Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Það sígur á seinni hluta þess verkefnis sem lagt var af stað með á þessu bloggi síðastliðið haust. Hér verður sá sem sat í Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu í síðustu ríkisstjórn borinn saman við þann sem situr þar nú. Áður hafa forsætisráðherrarnir verið bornir saman og líka: fjármála- og efnahagsráðherrarnir, heilbrigðisráðherrarnir, mennta- og menningamálaráðherrarnir, iðnaðar- og viðskiptaráðherrarnir, félags- og húsnæðisráðherrarnir og loks sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherrarnir.

Þessir hafa verið bornir saman út frá þeirri ferilskrá sem er að finna um hvern og einn þeirra inni á alþingisvefnum. Tilgangurinn er að freista þess að draga það fram hvað hefur ráðið við skipun ráðherra sem eru æðstráðandi í þeim málaflokki sem þeir eru settir yfir. Í einhverjum tilfellum eins og í tilfelli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafa lagabreytingar síðustu ára fært viðkomandi alræði í þeim málaflokki sem þeir sitja yfir. Af þessum ástæðum skyldi maður ætla að þeir sem eru skipaðir hafi áður sýnt einhverja framúrskarandi þekkingu eða hæfni sem viðkemur málaflokknum sem þeim er úthlutað slíkt vald yfir að þeirra er ekki bara að setja stefnuna heldur líka að sjá um framkvæmd og eftirlit.

Umhverfispólitík

Eins og flestir gera sér væntanlega grein fyrir þá er það hvorki framúrskarandi þekking né hæfni í þeim málaflokkum, sem heyra undir ráðuneytin, sem hafa ráðið mestu varðandi það hverjir hafa verið skipaðir yfir ráðuneytin í núverandi eða síðustu ríkisstjórn. Samanburður á ferilskrám fyrrverandi og núverandi ráðherra er ætlað að draga það betur fram hvað það er sem mestu máli skiptir við skipunina en til að undirstrika það enn frekar hvaðan hefðin að slíkri skipan er upprunnin hefur verið horft aftur til upphafs ráðherraskipunar á Íslandi og stiklað á helstu atriðum embættissögu hvers ráðuneytis ásamt því að draga fram nokkrar stjórnsýslulegar athafnir í þeirra nafni.

Í tilviki Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins var þó gengið lengra í þessu efni en hafði verið gert áður og verður gert hér í framhaldinu. Það varð ofan á að gera umfjöllunina um málaflokka ráðuneytisins töluvert ýtarlegri í ljósi þess að þar er um undirstöðuatvinnugreinar samfélagsins að ræða. Það er nefnilega hæpið að íslensk þjóð hefði orðið til og þrifist í landinu ef ekki væri fyrir landbúnaðinn og ólíklegt að samfélagið hefði byggst upp til þess sem það er nú ef ekki væri fyrir sjávarútveginn. Hér verður ekki gengið lengra í að rekja aðdraganda eða tilgang þessa verkefnis. Það verður að bíða samantektarinnar í framhaldi þeirra færslna sem munu fylgja í kjölfar þessarar en það eru samanburður á innanríkisráðherrunum og utanríkisráðherrunum.

Ungt ráðuneyti

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið er yngsta ráðuneytið. Fyrsti umhverfisráðherrann var skipaður í þriðja ráðuneyti Steingríms Hermannssonar eða árið 1989 (sjá hér). Ráðuneytið er því ekki nema 25 ára gamalt. Reyndar má benda á að landbúnaðar-ráðherrar áranna 1947 til 1969 voru almennt skipaðir yfir málaflokkinn orkumál líka. Á þessu er ein undantekning en þá er það sjávarútvegsráðherrann sem er yfir þessum málaflokki (sjá hér). 

Miðað við lýsingu sem er að finna á vef Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á helstu verkefnum þess er þó ekki að sjá að orkumál hafi verið á sviði ráðuneytisins í upphafi:

Helstu verkefni hins nýja ráðuneytis voru náttúru- og umhverfisvernd, friðunar- og uppgræðsluaðgerðir, villt dýr og dýravernd, mengunarvarnir, úrgangsmál, skipulags- og byggingarmál, landnýtingaráætlanir og landmælingar, umhverfisrannsóknir, veðurathuganir og –spár sem og aðrar athuganir á lofthjúpi jarðar, fræðslu- og upplýsingastarfsemi á sviði umhverfismála, samræming aðgerða og alþjóðasamskipti á sviði umhverfismála.  (sjá hér)

Frá árinu 2003 hafa hins vegar orðið nokkrar breytingar á verksviði Umhverfis-ráðuneytisins. Þá var Umhverfisstofnun sett á fót og tók hún yfir verkefni annarra stofnana sem voru lagðar niður á sama tíma. Það sem ætti að vekja sérstaka athygli þar er að frá þeim tíma hefur stjórn vatnamála verið á sviði Umhverfisráðuneytisins (sjá hér). Árið eftir, eða árið 2004, var „mat á umhverfisáhrifum“ fært undir ráðuneytið sem hlýtur að vekja furðu þegar samskipti umhverfisráðherra og Skipulagsstofnunar frá árinu 2001 eru höfð í huga. Nánar verður fjallað um þau síðar í þessari færslu.

Enn fleiri stofnanir og verkefni voru sett undir ráðuneytið árið 2008. Síðustu breytingar sem voru gerðar á verkefnum ráðuneytisins voru svo gerðar í tíð síðustu ríkisstjórnar eða 1. september 2012. Þá fluttust rannsóknir á auðlindum og ráðgjöf um nýtingu þeirra til ráðuneytisins sem var í því sambandi falið að setja viðmið um sjálfbæra nýtingu allra auðlinda. Gerð áætlunar um vernd og nýtingu orkusvæða (rammaáætlun) fluttist sömuleiðis til umhverfis- og auðlindaráðuneytis auk skipulagsmála hafs og strandsvæða.“ (sjá hér)

Þegar horft er til umræðu síðustu ára er það líka ljóst að það hefur gjarnan verið umhverfis- og auðlindaráðherra sem hefur þurft að svara fyrir hugmyndir um orkunýtingu. Þó svör hans séu gjarnan sett í umgjörð umhverfisverndar og friðunaraðgerða þá dylst væntanlega engum að raunveruleikinn snýst um virkjunarkosti og orkusölu. Þeir ráðherrar sem voru skipaðir yfir orkumálin á árunum 1947 til 1969 höfðu ekki sérstak ráðuneyti utan um orkumálin né jafnumfangsmikil mál á sinni könnu og eignarhald á drykkjarvatninu eða forgangsröðun virkjunarkosta. Hér verður samt byrjað á þeim ráðherra sem var settur yfir orkumálin árið 1947.

Bjarni ÁsgeirssonEins og kemur fram hér þá var Bjarni Ásgeirsson sá fyrsti sem var skipaður sérstakur landbúnaðarráðherra. Ásamt því að sitja yfir Landbúnaðarráðuneytinu var hann líka skipaður yfir orkumálum. Þetta var í fimmtándu ríkisstjórninni sem var mynduð hér á landi en það var Stefán Jóh. Stefánsson sem var forsætisráðherra hennar (sjá hér). Þessi ríkisstjórn sat á árunum 1947 til 1949 eða í tvö ár.

Bjarni var með búfræðipróf frá Hvanneyri en því lauk hann árið 1913; 22ja ára að aldri. Hann var bóndi frá árinu 1915 til 1951 eða í 36 ár. Lengst af á Reykjum í Mosfellssveit. Meðal þess sem kemur fram í ferilskrá hans er að hann lét reisa fyrstu ylræktarhús á Íslandi árið 1923 og var Í stjórn Búnaðarfélags Íslands frá 1927 til 1951. Hann var formaður þess frá árinu 1939. 

Næstu tvo áratugina varð það að nánast ófrávíkjanlegri hefð að sá sem var skipaður landbúnaðarráðherra fór yfir orkumálunum líka. Ingólfur Jónsson, sem var landbúnaðar- og samgönguráðherra í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar sem sat á árunum 1963 til 1970, er síðasti ráðherrann sem er sagður yfir þessum málaflokki. Hér segir að: „hann fór einnig með orkumál, fram til ársloka 1969.“

Júlíus SólnesRétt rúmum tuttugu árum síðar var, Júlíus Sólnes, skipaður fyrsti umhverfisráðherrann í þriðja ráðuneyti Steingríms Hermannssonar sem sat á árunum 1989 til 1991 (sjá hér). Júlíus hafði setið þrjú ár inni á þingi fyrir Borgaraflokkinn þegar hann var skipaður. Hann var byggingaverkfræðingur auk þess sem hann var með ýmis konar viðbótarnám í burðarþols- og jarðskjálfta-fræðum.

Áður en hann settist inn á þing átti hann aðallega feril sem háskólakennari við Tækniháskólann í Kaupmannahöfn og Háskóla Ísland en hann var skipaður prófessor við verkfræðideild Háskólans árið 1972. Júlíus átti líka fortíð í pólitíkinni áður en hann var kosinn inn á þing fyrir Borgaraflokkinn þar sem hann var bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi á árunum 1978 til 1986. Hann var formaður Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í þrjú ár eða frá 1983 til 1986.

Júlíus lýsir því sjálfur hvernig það bar til að Umhverfisráðuneyti var sett á fót í grein sem hann skrifaði á Pressuna sl. vor. Þar segir hann að við myndun fjórflokkastjórnar: Framsóknar, Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Borgaraflokks, í september 1989 hafi verið nauðsynlegt að fjölga ráðuneytum (sjá hér). Árið eftir voru samþykkt lög um nýja ráðuneytið og hann skipaður í embætti ráðherra þess (sjá hér).

Siv FriðleifsdóttirÞekktasti umhverfisráðherrann er vafalaust Siv Friðleifsdóttir en hún er eini þingmaðurinn sem hefur setið í þessu embætti í meira en fjögur ár; það var frá árinu 1999 til 2004. Þetta var í þriðja og fjórða ráðuneyti Davíðs Oddssonar. Þegar horft er til menntunar Sivjar þá er ekkert sem skýrir skipun hennar en hún er með BS-próf í sjúkraþjálfun frá Háskóla Íslands og hafði starfað sem slíkur í níu ár áður en hún var kosinn inn á þing 33ja ára. Fjórum árum síðar var hún orðin umhverfisráðherra.

Frá útskrift úr sjúkraþjálfaranáminu hafði Siv líka verið virk í ýmis konar félagsstarfi auk þess að taka virkan þátt í pólitík. Hún var í bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar frá árinu 1990 til 1998. Hún var kosin formaður Sambands ungra framsóknarmanna sama ár og gegndi því til ársins 1992 ásamt því að vera í framkvæmdastjórn Framsóknarflokksins. Árið 1995 var hún kosin í  miðstjórn flokksins. Á meðan hún sat á þingi hélt hún áfram að taka virkan þátt í innra starfi flokksins og var m.a. ritari stjórnar á árunum 2001 til 2006 og sat í framkvæmdastjórn og landsstjórn hans frá árinu 2001.

Það er hæpið að það hafi verið sjúkraþjálfaramenntunin eða starfsreynsla Sivjar, sem sjúkraþjálfari, sem horft var til við skipun hennar í umhverfisráðherraembættið. Hins vegar er ekki ólíklegt, þegar mið er tekið af hefðinni, að það hafi þótt eðlilegt að henni væri umbunað fyrir alúðina sem hún hafði lagt í að koma sér áfram innan flokksins. Þegar grannt er skoðað er nefnilega útlit fyrir að það sé oftar en ekki slík alúð sem ræður því hverjir hafa verið skipaðir til ráðherraembætta innan ríkisstjórna á Íslandi.

Virkjunin sem jók völd ráðuneytisins

Þeir sem hafa gegnt embætti umhverfisráðherra eru alls orðnir 12. Miðað við sögu annarra ráðuneyta vekur það athygli að helmingur þeirra sem hafa farið með embættið eru konur.

Kvennaráðuneyti

Þetta eru þær: Siv Friðleifsdóttir, Framsóknarflokki (1999-2004) , Sigríður A. Þórðardóttir, Sjálfstæðisflokki (2004-2006), Jónína Bjartmarz, Framsóknarflokki (2006-2007), Þórunn Sveinbjarnardóttir, Samfylkingu (2007-2009), Kolbrún Halldórsdóttir, Vinstri grænum (þrjá mánuði árið 2009) og loks Svandís Svavarsdóttir, Vinstri grænum (2009-2013). Þegar embættistími framantalinna kvenna er lagður saman er hann samtals 14 ár.

Karlarnir sem hafa verið skipaðir yfir Umhverfisráðuneytinu eru: Júlíus Sólnes, Borgaraflokki (1989-1991), Eiður Guðnason, Alþýðuflokki (1991-1993), Össur Skarphéðinsson, Alþýðuflokki (1993-1995), Guðmundur Bjarnason, Framsóknarflokki (1995-1999) en hann gegndi embætti landbúnaðarráðherra á sama tíma og Halldór Ásgrímsson, Framsóknarflokki, sem tók við af Guðmundi árið 1999 en gegndi embættinu aðeins í hálfan mánuð eða til loka kjörtímabilsins. Sjötti karlráðherrann í stöðu umhverfisráðherra er sá sem fer með embættið nú; framsóknarþingmaðurinn, Sigurður Ingi Jóhannsson.

Eins og áður hefur komið fram er Siv Friðleifsdóttir ábyggilega þekktasti umhverfisráðherrann. Ástæðan  er sú að hún var umhverfisráðherra þegar umhverfismat sem varaði við afleiðingum Kárahnjúkavirkjunar var að engu haft heldur ráðist í byggingu hennar árið 2003. Tíu árum síðar hefur það komið í ljós að þeir sem vöruðu við afleiðingunum á vatnasvæði Lagarfljóts voru síst of svartsýnir. Vatnsyfirborðið hefur hækkað sem veldur landbroti og leirburður jökulfljótanna sem var veitt í Lagarfljót er á góðri leið með að eyða lífríki Fljótsins (sjá hér).Ýmislegt bendir til að fleira eigi eftir að koma fram (sjá hér).

Siv Friðleifsdóttir og Lagarfljót

Eins og einhverjir muna eflaust eftir lagðist Skipulagsstofnun gegn framkvæmdinni „vegna umtalsverðra umhverfisáhrifa og ófullnægjandi upplýsinga um einstaka þætti framkvæmdarinnar og umhverfisáhrif hennar.“ (sjá hér) Þessi niðurstaða lá fyrir 1. ágúst. Landsvirkjun kærði úrskurðinn (sjá hér) og 20. desember, sama ár, felldi umhverfisráðherra mat Skipulagsstofnunar úr gildi (sjá hér hér og úrskurðinn hér).

Í ýtarlegri umfjöllun Morgunblaðsins um málið er margt sem vekur athygli en þar kemur fram að „í nokkrum þeirra kæra sem bárust umhverfisráðuneytinu vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar var því haldið fram að umhverfisráðherra væri vanhæfur til að fjalla um málið og ætti því að víkja sæti.“ (sjá hér) Siv segir að það hafi verið farið vandlega yfir þessa hlið málsins en niðurstaðan hins vegar orðið “sú að ráðherra væri ekki vanhæfur til að úrskurða í þessu máli“ (sjá hér).

Það kemur líka fram að Siv „lítur svo á að málsmeðferð Skipulagsstofnunar hafi ekki verið í samræmi við rannsóknarskyldu“ (sjá hér) stofnunarinnar sem mælt er fyrir um í stjórnsýslulögum. Fréttin segir ennfremur frá því að það kæruferli sem fór af stað í kjölfar málsmeðferðar Skipulagsstofnun hafi leitt þáverandi ríkisstjórn til þeirrar niðurstöðu að nauðsynlegt væri að endurskoða ársgömul lög um mat á umhverfisáhrifum. Um þessa niðurstöðu segir Siv:

"Það er alveg ljóst að það verða gerðar breytingar á þessum lögum. Það er óljóst hvaða breytingar það verða, en margt í gildandi lögum er umhugsunarvert, ekki síst hvað varðar okkar löggjöf í samanburði við það sem gerist í nágrannalöndum okkar og á Evrópska efnahagssvæðinu. Þar er það víðast leyfisveitandi sem fellir úrskurð, en ekki stofnun eins og hér á landi." (sjá hér)

Lögunum var breytt á þann veg að Skipulagsstofnun var ekki lengur „heimilt að leggjast gegn framkvæmdum heldur einungis að setja fram álit sem stjórnvöldum yrði í sjálfsvald sett að fara eftir“ (sjá hér). Ein meginrökin fyrir þeirri niðurstöðu að fella mat Skipulagsstofnunar úr gildi og breyta lögunum þannig að draga úr stjórnsýslulegu vægi hennar var að ekki mætti:

binda hendur leyfisveitanda, þ.e. Alþingis, með því að hafna framkvæmdinni vegna umhverfisrasks sem henni fylgir. Af þessu leiðir að Alþingi verður að vega og meta annars vegar umhverfisrask og óafturkræfar breytingar á náttúrufari og landslagi og hins vegar hvaða samfélagslegur ávinningur eða tap kann að fylgja framkvæmdum. (sjá hér

Kárahnjúkasvæðið á tíma virkjunarframkvæmdanna

Í ljósi þess sem síðar hefur komið í ljós, í sambandi við áhrif og afleiðingar þeirrar stórframkvæmdar sem Kárahnjúkavirkjun var, er merkilegt að skoða þá niðurstöðu sem Siv Friðleifsdóttir hefur komist að í desember 2001. Lokaorð fréttar Morgunblaðsins af blaðamannafundinum sem haldinn var til að kynna úrskurð Umhverfisráðuneytisins varðandi kæru Landsvirkjunar á mati Skipulagsstofnunar eru höfð eftir Siv. 

"Eftir að hafa farið í gegnum öll gögn og skoðað þau með sérfræðingum fannst mér í sjálfu sér ekki erfitt að taka þessa ákvörðun," [...] "Ég hef sterka sannfæringu fyrir því að með þessum skilyrðum höfum við takmarkað mjög umhverfisáhrifin af völdum þessarar framkvæmdar. Ég hef mjög sterka sannfæringu um að ég sé að gera hið rétta í málinu og ekki er unnt að mínu mati að ætlast til þess að umhverfisráðherra sé ævinlega á móti öllum framkvæmdum, hvaða nafni sem þær nefnast.

Fari svo að þessi framkvæmd verði að veruleika sýnist mér að hún geti haft gífurlega góð áhrif á íslenskt samfélag. Með henni verður okkur kleift að nýta okkar endurnýjanlegu orkuauðlindir og um leið hefur hún verulega þýðingu fyrir þjóðarbúið." (sjá hér (leturbreytingar eru höfundar))

Það má taka undir það með Siv Friðleifsdóttur að Kárahnjúkavirkjun hefur haft verulega þýðingu fyrir þjóðarbúið. Þetta kemur m.a. fram í ársreikningi Landsvirkjunar fyrir síðasta ár ern þar kemur fram að tap hennar var 4,4 milljarðar króna og er tapið rakið „til lækkunar á álverði á heimsmarkaði, sem kemur meðal annars fram í mikilli lækkun á bókfærðu verði innbyggðra afleiða, sem fyrirtækið getur haft takmörkuð áhrif á.“ (sjá hér) Raforkuverðið til álfyrirtækjanna er „trúnaðarmál“ (sjá hér) en álfyrirtækin eru sögð borga lægra raforkuverð en heimilin og töluvert lægra verð en þau þyrftu að greiða annars staðar (sjá hér).

Vatnalög og Rammaáætlun

Það sem vekur athygli í stuttri sögu Umhverfisráðuneytisins er að frá stofnun þess hafa mismunandi hugmyndir um eignarhald, virkjunarframkvæmdir og verndunarsjónarmið verið mjög í sviðsljósinu. Eftir síðasta kjörtímabil ætti það að vera ljóst að þó stjórnmálamennirnir kunni að takast á um einstaka virkjunarkosti þá telja þeir flestir eðlilegt að leigja aðgang að náttúruauðlindunum og verðleggja hvers konar nýtingu þeirra.

Í þeim anda hafa veiðigjöld verið sett á fiskinn og sala á vatnsveitum er þegar hafin með sölu vatnsveitunnar á Suðurnesjum til einkafyrirtækis (sjá hér). Í þessum anda var Rammaáætlun síðustu ríkisstjórnar sett saman þar sem svonefndir „virkjunarkostir“ hafa verið flokkaðir niður í þrjá mismunandi flokka sem eru eftirfarandi: orkunýtingar-, bið- og verndarflokkur (sjá hér) Í athugasemdum við þá þingsályktunartillögu Katrínar Júlíusdóttur, iðnaðarráðherra sem hefur verið kennd við rammaáætlun og dregur fram hugmyndir síðustu ríkisstjórnar um “virkjunarkosti“, segir:

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 48/2011 skal iðnaðarráðherra leggja í samráði og samvinnu við umhverfisráðherra eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Í verndar- og orkunýtingaráætlun skal í samræmi við markmið laga nr. 48/2011 lagt [svo] mat á verndar- og orkunýtingargildi landsvæða og efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg áhrif nýtingar, þ.m.t. verndunar. Í verndar- og orkunýtingaráætlun skal tekið mið af vatnaáætlun samkvæmt lögum um stjórn vatnamála. (sjá hér)

Náttúran verðmerkt

Af orðum Katrínar Júlíusdóttur hér að ofan ætti að vera ljóst að sá merkimiði, sem stjórnvöld settu á þá náttúru sem hefur verið skilgreind sem „virkjunarkostur“, verður endurmetinn á a.m.k. fjögurra ára fresti út frá forsendum „verndar- og orkunýtingargildi landsvæða og efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg áhrif nýtingar“ (sjá hér).

M.ö.o. þá eru Þeistareykir, Þjórsá, Markarfljót og Geysir allt virkjunarkostir. Þó þeim hafi verið raðað í þrjá mismunandi flokka af síðustu ríkisstjórn þá er möguleikinn til að breyta því fjórum árum síðar skilinn eftir opinn. Það er þess vegna engin trygging fyrir því að Geysir sem síðasta ríkisstjórn setti í verndarflokk færist ekki yfir í annan flokk innan virkjunarkostanna.

Í kjölfar Rammaáætlunar var lagt fram frumvarp til laga um náttúruvernd sem byggði á þeirri hugmyndafræði sem kom fram í Rammaáætluninni. Töluverð umræða varð um frumvarpið og töluðu sumir um „frumvarp boða og banna“ (sjá hér). Að endingu voru lögin þó samþykkt en gildistöku þeirra frestað til 1. apríl 2014 (sjá 94. grein hér).

Síðastliðið haust ákvað nýr umhverfis- og auðlindaráðherra að afturkalla lögin sem voru samþykkt rétt fyrir þinglok síðasta kjörtímabils (sjá hér). Nú hefur gildistöku heildarlaga um náttúrvernd hins vegar verið frestað til 1. júlí 2015 (sjá hér) en fram að þeim tíma „verða einstakir þættir laganna skoðaðir betur“ (sjá hér).

Ekki verður skilist við helstu ágreiningsmál á sviði umhverfis- og auðlindamála án þess að staldra við meðferð síðasta kjörtímabils á svonefndum Vatnalögum en þau komu fyrst til umræðu í júnímánuði árið 2010 (sjá hér). Frumvarpið sem lagt var fram kvað einvörðungu á um frestun gildistöku laga nr. 20/2006 til 1. október 2011 (sjá hér). Lögin hefðu annars tekið gildi 1. júlí 2010 (sjá hér). Í undanfara þessa var byggð töluverð spenna gagnvart því að með þessu væri verið að bregðast við því þeim möguleika að vatnið yrði einkavætt. Katrín Júlíusdóttir, þáverandi iðnaðarráðherra, sagði m.a:

„Ég gagnrýndi vatnalögin hart á þingi árið 2006. Þau kveða í raun á um altækan séreignarrétt á hvers kyns nýtingu vatns og leigu slíkra réttinda. Almannahagsmunir eru þar fyrir borð bornir,“ (sjá hér)

Þegar litið er til umræðunnar sem skapaðist um frumvarp Valgerðar Sverrisdóttur um vatnalögin árið 2006 er ljóst að töluverð var tekist á um málið. Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, er sannarlega ein þeirra sem gagnrýndu frumvarpið með ábendingum um það hvaða afleiðingar gætu fylgt einkavæðingu vatnsins:

Alþjóðaheilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna áætlaði árið 2002 að 1,7 milljarða manna skorti aðgang að hreinu vatni og um 2,3 milljarðar manna þjáðust af sjúkdómum, sem rekja mætti annars vegar til óhreins vatns og hins vegar hárrar verðlagningar á vatni. Seinna vandamálið hefur farið vaxandi, ekki síst vegna einkavæðingar á vatnsveitum í löndum á borð við Indland. Páll H. Hannesson, alþjóðafulltrúi BSRB, sagði í fyrirlestri sínum á ráðstefnunni um helgina að rannsóknir sýndu að reynslan af einkavæðingu vatns í þróunarlöndunum hefði yfirleitt verið slæm. Skort hefði á samkeppni og fyrirtæki hefðu ekki fjárfest eins mikið og búist hefði verið við í nývirkjum og viðhaldi auk þess sem verð á vatni hefði hækkað. (sjá hér)

Vatnið er dýrmætt

Einhverjum fannst það reyndar bregða nokkrum skugga á trúverðugleika þeirra staðhæfinga, síðustu ríkisstjórnar, að tilgangurinn með frestun laganna, í upphafi sumars 2010, væri sá að standa vörð um það að vatnið yrði einkavætt. Skugginn stafaði af því að litlu fyrr eignaðist erlent fjárfestingarfyrirtæki HS-Orku (sjá hér).

Í byrjun árs 2011 komu Vatnalögin aftur á dragskrá en þá lagði þáverandi ríkisstjórn „til að vatnalögin frá 1923 [héldu] gildi sínu en gerðar [yrðu] á þeim ákveðnar úrbætur.“ (sjá hér) Lögin voru samþykkt um miðjan september sama ár. Tilgangur þess að endurvekja Vatnalögin frá 1923 var sagður sá að „snúa við þróun í átt að einkarétti á auðlindunum.“ (sjá hér) Þessa túlkun hefur Páll H. Hannesson (sá sami og Katrín Júlíusdóttir vísaði til í þingræðu sinni árið 2006) kallað „svik Samfylkingarinnar í vatnamálinu“ (sjá hér).

Svikin liggja ekki síst í þessari inngangsmálsgrein laganna: „Lög þessi taka til alls rennandi eða kyrrstæðs vatns á yfirborði jarðar, í föstu eða fljótandi formi, að svo miklu leyti sem önnur lög gilda ekki þar um.“ (sjá hér) Vatnalögin nr. 15/1923 með breytingunum frá 2011 taka því aðeins til yfirborðsvatns en ekki grunnvatns. Þau lög sem taka til grunnvatnsins voru lögð fram af Finni Ingólfssyni, þá verandi iðnaðarráðherra, og samþykkt í apríl 1998 (sjá hér).

Við atkvæðagreiðsluna um endurvakningu Vatnalaganna frá 1923 vísaði Ögmundur Jónasson til þessara laga með þeim orðum að með þeim lögum sem atkvæðagreiðslan stóð um væri unnin mikilvægur “varnarsigur í þágu almannaréttar“. „En það eru önnur lög sem þarf að breyta, þau sem snúa að einkaeignarréttinum á vatni. [...] þ.e. lögin frá 1998 um rannsóknir á auðlindum í jörðu.“ (sjá hér)

Þegar horft er til 17. greinar laga nr. 15/1923 er hins vegar ljóst að þau útiloka alls ekki einkavæðingu á vatni. Þar segir í þriðju efnisgrein:

Ríki, sveitarfélögum og félögum í þeirra eigu [...] er heimilt að veita tímabundið afnotarétt að réttindum [...] til allt að 65 ára í senn. Handhafi tímabundins afnotaréttar skal eiga rétt á viðræðum um framlengingu réttarins þegar helmingur umsamins afnotatíma er liðinn. (sjá hér)

Margrét Tryggvadóttir lagði til svohljóðandi breytingartillögu við þessa grein: „Ríki, sveitarfélögum og félögum í þeirra eigu [...] er óheimilt að veita afnotarétt að réttindum [...] hvort sem um er að ræða tímabundinn eða ótímabundinn afnotarétt. (sjá hér) Tillagan var felld og var Ögmundur Jónasson einn þeirra sem greiddi atkvæði á móti henni (sjá hér). Hann gaf eftirfarandi skýringu á atkvæði sínu:

Andinn í breytingartillögu [...] Margrétar Tryggvadóttur er góður en við teljum engu að síður mörg hver í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hana ekki standast að öllu leyti og við munum ekki greiða þeirri tillögu atkvæði. Ég árétta líka þann skilning okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að 65 ára ráðstöfunarréttur á vatni í 9. gr. [svo] frumvarpsins er aðeins hugsaður til bráðabirgða. (sjá hér)

Breytingar á lögunum frá 1998, sem Ögmundur vísaði til, voru lagðar fram í nóvember 2011 og samþykktar í febrúar 2012 (sjá hér). Þær snúast hins vegar ekkert um það sem Ögmundur vísaði til. Á síðustu dögum þinghalds síðasta kjörtímabil lagði Steingrímur J. Sigfússon reyndar fram frumvarp til samræmingar laga um vatnsréttindi (sjá hér). Frumvarpið dagaði uppi en þar var heldur ekkert sem hefði komið í veg fyrir þá niðurstöðu síðasta kjörtímabils að skilja möguleikann til einkavæðingar á náttúruauðlindum bæði í sjó og á landi eftir galopinn (sjá t.d. hér).

Í  lok síðasta árs seldu Orkuveita Reykjavíkur og Reykjanesbær sinn hlut í HS veitum „til félagsins Úrsusar sem er í eigu Heiðars Márs [svo] Guðjónssonar fjárfestis. Minni sveitarfélög á Reykjanesi sem áttu hvort um sig 0,5 prósent eða minna í HS veitum hafa einnig ákveðið að selja sinn hlut til Úrsusar, sem þar með á um 33 prósent í fyrirtækinu.“ (sjá hér) Með því má því segja að einkavæðing vatnsins sé hafin í krafti þeirra laga sem allir þingfulltrúar fjórflokksins bera sína ábyrgð á sama hvað tilveru sérstaks Umhverfisráðuneytis líður.

Umhverfis- og auðlindaráðherra

Umhverfis- og auðlindaráðherrar

Svandís Svavarsdóttir var skipuð umhverfisráðherra síðustu ríkisstjórnar. 1. september 2012 var aukið við það embætti hennar og hét það upp frá því umhverfis- og auðlindaráðherra. Svandís er fædd árið 1964. Hún er dóttir Svavars Gestsson sem var þingmaður á árunum 1978 til 1999 eða í rétt rúm tuttugu ár. Á þingferli sínum var Svavar þrisvar sinnum ráðherra en samt ekki nema alls í sjö ár. Svandís kom ný inn á þing árið 2009 og var því skipuð ráðherra án þess að hún ætti nokkra þingreynslu að baki. Hún var 45 ára þegar hún var skipuð ráðherra.

Eins og kom fram í færslunni um Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið er Sigurður Ingi fæddur 1962. Hann kom nýr inn á þing sama ár og Svandís og átti því fjögurra ára þingreynslu að baki þegar hann var skipaður ráðherra í fyrsta skipi 51 árs að aldri. Þetta er hans fyrsta ráðherraembætti en auk þess gegnir hann embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Menntun og starfsreynsla:
Svandís var stúdent frá Menntaskólanum í Hamrahlíð vorið 1983 eða 19 ára. Sex árum síðar lauk hún BA-próf í almennum málvísindum og íslensku frá Háskóla Íslands. Árin 1989 til 1993 stundaði hún framhaldsnám í íslenskri málfræði við sama skóla. Á meðan hún var í því námi var hún stundakennari í almennum málvísindum og íslensku við Háskóla Íslands eða á árunum 1990 til 1994. Þess er hins vegar ekki getið að hún hafi útskrifast úr því námi.

Auk framangreinds starfaði hún hjá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra við rannsóknir á íslenska táknmálinu á árunum 1992 til 1994. Frá 1994 var hún kennslustjóri í táknmálsfræði og táknmálstúlkun við Háskóla Íslands um fjögurra ára skeið. Í framhaldinu starfaði hún við rannsóknir, ráðgjöf og stjórnun hjá sömu stofnun fram til ársins 2005. Eftir það sneri hún sér alfarið að pólitíkinni og var fulltrúi Vinstri grænna í borgarpólitíkinni frá 2006 fram til þess að hún var kosin inn á þing fyrir Vinstri græna 45 ára.

Sigurður Ingi  varð stúdent frá Menntaskólanum á Laugarvatni tvítugur að aldri. Hann tók embættispróf í dýralækningum frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn. Hann fékk almennt dýralæknaleyfi í Danmörku 27 ára gamall og ári eldri á Íslandi. Hann stundað landbúnaðarstörf samhliða námi frá 1970 til ársins 1984. Eftir stúdentsprófið, árið 1982, vann hann líka í eitt ár við afgreiðslu- og verkamannastörf hjá Mjólkursamsölunni í Reykjavík.

Eftir að hann sneri heim frá dýralæknanáminu var hann bóndi í Dalbæ í Hrunamannahreppi í sjö ár eða frá 1987 til 1994. Frá árinu 1990 var hann sjálfstætt starfandi dýralæknir í uppsveitum Árnessýslu í fimm ár. Á árunum 1992 til 1994 var hann auk þess héraðsdýralæknir í Hreppa- og Laugarásumdæmi og um skeið í Vestur-Barðastrandarumdæmi. Frá árinu 1996 var hann dýralæknir hjá Dýralæknaþjónustu Suðurlands ehf. í 13 ár. Sjö síðustu árin áður en hann var kosinn inn á þing var hann  líka oddviti Hrunamannahrepps. Hann var kosinn inn á þing fyrir Framsóknarflokkinn 47 ára.

Stjórnmálatengd störf og nefndarsetur:
Svandís fór að fullum krafti út í pólitíkina 39 ára. Hún byrjaði sem formaður Vinstri grænna í Reykjavík og gegndi þeirri stöðu í tvö ár. Þá varð hún framkvæmdastjóri flokksins í eitt ár. Árið 2006 var hún kjörin borgarfulltrúi í Reykjavík og gegndi þeirri stöðu í þrjú ár eða þar til hún var kjörin inn á þing.

Á meðan hún var í borgarpólitíkinni sat hún að meðaltali í sex stjórnum, ráðum og nefndum en alls voru embættin sem hún gegndi á þessum tíma tíu. Þar á meðal átti hún sæti í skipulagsráði Reykjavíkur frá 2006 til 2009 og stjórn Orkuveitu Reykjavíkur á árunum 2007 til 2009. Flestum embættunum á sviði borgarmála gegndi hún árið 2007 eða alls sjö.

Sigurður Ingi gerðist virkur í sínu nærumhverfi eftir að hann sneri heim úr námi og tók þátt í stjórnun íþróttafélaga og sóknarnefnda á árunum milli þrítugs og fertugs. Þegar hann var 32ja ára var hann kjörinn í sveitarstjórn Hrunamannahrepps þar sem hann sat í 16 ár. Hann var varaoddviti í sveitarstjórninni á árunum 1994 til 1998 en síðar oddviti frá 2002 til 2009.

Frá því að Sigurður Ingi tók að snúa sér að félagsstörfum hefur hann verið virkur í félagsskap dýralækna. Þannig var hann í stjórn Dýralæknafélags Íslands á árunum 1994 til 1996 og í framhaldinu formaður stjórnar Dýralæknaþjónustu Suðurlands ehf. eða frá 1996 til 2011. Á þeim tíma átti hann sæti í  ráðherraskipaðri nefnd sem vann að breytingum á dýralæknalögum eða á árunum 1996 til 1998.

Þegar Sigurður Ingi var fast að fertugu var hann kosinn ritari stjórnar Framsóknarfélags Árnessýslu. Næsta áratug á eftir hefur hann verið áberandi virkur í ýmsum stjórnum og nefndum sem fara með hin fjölbreyttustu mál átthaganna; Árnessýslu og Suðurlands. Þar á meðal má nefna að hann var í héraðsnefnd Árnesinga á árunum 2002 til 2006 og í stjórn Atvinnuþróunarsjóðs Suðurlands á sama tíma og einu ári betur.

Hann var líka í samgöngunefnd Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga á árunum 2003 til 2006. Á árunum 2006 til 2008 var hann Formaður skipulags- og bygginganefndar uppsveita Árnessýslu og líka formaður stjórnar skipulags- og byggingafulltrúaembættis uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps á árunum 2006 til 2009.

Frá því að Sigurður Ingi hóf afskipti af nærumhverfi sínu og öðrum samfélagsmálum hefur hann átt sæti í tuttugu stjórnum og nefndum utan þings. Flest slík sæti átti hann á árunum 2002 til 2009 eða átta til tíu að meðaltali. Hann var kosinn varaformaður Framsóknarflokksins árið 2013.

Þingstörf og nefndarsetur á vegum þess:
Svandís kom ný inn á þing í alþingiskosningunum vorið 2009 og hefur því setið inni á þingi í tæp 5 ár. Hún er alþingismaður Vinstri grænna í Reykjavík suður.

Svandís er núverandi formaður þingflokks Vinstri grænna eða síðan 2013. Hún hefur átt sæti í allsherjar- og menntamálanefnd frá síðasta ári.

Sigurður Ingi kom nýr inn á þing eftir alþingiskosningarnar vorið 2009 þá 47 ára. Hann hefur því setið inni á þingi í tæp 5 ár. Hann er þingmaður Suðurlands fyrir Framsóknarflokkinn.

Þegar litið er yfir setu Sigurðar Inga í þingnefndum þá átti hann sæti í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd á árunum 2009 til 2011 og atvinnuveganefnd á árunum 2011 til 2013.

Ráðherraembætti:
Svandís var skipuð umhverfisráðherra vorið 2009 þrátt fyrir að vera ný inni á þingi. Hún var 45 ára þegar hún tók við umhverfisráðherraembættinu. 1. september 2012 var aukið við embættisheiti hennar sem var upp frá því umhverfis- og auðlindaráðherra. Þess má geta að Svandís var ein þeirra fjögurra ráðherra sem sátu í sama embætti frá upphafi síðasta kjörtímabils til loka þess (sjá hér en nánar um feril hennar hér).

Sigurður Ingi hefur ekki verið ráðherra áður en hann var 51s árs þegar hann var skipaður sjávar­útvegs- og landbúnaðarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra vorið 2013 (sjá nánar hér).

Samantekt
Í fljótu bragði er ekki að sjá að Svandís og Sigurður Ingi eigi nokkuð sameiginlegt. Hann er fæddur og uppalin í sveit en Svandís er kaupstaðarbarn. Bæði eru reyndar með stúdentspróf en hann lærði dýralækningar úti í Kaupmannahöfn en hún íslensku og íslensk málvísindi hér heima. Sigurður Ingi á sinn meginstarfsferil í bústörfum og dýralækningum en Svandís í kennslu og ýmsum fræðistörfum á sviði táknmáls.

Sigurður Ingi stóð á þrítugu þegar hann sneri sér að pólitíkinni en Svandís var fast að fertugu: Sigurður Ingi hóf sinn feril með þátttöku í sveitarstjórnarmálum Hrunamannahrepps. Svandís sem formaður Vinstri grænna í Reykjavík. Þau eiga því bæði bakgrunn af stjórnsýslusviði sinnar heimabyggðar áður en þau taka sæti á þingi á sama tíma.

Virkjuð náttúra

Þegar litið er til þess hvað liggur því að baki að þau eru skipuð ráðherrar umhverfis- og auðlindamála þá eru væntanlega nokkur atriði sem koma til álita. Fyrst er það reynsla beggja af sveitar- og borgarstjórnarmálum. Sigurður Ingi hefur sinn feril á því sviði pólitíkunnar sem varaoddviti Hrunamannahrepps árið 1994 en Svandís sem formaður Vinstri grænna í Reykjavík árið 2003.

Sigurður Ingi var oddviti Hrunamannahrepps á árunum 2002 til 2009 og sat á sama tíma í nefndum sem fjölluðu um ýmis skipulagsmál Árnessýslu. Svandís er borgarfulltrúi á árunum 2006 til 2009 og auk þess í borgarráði tvö síðustu ári. Á sama tíma atti hún sæti í skipulagsráði Reykjavíkur og stjórn Orkuveitu sama sveitarfélags. Hvorugt hefur neina reynslu af umhverfis- og auðlindamálum í gegnum nefndarsetur á Alþingi.

Ef til vill hefur það skipt einhverju við skipun Svandísar að hún er dóttir fyrrum flokksbróður Steingríms J. Sigfússonar til margra ára en þeir voru samtíða á þingi á árunum 1983 til 1999. Svavar Gestsson var formaður Alþýðubandalagsins fyrsta kjörtímabilið sem Steingrímur J. sat inni á þingi. Sigurður á engan slíkan bakgrunn inni á þingi en hann er núverandi varaformaður Framsóknarflokksins.

Hvað sem öðru líður þá er ljóst að það er ekkert í ferilskrám Svandísar og Sigurðar Inga annað en bakgrunnur þeirra á vettvangi pólitíkunnar sem skýrir skipun þeirra í embætti. Hvorugt þeirra hefur menntun eða annað á ferilskránni sem gefur tilefni til að ætla að þau búi yfir staðgóðri þekkingu og/eða reynslu á sviði umhverfis- eða auðlindamála.

Í mælingum Gallups á ánægju með störf ráðherra á síðasta kjörtímabili voru í kringum 20% þátttakenda ánægðir með störf Svandísar sem umhverfisráðherra. Hún var því meðal þeirra ráðherra  í síðustu ríkisstjórn sem minnst ánægja ríktu með og í lok kjörtímabilsins var hún sá ráðherra sem reyndist minnst ánægja með (sjá hér). Það er rétt að taka það fram að slóðirnar inn á þessar mælingar Gallups hafa breyst frá því að farið var að stað með þetta verkefni svo og uppsetningin á niðurstöðunum. 

Ástæðurnar fyrir óánægju, þátttakenda í mælingum Gallups, með störf Svandísar eru sjálfsagt eitthvað einstaklingsbundnar en þó má minna á að Svandís var eini nýi þingmaðurinn í embætti ráðherra á síðasta þingi. Kjósendur þekktu því væntanlega minnst til hennar starfa auk þess sem það fór sjaldnast mikið fyrir henni í embætti umhverfis- og auðlindaráðherra. 

Þingvellir

Væntanlega eru þeir líka einhverjir sem hafa ekki meðtekið það enn að Sigurður Ingi gegnir embætti umhverfis- og auðlindaráðherra á þessu kjörtímabili. Þó er líklegra að hann hafi vakið athygli á þeirri stöðu sinni síðastliðið haust þegar hann afturkallaði náttúruverndarlögin (sjá hér) sem voru lögð fram og samþykkt á síðasta kjörtímabili. Að vonum olli þessi afgerandi ákvörðun hans töluverðum taugatitringi (sjá hér) en nú hefur náðst sátt um frestun á gildistöku laganna en fram að þeim tíma verða einstakar greinar laganna teknar til endurskoðunar með það að markmiði að bæta úr því sem helst hefur mætt andstöðu (sjá hér).

Það má því gera ráð fyrir að Sigurður Ingi eigi eftir að láta frekar að sér kveða í umhverfis- og auðlindamálum þjóðarinnar. Hverjar sem ákvarðanir og aðgerðir hans verða á því sviði þá er hæpið að allir verði ánægðir frekar en með störf Svandísar í sama embætti. Þeir sem gera kröfur um þekkingu og umtalsverðrar reynslu hafa reyndar gilda ástæðu þar sem hvorugt býr yfir slíku og eins og dæmin sanna þá hefur pólitíkin almennt verið látin ráða í slíkum tilvikum með misgæfulegum árangri.

Miðað við stefnu Vinstri grænna í umhverfismálum bjuggust margir við meiri tilþrifum af Svandísi Svavarsdóttur varðandi umhverfisvernd en þær vonir brugðust. Ekki er gott að segja hvort meiru réði að sú umhverfisstefna sem Vinstri grænir hafa haldið á lofti sé eingöngu kosningabrella til að ná til umhverfissinnaðra kjósenda eða það að Svandísi skorti burði til að fylgja stefnu flokksins eftir.

Miðað við þá umhverfispólitík sem Framsóknarflokkurinn hefur rekið hingað til þá má segja að það sé eðlilegt að margir beri kvíðboga fyrir því hvaða spor núverandi kjörtímabil skilji eftir með framsóknarþingmanninn Sigurð Inga Jóhannsson í embætti. Sennilegt má líka teljast að kjósendur séu uggandi yfir því hvernig umhverfismálunum muni farnast í höndum þess sem fer yfir jafnviðamiklu ráðuneyti og Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu á sama tíma.

Helstu heimildir
Umhverfisráðherratal

Ráherraskipan í síðara ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttir
Ráðherrar í núverandi ríkisstjórn

Ríkisstjórnir og ráðherrar frá 1904-1942
Ríkisstjórnartal frá stofnun lýðveldis

Ánægja með störf ráðherra: 6. október 2009 (fyrsta könnun)
Ánægja með störf ráðherra:
9. apríl 2010
Ánægja með störf ráðherra og stjórnarandstöðu: 23. mars 2012
Ánægja með störf ráðherra:
10. janúar 2013

Saga umhverfis- og auðlindaráðuneytisins

Skýrsla nefndar um endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands - Samhent stjórnsýsla (13.12.2010)
Ný lög um Stjórnarráð Íslands (19.09.2011)

Ræður þingmanna (á árunum 1907-2014)

Heimildir úr lögum
Vatnalög
nr. 20, 31. mars 2006
Lög um mat á umhverfisáhrifum
(núgildandi lög með seinni tíma breytingum) 
Lög um mat á umhverfisáhrifum
. nr. 106, maí 2000

Lög samþykkt á Alþingi (stjórnartíðindanúmer laga) 

Ferlar einstakra mála inni á Alþingi
Náttúruvernd
(brottfall laganna) nóvember 2013 og áfram
Náttúruvernd
(heildarlög) nóvember 2012 fram í mars 2013.
Áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða
mars fram í maí 2012
Rannsóknir og nýting auðlinda í jörðu og einkaréttur á auðlindum hafsbotnsins
nóvember 2011 fram í febrúar 2012.
Vatnalög
(brottfall laga frá 2006 o.fl) mars fram í september 2011
Verndar- og orkunýtingaráætlun
(heildarlög) október 2010 fram í maí 2011
Stjórn vatnamála
(heildarlög, EES-reglur) nóvember 2010 fram í apríl 2011
Vatnalög
(frestun gildistöku laganna) tveir dagar í júní 2010

Vatnalög
(heildarlög) nóvember 2005 fram í mars 2006.
Rannsóknir og nýting auðlinda í jörðu
desember 1997 fram í maí 1998

Heimildir úr fjölmiðlum
Íslendingar eru mestu umhverfissóðar í heimi
. Fréttatíminn. 21. febrúar 2014
Gildistöku náttúruverndarlaga frestað
. visir.is. 19. febrúar 2014.
Sátt í þingnefnd: Náttúruverndarlög falla ekki úr gildi
. eyjan.is. 19. febrúar 2014
Lífeyrissjóðir munu eiga í HS veitum
. ruv.is 10. febrúar 2014

Almannahagsmunum fórnað fyrir skammtíma bókhaldstrikk
. visir.is 29. desember 2013
Reiði og undrun vegna ákvörðunar Sigurðar Inga
. eyjan.is 25. september 2013
Lög um náttúruvernd afturkölluð
. mbl.is. 24. september 2013
Hugsanlegt að eitthvert álfyrirtækjanna hætti starfsemi á Íslandi
. eyjan.is 27. ágúst 2013
Páll H. Hannesson. Svik Samfylkingarinnar í vatnamálunum. Smugan 25. apríl 2013
Jóhann Páll Jóhannsson. Umhverfismat hundsað og Lagarfljót skemmt. dv.is 20. mars 2013.
Júlíus Sólnes: Umhverfisráðuneyti 1990-2013: In memoriam. pressan.is 31. maí 2013
Ráðherra felldi úrskurð Skipulagsstofnunar
. ruv.is 23. maí 2013
Andri Snær Magnason: Lagarfljótið er dautt - er Mývatn næst? 12. mars 2013
Lífríkið í Lagarfljóti sagt vera á vonarvöl
. visir.is 12. mars 2013

Einkaréttur á vatni
. ruv.is. 18. september 2011
Vatnalögin frá 1923 endurvakin
. mbl.is. 21. febrúar 2011
Vestfjarðarvegur ekki um Teigsskóg
. mbl.is 22. október 2010
Einar Þór Sigurðsson. Raforka til stóriðju: Ísland ódýrara en Afríka. dv.is 16. apríl 2010.
Slagurinn um vatnið hafinn
. dv.is 29. mars 2010

Vignir Lýðsson. Einkavæðing sparar Reykjanesbæ 10 milljarða. pressan.is. 18. ágúst 2009
Sprunga við Kárahnjúkastíflu
. visir.is. 29. ágúst 2008

Friðrik Sophusson. Rafmagnsverð til álfyrirtækja. Morgunblaðið 22. desember 2006
Hluti úrskurðar setts umhverfisráðherra felldur úr gildi
. mbl.is 27. júní 2006.
Áframhaldandi átök um vatnalögin
. visir.is. 13. mars 2006.

Hjörleifur Guttormsson: Hversu traustar eru undirstöður Kárahnjúkastíflu og Hálsalóns Morgunblaðið, 30. desember 2004.
Skilyrði eiga að tryggja umhverfisáhrif innan hóflegra marka
. Morgunblaðið. 21. desember 2001. Niðurstaða umhverfisráðherra. Morgunblaðið. 21. desember 2001.

Aðrar heimildir
Ársreikningur Landsvirkjunar 2013
. 21. febrúar 2014

Eðli jarðhita og sjálfbær nýting hans. 2010.
Fyrirkomulag varðandi leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu íslenska ríkisins. 2010.
Kárahnjúkavirkjun: Umsögn stjórnar Landverndar til Alþingis, mars 2002.
Kárahnjúkavirkjunar
. 20.12.2001
Ingimar Karl Helgason: Einkavæðing drykkjarvatnsins. 6. nóvember 2013
Landvernd: Sprungur og áhætta við Kárahnjúkavirkjun. 28. ágúst 2006.
Náttúruvaktin: - umhverfismat o.fl. fyrir orkufyrirtækin

Páll H. Hannesson. Nýtt Magma í pípunum eða samhengi hlutanna. 28. febrúar 2012
Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhitasvæði
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið: Úrskurður umhverfisráðherra vegna mats á umhverfisáhrifum
Úrskurður Skipulagsstofnunar um mat á skipulagsáhrifum

Ögmundur Jónasson. Vatnaslóðir. 15. júní 2010.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband