Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Enn einn borgarafundurinn á Akureyri

... og ekki af tilefnislausu. Málefnið brýnt eins og fram kemur í meðfylgjandi auglýsingu:
Borgarafundur á Akureyri 2.04.09Þær fréttir hafa reyndar borist að Birkir Jón Jónsson komi ekki á þennan fund heldur Höskuldur Þórhallsson en hann er í öðru sæti Framsóknarflokksins í kjördæminu.

Það skal líka tekið fram að Kristján Möller hafði samband og reiknar með að koma á fundinn.

(Ef letrið á þessari auglýsingu er of smátt þá dugir að klikka á myndina tvisvar sinnum eða uns hún kemst í lesvænni stærð)

Þetta var flottur fundur

A.m.k. það sem ég heyrði og sá af honum. Mér finnst fréttin sem er tengd þessari færslu reyndar ekki alveg vera í takt við það sem mér fannst vera merkilegast á þessum blaðamannafundi. En markmið hans var auðvitað að kynna frambjóðendurna. Mér sýnist fréttin gegna því markmiði bærilega.

Mér finnst hins vegar svolítið sérstakt að í féttinni er ekkert minnst á helstu stefnumál hreyfingarinnar heldur sagt að: „Ein helsta krafa Borgarahreyfingarinnar er að fá að stilla upp óröðuðum listum frambjóðenda í öllum kjördæmum landsins í þingkosningunum 25. apríl n.k.“ Til að taka af allan vafa þá er það forgangsmál Borgarahreyfingarinnar að: „Alvarleg skuldastaða heimilanna verði tafarlaust lagfærð með því að færa vísitölu verðtryggingar fram fyrir hrun hagkerfisins (til janúar 2008).“ (Sjá hér)

Ef þið hafið ekki þegar lesið færslu Friðriks Þórs Guðmundssonar við þessa sömu frétt ættuð þið endilega að gera það núna. Hann vekur nefnilega athygli á skemmtilega fjölbreyttum bakgrunni frambjóðenda hvað pólitíska fortíð þeirra varðar.


mbl.is Rithöfundar leiða í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefur þú kynnt þér stefnuskrá Borgarahreyfingarinnar?

Ég var á kynningarfundi Borgarahreyfingarinnar sem var haldinn hér á Akureyri í dag. Það var ákveðinn léttir að hlusta á frambjóðendur hennar sem ætla að fylgja eftir þeim kröfum sem hafa komið upp í mótmælunum og á borgarafundunum á liðnum vetri. Þeir bjóða sig fram á þing til að breyta því sem varð til þess að þjóðinni var silgt í kaf án nokkurrar viðvörunar síðastliðið haust.

Þeir hafa sett fram stefnuskrá sem er fullkomlega laus við auglýsingasmitaðar klisjur. Þar er aftur á móti vel sundurliðuð og útskýrð markmið sem ég hvet þig til að kynna þér hér. Ég get því miður ekki séð að þeir sem hafa komið að ríkisstjórnarstýrinu frá efnahagshruninu hafi sett almenning í landinu í fyrsta sæti í átælunum sínum. Þvert á móti er það fjármálakerfið. Sama kerfið og át upp sparnaðinn okkar og bætti taprekstri sínum ofan á lánin okkar.

Ég get ekki hugsað mér að þeir sem telja að fjármálstofnanirnar í landinu skipti meira máli en heimilin og atvinnufyrirtækin stýri landinu áfram. Ég treysti þeim hreinlega ekki fyrir hagsmunum mínum og barnanna minna. Þess vegna ætla ég að kjósa þá sem ég treysti best til að setja heildarhagsmuni þjóðarinnar á oddinn. Ég get nefnilega alls ekki séð að hagsmunir mínir eða annarra eins og mín felist í því að setja bankana sem settu okkur á hausinn í forgang.

Fyrsta atriðið í stefnuskrá Borgarahreyfingarinnar er: Gripið verði þegar í stað til neyðarráðstafana í þágu heimila og fyrirtækja. Fyrsti liðurinn í útfærslu þessa mikilvæga atriðis hljóðar þannig:

1. Alvarleg skuldastaða heimilanna verði tafarlaust lagfærð með því að færa vísitölu verðtryggingar fram fyrir hrun hagkerfisins (til janúar 2008). Höfuðstóll og afborganir húsnæðislána lækki til samræmis við það. Raunvextir á verðtryggðum lánum verði að hámarki 2–3% og afborgunum af húsnæðislánum megi fresta um tvö ár með lengingu lána. Skuldabyrði heimila vegna gengistryggðra íbúðalána verði lagfærð í samræmi við verðtryggð íbúðalán. Í framhaldinu verði gert samkomulag við eigendur verðtryggðra húsnæðislána um að breyta þeim í skuldabréf með föstum vöxtum og verðtryggingarákvæði í lánasamningum verði afnumin.

Aðrir þættir á stefnuskrá þeirra eru eftirtaldir (tek það fram að þessi atriði eru útfærð á síðu Borgarahreyfingarinnar. Slóðin þangað er xo.is):
  • Landsmenn semji sjálfir sína eigin stjórnarskrá

  • Trúverðug rannsókn á íslenska efnahagshruninu fari af stað undir stjórn óháðra erlendra sérfræðinga og fari fram fyrir opnum tjöldum. Frysta skal eignir grunaðra auðmanna STRAX meðan á rannsókn stendur

  • Lögfest verði fagleg, gegnsæ og réttlát stjórnsýsla

  • Lýðræðisumbætur STRAX

  • Borgarahreyfingin leggur sig niður og hættir störfum þegar þessum markmiðum hefur verið náð eða augljóst er að þeim verður ekki náð.


mbl.is Stjórnvöld leiðrétti erlend lán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er eiginlega í gangi!?

Það er kannski bara ég sem fyllist myrkri af því að fylgjast með forsíðu mbl.is í dag og í gær. Miðað við fréttirnar þar mætti ætla að það mikilvægasta sem er að gerast í samfélaginu í dag séu landsfundir þingflokkanna tveggja sem stýrðu laskaðri þjóðarskútunni út á hyldýpishaf og sökktu henni án nokkurrar sýnilegrar iðrunar

Mbl.is birtir útdrætti og tilvitnanir í ræður flokksgæðinga hvors flokks án nokkurar gagnrýni þrátt fyrir að hugsandi almenningur sjái ekkert annað í ræðum þeirra en yfirklór og kattarþvott. Það er kannski frétt fyrir suma að skipstjórarnir velti því upp núna að það hefði verið gáfulegra að hlusta á veðurfréttirnar og taka björgunarbátana með í þessa glannaför?Hinn dýrkaði foringi:-/

Mér finnst þessi fréttaflutningur ekki gera annað en grafa undan trausti mínu til þessara flokka en um leið þeim sem standa að slíkum fréttaflutningi. Það má þó velta því fyrir sér hvort það er óbein ætlun þeirra á mbl.is að færa þjóðinni fréttir af því að þessir flokkar snúast báðir um sjálfa sig?

Þeir hafa ekkert lært heldur fagna og klappa þegar Ingibjörg mætir í stól hjá Samfylgingunni og það þarf ekki annað en nefna nafn Davíðs á landsfundi Sjálfstæðismanna til að allt bresti í háværa fagnaðarbylgju. (Myndin hér til hliðar er fegnin að láni frá Jónasi Viðari Sveinssyni myndlistarmanni)

Þeir sem stýra mbl.is halda kannski að á slíkum trúarsamkomum sem þessum slái hjarta þjóðarinnar en það er öðru nær. Sú veruleikafirring sem kemur fram í ræðum langflestra sem þarna taka til máls sýnir okkur svart á hvítu að þessir flokkar eiga ekkert erindi inn á þing! Hagsmunum okkar og velferð er best borgið með því að þeir sitji inni í sínum einkakirkjum áfram. Þar geta þeir stytt sér stundir undir sjálfsblekkingarprédikunum leiðtoganna sem þeir tilbiðja.
Hámark sjálfsblekkingarinnarMig langar reyndar til að taka það fram að innan Samfylkingarinnar er fólk sem ég treysti enn þá til að vinna með öðru óspilltu og skynsömu hugsjónafólki til að vinna að hag þjóðarinnar. Hvað Sjálfstæðisflokkinn varðar hef ég aldrei treyst honum til að vinna að hagsmunum mínum eða þjóðarinnar í heild.

Svo vil ég líka vekja athygli á því að það er greinilegt hvorn landsfundinn þeir á mbl.is telja mikilvægari enda ljúka þeir hverri frétt af honum á eftirfarandi: „Hægt er að fylgjast með í beinni útsendingu hér á mbl.is“


mbl.is Skattmann er mættur aftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Himnasending!

Eva Joly er himnasending. Þessi frétt er líka kærkominn sólargeisli í því myrkri sem endalausar fréttir af landsfundum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar valda mér. Hvenær ætla fjölmiðlar eins og mbl.is að fara að snúa sér að einhverju öðru en segja lesendum sínum í smáatriðum frá því í hvaða sjálfsblekkingu forystumenn stærstu þingflokkanna lifa og fara að fjalla um afleiðingarnar af því sem þeir og vinir þeirra gerðu þjóðinni! 
SyndaselirÉg vona svo sannarlega að ráðning Evu Joly verði til þess að þeir náist allir!


mbl.is Joly sérstakur ráðgjafi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hálfan hringinn á einni helgi!

BorgarahreyfinginMig langar til að vekja athygli á því að nokkrir frambjóðendur af lista Borgarahreyfingarinnar eru að leggja upp í ferðalag til  að kynna hreyfinguna. Þeir verða á ferðinni alla helgina og vilja örugglega sjá framan í sem flesta á meðan á henni stendur

Ferðalagið byrjar í Borgarnesi á morgun en þeir munu líka koma við á Hvamstanga og Akureyri. Ferðin endar svo á Sauðárkróki núna á sunnudagskvöldið. Íbúar þessara staða og nágrennis þeirra fá þarna einstakt tækifæri til að kynnast stefnumálum hreyfingarinnar svo og frambjóðendunum.

Á sunnudaginn, 29. mars, verður hópurinn staddur hér á Akureyri þar sem formaður hreyfingarinnar, Herbert Sveinbjörnsson og fleiri, verða með opinn kynningarfund í Deiglunni, Kaupvangsstræti 23, á milli 14 og 16. (Sjá nánar hér)


mbl.is Tekjuháir færa sig um set
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarafundur: Staða innflytjenda á Íslandi í skugga kreppu

Borgarafundanefndin á Akureyri er enn að. En einn fundurinn á hennar vegum var haldinn sl. fimmtudag eða 19. mars. Fundurinn að þessu sinni var helgaður innflytjendum og þá sérstaklega því hver staða þeirra er í íslensku samfélagi nú á krepputímum.

Fundarstjóri þessa fundar var Björn Þorláksson. Framsögumenn voru þrír: Héðinn Björnsson, Íslendingur, Sigurður Kistinsson, dósent við Háskólann á Akureyri og Radek B. Dudziak, starfsmaður Alþjóðastofu. Sóley Björk Stefánsdóttir tók ræður þeirra upp og er búin að setja upptökur tveggja inn á Facebook. Það eru krækjur í þær undir nöfnun frummælenda.Borgarafundur á Akureyri 19.03.09Héðinn Björnsson, sem mér skilst að sé tónlistamaður en vildi einfaldlega láta titla sig Íslending á þessum fundi, reið á vaðið. Hann byrjaði ræðu sína á að benda á að öll þjóðin er í rauninni innflytjendur. Hann sagði að í raun ættu allir sem byggðu þetta land það sameiginlegt að vera stéttlaus þjóð í þeirri merkingu að við eigum öll sömu tækifæri.

Hann benti á að í ýmsum löndum þá væri staðreyndin sú að innflytjendahópar væru í vinnu sem væri minna metin eða væru á bótum. Að hans mati er vert að skoða hvernig þessu er háttað hér. Héðinn lagði ríka áherslu á að í raun væru það alls ekki innflytjendurnir sem væru vandamál hér á Íslandi heldur það hvernig við tökum á móti þeim. Hann sagði það brýnt að íslensk stjórnvöld mótuðu sér stefnu í innflytjendamálum án þess að hún blandaðist af rassisma.

Hann benti á að það ætti ekkert skylt við rassisma að gera kröfu til þess sem flyttist hingað til lands að hann legði fram sakavottorð og heilbrigðisvottorð ásamt svari við þeirri spurningu hvert markmið viðkomandi væri með að flutningnum hingað.

Næstur tók til máls Sigurður Kristinsson, dósent í heimspeki við Háskólann á Akureyri. Hann nálgaðist viðfangsefnið út frá heimspekilegu sjónarhorni eins og vænta mátti. Þar gerði hann mannlega hegðun, viðhorf og siðferðis- og réttlætiskennd mannsins að umræðuefni. Hann vísaði í sína eigin reynslu af því að búa í Bandaríkjunum þar sem hann sagði að skrifræðisþröskuldarnir væru svo sannarlega fyrir hendi í kefinu en hann fann þó sterkan stuðning meðal innfæddra. 

Hann minnti á að Íslendingar í útlöndum héldu gjarnan hópinn. Þar halda þeir í hefðir úr sínu heimalandi og mynda jafnvel félög til að halda utan um slíkar hefðir. Hann undirstrikaði að Íslendingar haga sér ekkert öðru vísi þar sem þeir eru innflytjendur hvað þetta varðar en aðrir slíkir hér á landi.

Hann taldi það brýnt að mæla viðhorf Íslendinga til innflytjenda. Í því sambandi benti hann á þau viðhorf sem yrði gjarnan vart við í fjölmiðlum en þó fyrst og fremst á ýmsum bloggsíðum þar sem rassismi grasserar. Hann taldi þó að Íslendingar væru almennt jákvæðir í garð innflytjenda en í ljósi sögunnar gætu mörg viðhorf, sem hafa ríkt hingað til í samfélaginu, svo sannarlega breyst í skugga núverandi kreppuástands. 

Hann ítrekaði að nú væri nauðsynlegt að við stæðum saman og berðumst fyrir því að samfélagið þróaðis á grundvelli manngildis, réttlætis og samhjálpar. Hann minnti á að aðskilnaðarstefna væri ógn við siðferðið ekki síður en auðmenn sem settu eigin hagsmuni ofar þjóðarhagsmunum. (Ég hvet alla til að lesa niðurlagið í ræðu Sigurðar sem var mjög flott. Ræðuna er að finna í krækju neðst í þessari færslu)

Síðasti framsögumaðurinn heitir Radek B. Dudziak. Hann flutti hingað til lands frá Póllandi og vinnur nú hjá Alþjóðastofu. Hann benti á að meiri hluti þeirra sem koma hingað til lands ganga inn í störf sem Íslendingar hafa ekki kært sig um fram að þessu. Margir innflytjendur sætta sig líka við lægri laun og lengri vinnudag. Þeir uppskera jafnvel niðurlægingu og það að það er litið niður á þá á grundvelli þessarar staðreyndar.

Hann sagði að margir sem hefðu verið komnir hingað væru farnir en það væru líka margir hér enn. Sumir eru hér vegna þess að þeir eru fastir. Þeir hafa keypt húsnæði og bíla sem þeir geta ekki selt og komast þar af leiðandi hvergi. Hann benti líka á að einhverjir myndu hafa það verr ef þeir sneru til baka. Hann tók líka fram að sumir Pólverjar muni eftir verri tímum en þeim sem ríkja hér nú. Þeim finnst ástandið hér því ekkert tiltakanlega slæmt.

Auk framsögumanna sátu eftirtaldir í pallborði: Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Brims, Soffía Gísladóttir, forstöðumaður Vinnumálastofnunar og Paul Nikolov, varaþingmaður Vinstri grænna.
Borgarafundur á Akureyri 19.03.09Nú var komið að þeim. Paul Nikolov byrjaði. Hann benti á að áhrif núverandi ástands horfði eins við bæði Íslendingum og innflytjendum. Hann undirstrikaði líka hversu mikilvægt það væri fyrir innflytjendur að læra tungumálið og að það þurfi að gera þeim það aðgengilegra. T.d. með því að bjóða upp á að læra það í vinnutímanum.

Þá fékk Soffía Gísladóttir, forstöðumaður Vinnumálastofnunar, orðið. Hún sagði það mjög lærdómsríkt að hafa búið í útlöndum og það væri eiginlega grundvallar- forsenda þess að geta tekið á móti útlendingum hér af virðingu. Hún benti líka á að það væri mikilvægt fyrir einangraða eyjarbúa að fá tækifæri til að kynnast öðrum þjóðum.

Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdarstjóri Brims, var síðastur pallborðsgesta til að leggja orð í belg áður en opnað var fyrir spurningar úr salnum. Hann sagði að 20% starfsfólks Brims væri af erlendu bergi brotið. Hann benti á að það væri mikilvægt að erlent vinnuafl hafi sömu laun og það innlenda. Annað byði þeirri hættu heim að fyrirtæki segðu fyrst upp því starfsfólki sem væri á hærri launum. Slíkt myndi af augljósum ástæðum ýta undir rassisma.

Hann brást við fyrirspurn utan úr sal um það hvort umsækjendum hefði fljölgað frá liðnu hausti með jákvæðu svari. Auk þess sagði hann að þeir fengju umsóknir frá hæfara vinnuafli en áður. Hins vegar kannaðist hann ekki við raddir um það að erlent vinnuafl ætti að víkja fyrir innlendum umsækjendum.

Soffía fékk fyrirspurn í sambandi við atvinnuleysistölur. Hún kannaðist ekki við að hlutfall atvinnulausra meðal innfytjenda væri hærra en meðal Íslendinga. Samkvæmt hennar tölum eru innflytjendur 8,2% meðal atvinnulausra.

Samkvæmt nýjustu tölum sem eru fengnar frá Smugunni er atvinnuleysi nú komið upp í 17.535!

Atvinnuleysi er nú mest á Suðurnesjum 13,5% en minnst á Vestfjörðum 1,8%. Atvinnuleysi eykst um 31% á höfuðborgarsvæðinu en um 20% á landsbyggðinni. Atvinnuleysi eykst um 28%  meðal karla og 25% meðal kvenna. Atvinnuleysið er 9,4% meðal karla og 6,6% meðal kvenna. (skv. frétt af Smugunni frá í gær)

Soffía sagði atvinnuleysi hér á Eyjafjarðarsvæðinu vera 8,8% eða það næsthæsta á landinu.
Borgarafundur á Akureyri 19.03.09Kona meðal áheyrenda sagðist vera að gera rannsókn á stöðu og líðan útlendingar í samfélaginu á yfirstandandi krepputímum. Það kom ekki fram á vegum hvers eða hverra þessi rannsókn fer fram en hún sagði að flestir viðmælendur hennar væru vanari verri kjörum en þeim sem ríkja hér nú. Hún sagði það áberandi í því sem kæmi fram hjá þeim að þeir telji sig vera hæfari til að aðlagast þeim krepputímum sem nú eru fram undan en innfæddir.

Radek brást við þessu með því að benda á að gamlir Pólverjar gætu haldið námskeið fyrir innfædda og leiðbeint þeim um það hverngig á að lifa af á þrengingartímum eins og þeim sem við stöndum frammi fyrir nú. Hann sagði að grundvallarregla þeirra væri sú að taka aldrei lán. Hann brást líka við athugasemd í sambandi við framboð á námskeiðum og íslenskufærni innflytjenda. Hann vildi meina að það væri nóg af námskeiðum í boði en sannleikurinn væri sá að innflytjendur væru ekki nógu duglegir að nýta sér þau.

Mér lék forvitni á að heyra hver afstaða innflytjenda væri til þess sem hefur átt sér stað í samfélaginu. Ég benti þar á að hér á Akureyri hefði þessi hópur lítið eða ekkert sést í mótmælum og á borgarafundum. Ég tók það fram að ég vissi að margir innfæddir væru hræddir við að taka afstöðu af ýmsum ástæðum og beindi þeirri spurningu til þeirra sem voru í pallborðinu hvort þeir könnuðust við það að innflyjendur óttuðust það að hafa skoðun og þá af hvaða ástæðu. Þessari spurningu var greinilega snúið svolítið við af flestum sem tjáðu sig um hana þar sem svarið sneri nær eingöngu að þátttöku í mótmælunum.

Radek tók það fram að hann hefði a.m.k. einu sinni tekið þátt í mótmælagöngu hér á Akureyri en hann sagði að flestir sem hann þekkti forðuðust þau af tveimur ólíkum ástæðum. Annars vegar vegna þess að þeir þora ekki en hins vegar af því að þeir líta ekki á vandann í samfélaginu sem sitt vandamál.

Paul sagði að það væri mjög inngróið í flesta innflytjendur að þeir ættu að haga sér vel. Þeir vilja ekki gera neinum neitt því það gæti komið þeim sjálfum í vanda. Hann benti á að það væru ekki aðeins innflytjendur sem hefðu ekki tekið þátt í mótmælunum í vetur á þeim forsendum að vandamálið í samfélaginu væri ekki þeirra. Fjöldi innfæddra hefði setið heima af sömu ástæðum. 

Sigurður taldi ástæðuna fyrir því að innflytjendur tækju síður afstöðu til málefna, eins og þeirra sem mótmælin snerust um, vera þá að þeir sem eru af erlendu bergi brotnir eru ekki búnir að samsama sig samfélaginu.

Sú meðal áheyrenda, sem er að vinna að könnuninni á stöðu og líðan útlendinga á krepputímunum sem nú ríkja í íslensku samfélagi, benti á að mótmælahefðir væru misjafnar á milli landa. Sums staðar eru mótmæli m.a.s. afar blóðug. Fólk er barið af lögreglu, handtekið og sett á sakaskrá fyrir þátttöku sína í mótmælum. Hún vildi meina að meginástæðan, fyrir því að innflytjendur hafi sniðgengið mótmælin, væri sú að þeir hafa óljósa hugmynd um hverju er verið að mótmæla og hafa áhyggjur af því hvaða afleiðingar það muni hafa fyrir þá og afkomendur þeirra að taka þátt.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Meira af ásökunum en minna af afsökunum

Mér sýnist nú meira fara fyrir ásökunum og yfirklóri en afsökunum í setningarræððu fyrrverandi forsætisráðherra. Mér finnst merkilegasta yfirklórið koma fram í því sem er haft eftir honum um það að vissulega hafi Sjálfstæðislflokknum „orðið á margs konar mistök við stjórn landsmála“. Mig skortir kannski tilfinnanlega eitthvað af umburðarlyndi þar sem ég er þeirrar skoðunar að þeir sem gera margs konar mistök á slíkum vettvangi eigi skilyrðislaust að draga sig í hlé.

Geir H. Haarde biðst afsökunar á mistökum sem hann segir að sjálfstæðisflokkurinn hafi gert í sambandi við einkavæðingu bankanna en það liggur greinilega á milli línanna í málflutningi hans að þeir bera ekki ábyrgðina einir. Það er líka alveg rétt. Geir dregur hina meðseku svo fram síðar í ræðu sinni þar sem hann segir: „Það  hefðu verið  mistök að fallast á kröfu framsóknarmanna um 90% húsnæðislán að loknum kosningunum 2003.“

Það er kannski til vitnis um það hvað ég er mikill tortryggnistrítill þegar Sjálfstæðisflokkurinn er annars vegar að ég sjái meira af ásökunum en afsökunum í máli Geirs. Það er hins vegar langt í frá að vera af ástæðulausu sem ég tortryggi hann og flokksbræður hans. Ástæður vantrúar minnar á öllu því sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir hefur aldrei komið jafnberlega í ljós eins og nú um þessar mundir.

Því miður verð ég að taka það fram að aðrir flokkar sem eiga fulltrúa inni á þingi hafa alls ekki staðið sig þannig að ég sjái ástæðu til að ljúka á þá mörgum lofsyrðum. Núverandi þingmenn virðast þvert á móti því miður flestir vera orðnir alltof hallir undir eiginhagsmunastefnu Sjálfstæðisflokksins sem er í aðalatriðum þessi: Ég og mínir og allt sem okkur viðkemur númer eitt, tvö og þrjú en þjóðarheill og hagsmunir almennings síðast.

Það er a.m.k. undarlegt að horfa upp á forgangsröðun stjórnvalda við að reisa við efnahag landsins. Þar virðast heimilin í landinu eiga að mæta algerum afgangi nema það sé rétt sem kemur fram í eftirfarandi fréttatilkynningu frá Hagsmunasamtökum heimilanna þar sem þeir skora á stjórnvöld og fjármálastofnanir að taka stöðu með heimilunum:

Það er þyngra en tárum tekur að stjórnvöld skuli ekki hafa í hyggju, þrátt fyrir ítrekaðar kröfur samtakanna, að eiga frumkvæði að leiðréttingu ósanngjarnra og hugsanlega ólöglegra hækkana höfuðstóla lána, í formi hvoru tveggja gengis- og verðtryggingar. Þvert á móti stefnir í að umræddar hækkanir eigi að mynda grunn fyrir stórfellda eignaupptöku fjármálastofnana á heimilum landsmanna. Stofnana sem flestar eru nú í ríkiseigu eða í gjörgæslu ríkisins með einum eða öðrum hætti.

Stofnanir þessar eiga sjálfar að fá í meðgjöf himinháar afskriftir á innlendum lánasöfnum en ætla ekki að gefa spönn eftir sjálfar. Hagsmunasamtökum heimilanna finnst eðlilegt og sanngjarnt að heimilin í landinu njóti þessarar meðgjafar á sama hátt og aðrir skuldarar bankanna. Stjórn Hagsmunasamtakanna óttast að innheimta eigi lán heimilanna að fullu til að fjármagna skuldir fyrirtækja og fjármálastofnana sem ekki fást greiddar. Það virðist vera ætlun stjórnvalda að endurfjármagna þannig bankakerfið með fasteignum heimilanna.

Hagsmunasamtök heimilanna telja nauðsynlegt að dómstólar taki afstöðu til lögmæti skilmála verðtryggðra og gengistryggðra húsnæðislána í ljósi þess hve forsendur þessara lána hafa breyst gríðarlega. Vonast samtökin til þess að fá nokkra einstaklinga til að taka þátt í slíkri lögsókn. Samtökin telja slíka málsókn mikilvæga til láta reyna á neytendasjónarmið, þar sem annar aðili í lánasamningi hafi sjaldnast nokkra sérþekkingu á lánamálum, hugsanlega breytingu höfuðstóls lánanna til langs eða skamms tíma eða geti haft á nokkurn hátt áhrif á slíka þróun, meðan hinn aðilinn hefur öll tök á að hafa áhrif á forsendur lánasamningsins sér í hag.

Undirbúningur að svona málsókn er þegar hafinn. Er þetta m.a. gert í ljósi þess, að ríkisvaldið hefur ákveðið skilja lántakendur eftir með skellinn af hækkun höfuðstóls. (Sjá alla fréttatilkynninguna r)

Ef einhver alvara býr að baki afsökunarbeiðini Geirs H. Haarde þá treysti ég því að hann styðji ofantaldar kröfur talsmanna Hagsmunasamtaka heimilanna.


mbl.is Mistök gerð við einkavæðingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég finn til

Eg sendi styrk, von og trúÞað tekur á að lesa svona fréttir. Manni verður orðavant. En guð hvað ég skil sársauka og reiði starfsfólksins. Þvílíkt tillitsleysi að láta það heyra fyrst af slíkum örlögum í gegnum fjölmiðla! Fyrrverandi starfsfólk SPRON á alla mína samúð núna.

Ég finn djúpt til með þeim ört vaxandi hópi sem hefur misst vinnuna frá síðastliðnu hausti. Ég finn til með þeim sem hafa og/eða stefna í gjaldþrot. Ég finn til með þeim sem þurfa að líða hvers kyns hörmungar sem má rekja beinlínis til efnahags- hrunsins. 

Ég minni á orð Evu Joly í þættinum Silfri Egils að það er áríðandi fyrir þetta fólk að réttlætinu verði fullnægt. Það verður að hraða rannsókn á fjárreiðum þeirra sem liggja undir grun um að bera ábyrgð á þeirri djúpu efnahagslægð sem við stöndum frammi fyrir.


mbl.is Tilfinningaríkur fundur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankarnir greinilega mikilvægastir:-/

Ég rakst á myndina hér að neðan hjá bloggaranum Þórði Birni Sigurðssyni. Mér finnst hún svo grátbrosleg að ég gat ekki staðist þá freistingu að stela henni og birta hana líka. Mér finnst hún nefnilega lýsandi fyrir forgangsröðunina í undangengnu björgunarstarfi sem er reyndar hvergi nærri lokið en enn beinast brunaslöngurnar að þessari sömu hít.
 
Ég reikna með að ég sé ekki ein um það að setja spurningarmerki við það hvers Bankarnir hafa forgangvegna það er svona mikið atriði að bjarga bönkunum að annað er látið sitja á hakanum. Ég spyr mig reyndar líka af hverju ríkið, sem hefur verið að taka bankana yfir með því að bjarga þeim frá gjald- þroti, hefur ekki betra taumhald á þeim heldur en raun ber vitni. Þar á ég einkum við bankaleyndina en ekki síður það að bankarnir eru að leysa til sín húsnæði þrátt fyrir tilmæli ríkisstjórnarinnar um að hlífa þeim sem komast í greiðsluþrot vegna húsnæðislána. 
 
bankahítinÞað er reyndar stórskrýtið að ríkið, sem er orðið æðstráðandi í bönkunum, hafi ekki stjórn á sínum eigin stofnunumPinch Í þessu ljósi er það kannski engin furða að ég hafi áhyggjur af þessri forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Ég hef nefnilega töluverðar áhyggjur af því hvað verði  um peningana sem er verið að taka frá öðrum brýnum verkefnum og dæla inn í bankakerfið. Hver segir að þeir eigi ekki eftir að hverfa eins og þeir peningar sem eiga að heita horfnir þaðan sporlaust...
mbl.is SPRON til Kaupþings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband