Afhjúpandi þögn um umsókn Lilju

Það er óhætt að segja að hún hafi komið á óvart tilkynning fjármála- og efnahagsráðherra um það hver verður skipaður í embætti seðlabankastjóra. Það er þó líklegra að einhverjir hafi verið búnir að reikna þessa niðurstöðu út úr biðtímanum. Yfirlýsing Más Guðmundssonar, sem heldur embættinu, í kjölfar tilkynningar Bjarna Benediktssonar hefur þó væntanlega komið flestum í opna skjöldu.

Þegar rýnt er í undangengið umsóknar- og skipunarferli er reyndar fleira sem hlýtur að koma mörgum á óvart. Eitt af því er sú ríka tilhneiging fjölmiðla, og annarra sem láta sig samfélagsmál varða, að láta sem Lilja Mósesdóttir hafi ekki verið á meðal umsækjenda eða hafi verið algerlega óþekkt áður en hún sótti um seðlabankastjórastöðuna og þar af leiðandi sé ekkert um hana að segja.

Það er reyndar engu líkara en fjölmiðlar hafi tekið sig saman um að þegja þunnu hljóði yfir því að hún hafi verið á meðal umsækjendanna. Í það minnsta kemur þögn þeirra ekki heim og saman við það hvers gjarnt þeim er að greina frá hvers kyns athöfnum bæði þingmanna og annarra síður þekktra persóna. Það sætir því furðu að það að fyrrum þingmaður sæktist eftir æðsta embætti landsins á sviði efnahagsmála skuli ekki hafa fengið áberandi umfjöllun.

Skjaldborgin

Þögnin verður enn undarlegri þegar það er haft í huga að um er að ræða þingmann sem var frekar tilbúinn til að fórna pólitískum frama en láta af baráttu sinni fyrir almannahagsmunum. Allt síðasta kjörtímabil dró Lilja ekkert af sér við að vara við kreppudýpkandi afleiðingum efnahagsáætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, vekja athygli á skuldaíþyngjandi afleiðingum Icessave-samningsins og upplýsa þjóðina um ógnina sem henni stafar af kröfum hrægammasjóða.

Fulltrúar stjórnmálaflokka og hagsmunasamtaka, sem hafa það að yfirlýstu markmiði að berjast fyrir leiðréttingu á kjörum almennings og þess forsendubrests sem varð við bankahrunið, hafa líka verið undarlega þögulir. Mesta furðu vekur að ekkert hefur heyrst frá núverandi þingflokkum stjórnarandstöðunnar né félagssamtökum þeirra sem berjast fyrir hagsmunum heimilanna eða breyttu banka- og/eða peningakerfi.

Þessi grafarþögn er svo áberandi að það er eðlilegt að velta ástæðum hennar fyrir sér. Stærsta spurningin í þessu sambandi er hvort ræður meiru, í þögn fjölmiðla, stjórnmálaflokka og félagssamtaka, sú áhersla sem Lilja Mósesdóttir hefur lagt á að leiðrétta eignatilfærslu síðustu ára, í þágu lífskjara almennings og velferðarkerfins, eða það að hún á ekki pólitískt heimilisfang meðal núverandi þingflokka.

Meðmæli með Lilju Mósesóttur
Það mætti reyndar ætla að hvorutveggja þættu ómetanlegir kostir þegar kemur að skipun í embætti eins og seðlabankastjórastöðuna. Það sem atburðarrásin í kringum ráðningarferlið í seðlabankastjórastöðuna hefur hins vegar leitt í ljós er að allir núverandi þingflokkar taka undir þá forgangsröðun við efnahagsstjórn landsins sem þremenningarnir: Friðrik Már Baldursson, Már Guðmundsson og Ragnar Árnason standa fyrir. Þögnin staðfestir bæði það og svo hitt að það sé eðlilegt að það hver hlýtur seðlabankastjórastöðuna sé háð pólitískum tengingum fyrirferðarmestu þingflokkanna.

Ef þessu væri öðruvísi farið hefði einum og öðrum fundist eitthvað um aðdragandann og svo tilkynninguna um skipun Más í embættið. Allir þeir flokkar og félagasamtök sem hafa gefið sig út fyrir að vinna að því að hagsmunir allra kjósenda séu teknir fram yfir sérhagsmuni fjármálaaflanna höfðu tilefni til að láta til sín heyra strax og það kom í ljós að talsmenn þeirra voru metnir „mjög vel hæfir“ á meðan sá umsækjandi sem hefur talað fyrir leiðréttingu á eignatilfærslu undangenginna ára var settur skör neðar en þeir.


Sumir hafa leitt að því líkum að pólitíkin hafi komið sér upp vörn sem byggir á því að í stað þess að taka efnislega afstöðu til hugmynda Lilju Mósesdóttur um lausn skuldavandans þá hafi hún sagt sig frá lögmálum hennar. Þannig hafa einhverjir haldið því fram að Sjálfstæðisflokkurinn hafi tilefni til að refsa henni fyrir það að ganga til liðs við Vinstri græna og afla honum fylgis í alþingiskosningunum 2009 en fyrrverandi ríkisstjórnarflokkar geti ekki fyrirgefið henni það að hún sagði sig frá þinglokki Vinstri grænna og þar með úr ríkisstjórninni. Ef eitthvað er til í þessu þá er ljóst að flokkspólitíkin er ekki aðeins grimm og hefnigjörn heldur ógnar hún samfélagslegum hagsmunum.

Snjóhengjuvandinn Hvað sem þessu líður þá er það staðreynd að í stað þess að félagshyggju- og jafnaðarflokkar, á borð við Samfylkingu og Vinstri græna, hafi tekið sig saman og stutt þann umsækjanda til seðlabankastjórastöðunnar, sem aðhyllist hagfræðikenningar sem ríma við yfirlýsta stefnuskrá þessara flokka, sameinuðust þeir um þann umsækjanda sem hannaði núverandi peningastefnu og mælti með því að þjóðin borgaði Icesave. Allir nema Ögmundur Jónasson en enginn hefur hins vegar fundið tilefni til að furða sig á innhaldinu í yfirlýsingunni sem Már sendi frá sér á sama tíma og tilkynnt var um endurráðningu hans.

Afstaða Framsóknarflokksins hefur ekki komið skýrt fram en miðað við skuldaleiðréttingaráform flokksins hefði það verið eðlilegast að flokkurinn styddi og sæktist eftir því að fá Lilju Mósesdóttur til forystu í stjórn efnahagsmála í landinu. Ekkert hefur komið fram um að þeir hafi lýst slíku yfir á neinum vettvangi. Þögn þeirra er ekki síður sterk vísbending um afstöðu en þögn annarra þingflokka.

Í því sambandi er vert að vekja athygli á því að ekkert hefur heyrst frá fulltrúum Bjartrar framtíðar eða Píratapartýsins varðandi embættisveitinguna. Þar af leiðandi er eðlilegt að draga þá ályktun að hagfræðingar sem tala fyrir leiðréttingu á kjörum almennings og verndun velferðarkerfisins eigi ekki upp á pallborð þessara flokka  frekar en hinna sem eldri eru.

Froðueignir vogunarsjóða

Það er svo spurning hvort öll nýju framboðin og hagsmunasamtökin sem urðu til á síðasta kjörtímabili hafi horfið frá fyrri stefnumálum sem voru mörg hver sömu ættar og þau sem Lilja Mósesdóttir barðist fyrir á meðan hún var á þingi af óvenjulegri einbeitni og eldmóði. Á meðan ekkert heyrist frá þeim er ekki hægt að draga aðra ályktun en nýrjálshyggjan sé sú stefna sem hefur orðið ofan á meðal stjórnmálaflokkanna og annarra sem láta sig almannahagsmuni varða þó það hafi sýnt sig  rækilega í sex ára kjölfari bankahrunsins hversu grátt sú efnahagsstefna leikur velferðarkerfið og lífskjör meirihlutans. 

Þessi áberandi þögn afhjúpar ekkert annað en þann nöturlega raunveruleika að íslensk pólitík samanstendur af einni stefnu sem hefur komið sér fyrir í mörgum flokkum og flokksbrotum. Sú stefna er að viðhalda forréttindum fámennrar stéttar eigna og valda á kostnað almennings. Það er vissulega spurning hvers vegna þarf svo dýrt stjórnmálaflokkakerfi, ráðuneyti og aðra stjórnsýslu ásamt bönkum og fjármálastofnunum til að halda utan um þessa einföldu forgangsröðun. Þeirri spurningu verður ekki svarað hér en vakin athygli á því að skipun Más Guðmundssonar í embætti seðlabankastjóra opinberar það að enginn munur er á hægri og vinstri í íslenskri pólitík.

Þetta á a.m.k. við þegar kemur að stefnu í efnahagsmálum en hingað til hefur það verið mismunandi hugmyndafræði varðandi hagfræði sem hefur verið grunnforsenda þeirrar skiptingar sem áður hét að vera til hægri eða vinstri í pólitík. Það er ekki spurning að einhverjir kjósendur þurftu ekki skipun Más til að átta sig á þessu en það er óskandi að bæði aðdragandinn og svo skipunin sjálf veki þá sem höfðu ekki áttað sig á þessu fyrr.

Færslan er að nokkru leyti byggð á innleggi síðunnar: Lilju Mósesdóttur sem næsta seðlabankastjóra (sjá hér) og flestar myndirnar eru fegnar að láni þaðan.


mbl.is Már hugsar sér til hreyfings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagsmunir fólkins í stað fjármagnsins

Margir þeirra sem hafa tjáð sig á stuðnings-/áskorunarsíðunni: Lilju Mósesdóttur sem næsta seðlabankastjóra, eru á því að voði þjóðarinnar sé vís sama hver þeirra þriggja, sem hæfisnefndin mat hæfastan til seðlabankastjórastöðunnar, verður skipaður. Þeir sem styðja áskorunina um það að Lilja verði skipuð í  seðlabankastjóraembættið, byggja stuðning sinn ekki síst á því að þeir treysta henni til að upplýsa þjóðina af heiðarleika og einurð um það hver raunveruleg staða þjóðarbúsins er og hvernig má takast á við hana.

Þau styðja Lilju sem næsta seðlabankastjóra

Af því sem velunnarar síðunnar hafa sett fram þá er líka ljóst að þeir treysta Lilju til að leggja ekki afleiðingar fjármálahrunsins á almenning eingöngu heldur ganga að þeim sem bera ábyrgðina á bólumynduninni og eru komnir af stað aftur. Traustið stendur til þess að skiptigengisleið hennar forði samfélaginu undan snjóhengjunni sem hefur orðið til fyrir aflandskrónur og kröfur sjóða með falið eignarhald í gömlu bankana.

Þeir þrír sem hæfisnefnd fjármála- og efnahagsráðherra mat „mjög vel hæfa“ til að stýra Seðlabankanum eru allir á því að rétt sé að greiða kröfuhöfum að fullu með höfuðstól og ofurvöxtum. Þeir hirða lítt um aðvaranir um afleiðingar slíkrar skuldsetningarleiðar en drepa gjarnan málinu á dreif með vísan til nauðsynjar þess að „standa við skuldbindingar sínar gangvart erlendum kröfuhöfum“.

Fulltrúar skuldsetningar almennings til björgunar bönkum og öðrum einkafyrirtækjum

Valið á milli þessara þriggja grundvallast þar af leiðandi ekki á breyttum aðferðum heldur viðhaldi þeirrar hugmyndafræði að „einkavæða gróðann en þjóðnýta skuldir“ og skiptir þá ekki máli hvort um er að ræða banka í einkaeigu eða önnur einkarekin fyrirtæki. Eini munurinn, hvað aðferðafræði þessara þriggja varðar, liggur í því hvort aðgerðin fari fram hratt eða hægt.

Kynning af síðunni: Lilju Mósesdóttur sem næsta seðlabankastjóra

Þeir sem vilja sjá Lilju Mósesdóttur sem næsta seðlabankastjóra hafna þess háttar fjármálafræði sem setur hagsmuni fjármagnsins í fyrsta sæti af þeirri ástæðu að slík forgangsröðun ógnar ekki aðeins lífsafkomu núverandi kynslóða heldur framtíðarinnar líka. Af þessum ástæðum eru þeir alltaf fleiri og fleiri sem eru tilbúnir til að taka undir áskorun til stjórnvalda um að setja hagsmuni fólksins ofar hagsmunum fjármagnsins og skipa Lilju Mósesdóttur yfir Seðlabankann þann 20. ágúst n.k.

Byggt á innleggi síðunnar: Lilju Mósesdóttur sem næsta seðlabankastjóra (sjá hér). Myndin af körlunum þremur er fengin að láni frá vb.is en myndin af Lilju er sennilega komin frá dv.is.


Almannahagur að styðja Lilju

Þeir sem styðja Lilju Mósesdóttur voru það mikil vonbrigði að hæfisnefnd efnahags- og fjármálaráðherra skyldi ekki meta hana a.m.k. jafnhæfa og þá þrjá sem að hennar mati eru hæfastir. Þetta eru þeir: Friðrik Már Baldursson, Már Guðmundsson og Ragnar Árnason.

Það er reyndar mat flestra stuðningsmanna hennar að hún sé langhæfust fyrir það „að á meðan hún var á þingi barðist hún fyrir hagsmunum almennings í Icesave-málinu og gegn kreppudýpkandi efnahagsáætlun AGS [...] ásamt því að setja fram „skapandi lausnir“ á snjóhengjuvandanum.“ (sjá hér). Þeir þrír sem hæfisnefndin mat hæfari henni hafa hins vegar sýnt það með verkum sínum að þeir meta hag fjármagnseigenda og banka ofar almannahag. 

Nokkur þeirra atriða sem rökstyðja þetta voru dregin fram í öðru bloggi á þessum vettvangi. Færslan fékk heitið: „Val á nýjum seðlabankastjóra ætti að vera auðvelt. Meginniðurstaðan þar er sú að hagfræðingarnir þrír sem hæfisnefndin mat hæfasta til seðlabankastjóraembættisins gegna hagsmunum fjármagnseigenda umfram almannahagsmuni. Aðalatriði þess sem ekki hefur verið talið í fjölmiðlum, sem hafa fjallað um nýútkomið mat hæfisnefndarinnar, er dregið saman á þessari mynd:

Kostir og gallar sex umsækjenda

Hér er rétt að minna á að eitt af meginbaráttuefnum þeirrar byltingar sem spratt upp úr bankahruninu 2008 var uppgjör við hrunið, aukinn jöfnuður og tryggari lífskjör, þar sem aðgangur að menntun fyrir alla og ódýrri heilbrigðisþjónustu, yrði áfram tryggður. Fyrir þessu barðist Lilja allan þann tíma sem hún sat inni á þingi.

Svo trú var hún áherslum sínum í velferðar- og efnahagsmálum að vorið 2011 sagði hún sig frá þingflokki Vinstri grænna og þar með úr beinum tengslum við þáverandi ríkisstjórn. Reyndar voru þau tvö sem yfirgáfu þingflokk VG á sama tíma. Skömmu síðar fór sá þriðji, hann sagði sig úr flokknum og gekk í annan stjórnarandstöðuflokk, fjórða þingmanninum var vikið úr ráðherraembætti á lokadögum ársins 2011 en sá fimmti lét sig hverfa út af þingi í upphafi ársins 2013. 

Atli Gíslason og Lilja Mósesdóttir héldu blaðamannafund í tilefni þess að þau treystu sér ekki til að vinna lengur með þingflokki Vinstri grænna í ríkisstjórn sem að þeirra mati fór gegn boðaðri stefnu í efnahags-, velferðar- og öðrum lífskjaramálum. Um efnahagsstefnuna segir þetta í yfirlýsingu þeirra, Atla og Lilju, sem er gefin út 21. mars 2011:

Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar byggir á áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í ríkisfjármálum fyrir árin 2009-2013 sem gerð var í tíð fyrri ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar gegn eindreginni andstöðu þingflokks VG. Forysta núverandi ríkisstjórnar fylgir gagnrýnislaust þessari stefnu sem miðar að því að verja fjármagnskerfið og fjármagnseigendur á kostnað almennings og velferðarkerfisins. Undir handleiðslu AGS hefur alltof stórt bankakerfi verið endurreist og haldið hefur verið fast í áætlun AGS í ríkisfjármálum í stað þess að standa vörð um velferðarþjónustuna. (sjá hér (leturbreytingar eru höfundar))

Miðað við þær stefnuáherslur, sem stjórnarflokkar síðustu ríkisstjórnar lögðu fyrir kjósendur í aðdraganda alþingiskosninganna vorið 2009, væri ekki óeðlilegt að ætla að þeir hefðu fagnað þeim trúnaði sem Atli og Lilja vildu sýna fylgismönnum vinstri flokkanna. Sú varð hins vegar ekki raunin.

Lilja Mósesdóttir og Atli Gíslason á blaðamannafundi 21. mars 2011

Haustið eftir úrsögnina úr þingflokki Vinstri grænna var þeim refsað með útilokun úr nefndum. Í framhaldinu snerust margir kjósenda Vinstri grænna á þá sveif að meiru skipti að halda Vinstri grænum á lífi en halda trúnaðinn við kosningaloforðin og stefnuna. Stuðningsmenn Samfylkingarinnar kunnu þeim, Atla og Lilju, ekkert nema kaldar kveðjur fyrir uppátækið sem dró vissulega enn frekar úr ört þverrandi stuðningi við ríkisstjórn þessara tveggja flokka.

Þegar Lilja Mósesdóttir kom fram haustið 2008, þar sem hún talaði á þremur opnum fundum þeirra sem risu upp til byltingar við þá hagstjórn og aðra þá stjórnsýsluhætti sem leiddu til hrunsins, þá var henni fagnað fyrir nýjar hugmyndir, hagfræðiþekkingu og færni til að setja fram flókið samspil ýmissa efnahagsþátta á aðgengilegan og skiljanlegan hátt.

Hún var hvött til framboðs til Alþingi þar sem meðbræður hennar og -systur þyrftu á henni að halda til aðgerða gagnvart afleiðingum hrunsins. Hún hafði alls ekki hugsað sér neitt slíkt þegar hún reis upp til að benda á leiðir sem myndu reynast heillavænlegri viðbrögð, samtímanum og framtíðinni, gagnvart hruninu en þær sem Sjálfstæðisflokkur og Samfylkingin boðuðu í kjölfar þess. Hún kom fram sem fræðimaður og þó hún talaði á tungumáli þeirra sem stóðu utan fræðanna til að þeir skildu þá var það ekki til að vinna kjörfylgi til framdráttar inn á þing.

Eins og margir þeirra, sem hafa boðið sig fram til þings, lét hún þó sannfærast um að Alþingi væri vettvangur þar sem mætti bjóða til samvinnu um skynsamlegar leiðir til lausnar þeim vanda sem samfélagið stóð frammi fyrir á þessum tíma og stendur reyndar enn. Á Alþingi fer hins vegar fram pólitískt þrátefli tveggja afla; þeirra sem hafa lengst af haft völdin í landinu og hinna sem dreymir um að ná völdunum af þeim.

Í slíkum flokkspólitískum hildarleik, þar sem mestu máli skiptir að fórna öllu fyrir tímabundinn ávinning síns flokks, reyndist ekki rými fyrir sérfræðimenntaðan kreppuhagfræðing sem tók trúnaðinn við réttlætishugsjónir sínar og heiðarleikann gagnvart kjósendum og samstarfsfólki sínu fram yfir allt annað. Hugmyndir hennar hlutu ekki hljómgrunn meðal þeirrar “norrænu velferðarstjórnar“, sem stofnað hafði verið til, en hún tók þær saman í þingsályktunartillögu sem hún lagði fram á Alþingi 11. febrúar 2013. Tillagan var aldrei tekin til frekari meðferðar (sjá hér).

Nú hafa hins vegar ýmsir sem vilja telja sig gildandi í efnahagsumræðu bæði á bloggum og í athugasemdakerfum samfélagsmiðlanna tekið að tala fyrir ýmsum hugmynda hennar eins og skiptigengileiðinni (nýkrónu). Ástæðan er e.t.v. sú að það er nefnilega ekkert bjart framundan þó umræðan um slæma fjárhagsstöðu ýmissa sveitarfélaga, skuldug heimili og raðirnar fyrir framan Fjölskylduhjálpina hafi dáið út. Sumir halda því m.a.s. fram að framundan sé annað hrun verði sömu forgangsröðun viðhaldið í efnahagsstjórn landins.

Lilja Mósesdóttir í Klinkinu 11. júní 2012

Lilja Mósesdóttir er ein þeirra sem hefur haldið því fram frá upphafi að sú leið sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setti stjórnvöldum hér, haustið 2008, muni leiða til enn frekari hörmunga. Sú handstýrða flotgengisstefna sem hefur viðgengis hér frá því í mars 2001 ásamt þeirri forgangsröðun að hlífa fjármálastofnunum og fjármagnseigendum á kostnað alls annars hefur stuðlað að gífurlegri verðmætatilfærslu í samfélaginu. 

Nýkrónuhugmynd Lilju Mósesdóttur tekur á þessari mismunum sem eykst smátt og smátt fyrir það að það var aldrei gert upp við þau hagstjórnartæki eða áhersluatriði sem leiddu til síðasta efnahagshruns heldur keyrt áfram út frá sömu formúlunni og áður. Í stað þess að þeir sem kröfðust þess, haustið 2008 og fram á áríð 2009, að hér yrði breytt um kúrs hafi fylgt þessum kröfum eftir og stutt þá, sem hafa komið með lausnir á brýnustu úrlausnarefnunum, hafa þeir horfið til fyrri iðju og gerst áhorfendur að því pólitíska þrátefli sem hefur tíðkast hér á landi frá því fyrstu stjórnmálaflokkarnir komu fram.

Sumir hafa líka gerst þátttakendur og aðrir hafa fest sig í sessi sem leikstjórnarlýsendur frá sínum kanti leikvallarins hvor hópur. Þannig hefur umsókn, fagþekking og annað sem Lilja hefur fram að færa til seðlabankastjórastöðunnar fallið á milli tveggja flokkspólitískra arma, sem hafa kosið að gera skipun seðlabankastjórastöðunnar að framlengdum leikþætti þeirrar pólitísku spillingar, sem einkenndu gjarnan embættisskipun þeirra seðlabankastjóra sem stýrðu bankanum í aðdraganda bankahrunsins 2008.

Nú stóð hins vegar til að vanda til verka. Sérstök hæfisnefnd var skipuð og komst að þeirri niðurstöðu á aðeins rúmum tveimur sólarhringum að: Friðrik Már Baldursson, Már Guðmundsson og Ragnar Árnason væru mjög vel hæfir í stöðu seðlabankastjóra. Lilja Mósesdóttir, Yngvi Örn Kristinsson og Þorsteinn Þorgeirsson voru metin vel hæf og Ásgeir Brynjar Torfason hæfur.

Hæfisnefndin gerði ekki greinarmun á umsækjendum út frá stjórnunarhæfileikum eða hæfni þeirra í mannlegum samskiptum.

Samkvæmt útreikningi Kjarnans eru þeir Friðrik Már Baldursson, Már Guðmundsson og Ragnar Árnason hnífjafnir í kapphlaupinu um seðlabankastjórastöðuna, ef hæfi þeirra er miðað út frá stigagjöf. Þeir hlutu allir tólf stig, Lilja Mósesdóttir og Þorsteinn Þorgeirsson fengu ellefu stig, Yngvi Örn Kristinsson tíu og Ásgeir Brynjar Torfason rak lestina með níu stig. (sjá hér)

Eins og vikið var hér á undan vekur það væntanlega athygli hversu fljót hæfisnefndin var að komast að þessari niðurstöðu en ekki liðu nema rétt liðlega tveir sólarhringar frá því viðtalsferlinu við alla umsækjendur lauk og þar til það var komið í fjölmiðla hver þeirra sjö sem mættu til viðtals þóttu hæfastir til að gegna stöðu seðlabankastjóra. Miðað við það að nefndin hafði viku frá því að rætt hafði verið við alla umsækjendur þangað til niðurstaðan yrði kynnt Bjarna Benediktssyni, efnahags- og fjármálaráðherra mat sitt (sjá hér) hlýtur maður að spyrja sig hvað hafi orðið til þess að þessu ferli var flýtt svo mjög?

Flotgengisstefnan eða skiptigengisleið

Eins og bent var á hér í upphafi þá hefur Lilja það fram yfir þá sem eru metir ofar henni að hæfileikum að hún hefur lagt fram heildarlausnir á skuldavanda þjóðarinnar. Það má líka benda á að hún varaði m.a. við hættunni af Icesave-skuldbindingunum þegar bæði Már og Friðrik Már hvöttu til að skuldunum væri varpað yfir á herðar almennra skattgreiðenda. Hún benti líka á að efnahagsáætlun AGS yki á efnahagsvandann (sjá hér). 

Hún hefur það einnig fram yfir þá þrjá, sem eru settir ofar henni í mati hæfisnefndarinnar og Kjarnans, að hún aðhyllist ekki forgangsröðun fjármálaaflanna, ofuráhersluna á stærðfræðilega nálgun á viðfangsefnum hagfræðinnar né mátt einkavæðingarinnar eins og þeir Friðrik Már og Ragnar Árnason. Síðast en ekki síst hefur hún engin flokkspólitísk tengsl við núverandi stjórnarflokka og ljóst að klippt hafði verið á öll slík tengsl við núverandi stjórnarandstöðuflokka nokkru fyrir lok síðasta kjörtímabils. 

Lilja Mósesdóttir er því besti kostur allra aðila til að mynda almenna samstöðu um að verði næsti seðlabankastjóri. Jafnréttissinnaðir einstaklingar sem berjast fyrir jafnri stöðu kynjanna hafa líka fengið verðugan einstakling til að sameinast um að verði fyrsti kvenkyns seðlabankastjórinn. Þegar innlegg stuðningsmanna Lilju Mósesdóttur, á stuðnings-/áskorunarsíðunni um að hún verði skipaður næsti seðlabankastjóri, er skoðaður er ljóst að þetta eru allt atriði sem koma fram þar.

Stuðningsyfirlýsingar og hvatningarorð þeirra sem hafa lækað síðuna hafa mörg hver verið klippt út og sett fram á myndum sem er að finna í tveimur myndaalbúmum; Við styðjum Lilju og Eftir mat. Af lestri þeirra er eitt sérstaklega athyglisvert. Það er að fæstir, ef nokkrir, eru einstaklingar sem hafa látið fara mikið fyrir sér hingað til. Það er því freistandi að halda því fram að þeir sem styðja Lilju séu hinn þögli meirihluti “venjulegs fólks“ sem á fátt að verja nema eigið líf.

Við styðjum Lilju

Það er óskandi að þessum hópi takist a.m.k. að koma því á framfæri við stjórnvöld að ástæðan fyrir því að hann styður Lilju Mósesdóttur til embættis seðlabankastjóra er að hann hafnar núverandi áherslum í stjórn efnahagsmála á Íslandi. Hann hafnar einkavæðingu náttúruauðlindanna sem rænir það möguleikum hans til frumkvæðis og atvinnutækifæra. Hann hafnar því að bera gjaldþrota banka og fjármálafyrirtæki uppi fyrir það að þeir kunna ekki að fara vel með það sem þeim er trúað fyrir.

Þegar margar orðsendingar þeirra sem hafa lækað við síðuna eru lesnar þá finnur maður einlægni, von og mannlega hlýju sem maður veltir fyrir sér hvort er horfin þeim sem taka þátt í hildarleik pólitískra afla um menn en ekki aðferðir. Þeir sem hafa gengist inn á það að það skipti einhverju máli hver þeirra þriggja: Friðrik Már, Ragnar eða Már Guðmundsson verði skipaður til embættis seðlabankastjóra, hafa misst af því að í reynd eru þeir eingöngu mismunandi andlit sömu hagfræðihugmynda þar sem það þykir eðlilegt og sjálfsagt að skuldum einkaaðila sé velt yfir á almenning.

Við styðjum Lilju

Vilji fólk taka afstöðu til mismundi aðferða og áherslna í forgangsröðun við stjórn efnahagsmála þá hefur það val. Það hefur val um að standa með breyttri hugmyndafræði við efnahagsstjórn landsins þar sem hagur heimila og atvinnulífs eru ekki undirseld forréttindum fjármagnseigenda á þann hátt að hvoru tveggja sveltur þar sem hvorugt fæst þrifist fyrir afleiðingar ofþenslu og hruns á víxl.

Fólk hefur nefnilega val um að styðja Lilju Mósesdóttur sem næsta seðlabankastjóra og koma því þannig áleiðis að það styður lausnarmiðaðar hugmyndir hennar og leiðir sem miða að því að forða okkur og framtíðarkynslóðum landsins frá öðru fjármálahruni. Fyrsta skrefið í þeim stuðningi gæti verið sá að heimsækja læksíðuna sem hefur verið stofnuð í þessum tilgangi.


Tilefnið var framkominn stuðningur við Lilju

Viðtalsgrein af síðu Samstöðu

Eins og hefur komið fram áður á þessum vettvangi hefur stuðnings- og/eða áskorendasíða við skipun Lilju Mósesdóttur til embættis seðlabankastjóra verið sett fram á Fésbókinni. Stuðningssíðan var sett í loftið á mánudagskvöldið fyrir rétt rúmri viku síðan. Þeir sem standa að síðunni eru fimm manna hópur kvenna og karla sem eiga það öll sameiginlegt að hafa fylgst með málflutningi Lilju frá því að hún kom fyrst fram haustið 2008.

Tilefni þess að síðan var sett í loftið segja þau „eiginlega sprottið af þeim stuðningi sem kom fram í innleggjum við fréttir með nöfnum umsækjenda“ þriðjudaginn 1. júlí síðastliðinn og svo það að í framhaldinu „var hvergi fjallað um það að Lilja væri á meðal umsækjenda. Við ákváðum því að rjúfa þagnarmúrinn og búa til síðu til þess að þeir sem styðja hana og efnahagshugmyndir hennar gætu komið því á framfæri með lækum og innleggjum.“

Konurnar í hópnum vildu líka taka það fram að þeim hefði ekki síður sviðið það að þrátt fyrir að Kvenréttindafélag Íslands hafi hvatt konur sérstaklega til að sækja um starfið, með ábendingu um að eingöngu karlar hefðu stýrt Seðlabankanum frá stofnun hans, þá hefði ríkt algjör þögn um jafnframbærilegan kvenumsækjanda og Lilju Mósesdóttur. Þær treystu sér þó ekki til að kveða úr um það hvort ástæðan væri eingöngu sú að Lilja er kona eða einhver önnur.

„Það er ekki aðalatriðið í mínum huga að kona verði næsti seðlabankastjóri heldur það að hæfasti umsækjandinn hljóti stöðuna“ sagði einn karlmannanna í hópnum og bætti við: „Síðan hvenær hefur það ekki vakið athygli þegar fyrrverandi þingmaður sækir um embætti eins og seðlabankastjórastöðuna? Þegar það er haft í huga að Lilja er eini umsækjandinn sem hefur lagt fram raunverulegar tillögur um það hvernig á að leysa skuldavandann, sem við erum í, þá er það í raun stórfurðulegt hvað umsókn hennar hefur vakið litla athygli í fjölmiðlum.“ Hinir tóku undir þetta.

Það kemur e.t.v. ekki á óvart að allir í hópnum sem er að baki síðunni gengu í Samstöðu á sínum tíma enda bundu þau vonir við að hennar hugmyndir og stefna í velferðar- og efnahagsmálum næðu eyrum og stuðningi kjósenda þannig að Lilja kæmist áfram inn á þing. Af því varð ekki en eins og aðstandendur síðunnar hafa vakið athygli á þá er ekki síðra tækifæri nú til að njóta hugmynda Lilju um lausnir á efnahagsvanda þjóðarinnar.

„Það hafa allir tækifæri til, óháð flokkspólitískum línum, að skora á stjórnvöld að skipa Lilju Mósesdóttur yfir Seðlabankann.“ Aðstandendur síðunnar benda á að hún hafi marga ótvíræða kosti fram yfir aðra umsækjendur eins og tekið er fram í kynningunni á síðunni sem var líka sett með fyrsta innleggi hennar en þar segir m.a:

Aðrir umsækjendur með hagfræðimenntun hafa sýnt það með störfum sínum að þeir eru hluti af því kerfi sem hrundi haustið 2008 og var svo endurreist á nánast sama grunni með aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Lilja hefur frá hruni verið óhrædd við að setja fram óhefðbundnar efnahagslausnir sem tryggja hagsmuni almennings og er því að okkar mati hæfasti umsækjandinn. (sjá meira hér)

Það sést líka á orðsendingum marga þeirra sem hafa lækað við síðuna og vakið athygli á henni með deilingum að þeir eru á sama máli. Þeirra á meðal eru Ísleifur Gíslason og Edith Alvarsdóttir sem bæði hafi skilið eftir stuðningsyfirlýsingar og hvatningarorð í innleggjum á síðuna sjálfa og með deilingum á henni og innleggjum hennar.

Þess má líka geta að Ísleifur hefur verið mjög duglegur við að vekja athygli á síðunni á öðrum síðum og hópum sem hafa orðið til um breytta peningastefnu og bætta efnahagstjórnun á undanförnum árum. Þeir eru líka fleiri sem hafa fylgt því fordæmi. Edith Alvarsdóttir skrifar þetta innlegg með deilingu á tengli sem deilt hafði verið af stuðningssíðunni:

Hilmar Elíasson hefur líka verið ötull við að koma rökum fyrir stuðningi sínum við Lilju Mósesdóttur á framfæri inni á síðunni sem var einmitt stofnuð til að koma vilja þeirra sem vilja Lilju sem næsta seðlabankastjóra á framfæri. Hér er eitt innleggja hans:

María Lóa Friðjónsdóttir setti þessi ummæli fram á síðunni í fyrrakvöld þar sem hún færir rök fyrir því af hverju hún styður það að Lilja Mósesdóttir verði næsti yfirmaður Seðlabankans:

Þegar hópurinn er inntur eftir því hvaða árangri hann væntir að ná með þessu framtaki kemur í ljós að meðlimirnir eru misbjartsýnir. Þau eru þó öll sammála um, að með þeim árangri sem þegar hefur náðst hafi tekist að draga það fram að stuðningur við efnahagshugmyndir Lilju er fyrir hendi meðal þokkalega breiðst hóps fólks á öllum aldri, óháð stétt og kyni.

Þau segjast ekki treysta sér til að segja til með búsetu að svo komnu en vilja taka það fram að þó lækin séu komin yfir þúsund á ótrúlega skömmum tíma þá dugi sú tala ekki til að gera eitthvað frekar með áskorun síðunnar. Flest eru hins vegar bjartsýn á að fleiri muni treysta sér til að læka síðuna á næstu dögum en vildu engu svara um það hvaða tala yrði til þess að þau gengju lengra með áskorun hennar.

Einn úr hópnum minnti á að í kjölfar hrunsins hafi mótmælendur safnast saman fyrir framan Seðlabankann vegna meintrar vanhæfni Davíðs Oddssonar til að stýra bankanum. „Ég veit ekki hvað þeir voru margir sem mótmæltu þá en þeir fengu vilja sínum framgengt. Það er þess vegna langt frá því fráleitt að fólk standi saman nú til að koma því á framfæri að við viljum fá fullkomlega hæfa manneskju í þetta starf,“ bætti hann við. Aðstandendur síðunnar bentu á að þetta sjónarmið hefði komið fram víðar þar sem umræður hafa sprottið um áskorun síðunnar.

Guðni Björnsson setti eftirfarandi áskorun inn á síðu Hagsmunasamtaka heimilanna þar sem hann skorar á samtökin að styðja Lilju. Áskorun hans  leiðir til umræðna þar sem hann minnir á að með samtakamættinum hafi tekist „að koma hrunverja út og hvers vegna ekki alvöru konu inn?“

Að lokum má geta þess að aðstandendur síðunnar munu halda henni í loftinu þar til það verður gert opinbert hver umsækjendanna verður skipaður til embættisins. Ekki hefur verið tekin nein sérstök ákvörðun um það hvað verður gert við síðuna eftir það. „Kannski verður hún bara höfð áfram í loftinu sem minnisvarði um þann stuðning sem Lilja Mósesdóttir naut til embættisins.“

Þegar aðstandendur síðunnar eru spurðir um það hvort það standi til að þeir gefi sig fram sem andlitin á bak við síðuna þá benda þau á að þegar litið sé á síðuna þá sé ljóst að þeir eru margir sem styðja Lilju og jafnvel miklu fleiri sem hafa gert það opinberlega en nokkurt þeirra gerði ráð fyrir. „Það er þess vegna ekki ólíklegt að margir þeirra séu reiðubúnir til að standa við sinn stuðning hvar og hvenær sem er.“

„Það er þessi stuðningur sem skiptir máli. Við sem stöndum á bak við síðuna erum ekkert aðalatriði í því sambandi heldur sú breiða samstaða, sem síðan ber vitni um að er til staðar við efnahagsúrlausnir Lilju, meðal almennings“. Einhver þeirra töldu þó ekkert útilokað að þau myndu gefa sig fram sem fulltrúar aðstandendahópsins ef það reynist nauðsynlegt að hann eignaðist  opinberan talsmann.
                                                                                                          rakel@xc.is


Konur styðja konu sem næsta seðlabankastjóra

Það eru til ýmis konar klisjur utan í það að „konur séu konum verstar“ en allar gefa þær þá mynd af konum að þær reynist kynsystrum sínum almennt verr en karlar öðrum körlum. Það gefur væntanlega auga leið að klisjan byggir á tilbúinni goðsögn sem á ekki við nein rök að styðjast fyrir utan það að bæði karlar og konur eiga það til að standa í vegi fyrir fyrir því að að þeir sem þau öfunda komist áfram.

Að sjálfsögðu er slíkt afar sorglegt en mér er til efs að það að Vigdís Finnbogadóttir varð forseti á sínum tíma og að Jóhanna Sigurðardóttir varð forsætisráðherra hafi stafað af því að konur kusu þær síður en karlar eða að þær hafi verið lausar við það að einhver hafi öfundað þær. Vigdís varð fyrsta konan á jarðarkringlunni sem varð forseti í lýðræðislegum kosningum (sjá hér). Þetta var árið 1980 en hún gegndi embættinu í 16 ár eða fram til ársins 1996.

Fyrstu konurnar í valdastöðum í stjórnsýslu og -málum

Árið áður en Vigdís lét af embætti sem forseti Íslands varð Margrét Frímannsdóttir fyrsta íslenska konan til að gegna flokksforystu í stjórnmálaflokki sem var settur saman af báðum kynjum. Hún var formaður Alþýðubandalagsins í þrjú ár (1995-1998) og síðar Samfylkingarinnar í eitt (1999-2000).

Í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 leiddu svo flokksbundnir samfylkingarmenn Jóhönnu Sigurðardóttur til öndvegis í flokknum. Í kjölfarið sýndi stór hluti kjósenda það að hann treysti forystu hennar best í alþingiskosningunum vorið 2009. Með því varð hún fyrsta íslenska konan sem varð forsætisráðherra.

Það væri sjálfsagt vert að telja hér upp fleiri tímamót í kvennasögu Íslands en hér verða aðeins taldar upp þrjár konur sem hafa brotið sagnfræðilega múra og rutt sögulega vegi á síðustu árum. Þetta eru þær: Rannveig Rist sem var fyrsta konan til að verða forstjóri yfir iðnfyrirtæki af sömu stærðargráðu og Íslenska álfélagið hf. Guðfinna Bjarnadóttir sem varð fyrst kvenna til að gegna stöðu rektors á Íslandi og Agnes Sigurðardóttir sem er fyrsta konan til að verða biskup yfir Íslandi.

Í samhengi við framangreinda upptalningu er kannski ekki óeðlilegt að spyrja sig hvort það er ekki kominn tími á að skipa konu yfir Seðlabanka Íslands?

Konur til áhrifa

Eins og væntanlega langflestum er kunnugt þá rennur skipunartími núverandi seðlabankastjóra út 20. ágúst n.k. og var staðan auglýst laus til umsóknar nú í vor. Umsóknarfresturinn rann út 27. júní sl. og voru nöfn umsækjanda opinberuð í síðustu viku. Tíu sóttu um stöðuna en miðað við kynningu fjölmiðla og aðra opinbera umræðu þykja einkum fjórir til fimm þeirra líklegir til að hljóta stöðuna. Meðal þeirra er aðeins ein kona.

Í auglýsingu um starfið voru konur jafnt sem karlar hvött til að sækja um embætti seðlabankastjóra og tók Kvenréttindafélag Íslands undir þá hvatningu en það eru eingöngu karlar sem hafa stýrt Seðlabankanum frá stofnun hans (sjá hér). Þrjár konur sóttu um stöðuna og er Lilja Mósesdóttir ein þeirra. Hún er líka ein þeirra fjögurra sem flestir fjölmiðlar vöktu sérstaka athygli á að hefði sótt um embættið og sennilega sú sem flestir hafa lýst einlægum stuðningi við að hljóti það.

Sérstök stuðningssíða við ráðningu hennar í starfið hefur nú verið opnuð á Fésbókinni. Samkvæmt upplýsingum sem koma fram neðst á síðunni var hún stofnuð sl. mánudag. Inn á síðunni er líka að finna ýmiss konar efni til kynningar á efnahagshugmyndum Lilju og verkum hennar frá því að hún kom fyrst fram opinberlega haustið 2008. Auk þess er þar að finna hvatningu og stuðningsyfirlýsingar frá þeim sem vilja sjá hana sem næsta seðlabankastjóra. Í kynningu á síðunni segir þetta um tilefni hennar:

Þeir sem læka þessa síðu eru á þeirri skoðun að Lilja Mósesdóttir sé hæfasti umsækjandinn um stöðu seðlabankastjóra sem verður skipað í 20. ágúst n.k. Við sem lækum viljum því skora á hæfnisnefndina að mæla með Lilju og á stjórnvöld til að ráða hana í embættið. (Sjá hér)

Eins og áður sagði þá er ljóst að þeir eru þó nokkrir sem styðja ráðningu Lilju Mósesdóttur til embættis seðlabankastjóra. Það kemur líka fram í ýmsum innleggjum og skilaboðum sem nú þegar hafa verið sett inn á umrædda stuðningssíðu. Það sem vekur þó athygli í því sambandi er það hversu margar konur lýsa yfir eindregnum stuðningi við það að Lilja verði fyrir valinu sem næsti seðlabankastjóri. Myndin hér að neðan er dæmi um þetta en hún er tekin úr þræði við þetta innlegg á síðunni sem heitir einfaldlega: Lilju Mósesdóttur sem næsta seðlabankastjóra.

Konur sem styðja að Lilja Mósesdóttir verði næsti seðlabankastjóri

Í síðustu færslu á þessum bloggvettvangi var farið yfir fréttaflutning helstu miðla daginn, sem nöfn umsækjenda um embætti seðlabankastjóra voru kynnt, auk þess sem vakin var athygli á nokkrum kommentum þeirra sem nýttu sér opin athugasemdakerfi við fréttirnar til að lýsa yfir stuðningi við ráðningu Lilju. Í framhaldinu var sett fram örkynning á þeim umsækjendum sem þóttu líklegastir miðað við það að nöfn þeirra voru dregin sérstaklega fram í inngangi umræddra frétta.

Þessir eru: Friðrik Már Baldursson, Már Guðmundsson, Ragnar Árnason, Yngvi Örn Kristinsson og Lilja Mósesdóttir. Nú hefur Egill Helgason bætt nokkru við það sem upp á vantaði í sambandi við kynningu Friðriks Más. Þar minnir hann á skýrslu, sem Friðrik Már skrifaði ásamt Richard Portes um íslenska fjármálamarkaðinn í lok ársins 2007, þar sem þeir settu fram þá niðurstöðu að „íslensku bankarnir væru vanmetnir á alþjóðamörkuðum“ og að þeir væru „almennt sterkir og vel í stakk búnir til að standa af sér áföll.“ (sjá hér)

Í þessu samhengi má vekja athygli á því að samvinnu þessara tveggja er alls ekki lokið en fyrr á þessu ári kynntu þeir aðra ritgerð á málstofu sem Seðlabankinn stóð fyrir. Ritgerðin fjallaði um það sama og sú fyrri en þó með þeirri viðbót sem hrun íslenska fjármálakerfisins hafði leitt í ljós (sjá hér). Niðurstaða síðustu færslu stendur því óbreytt. Það sem hefur bæst við síðan gerir það reyndar illgerlegra að líta framhjá því að Lilja Mósesdóttir er langhæfasti umsækjandinn.

Þar af leiðandi er það eðlilegast að hún verði sá umsækjandi sem verður skipaður til embættisins 20. ágúst n.k. Það er þó ekki úr vegi að ítreka það að með skipun Lilju í stöðu seðlabankastjóra gefst núverandi ríkisstjórn ekki aðeins stórkostlegt „tækifæri til að leggja áherslu á það að þeim sé full alvara í því að leysa helstu efnahagsvandamál samfélagsins heldur nytu þeir sómans af því að skipa hæfasta einstaklinginn til embættisins ásamt því að fylgja þeirri jafnréttisásýnd landsins eftir„ (sjá hér) sem var minnt á í upphafi þessarar færslu.

Í þessu sambandi má undirstrika að konur jafnt sem karlar voru hvött til að sækja um starfið, Kvenréttindafélag Íslands hefur minnt á það að eingöngu karlar hafa gegnt stöðu bankastjóra Seðlabankans frá stofnun hans og hæfasti umsækjandinn nú er kona. Þess vegna er þetta rétta tækifærið til að brjóta enn einn múrinn og ryðja nýjan veg í því að embætti og stöður samfélagins séu ekki einokuð af öðru hvoru kyninu. Það er kominn tími á að kona gegni embætti seðlabankastjóra og ætti ekki að vera spurning um að bæta úr þegar hún er einmitt hæfasti umsækjandinn.


Val á nýjum seðlabankastjóra ætti að vera auðvelt

Umsóknarfrestur um stöðu seðlabankastjóra rann út þann 27. júní sl. og voru nöfn umsækjanda birt síðasta þriðjudag. Það vakti athygli að á meðal umsækjanda er Lilja Mósesdóttir sem einhverjir hafa eflaust leyft sér að álykta að væri hætt öllum afskiptum af íslensku efnahagslífi. Með umsókn sinni hefur hún sýnt fram á það að það er öðru nær og greinilegt að það eru þó nokkrir sem fagna umsókn hennar um leið og þeir vona að hún hljóti stöðuna.

Það verður reyndar að viðurkennast að lítið hefur farið fyrir umfjöllun fjölmiðla um umsækjendur eða kynningu á bakgrunni þeirra. Listinn yfir þá tíu sem sóttu um embættið var birtur sl. þriðjudag og tvö til fjögur nöfn tekin út úr honum þar sem almennt er vísað í núverandi eða fyrrverandi stöðu umræddra umsækjenda. Á ruv.is eru nöfn eftirtaldra dregin fram með þessum hætti: „Már Guðmundsson, núverandi seðlabankastjóri, Lilja Mósesdóttir, fyrrverandi þingmaður, og Friðrik Már Baldursson, prófessor í hagfræði við HR, eru meðal umsækjanda.“ (sjá hér)

Viðskiptablaðið vekur athygli á því að meðal umsækjendanna tíu eru þrjár konur en dregur síðan nöfn þessara fjögurra fram sérstaklega: „Meðal umsækjenda eru Ragnar Árnason og Friðrik Már Baldursson hagfræðiprófessorar, sem og Lilja Mósesdóttir fyrrverandi Alþingismaður. Þá er Már Guðmundsson, núverandi seðlabankastjóri, í hópnum.“ (sjá hér) Þar er auk þess vakin athygli á að skipunartími Más Guðmundssonar rennur út 20. ágúst n.k.

Í fréttum ruv.is og vb.is vekur það athygli að ekkert er minnst á hagfræðimenntun Lilju en það er tekið fram að Friðrik Már Baldursson og Ragnar Árnason eru „hagfræðiprófessorar“. Í frétt mbl.is um þetta efni segir hins vegar: „Meðal um­sækj­enda eru Lilja Móses­dótt­ir hag­fræðing­ur og fyrr­ver­andi þingmaður og Ragn­ar Árna­son pró­fess­or við hag­fræðideild HÍ.“ (sjá hér)

Fréttin inni á visir.is er svolítið sérstök. Í fyrirsögninni er vakin athygli á því að meðal umsækjenda séu fyrrverandi alþingismaður og myndlistarkona. Í texta fréttarinnar segir síðan: „Meðal [...] umsækjenda eru Lilja Mósesdóttir, fyrrverandi alþingiskona, Friðrik Már Baldursson, Ragnar Már Árnason og Sandra María Sigurðardóttir listakona.“ (sjá hér) Meðfylgjandi mynd fylgir fréttinni:
 
Nokkrir umsækjendur um stöðu seðlabankastjóra árið 2014

Í fréttinni er ekkert getið um starfstitla karlanna en þvælt með starfstitla kvennanna til orðsins „alþingiskona“ sem hlýtur að teljast til nýyrða ef orðanotkunin er ekki bara hreint og klárt klúður. Miðað við athugasemdirnar sem eru gerðar við þessa frétt er ekki útlit fyrir að þeir sem lesi visir.is hafi kynnt sér hugmyndir Lilju.
 
Reyndar má draga þá ályktun, miðað við fjölda innleggjanna, að þeir hafi ekki verið margir sem lásu þessa frétt. Það gæti líka verið að óvönduð framsetning hennar sé helsta skýring þess að fáir skilja eftir innlegg við frétt visis.is.
 
Neðst í frétt dv.is um umsækjendur seðlabankastjórastöðunnar eru myndir af þremur umsækjendum. Þeir eru: Lilja Mósesdóttir, Ragnar Árnason og Yngvi Örn Kristinsson. Undir myndunum eru upplýsingar um nöfn, menntun og/eða störf. Undir meðfylgjandi mynd af Lilju segir: „Lilja Mósesdóttir er doktor í hagfræði og fyrrum þingmaður VG.“ (sjá hér)
 
Lilja Mósesdóttir
 
Ragnar Árnason er líka doktor í hagfræði og formaður ráðgjafaráðs Bjarna Benediktssonar um efnahagsmál og opinber fjármál. Ráðið var skipað til eins árs og tók skipunin gildi 23. ágúst í fyrra (sjá hér). Ragnar Árnason er væntanlega líka kunnur fyrir það að telja það „stórskaðlegt fyrir ríkið að niðurgreiða heilbrigðisþjónustu fyrir almenning“ (sjá hér) og að vera „einn ötulasti talsmaður kvótakerfisins á Íslandi“ (sjá hér).
 
Ragnar átti sæti í bankaráði Seðlabankans á síðasta kjörtímabili (sjá hér) og á líka sæti í núverandi bankaráði (sjá hér). Ólöf Nordal er formaður núverandi bankaráðs en hún á líka sæti í þeirri hæfnisnefnd sem fer yfir hæfni nefndarbróður síns og annarra umsækjenda um embætti seðlabankastjóra (sjá hér).
 
Yngvi Örn Kristinsson er hagfræðingur og fyrrum framkvæmdastjóri verðbréfasviðs gamla Landsbankans. „Eftir að Landsbankinn fór í þrot fékk hann vinnu hjá Árna Páli Árnasyni sem sérfræðingur í skuldamálum heimilanna.“ (sjá hér) Það er sjálfsagt að láta það koma fram hér að Yngvi Örn sótti líka um stöðu seðlabankastjóra árið 2009. Árið eftir sóttist hann eftir stöðu framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs (sjá hér).
 
Við frétt dv.is skilja heldur fleiri eftir innlegg en í athugasemdaþræðinum við frétt um sama efni inni á visi.is.  Af þeim má ráða að þeir eru nokkrir sem treysta Lilju best fyrir embætti seðlabankastjóra. Þeirra á meðal er Sigurður R. Þórarinsson sem skilur eftir eftirfarandi athugasemd við fréttina: „Seðlabankinn væri í góðum höndum Lilju Mósesdóttur og vona ég að bankinn beri gæfu til að njóta starfa hennar.“ (sjá hér)
 
Á Eyjunni eru þessi fjögur dregin fram á einni mynd með merki Seðlabankans að bakgrunni. Þetta eru þau Már Guðmundsson, Lilja Mósesdóttir, Friðrik Már Baldursson og Yngvi Örn Kristinsson:

Umsækjendur um stöðu seðlabankastjóra sumarið 2014

Við frétt Eyjunnar hefur skapast forvitnilegur þráður sem endurspeglar ekki aðeins afstöðu þeirra og viðhorf, sem leggja til innlegg við fréttina, heldur bera mörg innleggjanna vitni um það að þeir eru þó nokkrir sem vilja sjá Lilju Mósesdóttur í embætti seðlabankastjóra. Hér verða dregin fram tvö dæmi en það þriðja og efnismesta stendur undir lok þessara skrifa.

Halldór Halldórsson er einn þeirra sem skilur eftir innlegg við umrædda frétt. Hann segir:Það er bara engin spurning, Lilja Mósesdóttir er hæfust; hvar sem á málið er litið! Það þarf enga hæfisnefnd!“ (sjá hér) Pétur Örn Björnsson tekur nokkuð í sama streng þar sem hann segir:

Í ljósi sögunnar, bæði fyrir og eftir hrunið haustið 2008, þá ætti öllum að vera ljóst að kominn er tími til að í stöðu bankastjóra Seðlabanka Íslands verði ráðinn heiðarlegur og hæfur einstaklingur sem gangi einungis erinda íslenskra almannahagsmuna, til sátta og til heiðarlegs uppgjörs eftir hrunið.

Í hópi umsækjenda má finna þann heiðarlega og hæfa einstakling og það er auðvitað Lilja Mósesdóttir. [...] Hún er rétta manneskjan í starfið og henni er fullkomlega treystandi til að ganga einungis erinda íslenskra almannahagsmuna. (sjá hér)

Það er fullt tilefni til að bæta við það sem þegar er komið af örkynningu á þeim fimm sem fréttamiðlarnir drógu helst fram í fréttaskrifum sínum í tilefni þess að nöfn umsækjenda um stöðu seðlabankastjóra voru birt. Fyrst má benda á að væntanlega muna einhverjir eftir Friðriki Má Baldurssyni fyrir það að hann er fyrsti kostaði prófessorinn við íslenskan háskóla þar sem heiti kostunaraðilans er tengt við prófessorsstöðu í fjármálum, fjármálahagfræði eða hagfræði. Þó slíkt hafi verið nýmæli hér á landi árið 2007 þá er það „mjög algengt hjá háskólum í Bandaríkjunum og víðar“ samkvæmt þessari frétt hér.

Árið 2009 færði Friðrik Már sig hins vegar yfir til Háskólans í Reykjavík þar sem hann tók við stöðu forseta viðskiptadeildar frá 1. ágúst það sama ár (sjá hér). Í dag gegnir hann stöðu prófessors í hagfræði við sama skóla. Margir muna eflaust eftir honum frá því í Icesave-umræðunni þar sem hann „varaði við ákveðnum efnahagsþrengingum ef ekki yrði gengið frá þessum samningum.“ (sjá hér) Hann hefur líka verið virkur í annarri efnahagsumræðu sem snerta almannahagsmuni þar sem hann hefur m.a. talað fyrir einkavæðingu raforkufyrirtækja (sjá hér).

Hann hefur líka varað við afleiðingum skuldaniðurfellingar núverandi ríkisstjórnar (sjá hér). Á ársfundi Samtaka atvinnulífsins, sem haldinn var í apríl síðastliðnum eins og frægt er orðið, gaf hann svo e.t.v. tóninn varðandi það hvert hann stefndi þar sem hann sagði: „að gjaldmiðillinn yrði alltaf ákveðin hindrun. Það væri þó hægt að ná betri árangri með krónuna með bættri hagstjórn og aga.“ (sjá hér) Það vekur svo athygli að Friðrik á sæti í nefnd sem Bjarni Benediktsson hefur nýverið skipað en hún hefur það hlutverk að endurskoða lög um Seðlabanka Íslands (sjá hér).

Sérfræðinganefnd um heildarendurskoðun laga um Seðlabanka Íslands

Myndin hér að ofan sýnir þá sem eiga sæti í sérfræðinganefndinni sem Bjarni Benediktsson skipaði í maí síðastliðnum til þess hlutverks að taka lög um Seðlabankann til heildarendurskoðunar. Það hlýtur að vekja furðu að annar kollega Friðriks Más í þessari nefnd, Ólöf Nordal, á líka sæti í þeirri hæfnisnefnd sem á að meta það hvort ferill hans og annarra, sem sækjast eftir seðlabankastjórastöðunni, standist settar kröfur (sjá hér).

Á það skal minnt að Ólöf Nordal er ekki aðeins formaður þessarar nefndar heldur er hún líka formaður bankaráðs Seðlabankans. Eins og áður hefur komið fram þá situr annar umsækjandi um embætti seðlabankastjóra, Ragnar Árnason, með henni í bankaráðinu (sjá hér). Þetta hlýtur að vekja upp þá spurningu hvort Ólöf Nordal geti talist hæf í þá hæfnisnefnd sem er ætlað að meta umsækjendur; væntanlega á jafnréttisgrundvelli.

Ég geri ráð fyrir því að flestir þekki það vel til ferils Más Guðmundssonar að það sé óþarft að kynna hann ýtarlega. Hins vegar má minna á að áður en hann tók við embætti seðlabankastjóra, um mitt ár 2009 (sjá hér), hafði hann verið yfirmaður hjá Bank for International Settlements (BIS) og The European Money and Finance Forum (sjá hér).

Reyndar er ekki annað að sjá en að Már hafi haldið einhverjum þessara embætta til ársloka 2011 þrátt fyrir að hafa tekið við seðlabankastjórastöðunni tæpum þremur árum áður (sjá hér). Í því sambandi má minna á það að það var í byrjun árs 2012 sem hann fór í mál við Seðlabankann til að freista þess að fá ógildingu á því að laun hans skyldu lækkuð (sjá r).

Að mati Más og a.m.k. Láru V. Júlí­us­dótt­ur, fyrrverandi formanns bankaráðs Seðlabankans, var það eðlilegt að bankinn borgaði málskostnaðinn (sjá hér). Ragnar Árnason sem sat með Láru í ráðinu, og er einn umsækjendanna nú um seðlabankastjórastöðuna nú, hefur haldið því fram að „bankaráðið hafi aldrei fengið þær upplýsingar svo hann viti að formaðurinn ætlaði að láta bankann greiða málskostnað Más“ (sjá hér)

Þó það megi e.t.v. draga þá ályktun af ofangreindu að það sé í sjálfu sér einboðið að Lilja Mósesdóttir verði sú sem taki við af núverandi seðlabankastjóra má ekki gleyma því að Friðrik Már Baldursson virðist vera hátt skrifaður innan þess hóps sem er freistandi að kalla einu nafni “fjármálavaldið“ en nafngiftin er í beinu samhengi við ítök eignastéttarinnar í öllu því sem lýtur að ásýnd samfélagsins.

Hugmyndir Ragnars Árnasonar virðast vera í þágu sama hóps en hann hefur það fram yfir Friðrik Má að hann tók þokkalega almenningsholla afstöðu í Icesave þó hann hafi ekki dirfst að beita sér gegn Icesave-samningunum með beinskeyttum hætti. Lilja Mósesdóttir var hins vegar í hópi þeirra þingmanna sem lögðust gegn því að Steingrímur J. Sigfússon undirritaði samninginn í sumarbyrjun 2009 (sjá hér).

Lilja tilheyrði þeim hópi sem Jóhanna Sigurðardóttir kallaði „villikettina“ í VG. Miðað við mynd Halldórs hér að neðan er ekki útilokað að ætla að hann hafi grunað Lilju um þýðingarmikið hlutverk í þeim hópi.

Lilja Mósesdóttir hrekur burt Icesave-drauginn með viðeigandi meðulum

Lilja Mósesdóttir er með doktorspróf í hagfræði frá Bretlandi og hefur starfað sem hagfræðingur og háskólakennari bæði hér á landi og erlendis. Áður en hún vakti athygli á jafnræðislegri viðbrögðum við efnahagshruninu en þeim, sem hefur verið fylgt hér á landi frá hruninu haustið 2008, þá hafði hún starfað sem lektor við Háskólann á Akureyri, dósent við Háskólann í Reykjavík, sem sérfræðingur við Háskólann í Luleaa í Svíþjóð, hagfræðingur hjá Háskólanum í Reykjavík og prófessor við Háskólann á Bifröst.

Meðal annarra starfa sem Lilja hefur gengt og hafa aukið henni reynslu og þekkingu er starf hagfræðings hjá ASÍ, ráðgjafa hjá Iðntæknistofnun, sérfræðings félagsmálaráðherra grænlensku heimastjórnarinnar og alþingismanns á Alþingi Íslendinga (sjá hér). Núverandi starf Lilju er samanburðarannsóknir á lífskjörum og velferðarstefnu í Noregi og á alþjóðavettvangi við eina stærstu félagsvísindastofnun Noregs.

Af því yfirliti sem hefur verið sett fram hér og því sem almenningi ætti að vera fullkunnugt um af þingstörfum Lilju Mósesdóttur verður ekki betur séð en hún sé langhæfasti umsækjandinn. Sigurður Hrafnkelsson dregur það helsta sem mælir með henni í embætti seðlabankastjóra, umfram aðra umsækjendur, fram á býsna einfaldan og skýran hátt í athugasemd við frétt Eyjunnar frá síðastliðnum þriðjudegi. Hann segir:

„Lilja Mósesdóttir er eini umsækjandinn sem sagði strax árið 2008-9 að skuldastaða landsins stefndi í að verða algerlega ósjálfbær.

Það var hlegið þá, ekki síst í hennar eigin flokki, en þó vitum við öll í dag að þetta reyndist rétt hjá henni, skuldastaðan er algerlega ósjálfbær eins og hún sagði fyrir 5-6 árum síðan.

Lilja er líka eini umsækjandinn sem hefur lagt fram raunverulegar tillögur um hvernig eigi að taka á þessari skuldastöðu, gjaldmiðlinum og höftunum. [sjá hér] Hennar tillögur hafa hvergi verið hraktar með neinum rökstuðningi.

Hafi núverandi stjórnvöld einhvern alvöru áhuga á að ráðast í það að leysa þessi hafta-, gjaldmiðils- og skuldamál, þá er Lilja langbesti kosturinn í stöðu Seðlabankastjóra. ( sjá hér (leturbreytingar eru höfundar))

Að lokum má svo bætta því við að Íslendingar hafa þóst stoltir af því að hafa kosið konu sem forseta landsins og hafa átt konu sem forsætisráðherra. Með skipun Lilju Mósesdóttur í stöðu seðlabankastjóra gæfist núverandi stjórnvöldum ekki aðeins prýðisgott tækifæri til að leggja áherslu á það að þeim sé full alvara í því að leysa helstu efnahagsvandamál samfélagsins heldur nytu þeir sómans af því að skipa hæfasta einstaklinginn til embættisins ásamt því að fylgja þeirri jafnréttisásýnd landsins eftir sem var drepið á hér á undan.

mbl.is Bankar geta ekki án ríkisins verið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með Lilju

Í tilefni þess að það hefur verið gert opinbert að Lilja Mósesdóttir er á meðal umsækjanda um stöðu seðlabanakstjóra langar mig til að fagna umsókn hennar. Ástæðurnar eru margar en þó einkum sú að engum treysti ég betur til að fara með þetta mikilvæga embætti á þessum tímum sem íslenskt efnahagslíf sætir síendurteknum árásum.

Lilja hefur sýnt það ítrekað að hún býr ekki aðeins yfir víðtækri þekkingu á flóknum efnahagsmálum heldur hefur hún hvað eftir annað lagt fram tillögur um það hvernig megi bregðast við þeim vanda sem íslenska hagkerfið stendur frammi fyrir þannig að hagur almennings og innlendra atvinnufyrirtækja verði borgið. Tillögur sínar hefur hún kynnt með skýrum dæmum um það hvers vegna þær eru nauðsynlegar, hvernig þær skuli framkvæmdar og hvaða afleiðingar þær muni hafa á alla helstu þætti hagkerfisins.

Lilja Mósesdóttir á þingi

Af því að Lilja er óvenju heiðarleg þá hefur það alltaf legið ljóst fyrir að tillögur hennar gera ráð fyrir að þeir sem skapa raunveruleg verðmæti með vinnuframlagi sínu fái meira í sinn hlut. Auk þess hefur hún lagt ríka áherslu á að velferðarkerfið verði varið þannig að kjör þeirra verst settu verði varin ásamt því sem mennta- og heilbrigðiskerfinu verði hlíft.

Hins vegar þurfa þeir sem veðjuðu á móti krónunni fyrir hrun að gefa umtalsvert eftir af kröfum sínum. Þeir sem hafa nýtt sér ójafnvægið í efnahagsstjórn undangegnina ára og tekið til sín stærra hlutfall af verðmætasköpuninni í landinu en þeim bar verða líka að gefa eftir til að jafnvægi náist í hagkerfinu hérlendis.

Lilja byrjaði að vinna að hugmyndum sínum um lausn á skulda- og efnahagsvanda þjóðarinnar þegar haustið 2008. Hún kom þrisvar fram á vegum Opinna borgarafunda og Radda fólksins í kjölfar efnahagshrunsins þar sem hún varaði við leiðum þáverandi ríkisstjórnar en lagði fram hugmyndir að öðrum sem hún taldi heillavænlegri til uppbyggingar íslensku efnahagslífi.

Í máli sínu lét hún koma fram að þær leiðir sem þáverandi ríkisstjórn hyggðist fara hefðu verið reyndar annars staðar þar sem þær hefðu ekki skilað tilætluðum árangri. Málflutningur hennar hlaut ekki aðeins góðar undirtektir á fundunum sem um ræðir heldur skiluðu henni fremst á framboðslista Vinstri grænna í suðvesturkjördæmi og inn á þing vorið 2009.

Lilja vakti aftur athygli þegar hún varaði við afleiðingum þess að Svavarssamningurinn svokallaði yrði samþykktur. Frá og með því að hún varaði þannig við fyrsta þætti Icesave fór að gæta vissrar togstreitu á milli fylgjenda síðustu ríkisstjórnar og þeirrar stefnu sem hafði laðað Lilju til fylgis við Vinstri græna fyrir alþingiskosningarnar 2009. Mörgum virtist það nefnilega skipta meiru að starfsheiður Svavars Gestssonar, fyrrverandi þingmanns og ráðherra, stæði óflekkaður en að þjóðinni yrði forðað frá þeirri óréttlátu skuldabyrði sem Lilja benti á að lægi í Icesave-samningnum.

Þegar fram í sótti urðu viðbörgðin við tillögum Lilju svo og því sem hún hafði við efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar að athuga mun fjandsamlegri. Endirinn varð sá að hún og Atli Gíslason sögðu sig úr þingflokki Vinstri grænna. Eins og einhverja rekur eflaust minni til höfðu allnokkrir hvatt Lilju til að segja sig úr flokknum og stofna sinn eigin flokk en þeir voru svo færri sem voru tilbúnir til að styðja hana til þess þegar hún lét verða af því að kalla eftir stuðningi til slíks í nóvember 2011. 

Lilja Mósesdóttir við þingsetninguna 1. október 2011

Ég var ein þeirra sem fylgdist alltaf með verkum Lilju Mósesdóttur. Ég studdi hana og dáðist að henni úr fjarlægð. Það sem mér fannst sérstaklega aðdáunarvert í hennar fari og vinnubrögðum var sú virðing sem hún sýndi þeim, sem kunnu að hlýða á hana, með því að setja hugmyndir sínar og skoðanir alltaf fram á eins skýran og einfaldan hátt og flókin efnahagsmál heils hagkerfis bjóða upp á.

Í kringum þau tímamót sem stofnun Samstöðu voru gerð opinber var mér boðið að taka þátt í uppbyggingu flokksins. Ég þekktist það boð eftir nokkra umhugsun. Mestu réðu efnahagsstefna flokksins sem að sjálfsögðu var komin frá Lilju. Ég ætla ekki að rekja sögu Samstöðu nákvæmlega hér en þeir sem fylgdust með því sem var að gerast í pólitíkinni á þeim tíma muna sjálfsagt þann stranga mótbyr sem flokkurinn hafði í fangið frá vorinu 2012.

Þar sem ég var ein þeirra sem stóðu framarlega í því að freista þess að vekja athygli á málstað og stefnu Samstöðu á sama tíma og við vörðumst stöðugri áreitni þeirra, sem vildu helst jarðsyngja flokkinn, þá kynntist ég þolgæði og framgöngu Lilju nokkuð náið. Allan þann tíma, frá því að það sem ég tel eðlilegast að kalla beinar árásir hófust og þar til landsfundur Samstöðu tók þá ákvörðun að draga framboðið til baka, undraðist ég af hveru mikilli hófstillingu Lilja tók öllu því sem að höndum bar.

Reyndar dáðist ég af því hvað hún tók því öllu af mikilli skynsemi og eiginlega vandaðri fagmennsku. Hún lét aldrei slá sig út af laginu en velti hverju því sem kom upp á fyrir sér af vandlegri gaumgæfni og yfirvegun. Leitaði ráða hjá þeim sem hún treysti og tók ákvarðanir í samráði við aðra sem unnu að sömu einurð og hún að því að Samstaða yrði fyrst og fremst trúverðugt stjórnmálaafl sem yrði þess megnugt að fylgja efnahags- og velferðarstefnu flokksins eftir.

Þegar það var fullreynt að af því gæti ekki orðið tilkynnti hún að hún treysti sér ekki til að fara fram í alþingiskosningunum sem þá voru framundan. Það var svo lagt fyrir félaga flokksins hvert framhaldið ætti að verða á landsfundi sem hafði verið boðaður einhverjum mánuðum áður.

Frá því skömmu eftir síðustu alþingiskosningar hefur Lilja unnið að þjóðhagfræðirannsóknum í Noregi við góðan orðstí samstarfsfélaga sinna. Þar er menntun hennar, sérþekking og starfsferill talin mikilvæg viðbót við starfsemi stofnuninar sem sóttist einmitt eftir starfskröftum hennar fyrir þær sakir.

Reyndar hefur orðspor hennar greinilega spurst út víðar en til Noregs. Eftir að hún hvarf út af þingi síðastliðið vor hefur verið sóst eftir henni til að fjalla um stöðu efnahagsmála á Íslandi eftir hrun á fundum og ráðstefnum víða um Evrópu. Meðal annars á vettvangi háskóla og stjórnmála í álfunni.

Lilja Mósesdóttir á fundi á vegum stofnunar Nico Poulantzas í Grasrótarmiðstöð Aþenuborgar

Þó það megi segja að fyrrum flokkssystkini Lilju og ýmsir fylgjendur síðustu ríkisstjórnar hafi hrakið Lilju burt af þingi þá er ljóst af ýmsum athugasemdum, sem fylgjendur hennar á Fésbókinni hafa látið falla síðan, að þeir eru ýmsir sem sjá sárt á bak henni af vettvangi efnahagsumræðu á Íslandi. Það er því ljóst að þeir verða þó nokkrir sem fagna því með mér að sjá það nú að Lilja er tilbúin til að snúa til baka og taka ekki aðeins virkan þátt í umræðunni um slík mál heldur standa í eldlínunni við mótun hennar til varanlegrar frambúðar.

Miðað við menntun, starfsreynslu og sérfræðiþekkingu Lilju Mósesdóttur get ég ekki ímyndað mér annað en það verði ómögulegt fyrir þá, sem hafa með ráðninguna í seðlabankastjórastöðuna að gera, að horfa framhjá umsókn hennar. Ég el þá björtu von í brjósti að það sé útilokað og hún hljóti þar af leiðandi stöðuna. Ég er sannfærð um að það muni ekki aðeins birta til í efnahagsmálum landsins, ef hún yrði ráðinn næsti seðlabankastjóri Íslands, heldur hugum margra landsmanna líka!


mbl.is 10 sóttu um stöðu seðlabankastjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherrasamanburður: Önnur flokksreynsla

Í síðustu færslu var fjallað nokkuð ýtarlega um þá staðreynd að formenn og varaformenn þeirra stjórnmálaflokka sem taka þátt í ríkisstjórnarsamstarfinu hafa orðið sjálfskipaðir í ráherraembætti þegar kemur að úthlutun þessara embætta. Þetta er hefð sem var tekin að mótast í kringum 1940 en hefur fest svo rækilega rætur á síðastliðnum þremur áratugum að kjósendum ætti að vera orðið í lófa lagið að reikna það út hverjir munu skipa fjögur af níu eða tíu ráðherraembættum hverrar ríkisstjórnar.

Í einhverjum tilfellum má líka finna út úr því hver fær hvaða ráðuneyti. Þegar rýnt er í það hvernig ráðuneytin hafa skipast frá því þau voru stofnuð kemur nefnilega í ljós ákveðið mynstur varðandi það hvernig þeim er úthlutað. Þetta mynstur er greinilegast í því hvernig Forsætisráðuneytið og Utanríkisráðuneytið hafa verið skipuð fram að þessu.

Hefðin fyrir úthlutun forsætisráðherraembættisins er elst en hún rekur rætur sínar aftur til ársins 1924 þegar Jón Magnússon varð forsætisráðherra í þriðja skipti (sjá hér). Það ár var hann nýorðinn formaður Íhaldsflokksins sem er forveri Sjálfstæðisflokksins. Utanríkisráðuneytið  var stofnað í kringum 1940 en fyrsti ráðherra þess ráðuneytis var Stefán Jóh. Stefánsson þáverandi formaður Alþýðuflokksins.

Dietrich Bonhoeffer

Frá þeim tíma hefur ráðuneytið þótt eftirsóknarvert þegar kemur að úthlutun ráðherraembætta. Það hefur því oftast verið skipað formönnum eða varaformönnum samstarfsflokka innan viðkomandi ríkisstjórnar. Langoftast þeim sem hafa verið í flokksforystu Alþýðuflokks sem er nú orðinn að Samfylkingunni. Af þeim rúmlega 70 árum sem eru liðin frá því að Utanríkisráðuneytið var stofnað hefur það verið undir forystu Alþýðuflokks/Samfylkingar í 32 ár (sjá hér). 

Skipun Gunnars Braga Sveinssonar, sem utanríkisráðherra af hálfu Framsóknarflokksins, fer gegn þeirri rúmlega 70 ára hefð að ráðuneytið hefur almennt fallið þeim í skaut sem eru formenn eða varaformenn sinna flokka eða á þröskuldi þess að verða það. Í þessu ljósi verður forvitnilegt að fylgjast með því hverjar vegtyllur Gunnars Braga innan Framsóknarflokksins verða í kjölfar þess að hann fer með utanríkisráðherraembættið nú.

Það er vissulega áhugavert að skoða þau mynstur sem hafa orðið til í kringum skipun æðstu forystumanna annarra ráðuneyta en það verður látið bíða betri tíma. Hér verður hins vegar haldið áfram að draga fram þá þætti sem koma fram í ferilskrám þeirra sem gegna ráðherraembætti nú og svo hinna sem gegndu sömu embættum við stjórnarskiptin fyrir rúmu ári síðan.

Það er nefnilega ekki síður bæði áhugavert og gagnlegt að átta sig á því hvað liggur því til grundvallar að sumir flokksmenn komast til þeirra metorða að stýra ekki aðeins stjórnmálaflokknum heldur þeim ráðuneytum sem fara með helstu grundvallarmál samfélagsins. Þ.e. þau mál sem ráða ekki aðeins heill samfélagsins heldur mörgum af grundvallarþáttum þjóðarinnar í hennar daglegu lífi.

John Adams

Eins og áður hefur verið vikið að þá er ekki annað að sjá en það sem ráði mestu við skipun til ráðherraembætta sé sú staða sem viðkomandi hefur náð að skapa sér innan stjórnmálaflokksins sem kom honum inn á þing. Það hefðarmynstur sem hér er vísað til er gleggst þegar kemur að skipun formanna og varaformanna stjórnmálaflokkanna í slík embætti en það er útlit fyrir að það séu fleiri pólitísk metorð sem ráða úrslitum.

Hér verður því haldið áfram að rýna í önnur ábyrgðar- og/eða trúnaðarstörf sem skipaðir ráðherrar núverandi og fyrrverandi stjórnar gegndu áður en kom að skipun þeirra til ráðherraembættis. Í byrjun verður það dregið fram hverjir meðal framantalinna hófu afskipti af pólitík með þátttöku í stúdentapólitíkinni. Það er ekki síður athyglisverð staðreynd hversu margir meðal þeirra sem sátu á ráðherrastóli á tíma síðustu ríkisstjórnar eiga rætur í Alþýðubandalaginu og verða þeir dregnir fram sem slíkt á óyggjandi við um.

Að lokum verða þeir svo taldir sem hafa gegnt ýmis konar trúnaðarstörfum fyrir stjórnmálaflokkinn sem skilaði þeim ráðherraembættinu. Hér er átt við ýmis konar stjórnarþátttöku innan stjórnmálaflokkanna s.s. framkvæmdastjórn, forysta í ungliðastarfi og reynslu af þingflokksforystu sem hlutaðeigandi gegndu áður en þeir voru skipaðir ráðherrar.

Rætur í stúdentapólitíkinni

Hér eru þeir einir taldir sem eiga bakgrunn í stúdentapólitíkinni og þá einkum Vöku og/eða Röskvu. Hér er sennilega ástæða til að staldra ögn við og skoða um hvers konar samtök er að ræða. Á síðu Vöku kemur fram að félagið var stofnað árið 1935. Tilgangurinn kemur ágætlega fram í meðfylgjandi tilvitnun: 

„þegar félagið var stofnað var það til mótvægis við þau félög sem störfuðu þá, Félag róttækra stúdenta, sem aðhylltist sósíalískar hugmyndir, og Félag þjóðernissinnaðra stúdenta. Titillinn minnir okkur því á söguna og á gildi lýðræðislegra vinnubragða sem eiga við á öllum tímum.“ (sjá hér)

Röskva var hins vegar ekki stofnuð fyrr en árið 1988 og þá sem: „samtök félagshyggjufólks við Háskóla Íslands“ (sjá hér). Þar sem gjarnan hefur verið talað um þessi félög sem „uppeldisstöðvar“ stjórnmálaflokkanna þá er ekki úr vegi að benda á að á þeim tíma sem Vaka var stofnuð sat sú ríkisstjórn sem gaf sér heitið „Stjórn hinna vinnandi stétta“ að völdum (sjá hér) en árið 1988 var það fyrri ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar (sjá hér) sem hefur verið talin til fjórðu vinstri stjórnarinnar á Íslandi (sjá hér). Ráðherrar þeirrar ríkisstjórnar voru taldir í síðustu færslu.

Fjórir ráðherrar þeirrar ríkisstjórnar, sem var leyst frá störfum vorið 2013, geta ferils úr stúdentapólitíkinni á ferilskrá sinni sem stendur á alþingisvefnum. Þetta eru Katrínarnar báðar, Steingrímur J. Sigfússon og Össur Skarphéðinsson.

Ráherrar síðustu ríkisstjórnar stúdentapólitík
  Katrín Jakobsdóttir,
 mennta- og menningarmála-
 ráðherra
 
fædd 1976. Á þingi frá 2007
 varaformaður 27 ára.
 formaður 37 ára
Fulltrúi Röskvu stúdentaráði og háskólaráði  HÍ 1998–2000.
 Katrín Júlíusdóttir,
 fjármála- og efnahagsráðherra
 
fædd 1974. Á þingi frá 2003
 varaformaður 39 ára
Fulltrúi Röskvu í stúdentaráði og háskólaráði HÍ 1997-1999.
 Steingrímur J. Sigfússon,
 atvinnuvega- og nýsköpunar-
 ráðherra

 fæddur 1955. Á þingi frá 1983
 formaður 44 ára
Í stúdentaráði HÍ 1978-1980. 

 Össur Skarphéðinsson,
 utanríkisráðherra
 fæddur 1953. Á þingi frá 1991
 formaður 47 ára
Formaður stúdentaráðs HÍ 1976-1977.



Það er rétt að benda á að Steingrímur J. Sigfússon lætur þess einnig getið að hann hafi verið „fulltrúi nemenda í skólaráði MA“ á meðan hann var við nám þar en þar sem slíkra afreka er almennt ekki getið á ferilskrám annarra þingmanna þá er þetta atriði ekki haft með í yfirlitinu hér að ofan. Af yfirlitinu má hins vegar sjá að Steingrímur hefur tekið við af Össuri í stúdentapólitíkinni á áttunda áratug síðustu aldar og að Katrín Júlíusdóttir og Katrín Jakobsdóttir hafa verið samtíða á þeim vettvangi tveimur áratugum síðar.

Aðeins einn ráðherra núverandi stjórnar, Illugi Gunnarsson, getur forsögu úr stúdentapólitíkinni en hann var ritari stjórnar Vöku árið 1989 til 1990 (sjá hér) en í kjölfar þess sinnti hann ýmsum trúnaðarstörfum á vegum þess í stúdenta- og háskólaráði.

 Ráðherrar núverandi stjórnar
 stúdentapólitík
 Illugi Gunnarsson,
 mennta- og menningarmála-
 ráðherra

 fæddur 1967. Á þingi frá 2007
 þingflokksformaður 42 ára
Í stjórn Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta við Háskóla Íslands, 1989-1990, oddviti 1993-1994.
Í stúdentaráði HÍ 1993-1995.
Fulltrúi stúdenta í háskólaráði 1993-1995.


Á heimasíðu Vöku er að finna yfirlit yfir fyrri stjórnir félagsins (sjá hér). Þar má m.a. sjá að fyrsti formaður Vöku var Jóhann Hafsteinn sem var forsætisráðherra frá 1970 til 1971. Aðrir þekktir ráðherrar sem eiga forsögu í Vöku og láta hennar getið á ferilskrá sinni eru: Birgir Ísleifur Gunnarsson, Friðrik Sophusson, Þorsteinn Pálsson og Björn Bjarnason. Ekki tókst að finna lista yfir fyrrverandi stjórnarmeðlimi Röskvu eða stjórnir eldri vinstri sinnaðra stúdentahreyfinga hér á Netinu.

Hins vegar ætti ofantalið að gefa einhverja mynd af því að það er ekki fullkomlega út í bláinn að tala um að stúdentapólitíkin sé eins og uppeldisstöðvar fyrir þá sem hyggja á stórvirkari þátttöku á pólitískum vettvangi stjórnmálaflokkanna.

Ráðherrar sem rekja pólitískan uppruna til stúdentapólitíkunnar

Rætur í Alþýðuflokki og/eða -bandalagi

Eins og var komið inn á í síðustu færslu þá urðu stjórnmálaflokkarnir sem mynduðu síðustu ríkisstjórn til úr fjórum flokkum. Þ.e. Alþýðuflokki, Kvennalista og Þjóðvaka sem runnu allir saman við Samfylkinguna. Þangað gengu líka allstór hópur úr Alþýðubandalaginu.

Ögmundur Jónasson og Steingrímur J. Sigfússon ákváðu hins vegar að fara frekar með þeim kjósendum Alþýðubandalagsins sem voru óánægðir með slíkan samruna og gengu inn í Vinstri hreyfinguna - Grænt framboð. Miðað við tímasetninguna, sem þessar hræringar áttu sér stað svo og þá forsögu sem má lesa út úr ýmsu því sem kom fram við framboð Þjóðvaka (sjá hér), er mjög líklegt að það hafi verið evrópusambandshugmynd Alþýðuflokksins sem var ekki sísti orsakavaldur þess pólitíska ágreinings sem gerði út af við Alþýðubandalagið á sínum tíma en tryggði óopinberri stefnu Alþýðuflokksins í Evrópumálum áframhaldandi lífdaga innan Samfylkingarinnar.

Hvað sem þessu líður þá er forvitnilegt að draga það fram hvaða ráðherrar fyrrverandi ríkisstjórnar eiga rætur í þeim flokkum sem voru forverar stjórnmálaflokkanna sem mynduðu ríkisstjórnarsamstarf á síðasta kjörtímabili um sameiginlega stefnu í málaflokki sem gerði út af við fyrrverandi flokksheimili þeirra. Það er ekki síður forvitnilegt í því ljósi að hér er um að ræða málaflokk sem hefur nú, rúmum áratug síðar, nánast gert út af við stjórnmálaflokkanna sem hingað til hafa verið taldir til vinstri vængs stjórnmálanna.

Ráherrar síðustu ríkisstjórnar trúnaðarstörf á vegum eldri flokka
 Jóhanna Sigurðardóttir,
 forsætisráðherra
 fædd 1942. Á þingi 1978-2013
 formaður 67 ára
Varaformaður Alþýðuflokksins 1984-1993.

Formaður Þjóðvaka 1995.

Formaður Samfylkingarinnar 2009-2013.
 Katrín Júlíusdóttir,
 fjármála- og efnahagsráðherra
 
fædd 1974. Á þingi frá 2003
 varaformaður 39 ára
Í stjórn Verðandi, ungliðahreyfingar Alþýðubandalagsins, og ritari Alþýðubandalagsins í Kópavogi 1994-1998.
Í miðstjórn Alþýðubandalagsins 1996-2000.
Varaformaður Ungra jafnaðarmanna 2000, formaður 2000-2001.

Varaformaður flokksins frá 2013.
 Guðbjartur Hannesson,
 velferðarráðherra
 fæddur 1950. Á þingi frá 2007
Formaður Akraneslistans 1998–2000.
 Steingrímur J. Sigfússon,
 atvinnuvega- og nýsköpunar-
 ráðherra

 fæddur 1955. Á þingi frá 1983
 formaður 44 ára
Formaður þingflokks Alþýðubandalagsins 1987-1988.
Varaformaður flokksins 1989-1995.

Formaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs 1999-2013.
 Össur Skarphéðinsson,
 utanríkisráðherra
 fæddur 1953. Á þingi frá 1991
 formaður 47 ára
Í miðstjórn Alþýðubandalagsins 1985-1987.
Í framkvæmdastjórn flokksins 1985 og 1986.

Í flokksstjórn Alþýðuflokksins 1991-1993.
Formaður þingflokksins 1991-1993.

Formaður Samfylkingarinnar 2000-2005.
Formaður þingflokksins 2006-2007.
 Ögmundur Jónasson,
 innanríkisráðherra
 fæddur 1948. Á þingi frá 1995
 þinglokksformaður 51s árs
Formaður þingflokks óháðra 1998-1999.

Formaður þingflokks Vinstri hreyfingar- innar - græns framboðs 1999-2009.


Eins og kemur fram í töflunni hér að ofan þá höfðu Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson bæði starfað á vegum Alþýðuflokksins áður en þau sameinuðust í Samfylkingunni. Áður hafði Jóhanna Sigurðardóttir klofið sig út úr Alþýðuflokknum og stofnað Þjóðavaka eins og var rakið í síðustu færslu. Haustið 1996 sameinaðist hún sínum fyrri félögum með stofnun þingflokks jafnaðarmanna sem var upphafið af því sem nú er flokkur Samfylkingarinnar.

Af þeim ráðherrum sem sátu tímabundið á ráðherrastóli á tíma síðustu ríkisstjórnar þá á Kristján L. Möller það sameiginlegt með þessum tveimur að hafa áður gengt trúnaðar- og/eða ábyrgðarstöðum fyrir Alþýðuflokkinn.

Ráðherrar í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem störfuðu áður með Alþýðuflokknum

Aðrir sem voru taldir í töflunni hér að ofan eiga það sameiginlegt að eiga pólitískar rætur í Alþýðubandalaginu en Össur Skarphéðinsson er reyndar líka þeirra á meðal. Annað sem vekur væntanlega athygli er að Árni Páll Árnason, Guðbjartur Hannesson og Katrín Júlíusdóttir gegndu öll einhverjum trúnaðarstörfum innan Alþýðubandalagsins áður en evrópusambandságreiningurinn undir lok síðustu aldar skapaði Samfylkingunni farveg. 

Ráðherrar í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem eiga rætur í Alþýðubandalaginu

Árni Páll Árnason var í miðstjórn og framkvæmdastjórn Alþýðubandalagsins á árunum 1987 til 1989 og í framhaldinu oddviti Æskulýðsfylkingar flokksins í tvö ár eða fram til 1991. Árið eftir var hann orðinn ráðgjafi Jóns Baldvins Hannibalssonar,  þáverandi utanríkisráðherra. Árni Páll var ráðgjafi Jóns Baldvins frá 1992 eða til 1994 eða á þeim tíma sem EES-samningurinn var leiddur í lög hér á landi (sjá hér). Eins og öllum er væntanlega kunnugt var hann kosinn formaður Samfylkingarinnar á síðasta ári.

Álheiður Ingadóttir á elsta ferilinn innan úr Alþýðubandalaginu af þeim sem eru taldir hér. Samkvæmt ferilskránni hennar hefur hún hafið pólitísk afskipti rétt rúmlega tvítug og setið í stjórn Alþýðubandalagsins í Reykjavík og miðstjórn og framkvæmdastjórn flokksins með einhverjum hléum um 25 ára skeið eða frá 1973 til ársins 1998. Hún var varaborgarfulltrúi flokksins í nær 10 ár og sat í hinum ýmsum nefndum og ráðum borgarinnar á þessum tíma eða á tímabilinu 1978 til  1986 og svo aftur frá 1989 til 1991.

Álfheiður er ein þeirra sem kom að stofnun Reykjavíkurlistans árið 1994. Hún komst inn á þing fyrir Vinstri græna í alþingiskosningum árið 2007 en féll út af þingi í síðustu alþingiskosningum. Samkvæmt því sem kemur fram hér hefur hún verið á hinum ýmsu framboðslistum til alþingiskosninga áður en hún náði kosningu eða frá árinu 1971:

Álfheiður var í 2. sæti á lista Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs 2003, í 10. sæti á lista Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Reykjavíkurkjördæmi 1999, í 4. sæti á lista Alþýðubandalagsins 1987, í 8. sæti 1983, 20. sæti 1979 í Reykjavíkurkjördæmi og í 5. sæti á lista Framboðsflokksins í Reykjaneskjördæmi 1971. (sjá hér)

Guðbjartur Hannesson var bæjarfulltrúi á Akranesi í 12 ár áður en hann sneri sér að landsmálunum. Hann sat í bæjarstjórn á vegum Alþýðubandalagsins þessi ár (sjá hér). Hann tók þátt í stofnun Samfylkingarinnar og bauð meðal annars fram fyrir Akraneslistann, sem var systurflokkur Reykjavíkurlistans sáluga, árið 1998 en náði ekki kosningu. Tæpum 10 árum síðar tók hann sæti fyrir Samfylkinguna á þingi.

Jón Bjarnason var oddviti Helgafellssveitar í fimm ár eða fram til ársins 1982. Hér skal ekkert um það fullyrt hvort hann gegndi því embætti á vegum Alþýðubandalagsins eða sem óflokksbundinn. Það er heldur ekki ljóst, þeirri sem þetta skrifar, hvort hann gegndi einhverjum trúnaðar- eða ábyrgðarstöðum á vegum þess en í Morgunblaðinu árið 1999 er hann óyggjandi tengdur flokknum í frétt um það að þrír alþýðubandalagsmenn hafi boðið sig fram á móti Kristjáni L. Möller til fyrsta sætis á framboðslista Samfylkingarinnar á Norðurlandi vestra (sjá hér).

Jón Bjarnason kom fyrst inn á þing í alþingiskosningunum vorið 1999 en þá sem þingmaður Vinstri grænna. Hann sagði sig úr flokknum undir lok síðasta kjörtímabils og tók þátt í að gera framboð Regnbogans að veruleika sem var kynnt til síðustu alþingiskosninga sem baráttuafl gegn Evrópusambandsaðild (sjá hér).

Katrín Júlíusdóttir hóf stjórnmálaferil sinn með þátttöku í stjórn ungliðahreyfingar Alþýðubandalagsins og var ritari Alþýðubandalagsins í Kópavogi þegar hún var tvítug. Tveimur árum síðar var hún komin í miðstjórn flokksins. Alls gegndi hún ýmsum trúnaðar- og ábyrgðarstöðum fyrir Alþýðubandalagið í sex ár en þess má geta að árið 1997 til 1998 er ekki annað að sjá en hún hafi auk, þess að gegna þremur mismunandi trúnaðarstöðum innan Alþýðubandalagsins, verðið fulltrúi Röskvu í stúdentaráði og háskólaráði HÍ.

Katrín og Guðbjartur Hannesson eiga það sameiginlegt að hafa runnið saman við Samfylkinguna með Alþýðubandalaginu. Þremur árum eftir að Katrín varð flokksmaður Samfylkingarinnar tók hún sæti á þingi. Hún var kosin varaformaður flokksins fyrir rúmu ári síðan. 

Össur Skarphéðinsson sat í miðstjórn Alþýðubandalagsins á árunum 1985 til 1987 og í framkvæmdastjórn þess 1985 og 1986. Auk þessa var hann ritstjóri Þjóðviljans frá 1984 til 1987. Fjórum árum síðar var hann kosinn inn á þing fyrir Alþýðuflokkinn. Hann var kosinn í stjórn flokksins það sama ár og sat þar næstu þrjú ár. Það vekur athygli að eftir að hann var kosinn inn á þing var hann ritstjóri Alþýðublaðsins og DV sitthvort árið á tímabilinu 1996 til 1998. Össur er sagður fyrsti formaður Samfylkingarinnar en þeirri stöðu gegndi hann frá árinu 2000 til 2005.

Steingrímur J. Sigfússon á næstlengsta ferilinn með Alþýðubandalaginu á eftir Álfheiði Ingadóttur en hann og Ögmundur Jónasson eru þeir einu sem sátu á þingi fyrir Alþýðubandalagið. Steingrímur í um 15 ár en Ögmundur í aðeins eitt kjörtímabil.

Khalil Gibran

Af þeim sem hér hafa verið talin eru þau fjögur, sem komu úr Alþýðubandalaginu, sem tóku sæti á fyrstu framboðslistum Vinstri grænna í alþingiskosningunum vorið 1999. Af öllum sólarmerkjum að dæma hefur hinn helmingurinn gert það upp við sig á þessum sama tíma að hann vildi frekar fylgja evrópusambandshugmyndum Alþýðuflokksins sem varð Samfylkingarinnar.

Reynsla af aðildarfélagastarfi flokkanna

Þeir flokkar sem þeir, sem hér eru til umræðu, tilheyra eru mjög misgamlir. Framsóknarflokkurinn er þeirra elstur en hann var stofnaður árið 1916. Sjálfstæðisflokkurinn var reyndar í smíðum í einhver ár undir alls kyns klofningum, samruna og heitum þar til hann staðfestist árið 1929. Samfylkingin varð svo framhaldið af öðrum elsta flokki landsins undir alþingiskosningarnar árið 1999. Vinstri grænir eru fjórum árum eldri þar sem flokkurinn var stofnaður árið 1995 af óánægðum kjósendum Alþýðubandalagsins sem varð til eftir ekki minni klofninga, samruna og nafnaskipti, en Sjálfstæðisflokkurinn, árið 1956.

Í kaflanum hér á undan var rakið að stór hluti þeirra sem voru ráðherrar í lengri eða skemmri tíma á síðasta kjörtímabili eiga mislanga sögu að baki innan úr flokksstarfi Alþýðubandalagsins. Þetta eru átta af þeim  15 sem tylltu sér í ráðherrastóla á síðasta kjörtímabili. Þrír áttu sér fortíð innan úr Alþýðuflokknum. Þar af einn sem hafði verið áður í Alþýðubandalaginu. Það sem vekur e.t.v. athygli í þessu sambandi er að formaður hvorugs ríkisstjórnarflokkanna á síðasta kjörtímabili áttu sögu af stjórnarþátttöku innan úr sínum flokkum áður en þeir komu inn á þing. Það sama á reyndar við í tilviki Ögmundar Jónassonar.

Hins vegar eiga allir yngri ráðherrar, bæði Samfylkingar og Vinstri grænna, sér forsögu innan úr aðildarfélögum stjórnmálaflokkanna sem þeir tilheyra. Oddný G. Harðardóttir, sem var fjármálaráðherra frá janúarbyrjun og fram til septemberloka árið 2012, var eini nýbakaði þingmaðurinn sem tók ráðherrastól sem átti sér enga forsögu innan Samfylkingarinnar áður en hún var kosin inn á þing vorið 2009. Samkvæmt Fréttatímanum var hún hins vegar:

ekki óvön því að vera yfirmaður. Hún var bæjarstjóri í Garði á árunum 2006 til 2009. Hún var aðstoðarskólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja um níu ára skeið frá 1994 og gegndi starfi skólameistara í eitt ár. (sjá hér)

Samkvæmt framangreindu viðtali má ráða að blaðamanninum sem tók viðtalið þyki það a.m.k. líklegra að fjármálaráðherra þurfi fyrst og fremst á þeirri reynslu að halda að hafa verið yfirmaður. Það er ekki ósennilegt að bæjarstjóri í litlu sveitarfélagi fái einhverja innsýn í rekstur og aðra fjársýslu. Það er líka líklegra að stjórnendur skóla hafi eitthvað að segja um sams konar umsýslu skólans en væntanlega hafa slíkir þættir verið á hendi sérstaks fjármálastjóra innan Fjölbrautarskóla Suðurnesja eins og í öðrum stærri framhaldsskólum landsins.

Það hefur verið vikið að þeim þætti áður að sumir virðast ekki gera greinarmun á hlutverki ráðherra og ráðuneytisstjóra. Þessir sömu eru líklegir til að draga þá ályktun að við skipun ráðherra sé mikilvægara að horfa eftir þáttum sem hæfa forstjórum eða framkvæmdastjórum (sjá hér) en að viðkomandi hafi sérþekkingu á þeim málaflokki sem hann er skipaður yfir. 

Þrír nýráðherrar síðustu ríkisstjórnar höfðu einhverja stjórnarreynslu innan úr þeim stjórnmálaflokkum sem mynduðu hana áður en þeir voru skipaðir til forystu í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Þetta eru Katrínarnar báðar og Svandís Svavarsdóttir sem kom ný inn á þing við alþingiskosningarnar vorið 2009. Þær eru taldar hér í töflunni fyrir neðan ásamt upplýsingum um fæðingarár, hvenær þær komu inn á þing og svo þeim trúnaðar-/ábyrgðarstöðum sem þær höfðu gengt fyrir sína flokka.

Ráherrar síðustu ríkisstjórnarflokkspólitísk stjórnunarstörf
 Katrín Júlíusdóttir,
 fjármála- og efnahagsráðherra
 
fædd 1974. Á þingi frá 2003
 varaformaður 39 ára
Varaformaður Ungra jafnaðarmanna 2000, formaður 2000-2001.
Í framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar 2000-2003, varaformaður 2001-2003.

Varaformaður flokksins frá 2013.
 Katrín Jakobsdóttir,
 mennta- og menningarmála-
 ráðherra
 
fædd 1976. Á þingi frá 2007
 varaformaður 27 ára.
 formaður 37 ára
Formaður Ungra vinstri grænna 2002–2003.

Varaformaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs 2003-2013.
Formaður flokksins frá 2013.
 Svandís Svavarsdóttir,
 umhverfis- og auðlindaráðherra
 fædd 1964. Á þingi frá 2009
 framkvæmdastjóri 41s árs
Formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Reykjavík 2003-2005.

Framkvæmdastjóri Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs 2005-2006.
Formaður þingflokksins frá 2013.


Það vekur væntanlega athygli að á meðan þau eru bara þrjú af fimmtán, sem gegndu ráðherraembættum í tíð síðustu ríkisstjórnar, sem eiga sér forsögu innan úr stjórnum aðildarfélaga sinna flokka þá eru þau sjö af níu í núverandi ríkisstjórn. Skýringin liggur væntanlega að einhverju leyti í því að stjórnmálaflokkarnir sem tóku upp stjórnarsamstarf í kjölfar alþingiskosninganna vorið 2009 eru yngri en Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur og því að meðalaldur síðustu ríkisstjórnarfulltrúa er hærri en þeirra eiga sæti í núverandi ríkisstjórn (sjá hér). 

Þeir sem voru ráðherrar á síðasta kjörtímabili áttu því margir forsögu úr Alþýðubandalagi og Alþýðuflokki. Það má svo benda á að Þau fjögur sem sátu enn í sama ráðuneyti þegar síðasta ríkisstjórn var leyst frá störfum voru Össur Skarphéðinsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir. Össur og Jóhanna eiga það bæði sameiginlegt að þau sátu á þingi fyrir Alþýðuflokkinn og voru formenn Samfylkingarinnar. Katrín og Svandís eiga hins vegar báðar forsögu innan úr stjórnum aðildarfélaga Vinstri grænna og höfðu tekið þátt í borgarstjórnamálum á vegum flokksins áður en þær voru kosnar inn á þing.

Katrín Júlíusdóttir og Steingrímur J. Sigfússon sátu reyndar líka á ráðherrastóli frá vorinu 2009 fram til þess að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var leyst upp í kjölfar alþingiskosninganna vorið 2013. Þau höfðu hins vegar haft skipti á ráðuneytum auk þess sem Steingrímur J. hafði tekið yfir þau ráðuneyti sem Jón Bjarnason var skipaður til upphaflega. Katrín á forsögu innan úr aðildarfélagi Samfylkingarinnar og æðstu stjórn flokksins. Eins og áður hefur komið fram hafði Steingrímur J. verið formaður Vinstri grænna frá 1999.

 Ráðherrar núverandi stjórnar
 flokkspólitísk stjórnunarstörf
 Bjarni Benediktsson,
 fjármála- og efnahagsráðherra
 fæddur 1970. Á þingi frá 2003
 formaður 39 ára
Í stjórn Hugins, félags ungra sjálfstæðismanna í Garðabæ, 1991-1993, formaður 1993.

Formaður Sjálfstæðisflokksins frá 2009.
 Kristján Þór Júlíusson,
 heilbrigðisráðherra
 fæddur 1957. Á þingi frá 2007
 varaformaður 55 ára
Í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins 2002-2013.
Formaður sveitarstjórnarráðs flokksins 2002-2009.

2. varaformaður flokksins 2012-2013.
 Illugi Gunnarsson,
 mennta- og menningarmála-
 ráðherra

 fæddur 1967. Á þingi frá 2007
 þingflokksformaður 42ja ára
Formaður Heimdallar 1997-1998.

Formaður þingflokks sjálfstæðismanna 2009-2010 og 2012-2013
 Eygló Harðardóttir,
 félags- og húsnæðisráðherra
 fædd 1972. Á þingi frá 2008
(kom upphaflega inn á þing sem varamaður Guðna Ágústssonar)
Ritari í stjórn kjördæmasambands framsóknarfélaganna í Suðurlandskjördæmi 2003-2007.
Gjaldkeri Framsóknarfélags Vestmannaeyja 2004-2010.
Ritari í stjórn Landssambands framsóknarkvenna 2007-2009.
 Sigurður Ingi Jóhannsson,
 sjávarútvegs- og landbúnaðar-
 ráðherra
 umhverfis- og auðlindaráðherra

 fæddur 1962. Á þingi frá 2009
 formaður 51s árs

Ritari stjórnar Framsóknarfélags Árnessýslu 2001-2008.

Varaformaður flokksins 2013.

  Gunnar Bragi Sveinsson,
 utanríkisráðherra
 
fæddur 1968. Á þingi frá 2009
 þingflokksformaður 41s árs
Formaður félags ungra framsóknarmanna í Skagafirði (ekkert ártal).
Varaformaður kjördæmissambands Framsóknarflokksins í Norðurlandskjördæmi vestra (ekkert ártal).

Formaður þingflokks framsóknarmanna 2009-2013.

 Hanna Birna Kristjánsdóttir,
 innanríkisráðherra
 fædd 1966. Á þingi frá 2013
 varaformaður 47 ára

Framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins 1995–1999.
Í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna 1995–1999.
Í stjórn hverfafélags sjálfstæðismanna í Austurbæ og Norðurmýri 1995–1996.
Aðstoðarframkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins 1999–2006.

Varaformaður flokksins frá 2013
.


Sjö af níu ráðherrum núverandi stjórnar eiga sögu innan úr hinum ýmsu stjórnum aðildarfélaga eða annarra samráðsvettvanga stjórnmálaflokkanna sem nú eru við völd. Allir sem hér eru taldir höfðu komist til frekari metorða innan sinna flokka áður en að skipun þeirra til ráðherraembætta kom fyrir utan Eygló.

Þeir sem ekki eru taldir hér að ofan eru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem hefur verið formaður Framsóknarflokksins frá árinu 2009, og Ragnheiður Elín Árnadóttir. Hún var aðstoðarmaður ráðherra í tæp tíu ár og annar formaður þingflokks Sjálfstæðismanna á síðasta kjörtímabili. Nánar verður komið að þingflokksformennsku hér á eftir en hér er að lokum yfirlitsmynd með þeim sem hafa verið taldir í þessum kafla um reynslu af aðildarstarfi innan stjórnmálaflokkanna.

Ábyrgðar-/trúnaðarstöður núverandi og fyrrverandi ráðherra á vegum stjórnmálaflokkanna sem þeir gegna/gegndu ráðherraembættum fyrir

Hér er rétt að vekja athygli á því að ekki er alveg allt talið á þessari mynd sem fram kemur í töflunum í þessum kafla. Þetta á við um Eygló Harðardóttur, sem var gjaldkeri stjórnar Framsóknarfélags Vestmannaeyja frá 2004 til 2010, og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, sem var í stjórn hverfasambands sjálfstæðismanna í Austurbæ og Norðurmýri, á sama tíma og hún var í stjórn SUS.

Reynsla af framkvæmdastjórn og þingflokksforystu

Hér verða þeir taldir sem hafa gegnt framkvæmdastjórastöðum á vegum stjórnmálaflokkanna eða setið í framkvæmdastjórn þeirra. Hér verða þeir líka taldir sem höfðu gegnt stöðu þingflokksformanns áður en kom að skipun þeirra til ráðherraembættis. Þessar vegtyllur eru hafðar rauðbrúnar í töflunum hér fyrir neðan til aðgreiningar frá öðrum embættum og stöðum sem hafa verið til skoðunar í þessari færslu.

Ráherrar síðustu ríkisstjórnar framkvæmd og forysta
 Katrín Júlíusdóttir,
 fjármála- og efnahagsráðherra
 
fædd 1974. Á þingi frá 2003
 varaformaður 39 ára
Varaformaður Ungra jafnaðarmanna 2000, formaður 2000-2001.
Í framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar 2000-2003, varaformaður 2001-2003.

Varaformaður flokksins frá 2013.
 Steingrímur J. Sigfússon,
 atvinnuvega- og nýsköpunar-
 ráðherra

 fæddur 1955. Á þingi frá 1983
 formaður 44 ára
Formaður þingflokks Alþýðubandalagsins 1987-1988.
Varaformaður flokksins 1989-1995.

Formaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs 1999-2013.
 Svandís Svavarsdóttir,
 umhverfis- og auðlindaráðherra
 fædd 1964. Á þingi frá 2009
 framkvæmdastjóri 41s árs
Formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Reykjavík 2003-2005.

Framkvæmdastjóri Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs 2005-2006.
Formaður þingflokksins frá 2013.
 Össur Skarphéðinsson,
 utanríkisráðherra
 fæddur 1953. Á þingi frá 1991
 formaður 47 ára
Í miðstjórn Alþýðubandalagsins 1985-1987.
Í framkvæmdastjórn flokksins 1985 og 1986.
Í flokksstjórn Alþýðuflokksins 1991-1993.
Formaður þingflokksins 1991-1993.

Formaður Samfylkingarinnar 2000-2005.
Formaður þingflokksins 2006-2007.
 Ögmundur Jónasson,
 innanríkisráðherra
 fæddur 1948. Á þingi frá 1995
 þinglokksformaður 51s árs
Formaður þingflokks óháðra 1998-1999.
Formaður þingflokks Vinstri hreyfingar- innar - græns framboðs 1999-2009.


Þrjú þeirra sem áttu sæti yfir ráðuneytum síðustu ríkisstjórnar höfðu áður starfað á vettvangi framkvæmdarstjórnar stjórnmálaflokkanna. Svandís Svavarsdóttir var framkvæmdarstjóri Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í eitt ár eða frá 2005 til 2006. Katrín Júlíusdóttir átti sæti í framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar frá árinu 2000 og þar til hún komst inn á þing vorið 2003. 

Ráðherra núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnar sem hafa verið í framkvæmdastjórn stjórnmálaflokkanna

Össur Skarphéðinsson hóf sinn stjórnmálferil innan Alþýðubandalagsins eins og áður hefur komið fram. Hann átti sæti í miðstjórn og framkvæmdastjórn þess um miðjan níunda áratug síðustu aldar ásamt því að ritstýra Þjóðviljanum. Hann gegndi öllum þessum verkefnum árið 1985 til 1986.

Það hefur áður komið fram að Árni Páll Árnason átti sæti í framkvæmdastjórn Alþýðubandalagsins á árunum 1987-1989 og Álfheiður Ingadóttir „af og til“ á árunum 1973 til 1998. Það er því eðlilegt að gera ráð fyrir að leiðir þessara þriggja hafi legið saman í pólitíkinni í nær þrjá áratugi.

Hanna Birna er sú eina meðal núverandi ráðherra sem hefur verið framkvæmdastjóri á vegum síns flokks. Eins og kemur fram á myndinni hér að ofan hefur hún verið framkvæmdastjóri í rúm tíu ár. Fyrst varð hún framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins árið 1995 og gegndi því í eitt kjörtímabil eða á þeim tíma sem Davíð Oddsson stýrði sínu öðru ráðuneyti (sjá hér). Þá var hún framkvæmdastjóri flokksins fram til þess að Geir H. Haarde komst til valda sem forsætisráðherra. 

 Ráðherrar núverandi stjórnar
  framkvæmd og forysta
 Illugi Gunnarsson,
 mennta- og menningarmála-
 ráðherra

 fæddur 1967. Á þingi frá 2007
 þingflokksformaður 42ja ára
Formaður Heimdallar 1997-1998.

Formaður þingflokks sjálfstæðismanna 2009-2010 og 2012-2013.
 Ragnheiður Elín Árnadóttir,
 iðnaðar- og viðskiptaráðherra
 fædd 1967. Á þingi frá 2007
 þingflokksformaður 43ja ára
Formaður þingflokks sjálfstæðismanna 2010-2012.
  Gunnar Bragi Sveinsson,
 utanríkisráðherra
 
fæddur 1968. Á þingi frá 2009
 þingflokksformaður 41s árs
Formaður félags ungra framsóknarmanna í Skagafirði (ekkert ártal).
Varaformaður kjördæmissambands Framsóknarflokksins í Norðurlandskjördæmi vestra (ekkert ártal).

Formaður þingflokks framsóknarmanna 2009-2013.

 Hanna Birna Kristjánsdóttir,
 innanríkisráðherra
 fædd 1966. Á þingi frá 2013
 varaformaður 47 ára

Framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins 1995–1999.
Í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna 1995–1999.
Í stjórn hverfafélags sjálfstæðismanna í Austurbæ og Norðurmýri 1995–1996.
Aðstoðarframkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins 1999–2006.

Varaformaður flokksins frá 2013.


Þrír þeirra sem gegna ráðherraembættum nú hafa verið formenn sinna þingflokka. Þetta eru þau Ragnheiður Elín Árnadóttir og Illugi Gunnarsson sem skiptu síðasta kjörtímabili á milli sín. Gunnar Bragi Sveinsson var hins vegar þingflokksformaður Framsóknarflokksins allt síðasta kjörtímabil.

Ögmundur Jónasson hefur langlengstu reynsluna af þingflokksformennsku. Hann gegndi formennsku þingflokks Vinstri grænna frá því hann kom inn á þing vorið 1999 og þar til hann komst til valda í ársbyrjun 2009. Áður var hann formaður flokksbrota Alþýðubandalags og Kvennalista sem gengu ekki inn í þingflokk jafnaðarmanna sem varð til við samruna áðurnefndra flokka við Alþýðuflokkinn haustið 1996.

Jón Bjarnason tók við þingflokksformennskunni innan Vinstri grænna af Ögmundi og gegndi því embætti fram til alþingiskosninganna vorið 2009 en þá tók hann við ráðherraembætti sjálfur. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Björn Valur Gíslason skiptu síðasta kjörtímabili á milli sín innan Vinstri Grænna en Svandís Svavarsdóttir tók við formennsku þingflokksins síðastliðið vor.

Ráðherra núverandi og fyrrverandi stjórnar sem hafa reynslu af þingflokksformennsku

Af ofangreindu má sjá að þrír ráðherrar í stjórnartíð Jóhönnu Sigurðardóttur höfðu gegnt þingflokksformennsku fyrir sinn flokk áður en að skipun til ráðherraembættis kom eða jafnmargir og þeir sem gegna ráðherraembættum á yfirstandandi kjörtímabili. Auk þessara var Steingrímur J. Sigfússon formaður þingflokks Alþýðubandalagsins árið áður en hann varð forsætisráðherra í öðru og þriðja ráðuneyti Steingríms Hermannssonar. Fyrst 1988 (sjá hér).

Össur Skarphéðinsson var líka áður formaður þingflokks Alþýðuflokksins um tveggja ára skeið eða fram til þess að hann var skipaður umhverfisráðherra í fyrstu ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Hann tók við embættinu af Eiði Guðnasyni árið 1993 og gegndi því til ársins 1995 (sjá hér).

Samdráttur og niðurlag

Til þess að draga það saman, sem hefur verið til skoðunar í þessari og síðustu færslu, er ekki úr vegi telja saman árafjöldann sem ráðherrar núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnar áttu að baki í ábyrgðar- og eða trúnaðarstörfum innan stjórnmálaflokkanna og úr stúdentapólitíkinni. Hér verður það gert á þann hátt að árafjöldanum verður skipt þannig niður að þingflokksformennska verður talin reynsla innan þings en önnur trúnaðar-/ábyrgðarstörf, sem hér hafa verið talin, sem utan þings. Vonandi skýrir það sig sjálft af hverju þetta er sett upp þannig.

Þingár stendur fyrir árið sem viðkomandi kom inn á þing en aftast er svo samanlögð reynsla hvers og eins af þingflokksformennsku og öðrum trúnaðar- og/eða ábyrgðarstöðum. Það er rétt að vekja athygli á því að hér er talinn sá starfsaldur sem eftirtaldir áttu af slíkum störfum áður en þeir voru skipaðir ráðherrar. Starfsaldur Hönnu Birnu sem er talinn hér að neðan sem innan þings eru árin fjögur sem hún gegndi framkvæmdastjórastöðu þingflokks Sjálfstæðisflokksins.

 Ráðherrarþingárutan þings 
innan þings
 Samtals
Samfylkingin (Alþýðuflokkur/Alþýðubandalag/Þjóðvaki)
 Guðbjartur Hannesson2007  2  2
 Jóhanna Sigurðardóttir1978 10  10
 Katrín Júlíusdóttir2003 9  9
Össur Skarphéðinsson1991 10  3 13
 Vinstri hreyfingin - grænt framboð (Alþýðubandalagið)
 Katrín Jakobsdóttir2007  9 9
 Steingrímur J. Sigfússon 1983  18 1 19
 Svandís Svavarsdóttir2009  3  3
 Ögmundur Jónasson1995  11  11
 Framsóknarflokkurinn
 Eygló Harðardóttir 2008 10  10
 Gunnar Bragi Sveinsson2009 ?  4 ?
 Sigmundur Davíð Gunnlaugsson2009 4  4
 Sigurður Ingi Jóhannsson2009  7 7
 Sjálfstæðisflokkurinn
 Bjarni Benediktsson 20032   2
 Hanna Birna Kristjónsdóttir 2013 7 4 11
 Illugi Gunnarsson 2007 4 2 6
 Kristján Þór Júlíusson  2007 11 11
 Ragnheiður Elín Árnadóttir 2007  2 2


Miðað við þessar tölur er það langseinlegast að vinna sig til ráðherraskipunar innan Vinstri grænna en þar ýkir starfsaldur Steingríms J. sennilega myndina töluvert. Það tekur nokkuð styttri tíma að vinna sig upp innan Samfylkingarinnar eða átta og hálft ár. Innan Framsóknarflokksins tekur það enn styttri tíma að öðlast möguleika til skipunar ráðherra en ef mark er á þessum samanburði takandi tekur það stystan tímann innan Sjálfstæðisflokksins að öðlast hæfnisviðurkenningu til ráðherraembættis eða rúm sex ár.

Hvað sem samanburði af þessu tagi líður þá ætti það að vera orðið nokkuð ljóst af því yfirliti, sem þegar hefur verið dregið fram af ferilskrá núverandi og fyrrverandi ráðherra, að þeir þættir sem hafa verið skoðaðir hér og í síðustu færslu skipta miklu meira máli en t.d. menntun og starfsreynsla sem viðkemur málefni/-um þess ráðuneytisins sem hver og einn fær úthlutað. Það er nefnilega ekki hægt að sjá að þeir sem hafa verið skipaðir til ráðherraembætta í síðustu og núverandi ríkisstjórn eigi annað sameiginlegt en það að hafa gegnt trúnaðar-/ábyrgðarstöðum fyrir sinn stjórnmálaflokk ýmist á sveitarstjórnarsviðinu eða innan síns stjórnmálaflokks.

Það sem ræður skipun til ráðherraembættis virðist þar af leiðandi stjórnast frekar af því hversu líklegur viðkomandi er til að vinna sínum stjórnmálaflokki en heill samfélagsheildarinnar. Það er sannarlega spurning hvort kjósendur séu sammála slíkum áherslum þegar um er að ræða mikilvægustu málefni samfélagsins sem ráða svo miklu um heill allra þeirra sem þurfa að treysta á að þau málefni sem eru á vegum ráðuneytanna séu í traustum og góðum höndum. 

dick Murphy

Eins og þeir sem hafa fylgst með þessu verkefni átta sig væntanlega á þá er aðeins einn þáttur eftir í þeim samanburði sem lagt var upp með; þ.e. að bera saman ferilskrár núverandi og fyrrverandi ráðherra. Það sem er eftir er að draga fram í hvaða þingnefndum viðkomandi höfðu starfað áður en kom til skipunar þeirra til ráðherraembætta. Það ásamt setum ofantaldra í öðrum nefndum og/eða Íslandsdeildum á vettvangi alþjóðlegs samstarf á vegum þingsins verður viðfangsefni næstu færslu.

Aðrar færslur í þessum sama flokki:
Ráðherrasamanburður: Aldur við skipun
Ráðherrasamanburður: Menntun
Ráðherrasamanburður: Starfsreynsla
Ráðherrasamanburður: Sveitarstjórnarreynsla
Ráðherrasamanburður: Önnur pólitísk reynsla
Ráðherrasamanburður: Flokksforysta

Ferilskrá ráðherra núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnar:
Menntunar- og hæfniskröfur til ráðherraembætta

Heimild um skipun ráðuneyta:
Ráðuneyti 1917-2013

Listi yfir skipun stjórna Vöku
Vaka: Fyrri stjórnir (sjá hér)


Ráðherrasamanburður: Flokksforystuhlutverk

Það hefur orðið að hefð í íslenskum stjórnmálum að fela formönnum þeirra stjórnmálaflokka sem mynda nýja ríkisstjórn að setja framkvæmdavaldið með nýskipun ráðherra. Sú hefð hefur líka fests í sessi að við skipun til ráðherraembætta koma þeir einir til greina sem hafa komist inn á þing sem fulltrúar þeirra flokka sem ná saman um ríkisstjórnarmyndun. Jóhanna Sigurðardóttir braut reyndar þessa hefð og skipaði tvo utanþingsráðherra sem sátu þó ekki að embættunum sem þeir voru skipaðir til nema í eitt ár.

Flokkshlýðni

Hún skipaði Gylfa Magnússon yfir Viðskiptaráðuneytið og Rögnu Árnadóttur yfir Dóms- og kirkjumálaráðuneytið. Þegar betur er að gáð var þó fátt byltingarkennt við skipun þessara tveggja þar sem bæði höfðu starfað á vegum þeirra ríkisstjórna sem ullu ástandinu sem varð til þess að Jóhanna Sigurðardóttir fékk tækifæri til að mynda nýja ríkisstjórn með Vinstri grænum árið 2009. Gylfi Magnússon hafði verið formaður stjórnar Samkeppniseftirlitsins frá stofnun þess (sjá hér) en það var Valgerður Sverrisdóttir, þáverandi viðskiptaráðherra sem skipaði hann (sjá hér um hlutverk).

Ragna Árnadóttir kom hins vegar úr ráðuneytum sem var stýrt af ráðherrum Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Lengsta starfsaldurinn átti hún úr Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu en þar starfaði hún sem skrifstofu- og/eða ráðuneytisstjóri í þau sex ár sem Björn Bjarnason var yfir ráðuneytinu. Störf þeirra, sem gegndu ráðherraembættum á síðasta kjörtímabili og þeirra sem gegna þeim nú, innan stjórnsýslu undanfarandi ríkisstjórna var rakin í síðustu færslu. Hér verður hins vegar tekið fyrra skrefið af tveimur við að draga fram ábyrgðar- og trúnaðarhlutverk sem umræddur hópur hefur gegnt innan þeirra stjórnmálaflokka sem umræddir hafa starfað fyrir.

Tilgangurinn er ekki síst sá að velta vöngum yfir því að hve miklu leyti slíkur ferill ræður úrslitum varðandi það hverjir hljóta ráðherraembætti og þá ekki síður að rýna enn frekar ofan í það sem var varpað fram í síðustu færslu varðandi það hvers konar hagsmunasamtök stjórnmálaflokkarnir eru og hverjum þeir þjóna best. Ef mark er takandi á samfélagsumræðunni snúast þeir um klíkumyndanir þar sem stöðuveitingar og fyrirgreiðsla af ýmsu tagi hefur verið bundin flokkshollustu og/eða pólitískum viðhorfum. Það er því ekki fráleitt að telja að þeir sem ætla sér að ná langt á pólitískum vettvangi leitist við að hasla sér völl með því að komast að í vængskjóli þeirra sem hafa komist áfram á því sviði.

Aðgangsmiðinn að Forsætisráðuneytinu

Þegar talað er um hefðir sem hafa skapast í íslenskum stjórnmálum, og væntanlega víðar, þá virðist sem ein hefð hafi orðið ófrávíkjanleg hvað varðar niðurröðun ráðherraembætta á þá einstaklinga sem skipast til þessara embætta. Þessi regla er sú að formaður þess flokks sem fær umboðið til ríkisstjórnarmyndunar er sjálfskipaður forsætisráðherra. Það ætti því að vera óhætt að halda því fram að formennska innan stjórnmálaflokks er ein tryggasta ávísunin að Forsætisráðuneytinu.

Það er útlit fyrir að þessi hefð hafi komist á með formönnum Íhaldsflokksins sem var forveri Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn var stofnaður árið 1924 en það ár varð fyrsti formaður hans, Jón Magnússon forsætisráðherra (sjá hér) í þriðja skipti (sjá hér). Tveimur árum síðar tók við starfsstjórn sem Magnús Guðmundsson fór fyrir en hann var aðeins yfir Forsætisráðuneytinu í hálfan mánuð áður en Jón Þorláksson tók við því. 

Jón Þorláksson varð ekki aðeins eftirmaður Jóns Magnússonar í forsætisráðherra-embættinu heldur tók hann líka við formennsku Íhaldsflokksins að honum gegnum. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður 1929 varð Jón Þorláksson svo fyrsti formaður hans og gegndi því embætti í fimm ár (sjá hér). Fyrrnefndur Magnús Guðmundsson var fyrsti varaformaður hans en hann gegndi því embætti í sjö ár eða þar til hann lést árið 1937.

Það vekur athygli að ásamt Magnúsi Guðmundssyni eru þeir aðeins þrír, af þeim 30 sem hafa verið forsætisráðherrar frá árinu 1924, sem ekki voru formenn þess flokks sem var leiðandi við ríkisstjórnarmyndunina þegar þeir tóku við embættinu (sjá hér).

Fyrrverandi forsætisráðherrar sem voru ekki formenn síns flokks þegar þeir tóku við forsætisráðherraembætti

Eins og kemur fram hér á undan þá fór Magnús Guðmundsson aðeins með forsætisráðherraembættið í hálfan mánuð í kjölfar sviplegs fráfalls Jóns Magnússonar sem varð bráðkvaddur sumarið 1926.

Hermann Jónsson varð forsætisráðherra sama ár og hann settist inn á þing (sjá hér). Jónas Jónsson frá Hriflu var formaður Framsóknarflokksins á þeim tíma og tveimur árum betur eða til ársins 1944. Þá tók Hermann Jónasson við formannshlutverkinu innan flokksins fram til ársins 1962 (sjá hér). Á því átján ára tímabili sem hann stýrði flokknum var hann forsætisráðherra í sinni fimmtu ríkisstjórn og þá í tæp tvö ár (sjá hér). 

Steingrímur Steinþórsson var forsætisráðherra Framsóknarflokksins í rúm þrjú ár (sjá hér) en það var á þeim tíma sem Hermann Jónasson stýrði flokknum. Steingrímur var hins vegar aldrei formaður flokksins.

Loks var Gunnar Thoroddsen forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins í rúm tvö ár. Hann var aldrei formaður flokksins en hann hafði verið varaformaður hans í samtals 10 ár þegar hann varð forsætisráðherra. Ári eftir að hann tók við forsætisráðherraembættinu tók Friðrik Sophusson við af honum sem varaformaður flokksins (sjá hér) Geir Hallgrímsson var formaður Sjálfstæðisflokksins á þeim tíma sem Gunnar var í Forsætisráðuneytinu en hann átti ekki sæti í þeirri ríkisstjórn sem Gunnar Thoroddsen fór fyrir (sjá hér).

Aðgangsmiðinn að öðrum ráðuneytum

Það er sannarlega forvitnilegt að skoða það hvernig flokksforysta og skipun í ráðherraembætti hafa tvinnast saman og hvort það megi finna einhverjar hefðir í því sambandi. Fljótt á litið er engin sem hefur orðið jafnáberandi og sú sem hefur skapast í kringum Forsætisráðuneytið. Eins og áður sagði má rekja rætur hennar til ársins 1924 þegar Jón Magnússon, formaður Íhaldsflokksins, varð forsætisráðherra.

Árið 1939 varð Hermann Jónasson forsætisráðherra í þriggja flokka þjóðstjórnarsamstarfi Framsóknar-, Sjálfstæðis- og Alþýðuflokks (sjá hér). Báðir formenn samstarfsflokka Framsóknarflokksins fengu ráðherraembætti í þjóðstjórninni sem þá var sett saman. Formaður Sjálfstæðisflokksins, Ólafur Thors, fékk Atvinnumála- og Samgönguráðuneytið og formaður Alþýðuflokksins, Stefán Jóh. Stefánsson, Utanríkis- og Félagsmálaráðuneytið. Það er rétt að geta þess að fjórði flokkurinn á Alþingi Sósíalistaflokkurinn, fékk ekki aðild að þessari ríkisstjórn. Þrátt fyrir það hefur hún jafnan verið kennd við þjóðstjórn.

Það er þó útlit fyrir að það að formenn samstarfsflokkanna hafi tekið sæti í þeim ríkisstjórnum, sem þeir áttu aðild að, hafi ekki orðið að hefð fyrr en á sjötta til sjöunda áratug síðustu aldar. Í þessu sambandi má m.a. benda á að Alþýðubandalagið átti ekki formann í ríkisstjórn fyrr en árið 1980. Þá var Svavar Gestsson skipaður félags-, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Það var Gunnar Thoroddsen sem skipaði hann til ráðherraembættanna (sjá hér)

Hannibal Valdimarsson, sem var fyrsti formaður Alþýðubandalagsins, hafði reyndar áður verið skipaður ráðherra en það var á þeim tíma sem hann gegndi formennsku í Samtökum frjálslyndra og vinstri manna. Árið 1971 skipaði Ólafur Jóhannesson hann yfir Samgöngu- og Félagsmálaráðuneytið í fyrri ríkisstjórninni sem hann fór fyrir (sjá hér).

Fyrstu varaformenn fjórflokksins

Af framantöldum flokkum er Sjálfstæðisflokkurinn sá eini sem hefur haft varaformann meðal stjórnarmanna flokksins frá upphafi eða frá árinu 1929 (sjá hér). Fyrsti varaformaður Alþýðuflokksins var kjörinn árið 1954. Framsóknarflokkurinn kaus stjórn flokksins varaformann í fyrsta skipti árið 1960 og Alþýðubandalagið 1965.

Varaformaður Sjálfstæðisflokksins tók þátt í fyrsta skipti í ríkisstjórn árið 1944. Þetta var í annarri ríkistjórninni sem Ólafur Thors fór fyrir en þá skipaði hann Pétur Magnússon, þáverandi varaformann Sjálfstæðisflokksins yfir Fjármála- og Viðskiptaráðuneytið (sjá hér).

Tíu árum síðar var fyrsti varaformaður Alþýðuflokksins kjörinn en hann, Guðmundur Í. Guðmundsson, var settur yfir Utanríkisráðuneytið í fimmtu ríkisstjórn Hermanns Jónassonar sem sat á árunum 1956 til 1958 (sjá hér). Guðmundur var utanríkisráðherra fram til ársins 1965 eða í níu ár.

Framsóknarflokkurinn kom ekki að ríkisstjórnarmyndun aftur næstu þrettán árin en þá fékk Ólafur Jóhannesson stjórnarmyndunarumboðið (sjá hér). Sjálfur var hann fyrsti varaformaður Framsóknarflokksins en hann skipaði eftirmann sinn, Einar Ágústsson í því flokksforystuembætti, yfir Utanríkisráðuneytið. Einar Ágústsson hélt embættinu næstu átta árin.

Fyrsti varaformaður Alþýðubandalagsins sem var skipaður til ráðherraembættis var Steingrímur J. Sigfússon. Hann  var skipaður landbúnaðar- og samgönguráðherra í fyrsta skipti árið 1988 og aftur árið 1989. Hann varð varaformaður Alþýðubandalagins árið 1989. Það var Steingrímur Hermannsson sem skipaði hann ráðherra í sínu öðru og þriðja ráðuneyti (sjá hér). Steingrímur J. Sigfússon sat yfir þessum ráðuneytum í þrjú ár.

Formenn og varaformenn stjórnmálaflokkanna sem sátu í ríkisstjórn 1989-1991

Það hafa aldrei verið jafnmargir formenn og varaformenn í ríkisstjórn eins og í þriðja ráðuneyti Steingríms Hermannssonar sem sat á árunum 1989 til 1991. Ráðherrarnir í þessari ríkisstjórn voru ellefu sem þýðir að aðeins fjórir ráðherrar hennar voru ekki formenn eða varaformenn á þeim tíma sem þeir sátu í þessari ríkisstjórn.

Svavar Gestsson, sem var menntamálaráðherra á þessum tíma var hins vegar formaður Alþýðubandalagsins áður eða frá 1980-1987. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherrann á þessum tíma, Guðmundur Bjarnason, varð varaformaður Framsóknarflokksins á árunum 1994-1998.

Óli Þ. Guðbjartsson, dóms- og kirkjumálaráðherra umræddrar ríkisstjórnar, hafði gengt trúnaðar- og ábyrgðarstörfum innan Sjálfstæðisflokksins auk þess sem hann átti að baki samtals 24 ára starfsferil sem oddviti og bæjarstjórnarfulltrúi á Selfossi áður en hann settist inn á þing. Hann hafði líka verið formaður þingflokks Borgaraflokksins í eitt ár áður en hann var skipaður ráðherra.

Jón Sigurðsson, sem var viðskipta- og iðnaðarráðherra, átti sannarlega athyglisverðan feril að baki þegar hann kom nýr inn á þing árið 1987, og var umsvifalaust skipaður í ráðherraembætti, en miðað við ferilskrá Alþingis kom hann ekki að öðrum trúnaðarstörfum fyrir Alþýðuflokkinn áður en hann varð þingmaður og ráðherra. Jón var í sex ár inni á þingi og jafnlengi ráðherra. Hann fékk lausn frá þingsetu og ráðherraembætti árið 1993 til að taka við bankastjórastöðu Seðlabanka Íslands.

Eins og sjá má á þessu yfirliti er ekki hlaupið að því að finna út aðra hefð við ráðherraskipun síðustu ára en þá að forystuhlutverk og/eða önnur ábyrgðarstörf eða trúnaðarstöður innan stjórnmálaflokkanna virðist tryggasta ávísunin að ráðherraembætti. Það verður þó ekki annað séð en sum ráðuneyti séu eftirsóknarverðari en önnur þegar kemur að því að formaður í samstarfsflokki velur sér ráðuneyti. Af einhverjum ástæðum hefur ekkert ráðuneyti þó notið eins mikilla vinsælda í þessu sambandi og Utanríkisráðuneytið.

Eins og var rakið hér var Utanríkisráðuneytið sett á fót í upphafi seinni heimstyrjaldarinnar í forsætisráðherratíð Hermanns Jónassonar. Þáverandi formaður Alþýðuflokksins, Stefán Jóh. Stefánsson, var fyrsti utanríkisráðherrann (sjá hér) en Haraldur Guðmundsson hafði þó farið með utanríkismál í fyrsta ráðuneytinu sem Hermann Jónasson stýrði (sjá hér). Það er rétt að geta þess að þær heimildir sem stuðst er við ber ekki öllum saman um embætti og hlutverk en meginheimild mín í þessu sambandi er þessi hér.

Það hefur verið bent á það áður á þessum vettvangi að það væri ekki úr vegi að kalla Utanríkisráðuneytið: ráðuneyti jafnaðarmanna (sjá hér). Ástæðan er sú að þó Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur hafi átt ráðherra í gegnum tíðina sem hafa gegnt utanríkisráðherraembættinu þá hafa formenn og varaformenn jafnaðarmannaflokkanna; Alþýðuflokks og Samfylkingar, stýrt því í u.þ.b. þrjá og hálfan áratug. Framsóknarflokkurinn hefur farið með völdin í Utanríkisráðuneytinu í rúma tvo áratugi og Sjálfstæðisflokkur í kringum einn og hálfan. 

Formenn og varaformenn jafnaðarmanna sem hafa stýrt Utanríkisráðuneytinu

Það sem vekur sérstaka athygli þegar embættismannasaga Utanríkisráðuneytisins er skoðuð er að með aðeins einni undantekningu (sjá hér) þá eru þeir sem hafa verið skipaðir yfir utanríkisráðuneytið formenn eða varaformenn innan þeirra stjórnmálaflokka sem velja því ráðherra. Í einhverjum tilfellum hafa þeir verið formenn hans áður eða hafa orðið það í framhaldinu.

Formenn og varaformenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks sem hafa stýrt Utanríkisráðuneytinu

Á myndinni hér að ofan eru fyrst taldir þeir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sem hafa setið yfir Utanríkisráðuneytinu. Það vantar einn en það er Matthías Á. Mathiesen sem tók við af Geir Hallgrímssyni þegar hann fékk lausn frá embætti ári áður en kjörtímabilið sem hann gegndi embætti utanríkisráðherra var úti (sjá hér).

Í neðri röðinni eru þeir utanríkisráðherrar sem hafa komið úr röðum Framsóknarflokksins að Kristni Guðmundssyni undanskildum en hann var utanþingsráðherra yfir Utanríkisráðuneytinu og bar ábyrgð á „framkvæmd varnarsamningsins“ fyrir hönd ríkisstjórnarinnar (sjá hér). Hér má sjá yfirlit yfir þá ráðherra sem hafa farið með utanríkismál Íslendinga. Fyrir þá sem vilja grennslast fyrir um það hvað hefur gert utanríkisráðherraembættið svona eftirsóknarvert má benda á fyrri bloggfærslur um Utanríkisráðuneytið þar sem embættisverk þeirra ráðherra sem þar hafa farið með völd eru rakin (sjá hér og hér

Þó að það sé margt afar athyglisvert í sambandi við forsögu þeirra hefða sem er útlit fyrir að hafi fest í sessi þegar kemur að skipun ráðherra í embætti þá verða rætur þeirra ekki raktar frekar hér. Það er þó ekki útilokað að þessi þráður verði tekinn upp aftur síðar. Hér verður hins vegar látið staðar numið og horfið aftur til þess meginverefnis sem þessari færslu er ætlað að snúast um. Það er að fara yfir flokksforystuhlutverk ráherranna sem skipa núverandi ríkisstjórn og þeirra sem skipuðu þá síðustu. Önnur flokkspólitísk ábyrgðar- og trúnaðarstörf þessara verða umfangsins vegna að bíða næstu færslu. 

Flokksforystuhlutverk ráðherra síðustu ríkisstjórnar

Sú ríkisstjórn sem sat að völdum á síðasta kjörtímabili var mynduð af tveimur stjórnmálaflokkum sem eiga sér sameiginlegar rætur. Ræturnar liggja annars vegar aftur til ársins 1916 en þá var Alþýðuflokkurinn, sem var ætlað að vera flokkur verkahlýðins, stofnaður (sjá hér) og hins vegar til þeirrar sundrandi evrópusambandshugmyndar sem enn sér ekki fyrir endann á. Þessi hugmynd eyddi fjórum flokkum sem sátu á þingi kjörtímabilið 1995 til 1999 en upp af þeim komu flokkarnir, sem mynduðu síðustu ríkisstjórn, með það sameiginlega markmið að koma landinu í Evrópusambandið.  

Hvort sem það er tilviljun eða ekki þá var Alþýðubandalagið stofnað sama ár og Guðmundur Í. Guðmundsson settist í Utanríkisráðuneytið (sjá hér) en eins og var rakið hér og hér þá verður ekki betur séð en grunnurinn að þeirri utanríkismálastefnu sem varð ofan á í stjórnartíð síðustu ríkisstjórnar hafi verið lagður á þeim tíma sem hann var utanríkisráðherra. Í kjölfar þess að fimmti alþýðuflokksráðherrann í Utanríkisráðuneytinu, Jón Baldvin Hannibalsson, fékk aðild Íslands að EES-samningnum samþykkta árið 1993 (sjá feril frumvarpsins hér) hófst sá pólitíski ágreiningur sem leiddi til þess að þeir þingflokkar sem heyrðu til vinstri væng stjórnmálanna urðu að engu.

Richard Armour about left and right

Ætlunin var að stofna einn öflugan vinstri flokk en þeir urðu tveir: Samfylkingin og Vinstri hreyfingin - grænt framboð. Það er afar líklegt að þó það hafi ekki farið hátt þá sé einn angi skýringarinnar, á því að þannig fór, sú sama og er að gera út af við þá flokka sem enn eru skilgreindir sem vinstri öfl í nútímanum. Miðað við tímasetninguna og miðað við þá Evrópusambandsáherslu sem var í Alþýðuflokknum á sínum tíma og hefur komið upp á yfirborðið sem meginmál Samfylkingarinnar er sú skýring alls ekki ósennileg.

Hvað sem slíkum eða öðrum ágreiningi leið þá sameinuðust flokkarnir tveir, sem urðu til út úr upplausn Alþýðuflokks, Alþýðubandalags, Kvennalista og Þjóðvaka, í ríkisstjórn tíu árum síðar. Ágreiningurinn er þó greinilega ekki útkljáður og hefur þar af leiðandi höggvið skörð bæði í þingmannahóp Vinstri grænna og Samfylkingarinnar ásamt því sem fylgi þessar flokka hefur hrunið.

Hér er ekki meiningin að fara nánar út í þessa þætti eða meinsemdina sem veldur heldur skoða forsögu þeirra sem voru ráðherrar síðustu ríkisstjórnar í flokksforystu þeirra flokka sem þessir tilheyrðu áður og þeim sem þeir vinna fyrir nú. Eins og í öðrum færslum í þessum flokki sem kallast Ráherrasamanburður verður byrjað á ráðherrum síðustu ríkisstjórnar.

Þó kastljósinu verði einkum beint að forystuhlutverkum umræddra innan stjórnmálaflokkanna þá eru önnur ábyrgðar- og trúnaðarstörf talin líka nema hjá þeim sem hafa hvorki verið formenn eða varaformenn umræddra stjórnmálaflokka. Þar sem nokkrir þeirra sem sátu á ráðherrastóli í ríkisstjórn síðasta kjörtímabils byrjuðu í stjórnmálum áður en þær sviptingar á vinstri vængum, sem leiddu til stofnunar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna áttu sér stað, er flokksforysta þeirra í öðrum flokkum talin hér líka.

Eins og áður þá er hægt að fara inn í ferilskrá hvers og eins með því að fylgja krækju sem er tengd nafni viðkomandi. Nafn, titill, fæðingarár, þingvera og aldur við móttöku formanns- eða varaformannshlutverks er talið í vinstra dálkinum en ábyrgðar- og trúnaðarstörf í þeim hægri.   

Ráherrar síðustu ríkisstjórnar flokkspólitísk forystuhlutverk
 Jóhanna Sigurðardóttir,
 forsætisráðherra
 fædd 1942. Á þingi 1978-2013
 formaður Samfylkingarinnar 67 ára

Varaformaður Alþýðuflokksins 1984-1993.
Formaður Þjóðvaka 1995.
Formaður Samfylkingarinnar 2009-2013.

 Katrín Júlíusdóttir,
 fjármála- og efnahagsráðherra
 
fædd 1974. Á þingi frá 2003
 varaformaður 39 ára
Í stjórn Verðandi, ungliðahreyfingar Alþýðubandalagsins, og ritari Alþýðubandalagsins í Kópavogi 1994-1998.
Í miðstjórn Alþýðubandalagsins 1996-2000.

Fulltrúi Röskvu í stúdentaráði og háskólaráði HÍ 1997-1999.

Varaformaður Ungra jafnaðarmanna 2000, formaður 2000-2001.
Í framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar 2000-2003, varaformaður 2001-2003.
Varaformaður flokksins frá 2013.
 Guðbjartur Hannesson,
 velferðarráðherra
 fæddur 1950. Á þingi frá 2007
Formaður Akraneslistans 1998–2000.
(samstarfsframboð Alþýðuflokks og Alþýðubandalags til bæjarstjórnarkosninga)

 Katrín Jakobsdóttir,
 mennta- og menningarmála-
 ráðherra
 
fædd 1976. Á þingi frá 2007
 varaformaður 27 ára.
 formaður 37 ára

Fulltrúi Röskvu stúdentaráði og háskólaráði  HÍ 1998–2000.

Formaður Ungra vinstri grænna 2002–2003.

Varaformaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs 2003-2013.
Formaður flokksins frá 2013.
 Steingrímur J. Sigfússon,
 atvinnuvega- og nýsköpunar-
 ráðherra

 fæddur 1955. Á þingi frá 1983
 formaður 44 ára
Í stúdentaráði HÍ 1978-1980. 

Formaður þingflokks Alþýðubandalagsins 1987-1988.
Varaformaður flokksins 1989-1995.
Formaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs 1999-2013.
 Össur Skarphéðinsson,
 utanríkisráðherra
 fæddur 1953. Á þingi frá 1991
 formaður 47 ára
Formaður stúdentaráðs HÍ 1976-1977.

Í miðstjórn Alþýðubandalagsins 1985-1987.
Í framkvæmdastjórn flokksins 1985 og 1986.
Í flokksstjórn Alþýðuflokksins 1991-1993.
Formaður þingflokksins 1991-1993.
Formaður Samfylkingarinnar 2000-2005.
Formaður þingflokksins 2006-2007.


Þó trúnaðarstörfin, sem ofantaldir ráðherrar ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingar - græns framboðs hafa gegnt á vegum viðkomandi stjórnmálaflokka, séu vissulega nokkuð fjölbreytt þá má sjá ákveðin samkenni. Langflestir hafa t.d. verið formenn af einhverju tagi; sumir annarra tengdra stjórnmálahreyfinga eða þingflokka.

Hér er ætlunin að skoða hverjir hafa gegnt formennsku og varaformennsku þessara stjórnmálaflokka. Önnur trúnaðarstörf á vegum stjórnmálaflokkanna verða látin bíða næstu færslu. Hér er m.a. átt við þingflokksformennsku og þátttöku í stúdentapólitíkinni á vegum Vöku og Röskvu sem gjarnan hefur verið haldið fram að séu einhvers konar uppeldisstöðvar fyrir frekari stjórnmálaþátttöku á vegum Sjálfstæðisflokksins annars vegar og vinstri flokkanna hins vegar.

Ráðherrar í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur úr forystu Samfylkingarinnar

Á myndinni hér að ofan eru þau talin sem voru eða hafa orðið formenn eða varaformenn Samfylkingarinnar. Fyrsta er að telja Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, sem varð formaður Samfylkingarinnar árið 2009. Hún tók við af Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem var formaður frá 2005 til 2009. Ingibjörg Sólrún tók við af Össuri Skarphéðinssyni sem var annar formaður Samfylkingarinnar. Hann tók við formannsembættinu af Margréti Frímannsdóttur sem var formaður flokksins frá stofnun til ársins 2000 (sjá hér).

Hér má minna á að Ingibjörg Sólrún var utanríkisráðherra í ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks á árunum 2007 til 2009 en þá tók Össur Skarphéðinsson við því hlutverki að framfylgja stefnu Samfylkingarinnar í utanríkismálum. Ólíkt Jóhönnu rekur Össur pólitískar rætur sínar til Alþýðubandalagsins þó hann hafi aldrei setið á þingi fyrir þann flokk eins og þeir Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson sem klufu sig frá (sjá hér) þeim þingmannahópi vinstri flokkanna sem stofnuðu síðar Samfylkinguna (sjá hér)

Þegar Össur Skarphéðinsson var kjörinn inn á þing fyrir Alþýðuflokkinn vorið 1991 hafði Jóhanna Sigurðardóttir verið varaformaður flokksins í sjö ár og gegndi því embætti tveimur árum betur. Fyrir alþingiskosningarnar 1995 hafði Jóhanna klofið sig frá Alþýðuflokknum og stofnað nýjan flokk, Þjóðvaka. Í stjórnmálalegu samhengi er forvitnilegt að rifja það upp sem haft er eftir einum frambjóðenda flokksins:

Nauðsynlegt er að hafna valdakerfum gömlu flokkana. Þannig að hreinn trúnaður ríki milli samvisku kjósenda og lýðræðislegs stjórnmálaafls. Ekki má takmarka sig við sjónarhól atvinnurekenda, líkt og Sjálfstæðisflokkurinn gerir, ekki samvinnuhreyfingar eins og Framsóknarflokkurinn, ekki verkalýðshreyfingar eins og Alþýðubandalagið, ekki annars kynsins líkt og Kvennalistinn gerir og ekki Evrópusambandsins, eins og Alþýðuflokkurinn gerir. Nauðsynlegt er að fá stjórnmálaafl sem tekur tillit til allra litbrigða samfélagsins og byggir á víðtækri heildarsýn. (sjá hér (leturbreytingar eru höfundar))

Jóhanna Sigurðardóttir var formaður Þjóðvaka þann stutta líftíma sem flokkurinn átti áður en þingmenn hans gegnu til liðs við fyrrverandi flokkssystkini hennar sem höfðu verið kosnir inn á þing fyrir hönd Alþýðuflokksins. Þessir stofnuðu saman þingflokk jafnaðarmanna í september 1996. Áður en kjörtímabilið var úti höfðu meiri hluti þingmanna Alþýðubandalags og Kvennalista líka gengið til liðs við þennan forvera Samfylkingarinnar.

Miðað við það sem kemur fram í tilvitnuninni hér að ofan um að ekki megi „takmarka sig við sjónarhól [...] Evrópusambandsins, eins og Alþýðuflokkurinn gerir“ er ekki úr vegi að minna á að Jóhanna Sigurðardóttir var félagsmálaráðherra í þeirri ríkisstjórn sem vann að fullgildingu EES-samningsins fyrir Íslands hönd (sjá hér). Hún fékk reyndar lausn frá því embætti um mitt ár 1994 í kjölfar þess að hún beið lægri hlut fyrir Jóni Baldvini Hannibalssyni í framboði til formanns Alþýðuflokksins (sjá t.d. hér).

Sarah Blake

Tveimur árum síðar var hún þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar aftur gengin til liðs við þingmenn Alþýðuflokksins og tók síðar þátt í því að stofna stjórnmálaflokk sem ætti að vera orðið ljóst að varð að þeim flokki sem hefur gert Evrópusambandsaðild að sínu grundvallarstefnumáli. Það varð reyndar ekki opinbert fyrr en á þeim tíma sem Jóhanna Sigurðardóttir var formaður hans.

Það þarf svo tæplega að minna á að þó Jóhanna hafi lofað því árið 1995 „að Þjóðvaki yrði trúr stefnumálum sínum“ og myndi „ekki taka þátt í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum“ (sjá hér) þá var hún félagsmálaráðherra á ný í ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á árunum 2007 til 2009 (sjá hér). Af einhverjum ástæðum þótti Jóhanna samt líklegust til að leysa það margþætta og erfiða verkefni sem blasti við eftir stjórnarslit Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks í upphafi árs 2009.

Jóhanna hafði setið í sex ár á þingi þegar hún var kjörin varaformaður Alþýðuflokksins þá 42ja ára. Hún gegndi þessu embætti í níu ár. Árið 1994 stofnaði hún eigin flokk og var formaður hans á meðan hann var og hét. Líftími hans var ekki nema tvö ár. Jóhanna var svo kjörin formaður Samfylkingarinnar, arftaka Alþýðuflokksins, eftir 31s ára veru á þingi. Jóhanna var 67 ára þegar hún tók við forystu flokksins. Hún lét af þingstörfum síðastliðið vor eftir 35 ára þingveru.

Össur Skarphéðinsson var kjörinn formaður Samfylkingarinnar eftir níu ára veru á þingi. Hann var  47 ára þegar hann tók við embættinu og gegndi því í fimm ár. Núverandi formaður, Árni Páll Árnason, hafði setið í sex ár inni á þingi þegar hann náði kjöri 47 ára gamall. Fáum blandaðist hugur um að Jóhanna Sigurðardóttir studdi Guðbjart Hannesson sem eftirmann sinn (sjá hér) þegar Árni Páll var kjörinn.

Sumir vildu reyndar halda því fram að hún hefði viljað fá Katrínu Júlíusdóttur í þetta sæti en hún ákvað að gefa ekki kost á sér til formennsku flokksins en bauð sig fram sem varaformaður hans. Hún hafði setið á þingi í tíu ár þegar hún var kjörin til þess embættis þá 39 ára. Það var Dagur B. Eggertsson sem gegndi varaformannsembættinu á undan henni.

Ráðherrar í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur í forystu Vinstri grænna

Vinstri hreyfingin - grænt framboð varð til um svipað leyti og Samfylkingin eða árið 1999. Steingrímur J. Sigfússon var formaður flokksins frá upphafi en áður hafði hann verið varaformaður Alþýðubandalagsins í sex ár. Steingrímur var kosinn inn á þing árið 1983 þá aðeins 28 ára gamall. Sex árum eftir að hann settist inn á þing var hann kjörinn varaformaður Alþýðubandalagsins en á þeim tíma var Ólafur Ragnar Grímsson, núverandi forseti Íslands, formaður þess flokks (sjá hér).

Þegar Steingrímur J. Sigfússon var kjörinn formaður Vinstri grænna var hann orðinn 44 ára og hafði setið inni á þingi í sextán ár. Hann var formaður í fjórtán. Bróðurpart þess tíma var Katrín Jakobsdóttir varaformaður flokksins. Hún var ekki kjörin inn á þing fyrr en árið 2007. Hún hafði hins vegar verið varaborgarfulltrúi Vinstri grænna frá árinu 2002 og formaður Ungra vinstri grænna frá sama tíma.

Katrín var 27 ára þegar hún var kjörin varaformaður Vinstri grænna og 37 ára þegar hún tók við formannsembætti flokksins á síðasta ári. Hún tók við varaformannsembættinu af Svanhildi Kaaber en núverandi varaformaður flokksins er Björn Valur Gíslason (sjá hér)

Flokksforystuhlutverk núverandi ráðherra

Hér er rétt að minna á að þeir einir eru taldir sem eru eða hafa verið í forystu stjórnmálaflokka sem bjóða fram til Alþingis. Taflan hér að neðan er eins sett upp og sú sem er hér að framan þar sem flokksforystuhlutverk ráðherranna í síðustu ríkisstjórn var rakin.

 Ráðherrar núverandi stjórnar
  flokkspólitísk forystuhlutverk
 Sigmundur Davíð Gunnlaugsson,
 forsætisráðherra
 fæddur 1975. Á þingi frá 2009
 formaður 34 ára
Formaður Framsóknarflokksins frá 2009.
 Bjarni Benediktsson,
 fjármála- og efnahagsráðherra
 fæddur 1970. Á þingi frá 2003
 formaður 39 ára
Í stjórn Hugins, félags ungra sjálfstæðismanna í Garðabæ, 1991-1993, formaður 1993.

Formaður Sjálfstæðisflokksins frá 2009.
 Kristján Þór Júlíusson,
 heilbrigðisráðherra
 fæddur 1957. Á þingi frá 2007
 varaformaður 55 ára
Í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins 2002-2013.
Formaður sveitarstjórnarráðs flokksins 2002-2009.
2. varaformaður flokksins 2012-2013.
 Sigurður Ingi Jóhannsson,
 sjávarútvegs- og landbúnaðar-
 ráðherra
 umhverfis- og auðlindaráðherra

 fæddur 1962. Á þingi frá 2009
 formaður 51s árs

Ritari stjórnar Framsóknarfélags Árnessýslu 2001-2008.
Varaformaður flokksins 2013.

 Hanna Birna Kristjánsdóttir,
 innanríkisráðherra
 fædd 1966. Á þingi frá 2013
 varaformaður 47 ára

Framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins 1995–1999.
Í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna 1995–1999.
Í stjórn hverfafélags sjálfstæðismanna í Austurbæ og Norðurmýri 1995–1996.
Aðstoðarframkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins 1999–2006.
Varaformaður flokksins frá 2013.


Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, núverandi forsætisráðherra, er formaður Framsóknarflokksins. Hann tók við formannsembættinu af Valgerði Sverrisdóttur (2008-2009) sem var kjörin varaformaður flokksins árið 2007 um leið og Guðni Ágústsson (2007-2008) var kosinn formaður hans. Við það að Guðni sagði af sér sem þingmaður og formaður flokksins í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 tók Valgerður við (sjá hér).

Á undan Guðna Ágústsyni hafði Jón Sigurðsson (2006-2007) verðið formaður Framsóknarflokksins í eitt ár. Hann tók við af Halldóri Ásgrímssyni sem var formaður flokksins í tólf ár. Tveir fyrrverandi forsætisráðherrar úr röðum Framsóknarflokksins hafa gengt formennsku flokksins lengur en hann en það eru feðgarnir Hermann Jónasson sem var formaður Framsóknarflokksins í átján ár og Steingrímur Hermannsson sem var formaður hans í fimmtán ár. 

Þeir voru formenn Framsóknarflokksins í 10 ár eða lengur

Þess má svo geta að Jónas Jónsson frá Hriflu var formaður Framsóknarflokksins í tíu ár. Tryggvi Þórhallsson var forsætisráðherra á þeim tíma sem Jónas frá Hriflu var yfir Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu (sjá hér). Hann var formaður flokksins á árunum 1928-1932 (sjá frekar hér).

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var kjörinn formaður Framsóknarflokksins nokkrum mánuðum áður en hann varð þingmaður Framsóknarflokksins. Hann var 34 ára þegar hann tók við formannsembættinu. Á sama tíma var Birkir Jón Jónsson kosinn varaformaður flokksins en Sigurður Ingi Jóhannsson tók við því embætti á síðasta landsfundi flokksins sem var haldinn í byrjun árs 2013.

Sigurður Ingi var 51s árs þegar hann var kjörinn varaformaður Framsóknarflokksins. Hann kom nýr inn á þing í alþingiskosningunum 2009 og hafði því setið í fjögur ár á þingi þegar hann var kjörinn af landsfundi Framsóknarflokksins til varaformannsembættisins.

Ráðherrar í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs sem gegna eða hafa gegnt flokksforystu

Bjarni Benediktsson, núverandi fjármála- og efnahagsráðherra, var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins sama ár og Sigmundur Davíð tók við Framsóknaflokknum. Bjarni tók við formennsku flokksins úr hendi Geirs H. Haarde sem gegndi formennsku flokksins frá 2005 til fyrri hluta ársins 2009.

Geir var eftirmaður Davíðs Oddssonar sem var formaður Sjálfstæðisflokksins í fjórtán ár. Aðeins Ólafur Thors hefur gegnt formennsku flokksins lengur en hann var formaður hans í 37 ár. Bjarni Benediktsson (eldri) tók við formennskunni af Ólafi og hafði leitt flokkinn í níu ár þegar hann lést sviplega í eldsvoða við Þingvallavatn árið 1970 (sjá t.d. hér)

Þeir voru formenn Sjálfstæðisflokksins í 8 ár eða lengur

Geir Hallgrímsson var kjörinn formaður flokksins þremur árum síðar og var formaður hans næstu tíu árin. Þorsteinn Pálsson var eftirmaður hans en hann var formaður Sjálfstæðisflokksins í átta ár áður en varaformaður flokksins til tveggja ára bauð fram gegn honum og hafði betur (sjá nánar hér). Reyndar eru nokkrar líkur fyrir því að það sem leit út eins og slagur hafi verið löngu undirbúinn þáttur (sjá hér).

Samantekt

Það hefur orðið að hefð í íslenskum stjórnmálum að formenn og varaformenn þeirra stjórnmálaflokka sem mynda ríkisstjórn fara með ráðherraembætti fyrir hönd þeirra flokka sem þeir stýra. Það að formaður þess stjórnmálaflokks sem leiðir stjórnarsamstarfið fer með forsætisráðherraembættið er elst þeirra hefða sem lítur út fyrir að séu orðnar viðteknar í íslenskum stjórnmálum. Þessi hefð á 90 ára afmæli á þessu ári.

Á síðasta kjörtímabili voru þau þrjú sem voru ráðherrar ásamt því að gegna flokksforystuhlutverkum í sínum flokkum. Á þessu kjörtímabili eru þau fjögur. Það liggur væntanlega í augum uppi að það er mikið starf að vera ráðherra og hvað þá þegar því fylgir líka starf formanns eða varaformanns þess flokks sem fer með ríkisstjórnarsamstarfið. Hér er þó ótalið að umræddir ráðherrar gegndu/gegna líka þingmennsku.

Af einhverjum ástæðum hefur farið lítið fyrir því í samfélagsumræðunni hversu líklegt það er að einn einstaklingur geti farið með svo umfangsmikil og margþætt hlutverk eins og ráherraembætti, þingmennsku og formanns-/varaformannshlutverk í stjórnmálaflokki í ríkisstjórn á einum og sama tímanum. Eins og gefur að skilja þá þurfa þeir sem sitja inni á þingi að setja sig inn í ýmis konar mál og þeir sem eru ráðherrar þurfa að setja sig rækilega inn í málaflokk/-a viðkomandi ráðuneytis.

Þessir þurfa þar af leiðandi að finna tíma meðfram þingveru og ráðuneytisstörfum til að mæta á ráðstefnur, fundi og fylgjast með fréttum og annarri umræðu sem snerta bæði þing- og ráðherrastörf þeirra. Væntanlega þurfa þessir líka að svara einhverjum símtölum og bréfum sem þeim berast. Þegar það er svo tekið inn í að þetta fólk þarf, eins og allir aðrir, líka að sinna sjálfum sér, fjölskyldu, nánum vinum og öðrum hversdagslegum verkefnum og skyldum þá hlýtur það að segja sig sjálft að eitthvað verður undan að láta.

Því miður er ekki annað að sjá en bæði fjölmiðlar og almennir kjósendur hafi viðurkennt þá sérkennilegu hefð að það þyki sjálfsagt að bæði formenn og varaformenn, þeirra flokka sem taka þátt í stjórnarsamstarfinu, taki frekar sæti í ríkisstjórn frekar en þeir veiti ríkisstjórninni aðhald varðandi yfirlýsta stefnu flokksins í þeim málaflokkum sem koma til kasta þingsins eða eru á hendi ráðuneytanna.

Charles de Gaulle

Það má vera að stjórnmálamennirnir séu týndir inni í þeirri hugmynd að stjórnmálaflokkarnir séu fyrst og fremst vettvangur til að raða upp í goggunarröðina þegar kemur að úthlutun og skipun í ráðherraembætti en það ætti að vera nokkuð ljóst að slíkt verklag þjónar ekki hagsmunum kjósenda.

Það er alls ekki útilokað að hugsa sér að hæfustu einstaklingarnir veljist til formennsku og/eða varaformennsku innan stjórnmálaflokkanna en það er þó engan vegin öruggt, að ef vísasta leiðin til að komast að sem ráðherra séu slík embætti, að hagsmunir kjósenda séu teknir með inn í dæmið. Það má nefnilega gera ráð fyrir því að með núverandi fyrirkomulagi fari eftirsóknin eftir því að komast í sviðsljósið að ráða meiru en það að fylgja þeirri stefnu sem viðkomandi flokkur heldur á lofti af alúð og árvekni. 

Í þessu sambandi má spyrja sig hver er tilgangurinn með því að hafa bæði formann og varaformann í stjórnmálaflokkum. Eins og flestir gera sér grein fyrir er það hlutverk varaformannsins að styðja við formanninn með því að ganga í hlutverk hans ef hann kemst ekki yfir það sem honum er ætlað af einhverjum ástæðum.

Þar af leiðandi er ekki óeðlilegt að annarhvor, formaður eða varaformaður, taki við ráðherraembætti, komi til þess að viðkomandi stjórnmálaflokkur gangi inn í ríkisstjórn, og viðkomandi er best til þess falinn að gegna einhverju þeirra embætta sem flokknum er falið að skipa til. Það væri ekki síður eðlilegt að það væri aðeins annar af þessum tveimur en hinn stæði utan ríkisstjórnarinnar og væri þar með fulltrúi kjósenda sem veitti ríkisstjórninni og þingmönnum flokksins stefnulegt aðhald.

Það er ekki komið að því að draga fram endanlega niðurstöðu þessara skrifa. Það eru a.m.k. kaflar eftir í þessum færsluflokki þar sem ráðherrar fyrrverandi og núverandi ríkisstjórnar eru til samanburðar út frá þeim ferilskrám þeirra sem er að finna á alþingisvefnum. Hér hafa verið dregin fram flokksforystuhlutverk sem þessi gegndu eða gegna nú. Í næstu færslu verða önnur ábyrgðar- og/eða trúnaðarstörf á vegum stjórnmálaflokkanna dregin fram. Þessum samanburði lýkur svo á samanburði á þingreynslu þeirra sem hér hafa verið til skoðunar. 

Aðrar færslur í þessum sama flokki:
Ráðherrasamanburður: Aldur við skipun
Ráðherrasamanburður: Menntun
Ráðherrasamanburður: Starfsreynsla
Ráðherrasamanburður: Sveitarstjórnarreynsla
Ráherrasamanburður: Önnur pólitísk reynsla

Heimildir um forsætis- og utanríkisráðherraskipan liðinna ára
Forsætisráðherrar á Íslandi (Wikipedia)
Forsætisráðherra Íslands
(Wikipedia)
Fyrri ráðherrar (Forsætisráðuneytið)
Utanríkisráðherrar á Íslandi (Wikipedia)
Utanríkisráðherratal (Utanríkisráðuneytið)
Sögulegt yfirlit um utanríkisþjónustuna (Utanríkisráðuneytið)

Heimildir af Wikipediu um forystu stjórnmálaflokkanna:
Alþýðubandalagið (1956-1998)
Alþýðuflokkurinn (1916-1998)
Borgarflokkurinn (1923-1924(flokkur Jóns Magnússonar))
Borgaraflokkurinn (1987-1994(flokkur Alberts Guðmundssonar))
Framsóknarflokkurinn (1916)
Kommúnistaflokkur Íslands (1930-1938)
Íhaldsflokkurinn (1924-1929)
Sameiningarflokkur alþýðu - Sósíalistaflokkurinn (1938-1968)
Samfylkingin (1999-)
Samtök frjálslyndra og vinstri manna (1969-1978)
Sjálfstæðisflokkurinn (1929-)
Vinstri grænir (1999- (vantar yfirlit yfir eldri stjórnir))
Þjóðvaki (1994-1996 (vantar yfirlit um forystu))

Heimildir um skipun ráðuneyta:
Ráðuneyti 1917-2013

Ferilskrá ráðherra núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnar:
Menntunar- og hæfniskröfur til ráðherraembætta


Ráðherrasamanburður: Önnur pólitísk reynsla

Það hefur tíðkast frá örófi alda að sá sem vill ná tökum á ákveðinni iðn eða fagi hefur leitað í smiðju meistara í greininni. Í gamla samfélaginu héldu meistararnir þekkingunni á verklaginu og samskiptanetinu, sem þeir höfðu komið sér upp í kringum hana, fyrir sig og sína nánustu. Í Evrópu stofnuðu faggreinarnar gildi til að verja einkarétt sinn til iðjunnar og afleiddra viðskipta.

Thomas Jeffersons

Það er eðlilegt að líta á þessi gildi sem upphaf stéttarfélaga en saga sumra þeirra bendir mun frekar til klíkusamtaka sem voru stofnuð til að ryðja keppinautunum úr vegi. Í þessu sambandi má nefna að þegar rýnt er í upphaf galdraofsóknanna í Evrópu kemur fram lítt þekkt saga þar sem ný stétt háskólamenntaðra karllækna gekk í bandalag með kaþólsku kirkjunni og öðrum landeigendum sem höfðu lýst yfir stríði gegn þeim sem stunduðu það sem í nútímanum er kallað einu nafni óhefðbundnar lækningar (sjá Anderson, S. Bonnie og Judith P. Zinsser: A History of their own - Women in Europe from Prehistory to the Present).

Það er ekki ætlunin að rýna frekar ofan í þessa sögu í þessari færslu en þetta er nefnt hér þar sem það tengist meginviðfangsefni þessarar skrifa með óbeinum hætti þó það verði ekki útskýrt frekar fyrr en í niðurlaginu. Hér er ætlunin að skoða hverjir, meðal þeirra sem gegna ráðherraembættum í núverandi ríkisstjórn eða voru ráðherrar þeirrar síðustu, höfðu sótt sér reynslu af pólitískum vettvangi með störfum á vegum fyrri ríkisstjórna.

Miðað við þá aldagömlu hefð að leita þekkingar og reynslu á tilteknu sviði hjá þeim, sem eru fyrir í þeirri grein þar sem viðkomandi hefur í hyggju að hasla sér völl, er ekki óeðlilegt að ætla að störf á vegum eldri ríkisstjórna hafi skipt miklu varðandi mótun starfsaðferða og viðhorfa en ekki síður í því að afla sambanda. Hér verða þeir því taldir sem voru skipaðir í nefndir og störfuðu innan ráðuneyta eða sem ráðgjafar ráðherra í tíð eldri ríkisstjórna; þ.e. ríkisstjórna sem sátu við stjórnvölinn fyrir 1. febrúar 2009.  

Samuel Adams

Engin þeirra sem var leystur frá ráðherraembætti, við það að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur fékk lausn vorið 2013, hefur starfsreynslu af því tagi sem hér er til skoðunar. Hins vegar hafa allir sem sátu tímabundið á ráðherrastóli í valdatíð hennar slíka reynslu. Það verður rakið um hvers konar reynslu er að ræða undir lok þessarar færslu. Hér er hins vegar yfirlit yfir þá sem hafa slíka reynslu meðal núverandi ráðherra ásamt upptalningu á þeim ábyrgðar- og trúnaðarstörfum sem um ræðir.

Í vinstri dálkinum eru nöfn og núverandi embættisheiti þeirra talin ásamt því sem það er tekið fram frá hvaða tíma viðkomandi hefur setið inni á þingi og heildarstarfsaldur af því tagi sem hér er til skoðunar. Ef viðkomandi starf snertir núverandi ráðherraembætti er það feitletrað. Í hægra dálki kemur fram um hvaða ábyrgðar- og trúnaðarstörf er að ræða, svo og tímabil og á vegum hvaða ráðherra viðkomandi starfaði. Eins og áður eru svo krækjur inn á ferilskrá viðkomandi ráðherra á alþingisvefnum undir nafni hans.

 Ráðherrar núverandi stjórnar
 Trúnaðarstörf á vegum fyrri ríkisstjórna
 Illugi Gunnarsson,
 mennta- og menningarmála-
 ráðherra

 5 ár. Á þingi frá 2007
Aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra 2000-2005.
 Ragnheiður Elín Árnadóttir,
 iðnaðar- og viðskiptaráðherra
 12 ár. Á þingi frá 2007
Aðstoðarmaður Geirs H. Haarde, fjármálaráðherra 1998-2005, utanríkisráðherra 2005-2006 og forsætisráðherra 2006-2007.

Starfsmaður Útflutningsráðs 1995-1998.
Í nefnd um nýtt fæðingarorlof 1999.
Í samninganefnd ríkisins 1999-2005.
Varamaður í jafnréttisráði 2000-2005.
Varamaður í bankaráði Norræna fjárfestingarbankans 2000-2006.
Í viðræðunefnd um varnarmál 2005-2006.
Í fjölskyldunefnd ríkisstjórnarinnar 2005-2007.
 Sigurður Ingi Jóhannsson,
 sjávarútvegs- og landbúnaðar-
 ráðherra
 umhverfis- og auðlindaráðherra

 2 ár. Á þingi frá 2009
Í ráðherraskipaðri nefnd sem vann að breytingum á dýralæknalögum 1996-1998. (Guðmundur Bjarnason, landbúnaðar- og umhverfisráðherra)
 Gunnar Bragi Sveinsson,
 utanríkisráðherra
 2 ár. Á þingi frá 2009
Aðstoðarmaður Páls Péturssonar, félagsmálaráðherra 1997-1999.
 Hanna Birna Kristjánsdóttir,
 innanríkisráðherra
 3 ár. Á þingi frá 2013

 


Starfsmaður Öryggismálanefndar 1990-1991. (undir Forsætisráðuneyti Steingríms Hermannssonar)
Deildarsérfræðingur í Menntamála-ráðuneytinu 1994–1995. (Ólafur G. Einarsson, menntamálaráðherra)

Formaður nefndar Björns Bjarnasonar, menntamálaráðherra, um mótun símenntunarstefnu 1997–1998.


Illugi Jökulsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Gunnar Bragi Sveinsson hafa öll unnið sem aðstoðarmenn ráðherra sem gegndu embættum á vegum sama flokks og þau sitja á þingi fyrir nú. Það vekur athygli að bæði Hanna Birna Kristjánsdóttir og Ragnheiður Elín Árnadóttir eiga eingöngu starfsferil af pólitískum toga.

Ragnheiður Elín hóf sinn starfsferil sem starfsmaður Útflutningsráðs þar sem hún byrjaði sem aðstoðarviðskiptafulltrúi en varð síðar viðskiptafulltrúi í New York og síðar verkefnisstjóri í Reykjavík (sjá hér). Upphaf starfsferils Hönnu Birnu verður til umfjöllunar í næsta kafla þar sem verður fjallað um trúnaðar- og ábyrgðarstöður á vegum stjórnmálaflokkanna.

Ráðherrar í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs sem hafa gegnt ábyrgðarstöðum fyrir eldri ríkisstjórnir

Illugi og Ragnheiður Elín hafa bæði verið aðstoðarmenn ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Illugi var aðstoðarmaður Davíð Oddssonar á árunum 2000-2005. Fyrst í Forsætisráðuneytinu og svo væntanlega það eina ár sem Davíð sat í Utanríkisráðuneytinu (sjá hér). Það kemur ekki fram á ferilskrá Illuga Gunnarssonar hvað hann gerði á árunum 2005 til 2007 en vorið 2007 settist hann inn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Ragnheiður Elín var aðstoðarmaður Geirs H. Haarde í níu ár. Fyrst í þau sjö ár sem hann sat í Fjármálaráðuneytinu (sjá hér). Árið 2005 fylgdi hún honum í Utanríkisráðuneytið þegar hann tók við utanríkisráðherraembættinu af Davíð Oddssyni. Þegar Geir H. Haarde varð forsætisráðherra árið 2006 fylgdi Ragnheiður Elín honum svo í Forsætisráðuneytið. Árið eftir settist hún inn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Lög um Útflutningsráð Íslands voru sett fram í stjórnartíð Jóns Baldvins Hannibalssonar yfir Utanríkisráðuneytinu. Fimm árum síðar varð Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra (sjá hér) en á þeim tíma hóf Ragnheiður Elín störf hjá Útflutningsráðinu. Þremur árum seinna réði Geir H. Haarde hana til sín sem aðstoðarmann. Á meðan hún starfaði sem aðstoðarmaður hans átti hún sæti í ýmsum nefndum og ráðum á vegum stjórnvalda; þ.á m. samninganefnd ríkisins sem sér um kjarasamninga við opinbera starfsmenn. 

Hanna Birna er þriðji ráðherra núverandi ríkisstjórnar sem kemur úr röðum Sjálfstæðisflokksins sem á starfferil af því tagi sem hér er til umfjöllunar. Árið 1990 var hún starfsmaður Öryggismálanefndar sem heyrði undir Forsætisráðuneytið en á þeim tíma var framsóknarþingmaðurinn, Steingrímur Hermannsson, forsætisráðherra í ríkisstjórn Framsóknar, Alþýðubandalags og Alþýðuflokks (sjá hér).

Árið 1994 var Hanna Birna deildarsérfræðingur í Menntamálaráðuneytinu á þeim tíma sem sjálfstæðisþingmaðurinn, Ólafur G. Einarsson, var yfir ráðuneytinu (sjá hér). Þremur árum síðar skipaði Björn Bjarnason, þáverandi menntamálaráðherra (sjá hér), Hönnu Birnu sem formann nefndar sem starfaði á hans vegum í þeim tilgangi að móta stefnu í símenntunarmálum.

Gunnar Bragi Sveinsson, núverandi utanríkisráðherra, á það sameiginlegt með Illuga Gunnarssyni og Ragnheiði Elínu Árnadóttur að hafa verið aðstoðarmaður ráðherra í sama flokki og hann situr á þingi fyrir nú. Gunnar Bragi var aðstoðarmaður Páls Péturssonar sem var félagsmálaráðherra á árunum 1995 til 2003 en Gunnar Bragi var aðstoðarmaður hans í tvö ár. Þá átti Sigurður Ingi Jóhannsson sæti í nefnd um breytingar á dýralæknalögum. Í nefndina skipaði Guðmundur Bjarnason sem var landbúnaðar- og umhverfisráðherra á árunum 1995 til 1999 (sjá hér).

Hér á eftir eru þeir ráðherrar núverandi ríkisstjórnar sem hafa reynslu af ábyrgðar- og/eða trúnaðarstörfum á vegum fyrri ríkisstjórna taldir upp ásamt tímabilinu sem þeir störfuðu, ráðherrunum sem skipaði þá til starfans, eða sá sem þeir störfuðu lengst með, og forsætisráðherranum sem fór fyrir þeirri ríkisstjórn/-um sem þeir störfuðu fyrir. 

Röðin miðast við byrjunarár en það skal tekið fram að Hanna Birna er aðeins talin einu sinni. Ástæðan er sú að hún starfaði ekki samfellt. Hún var starfsmaður Öryggismálanefndar í tíð Steingríms Hermannssonar eins og hefur komið fram hér á undan og síðar starfaði hún í nefnd sem Björn Bjarnason skipaði til. Það er svo rétt að taka það fram að það er mjög hæpið að halda því fram að aðrir en Illugi Gunnarsson og Ragnheiður Elín Árnadóttir hafi í reynd notið leiðsagnar þeirra sem eru kallaðir lærifeður í töflunni hér að neðan.

 Núverandi ráðherra tímabil Lærifaðir
 forsætisráðherra
Hanna Birna Kristjánsdóttir 
1994-1995
Ólafur G. Einarsson
 Davíð Oddsson
Ragnheiður Elín Árnadóttir
1995-2007Geir H. Haarde
 Davíð Oddsson
 Halldór Ásgrímsson
 Geir H. Haarde
Sigurður Ingi Jóhannsson 1996-1998Guðmundur Bjarnason Davíð Oddsson
Gunnar Bragi Sveinsson 1997-1999Páll Pétursson
 Davíð Oddsson
Illugi Gunnarsson
2000-2005
Davíð Oddsson
 Davíð Oddsson
 Halldór Ásgrímsson


Eins og kemur fram í töflunni hér að ofan þá störfuðu þrír af fimm núverandi ráðherrum á vegum ríkisstjórnar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks sem var við stjórnvölinn, undir forystu Davíðs Oddssonar, á árunum 1995 til 1999 (sjá hér). Þó það komi ekki fram í töflunni hér að ofan þá starfaði Hanna Birna Kristjánsdóttir líka á vegum ráðherra í þessari ríkisstjórn þegar hún var skipuð formaður nefndar Björns Bjarnasonar, þáverandi menntamálaráðherra, um mótun símenntunarstefnu.

Illugi Gunnarsson og Ragnheiður Elín Árnadóttir voru aðstoðarmenn ráðherra í þriðja og fjórða ráðuneyti Davíðs Oddssonar (sjá hér) og ráðuneyti Halldórs Ásgrímssonar (sjá hér). Auk þessara starfaði Ragnheiður Elín líka á vegum fyrsta ráðuneytis Geirs H. Haarde (sjá hér) eða þar til hún var kosin inn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn vorið 2007.

Þau störfuðu líka á vegum fyrri ríkisstjórna

Það vekur vissulega athygli að á meðan meiri hluti þeirra sem gegna ráðherraembættum nú eiga forsögu af ábyrgðar- og trúnaðarstörfum á vegum þeirra ríkisstjórna sem voru við stjórnvölin áratugina í kringum síðustu aldamót þá á engin þeirra sem sat á ráðherrastóli í undanfara stjórnarskiptana síðastliðið vor slíka forsögu.

Þetta er ekki síður athyglisvert í ljósi þess að allir þeir sem sátu tímabundið á ráðherrastóli í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur eiga slíka forsögu. Þessi verða talin hér en það er rétt að hafa það í huga að í sumum tilvikum eru nefndir og stjórnir sem starfa á vegum viðkomandi ríkisstjórna skipaðar af öllum stjórnmálaflokkunum á Alþingi þannig að hver flokkur skipar sinn fulltrúa í viðkomandi nefnd eða stjórn. Einhverjir þeirra sem eru taldir hér að neðan hafa því að öllum líkindum verið tilnefndir af þeim stjórnmálaflokkum sem þeir gegndu ráðherraembættum fyrir á síðasta kjörtímabili.

Ráherrar sem sátu tímabundið í ríkisstjórn Jóhönnu og hafa gegnt ábyrgðarstöðum fyrir eldri ríkisstjórnir

Jón Bjarnason var fulltrúi í búfræðslunefnd á árunum 1981 til 1999 eða í átján ár. Á þeim tíma voru þessir landbúnaðarráðherrar: Pálmi Jónsson, Jón Helgason, Steingrímur J. Sigfússon, Halldór Blöndal og Guðmundur Bjarnason. Jón var kosinn inn á þing fyrir Vinstri græna árið 1999. Sama ár tók Kristján L. Möller sæti á þingi fyrir Samfylkinguna. Hann var skipaður í byggðanefnd Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra árinu á undan og átti því sæti í henni í eitt ár.

Oddný G. Harðardóttir, sem kom inn á þing fyrir Samfylkinguna árið 2009, var verkefnisstjóri í Menntamálaráðuneytinu árið 2003 til 2004. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var menntamálaráðherra á þessum tíma. Álfheiður Ingadóttir, sem hefur verið á þingi fyrir Samfylkinguna frá árinu 2007, var í stjórn Landsvirkjunar frá árinu 2003 til 2006 Geir H. Haarde, þáverandi fjármálaráðherra, skipaði í nefndina.

Gylfi Magnússon var formaður stjórnar Samkeppniseftirlitsins á árunum 2005 til 2009. Valgerður Sverrisdóttir, sem var iðnaðar- og viðskiptaráðherra árið 2005, skipaði í stjórnina en Gylfi gegndi formennsku í henni áfram í tíð Jóns Sigurðssonar og Björgvins G. Sigurðssonar. Gylfi Magnússon var annar tveggja utanþingsráðherra sem Jóhanna Sigurðardóttir skipaði til ráðherraembættis árið 2009 en leysti frá störfum haustið 2010.

Árni Páll Árnason er sá fyrrverandi ráðherra Samfylkingarinnar sem á fjölskrúðugasta starfsferilinn af þessu tagi. Hann var ráðgjafi Jóns Baldvins Hannibalssonar, utanríkisráðherra í Evrópumálum á árunum 1992 til 1994. Þá var hann embættismaður á viðskiptaskrifstofu og varnarmálaskrifstofu Utanríkisráðuneytisins síðasta árið sem Jón Baldvin sat yfir því.

Í framhaldinu var hann sendiráðsritari í fastanefnd Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu og Vestur-Evrópusambandinu í Brussel og fulltrúi Íslands í stjórnmálanefnd Atlantshafsbandalagsins á árunum 1995 til 1998. Halldór Ásgrímsson var utanríkisráðherra á þessum tíma. Þá var hann í ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur frá 1999 til 2009. Nefndin er á vegum Forsætisráðuneytisins en forsætisráðherrar á þeim tíma sem Árni Páll var varamaður í nefndinni (sjá hér) voru: Davíð Oddsson, Halldór Ásgrímsson og Geir H. Haarde.

Á sama tíma var hann starfsmaður ráðherraskipaðra nefnda um endurskipulagningu utanríkisþjónustunnar, eða árið 2004, og um fjármál stjórnmálaflokkanna árið 2005 til 2006. Árið 2004 var Davíð Oddsson utanríkisráðherra en á árunum 2005 til 2006 var Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra en það er forsætisráðherra sem skipar í nefnd um fjármál stjórnmálaflokka. Árni Páll hefur setið á þingi fyrir Samfylkinguna frá 2007.

Ragna Árnadóttir er önnur þeirra tveggja utanþingsráðherra sem Jóhanna skipaði í embætti árið 2009 en leysti frá störfum haustið 2010. Ragna átti átta ára starfsferil að baki innan úr stjórnsýslu fyrri ríkisstjórna þegar Jóhanna Sigurðardóttir skipaði hana til embættis dóms- og kirkjumálaráðherra í febrúar 2009.

Ferill Rögnu hófst í Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Hún var deildarstjóri þar árið 2001 til 2002 eða á þeim tíma sem Jón Kristjánsson var yfir ráðuneytinu. Þá var hún skrifstofustjóri í Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu í sjö ár eða frá árinu 2002 til 2009. Auk þess var hún staðgengill ráðuneytisstjóra þrjú síðustu árin sín þar og ráðuneytisstjóri þess yfir sex mánaða tímabil á árinu 2008.

Sólveig Pétursdóttir var Dóms- og kirkjumálaráðherra þegar Ragna hóf störf í ráðuneytinu en Björn Bjarnason tók við af Sólveigu og sat yfir ráðuneytinu fram til stjórnarslita í upphafi ársins 2009. Það var því í tíð Björns Bjarnasonar sem Ragna var sett ráðuneytisstjóri. Skömmu fyrir stjórnarslitin í janúar 2009 hafði Geir H. Haarde fengið Rögnu yfir í Forsætisráðuneytið þar sem hún var skrifstofustjóri og staðgengill ráðuneytisstjóra í janúar 2009.

Á sama tíma og Ragna var starfsmaður í Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu gegndi hún ýmsum öðrum störfum á vegum þess og annarra ráðuneyta. Hér verða þau verkefni sem hún var skipuð til af ráðherrum annarra ráðuneyta talin. Ragna var starfsmaður áfrýjunarnefndar samkeppnismála árið 2002 til 2003. Hún var skipuð af viðskiptaráðherra sem þá var Finnur Ingólfsson. Ári síðar var hún skipuð starfsmaður kærunefndar samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Hún var skipuð af þáverandi viðskiptaráðherra sem var Valgerður Sverrisdóttir.

Ragna átti líka sæti í nefnd viðskiptaráðherra um aðgerðir gegn peningaþvætti á árunum 2005 til 2007. Hún var því skipuð í tíð Valgerðar Sverrisdóttur en starfaði áfram þegar Jón Sigurðsson var viðskiptaráðherra. Þá var Ragna í nefnd forsætisráðherra til að fara yfir viðurlög við efnahagsbrotum á árunum 2004 til 2006 en Halldór Ásgrímsson var forsætisráðherra á þessum tíma. 

Auk framantalins gegndi Ragna Árnadóttir fjölda trúnaðarstarfa á vettvangi Evrópuráðsins og Sameinuðu þjóðanna á árabilinu 2002 til 2009. Á þessum tíma voru Valgerður Sverrisdóttir, Halldór Ásgrímsson, Davíð Oddsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherrar. Hvað aðrar trúnaðarstöður og ábyrgðarstöður á vegum Dóms- og kirkjumálaráðuneytisins varðar er vísað til ferilskrár Rögnu á síðu Alþingis.

Samantekt og samanburður

Að lokum er vel við hæfi að taka saman í töflu á hvaða tímabili ofantalin gegndu ábyrgðar- og/eða trúnaðarstöðum á vegum eldri ríkisstjórna. Þar sem ekkert þessara starfaði sem aðstoðarmaður ráðherra þá er upptalningu þeirra ráðherra sem skipaði þau eða réði sleppt ásamt þeim sem veitti þeim áframhaldandi umboð þar sem um slíkt er að ræða.

Það er líka hæpið að tala um lærifeður nema helst í tilviki Árna Páls Árnasonar sem starfaði í þrjú ár með Jóni Baldvini Hannibalssyni í Utanríkisráðuneytinu, Oddnýjar G. Harðardóttur, sem var verkefnisstjóri í eitt ár í embættistíð Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, og Rögnu Árnadóttur, sem starfaði í nær sex ár við hlið Björns Bjarnasonar í Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. 

Eins og áður sagði er dálkinum lærifaðir sleppt hér en í þess stað er tekin saman árafjöldi hvers og eins í ábyrgðarstöðum af því tagi sem hér hafa verið tekin saman svo og árið sem viðkomandi kom inn á þing. Í tilviki utanþingsráðherranna er vera þeirra á þingi tilgreind í aftasta dálkinum. Það er svo rétt að taka það fram í sambandi við starfsaldur Árna Páls Árnasonar að þá er hann aðeins talinn fram að því að hann settist inn á þing vorið 2007.

 Nöfn ráðherra  tímabilárafj.
 forsætisráðherra
 á þingi frá:
 Jón Bjarnason 
 1981-1999
 18 ár
 Steingrímur Hermannsson
 Þorsteinn Pálsson
 Steingrímur Hermannsson
 Davíð Oddsson
 1999
 Árni Páll Árnason
 1992-2009 15 ár
 Davíð Oddsson
 Halldór Ásgrímsson
 Geir H. Haarde
 2007
 Kristján L. Möller
 1998-1999 1 ár
 Davíð Oddsson
 1999
 Ragna Árnadóttir  2001-2009 8 ár
 Davíð Oddsson
 Halldór Ásgrímsson
 Geir H. Haarde
 2009-2010
 Oddný G. Harðardóttir
 2003-2004 1 ár
 Davíð Oddsson
 2009
 Álheiður Ingadóttir
 2003-2006
 3 ár
 Davíð Oddsson
 Halldór Ásgrímsson
 2007
 Gylfi Magnússon
 2005 -2009
 4 ár
 Halldór Ásgrímsson
 Geir H. Haarde
 2009-2010


Það sem vekur e.t.v. mesta athygli er að framantaldir ráðherrar, sem allir sátu tímabundið í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, hafa margir hverjir töluverða reynslu af ábyrðar- og trúnaðarstörfum á vegum ríkisstjórna sem voru undir forsæti ráðherra Framsóknar- eða Sjálfstæðisflokks. Af núverandi ráðherrum hefur Ragnheiður Elín Árnadóttir langlengstu starfsreynsluna af þessu tagi eða tólf ár. Af þeim sem eru taldir hér að ofan hafa Jón Bjarnason og Árni Páll Árnason hæsta starfsaldurinn þó þess beri að geta að starf Jóns Bjarnasonar í nefnd um búfræðslu hefur alls ekki verið jafnviðamikið og þeirra Árna Páls og Ragnheiðar Elínar í sínum störfum.

Ragna Árnadóttir hefur líka hærri starfsaldur, í ábyrgðar- og trúnaðarstörfum fyrir fyrri ríkisstjórnir Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks og síðar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, en allir ráðherrar núverandi ríkisstjórnar að Ragnheiði Elínu einni undanskilinni. Ef starfsaldri ráðherra núverandi ríkisstjórnar er deild út á þá fimm sem hér hafa verið taldir og fundið meðaltal er það fjögur ár á hvern þeirra samanborið við að starfsaldur þeirra sjö sem eru taldir í töflunni hér að ofan er sjö ár.

Niðurlag 

Í upphafi þessarar færslu var vikið í nokkrum orðum að svonefndum gildum sem gjarnan er litið á sem undanfara stétta- eða faggreinasamtaka þó ýmislegt í sögu þeirra minni frekar á klíkubandalög. Gildin voru stofnuð utan um ýmis konar faggreinaþekkingu í þeim tilgangi að verja sérþekkingu og viðskiptasambönd. Æðstráðendur veittu nýliðum inngöngu sem höfðu lært á vegum viðurkenndra meistara í viðkomandi grein ef umsækjandinn stóðst faggreinaprófið sem þeir höfðu sett. Fæstir komust þó að til náms nema þeir væru tengdir meistara innan gildisins einhverjum böndum.

Það er hæpið að skilgreina pólitíkina sem faggrein af því tagi sem gildin og síðar faggreinafélögin voru stofnuð utan um. Hins vegar eru tilefni stofnunar stjórnmálaflokka ekki óskylt þar sem þeim var frá upphafi ætlað að gegna hlutverki hagsmunasamtaka til að tryggja samvinnu um sameiginleg mál og viðhalda samböndum. Sumir vilja jafnvel meina að hlutverk stjórnmálaflokka sé miklu frekar það að tryggja viðgang stjórnmálaflokksins og sérhagsmuni þeirra sem tilheyra honum en að standa vörð um hugsjónir og hagsmunamál sem varða samfélagslega hagsmuni. 

John Locke

Hér hefur verið fjallað um þá sem gegna ráðherraembættum nú og þá sem fóru með slík embætti á síðasta kjörtímabili. Þeir hafa verið taldir sem hafa reynslu af ábyrgðar- og/eða trúnaðarstörfum fyrir ríkisstjórnirnar sem stýrðu þjóðarskútunni áratugina í undanfara þess að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingar - græns framboðs tók við völdum í upphafi árs 2009. Þessir höfðu aflað sér reynslu innan úr stjórnsýslunni og einhverjir væntanlega stöðu innan sinna stjórnmálaflokka með verkefnum á þeirra vegum.

Nokkrir störfuðu í slíku návígi við fyrri ráðherra að það má kannski líkja samvinnunni að einhverju leyti við samband meistara og lærlings ekki síst þegar það er tekið með inn í dæmið að leið viðkomandi lá inn á þing í framhaldinu. Hér er einkum átt við Ragnheiði Elínu Árnadóttur, núverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem var aðstoðarmaður Geirs H. Haarde í níu ár áður en hún settist inn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn árið 2007, og Illuga Gunnarsson, núverandi mennta- og menningarmálaráðherra, sem var aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar í fimm ár áður en hann var kosinn inn á þing fyrir sama flokk.

Það er heldur ekki útilokað að telja Árna Pál Árnason, Rögnu Árnadóttur og Oddnýju G. Harðardóttur til þessa hóps. Árni Páll var ráðgjafi Jóns Baldvins Hannibalssonar í Evrópumálum á þeim tíma sem sá síðarnefndi barðist fyrir aðild Íslands að EES-samningnum (sjá hér) eða frá árinu 1992 til 1994 og embættismaður á hans vegum í Utanríkisráðuneytinu það sem eftir lifði kjörtímabilsins sem Jón Baldvin var utanríkisráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Alþýðuflokks (sjá hér) eða fram til 1995.

Ragna Árnadóttir átti sjö ára feril í ábyrgðarstöðum innan ráðuneyta Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks og síðar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar þegar Jóhanna Sigurðardóttir skipaði hana dóms- og kirkjumálaráðherra í þeirri ríkisstjórn sem tók við völdum 1. febrúar 2009. Ragna hafði lengst unnið með Birni Bjarnasyni sem var dóms- og kirkjumálaráðherra í sex ár. Oddný G. Harðardóttir var deildarstjóri í Menntamálaráðuneytinu undir stjórn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Þar sem starfstímabil hennar í þeirri stöðu er ekki nema eitt ár er það væntanlega hæpnast að telja hana með í þeim hópi sem hafa notið leiðsagnar í verklagi og viðhorfum hjá viðkomandi ráðherra.

Það verður hins vegar að teljast líklegt að starfsreynsla af því tagi, sem hér hefur verið talin, sé þeim sem hafa verið tiltekin hér að framan dýrmætur reynslubrunnur. Hitt er ekki síður líklegt að hún hafi reynst þeim mikilvæg í að komast til þeirrar aðstöðu að vera skipuð í ráðherraembætti. Vissulega má gera ráð fyrir að með störfum sínum á vegum fyrri ríkisstjórna hafi umrædd fengið mikilsverða innsýn inn í verkefni og starfsaðferðir auk þess að kynnast og jafnvel tengjast þeim sem láta mest til sín taka innan viðkomandi málefnasviðs.
H.L. Mencken
Miðað við þá stjórnmálahefð sem er útlit fyrir að hafi fest rætur í íslenskri pólitík má gera ráð fyrir að mikilvægasta veganestið sé það að fyrir þau sambönd sem urðu til á þessum starfsvettvangi hafi orðið til einhvers konar forgangur þegar kemur að möguleikanum til metorða á pólitískum vettvangi. Hér er heldur ekki útilokað að ætla að árangur þess sem mætti kalla viðhorfamótun hafi haft eitthvað að segja. Þegar rætt er um að komast til metorða innan pólitíkunnar er bæði vísað til valdastöðu innan ráðuneyta og innan þess stjórnmálaflokks sem viðkomandi starfar fyrir.

Í næstu færslu verður farið yfir stöðu núverandi og fyrrverandi ráðherra innan þeirra stjórnmálaflokka sem þeir starfa fyrir. Þar verða hlutverk viðkomandi innan síns stjórnmálaflokks bæði í nútíð og fortíð dregin saman. Í framhaldinu verður þingreynsla sama hóps sett fram í sérstakri færslu og þá kemur loks að lokum með niðurstöðum og almennum vangaveltum bundnar þeirri samantekt sem þetta blogg hefur verið undirlagt af frá því í ágústmánuði á síðasta ári. 

Aðrar færslur í þessum sama flokki:
Ráðherrasamanburður: Aldur við skipun
Ráðherrasamanburður: Menntun
Ráðherrasamanburður: Starfsreynsla
Ráðherrasamanburður: Sveitarstjórnarreynsla

Heimildir um skipun ráðuneyta:
Ráðuneyti 1917-2013

Ferilskrá ráðherra núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnar:
Menntunar- og hæfniskröfur til ráðherraembætta


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband