Bloggfærslur mánaðarins, október 2012

Græðgisstýrð kaupstefna

Þessi lesning varð fyrir mér í Spámanninum eftir Kahlil Gibran. Hún fjallar um kaup og sölu:

   Jörðin gefur ykkur ávöxt sinn og ykkur mun ekkert skorta ef þið kunnið að taka á móti gjöfum hennar.
   Með því að deila rétt gjöfum jarðarinnar fáið þið auð og allsnægtir.
   En ef þið deilið ekki af kærleika og réttsýni verða sumir ágjarnir og aðrir svangir.

   Þegar þið sem erfiðið á sjónum, á akrinum og í víngarðinum, mætið vefaranum, leirkerasmiðnum og kryddsalanum á markaðstorginu biðjið þá anda jarðarinnar að stjórna voginni svo að framlög ykkar séu rétt metin.
   Og leyfið ekki okraranum, sem vill kaupa erfiði ykkar fyrir orð sín, að taka þátt í viðskiptunum.
   Við slíka menn skuluð þið segja:
   „Plægið með okkur jörðina eða farið með bræðrum okkar út á miðin og leggið netin því að landið og sjórinn geyma nægtir gulls handa okkur öllum.“

Gullkista jarðar 
   Og komi til torgsins söngvarar, listamenn og skáld þá kauptu einnig þerra gjafir því að einnig þeir safna ávöxtum og reykelsi og þó að varningur þeirra sé gerður úr draumum er hann fæða og klæði sálarinnar.
   Og gættu þess áður en þú ferð af torginu að enginn hverfi heim tómhentur því að andi jarðarinnar hvílist ekki fyrr en þörfum hins minnsta bróður er fullnægt.

Indíánar orðuðu kjarna þessara orða Spámannsins þannig:

Indíánaspeki

Mér sýnist full ástæða til að rifja þessa visku upp nú þegar sitjandi ríkisstjórn og áhangendur hennar hafa opinberað hversu langt þessir eru tilbúnir til að ganga í þjónustu sinni við fjármagnseigendur...


mbl.is Íslendingar vinna mest Norðurlanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mismunandi málefnaáherslur

Síðastliðinn fimmtudag, þ. 18. október, birti Ómar Geirsson pistilinn: Fár til að fífla fólk á blogginu sínu. Ég skildi eftir athugasemd við þessa færslu hans sem er grunnurinn að því sem mér þykir ástæða til að koma á framfæri hér. Ástæðan er sú að ég get ekki annað en tekið undir það sem hann segir þar um „andófið“. Mér þykir það miður og þykist þess líka fullviss að einhverjum kunni að renna það, sem Ómar segir þar, þannig til rifja að honum finnist hann óþarflega grimmur í garð þess.

Sjálf lifði ég og hræðist í reykvískri grasrót í rúmlega eitt og hálft ár áður en ég gekk til liðs við SAMSTÖÐU flokk lýðræðis og velferðar sem er þó vissulega líka sprottin af þeirri grasrót sem kom fram hér strax í kjölfar hrunsins. Af þessum ástæðum fannst mér það sanngjarnt að bregðast við bloggfærslu Ómars og staðfesta það fyrir honum að austanmaðurinn greindi þann viðsnúning sem hefur orðið í kringum meginstraum andófsins“ rétt.

Ég kann ekki skýringuna á því hvers vegna hlutirnir hafa farið eins og Ómar lýsir þeim þó ég hafi vissulega velt þessu lengi fyrir mér en það var strax í Tunnubyltingunni sem ég þóttist sjá merki þess í hvað stefndi. Tímamótin þar sem klofningur grasrótarinnar verður að veruleika er e.t.v. runninn upp en það skal þó tekið fram að hann hefur kannski verið þarna frá upphafi. Það er a.m.k. ljóst að þegar stór hluti þeirrar grasrótar, sem varð til haustið 2008 undir „leikstjórn“ Harðar Torfasonar, hefur gert stjórnarskrá sjálfskipaðrar samfylkingarelítu að aðalatriðinu þá er eitthvað mikið að!

Það er líka ljóst að þegar þessi sami hópur gerir allt til að gera þau sem setja leiðréttingu lífskjaranna í gegnum nauðsynlegar efnahagsaðgerðir á oddinn að óvinum sínum þá liggja leiðir ekki lengur saman. Því miður er líka útlit fyrir að þetta stjórnarskrárblinda „andóf“ hafi gert þá, sem mæla fyrir skynsamlegum lausnum bundnar sjálfstæðum þjóðargjaldmiðli, að sínum höfuðóvinum.

Samsteypumótið

Það er nákvæmlega í þessu sem ein meginskýringin liggur fyrir því að stjórnmálaöflin, sem sumum finnst að ættu að vera eitt, eru tvö. Þeir sem vilja sjá og skilja eru væntanlega búnir að átta sig á því að skýringin liggur ekki í persónulegum ágreiningi, eins og sumir hafa kosið að halda fram, heldur gerólíkum málefnaáherslum og hugmyndafræði.

Á meðan Dögun hefur gert stjórnarskrárdrög stjórnlagaráðsins að slíku meginatriði að einhverjir þar hafa reynt að halda því fram að ný stjórnarskrá hafi verið krafa búsáhaldabyltingarinnar þá liggur megináherslan hjá SAMSTÖÐU á lífskjörin og fjármálastefnuna.

Þeir sem sjá og skilja vita að Ómar er að benda á að þingmennirnir sem eru í Dögun svo og aðrir Dögunarfélagar hafa sett allan sinn kraft í það að verja stjórnarskrána sem Samfylkingin sagði strax í upphafi árs 2009 að þyrfti að aðlaga að því að Ísland kæmist inn í ESB. Skoðun SAMSTÖÐU er hins vegar sú að hagsmunum Íslands sé best borgið utan ESB.

Landsfundur SAMSTÖÐU sem var haldinn dagana 6. til 7. október sendi frá sér ályktun hvað þetta varðar en frá honum fóru líka fimm ályktanir þar sem stefna SAMSTÖÐU í lífskjara- og efnahagsmálum er dregin fram á skýran og afdráttarlausan hátt. Hér er yfirlit yfir heiti þeirra með krækjum í greinarnar á heimasíðu SAMSTÖÐU þar sem þær standa:

Einhverjir kunna að sakna þess að engin ályktun var gefin út á vegum landsfundar SAMSTÖÐU varðandi stjórnarskrármálið. Ástæðu þess, að slíkt var ekki gert, má sennilega rekja til þess að þeim samstöðufélögum sem sóttu fundinn fannst önnur mál meira aðkallandi og þess vegna ekki viturlegt að kalla yfir sig fyrirsjáanlegar skærur þeirra sem hafa gert stjórnarskrármálið að oddamáli sínu. Hins vegar má benda á að Lilja Mósesdóttir, sem stofnaði og starfar með SAMSTÖÐU, flutti afar kjarnyrta og afdráttarlausa ræðu í umræðum um stjórnarskrána sem fram fóru á Alþingi sama dag og Ómar Geirsson birti pistilinn Fár til að fífla fólk. Niðurlag ræðu Lilju er hér:

Niðurstaða mín er sú að stjórnarskrártillögurnar verði að leyfa þjóðaratkvæðagreiðslu í öllum málum. Icesave-málinu er ólokið og fleiri sambærileg mál munu koma upp. Samkvæmt tillögum stjórnlagaráðs mun forsetinn geta vísað öllum málum í þjóðaratkvæði. Afar ólíklegt er að forsetinn vísi máli í þjóðaratkvæðagreiðslu sem ný stjórnarskrá bannar að greidd verði þjóðaratkvæði um.

Ég mun því hafna stjórnarskrártillögum sem takmarka möguleika kjósenda til að krefjast þjóðaratkvæða-greiðslu. Við lifum á tímum harðnandi átaka um hvernig eigi að verja skattpeningum kjósenda. (sjá hér (leturbreytingar eru mínar))

Því má svo við þetta bæta að það var niðurstaða þeirra sem nú mynda stjórn SAMSTÖÐU að skærur um málefni eins og stjórnarskrármálið væru líklegri til að draga athyglina frá oddamálum SAMSTÖÐU sem eru eins og áður sagði lífskjör heimilanna í landinu sem er grundvöllur þess að skapa framtíðinni þá reisn að hún geti sett saman stjórnarskrá sem hefur hagsmuni almennings; þ.e. íslensku þjóðarinnar, að leiðarljósi.

Málið snýst sem sagt ekki um það að vera með eða á móti nýrri stjórnarskrá heldur forgangsröðunina. Þjóð sem býr við slíkt siðferði að lífsafkoman er sett í öndvegi er nefnilega mun líklegri til að skapa þá samstöðu meðal landsmanna að þeir komi sér saman um grundvallarsáttmála samfélagsins sem byggir á „siðferðilegum forsendum réttlætis, mannúðar og heiðarleika“ í þeim tilgangi að viðhalda grunngildum jafnaðar, samvinnu og varanleika íslensks samfélags.


Ofbeldissamband yfirvalda við almenning

Það varð mörgum reiðarslag að lesa fréttir af nýjustu tilnefningu Nóbelsverðlaundanefnd-arinnar til friðarverðlaunanna þetta árið. Tilnefningin var réttlæt með upprifjun á þeim texta sem settur var saman við stofnun Evrópusambandsins án þess að það væri vikið einu orði að þeim ófriði sem niðurskurðarstefna þess hefur valdið um gjörvalla Evrópu þó einkum í suðurhluta álfunnar.

Evrópusambandið á í ofbeldissambandi við þjóðir þeirra ríkja sem eru í sömu aðstæðum og Íslendingar

Það er í rauninni ekki hægt að segja annað en að þessi tilnefning til friðarverðlauna Nóbels sé partur af því ofbeldi sem Evrópusambandið og þeir sem því eru bundnir standa á bak við. Sjálf upplifði ég ofbeldið af lestri fréttarinnar í gegnum augnabliks lömun. Ég var slegin af þögn furðulostinna geðshræringa um leið og það smaug í gegnum hug minn að bilunin er sennilega miklu alvarlegri en við sem spyrnum á móti höfum sannfærst um nú þegar.

Blóðugur og ofbeldisfullur friður

Með því að Nóbelsverðlaunanefndin tilnefnir Evrópusambandið til friðarverðlaunanna er það nefnilega ljóst að valdhafarnir eru haldnir svo alvarlegri blindu að þeir eru hættulegri mannfólkinu, lífinu og heiminum en flestir hafa hingað til gert sér grein fyrir! Sjálfhverfa þeirra er svo fullkomin að verk þeirra munu eyða núverandi ásýnd jarðlífsins fyrr en síðar. Þessar fréttir hafa komið mér til þeirrar niðurstöðu að það er ekki spurning um það hvort heldur hvenær...

Friðarverðlaun Nóbels hafa misst gildi sitt

Eina huggunin er sú að þegar valdakerfið sem við er að etja opinberar sig á þennan máta þá er líklegt að milljónir bregðist við á sama hátt þegar þeir átta sig á því hvurs lags klikkun er við að eiga, rísi upp á afturlappirnar með hinum og segi: „Hingað og ekki lengra! Ég hef ekkert með samband við ofbeldisseggi eins og Evrópusambandið og áhaggendur þess að gera þannig að verið þið úti!“

Það er enginn óhultur

Það er auðvitað óskandi að sá fámenni en háværi hópur Íslendinga sem enn reynir að halda því fram að hagsmunum lands og þjóðar sé best borgið innan ESB hafi sjálfum brugðið nógu mikið við þessar fréttir að þeir áreiti þjóð sína ekki frekar með blindu auga og hálfum sannleik varðandi bandalag sem er að leggja ásýnd og menningu landanna, sem standa okkur næst í efnahagslegu tilliti, í rúst.


mbl.is Fjölmenn mótmæli gegn stjórnvöldum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband