitarstjórnarsviðinu | fj | ár | fj | ár | hfj | samtals | Meðaltal |
Framsóknarflokkur | 4 | 25 | 6,25 | ||||
Sjálfstæðisflokkur | 3 | 33 | 11 | ||||
Samfylkingin | 1 | 26 | 3 | 23 | 4 | 49 | 12,25 |
Vinstri grænir | 2 | 9 | 1 | 5 | 3 | 14 | 4,67 |
Ég reikna með að einhverjum þyki þetta sérkennilegir útreikningar en geri þó ráð fyrir að það megi fallast á að með þessum hætti þarf ekki að efast um það hvernig starfsreynsla af sveitarstjórnarstiginu dreifist á milli flokkanna og ráðherrahópanna sem hér eru til samanburðar. Þegar allt er talið er munurinn ekki eins mikill á milli ráðherra núverandi - og fyrrverandi ríkisstjórnar og kann að virðast í fyrstu.
Það má reyndar gera ráð fyrir því að það sé afar mismunandi á milli ríkisstjórna hvort skipaðir ráðherrar hafi reynslu af pólitísku starfi í sinni heimabyggð áður en þeir eru kjörnir inn á þing en í tilviki þeirra sem sitja á ráðherrastóli nú eru sjö af níu sem hafa einhverja slíka reynslu. Af þeim 15 sem voru ráðherrar á síðasta kjörtímabili eru þeir sjö sem hafa mismikla reynslu af sveitarstjórnarmálum. Þrjú þeirra voru ráðherrar þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir var leyst frá störfum þegar sú sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tók við síðastliðið vor.
Eins og kom fram hér í upphafi er líklegt að þeir sem setjast inn á Alþingi leyti í aðra sambærilega reynslu sem þeir hafa aflað sér. Reynsla af öðru stjórnmálastarfi eins og sveitarstjórnarmálum hlýtur þar af leiðandi að teljast nokkuð dýrmæt. Það er þó hæpið að hún dugi ein og sér þegar kemur að því að stýra heilu ráðuneyti.
Sú reynsla, sem þeir sem hafa verið taldir hér, búa að er líka mjög mismunandi eða allt frá því að hafa setið í einni nefnd fyrir sína heimabyggð upp í það að stýra borginni eða fleiri en einu bæjarfélagi. Það er líklegt að slík reynsla skili ómetanlegri reynslu hvað varðar vinnubrögð og skipulag en það er óvíst að hún skili þeirri þekkingu eða yfirsýn yfir einstaka málaflokka sem hlýtur að teljast æskileg í einstökum ráðuneytum.
Það er því vissulega hægt að halda því fram að haldgóð reynsla af sveitarstjórnarstiginu getur talist til ómetanlegs undirbúnings undir ábyrgðarhlutverk eins og ráðherraembætti en það er óvíst að slík reynsla geri viðkomandi hæfari í að þjóna hagsmunum heildarinnar. Það er líka útilokað að borgarstjórn í Reykjavík eða bæjarstjórn í minni bæjarfélögum grundvalli þá þekkingu að viðkomandi sé óyggjandi best til þess fallinn að stýra ráðuneytum sem fara með jafn yfirgripsmikil mál eins og fjármál ríkisins, heilbrigðiskerfið, dómsmálin eða samgöngukerfið svo eitthvað sé talið.
Tveggja til þriggja ára seta í fræðsluráði borgarinnar eða félagsmálaráði minna bæjarfélags gefur vafalaust einhverja hugmynd um það hvaða efni heyra til þessum málaflokkum en byggja ekki upp þann þekkingargrunn sem réttlætir það að viðkomandi sé skipaður yfir jafnviðamikla og viðkvæma málaflokka og mennta- eða félagsmál alls samfélagsins eru.
Í stuttu máli er niðurstaða þessa yfirlits sú að reynsla af sveitarstjórnarstiginu sé líkleg til að skapa reynslu og þekkingu á vinnubrögðum innan stjórnsýslunnar. Það er líka óhætt að gera ráð fyrir að slík reynsla gefi einhverja innsýn í þá málaflokka sem er á hendi stjórnsýslunnar en það er væntanlega ljóst að hún leggur til takmarkaðan þekkingargrunn á einstökum málefnasviðum. Reynsla af þessu tagi getur þar af leiðandi ekki gefið tilefni til að álykta að fyrrverandi borgar- eða bæjarstjórnarfulltrúi sé hæfastur til að fara með t.d. með Umhverfis- og auðlindaráðuneytið eða Innanríkisráðuneytið.
Hér var ætlunin að halda áfram og draga fram þá sem hafa reynslu af ábyrgðar- eða trúnaðarstörfum á vegum fyrri ríkisstjórna. Þar sem þetta er allt saman væntanlega bæði þungur og torsóttur lestur þá var horfið frá þeirri hugmynd og ákveðið að setja það fram í sérstakri færslu. Í framhaldi hennar verður dregin saman yfirlit yfir sambærileg störf inan stjórnmálaflokka og þá þingreynslu þeirra sem gegna ráðherraembættum nú og hinna sem fengu lausn frá sömu embættum í kjölfar alþingiskosninganna vorið 2013.
Aðrar færslur í þessum sama flokki:
Ráðherrasamanburður: Aldur við skipun
Ráðherrasamanburður: Menntun
Ráðherrasamanburður: Starfsreynsla
Heimildir um skipun ráðuneyta:
Ráðuneyti 1917-2013
Ferilskrá ráðherra núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnar:
Menntunar- og hæfniskröfur til ráðherraembætta
Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.5.2014 kl. 15:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ráherrasamanburður: Starfsreynsla
25.4.2014 | 18:16
Það hefur margt gáfulegt verið sagt um gildi menntunar en svo eru aðrir sem snúast öndverðir og telja að of mikið sé gert úr vægi hennar og benda á að menntun kemur aldrei í stað góðrar eðlisgreindar og/eða almennrar skynsemi. Þeir eru m.a.s. til sem virðast beinlínis óttast það að með því að viðurkenna gildi menntunar þá verði þeir útilokaðir sem búa yfir áralangri starfs- og lífsreynslu en eiga engin prófskírteini til að færa sönnur á þekkingu sína.
Úti á vinnumarkaðinum eru störfin fjölbreytt og krefjast þar af leiðandi mismunandi hæfileika og færni. Þegar rennt er yfir atvinnuauglýsingar snúast flestar auglýsingarnar um störf þar sem eru gerðar miklar kröfur til menntunar og að viðkomandi menntun nýtist í því starfi sem er verið að auglýsa laust til umsóknar.
Sum þeirra fyrirtækja sem auglýsa þannig eftir starfskröftum þykir það eftirsóknarvert að ráða þá sem eru nýútskrifaðir út úr námi þannig að þeir sem eru ráðnir inn í fyrirtækið komi ekki inn í starfið með fyrirfram ákveðnar hugmyndir um það hvernig það eigi að ganga fyrir sig heldur mótist og aðlagist að vinnuaðferðum fyrirtækisins á sem stystum tíma án teljandi árekstra eða skoðanaágreinings um hugmyndafræði, vinnulag og aðferðir.
Það er ekki útilokað að einhverjum starfsmönnum ráðuneytanna þyki ofantalið eftirsóknarverðir eiginleikar þeirra sem koma sem nýir ráðherrar inn í ráðuneytin en það er ólíklegt að það séu slíkir aðlögunarhæfileikar sem þjóna hagsmunum samfélagins best. Þess vegna hlýtur það að teljast æskilegt að þeir sem veljast til ráðherraembætta hafi einhverja reynslu af hinum almenna vinnumarkaði og helst þó nokkra af þeim sviðum sem heyra undir þá málaflokka sem viðkomandi ráðuneyti sýslar með.
Hér á eftir verður starfsreynsla þeirra sem sátu á ráðherrastóli í lok síðasta kjörtímabils og þeirra sem sitja þá nú dregin saman. Rétt er að taka það fram að hér verður þó eingöngu fjallað um þá starfsreynslu sem stendur utan stjórnmálanna. Reynsla af sveitarstjórnarmálum svo og starfsreynsla sem þessi hafa aflað sér með trúnaðarstörfum á vegum fyrrum ríkisstjórna verður tekin fyrir í sérstakri færslu.
Samantektin hér á eftir er sett þannig saman að það er ekki allt nákvæmlega talið. Sumarvinnu með námi og hlutastörfum er almennt sleppt nema þau snerti það málefnasvið, sem viðkomandi hafði eða hefur með að gera, í embætti sem ráðherra. Það er rétt að taka það fram að í einhverjum tilfellum er líklegra að um hlutastörf hafi verið að ræða, þó það sé ekki tekið fram, þar sem sumir hafa gegnt mörgum hlutverkum á sama tíma. Hér verður ekki lagst í að reyna að skera úr um slíkt heldur það talið sem fram kemur á ferilskrám þeirra sem hér eru til athugunar.
Í yfirlitinu yfir starfsreynslu núverandi og fyrrverandi ráðherra eru ártölin, sem hver og einn var í viðkomandi starfi, ekki tilgreind heldur árafjöldinn tekinn saman innan sviga í þeirra stað. Bent er á að í einhverjum tilfellum ber að taka þessum tölum með fyrirvara þar sem ferilskrá sumra ber það greinilega með sér að þeir hafa ekki verið í fullu starfi þar sem þeir hafa verið skráðir í nám eða fleiri störf á sama tíma.
Það að taka saman árafjöldann felur líka í sér ákveðna námundum. Niðurstaðan varð þó sú að þessi aðferð gæfi bestu yfirsýnina yfir heildarstarfsreynslu hópsins. Þeir sem vilja skoða starfsferil eftirtaldra nákvæmar er bent á að eins og í síðustu færslu má nota krækjur, sem eru undir nöfnum hvers og eins, til að komast inn á æviágrip þeirra inni á alþingisveggnum.
Svo er rétt að taka fram að í dálkinum með nöfnum ráðherranna kemur fram hvenær viðkomandi er fædd/-ur og hvenær hann kom inn á þing. Í dálkinum hægra megin eru krækjur á öll fyrirtæki sem má gera ráð fyrir að séu ekki þjóðþekkt. Í einhverjum tilvikum eru fyrirtækin ekki til lengur en þá leiðir krækjan á frétt sem varðar afdrif fyrirtækisins.
Ráherrar síðustu ríkisstjórnar | starfsreynsla |
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra fædd 1942. Á þingi frá 1978 | flugfreyja Loftleiðir (9 ár) skrifstofumaður Kassagerð Reykjavíkur (7 ár) |
Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra fædd 1974. Á þingi frá 2003 | framkvæmdastjóri stúdentaráðs HÍ (1 ár) innkaupastjóri hjá G. Einarsson & co. ehf. og síðar framkvæmdastjóri (4+1 ár) verkefnastjóri/ráðgjafi Innn hf (1 ár) |
Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra fæddur 1950. Á þingi frá 2007 | grunnskólakennari á Akranesi og í Kaupmannahöfn (4+1 ár) erindreki Bandalags ísl. skáta (2 ár) skólastjóri Grundaskóla Akranesi (26 ár) |
Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmála- ráðherra fædd 1976. Á þingi frá 2007 | málfarsráðunautur í hlutastarfi hjá RÚV (4 ár) ýmis hlutastörf í sambandi við fjölmiðlastörf, ritstjórn og kennslu auk stundakennslu í HÍ og MR (3 ár) |
Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunar- ráðherra fæddur 1955. Á þingi frá 1983 | jarðfræðistörf og íþróttafréttamaður hjá sjónvarpi (1 ár) |
Svandís Svavarsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra fædd 1964. Á þingi frá 2009 | stundakennari með námi við HÍ (4 ár) rannsóknir, ráðgjöf og stjórnun Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra (2+7 ár) kennslustjóri í táknmálsfræði og táknmálstúlkun við HÍ (4 ár) |
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra fæddur 1953. Á þingi frá 1991 | ritstjóri Þjóðviljans (3 ár) lektor við HÍ (1 ár) aðstoðarforstjóri Reykvískrar endurtryggingar (2 ár) ritstjóri Alþýðublaðsins og DV (1+1 ár) |
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra fæddur 1948. Á þingi frá 1995 | grunnskólakennari í Reykjavík (1 ár) og stundakennsla við HÍ frá 1979. rannsóknir við Edinborgarháskóla (4 ár) fréttamaður hjá RUV (10 ár) verkalýðsleiðtogi BSRB (11 ár) |
Af þeim, sem sátu á ráðherrastóli í lok síðasta kjörtímabils, er Guðbjartur Hannesson með langlengstu starfsreynsluna af almennum vinnumarkaði. Hann var kennari og skólastjórnandi í 31 ár áður en hann var kosinn inn á þing. Ögmundur Jónasson átti 26 ára starfaldur að baki þegar hann tók sæti á þingi. Þar af var hann fréttamaður hjá RUV í einn áratug en þó var hann mörgum eftirminnilegri sem leiðtogi BSRB til ellefu ára.
Jóhanna Sigurðardóttir og Svandís Svavarsdóttir áttu álíka langan starfsaldur þegar þær voru kjörnar inn á þing en þess ber að geta að það er ekki líklegt að Svandís hafi verið í fullu starfi þann tíma sem hún tók þátt á vinnumarkaðinum. Þessi ályktun hangir saman við það að fyrstu ár Svandísar á vinnumarkaði var hún enn við nám en síðustu sex árin, áður en hún tók sæti á þingi, var hún komin inn í borgarpólitíkina.
Sömu sögu er að segja af Katrínu Jakobsdóttur en samkvæmt ferilskrá hennar var hún aldrei í föstu starfi þau þrjú ár sem liðu frá því að hún lauk háskólanámi þar til hún var kosin inn á þing vorið 2007. Þennan tíma vann hún ýmis hlutastörf meðfram þátttöku í pólitísku starfi.
Ráðherrar núverandi stjórnar | starfsreynsla |
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra fæddur 1975. Á þingi frá 2009 | hlutastarf hjá RUV sem þáttastjórnandi og fréttamaður (7 ár) |
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra fæddur 1970. Á þingi frá 2003 | fulltrúi sýslumannsins í Keflavík 1995. lögfræðingur hjá Eimskip (2 ár) lögmaður Lex lögmannsstofa (4 ár) |
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra fæddur 1957. Á þingi frá 2007 | stýrimaður og skipstjóri (4 ár) grunn- og framhaldskólakennari á Dalvík (5 ár) bæjarstjóri Dalvíkur, Ísafjarðar og Akureyrar (8+3+8 ár) |
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmála- ráðherra fæddur 1967. Á þingi frá 2007
| grunnskólakennsla Flateyri (1 ár) organisti Flateyrarkirkju (1 ár) skrifstofumaður Vestfirskur skelfiskur (2 ár) rannsóknir í fiskihagfræði við HÍ (1 ár) aðstoðarmaður ráðherra (5 ár)
|
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra fædd 1967. Á þingi frá 2007
| starfsmaður, verkefnisstjóri, aðstoðar- og viðskiptafulltrúi Útflutningsráðs Íslands (3+1+1+1 ár) aðstoðarmaður ráðherra í þremur ráðuneytum (7+1+1 ár)
|
Eygló Harðardóttir, (kom upphaflega inn á þing sem varamaður Guðna Ágústssonar) | framkvæmdastjóri Þorskur á þurru landi ehf (8 ár) skrifstofustjóri Hlíðardalur ehf (1 ár) viðskiptastjóri Tok hjá Ax hugbúnaðar- húsi hf (2 ár) framkvæmdastjóri Nínukot ehf (2 ár) verkefnastjóri Atvinnuþróunarfélag Suðurlands 2008. |
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðar- ráðherra umhverfis- og auðlindaráðherra fæddur 1962. Á þingi frá 2009 | landbúnaðarstörf samhliða námi afgreiðslu- og verkamannastörf Mjólkursamsalan í Reykjavík (1 ár) bóndi í Hrunamannahreppi (7 ár) dýralæknir í sveitum Árnes- og Vestur-Barðastrandasýslu og síðast Dýralækna-þjónustu Suðurlands ehf (5+13 ár) |
Gunnar Bragi Sveinsson, | verslunar- og framkvæmdastjóri Ábær, Sauðárkróki (5+4 ár) verka- og gæslumaður Steinullar-verksmiðjan hf (2 ár) ritstjóri Einherja (1 ár) sölu- og verslunarstjóri Skeljungur hf (1 ár) aðstoðarmaður ráðherra (1 ár) markaðsráðgjafi Íslenska auglýsinga-stofan 1999. verslunarstjórn Kaupfélag Skagfirðinga (2 ár) |
Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra fædd 1966. Á þingi frá 2013 | starfsmaður Öryggismálanefndar (1 ár) deildarsérfræðingur í Menntamála-ráðuneytinu (1 ár) borgarstjóri í Reykjavík (2 ár) |
Af þeim sem gegna ráðherraembættum nú er Sigurður Ingi með langlengsta starfsaldurinn af almennum vinnumarkaði eða 22 ár. Hann var bóndi í sjö ár að að Dalbæ í Hrunamannahreppi. Meðfram búskapnum var hann sjálfstætt starfandi dýralæknir og héraðsdýralæknir síðustu fjögur árin. Sigurður Ingi starfaði sem dýralæknir samfleytt í 18 ár.
Gunnar Bragi Sveinsson á næstlengsta starfsaldurinn eða 15 ár. Hann á það sameiginlegt með Eygló Harðardóttur að hafa lengst af unnið að stjórnun. Stjórnunarreynsla hans er af ýmsum stjórnunarstörfum í veitingaskála- og verslunarrekstri en Eygló hefur m.a. gegnt stjórnunarstörfum innan nýsköpunarfyrirtækja í fiskiðnaði sem er útlit fyrir að hafi ekki farið gæfulega fyrir.
Af ferilskrá Illuga Gunnarssonar má ráða að hann hafi haft áhuga á að hasla sér völl á svipuðum starfsvettvangi og Eygló en hann var skrifstofumaður í tvö ár hjá nýsköpunarfyrirtæki í fiskiðnaði á Flateyri sem er ekki lengur í rekstri. Það sem er þó athyglisverðast við starfsferilskrá Illuga er það hvað störfin sem þar eru talin eru sundurleit.
Á meðan hann var í námi vann hann í fiski, þá var hann leiðbeinandi í grunnskóla, næst organisti í sóknarkirkju Flateyringa og síðan skrifstofumaður hjá Vestfirskum skelfiski. Eftir að ekki reyndist lengur rekstrargrundvöllur fyrir því fyrirtæki (sjá hér) sneri hann sér að rannsóknum í fiskihagfræði við Háskólann í eitt ár en gerðist svo aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar í Forsætisráðuneytinu í fimm ár.
Eins og áður hefur komið fram verður farið sérstaklega yfir reynslu, núverandi og fyrrverandi ráðherra, af pólitísku starfi í næstu færslum. Þar af leiðandi verður ekkert farið í þessa starfsreynslu hér þó einhver þessara starfa séu talin hér að ofan. Eins og þar er talið hefur Kristján Þór verið bæjarstjóri í þremur bæjarfélögum í alls 19 ár og Hanna Birna Kristjánsdóttir var borgarstjóri í tvö ár. Ólíkt Hönnu Birnu, sem hefur allan sinn starfsferil unnið á vettvangi stjórnmála, þá átti Kristján Þór níu ára starfsferil af almennum vinnumarkaði áður en hann sneri sér að pólitík.
Reynsla af sviði skólamála
Áður en Kristján Þór varð bæjarstjóri í fyrsta skipti var hann kennari við Stýrimannaskólann á Dalvík í fimm ár ásamt því að kenna við grunnskólann þar í tvö ár. Það vekur reyndar athygli hversu margir þeirra sem voru ráðherrar í síðustu ríkisstjórn hafa starfað á sviði skólamála. Í núverandi ríkisstjórn eru það Kristján Þór og Illugi sem eiga þetta sameiginlegt. Þegar rýnt er í starfsferil þeirra, sem voru leystir frá ráðherraembættum vorið 2013, kemur hins vegar í ljós að helsta samkenni þeirra er starfsreynsla af sviði skólamála.
Þrír ofantaldra eru með kennararéttindi. Það er Guðbjartur Hannesson, fyrrverandi velferðarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, og Kristján Þór Júlíusson, núverandi heilbrigðisráðherra. Guðbjartur er með grunnskólakennararéttindi en þeir Steingrímur og Kristján Þór með framhaldskólaréttindi. Ólíkt Kristjáni hefur Steingrímur þó aldrei starfað við kennslu.
Kristján L. Möller, sem var skipaður samgönguráðherra vorið 2009 en leystur frá störfum haustið 2010, er líka með íþróttakennarapróf. Það er reyndar eina framhaldsmenntun hans að undanskildu prófi frá Iðnskólanum á Siglufirði sem hann lauk þegar hann var 18 ára. Kristján var íþróttakennari í tvo vetur í Bolungarvík en sneri þá aftur heim á Siglufjörð þar sem tók aftur við starfi íþróttafulltrúa. Hann var skipaður æskulýðs- og íþróttafulltrúi bæjarins í fyrsta skipti aðeins 17 ára gamall.
Katrín Jakobsdóttir, Svandís Svavarsdóttir, Ögmundur Jónasson og Össur Skarphéðinsson eiga það sameiginlegt að hafa kennt við Háskóla Íslands. Þau þrjú fyrstnefndu sem stundakennarar en Össur Skarphéðinsson sem lektor í eitt ár.
Það vekur líka athygli að allir þeir, sem voru skipaðir ráðherrar á síðasta kjörtímabili en leystir frá störfum fyrir lok þess, höfðu annaðhvort menntun eða reynslu sem tengist skólastarfi. Kristján L Möller hefur þegar verið talinn en Oddný Harðardóttir, sem var skipuð fjármála- og efnahagsráðherra á gamlársdag 2011 en leyst frá störfum haustið 2012, er einnig með menntun og réttindi til kennslu. Hún hefur lokið við kennsluréttindanám til grunnskólakennslu og kennslu í stærðfræði í framhaldsskóla. Hún er reyndar líka með meistaragráðu í uppeldis- og menntunarfræði.
Oddný er með 14 ára starfsferil sem kennari; fimm ár í grunnskóla og níu ár í framhaldsskólum. Auk þess var hún aðstoðarskólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja í níu ár og eitt ár skólameistari hans. Guðbjartur og Oddný eru þar af leiðandi með álíka langa starfsreynslu af skólamálum; sitt af hvoru skólastiginu.
Jón Bjarnason, sem var skipaður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vorið 2009 en leystur frá störfum í lok árs 2011, er með viðlíka starfsreynslu og þessi tvö en hann hóf starfsferil sinn sem grunnskólakennari í Hafnarfirði þar sem hann kennd í eitt ár. Þá var hann kennari við Bændaskólann á Hvanneyri í fjögur ár og síðan stundakennari við Grunnskóla Stykkishólms í fimm ár og loks skólastjóri Bændaskólans á Hólum í Hjaltadal. Þeirri stöðu gegndi hann í 18 ár eða þar til hann var kosinn inn á þing vorið 1999.
Gylfi Magnússon, sem var skipaður viðskiptaráðherra vorið 2009 en leystur frá störfum rétt rúmu ári síðar, á mestan sinn starfsferil af skólastarfi þó upphaf hans liggi í vegarvinnu hjá Vegagerð ríkisins þar sem Gylfi vann á sumrin með námi í menntaskóla. Með námi í Háskólanum var hann svo á Morgunblaðinu. Með háskólanáminu var hann líka stundakennari við Menntaskólann við Sund 1988-1990. Á meðan hann var við háskólanám erlendis var hann aðstoðarkennari við Yale University en hann er með tvær meistaragráður frá þeim skóla svo og doktorspróf í hagfræði.
Starfsferill Gylfa við Háskólann hófst árið 1996 en þá var hann ráðinn sérfræðingur á Hagfræðistofnun en á sama tíma var hann stundakennari við viðskipta- og hagfræðideild Háskólans. Hann hefur verið dósent við viðskiptafræðideild Háskólans frá árinu 1998.
Árni Páll Árnason og Ragna Árnadóttir hafa bæði verið stundakennarar við Háskólann í Reykjavík. Árni Páll í Evrópurétti en Ragna við lagadeild skólans. Hann starfaði líka sem stundakennari við Menntaskólann í Hamrahlíð meðfram háskólanáminu. Árni Páll var skipaður félags- og tryggingamálaráðherra vorið 2009 en tók við ráðuneyti Gylfa Magnússonar, sem á þeim tíma hafði verið aukið í Efnahags- og viðskiptaráðuneytið, þegar hann var leystur frá störfum haustið 2010. Árni Páll var leystur frá embætti efnahags- og viðskiptaráðherra á gamlársdag árið 2011. Ragna Árnadóttir var skipuð dóms- og kirkjumálaráðherra vorið 2009 en leyst frá embætti haustið 2010.
Loks á Álfheiður Ingadóttir, sem tók við Heilbrigðisráðuneytinu haustið 2009 en var leyst frá störfum ári síðar, það sameiginlegt með bæði Svandísi og Gylfa að hafa starfað við stundakennslu með háskólanámi. Hún kenndi líffræði við Menntaskólann í Hamrahlíð og Menntaskólann í Reykjavík.
Það er ekki útilokað að reynsla af kennslu og skólastjórnun nýtist í starfi sem þingmaður en sennilega er langsóttara að sjá að reynsla af kennslu nýtist beinlínis innan ráðuneytanna fyrir utan Mennta- og menningarmálaráðuneytið. Hins vegar er það frekar sennilegt að reynsla af skólastjórnun komi sér ágætlega í einhverjum praktískum atriðum sem snúa að embættisskyldum ráðherra.
Katrín Jakobsdóttir sem var yfir Mennta- og menningarmálaráðuneytinu á síðasta kjörtímabili hafði starfað sem stundakennari við Menntaskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands í eitt ár áður en hún var kjörin inn á þing auk þess sem hún hafði kennt á námskeiðum á vegum Endurmenntunar og Mímis-símenntunar frá 2004. Illugi Gunnarsson, núverandi mennta- og menningarmálaráðherra, starfaði í eitt ár sem leiðbeinandi við Grunnskóla Flateyrar. Það er ekki líklegt að svo stuttur ferill beggja hafi skilað þeim mikilli innsýn inn í veruleika skóla- og menntamála.
Miðað við það hversu margir þeirra, sem gegndu ráðherraembættum í tíð síðustu ríkisstjórnar, hafa reynslu af kennslu og/eða öðrum verkefnum á sviði menntunar og skóla þá vekur það athygli að málefni skólanna í landinu hafi ekki notið meiri athygli og alúðar á þeim tíma sem hún sat að völdum. Í reynd má segja að þessi mál hafi legið í salti allt síðasta kjörtímabil fyrir utan þann niðurskurð til skólareksturs sem kom fram í fjárlögum á þessum tíma.
Reynsla af fjölmiðlastörfum
Sex af þeim sautján sem eiga þær ferilskrár, sem hér eru aðallega til samanburðar, eiga það sameiginlegt að hafa starfað við fjölmiðla. Reynsla þeirra er misyfirgripsmikil. Allt frá því að hafa verið ritstjóri á héraðsfréttablaði í eitt ár til tíu ára reynslu sem fréttamaður útvarps- og sjónvarpsmiðils RUV.
Ögmundur Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra, var fréttamaður á RUV í einn áratug og Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, ritstýrði þremur dagblöðum á starfsferli sínum utan þings. Hann var ritstjóri Þjóðviljans í þrjú ár auk þess að ritstýra Alþýðublaðinu og DV sitt hvort árið.
Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra var málfarsráðunautur í hlutastarfi með námi yfir fjögurra ára tímabil auk þess kemur fram á starfsferilskrá hennar að hún hafi unnið að dagskrárgerð fyrir ljósvakamiðla og að ritstörfum fyrir ýmsa prentmiðla á árunum 2004 til 2006 (sjá hér).
Svipaða sögu er að segja af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, núverandi forsætisráðherra. Hann lauk BS-námi frá Háskóla Íslands árið 2005 en samkvæmt ferilskrá hans var hann í hlutastarfi sem þáttastjórnandi og fréttamaður hjá RUV á árunum 2000-2007 (sjá hér).
Af þeim ráðherrum sem hér eru til samanburður er Steingrímur J. Sigfússon með langstysta starfsferilinn áður en hann var kjörinn inn á þing fyrir rúmum þrjátíu árum. Þegar hann tók sæti á Alþingi vorið 1983 hafði hann verið íþróttafréttamaður hjá sjónvarpi í eitt ár. Önnur starfsreynsla er frá námsárum hans en þá vann við vörubílaakstur (sjá hér).
Í þeim ráðherrahópi, sem sat tímabundið á ráðherrastóli á síðasta kjörtímabili, eru tveir sem hafa starfsreynslu innan úr fjölmiðlum. Samkvæmt starfsferilskrá Álfheiðar Ingadóttur var hún þingfréttamaður á Þjóðviljanum í tíu ár og fréttastjóri þar um tíma. Auk þess segir þar að hún hafi verið blaðamaður í lausamennsku á árunum 1991 til 1996. Á starfsferilskrá Gylfa Magnússonar kemur fram að hann hafi verið blaðamaður á Morgunblaðinu sumurin 1986 til 1990.
Það hlýtur að teljast líklegt að reynsla af fréttamennsku og ritstjórn skili þokkalegri þekkingu og væntanlega einhverri reynslu af samfélagsmálum og séu þar af leiðandi haldgóð reynsla hverjum þeim sem hefur hug á að gefa sig að pólitík. Hins vegar er hæpið að reynsla af fjölmiðlun skapi þann þekkingar- og reynslugrunn sem ráðherraembætti yfir sértækum málaflokkum, sem varða allt samfélagið, gera kröfu til.
Reynsla af framkvæmdastjórnun
Áður en botninn verður sleginn í þessa umfjöllun er vel við hæfi að draga þá fram sem hafa gegnt framkvæmdastjórastöðum á starfsferli sínum. Það er vel við hæfi fyrir þá ástæðu að því heyrist stundum fleygt að við val á ráðherraefnum sé rétt að horfa eftir því sama og við val á góðum framkvæmdastjórum. Það má vel vera að það sé eitthvað til í staðhæfingum af þessu tagi en þá ber að hafa það í huga að fyrirtæki eru mjög mismunandi að stærð og umsvifum auk þess sem hlutverk þeirra eru afar mismunandi.
Ráðherra er vissulega trúað fyrir því að annast stjórnsýslu yfir tilteknum málaflokkum en það hlýtur að gefa auga leið að þó hluti þess samfélagsrekstrar sem heyrir t.d. undir Mennta- og Heilbrigðisráðuneyti snúist um peningalega afkomu málefnasviðanna sem heyra undir viðkomandi ráðuneyti þá ættu meginsvið beggja að snúast um fólk og að tryggja það að þær stofnanir samfélagsins, sem heyra undir það, virki á þann hátt sem þeim er ætlað.
Skatttekjum ríkissjóðs er ekki síst ætlað það hlutverk að tryggja viðhald og aðgengi að menntun og heilbrigðisþjónustu. Hlutverk þessara ráðuneyta gera því kröfur til uppfyllingu annars konar markmiða en framkvæmdastjóra t.d. Hagkaupa eða Vátryggingafélags Íslands er ætlað að vinna að.
Þrír þeirra ráðherra sem heyra til þeim samanburði sem hér fer fram hafa verið framkvæmdastjórar. Þetta eru: Eygló Harðardóttir, núverandi félags- og húsnæðisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, núverandi utanríkisráðherra og Katrín Júlíusdóttir fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra.
Eygló Harðardóttir hóf starfsferil sinn sem framkvæmdastjóri fiskeldisfyrirtækisins Þorsks á þurru landi ehf sem átti aðsetur í Vestmannaeyjum (sjá hér). Samkvæmt fyrirtækjaskrá skilaði fyrirtækið inn virðisaukaskattsnúmeri sínu árið 2012 (sjá hér) en Eygló er þó enn skráð sem 50% hluthafi þess (sjá hér).
Fyrirtækið, Þorskur á þurru landi ehf, virðist aldrei hafa komist í fulla starfsemi því á sama tíma og Eygló er skráð framkvæmdastjóri þess starfaði hún fyrst sem skrifstofustjóri Hlíðardals ehf, þá sem viðskiptastjóri hjá Tok hjá Ax hugbúnaðarhúsi, í tvö ár sem framkvæmdastjóri Nínukots ehf (sjá hér) og síðast sem verkefnastjóri hjá Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands. Nínukot ehf er ferðaskrifstofa sem sérhæfir sig í að útvega viðskiptavinum sínum vinnu út um víða veröld (sjá hér)
Gunnar Bragi Sveinsson var framkvæmdastjóri Ábæjar á Sauðárkróki í fjögur ár áður en hann var kosinn inn á þing. Fyrirtækinu var lokað árið 2006 (sjá hér) en N1 tók við rekstrinum. Katrín Júlíusdóttir var framkvæmdastjóri stúdentaráðs Háskóla Íslands í eitt ár en árið eftir varð hún framkvæmdastjóri G. Einarssonar & co ehf. sem flutti inn barnafatnað (sjá hér). Hún hafði verið innkaupastjóri þess meðfram námi frá stofnun. Fyrirtækið var tekið af skrá árið 2001 (sjá hér).
Álfheiður Ingadóttir, sem tók við embætti Ögmundar Jónassonar haustið 2009 og gegndi því til haustsins 2010, var framkvæmdastjóri laxeldisstöðvarinnar Hafeldis í Straumsvík í tvö ár. Álfheiður á síst gæfuríkari framkvæmdastjóraferil að baki en þær Eygló og Katrín þar sem fyrirtækið sem hún stýrði var lýst gjaldþrota árið 1990 (sjá hér)
Niðurlag
Miðað við þann samanburði sem hér hefur farið fram þykir starfsferilskrá Ögmundar Jónassonar frambærilegust þar sem það má gera ráð fyrir að tíu ára reynsla hans sem fréttamaður hjá RUV og viðlíka langur ferill sem formaður BSRB hafi skilað honum reynslu og innsýn í mörg þeirra samfélagsmála sem honum var trúað fyrir í Innanríkisráðuneytinu.
Það má líka gera ráð fyrir því að Sigurður Ingi eigi ágætlega heima yfir landbúnaðarmálunum miðað við starfsreynslu. Hins vegar er vafasamara að hann búi yfir nægilegri þekkingu í sjávarútvegs-, auðlinda- og umhverfismálum til að fara með ráðuneyti þessara málaflokka samhliða málefnum landbúnaðarins. Fleiri mætti eflaust telja, ef vel væri að gáð, þó þeirra sé ekki getið hér fyrir það að þeir koma meira við sögu í næstu þremur færslum.
Að lokum er rétt að undirstrika það að hér hefur eingöngu verið horft til starfsreynslu af almennum vinnumarkaði en ekkert fjallað um sambærilega reynslu af pólitískum starfssviðum. Margir þeirra sem eiga ráðherrasæti í núverandi ríkisstjórn og þó nokkrir þeirra sem létu af embættum vorið 2013 eiga starfsferil af vettvangi sveitastjórnarmála.
Af þeim sem eru ráðherrar í núverandi ríkisstjórn er það líka áberandi hve margir hafa gegnt ýmis konar trúnaðarstörfum á vegum fyrri ríkisstjórna ýmist sem aðstoðarmenn ráðherra eða sem starfsmenn pólitískt skipaðra nefnda. Starfsreynsla af þessu tagi verður dregin fram í næstu færslu. Í framhaldi hennar verður reynsla af trúnaðarstörfum innan stjórnmálaflokkanna talin og síðast þingreynsla.
Að þessu loknu verður svo loks dregin sama einhverjar niðurstöður og settar fram ýmsar vangaveltur sem urðu kveikjan að því að lagt var af stað með þann samanburð sem þetta blogg hefur verið undirlagt af undanfarna mánuði.
Aðrar færslur í þessum sama flokki:
Ráðherrasamanburður: Aldur við skipun
Ráðherrasamanburður: Menntun
Heimildir um skipun ráðuneyta:
Ráðuneyti 1917-2013
Ferilskrá ráðherra núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnar:
Menntunar- og hæfniskröfur til ráðherraembætta
Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.1.2015 kl. 20:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ráðherrasamanburður: Menntun
23.4.2014 | 19:17
Þeir sem hafa verið úti á hinum almenna vinnumarkaði þekkja það væntanlega að einn af grunnþáttunum sem ráða úrslitum um það hvort viðkomandi telst hæfur til starfans sem um ræðir er að umsækjandi hafi aflað sér viðeigandi menntunar og starfsreynslu. Þetta á við hvort sem talað er um störf í einkageiranum eða hjá hinu opinbera.
Þegar það er svo sett í samhengi að lög og reglugerðir um menntun ýmissa starfsstétta eru á hendi ráðuneytanna, sem gefa auk þess út starfsleyfi að uppfylltum tilsettum skilyrðum, þá er ekki óeðlilegt að álykta sem svo að kröfurnar sem eru gerðar til menntunar og starfsreynslu þeirra sem eru skipaðir til æðstu embætta við stjórn landsins skuli vera áþekkar öðrum starfshópum eða a.m.k. ekki minni.
Væntanlega er útilokað að setja fram einhlítar kröfur til menntunar- og starfsreynslu þeirra sem kunna að bjóða sig fram til þingmennsku. Þó er ekki óeðlilegt að gera einhverjar slíkar kröfur til þeirra sem raðast í efstu sæti hvers framboðslista en það er e.t.v. eðlilegast að hver stjórnmálaflokkur marki sér sína stefnu og starfsreglur hvað þetta varðar og hafi þær að sjálfsögðu opinberar og aðgengilegar. Öðru máli ætti þó að gegna um þá sem skipast til æðstu embætta innan ráðuneytanna sem fara með sameiginleg hagsmunamál alls samfélagsins.
Þar hlýtur að teljast eðlilegt að sá sem er skipaður ráðherra sé fremstur meðal jafningja innan viðkomandi ráðuneytis hvað varðar þekkingu og reynslu af viðkomandi málaflokki. Mikill misbrestur hefur verið á þessu frá upphafi ráðherraskipunar á Íslandi og ekki ólíklegt að sá misbrestur hafi komið við hagsmuni allra hvort sem horft er til atvinnulífs, efnahagskerfisins eða annarra lífskjara einstaklinganna sem samfélagið byggja.
Hér verður litið á menntun núverandi ráðherra og þeirra sem gegndu sambærilegum embættum undir lok síðasta kjörtímabils. Til að stytta þennan samanburð eitthvað verða ekki öll próf, skólar og ártöl talin heldur reynt að draga fram á hvaða sviði menntun hvers og eins liggur og hvaða prófgráðu viðkomandi hefur aflað sér í faginu sem hann hefur lagt stund á. Hér verða því fjölbrautar- og menntaskólar almennt ekki taldir heldur sú menntun sem viðkomandi hefur bætt við sig að framhalsskólanámi loknu.
Námskeið verða þó almennt ekki talin frekar en styttra nám sem ekki hefur verið lokið við. Þetta er þó talið ef námið er á því sviði að það auki við þekkingu á því sviði sem heyrir til því ráðuneyti sem viðkomandi var trúað fyrir á síðasta kjörtímabili eða í upphafi núverandi kjörtímabils. Þar sem lokapróf eru talin fylgir aldur viðkomandi, þegar hann lauk tilteknu prófi, innan sviga.
Þeir sem vilja fá gleggri yfirsýn yfir menntunarferil núverandi og fyrrverandi ráðherra er bent á að hægt er að komast inn á feril hvers ráðherra inni á alþingisvefnum með krækju sem er undir nafni hvers þeirra í töflunum hér að neðan. Þessi atriði er líka að finna í því heildaryfirliti sem var sett fram í síðustu færslu.
Ráherrar síðustu stjórnar | yfirlit yfir nám og helstu prófgráður |
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra | Verslunarpróf (18 ára) |
Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra | Stúdent MK (20 ára) Nám í mannfræði við HÍ (1995-1999) |
Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra | Kennsluréttindi KÍ (21s árs) Viðbótarkennararéttindi í Danmörku (28 ára) Framhaldsnám í skólastjórn við KHÍ (1992-1995) Meistarapróf frá Institute of Education, University of London (55 ára) |
Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmála- ráðherra | BA-próf í íslensku (23 ára) Meistarapróf í íslenskum bókmenntum (28 ára) |
Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunar- ráðherra | B.Sc.-próf í jarðfræði HÍ (26 ára) Kennsluréttindi HÍ (27 ára) |
Svandís Svavarsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra | BA-próf í almennum málvísindum og íslensku HÍ (25 ára) Stundaði framhaldsnám í íslenskri málfræði við HÍ (1989-1993) |
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra | BS-próf í líffræði HÍ (20 ára) Doktorspróf í lífeðlisfræði frá Háskólanum í East Anglia (30 ára) |
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra | MA-próf í sagnfræði og stjórnmálafræði frá Edinborgarháskóla (26 ára) |
Það sem vekur e.t.v. mesta athygli þegar kastljósinu er beint að menntun þeirra sem voru ráðherrar í síðustu ríkisstjórn er að enginn, að Ögmundi Jónassyni undaskildum, er með menntun sem tengist beinlínis meginviðfangsefni alþingismanna; þ.e. stjórnmálum og/eða lögum. Enginn er heldur með menntun í þeim málaflokkum sem heyra til þeim ráðuneytum sem voru í þeirra forsjá. Ekkert þeirra er heldur með menntun í viðskiptagreinum eða hagfræði ef verslunarpróf Jóhönnu Sigurðardóttur er undanskilið.
Þar sem aðeins er um tveggja ára nám að ræða er þó hæpið að gera ráð fyrir að þar hafi verið lagður sá grunnur að þekkingu á efnahagsmálum sem má ætla að þeir sem knúðu fram nýjar kosningar vorið 2009 hafi verið að kalla eftir. Rétt er að geta þess að Gylfi Magnússon var skipaður viðskiptaráðherra í þeirri ríkisstjórn, sem tók við völdum eftir alþingiskosningarnar vorið 2009, og síðar efnahags- og viðskiptaráðherra.
Gylfi er með doktorspróf í hagfræði en hann hefur hins vegar aðallega starfað við kennslu frá því að hann útskrifaðist þannig að það er eðlilegt að gera ráð fyrir að hann hafi haft litla reynslu af efnahagsmálum, út fyrir það að fjalla um þau fræðilega, þegar hann var skipaður. Gylfi fékk lausn frá ráðherraembætti haustið 2010 en Árni Páll Árnason tók við embætti hans og gegndi því fram til ársloka 2011 (sjá hér).
Árni Páll er með lögfræðimenntun frá HÍ, sem hann lauk 25 ára gamall, auk þess sem hann hefur stundað nám í Evrópurétti úti í Belgíu og á sumarnámskeiði í Flórens. Þess má geta að Árni Páll var ráðgjafi Jóns Baldvins Hannibalssonar í Evrópumálum þegar sá síðarnefndi fékk lagafrumvarpið um aðild Íslands að EES-samningnum samþykkt í upphafi árs 1993 (sjá hér).
Ráðherrar núverandi stjórnar | yfirlit yfir nám og helstu prófgráður |
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra | BS-próf í viðskipta- og hagfræði HÍ (30 ára) Nám í stjórnmálafræði við Kaupmanna-hafnar- og Oxford-háskóla (ekkert kemur fram um það hvenær eða á hve löngum tíma) |
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra | Lögfræðipróf HÍ (25 ára) Meistarapróf (Master of Laws) frá University of Miami School of Law (27 ára) Hdl. (héraðsdómslögmaður) (28 ára) Löggiltur verðbréfamiðlari (28 ára) |
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra | Skipstjórnarréttindi Stýrimannaskólinn í Reykjavík (21s árs) Kennsluréttindi HÍ (27 ára) |
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmála- ráðherra | BS-próf í hagfræði HÍ (28 ára) Meistaragráða frá London Business School (33 ára) |
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra | BA-próf í stjórnmálafræði HÍ (24 ára) Meistarapróf í alþjóðasamskiptum frá Georgetown University (27 ára) |
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðisráðherra | BA-próf í listasögu frá Stokkhólmsháskóla (28 ára) Framhaldsnám í viðskiptafræði við HÍ (frá 2007) |
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðar- ráðherra umhverfis- og auðlindaráðherra | Embættispróf í dýralækningum frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðar-háskólanum í Kaupmannahöfn (án árs) Almennt dýralæknaleyfi í Danmörku (27 ára) og á Íslandi (28 ára) |
Gunnar Bragi Sveinsson, | Stúdent frá FNV (21s árs) Nám í atvinnulífsfélagsfræði við HÍ (enginn tími gefinn upp) |
Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra | BA-próf í stjórnmálafræði HÍ (25 ára) Meistarapróf í alþjóðlegum og evrópskum stjórnmálum frá Edinborgarháskóla (27 ára) |
Í núverandi ríkisstjórn eru lögfræðingur, hagfræðingur og stjórnmálafræðingur auk eins alþjóðasamskiptafræðings. Það vekur þó ekkert síður athygli hér að ekkert beint samband virðist vera á milli menntunar viðkomandi ráðherra og þeirra málaflokka sem heyra undir það ráðuneyti sem hann var skipaður yfir fyrir bráðum ári síðan.
Ef eingöngu er tekið tillit til þeirra þátta sem hafa verið dregnir fram hér varðandi menntun þá mætti draga þá ályktun að Illugi Gunnarsson hefði átt best heima í Fjármála- og efnahagsráðuneytinu eða Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu, Hanna Birna Kristjánsdóttir eða Ragnheiður Elín Árnadóttir yfir Utanríkisráðuneytinu og Bjarni Benediktsson yfir Innanríkisráðuneytinu.
Þegar mið er tekið af núverandi ráðuneytisskipan er helst hægt að draga þá ályktun að sú sérfræðiþekking sem Sigurður Ingi Jóhannsson, þó hún sé á mjög afmörkuðu sviði, hefur aflað sér komi honum að notum í einum þeirra málaflokka sem hann situr yrir; þ.e: málefnum landbúnaðarins.
Samdráttur
Menntun er alls ekki það eina sem skapar grunn að góðri þekkingu því þar kemur reynsla ekki síður að góðu haldi auk þess sem persónulegir þættir skipta oft gríðarlegu máli en eðli málsins samkvæmt er oftast erfiðast að setja fingurinn á þann þátt. Þess verður þó freistað að horfa eitthvað til þeirra í niðurstöðum sem verða settar fram þegar sá nákvæmi samanburður sem er hafinn hér verður afstaðinn.
Menntun, og þá einkum sú sem fer fram í háskólum, hefur hingað til verið ætlað það markvissa hlutverk að þjálfa fagleg vinnubrögð bæði til verklegra framkvæmda og munnlegrar og ritaðrar framsetningar. Þar af leiðandi er forvitnilegt að draga örlítið skýrar fram það sem liggur í þessum samanburði á menntun þeirra sem gegndu ráðherraembættum í síðustu ríkisstjórn og þeirra sem gera það nú.
Í töflunni hér að neðan er gerð tilraun til þess með því að hver ráðherra er talinn aðeins einu sinni. Miðað er við efstu prófgráðu hvers og eins en til að gera samanburðinn aðgengilegri er það sem á við um núverandi ríkisstjórn haft blátt en það sem á við um þá fyrrverandi rautt.
Prófgráður | versl.pr. | stúdent | BA/BS | rétt.pr. | master | doktor |
Framsóknarflokkur | 1 | 2 | 1 | |||
Sjálfstæðisflokkur | 1 | 4 | ||||
Samfylkingin | 1 | 1 | 1 | 1 | ||
Vinstri grænir | 1 | 1 | 2 | |||
Fjöldi | 0/1 | 1/1 | 2/1 | 2/1 | 4/3 | 0/1 |
Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, er sá ráðherra sem á stystu skólagönguna að baki eða ekki nema tvö ár í framhaldsskóla. Gunnar Bragi Sveinsson, núverandi utanríkisráðherra, og Katrín Júlíusdóttir, fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, hafa ekki lokið öðru framhaldsnámi en stúdentsprófi.
Samkvæmt ferilskrá Gunnars Braga hefur hann stundað nám í atvinnufélagsfræði við Háskóla Íslands en það kemur ekki fram á hvaða tímabili (sjá hér). Katrín Júlíusdóttir sat nám í mannfræði í fjögur ár sem hún hefur ekki lokið. Það má taka það fram að á sama tíma var hún komin á fullt í stjórnmálastarf með Alþýðubandalaginu auk þess sem hún var í stúdentapólitíkinni og í starfi sem innkaupastjóri (sjá hér)
Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, er sá sem er með mestu menntunina af þeim sem hér eru bornir saman en hann er doktor í lífeðlisfræði eldisfiska. Það er rétt að taka það fram að samkvæmt ferilskrá hans er ekki að sjá að hann hafi nýtt þessa menntun úti á atvinnumarkaðinum (sjá hér) og reyndar enn hæpnara að átta sig á beinum notum sérfræðiþekkingar hans til þess embættis sem hann var skipaður til.
Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi atvinnu- og nýsköpunarráðherra, og Kristján Þór Júlíusson, núverandi heilbrigðisráðherra, eru báðir með kennsluréttindi til framhaldsskólakennslu. Steingrímur til kennslu í jarðfræði og Kristján Þór til kennslu á vélstjórnar- og/eða skipstjórnarbrautum. Það má líka koma fram hér að auk þeirra tveggja er Kristján L. Möller, sem er meðal þeirra sem voru skipaðir til ráðherraembætta vorið 2009 en voru leystir frá störfum áður en kjörtímabilið var úti, með kennararéttindi frá Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni (sjá hér)
Það var vikið að því hér á undan að það má gera ráð fyrir að sú menntun sem Sigurður Ingi Jóhannsson, núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra, er með að baki reynist honum einhver grundvöllur til að setja sig inn í málefni bænda þar sem hann er með réttindapróf í dýralækningum.
Réttindanna aflaði Sigurður Ingi sér með námi úti í Danmörku en í framhaldinu fékk hann starfsleyfi til að stunda dýralækningar bæði þar og hér á landi. Það má taka það fram að hann starfaði sem dýralæknir í 18 ár áður en hann settist inn á þing en nánar verður fjallað um starfsreynslu í næstu færslu. Áður en botninn verður sleginn í þessa verður fjallað aðeins nánar um menntun þeirra sem eru með meistaragráðu af einhverju tagi en tæpur helmingur þeirra sem hér eru til samanburðar er með slíka gráðu.
Eins og kom fram hér að framan þá er Ögmundur Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra, eini ráðherrann í síðustu ríkisstjórn sem er með menntun af því tagi sem sumir vilja meina að sé hverjum þeim nauðsynleg sem hefur í hyggju að byggja sjálfum sér stjórnmálaferil. Ögmundur er með MA-próf í sagn- og stjórnmálafræði frá Edinborgarháskóla.
Guðbjartur Hannesson sem aflaði sér réttinda til að kenna í grunnskóla 21s árs, auk viðbótarkennararéttinda í Danmörku sex árum síðar, bætti við sig framhaldsnámi í skólastjórnun og svo meistaraprófi frá kennaradeild Lundúnaháskóla fyrir níu árum, þá 55 ára að aldri. Katrín Jakobsdóttir útskrifaðist úr sínu meistaranámi ári á undan Guðbjarti en hún var 28 ára þegar hún útskrifaðist frá Háskóla Íslands með MA-gráðu í íslenskum bókmenntum.
Af þeim átta ráðherrum sem voru leystir undan embætti fyrir um ári síðan voru alls fjórir með framhaldsháskólamenntun: Þrír með meistaragráðu og einn með doktorspróf. Í núverandi ríkisstjórn eru fjórir af níu sem hafa útskrifast úr meistaranámi.
Samkvæmt ferilskrá Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, núverandi forsætisráðherra, hefur hann skráð sig í slíkt nám bæði við Kaupmannahafnar- og Oxford-háskóla. Það kemur hins vegar ekkert fram um það hvenær hann var skráður í þetta nám og ólíklegt að hann hafi lokið því þar sem námslok eru ekki tekin fram.
Þau fjögur sem eru talin á myndinni hér að ofan leituðu öll út fyrir landsteinana í framhaldshaldsháskólanám eftir útskrif með fyrstu háskólagráðu frá Háskóla Íslands. Bjarni Benediktsson, núverandi fjármálaráðherra, og Ragnheiður Elín Árnadóttur, núverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sóttu sitt meistaranám til Bandaríkjanna. Bjarni útskrifaðist með LL.M-gráðu frá lagadeild Háskólans í Miami en Ragnheiður Elín með MSc-gráðu í alþjóðasamskiptum frá Háskólanum í Georgetown.
Illugi Gunnarsson, núverandi mennta- og menningamálaráðherra útskrifaðist með MBA-próf frá London Business School og Hanna Birna Kristjánsdóttir, núverandi innanríkisráðherra, útskrifaðist með MSc-gráðu frá Edinborgarháskóla sem er sami háskóli og forveri hennar í Innanríkisráðuneytinu, Ögmundur Jónasson, hafði útskrifast frá tæpum tveimur áratugum á undan henni.
Menntun er álitinn góður grunnur undir mörg störf úti á almennum vinnumarkaði en þar er líka gjarnan gerð krafa um reynslu í viðkomandi starfi. Það er líklegra að þó það megi gera ráð fyrir að háskólamenntun hafi lagt faglegri nálgun og framsetningu mikilsverðan grunn þá skapi starfsreynsla af viðkomandi málaflokkum síst mikilvægari þekkingargrunn þeim sem eru skipaðir yfir eða sækjast eftir að fara með þau hagsmunamál samfélagsins sem eru á hendi ráðuneytanna.
Í næstu færslu verður starfsreynsla þeirra, sem hafa verið bornir saman hér, af almennum launamarkaði dregin saman en þó nokkrir hafa líka reynslu af sveitarstjórnarmálum og öðrum pólitískum trúnaðarstörfum á vegum eldri ríkisstjórna. Um slíka reynslu verður fjallað í sérstakri færslu, þá trúnaðarstörf á vegum stjórnmálaflokkanna og síðast þingreynslu.
Aðrar færslur í þessum sama flokki:
Ráðherrasamanburður: Aldur við skipun
Stjórnmál og samfélag | Breytt 25.4.2014 kl. 01:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Ráðherrasamanburður: Aldur við skipun
22.4.2014 | 22:48
Eins og heiti þessa bloggs ber með sér verður framhald af þessu. Niðurstaðan varð sem sagt sú að draga sama helstu þætti þess samanburðar á ferilskrám ráðherranna í núverandi og fyrrverandi ríkisstjórn, sem fram hefur farið á þessu bloggi, saman í nokkrum bloggum. Í framhaldinu verða svo væntanlega tvær færslur með niðurstöðum og væntanlega einhverjum frekari vangaveltum
Þeir þættir sem verður horft til í næstu bloggum er aldur við skipun í embættið, menntun, starfs- og þingreynsla ásamt reynslu af annarri stjórnmálaþátttöku og svo stöðu innan þess stjórnmálaflokks sem viðkomandi starfar fyrir. Í þessu bloggi verður dregið saman á hvaða aldri einstaklingarnir voru við skipun til ráðherraembættis í síðustu - og núverandi ríkisstjórn.
Ráðherrarnir sem sitja í núverandi ríkisstjórn og þeir sem sátu í þeirri síðustu hafa verið skoðaðir hér að undanförnu í þeim tilgangi að varpa ljósi á það hvaða aðferðir hafa orðið ofan á við skipun ráðherra í íslenskum stjórnmálum. Undanfara þeirrar samantektar sem hófst með síðustu færslu er að að finna í eftirtöldum færslum: Forsætisráðuneytið, Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið, Mennta- og menningamálaráðuneytið, Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið, Félags- og húsnæðisráðuneytið, Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Utanríkisráðuneytið og Innanríkisráðuneytið.
Á undan færslunum um Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, Utanríkisráðuneytið og Innanríkisráðuneytið voru settar sérstakar færslur sem má kalla aðdraganda þar sem gjarnan var litið til þess hverjir voru fyrstir til að gegna ráðherraembættum ráðuneytanna og hverjir hafa setið lengst yfir þeim auk þess sem einhver þeirra embættisverka sem tilheyra fortíðinni en hafa haft afgerandi áhrif á núverandi samfélagsstöðu voru dregin fram. Af þessum ástæðum er hætt við að sá samanburður sem verður dregin saman til niðurstaðna hér hafi átt það til að drukkna í öðru efni.
Það er ekki síst þess vegna sem sú ákvörðun var tekin að að draga saman ferilskrá allra, ráðherra í núverandi ríkisstjórn og þeirri síðustu, saman í síðustu færslu en rýna vandlegar í einstök atriði í öðrum afmarkaðri færslum til að auðvelda yfirsýnina. Í framhaldinu er ætlunin að fjalla um það sem sú átta mánaða vinna sem liggur nú þegar að baki hefur skilað af niðurstöðum um þá hefð sem hefur orðið ofan á við skipun í ráðherraembætti.
Þar verður líka gerð tilraun til að setja saman einhverja niðurstöðu um það hvaðan núverandi aðferð er upprunnin ásamt því að vekja athygli á afleiðingunum sem hún hefur haft á núverandi samfélagsaðstæður. Tilgangur alls þessa er sá að freista þess að fá lesendur til að velta því fyrir sér hvort ekki megi gera betur með annarri aðferð (sjá hér).
Skipunaraldur
Eins og hefur komið rækilega fram hér í undanfara þá voru ráðherraskiptin í síðustu ríkisstjórn afar tíð. Eins og kemur fram hér voru ástæðurnar nokkrar en hafa verður í huga að samkvæmt samstarfsyfirlýsingu síðustu ríkisstjórnar þá var eitt af verkefnum hennar að fækka ráðuneytunum til að ná fram sparnaði í ríkisrekstrinum. Það hefur ekki verið sýnt fram á það enn þá að sparnaðarmarkmiðið hafi náðst en ráðuneytunum var fækkað úr tólf í átta og ráðherrunum þar með. Þessi árangur var reyndar einu ráðherraembætti betur en stjórnarsáttmáli síðustu ríkisstjórnar kvað á um.
Í þeim samanburði sem hefur farið fram hér á undan og verður byrjað að draga saman hér er fyrst og fremst horft til þeirra átta sem gegndu ráðherraembættum við lok síðasta kjörtímabils og þeir bornir saman við ráðherra núverandi ríkisstjórnar. Á myndinni hér að neðan eru þeir taldir sem sátu í ráðherrastólum í lok síðasta kjörtímabils.
Í meðfylgjandi töflu er svo yfirlit yfir það á hvaða aldri ofantalin voru þegar þau voru skipuð til ráðherraembættis í tíð síðustu ríkisstjórnar:
Ráðherrar Samfylkingar og Vinstri grænna | Aldur við skipun |
Jóhanna Sigurðardóttir | 67 ára |
Katrín Júlíusdóttir | 35 ára |
Guðbjartur Hannesson | 60 ára |
Katrín Jakobsdóttir | 33 ára |
Steingrímur J. Sigfússon | 54 ára |
Svandís Svavarsdóttir | 45 ára |
Össur Skarphéðinsson | 56 ára |
Ögmundur Jónasson | 61 árs |
Meðalaldur við skipun | 51 árs |
Af þeim sem sátu enn á ráðherrastólum við lok síðasta kjörtímabils höfðu þrjú gengt öðrum ráðherraembættum fyrr á þingferli sínum. Þetta eru þau Jóhanna Sigurðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Össur Skarphéðinsson.
Jóhanna Sigurðardóttir hafði verið ráðherra tvisvar sinnum áður. Hún var félagsmálaráðherra á árunum 1987-1994 (sjá hér) og 2007-2008 og síðast félags- og tryggingamálaráðherra frá 2008 til 2009 (sjá hér). Jóhanna var því 45 ára þegar hún var skipuð til ráðherraembættis í fyrsta skipti og hafði verði ráðherra í tæp níu ár þegar hún tók við Forsætisráðuneytinu árið 2009.
Steingrímur J. Sigfússon var áður landbúnaðar- og samgönguráðherra á árunum 1988-1991 (sjá hér). Hann var því aðeins 26 ára þegar hann var skipaður ráðherra í fyrsta skipti. Embættinu hélt hann í þrjú ár. Þennan tíma sátu hann og Jóhanna saman í ríkisráði sitt í hvorum flokki ásamt Framsóknarflokknum undir forsæti Steingríms Hermannssonar.
Össur Skarphéðinsson hafði setið á ráðherrastóli tvisvar sinnum áður en hann varð utanríkisráðherra í ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur. Hann var umhverfisráðherra á árunum 1993-1995 (sjá hér) og iðnaðarráðherra frá 2007 til 2009 (sjá hér). Auk þess var hann samstarfsráðherra Norðurlanda á árunum 2007-2008. Þennan tíma sátu þau Jóhanna saman í ríkisstjórn fyrir sama flokkinn.
Fyrst í ríkisstjórnarsamstarfi Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks undir forsæti Davíðs Oddssonar en síðar í samstarfi Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks undir forsæti Geirs H. Haarde. Össur var fertugur þegar hann varð ráðherra í fyrsta skipti (sjá hér).
Enginn þeirra sem gegnir ráðherraembætti nú hefur verið ráðherra áður en núverandi ríkisstjórn er þannig skipuð:
Hér að neðan má sjá á hvaða aldri þessi voru við skipun til ráðherraembætta í upphafi yfirstandandi kjörtímabils.
Ráðherrar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks | Aldur við skipun |
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson | 38 ára |
Bjarni Benediktsson | 43 ára |
Kristján Þór Júlíusson | 55 ára |
Illugi Gunnarsson | 45 ára |
Ragnheiður Elín Árnadóttir | 45 ára |
Eygló Harðardóttir | 40 ára |
Sigurður Ingi Jóhannsson | 51 árs |
Gunnar Bragi Sveinsson | 44 ára |
Hanna Birna Kristjánsdóttir | 46 árs |
Meðalaldur við skipun | 45 ára |
Það munar sex árum á meðalaldri skipaðra ráðherra í núverandi ríkisstjórn og þeirra sem sátu á ráðherrastólum undir lok síðasta kjörtímabils. Það vekur þó athygli að þrátt fyrir að meðalaldur þeirra sem gegndu ráðherraembættum undir lok kjörtímabils síðustu ríkisstjórnar sé sex árum hærri en meðalaldur þeirra sem sitja nú þá er aðeins einn ráðherra sem er undir fertugu í núverandi ríkisstjórn en þeir voru tveir í fyrrverandi ríkisstjórn. Þrír þeirra sem gegndu embættum ráðherra við lok síðasta kjörtímabils voru hins vegar sextugir eða eldri en enginn þeirra sem situr á ráðherrastóli nú hefur náð þeim aldri.
Aldursdreifing þeirra sem voru skipaðir ráðherrar eftir síðustu alþingiskosningar er frá 38 ára til 55 ára. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var 38 ára þegar hann tók við Forsætisráðuneytinu síðastliðið vor en Kristján Þór Júlíusson 55 ára þegar hann tók við Heilbrigðisráðuneytinu.
Sambærileg aldursdreifing þeirra ráðherra sem létu af störfum, þegar núverandi ríkisstjórn tók við, var frá 33 ára til 67 ára. Jóhanna Sigurðardóttir var elst þeirra ráðherra sem tóku við völdum vorið 2009 eða 67 ára en Katrín Jakobsdóttir yngst eða ekki nema 33 ára þegar hún tók við Mennta- og menningarmálaráðuneytinu við upphaf síðasta kjörtímabils.
Að lokum kann að vera forvitnilegt að skoða hvernig aldursdreifingin kemur nákvæmlega út á milli flokka með því að setja hana þannig upp:
Aldursdreifing eftir flokkum | 30-40 | 40-50 | 50-60 | 60-70 | Meðalaldur |
Framsóknarflokkur | 1 | 2 | 1 | 43 ára | |
Sjálfstæðisflokkur | 4 | 1 | 47 ára | ||
Samfylkingin | 1 | 1 | 2 | 54 ára | |
Vinstri grænir | 1 | 1 | 1 | 1 | 48 ára |
1/2 | 6/1 | 2/2 | 0/3 | *** |
Til aðgreiningar þá er það sem á við um núverandi stjórnarflokka haft blátt en það sem á við um stjórnarflokka fyrrverandi ríkisstjórnar er haft rautt. Eins og kemur fram þá er meðalaldurinn við skipun í ráðherraembætti langhæstur hjá Samfylkingunni en lægstur hjá Framsóknarflokki. Meðalaldurinn er hins vegar mjög líkur hjá Sjálfstæðisflokki og Vinstri grænum þó aldursdreifingin hafi verið mun meiri hjá Vinstri grænum.
Það vekur væntanlega líka athygli að tveir þriðju þeirra sem eiga sæti á ráðherrastóli í núverandi ríkisstjórn eru á aldrinum fertugs til fimmtugs en aðeins einn ráðherra þeirrar ríkisstjórnar sem var leyst frá störfum síðastliðið vor var á þeim aldri þegar hann var skipaður. Hins vegar voru þrír sextugir eða eldri en tveir vel innan við fertugt.
Lífaldur segir væntanlega ekki mikið um það hvort viðkomandi einstaklingur sé í stakk búinn til að ráða við jafn umfangsmikið starf og æðsta valdastaða innan hvers ráðuneytis er. Þó er ekki útilokað að gera ráð fyrir því að þeir sem gefa kost á sér eða koma til álita við skipun í slíkar stöðu hafi aflað sér meiri og fjölbreyttari þekkingar og reynslu í einhverju hlutfalli við hækkandi lífaldur.
Þessir þættir verða dregnir fram í næstu bloggum en í þeirri sem fer út í kjölfar þessarar færslu verður meginefnið menntun þess hóps sem er talinn hér að framan, þá starfsreynsla af almennum launamarkaði, því næst starfsreynsla af sveitarstjórnarsviðinu og í framhaldinu önnur stjórnmálareynsla en síðast þingreynsla.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.4.2014 kl. 00:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Menntunar- og hæfniskröfur til ráðherraembætta
20.4.2014 | 12:04
Frá því í ágúst á síðasta ári hefur þetta blogg verið helgað skrifum sem var ætlað að draga það fram hvaða hefðir og/eða aðferðir hafa orðið ofan á hjá öllum stjórnmálaflokkum á Íslandi við skipun til ráðherraembætta. Þar sem þetta er langur tími og skrifin í kringum samanburðinn á ferilskrám núverandi og fyrrverandi ráðherra hefur oft og tíðum orðið töluvert umfangsmeiri en upphaflega var áætlað fer væntanlega vel á því að draga aðalatriðin úr ferilskrám umræddra ráðherra saman á einn stað og auðvelda þannig yfirsýnina.
Áður en lengra er haldið er e.t.v. rétt að undirstrika það enn og aftur að tilgangurinn með þessum samanburði er alls ekki sá að gera lítið úr þeim einstaklingum sem gegna ráherraembættum á þessu kjörtímabili eða þeim sem sátu á ráðherrastólum á því síðasta. Ég komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að til þess að sýna fram á það hvaða aðferðir hafa orðið ofan á við skipun ráðherra hér á landi væri rétt að styðjast við raunveruleg dæmi.
Í undanfara þeirra samantektar sem er framundan nú þá dró ég gjarnan fram hverjir höfðu verið fyrstir til að gegna viðkomandi ráðherraembættum og í sumum tilfellum hverjir hefðu gegnt þeim lengst. Tilgangurinn var ekki síst sá að benda á að núverandi aðferðir við ráðherraskipan byggir á sögulegri hefð í íslenskri pólitík sem rekur rætur sínar allt aftur til heimastjórnartímabilsins í upphafi síðustu aldar.
Hér á eftir eru ráðherrar núverandi ríkisstjórnar og þeirrar síðustu taldir í stafrófsröð. Til aðgreiningar eru myndir af ráðherrum núverandi ríkisstjórnar hafðar í lit en þeirra sem tilheyra síðustu ríkisstjórn í svart-hvítu. Það er rétt að taka það fram, varðandi það hverjir eru taldir með ráðherrum síðustu ríkisstjórnar, að þeir einir eru taldir sem sátu á ráðherrastólum við stjórnarskiptin síðastliðið vor.
Að öðru leyti vænti ég þess að samantektin hér að neðan skýri sig sjálf en vil þó taka fram að þó mest allt sé talið þá sleppti ég einhverjum þáttum sem koma fram í ferilskrám eftirtaldra á alþingisvefnum. Undir nöfnum allra er krækja í ferilskrá viðkomandi á vef Alþingis og síðan á þá umfjöllun sem hefur verið unnin hér að undanförnu um hvert ráðuneyti undir embættisheitum þeirra.
Bjarni Benediktsson Sjálfstæðisflokkur formaður flokksins frá 2009 hefur setið inni á þingi frá 2003 fjármála- og efnahagsráðherra 2013- | |
aldur | 44 ára |
menntun | Stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1989. Lögfræðipróf frá HÍ 1995. Nám í þýsku og lögfræði í Þýskalandi 1995-1996. LL.M.-gráða (Master of Laws) frá University of Miami School of Law í Bandaríkjunum 1997. Hdl. 1998. Löggiltur verðbréfamiðlari 1998. |
stjórnmálatengd störf og nefndarsetur utan Alþingis | Í stjórn Hugins, félags ungra sjálfstæðismanna í Garðabæ, 1991-1993, formaður 1993. Í stjórnarskrárnefnd 2005-2007. |
starfsaldur á þingi | Hefur setið í 11 ár á þingi. 10 ár áður en hann varð ráðherra. |
viðkomandi þingnefndir | allsherjarnefnd 2003-2007 (formaður), fjárlaganefnd 2003-2007, iðnaðarnefnd 2003-2004 og 2007, sérnefnd um stjórnarskrármál 2004-2007 og 2009 (fyrri), heilbrigðis- og trygginganefnd 2004-2005, utanríkismálanefnd 2005-2013 (formaður 2007-2009), kjörbréfanefnd 2005-2009, efnahags- og skattanefnd 2007-2009. |
önnur starfsreynsla | Fulltrúi hjá sýslumanninum í Keflavík 1995. Lögfræðingur hjá Eimskip 1997-1999. Lögmaður með eigin rekstur á Lex lögmannsstofu 1999-2003. |
><> ><> ><> ><> ><>
Eygló Harðardóttir þingmaður Suðvesturkjördæmis (Suðurkjördæmis 2008-2013) | |
aldur | 41 árs |
menntun | Stúdent frá Fjölbrautarskólanum í Breiðholti 1992. Fil.kand.-próf í listasögu frá Stokkhólmsháskóla 2000. Framhaldsnám í viðskiptafræði við HÍ síðan 2007. |
stjórnmálatengd störf og nefndarsetur utan Alþingis
| Í skólamálaráði Vestmannaeyja 2003-2004. Varamaður í félagsmálaráði Vestmannaeyja 2003-2005. Ritari í stjórn kjördæmissambands framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi 2003-2007. Gjaldkeri Framsóknarfélags Vestmannaeyja 2004-2010. Ritari í stjórn Landssambands framsóknarkvenna 2007-2009. Formaður verðtryggingarnefndar, sem kannar forsendur verðtryggingar á Íslandi, 2010-2011 Í samráðshóp um húsnæðisstefnu 2011. Skipuð samstarfsráðherra Norðurlanda 16. ágúst 2013. |
starfsaldur á þingi | Hefur setið í 6 ár á þingi. 5 ár áður en hún varð ráðherra. |
þingnefndir | heilbrigðisnefnd 2008-2009, iðnaðarnefnd 2008-2009, umhverfisnefnd 2008-2009, menntamálanefnd 2009-2011, viðskiptanefnd 2009-2011, þingmannanefnd til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis 2009-2010, allsherjar- og menntamálanefnd 2011, velferðarnefnd 2011-2012, efnahags- viðskiptanefnd 2012-2013. |
önnur starfsreynsla | Framkvæmdastjóri Þorsks á þurru landi ehf. 2001-2009. Skrifstofustjóri Hlíðardals ehf. 2003-2004. Viðskiptastjóri Tok hjá Ax hugbúnaðarhúsi hf. 2004-2006. Framkvæmdastjóri Nínukots ehf. 2006-2008. Verkefnastjóri hjá Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands 2008. |
><> ><> ><> ><> ><>
Guðbjartur Hannesson þingmaður Norðvesturkjördæmis félags- og tryggingamálaráðherra og heilbrigðisráðherra | |
aldur | 63 ára |
menntun | Kennarapróf KÍ 1971. Tómstundakennarapróf frá Seminariet for Fritidspædagoger, Vanløse, Danmörku 1978. Framhaldsnám í skólastjórn við KHÍ 1992-1995. Meistarapróf frá kennaraskóla Lundúnaháskóla (Institute of Education, University of London) 2005. |
stjórnmálatengd störf og nefndarsetur utan Alþingis
| Í bæjarstjórn Akraness 1986-1998. |
starfsaldur á þingi | Hefur setið í 7 ár á þingi. 3 ár áður en hann varð ráðherra. |
þingnefndir | félags- og tryggingamálanefnd 2007-2009 (formaður), 2009-2010, fjárlaganefnd 2007-2009, 2009-2010 (formaður), menntamálanefnd 2007-2009, allsherjar- og menntamálanefnd 2013-, velferðarnefnd 2014-. |
önnur starfsreynsla | Sumarvinna með námi í Búrfellsvirkjun og Sementsverksmiðju Akraness. Kennari við Grunnskóla Akraness 1971-1973. Erindreki Bandalags íslenskra skáta 1973-1975. Kennari við Peder Lykke Skolen á Amager í Kaupmannahöfn 1978-1979. Kennari við Grunnskóla Akraness 1979-1981. Skólastjóri Grundaskóla Akranesi 1981-2007. |
><> ><> ><> ><> ><>
Gunnar Bragi Sveinsson þingmaður Norðvesturkjördæmis | |
aldur | 45 ára |
menntun | Stúdent frá Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra1989. |
stjórnmálatengd störf og nefndarsetur utan Alþingis
| Aðstoðarmaður Páls Péturssonar, félagsmálaráðherra 1997-1999. Formaður stjórnar varasjóðs viðbótarlána 1998-2002. |
starfsaldur á þingi | Hefur setið í 5 ár á þingi. 4 ár áður en hann varð ráðherra. |
þingnefndir | iðnaðarnefnd 2009-2011, þingskapanefnd 2011-2013, utanríkismálanefnd 2011-2013. |
önnur starfsreynsla | Verslunarstjóri Ábæjar 1989-1990 og 1991-1995. Verkamaður og gæslumaður í Steinullarverksmiðjunni 1989-1991. Ritstjóri héraðsfréttablaðsins Einherja 1991-1992. Sölu- og verslunarstjóri hjá Skeljungi hf. 1996-1997. Markaðsráðgjafi hjá Íslensku auglýsingastofunni 1999. Starfaði á verslunarsviði Kaupfélags Skagfirðinga 2000-2002. Framkvæmdastjóri Ábæjar 2002-2003. Framkvæmdastjóri Ábæjar-veitinga ehf. 2004-2007. |
><> ><> ><> ><> ><>
Hanna Birna Kristjánsdóttir þingmaður Reykjavíkur suður | |
aldur | 47 ára |
menntun | Verslunarpróf frá Verzlunarskóla Íslands 1984. Stúdent frá Kvennaskólanum í Reykjavík 1986. BA-próf í stjórnmálafræði frá HÍ 1991. M.Sc.-próf í alþjóðlegum og evrópskum stjórnmálum frá Edinborgarháskóla 1993. |
stjórnmálatengd störf og nefndarsetur utan Alþingis
| Framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins 19951999. Í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna 19951999. Í stjórn hverfafélags sjálfstæðismanna í Austurbæ og Norðurmýri 19951996. Aðstoðarframkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins 19992006. Formaður nefndar Björns Bjarnasonar, menntamálaráðherra, um mótun símenntunarstefnu 19971998 Borgarfulltrúi 2002-2013. Forseti borgarstjórnar og formaður skipulagsráðs Reykjavíkur 20062008. Borgarstjóri í Reykjavík 2008-2010. Í menningarmálanefnd Reykjavíkur 2002-2003. Í skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur, í fræðsluráði Reykjavíkur 20022005. Í hverfisráði Árbæjar 20022006. Í menntamálanefnd og framkvæmdaráði Reykjavíkur 20052006. Í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga 2006-2013. Í stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu 20082010. Í stjórnkerfisnefnd Reykjavíkurborgar 2010-2013. í stjórn Fasteignastofu Reykjavíkur 20032005. Formaður stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og formaður almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins 20082010. Í stjórn Faxaflóahafna 20112013. |
starfsaldur á þingi | Hefur setið í tæpt 1 ár á þingi. Engin þingreynsla áður en hún varð ráðherra. |
þingnefndir | engar |
önnur starfsreynsla | Starfsmaður Öryggismálanefndar 1990-1991. Deildarsérfræðingur í Menntamálaráðuneytinu 19941995. |
><> ><> ><> ><> ><>
Illugi Gunnarsson þingmaður Reykjavíkur norður (Reykjavíkur suður 2007-2009) | |
aldur | 46 ára |
menntun | Stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1987. BS-próf í hagfræði HÍ 1995. MBA-próf frá London Business School 2000. |
stjórnmálatengd störf og nefndarsetur utan Alþingis
| Í stjórn Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta við Háskóla Íslands, 1989-1990, oddviti 1993-1994. Í nefnd um eflingu græna hagkerfisins 2010-2013. |
starfsaldur á þingi | Hefur setið í 7 ár á þingi. 6 ár áður en hann varð ráðherra. |
þingnefndir | efnahags- og skattanefnd 2007, fjárlaganefnd 2007-2009 og 2011-2012, menntamálanefnd 2007-2009, umhverfisnefnd 2007-2009, viðskiptanefnd 2010-2011, allsherjarnefnd 2010-2011. |
önnur starfsreynsla | Sumarvinna í fiski með námi hjá Hjálmi hf. Flateyri 1983-1993. Leiðbeinandi við Grunnskóla Flateyrar 1987-1988. Organisti Flateyrarkirkju 1995-1996. Skrifstofumaður hjá Vestfirskum skelfiski á Flateyri 1995-1997. Stundaði rannsóknir í fiskihagfræði við HÍ 1997-1998. |
><> ><> ><> ><> ><>
Jóhanna Sigurðardóttir þingmaður Reykjavíkur norður til 2013. (Reykjavíkur suður 2003-2007 og Reykjavíkur 1978-2003) | |
aldur | 71 árs |
menntun | Verslunarpróf frá Verzlunarskóla Íslands 1960 |
stjórnmálatengd störf og nefndarsetur utan Alþingis
| Í stjórn Verslunarmannafélags Reykjavíkur 1976-1983. Í nefnd til að undirbúa frumvarp um tilhögun og framkvæmd fullorðinsfræðslu og endurskoðun laga um almannatryggingar 1978. |
starfsaldur á þingi | Sat á þingi í 35 ár. 9 ár áður en hún varð forsætisráðherra í fyrsta skipti. Gegndi áður eftirtöldum ráðherraembættum: félagsmálaráðherra 1987-1994 og 2007-2008 félags- og tryggingamálaráðherra 2008-2009 |
þingnefndir | utanríkismálanefnd 1995-1996, iðnaðarnefnd 1995-1999, sérnefnd um stjórnarskrármál 1995-1997 og 1999-2000 og 2004-2007, allsherjarnefnd 1996-1999, efnahags- og viðskiptanefnd 1999-2007, kjörbréfanefnd 1999-2003, félagsmálanefnd 2003-2007. |
önnur starfsreynsla | Flugfreyja hjá Loftleiðum 1962-1971. |
><> ><> ><> ><> ><>
Katrín Jakobsdóttir þingmaður Reykjavíkur norður | |
aldur | 38 ára |
menntun | Stúdent frá Menntaskólanum við Sund 1996. BA-próf í íslensku með frönsku sem aukagrein frá HÍ 1999. Meistarapróf í íslenskum bókmenntum 2004. |
stjórnmálatengd störf og nefndarsetur utan Alþingis
| Í stúdentaráði HÍ og háskólaráði 19982000. Varaborgarfulltrúi fyrir Reykjavíkurlistann 2002-2006. Fulltrúi í fræðsluráði, síðar menntaráði, Reykjavíkur 20022005. Formaður samgöngunefndar Reykjavíkur 2004. Formaður umhverfis- og heilbrigðisnefndar Reykjavíkur 2004. Formaður Ungra vinstri grænna 20022003. Varaformaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs 2003-2013. Samstarfsráðherra Norðurlanda 2009-2013. Í stjórnarskrárnefnd skipaðri af forsætisráðherra síðan 2013. Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins 2013-. |
starfsaldur á þingi | Hefur setið í 7 ár á þingi. 2 ár áður en hún varð ráðherra. |
þingnefndir | efnahags- og skattanefnd 2007-2009, menntamálanefnd 2007-2009, umhverfis- og samgöngunefnd 2013-. |
önnur starfsreynsla | Málfarsráðunautur á fréttastofum RÚV í hlutastarfi 19992003 auk fjölmargra sumarstarfa. Dagskrárgerð fyrir ljósvakamiðla og ritstörf fyrir ýmsa prentmiðla 20042006. Kennsla fyrir Endurmenntun, símenntunarmiðstöðvar og Mími tómstundaskóla 20042007. Ritstjórnarstörf fyrir Eddu - útgáfu og JPV-útgáfu 20052006. Stundakennsla við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Menntaskólann í Reykjavík 20062007. |
><> ><> ><> ><> ><>
Katrín Júlíusdóttir þingmaður Suðvesturkjördæmis | |
aldur | 39 ára |
menntun | Stúdent frá Menntaskólanum í Kópavogi 1994. Nám í mannfræði við Háskóla Íslands 1995-1999. Námskeið í verkefnastjórn í hugbúnaðargerð hjá EHÍ 2001. |
stjórnmálatengd störf og nefndarsetur utan Alþingis
| Í stjórn Verðandi, ungliðahreyfingar Alþýðubandalagsins, og ritari Alþýðubandalagsins í Kópavogi 1994-1998. Í miðstjórn Alþýðubandalagsins 1996-2000. Fulltrúi Röskvu í stúdentaráði og háskólaráði HÍ 1997-1999. Varaformaður Ungra jafnaðarmanna 2000, formaður 2000-2001. Í framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar 2000-2003, varaformaður 2001-2003. Í stjórn Evrópusamtakanna 2000-2003. Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA 2007-2009. |
starfsaldur á þingi | Hefur setið í 11 ár á þingi. 6 ár áður en hún varð ráðherra. |
þingnefndir | menntamálanefnd 2003-2005 og 2007-2009, félagsmálanefnd 2004-2005, fjárlaganefnd 2005-2007, iðnaðarnefnd 2005-2009 (formaður 2007-2009), umhverfisnefnd 2007-2009, umhverfis- og samgöngunefnd 2013-, velferðarnefnd 2013-2014. |
önnur starfsreynsla | Framkvæmdastjóri stúdentaráðs HÍ 1998-1999. Innkaupastjóri hjá G. Einarsson & co. ehf. 1994-1998, framkvæmdastjóri þar 1999-2000. Verkefnastjóri og ráðgjafi hjá ráðgjafar- og hugbúnaðarhúsinu Inn hf. 2000-2003. |
><> ><> ><> ><> ><>
Kristján Þór Júlíusson þingmaður Norðausturkjördæmis | |
aldur | 56 ára |
menntun | Stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1977. Skipstjórnarpróf (1. og 2. stig) frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1978. Nám í íslensku og almennum bókmenntum við HÍ 1981-1984. Kennsluréttindapróf frá HÍ 1984. |
stjórnmálatengd störf og nefndarsetur utan Alþingis
| Bæjarstjóri Dalvíkur 1986-1994. Íslandsdeild Norðurlandaráðs 2007-2009. |
starfsaldur á þingi | Hefur setið í 7 ár á þingi. 6 ár áður en hann varð ráðherra. |
þingnefndir | fjárlaganefnd 2007-2013, iðnaðarnefnd 2007-2009, umhverfisnefnd 2009-2011. |
önnur starfsreynsla | Stýrimaður og skipstjóri á skipum frá Dalvík 1978-1981 og á sumrin 1981-1985. Kennari við Stýrimannaskólann á Dalvík 1981-1986. Kennari við Dalvíkurskóla 1984-1986. |
| Ragnheiður Elín Árnadóttir þingmaður Suðurkjördæmis (Suðvestvestur 2007-2009) |
aldur | 46 ára |
menntun | Stúdent frá Kvennaskólanum í Reykjavík 1987. BA-próf í stjórnmálafræði frá HÍ 1991. MS-próf í alþjóðasamskiptum frá Georgetown University í Bandaríkjunum 1994. |
stjórnmálatengd störf og nefndarsetur utan Alþingis
| Aðstoðarmaður Geirs H. Haarde, fjármálaráðherra 1998-2005. Í Þingvallanefnd 2009-2013. |
starfsaldur á þingi | Hefur setið í 7 ár á þingi. 6 ár áður en hún varð ráðherra. |
þingnefndir | efnahags- og skattanefnd 2007-2009, iðnaðarnefnd 2007-2009, utanríkismálanefnd 2007-2009, 2010 og 2011-2013, viðskiptanefnd 2009-2010, þingskapanefnd 2011-2013. |
önnur starfsreynsla | Starfsmaður Útflutningsráðs Íslands 1995-1998, aðstoðarviðskiptafulltrúi 1995-1996, viðskiptafulltrúi í New York 1996-1997 og verkefnisstjóri í Reykjavík 1997-1998. |
><> ><> ><> ><> ><>
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þingmaður Norðausturkjördæmis (Reykjavík norður 2009-2013) | |
aldur | 39 ára |
menntun | Stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1995. BS-próf í viðskipta- og hagfræði frá HÍ 2005 auk hlutanáms í fjölmiðlafræði. Skiptinám við Plekhanov-háskóla í Moskvu. Nám við stjórnmálafræðideild Kaupmannahafnarháskóla í alþjóðasamskiptum og opinberri stjórnsýslu. Framhaldsnám í hagfræði og stjórnmálafræði við Oxford-háskóla með áherslu á tengsl hagrænnar þróunar og skipulagsmála. |
stjórnmálatengd störf og nefndarsetur utan Alþingis | Fulltrúi í skipulagsráði Reykjavíkurborgar 2008-2010. Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA 2009-2011. Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES 2011-2013. |
starfsaldur á þingi | Hefur setið í 5 ár á þingi. 4 ár áður en hann varð ráðherra. |
þingnefndir | utanríkismálanefnd 2009-2013. |
önnur starfsreynsla | Þáttastjórnandi og fréttamaður í hlutastarfi hjá Ríkisútvarpinu 2000-2007. |
><> ><> ><> ><> ><>
Sigurður Ingi Jóhannsson þingmaður Suðurkjördæmis | |
aldur | 52 ára |
menntun | Stúdent frá Menntaskólanum á Laugarvatni 1982. Embættispróf í dýralækningum frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn (KVL). Almennt dýralæknaleyfi í Danmörku 1989 og á Íslandi 1990. |
stjórnmálatengd störf og nefndarsetur utan Alþingis
| Í ráðherraskipaðri nefnd sem vann að breytingum á dýralæknalögum 1996-1998. Ritari stjórnar Framsóknarfélags Árnessýslu 2001-2008. Oddviti Hrunamannahrepps 2002-2009. |
starfsaldur á þingi | Hefur setið í 5 ár á þingi. 4 ár áður en hann varð ráðherra. |
þingnefndir | sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd 2009-2011, þingmannanefnd til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis 2009-2010, atvinnuveganefnd 2011-2013. |
önnur starfsreynsla | Landbúnaðarstörf samhliða námi 1970-1984. Afgreiðslu- og verkamannastörf hjá Mjólkursamsölunni í Reykjavík 1982-1983. Bóndi í Dalbæ í Hrunamannahreppi 1987-1994. Sjálfstætt starfandi dýralæknir í uppsveitum Árnessýslu 1990-1995. Settur héraðsdýralæknir í Hreppa- og Laugarásumdæmi 1992-1994 og um skeið í Vestur-Barðastrandarumdæmi. Dýralæknir hjá Dýralæknaþjónustu Suðurlands ehf. 1996-2009. |
><> ><> ><> ><> ><>
Steingrímur J. Sigfússon þingmaður Norðausturkjördæmis (Norðurlands eystra 1983-2003) | |
aldur | 58 ára |
menntun | Stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1976. B.Sc.-próf í jarðfræði frá Háskóla Íslands 1981. Próf í uppeldis- og kennslufræði frá Háskóla Íslands 1982. |
stjórnmálatengd störf og nefndarsetur utan Alþingis
| Fulltrúi nemenda í skólaráði MA 1975-1976. Í stúdentaráði HÍ 1978-1980. Varaformaður Alþýðubandalagsins 1989-1995. Í stjórnarnefnd Ríkisspítalanna 1983-1987. Í stjórnarskrárnefnd 2005-2007. Kjörinn 1984 í samstarfsnefnd með Færeyingum og Grænlendingum um sameiginleg hagsmunamál. Sat þing Alþjóðaþingmannasambandsins 1984 og 1986. Í Vestnorræna þingmannaráðinu 1985-1988 og 1991-1995. Sat á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1991 og 2007. Formaður flokkahóps vinstri sósíalista í Norðurlandaráði 1998-2000. Íslandsdeild Norðurlandaráðs 1996-2005, 2006-2007 og 2013-. Formaður norræna ráðsins um málefni fatlaðra 1999-2000. Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins 2007-2009. Formaður í jafnréttisnefnd Evrópuráðsþingsins 2008-2009. |
starfsaldur á þingi | Hefur setið í 31 ár á þingi. 5 ár áður en hann varð ráðherra í fyrsta skipti. Gegndi áður eftirtöldum ráðherraembættum: |
þingnefndir | sjávarútvegsnefnd 1991-1998 (formaður 1995-1998), efnahags- og viðskiptanefnd 1991-1999 og 2013-, félagsmálanefnd 1999-2003, utanríkismálanefnd 1999-2009, sérnefnd um stjórnarskrármál 2004-2005. |
önnur starfsreynsla | Sumarvinna við vörubifreiðaakstur með námi 1978-1982. Við jarðfræðistörf og jafnframt íþróttafréttamaður hjá sjónvarpi 1982-1983. |
><> ><> ><> ><> ><>
Svandís Svavarsdóttir þingmaður Reykjavíkur suður | |
aldur | 49 ára |
menntun | Stúdent frá Menntaskólanum í Hamrahlíð 1983. BA-próf í almennum málvísindum og íslensku frá HÍ 1989. Stundaði framhaldsnám í íslenskri málfræði við HÍ 1989-1993. |
stjórnmálatengd störf og nefndarsetur utan Alþingis
| Formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Reykjavík 2003-2005. Framkvæmdastjóri Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs 2005-2006. Borgarfulltrúi í Reykjavík 2006-2009. |
starfsaldur á þingi | Hefur setið í 5 ár á þingi. Engin þingreynsla áður en hún varð ráðherra. |
þingnefndir | allsherjar- og menntamálanefnd 2013-, þingskapanefnd 2014-. |
önnur starfsreynsla | Stundakennari í almennum málvísindum og íslensku við Háskóla Íslands 1990-1994. Starfaði hjá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra við rannsóknir á íslenska táknmálinu 1992-1994 og við rannsóknir, ráðgjöf og stjórnun 1998-2005. Kennslustjóri í táknmálsfræði og táknmálstúlkun við Háskóla Íslands 1994-1998. |
><> ><> ><> ><> ><>
Ögmundur Jónasson þingmaður Suðvesturkjördæmis (Reykjavík suður 2003-2007, Reykjavík 1995-2003). | |
aldur | 65 ára |
menntun | Stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1969. MA-próf í sagnfræði og stjórnmálafræði Edinborgarháskóla, Skotlandi, 1974. |
stjórnmálatengd störf og nefndarsetur utan Alþingis | Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA 1999-2003. Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins 2013-. |
starfsaldur á þingi | Hefur setið í 19 ár á þingi. 14 ár áður en hann varð ráðherra. |
viðkomandi þingnefndir | allsherjarnefnd 1995-1997, 1998-1999 og 2010, |
starfsreynsla utan þings | Kennari við grunnskóla Reykjavíkur 1971-1972. Rannsóknir við Edinborgarháskóla og ýmis hlutastörf 1974-1978. Fréttamaður Ríkisútvarpsins, hljóðvarps og síðan sjónvarps, 1978-1988, í Kaupmannahöfn 1986-1988. Stundakennari við Háskóla Íslands síðan 1979. Formaður BSRB 1988-2009. |
><> ><> ><> ><> ><>
| Össur Skarphéðinsson þingmaður Reykjavíkur suður (Reykjavíkur norður 2003-2009, Reykjavíkur 1991-2003) |
aldur | 60 ára |
menntun | Stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1973. BS-próf í líffræði frá HÍ 1979. Doktorspróf í lífeðlisfræði með fiskeldi sem sérgrein frá Háskólanum í East Anglia, Englandi, 1983. |
stjórnmálaþátttaka | Formaður stúdentaráðs HÍ 1976-1977. Í stjórnarskrárnefnd 2005-2007. |
starfsaldur á þingi | Hefur setið í 23 ár á þingi. 2 ár áður en hann varð ráðherra í fyrsta skipti. Gegndi áður eftirtöldum ráðherraembættum: umhverfisráðherra 1993-1995 iðnaðarráðherra 2007-2009 samstarfsráðherra Norðurlanda 2007-2008 |
viðkomandi þingnefndir | sjávarútvegsnefnd 1991-1993, allsherjarnefnd 1991-1992, iðnaðarnefnd 1991-1993 (formaður), landbúnaðarnefnd 1992-1993, utanríkismálanefnd 1995-1999, 2005-2007 og 2013-, heilbrigðis- og trygginganefnd 1995-1999 (formaður), umhverfisnefnd 1999-2000, fjárlaganefnd 1999-2001, kjörbréfanefnd 1999-2003 og 2013, efnahags- og viðskiptanefnd 2001-2005. |
starfsreynsla utan þings | Ritstjóri Þjóðviljans 1984-1987. Lektor við Háskóla Íslands 1987-1988. Aðstoðarforstjóri Reykvískrar endurtryggingar 1989-1991. Ritstjóri Alþýðublaðsins 1996-1997 Ritstjóri DV 1997-1998. |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.5.2014 kl. 18:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Innanríkisráðuneytið
17.4.2014 | 17:49
Þetta er síðasta færslan um einstök ráðuneyti með beinum samanburði á ferilskrám þeirra sem gegna embætti ráðherra í núverandi ríkisstjórn og þeirra sem gegndu sömu embættum í þeirri sem sat á síðasta kjörtímabili. Fyrsta færslan um Forsætisráðuneytið var skrifuð 11. ágúst fyrir vel rúmu hálfu ári en í aðdraganda að þessu verkefni var gert ráð fyrir því að það tæki í mesta lagi einhverjar vikur. Verkefnið hefur hins vegar undið nokkuð upp á sig og orðið töluvert umfangsmeira og tafsamara heldur en ráð var fyrir gert.
Á eftir færslunni um Forsætisráðuneytið fylgdu færslur um Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið, Mennta- og menningamálaráðuneytið, Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið, Félags- og húsnæðisráðuneytið, Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Utanríkisráðuneytið og hér er að lokum sú um Innanríkisráðuneytið. Í næstu færslum verður minnt á meginmarkmið þessa verkefnis ásamt því sem tilraun verður gerð til þess að setja fram einhverjar niðurstöður.
Það kom fram í aðdraganda að þessari færslu að Innanríkisráðuneytið er ekki nema þriggja ára gamalt. Það varð til á síðasta kjörtímabili eftir að heiti Dóms- og kirkjumálaráðuneytisins hafði verið breytt í Dóms- og mannréttindaráðuneytið og aukið við Samgönguráðuneytið með því að fela því yfirumsjón með sveitarstjórnarmálum. Þetta var í fullu samræmi við samstarfsyfirlýsingu síðustu ríkisstjórnar:
Nýtt ráðuneyti sveitastjórna, samgöngu og byggðaþróunar fær til viðbótar við fyrri verkefni aukið vægi varðandi eflingu sveitarstjórnarstigsins, sem tengist m.a. tilfærslu verkefna frá ríki til sveitarfélaga, auk stefnumótunar á sviði byggðaþróunar.
Í nýju ráðuneyti mannréttinda og dómsmála verður til viðbótar við verkefni sem fyrir eru, lögð áhersla á verkefni á sviði lýð- og mannréttinda auk þess sem öll framkvæmd almennra kosninga færist þangað, en hún er nú dreifð á þrjú ráðuneyti. Þangað færast ennfremur neytendamál. [...]
Fyrir lok kjörtímabilsins er gert ráð fyrir því að lögfest verði sameining samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytis og mannréttinda- og dómsmálaráðuneytis í nýju innanríkisráðuneyti. (sjá hér)
Þar sem svo margir málaflokkar eða eldri ráðuneyti eru nú samankomin undir einum hatti var horfið til þess að setja þessari færslu um Innanríkisráðuneytið aðdraganda. Færslur með einhvers konar aðdraganda eða inngangi að færslunum sem eru undir heitum ráðuneytanna eru því orðnar sex. Fjórir voru settir á undan færslunni um Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, einn á undan þeirri um Utanríkisráðuneytið og einn að þessari um Innríkisráðuneytið.
Hér verða dregin fram nokkur atriði til viðbótar sem tengjast forsögu Innanríkisráðuneytisins áður en kemur að samanburði á ferilskrám þeirra Ögmundar Jónassonar sem var innanríkisráðherra síðustu ríkisstjórnar og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem situr í Innanríkisráðuneytinu nú.
Flokks- og/eða kynbundin málefni
Því hefur löngum verið haldið fram að sum ráðuneyti og málaflokkar tilheyri ákveðnum flokkum og jafnvel kyni eftir að konur fóru að gerast ráðherrar. Fullyrðingar af þessu tagi byggja ekki alltaf á öðru en tilfinningu en þegar betur er að gáð kemur í ljós að sumar fullyrðingar af þessu tagi eru á rökum reistar.
Þannig hefur því stundum verið haldið fram að hið unga Umhverfisráðuneyti sé kvennaráðuneyti (sjá hér). Miðað við það að aðeins helmingur þeirra ráðherra sem hafa setið yfir ráðuneytinu eru konur er hæpið að halda slíku fram. Staðhæfinguna má hins vegar réttlæta þegar horft er til þess að ekkert ráðuneyti hefur haft jafn margar konur sem ráðherra. Það má benda á að einn fjórði þeirra kvenna sem hafa gengt ráherrastöðum, frá því fyrsti kvenráðherrann var skipaður árið 1970, hafa verið umhverfisráðherrar.
Í þessu ljósi kemur það e.t.v. á óvart að fjórar konur hafa verið skipaðar dóms- og kirkjumálaráðherrar. Hér ber reyndar að minna á að töluverðar breytingar urðu á mörgum ráðuneytanna á síðasta kjörtímabili eins og áður hefur komið fram. Kirkjumálaráðuneytið var lagt niður en Mannréttindaráðuneytið sett á stofn haustið 2009. Ragna Árnadóttir var fyrsti ráðherra þess. Innanríkisráðuneytið, sem var stofnað í upphafi ársins 2011, tók þessa málaflokka yfir (sjá hér) og er Hanna Birna Kristjánsdóttir því fyrsta konan sem gegnir embætti innanríkisráðherra.
Af þeim sex konum sem hafa verið umhverfisráðherrar eru tvær úr Sjálfstæðisflokknum, ein úr Framsóknarflokknum, ein úr Samfylkingunni og tvær úr Vinstri grænum (sjá hér). Þrjár af þeim fjórum konum sem hafa verið dóms- og kirkjumálaráðherrar koma hins vegar úr Sjálfstæðisflokknum en ein var óflokksbundin.
Það vekur væntanlega athygli að á meðan utanríkismálin hafa lengst af verið í höndum jafnaðarmanna þá hafa innanríkimálin að mestu verið í höndum Sjálfstæðisflokksins. Eins og kom fram í færslunni um Utanríkisráðuneytið var það stofnað árið 1940. Af þeim 74 árum, sem eru liðin síðan, þá hefur Alþýðuflokkur/Samfylking haft utanríkismálin í sinni forsjá í 32 ár (sjá hér)
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið er hins vegar orðið 97 ára gamalt. Á þeim tíma sem er liðinn síðan hefur Sjálfstæðisflokkurinn verðið yfir ráðuneytinu í 55 ár, Framsóknarflokkurinn í 29 en Alþýðuflokkurinn aðeins í 5 ár. Þess ber að geta að á árunum 1917 til ársins 1926 fóru þeir sem voru forsætisráðherrar jafnframt með Dóms- og kirkjumálaráðuneytið.
Af einhverjum ástæðum viðhéldu forsætisráðherrar Framsóknarflokksins, þeir Hermann Jónasson og Ólafur Jóhannesson, þessari hefð. Ólafur Jóhannesson var forsætisráðherra árið 1971 til 1974 en hélt dóms- og kirkjumálaráðherraembættinu áfram árin 1974 til 1978 (sjá hér). Hermann Jónasson var hins vegar forsætisráðherra allan þann tíma sem hann var yfir Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu auk þess sem hann fór með landbúnaðarmál og stundum vega- og orkumál (sjá hér).
Sjálfstæðisflokkurinn hefur líka verið lengst allra flokka yfir Samgönguráðuneytinu eða alls 39 ár, Framsóknarflokkurinn 25, Alþýðuflokkur/Samfylking 10 ár en aðrir flokkar 6 ár. Hér er miðað við að Samgönguráðuneytið hafi verið stofnað fyrir 80 árum en það er tæplega hægt að halda því fram þar sem ráðuneytið festist ekki í sessi fyrr en í öðru ráðuneyti Ólafs Thors árið 1944 til 1947 (sjá hér). Það kemur þó fyrst fyrir í þeirri ríkisstjórn sem Tryggvi Þórhallsson fór fyrir frá 1927 til 1932 (sjá hér).
Í millitíðinni gekk málaflokkurinn ýmist undir heitinu vega- eða samgöngumál. Í síðustu færslu var farið nokkuð ýtarlega yfir þann þátt svo og það hvaða ráðherrar hafa setið lengst yfir samgöngumálunum. Það kemur tæpast á óvart að það eru allt Sjálfstæðismenn. Halldór Blöndal sat sitt fyrsta kjörtímabil sem samgönguráðherra þegar EES-samningurinn var samþykktur.
Það kom því í hans hlut að hefja innleiðingu samgönguáætlunar Evrópusambandsins hér á landi (sjá hér). Sturla Böðvarsson tók við keflinu úr höndum Halldórs (sjá t.d. hér), þá Kristján L. Möller (sjá t.d. hér) og loks Ögmundur Jónasson (sjá t.d. hér). Í samræmi við aðrar innleiðingar EES-regluverksins og/eða EB-tilskipana þá miða þær að því að: færa ákvarðanavaldið varðandi málaflokkinn í hendur einum manni; þ.e. ráðherra (sjá hér), fjölga stjórnsýslustofnunum (sjá t.d. hér), leggja á ýmis konar gjöld og koma ýmsum þáttum samgöngumála í einkavæðingarferli (sjá t.d. hér).
Ögmundur Jónasson tók ekki aðeins við kefli samgöngu- og sveitarstjórnarmála úr höndum Kristjáns L. Möllers á síðasta kjörtímabili. Haustið 2010 tók hann líka við þeim málaflokkum sem höfðu verið í höndum vinsælasta ráðherra síðasta kjörtímabils. Hér er átt Rögnu Árnadóttur en hún steig fyrstu skrefin við innleiðingu EB-tilskipana sem varða málefni hælisleitenda. Tilskipanirnar byggja á Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna frá 1948, Mannréttindasáttmála Evrópu frá 1950 og Genfarsamningunum frá 1951 um réttarstöðu flóttamanna.
Manngreinandi mannúðarstefna
Í síðustu færslu var sá þáttur rakin sem gerði það að verkum að það er tæplega hægt að tala um annað en sprengingu í ásókn hælisleitenda um landvistarleyfi hér á landi. Í september árið 2010 voru þrjú lagafrumvörp Rögnu Árnadóttur sem vörðuðu útlendinga samþykkt þar af eitt um hælismál (sjá hér). Á næstu tveimur árum ríflega tvöfaldaðist fjöldi hælisleitenda hér á landi. Á kvenfrelsisdaginn árið 2012 var svo lagafrumvarp um hælisleitendur (sjá hér) samþykkt.
Það er auðvitað líklegt að sú aukning sem varð árið 2012 á fjölda umsókna um hæli á Íslandi eigi sér einhverjar skýringar í samþykki seinna lagafrumvarpsins en árið 2013 rúmlega þrefaldast fjöldi hælisleitenda ef miðað er við árið 2010. Það vekur athygli að samkvæmt því sem bæði Ragna Árnadóttir og Ögmundur Jónasson taka fram í framsögum sínum við kynningu lagafrumvarpanna þá var gert ráð fyrir að sá kostnaður sem félli á ríkissjóð samfara innleiðingu þessara laga yrði óverulegur.
Ragna Árnadóttir, sem var fyrsti mannréttindaráðherrann, gerði reyndar ráð fyrir 10 til 20 milljarða útgjaldaaukningu vegna rýmkaðra heimilda flóttamanna til dvalarleyfis hér á landi, bættrar réttarstöðu og aukinnar verndar. Kostnaðaraukningin fór fram úr þeirri áætlun þegar árið eftir. Árið 2012 var kostnaður ríkissjóðs vegna þessa málaflokks kominn upp í 220 milljónir (sjá hér) en hann var 600 milljónir á síðasta ári (sjá hér).
Eins og bent var á í síðustu færslu gerði Innanríkisráðuneytið samning við Reykjanesbæ um þjónustu við hælisleitendur. Vorið 2013 lýstu forsvarsmenn bæjarins því yfir að ekki væri svigrúm til að taka við fleiri hælisleitendum. (sjá hér) Í framhaldinu var auglýst eftir fleiri sveitarfélögum sem væru tilbúin til að taka á sig sams konar þjónustu við hælisleitendur og Reykjanesbær. Í upphafi þessa árs var gegnið frá slíkum þjónustusamningi við Reykjavíkurborg (sjá hér).
Mörgum hefur þótt það nöturlegt upp á að horfa að á sama tíma og upp undir 200 einstaklingar eru heimilislausir í Reykjavík þá skuli Reykjavíkurborg ráðstafa 15 félagslegum íbúðum undir hælisleitendur en á engin úrræði fyrir þá sem hafa þurft að sofa á götunni á undanförnum árum.
Í samstarfsyfirlýsingu Samfylkingarinnar og Vinstri grænna segir að Rík áhersla verður lögð á að tryggja rétt og þátttöku fólks af erlendum uppruna og lög um hælisleitendur verði endurskoðuð. (sjá hér) Þar segir líka að:
Ríkisstjórnin leggur áherslu á baráttu fyrir mannréttindum og kvenfrelsi, friði og afvopnun og gegn fátækt, félagslegu ranglæti, misskiptingu og hungursneyð, m.a. með markvissri þróunaraðstoð. Framlag Íslands til friðargæslu í heiminum verður fyrst og fremst á sviði sáttaumleitana, uppbyggingar borgaralegra stofnana, jafnréttis- og mannúðarmála. (sjá hér)
Þar segir hins vegar ekkert um vernd innfæddra sem eiga hvergi höfði sínu að halla. Þar segir heldur ekkert um það hvaða áherslur verði lagðar í baráttunni fyrir mannréttindum, kvenfrelsi, [...] gegn fátækt, félagslegu ranglæti, misskiptingu og hungri íslenskra ríkisborgara. Í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar er ekkert að finna um málefni hælisleitenda eða utangarðsfólks (sjá hér).
Miðað við tilefni þeirrar gífurlegu fréttaumfjöllunar, sem meðferð núverandi innanríkisráðherra á umsókn eins hælisleitenda hefur fengið frá því í nóvember á síðasta ári, má draga þá ályktun að ýmsir fulltrúar fyrrverandi ríkisstjórnar svo og þeir stuðningsmenn hennar, sem hafa haldið umfjölluninni uppi, sé umhugaðra um kjör einstakra hælisleitenda en þeirra ríkisborgara sem hafa engan annan samanstað en götuna. Hér er ekki rúm til að fjalla á þann hátt um lekamálið svokallaða að öllum þáttum þess verði gerð fullnægjandi skil. Þar af leiðandi verður látið nægja að vísa í fréttasöfn DV og mbl.is um þetta mál.
Því var haldið fram í síðustu færslu að sú áhersla, sem er að finna í samstarfsyfirlýsingu fyrrverandi ríkisstjórnarflokka, á mannréttinda- og innflytjendamál standi í beinum tengslum við þá ætlun hennar að koma Íslandi inn í Evrópusambandið. Sú aðlögun sem átti sér stað á síðasta kjörtímabili að regluverki alþjóðlegra skuldbindinga um mannréttindamál var þó hafin nokkru áður. Með aðildinni að EES-samningnum í upphafi ársins 1994 jókst þrýstingurinn að hálfu þeirra Evrópustofnana sem íslensk stjórnvöld höfðu framselt vald sitt til með Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna undir lok ársins 1948 og Mannréttindasáttmála Evrópuráðsins haustið 1953 (sjá hér).
Mannréttindasáttmáli Evrópu var lögfestur hér árið 1994 (sjá hér). Ári síðar voru gerðar breytingar á Stjórnarskránni í þeim tilgangi að færa ákvæði mannréttindakafla hennar til samræmis við alþjóðlega mannréttindasáttmála sem Ísland er aðili að (sjá hér). Því miður hefur íslenskum stjórnvöldum ekki borið gæfa til að tryggja að allir séu jafnir fyrir lögum og njóti mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti (sjá hér).
Staða útigangsfólks samanborðið við hælisleitendur er til marks um að sú mannúðarstefna sem Innanríkisráðuneytinu er ætlað að vinna að stuðlar að manngreiningu og mismunun sem er bundin þjóðernisuppruna og efnahag. Þar hallar greinilega á þá sem eru fæddir á Íslandi eða hafa íslenskan ríkisborgararétt og eiga minnst. Þó núverandi innanríkisráðherra hafi tekið ýmsar ákvarðanir, sem hafa orðið þyrnir í augum þeirra sem setja hagsmuni hælisleitenda ofar öllu öðru sem snýr að mannúðarmálum, er algjörlega óvíst að ástæðan hafi eitthvað með mannréttindi þeirra hópa innfæddra sem eiga undir högg að sækja.
Reyndar er ljóst að fátækir Íslendingar eiga afar fáa málssvara hvort sem litið er til útigangsfólks eða bótaþega. Hitt er víst að þessa hópa sárvantar ekki aðeins öfluga málsvara bæði innan þings og utan heldur hljóta málefni þeirra ekki síður að heyra undir málefnasvið þess ráðherra sem fer með mannréttindamál heldur en málefni hælisleitenda og annarra sem sækja um landvistarleyfi á Íslandi.
Innanríkisráðherra
Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum hversu miklar hreyfingar urðu á ráðherraskipan síðustu ríkisstjórnar. Fyrsta hreyfingin varð aðeins fimm mánuðum eftir að hún tók við völdum en þá sagði Ögmundur Jónasson af sér sem heilbrigðisráðherra. Tilefnið var skoðanaágreiningur um fyrsta Icesave-samninginn (sjá hér).
Ári síðar tók Ögmundur Jónasson við þeim ráðuneytum sem voru sameinuð í Innanríkisráðuneytinu 1. janúar 2011. Þetta voru Dóms- og mannréttindaráðuneytið og Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið. Á sama tíma og Ögmundur gekk þannig inn í ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur að nýju voru þau Ragna Árnadóttir og Kristján L. Möller leyst frá störfum sínum sem ráðherrar (sjá hér).
Ögmundur er fæddur árið 1948. Hann var því 61s árs þegar hann tók við sínu fyrsta ráðherraembætti vorið 2009 eftir fjórtán ára þingsetu. Hanna Birna er fædd árið 1966. Hún kom ný inn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn síðastliðið vor og var þá þegar skipuð innanríkisráðherra þá 47 ára gömul.
Menntun og starfsreynsla:
Ögmundur var 21s ár þegar hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík. Fimm árum síðar útskrifaðist hann með MA-próf í sagnfræði og stjórnmálafræði frá Edinborgarháskóla í Skotlandi. Í framhaldinu vann hann við rannsóknir við Edinborgarháskóla og ýmis hlutastörf næstu fjögur ár.
Árið 1978 hóf Ögmundur störf sem fréttamaður Ríkisútvarpsins; fyrst hljóðvarps og síðar sjónvarps, og starfaði þar í 10 ár. Tvö síðustu árin var hann fréttamaður Ríkisútvarpsins á Norðurlöndum með aðsetur í Kaupmannahöfn. Ögmundur var kjörinn formaður BSRB árið1988 og gegndi því embætti fram til 2009. Ögmundur var kjörinn inn á þing fyrir Alþýðubandalagið árið 1995. Hann var því 47 ára þegar hann tók sæti á þingi.
Hanna Birna lauk verslunarprófi frá Verzlunarskóla Íslands 18 ára og stúdentsprófi frá Kvennaskólanum tveimur árum síðar. 25 ára lauk hún BA-prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands en auk þess er hún með M.Sc.-próf í alþjóðlegum og evrópskum stjórnmálum frá Edinborgarháskóla. Hún útskrifaðist þaðan árið 1993.
Samkvæmt ferilskrá Hönnu Birnu inni á alþingisvefnum hefur hún hafið starfsferil sinn sem starfsmaður Öryggismálanefndar árið 1990 en nefndin var lögð niður ári síðar (sjá hér). Eftir að Hanna Birna sneri heim frá meistaranáminu við Edinborgarháskóla starfaði hún í eitt ár sem deildarsérfræðingur í Menntamálaráðuneytinu en varð þá framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins í fjögur ár og því næst aðstoðarframkvæmdastjóri stjórnmálaflokksins á árunum 1999 til 2006.
Hanna Birna var í borgarstjórn frá árinu 2002. Á þeim tíma var hún m.a. borgarstjóri á árunum 2008 til 2010. Hanna Birna kom ný inn á þing síðastliðið vor fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hún var því 47 ára þegar hún var kjörin inn á þing.
Stjórnmálatengd störf og nefndarsetur:
Áður en Ögmundur var kosinn inn á þing fyrir tæpum tuttugu árum var hann orðinn þokkalega kynntur sem fréttamaður hjá RUV í tíu ár og síðan formaður BSRB til sjö ára. Hann gegndi formennsku BSRB fram til ársins 2009. Frá árinu 1995 hefur Ögmundur setið inni á þingi fyrir þrjá stjórnmálaflokka.
Fyrst fyrir Alþýðubandalagið eða fram á haust árið 1998 en þá stofnuðu nokkrir þingmenn Alþýðubandalagsins og Kvennalistans sameiginlegan þingflokk óháðra. Ögmundur var formaður hans til þingloka vorið 1999. Hann bauð fram fyrir Vinstri græna í alþingiskosningunum vorið 1999 og hefur verið þingmaður þeirra síðan. Hann var formaður þingflokks Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs frá 1999 til 2009.
Hanna Birna tók að starfa á pólitískum vettvangi aðeins 24 ára gömul og þá sem starfsmaður Öryggismálanefndar. Fjórum árum síðar var hún deildarsérfræðingur í Menntamálaráðuneytinu. Árið 1995 var hún framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins. Hanna Birna fór með það embætti næstu fjögur árin. Í framhaldinu varð hún aðstoðarframkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins frá 1999 til ársins 2006.
Hanna Birna hefur setið í borgarstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá árinu 2002 og sat í borgarráði frá árinu 2003 fram til þess að hún var kjörin inn á þing. Hún var forseti borgarstjórnar á árunum 2006 til 2008 og borgarstjóri næstu tvö árin eða fram til þess að núverandi borgarstjóri tók við völdum.
Á þeim tíma sem Hanna Birna var í borgarstjórn hefur hún setið í 15 stjórnum, ráðum og nefndum. Flestum á árunum 2003 til 2005 og árið 2010. Þessi ár var hún í sex nefndum auk þess að vera aðstoðarframkvæmdarstjóri flokksins og sitja í borgarstjórn og borgarráði. Árið 2008 var hún orðinn borgarstjóri í Reykjavík og gegndi því embætti fram til ársins 2010.
Það vekur e.t.v. athygli að Hanna Birna hefur ekki verið formaður fleiri nefnda en raun ber vitni. Auk þess að vera forseti borgarstjórnar á árunum 2006 til 2008 var hún formaður skipulagsráðs á sama tíma. Áður hafði hún verið formaður nefndar menntamálaráðherra um mótun símenntunarstefnu í eitt ár. Síðar, eða á sama tíma og hún var borgarstjóri, var hún formaður stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og formaður almannavarnanefndar sama svæðis.
Í fljótu bragði er ekki að sjá að þær séu ekki nema þrjár nefndirnar sem Hanna Birna hefur setið í sem tengjast núverandi stöðu hennar sem innanríkisráðherra. Þetta eru stjórnarsetur hennar í Sambandi íslenskra sveitarfélaga, frá árinu 2006, og Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2008 til 2010. Auk þessa átti hún sæti í stjórnkerfisnefnd Reykjavíkurborgar frá 2010 til 2013.
Þingstörf og nefndarsetur á vegum þess:
Ögmundur hefur verið inni á þingi frá alþingiskosningunum vorið 1995. Í vor fyllir vera hans á þingi 19 ár. Hann kom upphaflega inn sem þingmaður Reykjavíkur fyrir Alþýðubandalagið. Undir lok kjörtímabilsins klofnaði flokkurinn er stærstur hluti þingflokksins gekk til liðs við Alþýðuflokkinn og Kvennaistann um stofnun Samfylkingarinnar (sjá hér). Ögmundur var meðal þriggja þingmanna Alþýðubandalagsins og tveggja frá Samtökum um kvennalista sem stofnuðu þingflokk óháðra sem starfaði fram til alþingiskosninga vorið 1999 (sjá hér).
Ögmundur bauð áfram fram í Reykjavík þetta vor en nú undir merkjum Vinstri græna sem hann hefur boðið fram fyrir síðan. Árin 2003 til 2007 var hann þingmaður Reykjavíkur suður en frá árinu 2007 hefur hann verið þingmaður Suðvesturkjördæmis.
Á þeim tæpu tuttugu árum sem eru liðin síðan Ögmundur tók sæti inni á þingi hefur hann starfað í tólf þingnefndum eða að meðaltali þremur á hverju þingári. Meðal þeirra nefnda sem hann hefur átt sæti í eru allsherjarnefnd þar sem hann átti sæti fyrsta kjörtímabilið sem hann sat á þingi og svo aftur árið 2010, heilbrigðis- og trygginganefnd þar sem hann sat fyrsta árið sitt inni á þingi og félagsmálanefnd en þar sat hann líka í eitt ár eða frá 1997 til 1998. Á árunum 2007 til 2009 átti hann svo sæti í félags- og tryggingamálanefnd og aftur árið 2010.
Hanna Birna kom ný inn á þing í síðustu alþingiskosningum. Hún er þingmaður Reykjavíkur suður fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Ráðherraembætti:
Ögmundur var 61s árs þegar hann var skipaður heilbrigðisráðherra vorið 2009. Hann var ekki lengi í því embætti því hann sagði af sér og fékk lausn fimm mánuðum eftir að hann var skipaður. Tæpu ári síðar tók hann við embættum tveggja ráðherra sem fengu lausn á sama tíma og gegndi embættum dómsmála- og mannréttindaráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fram til 1. janúar 2011 þegar þessi embættisheiti voru lögð niður og innanríkisráðherra tekið upp í þeirra stað. Ögmundur veitti innanríkismálunum forystu til loka síðasta kjörtímabils (sjá nánar hér).
Hanna Birna er eini þingmaður núverandi ríkisstjórnar sem var skipaður ráðherra án þess að hafa aflað sér þingreynslu áður. Hún var 47 ára þegar hún var skipuð innanríkisráðherra (sjá nánar hér).
Samantek:
Þau Ögmundur og Hanna Birna eiga fleira sameiginlegt en væntanlega lítur út fyrir í fyrstu. Þau eru bæði með meistaragráðu frá Edinborgarháskóla. Ögmundur var þar við nám í byrjun áttunda áratugarins en Hanna Birna tveimur áratugum síðar. Bæði voru þar í meistaranámi í stjórnmálum. Ögmundur í stjórnmálafræði og sagnfræði en Hanna Birna alþjóðlegum og evrópskum stjórnmálum.
Bæði hafa líka verið umsvifamikil í stjórnmálum. Hanna Birna á vettvangi borgarmála og Ögmundur inni á Alþingi. Um svipað leyti og Ögmundur hóf sinn feril á vinstri væng stjórnmálanna inni á Alþingi var Hanna Birna að hasla sér völl innan Sjálfstæðisflokksins. Fyrst sem framkvæmdarstjóri þingflokks hans. Eftir að hún komst inn í borgarstjórn hefur hún verið í stjórn fjölda nefnda sem fara með málefni borgarinnar og íbúa hennar. Ögmundur hefur líka verið ötull innan hinna ýmsu þingnefnda. Það má svo benda á að bæði voru 47 ára þegar þau voru kosin inn á þing í fyrsta skipti.
Hvað flesta aðra þætti varðar skilur þó nokkuð á milli. Ólíkt Hönnu Birnu hafði Ögmundur aflað sér töluverðar starfsreynslu áður en hann sneri sér að stjórnmálunum af einhverjum þunga. Það er líka óhætt að gera ráð fyrir því að hann hafi aflað sér dýrmætrar reynslu til afskipta af samfélagsmálum á tíu ára ferli sem fréttamaður RUV og síðar sem formaður BSRB í sjö ár áður en hann varð þingmaður.
Samkvæmt ferilskrá Hönnu Birnu er sú reynsla sem hún hefur aflað sér öll af vettvangi pólitíkunnar. Fyrst sem starfsmaður Öryggismálanefndar fyrsta kjörtímabilið sem Davíð Oddsson var forsætisráðherra (sjá hér). Öryggismálanefndin heyrði undir Forsætisráðuneytið en var lögð niður árið 1991 (sjá hér). Síðar þetta sama kjörtímabil var Hanna Birna deildarstjóri í Menntamálaráðuneytinu en Ólafur G. Einarsson var þá menntamálaráðherra.
Á síðasta kjörtímabili þótti mörgum það lofa góðu að tveir utanþingsráðherrar voru á meðal þeirra sem voru skipaðir til ráðherraembætta. Ragna Árnadóttir var annar þeirra en eins og hefur komið rækilega fram hér í aðdraganda þá var hún skipuð dóms- og kirkjumálaráðherra í stjórnartíð síðustu ríkisstjórnar. Embættisheitinu var breytt 1. október 2009 og hét eftir það dóms- og mannréttindaráðherra (sjá hér). Þrátt fyrir að hún væri langvinsælasti ráðherra ríkisstjórnarinnar var hún leyst frá störfum haustið 2010 (sjá hér)
Á sama tíma var Álfheiður Ingadóttur leyst frá störfum (sjá hér) en hún hafði tekið við Heilbrigðisráðuneytinu haustið 2009 þegar Ögmundur vék sæti fyrir afstöðu sína í Icesave sem samræmdist ekki afstöðu annarra ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur (sjá hér). Kristján L. Möller vék einnig sæti en Ögmundur tók við embættum hans og Rögnu Árnadóttur.
Í ánægjukönnun sem Gallup birti haustið 2009 um ánægju þjóðarinnar með störf ráðherra sögðust 27% þátttakanda í könnuninni vera ánægð með störf Ögmundar Jónassonar sem heilbrigðisráðherra (sjá hér). Undir lok síðasta kjörtímabils sögðust rúmlega 29% þátttakenda sömu könnunar vera ánægð með störf hans sem innanríkisráðherra (sjá hér).
Embættisferill Ögmundar Jónassonar sem ráðherra sker sig vissulega úr þar sem hann er eini ráðherrann sem sagði sig sjálfur úr embætti en tók síðar við öðru ráðherraembætti ári síðar. Hann er hins vegar ekki eini ráðherra síðustu ríkisstjórnar sem var skipaður til annars ráðherraembættis, vorið 2009 en þess sem hann gegndi í lok kjörtímabilsins. Það væri sannarlega forvitnilegt að rekja frekar þau pólitísku átök sem leiddu til þessara hrókeringa en þar sem það er hætt við að það yrði of langt mál þá verður látið nægja að vísa til þess sem Ögmundur hefur látið hafa eftir sér sjálfur (sjá t.d. hér)
Þegar ferilskrár þeirra Ögmundar Jónassonar og Hönnu Birnu Kristjánsdóttir eru skoðaðar þá verður tæplega annað sagt en að Ögmundur standi svolítið sterkari miðað við starfsreynslu af almennum vinnumarkaði sem fréttamaður RUV og formaður verkalýðsfélags ásamt lengri þingreynslu. Hanna Birna er hins vegar með sambærilega menntun og viðlíka langa reynslu innan úr pólitíkinni og Ögmundur. Reynsla Hönnu Birnu var hins vegar nær öll úr borgarpólitíkinni þegar hún var skipuð innanríkisráðherra en Ögmundur var með 14 ára þingreynslu að baki þegar hann tók við sínu fyrsta ráðherraembætti og einu ári betur þegar hann tók við þeim málaflokkum sem heyra nú undir Innanríkisráðuneytið.
Í stuttu máli þá má segja að miðað við þá hefð sem hefur skapast hér á landi við skipun ráðherra þá hljóta bæði Ögmundur Jónasson og Hanna Birna Kristjánsdóttir að teljast álitlegir kostir. Hins vegar þegar horft er til þess víðfeðma málefnasviðs sem heyrir undir Innanríkisráðuneytið þá er hæpið að gera ráð fyrir að menntun þeirra og starfsreynsla standi undir þeim væntingum um þekkingu sem væri eðlilegast að gera til einstaklinga sem er trúað fyrir jafn umfangsmiklum málaflokkum og: dóms-, mannréttinda-, samgöngu- og sveitarstjórnarmálum.
Helstu heimildir
Ráherraskipan í síðara ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttir
Ráðherrar í núverandi ríkisstjórn
Ríkisstjórnir og ráðherrar frá 1904-1942
Ríkisstjórnartal frá stofnun lýðveldis
Ánægja með störf ráðherra: 6. október 2009 (fyrsta könnun)
Ánægja með störf ráðherra: 9. apríl 2010
Ánægja með störf ráðherra og stjórnarandstöðu: 23. mars 2012
Ánægja með störf ráðherra: 10. janúar 2013
Heimildir úr lögum
Breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands (fækkun ráðuneyta). frá 30. mars til 11. apríl 2012.
Stjórnarráð Íslands (sameining ráðuneyta). frá 9. júní til 9. september 2010.
Lög samþykkt á Alþingi (stjórnartíðindanúmer laga)
Ræður þingmanna (á árunum 1907-2014)
Ferlar einstakra mála inni á Alþingi
Farsýslan, stjórnsýslustofnum samgöngumála. frá 20. september til 19. nóvember 2012.
Vegagerðin, stjórnsýslustofnun samgöngumála. frá 20. september til 19. nóvember 2012.
Útlendingar (vegabréfsáritanir, hælisleitendur og EES-reglur). frá 31. mars til 19. júní 2012.
Samgönguáætlun 2011-2022. frá 14. desember 2011 til 19. júní 2012.
Útlendingar (dvalarleyfi fórnarlamba mannsals). frá 31. mars til 9. september 2010.
Útlendingar (hælismál). 31. mars til 9. september 2010.
Útlendingar (þátttaka í samstarfi á ytri landamærum, framfærsla o.fl.) frá 31. mars til 9. september 2010.
Samgönguáætlun. frá 28. nóvember 2007 til 15. apríl 2008.
Samgönguáætlun. frá 22. janúar til 29. apríl 2002.
Lagaákvæði er varða samgöngumál. frá 20. ágúst 1992 til 5. maí 1993.
Heimildir úr fjölmiðlum
Metfjöldi hælisumsókna hér á landi á síðasta ári. mbl.is 16. mars 2014.
Auðveldari félagsleg aðlögun hælisleitenda í borginni. visir.is 20. febrúar 2014.
Útigangsfólk kemur víða að. ruv.is 14. febrúar 2014.
Umsóknum hælisleitenda fjölgaði nærri um 130 prósent á tveimur árum. visir.is 28. janúar 2014.
Sveitarfélög viljug til að þjónusta hælisleitendur. visir.is 24. ágúst 2013.
Neyðarástand í Reykjavík. eyjan.is 15. maí 2013.
Samið um aðstoð við hælisleitendur. mbl.is 23. apríl 2013.
Hafa ekki undan að útvega fjölskyldum íbúðir. mbl.is 8. apríl 2013.
Meira fjármagn þarf til hælisleitenda. mbl.is 23. mars 2013.
Geti áfram ákært vegna falspappíra. mbl.is 8. mars 2013.
Janúar ekki lengur rólegur mánuður. mbl.is 9. febrúar 2013.
Endurskoða hælisumsóknarferlið. mbl.is 21. janúar 2013.
Orð tekin úr samhengi. mbl.is 19. janúar 2013.
Sækja til Íslands til að fá frítt uppihald. ruv.is 18. janúar 2013
Harður heimur vímusjúkra á götunni. SÁÁ-blaðið 9. október 2012
Hælisleitendur flytja í Klampenborg. Víkurfréttir 30. júlí 2012
Forstjóri Útlendingastofnunar: Þetta er ekki boðlegt. mbl. 23. júlí 2012.
Aukin fjárframlög til Útlendingastofnunar rædd. mbl.is 15. maí 2012.
Borgarverðir aðstoði útigangsfólk. visir.is 19. mars 2012.
Tveir nýir ráðherrar taka við. mbl.is 3. september 2010.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið verður dóms- og mannréttindaráðuneyti. vb.is28. ágúst 2009.
Ögmundur hættur (fréttaknippi). mbl.is
Minnisblað ráðuneytis. Fréttamál. DV.is
Lekamálið (fréttaknippi) mbl.is
Heimildir af vef Innanríkisráðuneytisins
Fyrri ráðherrar
Málaflokkar
Yfirlit yfir lög og reglugerðir eftir málaflokkum
Heimildir úr ýmsum áttum
Eignastýring þjóðvegakerfisins. Janúar. 2014.
Flóttamenn og hælisleitendur. Mannréttindaskrifstofa Íslands.
Fækkun ráðuneyta úr 12 í 9. Forsætisráðuneytið.
Mannréttindasáttmáli Evrópu (öðlaðist gildi á Íslandi 3. september 1953)
Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna (samþykkt 10. desember 1948)
Mat á hagkvæmni strandflutninga á Íslandi. Innanríkisráðuneytið. 2011
Tölfræðilegar upplýsingar um erlenda ríkisborgara og innflytjendur á Íslandi. Fjölmenningarsetur. júlí 2013
Samanburður á beinni gjaldtöku og samfélagslegum kostnaði við flutninga. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. 2005
Samningur um réttarstöðu flóttamanna (Genf 28. júlí 1959)
Schengen upplýsingakerfið á Íslandi. frá 30. nóvember 1999 til 7. apríl 2000.
Samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs
Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Stjórnarráð Íslands
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.4.2014 kl. 01:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Til fjarstýrðrar handstýringar
2.4.2014 | 06:41
Enn einu sinni reyndist efnið svo umfangsmikið að horfið var til þess að setja aðdraganda að meginverkefninu; þ.e. samanburði á ferilskrám þeirra tveggja ráðherra sem eru eftir. Eins og þeir sem hafa fylgst með þessum bloggvettvangi er væntanlega kunnugt um þá hefur hann verið helgaður því að bera saman ferilsskrár þeirra einstaklinga sem gegna ráðherraembættum í núverandi ríkisstjórn og þeirra sem sátu í sömu stólum í þeirri sem sat á síðasta kjörtímabili.
Það er aðeins eitt ráðuneyti eftir en það er Innanríkisráðuneytið. Það hefur heitið svo frá 1. janúar 2011. Þau ráðuneyti og verkefni sem eru komin undir það hétu áður Dóms- og kirkjumálaráðuneytið og Samgönguráðuneytið (sjá hér). Heiti dóms- og kirkjumálaráðherra var reyndar breytt á síðasta kjörtímabili og nefndist dóms- og mannréttindaráðherra frá 1. október 2009. Heiti samgönguráðherra var aukið á sama tíma í samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (sjá hér).
Það segir sig e.t.v. sjálft að af þessum sökum er saga Innanríkisráðuneytisins svolítið flóknari og efnismeiri en þeirra ráðuneyta sem hafa farið með afmarkaðri málaflokka eða eru yngri. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið er eitt af elstu ráðuneytunum en málefni þess eru eitt af mörgum öðrum sviðum sem heyra undir Innanríkisráðuneytið nú. Yngstu málaflokkarnir eru mannréttinda- og sveitarstjórnarmál sem voru sett undir ráðuneyti innanríkismála á síðasta kjörtímabili.
Hér í framhaldinu verður farið yfir hverjir voru fyrstir til að gegna þeim ráðherraembættum yfir þeim málaflokkum sem nú heyra undir Innanríkisráðuneytið og nokkur verkefni fyrrverandi samgöngu- og mannréttindaráðherra. Samburður á starfsferlum Ögmundar Jónassonar og Hönnu Birnu Kristjánssonar bíður næstu færslu.
Fyrstu dóms- og kirkjumálaráðherrarnir
Embætti dóms- og kirkjumálaráðherra er eitt af elstu ráðherraembættunum í sögu ráðuneyta á Íslandi. Við myndun fyrstu fjölskipuðu heimastjórnarinnar voru þeir þrír sem skiptu eftirtöldum embættum á milli sín: forsætis-, fjármála-, atvinnumála- og dóms- og kirkjumálaráðherra. Frá árinu 1917 fram til 1926 var það forsætisráðherra sem fór yfir innlendum dóms- og kirkjumálum.
Jón Magnússon var fyrsti forsætisráðherra fyrstu þriggja ráðuneyta heimastjórnarinnar sem var mynduð 4. janúar 1917 en hann er líka fyrsti dóms- og kirkjumálaráðherrann. Hann gegndi báðum embættum í alls 6 ár; fyrst frá 1917 til 1922 og síðar frá 1924 til 1926 eða þar til hann lést (sjá hér).
Jón Magnússon var fæddur árið 1859. Hann lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum í Reykjavík árið 1881 þá 22ja ára gamall. Tíu árum síðar lauk hann lögfræðiprófi frá Hafnarháskóla. Eftir stúdentsprófið var hann skrifari í fimm ár (1884-1889) hjá Júlíusi Havsteen amtmanni á Akureyri.
Þegar Jón sneri heim frá námi við Hafnarháskóla var hann sýslumaður í Vestmannaeyjum í sex ár. Í framhaldinu starfaði hann sem ritari landshöfðingjaembættisins frá árinu 1896 til 1904, þá skrifstofustjóri í Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu til ársins 1908 og síðan bæjarfógeti í Reykjavík frá 1909 til 1917.
Jón var þingmaður Vestmannaeyinga frá árinu 1902 til 1913. Við myndun heimastjórnarinnar í upphafi ársins 1917 var hann inni á þingi sem þingmaður Reykvíkinga. Hann gegndi embætti dóms- og kirkjumálaráðherra í alls sex ár en hann lést á meðan hann var enn í embætti. Magnús Guðmundsson, þáverandi atvinnumálaráðherra, tók við embættisskyldum hans (sjá hér).
Eftir 1926 lagðist sú níu ára hefð af að forsætisráðherra færi jafnframt með dóms- og kirkjumálaráðuneytið. Það gerðist með þeirri tveggja ráðherra stjórn sem tók við eftir fráfall Jóns Magnússonar. Magnús Guðmundsson var skipaður atvinnu- og dóms- og kirkjumálaráðherra en Jón Þorláksson var forsætis- og fjármálaráðherra (sjá hér).
Magnúsar hefur verið getið áður í þessu verkefni fyrir það að hann var sá fyrsti sem var skipaður yfir bæði iðnaðar- og sjávarútvegsmálin sérstaklega. Þetta var þegar Ásgeir Ásgeirsson tók við forsætisráðuneytinu vorið 1932 (sjá hér). Þá skipaði hann Magnús dómsmálaráðherra ásamt því að setja hann yfir framangreinda málaflokka og svo samgöngu- og félagsmálin. Magnús var þar með líka sá fyrsti sem var skipaður yfir félagsmálin þó það hafi láðst að geta hans hér.
Það er vert að benda á það að Magnús var með sömu menntun og forveri hans yfir Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, Jón Magnússon, þegar hann var kosinn inn á þing árið 1916 en áður en hann tók við stjórnartaumunum í Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu hafði hann bætt við sig réttindum hæstaréttarlögmanns (sjá hér). Magnús var dóms og kirkjumálaráðherra í alls þrjú ár. Fyrst árið 1926 til 1927 og síðar frá 1932 til 1934 (sjá líka síðu Innanríkisráðuneytisins).
Það var Jónas Jónsson, jafnan kenndur við Hriflu, sem fór með embætti dóms- og kirkjumálaráðherra á árunum 1927 til 1932. Jónasar er getið hér fyrir það að það vekur athygli að þeir þrír sem höfðu gegnt þessari stöðu á undan honum voru allir útskrifaðir lögfræðingar. Magnús Guðmundsson og Sigurður Eggerz, sem gegndi embættinu á árunum 1922 til 1924, höfðu auk þess báðir aflað sér málflutningsréttinda en allir þrír höfðu líka einhverja reynslu sem sýslumenn, bæjarfógetar eða málaflutningsmenn áður en þeir voru skipaðir ráðherrar yfir Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu.
Jónas hafði enga slíka þekkingu eða reynslu þegar hann var skipaður ráðherra dóms- og kirkjumála í forsætisráðuneyti Tryggva Þórhallssonar haustið 1927 (sjá hér). Hann var með gagnfræðapróf og tveggja ára framhaldsnám frá Danmörku. Annað árið tók hann í Kennaraháskólanum í Kaupmannahöfn en þess er ekki getið að hann hafi lokið náminu. Í framhaldinu tókst hann á hendur ársferðalag um Þýskaland, Frakkland og England með styrk úr landssjóði í þeim tilgangi að kynna sér þarlend skólamál.
Heimkominn varð hann kennari við Kennaraskólann í Reykjavík í níu ár eða fram til ársins 1919 er hann var skipaður skólastjóri Samvinnuskólans, sem þá var í Reykjavík (sjá hér), en hann var skólastjóri hans í rúm 30 ár. Þar af var hann þingmaður í rúm tuttugu ár auk þess að vera dóms- og kirkjumálaráðherra í fimm ár og formaður Framsóknarflokksins í tíu ár (sjá nánar hér).
Auður Auðuns er fyrsta konan sem var skipuð ráðherra á Íslandi. Það var Jóhann Hafstein sem skipaði hana i embætti dóms- og kirkjumálaráðherra 10. október 1970 eða þremur mánuðum eftir að ríkisstjórn hans tók við völdum (sjá hér). Auður lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 18 ára gömul. Sex árum síðar lauk hún lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands fyrst kvenna. Þetta var árið 1935.
Í framhaldinu stundaði hún málflutning í heimabæ sínum, Ísafirði, í eitt ár. Síðar varð hún lögfræðingur mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur í tuttugu ár eða á árunum 1940 til 1960. Hún var kosin inn á þing árið 1959 og átti sæti þar í 15 ár. Fyrsta árið inni á þingi var hún samtímis fyrst kvenna til að gegna embætti borgarstjóra í Reykjavík en hún deildi stöðunni með Geir Hallgrímssyni.
Þegar Auður var kosin inn á þing hafði hún verið í borgarpólitíkinni í þrettán ár eða frá árinu 1946. Hún var áfram borgarfulltrúi og forseti borgarstjórnar í ellefu ár eftir að hún var kosin inn á Alþingi (sjá hér). Allt þar til hún var skipuð dóms- og kirkjumálaráðherra. Þeirri stöðu gegndi hún í eitt ár (sjá hér).
Fyrstu samgönguráðherrarnir
Tryggvi Þórhallsson var fyrsti samgönguráðherrann en hann var jafnframt ráðherra atvinnumála og forsætisráðuneytisins á sama tíma. Sigurður Kristinsson leysti hann undan embætti atvinnu- og samgönguráðherra í fimm mánuði árið 1931 en að öðru leyti gegndi hann þessum embættum óslitið frá 1927 til 1932 (sjá hér).
Tryggvi hefur komið áður við sögu í þessu verkefni en það var í færslunni Til kvótastýrðs sjávarútvegs þar sem segir að í forsætisráðherratíð hans jukust opinber hagstjórnarafskipti ríkisins verulega. Það var í ríkisstjórn hans sem Jónas Jónsson frá Hriflu var dóms- og kirkjumálaráðherra. Það er óhætt að segja að Jónas var með litríkari einstaklingum á sinni tíð og umdeildur eftir því (sjá hér).
Tryggvi og Jónas höfðu haldið uppi harðri stjórnarandstöðu við íhaldsstjórn Jóns Þorlákssonar [og] skipulögðu kosningafundi og riðu til þeirra um fjallvegi og vegleysur. (sjá hér) Framsóknarflokkurinn tók við stjórnartaumunum haustið 1927 og hófst þegar handa við að hrinda stefnumálum sínum í framkvæmd. Eitt þeirra voru stórfelldar samgöngubætur og voru tugir brúa byggðar víðs vegar á landinu og reynt að gera vegi sem víðast bílfæra (sjá hér) á þessum tíma.
Áður en Tryggvi var kjörinn inn á þing fyrir Framsóknarflokkinn hafði hann starfað sem biskupritari og barnakennari í Reykjavík í eitt ár og gegnt prestsembætti í Borgarfirði í fjögur ár. Hann var settur dósent í guðfræði við Háskóla Íslands árið 1916 til 1917 en tók þá við ritstjóri Tímans. Því starfi gegndi hann þar til hann varð forsætisráðherra árið 1927. Sama ár varð hann formaður Framsóknarflokkinn (sjá nánar hér).
Á þeim árum sem Tryggvi Þórhallsson var samgönguráðherra var ekki eingöngu ráðist í að leggja bílfæra vegi og byggja brýr. Stórátak var gert í því að koma sveitum landsins í símasamband. Byrjað var að senda póst með flugi innanlands. Árið 1930 tók svo hljóðvarpið til starfa (sjá hér).
Fyrsti útvarpsstjórinn var Jónas Þorbergsson sem sat síðar á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn eða á árunum 1931 til 1934. Hann hafði verið ritstjóri Dags á Akureyri og Tímans í Reykjavík áður en hann tók við starfi útvarpsstjóra. Hann tók við ritstjórastöðunni á Tímanum af Tryggva Þórhallssyni en gegndi þeirri stöðu aðeins í tvö ár. Jónas var útvarpsstjóri í 23 ár.
Það er líklegt að þeir séu margir sem kannast við nafn Jónasar Jónssonar frá Hriflu en Tryggvi Þórhallsson er sennilega fáum kunnur þó hann hafi verið vel þekktur á sinni tíð. Hann útskrifaðist sem guðfræðingur frá Háskóla Íslands árið 1912. Þremur árum síðar útskrifaðist tilvonandi mágur hans, Ásgeir Ásgeirsson síðar forseti, úr sama námi. Þeir voru samferða á Alþingi í ellefu ár og sögðu sig úr Framsóknarflokknum á sama tíma vegna óánægju sem stafaði m.a. af framgöngu Jónasar frá Hriflu (sbr. Íslenskan söguatlas III bd: bls. 61)
Þegar rýnt er í ferilskrá Tryggva vekur það sérstaka athygli að faðir hans, móðurafi, tengdafaðir, mágur og tengdasonur voru allir alþingismenn í mislangan tíma: Móðurafi hans, Tryggvi Gunnarsson, lengst eða í 30 ár. Þórhallur Bjarnason, faðir hans, sat í 12 ár á þingi. Tengdafaðir hans, Klemens Jónsson, mágur, Ásgeir Ásgeirsson og Magnús Torfason, sem var giftur systur tengdamóður Tryggva, voru allir flokksbræður Tryggva Þórhallsson og samtíða honum inni á þingi. Tengdafaðir hans var reyndar horfinn út af þingi þegar Tryggvi varð forsætisráðherra.
Mágur Tryggva Þórhallssonar, Ásgeir Ásgeirsson, varð næsti forsætisráðherra á eftir honum. Hann skipaði Magnús Guðmundsson, sem er getið í kaflanum hér á undan, yfir samgöngumálin en hann fór jafnframt með sjávarútvegs-, iðnaðar- og félagsmál og var dóms- og kirkjumálaráðherra eins og fram hefur komið áður. Magnús var samgönguráðherra í tvö ár. Embættisheitið kemur ekki fyrir aftur fyrr en í þriðja og fjórða ráðuneyti Hermanns Jónassonar (sjá hér) en þá er Ólafur Thors atvinnu- og samgönguráðherra á árunum 1939-1942.
Það er þó ekki fyrr en með þeirri ríkisstjórn sem Steingrímur Steinþórsson fór fyrir sem Samgönguráðuneytið fær fastan sess í ráðuneytisskipaninni (sjá hér). Þetta var árið 1950 en þá var Hermann Jónasson skipaður landbúnaðar- og samgönguráðherra en hann fór einnig með kirkju- og orkumál. Ólafur Thors og Hermann Jónasson komu ítrekað fyrir í aðdragandafærslum sem voru settar að færslunni um Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið (sjá hér, hér og hér).
Þeir sem hafa setið lengst í Samgönguráðuneytinu hafa allir komið úr Sjálfstæðisflokknum. Þetta eru þeir Ingólfur Jónsson sem var landbúnaðar- og samgönguráðherra á árunum 1959 til 1971. Hann fór einnig með orkumál fram til ársloka 1969 (sjá hér). Annar er Halldór Blöndal sem var landbúnaðar- og samgönguráðherra á árunum 1991 til 1995 og síðan áfram samgönguráðherra frá 1995 til 1999 (sjá hér). Sturla Böðvarsson tók við Samgönguráðuneytinu af Halldóri og var yfir því til vorsins 2007 (sjá hér) en þá tók samfylkingarþingmaðurinn, Kristján L. Möller, við sem ráðherra samgöngumála (sjá hér). Hann gegndi því embætti til haustins 2010.
Árið 1959 skipaði Ólafur Thors, þáverandi forsætisráðherra, Ingólf Jónsson yfir samgöngumálin í fimmtu og síðustu ríkistjórninni sem hann fór fyrir. Ingólfur var líka yfir landbúnaðarráðuneytinu. Þessum embættum gegndi Ingólfur til ársins 1971. Ingólfur, sem var fæddur árið 1909, sat í þrjá og hálfan áratug inni á þingi. Þennan tíma var hann yfir tveimur ráðuneytum, fyrst viðskipta- og iðnaðarráðuneytinu í þrjú ár (sjá hér) og síðan landbúnaðar- og samgönguráðuneytinu í ellefu, þrátt fyrir að hafa aðeins lokið tveggja ára námi frá Hvítárbakkaskóla.
Þess má geta að á meðan Ingólfur var í Samgönguráðuneytinu var Reykjanesbrautin malbikuð/steypt (sjá hér) og var þeirri vinnu lokið haustið 1965. Þetta var fyrsti akvegurinn utan þéttbýlis sem fékk bundið slitlag. Þess má svo geta að hringvegurinn var opnaður formlega þ. 14. júlí árið 1974 þegar Skeiðarárbrú var opnuð (sjá hér). Magnús Torfi Ólafsson var samgönguráðherra á þessum tíma en hann gegndi því embætti aðeins í þrjá mánuði undir lok kjörtímabilsins. Annað sem vekur athygli er að þeir voru alls þrír sem gegndu embætti samgönguráðherra kjörtímabilið sem hringvegurinn varð að veruleika (sjá hér).
Undirbúningurinn hafði staðið í allnokkur ár en framkvæmdin var dýr og þess vegna ekki orðið af henni. Það var Jónas Pétursson, þingmaður Austurlands, sem fékk hugmynd að því hvernig mætti afla fjármagns til að ljúka við hringveginn. Árið 1971 lagði hann fram frumvarp um happdrættislán ríkissjóðs fyrir hönd Vegasjóðs vegna vega- og brúargerða á Skeiðarársandi, er opni hringveg um landið (sjá hér) sem var samþykkt sem lög frá Alþingi 23. mars 1971 (sjá hér).
EES-aðlögun innlendra samgöngumála
Tuttugu árum eftir að Ingólfur Jónsson sat í Samgönguráðuneytinu skipaði Davíð Oddsson Halldór Blöndal yfir bæði landbúnaðinum og samgöngunum í fyrstu ríkisstjórninni sem hann fór fyrir. Halldór fór með landbúnaðarmálin samhliða samgöngumálunum í fjögur ár. Þegar nýtt kjörtímabil rann upp vorið 1995 setti Davíð Halldór yfir samgöngumálin sem hann stýrði fram til ársins 2003 (sjá hér).
Halldór varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1959. Í framhaldinu reyndi hann við tvenns konar nám við Háskólann en lauk hvorugu. Hann kom fyrst inn á þing sem varamaður árið 1971 og hafði setið þar eitthvað flest árin þegar hann fékk fast sæti árið 1979. Halldór var fastur þingmaður í tæpa þrjá áratugi.
Í tveimur síðustu færslum var gerð nokkuð ýtarleg grein fyrir því hvernig og hvenær íslenska þjóðin var gerð aðili að þjóðréttarskuldbindingum EFTA- og EES-samningsins (sjá hér og hér). Aðlögun landsréttar (sjá hér) hófst í upphafi sama þings og frumvarpið um að Ísland yrði gert aðili að evrópska efnahagssvæðinu var lagt fram (sjá hér); þ.e. 116. löggjafarþingi (1992-1993). Þetta er á þeim tíma sem Halldór Blöndal var samgönguráðherra í fyrstu ríkisstjórn Davíðs Oddssonar (sjá hér).
Þremur dögum eftir að frumvarpið um aðild Íslands að EES-samningnum lagði Halldór fram frumvarp til breytinga á lögum um samgöngumál vegna væntanlegrar aðildar (sjá feril málsins hér). Halldór Blöndal mælti fyrir frumvarpinu tæpum mánuði síðar sem var 16. september 1992. Þar sagði hann m.a:
Eins og kunnugt er krefst samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði þess að löggjöf einstakra aðildarríkja verði aðlöguð þeim réttarreglum sem aðildarríki Evrópubandalagsins og EFTA hafa komið sér saman um að eigi að gilda á svæðinu. (sjá hér).
Nokkur umræða skapaðist bæði um orð samgönguráðherra og innihald og eðli frumvarpsins sem hann mælti fyrir. Kristinn H. Gunnarsson, sem var í Alþýðubandalaginu á þessum tíma, var einn þeirra sem tók til máls þar sem hann velti fram eftirfarandi spurningum í þeim tilgangi að draga fram það sem honum þótti óeðlilegt við innihald frumvarpsins:
Hver fer með löggjafarvaldið hér? [...] Er hér þingbundin ríkisstjórn eða er þingið þræll ríkisstjórnarinnar? Það sem endurspeglast í þessu fr[um]v[arpi] er hið síðastnefnda. Í 11 greinum fr[um]v[arpsins] eru 13 heimildir til ráðherra til að gefa út reglugerðir og nánast allar heimildirnar eru orðaðar þannig að því leyti sem það er nauðsynlegt vegna skuldbindinga er leiða af samningi um Evrópskt efnahagssvæði. [...]
Ég vil segja það, virðulegi forseti, að mig undrar að ráðherra í ríkisstjórn skuli leyfa sér að koma inn á þing með fr[um]v[arp] af þessu tagi. (sjá hér (leturbreytingar eru höfundar))
Svar Halldórs Blöndal við þessu segir e.t.v. allt sem segja þarf: Samgönguráðherra er heimilt að setja reglugerðir [...] að því leyti sem það er nauðsynlegt vegna skuldbindinga er leiða af samningi um Evrópskt efnahagssvæði milli Efnahagsbandalags Evrópu (sjá hér) en flokksbróðir Kristins, Jóhann Ársælsson, fylgir því sem þótti athugavert betur eftir. Í ræðu sinni bendir Jóhann á hvers er að vænta verði aðildin að EES-samningnum samþykktur.
Þetta fr[um]v[arp] til laga um breytingu á lagaákvæðum er varða samgöngumál vegna aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu upplýsir kannski skýrt við hverju menn eiga að búast á næstu árum ef þessi samningur um Evrópska efnahagssvæðið verður að veruleika. Hér er fr[um]v[arp] lagt fram þar sem nánast er ekki gert ráð fyrir öðru en að ráðherra gefi út reglugerð og hæstv[irtur] samg[öngu]r[áð]h[erra] lýsti því þannig áðan að menn ættu ekki að hafa áhyggjur af því vegna þess að svigrúmið sem hann hefði sem ráðherra væri svo lítið að það væri ekki verið að framselja neitt vald til hans.
En hvert er verið að framselja valdið úr því að það fer ekki til hans? Það er auðvitað verið að framselja það úr landi. Það er verið að framselja það til EB [nú ESB] vegna þess að gert er ráð fyrir því í þessu fr[um]v[arpi] [...], orðalagið segir okkur að ekki eigi bara að setja reglur Efnahagsbandalagsins sem nú eru í gildi í lög á Íslandi eða láta þær taka hér gildi heldur að það nægi að setja allar nýjar reglugerðir á flæðilínuna sem liggur í gegnum samg[öngu]r[áðu]n[eytið] (sjá hér).
Á meðan Halldór Blöndal var samgönguráðherra lagði hann fram tólf lagafrumvörp sem áttu rætur að rekja til samningsins um evrópska efnahagssvæðið (sjá hér). Þessi lög lögðu grunninn að því að strandsiglingar lögðust niður og vöruflutningar færðust yfir á þjóðvegi landsins (sjá hér).
Þessi breyting komst reyndar ekki til fullra framkvæmda fyrr en í tíð Sturlu Böðvarssonar. Hún mætti allmikilli gagnrýni þegar hún var kynnt í ráðherratíð Halldórs. Þá og hingað til hefur hvað eftir annað verið bent á að vegakerfið sé hvorki gert fyrir svo mikla umferð sem landflutningarnir útheimta né eru vegirnir nógu breiðir til að vörubílar geti mæst með góðu móti alls staðar á algengustu leiðunum.
Nú er útlit fyrir að strandsiglingar fái aftur aukið vægi. Í þessu sambandi má benda á að Evrópusambandið gaf það út um svipað leyti og strandflutningar lögðust af hér að það hygðist efla sjósamgöngur og auka flutninga á sjó, ám og vötnum og siglingaleiðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og annarri mengun og létta álagi af vegunum (sjá hér).
Það hefur komið fram áður að Sturla Böðvarsson tók við Samgönguráðuneytinu af Halldóri Blöndal. Hann sat yfir ráðuneytinu til vorsins 2007. Af þeim þremur, sem hafa setið lengst yfir samgöngumálunum, er hann óvefengjanlega með mestu menntunina. Hann lauk sveinspróf í húsasmíði frá Iðnskólanum í Reykjavík tvítugur að aldri og varð síðar húsasmíðameistari. Fjórum árum eftir sveinsprófið lauk hann raungreinaprófi frá Tækniskóla Íslands og BS-prófi í byggingatæknifræði frá sama skóla 28 ára.
Sturla var kosinn inn á þing árið 1991 en hafði setið inni á þingi sem varamaður á árunum 1984 til 1987. Hann var sveitarstjóri og síðar bæjarstjóri í Stykkishólmi á árunum 1974 til 1991. Eftir að hann tók við embætti samgönguráðherra hélt hann starfi Halldórs Blöndal áfram við að aðlaga lög um samgöngur, vöruflutninga og fjarskipti að reglum EES-samningsins. Alls lagði hann fram tuttugu frumvörp að slíkum lögum.
Þekktasta embættisverk Sturlu Böðvarssonar er væntanlega frumvarp til umferðalaga sem hann kom í gegnum þingið rétt fyrir þinglok vorið 2007 (sjá hér) eða skömmu áður en annað kjörtímabilið sem hann gegndi embætti samgönguráðherra leið undir lok. Frumvarpið tók m.a. til ökuskírteina sem með lögunum urðu tvö; fyrra er bráðabirgðaskírteini til þriggja ára og það síðara fullnaðarskírteini sem gildir til sjötugs.
Það sem mestrar athygli hefur hlotið kemur ekki fram í lögunum en miðað við það sem Ögmundur Jónasson svarar fyrirspurn um ökugerði í mars 2012 þá hafa reglur um þjálfun ökunema í ökugerði komið fram í reglugerð með þessum lögum (sjá hér). Það er þó ekki ökugerðið sjálft sem hefur kallað á háværustu gagnrýnina heldur það að Sturla var ekki aðeins stjórnarformaður í Ökugerði Íslands heldur var hann í stjórn Byggðastofnunar þegar fyrirtækið fékk þaðan 200 milljóna stofnlán (sjá hér).
Nýleg skýrsla sem nefnist: Eignastýring þjóðvegakerfisins: Greining áhrifa og ávinnings gefur jafnvel tilefni til að álykta að framtíðin feli það í skauti sér að enn frekari einkavæðingar á sviði samgöngumála sé að vænta í framtíðinni. Í inngangi skýrslunnar er vísað til samgönguáætlunar fyrir árin 2011-2020 sem lögð var fram á Alþingi í lok ársins 2011 (sjá hér). Þar segir: Greindur verði ávinningur af áhrifum aukinnar notkunar eignastýringar (e. asset management), þ.e. kerfisbundnu bókhaldslegu utanumhaldi samgöngumannvirkja. (sjá hér) Samkvæmt skýrslunni er einn ávinningur sá að gert er ráð fyrir að þeir sem gegni embætti samgönguráðherra séu læsari á virði samgöngumála ef það er sett fram í tölum:
Vegakerfið er byggt upp til langs tíma, en ráðherrar samgöngumála eru yfirleitt bara skipaðir til fjögurra ára í senn (aðeins 5 af 15 fyrstu ráðherrum samgöngumála náðu því að vera heilt kjörtímabil í embætti). Þeir sem mestu ráða þegar kemur að uppbyggingu og rekstri vegarkerfisins eru því oftar en ekki stutt í starfi, sumir bara nokkra mánuði, og því mjög mikilvægt að hægt sé að koma þeim inn í hlutina fljótt og vel og á auðskiljanlegan hátt.
Með stöðluðum mælingum og ástandsvísun öðlast stjórnendur nokkurs konar mælaborð sem gefa til kynna þróunina. Fáir mælikvarðar eru jafn auðskiljanlegir og fjárhagslegt virði eigna. (sjá hér)
Það má kannski benda á það hér að aðeins einn ráðherra sat á stóli samgönguráðherra í nokkra mánuði en það var Magnús Torfi Ólafsson sem opnaði Skeiðarárbrú sumarið 1974. Tíð stjórnarskipti á árunum 1971 til 1991 hafði þær afleiðingar að tíð ráðherraskipti voru í öllum ráðuneytum íslensku stjórnsýslunnar og hefur þá væntanlega komið niður á öllum sameiginlegum málaflokkum samfélagsins. Það er svo líka alls óvíst að þeir séu margir sem vilji meina að hagur samgöngumála hafi vænkast mjög á Íslandi á síðustu áratubum við það að þeir Halldór Blöndal og Sturla Böðvarsson sátu í Samgönguráðuneytinu lengur en forverar þeirra eða samtals í 16 ár.
Fyrsti mannréttindaráðherrannEitt af stefnumálum síðustu ríkisstjórnar sneri að fækkun ráðuneyta til að ná sem mestum samlegðaráhrifum. (sjá hér) Í stjórnarsáttmála Samfylkingar og VG kemur ekki beinlínis fram að til standi að leggja kirkjumálaráðuneytið niður en það felst þó væntanlega í þessu hér:
Í nýju ráðuneyti mannréttinda og dómsmála verður til viðbótar við verkefni sem fyrir eru, lögð áhersla á verkefni á sviði lýð- og mannréttinda auk þess sem öll framkvæmd almennra kosninga færist þangað, en hún er nú dreifð á þrjú ráðuneyti. Þangað færast ennfremur neytendamál. (sjá hér)
Haustið 2009 var fyrsta skrefið stigið þegar embættisheiti Rögnu Árnadóttur, sem var skipuð dóms og kirkjumálaráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, var breytt í dóms- og mannréttindaráðherra (sjá hér). Ragna Árnadóttir er því fyrsti mannréttindaráðherrann. Um feril Rögnu var fjallað í upphafsfærslu þessa verkefnisins sem ber heitið: Mönnun brúarinnar.
Þar kemur m.a. fram að Ragna útskrifaðist frá Háskólanum í Lundi með LL.M.-gráðu í Evrópurétti árið 2000. Á árunum 1991 til 1995 starfaði hún sem lögfræðingur við nefndadeild Alþingis. Eftir að hún lauk meistaragráðunni í Lundi starfaði hún sem skrifstofustjóri í Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu á árunum 2002 til 2009. Á þeim tíma var hún staðgengill ráðuneytisstjóra þrjú síðustu árin.
Á sama tíma og Ragna var í Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu starfaði hún auk þess í fjölda nefnda. Þar á meðal var hún i stýrinefnd Evrópuráðsins um mannréttindi (CDDH) frá upphafi starfstímans og til ársins 2005. Árið 2005 var hún í sendinefndum Íslands við fyrirtökur hjá eftirlitsnefndum Sameinuðu þjóðanna eða mannréttindanefnd (CCPR) og nefnd um framkvæmd samnings um afnám alls kynþáttamisréttis (CERD) 2005.
Þrátt fyrir að Ragna væri langvinsælasti ráðherra síðustu ríkisstjórnar samkvæmt ánægjuvog Gallups (sjá hér) var hún látin víkja fyrir Ögmundi Jónassyni haustið 2010. Ögmundur tók reyndar ekki aðeins við dóms- og kirkjumálaráðuneytinu á þessum tíma heldur líka samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu af Kristjáni L. Möller.
Í upphafi ársins 2011 var þessum ráðuneytum steypt saman í eitt og gefið nýtt heiti; þ.e. Innanríkisráðuneytið. Það var líka eftir stjórnarsáttmála síðustu ríkisstjórnar þar sem segir: Fyrir lok kjörtímabilsins er gert ráð fyrir því að lögfest verði sameining samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytis og mannréttinda- og dómsmála ráðuneytis í nýju innanríkisráðuneyti. (sjá hér)
Það er næsta víst að sú áhersla, sem er að finna í samstarfsyfirlýsingu fyrrverandi ríkisstjórnarflokka, á mannréttinda- og innflytjendamál standi í beinum tengslum við þá ætlan að koma Íslandi inn í Evrópusambandið. Sú aðlögun sem átti sér stað á síðasta kjörtímabili að regluverki alþjóðlegra skuldbindinga um mannréttindamál var þó hafin nokkru áður.
Eins og kom fram í færslunni um Utanríkisráðuneytið og aðdraganda hans voru Íslendingar gerðir aðilar að Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna undir lok ársins 1948 og Mannréttindasáttmála Evrópuráðsins haustið 1953 (sjá hér). Með aðildinni að EES-samningnum í upphafi ársins 1994 jókst þrýstingurinn að hálfu þeirra Evrópustofnana sem íslensk stjórnvöld höfðu framselt vald sitt til með framantöldum samningum og öðrum viðlíka á áratugunum sem eru liðnir frá lokum seinni heimstyrjaldarinnar.
Mannréttindasáttmáli Evrópu var lögfestur þegar árið 1994 (sjá hér). Ári síðar voru gerðar breytingar á Stjórnarskránni í þeim tilgangi að færa ákvæði mannréttindakafla hennar til samræmis við alþjóðlega mannréttindasáttmála sem Ísland er aðili að. Í flutningsræðu með lagafrumvarpinu um breytingar á stjórnskipunarrétti landsins telur Geir H. Haarde þá helstu upp hér:
Þeir alþjóðlegu mannréttindasamningar sem mestu máli skipta í þessu tilliti eru mannréttindasáttmáli Evrópu sem var lögfestur hér á landi með lögum nr. 62/1994, tveir samningar á vegum Sameinuðu þjóðanna, annars vegar um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og hins vegar samningur um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, svo og félagsmálasáttmáli Evrópu. (sjá hér)
Á sama tíma og Mannréttindasáttmáli Evrópu fékk lagagildi á Íslandi (sjá hér) voru viðaukar hans, sem höfðu orðið til frá árinu 1950, lögfestir. Síðan hafa bæst við fjórir sem hafa líka öðlast lagagildi hér á landi. Sá síðasti árið 2010 (sjá hér). Aðrir áfangar sem eru í beinu samhengi og vert er að nefna hér eru lög um útlendinga frá árinu 2002 (sjá feril málsins hér) og frumvarp að lögum um atvinnuréttindi útlendinga sem var afgreitt frá Alþingi það sama ár (sjá feril málsins hér). Það má vekja athygli á því að árið eftir hófust framkvæmdir við Kárahnjúka eins og hefur verið rakið hér.
Framantalið stendur í beinu samhengi við þær þjóðréttarskuldbindingar sem íslensk stjórnvöld höfðu undirgengist fyrir Íslands hönd með aðild að alþjóðlegum samningum um mannréttindi en þó virðist einsýnt að í aðildinni að EES-samningnum liggi meginskuldbindingin. Þetta leiðir óneitanlega hugann að þeim orðum sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafði eftir Lúðvík Ingvarssyni, fyrrverandi lagaprófessor við Hásóla Íslands, í fyrstu umræðu um EES-samninginn þegar hann lá fyrir Alþingi sumarið 1992 (sjá feril málsins hér).
Í grein sem Lúðvík skrifaði í Morgunblaðið af þessu tilefni bendir hann á að þegar Íslendingar voru gerðir aðilar að Mannréttindasáttmála Evrópu árið 1950 hafi verið brotið gegn Stjórnarskránni með tvennum hætti. Í fyrsta lagi með því að Í sáttmálanum er erlendum dómstóli veitt æðsta dómsvald um íslensk málefni á tilteknu sviði, þar sem Hæstiréttur Íslands var áður æðsta dómstig. og í öðru lagi fyrir það að Alþingi samþykkti gildistöku mannréttindasáttmálans með þingsályktun en í 59. gr. Stjórnarskrárinnar segir: Skipun dómsvaldsins verður eigi ákveðin nema með lögum. (sjá hér) Í grein Lúðvíks Ingvarssonar segir ennfremur:
,,Frá upphafi bar Mannréttindasáttmáli Evrópu það með sér, [...] ,,að í honum fólst afsal ríkisvalds, þ.e. dómsvalds á því réttarsviði sem hann fjallar um. Má t.d. um þetta benda á 49., 52. og 53. gr. sáttmálans. Hann geymir reyndar líka ákvæði sem fela í sér að erlent stjórnvald er að nokkru leyti sett yfir íslenska handhafa löggjafarvalds og framkvæmdarvalds, sbr. 32. gr. (sjá hér)
Það er ekki að sjá að nokkur þeirra stjórnmálamanna sem voru á þingi sumarið 1992 eða þeir sem hafa setið þar síðan hafi tekið nokkurt mark á ábendingum Lúðvíks Ingvarssonar. Dómsmálaráðherrarnir: Þorsteinn Pálsson, Sólveig Pétursdóttir og Björn Bjarnason lögðu fram frumvörp sem urðu að lögum sem hafa grundvallað forgangsáhrif ESB-réttar og bein réttaráhrif gagnvart réttarkerfi (sjá hér) landsins hvað varðar mannréttindi hvers konar. Samkvæmt því sem segir hér hefur það m.a. leitt til þess að Mannréttindasáttmáli Evrópu hefur stöðu nokkurs konar stjórnarskrárígildis á Íslandi (sjá hér).
EB-tilskipanir skera niður velferðarkerfið
Samstarfsyfirlýsing Samfylkingarinnar og Vinstri grænna gaf fyrirheit um að áfram yrði haldið á þessari sömu braut þar sem segir: Mannréttindasamningar sem Ísland hefur undirritað og fullgilt verði leiddir í lög ásamt því að gerð verði áætlun í mannréttindamálum að norrænni fyrirmynd. (sjá hér) Það kom í hlut vinsælasta ráðherrans í síðustu ríkisstjórn að uppfylla þessi markmið svo og Ögmundar Jónassonar sem tók við af Rögnu Árnadóttur sem dóms- og mannréttindaráðherra haustið 2010 eins og áður hefur komið fram.
Tæpum mánuði áður en Ragna Árnadóttir yfirgaf Dóms- og mannréttindaráðuneytið voru þrjú frumvörp hennar um breytingar á lögum nr. 96/2002 samþykkt á Alþingi. Frumvörpin vörðuðu dvalarleyfi fórnarlamba mannssals, hælismál og Schengen-samstarfið. Það vekur athygli að í greinargerðum með frumvörpunum er almennt ekki gert ráð fyrir kostnaðarauka fyrir ríkissjóð vegna þessara lagabreytinga ef það sem snýr að hælisleitendum er undarskilið. Þar segir m.a:
Kostnaður ríkissjóðs vegna hvers einstaklings sem veitt hefur verið dvalarleyfi af mannúðarástæðum hefur verið rúm 1 m.kr. á ári hafi viðkomandi verið tekjulaus í sex mánuði en tæpar 2 m.kr. hafi tekjuleysið varað í heilt ár. Á árinu 2009 var 10 hælisleitendum veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum og 7 á árinu 2008. Fyrir aukningu um hverja 10 hælisleitendur vegna frumvarpsins gætu útgjöld ríkisins því aukist um 1020 m.kr. á ári. [...]
Auk þess má gera ráð fyrir að kostnaðarauki vegna annarra úrræða í frumvarpinu geti verið á bilinu 812 m.kr. (sjá hér)
Þegar þetta var voru liðin tæp tvö ár frá bankahruninu. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hafði haldið um stjórnartaumana í rúmt eitt og hálft ár. Þrátt fyrir tvær tilraunir ríkisstjórnarinnar til að velta Icesave-skuldum Landsbankans yfir á herðar almennings og þó ekkert bólaði enn á raunhæfum úrræðum varðandi leiðréttingar og afleiðingar efnahagshrunsins voru þeir enn þó nokkrir sem treystu á að uppgjörið sem var lofað í kjölfar útkomu Rannsóknarskýrslunnar væri skammt undan (sjá hér).
Í ljósi þeirra afleiðinga sem bankahrunið hafði haft á kjör almennings, með samdrætti á öllum sviðum ásamt niðurskurði á mennta- og velferðarkerfinu, hefði mátt búast við að lagafrumvörp með óljósum og/eða vanáætluðum kostnaðarauka fyrir ríkissjóð hefði mætt einhverri andstöðu á Alþingi. Það var öðru nær. Þvert á móti hlutu frumvörpin tiltölulega fyrirstöðulausa meðferð og sumir höfðu m.a. hástemmd orð um gildi frumvarpsins um hælisleitendur fyrir orðspor Alþingis.
Miðað við samstarfsyfirlýsingu þáverandi ríkisstjórnar kemur það e.t.v. ekki á óvart að einn þingmaður Samfylkingarinnar taldi að: þegar litið verður yfir þingið nú, [...] verði þessi lög, ef samþykkt verða, talin eitt af því merkasta sem það hefur gert. (sjá hér) Hins vegar vekur það e.t.v. furðu einhverra að einn þingmaður Hreyfingarinnar tók jfnvel enn dýpra í árinni þar sem hann hélt því fram að: þetta mál er rós í hnappagatið fyrir Alþingi og fyrir Ísland og við megum öll vera stolt af því (sjá hér).
Vorið eftir sendi Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) Innanríkisráðuneytinu bréf með fyrirspurn í 28 liðum. Spurningarnar sneru að stöðu innleiðingar Íslands á tilskipun 2004/38/EB um frjálsa för, þar sem gerðar voru nokkrar athugasemdir við innleiðingu Íslands á tilskipuninni. Til stóð að gera úrbætur strax haustið eftir en það reyndist ekki raunhæft. Ári síðar mælti Ögmundur Jónasson fyrir frumvarpi til laga um réttaraðstoð fyrir hælisleitendur. Samkvæmt því sem kemur fram í frumvarpinu fól það í sér þær breytingar á lögum um útlendinga sem telja má óhjákvæmilegar á þessu stigi í ljósi athugasemda ESA. (sjá hér)
Það vekur sérstaka athygli að í lok fylgiskjalsins með frumvarpinu segir að: Verði frumvarpið að lögum er ekki ástæða til að ætla að það hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs. (sjá hér) Í umræðum um frumvarpið benti Ragnheiður Ríkharðsdóttir á að þetta gæti ekki staðist:
Ætlunin með frumvarpinu er sögð sú að tryggja hælisleitendum réttaraðstoð frá fyrstu stigum málsmeðferðar á hælisumsókn þeirra hjá íslenskum stjórnvöldum. Það er af hinu góða [...] Hins vegar er í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins ekki talið að þetta muni hafa neinn kostnað í för með sér. Það stenst ekki. Það stenst ekki að það eigi að veita hælisleitendum réttaraðstoð frá fyrstu stigum og að í frumvarpinu og hjá fjárlagaskrifstofunni sé ekki gert ráð fyrir neinum kostnaði vegna þess. (sjá hér)
Þeir fáu sem tóku þátt í umræðum um þetta frumvarp í þingsal gagnrýndu það reyndar fyrir fleiri þætti en ekki verður farið ýtarlegar í þá hér þar sem staðhæfingar um óveruleg áhrif á ríkissjóð verða áfram í brennidepli. Í kjölfar framangreinds lagafrumvarps um hælisleitendur og vegabréfsáritanir mælti Ögmundur Jónasson fyrir öðru frumvarpi um Fjölmenningarsetur og innflytjendaráð. Í fylgiskjali með frumvarpinu segir:
Ef frumvarpið verður lögfest óbreytt er ekki ástæða til að ætla að það hafi í sjálfu sér teljandi áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Verði talin ástæða til að auka umsvif og fjölga störfum á næstu árum hjá Fjölmenningarsetrinu vegna nýrra áforma um uppbyggingu málaflokksins verður að gera ráð fyrir að velferðarráðuneytið mæti útgjaldaaukningu á því sviði innan síns útgjaldaramma með forgangsröðun fjárheimilda frá öðrum verkefnum. (sjá hér)
Sá fyrirvari sem er settur um að kostnaður kunni að aukast stendur í beinu samhengi við fyrirhugaðar innleiðingar á tilskipunum Evrópusambandsins um framkvæmd meginreglunnar um jafna meðferð manna án tillits til kynþáttar eða þjóðernis nr. 2000/43/EB [...] og tilskipun um almennar reglur um jafna meðferð á vinnumarkaði og í atvinnulífi nr. 2000/78/EB (sjá hér).
Vigdís Hauksdóttir tók virkan þátt í umræðum um þetta frumvarp þar sem hún benti m.a. á samhengi þessara laga við það sem kom fram í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna, Samfylkingar og VG, þar sem segir að Rík áhersla verður lögð á að tryggja rétt og þátttöku fólks af erlendum uppruna og lög um hælisleitendur verði endurskoðuð. Ný lög sett um málefni innflytjenda. (sjá hér) Jafnframt bendir hún á að:
árið 2000 voru tæplega 8.500 innflytjendur hér á landi en núna 11 árum seinna eru þeir orðnir 25.693 [25.926 árið 2013]. Ásóknin í að koma hingað er augljóslega að aukast. Samkvæmt tölum frá Útlendingastofnun hefur orðið stórkostleg fjölgun á innflytjendum hingað til landsins síðan umsóknin um aðild að Evrópusambandinu var lögð inn sumarið 2009, sem er athyglisvert. (sjá hér)
Í skýrslu sem kom út í júlí á síðasta ári kemur fram að þegar börn innflytjenda eru talin með eru þeir 29.130. Það þýðir að 9,1% landsmanna er annaðhvort innflytjandi eða af annarri kynslóð innflytjenda. (sjá hér) Til samanburðar voru innflytjendur 12% landsmanna í Noregi fyrri hluta árs 2012 en Noregur er það land sem hefur verið talað um að nýbúum hafi fjölgað mest (sjá hér). Í samhengi við framantalið er e.t.v. rétt að minna á að:
Flóttamannasamningurinn sem gerður var á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1951 varðandi stöðu flóttamanna er lykilskjal sem ætlað er að ákvarða hver sé flóttamaður, hver réttur þeirra sé og hverjar séu lagalegar skuldbindingar ríkja þegar kemur að málefnum flóttamanna. Viðauki frá 1967 um réttarstöðu flóttamanna lagði af landfræðilegar og tímabundnar takmarkanir úr samningnum frá 1951. (sjá hér)
Af einhverjum ástæðum hefur Evrópusambandið þrýst mjög á ríki Evrópu nú rúmlega hálfri öld síðar að veita meintum flóttamönnum fyrirmyndar þjónustu. Íslensk stjórnvöld hafa gengið svo hart fram í að þóknast þessari tilskipun á nýliðnum árum að það hefur komið alvarlega niður á annarri þjónustu. Einhverjir hafa jafnvel bent á að sú skerðing sem er farin að blasa við á ýmsum sviðum þeirrar velferðarþjónustu, sem áður mátti kenna við norræna velferð, bitni svo hart á þeim sem þurfa á henni að halda að það megi kallast mannréttindabrot á íslenskum borgurum (sjá hér).
Fjölgun hælisleitenda á Íslandi hefur farið stigvaxandi í kjölfar þess að lagafrumvörpin sem Ragna Árnadóttir mælti fyrir voru samþykkt haustið 2010. Kostnaðurinn átti líka eftir að fara umtalsvert fram yfir þær 10-20 milljónir sem Ragna hafði áætlað sem kostnaðarauka (sjá hér). Þó kostnaður væri ekki allur kominn í ljós árið 2012 þá var álagið á Útlendingastofnun orðið slíkt að það var afar óraunsætt að ætla að aðlögun íslenskra laga um hælisleitendur að reglugerðum Evrópusambandsins hefði engin eða óveruleg áhrif á stöðu ríkissjóðs.
Mánuði eftir að rýmkunin, sem fólst í lagafrumvarpinu, sem Ögmundur Jónasson áætlaði að hefði engan kostnað í för með sér, var samþykkt birtist viðtal við Kristínu Völundardóttur, forstjóra Útlendingastofnunar, þar sem hún sagði:
Íslenska ríkið kostar uppihald og umönnun hælisleitenda og sú umönnun er miklu dýrari en launakostnaður eins starfsmanns og einn starfsmaður getur alltaf klárað fleiri en eitt mál í mánuði. Þetta er einfalt reikningsdæmi, þannig að því fleiri starfsmenn sem sinna þessu, því ódýrara verður þetta fyrir ríkið og öllum líður betur, bæði umsækjendum og starfsfólki. (sjá hér)
Í byrjun árs 2013 brast á enn stærri flóðbyglja hælisleitenda en hafði sést hér á landiáður. Í mars varð ekki lengur horft fram hjá því að löggjöfin hafði óhjákvæmilegan kostnaðarauka í för með sér. Ljóst er að meira fjármagn þarf til að greiða úr hælisleitendamálum á Íslandi og hugsanlega verður fjölgað í mannaflanum sem sinnir málaflokknum. (sjá hér) Ekki er samt að sjá að þó þetta sé viðurkennt að það hafi verið sett í samhengi við innleiðingu þeirra tilskipana Evrópusambandsins sem hér hafa verið raktar.
Miðað við upplýsingar Innanríkisráðuneytisins frá því í ágúst 2013 er kostnaður ríkisins vegna hælisleitenda meðan umsóknir þeirra eru gaumgæfðar [...] 7.449 kr. á dag. (sjá hér) Kostnaðurinn við umönnun hælisleitenda nam 220 milljónum fyrir árið 2012 (sjá hér) og 600 milljónum króna árið 2013 (sjá hér).
Hér má benda á að á meðan kostnaður vegna þeirra 172 sem sóttu um hæli hér á landi nam 600 milljónum króna á síðasta ári benda gögn Reykjavíkurborgar til þess að 179 einstaklingar séu heimilislausir og hafist við á götum borgarinnar. (sjá hér) Í samhengi við þessar upplýsingar voru sett saman drög að stefnu sem var kynnt í upphafi þessa árs. Heiða Kristín Helgadóttir, formaður starfshóps sem vann stefnuna, segir heildarkostnað við málaflokkinn í kringum 400 milljónir króna. (sjá hér)
Það má minna á að gerður var samningur við Reykjanesbæ um að taka á móti þeim sem sækja um hæli hér á landi og sjá um nú lögbundna þjónustu við þá. Vorið 2013 voru hælisleitendurnir sem voru á vegum Reykjanesbæjar orðnir 190. Þá lýstu forsvarsmenn bæjarins því yfir að ekki væri svigrúm til að taka við fleiri hælisleitendum. (sjá hér) Í þessu ljósi lýsti Innanríkisráðuneytið eftir fleiri sveitarfélögum sem væru viljug til að taka að sér sams konar þjónustu og Reykjanesbær við hælisleitendur (sjá hér)
Um áramót tóku gildi þjónustusamningar innanríkisráðuneytisins við Reykjavíkurborg og Reykjanesbæ um þjónustu við hælisleitendur á meðan mál þeirra eru til meðferðar hér á landi. Í þeim felst að Reykjavík tekur við þjónustunni við fimmtíu einhleypa karlmenn, en í Reykjanesbæ, sem þjónustaði áður alla hælisleitendur, eru nú að því er fram kemur á vef bæjarins 79 manns, aðallega fjölskyldufólk, enda eru þar á meðal 20 börn. (sjá hér)
Þeir 50 hælisleitendur sem eru í Reykjavík búa í um fimmtán íbúðum sem borgin leigir á almennum markaði með húsgögnum. (sjá hér) Miðað við gögn Reykjavíkurborgar eru á sama tíma a.m.k. 64 konur og 112 karlar heimilislausir í Reykjavík. Flestir þeirra eiga uppruna sinn hér á landi eða 89,4%. Aðrir koma frá öðrum ríkjum Evrópu. Flestir frá Austur-Evrópu (sjá hér).
Yngsti einstaklingurinn meðal heimilislausra í Reykjavík er 18 ára og sá elsti 75 ára. Fjölmennustu aldurshóparnir sem hafast að stórum hluta á götunni eru á aldursbilinu 21 til 30 (24%) og 51 til 60 ára (22%). Af þeim 179 sem samkvæmt gögnum Reykjavíkurborgar tilheyra þeim hópi sem stundum er nefndur útigangsfólk hafa a.m.k. 38% verið á götunni í yfir tvö ár en yfir helmingur hópsins segist gista við ótryggar aðstæður (sjá hér). Fyrir þá sem ekki skilja hvað í slíkri staðhæfingu felst má benda á að aðeins eru til 34 gistirými fyrir karla sem eru á götunni. Þegar 112 eru heimilislausir er ljóst að það komast ekki allir í rúm þannig að einhverjir verða að finna önnur ráð til að komast í skjól yfir nóttina.
Það ber að athuga að ofangreind gögn eru byggð á skýrslu frá haustinu 2012 en vorið 2012 segir Þorleifur Gunnlaugsson um aðstæður útigangsfólks í Reykjavík: Öll úrræðin eru nú fullnýtt og eins og áður sagði er nú stöðugt verið að vísa frá neyðarskýli fyrir karla. Árið 2007 dugðu 16 rúm en í dag duga ekki 34 og við þessu verður að bregðast. (sjá hér) Hann bendir líka á að haustið 2008 var samþykkt stefna Reykjavíkurborgar í málefnum utangarðsfólks 2008 2012. Í plagginu segir skýrum stöfum: Markmið með stefnumótun í málefnum utangarðsfólks er að koma í veg fyrir útigang og tryggja öllum viðunandi húsaskjól (sjá hér)
Helstu heimildir
Ráherraskipan í síðara ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttir
Ráðherrar í núverandi ríkisstjórn
Ríkisstjórnir og ráðherrar frá 1904-1942
Ríkisstjórnartal frá stofnun lýðveldis
Heimildir úr laga- og ræðusafni
Lög samþykkt á Alþingi (stjórnartíðindanúmer laga)
Ræður þingmanna (á árunum 1907-2014)
Ferlar einstakra mála inni á Alþingi
Málefni innflytjenda (stjórnsýsla, Fjölmenningarsetur, innflytjendaráð o.fl). frá 13. september til 13. nóvember 2012.
Útlendingar (vegabréfsáritanir, hælisleitendur og EES-reglur). frá 31. mars til 19. júní 2012.
Breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands (fækkun ráðuneyta). frá 30. mars til 11. apríl 2012.
Stjórnarráð Íslands (sameining ráðuneyta). frá 9. júní til 9. september 2010.
Útlendingar (dvalarleyfi fórnarlamba mannsals). frá 31. mars til 9. september 2010.
Útlendingar (hælismál). 31. mars til 9. september 2010.
Útlendingar (þátttaka í samstarfi á ytri landamærum, framfærsla o.fl.) frá 31. mars til 9. september 2010.
Strandsiglingar (uppbygging). frá 15. október til 11. nóvember 2008.
Mannréttindasáttmáli Evrópu (eftirlitskerfi samningsins) frá 16. mars til 4. maí 2005
Mannréttindasáttmáli Evrópu (13. samningsviðauki) frá 13. október til 5. desember 2003.
Strandsiglingar. frá 5. febrúar til 19. apríl 2002.
Schengen upplýsingakerfið á Íslandi. frá 30. nóvember 1999 til 7. apríl 2000.
Stjórnskipunarlög (mannréttindaákvæði) frá 17. maí til 15. júní 1995
Mannréttindasáttmáli Evrópu. frá 18. október 1993 til 6. maí 1994.
Efling Akureyrar og Eyjafjarðarsvæðisins sem miðstöðvar fræðslu á sviði sjávarútvegs. frá 27. nóvember til 20 maí 1992.
Hringvegurinn. frá 19. nóvember 1991 til 10. mars 1992.
Heimildir úr fjölmiðlum (um samgöngumál)
Strandsiglingar spara fyrirtækjum stórfé. visir.is 28. febrúar 2014.
Oftast innanbúðarmaður. mbl.is 1. febrúar 2014.
Eimskip hefur strandsiglingar með viðkomu á Ísafirði. BB.is 7. mars 2013
Brýnt að gera úttekt á úrbótum í vöruflutningum. BB 7. október 2011
Þögn um veð ökugerðis. DV.is 23. júlí 2011.
Kennitöluflakkara lofað hámarksláni. DV.is 19. júlí 2011.
Sturla beggja vegna borðs. DV. 11. júní 2011.
Helmingur viðhaldskostnaðar vegna vöruflutningabíla. mbl.is 23. febrúar 2011.
Flutningabíll slítur vegum á við 9 þúsund fólksbíla. mbl.is 6. maí 2008
Þrýst á þjóðvegina. mbl.is 12. febrúar 2006.
Slysum í landflutningum fjölgar ört. visir.is 9. febrúar 2006.
Ökugerði í sjónmáli. mbl.is 15. júlí 2005.
Eimskip hætta strandsiglingum. mbl.is 31. júlí 2004.
Mikill sigur að fá ökugerði. mbl.is 8. apríl 2004
Guðmundur Rúnar Svansson. Söguleg ákvörðun. Deiglan 6. október 2003.
Ákvörðun um strandsiglingar fyrir áramót. mbl.is 28. september 2006.
Nú stækkar landið. Morgunblaðið 12. júlí 1974.
Heimildir úr fjölmiðlum (um málefni hælisleitenda og útigangsfólks)
Metfjöldi hælisumsókna hér á landi á síðasta ári. mbl.is 16. mars 2014.
Auðveldari félagsleg aðlögun hælisleitenda í borginni. visir.is 20. febrúar 2014.
Útigangsfólk kemur víða að. ruv.is 14. febrúar 2014.
Umsóknum hælisleitenda fjölgaði nærri um 130 prósent á tveimur árum. visir.is 28. janúar 2014.
Hefur safnað 200.000 krónum fyrir útigangsfólk í Reykjavík. dv.is 16 október 2013.
Sveitarfélög viljug til að þjónusta hælisleitendur. visir.is 24. ágúst 2013.
Neyðarástand í Reykjavík. eyjan.is 15. maí 2013.
Samið um aðstoð við hælisleitendur. mbl.is 23. apríl 2013.
Hafa ekki undan að útvega fjölskyldum íbúðir. mbl.is 8. apríl 2013.
Meira fjármagn þarf til hælisleitenda. mbl.is 23. mars 2013.
Geti áfram ákært vegna falspappíra. mbl.is 8. mars 2013.
Janúar ekki lengur rólegur mánuður. mbl.is 9. febrúar 2013.
Endurskoða hælisumsóknarferlið. mbl.is 21. janúar 2013.
Orð tekin úr samhengi. mbl.is 19. janúar 2013.
Sækja til Íslands til að fá frítt uppihald. ruv.is 18. janúar 2013
Harður heimur vímusjúkra á götunni. SÁÁ-blaðið 9. október 2012
Hælisleitendur flytja í Klampenborg. Víkurfréttir 30. júlí 2012
Forstjóri Útlendingastofnunar: Þetta er ekki boðlegt. mbl. 23. júlí 2012.
Aukin fjárframlög til Útlendingastofnunar rædd. mbl.is 15. maí 2012.
Borgarverðir aðstoði útigangsfólk. visir.is 19. mars 2012.
Sjá fréttaknippi um hælisleitendur á mbl.is
Heimildir frá Innanríkisráðuneytinu (og eldri ráðuneytum sem heyra undir það nú)
Fyrri ráðherrar. Innanríkisráðuneytið.
Greinargerð um breytingar á flutningum innanlands. Samgönguráðuneytið o.fl. október 2004.
Mat á hagkvæmni strandflutninga á Íslandi. Innanríkisráðuneytið. 2011
Málaflokkar. Innanríkisráðuneytið.
Reglugerð um vöruflutninga á vegum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið. 1995.
Reglugerð um ökuskírteini. Innanríkisráðuneytið. 2011.
Samanburður á beinni gjaldtöku og samfélagslegum kostnaði við flutninga. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. 2005
Samgöngur í tölum. Samgönguráðuneytið 1999.
Samgöngur í þágu þjóðar. Samgönguráðuneytið 2007.
Skýrsla nefndar um flutningskostnað. Samgönguráðuneytið janúar 2003.
Undirbúa ökugerði á Akranesi. Innanríkisráðuneytið. 24. apríl 2006.
Yfirlit yfir lög og reglugerðir eftir málaflokkum. Innanríkisráðuneytið.
Heimildir úr ýmsum áttum
Athugasemdir SVÞ vegna strandsiglinga sendar á Eftirlitsstofnun EFTA. Samtök verslunar og þjónustu.
Aukin hagkvæmni í landflutningum. Samtök atvinnulífsins.
Eignastýring þjóðvegakerfisins. Janúar. 2014.
Erla Björg Sigurðardóttir. Kortlagning á fjölda og högum útigangsfólks í Reykjavík. 2012.
Fjölþættur ávinningur strandsiglinga. Landvernd 3. ágúst 2004.
Flóttamenn og hælisleitendur. Mannréttindaskrifstofa Íslands.
Fækkun ráðuneyta úr 12 í 9. Forsætisráðuneytið.
Hringvegur um Ísland. Þjóðaskjalasafn Íslands.
Jón Valur Jensson. Tryggvi Þórhallsson. gardur.is [án árs]
Mannréttindasáttmáli Evrópu (öðlaðist gildi á Íslandi 3. september 1953)
Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna (samþykkt 10. desember 1948)
Samningur um réttarstöðu flóttamanna (Genf 28. júlí 1959)
Samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs
Tölfræðilegar upplýsingar um erlenda ríkisborgara og innflytjendur á Íslandi. Fjölmenningarsetur. júlí 2013
Um Ökugerði Íslands
Verkefnaskrá ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinsri grænna
Vöruflutningar á íslenskum þjóðvegum i aldarlok. Skýrsla Vegargerðarinnar. 2003.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.4.2014 kl. 15:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Utanríkisráðuneytið
16.3.2014 | 19:23
Þetta er næstsíðasta færslan í þessum flokki þar sem ferill ráðherra í núverandi og fyrrverandi ríkisstjórn hafa verið bornir saman í þeim tilgangi að draga það fram hvað liggur skipun æðstu embættismanna ráðuneytanna til grundvallar. Hér verða ferlar þeirrar Össurar Skarphéðinssonar og Gunnars Braga Sveinssonar skoðaðir í þessum tilgangi.
Utanríkismálin hafa verið gríðarlega umfangsmikill þáttur í íslenskri stjórnsýslu undanfarna áratugi. Af þeim ástæðum var horfið til þeirrar ákvörðunar að setja þessari færslu aðdraganda sem hlaut heitið Til Evrópusambandsstýringar Íslands. Ástæðurnar sem liggja ákvörðuninni að baki eru einkum tvær: Evrópusambandið hefur verið mjög fyrirferðamikið í allri pólitík á Íslandi á undanförnum árum og því bæði gagnlegt og forvitnileg að skoða forleikinn að því að svo er komið. Hin er svo bundin því hvað efnið, sem liggur núverandi stöðu í Evrópumálum Íslands til grundvallar, er viðamikið.
Eins og hefur verið tekið fram áður þá er þetta verkefni orðið töluvert umfangsmeira en lagt var af stað með í upphafi. Þar af leiðandi hafa færslurnar margar orðið lengri en góðu hófi gegnir. Hins vegar má líta á þær sem heimildabanka fyrir framhaldið. Eins og áður segir er þetta næstsíðasta færslan með samanburði á ferilskrám núverandi og fyrrverandi ráðherra þar sem ráherrar Innanríkisráðuneytisins eru nú einir eftir.
Hér verður dregið saman það allra helsta úr síðustu færslu og einhverju bætt við. Viðbæturnar tengjast aðallega embættisferli Össurar Skarphéðinssonar sem stendur vissulega allur í beinu sambandi við núverandi stöðu.
Íslensk stjórnvöld með eylandið í útrás
Það kom fram í síðustu færslu að saga Utanríkisráðuneytisins á upphaf sitt í hernámi Danmerkur vorið 1940. Jafnaðarmaðurinn Stefán Jóh. Stefánsson var þá skipaður fyrsti utanríkisráðherrann í stjórn Hermanns Jónassonar sem þá var forsætisráðherra yfir þriðju stjórninni sem hann fór fyrir (sjá hér).
Utanríkisráðuneytið er því rétt tæplega 75 ára gamalt. Aðeins nokkrum árum eldra en sjálfstæði landsins en fyrstu lög voru sett um ráðuneytið í byrjun árs 1941. Af einhverjum ástæðum er útlit fyrir að frá upphafi hafi meiri orka farið í það að tengja Ísland við þau ríki sem hafa haft yfirburðastöðu í efnahagslegu og pólitísku tilliti í stað þess t.d. að bindast minni og fyrirferðarminni ríkjum sem hafa átt meira sammerkt með sögu og atvinnustigi landsins.
Strax árið 1941 gerði ríkisstjórn Framsóknar-, Alþýðu- og Sjálfstæðisflokk mikilvæga samninga við Bandaríkjamenn og Breta sem tryggðu landinu ekki aðeins varnir á stríðstímum heldur bæði vistir og gjaldeyristekjur. Samningurinn sem gerður var við Bandaríkjamenn sneri að vörnum og því að sjá landinu fyrir nægum nauðsynjavörum á stríðstímanum og að tryggja siglingar að og frá landinu. (sjá hér) Skömmu síðar var stærsti sölusamningurinn sem gerður hafði verið hér á landi undirritaður þar sem samið var við Breta um kaup á íslenskum afurðum fyrir kr. 100 milljónir. (sjá hér)
Það er nokkuð víst að bresk-íslenska viðskiptanefndin, sem segir frá hér, hefur haft hönd í bagga hvað varðar viðskiptasamninginn við Breta en það verður að teljast líklegt að sömu einstaklingar hafi líka verið ríkisstjórninni innan handar í sambandi við varnar- og viðskiptasamninginn við Bandaríkjamenn. Í lok styrjaldarinnar tekur við nær einn áratugur þar sem Utanríkisráðuneytið er í höndum Sjálfstæðisflokksins; Ólafur Thors frá 1944-1947 og Bjarni Benediktsson (eldri) frá 1947 til 1953 (sjá hér).
Sumarið 1944, eða sama ár og Ísland varð sjálfstætt ríki, sátu a.m.k. tveir Íslendingar Bretton-Woods ráðstefnuna. Þetta voru þeir: Magnús Sigurðsson, þáverandi bankastjóri Landsbankans (sjá hér), og Ásgeir Ásgeirsson, síðar forseti Íslands (sjá hér). Á ráðstefnunni var grunnurinn lagður að stofnun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans. Ísland var meðal 28 ríkja sem skrifuðu undir stofnsamþykkt Alþjóðabankans árið eftir (sjá hér). Sama ár gerðist Ísland aðili að Alþjóðagjaldeyris-sjóðnum og tók Magnús Sigurðsson sæti í fulltrúaráði Alþjóðabankans en eftirlét Ásgeiri Ásgeirssyni, sem þá var bankastjóra Útvegsbankans, sæti í fulltrúaráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (sjá hér).
Fyrrum formaður bankaráðs Landbankans tók við bankastjórastöðu bankans árið 1945. Hið nána samstarf sem Landsbankinn átti við alþjóðlegar bankastofnanir varð síst yfirgripsminna í embættistíð hans. Árið 1950 gerðist Landsbankinn aðili að hinni alþjóðlegu samstarfsstofnun seðlabanka Bank for International Settlements í Basel fyrir áeggjan fyrrnefnds Jóns Árnasonar (sjá hér). Þess má geta hér að Már Guðmundsson hafði verið yfirmaður hjá BIS í fimm ár áður en Jóhanna Sigurðardóttir skipaði hann yfir Seðlabanka Íslands árið 2009 (sjá hér og hér).
Haustið 1946 varð Ísland aðili að Sameinuðu þjóðunum og var Thor Thors, bróðir þáverandi utanríkisráðherra, Ólafs Thors (sjá hér), skipaður fyrsti fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. (sjá hér) Bjarni Benediktsson (eldri) tók við Utanríkisráðuneytinu í byrjun árs 1947 en um hann hefur verið sagt að hann hafi átt drjúgan þátt í að marka þá utanríkisstefnu sem Íslendingar hafa síðan fylgt. (sjá hér)
Árið eftir (1948) að hann var skipaður í embætti utanríkisráðherra gerðist Ísland stofnaðili að Efnahagssamvinnustofnun Evrópu (The Organisation for European Economic Co-operation: OECD) sem fékk aðsetur í París. Aðildarríkin átján áttu það sameiginlegt að þekkjast boð Bandaríkjanna um svokallaða Marshall-aðstoð og er svo að skilja að aðild af þessu tagi hafi verið skilyrði þess að njóta hennar (sjá hér).
Eins og kom fram í undanfara þessarar færslu þá voru þeir fáir sem gagnrýndu Marshall-áætlunina hér á landi utan Sósíalistaflokkinn. Síðar hefur því hins vegar verið haldið fram að með Marshall-aðstoðinni hafi verið markað upphafið að styrkjakerfinu á Íslandi í hinum ýmsu atvinnugreinum (sjá hér) ásamt því að ryðja hérlendri stóriðjustefnu til rúms.
Orð bandaríska sagnfræðingurinn Michael J. Hogan um tilgang áætlunar eru ekki síður athyglisverð en slíkar kenningar í ljósi þess sem síðar hefur orðið. Hann segir að tilgangur Bandaríkjamanna með Marshall-áætluninni hafi verið að móta Evrópu efnahagslega í sinni eigin mynd. (sjá hér) American officials hoped to refashion Western Europe into a smaller version of the integrated single-market and mixed capitalist economy that existed in the United States. (sjá hér) Þetta er ekki síst skoðunarvert í ljósi raka eins langreyndasta starfsmanns íslensku utanríkisþjónustunnar, Einars Benediktssonar, varðandi Evrópusambandsaðild nú:
Að gerðum aðgengilegum aðildarsamningi mælir mat hagsmuna okkar með aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þetta er ekki síst vegna þess að næsta þróunarstig Evrópusamvinnunnar er svokallaður fríverslunarsamningur við Bandaríkin (Trans Atlantic Trade and Investment Pact). [...] Það er einmitt þetta nýja fríverslunarsvæði sem er lífshagsmunamál fyrir okkur, ekki síst vegna erlendra fjárfestinga eftir að höftum verður aflétt. (sjá hér)
Vorið eftir að Íslendingar urðu hluti Marshall-áætlunarinnar, eða vorið 1949, undirritaði Bjarni Benediktsson hinn umdeilda stofnsáttmála Atlantshafsbandalagsins. Á næstu árum hans í embætti utanríkisráðherra var Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna samþykkt svo og Mannréttindasáttmáli Evrópuráðsins.
Tæpum fjörutíu árum eftir að Íslendingar voru gerðir aðilar að Mannréttindasáttmála Evrópu vitnar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í orð Lúðvíks Ingvarssonar, fyrrverandi prófessors við lagadeild Háskóla Íslands, sem fjallaði um þær áhættur sem geta legið í milliríkjasamningum. Það er rétt að taka það fram að eftirfarandi orð hefur Ingibjörg Sólrún upp úr grein sem birtist eftir þennan fyrrverandi lagaprófessor í Morgunblaðinu þann 25. ágúst 1992 en þar bendir hann á að með samningsgerðinni [...] hafi verið á tvennan hátt brotið gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar. (sjá hér)
Í sáttmálanum er erlendum dómstóli veitt æðsta dómsvald um íslensk málefni á tilteknu sviði, þar sem Hæstiréttur Íslands var áður æðsta dómstig. [...]
Síðan vitnar hann til þess að Alþingi hafi samþykkt gildistöku mannréttindasáttmálans með þingsályktun en í 59. gr. stjórnarskrárinnar segir:
Skipun dómsvaldsins verður eigi ákveðin nema með lögum.
Það hefur sem sagt ekki staðist að samþykkja samninginn með einfaldri þingsályktun og þá hafi það heldur ekki staðist að samþykkja það dómsvald sem Mannréttindasáttmálinn felur í sér að óbreyttri stjórnarskrá. [...]
,,Frá upphafi bar Mannréttindasáttmáli Evrópu það með sér, [...] ,,að í honum fólst afsal ríkisvalds, þ.e. dómsvalds á því réttarsviði sem hann fjallar um. Má t.d. um þetta benda á 49., 52. og 53. gr. sáttmálans. Hann geymir reyndar líka ákvæði sem fela í sér að erlent stjórnvald er að nokkru leyti sett yfir íslenska handhafa löggjafarvalds og framkvæmdarvalds, sbr. 32. gr. (sjá hér)
Áður en horfið verður frá upprifjun á afdrifaríkum ákvörðunum fyrstu utanríkisráðherranna er rétt að minna á að árið 1951 var varnarsamningurinn milli Íslands og Bandaríkjanna undirritaður og árið eftir (1952) var stofnuð fastanefnd Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu með aðstöðu í París (sjá hér). Eins og uppalninginn hér að framan gefur til kynna þá lá megináhersla íslensku ríkisstjórnanna sem sátu fyrsta áratugina eftir stríðslok á að treysta samskiptin við eiginlega sigurvegara seinni heimsstyrjaldarinnar.
Á tímabilinu 1944 til 1953 gerðust Íslendingar því aðilar að þó nokkrum alþjóðastofnunum og undirgengust í leiðinni stofnsáttmála sem hafa haft gífurleg áhrif á íslenska löggjöf ásamt því að hafa varanleg áhrif á stefnu íslenskra stjórnvalda í efnahags- og atvinnumálum. Þeirri þróun var langt frá því lokið heldur hefur haldið áfram fram á þennan dag.
Í þessu sambandi þykir sérstök ástæða til þess að vekja athygli á að á fyrstu áratugunum eftir stríðslok þótti ekkert athugavert við það að helstu efnahagsráðgjafar ríkisstjórnarinnar hefðu verið starfsmenn hinna svokölluðu Bretton Woods-stofnana (Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans) eins og átti við um Benjamín Eiríksson (1951-1953) og Jónas H. Haraldz (1957-1961). Miðað við það að engar athugasemdir voru gerðar í aðdraganda síðustu alþingiskosninga við nánið samband Þorvalds Gylfasonar við bæði Bretton Woods-stofnanirnar og stofnanir Evrópusambandsins (sjá hér) þykir kannski fæstum nokkuð óeðlilegt við slík tengsl jafnvel þó viðkomandi bjóði sig fram til ábyrgðarstarfa innan stjórnsýslunnar hér á Íslandi.
Það er vissulega forvitnilegt að staldra við bakgrunn þeirra tveggja sem störfuðu sem ráðgjafar íslenskra stjórnvalda á sviði efnahagsmála á fyrstu áratugunum eftir seinna stríð og svo miklu fleiri sem gegndu viðlíka ábyrgðarstöðum á vegum ríkisstjórnarinnar á mótunarárum íslensks samfélags. Það verður hins vegar látið bíða seinni tíma fyrir utan að vekja athygli á grein Jónasar H. Haraldz frá árinu 1962 sem hann birti í Fjármálatíðindum. Þar ræðir hann kosti þess og galla að Ísland gerist aðili að Efnahagsbandalagi Evrópu (EB) sem var forveri þess sem nú heitir Evrópusambandið (ESB) (sjá hér). Meginniðurstaða hans er þessi:
Ég tel, að tengsl Íslands við Efnahagsbandalagið myndu geta greitt verulega fyrir hagvexti á næstu árum og áratugum. Ég óttast það hins vegar, að standi Ísland algerlega utan Efnahagsbandalagsins geti hér skapazt efnahagsleg kyrrstaða á sama tíma og örar efnahagslegar framfarir yrðu í nágrannalöndum okkar. Héldist slík þróun um nokkurt skeið, gæti hér skapazt mikill vandi, sem ekki væri takmarkaður við efnahagssviðið eitt.
[...]
Eigi Ísland á komandi árum að ná þeim efnahagslegu framförum, sem telja verður eðlilegar og nauðsynlegar, verður landið að færa sér í nyt sérmenntað erlent vinnuafl og erlent fjármagn, bæði opinbert fjármagn og einkafjármagn. Mér virðist miklu sennilegra, að við eigum erfitt með að fá eins mikið af þessu vinnuafli og þessu fjármagni og við óskum eftir, heldur en við þurfum að verja okkur fyrir ágangi erlends vinnuafls og fjármagns. (sjá hér)
Þessi skýra afstaða Jónasar H. Haraldz, sem hann birtir árið 1962, er einkar athyglisverð fyrir margra hluta sakir. Fyrst er auðvitað það að hann hafði verið opinber ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum þar til árinu áður. Þess má geta að meiri hluta þess tíma sátu alþýðuflokksþingmennirnir Guðmundur Í. Guðmundsson í Utanríkisráðuneytinu og Gylfi Þ. Gylfason í Viðskiptaráðuneytinu. Um Gylfa sagði Jónas að hann: hefði markað Alþýðuflokknum frjálslyndari stefnu en áður (sjá hér). Það þarf vart að minna á að Alþýðuflokkurinn er forveri Samfylkingarinnar.
Það sem er að mörgu leyti athyglisverðast við þau skýru skilaboð sem þessi fyrrum efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar, á þeim tíma, sem hefur gjarnan verið kennt við viðreisn, er að í byrjun greinarinnar rekur Jónas H. Haraldz það sem greinir Efnahagsbandalagið frá þeim alþjóðastofnununum um efnahagssamvinnu sem það er sprottið upp úr:
Efnahagsbandalagið stefnir að samvinnu ákveðins hóps landa og dregur a.m.k. í bili úr efnahagslegum samskiptum við lönd utan þessa hóps. Efnahagsbandalagið gengur lengra í þá átt að gera vinnuafl og fjármagn hreyfanlegt landa á milli en aðrar stofnanir og Efnahagsbandalagið gerir ráð fyrir því að margar mikilvægar ákvarðanir séu teknar með meirihlutavaldi og sumar þeirra öðlist lagagildi á bandalagssvæðinu án frekari aðgerða stjórnarvalda hlutaðeigandi lands. (sjá hér (leturbreytingar eru höfundar))
Frá Marshall-aðstoð til IPA-styrkja
Þegar litið er yfir sögu Utanríkisráðuneytisins þá virðist óhætt að taka undir staðhæfingar um að Sjálfstæðisflokkurinn hafði lagt grunninn að þeirri utanríkismálastefnu að tengjast alþjóðastofnunum sem tryggðu framhald þess kapítalíska kerfis sem stærstu sjávarútvegsfyrirtækin lögðu grunninn að þegar á fyrstu árum tuttugustu aldarinnar (sjá hér). Með slíkri staðhæfingu er þó ekki nema hálf sagan sögð því þeir utanríkisráðherrar Alþýðuflokksins sem sátu á árunum 1956 til 1971 fylgdu nákvæmlega sömu slóð. Rétt er að benda á að Alþýðuflokkur sat í stjórn með Sjálfstæðisflokknum í 12 ár af þessu 15 ára tímabili eða á árunum 1959-1971 (sjá hér).
Guðmundur Í. Guðmundsson tók við Utanríkisráðuneytinu árið 1956 og sat yfir því í níu ár. Í stjórnartíð hans var Pétur J. Thorsteinsson, sem hafði verið aðstoðarmaður í Utanríkisráðuneytinu á árunum 1947-1953, skipaður sendiherra gagnvart Efnahagsbandalagi Evrópu (sjá hér).
Árið 1964 fékk Ísland bráðabirgðaaðild að Hinu almenna samkomulagi um tolla og viðskipti; GATT. Einar Benediktsson var skipaður fyrsti fulltrúi landsins á vettvangi GATT en hann kom síðar að undirbúningi að inngöngu Íslands í EFTA og starfaði einnig fyrir Ísland þegar samið var um EES-samninginn. (sjá hér). Árið 1968 fékk Ísland síðan fulla aðild að GATT að tillögu þáverandi viðskiptaráðherra; Gylfa Þ. Gíslasonar (sjá hér).
Flokksbróðir þeirra Guðmundar og Gylfa, Emil Jónsson, tók við embætti utanríkisráðherra árið 1965 og gegndi því fram til 1971 (sjá hér). Á meðan hann var utanríkisráðherra var fastanefnd Íslands hjá NATO flutt frá París til Brussel ásamt því sem hún var gerð að sendiráði gagnvart Belgíu og Efnahagsbandalagi Evrópu (sjá hér).
Árið eftir, eða 1970, varð Ísland aðili að Fríverslunarsambandi Evrópu (EFTA). Fastanefnd landsins gangvart því var sett niður í Genf. Gylfi Þ. Gíslason var flutningsmaður þingsályktunartillögu um þetta efni í desember 1969 (sjá hér). Fyrrnefndur Einar Benediktsson var fyrsti fastafulltrúi Íslands hjá EFTA.
Undir lok embættisferilsins í Utanríkisráðuneytinu lagði Emil fram stjórnarfrumvarp til laga um Utanríkisþjónustu Íslands. Miðað við umræðurnar sem sköpuðust í kringum frumvarpið þá er ljóst að þegar á þessum tíma var einhverjum farið að blöskra kostnaðurinn í kringum utanríkisþjónustuna (sjá feril málsins hér).
Rétt rúmum tveimur mánuðum eftir að lögin voru samþykkt, eða 17. júní 1971, var fyrsta skrefið að innleiðingu Vínarsamningsins stigið. Þann dag öðlaðist sá hluti hans sem snýr að stjórnarmálasambandi gildi á Íslandi (sjá hér). Samkvæmt sáttmálanum nýtur öll utanríkisþjónustan í heiminum og starfsmenn alþjóðastofnana skattfrelsis að öllu leyti. eins og Pétur H. Blöndal gerir skýra grein fyrir hér.
Eftir 15 ára setu alþýðuflokksmanna yfir Utanríkisráðuneytinu tók framsóknarþingmaðurinn, Einar Ágústson, við embætti utanríkisráðherra árið 1971. Í stjórnartíð hans var fríverslunarsamningur við Efnahagsbandalag Evrópu undirritaður. Hann tók gildi 1973 en komst ekki til framkvæmda að fullu fyrr en árið 1976 eða þegar lausn síðustu fiskveiðideilunnar við Breta var í höfn.
Undir lok ráðherratímabils Einars Ágústsonar öðlaðist annar hluti Vínarsamningsins um ræðissamband gildi eða 1. júlí 1978 (sjá hér). Þá tók alþýðuflokksþingmaðurinn, Benedikt Gröndal, við ráðuneytinu en í stjórnartíð hans var Mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna innleiddur (sjá hér).
Árið 1988 var Utanríkisráðuneytið enn einu sinni skipað þingmanni Alþýðuflokksins en þá tók Jón Baldvin Hannibalsson við embættinu sem hann hélt til ársins 1995. Á þeim tíma sem Jón Baldvin var utanríkisráðherra undir forsætisráðuneyti Davíðs Oddssonar (sjá hér) voru teknar a.m.k. tvær afdrifaríkar ákvarðanir sem varða það sem á undanförnum árum hefur verið kallað þjóðréttarskuldbindingar.
Í apríl 1993 var samþykktur samningur um aukaaðild Íslands að hernaðarbandalagi Vestur Evrópusambandsins. Eftir nokkrar umræður og gagnrýni á að með aukaaðildinni væru Íslendingar í raun í tveimur hernaðarbandalögum var tillagan samþykkt með 29 atkvæðum á móti 26. (sjá feril málsins hér). Íslendingar voru reyndar gerðir aðilar árinu áður en þá sjálfsagt með fyrirvara um samþykki Alþingis. (sjá hér).
Langstærsta og afdrifaríkasta embættisverk Jóns Baldvins eru lögin um EES-samninginn EEA) en hann tók gildi 1. janúar 1994. Frumvarpið sem gerði ráð fyrir því að 10.000 blaðsíðna (sjá hér) meginmál EES-samningsins öðlaðist lagagildi hér á landi (sjá hér) var til meðferðar á Alþingi í hálft ár (sjá hér). Ítrekaðar ábendingar úr ýmsum áttum varðandi það að samningurinn færi gegn 21. grein íslensku Stjórnarskrárinnar voru að engu hafðar frekar en undirskrifir 19% kjósenda um þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn og þingsályktunartillaga um sama efni (sjá mynd neðst í þessari frétt).
Á eftir Jóni Baldvini tók Framsóknarflokkurinn aftur við Utanríkisráðuneytinu. Það var Halldór Ásgrímsson sem settist í stól utanríkisráðherra og gegndi þeirri stöðu í níu ár. Eftir því sem næst verður komist hefur enginn utanríkisráðherra verið jafn stórtækur í fjölgun sendiráða erlendis eins og hann en í stjórnartíð hans fjölgaði íslenskum sendiráðum erlendis um sjö (sjá hér). Samningurinn um Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO) tók einnig gildi á meðan hann gegndi embættinu en það var forsætisráðherrann, Davíð Oddsson, sem lagði frumvarpið um breytingar ýmissa laga vegna aðildar Íslands að stofnuninni fram fyrir Alþingi (sjá hér).
Afdrifaríkasta embættisverk Halldórs Ásgrímssonar sem kom til kasta Alþingis var sú ákvörðun að gera Ísland að hluta af Schengen-svæðinu. Halldór lagði fram þingsályktunartillögu um þetta efni í nóvember 1999 (sjá feril málsins hér). Tillagan var samþykkt með 41 atkvæðum á móti 5 en 18 þingmenn voru fjarrverandi (sjá hér).
Þriðja tímabil jafnaðarmanna í Utanríkisráðuneytinu hófst tveimur árum eftir að Halldór Ásgrímsson yfirgaf utanríkisráðherraembættið. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var utanríkisráðherra undir forsætisráðuneyti Geirs H. Haarde frá vorinu 2007 fram undir janúarlok árið 2009. Eins og kom fram í síðustu færslu snerist Ingibjörg Sólrún svo algjörlega í afstöðu sinni til aðildar Íslands að EES-samningnum að í upphafi umfjöllunar um málið sagði hún m.a. að aðild að Evrópska efnahagssvæðinu eða Efnahagsbandalaginu [..] leysir ekki allt (sjá hér) en í lokin treysti hún sér ekki til að taka skýra afstöðu til málsins í atkvæðagreiðslu um það (sjá hér).
Núna rúmum tuttugu árum síðar hlýtur hún að teljast einn helsti orsakavaldur þeirrar stöðu að aðild Íslands að Evrópusambandinu varð helsta baráttumál síðustu ríkisstjórnar. Afstaða Ingibjargar Sólrúnar til Evrópusambandsaðildar mátti vera öllum ljós í ríkisstjórnarsamstarfi Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins í kjölfar bankahrunsins haustið 2008. Rétt rúmum hálfum mánuði eftir að fyrstu fréttir af hruni Íslandsbanka voru gerðar opinberar sagði hún þessa vera kostina í þeirri stöðu sem upp var komin:
Annaðhvort pökkum við í vörn og hverfum aftur til þess tíma sem var fyrir 1994 eða við gerum þetta að upphafi nýrra tíma, sækjum ótrauð fram og búum til þær varnir fyrir íslenskan almenning og íslensk fyrirtæki sem við þurfum í upphafi 21. aldar. Þær varnir felast til skamms tíma í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og til lengri tíma í aðild að ESB, upptöku evru og bakstuðningi Evrópska seðlabankans. (sjá hér)
Tveimur mánuðum síðar, eða rétt fyrir jól, árið 2008 gerði Ingibjörg Sólrún tilraun til að þrýsta á Sjálfstæðisflokkinn til að samþykkja þessa leið þegar hún lét hafa það eftir sér að ríkisstjórnarsamstarfinu [væri] sjálfhætt ákveði landsfundur Sjálfstæðisflokksins að sækja ekki um aðild að Evrópusambandinu (sjá hér). Áður en að stjórnarslitum kom lagði hún línurnar varðandi framhaldið þar sem hún lagði áherslu á að gengið yrði sem fyrst til aðildarviðræðna við Evrópusambandið og síðan yrðu niðurstöður þeirra viðræðna lagðar undir þjóðaratkvæði. (sjá hér).
Eftir að stjórnarslitin höfðu verið opinberuð og bráðabirgðastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tekin við völdum setti hún arftaka sínum í Utanríkisráðuneytinu enn nákvæmari fyrirmæli um stefnuna í utanríkismálum þjóðarinnar þar sem hún benti á að 80 daga stjórnin þyrfti að gera mikilvægar breytingar á stjórnarskrá sem leiða til þess að ef þjóð og Alþingi kýs, þá getur Ísland sótt um aðild að Evrópusambandinu á næsta kjörtímabili þannig að þjóðin geti deilt fullveldi sínu með öðrum þjóðum (sjá hér).
Eins og allir eru væntanlega meðvitaðir um varð Ingibjörgu Sólrúnu ekki að ósk sinni. Þess í stað fór þorri tímans á síðasta kjörtímabils í að liðka til fyrir Evrópusambandsaðild. Umsóknin var gerð að forgangsmáli nýrrar ríkisstjórnar sem tók við eftir alþingiskosningarnar vorið 2009.
Þingsályktunartillaga um aðildarumsóknina var lögð fram á Alþingi aðeins tíu dögum eftir að sumarþing nýrrar ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna kom saman um miðjan maí. Sama dag og samþykki hennar lá fyrir sendu Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson umsóknina út til formanns ráðherraráðs Evrópusambandsins (sjá hér).
Til að liðka til fyrir aðild vann síðasta ríkisstjórn að því að koma Icesave-skuldunum sem þægilegast fyrir þannig að þær settu ekki strik í reikning aðildarferilsins, kosningaloforð um áherslu á viðhald og stuðning við mennta- (sjá hér) og velferðarkerfið (sjá hér og hér) voru svikin auk loforða um að koma náttúruauðlindunum í var fyrir einkavæðingu nýfrjálshyggjunnar (sjá hér). Breytingartillaga sem átti að stuðla að því að fjármagnseigendur gætu ekki falið slíka eignaraðild í skjóli eignarhaldsfyrirtækja (sjá hér) fékk heldur ekki náð fyrir augum þeirra Evrópusambandssinnuðu ríkisstjórnar sem var við völd á síðasta kjörtímabili (sjá hér).
Síðasta kjörtímabil dró það nefnilega skýrt fram hvernig jafnaðarmennska Samfylkingarinnar er ofurseld þeirri nýfrjálshyggju sem einkennir alla grunnhugmyndafræði þeirra alþjóðastofnana sem Evrópusambandið byggir tilveru sína á (sjá hér). Það kom reyndar ekki öllum svo á óvart en fleiri furðuðu sig á því hversu stór hluti þingmanna Vinstri grænna gengust inn á þann euro-kratisma sem varð ofan á í ríkisstjórn þessara tveggja flokka.
Eftir að aðildarviðræðurnar sigldu í strand í mars árið 2011 var breytt um kúrs og áherslan lögð á það að koma breytingartillögum stjórnlagaráðs í gegnum þingið (sjá hér). Ástæðan var sú að breytingartillögurnar tryggðu ekki aðeins lögmæti slíkra þjóðréttarskuldbindinga sem í Evrópusambandsaðild felst heldur höfðu ýmsar greinar hennar verið aðlagaðar að hugmyndafræði Evrópusambandsins (sjá einkum 67. og 111. greinina). Þó einhver árangur næðist í því innlimunarferli sem Össur Skarphéðinsson tók í arf frá Ingibjörgu Sólrúnu þá mistókst að búa þannig um hnútana að af Evrópusambandsaðild yrði á síðasta kjörtímabili.
Töluverður árangur á þeirri vegferð náðist þó annars vegar með því að þingsályktunartillaga um aðlögunarstyrki Evrópusambandsins voru samþykktir fyrir þinglok í júní 2012. Á sama tíma var samþykkt frumvarp til laga sem tryggðu embættismönnum ESB sömu fríðindi og Vínarsáttmálinn gerir ráð fyrir að embættismenn utanríkisþjónustunnar njóti; þ.e. undanþágu frá allri skatta- og tollaálagningu viðkomandi gistiríkja (sjá feril málsins um þetta atriði hér).
Að vonum sköpuðust allnokkrar umræður um þingsályktunartillöguna og frumvarpið sem viðkoma þessari fjárhagsaðstoð til að gera pólitískar, efnahagslegar og stjórnsýslulegar umbætur í því skyni að gerast aðilar að Evrópusambandinu (sjá hér). Reyndar vekur þar mesta athygli hvernig fulltrúar ríkisstjórnarinnar koma sér ítrekað undan því að viðurkenna að með viðtöku IPA-styrkjanna hafi ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna opinberað það að ekki væri lengur um neinar könnunarviðræður eða samningaumleitan við Evrópusambandið að ræða heldur væri næsta skref að undirgangast aðlögun stjórnsýslunnar til að af aðildinni gæti orðið. Hér verður aðeins gripið niður í eitt dæmi þar sem fulltrúi þáverandi stjórnarandstöðu gerir tilraun til að draga þetta fram:
Það hefur reyndar verið alveg óhemjumikil feimni og hræðsla hjá stjórnvöldum og meiri hlutanum á þingi að gangast við því að umsóknarferlið fæli í sér aðlögun og hefði þann tilgang að laga okkur að Evrópusambandinu. Það hefur líka verið ákveðin blekking fólgin í því að reyna að stilla málum upp þannig að Ísland og Evrópusambandið séu með einhverjum hætti jafnsettir aðilar sem setjast við samningaborð og ákveða hvernig Evrópusambandið eigi að vera eftir að Ísland gengur inn. [...]
Ísland er að ganga í Evrópusambandið eins og það er og verður auðvitað að aðlaga sig því eins og raunar ýmsir talsmenn Evrópusambandsins sjálfs hafa bent á þegar um er spurt. Það að sækja um aðild að Evrópusambandinu felur í sér að menn gangast undir regluverk Evrópusambandsins en ekki þannig að Ísland geti samið á jafnréttisgrundvelli um það hvert það regluverk eigi að vera. (sjá hér)
Viðtaka aðlögunarstyrkjanna var samþykkt (sjá hér) og við tók síðasta þingár ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna sem fór að stórum hluta í það að reyna að þröngva breytingartillögum stjórnlagaráðs í gegnum þingið. Ástæðan var ekki síst sú að þar er gert ráð fyrir að: heimilt [sé] að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að (sjá 111. greinina hér) og að ekki verði hægt að krefjast [þjóðar]atkvæðagreiðslu um [...] lög sem eru sett til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum (sjá 67. greinina hér).
Svipuðum aðferðum var beitt eins og nú eru uppi varðandi framhald Evrópusambandsaðildarinnar. Kjósendur voru hvattir til að styðja við breytingarnar á Stjórnarskránni með mætingu á kröfufundi sem snerust í grunninn um vilja þeirra minnihlutastjórnar sem var við völd undir lok síðasta kjörtímabils um að ljúka aðildarferlinu. Alls voru haldnir a.m.k. 10 kröfufundir um þetta málefni (sjá hér) á vegum þríburaframboðsins, svokallaða, (Dögunar, Lýðræðisvaktarinnar og Pírata) en jafnaðarmenn (euro-kratar) allra flokka voru nokkuð áberandi á öllum fundunum (sjá hér, hér og hér).
Frá því þetta var hafa orðið nokkur umskipti á þingi vegma alþingiskosninganna sl. vor. Fyrrverandi ríkisstjórnarflokkar og litlu flokkarnir tveir sem vörðu hana falli eru í stjórnarandstöðu nú. Allir fylgja þeirri utanríkismálastefnu, sem Ingibjörg Sólrún lagði eftirmanni sínum í hendur í febrúarbyrjun árið 2009, sem einn flokkur. Af þessu verður ekki betur séð en sú frjálshyggjusinnaða stefna sem Gylfi Þ. Gíslason lagði jafnaðarmönnum til skv. Jónasi H. Haraldz leiði ekki aðeins til sömu blindu foringjadýrkunarinnar og fylgjendur Davíðs Oddssonar hafa verið sakaðir um heldur slíkrar tilþrifapólitíkur að hún fæst illa þrifist nema innan skammlífra örflokka.
Í blindum trúnaði á fyrrum leiðtoga jafnaðarmanna, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, hefur núverandi stjórnarandstaða gert það að sínu sameiginlega forgangsmáli að knýja ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks til að halda voninni um Evrópusambandsaðildina á lífi. Ýmsir fulltrúar hennar hafa gengið svo langt í þessu eina baráttumáli sínu að þeir hafa hvatt kjósendur til að leggja sér lið með virkri þátttöku í enn einni kröfufundaröðinni sem í grunninn snýst um þann ásetning að koma Íslandi inn í Evrópusambandið.
Fyrrum flokkssystkini Ingibjargar Sólrúnar látast svo sannfærð um að Evrópusambandsaðildin sé slíkt þjóðþrifamál að þeir eru alls ófeimnir við að láta sjá sig á kröfufundunum sem Evrópusambandssinnarnir hafa staðið fyrir og kostað í hjarta Reykjavíkur að undanförnu.
Utanríkisráðherra
Össur Skarphéðinsson er fæddur árið 1953 og er því rétt rúmlega sextugur. Hann var kosinn inn á þing fyrir Alþýðuflokkinn árið 1991 eða þegar hann var 38 ára. Hann hefur setið þar óslitið síðan eða í rúma tvo áratugi. Hann hafði aðeins verið í tvö ár inni á þingi þegar hann tók við sínu fyrsta ráðherraembætti en þá gekk hann inn í embætti fyrrverandi flokksbróður síns, Eiðs Guðnasonar, sem var umhverfisráðherra í fyrsta ráðuneyti Davíðs Oddssonar. Þessu embætti gegndi hann í tvö ár (sjá hér).
Þetta var ekki í eina skiptið sem Össur átti sæti í ráðuneyti sem var stýrt af Sjálfstæðisflokknum. Hann var skipaður iðnaðarráherra í síðara ráðuneyti Geirs H. Haarde (sjá hér) og gegndi því embætti ráðherra samfleytt frá vorinu 2007 fram að alþingiskosningunum síðastliðið vor. Hann var iðnaðarráðherra frá 2007 til 2009 en var skipaður utanríkisráðherra í báðum ráðuneytum Jóhönnu Sigurðardóttur. Hann er eini karlmaðurinn sem sat í sama ráðherraembættinu frá upphafi síðasta kjörtímabilsins til loka þess (sjá hér).
Gunnar Bragi Sveinsson er fæddur árið 1968. Hann kom nýr inn á þing vorið 2009 og hafði því setið í fjögur ár á þingi þegar hann var skipaður utanríkisráðherra í núverandi ríkisstjórn þá 45 ára.
Menntun og starfsreynsla:
Össur varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1973. Sex árum síðar lauk hann BS-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands. Árið 1983 útskrifaðist hann með doktorspróf í lífeðlisfræði, með fiskeldi sem sérgrein, frá Háskólanum í East Anglia á Englandi, 1983. Árið eftir var hann styrkþegi British Council við framhaldsrannsóknir. Össur var ritstjóri Þjóðviljans í þrjú ár; frá 1984 til 1987. Þá var hann lektor við Háskóla Íslands í eitt ár. Þess er ekki getið á ferilskrá hans inni á alþingisveggnum hvað hann starfaði árið 1988 til 1989 en á árunum 1989 til 1991 var hann aðstoðarforstjóri Reykvískrar endurtryggingar.
Vorið 1991 var Össur kosinn inn á þing fyrir Alþýðuflokkinn 38 ára. Eftir að Össur var kjörinn inn á þing var hann ritstjóri tveggja blaða. Fyrst Alþýðublaðsins árið 1996 til 1997 og síðan DV árið 1997 til 1998.
Gunnar Bragi varð stúdent frá Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra árið 1989. Hann stundaði síðar nám í atvinnulífsfélagsfræði við Háskóla Íslands. Árið eftir að hann lauk stúdentsprófi var hann verslunarstjóri Ábæjar í eitt ár auk þess sem hann var verkamaður og gæslumaður í Steinullarverksmiðjunni þar sem hann starfaði til ársins 1991. Þá tók hann aftur við verslunarstjórastöðunni í Ábæ þar sem hann starfaði til ársins 1995. Fyrsta árið þar var hann auk þess ritstjóri héraðsfréttablaðsins Einherja.
Eftir námið í atvinnufélagsfræðinni var hann sölu og verslunarstjóri hjá Skeljungi hf í eitt ár og þá aðstoðarmaður félagsmálaráðherra á árunum 1997 til 1999. Það var í tíð Páls Péturssonar í Félagsmálaráðuneytinu (sjá hér). Í framhaldinu var hann markaðsráðgjafi hjá Íslensku auglýsingastofunni. Þá starfaði hann um tveggja ára skeið á verslunarsviði Kaupfélags Skagfirðinga en var svo framkvæmdastjóri Ábæjar árið 2002 til 2003 og í framhaldinu framkvæmdastjóri Ábæjar-veitinga ehf. fram til ársins 2007. Vorið 2009 var Gunnar Bragi kosinn inn á þing fyrir Framsóknarflokkinn 41s árs að aldri.
Stjórnmálatengd störf og nefndarsetur:
Össur byrjaði afskipti sín af pólitík þegar í háskóla. Þegar hann var 23ja ára var hann formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands í eitt ár. Eftir að hann kom heim úr doktorsnáminu tók hann upp þráðinn aftur og tók virkan þátt í starfi Alþýðubandalagsins á sama tíma og hann var ritstjóri Þjóðviljans. Hann var í framkvæmdastjórn flokksins í eitt ár. Á sama tíma var hann í miðstjórn hans og reyndar einu ári betur eða til ársins 1987.
Fjórum árum síðar var hann kosinn inn á þing fyrir Alþýðuflokkinn en hann var þá í flokkstjórn hans auk þess sem hann var formaður þingflokks Alþýðuflokksins. Þessum embættum gegndi hann til ársins 1993. Hann var formaður Samfylkingarinnar í fimm ár eða frá stofnun flokksins í maí árið 2000 og fram til ársins 2005. Hann var formaður þingflokks Samfylkingarinnar árið 2006 til 2007.
Það er útlit fyrir að afskipti Gunnars Braga af pólitík hafi hafist af alvöru á þeim tíma sem hann gerðist aðstoðarmaður félagsmálaráðherra rétt undir þrítugt. Um svipað leyti tekur hann sæti í stjórnum Húsnæðissamvinnufélags Skagafjarðar og Brynju, hússjóðs Öryrkjabandalags Íslands. Þar situr hann í tvö ár eða fram til ársins 2000. Á sama tíma er hann formaður stjórnar varasjóðs viðbótarlána eða á árunum 1998 til 2002.
Samkvæmt ferilskrá Gunnars Braga inni á alþingisvefnum er hann formaður Félags ungra framsóknarmanna í Skagafirði og varaformaður kjördæmissambands Framsóknarflokksins í Norðurlandskjördæmi vestra. Þess er ekki getið hvenær hann var kjörinn eða skipaður til þessara embætta eða hvort hann gegni þeim enn. Hann var formaður þingflokks framsóknarmanna á árunum 2009-2013.
Gunnar Bragi sat í sveitarstjórn Skagafjarðar á árunum 2002 til 2009. Á þeim tíma var hann varaforseti Sveitarfélagsins. Frá árinu 2006 fram til þess að hann var kjörinn inn á þing sat hann í alls sjö stjórnum, nefndum og ráðum. Þar af var hann formaður byggðaráðs Skagafjarðar í þrjú ár en á sama tíma var hann formaður Gagnaveitu Skagafjarðar, stjórnar Norðurár bs. sorpsamlags og stjórnar Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Auk þess var hann varaformaður atvinnu- og ferðamálanefndar Skagafjarðar þessi sömu ár. Tvö síðustu árin áður en hann var kjörinn inn á þing sat hann líka í stjórn Hátækniseturs Íslands ses. og síðasta árið einnig í menningarráði Norðurlands vestra.
Þingstörf og nefndarsetur á vegum þess:
Össur hefur setið inni á þingi í 23 ár. Hann hefur verið þingmaður Reykjavíkinga frá því hann var kjörinn inn á þing árið 1991. Fyrst eftir að Reykjavík var skipt upp í tvö kjördæmi árið 2003 var hann þingmaður Reykjavíkur norður. Frá 2009 hefur hann hins vegar verið þingmaður Reykjavík suður.
Össur byrjaði þingferil sinn sem þingmaður Alþýðuflokks. Árið 1996 gekk hann til liðs við þingflokk jafnaðarmanna sem samanstóð af þingmönnum Alþýðuflokks og Þjóðvaka (sjá hér). Frá vorinu 2003 hefur Össur setið inni á þingi fyrir Samfylkinguna.
Frá því að Össur settist inn á þing fyrir rúmum tveimur áratugum hefur hann starfað í tíu nefndum. Þar af tvisvar í utanríkismálanefnd. Fyrst á árunum 1995 til 1999 og svo aftur á árunum 2005 til 2007. Þess má geta að hann á sæti í núverandi utanríkismálanefnd.
Því má svo bæta við að Össur átti sæti í Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA á árunum 1991 til 1993 og 1999 til 2004, Íslandsdeild VES-þingsins á árunum 1995 til 1999, Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins árið 2004 til 2005 og í Íslandsdeild NATO-þingsins á árunum 2005 til 2007 þar sem hann var formaður. Hann á sæti þar aftur á þessu kjörtímabili.
Gunnar Bragi hefur setið inni á þingi í fimm ár. Hann var kjörinn inn á þing fyrir Framsóknarflokkinn sem alþingismaður Norðvesturkjördæmis. Frá því að hann var kjörinn inn á þing hefur hann átt sæti í þremur þingnefndum. Þar af sat hann í utanríkismálanefnd frá árinu 2011 fram til vorsins 2013.
Ráðherraembætti:
Eins og áður hefur komið fram var Össur skipaður ráðherra í fyrsta skipti þegar hann hafði aðeins setið í tvö ár inni á þingi. Þetta var í öðru ráðuneyti Davíðs Oddssonar en þá tók Össur við umhverfisráðherraembættinu fertugur að aldri í tilefni þess að Eiður Guðnason fékk lausn frá embættinu. Össur gegndi embætti umhverfisráðherra á árunum 1993 til 1995 (sjá hér). Þegar hann var 44 ára var hann skipaður iðnaðarráðherra í síðara ráðuneyti Geirs H. Haarde (sjá hér). Því embætti gegndi hann í tæp tvö ár áður en hann var skipaður utanríkisráðherra 46 ára (sjá nánar hér).
Gunnar Bragi tók við Utanríkisráðuneytinu í kjölfar síðustu alþingiskosninga. Hann var 45 ára þegar hann skipaður í embætti utanríkisráðherra (sjá nánar hér).
Samantek:
Það er harla fátt sem þeir tveir sem hafa verið bornir saman hér virðast eiga sameiginlegt. Þegar betur er að gáð hafa þeir þó báðir setið í utanríkismálanefnd þó það hafi ekki verið á sama tímanum. Þeir hafa líka báðir gegnt formennsku í sínum þingflokki inni á Alþingi. Það er útlit fyrir að þar með sé það upptalið nema það teljist með að báðir hafa verið utanríkisráðherrar eftir bankahrunið 2008.
Í kjölfar þess hruns komst krafan um aðild að Evrópusambandinu í hámæli hjá vissum hópum innan samfélagsins. Margir þeirra sem hafa haft hæst í kringum hana eru stuðningsmenn Samfylkingarinnar en þó er ljóst að fuægjemdir Evrópusambandsaðildar er að finna í öllum flokkum
Það er hins vegar augljóst að á meðan Össur Skarphéðinsson kemur fram sem einlægur aðdáandi Evrópusambandsins þá hefur Gunnar Bragi Sveinsson ekki farið í launkofa með það að hann vill ekki láta undan þrýstingi þeirra sem halda því fram að íslenska krónan sé ónýtur gjaldmiðill og því sé einboðið að ganga í Evrópusambandið til að hægt sé að taka upp evru.
Því hefur verið haldið fram að þar fylgi hann stefnu ónefnds kaupfélagsstjóra Kaupfélags Skagfirðinga en minna hefur farið fyrir því að draga fram þá sem hafa lagt Össuri Skarphéðinssyni línurnar í þeirri utanríkismálastefnu sem hann hefur lagt sig eftir að framfylgja samkvæmt forskrift Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í upphafi árs 2009 (sjá hér). Því hefur líka verið haldið fram að Gunnar Bragi kunni sig lítt í samskiptum við fulltrúa annarra þjóða og honum legið á hálsi fyrir að hafa lítt hleypt heimdraganum heldur haldið sig mest á heimaslóðum í Skagafirðinum.
Þegar ferill Gunnars Braga er skoðaður er ljóst að hann hefur væntanlega ekki dvalið nema þrjú ár utan sinnar heimabyggðar áður en hann var kosinn inn á þing. Össur hefur væntanlega verið í ein fjögur eða fimm ár á erlendri grundu fram til þess að hann settist inn á þing fyrir rúmum tuttugu árum. Það er hæpið að ætla að sú dvöl Össurar geri gæfumuninn þegar kemur að því að taka skynsamlegar ákvarðanir sem varða utanríkismálastefnu heillar þjóðar.
Það verður heldur ekki séð að BS-próf Össurar og doktorsgráða í lífeðlisfræði hafi aflað honum þekkingar eða reynslu í stefnumótun utanríkismála eða samskiptum við fulltrúa erlendis. Frá því að Össur kom fyrst inn á þing hefur framkoma Össurar einkennst af einhverju sem sumum hefur fundist gefa tilefni til að ætla að hann búi yfir ríkulegum húmor en aðrir hafa frekar viljað kenna við galgopahátt. Á síðustu misserum hafa einhverjir jafnvel haldið því fram að gálgahúmor Össurar og/eða galgopaháttur sé hans leið til að breiða yfir eitthvað annað.
Í því sambandi hefur sá óheiðarleiki verið nefndur í utanríkismálastefnu síðustu ríkisstjórnar að vinna að Evrópusambandsaðild án þess að kjósendur væru almennilega upplýstir um að það væri sú meginstefna sem unnið væri að á öllum sviðum. Vissulega ber Össur ekki einn ábyrgðina á þeim hálfsannleika og/eða villuljósum sem brugðið hefur verið upp til að halda kjósendum frá meðvitundinni um það að svar síðustu ríkisstjórnar við afleiðingum bankahrunsins var innganga í Evrópusambandið og upptaka evru.
Af ferilskrám Össurar og Gunnars Braga að dæma vantar báða tilfinnanlega þá þekkingu og reynslu sem réttlætir það að þeim skuli hafa verið treyst fyrir jafnumfangsmiklum og viðkvæmum málaflokki og utanríkismálastefna nýfrjálsrar smáþjóðar. Á sama tíma og efnahagur þjóðarinnar hrynur fyrir afleiðingar þeirrar taumlausu nýfrjálshyggju sem hafði verið rekin hér af stjórnvöldum í tæp tuttugu ár horfir það sannarlega sérkennilega við að svar þeirra stjórnvalda sem taka við skuli vera það að sækja um aðild að nýfrjálshyggjubandalagi Evrópuþjóða.
Slík hugmyndafræði verður ef til vill enn furðulegri þegar það er tekið með í reikninginn að sú stjórn sem setti hana fram og fylgdi henni eftir var samsett af tveimur stjórnmálaflokkum sem í orði kveðnu höfðu fordæmt leið nýfrjálshyggjunnar. Þetta er Samfylkingin sem hefur kennt sig við jöfnuð og réttlæti og haldið því fram að það sem máli skipti sé veruleiki venjulegs fólks (sjá hér) og Vinstri grænir sem hafnar alræði markaðshyggjunnar og vill varðveita sjálfstæði þjóðarinnar og forræði yfir eigin auðlindum (sjá hér).
Hinu má ekki gleyma að það var Alþýðuflokkurinn, forveri Samfylkingarinnar, sem átti ekki sístan þátt í því að sú stjórn komst til valda sem skilaði Íslandi langleiðina inn í Evrópusambandið í óþökk stórs hluta þjóðarinnar. Frá því að EES-samningurinn tók gildi hér á landi í ársbyrjun 1994 hafa orðið stórkostlegar breytingar á íslensku samfélagi og nægir þar að nefna byggðarröskunina, óstöðugleikann í verðlagi nauðsynjavara, gífurlega hækkun húsnæðisverðs einkum á höfuðborgarsvæðinu, vöxt stærri sjávarútvegsfyrirtækja á kostnað þeirra minni, gjaldþrot minni fyrirtækja, samdráttinn í ýmis konar innanlandsframleiðslu að ógleymdri þeirri útþenslustefnu bankastarfseminnar sem hefur þegar leitt til hruns íslenska bankakerfisins.
Því má heldur ekki gleyma að það var Samfylkingin, arftaki Alþýðuflokksins, sem sat við stjórn þegar hættumerkin í aðdraganda bankahrunsins voru útilokuð þannig að bankarnir féllu hver af öðrum haustið 2008. Þegar horft er til baka þá er ekki annað að sjá en Samfylkingin hafi þegar verið búin að úthugsa leið fram hjá því skeri sem íslensku hagkerfi hafði verið búið. Hér er vísað í það sem haft er eftir Árna Páli Árnasyni úr útvarpsviðtali í upphafi ársins 2008:
Við erum auðvitað að ræða um það [...] hvernig við getum leyst mjög brýnan og alvarlegan vanda sem er sá vandi að gjaldmiðillinn hentar ekki þörfum landsins lengur og veldur heimilum og fyrirtækjum gríðarlegum búsifjum. Þegar við erum að ræða lausnir á þeim vanda er alveg ljóst að evran er sú lausn sem menn binda mestar vonir við. (sjá hér)
Kjósendur Samfylkingarinnar vorið 2009 hafa e.t.v. kosið flokkinn til að koma landinu fljótt og örugglega inn í Evrópusambandið. Hins vegar völdu einhverjir kjósendur Vinstri græna fram yfir Sjálfstæðisflokk eða Framsóknarflokk til útiloka enn frekar að umsókn að Evrópusambandinu yrði sú leið sem yrði valin út úr afleiðingum hrunsins. Kjósendur beggja flokka hafa væntanlega orðið fyrir sárum vonbrigðum því hvorugur flokkurinn náði að uppfylla kosningaloforð sín í sambandi við Evrópusambandsaðild.
Ef afstaðan til Evrópusambandsaðildar ræður mestu um stuðning kjósenda í alþingiskosningum má með sömu líkum gera ráð fyrir því að þeir sem vilja alls ekki ganga inn í Evrópusambandið hafi kosið Framsóknarflokkinn en þeir sem treystu Sjálfstæðisflokknum til að koma fram eins og Vinstri grænir á síðasta kjörtímabili hafa væntanlega frekar kosið Sjálfstæðisflokkinn. Styr hefur staðið um Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar frá upphafi og spjótin beinst að Gunnari Braga. Í byrjun febrúar lagði hann fram þingsályktunartillögu um að að umsóknin um Evrópusambandsaðild verði dregin til baka (sjá hér).
Í þeirri umræðu sem hefur skapast í kringum hana kynnti Gunnar Bragi stefnu ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum þar sem boðað er stórfellt átak í upptöku gerða í EES-samninginn (sjá hér) sem verður ekki betur skilið en svo að núverandi ríkisstjórn muni þrátt fyrir allt vinna að enn meiri krafti en fyrri ríkisstjórn að aðlögun íslenskra laga að regluverki Evrópusambandsins.
Fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa brugðist þannig við að þeir hafa kallað þessa nýju stefnu vandræðalegt yfirklór og svolítið grín sem þýðir hraðari aðlögun að Brussel. Þorsteinn Pálsson, einn ötulasti talsmaður Evrópusambandsaðildar, hefur m.a.s. ástæðu til gera ríkisstjórninni einhverjar glettur um leið og hann bendir á að stefnan geti tæpast talist ný.
Hún felur aðallega í sér áform um að bregðast vel við ýmsum athugasemdum sem fram hafa komið á síðustu árum um framkvæmd samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Ætlunin er til að mynda að hraða sjálfvirkri innleiðingu á reglum sameiginlega innri markaðarins. (sjá hér)
Ef allt er dregið saman má halda því fram að staðan í utanríkismálum Íslands megi rekja til þriggja grundvallarþátta: Í fyrsta lagi er það frelsi Utanríkisráðuneytisins sem hefur rekið dýra utanríkisþjónustu sem þjónar fyrst og fremst versluninni og fjármálamarkaðinum í landinu. Í öðru lagi er það ofurstjórnsemi bæði flokka og einstaklinga sem hafa haft með Utanríkisráðuneytið að gera. Það má minna á að þessir flokkar eru Alþýðuflokkur/Samfylking sem hefur farið með Utanríkisráðuneytið í samtals 32 ár, Framsóknarflokkur sem hefur verið yfir ráðuneytinu í samtals 23 ár og svo Sjálfstæðisflokkur sem hefur farið með ráðuneytið í samtals 16 ár.
Þriðja og e.t.v. mikilvægasta atriðið er svo metnaðarleysið sem býr að baki því hvernig utanríkisráðherrar eru valdir og skipaðir. Það er rétt að minna á að sama aðferð er viðhöfð við skipun annarra ráðherra. Það sem liggur skipun þeirra til grundvallar er að þeir hafi starfað í viðkomandi stjórnmálaflokki og komist til einhverra metorða innan hans. Gunnar Bragi og Össur höfðu báðir setið í utanríkismálanefnd áður en þeir urðu utanríkisráðherrar. Auk þess hefur Össur verið í nokkrum Íslandsdeildum á þingum þeirra alþjóðastofnananna sem Ísland hefur gerst aðili að.
Hins vegar er ljóst að Össur ber ekki sísta ábyrgðina á þeim hnút sem utanríkismálastefna stjórnvalda er í nú. Það alvarlegasta er e.t.v. það að þjóðin; þ.e. kjósendur, hefur í raun haft sáralítið um það að segja í hvers konar samband og/eða samhengi hún hefur verið sett í við aðrar þjóðir og önnur ríki með ýmis konar þjóðréttarskuldbindingum frá því að Íslendingar voru gerðir aðilar að Marshall-aðstoðinni 1948.
Össur Skarphéðinsson hafði tækifæri til þess að upplýsa þjóðina refjalaust um það hver utanríkismálastefna þeirrar ríkisstjórnar sem hann starfaði fyrir væri og hvernig hann ræki hana. Það gerði hann ekki og það er útlit fyrir að kjósendur hafi ekki kunnað að meta það sem þeir reiknuðu út. Í því samhengi má geta þess að ánægja kjósenda með hans störf í ánægjukönnunum Gallups á síðasta kjörtímabili mældist aldrei hærra en um 20% en stóð nánast í stað frá upphafi kjörtímabilsins til loka þess.
Gunnar Bragi Sveinsson hefur tækifæri til að fara öðru vísi að en Össur og það er útlit fyrir það að hann hafi stigið fyrsta skrefið til þess með því að kynna nýja Evrópustefnu núverandi ríkisstjórnar. Hins vegar er spurning hverjum þessi stefna er ætlað að þjóna þar sem það er ekki að sjá að almenningur muni hafa neitt um stefnuna að segja þó vissulega sé gert ráð fyrir samstarfi við ýmsa aðila eins og aðila á vinnumarkaði með áherslu á hagsmunagreiningu EES reglna (sjá hér). Með þeirri stefnu sem Gunnar Bragi hefur kynnt liggur e.t.v. tækifæri hans til að gefa almenningi loksins tækifæri til að tjá sig utanríkismálastefnu landsins.
Það er a.m.k. löngu orðið tímabært að utanríkisráðherrar landsins svo og aðrir stjórnmálamenn setji hlutina í samhengi en reki ekki sambærilega utanríkismálastefnu og hefur verið rekin hér á landi nánast frá þeim degi sem landið öðlaðist sjálfstæði frá Dönum. Stefnu sem hefur orðið til innan Utanríkisráðuneytisins og verið rekin þar án frekari kynningar fyrir landi og þjóð nema í á leið sinni í gegnum Alþingi þar sem stórkostlegustu ákvarðanir um framtíð landsins hafa ítrekað verið settar fram í þingsályktunartillögum til að forða þeim undan forsetanum og þjóðinni. Þetta átti til að mynda við umsóknina um Evrópusambandsaðildina.
Í þessu samhengi er rétt að hafa það í huga að allir þeir þjóðréttarsamningar sem hér um ræðir hafa ekki aðeins sett innlendu löggjafar-, framkvæmda- og dómsvaldi skorður heldur hafa þeir haft gífurleg áhrif á íslenska löggjöf, efnahagslíf og byggðar- og atvinnuþróun. Með öðrum orðum þá hafa þessir samningar svo víðtækar afleiðingar á íslenskt samfélag að það er löngu orðið tímabært að kjósendur séu ekki aðeins upplýstir um stefnuna í utanríkismálum heldur að þeim sé gefið tækifæri til að hafa áhrif á hana með því t.d. að fá að svara þeirri einföldu spurningu hvort þeir vilji þá áframhaldandi aðlögun að EES-samningnum sem Gunnar Bragi Sveinsson hefur boðað í nafni núverandi ríkisstjórnar (sjá hér).
Helstu heimildir
Utanríkisráðherratal
Sögulegt yfirlit yfir utanríkisþjónustuna
Ráherraskipan í síðara ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttir
Ráðherrar í núverandi ríkisstjórn
Ríkisstjórnir og ráðherrar frá 1904-1942
Ríkisstjórnartal frá stofnun lýðveldis
Ánægja með störf ráðherra: 6. október 2009 (fyrsta könnun)
Ánægja með störf ráðherra: 9. apríl 2010
Ánægja með störf ráðherra og stjórnarandstöðu: 23. mars 2012
Ánægja með störf ráðherra: 10. janúar 2013
Heimildir úr lögum
Lög samþykkt á Alþingi (stjórnartíðindanúmer laga)
Lög um Evrópska efnahagssvæðið. 13. janúar 2/1993.
Lög um utanríkisþjónustu Íslands nr. 39/1971
Ferlar einstakra mála inni á Alþingi
Umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka. lagt fram 21. febrúar 2014.
Stjórnskipunarlög (heildarlög), frá 16. nóvember 2012 til 6. mars 2013.
Samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (IPA-styrkir til aðlögunar stjórnsýslu Íslands) frá 2. desember 2011 fram til 18. júní 2012.
Frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins (skattleysi og undanþága frá tollum til handa starfsmönnum ESB hér á landi). frá 30. nóvember 2011 fram til 18. júní 2012.
Aðildarumsókn að Evrópusambandinu. frá 25. maí fram til 16. júlí 2009.
Evrópskt efnahagssvæði. frá 18. ágúst 1992 fram til 12. janúar 1993.
Aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu (þingályktunartillaga) 5. des. fram til 19. des. 1969.
Heimildir úr fjölmiðlum
Þorsteinn Pálsson. Fljótandi utanríkispólitík. visir.is 15. mars 2014.
Evrópustefnan vandræðalegt yfirklór. ruv.is 12. mars 2014
Þetta er ný Evrópustefna ríkisstjórnarinnar. eyjan.is 11. mars 2014.
Helga Jónsdóttir: Evrópska efnahagssvæðið mikilvægara en nokkru sinni fyrr. visir.is 1. mars 2014
Langt í metfjölda undirskrifta. visir.is 28. febrúar 2014.
Einar Benediktsson (fyrsti fulltrúi í GATT). Vettvangur breytinganna. visir.is 20. febrúar 2014.
Sami. Tvöfaldi ávinningurinn: ESB-aðild og nýtt Atlantshafsbandalag. visir.is 27. apríl 2013.
Guðlaugur Þór Þórðarson: Öryggi landsins eftir Einar Benediktsson. 31. mars 2012.
Mannsævi í mörgum löndum (um æviminningar Einars Benediktssonar, sendiherra) dv.is 7. nóvember 2009.
Fréttaskýring: Lengsta sumarþing í 90 ár. mbl.is 24. ágúst 2009.
Evrópusambandið á dagskrá. visir.is 7. júlí 2008.
Fyrstu skrefin stigin í átt að samruna við ESB. Morgunblaðið 12. maí 1999.
Utanríkisstefna á vegamótum. Alþýðublaðið 15. apríl 1993
Stjórnarandstaðan vill stjórnarskrárbreytingu og þjóðaratkvæðagreiðslu um EES-samninginn. Morgunblaðið 22. ágúst 1992.
Ekkert fé fæst frá Könum nema samið sé við Breta. Þjóðviljinn 27. nóvember 1960.
Hernaðaráætlun fimmtu herdeildarinnar bandarísku birt. Þjóðviljinn. 23. október 1948
Heimildir af vef Utanríkisráðuneytisins
EES - Samningurinn um evrópska efnahagssvæðið. Utanríkisráðuneytið.
Evrópusamruninn í alþjóðlegu og sögulegu samhengi. Utanríkisráðuneytið.
Ísland og Sameinuðu þjóðirnar. Utanríkisráðuneytið.
Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið. Utanríkisráðuneytið.
WB-Alþjóðabankinn. Utanríkisráðuneytið
Heimildir af Wikipediu
Evrópska efnahagssvæðið. Wikipedia. Síðast breytt 26. júlí 2013.
Evrópusambandið. Wikipedia. Síðast breytt 3. febrúar 2014.
Marshalláætlunin. Wikipedia. Síðast breytt 3. febrúar 2014.
Rómarsáttmálinn. Wikipedia. Síðast breytt 9. mars 2013.
Samningalotur GATT-samkomulagsins. Wikipedia. Síðast breytt 15. apríl 2013.
Úrúgvælotan. Wikipedia. Síðast uppfært 15. apríl 2013.
Vestur-Evrópusambandið. Wikipedia. Síðast breytt 9. mars 2013.
Heimildir úr ýmsum áttum
Áherslur og framkvæmd Evrópustefnu. (2014) Utanríkisráðuneytið.
Blaðagreinar og viðtöl vegna aðildarviðræðnanna við ESB. 2009-2014.
Einar Benediktsson. Þrjár greinar. Evrópusamtökin. 10. ágús. 2010.
Evrópuvefurinn. Upplýsingaveita um Evrópusambandið og Evrópumál.
Jónas H. Haraldz. Ísland og Efnahagssamband Evrópu frá efnahagslegu sjónarmiði séð. Fjármálatíðindi. 1962
Sigrún Elíasdóttir. Marshall-áætlunin og tæknivæðing Íslands. júní 2012.
Umsókn Íslands um aðild að ESB. Aðildarviðræður Íslands og ESB 2009-2013
Þórhallur Ásgeirsson. Efnahagsaðstoðin 1948-1953. Fjármálatíðindi.1955
Ögmundur Jónasson. Söguþræðir. 10. mars 2014.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.3.2014 kl. 19:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Til Evrópusambandsstýringar Íslands
2.3.2014 | 10:46
Þetta átti að verða næstsíðasta færslan í skrifum um ráðuneyti síðustu og núverandi ríkisstjórnar. Í stað þess að staðið verði við þá fyrirætlan þá kemur hér sérstök færsla um embættisskipan og stjórnsýslulegar ákvarðanir á vegum Utanríkisráðuneytisins frá stofnun þess. Ástæðan er einfaldlega sú að miðað við núverandi stjórnmálaástand er það ekki aðeins forvitnilegt heldur gagnlegt að fara nokkuð ýtarlegar í sögu íslenskra utanríkismála en upphaflega stóð til.
Utanríkisráðuneytið var sett á fót í kringum hernámið 1940. Það er útlit fyrir að frá upphafi hafi það verið sjálfstæðara en önnur íslensk ráðuneyti sem sætir vissulega furðu þegar það er haft í huga hve margar ákvarðanir, sem hafa verið teknar á vegum æðstu embættismanna þess, hafa falið í sér afsal og kvaðir bæði á landi og landhelgi og breytingar á stjórnarhögum ríkisins. Hér er vísað í 21. grein Stjórnarskrárinnar en þar segir:
Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til. (sjá hér)
Eins og glöggir lesendur taka væntanlega eftir gerir þessi grein íslensku Stjórnarskrárinnar ráð fyrir því að það sé forseti landsins sem geri samninga við önnur ríki. Við hernámið jók Hermann Jónasson, þáverandi forsætisráðherra, við embætti þáverandi félagsmálaráðherra, Stefán Jóh. Stefánsson, og skipaði hann utanríkisráðherra (sjá hér) auk þess sem lög voru sett um Utanríkisráðuneytið sem tóku gildi árið 1941 (sjá hér)
Vorið 1942 tók minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokksins við völdum með Ólaf Thors í forsætisráðuneytinu. Þessi stjórn sat í sjö mánuði en á þeim tíma var Ólafur Thors ekki aðeins forsætisráðherra heldur líka utanríkisráðherra auk þess að vera yfir landbúnaðar-, vega- og sjávarútvegsmálunum (sjá hér). Undir jól árið 1942 greip þáverandi forseti, Sveinn Björnsson, inn í það stjórnmálaástand sem upp var komið með því að skipa utanþingsstjórn (sjá hér).
Það er ekki fullkomlega útilokað að honum hafi reynst ákvörðunin um slíkt inngrip auðveldari í ljósi þess hvernig Alþingi hafði farið á svig við 21. grein Stjórnarskrárinnar og fært umboðið til samninga við önnur ríki frá forsetaembættinu til nýs ráðherraembættis innan ríkisstjórnarinnar. Hins vegar breytti þetta ekki neinu hvað það varðar að samningsumboðið við önnur ríki er enn í höndum þess stjórnmálamanns sem hreppir utanríkisráðherraembættið þrátt fyrir að 21. grein Stjórnarskrárinnar um það hvers umboðið er hlýtur að teljast nokkuð skýr.
Fyrstu utanríkisráðherrarnir
Á árunum 1918 til ársins 1934 heyrðu utanríkismálin undir forsætisráðherra. Fyrsti ráðherrann sem ekki var forsætisráðherra en fór samt með utanríkismálin er alþýðuflokksþingmaðurinn Haraldur Guðmundsson en hans hefur verið getið nokkrum sinnum áður í þessu yfirliti. Hann var skipaður atvinnumálaráðherra í ráðuneyti Hermanns Jónassonar en fór auk þess með utanríkis-, heilbrigðis- og kennslumál. Haraldur var fyrsti ráðherrann sem var skipaður yfir heilbrigðismálin (sjá hér).
Eins og segir í þeim aðdraganda færslunnar um Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti sem nefnist: Til kvótastýrðs sjávarútvegs II þá var Haraldur skipaður ráðherra í fyrstu ríkisstjórninni sem Alþýðuflokkurinn átti aðild að. Forsætisráðherra hennar var Hermann Jónasson sem var þá nýr þingmaður Framsóknarflokksins. Fulltrúar þessarar ríkisstjórnar kölluðu hana Stjórn hinna vinnandi stétta.
Þegar Hermann Jónasson setti gerðardóm á verkfall sjómanna í lok mars 1938 sagði Haraldur Guðmundsson af sér (sjá hér) og tók Hermann Jónsson við embættum hans þann hálfa mánuð sem eftir lifði af kjörtímabilinu (sjá hér).
Haraldur Guðmundsson tók gagnfræðapróf þegar hann var 19 ára. Næstu átján árin aflaði hann sér afar fjölbreyttrar starfsreynslu víðs vegar um land þar sem hann var m.a: gjaldkeri útibús Íslandsbanka á Ísafirði, blaðamaður og kaupfélagsstjóri í Reykjavík og loks útibússtjóri Útvegsbankans á Seyðisfirði fyrstu fjögur árin sín á þingi. Hann var kjörinn inn á þing árið 1927 þá 35 ára að aldri. Sjö árum eftir að hann var kosinn inn á þing gegndi hann sínu eina ráðherraembætti á tuttugu og sjö ára þingferli.
Fyrstu fjögur árin sem hann var á þingi var hann ekki aðeins útbússtjóri Útvegsbankans á Seyðisfirði heldur líka bæjarfulltrúi eða fram til ársins 1931. Hann átti auk þess sæti í landsbankanefnd fram til ársins 1936. Hann var formaður Alþýðuflokksins á árunum 1954 til 1956.
Stefán Jóh. Stefánsson var fyrsti utanríkisráðherrann. Hann var skipaður í þriðja ráðuneyti Hermanns Jónassonar sem tók við völdum vorið 1939 og sat fram til vors 1941. Samfara utanríkisráðherraembættinu gegndi hann líka embætti félagsmálaráðherra sem einnig var ný ráðherrastaða. Stefán hefur þar af leiðandi komið við sögu þessarar samantekt áður þar sem fjallað var um Félags- og húsnæðisráðuneytið. Þar er hann talinn sem fyrsti félagsmálaráðherrann samkvæmt þessari heimild hér.
Stefán var líka fyrsti forsætisráðherrann til að skipa landbúnaðarmálunum sérstakan ráðherra (sjá hér) og kom þar af leiðandi við sögu í þeim aðdraganda færslunnar um Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið sem ber heitið Til kvótastýrðs landbúnaðar.
Stefán varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 24 ára og tók lögfræðipróf frá Háskóla Íslands fjórum árum síðar. 32ja ára var hann kominn með réttindi hæstaréttarlögmanns. Þegar hann kom inn á þing hafði hann 16 ára lögmannsreynslu að baki en hann rak áfram málaflutningsskrifstofu í Reykjavík með öðrum málaflutningsmönnum meðfram þingstörfum í 11 ár.
Stefán sat reyndar ekki óslitið inni á þingi frá því að hann var kjörinn í fyrsta sinn árið 1934 og þar til að hann hætti árið 1953. Nær allan þann tímann sem hann átti sæti þar gegndi hann jafnframt öðrum störfum. Þar má benda á að hann var bæjarfulltrúi í Reykjavík fyrstu þrjú árin sem hann sat á þingi jafnfram því að sitja í bæjarráði.
Hann sat líka í bankaráði Útvegsbankans nær allan tímann sem hann var á þingi og var formaður þess lengst af. Á sama tíma var hann í stjórn Byggingarsjóðs verkamanna og lengst af formaður Norræna félagsins líka. Síðustu átta árin sem hann var á þingi var hann eining framkvæmdastjóri Brunabótafélags Íslands.
Þess má svo að lokum geta að hann hafði verið í miðstjórn Alþýðuflokksins í tíu ár þegar hann var kosinn inn á þing í fyrsta skipti og sat þar fram til ársins 1940. Hann var kosinn formaður flokksins árið 1938 en þá átti hann ekki sæti inni á þingi. Hann gegndi formannsembættinu fram til ársins 1952.
Á þeim tíma sem Stefán Jóh. Stefánsson var utanríkisráðherra tóku Íslendingar alfarið við meðferð utanríkismála í kjölfar þess að Danmörk var hernumin af Þjóðverjum (sjá hér). Í kjölfarið var Utanríkisráðuneytið stofnað og lög sett um ráðuneyti Íslands og fulltrúa þess erlendis á árinu 1941. Ný lög um Utanríkisþjónustu Íslands voru sett árið 1971 (sjá hér) í stjórnartíð Emils Jónssonar sem var utanríkisráðherra á árunum 1965 til 1971.
Við borð stórveldis
Það geisaði stríð úti í Evrópu þegar Utanríkisráðuneytið var sett á fót. Danmörk var hernumin 9. apríl 1940 og daginn eftir er ráðuneytið stofnað. Hálfum mánuði seinna er fyrsta alræðisskrifstofa Íslands opnuð í New York. Fjórum dögum síðar er opnað sendiráð í London. Stuttu seinna er opnað sendiráð í Stokkhólmi, í Washington ári síðar og í Moskvu árið 1944. Elsta sendiráð Íslendinga er frá 1920 en það er í Kaupmannahöfn (sjá hér)
Bretar hernámu Ísland mánuði eftir að Þjóðverjar lögðu Danmörku undir sig. Tveimur mánuðum síðar var Stefán Jóh. Stefánsson skipaður fyrsti utanríkisráðherra Íslands og bráðabirgðalög sett um utanríkisþjónustuna. Lögin um Utanríkisráðuneytið voru sett um miðjan febrúar 1941. Sama ár var gerður samningur við Bandaríkin sem kvað á um hervernd og viðurkenningu á frelsi og fullveldi Íslands. Samningurinn átti líka að tryggja að Bandaríkjamenn sæju landinu fyrir nægum nauðsynjavörum á stríðstímanum og að tryggja siglingar að og frá landinu. (sjá hér)
Stefán Jóhann fékk lausn frá embættinu í byrjun árs 1942 en Ólafur Thors tók við því. Sjálfstæðisflokkurinn var yfir Utanríkisráðuneytinu næstu tíu árin en þá hafa þau tvö ár sem utanþingsstjórn Björns Þórðarsonar (1942-1944) verið undanskilin. Þá tók Ólafur Thors við Utanríkisráðuneytinu að nýju og var yfir því til ársins 1947.
Næst tók Bjarni Benediktsson (eldri) við ráðuneytinu fram til ársins 1953 en hann er einn þeirra sex sem sátu lengst í embætti utanríkisráðherra. Í framhaldi þess að hann hætti tók við 15 ára stjórnartíð Alþýðuflokksins yfir Utanríkisráðuneytinu en Framsóknarflokkurinn hefur verið fyrirferðarmikill þar líka. Sósíalistaflokkurinn, síðar Alþýðubandalag, var hins vegar aldrei trúað fyrir utanríkismálunum.
Á fyrsta rúma áratug Utanríkisráðuneytisins er grunnurinn lagður að framtíðarsamskiptum Íslendinga við aðrar þjóðir. Hér verður stuðst við síðu Utanríkisráðuneytisins þar sem reynt verður að draga fram það mikilvægasta. Fyrst er að nefna hervarnar- og viðskiptasamninginn sem var gerður við Bandaríkjamenn í tíð Stefán Jóh. Stefánssonar sumarið 1941. Hann gerði líka viðskiptasamning við Breta það sumar um kaup á íslenskum afurðum. Þrjú sendiráð voru opnuð a árunum 1940 til 1941 (sjá hér).
Í stjórnartíð Ólafs Thors voru opnuð tvö sendiráð til viðbótar. Á árunum 1945 og 1946 gerði Ólafur Thors samning við Breta um kaup á rúmlega 30 togurum. Keflavíkursamningurinn var undirritaður haustið 1946 en í samningum var gert ráð fyrir að bandarískir hermenn yfirgæfu landið en Bandaríkjamenn hefðu áfram afnot af Keflavíkurflugvelli. Rúmum mánuði síðar, eða 19. nóvember 1946 var Ísland aðili að Sameinuðu þjóðunum (sjá hér). Þess má geta að Thor Thors, bróðir Ólafs Thors, var formaður sendinefndar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum frá upphafi til æviloka. Hann lést árið 1965 (sjá hér).
Þess má að lokum geta að á árunum 1944 til 1947 var Ólafur Thors ekki aðeins utanríkisráðherra heldur líka forsætisráðherra (sjá hér). Svipaða sögu er að segja frá árinu 1942 en þá fór hann með Utanríkisráðuneytið í ellefu mánuði. Frá maí og fram að því að utanþingsstjórnin tók við í desember það ár var hann auk þess forsætisráðherra og fór með landbúnaðar- og sjávarútvegsmálin (sjá hér).
Bjarni Benediktsson tók við utanríkisráðherraembættinu í upphafi árs 1947 og gegndi því fram til ársins 1953. Á þessu sex ára tímabili sat hann undir þremur forsætisráðherrum. Sá fyrsti var Stefán Jóh. Stefánsson sem var fyrstur til að fara með embætti utanríkisráðherra. Ráðuneyti hans sat frá ársbyrjun 1947 til loka árs 1949. Á þeim tíma var sendiráðunum erlendis fjölgað um eitt auk þess sem aðalræðisskrifstofa var opnuð í Hamborg en gerð að sendiráði þremur árum síðar. Það hefur verið staðsett í Brussel frá 1999 (sjá hér).
Í apríl 1948 gerðist Ísland stofnaðili að Efnahagssamvinnustofnun Evrópu sem var breytt árið 1960 í Efnahagsvinnu- og framfarastofnun Evrópu; betur þekkt sem OECD. Sama ár varð Ísland hluti af Marshalláætluninni sem tók til næstu fimm ára eða til ársins 1953. Ári síðar skrifaði Bjarni Benediktsson undir stofnsáttmála Atlantshafsbandalagsins en nánar verður sagt frá aðdraganda þess í sérstökum kafla hér á eftir.
Á árunum 1949-1950 var Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra í þriðja ráðuneyti Ólafs Thors (sjá hér) og svo áfram í ráðuneyti Steingríms Steinþórssonar á árunum 1953-1956 (sjá hér). Á þessum tíma var Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna samþykkt og Mannréttindasáttmáli Evrópuráðsins. Vorið 1951 var varnarsamningur milli Íslands og Bandaríkjanna undirritaður og árið 1952 var stofnuð fastanefnd Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu með aðstöðu í París (sjá hér).
Í nafni vaxtar og varna
Áður en lengra verður haldið er rétt að staldra ögn betur við þá þýðingarmiklu atburði sem áttu sér stað í íslenskri utanríkismálapólitík upp úr seinna stríði. Eins og kom fram hér að framan varð Ísland hluti af Marshall-áætluninni sama ár og það varð stofnaðili að Efnahagssamvinnustofnun Evrópu sem varð síðar að Efnahagsvinnu- og framfarastofnun Evrópu; betur þekkt sem OECD.
Þetta var árið 1948 og tók Marshall-áætluninni til næstu fimm ára. Bjarni Benediktsson var í Utanríkisráðuneytinu á þessum tíma en Stefán Jóh. Stefánsson var forsætisráðherra. Ríkisstjórn hans, sem var samsett af Alþýðu-, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokki (sjá hér), tók einhliða ákvörðun um það að Ísland gerðist aðili að Marshall-áætluninni án þess að samningurinn þar að lútandi væri nokkurn tímann borinn undir Alþingi til samþykktar (sjá hér).
Með því Marhall-fénu voru keyptir tíu togara sem bættust við fiskskipaflota Íslendinga þegar árið 1948. Það var ekki aðeins gengið í það að veita sjávarútveginum heldur líka landbúnaðinum sem var vélvæddur. Stærstu framkvæmdirnar voru þó vatnsaflsvirkjanirnar þrjár: Sogs-, Laxár- og Írafossvirkjun. Aðrar framkvæmdir sem má nefna eru bygging áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi, Sementsverksmiðjunnar á Akranesi, síldarbræðslna og fiskimjölsverksmiðja auk hraðfrystihúsa sem voru byggð víða um land (sjá m.a. hér).
Á þessum tíma voru fáir sem gagnrýndu Marshall-áætlunina hér á landi utan Sósíalistaflokkinn. Síðar hefur því m.a. verið haldið fram að með Marshall-aðstoðinni hafi verið markað upphafið að styrkjakerfinu á Íslandi í hinum ýmsu atvinnugreinum (sjá hér). Sumir hafa líka bent á að með byggingu Áburðarverksmiðjunnar hafi upphaf þeirrar stóriðjustefnu sem enn er við lýði verið mörkuð.
Bandaríski sagnfræðingurinn Michael J. Hogan hefur haldið því fram að tilgangur Bandaríkjamanna með Marshall-áætluninni hafi verið að móta Evrópu efnahagslega í sinni eigin mynd. (sjá hér) American officials hoped to refashion Western Europe into a smaller version of the integrated single-market and mixed capitalist economy that existed in the United States. (sjá hér)
Michael J. Hogan segir að vonirnar sem voru bundnar Marshall-áætlunin hafi verið þær að án tollamúra á milli landa Vestur-Evrópu væri hægt draga úr innri baráttu evrópsku þjóðríkjanna og skapa sameinað markaðssvæði óhult fyrir áhrifum kommúnista. (sjá hér). Fulltrúar Sósíalistaflokksins hér á landi töldu að hér væri á ferðinni áætlun um að misnota aðstöðu dollaravaldsins til að ná efnahagslegum og pólitískum ítökum og yfirráðum um allan auðvaldsheiminn. (sjá hér)
30. mars 1949 er dagur sem fáir gleyma sem hafa kynnt sér sögu hans. Þann dag var Atlantssamningurinn til umræðu á þinginu. Gert hefur verið ráð fyrir að um 8.000 manns hafi verið samankomnir á Austurvelli og nærliggjandi götum þegar flest var. Allt var þó með kyrrum kjörum framan af í kringum þinghúsið en öðru máli gegndi um það sem fór fram innan húss.
Áköfustu mótmælin komu frá fulltrúum Sósíalistaflokksins þar sem Einar Olgeirsson fór fremstur í flokki. Hann benti á að að hvorki ríkisstjórnin né fylgismenn hennar hefðu gefið neina skýringu á því hvers vegna þurfti að standa þannig að málinu að það var keyrt í gegnum þingið á rúmum sólarhring án þess að nokkur sérfræðingur í alþjóðarétti fengi tækifæri til að sjá samninginn eða tjá sig um hann við utanríkismálanefnd þingsins. Hann fullyrti að málatilbúnaðurinn allur skýrðist af því að ríkisstjórnin og þingmeirihlutinn væri að hlýða fyrirskipun erlendra stjórnvalda (sjá hér). Fleiri höfðu sig í frammi:
Hermann [Jónasson] minnti á hve framkvæmd Keflavíkursamningsins hefði orðið langt frá loforðunum, og lýsti yfir þeirri skoðun sinni, að ekkert hefði reynzt jafnhættulegt vinsamlegri sambúð íslendinga og Bandaríkjamanna og einmitt Keflavíkursamningurinn. (sjá hér)
Þegar kom að atkvæðagreiðslunni sat hann hjá ásamt öðrum þingmanni Framsóknarflokksins. Áður en að henni kom bar Einar [Olgeirsson] fram þá breytingartillögu að því aðeins yrði afráðin þátttaka Íslands í Atlanzhafsbandalagi að samningsuppkastið hafi áður verið lagt undir þjóðardóm í þjóðaratkvæðagreiðslu og hlotið meiri hluta greiddra atkvæða (sjá hér). Tillagan fékk ekki brautargengi en það fékk samningurinn hins vegar.
Atkvæðagreiðslan um samninginn fór þannig að allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins (19) studdu að Íslendingar yrðu gerðir að stofnaðilum Atlantshafsbandalagsins (NATO). Ellefu þingmenn Framsóknarflokks, einn var á móti en tveir sátu hjá; þ.á m. Hermann Jónasson. Sjö þingmenn Alþýðuflokks utan tveggja sem greiddu atkvæði á móti en það voru Gylfi Þ. Gíslason og Hannibal Valdimarsson. Allir þingmenn Sósíalistaflokksins voru hins vegar á móti (10). Atkvæði féllu því þannig að 37 greiddu atkvæði með NATO-samningum 30. mars 1949 og 13 voru á móti en tveir sátu hjá (sjá hér).
Á meðan á atkvæðagreiðslunni stóð inni í alþingishúsinu hafði friðurinn fyrir utan það snúist upp í logandi óeirðir. Sumir hafa haldið því fram að Ólafur Thors hafi sigað lögreglunni á friðsama mótmælendur og ólætin hafist þannig. Auðvitað verður aldrei hægt að rekja það nákvæmlega sem átti sér stað niður á Austurvelli þennan dag; síst að öllu eftir að allt fór þar úr böndunum. Það er þess vegna ómögulegt að skera úr um það hvort það voru þeir sem voru á móti aðild að Atlantshafsbandalaginu eða hinir sem voru hlynntir sem byrjuðu.
Það verður heldur tæplega nokkurn tímann fullkomlega hrakið eða sannað hvort Ólafur Thors hafi gefið lögreglu og hvítliðum skipum um að nú skyldu þeir ráðast til atlögu gegn friðsömum mótmælendum. Orðsendingin hér að ofan gefur þó tilefni til að draga þær ályktanir að átökin sem brutust út á Austurvelli 30. mars árið 1949 hafi verið sviðsettar. Þessi mynd og texti, sem voru sett á forsíðu Morgunblaðsins daginn eftir (sjá hér) er síst til að draga úr líkum þeirrar niðurstöðu.
Þess ber þó að geta að það var ekki aðeins formaður Sjálfstæðisflokksins sem hvatti friðsama borgara til að taka þátt í sviðsetningunni fyrir framan alþingishúsið daginn sem stofnaðildarsamningurinn við NATO var keyrður í gegnum þingið. Samkvæmt tilkynningunni hér að ofan þá skrifuðu formenn Alþýðuflokksins og Framsóknarflokksins einnig undir það að kommúnistar hafi án þess að leita leyfis boðað til útifundar til að trufla starfsfrið Alþingis (sjá hér).
Grunnur lagður að Evrópusambandsaðild
Hér verður þráðurinn tekinn upp að nýju við að rekja embættisverk þeirra sem hafa setið lengst í Utanríkisráðuneytinu. Sá sem tók við ráðherraembættinu af Bjarna Benediktssyni (eldri) var alþýðuflokksmaðurinn Guðmundur Í. Guðmundsson. Stjórnarskiptin fóru fram sumarið 1956 en þá varð Hermann Jónasson forsætisráðherra í fimmta skiptið (sjá hér).
Ríkisstjórnin sem Hermann leiddi var sett saman af Framsóknarflokki, Alþýðubandalagi og Alþýðuflokki. Forystan yfir utanríkismálunum kom í hlut Alþýðuflokksins; þ.e. Guðmundar Í. Guðmundssonar. Hann var utanríkisráðherra fram til ársins 1965 undir fjórum forsætisráðherrum. Á þeim tíma var Ísland aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna eða árið 1955 (sjá hér). Vorið 1962 öðlaðist samstarfssamningur Norðurlandanna gildi hér á landi (sjá hér).
Árið eftir var Pétur J. Thorsteinsson, sem hafði verið aðstoðarmaður í Utanríkisráðuneytinu á árunum 1947-1953, skipaður sendiherra gagnvart Efnahagsbandalagi Evrópu (sjá hér). Þess má geta að Pétur var sonur Péturs J. Þorsteinssonar sem stofnaði Milljónafélagið ásamt föður Ólafs Thors (sjá hér). Félagið varð gjaldþrota 1914 og átti þátt í því að Íslandsbanki riðaði til falls árið 1920 (sjá hér og líka hér).
Árið 1964 fékk Ísland bráðabrigðaaðild að Hinu almenna samkomulagi um tolla og viðskipti; GATT. Einar Benediktsson var skipaður fyrsti fulltrúi Íslands á vettvangi GATT en hann kom síðar að undirbúningi að inngöngu Íslands í EFTA og starfaði einnig fyrir Ísland þegar samið var um EES-samninginn. (sjá hér). Einar óx upp innan sömu stéttar og Pétur J. Þorsteinsson (sjá hér) Árið 1968 fékk Ísland fulla aðild að GATT að tillögu þáverandi viðskiptaráðherra; Gylfa Þ. Gíslasonar (sjá hér).
Flokksbróðir Guðmundar, Emil Jónsson, tók við embætti hans árið 1965 og gegndi því fram til 1971 (sjá hér). Á meðan hann var utanríkisráðherra var fastanefnd Íslands hjá NATO flutt frá París til Brussel ásamt því sem hún var gerð að sendiráði gagnvart Belgíu og Efnahagsbandalagi Evrópu (sjá hér). Árið eftir, eða 1970, varð Ísland aðili að Fríverslunarsambandi Evrópu (EFTA). Fastanefnd landsins gangvart því var sett niður í Genf. Gylfi Þ. Gíslason var flutningsmaður þingsályktunartillögu um þetta efni í desember 1969 (sjá hér). Fyrrnefndur Einar Benediktsson var fyrsti fastafulltrúi Íslands hjá EFTA.
Undir lok embættisferilsins í Utanríkisráðuneytinu lagði Emil fram stjórnarfrumvarp til laga um Utanríkisþjónustu Íslands. Miðað við umræðurnar sem sköpuðust í kringum frumvarpið þá er ljóst að þegar í kringum 1970 var einhverjum farið að blöskra kostnaðurinn í kringum utanríkisþjónustu svo nýfrjálsrar en fámennrar þjóðar. Alls komu fjórar breytingartillögur fram við frumvarpið á mismunandi stigum þess en frumvarpið fór í gegn án þess að tillit væri tekið til tillagna um öflugra eftirlit með rekstri sendiráða og ræðismannsskrifstofa (sjá hér) og niðurfellingu 13. greinar (sjá hér) þessara laga þar sem augljósasti misnotkunarmöguleikinn liggur. Greinin sem um ræðir er svohljóðandi:
Starfsmenn utanríkisþjónustunnar taka laun samkvæmt almennum reglum um laun starfsmanna ríkisins. Auk þess skulu starfsmenn erlendis fá greiddar staðaruppbætur, sem miðast við kostnað á nauðsynjum (fæði, húsnæði o.fl.) og aðrar sérstakar aðstæður á hverjum stað. Þá skulu starfsmenn utanríkisþjónustunnar, sem dveljast langdvölum erlendis, fá greiddan hluta af kostnaði við að senda börn sín í skóla á Íslandi. Þessar staðaruppbætur skulu ákveðnar samkvæmt reglum er utanríkisráðherra setur að höfðu samráði við utanríkismálanefnd. Reglur skulu settar á sama hátt um greiðslur sjúkrakostnaðar starfsmanna utanríkisþjónustunnar erlendis. (sjá hér)
Rétt rúmum tveimur mánuðum síðar, eða 17. júní 1971, er fyrsta skrefið að innleiðingu Vínarsamningsins stigið enn þann dag öðlast sá hluti hans sem snýr að stjórnarmálasambandi gildi á Íslandi (sjá hér). Samkvæmt sáttmálanum nýtur öll utanríkisþjónustan í heiminum og starfsmenn alþjóðastofnana skattfrelsis að öllu leyti. eins og Pétur H. Blöndal bendir á hér hér. Það er rétt að taka það fram að þetta hefur í engu breyst enn þá.
Þess má líka geta í þessu samhengi að ekki eru nema rétt rúm tvö ár síðan að íslenska ríkið greiddi 75 milljónir króna í bætur fyrir það að gámur starfsmanns utanríkisþjónustunnar fór í sjóinn (sjá hér). Það er útlit fyrir að hvorki þessi eða annar kostnaður í kringum Utanríkisþjónustuna hafi gefið tilefni til að taka lögin frá 1971 til endurskoðunar í þeim tilgangi að draga úr ríkisútgjöldum.
Samkvæmt þessari heimild hér rekur ríkissjóður 25 sendiráð, aðalræðisskrifstofur og fastanefndir víðs vegar um heiminn með yfir 120 starfsmenn. Langfjölmennasta sendiráðið er í Brussel með 15 starfsmenn en auk þess heldur ríkissjóður uppi 7 manna fastanefnd í sömu borg (sjá hér).
Framsóknarmaðurinn, Einar Ágústson, tók við af Emil Jónssyni í Utanríkisráðuneytinu og sat þar í sjö ár (1971-1978) undir tveimur forsætisráðherrum. Fyrst Ólafi Jóhannessyni og þá Geir Hallgrímssyni. Í stjórnartíð Einars í Utanríkisráðuneytinu var fríverslunarsamningarsamningur við Efnahagsbandalag Evrópu undirritaður. Hann tók gildi 1973 en komst ekki til framkvæmda að fullu fyrr en árið 1976 eða eftir lausn síðustu fiskveiðideilunnar við Breta. Undir lok ráðherratímabils hans öðlast annar hluti Vínarsamnings um ræðissamband gildi sem er 1. júlí 1979 (sjá hér).
Jón Baldvin Hannibalsson er meðal þeirra sem hafa setið lengst í utanríkisráðuneytinu. Steingrímur Hermannsson skipaði hann til utanríkisráðherra í öðru og þriðja ráðuneyti sínu. Vorið 1991 skipaði Davíð Oddsson hann enn og aftur yfir utanríkismálin á sínu fyrsta forsætisráðherrakímbili (sjá hér). Í embættistíð Jóns Baldvins fjölgaði sendiráðunum um tvö auk þess sem stjórnmálasamband var tekið upp við Eystrasaltsríkin en Íslendingar voru fyrstir þjóða til að viðurkenna sjálfstæði þeirra (sjá hér).
Á þeim tíma sem Jón Baldvin Hannibalsson var utanríkisráðherra undir forsætisráðuneyti Davíðs Oddssonar eru a.m.k. tvær afdrifaríka ákvarðanir teknar sem varða utanríkismálastefnu stjórnvalda. Ein þeirra er samningur um aukaaðild Íslands að hernaðarbandalagi Vestur Evrópusambandsins. Hugmyndin var lögð fyrir þingið í þingsályktunartillögu (sjá hér) í mars 1993 (sjá hér).
Eftir nokkrar umræður og gagnrýni á að með aukaaðildinni væru Íslendingar í raun í tveimur hernaðarbandalögum var tillagan samþykkt með 29 atkvæðum á móti 26. Átta þingmenn voru fjarverandi við atkvæðagreiðsluna (sjá hér). Miðað við þessa heimild hér voru Íslendingar reyndar orðnir aðilar áður en samþykkt Alþingis lá fyrir (sjá hér).
Langstærsta og afdrifaríkasta embættisverk Jóns Baldvins eru lögin um EES-samninginn (EEA) en hann tók gildi 1. janúar 1994. Frumvarpið sem gerði ráð fyrir því að 10.000 blaðsíðna (sjá hér) meginmál EES-samningsins öðlaðist lagagildi hér á landi (sjá hér) var til meðferðar á Alþingi í hálft ár (sjá hér). Ítrekaðar ábendingar úr ýmsum áttum varðandi það að samningurinn færi gegn 21. grein íslensku Stjórnarskrárinnar voru að engu hafðar frekar en undirskrifir 19% kjósenda og þingsályktunartillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu (sjá mynd neðst í þessari frétt).
Þegar kom að atkvæðagreiðslu Alþingis um innleiðingu EES-samninginn féllu atkvæði þingmanna þannig að 33 studdu aðildina en 23 voru á móti. Sjö greiddu ekki atkvæði. Það má vekja athygli á því að á meðal þeirra sem greiddu ekki atkvæði voru sex þingmenn Framsóknarflokksins og einn þingmaður Kvennalistans. Þar á meðal voru: Finnur Ingólfsson, Halldór Ásgrímsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Valgerður Sverrisdóttir. Aðrir þingmenn bæði Framsóknarflokks og Kvennalista voru á móti.
Aðeins þrír þingmenn, sem greiddu atkvæði um EES-samninginn í upphafi árs 1993, eru enn inni á þingi. Það eru Össur Skarphéðinsson sem studdi samninginn, eins og allir aðrir þingmenn Alþýðuflokksins, Einar K. Guðfinnsson sem sagði líka já eins og 23 af 26 þingmönnum Sjálfstæðisflokksin og Steingrímur J. Sigfússon sem sagði nei eins og aðrir þingmenn Alþýðubandalagsins (sjá hér).
Halldór Ásgrímsson tók við Utanríkisráðuneytinu vorið 1995 og sat þar í þremur ráðuneytum Davíðs Oddssonar eða fram til haustsins 2004 (sjá hér). Á meðan hann gegndi embætti utanríkisráherra fjölgaði sendiráðum erlendis um sjö (sjá hér). Samningurinn um Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO) tók einnig gildi en það vekur athygli að það er forsætisráðherra, Davíð Oddsson, sem leggur fram frumvarpið um breytingar ýmissa laga vegna aðildar Íslands að Alþjóðarviðskiptastofnuninni (sjá hér). 41 þingmaður greiðir samningum atkvæði en allir þingmenn Alþýðuflokksins sitja hjá eða eru fjarverandi (sjá hér).
Í stjórnartíð Halldórs Ásgrímssonar í Utanþingráðuneytinu átti hann sæti í Þróunarnefnd Alþjóðabankans á árunum 1997 til 1998 og var formaður í ráðherraráði Evrópuráðsins (sjá hér). Afdrifaríkasta embættisverk Halldórs Ásgrímssonar sem kom til kasta Alþingis er væntanlega sú ákvörðun að gera Ísland að hluta af Schengen-svæðinu. Halldór lagði fram þingsályktunartillögu um þetta efni í nóvember 1999 sem var tekin til fyrstu umræðu í byrjun desember og í framhaldinu vísað til utanríkismálanefndar (sjá feril málsins hér).
Tillagan var samþykkt með 41 atkvæðum á móti 5 en 18 þingmenn voru fjarrverandi. Össur Skarphéðinsson er einn þeirra sem var fjarrverandi og greiddi því ekki atkvæði. Einar K. Guðfinnsson var viðstaddur atkvæðagreiðsluna en greiddi ekki atkvæði. Ögmundur Jónasson sagði nei en Steingrímur J. Sigfússon já (sjá hér). Þess ber að geta að ekki verður annað skilið en atkvæðagreiðslan hafi verið tvítekin og þá sú fyrri framkvæmd með nafnakalli (sjá hér). Þar falla atkvæði framantalinna með sama hætti nema Steingrímur J. hefur sagt nei (sjá hér)
Ráðuneyti jafnaðarmanna
Þegar saga Utanríkisráðuneytisins er skoðuð vekur það sérstaka athygli að af tæplega 75 ára starfssögu ráðuneytisins þá hefur ráðuneytið verið áberandi lengst undir forystu jafnaðarmanna (Alþýðuflokks/Samfylkingar) eða í kringum 32 ár. Til samanburðar má benda á að Framsóknarflokkurinn hefur verið yfir ráðuneytinu í 23 ár og Sjálfstæðisflokkur í 16 ár. Sósíalistar hafa aldrei farið fyrir ráðuneytinu (Sósíalistaflokkur/Alþýðubandalag/Vinstri grænir(?)).
Eins og áður hefur komið fram þá lagði Stefán Jóh. Stefánsson grunninn að því nána sambandi sem var staðfest með margs konar samningum í utanríkisráðherratíð Bjarna Benediktssonar (eldri). Stefán Jóh. var fyrsti utanríkisráðherrann og gerði varnar- og viðskiptasamning við Bandaríkjamenn árið 1941 (sjá hér). Hann var síðan forsætisráðherra í þeirri ríkisstjórn sem grundvölluðu það að Ísland er nú meðal þeirra ríkja nútímans sem standa á þröskuldi þess að verða eitt af sambandsríkjum Evrópusambandsins.
Það er a.m.k. margt sem gefur tilefni til að draga þá ályktun þegar horft er til þeirrar þróunar sem hefur orðið ofan á bæði í utanríkissamskiptum stjórnvalda og þeirri samfélagsþróun sem sigldi í kjölfar þeirra aðildarsamninga sem voru gerðir á þessum árum. Eftir tíu ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins í Utanríkisráðuneytinu, ellefu mánuði árið 1942 og svo árin 1944 til 1953, tók við fimmtán ára valdatíð jafnaðarmanna (Alþýðuflokks) sem spannar árin 1956 til 1971.
Í valdatíð Sjálfstæðisflokksins voru Íslendingar ekki aðeins orðnir aðilar að alþjóðabandalögum eins og Atlantsbandalaginu (NATO), Efnahagssamvinnustofnun Evrópu (OECD) og Sameinuðu þjóðunum (UN) heldur líka að Marshall-áætluninni sem fáir gagnrýndu á sínum tíma en einhverjir hafa þó bent á að hafi lagt grunninn að mörgum þeirra vandamála sem íslenskt samfélag glímir við enn í dag.
Enginn þeirra samninga og/eða aðildar sem að ofan greinir voru lögð fyrir þjóðina heldur sátu stjórnmálamennirnir einir að ákvörðunum án þess að skeyta því nokkru hvort slíku fylgdi valdaafsal á íslensku landi eða landhelgi eða breytingar á stjórnarhögum ríkisins (sjá 21. grein Stjórnarskrárinnar). Á árunum 1956 til 1971 var haldið áfram á þessari braut þegar Ísland varð aðili að Fríverslunarsambandi Evrópu (EFTA) árið 1970.
Þáverandi viðskiptaráðherra, Gylfi Þ. Gíslason, var flutningsmaður þingsályktunartillögu um aðildina. Einar Benediktsson, sem hafði verið skipaður fulltrúi Íslands gagnvart GATT árið 1964 vann að undirbúningi að inngöngu Íslands í EFTA (sjá hér). Samkvæmt því sem segir hér gerðist Einar snemma eindreginn talsmaður þess að Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu. Síðar starfaði [hann] einnig fyrir Ísland þegar samið var um EES-samninginn. (sjá hér).
Í dag ritar þessi fyrrverandi sendifulltrúi landsins greinar þar sem hann lýsir þeirri skoðun sinni að yrðu samningsslit með því að draga [ESB-]umsóknina til baka núna [yrði það] versta áfall fyrir orðspor Íslands í sögu lýðveldisins. Við sláum ekki á þá bróðurhönd sem margir ESB-leiðtogar hafa rétt okkur. (sjá hér). Meginrök Einars eru þau að næsta þróunarstig Evrópusamvinnunnar er svokallaður fríverslunarsamningur við Bandaríkin (Trans Atlantic Trade and Investment Pact). (sjá hér). Þess má svo geta hér í framhjáhlaupi að Einar Benediktsson starfaði hjá OECD áður en hann tók við starfi á vegum utanríkisþjónustu Íslands í sömu borg; þ.e. París (sjá hér).
Árið 1971 tók Framsóknarflokkurinn við Utanríkisráðuneytinu næstu sjö árin. Á þeim tíma var fyrsti hluti Vínarsáttmálans innleiddur (sjá hér). Samkvæmt honum eru starfsmönnum utanríkisþjónustunnar tryggð ýmis forréttindi sem Pétur H. Blöndal gerði ágæta grein fyrir í þingræðu sinni, í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna, þar sem svonefndir IPA-styrkir voru til umræðu í upphafi árs 2012 (sjá feril málsins hér):
Varðandi það sem h[æst]v[irtur] þingmaður sagði um skattfrelsi [...] þá er mjög undarlegt að Vínarsáttmálinn frá 1815 skuli enn vera notaður til að réttlæta skattfrelsi ákveðinna forréttindastétta í heiminum sem er utanríkisþjónustan öll og starfsmenn alþjóðastofnana sem njóta skattfrelsis að öllu leyti.
Þeir borga heldur ekki tolla, þeir borga ekki vörugjöld, þeir borga miklu lægra bensín og fyrir nánast hvað sem er borgar þetta fólk miklu minna. Það tekur ekki þátt í kostnaði við velferðarkerfið, það tekur ekki þátt í kostnaði við ríkisreksturinn og að það skuli vera vinstri menn sem standa hér, eins og hæstv[irtur] utanríkisráðherra, og verja þetta kerfi er alveg með ólíkindum.
Ég hef barist fyrir því í mörg ár að skattfrelsi utanríkisþjónustunnar verði afnumið en það gengur mjög erfiðlega vegna þess að ég rekst alltaf á þennan Vínarsamning frá 1815, held ég að rétt sé með farið, þar sem verið var að tryggja sendimenn fyrir því að gistiríki færi illa með þá en það er náttúrlega löngu liðin tíð.
Nú er þetta orðin forréttindastétt manna sem lifa í einhverjum allt öðrum veruleika en við hin og njóta leikskólanna okkar, njóta gatnanna okkar og háskólanna fyrir börnin sín og fyrir sjálfa sig og borga ekki til samfélagsins. Ég held að það væri verðugt verkefni fyrir h[æst]v[irta] þingmenn Alþingis að fara í herför fyrir því að afnema þetta skattfrelsi um allan heim, því að það verður að gerast um allan heim til að ná einhverjum árangri. (sjá hér)
Alþýðuflokksþingmaðurinn, Benedikt Gröndal, tók við af framsóknarþingmanninum, Einari Ágústsyni, í Utanríkisráðuneytinu. Hann sat þar aðeins í tvö ár (1978-1980) jafnframt því sem hann var forsætisráðherra (sjá hér). Í stjórnartíð hans var Mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna innleiddur (sjá hér). Þá taka við átta ár sem Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn skipta þannig á milli sín að ef sjálfstæðismaður var í Forsætisráðuneytinu var framsóknarmaður yfir Utanríkisráðuneytinu og öfugt.
Aukinn sóknarþungi
Alþýðuflokkurinn komst aftur til valda í Utanríkisráðuneytinu árið 1988 þegar Jón Baldvin Hannibalsson varð utanríkisráðherra. Hann gegndi því embætti til ársins 1995. Það var í ráðherratíð hans sem Íslendingar urðu aðilar að EES-samningum (EEA). Eins og kom fram hér að framan var málið til meðferðar á Alþingi í hálft ár (sjá hér). Það vekur athygli að einn þeirra þingmanna sem tók þátt í því að gagnrýna það að meginmál EES-samningsins fengi lagagildi hér á landi (sjá hér) var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Ferill hennar í málinu er reyndar allur afar athyglisverður.
Örlög þessarar þjóðar þau ráðast nefnilega innan lands og það eru engar "patentlausnir" til á vandamálum okkar. Við getum sem hægast klúðrað okkar málum öllum hvort heldur sem er innan eða utan Evrópska efnahagssvæðisins eða Efnahagsbandalagsins. Aðild að Evrópska efnahagssvæðinu eða Efnahagsbandalaginu er ekki upphaf alls, ekki rök í öllum málum og leysir ekki allt. (sjá hér)
Þetta eru lokaorðin í stórmerkilegri þingræðu Ingibjargar Sólrúnar frá 25. ágúst 1992 þar sem EES-samningurinn var til umræðu. Í ræðu sinni vísar hún í grein Lúðvíks Ingvarssonar, fyrrverandi prófessors við lagadeild Háskóla Íslands, sem birtist í Morgunblaðinu þann sama dag. Tilvísunin þjónar greinilega þeim tilgangi að benda á að með samþykkt EES-samningsins verði brotið á sama hátt gegn ákvæðum Stjórnarskrárinnar eins og Lúðvík bendir á að raunin hafi sýnt fram á að hafi gerst þegar Íslendingar gerðust aðilar að Mannréttindasáttmála Evrópu árið 1953. Síðan vitnar hún beint í orð Lúðvíks Ingvarssonar um þetta efni:
Í sáttmálanum er erlendum dómstóli veitt æðsta dómsvald um íslensk málefni á tilteknu sviði, þar sem Hæstiréttur Íslands var áður æðsta dómstig. [...]
,,Mörgum mun finnast að aðild að Mannréttindasáttmála Evrópuráðsins hafi hingað til aðeins leitt gott af sér fyrir Íslendinga þrátt fyrir það að aðildin hafi aldrei verið samþykkt á Alþingi með löglegum hætti. Af þessu mega þeir, sem þykir aðildin góð, ekki draga þá ályktun að allir milliríkjasamningar, sem samþykktir verða með ólöglegum hætti á Alþingi, muni aðeins leiða til góðs. [...]
Mistökin, sem urðu við samþykkt aðildarinnar að sáttmálanum, eiga að vera öllum en þó einkum handhöfum löggjafarvaldsins, alþingismönnum og forseta Íslands, alvarleg áminning um að viðhafa alla gát þegar gerðir eru milliríkjasamningar sem e.t.v. stríða gegn stjórnarskránni. (sjá hér)
Undir lok ræðu sinnar víkur Ingibjörg Sólrún að þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu (sjá hér). Þingsályktunartillagan var lögð fram í þinginu 24. ágúst 1992 af Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Steingrími Hermannssyni, Ólafi Ragnari Grímsson, Kristínu Einarsdóttur, Páli Péturssyni og Ragnari Arnalds (sjá hér). Þar sem Ingibjörg Sólrún víkur að mögulegri þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands bendir hún á andstöðu Jóns Baldvins Hannibalssonar við að leggja málið undir dóm kjósenda:
Meginrök hans voru þau, svo vitnað sé beint, að slíkt valdaafsal þingsins væri hvorki sjálfsagt né eðlilegt og að hann vildi ekki stuðla að því að umbylta því stjórnarfyrirkomulagi sem var ákveðið í stjórnarskrá árið 1944 og hefur ríkt góð sátt um allan lýðveldistímann eins og hann sagði. Að auki taldi hann landsmenn ekki í stakk búna til að taka afstöðu til samningsins. (sjá hér)
Sams konar rök, og þau sem Ingibjörg Sólrún hefur eftir jafnaðarmanninum Jóni Baldvini (sjá hér), komu fram í nefndaráliti um fyrrnefnda þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna EES-samningsins.
Frá því lýðveldið var stofnað má nefna þrjá tillögur um þjóðaratkvæði á Alþingi við meðferð mikilvægra samninga við erlend ríki eða fyrirtæki. Í öllum tilvikum voru tillögurnar felldar með atkvæðagreiðslu á þingi, þ.e. þegar fjallað var um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO), samninginn við Alusuisse um álverið í Straumsvík og aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA).
Í stuttu máli má því segja að það væri brot á íslenskri stjórnskipunarhefð að samþykkja þessa tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þátttöku Íslands í EES. Það gengi einnig í berhögg við fyrri niðurstöður á Alþingi þegar um mikilvæga alþjóðasamninga hefur verið að ræða. (sjá hér)
Þingsályktunartillagan um þjóðaratkvæðagreiðslur um aðild Íslands að EES var vísað til allsherjarnefndar sem þríklofnaði í afstöðu sinni til hennar (sjá t.d. hér). Tveir þingmenn Sjálfstæðisflokks og einn þingmaður Alþýðuflokks lögðust gegn henni með ofangreindum rökum, sem samandregið mætti umorðast þannig, að slíkt væri ekki í samræmi við þær vinnuhefðir sem stjórnmálaflokkarnir á Alþingi hefðu tileinkað sér fram að því.
Tillagan um að setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu var felld á Alþingi með 31 atkvæði gegn 28. Fjórir þingmenn greiddu ekki atkvæði. Einn þeirra var Össur Skarphéðinsson sem var fjarrverandi. Aðrir þingmenn sem enn eru á þingi studdu tillöguna fyrir utan Einar K. Guðfinnsson sem var á móti (sjá hér).
Það vekur svo sérstaka athygli að Jóhanna Sigurðardóttir er einn þeirra þingmanna sem hafnaði þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort Ísland verði aðili að Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta vekur ekki síst undrun í ljósi nýlegra ummæla hennar um núverandi stjórnvöld sem ætla ekki að leggja það undir dóm kjósenda hvort þeir vilja að aðlögunarferlinu að regluverki Evrópusambandsins verði framhaldið eða ekki (sjá hér).
Áður en skilist verður við þátt Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í umræðum Alþingis um EES-samninginn og að Ísland undirgangist ákvæði hans með því að gerast aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu er rétt að minna á endanlega afstöðu hennar sem bæði kemur fram í nefndaráliti sem hún setti saman og atkvæðagreiðslunni. Í nefndarálitinu sem hún stóð ein að segir hún:
Enn er vafi á því að frumvarpið standist gagnvart stjórnarskrá og ekki er komið endanlegt lagaform á ýmsar tilskipanir EB sem munu hafa veruleg áhrif hér á landi. Við þessar aðstæður hljóta ráðherrar og þingmenn stjórnarflokkanna að bera alla pólitíska ábyrgð á málinu.
Treystir undirrituð sér ekki til að leggja til við þingið að það samþykki frumvarp til laga um Evrópska efnahagssvæðið þó að hún sé efnislega sammála aðildinni á þeim forsendum sem hér hafa verið reifaðar. Aðrar þingkonur Kvennalistans telja aftur á móti að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópska efnahagssvæðisins og munu því greiða atkvæði gegn samningnum. (sjá hér)
Ingibjörg Sólrún sat hjá þegar kom að atkvæðagreiðslunni um fullgildingu EES-samningsins og samning EFTA-ríkjanna um m.a. stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls (sjá frumvarpið hér og niðurstöður atkvæðagreiðslunnar hér). Það má svo minna á að af þeim þingmönnum sem enn eru inni á þingi þá sögðu Einar K. Guðfinnsson og Össur Skarphéðinsson já en Steingrímur J. Sigfússon nei.
Að lokum er svo rétt að minna á það aftur að 19% atkvæðisbærra manna skrifuðu undir kröfu um að því yrði vísað í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort Ísland gerðist aðili að þeim samningi sem Jón Baldvin Hannibalsson hafði undirritað í Oportó í Portúgal 2. maí 1992 (sjá hér). Bæði þing og forseti virtu óskir um það að samningurinn yrði lagður undir dóm kjósenda að vettugi á rökum byggðum á vísunum til hefða og venja sem ekki væri stætt á að bregða út af. (sjá hér)
Baráttan um Ísland hefst fyrir alvöru
Jón Baldvin Hannibalsson var utanríkisráðherra til ársins 1995 en þá tók Halldór Ásgrímsson við embættinu og gegndi því í átta ár. Á þeim tíma sem hann var yfir Utanríkisráðuneytinu varð ísland aðili að Schengen-samstarfinu sem er ætlað að tryggja frjálsa för einstaklinga um innri landamæri fimmtán samstarfsríkja (sjá hér). Íslendingar gerðust aðilar að þessu samkomulagi 25. mars 2001.
Tveimur árum síðar var ráðist í byggingu Kárahnjúkavirkjunar en aðalverktakafyrirtækið, sem stóð að framkvæmdinni, var Impregilo sem er ítalskt byggingarfyrirtæki. Langflestir starfsmennirnir sem komu að virkjunarframkvæmdunum voru erlendir. Í framhaldinu tóku bæði stærri og minni fyrirtæki hér á landi að flytja inn erlent vinnuafl (sjá hér) sem þeir komust upp með að borga lægri laun en íslenskum verkamönnum (sjá hér).
Eftir alþingiskosningarnar vorið 2007 kom það mörgum á óvart að Samfylkingin skyldi ganga til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn. Þegar það er skoðað að Samfylkingin er einshvers konar framhald Alþýðuflokksins þá hefði samstarf þeirra alls ekki átt að koma á óvart þar sem ekki voru liðin nema 12 ár frá því að jafnaðarmenn höfðu náð að mynda meirihluta með Sjálfstæðisflokknum. Hér er að sjálfsögðu vísað til þeirrar stjórnar Sjálfstæðis- og Sjálfstæðisflokks þar sem Jón Baldvin Hannibalsson fór með Utanríkisráðuneytið fram til ársins 1995.
Í samstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir skipuð yfir Utanríkisráðuneytinu og varð þar með arftaki Valgerðar Sverrisdóttur sem sat þar í eitt ár. Á undan henni sátu þeir Geir H. Haarde og Davíð Oddsson sitt árið hvor (sjá hér). Þegar Ingibjörg Sólrún tók við hafði aðildarsamningurinn að Evrópska efnahagssvæðinu gerbreytt starfsumhverfinu á Alþingi til þess að sífellt fleiri mál, sem lögð voru fyrir þingið, snertu beinlínis aðildina með einum eða öðrum hætti (sjá frá 117. löggjafarþingi hér). Í þessu ljósi og því sem síðar ætti að vera orðið ljóst er vel þess virði að grípa niður í ræðu Ingibjargar Sólrúnar frá 31. janúar 2008:
Virðulegi forseti. Nú eru 14 ár og 30 dagar frá því að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið gekk í gildi og Ísland með menningarstofnanir sínar, atvinnufyrirtæki, banka, sveitarfélög, vísindarannsóknir, stjórnsýslu og löggjafarstarf sameinaðist innri markaði Evrópu.
Engin ein ákvörðun í síðari tíma sögu Alþingis hefur haft jafnrík og djúptæk áhrif á íslenskt samfélag og enginn andmælir því nú, virðulegi forseti, að EES-aðild var algerlega rétt ákvörðun Íslendinga. Hún þýddi opnun landsins, nýtt frelsi fólks til að flytjast milli landa, stofna fyrirtæki, færa fjármagn og eiga viðskipti með vörur og þjónustu. Hún gaf af sér stóreflda íslenska háskóla, kynnti til sögu hér á landi fyrstu réttarbætur á mörgum sviðum, t.d. í umhverfismálum og neytendamálum, og hún er hin raunveruleg[a] forsenda þess að íslensk fyrirtæki gátu leyst gamlar og lúnar landfestar og sótt á heimsmarkað, jafnokar hvers sem er.
Við Íslendingar höfum margt að læra af 14 ára reynslu okkar á innri markaði Evrópu. Hugsum til þess núna hversu margir töldu árið 1993 að EES-aðild stefndi þjóðerni og sjálfstæði í bráða hættu og drögum þann lærdóm sem augljós er af sögu síðasta eins og hálfa áratugar, þann lærdóm að það styrkir Ísland verulega að taka þátt í innri markaði Evrópu. (sjá hér)
Flestum sem störfuðu með Ingibjörgu Sólrúnu á Alþingi þann tíma sem hún sat í Utanríkisráðuneytinu blandaðist vart hugur um að hún stefndi að því markmiði að koma Íslandi inn í Evrópusambandið. Ef til vill voru það orð flokksbróður hennar, Árna Páls Árnasonar, þáverandi varaformanns utanríkismálnefndar, sem gáfu fyrstu vísbendinguna. Þann 11. febrúar 2008 hefur Steingrímur J. Sigfússon þetta eftir samfylkingarþingmanninum og spyr forsætisráðherra um stefnu þáverandi ríkisstjórnar gagnvart Evrópusambandsaðild:
Við erum auðvitað að ræða um það, segir þingmaðurinn, hvernig við getum leyst mjög brýnan og alvarlegan vanda sem er sá vandi að gjaldmiðillinn hentar ekki þörfum landsins lengur og veldur heimilum og fyrirtækjum gríðarlegum búsifjum. Þegar við erum að ræða lausnir á þeim vanda er alveg ljóst að evran er sú lausn sem menn binda mestar vonir við.
Það er líka ljóst að helstu stjórnmálaforingjar á Íslandi eru sammála um að evran verður ekki tekin upp án aðildar að Evrópusambandinu. Sama segir Seðlabankinn. Við þær aðstæður hlýtur umræða um lausn á þessum brýna vanda aftur er talað um brýnan vanda alltaf að snerta aðild að Evrópusambandinu og það er óhjákvæmilegt. (sjá hér og alla umræðuna hér).
Í kjölfar bankahrunsins duldist engum lengur hverjar hugmyndir Ingibjargar Sólrúnar eru í samskiptum Íslands við önnur lönd. Þann 13. október 2010 ritaði hún grein í Morgunblaðið þar sem svar hennar til þjóðar sem var enn í áfalli yfir nýfegnum fréttum af hruni íslensku bankanna og afleiðingum þess:
Kostirnir í stöðunni eru því þessir. Annaðhvort pökkum við í vörn og hverfum aftur til þess tíma sem var fyrir 1994 eða við gerum þetta að upphafi nýrra tíma, sækjum ótrauð fram og búum til þær varnir fyrir íslenskan almenning og íslensk fyrirtæki sem við þurfum í upphafi 21. aldar. Þær varnir felast til skamms tíma í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og til lengri tíma í aðild að ESB, upptöku evru og bakstuðningi Evrópska seðlabankans.
Eftir hildarleik síðari heimsstyrjaldarinnar stóðu íslenskir stjórnmálamenn andspænis þeirri áleitnu spurningu hvort Ísland gæti spjarað sig án formlegra bandamanna ef til átaka kæmi í heiminum. Niðurstaðan var að svo væri ekki og Ísland gekk bæði til liðs við hinar Sameinuðu þjóðir og NATO.
Nú stöndum við andspænis sambærilegri spurningu þó ógnirnar séu af efnahagslegum toga. Ég tel það mikinn ábyrgðarhlut af stjórnmálamönnum að telja sjálfum sér og öðrum trú um að við getum haldið áfram að senda fólk á bátsskeljum út á opið haf og sagt því að fiska. Það hefur þegar endað með ósköpum. (sjá hér og líka frétt á mbl.is)
Í desember árið 2008 lét Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafa það eftir sér að hún teldi sjálfhætt í ríkisstjórninni ef Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti ekki að ganga frá umsókn um aðild að Evrópusambandinu (sjá hér). Ekki varð þó af stjórnarslitum fyrr en 26. janúar árið 2009 (sjá hér)
Áður en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir dró sig út úr stjórnmálunum lagði hún línurnar hvað varðar þann blekkingarleik sem haldið hefur verið á lofti æ síðan um að: gengið [verði] til aðildarviðræðna við Evrópusambandið og síðan [verði] niðurstöður þeirra viðræðna lagðar undir þjóðaratkvæði. (sjá hér). Eftir að minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tók við völdum er þetta haft eftir Ingibjörgu Sólrúnum um það hver séu mikilvægustu verkefni stjórnarinnar:
Ingibjörg telur mikilvægt að sett verði ákvæði í stjórnarskránna fyrir komandi þingkosningar svo þjóðin geti hvenær sem er gert breytingar á stjórnarskránni með þjóðaratkvæðagreiðslu. Það þýðir að þjóðin getur ákveðið að deila fullveldi sínu með öðrum þjóðum á næsta kjörtímabili ef hún svo kýs án þess að boðað sé til kosninga í millitíðinni. (sjá hér)
Össur Skarphéðinsson sem tók við Utanríkisráðuneytinu af Ingibjörgu Sólrúnu hefur verið ötull fylgismaður þeirrar utanríkismálastefnu jafnaðarmanna sem Ingibjörg Sólrún opinberaði í stjórnartíð Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Frá því að hann tók við völdum hefur það verið að koma æ betur í ljós að þeir eru margir og ólíkir hóparnir sem aðhyllast valdaafsal yfir landi og landhelgi ásamt breytingum á íslenskum stjórnarháttum. Það ber að hafa það í huga að þó hóparnir séu bæði margir og háværir þá er ekki endilega víst að þeir séu svo fjölmennir ef vel væri talið.
Þeir helstu eru stærstu atvinnurekendurnir og stærstu útgerðirnar sem sækjast eftir ódýrara vinnuafli, stærstu innflytjendurnir sem vilja losna við verndartolla íslenskrar matvæla- og iðnaðarframleiðslu, einhverjir háskólaprófessorar sem vilja halda í ýmsa styrki sem stöður þeirra grundvallast á og svo þeir stjórnmálamenn sem dreymir um öruggar stöður á þingum, stofnunum eða fastanefndum Evrópusambandsins þegar þingferli þeirra lýkur á Alþingi.
Núverandi stjórnarandstöðu og nokkrum ötulum talsmönnum hennar hefur tekist á nokkrum undanförnum dögum og vikum að æsa ýmsa óánægða kjósendur fram til að flykkja sér um þennan málstað án þess að taka nokkuð tillit til þeirrar ógna sem Evrópusambandsaðild hefur leitt yfir mörg þeirra ríkja sem nú þegar eru með fulla aðild og hafa tekið upp gjaldmiðil þess (sjá t.d. hér og hér).
Þeir sem hafa hvatt til mótmæla fyrir framan alþingishúsið að undanförnu halda því enn þá fram að það sé eitthvað til sem heitir að kíkja í pakkann, sérlausnir fyrir Ísland og það sé raunverulega eitthvað um að kjósa eftir að innlimunarferlið er um garð gengið. Sú örvænting sem margir þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa orðið berir af á undanförnum dögum bendir þó til þess að jafnvel þeir sjálfir sjái fram á að málflutningur af slíku tagi dugi ekki lengur til að halda lífi í þeirri aðildarhugmynd sem þeir berjast fyrir.
Nánar verður komið að þessum þáttum í næstu færslu um Utanríkisráðuneytið en þar verða meginpunktarnir í þessari færslu dregnir saman og tengdir því Evrópusambandsaðildarferli sem var meginviðfangsefni síðasta kjörtímabils. Í lok hennar verður svo samanburður á menntunar- og starfsferli Össurar Skarphéðinssonar og Gunnars Braga Sveinssonar.
Helstu heimildir
Utanríkisráðherratal
Sögulegt yfirlit yfir utanríkisþjónustuna
Ríkisstjórnir og ráðherrar frá 1904-1942
Ríkisstjórnartal frá stofnun lýðveldis
Heimildir úr lögum
Utanríkisráðuneytið: Lög reglugerðir og samningar
Lög samþykkt á Alþingi (stjórnartíðindanúmer laga)
Lög um Evrópska efnahagssvæðið. 13. janúar 2/1993.
Lög um utanríkisþjónustu Íslands nr. 39/1971
Auglýsing um aðild Íslands að alþjóðasamningi um stöðu flóttamanna. 9.desember 74/1955
Ferlar einstakra mála inni á Alþingi
Samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (reglur um fjárhagsaðstoð við Ísland: IPA). frá 2. desember 2011 fram til 18. júní 2012.
Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna. frá 18. nóvember 1999 til 22. mars 2000.
Aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu. frá 16. mars fram til 28. apríl 1993.
Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. frá 24. ágúst fram til 5. nóvember 1992.
Evrópskt efnahagssvæði. frá 18. ágúst 1992 fram til 12. janúar 1993.
Alþjóðasamningur um ræðissamband. frá miðjum október 1977 fram í miðjan febrúar 1978
Utanríkisþjónusta Íslands. frá miðjum febrúar fram í byrjun apríl 1971.
Alþjóðasamningar um stjórnmálasamband. frá miðjum október 1970 fram í miðjan mars 1971.
Aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu (þingályktunartillaga) 5. des. fram til 19. des. 1969.
Heimildir úr þingræðum
Ræður þingmanna (á árunum 1907-2014)
Þingræða Ólafs Thors frá 30. mars 1949: Atlantssamningurinn er merkasti friðarsáttmálinn.
Heimildir úr fjölmiðlum
Jóhanna: Svona stærilæti og ósvífni gagnvart þjóðinni er ekki hægt að líða. eyjan.is 28. febrúar 2014.
Langt í metfjölda undirskrifta. visir.is 28. febrúar 2014.
Einar Benediktsson (fyrsti fulltrúi í GATT). Vettvangur breytinganna. visir.is 20. febrúar 2014.
Sami. Tvöfaldi ávinningurinn: ESB-aðild og nýtt Atlantshafsbandalag. visir.is 27. apríl 2013.
Ljósmyndir lögreglunnar frá NATÓ mótmælunum í mars 1949. 13. desember 2013
Arnaldur Grétarsson. Magnaðar myndir af Nató-mótmælunum við Austurvöll 1949. 1. ágúst 2013
Guðlaugur Þór Þórðarson: Öryggi landsins eftir Einar Benediktsson. 31. mars 2012.
Skafti Jónsson um gáminn: Það er sárt að missa eigur sínar. dv.is 19. desember 2011
Ómetanleg listaverk og ríkið borgar skaðann. dv.is 2. desember 2011.
Vigdís Hauksdóttir. Vínarsamningurinn, Samfylkingin og erlend sendiráð. Morgunblaðið 20 nóvember 2010
Mannsævi í mörgum löndum (um æviminningar Einars Benediktssonar, sendiherra) dv.is 7. nóvember 2009.
Stjórnarskrá breytt fyrir ESB-aðild. visir.is 4. febrúar 2009.
Stjórnarsamstarfi lokið. mbl.is 26. janúar 2009
Nægar ástæður til að slíta stjórnarsamstarfinu ef Samfylkingin hefði áhuga á því. eyjan.is 4. janúar 2009
Ingibjörg Sólrún: Fyrst IMF og svo ESB. mbl.is12. október 2008.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Aftur til fortíðar eða upphaf nýrra tíma. Morgunblaðið 12. október 2008.
Fyrstu skrefin stigin í átt að samruna við ESB. Morgunblaðið 12. maí 1999.
Utanríkisstefna á vegamótum. Alþýðublaðið 15. apríl 1993
Páll Vilhjálmsson. Baráttan um skilgreininguna á forsetaembættinu. Vikublaðið 21. janúar 1993.
Allsherjarnefnd er þrískipt í áliti á þjóðaratkvæði um EES-samninginn. Morgunblaðið 4. nóvember 1992.
BSRB vill þjóðaratkvæðagreiðslu um EES-samning. Morgunblaðið 15. september 1992
Ótrúlegur tvískinnungur og pólitísk hentistefna. Morgunblaðið. 26. ágúst 1992.
Stjórnarandstaðan vill stjórnarskrárbreytingu og þjóðaratkvæðagreiðslu um EES-samninginn. Morgunblaðið 22. ágúst 1992.
Landráðin framin í skjóli ofbeldis og villimannlegra árása á friðsama alþýðu. Þjóðviljinn 30. mars 1949
Trylltur skríll ræðst á Alþingi. Morgunblaðið. 31. mars 1949
Hernaðaráætlun fimmtu herdeildarinnar bandarísku birt. Þjóðviljinn. 23. október 1948
Heimildir af vef Utanríkisráðuneytisins
EES - Samningurinn um evrópska efnahagssvæðið. Utanríkisráðuneytið.
Evrópusamruninn í alþjóðlegu og sögulegu samhengi. Utanríkisráðuneytið.
Sameinuðu þjóðirnar. Utanríkisráðuneytið.
Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið. Utanríkisráðuneytið.
Skrá yfir fulltrúa Íslands hjá alþjóðasamtökum frá upphafi. Utanríkisráðuneytið
Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna. Utanríkisráðuneytið.
Vínarsamningurinn um ræðissamband. Utanríkisráðuneytið.
Heimildir af Wikipediu
Evrópska efnahagssvæðið. Wikipedia. Síðast breytt 26. júlí 2013.
Keflavíkursamningurinn. Wikipedia. Síðast uppfært 11. september 2010.
Marshalláætlunin. Wikipedia. Síðast uppfær 3. febrúar 2014.
Samningalotur GATT-samkomulagsins. Wikipedia. Síðast uppfært 15. apríl 2013
Úrúgvælotan. Wikipedia. Síðast uppfært 15. apríl 2013.
Vestur-Evrópusambandið. Wikipedia. Síðast breytt 9. mars 2013
Heimildir úr ýmsum áttum
Andrés Magnússon. Utanríkisráðherra er ekki vandanum vaxinn. 20. júní 2008. (blogg)
Evrópuvefurinn. Upplýsingaveita um Evrópusambandið og Evrópumál.
Helsingforssamningurinn. Samstarfsamningur á milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar.
Jónas H. Haraldz. Ísland og Efnahagssamband Evrópu frá efnahagslegu sjónarmiði séð. Fjármálatíðindi. 1962
Staða Íslands í Evrópusamstarfi. Skýrsla Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra til Alþingis. 2000.
Sigrún Elíasdóttir. Marshall-áætlunin og tæknivæðing Íslands. júní 2012.
Tel mig ekki hafa betra verk unnið [Án árs] (viðtal til við Bjarna Benediktsson)
Umsókn Íslands um aðild að ESB. Aðildarviðræður Íslands og ESB 2009-2013
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.3.2014 kl. 02:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið
22.2.2014 | 11:26
Það sígur á seinni hluta þess verkefnis sem lagt var af stað með á þessu bloggi síðastliðið haust. Hér verður sá sem sat í Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu í síðustu ríkisstjórn borinn saman við þann sem situr þar nú. Áður hafa forsætisráðherrarnir verið bornir saman og líka: fjármála- og efnahagsráðherrarnir, heilbrigðisráðherrarnir, mennta- og menningamálaráðherrarnir, iðnaðar- og viðskiptaráðherrarnir, félags- og húsnæðisráðherrarnir og loks sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherrarnir.
Þessir hafa verið bornir saman út frá þeirri ferilskrá sem er að finna um hvern og einn þeirra inni á alþingisvefnum. Tilgangurinn er að freista þess að draga það fram hvað hefur ráðið við skipun ráðherra sem eru æðstráðandi í þeim málaflokki sem þeir eru settir yfir. Í einhverjum tilfellum eins og í tilfelli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafa lagabreytingar síðustu ára fært viðkomandi alræði í þeim málaflokki sem þeir sitja yfir. Af þessum ástæðum skyldi maður ætla að þeir sem eru skipaðir hafi áður sýnt einhverja framúrskarandi þekkingu eða hæfni sem viðkemur málaflokknum sem þeim er úthlutað slíkt vald yfir að þeirra er ekki bara að setja stefnuna heldur líka að sjá um framkvæmd og eftirlit.
Eins og flestir gera sér væntanlega grein fyrir þá er það hvorki framúrskarandi þekking né hæfni í þeim málaflokkum, sem heyra undir ráðuneytin, sem hafa ráðið mestu varðandi það hverjir hafa verið skipaðir yfir ráðuneytin í núverandi eða síðustu ríkisstjórn. Samanburður á ferilskrám fyrrverandi og núverandi ráðherra er ætlað að draga það betur fram hvað það er sem mestu máli skiptir við skipunina en til að undirstrika það enn frekar hvaðan hefðin að slíkri skipan er upprunnin hefur verið horft aftur til upphafs ráðherraskipunar á Íslandi og stiklað á helstu atriðum embættissögu hvers ráðuneytis ásamt því að draga fram nokkrar stjórnsýslulegar athafnir í þeirra nafni.
Í tilviki Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins var þó gengið lengra í þessu efni en hafði verið gert áður og verður gert hér í framhaldinu. Það varð ofan á að gera umfjöllunina um málaflokka ráðuneytisins töluvert ýtarlegri í ljósi þess að þar er um undirstöðuatvinnugreinar samfélagsins að ræða. Það er nefnilega hæpið að íslensk þjóð hefði orðið til og þrifist í landinu ef ekki væri fyrir landbúnaðinn og ólíklegt að samfélagið hefði byggst upp til þess sem það er nú ef ekki væri fyrir sjávarútveginn. Hér verður ekki gengið lengra í að rekja aðdraganda eða tilgang þessa verkefnis. Það verður að bíða samantektarinnar í framhaldi þeirra færslna sem munu fylgja í kjölfar þessarar en það eru samanburður á innanríkisráðherrunum og utanríkisráðherrunum.
Ungt ráðuneyti
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið er yngsta ráðuneytið. Fyrsti umhverfisráðherrann var skipaður í þriðja ráðuneyti Steingríms Hermannssonar eða árið 1989 (sjá hér). Ráðuneytið er því ekki nema 25 ára gamalt. Reyndar má benda á að landbúnaðar-ráðherrar áranna 1947 til 1969 voru almennt skipaðir yfir málaflokkinn orkumál líka. Á þessu er ein undantekning en þá er það sjávarútvegsráðherrann sem er yfir þessum málaflokki (sjá hér).
Miðað við lýsingu sem er að finna á vef Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á helstu verkefnum þess er þó ekki að sjá að orkumál hafi verið á sviði ráðuneytisins í upphafi:
Helstu verkefni hins nýja ráðuneytis voru náttúru- og umhverfisvernd, friðunar- og uppgræðsluaðgerðir, villt dýr og dýravernd, mengunarvarnir, úrgangsmál, skipulags- og byggingarmál, landnýtingaráætlanir og landmælingar, umhverfisrannsóknir, veðurathuganir og spár sem og aðrar athuganir á lofthjúpi jarðar, fræðslu- og upplýsingastarfsemi á sviði umhverfismála, samræming aðgerða og alþjóðasamskipti á sviði umhverfismála. (sjá hér)
Frá árinu 2003 hafa hins vegar orðið nokkrar breytingar á verksviði Umhverfis-ráðuneytisins. Þá var Umhverfisstofnun sett á fót og tók hún yfir verkefni annarra stofnana sem voru lagðar niður á sama tíma. Það sem ætti að vekja sérstaka athygli þar er að frá þeim tíma hefur stjórn vatnamála verið á sviði Umhverfisráðuneytisins (sjá hér). Árið eftir, eða árið 2004, var mat á umhverfisáhrifum fært undir ráðuneytið sem hlýtur að vekja furðu þegar samskipti umhverfisráðherra og Skipulagsstofnunar frá árinu 2001 eru höfð í huga. Nánar verður fjallað um þau síðar í þessari færslu.
Enn fleiri stofnanir og verkefni voru sett undir ráðuneytið árið 2008. Síðustu breytingar sem voru gerðar á verkefnum ráðuneytisins voru svo gerðar í tíð síðustu ríkisstjórnar eða 1. september 2012. Þá fluttust rannsóknir á auðlindum og ráðgjöf um nýtingu þeirra til ráðuneytisins sem var í því sambandi falið að setja viðmið um sjálfbæra nýtingu allra auðlinda. Gerð áætlunar um vernd og nýtingu orkusvæða (rammaáætlun) fluttist sömuleiðis til umhverfis- og auðlindaráðuneytis auk skipulagsmála hafs og strandsvæða. (sjá hér)
Þegar horft er til umræðu síðustu ára er það líka ljóst að það hefur gjarnan verið umhverfis- og auðlindaráðherra sem hefur þurft að svara fyrir hugmyndir um orkunýtingu. Þó svör hans séu gjarnan sett í umgjörð umhverfisverndar og friðunaraðgerða þá dylst væntanlega engum að raunveruleikinn snýst um virkjunarkosti og orkusölu. Þeir ráðherrar sem voru skipaðir yfir orkumálin á árunum 1947 til 1969 höfðu ekki sérstak ráðuneyti utan um orkumálin né jafnumfangsmikil mál á sinni könnu og eignarhald á drykkjarvatninu eða forgangsröðun virkjunarkosta. Hér verður samt byrjað á þeim ráðherra sem var settur yfir orkumálin árið 1947.
Eins og kemur fram hér þá var Bjarni Ásgeirsson sá fyrsti sem var skipaður sérstakur landbúnaðarráðherra. Ásamt því að sitja yfir Landbúnaðarráðuneytinu var hann líka skipaður yfir orkumálum. Þetta var í fimmtándu ríkisstjórninni sem var mynduð hér á landi en það var Stefán Jóh. Stefánsson sem var forsætisráðherra hennar (sjá hér). Þessi ríkisstjórn sat á árunum 1947 til 1949 eða í tvö ár.
Bjarni var með búfræðipróf frá Hvanneyri en því lauk hann árið 1913; 22ja ára að aldri. Hann var bóndi frá árinu 1915 til 1951 eða í 36 ár. Lengst af á Reykjum í Mosfellssveit. Meðal þess sem kemur fram í ferilskrá hans er að hann lét reisa fyrstu ylræktarhús á Íslandi árið 1923 og var Í stjórn Búnaðarfélags Íslands frá 1927 til 1951. Hann var formaður þess frá árinu 1939.
Næstu tvo áratugina varð það að nánast ófrávíkjanlegri hefð að sá sem var skipaður landbúnaðarráðherra fór yfir orkumálunum líka. Ingólfur Jónsson, sem var landbúnaðar- og samgönguráðherra í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar sem sat á árunum 1963 til 1970, er síðasti ráðherrann sem er sagður yfir þessum málaflokki. Hér segir að: hann fór einnig með orkumál, fram til ársloka 1969.
Rétt rúmum tuttugu árum síðar var, Júlíus Sólnes, skipaður fyrsti umhverfisráðherrann í þriðja ráðuneyti Steingríms Hermannssonar sem sat á árunum 1989 til 1991 (sjá hér). Júlíus hafði setið þrjú ár inni á þingi fyrir Borgaraflokkinn þegar hann var skipaður. Hann var byggingaverkfræðingur auk þess sem hann var með ýmis konar viðbótarnám í burðarþols- og jarðskjálfta-fræðum.
Áður en hann settist inn á þing átti hann aðallega feril sem háskólakennari við Tækniháskólann í Kaupmannahöfn og Háskóla Ísland en hann var skipaður prófessor við verkfræðideild Háskólans árið 1972. Júlíus átti líka fortíð í pólitíkinni áður en hann var kosinn inn á þing fyrir Borgaraflokkinn þar sem hann var bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi á árunum 1978 til 1986. Hann var formaður Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í þrjú ár eða frá 1983 til 1986.
Júlíus lýsir því sjálfur hvernig það bar til að Umhverfisráðuneyti var sett á fót í grein sem hann skrifaði á Pressuna sl. vor. Þar segir hann að við myndun fjórflokkastjórnar: Framsóknar, Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Borgaraflokks, í september 1989 hafi verið nauðsynlegt að fjölga ráðuneytum (sjá hér). Árið eftir voru samþykkt lög um nýja ráðuneytið og hann skipaður í embætti ráðherra þess (sjá hér).
Þekktasti umhverfisráðherrann er vafalaust Siv Friðleifsdóttir en hún er eini þingmaðurinn sem hefur setið í þessu embætti í meira en fjögur ár; það var frá árinu 1999 til 2004. Þetta var í þriðja og fjórða ráðuneyti Davíðs Oddssonar. Þegar horft er til menntunar Sivjar þá er ekkert sem skýrir skipun hennar en hún er með BS-próf í sjúkraþjálfun frá Háskóla Íslands og hafði starfað sem slíkur í níu ár áður en hún var kosinn inn á þing 33ja ára. Fjórum árum síðar var hún orðin umhverfisráðherra.
Frá útskrift úr sjúkraþjálfaranáminu hafði Siv líka verið virk í ýmis konar félagsstarfi auk þess að taka virkan þátt í pólitík. Hún var í bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar frá árinu 1990 til 1998. Hún var kosin formaður Sambands ungra framsóknarmanna sama ár og gegndi því til ársins 1992 ásamt því að vera í framkvæmdastjórn Framsóknarflokksins. Árið 1995 var hún kosin í miðstjórn flokksins. Á meðan hún sat á þingi hélt hún áfram að taka virkan þátt í innra starfi flokksins og var m.a. ritari stjórnar á árunum 2001 til 2006 og sat í framkvæmdastjórn og landsstjórn hans frá árinu 2001.
Það er hæpið að það hafi verið sjúkraþjálfaramenntunin eða starfsreynsla Sivjar, sem sjúkraþjálfari, sem horft var til við skipun hennar í umhverfisráðherraembættið. Hins vegar er ekki ólíklegt, þegar mið er tekið af hefðinni, að það hafi þótt eðlilegt að henni væri umbunað fyrir alúðina sem hún hafði lagt í að koma sér áfram innan flokksins. Þegar grannt er skoðað er nefnilega útlit fyrir að það sé oftar en ekki slík alúð sem ræður því hverjir hafa verið skipaðir til ráðherraembætta innan ríkisstjórna á Íslandi.
Virkjunin sem jók völd ráðuneytisins
Þeir sem hafa gegnt embætti umhverfisráðherra eru alls orðnir 12. Miðað við sögu annarra ráðuneyta vekur það athygli að helmingur þeirra sem hafa farið með embættið eru konur.
Þetta eru þær: Siv Friðleifsdóttir, Framsóknarflokki (1999-2004) , Sigríður A. Þórðardóttir, Sjálfstæðisflokki (2004-2006), Jónína Bjartmarz, Framsóknarflokki (2006-2007), Þórunn Sveinbjarnardóttir, Samfylkingu (2007-2009), Kolbrún Halldórsdóttir, Vinstri grænum (þrjá mánuði árið 2009) og loks Svandís Svavarsdóttir, Vinstri grænum (2009-2013). Þegar embættistími framantalinna kvenna er lagður saman er hann samtals 14 ár.
Karlarnir sem hafa verið skipaðir yfir Umhverfisráðuneytinu eru: Júlíus Sólnes, Borgaraflokki (1989-1991), Eiður Guðnason, Alþýðuflokki (1991-1993), Össur Skarphéðinsson, Alþýðuflokki (1993-1995), Guðmundur Bjarnason, Framsóknarflokki (1995-1999) en hann gegndi embætti landbúnaðarráðherra á sama tíma og Halldór Ásgrímsson, Framsóknarflokki, sem tók við af Guðmundi árið 1999 en gegndi embættinu aðeins í hálfan mánuð eða til loka kjörtímabilsins. Sjötti karlráðherrann í stöðu umhverfisráðherra er sá sem fer með embættið nú; framsóknarþingmaðurinn, Sigurður Ingi Jóhannsson.
Eins og áður hefur komið fram er Siv Friðleifsdóttir ábyggilega þekktasti umhverfisráðherrann. Ástæðan er sú að hún var umhverfisráðherra þegar umhverfismat sem varaði við afleiðingum Kárahnjúkavirkjunar var að engu haft heldur ráðist í byggingu hennar árið 2003. Tíu árum síðar hefur það komið í ljós að þeir sem vöruðu við afleiðingunum á vatnasvæði Lagarfljóts voru síst of svartsýnir. Vatnsyfirborðið hefur hækkað sem veldur landbroti og leirburður jökulfljótanna sem var veitt í Lagarfljót er á góðri leið með að eyða lífríki Fljótsins (sjá hér).Ýmislegt bendir til að fleira eigi eftir að koma fram (sjá hér).
Eins og einhverjir muna eflaust eftir lagðist Skipulagsstofnun gegn framkvæmdinni vegna umtalsverðra umhverfisáhrifa og ófullnægjandi upplýsinga um einstaka þætti framkvæmdarinnar og umhverfisáhrif hennar. (sjá hér) Þessi niðurstaða lá fyrir 1. ágúst. Landsvirkjun kærði úrskurðinn (sjá hér) og 20. desember, sama ár, felldi umhverfisráðherra mat Skipulagsstofnunar úr gildi (sjá hér hér og úrskurðinn hér).
Í ýtarlegri umfjöllun Morgunblaðsins um málið er margt sem vekur athygli en þar kemur fram að í nokkrum þeirra kæra sem bárust umhverfisráðuneytinu vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar var því haldið fram að umhverfisráðherra væri vanhæfur til að fjalla um málið og ætti því að víkja sæti. (sjá hér) Siv segir að það hafi verið farið vandlega yfir þessa hlið málsins en niðurstaðan hins vegar orðið sú að ráðherra væri ekki vanhæfur til að úrskurða í þessu máli (sjá hér).
Það kemur líka fram að Siv lítur svo á að málsmeðferð Skipulagsstofnunar hafi ekki verið í samræmi við rannsóknarskyldu (sjá hér) stofnunarinnar sem mælt er fyrir um í stjórnsýslulögum. Fréttin segir ennfremur frá því að það kæruferli sem fór af stað í kjölfar málsmeðferðar Skipulagsstofnun hafi leitt þáverandi ríkisstjórn til þeirrar niðurstöðu að nauðsynlegt væri að endurskoða ársgömul lög um mat á umhverfisáhrifum. Um þessa niðurstöðu segir Siv:
"Það er alveg ljóst að það verða gerðar breytingar á þessum lögum. Það er óljóst hvaða breytingar það verða, en margt í gildandi lögum er umhugsunarvert, ekki síst hvað varðar okkar löggjöf í samanburði við það sem gerist í nágrannalöndum okkar og á Evrópska efnahagssvæðinu. Þar er það víðast leyfisveitandi sem fellir úrskurð, en ekki stofnun eins og hér á landi." (sjá hér)
Lögunum var breytt á þann veg að Skipulagsstofnun var ekki lengur heimilt að leggjast gegn framkvæmdum heldur einungis að setja fram álit sem stjórnvöldum yrði í sjálfsvald sett að fara eftir (sjá hér). Ein meginrökin fyrir þeirri niðurstöðu að fella mat Skipulagsstofnunar úr gildi og breyta lögunum þannig að draga úr stjórnsýslulegu vægi hennar var að ekki mætti:
binda hendur leyfisveitanda, þ.e. Alþingis, með því að hafna framkvæmdinni vegna umhverfisrasks sem henni fylgir. Af þessu leiðir að Alþingi verður að vega og meta annars vegar umhverfisrask og óafturkræfar breytingar á náttúrufari og landslagi og hins vegar hvaða samfélagslegur ávinningur eða tap kann að fylgja framkvæmdum. (sjá hér)
Í ljósi þess sem síðar hefur komið í ljós, í sambandi við áhrif og afleiðingar þeirrar stórframkvæmdar sem Kárahnjúkavirkjun var, er merkilegt að skoða þá niðurstöðu sem Siv Friðleifsdóttir hefur komist að í desember 2001. Lokaorð fréttar Morgunblaðsins af blaðamannafundinum sem haldinn var til að kynna úrskurð Umhverfisráðuneytisins varðandi kæru Landsvirkjunar á mati Skipulagsstofnunar eru höfð eftir Siv.
"Eftir að hafa farið í gegnum öll gögn og skoðað þau með sérfræðingum fannst mér í sjálfu sér ekki erfitt að taka þessa ákvörðun," [...] "Ég hef sterka sannfæringu fyrir því að með þessum skilyrðum höfum við takmarkað mjög umhverfisáhrifin af völdum þessarar framkvæmdar. Ég hef mjög sterka sannfæringu um að ég sé að gera hið rétta í málinu og ekki er unnt að mínu mati að ætlast til þess að umhverfisráðherra sé ævinlega á móti öllum framkvæmdum, hvaða nafni sem þær nefnast.
Fari svo að þessi framkvæmd verði að veruleika sýnist mér að hún geti haft gífurlega góð áhrif á íslenskt samfélag. Með henni verður okkur kleift að nýta okkar endurnýjanlegu orkuauðlindir og um leið hefur hún verulega þýðingu fyrir þjóðarbúið." (sjá hér (leturbreytingar eru höfundar))
Það má taka undir það með Siv Friðleifsdóttur að Kárahnjúkavirkjun hefur haft verulega þýðingu fyrir þjóðarbúið. Þetta kemur m.a. fram í ársreikningi Landsvirkjunar fyrir síðasta ár ern þar kemur fram að tap hennar var 4,4 milljarðar króna og er tapið rakið til lækkunar á álverði á heimsmarkaði, sem kemur meðal annars fram í mikilli lækkun á bókfærðu verði innbyggðra afleiða, sem fyrirtækið getur haft takmörkuð áhrif á. (sjá hér) Raforkuverðið til álfyrirtækjanna er trúnaðarmál (sjá hér) en álfyrirtækin eru sögð borga lægra raforkuverð en heimilin og töluvert lægra verð en þau þyrftu að greiða annars staðar (sjá hér).
Vatnalög og Rammaáætlun
Það sem vekur athygli í stuttri sögu Umhverfisráðuneytisins er að frá stofnun þess hafa mismunandi hugmyndir um eignarhald, virkjunarframkvæmdir og verndunarsjónarmið verið mjög í sviðsljósinu. Eftir síðasta kjörtímabil ætti það að vera ljóst að þó stjórnmálamennirnir kunni að takast á um einstaka virkjunarkosti þá telja þeir flestir eðlilegt að leigja aðgang að náttúruauðlindunum og verðleggja hvers konar nýtingu þeirra.
Í þeim anda hafa veiðigjöld verið sett á fiskinn og sala á vatnsveitum er þegar hafin með sölu vatnsveitunnar á Suðurnesjum til einkafyrirtækis (sjá hér). Í þessum anda var Rammaáætlun síðustu ríkisstjórnar sett saman þar sem svonefndir virkjunarkostir hafa verið flokkaðir niður í þrjá mismunandi flokka sem eru eftirfarandi: orkunýtingar-, bið- og verndarflokkur (sjá hér) Í athugasemdum við þá þingsályktunartillögu Katrínar Júlíusdóttur, iðnaðarráðherra sem hefur verið kennd við rammaáætlun og dregur fram hugmyndir síðustu ríkisstjórnar um virkjunarkosti, segir:
Samkvæmt 3. gr. laga nr. 48/2011 skal iðnaðarráðherra leggja í samráði og samvinnu við umhverfisráðherra eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Í verndar- og orkunýtingaráætlun skal í samræmi við markmið laga nr. 48/2011 lagt [svo] mat á verndar- og orkunýtingargildi landsvæða og efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg áhrif nýtingar, þ.m.t. verndunar. Í verndar- og orkunýtingaráætlun skal tekið mið af vatnaáætlun samkvæmt lögum um stjórn vatnamála. (sjá hér)
Af orðum Katrínar Júlíusdóttur hér að ofan ætti að vera ljóst að sá merkimiði, sem stjórnvöld settu á þá náttúru sem hefur verið skilgreind sem virkjunarkostur, verður endurmetinn á a.m.k. fjögurra ára fresti út frá forsendum verndar- og orkunýtingargildi landsvæða og efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg áhrif nýtingar (sjá hér).
M.ö.o. þá eru Þeistareykir, Þjórsá, Markarfljót og Geysir allt virkjunarkostir. Þó þeim hafi verið raðað í þrjá mismunandi flokka af síðustu ríkisstjórn þá er möguleikinn til að breyta því fjórum árum síðar skilinn eftir opinn. Það er þess vegna engin trygging fyrir því að Geysir sem síðasta ríkisstjórn setti í verndarflokk færist ekki yfir í annan flokk innan virkjunarkostanna.
Í kjölfar Rammaáætlunar var lagt fram frumvarp til laga um náttúruvernd sem byggði á þeirri hugmyndafræði sem kom fram í Rammaáætluninni. Töluverð umræða varð um frumvarpið og töluðu sumir um frumvarp boða og banna (sjá hér). Að endingu voru lögin þó samþykkt en gildistöku þeirra frestað til 1. apríl 2014 (sjá 94. grein hér).
Síðastliðið haust ákvað nýr umhverfis- og auðlindaráðherra að afturkalla lögin sem voru samþykkt rétt fyrir þinglok síðasta kjörtímabils (sjá hér). Nú hefur gildistöku heildarlaga um náttúrvernd hins vegar verið frestað til 1. júlí 2015 (sjá hér) en fram að þeim tíma verða einstakir þættir laganna skoðaðir betur (sjá hér).
Ekki verður skilist við helstu ágreiningsmál á sviði umhverfis- og auðlindamála án þess að staldra við meðferð síðasta kjörtímabils á svonefndum Vatnalögum en þau komu fyrst til umræðu í júnímánuði árið 2010 (sjá hér). Frumvarpið sem lagt var fram kvað einvörðungu á um frestun gildistöku laga nr. 20/2006 til 1. október 2011 (sjá hér). Lögin hefðu annars tekið gildi 1. júlí 2010 (sjá hér). Í undanfara þessa var byggð töluverð spenna gagnvart því að með þessu væri verið að bregðast við því þeim möguleika að vatnið yrði einkavætt. Katrín Júlíusdóttir, þáverandi iðnaðarráðherra, sagði m.a:
Ég gagnrýndi vatnalögin hart á þingi árið 2006. Þau kveða í raun á um altækan séreignarrétt á hvers kyns nýtingu vatns og leigu slíkra réttinda. Almannahagsmunir eru þar fyrir borð bornir, (sjá hér)
Þegar litið er til umræðunnar sem skapaðist um frumvarp Valgerðar Sverrisdóttur um vatnalögin árið 2006 er ljóst að töluverð var tekist á um málið. Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, er sannarlega ein þeirra sem gagnrýndu frumvarpið með ábendingum um það hvaða afleiðingar gætu fylgt einkavæðingu vatnsins:
Alþjóðaheilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna áætlaði árið 2002 að 1,7 milljarða manna skorti aðgang að hreinu vatni og um 2,3 milljarðar manna þjáðust af sjúkdómum, sem rekja mætti annars vegar til óhreins vatns og hins vegar hárrar verðlagningar á vatni. Seinna vandamálið hefur farið vaxandi, ekki síst vegna einkavæðingar á vatnsveitum í löndum á borð við Indland. Páll H. Hannesson, alþjóðafulltrúi BSRB, sagði í fyrirlestri sínum á ráðstefnunni um helgina að rannsóknir sýndu að reynslan af einkavæðingu vatns í þróunarlöndunum hefði yfirleitt verið slæm. Skort hefði á samkeppni og fyrirtæki hefðu ekki fjárfest eins mikið og búist hefði verið við í nývirkjum og viðhaldi auk þess sem verð á vatni hefði hækkað. (sjá hér)
Einhverjum fannst það reyndar bregða nokkrum skugga á trúverðugleika þeirra staðhæfinga, síðustu ríkisstjórnar, að tilgangurinn með frestun laganna, í upphafi sumars 2010, væri sá að standa vörð um það að vatnið yrði einkavætt. Skugginn stafaði af því að litlu fyrr eignaðist erlent fjárfestingarfyrirtæki HS-Orku (sjá hér).
Í byrjun árs 2011 komu Vatnalögin aftur á dragskrá en þá lagði þáverandi ríkisstjórn til að vatnalögin frá 1923 [héldu] gildi sínu en gerðar [yrðu] á þeim ákveðnar úrbætur. (sjá hér) Lögin voru samþykkt um miðjan september sama ár. Tilgangur þess að endurvekja Vatnalögin frá 1923 var sagður sá að snúa við þróun í átt að einkarétti á auðlindunum. (sjá hér) Þessa túlkun hefur Páll H. Hannesson (sá sami og Katrín Júlíusdóttir vísaði til í þingræðu sinni árið 2006) kallað svik Samfylkingarinnar í vatnamálinu (sjá hér).
Svikin liggja ekki síst í þessari inngangsmálsgrein laganna: Lög þessi taka til alls rennandi eða kyrrstæðs vatns á yfirborði jarðar, í föstu eða fljótandi formi, að svo miklu leyti sem önnur lög gilda ekki þar um. (sjá hér) Vatnalögin nr. 15/1923 með breytingunum frá 2011 taka því aðeins til yfirborðsvatns en ekki grunnvatns. Þau lög sem taka til grunnvatnsins voru lögð fram af Finni Ingólfssyni, þá verandi iðnaðarráðherra, og samþykkt í apríl 1998 (sjá hér).
Við atkvæðagreiðsluna um endurvakningu Vatnalaganna frá 1923 vísaði Ögmundur Jónasson til þessara laga með þeim orðum að með þeim lögum sem atkvæðagreiðslan stóð um væri unnin mikilvægur varnarsigur í þágu almannaréttar. En það eru önnur lög sem þarf að breyta, þau sem snúa að einkaeignarréttinum á vatni. [...] þ.e. lögin frá 1998 um rannsóknir á auðlindum í jörðu. (sjá hér)
Þegar horft er til 17. greinar laga nr. 15/1923 er hins vegar ljóst að þau útiloka alls ekki einkavæðingu á vatni. Þar segir í þriðju efnisgrein:
Ríki, sveitarfélögum og félögum í þeirra eigu [...] er heimilt að veita tímabundið afnotarétt að réttindum [...] til allt að 65 ára í senn. Handhafi tímabundins afnotaréttar skal eiga rétt á viðræðum um framlengingu réttarins þegar helmingur umsamins afnotatíma er liðinn. (sjá hér)
Margrét Tryggvadóttir lagði til svohljóðandi breytingartillögu við þessa grein: Ríki, sveitarfélögum og félögum í þeirra eigu [...] er óheimilt að veita afnotarétt að réttindum [...] hvort sem um er að ræða tímabundinn eða ótímabundinn afnotarétt. (sjá hér) Tillagan var felld og var Ögmundur Jónasson einn þeirra sem greiddi atkvæði á móti henni (sjá hér). Hann gaf eftirfarandi skýringu á atkvæði sínu:
Andinn í breytingartillögu [...] Margrétar Tryggvadóttur er góður en við teljum engu að síður mörg hver í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hana ekki standast að öllu leyti og við munum ekki greiða þeirri tillögu atkvæði. Ég árétta líka þann skilning okkar í Vinstri hreyfingunni grænu framboði að 65 ára ráðstöfunarréttur á vatni í 9. gr. [svo] frumvarpsins er aðeins hugsaður til bráðabirgða. (sjá hér)
Breytingar á lögunum frá 1998, sem Ögmundur vísaði til, voru lagðar fram í nóvember 2011 og samþykktar í febrúar 2012 (sjá hér). Þær snúast hins vegar ekkert um það sem Ögmundur vísaði til. Á síðustu dögum þinghalds síðasta kjörtímabil lagði Steingrímur J. Sigfússon reyndar fram frumvarp til samræmingar laga um vatnsréttindi (sjá hér). Frumvarpið dagaði uppi en þar var heldur ekkert sem hefði komið í veg fyrir þá niðurstöðu síðasta kjörtímabils að skilja möguleikann til einkavæðingar á náttúruauðlindum bæði í sjó og á landi eftir galopinn (sjá t.d. hér).
Í lok síðasta árs seldu Orkuveita Reykjavíkur og Reykjanesbær sinn hlut í HS veitum til félagsins Úrsusar sem er í eigu Heiðars Márs [svo] Guðjónssonar fjárfestis. Minni sveitarfélög á Reykjanesi sem áttu hvort um sig 0,5 prósent eða minna í HS veitum hafa einnig ákveðið að selja sinn hlut til Úrsusar, sem þar með á um 33 prósent í fyrirtækinu. (sjá hér) Með því má því segja að einkavæðing vatnsins sé hafin í krafti þeirra laga sem allir þingfulltrúar fjórflokksins bera sína ábyrgð á sama hvað tilveru sérstaks Umhverfisráðuneytis líður.
Umhverfis- og auðlindaráðherra
Svandís Svavarsdóttir var skipuð umhverfisráðherra síðustu ríkisstjórnar. 1. september 2012 var aukið við það embætti hennar og hét það upp frá því umhverfis- og auðlindaráðherra. Svandís er fædd árið 1964. Hún er dóttir Svavars Gestsson sem var þingmaður á árunum 1978 til 1999 eða í rétt rúm tuttugu ár. Á þingferli sínum var Svavar þrisvar sinnum ráðherra en samt ekki nema alls í sjö ár. Svandís kom ný inn á þing árið 2009 og var því skipuð ráðherra án þess að hún ætti nokkra þingreynslu að baki. Hún var 45 ára þegar hún var skipuð ráðherra.
Eins og kom fram í færslunni um Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið er Sigurður Ingi fæddur 1962. Hann kom nýr inn á þing sama ár og Svandís og átti því fjögurra ára þingreynslu að baki þegar hann var skipaður ráðherra í fyrsta skipi 51 árs að aldri. Þetta er hans fyrsta ráðherraembætti en auk þess gegnir hann embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Menntun og starfsreynsla:
Svandís var stúdent frá Menntaskólanum í Hamrahlíð vorið 1983 eða 19 ára. Sex árum síðar lauk hún BA-próf í almennum málvísindum og íslensku frá Háskóla Íslands. Árin 1989 til 1993 stundaði hún framhaldsnám í íslenskri málfræði við sama skóla. Á meðan hún var í því námi var hún stundakennari í almennum málvísindum og íslensku við Háskóla Íslands eða á árunum 1990 til 1994. Þess er hins vegar ekki getið að hún hafi útskrifast úr því námi.
Auk framangreinds starfaði hún hjá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra við rannsóknir á íslenska táknmálinu á árunum 1992 til 1994. Frá 1994 var hún kennslustjóri í táknmálsfræði og táknmálstúlkun við Háskóla Íslands um fjögurra ára skeið. Í framhaldinu starfaði hún við rannsóknir, ráðgjöf og stjórnun hjá sömu stofnun fram til ársins 2005. Eftir það sneri hún sér alfarið að pólitíkinni og var fulltrúi Vinstri grænna í borgarpólitíkinni frá 2006 fram til þess að hún var kosin inn á þing fyrir Vinstri græna 45 ára.
Sigurður Ingi varð stúdent frá Menntaskólanum á Laugarvatni tvítugur að aldri. Hann tók embættispróf í dýralækningum frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn. Hann fékk almennt dýralæknaleyfi í Danmörku 27 ára gamall og ári eldri á Íslandi. Hann stundað landbúnaðarstörf samhliða námi frá 1970 til ársins 1984. Eftir stúdentsprófið, árið 1982, vann hann líka í eitt ár við afgreiðslu- og verkamannastörf hjá Mjólkursamsölunni í Reykjavík.
Eftir að hann sneri heim frá dýralæknanáminu var hann bóndi í Dalbæ í Hrunamannahreppi í sjö ár eða frá 1987 til 1994. Frá árinu 1990 var hann sjálfstætt starfandi dýralæknir í uppsveitum Árnessýslu í fimm ár. Á árunum 1992 til 1994 var hann auk þess héraðsdýralæknir í Hreppa- og Laugarásumdæmi og um skeið í Vestur-Barðastrandarumdæmi. Frá árinu 1996 var hann dýralæknir hjá Dýralæknaþjónustu Suðurlands ehf. í 13 ár. Sjö síðustu árin áður en hann var kosinn inn á þing var hann líka oddviti Hrunamannahrepps. Hann var kosinn inn á þing fyrir Framsóknarflokkinn 47 ára.
Stjórnmálatengd störf og nefndarsetur:
Svandís fór að fullum krafti út í pólitíkina 39 ára. Hún byrjaði sem formaður Vinstri grænna í Reykjavík og gegndi þeirri stöðu í tvö ár. Þá varð hún framkvæmdastjóri flokksins í eitt ár. Árið 2006 var hún kjörin borgarfulltrúi í Reykjavík og gegndi þeirri stöðu í þrjú ár eða þar til hún var kjörin inn á þing.
Á meðan hún var í borgarpólitíkinni sat hún að meðaltali í sex stjórnum, ráðum og nefndum en alls voru embættin sem hún gegndi á þessum tíma tíu. Þar á meðal átti hún sæti í skipulagsráði Reykjavíkur frá 2006 til 2009 og stjórn Orkuveitu Reykjavíkur á árunum 2007 til 2009. Flestum embættunum á sviði borgarmála gegndi hún árið 2007 eða alls sjö.
Sigurður Ingi gerðist virkur í sínu nærumhverfi eftir að hann sneri heim úr námi og tók þátt í stjórnun íþróttafélaga og sóknarnefnda á árunum milli þrítugs og fertugs. Þegar hann var 32ja ára var hann kjörinn í sveitarstjórn Hrunamannahrepps þar sem hann sat í 16 ár. Hann var varaoddviti í sveitarstjórninni á árunum 1994 til 1998 en síðar oddviti frá 2002 til 2009.
Frá því að Sigurður Ingi tók að snúa sér að félagsstörfum hefur hann verið virkur í félagsskap dýralækna. Þannig var hann í stjórn Dýralæknafélags Íslands á árunum 1994 til 1996 og í framhaldinu formaður stjórnar Dýralæknaþjónustu Suðurlands ehf. eða frá 1996 til 2011. Á þeim tíma átti hann sæti í ráðherraskipaðri nefnd sem vann að breytingum á dýralæknalögum eða á árunum 1996 til 1998.
Þegar Sigurður Ingi var fast að fertugu var hann kosinn ritari stjórnar Framsóknarfélags Árnessýslu. Næsta áratug á eftir hefur hann verið áberandi virkur í ýmsum stjórnum og nefndum sem fara með hin fjölbreyttustu mál átthaganna; Árnessýslu og Suðurlands. Þar á meðal má nefna að hann var í héraðsnefnd Árnesinga á árunum 2002 til 2006 og í stjórn Atvinnuþróunarsjóðs Suðurlands á sama tíma og einu ári betur.
Hann var líka í samgöngunefnd Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga á árunum 2003 til 2006. Á árunum 2006 til 2008 var hann Formaður skipulags- og bygginganefndar uppsveita Árnessýslu og líka formaður stjórnar skipulags- og byggingafulltrúaembættis uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps á árunum 2006 til 2009.
Frá því að Sigurður Ingi hóf afskipti af nærumhverfi sínu og öðrum samfélagsmálum hefur hann átt sæti í tuttugu stjórnum og nefndum utan þings. Flest slík sæti átti hann á árunum 2002 til 2009 eða átta til tíu að meðaltali. Hann var kosinn varaformaður Framsóknarflokksins árið 2013.
Þingstörf og nefndarsetur á vegum þess:
Svandís kom ný inn á þing í alþingiskosningunum vorið 2009 og hefur því setið inni á þingi í tæp 5 ár. Hún er alþingismaður Vinstri grænna í Reykjavík suður.
Svandís er núverandi formaður þingflokks Vinstri grænna eða síðan 2013. Hún hefur átt sæti í allsherjar- og menntamálanefnd frá síðasta ári.
Sigurður Ingi kom nýr inn á þing eftir alþingiskosningarnar vorið 2009 þá 47 ára. Hann hefur því setið inni á þingi í tæp 5 ár. Hann er þingmaður Suðurlands fyrir Framsóknarflokkinn.
Þegar litið er yfir setu Sigurðar Inga í þingnefndum þá átti hann sæti í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd á árunum 2009 til 2011 og atvinnuveganefnd á árunum 2011 til 2013.
Ráðherraembætti:
Svandís var skipuð umhverfisráðherra vorið 2009 þrátt fyrir að vera ný inni á þingi. Hún var 45 ára þegar hún tók við umhverfisráðherraembættinu. 1. september 2012 var aukið við embættisheiti hennar sem var upp frá því umhverfis- og auðlindaráðherra. Þess má geta að Svandís var ein þeirra fjögurra ráðherra sem sátu í sama embætti frá upphafi síðasta kjörtímabils til loka þess (sjá hér en nánar um feril hennar hér).
Sigurður Ingi hefur ekki verið ráðherra áður en hann var 51s árs þegar hann var skipaður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra vorið 2013 (sjá nánar hér).
Samantekt
Í fljótu bragði er ekki að sjá að Svandís og Sigurður Ingi eigi nokkuð sameiginlegt. Hann er fæddur og uppalin í sveit en Svandís er kaupstaðarbarn. Bæði eru reyndar með stúdentspróf en hann lærði dýralækningar úti í Kaupmannahöfn en hún íslensku og íslensk málvísindi hér heima. Sigurður Ingi á sinn meginstarfsferil í bústörfum og dýralækningum en Svandís í kennslu og ýmsum fræðistörfum á sviði táknmáls.
Sigurður Ingi stóð á þrítugu þegar hann sneri sér að pólitíkinni en Svandís var fast að fertugu: Sigurður Ingi hóf sinn feril með þátttöku í sveitarstjórnarmálum Hrunamannahrepps. Svandís sem formaður Vinstri grænna í Reykjavík. Þau eiga því bæði bakgrunn af stjórnsýslusviði sinnar heimabyggðar áður en þau taka sæti á þingi á sama tíma.
Þegar litið er til þess hvað liggur því að baki að þau eru skipuð ráðherrar umhverfis- og auðlindamála þá eru væntanlega nokkur atriði sem koma til álita. Fyrst er það reynsla beggja af sveitar- og borgarstjórnarmálum. Sigurður Ingi hefur sinn feril á því sviði pólitíkunnar sem varaoddviti Hrunamannahrepps árið 1994 en Svandís sem formaður Vinstri grænna í Reykjavík árið 2003.
Sigurður Ingi var oddviti Hrunamannahrepps á árunum 2002 til 2009 og sat á sama tíma í nefndum sem fjölluðu um ýmis skipulagsmál Árnessýslu. Svandís er borgarfulltrúi á árunum 2006 til 2009 og auk þess í borgarráði tvö síðustu ári. Á sama tíma atti hún sæti í skipulagsráði Reykjavíkur og stjórn Orkuveitu sama sveitarfélags. Hvorugt hefur neina reynslu af umhverfis- og auðlindamálum í gegnum nefndarsetur á Alþingi.
Ef til vill hefur það skipt einhverju við skipun Svandísar að hún er dóttir fyrrum flokksbróður Steingríms J. Sigfússonar til margra ára en þeir voru samtíða á þingi á árunum 1983 til 1999. Svavar Gestsson var formaður Alþýðubandalagsins fyrsta kjörtímabilið sem Steingrímur J. sat inni á þingi. Sigurður á engan slíkan bakgrunn inni á þingi en hann er núverandi varaformaður Framsóknarflokksins.
Hvað sem öðru líður þá er ljóst að það er ekkert í ferilskrám Svandísar og Sigurðar Inga annað en bakgrunnur þeirra á vettvangi pólitíkunnar sem skýrir skipun þeirra í embætti. Hvorugt þeirra hefur menntun eða annað á ferilskránni sem gefur tilefni til að ætla að þau búi yfir staðgóðri þekkingu og/eða reynslu á sviði umhverfis- eða auðlindamála.
Í mælingum Gallups á ánægju með störf ráðherra á síðasta kjörtímabili voru í kringum 20% þátttakenda ánægðir með störf Svandísar sem umhverfisráðherra. Hún var því meðal þeirra ráðherra í síðustu ríkisstjórn sem minnst ánægja ríktu með og í lok kjörtímabilsins var hún sá ráðherra sem reyndist minnst ánægja með (sjá hér). Það er rétt að taka það fram að slóðirnar inn á þessar mælingar Gallups hafa breyst frá því að farið var að stað með þetta verkefni svo og uppsetningin á niðurstöðunum.
Ástæðurnar fyrir óánægju, þátttakenda í mælingum Gallups, með störf Svandísar eru sjálfsagt eitthvað einstaklingsbundnar en þó má minna á að Svandís var eini nýi þingmaðurinn í embætti ráðherra á síðasta þingi. Kjósendur þekktu því væntanlega minnst til hennar starfa auk þess sem það fór sjaldnast mikið fyrir henni í embætti umhverfis- og auðlindaráðherra.
Væntanlega eru þeir líka einhverjir sem hafa ekki meðtekið það enn að Sigurður Ingi gegnir embætti umhverfis- og auðlindaráðherra á þessu kjörtímabili. Þó er líklegra að hann hafi vakið athygli á þeirri stöðu sinni síðastliðið haust þegar hann afturkallaði náttúruverndarlögin (sjá hér) sem voru lögð fram og samþykkt á síðasta kjörtímabili. Að vonum olli þessi afgerandi ákvörðun hans töluverðum taugatitringi (sjá hér) en nú hefur náðst sátt um frestun á gildistöku laganna en fram að þeim tíma verða einstakar greinar laganna teknar til endurskoðunar með það að markmiði að bæta úr því sem helst hefur mætt andstöðu (sjá hér).
Það má því gera ráð fyrir að Sigurður Ingi eigi eftir að láta frekar að sér kveða í umhverfis- og auðlindamálum þjóðarinnar. Hverjar sem ákvarðanir og aðgerðir hans verða á því sviði þá er hæpið að allir verði ánægðir frekar en með störf Svandísar í sama embætti. Þeir sem gera kröfur um þekkingu og umtalsverðrar reynslu hafa reyndar gilda ástæðu þar sem hvorugt býr yfir slíku og eins og dæmin sanna þá hefur pólitíkin almennt verið látin ráða í slíkum tilvikum með misgæfulegum árangri.
Miðað við stefnu Vinstri grænna í umhverfismálum bjuggust margir við meiri tilþrifum af Svandísi Svavarsdóttur varðandi umhverfisvernd en þær vonir brugðust. Ekki er gott að segja hvort meiru réði að sú umhverfisstefna sem Vinstri grænir hafa haldið á lofti sé eingöngu kosningabrella til að ná til umhverfissinnaðra kjósenda eða það að Svandísi skorti burði til að fylgja stefnu flokksins eftir.
Miðað við þá umhverfispólitík sem Framsóknarflokkurinn hefur rekið hingað til þá má segja að það sé eðlilegt að margir beri kvíðboga fyrir því hvaða spor núverandi kjörtímabil skilji eftir með framsóknarþingmanninn Sigurð Inga Jóhannsson í embætti. Sennilegt má líka teljast að kjósendur séu uggandi yfir því hvernig umhverfismálunum muni farnast í höndum þess sem fer yfir jafnviðamiklu ráðuneyti og Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu á sama tíma.
Helstu heimildir
Umhverfisráðherratal
Ráherraskipan í síðara ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttir
Ráðherrar í núverandi ríkisstjórn
Ríkisstjórnir og ráðherrar frá 1904-1942
Ríkisstjórnartal frá stofnun lýðveldis
Ánægja með störf ráðherra: 6. október 2009 (fyrsta könnun)
Ánægja með störf ráðherra: 9. apríl 2010
Ánægja með störf ráðherra og stjórnarandstöðu: 23. mars 2012
Ánægja með störf ráðherra: 10. janúar 2013
Saga umhverfis- og auðlindaráðuneytisins
Skýrsla nefndar um endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands - Samhent stjórnsýsla (13.12.2010)
Ný lög um Stjórnarráð Íslands (19.09.2011)
Ræður þingmanna (á árunum 1907-2014)
Heimildir úr lögum
Vatnalög nr. 20, 31. mars 2006
Lög um mat á umhverfisáhrifum (núgildandi lög með seinni tíma breytingum)
Lög um mat á umhverfisáhrifum. nr. 106, maí 2000
Lög samþykkt á Alþingi (stjórnartíðindanúmer laga)
Ferlar einstakra mála inni á Alþingi
Náttúruvernd (brottfall laganna) nóvember 2013 og áfram
Náttúruvernd (heildarlög) nóvember 2012 fram í mars 2013.
Áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða mars fram í maí 2012
Rannsóknir og nýting auðlinda í jörðu og einkaréttur á auðlindum hafsbotnsins nóvember 2011 fram í febrúar 2012.
Vatnalög (brottfall laga frá 2006 o.fl) mars fram í september 2011
Verndar- og orkunýtingaráætlun (heildarlög) október 2010 fram í maí 2011
Stjórn vatnamála (heildarlög, EES-reglur) nóvember 2010 fram í apríl 2011
Vatnalög (frestun gildistöku laganna) tveir dagar í júní 2010
Vatnalög (heildarlög) nóvember 2005 fram í mars 2006.
Rannsóknir og nýting auðlinda í jörðu desember 1997 fram í maí 1998
Heimildir úr fjölmiðlum
Íslendingar eru mestu umhverfissóðar í heimi. Fréttatíminn. 21. febrúar 2014
Gildistöku náttúruverndarlaga frestað. visir.is. 19. febrúar 2014.
Sátt í þingnefnd: Náttúruverndarlög falla ekki úr gildi. eyjan.is. 19. febrúar 2014
Lífeyrissjóðir munu eiga í HS veitum. ruv.is 10. febrúar 2014
Almannahagsmunum fórnað fyrir skammtíma bókhaldstrikk. visir.is 29. desember 2013
Reiði og undrun vegna ákvörðunar Sigurðar Inga. eyjan.is 25. september 2013
Lög um náttúruvernd afturkölluð. mbl.is. 24. september 2013
Hugsanlegt að eitthvert álfyrirtækjanna hætti starfsemi á Íslandi. eyjan.is 27. ágúst 2013
Páll H. Hannesson. Svik Samfylkingarinnar í vatnamálunum. Smugan 25. apríl 2013
Jóhann Páll Jóhannsson. Umhverfismat hundsað og Lagarfljót skemmt. dv.is 20. mars 2013.
Júlíus Sólnes: Umhverfisráðuneyti 1990-2013: In memoriam. pressan.is 31. maí 2013
Ráðherra felldi úrskurð Skipulagsstofnunar. ruv.is 23. maí 2013
Andri Snær Magnason: Lagarfljótið er dautt - er Mývatn næst? 12. mars 2013
Lífríkið í Lagarfljóti sagt vera á vonarvöl. visir.is 12. mars 2013
Einkaréttur á vatni. ruv.is. 18. september 2011
Vatnalögin frá 1923 endurvakin. mbl.is. 21. febrúar 2011
Vestfjarðarvegur ekki um Teigsskóg. mbl.is 22. október 2010
Einar Þór Sigurðsson. Raforka til stóriðju: Ísland ódýrara en Afríka. dv.is 16. apríl 2010.
Slagurinn um vatnið hafinn. dv.is 29. mars 2010
Vignir Lýðsson. Einkavæðing sparar Reykjanesbæ 10 milljarða. pressan.is. 18. ágúst 2009
Sprunga við Kárahnjúkastíflu. visir.is. 29. ágúst 2008
Friðrik Sophusson. Rafmagnsverð til álfyrirtækja. Morgunblaðið 22. desember 2006
Hluti úrskurðar setts umhverfisráðherra felldur úr gildi. mbl.is 27. júní 2006.
Áframhaldandi átök um vatnalögin. visir.is. 13. mars 2006.
Hjörleifur Guttormsson: Hversu traustar eru undirstöður Kárahnjúkastíflu og Hálsalóns Morgunblaðið, 30. desember 2004.
Skilyrði eiga að tryggja umhverfisáhrif innan hóflegra marka. Morgunblaðið. 21. desember 2001. Niðurstaða umhverfisráðherra. Morgunblaðið. 21. desember 2001.
Aðrar heimildir
Ársreikningur Landsvirkjunar 2013. 21. febrúar 2014
Eðli jarðhita og sjálfbær nýting hans. 2010.
Fyrirkomulag varðandi leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu íslenska ríkisins. 2010.
Kárahnjúkavirkjun: Umsögn stjórnar Landverndar til Alþingis, mars 2002.
Kárahnjúkavirkjunar. 20.12.2001
Ingimar Karl Helgason: Einkavæðing drykkjarvatnsins. 6. nóvember 2013
Landvernd: Sprungur og áhætta við Kárahnjúkavirkjun. 28. ágúst 2006.
Náttúruvaktin: - umhverfismat o.fl. fyrir orkufyrirtækin
Páll H. Hannesson. Nýtt Magma í pípunum eða samhengi hlutanna. 28. febrúar 2012
Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhitasvæði. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið: Úrskurður umhverfisráðherra vegna mats á umhverfisáhrifum
Úrskurður Skipulagsstofnunar um mat á skipulagsáhrifum
Ögmundur Jónasson. Vatnaslóðir. 15. júní 2010.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.4.2014 kl. 00:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)