Til kvótastýrðs landbúnaðar

Að undanförnu hefur þetta blogg verið lagt undir samanburð á menntun og starfreynslu þeirra sem gegna ráðherraembættum í núverandi ríkisstjórn og þeirra sem fóru með sömu málaflokka í síðustu ríkisstjórn. Nú þegar hefur slíkur samanburður verið birtur varðandi sex embætti en fjögur eru eftir. Næsta embætti sem verður tekið til slíkrar skoðunar er það sem stýrir ráðuneytinu sem fer með undirstöðuatvinnugreinar landsins; þ.e. landbúnaðinn og sjávarútveginn.

Undirstöðuatvinnugreinarnar

Sökum umfangs beggja málaflokka verður farin sú leið að skoða forsögu beggja í stökum færslum og byggja síðan á þeim í sjöundu færslunni með samanburðinum á menntun og starfsreynslu Steingríms J. Sigfússonar, sem var atvinnu- og nýsköpunarráðherra undir lok síðasta kjörtímabils, og Sigurðar Inga Kristjánssonar, sem er núverandi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra.

Embættissaga landbúnaðarmála frá 1917

Sigurður Jónsson í Ystafelli

Atvinnumálaráðherra er eitt þeirra þriggja embættisheita sem voru tekin upp árið 1917 þegar fyrsta íslenska ríkisstjórnin var mynduð (sjá hér). Sigurður Jónsson, gjarnan kenndur við bæinn Ystafell í Köldukinn, var fyrstur til að gegna þessu embætti. Hann var atvinnumálaráðherra í þrjú ár eða til ársins 1920. Árið 1949 var þetta embættisheiti hins vegar lagt af.

Hermann Jónasson var fyrsti ráðherrann til að fara með landbúnaðarmál hér á landi. Þetta var í áttundu ríkisstjórninni sem sat á árunum 1934 til 1938. Hermann veitti henni forystu. Auk þess að fara með landbúnaðarmálin var hann líka forsætisráðherra og fór með dóms- og kirkjumálaráðuneytið (sjá hér). Hann fór með landbúnaðarmálin ásamt öðrum ráðuneytum fram til ársins 1942 en varð svo aftur æðstráðandi í málefnum landbúnaðarins kjörtímabilið 1950 til 1953 og síðast 1956 til 1958. Samtals var hann því yfir landbúnaðarmálunum í þrettán ár.

Bjarni AsgeirssonBjarni Ásgeirsson var aftur á móti sá fyrsti sem var skipaður sérstakur landbúnaðarráðherra. Þetta var í fimmtándu ríkisstjórninni sem var mynduð hér á landi en það var Stefán Jóh. Stefánsson sem var forsætisráðherra hennar (sjá hér). Þessi ríkisstjórn sat á árunum 1947 til 1949.

Bjarni var með búfræðipróf frá Hvanneyri en því lauk hann árið 1913; 22ja ára að aldri. Hann var bóndi frá 1915 til 1951 eða í 36 ár. Lengst af á Reykjum í Mosfellssveit. Meðal þess sem kemur fram í ferilskrá hans er að hann lét reisa fyrstu ylræktarhús á Íslandi árið 1923 og var Í stjórn Búnaðarfélags Íslands frá 1927 til 1951. Hann var formaður þess frá árinu 1939. Ásamt því að gegna embætti landbúnaðarráðherra var Bjarni Ásgeirsson fyrsti ráðherrann til að fara með orkumál. Næstu þrjár áratugina varð það að nánast ófrávíkjanlegri hefð að sá sem var skipaður landbúnaðarráðherra fór yfir orkumálunum líka (sjá nánar hér).

Fleira sem vekur athygli í ferilskrá Bjarna er að hann var skipaður í milliþinganefnd til að endurskoða lög um verðlagningu landbúnaðarafurða. Þetta var í nóvember 1946 eða ári áður en hann var skipaður fyrsti landbúnaðarráðherrann. Sama ár og hann tók við landbúnaðarráðuneytinu tók Framleiðsluráð landbúnaðarins í fyrsta skipti til starfa (sjá hér). Þess má svo geta hér að Bjarni er föðurafi Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, fyrrverandi alþingismanns og forseta Alþingis á síðasta kjörtímabili.

Það er óvíst að þeir séu margir sem muna eftir Bjarna í dag enda fór hann ekki með embætti landbúnaðarráðherra nema í tvö ár. Ferilskrá hans bendir þó til að hann hafi verið athafnasamur og tilþrifamikill í þeim málaflokkum sem snúa að landbúnaðinum. Þekktasti ráðherrann, sem hefur farið með þetta embætti, er vafalaust Guðni Ágústsson en hann var landbúnaðarráðherra í átta ár. Aðeins tveir ráðherrar hafa verið yfir málaflokknum lengur en hann.

Þeir eiga hæsta starfsaldurinn sem æðstráðendur í málefnum landbúnaðarins

Hermann Jónasson, sem þegar er nefndur, var yfir málefnum landbúnaðarins í 13 ár skv. þessari heimild hér og Ingólfur Jónsson í 11 ár (sjá hér). Það má hins vegar taka það fram enn einu sinni að af einhverjum ástæðum þá ber upplýsingasíðum inni á vefjum Alþingis og ráðuneytanna almennt illa saman um það hvernig málaflokkum var skipt á milli ráðaherra og hver var fyrstur til að gegna viðkomandi embætti.

Samkvæmt því sem kemur fram á þessari undirsíðu á vef Alþingis, þar sem er að finna upptalningu ráðuneyta frá 1917 til 2013, þá fór Hermann Jónasson með landbúnaðarmálin í fyrsta skipti árið 1934 og var það samhliða því að hann varð forsætisráðherra í fyrsta skipti. Hann var forsætisráðherra í alls 10 ár og fór jafnframt með landbúnaðarmálin allan þann tíma. Árið 1950 var Hermann svo skipaður landbúnaðarráðherra í forsætisráðherratíð Steingríms Steinþórssonar (sjá hér).

Hermann Jónasson er vafalaust öllum sem hafa sett sig inn í íslenska stjórnmálasögu vel kunnugur enda sat hann inni á þingi í yfir þrjá áratugi. Þar af var hann formaður Framsóknarflokksins í 18 ár. Það má minna á það hér að Hermann var faðir Steingríms Hermannssonar sem einnig sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn á sínum tíma og afi Guðmundar Steingrímssonar sem situr nú á þingi fyrir Bjarta framtíð.

Ingólfur Jónsson sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í tæpa fjóra áratugi eða í 36 ár. Þar af var hann landbúnaðarráðherra í 11 ár eða frá árinu 1959-1971. Það má vera að fleirum kunni að þykja áhugavert að heyra af þeim viðhorfum sem koma fram til framtíðar landbúnaðarins í ræðu sem Ingólfur flutti árið 1964 við setningu 46. Búnaðarþingsins sem þá var sett í Bændahöllinni í fyrsta skipti. Hér er endursögn eins blaðamanna Vísis á þessum tíma á orðum ráðherrans:

Ingólfur Jónsson sagði að 15% af þjóðinni lifði nú á landbúnaði. Fjölgun þjóðarinnar væri mikil og gert ráð fyrir því, að Íslendingar yrðu helmingi fjölmennari um næstu aldamót en þeir eru nú. Því mætti sjá fram á vaxandi þörf á landbúnaðarafurðum. Með tilliti til þess sagði hann, að það væri uggvænlegt að bændur flosnuðu upp af búum. (Vísir: 14. feb. 1964)

Það er hæpið að gera ráð fyrir því að þeir séu margir sem muna eftir Ingólfi Jónssyni inni á Alþingi frekar en fyrsta landbúnaðarráðherranum; Bjarna Ásgeirssyni. Ingólfur átti þó sæti inni á þingi í tæpa fjóra áratugi. Af þeim tíma var hann rúman áratug yfir málefnum bænda.

 Öflugur landbúnaður er merkir öflugt hagkerfi

Væntanlega eru þeir a.m.k. fáir meðal yngstu kjósendanna sem vita af Ingólfi Jónssyni en það er hins vegar líklegt að Guðni Ágústsson sé mörgum eftirminnilegur. Þeir eru jafnvel til sem vita fátt annað í pólitík en að Guðni hafi verið landbúnaðarráðherra upp úr síðustu aldamótum. Reyndar er margt sem gefur tilefni til að álykta að Guðni sé þekktasti landbúnaðarráðherrann í sögu íslenskrar stjórnmálasögu.

Guðni Ágústson er sonur Ágústs Þorvaldssonar, fyrrverandi þingmanns, sem sat í 18 ár inni á þingi fyrir Framsóknarflokkinn. Guðni sat í 16 ár fyrir sama flokk. Helming þess tíma gegndi hann embætti landbúnaðarráðherra eða frá árinu 1999 til ársins 2007. Hann var enn inni á þingi við bankahrunið en sagði af sér bæði þingsæti og formennsku í Framsóknarflokknum 17. nóvember 2008 eða tæpum tveimur mánuðum eftir að innihaldsleysi íslensku bankabólunnar varð opinbert (sjá hér).

Guðni var fæddur í sveit og lauk búfræðiprófi frá Hvanneyri árið 1968. Áður en hann var kosinn inn á þing árið 1987 hafði hann starfað sem mjólkureftirlitsmaður hjá Mjólkurbúi Flóamanna í ellefu ár. Hann átti líka sæti í stjórn Hollustuverndar ríkisins áður en hann var kjörinn inn á þing.

Áður en hann var skipaður landbúnaðarráðherra árið 1999 hafði hann bætt við ferilinn setu í bankaráði Búnaðarbanka Íslands þar sem hann sat á árunum 1990 til 1998. Hann var formaður þess fyrstu þrjú árin. Hann var einnig í stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins á sama tíma og var líka formaður þar fyrstu þrjú árin. Auk þessa var hann formaður stjórnar Lánasjóðs landbúnaðarins árið áður en hann tók við landbúnaðarráðherraembættinu í fyrsta skipti. Það má svo koma fram að hann hafði verið í landbúnaðarnefnd Alþingis í átta ár áður en hann var skipaður æðstráðandi í Landbúnaðarráðuneytinu (sjá nánar hér).

John F. Kennedy um lítilsvirðinguna sem störfum bóndans eru sýnd

Það er líklegt að Guðni verði mörgum íslenskum kjósandanum minnisstæður eitthvað áfram. Þar hafa sterkur svipur, djúp rödd og yfirveguð framkoma sem er þó full af glettni og húmor vissulega sín áhrif. Hins vegar má búast við að nafn hans verði þeim sem þekkja sögu landbúnaðarstefnunnar og búvörusamninga síðustu ára ekki síður minnisstætt fyrir þátt hans í mótun hennar.

Framleiðslustýring í stað markaðsstýringar

Það er í reynd ótrúlega stutt síðan að eina alvöruatvinnugreinin í landinu var landbúnaður. Allir sem voru sjálfra sín voru bændur eða héldu a.m.k. bú þó að einhverjir létu ráðsmenn um búskapinn. Landbúnaðarstörfin voru vinnuaflsfrek en verkin á stærri bæjum voru unnin af mörgum höndum og sum án þess að bóndinn kæmi þar nærri. Presturinn jafnt og sýslumaðurinn voru fyrst og síðast bændur sem bjuggu á sinni bújörð. Það var framleiðsla hennar sem lagði grunninn að öllu öðru; lífsnauðsynjunum jafnt og þjóðfélagsstöðunni.

Verklag við heyskap til íslenskra sveita fram á 20. öld

Þetta fór ekki að breytast fyrr en undir lok 19. aldar með þilskipaútgerðinni sem gaf þeim sem áttu engan möguleika í gamla bændasamfélaginu tækifæri til að yfirgefa sveitirnar, koma sér upp fjölskyldu og búa eigið heimili. Stórbændur svo og innlendir embættismenn höfðu horn í síðu þéttbýlismyndunarinnar því með henni misstu þeir dýrmætan vinnukraft. Vinnukraft sem kostaði þá lítið og ráðandi öfl í samfélaginu höfðu sett undir vistarbönd til að tryggja aðganginn að því enn frekar.

Það hefur orðið gífurleg breyting á verklaginu til sveita frá því þetta var og ekki síður á stöðu sjálfeignabænda. Í raun má segja að af einhverjum ástæðum hafi öfgarnar algerlega snúist við þannig að afkomendur þeirra sem áður voru heftir af vistarböndum íslenskra óðalsbænda hafa sett bændum slíka fjötra að það er hæpið að aðrir rekstraraðilar myndu sætta sig við að vera ofurseldir svo margslungnum höftum og bændum hafa verið sett á undanförnum áratugum.

Bóndinn hefur aldrei fengið neitt nema það sem hann hefur unnið fyrir hörðum höndum

Fyrstu lagasetningar varðandi landbúnaðinn báru því vitni að meiri hluti þeirra sem sat á þingi voru annaðhvort stórbændur sjálfir eða þeir voru synir fyrrum stóreignabænda. Megintilgangurinn var að jafna kjör bænda og tryggja að þau yrðu ekki lakari en þeirra sem yfirgáfu sveitirnar og settust að á mölinni.

Setning afurðasölulaganna árið 193[5] lagði grunninn að þeirri stefnu sem nú er fylgt í landbúnaði. Með þeirri lagasetningu var komið á opinberri verðlagningu mjólkur- og sauðfjárafurða, vinnslu og sölu afurðanna veitt í ákveðinn farveg og viðurkennt að bændur gætu beitt samtakamætti sínum í kjarabaráttu sinni, rétt eins og verkalýðurinn gerði með verkalýðsfélögunum. (sjá hér)

Hermann Jónasson tók við forsætisráðherraembættinu af Ásgeiri Ásgeirssyni á miðju ári 1934. Það var því í stjórnartíð hans sem afurðasölulögin voru sett en þau höfðu verið í undirbúningi frá árinu 1932 (sjá hér: bls. 44-45). Með vexti verkalýðshreyfingarinnar gerðu ýmsir forkólfar hennar kröfu um að fulltrúar úr þeirra röðum ættu aðild að samningum um búvöruverð. 

Lögin um framleiðsluráð voru m.a. viðbrögð stjórnvalda við þessari kröfu. Aðdragandi þess að þau voru sett var á margan hátt sögulegur en það var í stjórnartíð fyrsta landbúnaðarráðherrans, Bjarna Ásgeirssonar, sem þau urðu að veruleika.

Árið 1947 setti Alþingi lög um Framleiðsluráð landbúnaðarins og sú lagasetning markaði að ýmsu leyti tímamót. Þá var öllum afurða- og verðlagsmálum landbúnaðarins þjappað saman undir eina stjórn og frjálsum samtökum bænda, Stéttarsambandi bænda sem stofnað var árið 1945, fengin stjórn þessara mála í hendur. Þá var því einnig slegið föstu að bændur skyldu hafa sambærileg laun og ákveðnar stéttir þjóðfélagsins.

[...] Ríkisvaldið reyndi eftir því sem við var komið að tryggja kjör þeirra sem landbúnað stunduðu með lagasetningu jafnframt því sem bændur voru hvattir með fjárframlögum til framfara og framleiðsluaukningar. Í því skyni var lögum um búfjárrækt og jarðrækt breytt, bændum tryggð aðstoð við verklegar framkvæmdir og leiðbeiningaþjónustan efld. (sjá hér)

George Washington um mikilvægi landbúnaðar

Með lögunum tók Framleiðsluráð við málum Búnaðarráðs „og verðlagði á grundvelli verðlagsnefndar sex fulltrúa neytenda og bænda.“ (sjá hér) Ósamlyndi hinnar nýju verkalýðsstéttar og matvælaframleiðenda til sveita hélt engu að síður áfram og náði hámarki undir árið 1960.

Það lítur út fyrir að ásteytingsefnið hafi ekki síst snúist um útflutningsbætur sem ríkissjóður greiddi bændum fyrir það að útflutningsverðmæti búvara var lægra en heildsöluverðið innanlands. Útflutningsbæturnar voru hliðstæðar því sem viðgekkst varðandi útflutning sjávarafurða á þessum tíma (sjá hér).

Undir 1960 stefndi allt í óefni. Fulltrúar neytenda í verðlagsnefnd Framleiðsluráðs landbúnaðarins kærðu ákvörðun Framleiðsluráðsins um hækkun á dilkakjöti en töpuðu málinu. Þegar dómur féll þeim í óhag sögðu þeir sig úr verðlagsráði. Á þessum tíma sat minnihlutastjórn Alþýðuflokks sem brást við með því að setja „bráðabirgðalög, sem kom í veg fyrir alla hækkun afurðaverðs. Hinir stjórnmálaflokkarnir þrír lýstu andstöðu við lögin.“ (sjá hér)

Í framhaldinu tók við ellefu ára seta Ingólfs Jónssonar í landbúnaðarráðuneytinu. Í upphafi þess tíma náðist samkomulag við fulltrúa bænda á áframhaldandi útflutningsbótum (sjá hér).

Þessar útflutningsbætur voru m.a. hugsaðar sem nokkurs konar viðurkenning á því að gengi krónunnar var miðað við aðra hagsmuni en hagsmuni landbúnaðarins, bætur fyrir að bændur afsöluðu sér að nokkru eigin forræði í verðlagsmálum og þeim var ekki heimilt að velta halla af útflutningi út í verðlag búvara innanlands. (sjá hér)

Einhverjum kann að þykja það upplýsandi að lesa þessa frásögn hér um sögu útflutningsbótanna fram undir 1960 og þann „hvell“ sem varð vegna samningsins. Árið 1965 drógu fulltrúar verkalýðsfélaganna sig út úr sexmannanefndinni. Með setningu bráðabirgðalaga var Hagstofunni falið að ákvarða verðlagsgrundvöll landbúnaðarafurða það árið (sjá hér bls. 59).

Milton Friedman um miðstýrða stjórnarhætti

Lögunum um Framleiðsluráð landbúnaðarins var gefið framhaldslíf með nokkrum breytingum árið 1966. Hugmyndir um að taka aftur upp það fyrirkomulag að bændur semdu beint við ríkisvaldið um afurðasöluverðið höfðu reyndar komið fram en fengu ekki meirihlutafylgi meðal bænda fyrr en tveimur árum eftir að Framleiðsluráðið var endurvakið.

Verð búvara og kjör bænda voru því áfram háð þeim samningum sem bændur náðu við fulltrúa verkalýðsfélaganna. Ríkisvaldið greip hins vegar inn í með beinum eða óbeinum hætti eins og með bráðabirgðalögunum frá 1965 og ýmsum hliðarráðstöfunum „til þess að liðka fyrir samkomulagi um verðlagsgrundvöll landbúnaðarafurða í Sexmannanefndinni“ (sjá hér).

Landbúnaðarframleiðslan sett undir kvótastýringu

Tveimur áratugum eftir að Hermann Jónsson gegndi síðast embætti landbúnaðarráðherra fór sonur hans, Steingrímur Hermannsson, með embættið. Í ráðherratíð hans voru í fyrsta skipti sett inn í íslenska löggjöf ákvæði til framleiðslustýringar með framleiðslutakmarkandi aðgerðum (sjá hér).

Þannig var í raun komið á kvóta í framleiðslu. Kvótinn var reiknaður út frá framleiðsluviðmiði sem í daglegu tali var kallað „búmark“ og var það reiknað út frá meðalframleiðslu hvers býlis á árunum 1976 til 1978. Búmark fól ekki í sér endanlegan framleiðslurétt heldur var notað sem viðmið við skerðingu. [...] Framleiðsluráði var einnig veitt heimild til þess að leggja gjald á innflutt kjarnfóður sem gat numið allt að 100% af innkaupaverði. Þetta ákvæði var rýmkað í 200% með bráðabirgðalögum nr. 63/1980. (sjá hér bls. 71-72)
Landbúnaðarráðuneytið ætti að standa með landbúnaðarframleiðslunni og framleiðendum hennar

Kjarnfóðurgjaldinu var ætlað að stuðla að minnkandi framleiðslugetu bænda og koma í veg fyrir offramleiðslu einkum á lambakjöti og mjólkurafurðum. Búvörulögin voru svo sett árið 1985 en þá var framsóknarmaðurinn, Jón Helgason, landbúnaðarráðherra. Í þessum lögum eru mörg stefnumarkandi ákvæði til framleiðslustýringar. Í 7. kafla laganna, „Um stjórn búvöruframleiðslunnar“  er t.d. að finna ákvæði um að ríkisvaldið tryggi með samningum fullt verð til bænda fyrir ákveðið magn búvara en verð verði skert fyrir framleiðslu umfram umsamið magn (sjá hér).

Með lögunum var landbúnaðarráðherra orðinn æðstráðandi hvað varðar verðlag landbúnaðarframleiðslunnar og kjör bænda auk þess sem hann var kominn með formlegt vald til að stjórna framleiðslunni að öðru leyti. „Búvörulögin voru því rammi utan um framleiðslustýringu í landbúnaði þar sem ráðherra gat útfært lögin nánar með reglugerðum.“ (sjá hér bls. 79) Þó nokkur ókyrrð stafaði vegna laganna en búvörusamningar næstu ára voru gerðir á grunni þeirra.

Nokkrar deilur urðu meðal framleiðanda með hvaða hætti fullvirðisréttur, sem var fullgreiddur framleiðsluréttur, skyldi reiknaður. Nokkrir bændur fóru með málið fyrir dómstóla á þeirri forsendu að ákvæði búvörulaga um heimild landbúnaðarráðherra til þess að útfæra lögin nánar með reglugerðum bryti gegn ákvæði 67. gr. stjórnarskrárinnar um eignarrétt. Bæði héraðsdómur og Hæstiréttur töldu svo ekki vera. (sjá hér bls. 83)

Áður en lengra er haldið er vert að vekja athygli á því að í kjölfar umræddrar lagasetningar var sett á fót framkvæmdanefnd búvörusamninga sem hafði þó enga stoð í lögum fyrr en 13 árum eftir að hún var sett á laggirnar. Hlutverk nefndarinnar var að annast eftirlit með framkvæmd búvörusamninga þó það væri ekki skilgreint fyrr en með lögunum 1999 en með þeim var Framleiðsluráð landbúnaðarins jafnframt lagt niður (sjá hér bls. 84-85).

Mikil óvissa var í efnahagsmálum á Íslandi í byrjun árs 1989, [...] hin venjubundna barátta við verðbólguna [var] fyrirferðamikil, ásamt versnandi afkomu fyrirtækja og heimila með tilheyrandi vandamálum. [...] Af einhverjum ástæðum ákváðu forystumenn í launþegahreyfingunni að beina spjótum sínum að bændum og hvöttu félagsmenn sína til að sniðganga mjólk og mjólkurvörur. (sjá hér bls. 85-86)

John F. Kennedy um bændur

Árið 1988 hafði Steingrímur J. Sigfússon setið inni á þingi í fimm ár en það ár var hann skipaður landbúnaðarráðherra af Steingrími Hermannssyni sem þá var orðinn forsætisráðherra (sjá hér). Steingrímur J. Sigfússon gegndi embætti landbúnaðarráðherra í þrjú ár. Það var því í stjórnartíð hans sem Sjömannanefndin var skipuð en í henni áttu sæti fulltrúar Landbúnaðarráðuneytisins, Stéttarsambands bænda, ASÍ, BSRB, VSÍ og Vinnumálasambands samvinnufélaganna. Hlutverk nefndarinnar var að auka hagkvæmni innlendrar framleiðslu og lækka kostnað á öllum stigum framleiðslunnar (sjá hér bls. 23).

Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að eina sýnilega leiðin til að tryggja stöðu sauðfjárræktar til frambúðar væri að „auka afköst einstakra bænda og hagræða þannig að verð gæti lækkað. Til þess að ná fljótt árangri í því efni þyrfti að gefa þeim bændum sem besta aðstöðu hafa, möguleika til að auka framleiðslu sína en til þess að svo mætti verða þyrftu aðrir að draga úr framleiðslu sinni eða hætta búskap.“ (Ríkisendurskoðun: Framkvæmd búvörulaga 1988-1993).

Búvörusamningurinn sem gerður var í mars 1991 tók mið af niðurstöðum nefndarinnar. Hann markaði tímamót þar sem með honum var gengið enn lengra í átt til kvótastýringar í landbúnaðinum auk þess sem útflutningsbæturnar sem voru lögfestar í embættistíð Ingólfs Jónssonar voru felldar niður (sjá hér).

Í upphafi forsætisráðherratíðar Davíðs Oddssonar, í lok apríl 1991, var Halldór Blöndal skipaður landbúnaðarráðherra (sjá hér). Árið eftir var mjólkurframleiðslan sett undir sama framleiðslustjórntækið og sauðfjárræktin að tillögum Sjömannanefndarinnar. Árið 1993 voru svo núgildandi lög um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvöru fest (99/1993). Lögin byggðu á ályktunum Sjömannanefndarinnar.

Thomas Jefferson um landbúnaðinn í bréfi til George Washington

Framleiðslustýringin sem þau kveða á um hafði tilætluð áhrif. Bændum fækkaði með því að þeir sem höfðu ekki fjárhagslegt bolmagn til að keppa við stærri búin með kaupum á framleiðslukvóta eða endurnýjun á tækjabúnaði neyddust til að hætta búskap.

Á undanförnum árum hefur kúabúum fækkað um 40 á ári. Að sögn Jóns Viðars Jónmundssonar, nautgriparæktarráðunautar Bændasamtakanna, hefur viss hópur bænda hætt mjólkurframleiðslu vegna þess að búrekstraraðstaða þeirra hefur verið orðin léleg, fjósin gömul og ekki grundvöllur fyrir endurnýjun. Þetta séu gjarnan eldri bændur með litla framleiðslu, allt niður í 10 þúsund lítra á ári.

Þessi litlu bú eru nú smám saman að hverfa. Jón Viðar segir að einnig sé orðið töluvert um að menn séu að selja frá sér greiðslumarkið vegna þess að reksturinn gangi ekki upp. Í þeim hópi sé ungt fólk alveg eins áberandi og hið eldra og búin af öllum stærðum. Dæmi eru um að bú með 170-180 þúsund lítra framleiðslurétt hafi hætt af þeim sökum.  (mbl.is 29. janúar 1997)

Niðurskurður í landbúnaði ógnar fæðuörygginu

Þeir sem fjölluðu um afleiðingar kvótakerfisins í landbúnaði á þeim árum sem kvótastýringin var innleidd litu vissulega á málið misjöfnum augum. Einhverjir vildu t.d. undirstrika það að landbúnaðarstefnan væri „í eðli sínu pólitískt mál“:

Kvótakerfi og búvörusamningar eru einnig gagnrýnd og sögð lögleiðing fátæktar og kotbúskapar þar sem bændur geti hvorki lifað né dáið. Síðast en ekki síst heyrast raddir sem segja að kvótakerfið með tilheyrandi ríkisaðstoð mismuni bændum, íþyngi skattborgurunum, sé brot á stjórnarskrá og komi í veg fyrir að framfarir verði í landbúnaðinum.

Margt í þessari gagnrýni er erfitt að hrekja, en það þýðir þó ekki að hún þurfi að vera rétt. Þau sjónarmið sem gagnrýnendur landbúnaðarstefnunnar setja fram geta fyllilega átt rétt á sér, rétt eins og sjónarmið þeirra er marka stefnuna. Landbúnaðarstefnan er í eðli sínu pólitískt mál sem tekur mið af ríkjandi aðstæðum og tillit til mismunandi sjónarmiða (Guðmundur Stefánsson. 1998. Landbúnaðarstefnan og búvörusamningurinn

Innflutt landbúnaðarstefna

Þó það hafi farið mishátt á hverjum tíma hvaðan þessi pólitík er upprunnin er það tæpast launungamál að hún er innflutt:

Stefna varðandi framleiðslu og markaðssetningu landbúnaðarafurða er sett fram í Lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvöru nr. 99/1993. Í lögum þessum eru sett fram opinber markmið í landbúnaðarstefnu Íslands og rammi fyrir landbúnaðinn og reglugerðir um hann. Með lagasetningunni eru sett fram atriði sem eru sambærileg við Stoð I í sameiginlegri landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins. (Landbúnaður og þróun dreifbýlis. [2009])

Það var sama pólitíska framleiðslustýringin og er vísað til hér að framan sem liggur til grundvallar lögunum um garð- og gróðurhúsaafurðir frá 2002, um mjólkurframleiðslu frá 2004 og um sauðfjárrækt frá 2007. Þessi lög voru innleidd í ráðherratíð Guðna Ágústssonar.

Eins og lesendum er eflaust kunnugt hefur yfirlýst markmið landbúnaðarstefnunnar verið það að stuðla að aukinni hagræðingu og lækkun framleiðslukostnaðar á landbúnaðarvörum. Niðurstaðan hefur orðið sú að búum hefur fækkað á undanförnum árum en framleiðslukostnaðurinn hefur ekki lækkað. Í stað þess að opinbera þessa útkomu í verðlaginu á landbúnaðarafurðum hafa bændur skorið niður við sig kjörin.

Samuel Johnson um mikilvægi landbúnaðar

Núgildandi búvörusamningar eru líka úr embættistíð Guðna Ágústssonar eða frá árinu 2006. Þeir hafa verið framlengdir tvisvar. Fyrst í apríl 2009 þegar Steingrímur J. Sigfússon var landbúnaðarráðherra. Í tilefni framlengingarinnar þá var þessi tilkynning send út frá Landbúnaðarráðuneytinu:

Eins og kunnugt er var ákveðið í fjárlögum 2009 að skerða samningsbundnar greiðslur samkvæmt búvörusamningum vegna fyrirséðra erfiðleika í ríkisfjármálum í kjölfar bankahrunsins. [...]

Allir samningarnir verði framlengdir um tvö ár, að mestu á óbreyttum forsendum.

Þessi samningsniðurstaða felur í sér að bændur gera sér grein fyrir þeirri alvarlegu stöðu sem uppi er í ríkisfjármálum, en fyrir liggur að gæta verður mikils aðhalds á næstu árum. Bændur færa umtalsverða fórn í tvö til þrjú ár miðað við gildandi samninga en fá í staðinn framlengingu um tvö ár þegar ætla má að ástand hafi batnað. Samkomulagið felur í sér aukið rekstraröryggi í landbúnaði til lengri tíma. Það er ekki síst mikilvægt nú með tilliti til fæðuöryggis þjóðarinnar. (sjá hér)

Það síðasta sem við þurfum á að halda er að möguleiki okkar til að framleiða matinn okkar innanlands verði tekinn frá okkur

Seinni framlengingin var gerð fyrir ári síðan en þá gegndi Steingrímur J. Sigfússon stöðu landbúnaðarráða í þriðja skiptið (sjá hér). Það sem vekur athygli í þessum samningunum um starfsskilyrði í mjólkurframleiðslu, sauðfjárræktar og framleiðenda garðyrkjuafurða er einkum þetta hér:

Samningur þessi er gerður með fyrirvara um hugsanlegar breytingar á þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands sem kunna að leiða af niðurstöðum samningaviðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu (sjá t.d. hér).

Í tilefni umræðna, sem sköpuðust á haustþinginu 2012 um frumvarp Steingríms J. Sigfússonar um breytingu á búnaðarlögunum frá 1998, vék Sigurður Ingi Jóhannsson, núverandi landbúnaðarráðherra, að þessu atriði þar sem hann lagði til svohljóðandi breytingartillögu við frumvarp landbúnaðarráðherrans:

Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Á árunum 2012–2017 er óheimilt að binda gildi samninga sem gerðir eru á grundvelli 30. gr. laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993, og búnaðarlaga, nr. 70/1998, fyrirvara um breytingar á þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands sem kunni að leiða af niðurstöðum viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Fallið skal frá þegar gerðum fyrirvörum þessa efnis. (sjá hér)

Í upphafi síðasta kjörtímabils var Jón Bjarnason skipaður landbúnaðarráðherra. Hann gegndi embættinu í tvö ár. Fyrra árið eða þingveturinn 2009 til 2010 lagði hann fram frumvarp til laga um breytingu á lögunum um framleiðslu, verðlagningu og sölu búvöru frá árinu 1993. Frumvarpið gufaði að einhverjum ástæðum upp eftir aðra umræðu en það er vissulega forvitnilegt að setja sig inn í þau viðhorf sem koma fram bæði í þingsal við aðra umræðu um framvarpið (sjá hér) og svo í því sem kom frá umsagnaraðilum um frumvarpið (sjá hér).

Mike Rowe um samhengi framleiðslu og þeirra sem vinna að henni

Þar er margt sem bendir til þess að það sé einhvers konar samhengi milli óhagganlegrar tiltrúar á þýðingu þess að ganga inn í Evrópusambandið og lélegs skilnings eða lítillar þekkingar á starfsskilyrðum og kjörum bænda. Það má benda á að meðal þingmannanna eru það einkum þingmenn Samfylkingarinnar sem voru upp á móti frumvarpi Jóns Bjarnasonar og verður ekki betur séð en viðhorf þeirra séu mjög í stíl þeirra viðhorfa sem einhverjir hafa haldið fram að hafi orðið Alþýðuflokknum að falli.

Fyrir þá sem ekki þekkja til má rifja það upp að Alþýðuflokknum gamla var gjarnan legið á hálsi fyrir „fjandsamleg“ viðhorf gagnvart landbúnaði og öðrum málaflokkum sem sumir vilja meina að séu einkamál landsbyggðarinnar. Þegar viðhorfalínur nútímans eru skoðaðar vekur reyndar athygli að þeir sem vilja skera niður allan kostnað skattgreiðenda vegna landbúnaðarframleiðslunnar eru gjarnan helstu málsvarar Evrópusambandsaðildar.

Hvort það stafar af ónógri þekkingu eða skorti á skilningi, sem þessir setja sig upp á móti framleiðslustýringu sem er að fyrirmynd sambandsins sem þeir telja sig væntanlega vera að vinna með, verður ekkert fullyrt. Það er þó útlit fyrir að andstæðingar stjórntækja til tekjutryggingar og/eða -jöfnunar meðal bænda hafi ekki náð að átta sig á hugtakinu „fæðuöryggi“ sem er líka innflutt eins og stjórntækið sem í daglegu tali hefur verið kennt við kvóta.

Fæðuöryggi John Salazar

Það er rétt að viðurkenna það að það fór mun meiri tími í þessa færslu en til stóð í upphafi. Ég vona að árangurinn sé sá að ég hafi getað komið mér undan því að fara beinlínis með rangt mál um það sem viðkemur sögunni sem liggur núverandi stöðu í landbúnaði til grundvallar. Í næstu færslu verður stiklað á embættissögu og stjórnsýslulegum ákvörðunum Sjávarútvegsráðuneytisins. Þessi og næsta færsla eru hugsaðar sem undanfari þess að menntun, þekking og reynsla sem liggur skipun núverandi og fyrrverandi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra verði bornar saman.

Heimildir um ráherra og ráðuneyti

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið: Ráðuneyti: Sögulegt yfirlit

Ríkisstjórnir og ráðherrar frá 1904-1942
Ríkisstjórnartal frá stofnun lýðveldis

Ráherraskipan í síðara ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttir
Ráðherrar í núverandi ríkisstjórn

Heimildir um lög sem varða landbúnaðinn

Aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum (austan- og norðanlands) (Fyrst lagt fram sem stjórnarfrumvarp. Flutningsmaður Hermann Jónasson)

Breyting á lausaskuldum bænda í föst lán (Fyrst lagt fram sem stjórnarfrumvarp. Flutningsmaður Ingólfur Jónsson)

Framleiðsluráð landbúnaðarins (Fyrst lagt fram sem stjórnarfrumvarp. Flutningsmaður Steingrímur Hermannsson) 

Lög um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum (lög nr. 99/1993)
Búnaðarlög
(lög nr. 70/1998)

Breyting á lögunum frá 2002 (samningur um framleiðslu og verðmyndun garð- og gróðurhúsaafurða)

Breyting á lögunum frá 2004 (samningur um framleiðslu og greiðslumark mjólkur)

Breyting á lögunum frá 2007 (samningur um framleiðslu og greiðslumark sauðfjárafurða)

Landbúnaður: Lög og reglugerðir (yfirlit á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins)

Aðrar heimildir sem varða sögu og þróun í landbúnaðinum

Úr sögu útflutningsbóta landbúnaðarins. Tímanum 21. júní 1991

Svar Halldórs Blöndal, sem landbúnaðarráðherra, um störf og skýrslu sjömannanefndarinnar

Ríkisendurskoðun: Framkvæmd búvörulaga 1988-1993 (mars 1994)

Fimmtíu ár frá því Framleiðsluráð landbúnaðarins tók til starfa: Stofnun á tímamótum. mbl.is. 29. júní 1997

Guðmundur Stefánsson. Landbúnaðarstefnan og búvörusamningar. 1998.

Framlenging búvörusamninga. amx.is. 18. apríl 2009
Framlengja búvörusamninga um 2 ár. mbl.is. 28. september 2012.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum (lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009-2010)
Viðbrögð við umsagnarbeiðnum um frumvarpið (27. ágúst 2010)

Jón Hartmann Elíasson. Áhrif hagsmunasamtaka bænda á stefnumótun og stefnuframkvæmd í landbúnaði. Október 2011


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband