Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið

Þetta er fimmta færslan þar sem menntun og starfsreynsla ráðherranna í núverandi og fyrrverandi ríkisstjórn eru borin saman í þeim tilgangi að draga það fram til hvers formenn stjórnmálaflokkanna horfa við skipun framkvæmdavaldsins. Markmiðið er eins og áður hefur komið fram að vekja til umhugsunar um það hvort núverandi aðferð við skipun æðstu manna ráðuneytanna sé líkleg til að skila kjósendum heillavænlegri niðurstöðu. Hér er einkum átt við meðferð sameignarsjóðs allrar þjóðarinnar og stefnu varðandi þá samfélagsþjónustu sem liggur skattskyldunni sem myndar hann til grundvallar.

Nú þegar hafa ráðherrar fjögurra ráðuneyta verið bornir saman en með þessari færslu er samanburðurinn hálfnaður. Að þessu sinni snýst samanburðurinn um  ráðherra iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins. Á síðasta kjörtímabili var ráðherraembættunum fækkað úr tólf niður í átta. Þetta var gert í nokkrum skrefum þar sem einstaklingum var vísað út og nýir jafnvel teknir inn. Það er e.t.v. meðal annars af þessum ástæðum sem heitin á ráðherraembættunum voru nokkuð á hreyfingu. 

Marie Guire

Í upphafi kjörtímabilsins var Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra en Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra. Í lokin var Steingrímur J. Sigfússon komin með bæði ráðuneytin auk landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytisins. 1. september 2012 var heiti embættis hans breytt í atvinnu- og nýsköpunarráðherra. Þetta er nýtt embættisheiti en hins vegar er atvinnumálaráðherra eitt af þremur elstu ráðherraembættunum. Hin tvö eru forsætisráðherra og fjármálaráðherra (sjá hér).

Magnús GuðmundssonÍ sjöunda skipti sem ríkisstjórn var skipuð á Íslandi var það í höndum Ásgeirs Ásgeirssonar (síðar forseta) sem var forsætisráðherra á árunum 1932 til 1934. Hann skipaði Magnús Guðmundsson til að fara með iðnaðarmál. Magnús var dómsmálaráðherra en fór auk þess með sjávarútvegs-, iðnaðar-, samgöngu- og félagsmál. Lesendur eru hvattir til að kynna sér athyglisverða ferilskrá hans á vef Alþingis hér. Meðal mjög margra forvitnilegra þátta sem þar er getið vekur það sérstaka athygli að meðal verkefna sem Magnús hefur verið skipaður til eftir að hann var kosinn inn á þing er staða skrifstofustjóra í fjármálaráðuneytinu.

Emil JónssonFyrstur til að gegna stöðu iðnaðarráðherra var Emil Jónsson. Það var í fjórtándu ríkisstjórninni sem sat á árunum 1944 til 1947. Ólafur Thors var forsætisráðherra hennar en Emil samgöngu- og iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Það er rétt að taka það fram enn og aftur að heimildum Alþingis, Stjórnarráðs og í þessu tilviki ráðuneytisins ber reyndar ekki saman hvað embættisskyldur ráðherra fortíðarinnar varðar en í þessari samantekt hef ég miðað við það sem segir hér. Það má svo geta þess að  Emil stofnaði iðnskóla í Hafnarfirði 1926 og var skólastjóri hans til 1944 (sjá hér).

Eysteinn JónssonEysteinn Jónsson var fyrsti viðskiptaráðherrann. Hann gegndi því embætti á árunum 1939 til 1941. Þetta var í tíundu ríkisstjórn Íslands en Hermann Jónasson var forsætisráðherra hennar. Eysteinn fór eingöngu með viðskiptaráðuneytið en áratugina á eftir var algengast að ráðherrarnir sem fóru með viðskipta- og iðnaðarmálin færu með eitt til þrjú önnur stjórnarmálefni samhliða. Í því sambandi má t.d. benda á að Gylfi Þ. GíslasonGylfi Þ. Gíslason sem var viðskiptaráðherra frá 1958 til 1971, eða alls í 13 ár, fór með menntamálin samhliða því.

Sjálf þykist ég muna svo langt aftur að einhverjum hafi fundist að menntamálin hafi setið óþarflega mikið á hakanum fyrir árvökulum áhugi Gylfa á hvers kyns nýlundu umheimsins í viðskiptaháttum sem hann vildi taka upp hérlendis. Það má þó vera að um bernskan misskilning sé að ræða á þeim skoðunum sem látnar voru uppi á þeim tíma um áherslur hans í embætti.

Árið 1978 tók Ólafur Jóhannesson upp á þeirri nýbreytni að skipta iðnaðar- og viðskiptamálunum á tvo ráðherra. Þá  var Svavar Gestsson skipaður viðskiptaráðherra og Hjörleifur Guttormsson iðnaðarráðherra (sjá hér). Áratug síðar leiddi Sjálfstæðisflokkurinn ríkisstjórnarsamstarfið og setti málflokkana tvo undir einn ráðherra að fyrirmynd Ólafs Thors (sjá hér). Þessi skipting hélst næstu 19 árin eða þar til hrunstjórnin tók við vorið 2007. Þá fór Össur Skarphéðinsson með iðnaðarmálin eingöngu á meðan Björgvin G. Sigurðsson fór með viðskiptaráðuneytið eins og frægt er orðið. Þekktustu viðskipta- og iðnaðarráðherrarnir eru þó án efa þrjú þeirra sem stýrðu ráðuneyti þessara málaflokka á því tímabili sem af sumum hefur verið kennt við góðæri.

Fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherrar

Hér er átt við þau Jón Sigurðsson (síðar seðlabankastjóra), Finn Ingólfsson og Valgerði Sverrisdóttur. Jón var kjörinn inn á þing árið 1987 og var skipaður viðskipta- og iðnaðarráðherra árið eftir eða 1988. Hann gegndi því í fimm ár áður en hann fékk lausn undan því á miðju ári 1993. Finnur Ingólfsson kom inn á þing sem þingmaður Framsóknarflokksins árið 1991. Árið 1995 var hann skipaður til að fara með málefni viðskipta- og iðnaðarráðuneytisins. Hann gegndi embættinu í fjögur ár eða þar til hann fékk sig lausan undan því í lok árs 1999. Valgerður Sverrisdóttir kom ný inn á þing á sama tíma og Jón Sigurðsson. Hún var skipuð viðskipta- og iðnaðarráðherra árið 2003 og fór með embættið í þrjú ár.

Það sem vekur væntanlega meiri athygli en annað í ferilskrá Jóns Sigurðssonar er að hann var „í framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 1980—1983“ og að hann var „varafulltrúi Íslands í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 1974—1987“ eða þar til hann var kosinn inn á þing fyrir Alþýðuflokkinn. Það vekur svo væntanlega líka athygli að í framhaldi þess að hann fékk lausn frá viðskipta- og iðnaðarráðherraembættinu var hann fyrst „bankastjóri Seðlabanka Íslands og formaður bankastjórnar 1993—1994.“ og í framhaldinu: „Aðalbankastjóri Norræna fjárfestingarbankans 1994—2005.“ (sjá hér) Kannski er ástæða til að vekja athygli á því að Jón Sigurðsson var skipaður dóms- og kirkjumála- og viðskiptaráðherra sama ár og hann var kjörinn inn á þing en Friðrik Sophusson, síðar forstjóri Landsvirkjunar (sjá hér), fór þá með iðnaðarmálin (sjá hér)

Finnur Ingólfsson  hefur verið mikið í viðskiptafréttum eftir hrun (sjá t.d. hér) en það væri synd að segja að einhverjum ljóma stafaði af þeim fréttum. Þvert á móti er útlit fyrir að full ástæða væri til að skoða viðskiptasögu hans gaumgæfilegar m.a. með tilliti til þess hvort og þá hvernig staða hans sem stjórnmálamanns hefur haft áhrif á uppgang hans í viðskiptalífinu. Þetta er ekki aðeins mikilvægt til að hreinsa hann sjálfan ef sakargiftir almannarómsins eru rangar heldur ekki síður til að bæta ímynd annarra þingmanna og endurreisa traust almennings á siðferði íslenskrar pólitíkur.

Valgerðar Sverrisdóttur verður að öllum líkindum helst minnst fyrir það að hún var viðskipta- og iðnaðarráðherra þegar fyrsta sprengingin vegna Kárahnjúkavirkjunar var sprengd og samningurinn við Alcoa um byggingu álvers á Reyðarfirði var undirritaður (sjá hér). Dauði Lagarfljóts mun væntanlega vernda minninguna um hennar störf og ríkisstjórnarinnar sem veitti henni umboðið næstu áratugina ef ekki árhundruðin.

Það er óskandi að það þurfi ekki fleiri slys af líku tagi til að kjósendur ranki við sér, og vonandi stjórnsýslan líka, gagnvart því að próf úr framhaldsskóla auk tungumálanámskeiða (sjá hér) eru ekki líklegur grunnur til að valda ráðherraembætti jafnvel þó viljinn standi allur til afburða árangurs og góðra verka. Hér er rétt að árétta að það eru formenn flokkanna sem sitja í ríkisstjórn sem skipa í embætti hvers ráðuneytis. Allt bendir til þess að skipunin miðist fyrst og fremst við pólitíska stöðu óháð menntun og/eða starfsreynslu sem tengist þeim málaflokkum sem viðkomandi er ætlað að fara fyrir sem æðsti umboðsaðili kjósenda.

John Adams

Eins og upprifjunin hér að ofan gefur væntanlega tilefni til að gera sér í hugarlund þá hefur mörgum kjósandanum þótt ærin ástæða til að gagnrýna atvinnumálastefnu stjórnvalda sem þykir alltof upptekin af stóriðjuframkvæmdum og skyndigróða. Þó nokkrir vöruðu ítrekað við afleiðingum þessa fyrir hrun en hagsveifluvagninn var í slíkri uppsveiflu að þeim sem bar að hlusta sinntu ekki þeirri skyldu að velta ofsahraðanum fyrir sér eða því hvað tæki við þegar toppnum yrði náð. Það var rétt eins og stjórnvöld ímynduðu sér að þeir væru staddir um borð í rússíbana með öryggisgrindum sem tryggir það að allir sem eru um borð komast upp úr hyldýpi niðursveiflunar aftur með sama vagninum.

Rússíbani nýfrjálshyggjunnar

Undir lok síðasta kjörtímabils gerðist þáverandi atvinnu- og nýsköpunarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, sporgöngumaður þeirra sem sátu undir forsætisráðherrum Sjálfstæðisflokksins síðustu tvo áratugina fyrir hrun, með því að leggja fram frumvarp til laga um fjárfestingarsamning og ívilnanir vegna kísilvers á Bakka við PCC SE sem verður þar með eigandi kísilversins:

Ef áætlanir standast gæti framleiðslan hafist 2016 og gert er ráð fyrir að hún verði aukin upp í 66 þúsund tonn síðar. Félagið fær sérstakar skattaívilnanir vegna nýfjárfestinga umfram aðrar heimildir í lögum. Til dæmis hvað varðar tekjuskatt, tryggingagjald, stimpilgjöld, fasteignagjöld og fleira. Samtals um 1,5 milljarða á tíu ára tímabili. Ríkið greiðir einnig nærri 800 milljónir vegna framkvæmda við lóðina og þjálfun nýs starfsfólks.

Þá samþykkti Alþingi einnig frumvarp um þátttöku ríkisins í gerð vegtengingar milli Húsavíkurhafnar og Bakka fyrir 1.800 milljónir króna. Ríkissjóður veitir síðan víkjandi lán vegna hafnarframkvæmda fyrir  819 milljónir króna. (sjá hér)

Þó einhverjir létu vonbrigði sín í ljós yfir þessari nýfrjálshyggju fyrrverandi atvinnu- og nýsköpunarráðherra þá fór ótrúlega lítið fyrir umræðu um innihald þessara laga. Líklega eru þeir þó allnokkrir sem sjá líkindi þess sem hér er borið á borð og þess sem haldið var fram við samningsundirrituna varðandi álversbygginguna á Reyðarfirði.

Í þessu samhengi þykir rétt að geta þess að Atli Gíslason hélt reyndar mjög eftirminnilega ræðu í tilefni þess að kísilversfrumvarp Steingríms J. Sigfússonar var til atkvæðagreiðslu á Alþingi. Tveimur myndböndum með ræðu hans var deilt á You Tube þar sem hún hefur fengið eitthvert áhorf. Myndbandið hér að neðan og annað sem Lára Hanna Einarsdóttir klippti og deildi hafa alls fengið yfir 4.000 heimsóknir:

Frumvarp fyrrverandi atvinnu- og nýsköpunarráðherra um fjárfjárfestingarsamning og ívilnanir vegna kísilvers á Bakka við PCC SE var síðasta máið sem var tekið fyrir á lokadegi þinghalds fyrrverandi ríkisstjórnar. Ragnheiður Elín studdi það að frumvarpið yrði að lögum eins og aðrir Sjálfstæðismenn sem voru viðstaddir að Pétri H. Blöndal og varaþingmanninum Sigríði Á. Andersen undanskildum (sjá hér)

Á júníþingi nýkjörinnar ríkisstjórnar lét Ragnheiður Elín hafa það eftir sér að hún geti hugsað sér að fara eftir því fordæmi sem Steingrímur gaf „með ívilnandi samningum gagnvart framkvæmdum við kísilver á Bakka“ (sjá hér). Þetta kom fram í svari hennar við fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar um það „hvort ekki væri kominn tími til að horfast í augu við að ómögulegt væri að ná samningum um raforkusölu til álvers í Helguvík.“

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Iðnaðar- og viðskiptaráðherrar

Steingrímur, sem er fæddur árið 1955, á sér afar sérstæða sögu sem ráðherra á síðasta kjörtímabili. Fyrsta ráðherraembættið sem hann tók í ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna var staða fjármálaráðherra sem hann gegndi í rúmlega tvö og hálft ár eða til 31. desember 2011. Þá upphófst einn sérstæðasti ráðherrakapall sem sést hefur hérlendis. Á árlegum ríkisráðsfundi á Bessastöðum þennan gamlársdag fyrir tæpum tveimur árum var Árna Páli Árnasyni, þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, og Jóni Bjarnasyni, þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, vikið úr ráðherrastóli en Steingrímur tók við stöðum beggja.

Hálfu ári síðar bætti Steingrímur við sig afleysingu fyrir Katrínu Júlíusdóttur, þáverandi iðnaðarráðherra, á meðan hún var í fæðingarorlofi. 1. október 2012 tók hann svo iðnaðarráðuneytið formlega yfir. Við þetta tækifæri voru framantalin embætti gerð að einu og hálfu. Katrín Júlíusdóttir, sem hafði tekið við fjármálaráðuneytinu þegar hún sneri aftur úr fæðingarorlofinu, tók  efnahagsmálin en  Steingrímur sat áfram yfir hinum sem voru sett undir eitt ráðuneyti. Við þetta tilefni var embættisheitinu breytt í atvinnu- og nýsköpunarráðherra (sjá hér).

Með því að Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur tóku við stjórnartaumunum nú í vor varð sú breyting gerð að iðnaðar- og viðskiptamálin voru tekin saman og sett undir einn ráðherra líkt og tíðkaðist á árunum 1988 til 2007. Það er Ragnheiður Elín Árnadóttir sem gegnir þessu embætti nú. Hún er fædd 1967 og var því 46 ára þegar hún tók við embættinu. Steingrímur var skipaður ráðherra í fyrsta skipti fyrir 25 árum.

Menntun og starfsreynsla:
Steingrímur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 21s árs og BS-prófi í jarðfræði frá Háskóla Íslands fimm árum síðar. Árið eftir, eða þegar hann var 27 ára, lauk hann uppeldis- og kennslufræði til kennsluréttinda frá sama skóla.

Meðfram háskólanáminu keyrði hann vörubíla á sumrin en eftir útskriftina þaðan vann hann í eitt ár við jarðfræðistörf jafnframt því sem hann var íþróttafréttamaður hjá Sjónvarpinu. Árið eftir var hann kosinn inn á þing fyrir Alþýðubandalagið, þá 28 ára

Ragnheiður Elín var tvítug þegar hún útskrifaðist sem stúdent frá Kvennaskólanum í Reykjavík. Fjórum árum síðar útskrifaðist hún með BA-próf í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands. Samkvæmt ferilskrá hennar sem er á vef Alþingis er hún með mastersgráðu í alþjóðaviðskiptum frá Georgetown University í Bandaríkjunum en útskriftarársins er ekki getið.

Þegar Ragnheiður var 28 ára hóf hún störf hjá Útflutningsráði þar sem hún var í þrjú ár eða til ársins 1998. Við upphaf starfsferilsins þar var hún aðstoðarviðskiptafulltrúi, þá viðskiptafulltrúi í New York og síðast verkefnisstjóri í Reykjavík. Í framhaldinu var hún ráðin aðstoðarmaður Geirs H. Haarde, fyrst í Fjármálaráðuneytinu (1998-2005, þá í Utanríkisráðuneytinu (2005-2006) og síðast í Forsætisráðuneytinu (2006-2007) eða uns hún var kjörin inn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn, þá 40 ára.

Stjórnmálatengd störf og nefndarsetur:
Miðað við ferilskrá Steingríms liggja hans fyrstu pólitísku skref í nemendapólitíkinni í menntaskóla og svo áfram í háskólapólitíkinni í Háskólanum þar sem hann átti sæti í stúdentaráði á árunum 1978-1980. Frá því að hann var kjörinn inn á þing fyrir þremur áratugum hefur Steingrímur átt sæti í ellefu stjórnum, ráðum og nefndum utan Alþingis. Flestum ábyrgðarstöðunum af þessu tagi gegndi hann árin 1999 og 2000. Það sem vekur sérstaka athygli í þessum hluta ferilskrár hans er hve mörg þessara verkefna tengjast setum á samráðsþingum ráðamanna utan landssteinanna.

Steingrímur var varaformaður Alþýðubandalagsins um sex ára skeið eða frá árinu 1989 til ársins 1995. Fjórum árum síðar var hann kjörinn formaður Vinstri hreyfingarinnar- græns framboðs við stofnun flokksins í febrúar 1999. Steingrímur gegndi þessu embætti fram til síðasta landsfundar VG sem var í febrúar á þessu ári. Þegar hann lét formannsembættið eftir hafði hann stýrt flokknum í fjórtán ár.

Eins og áður hefur komið fram var Ragnheiður Elín aðstoðarmaður Geirs H. Haarde í níu ár í þremur ráðuneytum áður en hún settist inn á þing. Á þeim tíma sat hún í tveimur til fimm nefndum og ráðum á ári eða alls níu yfir tímabilið. Flestum árið 2005. Hún átti m.a. sæti í samninganefnd ríkisins sem sér um samningagerð fyrir hönd ríkisins við opinbera starfsmenn. Árið 2005 var hún líka skipuð í fjölskyldunefnd ríkisstjórnarinnar þar sem hún átti sæti þar til hún var kjörin inn á þing tveimur árum síðar. Ragnheiður var formaður þingflokks sjálfstæðismanna frá 2010 til ársins 2012.

Þingstörf og nefndarsetur á vegum þess:
Steingrímur hefur setið ósliðið á þingi frá árinu 1983 eða frá 28 ára aldri til 58 ára aldurs. Hann hefur því setið á þingi í 30 ár. Þennan tíma hefur hann starfað undir alls þremur þingflokkum. Fyrst þingflokki Alþýðubandalagsins (1983-1998), þá Óháðum (1998-1999) og svo Vinstri grænum undanfarin 14 ár. Upphaflega kom Steingrímur inn á þing sem alþingismaður Norðurlands en eftir breytingar á kjördæmaskiptingunni (sjá
hér) hefur hann verið  þingmaður Norðausturkjördæmis eða frá árinu 2003. 

Þegar litið er til setu Steingríms í þingnefndum kemur í ljós að hann sat í efnahags- og viðskiptanefnd á árunum 1991 til 1999, eða í átta ár, sem má gera ráð fyrir að hafi aflað honum einhverrar þekkingar- og reynslu af málflokknum sem hann stýrði sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra í síðustu ríkisstjórn.

Ragnheiður Elín kom ný inn á þing vorið 2007 sem alþingismaður Suðvesturkjördæmis en hefur verið þingmaður Suðurlands frá alþingiskosningunum 2009. Hún hefur því setið á þingi í 6 ár. Frá því að Ragnheiður Elín tók sæti á Alþingi hefur hún verið skipuð í fimm þingnefndir. Þar af sat hún tvö ár í iðnaðarnefnd og eitt ár í viðskiptanefnd.

Ráðherraembætti:
Steingrímur var 33 ára þegar hann var skipaður ráðherra í fyrsta skipti. Þá var hann skipaður landbúnaðarráðherra í öðru ráðuneyti
Steingríms Hermannssonar (sjá hér). Átta árum síðar, með stjórnarsamstarfi Samfylkingar og Vinstri grænna, var hann lengst fjármálaráðherra en auk þess gegndi hann fjórum öðrum embættum í mislangan tíma. Síðast embætti atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra sem var nýtt heiti en með því voru málefni landbúnaðarins, sjávarútvegsins, iðnaðarins og viðskiptanna felld undir eitt ráðuneyti. Steingrímur var 56 ára þegar hann tók við ráðherraembætti iðnaðar og viðskipta (sjá nánar hér)

Ragnheiður Elín er nýskipaður ráðherra þessara stjórnarmálefna. Hún er 46 ára þegar hún er skipuð iðnaðar- og viðskiptaráðherra eða tíu árum yngri en Steingrímur þegar hann tók við embættinu (sjá nánar hér).

Samantekt
Steingrímur og Ragnheiður Elín eru bæði með stúdentspróf og háskólanám að baki en þar með er það sem ferilskrár þeirra eiga sameiginlegt nánast upptalið. Steingrímur er 26 ára þegar hann lýkur BS-prófi í jarðfræði og tekur svo eins árs viðbótarnám til kennsluréttinda í beinu framhaldi. Ragnheiður Elín er 24 þegar hún útskrifast úr stjórnmálafræðinni en ekki kemur fram hvenær hún lauk meistaranáminu í alþjóðasamskiptum. 

Steingrímur hefur um fimm ára starfsreynslu utan stjórnmálanna. Starfsreynslunnar aflar hann sér aðallega meðfram námi. Ári eftir námslok var hann kominn inn á þing 28 ára gamall og hefur setið þar síðastliðna  þrjá áratugi.

Þar sem það er ekki gefið upp hvenær Ragnheiður Elín tók MS-prófið í Bandaríkjunum er ekki alveg ljóst hvort þriggja ára starfsreynsla hennar hjá Útflutningsráði er meðfram því námi eða að því loknu. Starfsreynsla Ragnheiðar Elínar liggur hins vegar aðallega innan stjórnsýslunnar þar sem  hún var aðstoðarmaður Geirs H. Haarde níu ár áður en hún var kjörin þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Miðað við ferilskrá Steingríms liggja hans fyrstu pólitísku skref hins vegar í nemendapólitíkinni í menntaskóla og svo áfram í Háskólanum. Steingrímur var kjörinn varaformaður Alþýðubandalagsins sex ára þingveru og gegndi því embætti í önnur sex ár eða til ársins 1995. Hann var kjörinn formaður Vinstri grænna við stofnun flokksins árið 1999. Fyrir síðasta landsfund VG sem var haldinn í upphafi þessa árs gaf Steingrímur út þá yfirlýsingu að hann myndi ekki gefa kost á sér til áframhaldandi formennsku flokksins (sjá hér).

Á því níu ára tímabili sem Ragnheiður Elín var aðstoðarmaður ráðherra átti hún sæti í átta nefndum og ráðum. Þ.á m. var hún varamaður í bankaráði Norræna fjárfestingarbankans í fjögur ár. Steingrímur sem var  kominn inn á þing laust fyrir þrítugt hefur reyndar líka aflað sér einhverrar reynslu af stjórnmálastörfum utan alþingis. Auk forystuhlutverka í þeim flokkum sem hann hefur starfað með hefur hann einkum starfað með nefndum og átt sæti á þingum með ráðamönnum víðsvegar frá Evrópu.

Þrátt fyrir að Steingrímur eigi fimm sinnum lengri þingferil á Alþingi en Ragnheiður Elín hefur hún starfað með jafnmörgum þingnefndum og hann. Hér er reyndar rétt að geta þess að núverandi fyrirkomulag þingnefnda var ekki leitt í lög fyrr en árið 1991 (sjá hér). Sama ár var Steingrímur skipaður til sætis í þremur slíkum. Ein þeirra var efnahags- og viðskiptanefnd þar sem hann átti sæti næstu átta árin. Ragnheiður Elín hefur átt sæti bæði í iðnaðarnefnd og viðskiptanefnd. Samanlögð seta hennar í þessum nefndum eru þrjú ár.

Það má að sjálfsögðu gera ráð fyrir því að vera í þingnefndum veiti þingmönnum ákveðna innsýn í þá málaflokka sem eru á hennar sviði en það er hæpið að reikna með að hún sé nógu yfirgripsmikil til að hún komi að miklu haldi þegar kemur að því að fara með framkvæmdavald málefnisins úr ráðherrastóli viðkomandi málaflokks. Þegar litið er til annars bakgrunn sem liggur skipun þessara í embætti iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur þingreynsla og þáverandi staða Steingríms innan síns eigin flokks væntanlega ráðið mestu.

Væntanlega hefur bæði menntun og atvinnureynsla Ragnheiðar Elínar skipt miklu við skipun hennar í núverandi embætti hennar sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra en þó hefur reynsla hennar sem aðstoðarmanns Geirs H. Haarde og formanns þingflokks sjálfstæðismanna til tveggja ára að öllum líkindum haft töluvert um það að segja að hún hlaut embættið. 

Frá kynslóð til kynslóðar

Þegar horft er til síðustu aðgerða Steingríms J. Sigfússonar undir lok síðasta kjörtímabils og þess hvernig Ragnheiður Elín svaraði fyrirspurn hans um málefni Helguvíkur (sjá hér), sem sagt var frá hér í aðdraganda, kann að vera forvitnilegt að rýna í það sem Steingrímur sagði í blaðaviðtali um hlutverk stjórnarandstöðu gagnvart þeim sem sitja í stjórn. Tilefni blaðaviðtalsins er það að þau: Hjörleifur Guttormsson, Kristín Ástgeirsson, Steingrímur og Ögmundur Jónasson stofnuðu þingflokk óháðra haustið 1998. Steingrímur hafði þetta að segja um tilgang stofnunar hans: 

Steingrímur sagði að þingflokkarnir væru mjög mikilvæg grunneining í öllu starfi og skipulagi þingsins og það væri fullkomlega eðlilegt og sjálfsagt mál að hópur þingmanna, sem væru eins settir, skipulegði sín störf saman. "[...] Við erum allt þingmenn í stjórnarandstöðu og þar af leiðandi sömu megin meginvíglínunnar í stjórnmálabaráttunni sem skiptir stjórn og stjórnarandstöðu og við erum öll eins sett hvað það snertir að við höfum sagt skilið við okkar flokka.“ (sjá hér)

Það vekur væntanlega athygli að Steingrímur víkur hvergi að því hvernig þingflokkurinn muni þjóna hagsmunum þjóðarinnar eða því hlutverki hans að standa vörð um kosningaloforð Alþýðubandalagsins sem var að leysast upp á þessum tíma með Kvennalistanum. Þess má geta að fylkingarnar sem báru ábyrgðina að upplausn framantalinna flokka stofnuðu síðar Samfylkinguna.

Orðaskipti þeirra Steingríms og Ragnheiðar Elínar undir þinghaldi nýskipaðrar ríkisstjórnar í júní síðastliðnum gefa ekki tilefni til að ætla að sú hugmyndafræði sem kemur fram í svari Steingríms í blaðaviðtalinu hér að ofan hafi breyst til batnaðar. Sú kerskni sem kemur síðan fram í tilsvari Ragnheiðar Elínar bendir heldur ekki til annars en hún sé undir sömu hugmyndir og Steingrímur seld varðandi það hvaða samskiptamáti sé við hæfi þegar kemur kemur að samskiptum þeirra sem skipa ríkisstjórn og hinna sem eru í stjórnarandstöðunni.

Hér má vissulega ekki gleymast að allir meðvitaðir einstaklingar ætlast til vandaðra vinnubragða af þeim sem þeir kjósa inn á þing og þá ekki síst þeirra sem fara með framkvæmdavaldið í sameiginlegum málaflokkum samfélagsins alls. Orðaskipti sem minna á vígaferli eru ekki líkleg til að vekja kjósendum trausts á hæfileikum til trúnaðarstarfa á borð við málaflokk sem er í jafn viðkvæmri stöðu og atvinnumál þjóðarinnar.

Hins vegar er ljóst að þegar menntun og starfsreynsla þessara tveggja er skoðuð þá stendur ferill Ragnheiðar Elínar starfsviði þess ráðuneytis sem hún stýrir nokkuð nær en ferill forvera hennar. Þar af leiðandi hlýtur hún a.m.k. að teljast hæfari til að verða æðstráðandi í þessum málaflokkum en hann.

Burtséð frá því hvort er hæfara, Steingrímur eða Ragnheiður Elín, til að fara með embætti iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur núverandi aðferð við skipun þess ekki skilað sér til neinnar farsældar fyrir samfélagið. Nægir þar að minna á árangrinum af stóriðjustefnu þeirra sem gegndu þessari sömu stöðu áratugina fyrir efnahagshrunið haustið 2008.

Albert Einstein

Ef fram heldur sem horfir þá er þó hætt við að framhald verði á þeirri áherslu sem hefur verið í stefnu stjórnvalda varðandi iðnaðar- og viðskiptamálin þar sem stórfyrirtæki á sviði stóriðju fara sínu fram á kostnað heildarhagsmuna. Því miður virðist það vera rótgróinn hugsunarháttur innan ráðuneytisins að það þjóni samfélaginu best að setja gróðavonina í forgang.

Helstu heimildir

Ráðherratal Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins

Ríkisstjórnir og ráðherrar frá 1904-1942
Ríkisstjórnartal frá stofnun lýðveldis

Ráherraskipan í síðara ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttir
Ráðherrar í núverandi ríkisstjórn

Fastanefndir Alþingis: Sögulegt yfirlit
Stjórnkerfisbreytingar

Þjóðarpúls Callups frá 6. október 2009: Ánægja með störf ráðherra (fyrsta könnun)
Þjóðarpúls Gallups frá 6. desember 2012: Mat á störfum ráherra
Þjóðarpúls Gallups 10. janúar 2013: Ánægja með störf ráðherra

Skýrsla nefndar um endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands - Samhent stjórnsýsla (13.12.2010)
Ný lög um Stjórnarráð Íslands (19.09.2011)

Heimildir um frumvarp Steingríms J. Sigfússonar vegna Bakka:

Samstarfsyfirlýsing um kísilver á Bakka (fréttatilkynning á vef Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins frá 15. febrúar 2013)
Samkomulag um kísilver á Bakka. mbl.is:
15. febrúar 2013
Steingrímur J. Sigfússon: Nokkur orð um stuðning við uppbyggingu á Bakka. 641.is: 22. mars 2013
Skiptar skoðanir um kísilver á Bakka. ruv.is: 28. mars 2013
Lög um heimild til samninga um kísilver í landi Bakka í Norðurþingi (lög nr. 52 8. apríl 2013)

Aðrar heimildir sem varða iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið:

Öflug sprenging við Kárahnjúka. mbl.is: 13. mars 2003
Undirritun samninga um byggingu álvers Fjarðaráls sf. í Reyðarfirði
(fréttatilkynning frá ráðuneytinu 14. mars, 2003)

Jóhann Páll Jóhannsson: Alræmdur iðnaðarrisi myndi græða á ívilnunum Ragnheiðar. dv.is: 25. júní 2013


mbl.is Þingið kemur saman 10. september
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þið þurfið að skoða betur merkingu orðsins "sporgöngumaður" sbr. þessa klausu: "Undir lok síðasta kjörtímabils fetaði þáverandi atvinnu- og nýsköpunarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, í fótspor sporgöngumannanna, sem sátu undir forsætisráðherrum Sjálfstæðisflokksins síðustu tvo áratugina fyrir hrun, með því að leggja fram frumvarp til laga um fjárfestingarsamning og ívilnanir..."

Þarna ætti fremur að standa "...gerðist ... Steingrímur J. Sigfússon sporgöngumaður þeirra sem sátu undir ..."

Sporgöngumaður fer í spor annarra sem á undan hafa gengið, hann er alls ekki frumkvöðull eða forgöngumaður. :)

Þórhallur Jósepsson (IP-tala skráð) 28.8.2013 kl. 10:08

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir að benda mér á þessi mistök! sem því miður fóru fram hjá mér við yfirlesturinn fyrir birtinguna. Mistökin má kannski kenna við það að hugsa í kross eða lesa það sem maður meinar en átta sig ekki á því að textinn birtir þveröfuga merkingu við það sem honum var ætlað.

Ég tek eftir því að þú ávarpar mig í fleirtölu en ég stend ein á bak við þau skrif sem birtast hér og ber líka ein ábyrgð á innihaldi þeirra og framsetningu.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 28.8.2013 kl. 10:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband