Sjávaraútvegs- og landbúnaðarráðuneytið

Þá er komið að sjöunda hluta samanburðarins á menntun og starfreynslu þeirra sem gegna ráðherraembættum í núverandi ríkisstjórn og þeirra sem fóru með sömu málaflokka í síðustu ríkisstjórn. Viðfangsefnið að þessu sinni er samanburður á ferilskrám Steingríms J. Sigfússonar og Sigurðar Inga Kristjánssonar. Steingrímur J. Sigfússon hefur áður komið fyrir í þessum samburði þar sem menntun hans og starfsreynsla var borin saman við ferilskrá Ragnheiðar Elínar Árnadóttur sem gegnir embætti iðnaðar- og viðskiptaráðherra í núverandi ríkisstjórn.

Þessi færsla hefur átt sér annan og ýtarlegri aðdraganda en þær sex sem fóru á undan með sambærilegum samanburði. Meginástæðan er sú að þar sem hér er fjallað um það ráðuneyti sem fer með málefni grundvallaratvinnuveganna tveggja  þótti við hæfi að kafa dýpra í málefni þess en annarra ráðuneyta. M.ö.o. þá er óhætt að segja að ef ekki væri fyrir landbúnaðinn þá ætti íslenska þjóðin sér væntanlega hvorki tilveru né sögu aftur til ársins 874 og ef ekki væri fyrir sjávarútveginn þá ættum við hvorki sjálfstæðið né það tæknisamfélag sem við byggjum nú.

Bóndinn og sjómaðurinn

Í aðdraganda þessarar færslu hefur það því verið skoðað sérstaklega með hvaða hætti stjórnmálaflokkarnir og sú pólitík sem hér hefur skotið rótum hefur umgengist grundvallaratvinnugreinarnar tvær og komið fram gagnvart þeim sem eiga allt sitt undir þeim. Það er langt frá því að hægt sé að halda því fram að þessi athugun hafi verið fullunnin eða kláruð en það er óhætt að segja að hún skilaði vissulega ljósari mynd af því hver niðurstaða þess samanburðar sem haldið var af stað með í upphafi verður. Ein niðurstaðan er sú að sú stjórnmálasaga sem er fléttuð sögu og þróun þessara tveggja grunnatvinnugreina þjóðarinnar með pólitískum afskiptum kallar á frekari umfjöllun þó af henni verði ekki fyrr en síðar.

Hér verður byrjað á því að draga saman helstu atriði varðandi þá framleiðslustýringu sem stjórnvöld hafa sniðið bæði landbúnaðinum og sjávarútveginum á næstliðnum þrjátíu/fjörutíu árum. Í þessari samantekt verður byggt á því sem er komið fram í færslunum fjórum sem voru aðdragandi þessarar en einhverju verður bætt við. Fyrsta færslan fékk heitið Til kvótastýringar í landbúnaði og þá komu þrjár um sjávarútveginn. Það er e.t.v. rétt að taka það fram áður en lengra er haldið að þessir málaflokkar tilheyrðu lengst af sínu ráðuneytinu hvor.

Í fyrsta hlutanum um sjávarútvegsmálin var rakið hverjir hefðu verið fyrstir til að fara með sjávarútvegsmálin og hverjir hefðu setið lengst yfir sjávarútvegsráðuneytinu. Í öðrum hlutanum var stiklað á stóru yfir stjórnsýslulegar ákvarðanir í sjávarútvegi frá tíma fyrstu innlendu ríkisstjórnarinnar fram undir lýðræðisstofnunina. Í þeim þriðja var farið yfir nokkrar helstu ákvarðanir sem urðu til þeirrar stefnumörkunar sem síðar leiddi til kvótastýringarinnar. Hér á eftir verður þess freistað að kafa svolítið dýpra niður í umræðurnar um kvótann á árunum 1983 - 2012.

Þrjú á sjó

Áður en lengra verður haldið er hins vegar freistandi að vitna í þingræðu Einars Olgeirsson um milliliðagróða frá árinu 1955. Þar segir hann m.a. þetta um stöðu landbúnaðarins og útgerðarinnar gagnvart því hagsmunastýrða markaðskerfi sem þessir grundvallaratvinnuvegir þjóðarinnar hafa liðið fyrir:

Öll þau eðlilegu lögmál í kapítalistísku þjóðfélagi eru gersamlega skert, sett út úr gildi, og sjálfir framleiðsluatvinnuvegirnir, sjávarútvegurinn, landbúnaðurinn, mikill hluti iðnaðarins, eru gerðir að styrkþegum og verzlunarauðvaldið raunverulega látið ráða því, hvort og að hve miklu leyti útgerðin er rekin. (sjá hér

Síðar í ræðu sinni heldur hann því fram að það séu verslunar- og fjármálaauðvaldið á Íslandi sem beiti ríkisvaldinu til að koma í veg fyrir að hér ríki „almennt kapítalistískt frelsi“. Með öðrum orðum heldur Einar Olgeirsson því fram þegar árið 1955 að markaðinum og því hvar hagnaðurinn af verðmætasköpuninni lendir sé handstýrt af ríkisvaldinu sem leggur sig í líma við að þóknast þeim ríkustu (sjá hér).

Handstýring matvælaframleiðslunnar

 

Eins og síðustu bloggfærslum var ætlað að undirstrika varð núverandi kvótastýring í landbúnaði og sjávarútvegi ekki til á einni nóttu heldur á hún sér aðdraganda í stjórnsýslulegri afstöðu áratugina á undan. Þar áttu aðgerðir og aðgerðarleysi nokkuð jafna hlutdeild í því að ójafnvægið jókst frekar en hitt. Kvótanum var ætlað að verða það verkfæri sem sæi um að leiðrétta það.

 

Fjórum árum eftir að fyrstu drög að kvótastýringu landbúnaðarframleiðslunnar var komið á var sams konar aðferðarfræði komið upp í sjávarútveginum. Tveimur áratugum síðar hafði þeim árangri verið náð að fækkun bænda var orðin staðreynd (sjá hér). Sá árangur sem náðist með kvótakerfinu í sjávarútveginum kom fram í gífurleg byggðaröskun samfara því að aflaheimildir höfðu safnast á sífellt færri útgerðarfyrirtæki. Sá tilgangur að sporna gegn ofveiði hefur hins vegar enn ekki náðst.

 

Það markmið að ná niður framleiðslukostnaði í báðum greinum hefur heldur ekki náðst. Skýringin liggur væntanlega að einhverju leyti í þeirri fjölgun stofnana og starfsmanna sem hefur verið ætlað að sjá til þess að kvótaverkfærin virkuðu. Áður en lengra er haldið er tímabært að draga það betur fram hverjir fóru með ráðuneyti þessara málaflokka þegar þeir voru settir undir kvótastýringakerfið og eru þar af leiðandi stærstu gerendurnir gagnvart þeirri þróun sem hefur orðið. Hér verður byrjað á landbúnaðinum.

 

Kvótafrömuðurnir í landbúnaðinum

 

Steingrímur Hermannsson, var landbúnaðarráðherra árin 1978-1979 í síðara ráðuneyti Ólafs Jóhannessonar (sjá hér). Árið 1978 mælti hann fyrir frumvarpi sem varð að lögum árið 1979 (sjá hér). Þar var í fyrsta skipti sett inn í íslenska löggjöf ákvæði til framleiðslustýringar með framleiðslutakmarkandi aðgerðum; svokallað búmark eða kvóti. 

 

Jón Helgason, var ráðherra landbúnaðarmála í fyrsta ráðuneyti Steingríms Hermannssonar á árunum 1983 til 1987 (sjá hér) og svo áfram í ráðuneyti Þorsteins Pálssonar 1987-1988 (sjá hér). Í lögunum nr. 46/1985 sem sett voru í ráðherratíð hans voru ýmsir stefnumarkandi þættir til framleiðslustýringar en stærsta og afdrifaríkasta breytingin var sú að með þeim varð landbúnaðarráðherra æðstráðandi í öllum málefnum landbúnaðarins (sjá hér).

 

Steingrímur J. Sigfússon, var landbúnaðarráðherra í öðru og þriðja ráðuneyti Steingríms Hermannssonar eða á árunum 1988-1991. Það var í ráðherratíð hans sem sjömannanefndin var skipuð fulltrúum aðila vinnumarkaðarins ásamt fulltrúum Stéttarsambands bænda og Landbúnaðarráðuneytisins. Búvörusamningurinn sem var undirritaður í mars 1991 markaði tímamót þar sem í honum var gengið enn lengra til kvótastýringar í landbúnaðinum auk þess sem útflutningsbætur á landbúnaðarafurðir voru felldar niður (sjá hér)

 

Halldór Blöndal, tók við embætti landbúnaðarráðherra í nýrri stjórn Davíðs Oddssonar vorið 1991 og gegndi því embætti til vorsins 1995 (sjá hér). Ári eftir að hann tók við embætti var mjólkurframleiðslan sett undir sama kvótastýringartækið og sauðfjárræktin hafði verið sett undir samkvæmt tillögum áðurnefndrar sjömannanefndar. Núgildandi lög um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvöru (99/1993) voru einnig að tillögum sjömannanefndarinnar sem starfaði undir forystu Steingríms J. Sigfússonar í Landbúnaðarráðuneytinu þó þær yrðu ekki að lögum fyrr en í embættistíð Halldórs Blöndals.

 

Hér að ofan hefur aðeins verið stiklað á allra helstu atriðum en þeim sem vilja kynna sér það enn frekar hvað liggur þessari samantekt til grundvallar skal bent á að ýtarlegri yfirferð er að finna í bloggfærslunni: Til kvótastýringar í landbúnaði. Þar kemur líka fram að einn þeirra sem hvað lengst hefur setið í landbúnaðarráðuneytinu er Guðni Ágústsson. Hann stýrði ráðuneytinu í alls átta ár eða á árunum 1999-2007 en þá var Davíð Oddsson forsætisráðherra (sjá hér).

 

Núgildandi búvörusamningar um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurðastarfsskilyrði sauðfjárræktar og starfsskilyrði mjólkurframleiðslu grundvallast á þeirri framleiðslustýringarleið sem Steingrímur Hermannsson, Jón Helgason, Steingrímur J. Sigfússon og Halldór Blöndal áttu þátt í að festa í sessi en samningarnir voru allir gerðir í ráðherratíð Guðna Ágústssonar í Landbúnaðarráðuneytinu.

 

Kvótafrömuðurnir í sjávarútveginum

 

Halldór Ásgrímsson, var sjávarútvegsráðherra á árunum 1983 til 1991 eða í öllum þremur ráðuneytum Steingríms Hermannssonar (sjá hér) og ráðuneyti Þorsteins Pálssonar. Þegar Steingrímur Hermannsson skipaði hann í fyrsta skipti yfir Sjávarútvegsráðuneytinu árið 1983 lagði hann honum kvótafrumvarpið til í veganesti. Þó hvorugur ríkisstjórnarflokkanna hefði haft það að stefnumáli „að taka upp kvótafyrirkomulag við stjórnun fiskveiða“ (sjá hér) beið Halldór ekki boðanna og lagði frumvarpið fram í desember sama ár og hann var skipaður. Tólf dögum síðar lá fyrir samþykki Alþingis á frumvarpinu og varð það að lögum í byrjun árs 1984 (sjá hér). 

 

Sex árum síðar lagði Halldór Ásgrímsson fram annað kvótafrumvarp undir lok embættisferils síns í Sjávarútvegsráðuneytinu. Þegar fyrsta frumvarpið var lagt fram var því m.a. ýtt áfram með fullyrðingum um að það væri aðeins til eins árs reynslu en yrði tekið til rækilegrar endurskoðunar í framhaldinu. Með seinna frumvarpinu var þó gegnið enn lengra í því að gera það löglegt sem einkum þótti koma illa út í því fyrra. Hér er átt við framseljanlegan kvóta og það að binda hann frekar við skip en byggðarlög (sjá lögin hér). Yfirlýst markmið fyrra frumvarpsins var m.a. að stemma stigu við ofveiði en og var því haldið til streitu í nýja frumvarpinu þó þetta markmið hefði fullkomlega mistekist fram að því.

 

Þorsteinn Pálsson, var sjávarútvegsráðherra á árunum 1991 til 1999 eða í tveimur fyrstu ráðuneytum Davíðs Oddssonar (sjá hér). Í lögum 83/1995 er framsal á kvóta gert endanlegt (sjá hér) og með lögum 75/1997 er heimilt að veðsetja afla (sjá hér).

 

Árni M. Mathiesen fór fyrir Sjávarútvegsráðuneytinu á árunum 1999 til 2005 eða í þriðja og fjórða ráðuneyti Davíðs Oddssonar (sjá hér) og ráðuneyti Halldórs Ásgrímssonar. Í hans ráðherratíð var kvótastýringin fest enn frekar í sessi með því að veiðar minni fiskiskipa (sjá hér) og fleiri fiskveiðitegunda (sjá hér) var sett undir sama handstýriverkfærið. Hér er átt við veiðar úr fiskveiðistofnum eins og: keilu, löngu, skötusel, kolmunna og veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum .

 

Miðað við það sem haft er eftir Árna M. Mathiesen í upphafi árs 1999 var hann einlægur aðdáandi kvótakerfisins þar sem hann segir að: „kvótakerfið á Íslandi [sé] eina fiskveiðistjórnunarkerfið við norðanvert Atlantshafið, sem [stendur] undir hagkerfi einnar þjóðar og stærsta og besta röksemdin fyrir því að Íslendingar [eigi] að byggja á núgildandi kerfi, [sé] árangurinn sem náðst hefur.“ (sjá hér)

 

Einar K. Guðfinnsson tók við Sjávarútvegsráðuneytinu á tíma Halldórs Ásgrímssonar í forsætisráðuneytinu. Hann fór með embættið í báðum ráðuneytum Geirs H. Haarde (sjá hér) og sat því yfir sjávarútvegsmálunum í fjögur ár eða frá 2005 til 2009. Á árunum 2007-2009 var hann líka yfir landbúnaðarmálunum eftir að ráðuneyti þessara málaflokka höfðu verið sameinuð árið 2007 (sjá hér). Núgildandi lög (116/2006) um stjórn fiskveiða voru lögð fram af honum.

 

Steingrímur J. Sigfússon var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í fyrsta ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur (sjá hér) og svo aftur frá 2012-2013 (sjá hér). Þrátt fyrir yfirlýsta stefnu beggja flokka, í síðustu ríkisstjórn, um rækilega endurskoðun og uppstokkun  á fiskveiðistjórnunarkerfinu um að „leggja grunn að innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda á 20 ára tímabili“ (sjá hér) varð árangurinn ekki annar en sá að festa kvótakerfið í sjávarútvegi enn frekar í sessi með því að „viðhalda forgangi þeirra sem fyrir eru í greininni“ eins og Jóhann Ársælsson fyrrum flokksbróðir ráðherrans orðaði það í grein sem hann skrifaði á eyjan.is í maí 2012 (sjá hér). Jóhann heldur áfram og segir:

Umræðan hefur ekki  snúist um grundvallarsjónarmiðin um það hvernig aðgangi að sameiginlegum gæðum skuli fyrir komið og það hvernig útgerðarmenn framtíðarinnar geti starfað á jafnræðisgrundvelli. Nei, hún hefur snúist um hve mikið eigi að láta útgerðina borga fyrir að fá að njóta forgangs [...]. Og samningaviðræður Steingríms J. við útgerðarmenn  eru farnar að fara fram í fjölmiðlum um hvað reikningurinn megi vera hár. Umræðan hefur  sannað að auðlindarentuleið Steingríms er handónýt. (sjá hér)

Gagnrýni á handstýringu matvælaframleiðslunnar 

Auðvitað voru þeir þó nokkrir sem gagnrýndu innleiðingu framleiðslustýringarinnar bæði í landbúnaði og sjávarútvegi. Í meginatriðum eru mörg atriðanna sem sett var út á varðandi búmarkið og aflamarkið mjög sambærileg. Þó vekur athygli hversu fáir þingmenn tóku raunverulega stöðu með málstað bænda í umræðunni um það að draga úr landbúnaðarframleiðslunni og fækka þar með bændum árið 1979 (sjá feril málsins hér hér).

Þetta er eflaust til marks um þá kúvendingu sem hafði orðið í samfélaginu þar sem bændur voru ekki lengur meðal þeirra stétta sem áttu sterk ítök á Alþingi enda þeir orðnir fáir meðal þingmanna sem áttu uppruna sinn í sveitum landsins. Frumvarp Steingríms Hermannssonar var þó gagnrýnt fyrir skort á bæði stefnumörkun og fyrirhyggju.

Réttir í Þistilfirði

Hún var aftur á móti töluvert líflegri andstaðan sem frumvarp Halldórs Ásgrímssonar um aflamarkið mætti fjórum árum síðar (sjá feril málsins hér). Það má einkum greina þrjú meginatriði í þeirri gagnrýni sem kom fram. Eitt þeirra var sami skortur og í frumvarpinu um búmarkið fjórum árum áður.

Stjórnarþingmaðurinn, Guðmundur H. Garðarsson, var einn þeirra sem varaði mjög við aflamarksfrumvarpinu og lýsti því yfir áður en kom að atkvæðagreiðslunni um það að hann gæti ekki samþykkt það. Rökin sem hann tilgreinir draga fram á skýran hátt helstu ástæður sem komu annars fram í málflutningi stjórnarandstöðunnar:

Þar sem ekki liggja fyrir nauðsynleg frumgögn né fastmótaðar hugmyndir um hugsanlega útfærslu veiða í fiskveiðilandhelgi Íslands samkv[æmt] framlögðu fr[um]v[arpi], 143. máli, þrátt fyrir miklar umr[æður] á Alþingi og eindregnar óskir margra h[átt]v[irtra] alþ[ingis]m[anna] þar um, og þar sem ekki liggur fyrir hvernig leysa skuli gífurleg óleyst rekstrarvandamál útgerðarinnar, sem munu verða enn meiri við kvótakerfi í veiðum, þá get ég ekki á þessu stigi veitt þessu fr[um]v[arpi] brautargengi og mun haga atkv[æði] mínu s[am]kv[æmt] því, (sjá hér)

Annað sem sætti harðri gagnrýni var tíminn sem kvótafrumvarpi Halldórs Ásgrímssonar var sniðinn. Þar var sett út á þann takmarkaða tíma sem umræðunum var ætlaður með síendurteknum næturfundum. Í því sambandi var ríkisstjórnin og þá einkum sjávarútvegsráðherra sökuð um að keyra málið fram af áður óþekktri hörku (sjá hér). Í þessu samhengi má minna á að þetta afdrifaríka frumvarp var ekki tekið til fyrstu umræðu í neðri deild fyrr en að áliðnu kvöldi. 

Ég held, herra forseti, að það sé ekkert dæmi í þingsögu síðari ára, og má þó fara langt aftur í tímann, þar sem hafin er umr[æða] svo síðla kvölds um jafnveigamikið stj[órnar]fr[um]v[arp] og síðan ætlast til þess að hún haldi áfram langt fram á morgun. Það er held ég megi fullyrða algerlega án nokkurs fordæmis í þingsögu. [...] Ég bið hæstv[irtan] ráðh[erra] að vera ekki að setja þ[ing]m[enn] í þær stellingar að þurfa að taka á þessu stórmáli með þessum hætti. Ef hæstv[irtur] ráðh[erra] gerir það vekur það óneitanlega grunsemdir um að það eigi að fara að þvinga þessa umr[æður] í gegn með óeðlilegum aðferðum. (sjá hér)

Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi þingmaður Alþýðubandalagsins, á þessi orð en hann átaldi ekki aðeins ítrekað þann þrönga tímaramma sem frumvarpinu var sniðinn heldur líka valdaframsalið sem það fól í sér og er það þriðja atriðið sem sætti harðri gagnrýni þeirra þingmanna sem settu út á frumvarpið.

Þess vegna er alveg ljóst að samkv[æmt] eðli þessa fr[um]v[arps] er verið að veita ríkisvaldinu mun meiri möguleika en það hefur haft nokkru sinni til að knýja fram breytingar á eigna- og rekstrarskipulagi í íslenskum sjávarútvegi. [...] aldrei fyrr hefur pólitískt vald fengið aðra eins viðspyrnu til þess að ráðskast með hagkerfi þjóðarinnar.

[...] þetta fr[um]v[arp] stefnir svo nærri ríkisdrottnun í sjávarútvegi [...] Ég sé ekki að stjórnunarvandi sjávarútvegsins nú sé með þeim hætti að Alþingi eigi að veita ráðh[erra] slíkt óskorað, ótakmarkað, óskilyrt vald sem hér er kveðið á um. [...] ég undrast nokkuð að einn ráðh[erra] skuli hafa áhuga á að fá slíkt vald, að einn maður skuli hafa áhuga á að fá vald sem leggur í lófa hans fjöregg flestra byggðarlaganna í kringum landið. Sá ráðh[erra] má vanda sig vel til þess að það egg falli ekki úr lófa hans og brotni með illum afleiðingum fyrir hvert byggðarlagið á fætur öðru. (sjá hér (leturbreytingar eru höfundar)

Fiskverkunarfólk

Alþýðuflokksþingmaðurinn, Guðmundur Einarsson, gagnrýndi frumvarpið harðlega. Í gagnrýni hans á frumvarpið bendir hann á að það sé viðbrögð til  „að aðlaga útgerð og fiskveiðar í landinu að vitleysum sem hafa verið gerðar á undanförnum árum.“ Hann leyfir sér hins vegar að efast um að yfirlýstur tilgangur þess náist frekar en með kvótalaginu í landbúnaðinum. 

Ef við lítum aðeins á aðra búgrein þar sem kvótakerfi var komið á, sem er landbúnaðurinn, þá virðist mér ljóst að kvótakerfi í landbúnaði leysti þar engan sérstakan vanda nema hluta af offramleiðsluvandanum. Það virðist ekki hafa leitt til lækkaðs framleiðslukostnaðar eða bættrar stöðu bændastéttarinnar. Það hefur ekki haft í för með sér þá hagræðingu. (sjá hér)

Búvörulögin sem voru innleidd árið 1985 festu það framleiðslustýringarkerfi sem kennt hefur verið við kvóta enn frekar í sessi. Við meðferð og afgreiðslu frumvarpsins á Alþingi var bent á ýmis  líkindi með aflamarksfrumvarpinu frá árinu 1983. Þar má nefna þann nauma tíma sem frumvarpinu var sniðinn en ekki liðu nema átta dagar frá því að frumvarpið kom til fyrstu umræðu í neðri deild Alþingis þar til það var samþykkt sem lög frá efri deild (sjá feril málsins hér).

Með lögunum var landbúnaðarráðherra fært sama vald yfir málefnum landbúnaðarins og aflamarksfrumvarpið hafði gefið sjávarútvegsráðherra í málefnum sjávarútvegsins tæpum tveimur árum áður. Á þetta var bent í þeirri gagnrýni sem kom fram á frumvarpið í umræðum um málið auk þess sem varað var við neikvæðum áhrifum framvarpsins á afkomu bænda og þróun byggðar í landinu.

Í meginatriðum voru þau atriði, sem tínd voru fram af gagnrýnendum frumvarpsins á Alþingi, mjög efnisskyld þeim sem höfðu komið fram í umræðunum um kvótakerfið í sjávarútveginum um einu og hálfu ári áður. Milliliðirnir, sem hafa frá því afurðasölulögin voru sett, í stjórnartíð Hermanns Jónassonar, blómstrað í þeim hlutverkum að fullvinna og miðla afurðum bænda til neytenda, fengu reyndar sinn skammt af gagnrýni líka (sjá hér).

Sláttur

Þegar rýnt er ofan í umræðuna um búvörulögin frá vorinu 1985 má gera ráð fyrir að það veki athygli hversu yfirgripslítil þekking þingmanna á málefnum landbúnaðarins eru ekki síður en sú fjarlægð sem er að finna í málflutningi þingmanna gagnvart kjörum bændastéttarinnar. Ragnar Arnalds, þingmaður Alþýðubandalagsins gerir reyndar heiðarlega tilraun til að draga saman einhverja mynd af þáverandi kjörum stéttarinnar og afleiðingum laganna á afkomu hennar:

[...] þegar haft er í huga í hvern vanda ríkisstj[órnin] hefur komið bændastéttinni [í] á þann hátt sem ég hef nú lýst og með vaxtastefnu sinni alveg sérstaklega, sem ekki á þarna minnsta sök þá sér maður ekki annað en að samþykkt þessa fr[um]v[arps] verði eitthvert mesta óhappaspor sem nokkurn tíma hefur verið stigið hér á landi gagnvart bændastéttinni og að það hljóti að leiða til gífurlegra þrenginga víða um land meðal bænda með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. (sjá hér

Það lifnaði hins vegar yfir umræðunni þegar kom að því að gera kvótakerfið að lögboðnu framleiðslustýringarkerfi við stjórn fiskveiða árið 1990 (sjá feril málsins hér). Gagnrýnin var að vonum nokkuð sambærileg því sem áður hafði komið fram en mesta athygli vakti hversu harðorður einn stjórnarþingmaður, Karvel Pálmason, var í garð frumvarpsins þar sem hann sagði m.a. að kvótakerfið væri: „helstefna gagnvart þeim landsvæðum sem fyrst og fremst byggja á sjávarútvegi og fiskvinnslu“ (sjá hér)

Guðmundur H. Garðarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem hafði verið svo mjög á móti frumvarpinu sex árum áður hafði algerlega snúist í afstöðu sinni til frumvarpsins en flokksbróðir hans, Þorvaldur Garðar Kristjánsson, var aftur á móti mjög gagnrýninn á kerfið. Hann hafði m.a. þetta út á framleiðslustýringarkerfið að setja:

Annmarkar kvótakerfisins færast meir og meir í aukana. Stöðugt verður augljósara að með kvótakerfinu næst ekki tilgangurinn með fiskveiðistefnu, hámarksafrakstur fiskveiða og verndun fiskstofnanna. Alltaf verður þungbærara að kvótakerfinu fylgir kostnaður langt umfram það sem þarf til þess að bera að landi það aflamagn sem kostur er á.

Af þessum ástæðum er ekki einungis sjómannshluturinn æ rýrari og útgerðin lakar sett en vera þarf. Þess vegna verður framleiðslukostnaður hráefnis til fiskvinnslunnar meiri en nauðsyn krefur. Af því leiðir að útflutningsframleiðslan kallar á sífellt lægra gengi krónunnar. Það leiðir hins vegar til hærra og hærra verðs á lífsviðurværi almennings. Þannig dregur kvótakerfið dilk á eftir sér. Það er þjóðin í heild sem verður að axla byrðarnar af kvótakerfinu í stöðugt lakari lífskjörum en vera þyrfti. (sjá hér (leturbreytingar eru höfundar)

Löndun

Það vakti athygli annarra þingmanna að Matthías Bjarnason, var ekki viðstaddur atkvæðagreiðslu frumvarpsins úr Efri deild og varð það til þess að ýmsir gáfu sér afstöðu hans í málinu. Hann tók tvisvar til máls við umræðurnar um frumvarpið. Þar tók hann það m.a. fram að honum þætti vanta að fiskvinnslustöðvum og verkafólki „og allir þeir sem eiga lífsafkomu sína undir þeim byggi á traustari atvinnugrundvelli“ (sjá hér). Afstaða hans til þeirrar framleiðslustýringar sem var innleidd með kvótakerfinu ætti ekki að dyljast neinum í þessum orðum:

Á sama tíma og frelsisalda fer um heiminn og öfl kúgunar sem hafa ráðið í fjölmörgum ríkjum eru að víkja úr vegi fyrir frelsi þá erum við að taka upp enn þá harðari skömmtun. Ég á ekki við það að hér sé verið að taka upp aðferðir við að kúga menn eða taka af þeim öll réttindi, eins og hefur verið hjá mörgum þessara þjóða, en hitt fer ekki á milli mála að það sem við höfum verið að fordæma á undanförnum árum, það sem við höfum verið að ganga út úr og stefna í frjálsræðisátt, frá því er nú verið að ganga með þessari miðstýringu allri í atvinnumálum þjóðarinnar, sérstaklega í sjávarútvegi og landbúnaði. (sjá hér)

Steingrímur J. Sigfússon var á þingi 1983 og 1985

Eins og kom fram í bloggfærslunni um Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið í þessu verkefni þá hefur Steingrímur J. Sigfússon setið inni á Alþingi frá vorinu 1983 en það var í desember það sama ár sem Halldór Ásgrímsson lagði fram frumvarp um nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi byggt á kvótaúthlutun. Steingrímur var í stjórnarandstöðu á þessum tíma ásamt Alþýðubandalaginu en Framsókn og Sjálfstæðisflokkur voru í stjórn (sjá hér).

 

Steingrímur J. var hins vegar ekki kominn inn á þing þegar Steingrímur Hermannsson lagði fram fyrsta frumvarpið til framleiðslustýringar í landbúnaðinum með aðferðum kvóta en hann var enn í stjórnarandstöðu þegar Jón Helgason lagði fram frumvarp til búvörulaga árið 1985.

 

Fiskvinnsla

Árið 1983 lagði Halldór Ásgrímsson fram það kvótafrumvarp sem átti að verða til reynslu í eitt ár. Það sem vekur athygli við umræðurnar um frumvarpið í neðri deild er að tvær breytingartillögur komu fram við það frá stjórnarandstöðunni. Hvorug þeirra fékk umfjöllun í sjávarútvegsnefndinni. Rökin voru þau að þær væru of seint fram komnar. Þegar kom til atkvæðagreiðslu um þær voru báðar felldar.

Fyrri breytingartillagan var frá Kjartani Jóhannssyni og voru meðflutningsmenn hans: Guðmundur Einarsson, flokksbróðir hans og Kristín Halldórsdóttir, þingmaður Kvennalistans. Önnur breytingartillagan var frá nýjum þingmanni Alþýðubandalagsins, Steingrími J. Sigfússyni og flokksbræðrum hans þeim Hjörleifi Guttormssyni (á þingi frá 1978 til 1999) og Geir Gunnarssyni (á þingi frá 1959 til 1991), en Steingrímur J. flutti.

Þriðja breytingartillagan við frumvarpið var gerð í efri deild og kom frá Skúla Alexanderssyni, flokksbróður Steingríms J., en meðflutningsmenn hans eru tveir þingmenn Alþýðuflokks og einn þingmaður Kvennalistans.

Í fljótu bragði er ekki að sjá allan mun á breytingartillögunum þremur og tæplega nokkuð sem stangast á. Það sem greinir tillögu Steingríms J. einkum frá hinum tveimur er að þar er lagt til að ráherra „skipi nefnd til að fjalla um framkvæmd fiskveiðistefnu“ sem er skipuð fulltrúum „fiskverkenda, útgerðarmanna, sjómanna og verkafólks í fiskvinnslu samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.“ (sjá hér)

Í grundvallaratriðum snerust breytingartillögurnar þrjár um að draga úr því alræði sem sjávarútvegsráðherra var gefið í fiskveiðistjórnunarmálum þjóðarinnar samkvæmt frumvarpi Halldórs Ásgrímssonar og setja kvótafyrirkomulaginu sjálfu skýrari lagaramma. Þetta voru líka þau meginatriði sem stjórnarandstaðan setti fram í gagnrýni sinni á frumvarpið. Afstaða þingmanna til frumvarpsins réðist reyndar ekki eingöngu af því hvar þeir stóðu í flokki heldur spiluðu aðrir þættir greinilega inn í.

Þannig var Alþýðubandalagsmaðurinn, Garðar Sigurðsson, einn af áköfustu málsvörum framvarpsins (sjá t.d. hér) en Sjálfstæðismaðurinn Guðmundur H. Garðarsson var hins vegar mjög mótfallinn því og þá einkanlega því alræðisvaldi sem sjávarútvegsráðherra var ætlað að hafa yfir málefnum sjávarútvegsins (sjá hér)

Fiskverkafólk á Raufarhöfn

Á öðrum degi fyrstu umræðu sem fram fór þ. 14. desember 1983 vekur Steingrímur athygli á valdatilfærslunni og gagnrýnir eins og fleiri höfðu gert á undan honum:

Alþingi er ekki með umr[æðum] um þetta fr[um]v[arp] að taka afstöðu til fiskveiðistefnu á Íslandi, heldur er hér farið fram á að ráðh[erra] verði falið mjög víðtækt vald til að móta stefnuna og nær undantekningarlaust vald í ljósi þeirra aðstæðna sem nú ríkja í fiskveiðum á Íslandi.  [...]

Það er mín persónulega skoðun að það sé Alþingis fyrst og fremst að móta heildarstefnu í auðlindanýtingu þjóðarinnar. Ég lít á auðlindirnar sem sameign íslensku þjóðarinnar og þá er ekki annar aðili betur til þess fallinn en Alþingi sjálft að fjalla þar um. Þess vegna finnst mér það alvarlegt skref ef Alþingi segir nú við hæstv[irtan] ráðh[erra]: Gjörðu svo vel, hér eru sjávarútvegsmál, hér er mikilvægasta auðlind íslensku þjóðarinnar, fiskveiðin, gjörðu svo vel, herra ráðherra. Það væru mikil tíðindi ef slíkt væri samþykkt á Alþingi Íslendinga. (sjá hér)

Við aðra umræðu í neðri deild mælir Steingrímur J. fyrir breytingartillögunni (sjá hér) sem áður hefur verið vísað til. Hann kom svo upp aftur við framhald hennar sama dag þar sem hann gerir tilraun til að útskýra í hverju munurinn á breytingartillögunum liggur auk þess að ítreka spurningar sínar sem hann hefur lagt fyrir þáverandi sjávarútvegsráðherra. Spurningarnar eru í tíu liðum og „vörðuðu að mestu leyti framkvæmdaatriði“ (sjá hér) þeirrar fiskveiðistefnu sem frumvarp Halldórs Ásgrímssonar gerði ráð fyrir að farin yrði  

Daginn eftir, eða 17. desember, var frumvarpið komið til þriðju umræðu í neðri deild og afgreitt þaðan sama dag. Steingrímur J. kom upp í ræðustól Alþingis og ítrekaði margt það sem hann hafði sagt áður. Þar segir hann m.a. um aflakvótann:

Ég hefði talið það eðlilegast og raunar alveg nauðsynlegt að aflakvóti yrði á einhvern hátt bundinn við löndunarstað eða atvinnusvæði, þannig að ekki gæti á tiltölulega skömmum tíma raskast verulega atvinnuástand og umsvif á einum stað vegna mikils flutnings á aflakvóta til eða frá staðnum. Væri óæskilegt og mjög hættulegt ef unnt væri að gera slíkt í krafti peningavalds. Þess vegna er það mín eindregin skoðun að varast beri slíkar hugmyndir. (sjá hér)

Kýr í haga

Þegar Jón Helgason lagði fram frumvarp að búvörulögunum einu og hálfu ári síðar var Steingrímur J. Sigfússon einn þeirra sem gagnrýndu frumvarpið þó hann gengi ekki jafnlangt og tveir þingmenn Alþýðuflokksins sem mæltust til þess að frumvarpinu væri hreinlega vísað frá (sjá hér). Í máli Steingríms J. er ekki að sjá að hann sé í sjálfu sér mótfallinn miðstýringu á landbúnaðarframleiðslunni en hann gagnrýnir að valdið yfir málaflokknum skuli allt eiga að vera í höndum landbúnaðarráðherra.

Valdið færist til landb[únaðar]r[áð]h[erra] frá öðrum aðilum. Þetta er ákaflega sérkennileg árátta hæstv[irts] ráðh[erra] í þessari ríkisstj[órn] og hér hefur hæstv[irtur] landb[únaðar]r[áð]h[erra] fetað dyggilega í spor flokksbróður síns, hæstv[irts] sj[ávar]útv[egs]r[áð]h[erra], sem eins og kunnugt er hefur róið að því öllum árum undanfarin tvö ár að ná til sín sem allra mestu einræðisvaldi í sjávarútvegi á Íslandi, dyggilega studdur af einkaframtaksmönnum Sjálfst[æðis]fl[okksins]. Hér er sem sagt uppi á teningnum það sama í landbúnaðarmálunum og er nokkuð merkilegt. (sjá hér)

Í þessari sömu ræðu lýsir hann líka yfir áhyggjum af því hvaða áhrif tilfærsla á útflutningsbótum til bænda muni hafa á byggðaþróun í landinu.

Eitt aðalatriðið í þessu fr[um]v[arpi] varðar framleiðslustjórnunina og þá ákvörðun að draga úr útflutningsuppbótum á landbúnaðarvörum. Að vísu á að verja þeim, eins og ég áður sagði, að hluta til í annað en á heildina litið verður mikill samdráttur í útflutningsbótum. Sá samdráttur kemur að sjálfsögðu, eins og fróðir menn vita, til viðbótar þeim mikla framleiðslusamdrætti sem þegar er orðinn. [...] Ég held að það sé á engan hátt séð fyrir endann á þeim afleiðingum sem það mun hafa fyrir búsetuna í landinu og fyrir íslenskan landbúnað. (sjá hér)

Í ræðum sínum gagnrýnir hann líka tímann og málatilbúnað allan þar sem hann bendir á að þingmenn og aðrir sem málið varðar hafi fengið lítinn tíma til að kynna sér frumvarpið. Hann margítrekar þann vilja sinn að skipuð verði „vinnunefnd allra flokka“ til að fara yfir frumvarpið „í samráði við bændur og aðra hagsmunaaðila“ og vinna það á því sumri sem er framundan (sjá t.d. hér)

Við aðra umræðu var mælt fyrir þremur nefndarálitum landbúnaðarnefndar þar sem hún reyndist þríklofin í afstöðu sinni til frumvarpsins. Steingrímur J. Sigfússon mælti fyrir allýtarlegu séráliti þar sem hann endurtók margt af því sem hann hafði látið koma fram við fyrstu umræðu um frumvarpið og las upp athugasemdir ýmissa umsagnaraðila. Áður en kom að álitinu sjálfu benti hann á eftirfarandi:

Mér finnst í þessu fr[um]v[arp] ekki fara mikið fyrir því að h[æst]v[irtur] stjórnarmeirihluti hafi peningavit. Það er nokkuð einkennilegt þegar þjóðin á allar þessar stofnanir og alla þessa sérfræðinga [...] að ekki skuli reynt að líta til þess hvaða fjárhagslegar stærðir eru á ferðinni, það skuli einstakir n[efndar]m[enn] þurfa að toga það upp úr mönnum utan úr bæ hve margra hundraða milljóna útgjaldaauka sé verið að tala um hér [...]

það er nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því að við búum við ákveðnar staðreyndir sem þýðir ekkert að horfa fram hjá. Það er þá spurningin hvernig best verður unnið úr þeirri stöðu sem fyrir liggur. [...] Það mun koma víðar við en í sveitunum og það mun sýna sig að víðar hefur verið fjárfest í tengslum við ákveðna framleiðslu og ákveðið munstur en bara í sveitunum. Skyldu ekki jafnvel hér á Reykjavíkursvæðinu sjást þess merki að landbúnaðurinn hefur staðið undir mikilli fjárfestingu og að byggst hefur upp utan um þá framleiðslu mikil þjónusta og mikil fjárfesting?[...]

Eins og ég áður sagði finnst mér ekki tekið tillit til þeirra raunverulegu aðstæðna sem við er að búa víða í sveitum þegar menn starfa að lagasmíð um átak í nýjum búgreinum og samdrátt í framleiðslunni. Það hefði einnig verið gaman ef stjórnarmeirihlutinn hefði haft meira vit á íslenskum iðnaði og hefði gert sér grein fyrir því að ein blómlegasta grein íslensks iðnaðar byggir á hráefnum frá landbúnaðinum. [...]

Það er ákaflega merkileg stund þegar Frams[óknar]fl[okkurinn] leggur það til, herra forseti, að fara að draga úr og næstum því falla frá útflutningsuppbótum á landbúnaðarafurðir. Ég er ekki að segja að það hefði verið hægt að búa þar við óbreytt ástand, en ég hefði reynt að hafa þennan stiga ekki svona brattan. [...] (sjá hér)

Kjötborð

Nafn Steingríms J. Sigfússonar kemur ekki frekar við sögu í umræðunni um þetta mál nema til að svara túlkun Halldórs Blöndal á málflutningi hans (sjá hér) og gera athugasemdir við orðalag einstakra greina sem bornar voru undir atkvæðagreiðslu (sjá t.d. hér). Frumvarpið var að lokum afgreitt út úr neðri deild með 20 atkvæðum á móti þremur.

Átta dögum eftir að frumvarpið til laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum var tekið til fyrstu umræðu í neðri deild var það afgreitt sem lög út úr neðri deild með 10 atkvæðum gegn sjö. Þó hér hafi verið horft til þeirra athugasemda sem Steingrímur J. Sigfússon gerði við innihald frumvarpsins og til sambærilegs framleiðslustýringarfrumvarps sem snertir sjávarútvegsins verður botninn sleginn í þetta með að vitna til ræðu flokksbróður Steingríms, Skúla Alexanderssonar, þar sem hann hefur eftir orðum Guðmundar P. Valgeirssonar, bónda í Bæ á Ströndum, í grein sem hann skrifaði um frumvarpið:

„Mér sýnist að með þessu fr[um]v(arpi], eins og það er, þá sé ekki einungis verið að staðfesta þann dóm Jónasar Kristjánssonar að bændur séu annars flokks fólk og skuli meðhöndlast skv. því mati, heldur engu að síður hitt: Að bændur séu dauðadæmd hjörð á „blóðvelli þjóðfélagsins“ og þeim hafi verið kveðinn upp sá dómur að leggja snöruna að eigin hálsi.“ (sjá hér)

Með þessari tilvitnun er ekki einungis minnt á hver afstaða margra bænda var til frumvarpsins sem varð að lögum heldur það líka að nú nær 30 árum síðar búum við ekki aðeins enn þá við þessi sömu lög heldur er útlit fyrir að margt annað hafi sest fast. Þar má vísa til þess að Steingrímur J. Sigfússon situr enn á þingi og Jónas Kristjánsson situr enn að viðhorfsmótandi skrifum um ýmis mál sem varða heill samfélagsins.  

Gagnrýni Steingríms J. Sigfússonar háð vindhraða

 

Steingrímur J. Sigfússon var landbúnaðar- og samgönguráðherra í þeirri ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar sem stóð að innleiðingu núgildandi laga um stjórn fiskveiða (sjá hér). Sú staðreynd veldur e.t.v. mestu um að Steingrímur J. tekur aldrei til máls undir umræðunum um frumvarpið (sjá hér). Það má svo minna á að á meðan hann sat í Landbúnaðarráðuneytinu undirritaði hann búvörusamning sem hafði stefnumarkandi áhrif varðandi kvótastýringu í sauðfjárrækt ásamt því að með honum voru útflutningsbætur til stuðnings landbúnaðinum felldar niður (sjá hér).

Það er snúnara að rekja þátt Steingríms J. Sigfússonar í umræðum um búvörufrumvarpið sem var að lögum nr. 99/1993 einfaldlega vegna þess að frumvarpið sem er sagt að hafi orðið að lögum 8. september það sama ár virðist hafa verið endurupptekið í desember 1993. Ef rétt er skilið þá hafa frumvörp um endurskoðun laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum verið lögð fram þrisvar sinnum á árinu 1993 (sjá hér og hér). Fyrst 30. mars (sjá hér), þá 1. apríl (sjá hér) og síðast 16. desember 1993 (sjá hér).

Meginbreytingin á þeim hefur þó verið gerð með frumvarpi sem var lagt fram í desember 1992 (sjá hér). Skýringin á því að Steingrímur J. tekur aldrei til máls í umræðunni um frumvarpið er væntanlega sú að breytingarnar röktu uppruna sinn til búvörusamningsins sem hann tók þátt í að undirrita í mars 1991 og tillagna sjömannanefndarinnar sem var skipuð í ráðherratíð hans í Landbúnaðarráðuneytinu (sjá hér) enda er hann einn þeirra sem samþykkja frumvarpið (sjá hér). Með lögunum varð tillaga aðila vinnumarkaðarins, Bændasamtakanna og fulltrúa Landbúnaðarráðuneytisins  um að sauðfjár- og mjólkurkvótinn yrðu framseljanlegur að lögum.

Breytingarnar sem lagðar voru fram í frumvarpi 30. mars 1993 fjallaði hins vegar  „um aðild Íslands að samningi um Evrópska efnahagssvæðið“ (sjá hér). Steingrímur J. tekur þrisvar sinnum til máls við aðra umræðu þess (sjá hér) og er ekki að sjá af málflutningi hans annað en honum þyki meira um vert að málið gangi sem hraðast í gegnum þingið en halda uppi málstað bænda. þó tekur hann fram að:

„Margt mætti segja um þátt landbúnaðarins í þessari blessaðri samningagerð og grautargerð allri sem tengist evrópsku efnahagssvæði [...] Enginn vafi er á því að einhver hluti fórnarkostnaðarins og verulegur hluti fórnarkostnaðarins af þessari samningagerð sem að okkur Íslendingum snýr er greiddur af landbúnaði. Um það deilir enginn. Oftar en einu sinni má segja, því miður, að hagsmunir landbúnaðarins hafa verið seldir fyrir ímyndaða eða e.t.v. að einhverju leyti raunverulega ávinninga annars staðar. (Sjá hér)

Þegar endanlega er gengið frá lögunum í desember 1993 tekur Steingrímur J. Sigfússon aðeins til máls við fyrstu umræðu málsins þar sem hann vill undirstrika það að öll mál sem snúa að búvörum heyri áfram undir forræði landbúnaðarráðherra: „Ég minni á að samkvæmt búvörulögum hefur landb[únaðar]r[áðu]n[eytið] farið með forræði hvað varðar ákvarðanir um innflutning búvara, alls þess sem telst búvara í skilningi búvörulaga, og að mínu mati er það sjálfgefið mál að svoleiðis á það að vera áfram.“ (sjá hér)

 

Fiskborð

 

Það sama á við um núgildandi lög um stjórn fiskveiða frá 2006 eða lög 116/2006 sem eru sögð hafa orðið að lögum 10. ágúst það ár. Breytingar á lögunum hafa verið lagðar fram í nokkrum áföngum árið 2006. Mikilvægust er þó umræðan frá 6. febrúar (sjá hér) en þar hefur Steingrímur aldrei tekið til máls og situr hjá við atkvæðagreiðslu um frumvarpið (sjá hér).

Sumir hafa haldið því fram að með lögunum 2006 hafi verið gengið lengst í því einkavæðingarferli sem haldið er fram að hafi verið innleitt með kvótanum. Í því sambandi er eftirtektarvert það sem fyrrum flokksbróðir Steingríms J., Jóhann Ársælsson, segir undir lok umræðunnar:

„Ég tel að hér sé á ferðinni afar undarleg ráðstöfun sem í ljósi allrar umræðu um fiskveiðimál og rétt manna til veiða hafi á sér ótrúlegan brag. Nú er ákveðið að menn þurfi ekki að hafa þau rök fyrir því að setja aflatakmarkanir að stjórna þurfi veiðum heldur er brugðið á það ráð að menn þurfi að fá að viðhalda aflarétti sínum þótt þeir veiði ekki. Þetta er mjög undarleg kúvending frá þeim rökum sem lágu til grundvallar á sínum tíma og notuð hafa verið í umræðunni allan tímann, þ.e. að þeir sem stundað hafa veiðar hafi veiðiréttinn og út á hann eigi þeir að fá einkarétt til að veiða úr viðkomandi stofni.

En þegar ekki liggur fyrir að takmarka þurfi veiðarnar skal veiðiréttinum samt sem áður viðhaldið og öðrum sem hefðu hugsanlega áhuga á að nýta sér veiðiréttinn ekki hleypt að, þótt hinir sem veiðiréttinn hafa nýti ekki veiðirétt sinn.

Þetta er hluti af einkavæðingarbröltinu í kringum fiskveiðar á Íslandi þar sem menn hafa með undarlegum hætti, án þess að segja það nokkurn tíma upphátt í ræðustól Alþingis, reynt að koma á fyrirkomulagi sem jafna mætti til einkavæðingar fiskimiðanna, sameignar þjóðarinnar. (sjá hér)

Það er svo e.t.v. rétt að minna á að hér er á ferðinni sami Jóhann Ársælsson sem gagnrýndi fyrrverandi ríkisstjórn fyrir að standa ekki við kosningaloforð sín um jafnræði til nýtingar á sameiginlegri þjóðareign heldur viðhalda forréttindum þerra sem eru fyrir í útgerð (sjá hér). Það má líka draga það fram hér að árið 1993 var Jóhann Ársælsson fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu sem kom frá Alþýðubandalaginu þess efnis að sjávarútvegsnefnd Alþingis yrði falið að endurskoða lög um stjórn fiskveiða og móta heildstæða sjávarútvegsstefnu. Tillögunni var vísað frá en í umræðu um hana benti Jóhann Ársælsson á:

„[...] að kostnaður vegna kvótakaupa hefði í sumum tilfellum verið dreginn frá skiptaverði til sjómanna og kvótalitlar útgerðir væru látnar fiska fyrir kvótaeigendur, sem sætu í landi og græddu peninga. "Sjómenn og kvótalitlar útgerðir eiga að borga auðlindaskattinn fyrir sægreifana," sagði Jóhann. Hann sagði að ekki væri hægt að koma upp nýrri útgerð vegna hins mikla kostnaðar við kvótakaup og því yrðu t.d. bæjarsjóðir að koma til skjalanna.

"Tími sægreifa, stórfyrirtækja og bæjarútgerða er að renna upp," sagði hann. "Endurskoðun fiskveiðistefnunnar, sem ekki tekur á verstu göllum kvótakerfisins, sem eru byggðaröskun, kjaraskerðing sjómanna og fiskverkafólks og óeðlilegir viðskiptahættir, er engin endurskoðun.
" (sjá hér)

Kaldar kveðjur

Árið 1994 setti ríkisstjórn Davíðs Oddssonar bráðabirgðalög á allsherjarverkfall sjómanna. Verkfallið hófst 1. janúar en lögin voru sett á 14. þess sama mánaðar. Þorsteinn Pálsson var þá sjávarútvegsráðherra. Næstu árin voru inngrip stjórnvalda í kjaradeildur sjómanna tíðari en nokkru sinni fyrr. Árið 2001 setti ríkisstjórn Davíðs Oddssonar enn eitt lögbannið á verkfall sjómanna en þá var Árni Mathiesen yfir Sjávarútvegsráðuneytinu. Í aðdraganda þess sendi Alþýðusamband Íslands frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

„Alþýðusamband Íslands minnir á að sjómannadeilan er orðin 10 ára. Það var árið 1991 sem fyrst fór að bera á því fyrir alvöru að sjómenn væru látnir taka þátt í kvótakaupum útgerðar með einhliða ákvörðunum skiptaverðs. Þar sem um er að ræða ákvarðanir um kjör sjómanna hefur þetta atriði verið kjarninn í öllum kjaradeilum útgerðarmanna og sjómanna í 10 ár og er enn.

Stjórnvöld hafa viðurkennt þennan alvarlega vanda og ítrekað sett lög sem eiga að leysa þetta viðkvæma deilumál, en án raunverulegs árangurs. Lagasetningar stjórnvalda hafa iðulega verið inngrip í yfirstandandi kjaradeilur svo raunveruleg lausn hefur ekki fengist fram með frjálsum samningum hagsmunaaðila. (sjá hér)

Í umræðum um setningu bráðabirgðalaganna á verkföll sjómanna kom til nokkurs orðaskaks á þingi þar sem þingmenn Alþýðubandalags, Frjálslynda flokksins og Samfylkingar fordæmdu lagasetninguna og málsmeðferð alla. Árni Mathiesen vísaði til þess að hér væri verið að „verja þjóðarheill“ á meðan þeir sem mótmæltu vildu meina að hér væri verið að brjóta á samningsrétti sjómannastéttarinnar:

„Steingrímur J. Sigfússon sagði ekki um að ræða lög heldur ólög og lýsti hann allri ábyrgð á hendur ríkisstjórninni og stjórnarmeirihlutanum. Sagði hann að um væri að ræða mannréttindabrot og valdníðslu og sérstaklega væri gagnrýnivert að þeir sem ekki væru aðilar að deilunni skuli samt sviptir grundvallarmannréttindum og stjórnarskrárbundnum réttindum. Slíkt væri mikil óhæfa. (sjá hér

Vanar fiskverkunarkonur

Í fyrra ráðuneyti Geirs H. Haarde var lögum 73/1969 breytt þannig að Sjávarútvegsráðuneytið og Landbúnaðarráðuneytið var sameinað (sjá hér). Tóku lögin gildi frá og með 1. janúar 2008. Guðni Ágústsson var því síðasti landbúnaðarráðherrann en Einar K. Guðfinnsson sem hafði verið sjávarútvegsráðherra var fyrsti ráðherrann í sameinuðu ráðuneyti. Þessu embætti gegndi hann til ársins 2009 (sjá hér)

Jón Bjarnason varð hins vegar nýr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í seinna ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttir. Árið 2009 skipaði hann nefnd í þeim tilgangi að endurskoða lögin um fiskveiðistjórnunarkerfið. Ástæða þess var vilji beggja ríkisstjórnarflokkanna til að

,,leggja grunn að innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda á 20 ára tímabili í samræmi við stefnu beggja flokka” og skapa þannig sátt í samfélaginu um nýtingu og eignarhald auðlindarinnar. Nefndin átti auk þess að endurskoða fiskveiðistjórnunarkerfið í því skyni að stuðla að vernd fiskistofna við Íslandsstrendur og hagkvæmri nýtingu auðlindarinnar, efla byggð á landinu og treysta atvinnu. (sjá hér)

Á meðan á vinnu nefndarinnar stóð lagði Jón Bjarnason fram frumvörp um stjórn fiskveiða sem styggðu nefndarmenn. Hér er einkum átt við skötuselsfrumvarpið svokallaða (sjá hér). Sumarið 2009 lagði Jón Bjarnason fram frumvarp til breytinga á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum frá árinu 1993. Frumvarpið gufaði upp í annarri umræðu (sjá hér). Um svipað leyti lagði hann fram frumvarp um strandveiðar sem var samþykkt (sjá hér).

Í lok árs 2011 var Jóni Bjarnasyni vikið úr Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu en Steingrímur J. Sigfússon tók við sæti hans. Heitinu var breytt með sameiningu fleiri ráðuneyta í september 2012 í Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Breytingin á embættisheitinu gekk í gildi í byrjun september fyrir ári síðan en þá hafði Steingrímur setið yfir Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu frá því á gamlársdag 2011. Við breytinguna var ráðuneytið sameinað viðskipta- og iðnaðarráðuneytinu. 

Það er hæpið að halda því fram að Steingrímur hafi verið farsælli í starfi sem Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra en forveri hans, Jón Bjarnason. Sem fjármálaráðherra hafði hann stuðlað að kjaraskerðingu sjómannastéttarinnar með afnámi sjómannaafsláttarins og sem nýskipaður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kynnti hann nýjan tekjulið ríkissjóðs sem innheimtur yrði með sérstöku veiðigjaldi á þær útgerðir sem lönduðu aflanum (sjá hér)

Sigurður Ingi Kristjánsson er eini ráðherrann í núverandi ríkisstjórn sem fer með stjórnarmálefni tveggja ráðuneyta miðað við þennan sáttmála hér. Auk sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins fer hann líka með málefni umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Það ráðuneyti verður til umfjöllunar í næstu færslu en hér verður skoðað hvort og hvernig menntun og starfsreynsla Sigurðar Inga og Steingríms J. standa með því að þeir hafa verið skipaðir æðstráðendur þess ráðuneytis sem fer með undirstöðuatvinnugreinarnar tvær, þ.e: landbúnaðinn og fiskveiðarnar.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherrar

Eins og áður hefur komið fram er Steingrímur fæddur 1955. Hann tók sæti á þingi 28 ára gamall og hefur setið þar nú í rétt rúma þrjá áratugi. Hann varð fyrst landbúnaðarráðherra eftir fimm ára setu á Alþingi,  þá 33 ára, og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í síðustu ríkisstjórn. Jón Bjarnason gegndi því fyrst en var leystur frá því embætti 31. desember 2011. 1. september 2012 var embættisheitinu breytt í atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra með því að eftirtaldir málaflokkar voru felldir saman í einn: landbúnaður, sjávarútvegur, iðnaður og viðskipti.

Sigurður Ingi er fæddur 1962 og var því 51 árs þegar hann tók við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu síðastliðið vor. Hann kom fyrst inn á þing árið 2009 og hefur því setið á þingi í eitt kjörtímabil og hálfu ári betur. Þetta er hans fyrsta ráðherraembætti.

Menntun og starfsreynsla:
Steingrímur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 21s árs og BS-prófi í jarðfræði frá Háskóla Íslands fimm árum síðar. Árið eftir, eða þegar hann var 27 ára, lauk hann uppeldis- og kennslufræði til kennsluréttinda frá sama skóla.

Meðfram háskólanáminu keyrði hann vörubíla á sumrin en eftir útskriftina þaðan vann hann í eitt ár við jarðfræðistörf jafnframt því sem hann var íþróttafréttamaður hjá Sjónvarpinu. Árið eftir var hann kosinn inn á þing fyrir Alþýðubandalagið, þá 28 ára

Sigurður Ingi  varð stúdent frá Menntaskólanum á Laugarvatni tvítugur. Hann er með
embættispróf í dýralækningum frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn. Hann fékk almennt dýralæknaleyfi í Danmörku 27 ára gamall og ári eldri á Íslandi.

Samkvæmt alþingisvefnum hefur hann stundað landbúnaðarstörf samhliða námi frá 1970 til ársins 1984. Eftir stúdentsprófið, árið 1982, vann hann líka í eitt ár við afgreiðslu- og verkamannastörf hjá Mjólkursamsölunni í Reykjavík.

Eftir að hann sneri heim frá dýralæknanáminu var hann bóndi í Dalbæ í Hrunamannahreppi í sjö ár eða frá 1987 til 1994. Frá árinu 1990 var hann sjálfstætt starfandi dýralæknir í uppsveitum Árnessýslu í fimm ár. Á árunum 1992 til 1994 var hann auk þess héraðsdýralæknir í Hreppa- og Laugarásumdæmi og um skeið í Vestur-Barðastrandarumdæmi. Frá árinu 1996 var hann dýralæknir hjá Dýralæknaþjónustu Suðurlands ehf. í 13 ár. Sjö síðustu árin áður en hann var kosinn inn á þing var hann  líka oddviti Hrunamannahrepps. Hann kosinn inn á þing fyrir Framsóknarflokkinn 47 ára.

Stjórnmálatengd störf og nefndarsetur:
Miðað við ferilskrá Steingríms liggja hans fyrstu pólitísku skref í nemendapólitíkinni í menntaskóla og svo áfram í háskólapólitíkinni í Háskólanum þar sem hann átti sæti í stúdentaráði á árunum 1978-1980. Frá því að hann var kjörinn inn á þing fyrir þremur áratugum hefur Steingrímur átt sæti í ellefu stjórnum, ráðum og nefndum utan Alþingis. Flestum ábyrgðarstöðunum af þessu tagi gegndi hann árin 1999 og 2000. Það sem vekur sérstaka athygli í þessum hluta ferilskrár hans er hve mörg þessara verkefna tengjast setum á samráðsþingum ráðamanna utan landssteinanna.

Steingrímur var varaformaður Alþýðubandalagsins um sex ára skeið eða frá árinu 1989 til ársins 1995. Fjórum árum síðar var hann kjörinn formaður Vinstri hreyfingarinnar- græns framboðs við stofnun flokksins í febrúar 1999. Steingrímur gegndi þessu embætti fram til síðasta landsfundar VG sem var í febrúar árið 2013. Þegar hann lét formannsembættið eftir hafði hann stýrt flokknum í fjórtán ár.

Sigurður Ingi gerðist virkur í sínu nærumhverfi eftir að hann sneri heim úr námi og tók þátt í stjórnun íþróttafélaga og sóknarnefnda á árunum milli þrítugs og fertugs. Þegar hann var 32ja ára var hann kjörinn í sveitarstjórn Hrunamannahrepps þar sem hann sat í 16 ár. Hann var varaoddviti í sveitarstjórninni á árunum 1994 til 1998 en síðar oddviti frá 2002 til 2009.

Frá því að Sigurður Ingi tók að snúa sér að félagsstörfum hefur hann verið virkur í félagsskap dýralækna. Þannig var hann í stjórn Dýralæknafélags Íslands á árunum 1994 til 1996 og í framhaldinu formaður stjórnar Dýralæknaþjónustu Suðurlands ehf. eða frá 1996 til 2011. Á þeim tíma átti hann sæti í  ráðherraskipaðri nefnd sem vann að breytingum á dýralæknalögum eða á árunum 1996 til 1998.

Þegar Sigurður Ingi var fast að fertugu var hann kosinn ritari stjórnar Framsóknarfélags Árnessýslu. Næsta áratug á eftir hefur hann verið áberandi virkur í ýmsum stjórnum og nefndum sem fara með hin fjölbreyttustu mál átthaganna; Árnessýslu og Suðurlands. 

Frá því að Sigurður Ingi hóf afskipti af nærumhverfi sínu og öðrum samfélagsmálum hefur hann átt sæti í tuttugu stjórnum og nefndum utan þings. Flest slík sæti átti hann á árunum 2002 til 2009 eða átta til tíu að meðaltali. Hann var kosinn varaformaður Framsóknarflokksins árið 2013.

Þingstörf og nefndarsetur á vegum þess:
Steingrímur hefur setið ósliðið á þingi frá árinu 1983 eða frá 28 ára aldri til dagsins í dag. Hann hefur því setið á þingi í rétt rúm 30 ár. Þennan tíma hefur hann starfað undir alls þremur þingflokkum. Fyrst þingflokki Alþýðubandalagsins (1983-1998), þá Óháðum (1998-1999) og svo Vinstri grænum undanfarin 14 ár. Upphaflega kom Steingrímur inn á þing sem alþingismaður Norðurlands en eftir breytingar á kjördæmaskiptingunni (sjá
hér) hefur hann verið  þingmaður Norðausturkjördæmis eða frá árinu 2003. 

Þegar litið er til setu Steingríms í þingnefndum kemur í ljós að hann sat í efnahags- og viðskiptanefnd á árunum 1991 til 1999, eða í átta ár, sem má gera ráð fyrir að hafi aflað honum einhverrar þekkingar- og reynslu af málflokknum sem hann stýrði sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra í síðustu ríkisstjórn. Á sama tíma átti hann sæti sjávarútvegsnefnd eða frá 1991 til 1998. Hann var formaður hennar frá 1995 til 1998.

Sigurður Ingi kom nýr inn á þing eftir alþingiskosningarnar vorið 2009 þá 47 ára. Hann hefur því setið inni á þingi í tæp 5 ár. Hann er þingmaður Suðurlands fyrir Framsóknarflokkinn.

Þegar litið er yfir setu Sigurðar Inga í þingnefndum þá átti hann sæti á árunum 2009 til 2011 í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og atvinnuveganefnd á árunum 2011 til 2013.

Ráðherraembætti:
Steingrímur var 33 ára þegar hann var skipaður ráðherra í fyrsta skipti. Þá var hann skipaður landbúnaðarráðherra í öðru ráðuneyti
Steingríms Hermannssonar (sjá hér). Átta árum síðar, með stjórnarsamstarfi Samfylkingar og Vinstri grænna, var hann lengst fjármálaráðherra en auk þess gegndi hann fjórum öðrum embættum í mislangan tíma. Síðast embætti atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra sem var nýtt heiti en með því voru málefni landbúnaðarins, sjávarútvegsins, iðnaðarins og viðskiptanna felld undir eitt ráðuneyti. Steingrímur var 56 ára þegar hann tók við ráðherraembætti sjávarútvegsins og landbúnaðarins. Það er rétt að taka það fram að hann hafði gegnt þessu sama embætti í fyrra ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur árið 2009
(sjá nánar hér).

Sigurður Ingi hefur ekki verið ráðherra áður en hann var 51s árs þegar hann var skipaður sjávar­útvegs- og landbúnaðarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra vorið 2013 (sjá nánar hér).

Samantekt
Þegar það er undanskilið að bæði Steingrímur J. og Sigurður Ingi eru fæddir og uppaldir í sveit eiga þeir fátt sameiginlegt. Ferill Steingríms J. hefur snemma hneigst til þátttöku í pólitík og hann er ekki nema 28 ára þegar hann er í fyrsta skipti kosinn inn á þing. Þar hefur hann síðan setið óslitið í rúma þrjá áratugi. 

Sigurður Ingi aflar sér sérfræðimenntunar sem stendur í nánum tengslum við uppruna hans og gerist síðan bóndi og haslar sér völl sem dýralæknir eftir að hann snýr heim. Hann er kominn yfir þrítugt þegar hann snýr sér að virkri þátttöku og afskiptum af nærumhverfinu. Það er ekki fyrr en um það leyti sem hann verður oddviti sveitarstjórnar Hrunamannahrepps sem hann tekur að hasla sér völl í pólitíkinni.

Þó því verði varla á móti mælt að Sigurður Ingi hefur töluvert betri grunn til að setja sig inn í stjórnsýsluleg málefni landbúnaðarins en Steingrímur J. þá er áberandi að hvorugur hefur trúverðugan grunn að byggja á hvað varðar sjávarútvegsmálin. Seta í sjávarútvegsnefnd þingsins hefur þó að öllum líkindum skilað báðum einhverri yfirsýn á málaflokkinn.

Þátttaka Sigurðar Inga í ýmsum félags- og stjórnsýslustörfum í sinni heimabyggð hefur væntanlega skilað honum nokkurri innsýn í stöðu landbúnaðarins á Suðurlandi. Það er þó hæpið að ætla að hún hafi verið jafn yfirgripsmikil og sú innsýn sem má ætla að Steingrímur J. hafði aflað sér þegar hann sat í Landbúnaðarráðuneytinu á árunum 1988 til 1991.

Göngur

Núgildandi búvörusamningar voru undirritaðir haustið 2012 en renna út á mismunandi tíma. Samningur um starfskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða rennur út 31. desember 2015. Samningurinn um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu gildir til 31. desember 2016. Samningurinn um starfsskilyrði sauðfjárræktar rennur hins vegar ekki út fyrr en yfirstandandi kjörtímabil er úti eða 17. desember 2017. Allir samningarnir eru skilyrtir með svohljóðandi fyrirvara:

Samningur þessi er gerður með fyrirvara um hugsanlegar breytingar á þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands sem kunna að leiða af niðurstöðum samningaviðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu (sjá hér)

Þessi fyrirvari ætti ekki að koma á óvart miðað við þá áherslu síðustu ríkisstjórnar að ná fram samningum um Evrópusambandsaðild. Hins vegar vekur athygli að í samningi ríkistjórnarinnar og Bændasamtakanna um starfsskilyrði til mjólkurframleiðslu  er talað um:

að hefja vinnu við stefnumótun fyrir greinina með því markmiði að efla samkeppnishæfi og treysta afkomu hennar til lengri tíma. Til undirbúnings þessu verði skipaður starfshópur samningsaðila til að meta þá reynslu sem komin er af framkvæmd samningsins, þ.á m. kostnaðarþróun í greininni, áhrif kvótakerfisins og stöðu verðlagningar og tolla. (sjá hér (leturbreytingar eru höfundar))

Starfshópurinn átti að skila niðurstöðu í síðasta lagi 31. desember 2013. Það er því líklegra að frétta af niðurstöðunni sé að vænta fljótlega en að öðru leyti er útlit fyrir að landbúnaðurinn muni ekki mæða verulega á Sigurði Inga í embætti fyrr en undir lok næsta árs. Aðra sögu er að segja af sjávarútveginum.

Síðustu ríkisstjórn brast kjark, áræði, hugmyndaflug og styrk til að standa við kosningaloforð um að vinda ofan af því kerfi sem Halldór Ásgrímsson lagði grunninn að með lögunum 1983. Strax í upphafi kom fram megn óánægja með kerfið en það var þó fest í sessi með lögum árið 1990. Allar aðgerðir síðan hafa síst verið til að slá á óánægjuraddirnar en þessar aðgerðir hafa m.a. heimilað sölu aflaheimilda og veðsetningu í veiðinni. Með lögunum árið 2006 var eignarétturinn yfir sjávarauðlindinni tryggður enn frekar með því að þeir sem veiddu ekki upp í aflaheimildirnar bar ekki lengur að bjóða þær öðrum.

Þegar síðasti fiskurinn hefur verið veiddur

Þrátt fyrir fögur fyrirheit síðustu ríkisstjórnar um að leggja fram framkvæmanlega leið við að færa þjóðinni aftur yfirráðin yfir landhelginni þá tókst ekki að binda endi á þær innanlandserjur sem hafa varað nær linnulaust um landhelgina í rúma þrjá áratugi; eða nánast frá því að síðasta þorskastríðinu við Breta lauk. Ýmsum alhæfingum hefur verið haldið á lofti eins og þeim að allir sem hafa aðgang að kvóta séu af stétt sægreifa. Þar hafa bæði smærri og stærri útgerðir ásamt áhafnarmeðlimum fiskveiðiflotans verið gerðir að óvininum sem arðrænir aðra meðal þjóðarinnar. Það er því mikið í húfi að leysa þennan hnút.

Því miður bar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar ekki gæfa til annars en auka enn á þessar deilur með tveimur aðskildum frumvörpum um stjórn fiskveiða og sérstakt veiðigjald. Frumvarpið um stjórn fiskveiða komst aldrei í gegnum þingið þannig að við búum við óbreytt fiskveiðistjórnunarkerfi en með veiðigjaldinu átti að tryggja að þeir sem veiddu upp í keyptan kvóta borguðu afnotarétt í ríkissjóð af forgangsréttinum og þannig var hann í raun viðurkenndur.

Eitt af fyrstu verkefnum þeirrar ríkisstjórnar sem tók við síðastliðið vor var að koma innheimtu veiðigjaldanna til framkvæmda. Aðgerðirnar sem hún taldi nauðsynlegar til að af því gæti orðið hleypti af stað nýrri ófriðaröldu þar sem ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks var sökuð um að ganga erinda “sægreifanna“ í LÍÚ. 

Þann 14. júní 2013 mælti nýr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, fyrir stjórnarfrumvarpi um veiðigjöld. Þar sagði hann að þær breytingar sem hefðu verið gerðar á veiðigjaldalögum Steingríms J. væru nauðsynlegar til að sníða af þeim helstu vankanta. Að öðrum kosti yrði ógerlegt að innheimta gjaldið fyrir næsta fiskveiðiár.

[...] lögin hafa reynst óframkvæmanleg fyrir veiðigjaldanefnd sem skal reikna sérstakt veiðigjald eins og rakið er í athugasemdunum með því frumvarpi sem ég mæli hér fyrir. Nefndin ræður ekki yfir nauðsynlegum upplýsingum til starfa sinna vegna þess að lögin voru ófullkomin og tæknilega gölluð hvað varðar heimildir til öflunar upplýsinga og að hluta til miðlunar þeirra til stjórnvalda, þ.e. á milli embættis ríkisskattstjóra, Hagstofu Íslands og veiðigjaldanefndar. [...] Þetta vissi fyrri ríkisstjórn en brást ekki við, þó ekki væri nema við þeim tæknilegu ágöllum sem hindra framkvæmd laganna. (sjá hér)

Auk þess að rekja tæknigallanna sem stóðu í vegi fyrir því að innheimta veiðigjalda gæti hafist rakti Sigurður Ingi annmarka sem hann sagði efnislega. Þar sagði hann aðferðafræðina við útreikninga veiðigjaldanna „sem með lögunum var lögfest ekki til þess fallin að búa sjávarútveginum starfsumhverfi sem stuðlar að nauðsynlegum framgangi og vexti greinarinnar. Eigi afrakstur auðlindar að skila sér til þjóðarinnar allrar er mikilvægt að stjórnvöld hafi það að markmiði að skapa atvinnuvegum vænlegt starfsumhverfi. (sjá hér)

Einhver umræða varð um tæknilegu vankantana sem Sigurður Ingi taldi upp en þeir fjöruðu út þegar við fyrstu umræðu en þeir efnislegu urðu eftir og entust fram í júlí. Í andsvörum var m.a. bent á að með aðferðum stjórnarfrumvarps Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks yrði ríkissjóður af umtalsverðum tekjum (sjá hér). Sigurður Ingi vildi meina að með lækkun veiðigjaldanna hefði m.a. verið markmiðið að koma á móts við minni og meðalstór sjávarútvegsfyrirtæki sem hefðu ratað í umtalsverðan rekstrarvanda að óbreyttu. 

Brosað yfir karfanum

Frumvarp Sigurðar Inga um veiðigjaldið var samþykkt með öllum atkvæðum stjórnarliða en allir þingmenn stjórnarandstöðunnar höfnuðu því (sjá hér). Væntanlega eru þetta ekki fyrstu “átök“ stjórnar og stjórnarandstöðu um fiskveiðarnar en núverandi stjórn hefur boðað frekari endurskoðun þess. Miðað við þátt Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins við innleiðingu kvótakerfisins bæði í landbúnaði og sjávarútvegi er hæpið að búast við því að ríkisstjórn þessara tveggja flokka hverfi frá því handstýrða markaðskerfi sem hefur fengið að festa rætur frá því í kringum 1980.

Þegar horft er til þess hvaða afleiðingar handstýringarkerfið, sem var lagt á tvo grundvallaratvinnuvegi landsins, hefur haft bæði til sjávar og sveita sætir það væntanlega furðu að Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur skuli hafa fengið það fylgi sem raun síðustu alþingiskosninga leiddi í ljós. Þegar það er hins vegar tekið með í reikninginn hvernig síðustu ríkisstjórn fórst í samskiptum sínum við sjávarútveginn og aðra kjósendur ætti það síður að koma á óvart. Þetta verður e.t.v. enn skiljanlegra þegar það er tekið inn í dæmið að nýjum framboðum tókst á engan hátt að setja upp sannfærandi markmið sem snertu raunveruleika þeirra kjósenda sem grundvalla afkomu sína á rótgrónustu atvinnugreinunum tveimur.

Þeir eru undarlega fáir sem hafa bent á það hversu hrapalega síðustu ríkisstjórn mistókst að framfylgja stefnu sinni um stjórn fiskveiða.  Eins og áður hefur komið fram var meginmarkmið hennar samkvæmt samstarfsyfirlýsingu „að gæta atvinnufrelsis og að tryggja að jafnræðis verði gætt við úthlutun afnotaréttarins“ í anda álits Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Auk þess er tekið fram í samstarfsyfirlýsingu flokkanna að úthlutun aflaheimilda er tímabundinn afnotaréttur og myndar ekki undir neinum kringumstæðum eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir heimildunum.“(sjá hér)

Þegar litið er til efnda blasir fátt annað við en það að aðgerðir síðustu ríkisstjórnar gerðu ekkert annað en viðurkenna og viðhalda forgangi þeirra sem fyrir eru í greininni. Afnám sjómannaafsláttarins var heldur ekki til að afla flokkunum atkvæða né lög um sérstakt veiðigjald. Veiðigjaldið er vissulega til að afla tekna í ríkissjóð en það er nýtt bitbein í það innlenda þorskastríð sem hefur geisað hér í bráðum 40 ár.

Aðgerðir síðustu ríkisstjórnar fyrir hönd atvinnuveganna tveggja gerðu í raun ekkert annað en viðhalda því handstýrikerfi sem Einar Olgeirsson gagnrýndi í þingræðu sinni um milliliðagráðann 1955. Kerfinu þar sem því er stýrt af ríkisvaldinu hvar hagnaðinum af verðmætasköpuninni lendir. Kerfi sem fyrst og síðast þjónar þeim sem hafa sterkustu ítökin í krafti forréttindanna sem auðurinn hefur skapað þeim. „Samningaviðræður Steingríms J. við útgerðarmenn [...] í fjölmiðlum um hvað reikningurinn [mætti] vera hár“ (sjá hér) er einn besti vitnisburðurinn um það hvernig Samfylking og Vinstri grænir gegna sömu herrum og Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur.

Það þarf því væntanlega meiri og víðsýnni bóga en bæði Steingrím J. Sigfússon og Sigurð Inga Jóhannsson til að leysa þann vanda sem handstýrikerfið í landbúnaði og sjávarútvegi hefur leitt yfir báða atvinnuvegi, fólkið og byggðarlögin sem byggðu afkomu sína á þeim svo og efnahag landsins. Að öllum líkindum þarf líka býsna mikið meira til en einn mann sem af blindum vilja til að láta til sín taka þiggur æðsta embætti landsins yfir ráðuneyti þessara undirstöðuatvinnuvega. Það alræði sem lögin leggja honum til yfir báðum atvinnuvegum koma að litlu haldi til lausnar vandanum sem við blasir. Handstýriverkfærið kvóti er þó til þess fallið að gera viðkomandi alræðið eitthvað meðfærilegra.

Þeir byggðu grunninn

Til að slá botninn í þessa umfjöllun um landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið og freista þess að draga fram um hvað er að ræða mun ég að þessu sinni ljúka á tilvitnun í Alþýðuflokksþingmanninn Guðmund Einarsson þar sem hann varar við þeirri leið sem var mörkuð við stjórn fiskveiða af Halldóri Ásgrímssyni í frumvarpi sem hann lagði fram um miðjan desember 1983.

Fiskveiðistefnan er undirstaða að íslenskum þjóðarbúskap. Allt annað, hvernig okkur gengur að fjármagna félagslega þjónustu, hvernig okkur gengur að útbúa skattamálin almennilega, er undir því komið að hér sé fylgt skynsamlegri stefnu í fiskveiðimálum. Hins vegar hefur Alþingi valið þann kostinn að hafa ekkert um fiskveiðistefnuna að segja og láta það vald algjörlega í hendur ráðh[erra] en halda sér við sinn leist og leysa hin minni málin.

Ég held því fram að stefnan í fiskveiðimálum sé langtum mikilvægari fyrir lífskjör í þessu landi en öll hin málin sem þetta þing hefur fjallað um frá því í haust. Það mál er miklu mikilvægara en öll þau mál sem þetta þing mun fjalla um fram til vors. Og samt afsalar Alþingi þjóðarinnar sér í raun og veru réttinum til að setja um þetta lög. Það heldur bara umsagnarrétti og rétti til samráðs við ráðh[erra]

Til viðbótar við þetta er hér líka verið að fjalla um stefnu í eignarréttarmálum, stefnu um það hvað ráði umgengninni við sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar. Þegar þessi þingdeild greiddi atkv[æði] í dag um br[eytingar]t[il]t[ögur] og þetta fr[um]v[arp] var í raun og veru verið að greiða atkv[æði] um afstöðu manna í þessum grundvallarmálum.

Ég vil ítreka að menn mega ekki líta svo á að þeir séu hér að greiða atkv[æði] um tæknileg atriði í sambandi við útfærslu á fiskveiðistjórnun. Menn eru að taka afstöðu í máli sem snýst um undirstöðuatriði lýðræðis og stjórnarfars. Ég tel það gunguskap af hálfu Alþingis að koma sér hjá því að taka þessa umr[æðu] um verkaskiptinguna hreina og klára upp. Menn segja: Það verður að gera eitthvað strax, það verður að finna áhrifamikla leið til að stjórna, þingið er svo seinvirkt og þ[ingd]ál[yktunartillaga] hefur ekki lagagildi. Hér er alls kyns úrsláttur, menn bara koma sér undan því að taka afstöðu til grundvallaratriða.

Þessi grundvallaratriði ganga í raun og veru að kviku lífsskoðunar þessara sömu manna. En svo virðist vera sem eina ferðina enn neyðumst við til að láta stjórnlyndið ráða, finna bara góðar leiðir til að stjórna þessu. Látum stjórnlyndið ráða og Alþingi kemst hjá því að takast á við það vandasama hlutverk að móta stefnuna, enda hefur það kannske aldrei mótað stefnu í fiskveiðimálum. Það er kannske þess vegna sem svona er komið. Og þá verður kannske ágætt fyrir h[æst]v[irt] Alþingi að fylgja bara í slóð hæstv[irts] ráðh[erra], láta ráðh[erra] um að marka stefnuna og láta ráðh[erra] um að ryðja brautina. Svo koma 60 alþ[ingis]m[enn] í röð á eftir í skjóli ráðh[erra] og haldast í hendur og elta.

Ef svo verða síðar meir skiptar skoðanir um aðgerðir ráðh[erra], ef deilur hefjast í þjóðfélaginu, ef átök verða milli stétta og milli byggðarlaga vegna þeirra ákvarðana sem eru teknar í r[áðu]n[eyti] í fiskveiðistefnu, þá er ágætt fyrir þ[ing]m[enn] að geta sagt: Sko, við samþykktum þetta aldrei. Það var ráðh[erra] sem samþykkti þetta. Ég skil ekkert í manninum að gera þetta. Það var alls ekki með mínu samþykki að hann færði kvótann frá ykkur og yfir á þennan fjörð. Ég skil ekkert í manninum, ég verð að fala við hann, þetta er ómögulegt.

Þannig geta alþ[ingis]m[enn] komið sér undan því að taka afstöðu í þessu máli. Þetta eru náttúrlega þeir lausu taumar sem þeir vilja hafa næst þegar þeir mæta kjósendum sínum. Við sáum í dag þá fyrirvara sem menn gerðu og þær afsakanir sem menn höfðu í frammi fyrir því að greiða atkv[æði] með þessu máli. Þetta verður síðan afsökunin sem verður látin gilda við næstu kosningar. Menn segja: Sko, ég samþykkti aldrei að leyft yrði að flytja kvótann hérna á milli fjarða, ég samþykkti það aldrei. Ég samþykkti bara að ráðh[erra] mætti stjórna þessu en ég hefði aldrei samþykkt þessar umgengnisreglur við kvótann. Þetta eru svo miklir peningar sem verið er að fjalla um að um það hefði átt að setja lög. Þannig hefur Alþingi hvítþvegið hendur sínar. (sjá hér)

Í næsta bloggi verður ferilskrá Sigurðar Inga Jóhannssonar borin saman við forvera hans í Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu; Svandísi Svavarsdóttur. Þar sem um tiltölulega ungt ráðuneyti er að ræða er óhætt að lofa að þar verður um töluvert styttri færslu að ræða. Þó er óhjákvæmilegt að víkja að ólíkri hugmyndafræði sem snýr að Íslandi sem stórkostlegum virkjunarkosti til útflutnings og þeim slysum sem af slíkum hugmyndum hafa hlotist nú þegar.

Helstu heimildir

Ráðherratal Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins
Ráðherratal: Landbúnaðarráðherrar 1944-2007
Ráherratal: Sjávarútvegsráðherrar 1963-2007
Ráðherratal: Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherrar 2008-2012

Ráherraskipan í síðara ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttir
Ráðherrar í núverandi ríkisstjórn

Ríkisstjórnir og ráðherrar frá 1904-1942
Ríkisstjórnartal frá stofnun lýðveldis

Ánægja með störf ráðherra: 6. október 2009 (fyrsta könnun)
Ánægja með storf ráðherra:
9. apríl 2010
Ánægja með störf ráðherra og stjórnarandstöðu: 23. mars 2012
Ánægja með störf ráðherra:
10. febrúar 2013

Skýrsla nefndar um endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands - Samhent stjórnsýsla (13.12.2010)
Ný lög um Stjórnarráð Íslands (19.09.2011)

Krækjur á lög sem varða sjávarútveginn

Lög um veiðigjöld. 2012 nr. 74, 26. júní
Lög um tekjuöflun ríkisins
(afnám sjómannaafsláttarins). 2009 nr. 129, 23. desember

Lög um stjórn fiskveiða. 2006 nr. 116, 10. ágúst
Lög um stjórn fiskveiða
. 1999 nr. 116, 10. ágúst
Lög um stjórn fiskveiða
. 1990 nr. 38, 15. maí

Sjávarútvegur: Lög og reglugerðir (yfirlit á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins)
Landbúnaður: Lög og reglugerðir (yfirlit á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins)

Lög samþykkt á Alþingi (stjórnartíðindanúmer laga)

Umræður á þingi um landbúnaðinn og sjávarútveginn

Breyting á ýmsum lögum á sviði fiskveiðistjórnar (163/2006)
Stjórn fiskveiða
(42/2006)
Búnaðarlög
(heildarlög) (70/1998)
Framleiðsla og sala á búvörum
(129/1993)
Framleiðsla og sala á búvörum
(112/1992)
Stjórn fiskveiða
(heildarlög) (38/1990)
Framleiðsla og sala á búvörum o.fl.
(46/1985)
Veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands
(82/1983)
Framleiðsluráð landbúnaðarins
(lög nr. 15/1979)

Ræður þingmanna (á árunum 1907-2014)
Einar Olgeirsson. Ræða flutt á sameinuðu þingi. 79. mál: Milliliðagróði. 17. fundur, 75. löggjafarþing. 1955-1956.  

Heimildir úr fjölmiðlum

Fréttaknippi: Kvótafrumvarp. mbl.is (fréttaknippi)

Vill endurskoða kvótastýringu á mjólk. mbl.is 5. desember 2013
Áhrif óbreyttra veiðigjalda á lítil samfélög útskýrð
. 3. desember 2013
Starfshópur skoði breytingar á kvótakerfinu
. Viðskiptablaðið 4. október 2013

Jóhann Ársælsson: Kvótafrumvarpið uppfyllir ekki kröfur um jafnræði til nýtingar. eyjan.is 27. maí 2012

Jóhann Hauksson. Kvótafrumvarpið til þingsins í vikunni. DV 9. maí 2011

Áætlun um innköllun aflaheimilda tekur gildi í september 2010. visir.is 11. maí 2009

Magnús Thoroddsen. Álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Morgunblaðið 30. janúar 2008

Auka kvóta til jafns við Norðmenn. visir.is 15. apríl 2005

Kvóti næsta fiskveiðiárs verður 190 tonn. mbl.is 6. júní 2001.

Sjávarútvegráðherra segir verið að verja þjóðarheill. mbl.is 17. maí 2001

Segir að tekist sé á um kvóta í kosningunum. mbl.is 19. janúar 1999.

Aðilar vinnumarkaðae ræði búvörusamning. mbl.is 14. september 1995

Umræður á Alþingi um sjávarútvegsmál. Morgunblaðið, 29. apríl 1993

Ragnar Arnalds. Einar Olgeirsson. Morgunblaðið, 14. febrúar 1993.

Þjóðarsátt um sauðkindina. Þjóðviljinn, 15. febrúar 1991
Jökull hf. vann mál sitt í Hæstarétti
. Morgunblaðið. 6. nóvember 1991
Starfa í sátt og samlyndi við bændur og aðila vinnumarkaðarins
. mbl.is 4. júlí 1991
Sjórnarandstæðingar vilja sjá öll skjöl um stjórnarmyndu
n. mbl.is 30. maí 1991

Gildistíminn í óvissu. Þjóðviljinn 25. apríl 1990

Kvótafrumvarpið að lögum. Morgunblaðið 9. janúar 1988

Heimildir úr háskólaritgerðum

Aron Örn Brynjólfsson. Þegar þjóðin eignaðist fiskinn. maí 2013 
Björg Torfadóttir: Breytingar á stjórn fiskveiða. júní, 2013
Friðrika Ásmundsdóttir. Framleiðslustýring í landbúnaði. júní 2012
Einar Pálsson: Strandveiðar í ljósi álits mannréttindanefndar SÞ nr. 1306/2004 um íslenska kvótakerfið. Haustið 2012
Skúli Hansen: Úrskurðarvald dómstóla um stjórnskipulegt gildi laga. desember, 2011

Aðrar Heimildir

Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið. Búvörusamningar
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Skýrsla starfshóps um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða. September 2010
Wikipedia: Sjávarútvegur á Íslandi. Síðast uppfært 14. janúar 2014Víkin: Sjóminjasafnið í Reykjavík. Saga hússins. 2005
Landssamband smábátaeigenda
(fréttayfirlit)


Til kvótastýrðs sjávarútvegs III

Það er löngu kominn tími á það að hér verði haldið áfram og lokið við það sem lagt var upp með á þessu bloggi sl. haust en það er að bera saman ráðherra núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnar út frá því sem alþingisvefurinn gefur upp um feril þeirra. Markmiðið með þessum samanburði er að freista þess að gefa nokkra innsýn í það hvaða hefðir hafa orðið ofan á varðandi skipun ráðherra í íslenskri pólitík. Til þess að þetta markmið megi nást hefur einnig verið litið aftur í tímann frá upphafi ríkisstjórnarmyndunar á Íslandi árið 1917.

Hér verður þráðurinn tekinn upp þar sem frá var horfið undir lok október á síðasta ári en þá var annar hlutinn í sérstöku yfirliti á embættissögu og stjórnsýslulegum ákvörðunum sem varða innlend sjávarútvegsmál birtur. Þetta verður því lokahluti sérstakrar umfjöllunar um sjávarútvegsmál annars vegar og landbúnaðarmál hins vegar sem er aðdragandi að samanburði á menntun og starfsreynslu þess sem fór með þessa málaflokka í síðustu ríkisstjórn og hins sem gegnir embætti landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra nú.

Kjötiðnaðarmaðurinn, garðyrkjubóndinn og sjómaðurinn

Það má segja að annar hlutinn hafi endað þar sem sjávarútvegurinn tók við af landbúnaðinum sem drottnandi þáttur í íslensku efnahags- og atvinnulífi. Þar er því haldið fram að afleiðingarnar hafi m.a. verið þær að virði nýfrjálss verkalýðs sveitanna var ekki aðeins gengisfellt heldur var vinnuaflið hneppt í skuldafjötra nýríks sjávarútvegsaðals með fulltingi ráðherra heimastjórnarinnar. Tilgangurinn virðist ekki síst hafa verið sá að bjarga þjóðarstoltinu, hinum nýstofnaða Landsbanka, en ekki verður annað ályktað en þar hafi líka verið ætlunin að vernda innvígða og tengda eigna- og valdastétt landsins frá þeirri smán að opinbera kunnáttuleysið, gagnvart því frelsi að ráða málum sínum sjálfir, fyrir öðrum þjóðum. 

Í þessum lokahluta verður haldið áfram að rekja mikilvægar stjórnsýslulegar ákvarðanir sem liggja núverandi stöðu í sjávarútvegsmálum til grundvallar. Í framhaldinu verður svo lokið við þær fjórar færslur sem eru eftir til að ljúka samanburðinum á ferilskrám núverandi og fyrrverandi ráðherra. Til að gera lesendum auðveldara að ná samhenginu eftir svo langt hlé er sennilega rétt að byrja á því að rifja lítillega upp megináherslurnar í fyrstu hlutunum tveimur.

Hér á undan var drepið á því hvar annar hlutinn endaði en þar voru dregin fram söguleg atvik og helstu ákvarðanir sem varða sjávarútveginn frá landnámi fram undir fimmta áratug síðustu aldar. Í fyrsta hlutanum var farið yfir embættissöguna í sjávarútvegsmálum frá því að fyrsti atvinnumálaráðherrann var skipaður árið 1917 fram til þess að Einar K. Guðfinnsson tók við sameinuðu ráðuneyti landbúnaðar- og sjávarútvegsmála í upphafi árs 2008.

Nýir húsbændur

Eins og vikið var að í öðrum hlutanum mótuðust margar þeirra hefða, sem þykja einkennandi fyrir íslenska pólitík, á heimastjórnartímabilinu. Hér er ekki aðeins átt við þær sem lúta að skipun ráðherra og hvað hefur þótt tilhlýðilegt að liggi henni til grundvallar heldur líka það hvernig alls kyns hagsmunaárekstrar voru umgengnir. Það er reyndar ekki annað að sjá en að sú hefð hafi fests í sessi að líta annaðhvort framhjá þeim eða láta sem slíkir árekstrar geti ekki átt sér stað.

Hér er vísað til þátttöku skipaðra ráðherra í atvinnurekstri og alls kyns nefndum, ráðum og stjórnum utan þings sem varða beinlínis þá málaflokka sem viðkomandi ráðherrar voru settir yfir. Auk þess er útlit fyrir að strax á tíma heimastjórnarinnar hafi það orðið að hefð að ráðherrar nýttu stöður sínar til að hygla helst eigin embættisheiðri með því t.d. að velta afleiðingunum af embættisglöpum sínum og/eða vanhæfni til starfans yfir á þá sem uggðu ekki að sér; þ.e.a.s. almenning.

Þannig vildi það til að frá tíma fyrstu heimastjórnarinnar, árið 1917, og fram til lýðveldisstofnunarinnar, árið 1944, hafði gjaldþroti tveggja banka sem átti sér rætur í offjárfestingum í sjávarútveginum verið velt yfir á herðar almennings í stað þess að þeir sem raunverulega báru ábyrgðina stæðu undir henni. Þ.e. eigendur sjávarútvegsfyrirtækjanna og stjórnendur viðkomandi banka.

Fiktað með krónuna

Sú hefð að valda- og eignastéttin stæði saman við að verja sína sérhagsmuni án tillits til þess hvernig það kæmi niður á lands- og þjóðarhagsmunum breyttust þar af leiðandi ekkert við það að óðalsbændaaðall gamla bændasamfélagsins missti tökin á almenningi. Verkalýðurinn sem áður hafði verið bundinn með vistarbandinu undir húsbændur sína í sveitunum streymdi um þessar mundir á mölina með ferðamalinn úttroðinn af væntingum um áður óþekkt frelsi.

Sjálfsagt voru þeir einhverjir sem tóku þátt í þessum flutningum sem fundu til eftirvæntingar gagnvart sjálfstæði landsins en það er þó líklegra að draumurinn um frelsið hafi fyrst og fremst verið bundinn við persónulegt sjálfstæði. Það er varla ofmælt að þessi hópur hafi fljótlega komist að því fullkeyptu þar sem í stað vistarbands bændaaðalsins tóku við skuldafjötrar hins ört vaxandi kaupsýslu- og sjávarútvegsaðals.

Þeir sem völdust inn á þing á þessum tíma voru velflestir synir vel efnaðra bænda sem höfðu alist upp við það að þeir sem áttu jarðir tóku ákvarðanir fyrir aðra í íslensku samfélagi í samráði við dönsk yfirvöld. Með heimastjórninni var stigið fyrsta skrefið að því að Íslendingar sæju um sín mál sjálfir óháð Dönum. Þessu fylgdi eigin gjaldmiðill; íslensk króna, eigin banki; Landsbankinn, og innlend stjórn og innlendir embættismenn.

Landsbankinn var reistur í Reykjavík og þar var líka vettvangur heimastjórnarinnar. Auk Landsbankans var Íslandsbankinn reistur í Reykjavík en hann var í eigu danskra og norskra fjársýslumanna. Kannski má leiða að því líkum að af þessum ástæðum hafi þeir sem stóðu að uppgangi togaraútgerðar við Faxaflóann verið svo nátengdir bankastarfseminni og heimastjórninni þó líklega hafi fleira komið til.

Í þessu sambandi er vert að minna á að fyrsti fjármálaráðherrann, Björn Kristjánsson, var einn aðaleigenda Alliance sjávarútvegsfyrirtækisins sem átti eftir að leiða Íslandsbanka til gjaldþrots og Ólafur Thors, sem lengi var forsætisráðherra ásamt því að fara með sjávarútvegs- og utanríkismál, var einn eigenda Kveldúlfs sem leiddi Landsbankann í sömu stöðu og Íslandsbanki hafði verið í 15 árum áður.

Það horfði því hvorki gæfulega í íslenskum efnahagsmálum né pólitíkinni þegar leið að lýðveldisstofnuninni árið 1944. Það er varla ofmælt að staðhæfa að hér hafi ríkt kreppa á báðum sviðum. Líklega voru það þessar ástæður sem réðu því að Sveinn Björnsson greip til þeirrar óvinsælu aðgerðar að skipa utanþingsstjórn sem sat hér þegar íslenska lýðveldið var stofnað.

Utanþingstjórnin Á myndinni eru, talið frá vinstri: Björn Ólafsson, Björn Þórðarson, forseti Íslands: Sveinn Björnsson, Vilhjálmur Þór og Einar Arnórsson. Jóhann Sæmundsson vantar á myndina. (sjá meira hér)

Burtséð frá því hvernig til skipunar utanþingsstjórnarinnar tókst þá hefur þýðing hennar fyrir bæði efnahagslega og pólitíska framvindu að öllum líkindum verið einhver. Hins vegar er sennilega óhætt að fullyrða að hún hafi ekki gert allan gæfumuninn en öðru máli gegndi um síldina!

Síldarævintýri og Marshallfé

Norðmenn höfðu gert út á síld við Íslandsstrendur áður en Íslendingar áttuðu sig á því hvaða tækifæri lágu í veiðunum á henni. Þó voru einhverjir farnir að gefa því gaum áður en það tímabil, sem hefur verið kennt við síldarævintýri, hófst. Þeir lærðu verklagið af Norðmönnum og tóku síðan veiðarnar og verkunina yfir. Þegar leið undir lok annars áratugar síðustu aldar voru Íslendingar komnir fram úr Norðmönnum í framleiðslumagni í síldarsöltuninni (sjá hér).

Í upphafi tuttugustu aldarinnar var saltfiskurinn undirstaðan á nær öllum útgerðarstöðum landsins „en eftir því sem á leið sneru Eyfirðingar sér æ meir að síldveiðum“ (Íslenskur söguatlas 3. bd: 38-39). Þeir sem áttu stærstu skipin sunnan- og vestanlands tóku þátt í veiðunum og sendu skip og áhafnir á síldarvertíðir fyrir norðan og/eða austan. En síldveiðunum fylgi meiri áhætta en saltfiskframleiðslunni auk þess sem síldveiðarnar voru árstíðarbundnar. Það var saltfiskverkunin reyndar líka.

Í góðum árum gaf síldin hins vegar svo vel að hún hefur verið sögð „einn helsti örlagavaldur Íslendinga“ á 20. öldinni. Sú ályktun hefur m.a.s. verið dregin að: „Án hennar er vafasamt að hér hefði byggst upp það nútímasamfélag sem við þekkjum í dag.“ (Íslenskur söguatlas 3. bd: 40)

Síldin varð mikilvægasta útflutningsgreinin í stað saltfisks áður

Eins og kom fram hér á undan þá var atvinna í kringum saltfiskframleiðsluna og síldveiðarnar árstíðarbundnar. Síldveiðarnar voru auk þess mjög landshornabundnar. Þegar veiðarnar stóðu sem hæst urðu þetta helstu „síldarplássin [...]: Bolungarvík, Ingólfsfjörður, Djúpavík, Skagaströnd, Siglufjörður, Dalvík, Hjalteyri, Dagverðareyri, Krossanes, Akureyri, Húsavík, Raufarhöfn, Vopnafjörður, Seyðisfjörður, Neskaupsstaður, Eskifjörður, Reyðarfjörður og Fáskrúðsfjörður.“ (sjá hér)

Á fjórða áratugnum lokaðist fyrir mikilvægustu saltfiskmarkaðina með borgarastyrjöldinni á Spáni. Síldin tryggði hins vegar áframhaldandi viðgang sjávarútvegsins og kom í veg fyrir að afleiðingar kreppunnar upp úr 1930 gerðu út af við ungt og veikburða efnahagslíf Íslendinga. Meðal þeirra fyrirtækja sem réttu úr kútnum á þessum tíma var stærsta útgerðarfélag landsins, Kveldúlfur, sem byggði síldarverksmiðju á Hjalteyri og bjargaði sér þar með frá gjaldþroti. Stjórnvöld létu hins vegar reisa síldarverksmiðjur á Siglufirði; stærsta síldarútgerðarbæ landsins.

Það var aftur á móti ekki fyrr en með hernáminu sem tókst að útrýma atvinnuleysinu sem hafði orðið landlægt með kreppunni. Allir sem voru í atvinnuleit gátu fengið vinnu allt árið og þurftu ekki lengur að búa við það árstíðabundna atvinnuleysi sem einkenndi íslenskt atvinnulíf á fjórða áratug síðustu aldar. Á sama tíma stóð landbúnaðurinn frammi fyrir nýjum keppinaut um vinnuaflið en sjávarútvegurinn gekk í gegnum byltingarkennda endurnýjun. 

Árin 1935-1950 varð [...] bylting í atvinnuefnum er fiskvinnslan skipti um grundvöll. Allt frá 1820 hafði saltfiskvinnsla á sumrin verið einkenni íslenskrar fiskvinnslu. Þetta var árstíðabundin starfsemi, háð veðri og vindum. Frá 1930 minnkaði mjög eftirspurn eftir saltfiski á alþjóðamarkaði og íslensk stjórnvöld leituðu nýrra framleiðsluaðferða og markaða. Ein lausnin var að byggja frystihús til að frysta fisk til útflutnings. (Íslenskur söguatlas 3. bd: 114)

Frystihús voru komin í flest pláss um 1942 en mörg þeirra voru endurbyggð auk þess sem ráðist var í nýbyggingar og hafnarframkvæmdir víða um land ásamt endurnýjun togaraflotans með því fé sem fékkst út úr því að Íslendingar gerðust aðilar að Marshalláætluninni árið 1948 (sjá t.d. hér). Árstíðasveiflur í sjávarútvegi heyrðu þó langt frá því sögunni til en sveiflur í aflamagni á milli ára höfðu þó meira að segja.

Síldarvinna

Eftir að hernámsliðið hætti að skapa atvinnu hér á landi kom síldin aftur til bjargar og hámarki síldarævintýris var náð. Það stóð þó ekki lengi því undir lok sjöunda áratugar síðustu aldar var hún á bak og burt og sneri ekki  aftur fyrr en nær þremur áratugum síðar (sjá hér).

Árið 1969 hvarf síldin. Hinn stóri norsk-íslenski síldarstofn var ofveiddur og ábyrgðina báru mestu síldveiðimenn þess tíma, Norðmenn, Íslendingar og Sovétmenn.
Hvarf síldarinnar varð íslensku síldarbæjunum og þjóðinni allri mikið áfall í atvinnu- og efnahagslegu tilliti. Á þessum árum hafði allt að helmingur útflutningsteknanna verið af síldarafurðum og þjóðin búið við mikla hagsæld.
(sjá hér)

Þær breytingar sem urðu á atvinnuháttum, byggðaþróun og lífskjörum þjóðarinnar með síldinni og hernáminu eru sannarlega þættir sem tengjast bæði beint og óbeint þeirri stjórnmálaþróun sem mótaðist þegar á heimastjórnartímanum, festist í sessi næstu áratugina á eftir og skapaði grundvöll af þeim hefðum sem pólitíkin lýtur enn þann dag í dag. Hér verður þó ekki staldrað frekar við þá samfélagsþróun sem stendur í beinu samhengi við hernámið og síldarævintýrið heldur horft frekar til þeirra stjórnsýslulegu ákvarðana sem leiddu til kvótastýringar í sjávarútvegi.

Áður en kemur að því að skoða forsendur og afleiðingar þeirrar framleiðslustýringar sem eru bundnar kvóta á veiðiheimildir er þó ekki úr vegi að minna á hvaða afleiðingar afskiptaleysi stjórnvalda varðandi síldveiðarnar hafði á marga af þeim bæjum sem byggðust meira og minna upp í kringum síldina. 

Djúpavík á Ströndum

Djúpavík á Ströndum er þeirra á meðal en þar hófst bygging síldarverksmiðju árið 1934 sem aflaði umtalsverðra tekna einkum fyrir þær útgerðir og þá einstaklinga sem tóku þátt í veiðinni og verkuninni auk þess að skila skatttekjum í ríkissjóð. Minnst af tekjunum urðu eftir í byggðarlaginu heldur streymdi burt með bátunum og vinnuaflinu sem komu annars staðar frá. Á Djúpavík varð lítið annað eftir en grotnandi byggingar og fölnandi minningar sem munu að lokum eyðast og hverfa. 

Þorskveiðunum settar takmarkanir í stækkaðri landhelgi

Það áttu gífurlegar breytingar sér stað í öllu því sem lýtur að sjávarútvegi á síðustu öld og líklegt að einhverjar liggi enn í nánustu framtíð. Stærri og afkastameiri skip þýddi meiri veiði en endalok þess tímabils sem var kennt við síldarævintýri varð alvarlegasti vitnisburðurinn um nauðsyn þess að setja fram stefnu og gera áætlanir varðandi fiskveiðarnar og aflamagnið. Útfærsla landhelginnar og verndun miðanna fyrir „rányrkju“ erlendra fiskiskipa í kringum miðja síðustu öld var sannarlega skref í þá átt.

Árið 1948 voru samþykkt lög á Alþingi um „vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins“ (sjá hér). Á grundvelli þeirra laga var landhelgin færð út í skrefum á árunum 1950 til 1975 (sjá hér). Sjávarútvegsráðherra þessa tíma voru að vonum mjög í sviðsljósinu og þar af leiðandi væntanlega eftirminnilegri en aðrir sem voru ráðherrar á sama tíma.

Þeir voru sjávarútvegsráðherrar þegar landhelgin var færð út

Það kveður ekki við svo ólíkan tón í ræðu Ólafs Thors, sem hann flutti árið 1952 í tilefni að því að landhelgin var færð út í 4 mílur, og ræðu Lúðvíks Jósepssonar sex árum síðar þegar landhelgin var færð út í 12 mílur. Í ræðu Ólafs Thors segir: „Aðgerðir íslenskra stjórnvalda í þessu máli eru sjálfsvörn smáþjóðar, sem á líf sitt og frelsi að verja.“ Í ræðu Lúðvíks Jósepssonar frá árinu 1958 segir: „[...] ekkert getur hindrað okkur í því að setja reglur, sem tryggja lífsöryggi þjóðarinnar í heild.“ (Íslenskur söguatlas, 3. bd: 168)

Ári eftir síðustu útfærsluna var þeim áfanga fagnað að Íslendingar væru „loks lausir við erlend fiskiskip af miðunum“ (Íslenskur söguatlas, 3. bd: 168). Á fullveldisdaginn það sama ár sendi þing ASÍ frá sér ályktun þar sem þetta kemur m.a. fram:

Fundur 33. þings ASÍ haldinn 1. desember 1976 fagnar unnum sigrum í þessu mesta hagsmunamáli þjóðarinnar og hvetur til aðgæslu um stjórnun fiskveiða og nýtingu helstu fiskistofna.

Þrátt fyrir að yfirlýst markmið útfærslu landhelginnar væri að vernda fiskimiðin og tryggja sjálfstæði landsins þá hefur á síðustu árum orðið að takmarka veiðar íslenskra skipa verulega og ýmislegt bendir til þess að Íslendingar hafi nýtt sínar auðlindir meira af kappi en forsjá. (Íslenskur söguatlas, 3. bd: 168)

Árið 1978 kynnti sjávarútvegsráðherra, Matthías Bjarnason, nýja hugmynd til stjórnar fiskveiðum sem voru leidd í lög það sama ár. Aðferðin hefur jafnan verið kölluð skrapdagakerfið sem í meginatriðum fól það í sér að vissa daga ársins átti uppistaða aflans að vera annað en þorskur.

Gert að aflanum

Þegar kom fram á árið 1983 þótti ljóst af skýrslum Hafrannsóknarstofnunar að markmið skrapdagakerfisins voru langt frá því að nást. Skýrslan þótti reyndar svo „svört“ að sjávarútvegsráðherra, Halldór Ásgrímsson, keyrði nýja fiskveiðistjórnarhugmynd í gegnum þingið sem gerði ráð fyrir að í stað þess að freista þess að takmarka veiðarnar með aðferðum skrapdagakerfisins þá væri veiðiheimildirnar bundnar skipunum.

Fyrsta kvótafrumvarpið varð að lögum á 12 dögum 

Frumvarpið um skiptingu heildarafla eftir skipum var lagt fram á Alþingi 9. desember 1983 og varð að lögum tólf dögum síðar (sjá feril málsins hér). Frumvarpið vakti töluverða umræðu þar sem m.a. kom fram hörð gagnrýni á tímapressuna sem málið var sett í, kvótafyrirkomulagið sjálft ásamt þeirri valdatilfærslu sem í frumvarpinu fólst.

Guðmundur Einarsson var einn þeirra þingmanna stjórnarandstöðunnar sem settu út á tímann sem var ætlaður til umræðu frumvarpsins með eftirfarandi rökum:

Það [frumvarpið] mun hafa áhrif á landshluta, sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklinga. Þessi áhrif verða á atvinnumál, félagsmál, fjölskyldumál, byggðastefnu, peningamál í rekstri fyrirtækja, bankastarfsemi og yfirleitt flest það sem máli skiptir. Ég nefni þetta einungis til þess að sýna í örfáum orðum umfang máls sem Alþingi mun nú taka 2-3 eftirmiðdagsstundir til að ræða. Þetta er hugsanlega eitthvert afdrifaríkasta mál sem hefur komið inn á borð hér jafnvel svo að árum skiptir. (sjá hér)

Kjartan Jóhannsson, sem var sjávarútvegsráðherra á fyrstu tveimur árum skrapdagakerfisins, var einn þeirra sem gagnrýndi frumvarpið en Alþýðublaðið hefur þetta eftir honum fimm dögum eftir að Halldór Ásgrímsson lagði kvótafrumvarpið, svokallaða, fram í þinginu:

„Ég tel það mjög óeðlilegt að Alþingi framselji svona mikið vald án þess að til stefnumörkunar hafi komið um það hvernig slík heimild verður notuð, annaðhvort í lagatextanum sjálfum eða þá í sérstakri þingsályktunartillögu. [...] Meðan engin stefnumörkun er fyrir hendi er hætta á því að ráðherra nýti sér slíka heimild að eigin geðþótta, jafnvel þvert gegn meirihlutaviljanum.“ (sjá hér)

Guðmundur Einarsson velti líka fyrir sér því valdi sem frumvarpið færði ráðherra sjávarútvegsmála og varpaði fram eftirfarandi hugleiðingum í sambandi við það vald sem frumvarpið gerði ráð fyrir að yrði á hans hendi:

Það er kannski vert að minnast í þessu sambandi að á undanförnu ári eða tveimur hefur verið verulega mikið um tilfærslu skipa, um skipasölur á landinu. Og síðan spyr maður: Hver gefur og hver tekur þessi verðmæti? Það er ráðh[herra]. Og þá kemur grundvallarspurningin: Hefur hann þá umráðarétt yfir þeim auðlindum, yfir þeim peningum, yfir þeim millj[ónum] sem verið er að dreifa með þessu lagi? (sjá hér)

Ungur sjómaður

Viku eftir að Halldór Ásgrímsson, sjávarútvegsráðherra, mælti fyrir kvótafrumvarpinu (mál nr. 82/1983) á Alþingi mælti Guðmundur Einarsson fyrir áliti minnihluta neðri deildar. Þar segir hann m.a. þetta um kvótann:

Ég tel að hann muni skapa jafnmörg vandamál og hann leysir. Við erum að tala um aðgerð sem getur gert menn ríka eða örsnauða með einu pennastriki. Við erum að tala um aðgerð sem getur annaðhvort fært einstaklingum og fyrirtækjum milljónir eða svipt einstaklinga og fyrirtæki milljónum á einni nóttu.

Ég tel að það sé óhugsandi að Alþingi geti eða megi framselja umráðarétt þjóðarinnar yfir þessum auðlindum skilyrðislaust. Ég tel að það hafi raunar ekki til þess neitt umboð. Við erum að tala um aðgerð sem þarf að stefna að mjög mörgum markmiðum. Það þarf að vernda fiskstofna, það þarf að vernda byggðarlög, það þarf að vernda atvinnu og það þarf að vernda fjölskyldur. Það þarf að búa svo um hnútana að þetta séu ekki bara kaldir fjötrar og framlenging á því hallærisástandi sem hefur ríkt undanfarin þrjú ár. Það þarf að búa svo um hnútana að það sem verður gert verði í raun og veru til uppbyggingar.

Um seinna atriðið, þar á ég við reglur um meðhöndlun og framsal kvóta, vil ég segja það að það eina sem hefur komið fram í viðtölum sj[ávar]útv[egs]n[efndar] við hæstv[virtan] sjútvr[áð]h[erra] í þessu efni er að hann muni ekki leyfa beina sölu kvóta. [...] Þarna tel ég að Alþingi eigi aftur að marka grundvallarreglur. Þarna erum við að tala um meðferð og úthlutun á svo stórkostlegum auðæfum að það hlýtur að þurfa að setja þar stefnumarkandi reglur um. (sjá hér (leturbreytingar eru höfundar))

Fiskvinnslufólk í kringum 1970

Eins og öllum er væntanlega kunnugt þá var kvótafrumvarpið samþykkt og er vert að hafa það í huga að þessi stórkostlega ráðstöfun þeirra auðlinda sem fram að þessu hafði verið einhugur um að líta á sem „sameign þjóðarinnar“ (sjá hér) varð að lögum á innan við hálfum mánuði eftir að þáverandi sjávarútvegsráðherra, Halldór Ásgrímsson, mælti fyrir frumvarpinu. Þremur mánuðum síðar héldu aðilar sjávarútvegsins stóran fund í Sigtúni. Samkvæmt ályktun sem send var af fundinum má draga þá ályktun að hörmulegar afleiðingar þess fyrir einstakar byggðir hafi mátt vera ljósar frá upphafi:

Almennur fundur sjómanna, útgerðarmanna og fiskverkenda haldinn í Sigtúni sunnudaginn 18. mars 1984 telur að sú leið sem valin var til stjórnunar fiskveiða í byrjun ársins, skipting afla á veiðiskip, með öllu óhæfa þar sem hún leiðir m.a. til óréttlátrar skerðingar á þeirri athöfn fiskimannsins, sem leitt hefur sjávarútveginn til að vera meginstoð þjóðarbúskaparins. Einnig skal bent á hvern veg þessi stjórnun leikur atvinnuöryggi fólks einstakra byggðarlaga. (sjá hér)

Halldór Ásgrímsson var á fundinum í Sigtúni en átti ekki annað svar við þeirri gagnrýni sem þar kom fram á frumvarpið en það „að þetta kerfi [kvótakerfið] væri sett til eins árs og við það yrðu menn að una, héðan af yrði því ekki breytt, fyrr en á næsta ári“ (sjá hér).

Sex árum síðar var settur kvóti á allar veiðar 

Halldór Ásgrímsson var sjávarútvegsráðherra frá árunum 1983 til 1991 eða í átta ár. Á undan honum hafði enginn verið svo langan tíma yfir ráðuneyti sjávarútvegsmála. En Þorsteinn Pálsson, sem tók við ráðuneytinu á eftir Halldóri sat þar jafnlengi og hann eða frá á árunum 1991 til 1999. Þegar Halldór tók við sjávarútvegsráðuneytinu tók hann við af Steingrími Hermannssyni sem lagði honum kvótafrumvarpið í veganesti (sjá hér).

Frumvarpið lagði Halldór fram í þinginu sama ár og hann tók við embættinu eða þann 9. desember 1983. Átta dögum síðar var það það samþykkt með afgerandi meiri hluta úr neðri deild þingsins (23:9 (sjá hér)). Tólf dögum eftir að Halldór lagði frumvarpið fram í þinginu var það síðan samþykkt í efri deild með 11 atkvæðum en 7 voru á móti (sjá hér). Sex árum eftir að kvótafrumvarpið varð að lögum lagði Halldór fram nýtt frumvarp til laga um stjórn fiskveiða sem byggði í meginatriðum á því kvótakerfi sem hafði verið innleitt með lögunum sem hann fékk í arf frá Steingrími Hermannssyni.

Gert að aflanum

Í umræðum inni á þingi um seinna kvótafrumvarp Halldórs Ásgrímssonar kom fram hörð gangrýni á það að nýja frumvarpið gengi þvert gegn fyrri yfirlýsingum um að tekið yrði tillit til reynslunnar af því fiskveiðistjórnunarkerfi sem var innleitt með eldri kvótafrumvarpinu árið 1984. Karvel Pálmason var einn þeirra en í ræðu sinni gagnrýndi hann það miðstýringarvald í sjávarútvegi sem frumvarpið gerði ráð fyrir að færa einum manni; þ.e. sjávarútvegsráðherra, ásamt því að vísa til gagna sem sýndu hörmulegar afleiðingar fyrir þau byggðalög þar sem íbúarnir byggðu afkomu sína fyrst og fremst á sjávarútvegi:

Þegar þetta kerfi var sett á voru menn að tala um það til reynslu og hverju það mundi skila til þjóðfélagsins í mikilvægasta útflutningi þessa lands. Það átti að draga úr fiskiskipaflotanum. Það átti að minnka sóknina og það voru kannski tvö af einkennum þessa kerfis sem þeir sem tala fyrir því og hafa talað fyrir því tóku fram að mundu verða. En hverjar eru nú staðreyndir þessa? Hér væri auðvitað ástæða til, og til þess hefur maður gögn, að halda 8-10 tíma ræðu varðandi sögu þessa máls og hvaða áhrif það hefur haft á hin ýmsu landsvæði í kringum landið, fyrst og fremst þau landsvæði sem byggja númer eitt, tvö og þrjú á sjávarútvegi, og ég hygg að menn ættu að líta til ársins 1989.

Það eru að vísu mörg dæmi á því ári hvernig kvótinn, í því formi sem hann hefur verið framkvæmdur, hefur farið með ýmis sjávarútvegssvæði. Ég nefni t.d. Patreksfjörð. Hvað gerðist þar? Ég vil ekki trúa því að þeir stjórnmálamenn sem gefa sig út fyrir það að hugsa um hag almennings í landinu, þar með væntanlega fiskvinnslufólks, sjómanna á þeim svæðum þar sem það á við, íhugi ekki þessi dæmi sem hafa brunnið á þessu fólki svo vikum og mánuðum skiptir.

Ég hefði kannski átt að taka það strax fram í upphafi að ég er algjörlega andvígur því fr[um]v[arpi] sem hér liggur fyrir [...]

Þetta er eitt stærsta málið sem menn ræða nú um. Ég er þeirrar skoðunar að kvótinn eins og hann hefur verið framkvæmdur [...] ég er ekki að tala gegn því að menn þurfi að hafa stjórn á fiskveiðum, alls ekki, en að afhenda slíkt miðstýringarvald einum aðila, [...] sem gert hefur verið og á að gera áfram, með fr[um]v[arpi] sem hér er gert ráð fyrir, í auknum mæli, það er auðvitað út [í] hött og tekur engu tali að Alþingi afsali sér því valdi sem það á að hafa, ég tala nú ekki um í grundvallaratvinnugrein þessa lands. (sjá hér)

Komið með aflann heim

Halldór Ásgrímsson mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi 15. febrúar 1990. Þremur vikum síðar var það til umræðu í neðri deild þingsins þar sem Karvel Pálmason lýsti yfir þeim þungu áhyggjum sem hann hafði í sambandi við þau áhrif sem sambærilegt fiskveiðistjórnunarkerfi hafði þegar haft á atvinnulíf sjávarplássanna á landsbyggðinni. Þremur mánuðum síðar var það afgreitt úr úr nefnd. Í síðustu umræðunni áður en frumvarpið var lagt til atkvæðagreiðslu  dregur Geir Gunnarsson mörg kunnugleg atriði fram í ræðu sinni þar sem hann bendir á þá ágalla sem höfðu þegar komið fram á kvótakerfinu á þeim sex árum sem það hafði verið til reynslu.

Hömlulausar heimildir til sölu veiðileyfa sem fylgja skipum við eigendaskipti og óheftar tilfærslur veiðiheimilda milli tegunda og stærðarflokka skipa við sölu felur í sér að í því veiðileyfakerfi þar sem veiðiheimildir eru bundnar við fiskiskipin og flytjast með þeim við eigendaskipti er í rauninni innibyggð sú tilhneiging að aflaheimildirnar safnast á æ færri hendur og geta, fræðilega séð a.m.k., endað á einni hendi, hendi þess sem fjárhagslega er sterkastur. Gildir þá einu hvaðan það fjármagn er komið.

[...]

Það fr[um]v[arp] sem lagt var fram í vetur til nýrra laga um stjórnun fiskveiða fól ekki í sér neinar þær breytingar sem verulegu máli skiptu í þá veru að ráða bót á þeim megingöllum kerfisins sem með æ ógnvænlegri hætti gátu stofnað lífsafkomu fólks í sjávarplássunum í voða ef fiskiskip og veiðiheimildir voru seld frá staðnum. Þessi vandi sjávarplássanna hefur verið sífellt augljósari og í æ ríkari mæli brunnið á h[æst]v[irtum] alþ[ingis]m[önnum], hvar í flokki sem þeir hafa staðið. (sjá hér (leturbreytingar eru höfundar))

Það er svo sannarlega af mjög mörgu að taka þegar kemur að umræðum inni á Alþingi um kvótafrumvörpin frá 1983 og 1990. Kvótinn hefur líka verið mjög til umræðu síðan; bæði inni á þingi og víðar. Í fiskveiðistjórnunarlögunum frá 1990 er gert ráð fyrir möguleikanum á að rukka svokallaðan auðlindaskatt eða veiðigjöld. Umræður um þetta atriði hafa ekki síður verið áberandi síðustu misseri og komust í hámæli þegar Steingrímur J. Sigfússon lagði fram frumvarp um innheimtu slíkra gjalda vorið 2012.

Ung fiskverkunarkona

Í því samhengi er ekki úr vegi að minna á það að Steingrímur J. kom nýr inn á þing vorið 1983 og hefur því tekið þátt í umræðunni um kvótann frá upphafi. Hann tjáði sig líka um bæði frumvörpin í þinginu en í því sambandi er e.t.v. rétt að minnast þess að árið 1990 var hann landbúnaðar- og samgönguráðherra í þriðju ríkisstjórninni sem Steingrímur Hermannsson leiddi. Þess má svo geta að Jóhanna Sigurðardóttir var félagsmálaráðherra í þeirri sömu ríkisstjórn (sjá hér). Bæði greiddu kvótafrumvarpi Halldórs Ásgrímssonar atkvæði sitt samkvæmt því sem hefur komið fram í máli þingmanna síðar (sjá hér og hér)

Hér verður ekki farið nánar út í þátt eða afstöðu sjávarútvegsráðherra síðustu ríkisstjórnar á þeim tíma sem kvótinn var innleiddur heldur verður það látið bíða þess hluta þar sem borin verður saman menntun, þekking og reynsla Steingríms J. Sigfússonar og Sigurðar Inga Kristinssonar, sem er núverandi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, af undirstöðuatvinnuvegunum tveimur. Áður en botninn verður sleginn í þessa umfjöllun um þá, sem hafa verið skipaðir ráðherrar yfir sjávarútvegsmálunum og ákvarðanir þeirra, er þó vel við hæfi að líta yfir afskipti stjórnvalda af kjaramálum þeirra sem starfa í þeirri atvinnugrein sem hefur aflað þjóðarbúinu langmestra tekna rúmlega 100 síðustu árin.

Stjórnvöld til varnar útgerðinni

Í öðrum hluta þessarar umfjöllunar um sjávarútvegsmál var farið yfir helstu ákvarðanir sem voru teknar varðandi sjávarútveginn fram til ársins 1938. Þar bar frekast á björgunaraðgerðum sem snerust ekkert síður um að koma í veg fyrir að offjárfestingar tveggja sjávarútvegsfyrirtækja settu bankastarfsemina í landinu í þrot. Samkvæmt því sem var haldið á lofti í málgögnum Alþýðuflokks og Kommúnistaflokksins var skuldunum sem eigendur Alliance og síðar Kveldúlfs höfðu stofnað til velt yfir á herðar almennings.

Stjórnvöld höfðu líka afskipti af kjaramálum og þá einkum sjómanna. Þar bar hæst Vökulögin sem voru sett árið 1921, í embættistíð Péturs Jónssonar sem atvinnumálaráðherra, og lög um vinnudeilur og stéttarfélög sem voru sett í stjórnartíð þeirrar stjórnar sem kallaði sig Stjórn hinna vinnandi stétta, eða árið 1938. Skv. yfirliti sem birtist í Ægi í janúar árið 1995 var hún fyrst ríkisstjórna til að setja lög á verkfall sjómanna . Þar kemur líka fram að sjómenn fóru 18 sinnum í verkföll á árunum 1916 til 1995. Fjórtán sinnum náðust samningar en fjórum sinnum bundu stjórnvöld endi á kjarabaráttu sjómanna með lagasetningu.

1938 hófst verkfall sjómanna í byrjun janúar og lauk með lagasetningu um miðjan mars. Hermann Jónasson (Framsóknarflokki) var þá forsætisráðherra en Haraldur Guðmundsson (Alþýðuflokki) atvinnumálaráðherra (sjá hér). Hann sagði af sér embættinu í kjölfar þess að gerðadómsfrumvarp Hermanns Jónssonar á verkfall sjómanna var samþykkt á Alþingi.

Ein meginrök Hermanns Jónassonar fyrir því að endir yrði bundinn á verkfallið með lagasetningu voru þau að í reynd hefðu „allir flokkar viðurkennt að samningsrétturinn og samningsfrelsið yrði að víkja í þessu máli fyrir þeirri nauðsyn þjóðfélagsins að togararnir yrðu starfræktir.“ (sjá hér)

Svartur sjór af síld

1969 hófst verkfall sjómanna í ársbyrjun sem stóð í rúman mánuð. Samningaviðræður báru engan árangur. 17. febrúar setti þáverandi ríkisstjórn lög sem bundu enda á verkfallið. Bjarni Benediktsson (Sjálfstæðisflokki) var þá forsætisráðherra en Eggert G. Þorsteinsson (Alþýðuflokki) sjávarútvegsráðherra (sjá hér).

Tveimur árum síðar var skollið á enn eitt verkfallið en þá setti Geir Gunnarson (Alþýðubandalagi) verkfallið árið 1969, 1970 og þess sem þá var yfirstandandi í það samhengi að stjórnvöld hefðu skert kjör sjómanna til að bjarga útgerðinni. Þetta gerði hann í ræðu sem hann flutti á Alþingi 22. febrúar árið 1971. Þar sagði hann m.a: „Kjarasamningar nást ekki með eðlilegum hætti á meðan sjómenn eru undir oki þessara laga [vísar í lög nr. 79/1968]. Þótt lagaákvæðunum, sem hér er um rætt, sé ætlað að verða útgerðinni til styrktar, þá er það mikil skammsýni að ætla, að kjaraskerðingarlög gegn sjómönnum verði útgerðinni til framdráttar, þegar til lengdar lætur.“ (sjá hér)

1979 stóð farmannaverkfall frá 25. apríl fram til 19. júní þegar bundinn var endir á það með setningu bráðabirgðalaga. Þá var Ólafur Jóhannesson (Framsóknarflokki) forsætisráðherra og Kjartan Jóhannsson (Alþýðuflokki) sjávarútvegsráðherra (sjá hér). Samkvæmt fréttum frá þessum tíma var innihald laganna það að vísa „kjaradeilu farmanna [...] til kjaradóms, sem ákveða á laun, kjör og launakerfi áhafna á farskipum.“ (sjá hér)

1994 fóru sjómenn í allsherjarverkfall 1. janúar sem lauk með bráðabirgðalögum ríkisstjórnarinnar 14. sama mánaðar. Á þessum tíma var Davíð Oddsson (Sjálfstæðisflokki) forsætisráðherra og Þorsteinn Pálsson (Sjálfstæðisflokki) sjávarútvegsráðherra (sjá hér).

Í ræðu Steingríms J. Sigfússonar (Alþýðubandalagi) frá 25. janúar 1994 segir hann „það þó alveg ljóst [...] að það voru áhrif laganna um stjórn fiskveiða á kjör sjómanna sem voru erfiðasti þröskuldurinn í deilunni.“ og bætti við: „Ég tel að allur aðdragandi málsins og málsaðstæðurnar bendi til þess að einhver öfl sem hér höfðu mikil áhrif hefðu ætlað sér að láta þetta enda nákvæmlega svona og brjóta andstöðu sjómanna við þetta á bak aftur með lögum ef á þyrfti að halda til þess að geta síðan haldið áfram að reka kerfið óbreytt.“ (sjá hér)

Síðar í ræðu Steingríms J. fer ekkert á milli mála að með framangreindum orðum vísar hann til Landssambands íslenskra útvegsmanna sem samkvæmt hans meiningu stóluðu á að stjórn Davíðs Oddssonar gengi þeirra erinda gegn kjarakröfum sjómanna. Það er ómögulegt að áætla nákvæmlega hvað býr að baki þessari staðhæfingu Steingríms J. en hitt er víst að aldrei hefur verið gripið jafnoft inn í kjaradeilur nokkurrar starfsstéttar með lagasetningum eins og sjómanna á þeim áratug sem var framundan; þ.e. tíunda áratug síðustu aldar. 

Íslenskir togarasjómenn

Síðasta áratug tuttugustu aldarinnar gerðu sjómenn ítrekaðar tilraunir til að ná fram leiðréttingum á kjörum sínum gagnvart útgerðinni en ríkisstjórnin, undir forsæti Davíðs Oddssonar og með Þorstein Pálsson í sjávarútvegsráðuneytinu, gripu jafnharðan inn í með lagasetningum sem bundu enda á boðuð verkföll þeirra (sjá hér).

Sjómenn málaðir út í horn 

Afskiptum stjórnvalda af kjaradeilum og/eða kjörum starfsmanna í sjávarútveginum lauk ekki með því að síðasta öld leið undir lok. Upphaf þessara aldar markaðist af einu stærsta inngripi í innlendar kjaradeilur sem sögur fara af þegar enn ein lögin voru sett á verkföll sjómanna. Stór orsakavaldur harðandi deilna milli útgerðarinnar og sjómanna er sú tilhneiging útvegsmanna að standa straum af nýjum kostnaðarliðum útgerðarinnar með skerðingu á kjörum þeirra sem vinna að fiskveiðum. Kostnaðarliðirnir sem hér er vísað til eru annars vegar þeir sem komu til með kvótakerfinu, sem var fest í sessi í upphafi tíunda áratugarins, en hins vegar veiðigjöldunum sem voru lögbundinn í stjórnartíð síðustu ríkisstjórnar (sjá hér).

2001 fóru helstu samtök sjómanna í verkfall 16. mars en frestuðu aðgerðum til 1. apríl. Útvegsmenn settu lögbann á verkfallið. 16. maí setti Alþingi lög á verkföll og verkbönn og var gerðardómi falið að ákvarða kjör sjómanna. Vinnustöðvunin stóð alls í sjö vikur. Árið 2001 var Davíð Oddsson enn þá forsætisráðherra en Árni M. Mathiesen (Sjálfstæðisflokki) var sjávarútvegsráðherra (sjá hér).

Lagasetningin var rökstudd með því að vinnustöðvunin hefði valdið miklum skaða fyrir atvinnulíf landsmanna, nýtingu auðlinda sjávar og útflutningshagsmuni. Alvarlegustu áhrifin voru fyrir einstaklinga sem störfuðu við fiskvinnslu og fyrirtæki og sveitarfélög sem byggðu atvinnu sína á sjávarútvegi en hefði einnig áhrif langt út fyrir þá hagsmuni sem samningsaðilar fjölluðu um. Skýr merki voru sögð um neikvæð áhrif vinnustöðvunarinnar á efnahagslíf landsins og ef ekki yrði gripið inn í málið myndi hún valda óbætanlegu tjóni fyrir þjóðarbúið í heild. (sjá hér)

Vorið 2012 voru mörg tilefnin fyrir þeirri spennu sem var í í kjaraviðræðum sjómanna og útgerðarmanna. Meginástæðurnar áttu þó rætur í aðgerðum þáverandi ríkisstjórnar sem komu niður á kjörum sjómanna. Hér er vísað til afnáms sjómannaafsláttarins og veiðigjöldin sem útgerðin hugðist mæta með lækkun launa til sjómanna í skjóli hlutleysis Alþingis gagnvart slíkum aðgerðum  (sjá hér).

Vincent Van Gogh

Afnám sjómannaafsláttarins kom fram í frumvarpi sem Steingrímur J. Sigfússon lagði fram undir lok nóvember haustið 2009 (sjá hér) eða á meðan hann gegndi embætti fjármálaráðherra í síðustu ríkisstjórn. Í umsögn með frumvarpinu segir:

„Tilgangurinn með lagabreytingunum er að auka tekjur ríkissjóðs í samræmi við markmið áætlunar um að jöfnuði verði náð í ríkisfjármálum á næstu fjórum árum. Í þessu frumvarpi er verið að leggja til hluta af þeim breytingum á lögum um tekjuöflun ríkissjóðs sem ætlunin er að flytja þannig að ofangreind áform nái fram að ganga á næsta ári.“ (sjá hér)

Þegar kemur að þeim rökum sem var ætlað að réttlæta afnám sjómannaafsláttarins segir m.a. þetta í frumvarpinu:

Rök fyrir sjómannaafslætti á sínum tíma voru m.a. langar fjarvistir frá heimili, slæmar vinnuaðstæður og þörf á sérstökum vinnufatnaði. Öll þessi atriði hafa breyst eða dregið hefur úr gildi þeirra í samanburði við aðra launþega. Stór hluti þeirra sem nú fá afsláttinn stunda vinnu fjarri heimili sínu en hið sama gildir um fjölda starfsstétta án þess að það sé bætt með skattfé. Vinnuaðstæður hafa gjörbreyst frá því sem áður tíðkaðist [...] auk þess sem hlífðarfatnaður er lagður til af vinnuveitanda.

Sjómannaafsláttur hefur á stundum tengst kjaramálum sjómanna og hefur verið til hans litið við ákvörðun á kjörum þeirra. Slík afskipti ríkisins af kjörum einstakra starfsstétta heyra nú sögunni til og er eðlilegt að þau ráðist í samskiptum launþega og vinnuveitenda. Þá er eðlilegt að hver atvinnugrein beri launakostnað af starfseminni þar sem annað veldur misræmi á kostnaði og óhagkvæmni.
Þá er ekki hægt að líta fram hjá því að þær starfsstéttir sem njóta mests af afslættinum eru meðal þeirra best launuðu á sjó og landi. Hluti af þeim störfum sem nú eru unnin á sjó (á frystitogurum o.fl.) voru áður unnin í landi án þess að því fylgdi nokkur skattaívilnun. Sambærileg störf eru einnig unnin í landi og felst því mismunun í sjómannaafslættinum milli fólks eftir vinnustað. (sjá hér)

Frumvarpið um tekjuöflun ríkisins varð að lögum síðustu dagana fyrir jól árið 2009. Þar með var ákvæðið um afnám sjómannaafsláttarins í skrefum sem þýðir að með þessu tekjuári (tekjuárinu 2014) fellur hann niður (sjá hér). Annað sem olli vaxandi spennu í kjaraviðræðum sjómanna og aðila útgerðarinnar vorið 2012 var sú hugmynd útgerðarinnar að lækka laun sjómanna til að mæta nýjum kostnaðarlið útgerðarinnar sem var tilkominn af nýsettum lögum um veiðigjöld (sjá t.d. hér)

Steingrímur J. Sigfússon var nýorðinn sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þegar hann lagði frumvarpið fram en það varð að lögum í júní 2012 (sjá feril málsins hér). Samkvæmt markmiðshluta laganna er veiðigjaldinu ætlað „að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og fiskvinnslu og til að tryggja þjóðinni í heild hlutdeild í þeim arði sem nýting sjávarauðlinda skapar.“ (sjá hér)

Sjómaður gerir að nýveiddum afla

Ályktanir 28. þings Sjómannasambands Íslands undirstrika hvað lá að baki þeirri spennu sem var í kjaraviðræðum sjómanna og útgerðarinnar vorið 2012. Af þeim fjórtán atriðum sem þingið ályktaði um eru þessi tvö efst á lista:

28. þing Sjómannasambands Íslands ítrekar enn og aftur mótmæli sín varðandi aðför stjórnvalda að sjómönnum með afnámi sjómannaafsláttarins. Það er á ábyrgð stjórnvalda að kjör sjómanna skerðist ekki þó ákvörðun sé tekin um það á hinum pólitíska vettvangi að kostnaður af sjómannaafslættinum sé færður frá ríki til útgerðanna. 28. þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að stjórnvöld dragi skerðinguna nú þegar til baka og noti hluta veiðigjaldanna sem innheimt eru af útgerðinni til að fjármagna kostnaðinn.

28. þing Sjómannasambands Íslands vísar á bug kröfu LÍÚ um verulega lækkun launa vegna veiðigjalda og annars rekstrarkostnaðar. Þingið harmar hótanir um verkbann á sjómenn til að knýja á um að þeir taki þátt í sköttum á útgerðina. Veiðigjöldin eru skattur á útgerðina sem stjórnvöld kjósa að leggja á hagnað hennar. (sjá hér)

Heimildir um ráherra og ráðuneyti

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið: Ráðuneyti: Sögulegt yfirlit

Ríkisstjórnir og ráðherrar frá 1904-1942
Ríkisstjórnartal frá stofnun lýðveldis

Ráherraskipan í síðara ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttir
Ráðherrar í núverandi ríkisstjórn

Krækjur á lög sem varða sjávarútveginn

Lög um veiðigjöld. 2012 nr. 74, 26. júní
Lög um tekjuöflun ríkisins
(afnám sjómannaafsláttarins). 2009 nr. 129, 23. desember
Lög um stjórn fiskveiða
. 1999 nr. 116, 10. ágúst
Lög um stjórn fiskveiða
. 1990 nr. 38, 15. maí
Lög um veiði í fiskveiðilandhelgi Íslands
. 1976 nr. 81, 31. maí
Lög um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins
. 1948 nr. 44, 5. apríl

Sjávarútvegur: Lög og reglugerðir (yfirlit á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins)

Umræður á þingi um sjávarútveginn 

Ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslensku krónunnar  (br. 79/1968)
Veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands (82/1983)
Stjórn fiskveiða (heildarlög) (38/1990)

Einar Olgeirsson. Ræða flutt á sameinuðu þingi. 79. mál: Milliliðagróði. 17. fundur, 75. löggjafarþing. 1955-1956.  

Heimildir af frétta- og netmiðlum

Helgi Bjarnason. Fréttaskýring: Verkföll ítrekað stöðvuð með lögum. mbl.is. 24. maí 2012
Leggjast gegn lækkun launa sjómanna
. mbl.is 9. nóvember 2012
Ályktanir 28. þings Sjómannafélags Íslands 29. - 30. nóvember 2012

Ekki rétt að hóta lögum á verkbann. mbl.is. 5. nóvember 2012
Fimm karlmenn vinna að lausn kvótamála. dv.is. 6. júní 2012

Þórólfur Matthíasson. Yfirfjárbindingarhætta í eignakvótakerfi. 2010.
Sjómannaafsláttur lækkar um áramót
. mbl.is. 28. desember 2010
Óttast afleiðingar minnkandi kvóta
. mbl.12: 17. mars 2010
Þorsteinn Ólafsson. Framfarir í íslensku þjóðlífi á millistríðsárunum. 16. febrúar 2010.

Jón Ólafs. Skuldaskil Thorsaranna. 1. júlí 2006
Helgi Þorláksson. Alliance í Ánanaustum. mbl.is: 13. maí 2006

Flotinn til veiða í kjölfar lagasetningar Alþingis. mbl.is 17. maí 2001
Lög á verkföll sjómanna og verkbönn útgerðarmanna
. Samtök atvinnulífsins. 17. maí 2001.
Sjávarútvegsráðherra segir verið að verja þjóðarheill
. mbl.is. 17. maí 2001
ASÍ hafnar inngripum stjórnvalda í kjaradeilu sjómanna
. mbl.is. 3. maí 2001

Mikil samlegðaráhrif við sameininguna. mbl.is. 3. febrúar 1999 (sjá líka inn á tímarit.is)

14 sinnum samið, 4 sinnum lög. Ægir. janúar 1995

Átökin um fisksöluna: Íslandi fleytt út úr kreppunni eftir Ólaf Hannibalsson. mbl.is: 29. október 1994

Umræður um sjávarútvegsmál á Alþingi. mbl.is. 29. apríl 1993

Stjórnun fiskveiða. Úthlutun veiðiheimilda. Meinbugir á lögunum. 1991

Kvótafyrirkomulagi komið á til reynslu. Morgunblaðið 22. desember, 1983.
Engin stefnumörkun fyrir hendi
. Alþýðublaðið 14. desember 1983.
Skipting aflans leiði ekki til landshluta-togstreitu
Tíminn 29. nóvember, 1983

„Gerðardómsfrv. var samþykkt í fyrrinótt“ .Nýja dagblaðið, 18 mars 1938 

Heimildir sem varða sögu og þróun í sjávarútveginum

Sjávarútvegur.is (tenglasafn fyrir sjávarútveginn o.fl.)

Atvinnuvegir Íslands. 2013. Floti okkar Íslendinga.
Wikipedia. Þorskastríðin. Síðast breytt 21. nóvember 2013.
Wikipedia. Íslenska kvótakerfið.  Síðast breytt 5. maí 2013.
Wikipedia. Saga Íslands. Síðast uppfært 5. maí 2013.
Wikipedia. Sjávarútvegur á Íslandi. Síðast breytt 19. desember 2012

Heimildir úr lokaritgerðum háskólastúdenta

Sigurbjörg K. Ásgeirsdóttir. Atvinnusköpun í dreifbýli. febrúar 2013
Sigrún Elíasdóttir. Marshall-áætlunin og tæknivæðing Íslands. júní 2012  


Til kvótastýrðs sjávarútvegs II

Þetta verður annar hlutinn af þremur færslum þar sem meiningin er að draga fram það helsta sem liggur stöðu sjávarútvegsmála þjóðarinnar til grundvallar. Í síðustu færslu var farið yfir það hverjir hafa setið lengst í Sjávarútvegsráðuneytinu auk þess sem það var dregið fram hvort þessir höfðu einhverja reynslu eða þekkingu varðandi sjávarútveginn. Hér verður áhersla lögð á að draga fram söguleg atvik og helstu ákvarðanir sem liggja núverandi stöðu atvinnugreinarinnar til grundvallar. Umfangsins vegna verður þó ekki farið yfir nema fyrstu fjóra áratugi síðustu aldar.

Það er reyndar líklegt að einhverjir sjái það skýrt og greinilega í þessu yfirliti hvernig hefðir og ýmis konar bönd sem binda menn saman hafa átt stærstan þáttinn í því að grafa undan því samfélagi sem kynslóðirnar létu sig dreyma um að sjálfstæðið myndi færa íslenskum almenningi. Þegar betur er að gáð þá er ekki annað að sjá en að um það bil sem smábændurnir og vinnulýðurinn slapp undan oki bændaaðalsins og dönskum yfirráðum hafi annar verið tilbúinn til að tryggja sér hagnaðinn af vinnuframlagi þeirra.

Af einhverjum ástæðum er stundum erfiðast að útskýra það sem blasir við

Í stað bændaaðalsins tók útvegsaðallinn við og fór alveg eins að og stórbændastéttin áður. Smáútgerðarmenn og verkalýðurinn við sjávarsíðuna átti ekkert sælla líf undir stórútgerðarmönnunum en smábændur og vistarbundinn vinnulýður hafði átt inn til dala áratugina á undan. Í stað óðalsbændafyrirkomulagsins með dönskum konungi og danskri einokunarverslun voru komnir nýríkir stórútgerðarmenn með einkareknum hluthafabönkum og einokunarsamtökum stærstu útgerðanna sem sölsuðu undir sig alla verslun með íslenska skreið og hákarlalýsi við útlönd.

Upphaf íslensks útvegsaðals

Ef mark er takandi á íslenskum fornbókmenntaarfi þá var Þuríður sundafyllir fyrsti útgerðarmaðurinn hér á landi. Hún nam land í Bolungarvík og setti Kvíarmið sem eru í mynni Ísafjarðardjúps. Að öðru leyti segir fátt af sjósókn á þjóðveldisöld. Þó má gera ráð fyrir að efnaðri bændur hafi komið fyrir þurrabúðarfólki á gjöfulustu fiskveiðijörðunum í þeirra eigu samanber t.d. Egils sögu. Þar segir að Skalla Grímur hafi m.a. búið jarðirnar Munaðarnes í Borgarfirði og Álftanes á Mýrum trúum þjónum sínum til nytja þeim veiðihlunnindum sem jörðunum fylgdu (sjá t.d. hér).

Það er alls ekki útilokað að landnámsmennirnir og afkomendur þeirra hafi síðan leigt öðrum útróðraleyfi af þessum jörðum eða selt hluta aflans sem kom í land. Samkvæmt sagnfræðinni var það þó ekki fyrr en á 13. og 14. öld sem Íslendingar tóku almennt að gera út á hin gjöfulu fiskimið sem umlykja landið. Á þessum tíma var reyndar fyrst og fremst gert út frá utanverðu Snæfellsnesi, Dölunum, Vestfjarðarkjálkanum öllum og suðvesturhorni landsins. Einhverjar verstöðvar voru þó fyrir norðan og austan en engar á Suðurlandi. Stærsta verstöðin var hins vegar í Vestmannaeyjum.

Á þessum tíma fjölgaði þurrabúðarfólki eitthvað en verstöðvarnar voru almennt í eigu biskupsstólanna, kirkjujarða eða stóreignabænda sem hafa að öllum líkindum leigt áhöfnum aðstöðu til útróðra í verstöðinni. Þrátt fyrir að fiskveiðar ykjust á þessum tíma var landbúnaðurinn áfram „kjölfestan í lífsafkomu þjóðarinnar.“ (Sjá Íslenskan söguatlas, I. bd: 115). Á 14. og 15. öld voru skreið og lýsi verðmætustu útflutningsvörur Íslendinga. Stærsta útflutningshöfnin var í Hvalfirði en þangað sóttu Norðmenn sem áttu í viðskiptum við Hansakaupmenn sem voru hollenskir kaupmenn. 

Ein verðmætasta útflutningsvaran á 14. og 15. öld

Á 13. og 14. öld voru það einkum þrjár ættir sem efnuðust gífurlega á þessum útflutningi en valda- og eignajafnvægi raskaðist nokkuð við eignaupptöku dönsku krúnunnar hér á landi við siðaskiptin. Bændur héldu þó áfram að senda verklausa vinnumenn á vertíð sem náði frá febrúar og fram í maí. Á 18. öld dró hins vegar saman í þeim vísi að sjávarútvegi sem var tekinn að festa rætur hér á landi en á sama tíma efldist sauðfjárrækt hér á landi vegna uppgangs í útflutningi á sauðfé.

Til að tryggja sér vinnuaflið og arðinn að vinnu þess hafði íslenska efnastéttin ýmis ráð og hafa þau löngum verið nefnd einu nafni „vistarbönd“. Þetta er samheiti yfir þær lagasetningar sem hömluðu fólki því að setjast að við sjávarsíðuna og framfleyta sér á sjávarfangi eingöngu (sjá hér). Með vistarbandinu var ekki aðeins komið í veg fyrir alvöru þéttbýlismyndun hér á landi heldur tryggði bændaaðallinn sig gagnvart samkeppninni til eignamyndunar með forréttindum til vinnuaflsins sem þeir þurftu á að halda til að viðhalda stöðu sinni og eignum. Þetta fyrirkomulag hélt til loka 19. aldar.

Verklag bæði til sjávar og sveita breyttist hægt og stóð nánast í stað jafnt í landbúnaði og sjávarútvegi þar til kom fram á 19. öld. Vermennirnir jafnt og bændur sem sóttu sjóinn reru á opnum bátum hvort sem það var til bolfisks- eða hvalveiða og gert var að aflanum við frumstæðar aðstæður þegar komið var í land. 

Verstöðvarlíf fyrr á öldum

Á 19. öld varð aftur uppgangur í útflutningi á sjávarafurðum. Fyrstu þilskipin voru keypt hingað til lands en þau voru gerð út til hvalveiða. Hákarlalýsi var þá orðið að dýrmætri verslunarvöru. Í framhaldinu má segja að sú breyting hafi orðið á að útgerðin var ekki lengur eingöngu í höndum auðugra bænda heldur fluttist að nokkru yfir til íslenskra kaupmanna sem voru að byrja að koma undir sig fótunum á svipuðum tíma. Þeir reiddu sig ekki síður á salfisksútflutning en bændur héldu líka áfram að vera stórtækir í útflutningi sjávarafurða fram undir lok aldamóta 19. og 20. aldar.

Í upphafi 19 aldar tóku að myndast nýir þéttbýliskjarnar og þá einkum við Faxaflóa, á Ísafirði og Akureyri. Mannfjölgun á þessum stöðum var þó hæg framan af sem má rekja til þess að stjórnvöld, t.d. í Reykjavík, bönnuðu þeim sem „uppfylltu ekki ákveðin skilyrði um heilsuhreysti og eign“ að setjast að í bænum. Þessir voru reknir aftur heim í sína sveit (sjá Íslenskan söguatlas, bd. II: 77).

Undir aldamótin brustu hins vegar allar flóðgáttir sem hélst í hendur við það að vistarbandið var afnumið (sjá hér) en ekki síður við hrun sauðasölunnar skömmu síðar (sjá hér). Margir þeirra sem fluttu á mölina tóku með sér einhverjar skepnur og ræktuðu kálgarða en lífsafkomuna byggði meiri hluti aðfluttra á sjónum.

Saltfiskur var það heillin

Áratugina í kringum þar síðustu aldamót hélst mannfjölgunin í bæjunum þremur; þ.e: Akureyri, Ísafirði og Reykjavík, í hendur við eftirspurnina eftir vinnuafli við sjávarútvegsgreinar. Ísafjörður tók forskotið vegna kjöraðstæðna til saltfiskverkunar. Ísfirskir kaupmenn tóku að kaupa fiskinn óverkaðan af bændum. Gott dæmi um verslunarfyrirtæki sem breyttist þannig í það að verða framleiðslufyrirtæki er Ásgeirsverslun. Til að anna eftirspurninni til útflutnings urðu þeir fyrstir til að hefja vélbátaútgerð en það var árið 1902. 

Þetta markaði upphaf kapítalískra framleiðsluhátta á Íslandi. Í stað þess að smáframleiðendurnir, bændurnir og fjölskyldur þeirra veiddu fiskinn, söltuðu hann og flyttu í kaupstað, kom nú annað fyrirkomulag. Kaupmenn og útgerðarmenn keyptu fiskinn óverkaðan og keyptu verkafólk til að salta hann og þurrka. Þessi verkaskipting varð til að auka mjög á hagkvæmni framleiðslunnar og nýta betur vinnuaflið (sjá Íslenskan söguatlas, II. bd: 136)

Fyrsti togarinn sem kom hingað til lands árið 1905 var keyptur í félagi sex karlmanna sem bjuggu allir við Faxaflóann. Einhverjir í Hafnarfirði en hinir í Reykjavík (sjá nánar hér). Einn kaupendanna var Björn Kristjánsson sem var á þessum tíma bæjarfulltrúi í Reykjavík en varð síðar bankastjóri Landsbankans og fjármálaráðherra í fyrstu innlendu ríkisstjórninni sem var skipuð árið 1917 (sjá hér). Með komu fyrsta togarans hingað til lands var hafinn stóriðnaður í útgerð á Faxaflóasvæðinu.

Mikilvæg forsenda stórrekstrar togara frá Reykjavík var að kapítalísk rekstrarform í fiskvinnslu voru þegar fyrir hendi, þ.e. umfangsmikil verkun á saltfiski. Þessi starfsemi hafði brotið af sér bönd bændasamfélagsins, boð þess og bönn, og því voru togarar leyfðir hér en ekki bannaðir eins og í Noregi. (sjá Íslenskan söguatlas, II. bd: 116)

Á næstu árum tók Reykjavík við meginstraumi þess fólks sem flutti úr sveitunum og samfara varð hún að þeirri miðstöð þjóðlífsins sem hún er nú. Við Eyjafjörðinn hafði íbúum á Akureyri fjölgað jafnt og þétt frá því um 1880.

Meginatvinnuvegur nýrra íbúa var saltfisksverkun sem varð umfangsmikill atvinnuvegur í þorpum sem tóku að rísa víðar við Eyjafjörðinn í kjölfar þess að þilskipin sem áður höfðu gert út á hákarl voru gerð út til þorskveiða. Um 1910 tóku Norðlendingar svo við af Norðmönnum og tóku að gera út á síld. Í kjölfarið tók Siglufjörður að vaxa „með amerískum hraða.“ (sjá Íslenskan söguatlas, II. bd: 115). 

Síldarstúlkur

Þegar fyrsta íslenska ríkisstjórnin var skipuð árið 1917 hafði uppgangurinn í sjávarútveginum ekki aðeins átt stóran þátt í einum af stórkostlegri breytingum á íslensku samfélagi heldur var hann orðinn önnur stærsta atvinnugrein landsmanna og sá sem skapaði Íslendingum mestar útflutningstekjurnar. Með sjávarútveginum sköpuðust skilyrði fyrir kapítalíska framleiðsluhætti sem leiddi til þéttbýlismyndunarinnar þar sem sjávarútvegsfyrirtækin urðu til.

Það hefur þegar verið vikið að uppgangi Ásgeirsverslunar á Ísafirði (st. 1852) á níunda áratug 19. aldar. Áður en lengra er haldið er rétt að nefna tvö fyrirtæki sem voru stofnuð á fyrstu árum síðustu aldar í Reykjavík og gerðust stórtæk í togaraútgerð.

Alliance var útgerðarfyrirtæki sem Thor Jensen og fleiri stofnuðu í byrjun síðustu aldar og létu smíða fyrsta togarann sem Íslendingar eignuðust. [...] Thor Jensen sagði skilið við Alliance 1910, vildi vera sjálfstæður og stofnaði sitt eigið fyrirtæki, Kveldúlf, árið 1912 og reisti útgerðarstöð sína í Skuggahverfi við Skúlagötu. (sjá hér)

Það má kynna sér sögu Thors Jensonar víða og lesa m.a. um það hvernig hagnaðurinn af Kveldúlfi var nýttur til að reisa hið umfangsmikla mjólkurbú hans að Korpúlfsstöðum en hér verður látið nægja að vísa í þessa heimild hér (sjá hér)

Undirstöðuatvinnuvegirnir í samkeppni

Hér að framan hefur það verið dregið fram hvernig sjávarútvegurinn var orðinn að annarri mikilvægustu atvinnugrein landsins þegar fyrsta ríkisstjórn landsins var skipuð hér árið 1917. Þó það hafi ekki verið undirstrikað sérstaklega þá má vera ljóst að í fámennu landi þá voru meginatvinnuvegirnir tveir; landbúnaðurinn og sjávarútvegurinn, í kappi hvor við annan um vinnuaflið sem streymdi á mölina í leit að frelsi undan oki vistarbandsins.

Reykjavík sennilega upp úr miðri 19. öld

Landbúnaðurinn hafði verið meginatvinnuvegur þjóðarinnar í margar aldir og bjó því að ríkari hefð og djúpstæðari rótum. Hliðargrein stóreignabændanna var hins vegar orðinn að sjálfstæðri atvinnugrein sem ógnaði hefðinni. Ýmis konar þjóðfélagsátök endurspegla togstreituna sem var á milli þessara tveggja atvinnugreina á fyrstu áratugum síðustu aldar. Þessi átök komu líka fram í pólitíkinni. Elsti stjórnmálaflokkur landsins (st. 1916) var í upphafi flokkur bænda sem gaf sig út fyrir það að vilja standa vörð um hagsmuni bænda. 

Fyrsti atvinnumálaráðherrann, Sigurður Jónsson, bóndi í Ystafelli í Þingeyjarsýslu, var einn stofnanda hans og er því líka fyrsti ráðherra Framsóknarflokksins (sjá hér). Eins og áður hefur komið fram var embættisheitið lagt niður árið 1949 en kjörtímabilið á undan hafði fyrsti landbúnaðarráðherrann verið skipaður (sjá hér). Það var Framsóknarmaðurinn, Bjarni Ásgeirsson, sem hlaut embættið. Áður var komin samtals um ellefu ára hefð fyrir því að landbúnaðarmálin væru í höndum annars en þess sem fór með atvinnumálaráðuneytið.

Það var Hermann Jónasson sem kom þessari hefð á með því að hann skipaði sjálfan sig yfir þessum málaflokki þegar hann varð forsætisráðherra í fyrsta skipti árið 1934. Hermann var forsætisráðherra næstu átta árin eða fram til ársins 1942. Allan þennan tíma var hann líka yfir landbúnaðarmálunum ásamt dóms- og kirkjumálaráðuneytinu (sjá hér).

Fyrsti sjávarútvegsráðherrann var hins vegar ekki skipaður fyrr en embættisheitið atvinnumálaráðherra hafði verið lagt niður árið 1949. Þetta var í ríkisstjórn Ólafs Thors sem tók við völdum 6. desember en sat aðeins til 14. mars árið eftir eða í þrjá mánuði. Eins og kom fram í síðustu færslu var það  Jóhann P. Jósefsson, útgerðarmaður úr Vestmannaeyjum, sem varð fyrstur til að gegna þessu embætti. Næsta kjörtímabil á eftir var Ólafur Thors skipaður í embættið en hann gengi því næstu sex ár á eftir. Helming þess tíma var hann líka forsætisráðherra (sjá hér).

Íslendingar togaravæddust í byrjun síðustu aldar

Þegar fyrsti sjávarútvegsráðherrann var skipaður árið 1949 höfðu sjávarútvegsmálin í tvígang verið tekin út úr atvinnumálaráðuneytinu og verið skipuð undir annan ráðherra. Fyrst árið 1932 en þá var Magnús Guðmundsson settur yfir málaflokkinn. Ólafur Thors leysti hann reyndar af undan embættisskyldum sínum undir lok ársins 1932. Í fyrstu ríkisstjórninni sem Ólafur fór fyrir árið 1942 fór hann yfir sjávarútvegsmálunum öðru sinni. Auk þess var hann yfir utanríkisráðuneytinu og fór með landbúnaðar- og vegamálin (sjá hér). 

Það er ekki komið að því enn að draga saman meginniðurstöður þessara eða annarra skrifa um íslensku ráðuneytin og afleiðingarnar af aðferðunum sem hafa fests í sessi við skipun í embætti æðstu yfirmanna þeirra. Hér verður þó vakin athygli á því sem ætti að blasa við og hafa stundum verið kölluð „helmingaskipti“ sem vísar til þess sem hefur verið ýjað að áður að Framsóknarflokkurinn var flokkur bænda en Sjálfstæðisflokkurinn útgerðarmanna.

Alþýðuflokkurinn, sem var stofnaður sama ár og Framsóknarflokkurinn; þ.e. 1916, hélt á lofti viðhorfum sem var ætlað að höfða til verkalýðsins. Í málgagni þeirra Alþýðublaðinu mátti því oft sjá gagnrýni á aðgerðir forystuflokkanna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, gagnvart almenningi í landinu. Í grein sem birtist í blaðinu 27. nóvember 1929 er dregin fram ágæt mynd af þeim þjóðfélagsátökum sem íslensk pólitík átti vissulega sinn þátt í að skapa og viðhalda með aðgerðum sínum.

Eftirfarandi orð eru höfð eftir Árna Jónssyni frá Múla sem þá var ritstjóri Varðar sem var málgang forvera Sjálfstæðisflokksins; Íshaldsflokkinn. Pétur H. Guðmundsson er hins vegar skrifaður fyrir greininni þar sem þessi tilvitnun í Árna er dregin fram. Greinin er svar Péturs við skrifum Magnúsar Jónssonar sem var kennari við Háskóla Íslands á þessum tíma; líkur benda til að það hafi verið við lögfræðideild skólans.

„Er það ærið umhugsunarefni þeim, sem altaf eru að ala á ríg milli útgerðarmanna og bænda, að hér hefir stærsti útgerðarmaðurinn á Íslandi lagt í langstærstu jarðræktarframkvæmdir, sem hér hafa verið gerðar síðan land bygðist. Sami stórhugurinn, sem birtist í því, þegar Thor Jensen lagði hér fyrstur manna út í togaraútgerð, hefir nú fengið sér viðfangsefni við ræktun jarðarinnar. Fjandskapur útgerðarinnar til landbúnaðarins birtist á Korpúlfsstöðum í því, að hver eyrir af öllum þeim hundruðum þúsunda króna, sem þar hefir verið varið til framkvæmda, hefir fengist af afrakstri útgerðarinnar."(sjá hér)

Glöggir lesendur sjá það væntanlega af tilvitnuðum orðum að einhverjir þeirra sem ruddu brautina og skópu hefðina í útgerðinni greiddu sjálfum sér arð út úr rekstri útgerðarinnar upp á „hundruð þúsunda króna“. Þeir voru líka til sem fannst það eðlilegt að þeir sem höfðu fjármagn til kaupa og reksturs þess búnaðar sem þurfti til að draga fiskinn í tonnatali að landi nytu umtalsverðra fríðinda og forréttinda. 

Sjómenn um aldamót 19. og 20. aldar

Einokunarbandalög í útflutningi sjávarafurða verða til

Strax á tíma fyrstu ríkisstjórnarinnar (1917-1922) reyndi á það fyrir hverja íslensku ráðherrarnir hygðust vinna þegar hin nýríka stétt útvegsmanna krafðist fyrirgreiðslu í krafti þess hlutfalls sem sjávarútvegurinn aflaði af þjóðartekjum landsins. Ráðherrar á þessum tíma, auk atvinnumálaráðherrans: Sigurðar Jónssonar í Ystafelli, voru Sigurður Eggerz og Jón Magnússon.

Málalyktir leiddu fram spurninguna um það hvorir stjórnuðu Íslandi: útgerðaraðallinn eða landsstjórnin? Spurningin var sett fram á forsíðu málgangs Alþýðuflokksins þ. 8. ágúst árið 1920. Þar segir m.a. þetta:

Vitanlega er við öfluga að etja, fyrir landsstjórnina, þar eð fiskhringsmennirnir, þó fáir séu, eru nokkrir af helstu auðmönnum landsins, en þeir aftur studdir af Íslandsbanka, að svo miklu leyti sem stuðningur getur verið af banka með bankastjórum, sem auglýstir hafa verið vísvitandi ósannindamenn um fjárhag bankans, svo sem nú er kunnugt orðið um bankastjórana í Íslandsbanka.

En samt mun þetta ekki vera erfiðara fyrir landsstjórnina en það ætti að vera að þora ekki að gera rétt, þó auðugir séu í móti, og skal landsstjórnin vita, að almenningur bíður þess nú með óþreyju að fá að sjá hvort það er sú stjórn sem þingið hefir sett sem ræður, eða hvort það er fiskhringurinn sem í raun og veru stjórnar Íslandi.
(sjá hér

Fiskhringurinn var félagsskapur stærstu útgerðarmannanna á Faxaflóasvæðinu sem nutu fyrirgreiðslu Íslandsbanka. Þeir sem koma einkum við sögu eru Geo Copland fiskkaupmaður og Eggert Claessen, þáverandi bankastjóri Íslandsbanka. 15 árum síðar, eða árið 1935,  rifjaði Verkalýðsblaðið málsatvikin upp vegna sambærilegra aðstæðna sem voru komnar upp í efnahagsmálum landsins vegna einokunar Landsbankans og fiskverkunarfyrirtækisins Kveldúlfs í málefnum sjávarútvegsins.

Þar segir um afleiðingar þess að ráðherrar fyrstu landsstjórnarinnar létu undan hagsmunum hins nýríka útvegsaðals og bankans sem hann hafði átt í skiptum við:

Landsstjórnin hélt áfram uppi vernd fyrir bankann. Bankinn verndaði miljónaspekúlantana. Allt var látið fljóta sofandi að feigðarósi.

Enda kom að því að kýli spillingarinnar sprakk. Íslandsbanki fór á höfuðið. Fiskhringurinn kútveltist. — Fátækir bændur og verkamenn á Íslandi, vinnandi stéttir landsins, fá í dag að greiða miljónatöp gjaldþrotsins. (sjá hér)
 

Árið 1935 hafði fiskverkunarfyrirtækið Kveldúlfur komið sér upp sambærilegri einokunaraðstöðu í útflutningi sjávarafurða og Copland fimmtán árum áður. Í stað Íslandsbanka var líka kominn annar banki; Landsbankinn. Á þessum tíma var Hermann Jónasson forsætisráðherra í sínu fyrsta ráðuneyti, Eysteinn Jónsson var fjármálaráðherra og Haraldur Guðmundsson atvinnumálaráðherra (sjá hér).

Útifundur í Reykjavík sumarið 1932 Þessi stjórn var sett saman af þingmönnum Framsóknar- og Alþýðuflokks. Þetta var í fyrsta skipti sem Alþýðuflokkurinn kom að ríkisstjórnarmyndun. Stjórninni gáfu þeir heitið: Stjórn hinna vinnandi stétta. Sennilega er það vegna þess að Alþýðuflokkurinn var kominn í stjórn sem það er Verkalýðsblaðið, málgagn Kommúnistaflokksins, sem vekur athygli á málsatvikum og hugsanlegum afleiðingum þeirra:

Landsbankinn er með því að hafa lánað Kveldúlfi fimm milljónir króna,- orðinn háður þessu fyrirtæki. Thorsararnir sitja inni með helztu núverandi verzlunarsambönd í saltfiski á Spáni og Ítalíu — og fá menn til að trúa því, að enginn geti selt þar fisk nema þeir. Þeir hóta að láta Kveldúlf hætta, ef þeir ekki fái fisksöluna einir. Landsbankinn hlýðir og beygir ríkisstjórnina. — Þannig er svívirðilegasta svikamylla landsins skipulögð. Kveldúlfur hefir sett Landsbankann í sömu klípu og Copland forðum Íslandsbanka. (sjá hér)

Þeir sem komu einkum við sögu að þessu sinni voru Magnús Sigurðsson, bankastjóri Landsbankans og Richard Thors fyrir hönd Kveldúlfs. Þess má geta að Magnús Sigurðsson var skipaður í bankaráð af Framsóknarflokknum en Richard Thors var bróðir Ólafs Thors sem hafði setið á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í 9 ár þegar þetta var (sjá hér).

Það er líka vert að benda á það að á þessum árum voru öll helstu samningamál þjóðarinnar erlendis í höndum þessara tveggja (sjá krækjuna hér að ofan í minningargrein um Magnús Sigurðsson og þess hér varðandi þetta hlutverk Richards). Þetta kom sennilega ekki síst til af því að þegar Sölusamband íslenskra fiskframleiðenda var stofnað árið 1932 varð Richard formaður sölunefndar þess en Magnús meðstjórnandi (sjá hér).

Tveimur árum síðar lagðist Sölusambandið ásamt bankastjórnum bæði Landsbanka og Útvegsbanka alfarið gegn frumvarpi um það að ríkið tæki upp einkasölu á sjávarafurðum (sjá hér) sem var sú leið sem nágrannaþjóðirnar fóru til að bregðast við afleiðingum kreppunnar á sjávarútvegsfyrirtækin (sjá hér). Á þeim tíma var Thor Thors einn framkvæmdastjóra Kveldúlfs og forstjóri Sölusambandsins en seinna embættinu gegndi hann til ársins 1940 eða nær allan sinn þingferil (sjá hér).

Það má líka minna á það í þessu sambandi að Ólafur Thors var einn framkvæmdastjóra togarafélagsins Kveldúlfs hf. á árunum 1914—1939, hann var formaður Félags íslenskra botnvörpuskipaeigenda frá árinu 1918 til ársins1935 og sat í landsbankanefnd frá 1928 til 1938 og í bankaráði Landsbankans á árunum 1936 til 1944 og svo frá árinu 1948 til æviloka (sjá hér)

Togarinn Snorri goði sem var í eigu Kveldúlfs h/f

Nýríkur útvegsaðall vindur bönd

Útgerðarmennirnir höfðu sterk ítök hvort sem það sneri að stjórnendum bankanna eða íslensku ríkisstjórninni. Böndin voru margvísleg en það má benda á ættar-, vináttu- og hagsmunabönd auk stéttarbanda sem er e.t.v. ónákvæmt hugtak en ætti þó að skiljast í þessu samhengi. Þegar horft er til þess hvernig nýríkur útvegsaðall landsins með fulltingi banka og landsstjórnar skipuðu sjálfa sig til þeirra forréttinda að ráðstafa sjávaraflanum og hagnaðinum af honum af eigin geðþótta er útilokað að finna nokkur skynsamleg rök önnur en bönd sem binda menn saman í hópa vensla og/eða hagsmuna.

Þegar sögulegar staðreyndir frá fyrstu áratugum síðustu aldar um lánafyrirgreiðslu tveggja banka til stærstu fiskverkunarfyrirtækjanna eru rifjuð upp og það að það voru þessi sömu fiskverkunarfyrirtæki sem ullu því að báðir bankarnir hrundu á einum og hálfum áratug þá er ljóst að það er ekki skynsemin sem hefur stjórnað hvorki í bankanum eða fiskverkunarfyrirtækjunum.

Þegar það er svo rifjað upp að landsstjórnirnar, sem gáfu sig út fyrir að vilja þjóðinni aukið sjálfstæði með því að gera stjórnsýsluna innlenda, höfðu hneppt alla þjóðina í skuldir útvegsins við bankanna áður en landið varå  sjálfstætt ríki þá þrjóta öll rök skynseminnar og það eitt stendur eftir að það var eitthvað annað sem réði ákvörðunum þeirra en hagsmunir þeirrar þjóðar sem átti sér drauma um bætt kjör með sjálfstæðinu.

Reykjavík ~1930

Árið 1929 knúðu stærstu útgerðarfélögin, Alliance og Kveldúlfur, fram samninga við þáverandi ríkisstjórn um ívilnanir af hennar hálfu varðandi lækkun tekjuskatts af hagnaði fyrirtækjanna þannig að þeir gætu mætt verkfallskröfum sjómanna. Rök útgerðarmannanna fyrir þessum ívilnunum, sem er útlit fyrir að hafi fengist í gegn, voru þau að þannig ættu þeir frekar möguleika á að mæta kauphækkunarkröfum sjómannanna.

Skipin [í eigu Kveldúlfs] máttu liggja og sjómenn máttu ganga atvinnulausir hálfan annan til tvo mánuði, þangað til útgerðarmenn gátu neytt ríkisstjórnina til þess að veita sér hlunnindi — ívilnun í tekjuskatti, skatti af hreinum gróða — svo þeir gætu greitt sjómönnum tæpan helming af kröfunni sem um var deilt, eða um 15% kauphækkun.

Og þessi hlunnindi fá aðeins þau útgerðarfélög, sem bezt eru stæð, sem græða. Hin, sem ekki græða og kynnu að þarfnast hjálpar, þau njóta einskis góðs af þessu. (sjá hér)

Tryggvi Þórhallsson Árið 1929 var Ólafur Thors framkvæmdastjóri Kveldúlfs, formaður Félags íslenskra botnvörpuskipaeigenda eins og áður hefur komið og hafði þá setið á þingi fyrir Íhaldsflokkinn (forvera Sjálfstæðisflokksins) í þrjú ár. Framsóknarflokkurinn var hins vegar í stjórn og var Tryggvi Þórhallsson forsætisráðherra á þessum tíma ásamt því að fara með atvinnu- og samgönguráðuneytið. Hann fór líka með embætti fjármálaráðherra á þessum tíma (sjá hér). Jónas Jónsson frá Hriflu var dómsmálaráðherra. Þess má geta hér í framhjáhlaupi að Tryggva hefur verið eignaður frasinn: „Allt betra en Íhaldið.“ (sjá hér). Af hvaða tilefni hann lét sér þessi orð um munn fara fylgir ekki sögunni.

Í forsætisráðherratíð Tryggva Þórhallssonar jukust opinber hagstjórnarafskipti ríkisins verulega. Þau komu fram með ýmsu móti. Þar má nefna innflutningshöft (sjá t.d. hér), samgönguumbætur (sjá hér) og uppbyggingu atvinnufyrirtækja. Meðal þeirra var Síldarverksmiðja ríkisins reist á Siglufirði.

Síldin er einn helsti örlagavaldur Íslendinga á [tuttugustu öldinni] og án hennar er vafasamt að hér hefði byggst upp það nútímasamfélag sem við þekkjum í dag. [...] á þriðja áratugnum átti síldarútvegurinn erfitt uppdráttar. Á fjórða áratugnum var yfirleitt mikil síldveiði og fjöldi nýrra síldarbræðslna tók til starfa. Líklegt má telja að ef síldarinnar hefði ekki notið við þá hefði kreppan upp úr 1930 orðið mun dýpri  en raunin varð á og hugsanlega gengið af sjávarútveginum dauðum og þar með íslensku efnahagslífi. (sjá Íslenskan söguatlas, II. bd: 40)

Tryggi Þórhallsson féll í ónáð í sínu kjördæmi vegna fyrirhugaðra breytinga á kosningakerfinu en Hermann Jónasson var kosinn nýr þingmaður Strandamanna árið 1934. Eins og áður hefur komið fram varð hann forsætisráðherra um leið og hann kom inn á þing og skipaði sjálfan sig sérstakan talsmann landbúnaðarins með því að taka málaflokkinn út úr atvinnumálaráðuneytinu. Tími stjórnar hinna vinnandi stétta var runnin upp.

„Blessuð síldin“ bjargaði efnahag landsins frá hruni

Þetta var tíminn sem Afurðasölulög voru sett á Alþingi. Samkvæmt opinberum gögnum var þeim ætlað að tryggja bændum sama verð fyrir sínar afurðir án tillits til búsetu í landinu. Sumir vildu þó meina að þeim hefði verið ætlað að koma höggi á Thorsarana þar sem þessum lögum fylgdu önnur um mjólkursamlög sem var tryggt einkasöluleyfi á mjólkurafurðum. Þetta kippti rekstargrundvellinum undan rjómabúinu sem Thor Jensen hafði látið reisa á Korpúlfsstöðum nokkrum árum áður (sjá hér).

Það var kreppa á Íslandi á þessum tíma og sjómenn fóru tvisvar sinnum í verkfall. Fyrst í árslok 1935 og lauk því með samningum einum og hálfum mánuði síðar. Síðara verkfallið hóst í upphafi árs 1938 og lauk með lagasetningu frá Alþingi tveimur og hálfum mánuði síðar (sjá hér) Í framhaldinu voru sett lög um stéttarfélög og vinnudeilur sem enn eru í gildi.

Lögin um stéttarfélög og vinnudeilur eða vinnulöggjöfin eins og hún er oftast kölluð var lögtekin árið 1938. Vinnulöggjöfin mótar samskipta- og leikreglur á íslenskum vinnumarkaði. Helsta markmið hennar er að tryggja vinnufrið í landinu, lögin eiga að tryggja að vegna árekstra sem kunna að skapast á milli aðila vinnumarkaðarins hljótist sem minnst tjón fyrir atvinnulífið í landinu. Verkalýðshreyfingin hefur ekki séð ástæðu til breytinga á vinnulöggjöfinni í gegnum tíðina og hefur ekki sýnt frumkvæði í þá veru (sjá hér).

Miðað við það sem segir hér að ofan er tilgangur laganna um verkfallsréttin ekkert síður sett fram til varnar atvinnurekendum. Þegar rýnt er ofan í lögin er líka ljós að skilin er eftir möguleiki stjórnvalda til að grípa inn í verkföll. Sjómenn hafa reyndar gjarnan kvartað undan því að íslensk stjórnvöld hafi of ríka tilhneigingu til að grípa inn í verkföll þeirra til varnar hagsmunum útgerðarmanna (sjá hér).

Það er rétt að taka það fram að lögin sem voru sett á verkfall sjómanna urðu til þess að ráðherra Alþýðuflokksins dró sig út úr stjórninni, sem hafði gefið sjálfri sér heitið: Stjórn hinna vinnandi stétta, en flokkurinn veitti Framsóknarflokknum þó áfram hlutleysi sitt (sjá hér). Reyndar var aðeins hálfur mánuður eftir af kjörtímabilinu þegar þetta varð. Eftir kosningarnar tók Framsóknarflokkurinn við stjórnartaumunum og lögfesti m.a. ofangreind lög um stéttarfélög og vinnudeilur (sjá hér).

Gunnlaugur Scheving

Úr böndum óðalsbænda í fjötra stórútgerðarinnar 

Það hefur þegar komið fram að stærstu útgerðaraðilarnir áttu trygga bakhjarla í bönkunum. Í krafti þeirra hafði tekist að samtíðavæða sjávarútveginn á undraverðum hraða ásamt því að byggja utan um starfsemina í landi. Vélvæðingin og fjöldi vinnufúsra handa sem streymdu á mölina tryggði eigendum stærri skipa og fiskverkunarstöðva í landi meira magn sjávarafurða en þeir gátu alltaf selt.

Offjárfestingar og önnur óábyrg fjármálahegðun hins nýríka útvegsaðals steypti Íslandsbanka í gjaldþrot árið 1930 en Útvegsbankinn var stofnaður á rústum hans. Árinu áður var Búnaðarbankinn stofnaður en honum var ætlað það hlutverk að styðja bændur sérstaklega (sjá hér).

Á rústum hans [Íslandsbanka], hins stærsta þrotabús, sem enn hefir þekkst á Íslandi, var Útvegsbankinn reistur, snemma á sama ári [1930]. Hlutverk hans er, eins og nafnið bendir til, að efla og styðja sjávarútveg landsmanna.

Ári áður var Búnaðarbankinn stofnaður með það höfuðhlutverk að styðja og efla hinn aðalatvinnuveg þjóðarinnar, landbúnaðinn. Þannig eiga þessar tvær bankastofnanir að vera meginstoðir undir atvinnulífi landsins, sín til hvorrar handar þjóðbankanum [Landsbankanum] (sjá hér).

Það er ekki meiningin að rekja sögu bankastarfsemi í landinu sérstaklega hér þó sagan sé vissulega forvitnileg og þá ekki síst fyrir það hvernig hún fléttast inn í þann grundvöll sem núverandi valdastrúktúr; verklag og hefðarreglur stjórnsýslunnar byggja á. Af því sem að framan er rakið ætti það að vera ljóst að fyrstu bankarnir tryggðu ekki aðeins ákveðnum aðilum yfirburðastöðu meðal nýrrar útvegsmannastéttar heldur er útlit fyrir að þeir hafi líka lagt þeim lið við að fara framhjá stjórnvöldum hvað varðar viðskiptasambönd og aðrar stórtækar efnahagsákvarðanir sem snertu hagsmuni allrar þjóðarinnar.

Nelson Mandela

Þetta hafði þær miskunnarlausu afleiðingar að fyrstu íslensku bankarnir; bæði Landsbanki og Íslandsbanki, komust í þrot áður en landið varð fullvalda. Fyrst Íslandsbanki sem var lýstur gjaldþrota árið 1930. Fimm árum síðar riðaði Landsbankinn til falls en ríkissjóður hljóp undir bagga og forðaði honum frá opinberu uppgjöri með því að taka við rekstri hans. Þetta gerðist þegar stjórn hinna vinnandi stétta fór með völdin yfir landsmálunum.

Í aðdraganda þess að Íslandsbankinn hrundi var Alþýðublaðið, málgagn Alþýðuflokksins, helsti vettvangurinn til að vekja athygli á því hvernig almenningur var leikinn fyrir samantekin ráð; Fiskhringsins, bankans og landsstjórnarinnar, um að fría sig ábyrgðinni af því hvernig var komið. Þegar Landsbankinn riðaði til falls árið 1935 var Alþýðuflokkurinn kominn í stjórn en þá er það Verkalýðsblaðið, málgagn Kommúnista, sem heldur því á lofti hvernig í pottinn var búið.

Landsbankinn hefir haft aðaleftirlit með gjaldeyrinum og úrslitaráðin. Eftirlit hans hefir verið ófullkomið og vítavert og full ástæða til að álíta að mikill fjárflótti hafi átt sér stað. Og auk þess hefir bankinn greitt í erlendum gjaldeyri allar múturnar til Spánar, 1,5 milljón kr., þó ekki séu nú til peningar fyrir matnum handa íslenzkri alþýðu.

Aðaltekjur landsins í erlendum gjaldeyri eru af fisksölunni. Landsbankinn knýr fram, að Kveldúlfur hafi fisksöluna. Kveldúlfur verzlar við firmu í Genua og Barcelona, sem Thorsararnir eru með í. Á þennan hátt er þeim gefið tækifæri til stórkostlegs fjárflótta. (sjá hér)

Eftir því sem næst verður komist voru aðrir fjölmiðlar þögulir um þessa hlið málanna og fáir utan Verkalýðsblaðsins dirfðust að bera saman stöðu Íslandsbanka um 1920 við vandræði Landsbankans á þessum tíma. Landsbankinn var fyrsti innlendi bankinn en Íslandsbanki hafði verið í eigu Dana. Niðurstaðan varð líka sú að Landsbankanum var forðað frá sömu örlögum og Íslandsbanka. Skuldir beggja voru þó færðar inn í reikning ríkissjóðs og þannig velt yfir á skattborgarana.

Karlar sitja á tunnum á meðan konur salta ofan í tunnur í gríð og erg

Árið 1937 birtist grein í Þjóðviljanum, málgangi Sósíalistaflokksins, þar sem þessi mál eru rifjuð upp og þau tengd rækilega saman ásamt því sem vakin er athygli á því hvaða afleiðingar þessi mál höfðu á lífskjörin í landinu:

Íslenska þjóðin vill ekki þola þetta ástand lengur. Hún veit að sukkið fer versnandi, ef því er hlíft. Hefði Íslandsbanki verið gerður upp 1921, þá hefði þjóðinni verið sparað stórfé.

Verði sú óreiða, sem nú hefir skapast kringum Kveldúlf, látin haldast áfram þá verður hrunið enn þá ógurlegra, þegar loksins kemur að skuldadögunum. Það ríður því á að skera strax á kýlinu, hreinsa til og skapa traustan grundvöll fyrir heilbrigt fjármálalíf. En í sökkvandi dýi getur engin traust bygging staðið.

Íslenska þjóðin hefir horft upp á að bankarnir, síðan 1920, hafi tapað milli 40—50 miljónum króna, eða 3 miljónum á ári að meðaltali. Það er næstum eins há upphæð og alt sparifé þjóðarinnar, sem búið er að fleygja þannig í braskara með óstjórn bankanna, meðan alþýðan líður skort.
(sjá hér)

Greinin sem þessi tilvitnun vísar til er vel þess virði að lesa hana alla. Það er líklegt að einhverjir vilji taka því sem þar stendur með fyrirvara, þ.á m. upphæðinni sem er nefnd þar. Þess vegna skla bent á að í grein sem birtist í Tímanum árið 1939, og fjallar um þá tíu ára starfsemi Búnaðarbankans, er gert ráð fyrir að samanlagt tap bankanna tveggja hafi ekki verið undir 35-40 milljónum íslenskra króna (sjá hér).

Það er líka vert að benda á grein sem birtist í Alþýðublaðinu einum mánuði eftir Þjóðviljagreinina. Greinin heitir „Orð og athafnir Alþýðuflokksins“. Þar kemur fram að það hefur verið boðað til kosninga árið eftir enda kjörtímabilið þá á enda. Greinin er afar berorð um það sem vart verður kallað annað en fjármálasukk Thorsfjölskyldunnar með stuðningi bankastjórnar Landsbankans. Hér verður vitnað til þess sem segir undir lok þessarar ýtarlegu greinar:

Hví skyldu smáútgerðarmennirnir, sem neitað er um rekstursfé, telja það forsvaranlegt að láta stórútgerðarfélögin komast upp með það að greiða ekki vexti af því fé, sem þeim hefir verið lánað, en myndu nægja smáútgerðinni til framdráttar í meðalári? Og hví skyldi allur almenningur, sem undanfarin ár hefir stunið undir drápsklifjunum, sem Íslandsbankasvindlið á sínum tíma lagði á þjóðina, ekki krefjast þess að slíkt endurtaki sig ekki framvegis? (sjá hér bls. 3)

Verkafólk á mölinni

Það er ekki útilokað að sumir lesendur þessara orða séu löngu búnir að missa þráðinn í því hvernig þessum skrifum um sjávarútveginn er ætlað að tengjast samanburði á þekkingar- og reynsluferlum ráðherra núverandi ríkisstjórnar við þá sem fóru með framkvæmdarvaldið í þeirri síðustu. Þó geri ég frekar ráð fyrir að þeir sem hafi lesið þennan texta, sem stöðugt teygist úr miðað við upphaflegt markmið, átti sig á að þegar uppruna hefðarinnar að núverandi fyrirkomulagi við skipun ráðherra er leitað þarf að rýna vel til fortíðarinnar.

Uppruni íslenskra stjórnmálahefða liggur í umbrotatímum síðustu áratuga 19. aldar og fyrstu áratuga þeirrar 20. Tímans þegar vondjarfur almenningur braust undan oki vistarbandsins, sem hafði tryggt efnuðustu bændunum vinnukrafta kynslóðanna, og þyrptist niður að sjávarsíðunni og freistaði þess að lifa af því sem sjórinn gaf. Í afurðavon sjávarins sáu margir tækifæri til að geta séð sjálfum sér og fjölskyldu sinni farborða. Þeir veiddu fisk, fæddu fjölskylduna og lögðu umframaflann inn hjá kaupmanninum og trúðu því að brátt myndu þeir vinna sér sjálfstæði.

En fyrr en varði urðu til nýir fjötrar og ný einokun fyrir það að niður við sjávarsíðuna fundust þeir líka sem áttu sér svo stóra drauma um eignir og yfirráð að þeir þurftu vinnuafl til að láta drauma sína rætast. Hinn nýfrjálsi verkalýður sveitanna hafði hvorki stéttarvitund né forsendur til að setja fram kröfur um kaup og önnur kjör. Á vissan hátt má segja að nýju vinnuveitendurnir niður við sjóinn hafi gengisfellt virði einstaklingsins og vinnuframlag hans enn frekar en tíðkaðist til sveita þar sem vinnuaflið hafði í það minnsta fæði og húsnæði allan ársins hring.

Vinnufólkí sveit

Hér er ekki verið að reyna að horfa fram hjá því að vissulega var aðbúnaður vinnuaflsins í gamla bændasamfélaginu æði misjafn og stundum vart til að halda lífi í nema þeim sterkbyggðustu. Hins vegar er vart hægt að horfa fram hjá því að forræðishyggja bændasamfélagsins dó ekki út með því að sjávarútvegurinn dró vinnuaflið yfir til sín. Brauðmolahagfræði bændasamfélagsins leið engan vegin undir lok með þéttbýlismynduninni og áður en Ísland varð fullvalda hafði verklýðurinn og aðrir landsmenn verið hnepptur í skuldafjötra fyrstu útgerðarrisanna og bankastjóranna sem höfðu farið þannig með ráðstöfunarfé bankanna að því hafði verið veitt í fyrirtæki þeirra frekar en önnur brýn framfaraverkefni sem snertu lífsgæði allra landsmanna.

Þegar saga ráðherra heimastjórnartímabilsins er skoðuð verður ekki hjá því vikist að horfast í augu við það að brauðmolakenningin var sú hagfræði sem stuðst var við í efnahagsstjórn landsins. Þrátt fyrir yfirlýst markmið um það að Ísland yrði sjálfstætt ríki með fullvalda þjóð þá studdu ráðherrarnir stærstu útvegsaðilana og bankastjórana sem þeir höfðu bundist í einokuninni á útflutningi sjávarafurða. Sömu aðilum var falið og/eða treyst fyrir viðskiptasamböndunum erlendis og aðrir útilokaðir frá því að versla með afurðirnar.

Sú aldagamla hefð að þeir sem ættu mest undir sér töluðu fyrir hönd þjóðarinnar hvarf þar af leiðandi alls ekki með uppgangi sjávarútvegsins um þar síðustu aldamót. Forræðishyggja bændasamfélagsins sat á þjóðfundinum árið 1851 og sat áfram á þingi allt landshöfðingjatímabilið. Þegar heimastjórnartímabilið rann upp var hugmyndafræði brauðmolakenningarinnar langt frá því að vera útdauð.

Kannski var það þess vegna sem niðurstaðan varð sú að bæði bankastjórar fyrstu bankanna hér á landi og vildarvinir þeirra og eigendur stærstu útgerðarfyrirtækjanna var hlíft við ábyrgðinni af skuldsetningunni sem þeir höfðu stofnað til í þeim tilgangi að tryggja fiskverkunarfyrirtækjunum sínum yfirburðastöðu. Kannski var það hugmyndin um það að almenningur nýtti það sem flæddi út af ofdekkuðu borði þeirra efnaðri sem gerði það að verkum að skuldum Coplands við Íslandsbanka og Kveldúlfs við Landsbanka  var steypt yfir þjóð sem dreymdi um frelsi fullvalda þjóðar í sjálfstæðu ríki. 

Konur sem unnu erfiðisvinnu af þessu tagi í kringum þar síðustu aldamót voru kallaðar áburðarkonur

Hér verður látið staðar numið að sinni en í næsta hluta verður farið yfir helstu lagasetningar sem varðar sjávarútveginn auk þess sem þess verður freistað að draga fram einhverjar heimildir um afleiðingar þeirra. Þar verður einkum horft til afleiðinga á vinnuafl, landsbyggð og efnahagsmál samfélagsins eftir því sem heimildir duga til. 

Heimildir um ráherra og ráðuneyti

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið: Ráðuneyti: Sögulegt yfirlit

Ríkisstjórnir og ráðherrar frá 1904-1942
Ríkisstjórnartal frá stofnun lýðveldis

Ráherraskipan í síðara ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttir
Ráðherrar í núverandi ríkisstjórn

 Krækjur á lög sem varða sjávarútveginn

Lög um hvíldartíma háseta á íslenskum botnvörpuskipum (Vökulögin). 1921 nr. 53 27. júní

Lög um stéttarfélög og vinnudeilur. 1938. nr. 80 11. júní

Heimildir sem varða sögu og þróun í sjávarútveginum

Hilmar Stefánsson. Búnaðarbankinn eftir tíu ára starf. Tíminn. 15. júní 1939.

Samvinnuslit stjórnarflokkanna. Alþýðumaðurinn. 19. maí 1937.

Orð og athafnir Alþýðuflokksins. Alþýðumaðurinn. 23. mars 1937.

Landsbanka- og Kveldúlfshneykslið. Þjóðviljinn. 2. febrúar 1937. 

Hvaða völd hefir Magnús Sigurðsson? Verkalýðsblaðið. 18. nóvember 1935. 

Hver stjórnar Íslandi? Fiskhringurinn eða landsstjórnin? Verkalýðsblaðið. 5. nóvember 1935 (vísað í mál frá árinu 1920): 3

Samsæri Kveldúlfs og Landsbankans. Verkalýðsblaðið. 5. nóvember 1935.

Alræði fjármálaauðvaldsins á Íslandi. Verkalýðsblaðið. 5. júní 1935.

Kjör sjómanna. Verkalýðsblaðið. 10. desember 1934.

Sölusamband íslenskra fiskframleiðenda stofnað. Ægir. 1. ágúst 1932.

Fiskihringurinn Copland og Claessen. Alþýðublaðið. 31. maí 1932.

Pétur H. Guðmundsson. Háskólakennarinn á undanhaldi. Alþýðumaðurinn. 11. nóvember 1929.

Hver stjórnar Íslandi? Fiskhringurinn eða landsstjórnin? Alþýðumaðurinn. 20. ágúst 1920.


mbl.is Smábátar komu með yfir 82 þúsund tonn að landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til kvótastýrðs sjávarútvegs I

Í síðustu færslu var farið yfir þá embættissögu og stjórnsýslulegu ákvarðanir sem liggja núverandi stöðu í  landbúnaðarmálum til grundvallar. Hér er meiningin að fara svipaða leið hvað varðar sjávarútveginn með þeirri undantekningu þó að umfjölluninni um sjávarútvegsmálin verður skipti í tvennt. Hér verður því farið yfir embættissöguna en í næstu færslu verður farið yfir þær ákvarðanir sem liggja núverandi stöðu í málefnum sjávarútvegsins til grundvallar.

Færslurnar þrjár eru undanfarar að framhaldi á þeim samanburði sem þetta blogg hefur verið lagt undir síðastliðnar vikur þar sem menntun, reynsla og þekking ráðherranna í núverandi og síðustu ríkisstjórn hafa verið bornar saman. Þessi og síðasta færsla eru sem sagt undanfarar að sjöundu færslunni í því verkefni sem snýr að Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytinu.

Það var Steingrímur J. Sigfússon sem gegndi þessu embætti undir lok síðasta kjörtímabils en Sigurður Ingi Jóhannsson gegnir því nú. Eins og kom fram í síðustu færslu hefur Steingrímur samtals verðið æðstráðandi í Landbúnaðarráðinu í u.þ.b. sex ár.

Undirstöðuatvinnuvegirnir

Embættissaga sjávarútvegsmála

Það var sagt frá því í síðustu færslu að Sigurður Jónsson, gjarnan kenndur við bæinn Ystafell í Köldukinn, er elsti atvinnumálaráðherrann í ríkisstjórnarsögu Íslands. Atvinnumálaráðherra var eitt þeirra þriggja ráðherraembætta sem skipað var til í fyrstu íslensku ríkisstjórninni og hélst sú hefð þar til heitið var lagt niður árið 1949. Þá höfðu viðskipta-, iðnaðar-, landbúnaðar- og sjávarútvegsmálin fest sig í sessi sem málaflokkar sem komu fram í embættisheitum þeirra ráðherra sem fóru með viðkomandi málefni. 

Magnús Guðmundsson Magnús Guðmundsson, sem hefur komið áður við sögu, var fyrsti ráðherrann til að fara með sjávarútvegsmálin. Þetta var í sjöundu ríkisstjórninni sem var mynduð hér á landi. Hún var sett saman árið 1932 af Ásgeiri Ásgeirssyni (síðar forseta). Ásgeir skipaði Magnús dómsmálaráðherra í þessari fyrstu og einu ríkisstjórn sem hann fór fyrir en Magnús fór einnig með sjávarútvegs-, iðnaðar-, samgöngu- og félagsmálin.

Magnús fékk lausn frá embætti 11. nóvember 1932.  Ólafur Thors tók við embættinu til 23. desember 1932 en þá tók Magnús við að nýju (sjá um ástæður þessa hér). Það vekur líka athygli að ráðuneyti Ásgeirs fékk lausn 16. nóvember 1933 en gegndi þó störfum til 28. júlí 1934.

Ferilskrá Magnúsar er sannarlega athyglisverð miðað við tímann og tækifærin sem sögulegar heimildir benda til að hafi verið hér í upphafi fjórða áratugarins.  Áður en Skagfirðingar kusu hann inn á þing hafði hann verið aðstoðarmaður í atvinnu- og samgönguráðuneytinu í fimm ár. Af þessum tíma var hann reyndar þrjá mánuði í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Tveimur árum eftir að hann var kosinn inn á þing, þar sem hann sat í 21 ár eða frá 38 ára aldri til dauðadags, var hann skipaður skrifstofustjóri Fjármálaráðuneytisins.

Annað sem vekur athygli í ferilskrá Magnúsar er að hann var sýslumaður Skagfirðinga á árunum 1912-1918 en hann var kosinn inn á þing árið 1916. Á meðan hann starfaði sem aðstoðarmaður á ráðuneytisskrifstofunum í Stjórnarráðinu var hann jafnframt fulltrúi Eggerts Claessens, yfirréttarmálaflutningsmanns  og málaflutningsmaður Landsbankans. Árið 1912 var hann skipaður til að „takast á hendur rannsókn á gjaldkeramáli Landsbankans“ (sjá hér og nánar um gjaldkeramálið hér).

Jóhann Þ. Jósefsson Jóhann Þ. Jósefsson var sá fyrsti sem var skipaður sjávarútvegsráðherra en hann gegndi því embætti ekki nema í rúma þrjá mánuði. Á sama tíma var hann líka æðstráðandi í Iðnaðarráðuneytinu auk þess að fara með bæði heilbrigðis- og flugmál. Þetta var á tíma þriðja ráðuneytis Ólafs Thors sem var starfandi frá því í desember 1949 fram í miðjan mars árið eftir. Kjörtímabilið á undan (1947-1949) var Jóhann fjármála- og atvinnumálaráðherra (sjá hér)

Ekki er getið um neina skólagöngu í ferilskrá Jóhanns sem er að finna inni á alþingisvefnum. Aftur á móti kemur það fram annars staðar að hann hafi aflað „sér [...] góðrar menntunar að mestu án skólagöngu.“ (sjá hér) Af ferilskrá hans má ráða að hann var umsvifamikill bæði í nærsamfélaginu í Vestmannaeyjum og á vettvangi félagssamtaka útvegsmanna en auk þess var hann í ýmsum opinberum samskiptum við erlenda pólitíkusa og viðskiptaaðila; einkum þýska (sjá nánar hér).

Jóhann rak verslun og útgerð í Vestmannaeyjum í nær hálfa öld í félagi við annan alþingismann. Þetta var á árunum 1909 til 1955. „Höfðu þeir umsvifamikinn atvinnurekstur bæði í verslun og útgerð.“ (sjá hér) Árið 1918 var Jóhann kjörinn í fyrstu bæjarstjórn Vestmannaeyja þar sem hann sat í tuttugu ár eða fram til ársins 1938. Hann var kjörinn inn á þing árið 1923 og var alþingismaður til ársins 1959 eða alls í 36 ár.

Í upphafi fjórða áratugarins var Jóhann í milliþinganefnd í sjávarútvegsmálum og á sama tíma gerðist  hann afar atkvæðamikill innan ýmissa félagssamtaka á sviði útgerðarmála. Þar má nefna að hann var í stjórn Sölusambands íslenskra fiskframleiðenda frá stofnun þess árið 1932. Útgerðarmenn kusu hann í síldarútvegsnefnd árið 1938. Við stofnun Samlags skreiðarframleiðenda árið 1953 var Jóhann svo skipaður framkvæmdastjóri þess. Því embætti gegndi hann næstu sjö árin eða til ársins 1960. Þess má svo geta að nánast allan fjórða áratuginn var Jóhann fulltrúi ríkisstjórnarinnar við verslunarsamninga í Þýskalandi (sjá nánar hér).

Eins og áður hefur komið fram staldraði Jóhann Þ. Jósefsson stutt við í sæti sjávarútvegsráðherra en engu að síður hefur hann lagt grunn að umgjörð sjávarútvegsins í öðrum embættisbundnum verkefnum. Þó er líklegt að hann sé flestum gleymdur í dag svo og margir þeirra sem gegndu embætti sjávarútvegsráðherra á síðustu öld. Þó verður það að teljast líklegra að einhverjir þeirra sem gegndu embættinu í meira en eitt kjörtímabil séu þeim sem hafa fylgst með innlendum sjávarútvegsmálum enn í fersku minni.

Nokkrir sjávarútvegsráðherrar frá 20. öld

Ólafur Thors er væntanlega öllum sem hafa sett sig eitthvað inn í íslenska pólitík þokkalega kunnugur þó þeir séu líklega færri sem hafa sett það á sig að hann sat í sex ár yfir sjávarútvegsráðuneytinu. Fyrst var það á árunum 1950 til 1953 en þá var Steingrímur Steinþórsson forsætisráðherra. Á þessum tíma fór Ólafur líka með iðnaðarráðuneytið. Næsta kjörtímabil á eftir var Ólafur forsætisráðherra í þriðja skipti og fór þá líka yfir Sjávarútvegsráðuneytinu.

Þess má geta að enginn nema Hermann Jónasson hefur verið forsætisráðherra jafnoft og Ólafur Thors. Alls fimm sinnum báðir. Í þessu samhengi er forvitnilegt að staldra ögn við og bera þá tvo lítillega saman. Hermann Jónasson var fæddur 1896 í Skagafirði. Ólafur í Borgarnesi árið 1892.

Ólafur varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1912. Í framhaldinu las hann lög við Hafnarháskóla og Háskóla Íslands en lauk aldrei náminu. Hermann varð stúdent frá sama skóla og Ólafur árið 1920. Fjórum árum síðar tók hann lögfræðipróf frá Háskóla Íslands. Hann varð hæstaréttarlögmaður árið 1945.

Hermann var 37 ára þegar hann var fyrst kosinn inn á þing fyrir Framsóknarflokkinn þar sem hann átti sæti í 33 ár. Það sem vekur ekki sísta athygli í sambandi við feril Hermanns er að hann varð forsætisráðherra sama ár og hann var kjörinn inn á þing í fyrsta skipti árið 1934. Þessu embætti gegndi hann alls fimm sinnum eða í átta ár. Samhliða forsætisráðherraembættinu fór hann allan tímann með dóms- og kirkjumálaráðuneytið ásamt fleiri málefnum. Oftast landbúnaðarmálunum. Alls gegndi Hermann fjórum ráðherraembættum og fór með 9 ólíka málaflokka fyrir utan málefni forsætisráðherra (sjá nánar hér).

Ólafur var 33ja ára þegar hann var kosinn inn á þing í fyrsta skipti fyrir Íhaldsflokkinn (síðar Sjálfstæðisflokkinn) árið 1926. Ólafur hafði því setið inni á þingi í 8 ár þegar Hermann kom þar fyrst. Fyrsta ráðherraembættið sem Ólafur gegndi var afleysing í Dómsmálaráðuneytinu á meðan flokksbróðir hans, Magnús Guðmundsson, stóð í málaferlum þar sem Hermann Jónasson kom nokkuð við sögu (sjá hér). Magnús var fjarrverandi í hálft ár eða þar til hann var sýknaður. Þá sneri hann aftur og tók við embætti dómsmálaráðherra að nýju (sjá nánar hér ofar þar sem fjallað er um þetta atriði).

Skreiðarstulkan starir á hafið

Í þriðja ráðuneyti Hermanns Jónassonar (1939-1941) var Ólafur Thors skipaður atvinnu- og samgönguráðherra og aftur í því fjórða (1941-1942). Á þeim tíma tók hann líka við Utanríkisráðuneytinu þegar hálft ár var eftir af kjörtímabilinu. Ólíkt Hermanni hafði Ólafur setið á Alþingi í 16 ár þegar hann varð forsætisráðherra í fyrsta skipti árið 1942. Hann varð hins vegar forsætisráðherra jafnoft og hann eða í fimm skipti en sat alls í 10 ár sem slíkur. Að síðasta forsætisráðherratímabili hans undanskildu þá fór hann ávallt með fleiri ráðuneyti og málaflokka en forsætisráðuneytisins.

Sjávarútvegsmálin voru einn þeirra málaflokka en hann stýrði því í fyrsta skipti á árunum 1950-1953 eins og hefur komið fram hér áður. Á þeim tíma fór Hermann Jónasson með landbúnaðarmálin. Þann tíma sem Ólafur sat inni á þingi fór hann með alls fimm ráðherraembætti og níu málaflokka (sjá nánar hér).

Það er svo vel við hæfi að ljúka þessum samanburði á því að benda á að Hermann Jónasson var formaður Framsóknarflokksins í 18 ár eða á árunum 1944 til 1962. Ólafur Thors var formaður Sjálfstæðisflokksins frá 1934 til 1961 eða í 27 ár!

Líkt og flokksbróðir Ólafs Thors, Jóhann Þ. Jósefsson, hafði Ólafur verið í útgerð áður en hann var kosinn inn á þing. Hann var framkvæmdastjóri togarafélagsins Kveldúlfs hf. í Reykjavík frá árinu 1914 til ársins 1939. Lengst af var hann líka formaður Félags íslenskra botnvörpuskipaeigenda eða á árunum 1918 til ársins 1935.

Á einæringi gegn ógnum hafsins

Emils Jónsonar hefur verið getið áður (sjá hér) þar sem hann var fyrsti iðnaðarráðherrann (sjá hér). Emil, sem var með verkfræðipróf frá Kaupmannahöfn, var æðstráðandi í alls sex málaflokkum á þeim samtals 18 árum sem hann var ráðherra. Hann var skipaður ráðherra í fyrsta skipti árið 1944 en lét af sínu síðasta ráðherraembætti árið 1971. Í fyrsta skipti sem hann var skipaður til ráðherraembættis var hann settur yfir Samgönguráðuneytið í öðru ráðuneyti Ólafs Thors

Árið 1958 hlaut Alþýðuflokkurinn stjórnunarmyndunarumboðið. Samkvæmt þeirri hefð sem hafði orðið til við fyrri ríkisstjórnarmyndanir tók Emil Jónsson, sem var  formaður Alþýðuflokksins á árunum 1956 til 1968 (12 ár), stól forsætisráðherra (sjá hér). Og samkvæmt þeirri venju sem er útlit fyrir að hafi skapast frá tíð fyrstu ríkisstjórnanna fór hann með fleiri mál samhliða ríkisráðsforystunni. Þ.á m. sjávarútvegsmálin. Ríkisstjórn Emils sat ekki nema í eitt ár en þá tók við 12 ára stjórnartíð Sjálfstæðis- og Alþýðuflokks. Emil Jónsson var ráðherra allan þann tíma. Þar af sex ár í Sjávarútvegsráðuneytinu.

Emil á ekki síður athyglisverðan feril, bæði utan og innan þings, en margir þeirra sem hafa verið skoðaðir hér á undan. Hann sat á þingi frá árinu 1934 til ársins 1971 eða hátt á fjórða áratug. Átta árum áður en hann settist inn á þing stofnaði hann Iðnskólann í Hafnarfirði, eða árið 1926, samkvæmt ferilskrá hans hefur hann verið embættissækinn og gegnt mörgum opinberum ábyrgðarstörfum á sama tímanum. Einkum er þetta áberandi á fjórða áratugnum.

Þá hefur hann verið skólastjóri Iðnskólans í Hafnarfirði, bæjarstjóri þar frá 1930 til 1937 og alþingismaður frá 1934. Eftir að Emil lét af bæjarstjórastöðunni tók hann við stöðu vita- og hafnamálastjóra. Fyrst á árunum 1937 til 1944 og síðar frá 1949 til 1957. Það er rétt að benda á það að þó Emil hafi ekki verið í embætti bæjarstjóra í Hafnarfirði eftir 1937 þá var hann fulltrúi í bæjarstjórn þar fram til ársins 1962. Annað sem vekur athygli er að Emil hefur verið bankastjóri Landsbankans á sama tíma og hann sat inni á þingi eða frá 1957 til 1958. Hann sat síðan í bankaráði Seðlabankans 1968—1972. (sjá hér).

Það er útlit fyrir að sú þekking og reynsla sem skipun Emils í embætti sjávarútvegsráðherra hafi grundvallast á stöðu hans sem  vita- og hafnamálastjóri á árunum 1937 til 1944 og 1949 til 1957 en auk þess hafði hann setið í fiskimálanefnd á árunum 1938 til 1939. Af þessu og fleiri dæmum sem hér hafa verið talin má vera ljóst að sú hefð hefur fest snemma í sessi að skipun í embætti ráðherra byggir ekki á staðgóðri þekkingu í þeim málaflokkum sem framkvæmdavaldinu er ætlað að fara með í umboði íslenskra kjósenda.

Síldin kom og gaf og tók

Eggert G. Þorsteinsson var flokksbróðir Emils Jónssonar og tók við sjávarútvegsráðuneytinu af honum þegar Emil var færður yfir í annað ráðuneyti í forsætisráðherratíð Bjarna Benedikssonar eldri (sjá hér). Eggert hefur komið við þessa sögu tvisvar sinnum áður. Fyrst þar sem Heilbrigðisráðuneytið var til umfjöllunar og síðar í umfjöllun um Félagsmálaráðuneytið.

Eggert sat inni á þingi fyrir Alþýðuflokkinn í 25 ár. Af þeim tíma var hann ráðherra í 6 ár. Eins og áður kom fram var hann settur yfir Sjávarútvegsráðuneytið í stað Emils í tilefni þess að hann var færður yfir annað ráðuneyti. Þetta var árið 1965. Eggert var sjávarútvegsráðherra í sex ár en fór auk þess m.a. yfir þeim ráðuneytum sem þegar hafa verið talin á sama tíma.

Eggert á sannarlega athyglisverðan feril eins og aðrir sem hafa verið skoðaðir hér en það er ekkert á ferli hans sem rökstyður það að hann hafi haft nokkra reynslu eða þekkingu á sjávarútvegsmálum að því undanskildu að hann er skipstjórasonur sem er fæddur og væntanlega uppalinn í Keflavík. Sex árum áður en hann settist inn á þing, eða þegar hann var 28 ára gamall, hafði hann útskrifast frá Iðnskólanum í Reykjavík í múrsmíði (sjá hér).

Gunnlaugur Scheving

Af þeim sem hér eru taldir átti Norðfirðingurinn og Alþýðubandalagsmaðurinn, Lúðvík Jósepsson, stystu viðdvölina í Sjávarútvegsráðuneytinu. Hann var fyrst skipaður sjávarútvegsráðherra í fimmtu og síðustu forsætisráðherratíð Hermanns Jónssonar sem stóð frá árinu 1956 til ársins 1958 (sjá hér) og síðar í fyrra ráðuneyti Ólafs Jóhannessonar (sjá hér) sem sat á árunum 1971 til 1974. Ef að líkum lætur eru þeir þó fleiri sem muna eftir Lúðvík í Sjávarútvegsráðuneytinu en þeim sem hafa verið taldir hér á undan.

Eina menntunin sem tekið er fram að Lúðvík hafi lokið er gagnfræðapróf sem hann lauk 19 ára gamall. Í framhaldinu starfaði hann sem kennari við Gagnfræðaskólann á Norðfirði í 9 ár. Hann var 29 ára gamall þegar hann var kosinn inn á þing þar sem hann sat í 37 ár. Þar af var hann sjávarútvegsráðherra í 5 ár eins og áður hefur komið fram en með því fór hann með Viðskiptaráðuneytið líka. 

Lúðvík átti það sameiginlegt með Eggert G. Þorsteinssyni að vera sjómannssonur. Hann átti það svo sameiginlegt með Jóhanni Þ. Jósefssyni og Ólafi Thors að standa í útgerð meðfram þingstörfunum. Í ferilskrá hans segir að hann hafi starfað að útgerð í Neskaupsstað á árunum 1944 til 1948 en þá orðið forstjóri Bæjarútgerðar kaupstaðarins og gegnt því embætti fram til ársins 1952 (sjá hér).

Hann á það svo sameiginlegt með Emil að meðfram þingmennskunni hefur hann haldið í stöðu sína í bæjarmálum sinnar heimabyggðar. Lúðvík var bæjarfulltrúi í Neskaupstað í 42 ár eða frá 1938 til 1970. Þar af var hann forseti bæjarstjórnar á árunum 1942 til 1943 og 1944 til 1956. Það má vekja athygli á því að þetta var eftir að hann var kosinn inn á þing. Þess má svo geta þess að Lúðvík varð ekki formaður Alþýðubandalagsins fyrr en undir lok þingferils síns eða á árunum 1977 til 1980.

Af ferilskrá Lúðvíks má ráða að hann hefur staðið opinn fyrir því sem sneri að útvegsmálum. Auk þess að standa að útgerð sjálfur á árunum 1944 til 1952 var hann í stjórn Fiskimálasjóðs á árunum 1947 til 1953 og í bankaráði Útvegsbanka Íslands frá 1957 til 1971. Hann starfaði tvisvar í milliþinganefnd Alþingis í sjávarútvegsmálum eða árin 1942 og 1956. Auk þessa má nefna að hann var kosinn í togaranefnd árið 1954 og var fulltrúi á Genfar-ráðstefnu um réttarreglur á hafinu árin: 1958, 1960 og síðan frá árinu 1975 til ársins 1982.

Ayn Rand

Halldór Ásgrímsson var kosinn inn á þing fyrir Framsóknarflokkinn árið 1974 og sat þar í 32 ár. Samkvæmt ferilskrá hans sem er að finna inni á vef Alþingis  er hann með samvinnuskólapróf frá árinu 1965. Árið 1970 hefur hann öðlast réttindi sem löggiltur endurskoðandi og í framhaldinu haldið út í framhaldsnám við verslunarháskólana í Björgvin og Kaupmannahöfn á árunum 1971 til 1973. Þess er ekki getið að hann hafi lokið námi frá hvorugum skólanum.

Halldór var 26 ára þegar hann var kosinn inn á þing í fyrsta skipti. Tíu árum síðar var hann skipaður sjávarútvegsráðherra í fyrsta ráðuneyti Steingríms Hermannsson (sjá hér). Þessu embætti gegndi hann næstu átta árin eða frá árinu 1983 til ársins 1991. Af þeim 32ur árum sem Halldór Ásgrímsson sat inni á þingi var hann ráðherra í 19 ár.

Halldór var varaformaður Framsóknarflokksins frá 1980 til 1994 en þá varð hann formaður flokksins. Þeirri stöðu gegndi hann til ársins 2006. Halldór hafði því setið í stjórn Framsóknarflokksins í ríflega aldarfjórðung þegar hann lét af formennsku flokksins. Það vekur líka athygli í ferilskrá Halldórs að hann sat í  bankaráði Seðlabanka Íslands í sex ár eða frá árinu 1976 til 1983. Þrjú síðustu árin var hann formaður þess.

Ólíkt þeim Jóhanni Þ. Jósefsyni, Ólafi Thors og Lúðvík Jósepssyni, sem hafa að öllum líkindum þótt vænlegir kostir í stöðu sjávarútvegsráðherra fyrir það að þeir stóðu í útgerð sjálfir, er útlit fyrir að Halldór Ásgrímsson hafi komist yfir þrjú útgerðarfyrirtæki vegna stöðu sinnar sem ráðherra. Þetta varð reyndar ekki opinbert fyrr en síðar (sjá t.d. hér) en sameining þeirra útgerðarfyrirtækja sem hann á hlut í fór fram árið 1999 en þá var Halldór utanríkisráðherra (sjá t.d. um sameininguna hér).

Þeir róa ekki alltaf sem fiska

Þorsteinn Pálsson var kosinn inn á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn árið 1983 og sat þar í 16 ár. Hann varð stúdent frá Verzlunarskólanum 21s árs að aldri. Sex árum síðar útskrifaðist hann með lögfræðipróf frá Háskóla Íslands og tveimur árum síðar hefur hann öðlast réttindi héraðsdómslögmanns. Ferill Þorsteins í pólitíkinni hófst í Háskólanum  þar sem hann var formaður Vöku í eitt ár, eða árið 1969-1970. Hann var svo í stúdentaráði skólans frá 1971 til 1973 og í háskólaráði á sama tíma.

Áður en hann settist inn á þing átti hann líka sæti í ýmsum nefndum en engin þeirra tengist sjávarútvegi. Árið 1981 settist hann í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins en varð formaður hans sama ár og hann var kosinn inn á þing þá 36 ára. Formennskunni gegndi hann til ársins 1991.

Af þeim 16 árum sem Þorsteinn sat á þingi sat hann á ráðherrastóli í 11 ár þar sem hann fór samtals með fjögur ólík ráðherraembætti. Þar af sat hann átta ár sem sjávarútvegsráðherra en fór með dóms- og kirkjumálaráðuneytið samhliða því. Þetta var á árunum 1987 til 1999.

Í lok þessa yfirlits má svo geta þess að árið 2007 var landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið sameinað með breytingu á lögum 73/1969. Lögin tóku gildi 1. janúar 2008 (sjá hér). Einar K. Guðfinnsson var fyrsti ráðherrann til að fara með mál þessa sameinaða ráðuneytis.

Stutt samantekt

Það er margt sem vekur athygli í yfirlitinu hér á undan þó það verði ekki dregið fram fyrr en síðar eða þegar kemur að úrvinnslu þess efnis sem hefur verið aflað í því verkefni að vekja athygli á því m.a. að í hefðinni sem hefur orðið til við skipun ráðherra liggur að öllum líkindum sá Akkilesarhæll sem hefur rúið íslensku stjórnmálaflokkanna trausti og stjórnsýsluna virðingunni. Þeir ráðherrar sem hafa gegnt stöðu sjávarútvegsráðherra hingað til hafa að jafnaði haft litla ef nokkra þekkingu á sjávarútvegsmálun.

Þeir sem hafa haft reynslu af sjávarútvegi gegndu jafnvel embætti sjávarútvegsráðherra í hagsmunaárekstri við sína eigin útgerð ásamt því að sitja í ýmsum stjórnum og ráðum útgerðarmanna. Af þessum ástæðum hefur löngum verið grunnt á tortryggni landsmanna gagnvart meintum tengslum útgerðarinnar við aðallega stærstu stjórnmálaflokkana í landinu.

Af yfirlitinu hér að framan er ekki annað að sjá en ástæðan sé fyrir hendi og hætt við að frekari rannsóknarvinna varðandi embættisfærslur liðinna áratuga í sjávarútvegsmálum þjóðarinnar eigi eftir að draga ástæður tortryggninnar enn skýrar fram.

Horft til vinstri og hægri

Heimildir um ráherra og ráðuneyti

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið: Ráðuneyti: Sögulegt yfirlit

Ríkisstjórnir og ráðherrar frá 1904-1942
Ríkisstjórnartal frá stofnun lýðveldis

Ráherraskipan í síðara ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttir
Ráðherrar í núverandi ríkisstjórn


mbl.is Tekjur af loðnu gætu snarminnkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til kvótastýrðs landbúnaðar

Að undanförnu hefur þetta blogg verið lagt undir samanburð á menntun og starfreynslu þeirra sem gegna ráðherraembættum í núverandi ríkisstjórn og þeirra sem fóru með sömu málaflokka í síðustu ríkisstjórn. Nú þegar hefur slíkur samanburður verið birtur varðandi sex embætti en fjögur eru eftir. Næsta embætti sem verður tekið til slíkrar skoðunar er það sem stýrir ráðuneytinu sem fer með undirstöðuatvinnugreinar landsins; þ.e. landbúnaðinn og sjávarútveginn.

Undirstöðuatvinnugreinarnar

Sökum umfangs beggja málaflokka verður farin sú leið að skoða forsögu beggja í stökum færslum og byggja síðan á þeim í sjöundu færslunni með samanburðinum á menntun og starfsreynslu Steingríms J. Sigfússonar, sem var atvinnu- og nýsköpunarráðherra undir lok síðasta kjörtímabils, og Sigurðar Inga Kristjánssonar, sem er núverandi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra.

Embættissaga landbúnaðarmála frá 1917

Sigurður Jónsson í Ystafelli

Atvinnumálaráðherra er eitt þeirra þriggja embættisheita sem voru tekin upp árið 1917 þegar fyrsta íslenska ríkisstjórnin var mynduð (sjá hér). Sigurður Jónsson, gjarnan kenndur við bæinn Ystafell í Köldukinn, var fyrstur til að gegna þessu embætti. Hann var atvinnumálaráðherra í þrjú ár eða til ársins 1920. Árið 1949 var þetta embættisheiti hins vegar lagt af.

Hermann Jónasson var fyrsti ráðherrann til að fara með landbúnaðarmál hér á landi. Þetta var í áttundu ríkisstjórninni sem sat á árunum 1934 til 1938. Hermann veitti henni forystu. Auk þess að fara með landbúnaðarmálin var hann líka forsætisráðherra og fór með dóms- og kirkjumálaráðuneytið (sjá hér). Hann fór með landbúnaðarmálin ásamt öðrum ráðuneytum fram til ársins 1942 en varð svo aftur æðstráðandi í málefnum landbúnaðarins kjörtímabilið 1950 til 1953 og síðast 1956 til 1958. Samtals var hann því yfir landbúnaðarmálunum í þrettán ár.

Bjarni AsgeirssonBjarni Ásgeirsson var aftur á móti sá fyrsti sem var skipaður sérstakur landbúnaðarráðherra. Þetta var í fimmtándu ríkisstjórninni sem var mynduð hér á landi en það var Stefán Jóh. Stefánsson sem var forsætisráðherra hennar (sjá hér). Þessi ríkisstjórn sat á árunum 1947 til 1949.

Bjarni var með búfræðipróf frá Hvanneyri en því lauk hann árið 1913; 22ja ára að aldri. Hann var bóndi frá 1915 til 1951 eða í 36 ár. Lengst af á Reykjum í Mosfellssveit. Meðal þess sem kemur fram í ferilskrá hans er að hann lét reisa fyrstu ylræktarhús á Íslandi árið 1923 og var Í stjórn Búnaðarfélags Íslands frá 1927 til 1951. Hann var formaður þess frá árinu 1939. Ásamt því að gegna embætti landbúnaðarráðherra var Bjarni Ásgeirsson fyrsti ráðherrann til að fara með orkumál. Næstu þrjár áratugina varð það að nánast ófrávíkjanlegri hefð að sá sem var skipaður landbúnaðarráðherra fór yfir orkumálunum líka (sjá nánar hér).

Fleira sem vekur athygli í ferilskrá Bjarna er að hann var skipaður í milliþinganefnd til að endurskoða lög um verðlagningu landbúnaðarafurða. Þetta var í nóvember 1946 eða ári áður en hann var skipaður fyrsti landbúnaðarráðherrann. Sama ár og hann tók við landbúnaðarráðuneytinu tók Framleiðsluráð landbúnaðarins í fyrsta skipti til starfa (sjá hér). Þess má svo geta hér að Bjarni er föðurafi Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, fyrrverandi alþingismanns og forseta Alþingis á síðasta kjörtímabili.

Það er óvíst að þeir séu margir sem muna eftir Bjarna í dag enda fór hann ekki með embætti landbúnaðarráðherra nema í tvö ár. Ferilskrá hans bendir þó til að hann hafi verið athafnasamur og tilþrifamikill í þeim málaflokkum sem snúa að landbúnaðinum. Þekktasti ráðherrann, sem hefur farið með þetta embætti, er vafalaust Guðni Ágústsson en hann var landbúnaðarráðherra í átta ár. Aðeins tveir ráðherrar hafa verið yfir málaflokknum lengur en hann.

Þeir eiga hæsta starfsaldurinn sem æðstráðendur í málefnum landbúnaðarins

Hermann Jónasson, sem þegar er nefndur, var yfir málefnum landbúnaðarins í 13 ár skv. þessari heimild hér og Ingólfur Jónsson í 11 ár (sjá hér). Það má hins vegar taka það fram enn einu sinni að af einhverjum ástæðum þá ber upplýsingasíðum inni á vefjum Alþingis og ráðuneytanna almennt illa saman um það hvernig málaflokkum var skipt á milli ráðaherra og hver var fyrstur til að gegna viðkomandi embætti.

Samkvæmt því sem kemur fram á þessari undirsíðu á vef Alþingis, þar sem er að finna upptalningu ráðuneyta frá 1917 til 2013, þá fór Hermann Jónasson með landbúnaðarmálin í fyrsta skipti árið 1934 og var það samhliða því að hann varð forsætisráðherra í fyrsta skipti. Hann var forsætisráðherra í alls 10 ár og fór jafnframt með landbúnaðarmálin allan þann tíma. Árið 1950 var Hermann svo skipaður landbúnaðarráðherra í forsætisráðherratíð Steingríms Steinþórssonar (sjá hér).

Hermann Jónasson er vafalaust öllum sem hafa sett sig inn í íslenska stjórnmálasögu vel kunnugur enda sat hann inni á þingi í yfir þrjá áratugi. Þar af var hann formaður Framsóknarflokksins í 18 ár. Það má minna á það hér að Hermann var faðir Steingríms Hermannssonar sem einnig sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn á sínum tíma og afi Guðmundar Steingrímssonar sem situr nú á þingi fyrir Bjarta framtíð.

Ingólfur Jónsson sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í tæpa fjóra áratugi eða í 36 ár. Þar af var hann landbúnaðarráðherra í 11 ár eða frá árinu 1959-1971. Það má vera að fleirum kunni að þykja áhugavert að heyra af þeim viðhorfum sem koma fram til framtíðar landbúnaðarins í ræðu sem Ingólfur flutti árið 1964 við setningu 46. Búnaðarþingsins sem þá var sett í Bændahöllinni í fyrsta skipti. Hér er endursögn eins blaðamanna Vísis á þessum tíma á orðum ráðherrans:

Ingólfur Jónsson sagði að 15% af þjóðinni lifði nú á landbúnaði. Fjölgun þjóðarinnar væri mikil og gert ráð fyrir því, að Íslendingar yrðu helmingi fjölmennari um næstu aldamót en þeir eru nú. Því mætti sjá fram á vaxandi þörf á landbúnaðarafurðum. Með tilliti til þess sagði hann, að það væri uggvænlegt að bændur flosnuðu upp af búum. (Vísir: 14. feb. 1964)

Það er hæpið að gera ráð fyrir því að þeir séu margir sem muna eftir Ingólfi Jónssyni inni á Alþingi frekar en fyrsta landbúnaðarráðherranum; Bjarna Ásgeirssyni. Ingólfur átti þó sæti inni á þingi í tæpa fjóra áratugi. Af þeim tíma var hann rúman áratug yfir málefnum bænda.

 Öflugur landbúnaður er merkir öflugt hagkerfi

Væntanlega eru þeir a.m.k. fáir meðal yngstu kjósendanna sem vita af Ingólfi Jónssyni en það er hins vegar líklegt að Guðni Ágústsson sé mörgum eftirminnilegur. Þeir eru jafnvel til sem vita fátt annað í pólitík en að Guðni hafi verið landbúnaðarráðherra upp úr síðustu aldamótum. Reyndar er margt sem gefur tilefni til að álykta að Guðni sé þekktasti landbúnaðarráðherrann í sögu íslenskrar stjórnmálasögu.

Guðni Ágústson er sonur Ágústs Þorvaldssonar, fyrrverandi þingmanns, sem sat í 18 ár inni á þingi fyrir Framsóknarflokkinn. Guðni sat í 16 ár fyrir sama flokk. Helming þess tíma gegndi hann embætti landbúnaðarráðherra eða frá árinu 1999 til ársins 2007. Hann var enn inni á þingi við bankahrunið en sagði af sér bæði þingsæti og formennsku í Framsóknarflokknum 17. nóvember 2008 eða tæpum tveimur mánuðum eftir að innihaldsleysi íslensku bankabólunnar varð opinbert (sjá hér).

Guðni var fæddur í sveit og lauk búfræðiprófi frá Hvanneyri árið 1968. Áður en hann var kosinn inn á þing árið 1987 hafði hann starfað sem mjólkureftirlitsmaður hjá Mjólkurbúi Flóamanna í ellefu ár. Hann átti líka sæti í stjórn Hollustuverndar ríkisins áður en hann var kjörinn inn á þing.

Áður en hann var skipaður landbúnaðarráðherra árið 1999 hafði hann bætt við ferilinn setu í bankaráði Búnaðarbanka Íslands þar sem hann sat á árunum 1990 til 1998. Hann var formaður þess fyrstu þrjú árin. Hann var einnig í stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins á sama tíma og var líka formaður þar fyrstu þrjú árin. Auk þessa var hann formaður stjórnar Lánasjóðs landbúnaðarins árið áður en hann tók við landbúnaðarráðherraembættinu í fyrsta skipti. Það má svo koma fram að hann hafði verið í landbúnaðarnefnd Alþingis í átta ár áður en hann var skipaður æðstráðandi í Landbúnaðarráðuneytinu (sjá nánar hér).

John F. Kennedy um lítilsvirðinguna sem störfum bóndans eru sýnd

Það er líklegt að Guðni verði mörgum íslenskum kjósandanum minnisstæður eitthvað áfram. Þar hafa sterkur svipur, djúp rödd og yfirveguð framkoma sem er þó full af glettni og húmor vissulega sín áhrif. Hins vegar má búast við að nafn hans verði þeim sem þekkja sögu landbúnaðarstefnunnar og búvörusamninga síðustu ára ekki síður minnisstætt fyrir þátt hans í mótun hennar.

Framleiðslustýring í stað markaðsstýringar

Það er í reynd ótrúlega stutt síðan að eina alvöruatvinnugreinin í landinu var landbúnaður. Allir sem voru sjálfra sín voru bændur eða héldu a.m.k. bú þó að einhverjir létu ráðsmenn um búskapinn. Landbúnaðarstörfin voru vinnuaflsfrek en verkin á stærri bæjum voru unnin af mörgum höndum og sum án þess að bóndinn kæmi þar nærri. Presturinn jafnt og sýslumaðurinn voru fyrst og síðast bændur sem bjuggu á sinni bújörð. Það var framleiðsla hennar sem lagði grunninn að öllu öðru; lífsnauðsynjunum jafnt og þjóðfélagsstöðunni.

Verklag við heyskap til íslenskra sveita fram á 20. öld

Þetta fór ekki að breytast fyrr en undir lok 19. aldar með þilskipaútgerðinni sem gaf þeim sem áttu engan möguleika í gamla bændasamfélaginu tækifæri til að yfirgefa sveitirnar, koma sér upp fjölskyldu og búa eigið heimili. Stórbændur svo og innlendir embættismenn höfðu horn í síðu þéttbýlismyndunarinnar því með henni misstu þeir dýrmætan vinnukraft. Vinnukraft sem kostaði þá lítið og ráðandi öfl í samfélaginu höfðu sett undir vistarbönd til að tryggja aðganginn að því enn frekar.

Það hefur orðið gífurleg breyting á verklaginu til sveita frá því þetta var og ekki síður á stöðu sjálfeignabænda. Í raun má segja að af einhverjum ástæðum hafi öfgarnar algerlega snúist við þannig að afkomendur þeirra sem áður voru heftir af vistarböndum íslenskra óðalsbænda hafa sett bændum slíka fjötra að það er hæpið að aðrir rekstraraðilar myndu sætta sig við að vera ofurseldir svo margslungnum höftum og bændum hafa verið sett á undanförnum áratugum.

Bóndinn hefur aldrei fengið neitt nema það sem hann hefur unnið fyrir hörðum höndum

Fyrstu lagasetningar varðandi landbúnaðinn báru því vitni að meiri hluti þeirra sem sat á þingi voru annaðhvort stórbændur sjálfir eða þeir voru synir fyrrum stóreignabænda. Megintilgangurinn var að jafna kjör bænda og tryggja að þau yrðu ekki lakari en þeirra sem yfirgáfu sveitirnar og settust að á mölinni.

Setning afurðasölulaganna árið 193[5] lagði grunninn að þeirri stefnu sem nú er fylgt í landbúnaði. Með þeirri lagasetningu var komið á opinberri verðlagningu mjólkur- og sauðfjárafurða, vinnslu og sölu afurðanna veitt í ákveðinn farveg og viðurkennt að bændur gætu beitt samtakamætti sínum í kjarabaráttu sinni, rétt eins og verkalýðurinn gerði með verkalýðsfélögunum. (sjá hér)

Hermann Jónasson tók við forsætisráðherraembættinu af Ásgeiri Ásgeirssyni á miðju ári 1934. Það var því í stjórnartíð hans sem afurðasölulögin voru sett en þau höfðu verið í undirbúningi frá árinu 1932 (sjá hér: bls. 44-45). Með vexti verkalýðshreyfingarinnar gerðu ýmsir forkólfar hennar kröfu um að fulltrúar úr þeirra röðum ættu aðild að samningum um búvöruverð. 

Lögin um framleiðsluráð voru m.a. viðbrögð stjórnvalda við þessari kröfu. Aðdragandi þess að þau voru sett var á margan hátt sögulegur en það var í stjórnartíð fyrsta landbúnaðarráðherrans, Bjarna Ásgeirssonar, sem þau urðu að veruleika.

Árið 1947 setti Alþingi lög um Framleiðsluráð landbúnaðarins og sú lagasetning markaði að ýmsu leyti tímamót. Þá var öllum afurða- og verðlagsmálum landbúnaðarins þjappað saman undir eina stjórn og frjálsum samtökum bænda, Stéttarsambandi bænda sem stofnað var árið 1945, fengin stjórn þessara mála í hendur. Þá var því einnig slegið föstu að bændur skyldu hafa sambærileg laun og ákveðnar stéttir þjóðfélagsins.

[...] Ríkisvaldið reyndi eftir því sem við var komið að tryggja kjör þeirra sem landbúnað stunduðu með lagasetningu jafnframt því sem bændur voru hvattir með fjárframlögum til framfara og framleiðsluaukningar. Í því skyni var lögum um búfjárrækt og jarðrækt breytt, bændum tryggð aðstoð við verklegar framkvæmdir og leiðbeiningaþjónustan efld. (sjá hér)

George Washington um mikilvægi landbúnaðar

Með lögunum tók Framleiðsluráð við málum Búnaðarráðs „og verðlagði á grundvelli verðlagsnefndar sex fulltrúa neytenda og bænda.“ (sjá hér) Ósamlyndi hinnar nýju verkalýðsstéttar og matvælaframleiðenda til sveita hélt engu að síður áfram og náði hámarki undir árið 1960.

Það lítur út fyrir að ásteytingsefnið hafi ekki síst snúist um útflutningsbætur sem ríkissjóður greiddi bændum fyrir það að útflutningsverðmæti búvara var lægra en heildsöluverðið innanlands. Útflutningsbæturnar voru hliðstæðar því sem viðgekkst varðandi útflutning sjávarafurða á þessum tíma (sjá hér).

Undir 1960 stefndi allt í óefni. Fulltrúar neytenda í verðlagsnefnd Framleiðsluráðs landbúnaðarins kærðu ákvörðun Framleiðsluráðsins um hækkun á dilkakjöti en töpuðu málinu. Þegar dómur féll þeim í óhag sögðu þeir sig úr verðlagsráði. Á þessum tíma sat minnihlutastjórn Alþýðuflokks sem brást við með því að setja „bráðabirgðalög, sem kom í veg fyrir alla hækkun afurðaverðs. Hinir stjórnmálaflokkarnir þrír lýstu andstöðu við lögin.“ (sjá hér)

Í framhaldinu tók við ellefu ára seta Ingólfs Jónssonar í landbúnaðarráðuneytinu. Í upphafi þess tíma náðist samkomulag við fulltrúa bænda á áframhaldandi útflutningsbótum (sjá hér).

Þessar útflutningsbætur voru m.a. hugsaðar sem nokkurs konar viðurkenning á því að gengi krónunnar var miðað við aðra hagsmuni en hagsmuni landbúnaðarins, bætur fyrir að bændur afsöluðu sér að nokkru eigin forræði í verðlagsmálum og þeim var ekki heimilt að velta halla af útflutningi út í verðlag búvara innanlands. (sjá hér)

Einhverjum kann að þykja það upplýsandi að lesa þessa frásögn hér um sögu útflutningsbótanna fram undir 1960 og þann „hvell“ sem varð vegna samningsins. Árið 1965 drógu fulltrúar verkalýðsfélaganna sig út úr sexmannanefndinni. Með setningu bráðabirgðalaga var Hagstofunni falið að ákvarða verðlagsgrundvöll landbúnaðarafurða það árið (sjá hér bls. 59).

Milton Friedman um miðstýrða stjórnarhætti

Lögunum um Framleiðsluráð landbúnaðarins var gefið framhaldslíf með nokkrum breytingum árið 1966. Hugmyndir um að taka aftur upp það fyrirkomulag að bændur semdu beint við ríkisvaldið um afurðasöluverðið höfðu reyndar komið fram en fengu ekki meirihlutafylgi meðal bænda fyrr en tveimur árum eftir að Framleiðsluráðið var endurvakið.

Verð búvara og kjör bænda voru því áfram háð þeim samningum sem bændur náðu við fulltrúa verkalýðsfélaganna. Ríkisvaldið greip hins vegar inn í með beinum eða óbeinum hætti eins og með bráðabirgðalögunum frá 1965 og ýmsum hliðarráðstöfunum „til þess að liðka fyrir samkomulagi um verðlagsgrundvöll landbúnaðarafurða í Sexmannanefndinni“ (sjá hér).

Landbúnaðarframleiðslan sett undir kvótastýringu

Tveimur áratugum eftir að Hermann Jónsson gegndi síðast embætti landbúnaðarráðherra fór sonur hans, Steingrímur Hermannsson, með embættið. Í ráðherratíð hans voru í fyrsta skipti sett inn í íslenska löggjöf ákvæði til framleiðslustýringar með framleiðslutakmarkandi aðgerðum (sjá hér).

Þannig var í raun komið á kvóta í framleiðslu. Kvótinn var reiknaður út frá framleiðsluviðmiði sem í daglegu tali var kallað „búmark“ og var það reiknað út frá meðalframleiðslu hvers býlis á árunum 1976 til 1978. Búmark fól ekki í sér endanlegan framleiðslurétt heldur var notað sem viðmið við skerðingu. [...] Framleiðsluráði var einnig veitt heimild til þess að leggja gjald á innflutt kjarnfóður sem gat numið allt að 100% af innkaupaverði. Þetta ákvæði var rýmkað í 200% með bráðabirgðalögum nr. 63/1980. (sjá hér bls. 71-72)
Landbúnaðarráðuneytið ætti að standa með landbúnaðarframleiðslunni og framleiðendum hennar

Kjarnfóðurgjaldinu var ætlað að stuðla að minnkandi framleiðslugetu bænda og koma í veg fyrir offramleiðslu einkum á lambakjöti og mjólkurafurðum. Búvörulögin voru svo sett árið 1985 en þá var framsóknarmaðurinn, Jón Helgason, landbúnaðarráðherra. Í þessum lögum eru mörg stefnumarkandi ákvæði til framleiðslustýringar. Í 7. kafla laganna, „Um stjórn búvöruframleiðslunnar“  er t.d. að finna ákvæði um að ríkisvaldið tryggi með samningum fullt verð til bænda fyrir ákveðið magn búvara en verð verði skert fyrir framleiðslu umfram umsamið magn (sjá hér).

Með lögunum var landbúnaðarráðherra orðinn æðstráðandi hvað varðar verðlag landbúnaðarframleiðslunnar og kjör bænda auk þess sem hann var kominn með formlegt vald til að stjórna framleiðslunni að öðru leyti. „Búvörulögin voru því rammi utan um framleiðslustýringu í landbúnaði þar sem ráðherra gat útfært lögin nánar með reglugerðum.“ (sjá hér bls. 79) Þó nokkur ókyrrð stafaði vegna laganna en búvörusamningar næstu ára voru gerðir á grunni þeirra.

Nokkrar deilur urðu meðal framleiðanda með hvaða hætti fullvirðisréttur, sem var fullgreiddur framleiðsluréttur, skyldi reiknaður. Nokkrir bændur fóru með málið fyrir dómstóla á þeirri forsendu að ákvæði búvörulaga um heimild landbúnaðarráðherra til þess að útfæra lögin nánar með reglugerðum bryti gegn ákvæði 67. gr. stjórnarskrárinnar um eignarrétt. Bæði héraðsdómur og Hæstiréttur töldu svo ekki vera. (sjá hér bls. 83)

Áður en lengra er haldið er vert að vekja athygli á því að í kjölfar umræddrar lagasetningar var sett á fót framkvæmdanefnd búvörusamninga sem hafði þó enga stoð í lögum fyrr en 13 árum eftir að hún var sett á laggirnar. Hlutverk nefndarinnar var að annast eftirlit með framkvæmd búvörusamninga þó það væri ekki skilgreint fyrr en með lögunum 1999 en með þeim var Framleiðsluráð landbúnaðarins jafnframt lagt niður (sjá hér bls. 84-85).

Mikil óvissa var í efnahagsmálum á Íslandi í byrjun árs 1989, [...] hin venjubundna barátta við verðbólguna [var] fyrirferðamikil, ásamt versnandi afkomu fyrirtækja og heimila með tilheyrandi vandamálum. [...] Af einhverjum ástæðum ákváðu forystumenn í launþegahreyfingunni að beina spjótum sínum að bændum og hvöttu félagsmenn sína til að sniðganga mjólk og mjólkurvörur. (sjá hér bls. 85-86)

John F. Kennedy um bændur

Árið 1988 hafði Steingrímur J. Sigfússon setið inni á þingi í fimm ár en það ár var hann skipaður landbúnaðarráðherra af Steingrími Hermannssyni sem þá var orðinn forsætisráðherra (sjá hér). Steingrímur J. Sigfússon gegndi embætti landbúnaðarráðherra í þrjú ár. Það var því í stjórnartíð hans sem Sjömannanefndin var skipuð en í henni áttu sæti fulltrúar Landbúnaðarráðuneytisins, Stéttarsambands bænda, ASÍ, BSRB, VSÍ og Vinnumálasambands samvinnufélaganna. Hlutverk nefndarinnar var að auka hagkvæmni innlendrar framleiðslu og lækka kostnað á öllum stigum framleiðslunnar (sjá hér bls. 23).

Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að eina sýnilega leiðin til að tryggja stöðu sauðfjárræktar til frambúðar væri að „auka afköst einstakra bænda og hagræða þannig að verð gæti lækkað. Til þess að ná fljótt árangri í því efni þyrfti að gefa þeim bændum sem besta aðstöðu hafa, möguleika til að auka framleiðslu sína en til þess að svo mætti verða þyrftu aðrir að draga úr framleiðslu sinni eða hætta búskap.“ (Ríkisendurskoðun: Framkvæmd búvörulaga 1988-1993).

Búvörusamningurinn sem gerður var í mars 1991 tók mið af niðurstöðum nefndarinnar. Hann markaði tímamót þar sem með honum var gengið enn lengra í átt til kvótastýringar í landbúnaðinum auk þess sem útflutningsbæturnar sem voru lögfestar í embættistíð Ingólfs Jónssonar voru felldar niður (sjá hér).

Í upphafi forsætisráðherratíðar Davíðs Oddssonar, í lok apríl 1991, var Halldór Blöndal skipaður landbúnaðarráðherra (sjá hér). Árið eftir var mjólkurframleiðslan sett undir sama framleiðslustjórntækið og sauðfjárræktin að tillögum Sjömannanefndarinnar. Árið 1993 voru svo núgildandi lög um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvöru fest (99/1993). Lögin byggðu á ályktunum Sjömannanefndarinnar.

Thomas Jefferson um landbúnaðinn í bréfi til George Washington

Framleiðslustýringin sem þau kveða á um hafði tilætluð áhrif. Bændum fækkaði með því að þeir sem höfðu ekki fjárhagslegt bolmagn til að keppa við stærri búin með kaupum á framleiðslukvóta eða endurnýjun á tækjabúnaði neyddust til að hætta búskap.

Á undanförnum árum hefur kúabúum fækkað um 40 á ári. Að sögn Jóns Viðars Jónmundssonar, nautgriparæktarráðunautar Bændasamtakanna, hefur viss hópur bænda hætt mjólkurframleiðslu vegna þess að búrekstraraðstaða þeirra hefur verið orðin léleg, fjósin gömul og ekki grundvöllur fyrir endurnýjun. Þetta séu gjarnan eldri bændur með litla framleiðslu, allt niður í 10 þúsund lítra á ári.

Þessi litlu bú eru nú smám saman að hverfa. Jón Viðar segir að einnig sé orðið töluvert um að menn séu að selja frá sér greiðslumarkið vegna þess að reksturinn gangi ekki upp. Í þeim hópi sé ungt fólk alveg eins áberandi og hið eldra og búin af öllum stærðum. Dæmi eru um að bú með 170-180 þúsund lítra framleiðslurétt hafi hætt af þeim sökum.  (mbl.is 29. janúar 1997)

Niðurskurður í landbúnaði ógnar fæðuörygginu

Þeir sem fjölluðu um afleiðingar kvótakerfisins í landbúnaði á þeim árum sem kvótastýringin var innleidd litu vissulega á málið misjöfnum augum. Einhverjir vildu t.d. undirstrika það að landbúnaðarstefnan væri „í eðli sínu pólitískt mál“:

Kvótakerfi og búvörusamningar eru einnig gagnrýnd og sögð lögleiðing fátæktar og kotbúskapar þar sem bændur geti hvorki lifað né dáið. Síðast en ekki síst heyrast raddir sem segja að kvótakerfið með tilheyrandi ríkisaðstoð mismuni bændum, íþyngi skattborgurunum, sé brot á stjórnarskrá og komi í veg fyrir að framfarir verði í landbúnaðinum.

Margt í þessari gagnrýni er erfitt að hrekja, en það þýðir þó ekki að hún þurfi að vera rétt. Þau sjónarmið sem gagnrýnendur landbúnaðarstefnunnar setja fram geta fyllilega átt rétt á sér, rétt eins og sjónarmið þeirra er marka stefnuna. Landbúnaðarstefnan er í eðli sínu pólitískt mál sem tekur mið af ríkjandi aðstæðum og tillit til mismunandi sjónarmiða (Guðmundur Stefánsson. 1998. Landbúnaðarstefnan og búvörusamningurinn

Innflutt landbúnaðarstefna

Þó það hafi farið mishátt á hverjum tíma hvaðan þessi pólitík er upprunnin er það tæpast launungamál að hún er innflutt:

Stefna varðandi framleiðslu og markaðssetningu landbúnaðarafurða er sett fram í Lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvöru nr. 99/1993. Í lögum þessum eru sett fram opinber markmið í landbúnaðarstefnu Íslands og rammi fyrir landbúnaðinn og reglugerðir um hann. Með lagasetningunni eru sett fram atriði sem eru sambærileg við Stoð I í sameiginlegri landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins. (Landbúnaður og þróun dreifbýlis. [2009])

Það var sama pólitíska framleiðslustýringin og er vísað til hér að framan sem liggur til grundvallar lögunum um garð- og gróðurhúsaafurðir frá 2002, um mjólkurframleiðslu frá 2004 og um sauðfjárrækt frá 2007. Þessi lög voru innleidd í ráðherratíð Guðna Ágústssonar.

Eins og lesendum er eflaust kunnugt hefur yfirlýst markmið landbúnaðarstefnunnar verið það að stuðla að aukinni hagræðingu og lækkun framleiðslukostnaðar á landbúnaðarvörum. Niðurstaðan hefur orðið sú að búum hefur fækkað á undanförnum árum en framleiðslukostnaðurinn hefur ekki lækkað. Í stað þess að opinbera þessa útkomu í verðlaginu á landbúnaðarafurðum hafa bændur skorið niður við sig kjörin.

Samuel Johnson um mikilvægi landbúnaðar

Núgildandi búvörusamningar eru líka úr embættistíð Guðna Ágústssonar eða frá árinu 2006. Þeir hafa verið framlengdir tvisvar. Fyrst í apríl 2009 þegar Steingrímur J. Sigfússon var landbúnaðarráðherra. Í tilefni framlengingarinnar þá var þessi tilkynning send út frá Landbúnaðarráðuneytinu:

Eins og kunnugt er var ákveðið í fjárlögum 2009 að skerða samningsbundnar greiðslur samkvæmt búvörusamningum vegna fyrirséðra erfiðleika í ríkisfjármálum í kjölfar bankahrunsins. [...]

Allir samningarnir verði framlengdir um tvö ár, að mestu á óbreyttum forsendum.

Þessi samningsniðurstaða felur í sér að bændur gera sér grein fyrir þeirri alvarlegu stöðu sem uppi er í ríkisfjármálum, en fyrir liggur að gæta verður mikils aðhalds á næstu árum. Bændur færa umtalsverða fórn í tvö til þrjú ár miðað við gildandi samninga en fá í staðinn framlengingu um tvö ár þegar ætla má að ástand hafi batnað. Samkomulagið felur í sér aukið rekstraröryggi í landbúnaði til lengri tíma. Það er ekki síst mikilvægt nú með tilliti til fæðuöryggis þjóðarinnar. (sjá hér)

Það síðasta sem við þurfum á að halda er að möguleiki okkar til að framleiða matinn okkar innanlands verði tekinn frá okkur

Seinni framlengingin var gerð fyrir ári síðan en þá gegndi Steingrímur J. Sigfússon stöðu landbúnaðarráða í þriðja skiptið (sjá hér). Það sem vekur athygli í þessum samningunum um starfsskilyrði í mjólkurframleiðslu, sauðfjárræktar og framleiðenda garðyrkjuafurða er einkum þetta hér:

Samningur þessi er gerður með fyrirvara um hugsanlegar breytingar á þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands sem kunna að leiða af niðurstöðum samningaviðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu (sjá t.d. hér).

Í tilefni umræðna, sem sköpuðust á haustþinginu 2012 um frumvarp Steingríms J. Sigfússonar um breytingu á búnaðarlögunum frá 1998, vék Sigurður Ingi Jóhannsson, núverandi landbúnaðarráðherra, að þessu atriði þar sem hann lagði til svohljóðandi breytingartillögu við frumvarp landbúnaðarráðherrans:

Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Á árunum 2012–2017 er óheimilt að binda gildi samninga sem gerðir eru á grundvelli 30. gr. laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993, og búnaðarlaga, nr. 70/1998, fyrirvara um breytingar á þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands sem kunni að leiða af niðurstöðum viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Fallið skal frá þegar gerðum fyrirvörum þessa efnis. (sjá hér)

Í upphafi síðasta kjörtímabils var Jón Bjarnason skipaður landbúnaðarráðherra. Hann gegndi embættinu í tvö ár. Fyrra árið eða þingveturinn 2009 til 2010 lagði hann fram frumvarp til laga um breytingu á lögunum um framleiðslu, verðlagningu og sölu búvöru frá árinu 1993. Frumvarpið gufaði að einhverjum ástæðum upp eftir aðra umræðu en það er vissulega forvitnilegt að setja sig inn í þau viðhorf sem koma fram bæði í þingsal við aðra umræðu um framvarpið (sjá hér) og svo í því sem kom frá umsagnaraðilum um frumvarpið (sjá hér).

Mike Rowe um samhengi framleiðslu og þeirra sem vinna að henni

Þar er margt sem bendir til þess að það sé einhvers konar samhengi milli óhagganlegrar tiltrúar á þýðingu þess að ganga inn í Evrópusambandið og lélegs skilnings eða lítillar þekkingar á starfsskilyrðum og kjörum bænda. Það má benda á að meðal þingmannanna eru það einkum þingmenn Samfylkingarinnar sem voru upp á móti frumvarpi Jóns Bjarnasonar og verður ekki betur séð en viðhorf þeirra séu mjög í stíl þeirra viðhorfa sem einhverjir hafa haldið fram að hafi orðið Alþýðuflokknum að falli.

Fyrir þá sem ekki þekkja til má rifja það upp að Alþýðuflokknum gamla var gjarnan legið á hálsi fyrir „fjandsamleg“ viðhorf gagnvart landbúnaði og öðrum málaflokkum sem sumir vilja meina að séu einkamál landsbyggðarinnar. Þegar viðhorfalínur nútímans eru skoðaðar vekur reyndar athygli að þeir sem vilja skera niður allan kostnað skattgreiðenda vegna landbúnaðarframleiðslunnar eru gjarnan helstu málsvarar Evrópusambandsaðildar.

Hvort það stafar af ónógri þekkingu eða skorti á skilningi, sem þessir setja sig upp á móti framleiðslustýringu sem er að fyrirmynd sambandsins sem þeir telja sig væntanlega vera að vinna með, verður ekkert fullyrt. Það er þó útlit fyrir að andstæðingar stjórntækja til tekjutryggingar og/eða -jöfnunar meðal bænda hafi ekki náð að átta sig á hugtakinu „fæðuöryggi“ sem er líka innflutt eins og stjórntækið sem í daglegu tali hefur verið kennt við kvóta.

Fæðuöryggi John Salazar

Það er rétt að viðurkenna það að það fór mun meiri tími í þessa færslu en til stóð í upphafi. Ég vona að árangurinn sé sá að ég hafi getað komið mér undan því að fara beinlínis með rangt mál um það sem viðkemur sögunni sem liggur núverandi stöðu í landbúnaði til grundvallar. Í næstu færslu verður stiklað á embættissögu og stjórnsýslulegum ákvörðunum Sjávarútvegsráðuneytisins. Þessi og næsta færsla eru hugsaðar sem undanfari þess að menntun, þekking og reynsla sem liggur skipun núverandi og fyrrverandi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra verði bornar saman.

Heimildir um ráherra og ráðuneyti

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið: Ráðuneyti: Sögulegt yfirlit

Ríkisstjórnir og ráðherrar frá 1904-1942
Ríkisstjórnartal frá stofnun lýðveldis

Ráherraskipan í síðara ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttir
Ráðherrar í núverandi ríkisstjórn

Heimildir um lög sem varða landbúnaðinn

Aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum (austan- og norðanlands) (Fyrst lagt fram sem stjórnarfrumvarp. Flutningsmaður Hermann Jónasson)

Breyting á lausaskuldum bænda í föst lán (Fyrst lagt fram sem stjórnarfrumvarp. Flutningsmaður Ingólfur Jónsson)

Framleiðsluráð landbúnaðarins (Fyrst lagt fram sem stjórnarfrumvarp. Flutningsmaður Steingrímur Hermannsson) 

Lög um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum (lög nr. 99/1993)
Búnaðarlög
(lög nr. 70/1998)

Breyting á lögunum frá 2002 (samningur um framleiðslu og verðmyndun garð- og gróðurhúsaafurða)

Breyting á lögunum frá 2004 (samningur um framleiðslu og greiðslumark mjólkur)

Breyting á lögunum frá 2007 (samningur um framleiðslu og greiðslumark sauðfjárafurða)

Landbúnaður: Lög og reglugerðir (yfirlit á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins)

Aðrar heimildir sem varða sögu og þróun í landbúnaðinum

Úr sögu útflutningsbóta landbúnaðarins. Tímanum 21. júní 1991

Svar Halldórs Blöndal, sem landbúnaðarráðherra, um störf og skýrslu sjömannanefndarinnar

Ríkisendurskoðun: Framkvæmd búvörulaga 1988-1993 (mars 1994)

Fimmtíu ár frá því Framleiðsluráð landbúnaðarins tók til starfa: Stofnun á tímamótum. mbl.is. 29. júní 1997

Guðmundur Stefánsson. Landbúnaðarstefnan og búvörusamningar. 1998.

Framlenging búvörusamninga. amx.is. 18. apríl 2009
Framlengja búvörusamninga um 2 ár. mbl.is. 28. september 2012.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum (lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009-2010)
Viðbrögð við umsagnarbeiðnum um frumvarpið (27. ágúst 2010)

Jón Hartmann Elíasson. Áhrif hagsmunasamtaka bænda á stefnumótun og stefnuframkvæmd í landbúnaði. Október 2011


Félags- og húsnæðismálaráðuneytið

Þetta er sjötti hlutinn af tíu þar sem ferilskrár ráðherranna í núverandi ríkisstjórn eru bornar saman við ferilskrár þeirra sem gegndu sömu embættum í lok síðasta kjörtímabils. Meginmarkmiðið er þó ekki samanburðurinn í sjálfu sér heldur að vekja lesendur til umhugsunar um það hversu farsæl núverandi aðferð við skipun í ráðherraembætti er íslensku samfélagi.

Í fyrsta hlutanum voru ferilskrár Jóhönnu Sigurðardóttur og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar bornar saman, þá Katrínar Júlíusdóttir og Bjarna Benediktssonar, næst Guðbjarts Hannessonar og Kristjáns Júlíussonar, því næst Katrínar Jakobsdóttur og Illuga Gunnarssonar og síðast Steingríms J. Sigfússonar og Ragnheiðar Elínar Árnadóttur

Miðað við þann samanburð sem þegar hefur verið lokið við er svo að sjá að það sé pólitísk staða innan þeirra flokka sem sitja í ríkisstjórn sem ræður mestu varðandi það hver verður ráðherra. Það verður forvitnilegt að sjá hvort framhaldið staðfestir þessa ályktun eða leiðir fram fylgni við aðra þætti ferilskráa þeirra sem hafa gegnt eða gegna ráðherraembætti.

Að þessu sinni verða ferilskrár Guðbjarts Hannessonar og Eyglóar Harðardóttur bornar saman en Guðbjartur var velferðarráðherra í síðustu ríkisstjórn í kjölfar þess að Heilbrigðisráðuneytinu  og Félags- og tryggingamálaráðuneytinu var steypt saman í eitt. Þetta er hins vegar í fyrsta skipti sem húsnæðismálunum er veittur sá gaumur að þau eru tekin upp sem sérstakur málaflokkur af einhverju ráðuneytanna. Það verður forvitnilegt að sjá hvaða þýðingu þetta hefur fyrir þetta brýna málefni sem snertir svo marga.

Stefán Jóhann StefánssonSaga félagsmálaráðuneytisins er lengri en mætti e.t.v. ætla í fyrstu. Fyrsti félagsmálaráðherrann var skipaður í þriðja ráðuneyti Hermanns Jónssonar sem sat á árunum 1939 til 1941.  Sá sem var skipaður í embættið var Stefán Jóh. Stefánsson sem fór jafnframt með utanríkisráðherraembættið. Það sem vekur sérstaka athygli í ferilskrá Stefáns Jóhanns er að hann: „Kynnti sér félagsmálalöggjöf á Norðurlöndum 1928 með styrk úr sáttmálasjóði.“ (sjá hér) Alls fór Stefán Jóhann með með þennan málaflokk í fimm ár; þar af tvö sem forsætisráðherra en það var á árunum 1947 til 1949.

Alexander StefánssonNæstu áratugi eða fram til ársins 1983 fóru þeir sem voru skipaðir félagsmálaráðherrar ávallt  með einn til þrjá málaflokka og/eða ráðherraembætti til viðbótar. Fyrsti ráðherrann til að fara með félagsmálin eingöngu var Alexander Stefánsson. Þetta fyrirkomulag hélst í 25 ár eða þar til 1. janúar 2008 að tryggingamálunum var bætt við embættisheiti þáverandi félagsmálaráðherra sem var Jóhanna Sigurðardóttir.

Jóhanna Sigurðardóttir fór með þetta embætti í alls 10 ár (fyrst árið 1987 en síðast 2009) og er væntanlega þekktust þeirra sem hafa farið með félagsmálaráðuneytið. Þegar hún tók við embætti forsætisráðherra, eftir stjórnarslit Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í ársbyrjun 2009, skipaði hún fyrst Ástu R. Jóhannesdóttur í embætti félags- og tryggingamálaráðherra. Eftir kosningarnar vorið 2009 úthlutaði hún Árna Páli Árnasyni embættinu en 2. september 2010 Guðbjarti Hannessyni. Á sama tíma tók hann líka við helbrigðisráðuneytinu. Ráðuneytin voru síðan sameinuð í eitt 1. janúar 2011 og gefið nýtt heiti; velferðarráðuneytið (sjá hér).

Eggert G. ÞorsteinssonÍ hugum margra eru tryggingamálin væntanlega órjúfanlegur hluti félagsmálaráðuneytisins. Málaflokkurinn hefur alls níu sinnum komið fyrir í embættisheitum ráðherra í sögu ráðuneytanna sem nær aftur til ársins 1917. Oftast reyndar í tengslum við heilbrigðisráðherraembættið Í fyrsta skipti árið 1970 en þá var Eggert G. Þorsteinsson skipaður fyrsti heilbrigðis- og tryggingamálaráðherrann. Í ljósi þess að húsnæðismálin hafa nú verið tengd við félagsmálaráðuneytið ætti eftirfarandi úr ferilskrá hans að vekja athygli: „Í húsnæðismálastjórn 1957—1965, formaður hennar frá 1960. [...] 1960 í endurskoðunarnefnd um húsnæðismál.“ (sjá hér)

Í lok þessa sögulega yfirlits varðandi heiti ráðuneytisins og/eða embættisins má svo vekja athygli á að fyrirmyndin að þeirri tilhögun sem komst á með því að Guðbjartur Hannesson tók við embættum Árna Páls Árnasonar og Álfheiðar Ingadóttur frá 1. janúar 2011 hefur væntanlega verið sótt til ráðuneytis Gunnars Thoroddsen frá árinu 1980. Þá var Svavar Gestson félagsmála- og heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (sjá hér).

Það hefur þegar verið fjallað um heilbrigðisráðuneytið þar sem áhersla var lögð á það um hve mikilvægan málaflokk samfélagseiningarinnar er að ræða. Félags- og tryggingamálin eru ekki síður mikilsverður málaflokkur í þeirri grunnþjónustu sem þeim sem fara með skatttekjur ríkisins er ætlað, af flestum, að setja á forgangslista þegar kemur að ráðstöfun skatttekna ríkisins. Án þess að gera lítið úr öðrum málaflokkum þá er ekki óeðlilegt að halda því fram að heilbrigðis-, trygginga- og félagsmálin eða m.ö.o. heilbrigðis-, lífeyris- og félagsþjónustan eru þeir þættir sem duga best sem mælitæki á það hvort grundvöllurinn sem nútímaríki byggja á halda eða ekki; þ.e.a.s. það sem mætti kalla samfélagssáttmálinn (sjá hér).

Samfélagssáttmálinn er meginhugtak svonefndra sáttmálakenninga um eðli og undirstöður mannlegs samfélags, siðferðis og réttmæti ríkisvalds. Hugmyndin er í grófum dráttum sú að óskrifaður sáttmáli ríki um að einstaklingar gefi upp tilkall sitt til tiltekinna réttinda en feli ríkisvaldi í hendur valdstjórn til þess að viðhalda reglu í samfélaginu og tryggja öryggi þegnanna.

Yfirleitt er því ekki haldið fram að menn hafi bókstaflega komist að samkomulagi un undirstöður samfélagsskipunarinnar á einhverjum tilteknum tíma heldur ríki samkomulagið á svipaðan hátt og samkomulag ríkir um merkingu orða í tungumálinu. (sjá hér)

Samkvæmt því þegjandi samkomulagi sem hér er vísað til má gera ráð fyrir að skattgreiðendur greiði skatta og önnur launatengd gjöld, svo sem lögbundin iðgjöld til lífeyrissjóða, í trausti þess að þessar greiðslur tryggi þeim örugga og góða þjónustu á jafns við aðra sem byggja samfélagið. Þegar misbrestur verður á með þeim hætti að bitnar á sjúklingum, bótaþegum og öðrum sem þurfa á þjónustu þeirra stofnana sem hafa verið reistar um þau málefni sem hér eru til umræðu þá er varla ofmælt að grunnurinn að samfélagssáttmálanum sé brostinn.

Morgan Freeman

Þeir eru sennilega fáir ef nokkrir sem hafa misst af þeim niðurskurði sem hefur orðið á heilbrigðisþjónustunni þó gera megi ráð fyrir að afleiðingarnar hafi enn sem komið er bitnað misþungt á hverjum og einum eftir heilsufari þeirra. Nokkur umræða hefur líka verið um fjárhagsstöðu einstakra lífeyrissjóða en það hefur farið minna fyrir umræðu um afleiðingar þeirra aðgerða sem hefur verið gripið til af sjóðanna hálfu. Það sama má segja varðandi félagsþjónustuna.

Í stuttu máli þá hefur farið afar lítið fyrir umræðu um stöðu þeirra sem niðurskurður velferðarkerfisins bitnar harðast á. Af einhverjum ástæðum hefur sístækkandi hópur þeirra sem situr frammi fyrir afleiðingunum að sviknum samfélagssáttmála verðið sleginn til skammarinnar og settur afsíðis með þögninni.

Abraham Lincoln

Margir gerðu sér að sjálfsögðu vonir um að sá hópur sem Jóhanna Sigurðardóttir hafði látið í veðri vaka að hugsjón hennar brynni fyrir þau ár sem hún sat yfir félagsmálaráðuneytinu hefði loks fengið ríkisstjórn sem myndi setja kjör þessa hóps til öndvegis þannig að heitið sem stjórn hennar setti sér að standa undir svo og tími Jóhönnu sem hún hafði gefið fyrirheit um að myndi öllu breyta myndu standa undir sér. Niðurstöður síðustu alþingiskosninga eru væntanlega öruggasti mælikvarðinn um að hvorugt sannaðist.

Niðurskurður félagsþjónustunnar virkar ekki

Með nýrri stjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur heiti ráðherraembættinu, sem var nefnt eftir nafninu sem ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. Sigfússonar gaf sjálfri sér, verið breytt og heitir nú félags- og húsnæðismálaráðherra. Nýja heitið vísar þannig líka til annars málflokks sem loforð síðustu ríkisstjórnar stóðu til til að gera stórfelldar endurbætur á sem ekki varð af en það er í fyrsta skipti í sögu ráðuneytanna sem húsnæðismálum landsmanna er skipaður sérstakur ráðherra.

Vissulega er það tímanna tákn að húsnæðismál landsmanna skuli koma fram í heiti ráðherra en það er óneitanlega spurning hvort tryggingarmálin séu áfram öll undir einum og sama ráðherra eða hvort hluti þeirra hafi verið færður aftur yfir til heilbrigðisráðuneytisins.

Félags- og húsnæðismálaráðherra

Félagsmálaráðherrar

Í síðustu ríkisstjórn var Árni Páll Árnason fyrst skipaður  félags- og tryggingamálaráðherra en Guðbjartur Hannesson kom nýr inn sem ráðherra 2. september árið 2010 og tók þá við þessu  embætti. Þessir málaflokkar voru svo sameinaðir heilbrigðismálunum 1. janúar 2011.

Eins og áður hefur komið fram er Guðbjartur fæddur 1950 (sjá hér) og var því sextugur þegar hann tók fyrst við ráðherraembætti með síðustu ríkisstjórn eftir fjögurra ára setu á þingi. Eygló Harðardóttir er fædd 1972 og er 41 árs þegar hún tekur í fyrsta skipti við embætti ráðherra með ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. 

Eygló kom fyrst inn á þing árið 2006 sem varaþingmaður og kom aftur inn á þing sem slíkur árið 2008. Hún hefur því rúmlega fimm ára reynslu sem þingmaður nú þegar hún tekur sæti félags- og húsnæðisráðherra.

Menntun og starfsreynsla:
Guðbjartur hefur aflað sér nokkuð fjölbreyttrar menntunar á sviði kennslufræða og skólamála. Hann var 21s ár þegar hann útskrifaðist með grunnskólakennararéttindi frá Kennaraháskóla Íslands.  Sjö árum síðar lauk hann tómstundakennarapróf frá Seminariet for Fritidspædagoger í Vanløse í Danmörku. 41s árs settist Guðbjartur aftur á skólabekk og þá í framhaldsnám í skólastjórnun við Kennaraháskóla Íslands. Hann var skráður í þetta nám næstu þrjú árin. Síðast lauk hann svo meistaraprófi frá kennaraskóla Lundúnaháskóla (Institute of Education, University of London) árið 2005, þá 55 ára.

Í framhaldi af kennaraprófinu frá Kennaraskólanum kenndi Guðbjartur við Grunnskóla Akraness í þrjú ár en varð þá erindreki Bandalags íslenskra skáta næstu tvö árin. Eftir að hann lauk tómstundakennaraprófinu var hann kennari í Kaupmannahöfn í eitt ár en sneri þá aftur heim til kennslu við Grunnskóla Akraness. Eftir samtals fimm ára kennslu við skólann varð hann skólastjóri hans, þá 31 árs að aldri. Skólastjórastöðunni gegndi hann í 26 ár eða þar til hann var kjörinn inn á þing árið 2007. Guðbjartur var 57 ára þegar hann var kosinn inn á þing fyrir Samfylkinguna.

Eygló varð stúdent frá Fjölbrautarskólanum í Breiðholti tvítug. Átta árum síðar lauk hún Fil.kand.-prófi í listasögu frá Stokkhólmsháskóla. Árið 2007 var Eygló skráð í nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands.

Ári eftir að Eygló útskrifaðist úr listasögunni var hún ráðinn framkvæmdastjóri Þorsks á þurru landi ehf. og er skráð sem slíkur næstu átta árin. Hún hefur þó unnið ýmis störf  samhliða. Árin 2003 til 2004 var hún skrifstofustjóri Hlíðardals ehf. Næstu tvö ár var hún viðskiptastjóri Tok hjá Ax hugbúnaðarhúsi hf.  þá framkvæmdastjóri Nínukots ehf. í tvö ár og síðast verkefnastjóri hjá Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands árið 2008.

Eygló var  34 ára þegar hún settist fyrst inn á þing sem varaþingmaður Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi í u.þ.b. tvo mánuði. Þegar Guðni Ágústsson sagði af sér þingmennsku 17. nóvember 2008 tók Eygló sæti hans en hún var 37 ára þegar hún var kosin inn á þing í fyrsta skipti.

Stjórnmálatengd störf og nefndarsetur:
Guðbjartur sat í bæjarstjórn og bæjarráði Akraness í 12 ár. Á þeim tíma var hann tvisvar sinnum formaður bæjaráðs, eða alls í fimm ár, og þrisvar sinnum forseti bæjarstjórnar, eða alls í þrjú ár. Á sama tíma sat Guðbjartur líka í fjölda stjórna og nefnda á sviði stjórnsýslu og ákvarðanatöku sem varða ýmist nærumhverfið eða samfélagið allt.

Þessi þáttur í ferilskrá Guðbjarts nær frá því að hann varð skólastjóri Grunnskóla Akraness til þess að hann var kosinn inn á þing. Áberandi þáttur í þessum hluta ferilskráar hans eru skóla- og félagsmál ungmenna. Allan tímann sem Guðbjartur er skólastjóri Grunnskólans á hann sæti í einni til tólf stjórnum eða ráðum. Flest sæti af þessu tagi átti hann á þeim tíma sem hann var í bæjarstjórnarmálunum á Akranesi auk þess að stýra grunnskólanum þar.

Á þessum tíma átti Guðbjartur 9 nefndar- og stjórnarsæti að meðaltali á ári; þ.e. á árunum 1986 til 1998. Stjórnirnar og nefndirnar þar sem Guðbjartur átti sæti urðu flestar árin 1994 og 1998 eða 12 talsins. Árið 1994 átti hann sæti í eftirtöldum stjórnum og nefndum:

Í bæjarstjórn Akraness 1986-1998.
(Forseti bæjarstjórnar þrisvar sinnum. M.a. 1994-1995.)
Í bæjarráði 1986-1998.
Í ýmsum framkvæmdanefndum um byggingu Grundaskóla og leikskólans Garðasels 1981-2001.
Fulltrúi skólastjóra í skólanefnd Akranesbæjar 1981-2007.
Fulltrúi á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi 1986-1994.
Í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga 1986-1998.
Í stjórn Rafveitu Akraness tvisvar sinnum. Í seinna skiptið 1994-1995.
Í stjórn Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar 1994-1998.
Í samstarfsnefnd um svæðisskipulag sunnan Skarðsheiðar 1990-1996.
Í starfshópi um vinnu við mótun markmiða og stefnu í málefnum leikskóla á Akranesi 1992-1994,
í samstarfsnefnd um mótun tillagna um uppbyggingu og rekstur íþróttamannvirkja á Akranesi 1993-1994.
Í stjórn útgerðarfélagsins Krossavíkur hf. 1994-1996.

Árið 1998 átti Guðbjartur aftur 12 stjórnar- og nefndarsæti. Sex þeirra voru þau sömu og árið 1994. Hinn helmingurinn var nýr. Þar á meðal var hann formaður Akraneslistans, sem var forveri Samfylkingarinnar á Akranesi skv. því sem segir hér. Hann gegndi þessu embætti frá árinu 1998 til 2000. Þegar Guðbjartur komst ekki að í bæjarstjórnarkosningunum á Akranesi fækkar nefndar- og stjórnarsetum hans verulega. Eina staðan sem hann heldur á sviði stjórnmála fram til þess að hann er kosinn inn á þing er sú að hann er fulltrúi skólastjórnenda í skólanefnd Akranesbæjar.

Það er þó rétt að benda á að skv. því sem kemur fram hér sat hann í miðstjórn og framkvæmdastjórn Alþýðubandalagsins og gegndi þar formennsku. Það kemur ekki fram hvenær þetta var eða hversu lengi. Því má svo bæta við að eftir að bæjarstjórnarferli Guðbjarts lauk var hann í bankaráði Landsbanka Íslands í fimm ár eða frá  árinu 1998 til 2003 og bankaráði Heritable-bankans í London (eign Landsbankans síðan 2000) í eitt ár eða frá 2002 til 2003.

Eygló hóf þennan hluta ferils síns árið 2001 og hefur alls átt sæti í 15 stjórnum og ráðum. Flest á árunum 2003 til 2009 eða sjö til tíu á ári. Árið 2004 var metár hjá henni en þá átti hún sæti í tíu stjórnum og ráðum sem eru eftirtalin: 

Í stjórn Þorsks á þurru landi ehf. 2001-2009.
Í skólamálaráði Vestmannaeyja 2003-2004.
Varamaður í félagsmálaráði Vestmannaeyja 2003-2005.
Ritari í stjórn kjördæmissambands framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi 2003-2007.
Í stjórn Nýsköpunarstofu Vestmannaeyja 2003-2006.
Í stjórn Náttúrustofu Suðurlands 2003-2006.
Í stjórn IceCods á Íslandi ehf. 2003-2013.
Í miðstjórn Framsóknarflokksins síðan 2003.
Í stjórn Visku, fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar, 2004-2006 og 2008-2009.
Gjaldkeri Framsóknarfélags Vestmannaeyja 2004-2010.

Árið 2003 byrjar Eygló að feta sig upp pólitíska metorðastigann. Auk sætis í skólamálaráði og varamannssætis í félagsmálaráði Vestmannaeyja verður hún ritari í stjórn kjördæmissambands framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi og gjaldkeri í Framsóknarfélagi Vestmannaeyja þetta ár. Hún hefur líka verið í miðstjórn Framsóknarflokksins frá árinu 2003.

Hún var ritari í stjórn Landssambands framsóknarkvenna á árunum 2007-2009 og í beinu framhaldi ritari Framsóknarflokksins sem er núverandi staða hennar innan flokksins ásamt því að eiga sæti í miðstjórn hans. Þess má svo geta hér að hún hefur verið formaður verðtryggingarnefndar frá árinu 2010 en nefndin hefur það hlutverk að kanna forsendur verðtryggingar á Íslandi.

Þingstörf og nefndarsetur á vegum þess:
Guðbjartur kom nýr inn á þing vorið 2007, þá 57 ára gamall. Hann situr inni á þingi fyrir Samfylkinguna sem þingmaður Norðvesturlands. Hann hefur setið á þingi í 6 ár. Á þessu tímabili hefur hann átt sæti í fjórum þingnefndum. Þ.á m. sat hann í félags- og tryggingamálanefnd á árunum 2007 til 2010. Árið 2009-2010 var hann formaður hennar.

Eygló kom fyrst inn á þing sem varaþingmaður Suðurkjördæmis í upphafi árs 2006. Hún var þá 34 ára. Undir lok ársins 2008 tók hún sæti Guðna Ágústssonar í tilefni þess að hann sagði af sér bæði þingmennsku og formennsku í flokknum. Hún hlaut svo kosningu sem þingmaður vorið 2009, þá 37 ára. Í síðustu kosningum átti hún sæti á framboðslista Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi. Eygló hefur setið á þingi í 5 ár.

Þennan tíma hefur átt sæti í u.þ.b. níu nefndum eða þremur á hverjum þingári. Þ.á m. átti hún sæti í heilbrigðisnefnd fyrst eftir að hún kom inn á þing sem varaþingmaður Guðna og velferðarnefnd þingárið 2011-2012.

Ráðherraembætti:
Guðbjartur var skipaður félags- og trygginga- og heilbrigðisráðherra 2. september 2010. Ráðuneytin voru svo sameinuð 1. janúar 2011 og við það tilefni varð embættisheitið velferðarráðherra. Guðbjartur gegndi þessu embætti til loka síðasta kjörtímabils. Hann hafði setið í þrjú ár á þingi þegar hann var skipaður til embættisins. Guðbjartur var 60 ára þegar hann tók við Heilbrigðisráðuneytinu (sjá nánar hér).

Eygló er nýr félags- og húsnæðismálaráðherra en þetta er í fyrsta skipti sem húsnæðismálunum er gefin sá gaumur að þau koma sérstaklega fyrir í embættisheiti ráðherra. Tíminn á eftir að leiða það í ljós hvaða þýðingu þetta hefur fyrir málefnið. Eygló hafði setið í fimm ár þegar hún var skipuð ráðherra í nýrri ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Hún var 41s árs þegar hún tók við embætti félags- og húsnæðismálaráðherra (sjá nánar hér)

Samantekt
Guðbjartur og Eygló eiga ekkert sameiginlegt þegar menntun þeirra er skoðuð. Hann fer í Kennaraskólann og lýkur þaðan prófi þegar hann er 21s árs. Hún útskrifast sem stúdent frá Fjölbrautarskólanum í Breiðholti tvítug.

Samkvæmt ferilskrá Guðbjarts hefur hann verið að bæta við sig námi á sviði kennslu og skólastjórnunar fram til ársins 2005 þegar hann tekur meistarapróf frá kennaradeild Lundúnaháskóla. Samkvæmt ferilskrá Eyglóar er hún með kandídatspróf í listasögu en hefur síðan bætt við sig einhverju námi í viðskiptafræði við Háskólann.

Guðbjartur og Eygló eiga líka fátt sameiginlegt þegar kemur að starfsreynslu utan þings. Guðbjartur vann við virkjana- og verksmiðjustörf samhliða námi. Ekki er getið um slíkt í ferilskrá Eyglóar. Eftir að hún lýkur prófinu í listasögunni starfar hún í átta ár sem framkvæmdastjóri seiðaeldisstöðvarinnar Þorsks á þurru landi ehf.

Samhliða þessu starfi hefur hún sinnt ýmsum störfum sem í fljótu bragði er ekki að sjá að tengist menntun hennar né að þau byggi undir þekkingu í þeim málaflokkum sem henni hefur verið trúað fyrir af formönnum núverandi ríkisstjórnarflokka. Eins og áður hefur komið fram var Guðbjartur kennari í sex ár áður en hann varð skólastjóri við Grunnskóla Akraness. Því embætti gegndi hann í 16 ár.

Eins og fram kom hér að framan hefur Guðbjartur 12 ára reynslu af bæjarstjórnarmálum. Samkvæmt ferilskrá hans hefur hann setið í fjölmörgum nefndum og ráðum á sviði stjórnsýslu og ákvarðanatöku sem varða ýmist nærumhverfið eða samfélagið allt. Áberandi þáttur í þessum hluta ferilskrár Guðbjarts eru skóla- og tómstundamál ungmenna.

Samkvæmt ferilskrá Eyglóar hefur hún átt sæti í ráðum á vegum bæjarráðs Vestmannaeyja frá 31s árs aldri eða frá sama tíma og hún kemst til áhrifa innan Framsóknarflokksins. Uppgangur hennar innan flokksins hefur verið hraður og málaflokkarnir sem henni hefur verið treyst fyrir eru afar fjölbreyttir. Ekkert þessara starfa tengist hins vegar núverandi stöðu hennar ef frá er talin varamannstaða hennar í félagsmálaráði Vestmannaeyja í tvö ár.

Guðbjartur hefur setið inni á þingi frá árinu 2007 eða frá 47 ára aldri. Eygló kom fyrst inn á þing sem varaþingmaður þremur árum eftir að hún byrjaði að hasla sér völl innan Framsóknarflokksins. Frá árinu 2008 hefur hún átt þar fast sæti eða frá 36 ára aldri.

Síðan bæði komu inn á þing hafa þau átt sæti í nokkrum nefndum. Þar má telja að Guðbjartur Hannesson var formaður í félags- og tryggingamálanefndar í tvö ár eða frá árinu 2007 til 2009 en Eygló hefur verið formaður nefndar sem var skipuð árið 2010 af síðustu ríkisstjórn til að kanna forsendur verðtryggingar á Íslandi. Það gefur þó væntanlega auga leið að hvorugt getur þó talist sérfræðingar í þeim brýnu og umfangsmiklu málefnum sem snerta velferðarmál eins og félagsþjónustuna og húsnæðismál þjóðarinnar. 

Í fljótu bragði er ekki að sjá að ferilskrá Guðbjarts og Eyglóar eigi annað sammerkt en að þar er fátt að finna sem bendir til að þau búi yfir nauðsynlegri þekkingu eða reynslu sem útskýrir það hvers vegna þau þykja líkleg til að ráða best fram úr þeim málaflokkum sem heyra undir það ráðuneyti sem Guðbjarti var falið að stýra í síðustu ríkisstjórn og Eygló í þeirri núverandi. 

Það má vera að einhverjum þyki þetta þungur dómur en þegar það er haft í huga að hér er um að ræða jafn afgerandi málaflokka eins og þá hvort og hvernig félagsþjónustan virkar og það hvernig verður farið með þann forsendubrest sem húsnæðiskaupendur urðu fyrir við bankahrunið haustið 2008 þá getur það varla talist annað en eðlileg krafa að sá sem fer með þessa málaflokka hafi ekki aðeins kjark til að vinna að þeim almannahagsmunum sem kjósendur ætla ráðherrum að standa vörð um og knýja áfram.

James Madison

Þekking og reynsla skipta ekki aðeins máli til að byggja undir kjarkinn og staðfestuna sem þarf til að verja heimili landsmanna og mannsæmandi kjör þeirra verst settu. Hún er grundvallaratriði til að setja fram hugmyndir að færum leiðum sem virka til að gera slíka vörn mögulega. Þegar hún er ekki fyrir hendi er hætt við að aðrir og sértækari hagsmunir ráði ferðinni.

Helstu heimildir

Ríkisstjórnir og ráðherrar frá 1904-1942
Ríkisstjórnartal frá stofnun lýðveldis

Ráherraskipan í síðara ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttir
Ráðherrar í núverandi ríkisstjórn

Þjóðarpúls Callups frá 6. október 2009: Ánægja með störf ráðherra (fyrsta könnun)
Þjóðarpúls Gallups 10. janúar 2013: Ánægja með störf ráðherra

Skýrsla nefndar um endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands - Samhent stjórnsýsla (13.12.2010)
Ný lög um Stjórnarráð Íslands (19.09.2011)

Skipting málefna á milli ráðuneyta (ráðuneyti Sigmundar Davíðs)

Krækjur í ýmis lög sem heyra undir félags-, trygginga- og húsnæðismál:

Lög um skyldu skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfssemi lífeyrissjóða (frá desember 1997)
Lög um málefni aldraðra
(frá desember 1999)
Lög um almannatryggingar (frá maí 2007)
Breytingar á lögum sem varða samspil örorkugreiðslna almannatrygginga og lífeyrissjóða (frá september 2011)
Breytingar á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra (frá júlí 2013) 

Lög um málefni fatlaðra (frá júní 1992)
Lög um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna (frá apríl 2006)
Breytingar á lögum um málefni fatlaðra (desember 2010)

Lög um félagsþjónustu sveitarfélaga (frá mars 1991)
Lög um félagslega aðstoð (frá maí 2007)
Breytingar á m.a. lögum um félagslega aðstoð (frá september 2011)

Lög um húsnæðismál (frá júní 1998)
„Árna Páls lögin“ (frá desember 2010)
Lög um umboðsmann skuldara (frá desember 2010)


Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið

Þetta er fimmta færslan þar sem menntun og starfsreynsla ráðherranna í núverandi og fyrrverandi ríkisstjórn eru borin saman í þeim tilgangi að draga það fram til hvers formenn stjórnmálaflokkanna horfa við skipun framkvæmdavaldsins. Markmiðið er eins og áður hefur komið fram að vekja til umhugsunar um það hvort núverandi aðferð við skipun æðstu manna ráðuneytanna sé líkleg til að skila kjósendum heillavænlegri niðurstöðu. Hér er einkum átt við meðferð sameignarsjóðs allrar þjóðarinnar og stefnu varðandi þá samfélagsþjónustu sem liggur skattskyldunni sem myndar hann til grundvallar.

Nú þegar hafa ráðherrar fjögurra ráðuneyta verið bornir saman en með þessari færslu er samanburðurinn hálfnaður. Að þessu sinni snýst samanburðurinn um  ráðherra iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins. Á síðasta kjörtímabili var ráðherraembættunum fækkað úr tólf niður í átta. Þetta var gert í nokkrum skrefum þar sem einstaklingum var vísað út og nýir jafnvel teknir inn. Það er e.t.v. meðal annars af þessum ástæðum sem heitin á ráðherraembættunum voru nokkuð á hreyfingu. 

Marie Guire

Í upphafi kjörtímabilsins var Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra en Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra. Í lokin var Steingrímur J. Sigfússon komin með bæði ráðuneytin auk landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytisins. 1. september 2012 var heiti embættis hans breytt í atvinnu- og nýsköpunarráðherra. Þetta er nýtt embættisheiti en hins vegar er atvinnumálaráðherra eitt af þremur elstu ráðherraembættunum. Hin tvö eru forsætisráðherra og fjármálaráðherra (sjá hér).

Magnús GuðmundssonÍ sjöunda skipti sem ríkisstjórn var skipuð á Íslandi var það í höndum Ásgeirs Ásgeirssonar (síðar forseta) sem var forsætisráðherra á árunum 1932 til 1934. Hann skipaði Magnús Guðmundsson til að fara með iðnaðarmál. Magnús var dómsmálaráðherra en fór auk þess með sjávarútvegs-, iðnaðar-, samgöngu- og félagsmál. Lesendur eru hvattir til að kynna sér athyglisverða ferilskrá hans á vef Alþingis hér. Meðal mjög margra forvitnilegra þátta sem þar er getið vekur það sérstaka athygli að meðal verkefna sem Magnús hefur verið skipaður til eftir að hann var kosinn inn á þing er staða skrifstofustjóra í fjármálaráðuneytinu.

Emil JónssonFyrstur til að gegna stöðu iðnaðarráðherra var Emil Jónsson. Það var í fjórtándu ríkisstjórninni sem sat á árunum 1944 til 1947. Ólafur Thors var forsætisráðherra hennar en Emil samgöngu- og iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Það er rétt að taka það fram enn og aftur að heimildum Alþingis, Stjórnarráðs og í þessu tilviki ráðuneytisins ber reyndar ekki saman hvað embættisskyldur ráðherra fortíðarinnar varðar en í þessari samantekt hef ég miðað við það sem segir hér. Það má svo geta þess að  Emil stofnaði iðnskóla í Hafnarfirði 1926 og var skólastjóri hans til 1944 (sjá hér).

Eysteinn JónssonEysteinn Jónsson var fyrsti viðskiptaráðherrann. Hann gegndi því embætti á árunum 1939 til 1941. Þetta var í tíundu ríkisstjórn Íslands en Hermann Jónasson var forsætisráðherra hennar. Eysteinn fór eingöngu með viðskiptaráðuneytið en áratugina á eftir var algengast að ráðherrarnir sem fóru með viðskipta- og iðnaðarmálin færu með eitt til þrjú önnur stjórnarmálefni samhliða. Í því sambandi má t.d. benda á að Gylfi Þ. GíslasonGylfi Þ. Gíslason sem var viðskiptaráðherra frá 1958 til 1971, eða alls í 13 ár, fór með menntamálin samhliða því.

Sjálf þykist ég muna svo langt aftur að einhverjum hafi fundist að menntamálin hafi setið óþarflega mikið á hakanum fyrir árvökulum áhugi Gylfa á hvers kyns nýlundu umheimsins í viðskiptaháttum sem hann vildi taka upp hérlendis. Það má þó vera að um bernskan misskilning sé að ræða á þeim skoðunum sem látnar voru uppi á þeim tíma um áherslur hans í embætti.

Árið 1978 tók Ólafur Jóhannesson upp á þeirri nýbreytni að skipta iðnaðar- og viðskiptamálunum á tvo ráðherra. Þá  var Svavar Gestsson skipaður viðskiptaráðherra og Hjörleifur Guttormsson iðnaðarráðherra (sjá hér). Áratug síðar leiddi Sjálfstæðisflokkurinn ríkisstjórnarsamstarfið og setti málflokkana tvo undir einn ráðherra að fyrirmynd Ólafs Thors (sjá hér). Þessi skipting hélst næstu 19 árin eða þar til hrunstjórnin tók við vorið 2007. Þá fór Össur Skarphéðinsson með iðnaðarmálin eingöngu á meðan Björgvin G. Sigurðsson fór með viðskiptaráðuneytið eins og frægt er orðið. Þekktustu viðskipta- og iðnaðarráðherrarnir eru þó án efa þrjú þeirra sem stýrðu ráðuneyti þessara málaflokka á því tímabili sem af sumum hefur verið kennt við góðæri.

Fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherrar

Hér er átt við þau Jón Sigurðsson (síðar seðlabankastjóra), Finn Ingólfsson og Valgerði Sverrisdóttur. Jón var kjörinn inn á þing árið 1987 og var skipaður viðskipta- og iðnaðarráðherra árið eftir eða 1988. Hann gegndi því í fimm ár áður en hann fékk lausn undan því á miðju ári 1993. Finnur Ingólfsson kom inn á þing sem þingmaður Framsóknarflokksins árið 1991. Árið 1995 var hann skipaður til að fara með málefni viðskipta- og iðnaðarráðuneytisins. Hann gegndi embættinu í fjögur ár eða þar til hann fékk sig lausan undan því í lok árs 1999. Valgerður Sverrisdóttir kom ný inn á þing á sama tíma og Jón Sigurðsson. Hún var skipuð viðskipta- og iðnaðarráðherra árið 2003 og fór með embættið í þrjú ár.

Það sem vekur væntanlega meiri athygli en annað í ferilskrá Jóns Sigurðssonar er að hann var „í framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 1980—1983“ og að hann var „varafulltrúi Íslands í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 1974—1987“ eða þar til hann var kosinn inn á þing fyrir Alþýðuflokkinn. Það vekur svo væntanlega líka athygli að í framhaldi þess að hann fékk lausn frá viðskipta- og iðnaðarráðherraembættinu var hann fyrst „bankastjóri Seðlabanka Íslands og formaður bankastjórnar 1993—1994.“ og í framhaldinu: „Aðalbankastjóri Norræna fjárfestingarbankans 1994—2005.“ (sjá hér) Kannski er ástæða til að vekja athygli á því að Jón Sigurðsson var skipaður dóms- og kirkjumála- og viðskiptaráðherra sama ár og hann var kjörinn inn á þing en Friðrik Sophusson, síðar forstjóri Landsvirkjunar (sjá hér), fór þá með iðnaðarmálin (sjá hér)

Finnur Ingólfsson  hefur verið mikið í viðskiptafréttum eftir hrun (sjá t.d. hér) en það væri synd að segja að einhverjum ljóma stafaði af þeim fréttum. Þvert á móti er útlit fyrir að full ástæða væri til að skoða viðskiptasögu hans gaumgæfilegar m.a. með tilliti til þess hvort og þá hvernig staða hans sem stjórnmálamanns hefur haft áhrif á uppgang hans í viðskiptalífinu. Þetta er ekki aðeins mikilvægt til að hreinsa hann sjálfan ef sakargiftir almannarómsins eru rangar heldur ekki síður til að bæta ímynd annarra þingmanna og endurreisa traust almennings á siðferði íslenskrar pólitíkur.

Valgerðar Sverrisdóttur verður að öllum líkindum helst minnst fyrir það að hún var viðskipta- og iðnaðarráðherra þegar fyrsta sprengingin vegna Kárahnjúkavirkjunar var sprengd og samningurinn við Alcoa um byggingu álvers á Reyðarfirði var undirritaður (sjá hér). Dauði Lagarfljóts mun væntanlega vernda minninguna um hennar störf og ríkisstjórnarinnar sem veitti henni umboðið næstu áratugina ef ekki árhundruðin.

Það er óskandi að það þurfi ekki fleiri slys af líku tagi til að kjósendur ranki við sér, og vonandi stjórnsýslan líka, gagnvart því að próf úr framhaldsskóla auk tungumálanámskeiða (sjá hér) eru ekki líklegur grunnur til að valda ráðherraembætti jafnvel þó viljinn standi allur til afburða árangurs og góðra verka. Hér er rétt að árétta að það eru formenn flokkanna sem sitja í ríkisstjórn sem skipa í embætti hvers ráðuneytis. Allt bendir til þess að skipunin miðist fyrst og fremst við pólitíska stöðu óháð menntun og/eða starfsreynslu sem tengist þeim málaflokkum sem viðkomandi er ætlað að fara fyrir sem æðsti umboðsaðili kjósenda.

John Adams

Eins og upprifjunin hér að ofan gefur væntanlega tilefni til að gera sér í hugarlund þá hefur mörgum kjósandanum þótt ærin ástæða til að gagnrýna atvinnumálastefnu stjórnvalda sem þykir alltof upptekin af stóriðjuframkvæmdum og skyndigróða. Þó nokkrir vöruðu ítrekað við afleiðingum þessa fyrir hrun en hagsveifluvagninn var í slíkri uppsveiflu að þeim sem bar að hlusta sinntu ekki þeirri skyldu að velta ofsahraðanum fyrir sér eða því hvað tæki við þegar toppnum yrði náð. Það var rétt eins og stjórnvöld ímynduðu sér að þeir væru staddir um borð í rússíbana með öryggisgrindum sem tryggir það að allir sem eru um borð komast upp úr hyldýpi niðursveiflunar aftur með sama vagninum.

Rússíbani nýfrjálshyggjunnar

Undir lok síðasta kjörtímabils gerðist þáverandi atvinnu- og nýsköpunarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, sporgöngumaður þeirra sem sátu undir forsætisráðherrum Sjálfstæðisflokksins síðustu tvo áratugina fyrir hrun, með því að leggja fram frumvarp til laga um fjárfestingarsamning og ívilnanir vegna kísilvers á Bakka við PCC SE sem verður þar með eigandi kísilversins:

Ef áætlanir standast gæti framleiðslan hafist 2016 og gert er ráð fyrir að hún verði aukin upp í 66 þúsund tonn síðar. Félagið fær sérstakar skattaívilnanir vegna nýfjárfestinga umfram aðrar heimildir í lögum. Til dæmis hvað varðar tekjuskatt, tryggingagjald, stimpilgjöld, fasteignagjöld og fleira. Samtals um 1,5 milljarða á tíu ára tímabili. Ríkið greiðir einnig nærri 800 milljónir vegna framkvæmda við lóðina og þjálfun nýs starfsfólks.

Þá samþykkti Alþingi einnig frumvarp um þátttöku ríkisins í gerð vegtengingar milli Húsavíkurhafnar og Bakka fyrir 1.800 milljónir króna. Ríkissjóður veitir síðan víkjandi lán vegna hafnarframkvæmda fyrir  819 milljónir króna. (sjá hér)

Þó einhverjir létu vonbrigði sín í ljós yfir þessari nýfrjálshyggju fyrrverandi atvinnu- og nýsköpunarráðherra þá fór ótrúlega lítið fyrir umræðu um innihald þessara laga. Líklega eru þeir þó allnokkrir sem sjá líkindi þess sem hér er borið á borð og þess sem haldið var fram við samningsundirrituna varðandi álversbygginguna á Reyðarfirði.

Í þessu samhengi þykir rétt að geta þess að Atli Gíslason hélt reyndar mjög eftirminnilega ræðu í tilefni þess að kísilversfrumvarp Steingríms J. Sigfússonar var til atkvæðagreiðslu á Alþingi. Tveimur myndböndum með ræðu hans var deilt á You Tube þar sem hún hefur fengið eitthvert áhorf. Myndbandið hér að neðan og annað sem Lára Hanna Einarsdóttir klippti og deildi hafa alls fengið yfir 4.000 heimsóknir:

Frumvarp fyrrverandi atvinnu- og nýsköpunarráðherra um fjárfjárfestingarsamning og ívilnanir vegna kísilvers á Bakka við PCC SE var síðasta máið sem var tekið fyrir á lokadegi þinghalds fyrrverandi ríkisstjórnar. Ragnheiður Elín studdi það að frumvarpið yrði að lögum eins og aðrir Sjálfstæðismenn sem voru viðstaddir að Pétri H. Blöndal og varaþingmanninum Sigríði Á. Andersen undanskildum (sjá hér)

Á júníþingi nýkjörinnar ríkisstjórnar lét Ragnheiður Elín hafa það eftir sér að hún geti hugsað sér að fara eftir því fordæmi sem Steingrímur gaf „með ívilnandi samningum gagnvart framkvæmdum við kísilver á Bakka“ (sjá hér). Þetta kom fram í svari hennar við fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar um það „hvort ekki væri kominn tími til að horfast í augu við að ómögulegt væri að ná samningum um raforkusölu til álvers í Helguvík.“

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Iðnaðar- og viðskiptaráðherrar

Steingrímur, sem er fæddur árið 1955, á sér afar sérstæða sögu sem ráðherra á síðasta kjörtímabili. Fyrsta ráðherraembættið sem hann tók í ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna var staða fjármálaráðherra sem hann gegndi í rúmlega tvö og hálft ár eða til 31. desember 2011. Þá upphófst einn sérstæðasti ráðherrakapall sem sést hefur hérlendis. Á árlegum ríkisráðsfundi á Bessastöðum þennan gamlársdag fyrir tæpum tveimur árum var Árna Páli Árnasyni, þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, og Jóni Bjarnasyni, þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, vikið úr ráðherrastóli en Steingrímur tók við stöðum beggja.

Hálfu ári síðar bætti Steingrímur við sig afleysingu fyrir Katrínu Júlíusdóttur, þáverandi iðnaðarráðherra, á meðan hún var í fæðingarorlofi. 1. október 2012 tók hann svo iðnaðarráðuneytið formlega yfir. Við þetta tækifæri voru framantalin embætti gerð að einu og hálfu. Katrín Júlíusdóttir, sem hafði tekið við fjármálaráðuneytinu þegar hún sneri aftur úr fæðingarorlofinu, tók  efnahagsmálin en  Steingrímur sat áfram yfir hinum sem voru sett undir eitt ráðuneyti. Við þetta tilefni var embættisheitinu breytt í atvinnu- og nýsköpunarráðherra (sjá hér).

Með því að Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur tóku við stjórnartaumunum nú í vor varð sú breyting gerð að iðnaðar- og viðskiptamálin voru tekin saman og sett undir einn ráðherra líkt og tíðkaðist á árunum 1988 til 2007. Það er Ragnheiður Elín Árnadóttir sem gegnir þessu embætti nú. Hún er fædd 1967 og var því 46 ára þegar hún tók við embættinu. Steingrímur var skipaður ráðherra í fyrsta skipti fyrir 25 árum.

Menntun og starfsreynsla:
Steingrímur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 21s árs og BS-prófi í jarðfræði frá Háskóla Íslands fimm árum síðar. Árið eftir, eða þegar hann var 27 ára, lauk hann uppeldis- og kennslufræði til kennsluréttinda frá sama skóla.

Meðfram háskólanáminu keyrði hann vörubíla á sumrin en eftir útskriftina þaðan vann hann í eitt ár við jarðfræðistörf jafnframt því sem hann var íþróttafréttamaður hjá Sjónvarpinu. Árið eftir var hann kosinn inn á þing fyrir Alþýðubandalagið, þá 28 ára

Ragnheiður Elín var tvítug þegar hún útskrifaðist sem stúdent frá Kvennaskólanum í Reykjavík. Fjórum árum síðar útskrifaðist hún með BA-próf í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands. Samkvæmt ferilskrá hennar sem er á vef Alþingis er hún með mastersgráðu í alþjóðaviðskiptum frá Georgetown University í Bandaríkjunum en útskriftarársins er ekki getið.

Þegar Ragnheiður var 28 ára hóf hún störf hjá Útflutningsráði þar sem hún var í þrjú ár eða til ársins 1998. Við upphaf starfsferilsins þar var hún aðstoðarviðskiptafulltrúi, þá viðskiptafulltrúi í New York og síðast verkefnisstjóri í Reykjavík. Í framhaldinu var hún ráðin aðstoðarmaður Geirs H. Haarde, fyrst í Fjármálaráðuneytinu (1998-2005, þá í Utanríkisráðuneytinu (2005-2006) og síðast í Forsætisráðuneytinu (2006-2007) eða uns hún var kjörin inn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn, þá 40 ára.

Stjórnmálatengd störf og nefndarsetur:
Miðað við ferilskrá Steingríms liggja hans fyrstu pólitísku skref í nemendapólitíkinni í menntaskóla og svo áfram í háskólapólitíkinni í Háskólanum þar sem hann átti sæti í stúdentaráði á árunum 1978-1980. Frá því að hann var kjörinn inn á þing fyrir þremur áratugum hefur Steingrímur átt sæti í ellefu stjórnum, ráðum og nefndum utan Alþingis. Flestum ábyrgðarstöðunum af þessu tagi gegndi hann árin 1999 og 2000. Það sem vekur sérstaka athygli í þessum hluta ferilskrár hans er hve mörg þessara verkefna tengjast setum á samráðsþingum ráðamanna utan landssteinanna.

Steingrímur var varaformaður Alþýðubandalagsins um sex ára skeið eða frá árinu 1989 til ársins 1995. Fjórum árum síðar var hann kjörinn formaður Vinstri hreyfingarinnar- græns framboðs við stofnun flokksins í febrúar 1999. Steingrímur gegndi þessu embætti fram til síðasta landsfundar VG sem var í febrúar á þessu ári. Þegar hann lét formannsembættið eftir hafði hann stýrt flokknum í fjórtán ár.

Eins og áður hefur komið fram var Ragnheiður Elín aðstoðarmaður Geirs H. Haarde í níu ár í þremur ráðuneytum áður en hún settist inn á þing. Á þeim tíma sat hún í tveimur til fimm nefndum og ráðum á ári eða alls níu yfir tímabilið. Flestum árið 2005. Hún átti m.a. sæti í samninganefnd ríkisins sem sér um samningagerð fyrir hönd ríkisins við opinbera starfsmenn. Árið 2005 var hún líka skipuð í fjölskyldunefnd ríkisstjórnarinnar þar sem hún átti sæti þar til hún var kjörin inn á þing tveimur árum síðar. Ragnheiður var formaður þingflokks sjálfstæðismanna frá 2010 til ársins 2012.

Þingstörf og nefndarsetur á vegum þess:
Steingrímur hefur setið ósliðið á þingi frá árinu 1983 eða frá 28 ára aldri til 58 ára aldurs. Hann hefur því setið á þingi í 30 ár. Þennan tíma hefur hann starfað undir alls þremur þingflokkum. Fyrst þingflokki Alþýðubandalagsins (1983-1998), þá Óháðum (1998-1999) og svo Vinstri grænum undanfarin 14 ár. Upphaflega kom Steingrímur inn á þing sem alþingismaður Norðurlands en eftir breytingar á kjördæmaskiptingunni (sjá
hér) hefur hann verið  þingmaður Norðausturkjördæmis eða frá árinu 2003. 

Þegar litið er til setu Steingríms í þingnefndum kemur í ljós að hann sat í efnahags- og viðskiptanefnd á árunum 1991 til 1999, eða í átta ár, sem má gera ráð fyrir að hafi aflað honum einhverrar þekkingar- og reynslu af málflokknum sem hann stýrði sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra í síðustu ríkisstjórn.

Ragnheiður Elín kom ný inn á þing vorið 2007 sem alþingismaður Suðvesturkjördæmis en hefur verið þingmaður Suðurlands frá alþingiskosningunum 2009. Hún hefur því setið á þingi í 6 ár. Frá því að Ragnheiður Elín tók sæti á Alþingi hefur hún verið skipuð í fimm þingnefndir. Þar af sat hún tvö ár í iðnaðarnefnd og eitt ár í viðskiptanefnd.

Ráðherraembætti:
Steingrímur var 33 ára þegar hann var skipaður ráðherra í fyrsta skipti. Þá var hann skipaður landbúnaðarráðherra í öðru ráðuneyti
Steingríms Hermannssonar (sjá hér). Átta árum síðar, með stjórnarsamstarfi Samfylkingar og Vinstri grænna, var hann lengst fjármálaráðherra en auk þess gegndi hann fjórum öðrum embættum í mislangan tíma. Síðast embætti atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra sem var nýtt heiti en með því voru málefni landbúnaðarins, sjávarútvegsins, iðnaðarins og viðskiptanna felld undir eitt ráðuneyti. Steingrímur var 56 ára þegar hann tók við ráðherraembætti iðnaðar og viðskipta (sjá nánar hér)

Ragnheiður Elín er nýskipaður ráðherra þessara stjórnarmálefna. Hún er 46 ára þegar hún er skipuð iðnaðar- og viðskiptaráðherra eða tíu árum yngri en Steingrímur þegar hann tók við embættinu (sjá nánar hér).

Samantekt
Steingrímur og Ragnheiður Elín eru bæði með stúdentspróf og háskólanám að baki en þar með er það sem ferilskrár þeirra eiga sameiginlegt nánast upptalið. Steingrímur er 26 ára þegar hann lýkur BS-prófi í jarðfræði og tekur svo eins árs viðbótarnám til kennsluréttinda í beinu framhaldi. Ragnheiður Elín er 24 þegar hún útskrifast úr stjórnmálafræðinni en ekki kemur fram hvenær hún lauk meistaranáminu í alþjóðasamskiptum. 

Steingrímur hefur um fimm ára starfsreynslu utan stjórnmálanna. Starfsreynslunnar aflar hann sér aðallega meðfram námi. Ári eftir námslok var hann kominn inn á þing 28 ára gamall og hefur setið þar síðastliðna  þrjá áratugi.

Þar sem það er ekki gefið upp hvenær Ragnheiður Elín tók MS-prófið í Bandaríkjunum er ekki alveg ljóst hvort þriggja ára starfsreynsla hennar hjá Útflutningsráði er meðfram því námi eða að því loknu. Starfsreynsla Ragnheiðar Elínar liggur hins vegar aðallega innan stjórnsýslunnar þar sem  hún var aðstoðarmaður Geirs H. Haarde níu ár áður en hún var kjörin þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Miðað við ferilskrá Steingríms liggja hans fyrstu pólitísku skref hins vegar í nemendapólitíkinni í menntaskóla og svo áfram í Háskólanum. Steingrímur var kjörinn varaformaður Alþýðubandalagsins sex ára þingveru og gegndi því embætti í önnur sex ár eða til ársins 1995. Hann var kjörinn formaður Vinstri grænna við stofnun flokksins árið 1999. Fyrir síðasta landsfund VG sem var haldinn í upphafi þessa árs gaf Steingrímur út þá yfirlýsingu að hann myndi ekki gefa kost á sér til áframhaldandi formennsku flokksins (sjá hér).

Á því níu ára tímabili sem Ragnheiður Elín var aðstoðarmaður ráðherra átti hún sæti í átta nefndum og ráðum. Þ.á m. var hún varamaður í bankaráði Norræna fjárfestingarbankans í fjögur ár. Steingrímur sem var  kominn inn á þing laust fyrir þrítugt hefur reyndar líka aflað sér einhverrar reynslu af stjórnmálastörfum utan alþingis. Auk forystuhlutverka í þeim flokkum sem hann hefur starfað með hefur hann einkum starfað með nefndum og átt sæti á þingum með ráðamönnum víðsvegar frá Evrópu.

Þrátt fyrir að Steingrímur eigi fimm sinnum lengri þingferil á Alþingi en Ragnheiður Elín hefur hún starfað með jafnmörgum þingnefndum og hann. Hér er reyndar rétt að geta þess að núverandi fyrirkomulag þingnefnda var ekki leitt í lög fyrr en árið 1991 (sjá hér). Sama ár var Steingrímur skipaður til sætis í þremur slíkum. Ein þeirra var efnahags- og viðskiptanefnd þar sem hann átti sæti næstu átta árin. Ragnheiður Elín hefur átt sæti bæði í iðnaðarnefnd og viðskiptanefnd. Samanlögð seta hennar í þessum nefndum eru þrjú ár.

Það má að sjálfsögðu gera ráð fyrir því að vera í þingnefndum veiti þingmönnum ákveðna innsýn í þá málaflokka sem eru á hennar sviði en það er hæpið að reikna með að hún sé nógu yfirgripsmikil til að hún komi að miklu haldi þegar kemur að því að fara með framkvæmdavald málefnisins úr ráðherrastóli viðkomandi málaflokks. Þegar litið er til annars bakgrunn sem liggur skipun þessara í embætti iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur þingreynsla og þáverandi staða Steingríms innan síns eigin flokks væntanlega ráðið mestu.

Væntanlega hefur bæði menntun og atvinnureynsla Ragnheiðar Elínar skipt miklu við skipun hennar í núverandi embætti hennar sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra en þó hefur reynsla hennar sem aðstoðarmanns Geirs H. Haarde og formanns þingflokks sjálfstæðismanna til tveggja ára að öllum líkindum haft töluvert um það að segja að hún hlaut embættið. 

Frá kynslóð til kynslóðar

Þegar horft er til síðustu aðgerða Steingríms J. Sigfússonar undir lok síðasta kjörtímabils og þess hvernig Ragnheiður Elín svaraði fyrirspurn hans um málefni Helguvíkur (sjá hér), sem sagt var frá hér í aðdraganda, kann að vera forvitnilegt að rýna í það sem Steingrímur sagði í blaðaviðtali um hlutverk stjórnarandstöðu gagnvart þeim sem sitja í stjórn. Tilefni blaðaviðtalsins er það að þau: Hjörleifur Guttormsson, Kristín Ástgeirsson, Steingrímur og Ögmundur Jónasson stofnuðu þingflokk óháðra haustið 1998. Steingrímur hafði þetta að segja um tilgang stofnunar hans: 

Steingrímur sagði að þingflokkarnir væru mjög mikilvæg grunneining í öllu starfi og skipulagi þingsins og það væri fullkomlega eðlilegt og sjálfsagt mál að hópur þingmanna, sem væru eins settir, skipulegði sín störf saman. "[...] Við erum allt þingmenn í stjórnarandstöðu og þar af leiðandi sömu megin meginvíglínunnar í stjórnmálabaráttunni sem skiptir stjórn og stjórnarandstöðu og við erum öll eins sett hvað það snertir að við höfum sagt skilið við okkar flokka.“ (sjá hér)

Það vekur væntanlega athygli að Steingrímur víkur hvergi að því hvernig þingflokkurinn muni þjóna hagsmunum þjóðarinnar eða því hlutverki hans að standa vörð um kosningaloforð Alþýðubandalagsins sem var að leysast upp á þessum tíma með Kvennalistanum. Þess má geta að fylkingarnar sem báru ábyrgðina að upplausn framantalinna flokka stofnuðu síðar Samfylkinguna.

Orðaskipti þeirra Steingríms og Ragnheiðar Elínar undir þinghaldi nýskipaðrar ríkisstjórnar í júní síðastliðnum gefa ekki tilefni til að ætla að sú hugmyndafræði sem kemur fram í svari Steingríms í blaðaviðtalinu hér að ofan hafi breyst til batnaðar. Sú kerskni sem kemur síðan fram í tilsvari Ragnheiðar Elínar bendir heldur ekki til annars en hún sé undir sömu hugmyndir og Steingrímur seld varðandi það hvaða samskiptamáti sé við hæfi þegar kemur kemur að samskiptum þeirra sem skipa ríkisstjórn og hinna sem eru í stjórnarandstöðunni.

Hér má vissulega ekki gleymast að allir meðvitaðir einstaklingar ætlast til vandaðra vinnubragða af þeim sem þeir kjósa inn á þing og þá ekki síst þeirra sem fara með framkvæmdavaldið í sameiginlegum málaflokkum samfélagsins alls. Orðaskipti sem minna á vígaferli eru ekki líkleg til að vekja kjósendum trausts á hæfileikum til trúnaðarstarfa á borð við málaflokk sem er í jafn viðkvæmri stöðu og atvinnumál þjóðarinnar.

Hins vegar er ljóst að þegar menntun og starfsreynsla þessara tveggja er skoðuð þá stendur ferill Ragnheiðar Elínar starfsviði þess ráðuneytis sem hún stýrir nokkuð nær en ferill forvera hennar. Þar af leiðandi hlýtur hún a.m.k. að teljast hæfari til að verða æðstráðandi í þessum málaflokkum en hann.

Burtséð frá því hvort er hæfara, Steingrímur eða Ragnheiður Elín, til að fara með embætti iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur núverandi aðferð við skipun þess ekki skilað sér til neinnar farsældar fyrir samfélagið. Nægir þar að minna á árangrinum af stóriðjustefnu þeirra sem gegndu þessari sömu stöðu áratugina fyrir efnahagshrunið haustið 2008.

Albert Einstein

Ef fram heldur sem horfir þá er þó hætt við að framhald verði á þeirri áherslu sem hefur verið í stefnu stjórnvalda varðandi iðnaðar- og viðskiptamálin þar sem stórfyrirtæki á sviði stóriðju fara sínu fram á kostnað heildarhagsmuna. Því miður virðist það vera rótgróinn hugsunarháttur innan ráðuneytisins að það þjóni samfélaginu best að setja gróðavonina í forgang.

Helstu heimildir

Ráðherratal Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins

Ríkisstjórnir og ráðherrar frá 1904-1942
Ríkisstjórnartal frá stofnun lýðveldis

Ráherraskipan í síðara ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttir
Ráðherrar í núverandi ríkisstjórn

Fastanefndir Alþingis: Sögulegt yfirlit
Stjórnkerfisbreytingar

Þjóðarpúls Callups frá 6. október 2009: Ánægja með störf ráðherra (fyrsta könnun)
Þjóðarpúls Gallups frá 6. desember 2012: Mat á störfum ráherra
Þjóðarpúls Gallups 10. janúar 2013: Ánægja með störf ráðherra

Skýrsla nefndar um endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands - Samhent stjórnsýsla (13.12.2010)
Ný lög um Stjórnarráð Íslands (19.09.2011)

Heimildir um frumvarp Steingríms J. Sigfússonar vegna Bakka:

Samstarfsyfirlýsing um kísilver á Bakka (fréttatilkynning á vef Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins frá 15. febrúar 2013)
Samkomulag um kísilver á Bakka. mbl.is:
15. febrúar 2013
Steingrímur J. Sigfússon: Nokkur orð um stuðning við uppbyggingu á Bakka. 641.is: 22. mars 2013
Skiptar skoðanir um kísilver á Bakka. ruv.is: 28. mars 2013
Lög um heimild til samninga um kísilver í landi Bakka í Norðurþingi (lög nr. 52 8. apríl 2013)

Aðrar heimildir sem varða iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið:

Öflug sprenging við Kárahnjúka. mbl.is: 13. mars 2003
Undirritun samninga um byggingu álvers Fjarðaráls sf. í Reyðarfirði
(fréttatilkynning frá ráðuneytinu 14. mars, 2003)

Jóhann Páll Jóhannsson: Alræmdur iðnaðarrisi myndi græða á ívilnunum Ragnheiðar. dv.is: 25. júní 2013


mbl.is Þingið kemur saman 10. september
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Hér verður samanburði á menntun og starfsreynslu ráðherra í fyrrverandi og núverandi ríkisstjórn framhaldið. Þetta er fjórða færslan með slíkum samanburði en áður hafa forsætisráðherrarnir, fjármálaráðherrarnir og heilbrigðisráðherrarnir verði bornir saman. Þegar samanburði ráðherra allra ráðuneytanna verður lokið er líklegt að einhver heildarmynd hafi náðst fram varðandi þau viðmið sem formenn ríkisstjórnarflokkanna fara eftir við skipun í ráðherrastólana. 

Hefðin hefur verið sú að skipa þingmenn úr þingflokkunum sem sitja í ríkisstjórn sem þýðir að viðkomandi eiga sæti á löggjafarsamkundunni jafnframt því að fara með framkvæmdavaldið. Nokkur umræða kviknaði um þetta fyrirkomulag í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 meðal annars út frá því hvort það kynni ekki að grafa undan lýðræðinu að framkvæmdavaldið og löggjafarvaldið væri í reynd orðin sama samkundan. Ekkert fór hins vegar fyrir þessari umræðu þegar kom að alþingiskosningunum síðastliðið vor.

John Adams

Þó bæði stjórnmálamennirnir og þeir sem starfa inni á fjölmiðlunum hafi látið sem þessi umræða væri ekki þess verð að taka hana upp í aðdraganda kosninganna reikna ég með að það sama eigi alls ekki við um alla kjósendur. Það er meðal annars af þeim ástæðum sem hér hefur verið ráðist í það verkefni að endurvekja þessa umræðu þó það sé gert með væntanlega frekar óvæntri nálgun.

Að þessu sinni verður fjallað um mennta- og menningarmálaráðuneytið með svipuðum hætti og þau á undan. Hér verður þess vegna byrjað á því að líta til þess hvenær framkvæmdavaldið byrjaði að láta mennta- og menningarmálin sig einhverju varða en í framhaldinu verða núverandi og fyrrverandi ráðherra þessara málaflokka bornir saman.

Þorsteinn BriemFyrsta íslenska ríkisstjórnin var sett saman á árinu 1917 (sjá hér). Tveimur og hálfum áratug síðar fékk Ásgeir Ásgeirsson (síðar forseti) umboð til myndunar sjöundu ríkisstjórnarinnar þar sem hann setti Þorstein Briem yfir kennslumál. Þorsteinn var atvinnumálráðherra í þessari ríkisstjórn Ásgeirs sem sat á árunum 1932 til 1934. Auk þess að fara með kennslumálin fór hann líka með kirkjumálin.

Kennslumálin heyrðu aftur undir atvinnumálaráðherra næstu ríkisstjórnar sem sat á árunum 1934 til 1938. Atvinnu- og viðskiptaráðherra var með þau á sinni könnu í ríkisstjórn Ólafs Thors sem sat aðeins í sjö mánuði á árinu 1942 áður en utanflokkastjórn Björns Þórðarsonar var skipuð af þáverandi forseta til að fara með framkvæmdavaldið. Með ríkisstjórn Björns verður sú breyting á að heiti málaflokksins verða menntamál.

Brynjólfur BjarnasonFyrsti menntamálráðherrann var svo skipaður í ríkisstjórn Ólafs Thors sem tók við af utanflokkastjórninni. Það var Brynjólfur Bjarnason sem gegndi embættinu. Þess má geta hér í framhjáhlaupi að þetta var fyrsta þjóðkjörna ríkisstjórnin sem sat eftir að Ísland varð fullvalda.

Næstu áratugina, eða á árunum 1947 til 1980, fóru þeir sem voru skipaðir menntamálaráðherrar með ýmis önnur ráðuneyti samhliða. Kjörtímabilið 1974 til 1978 er þó undantekning en þá var Vilhjálmur Hjálmarsson skipaður yfir Vilhjálmur Hjálmarssonmenntamálráðuneytið eingöngu af Geir Hallgrímssyni. Það vekur líka athygli þegar horft er til þessara ára hve lengi Gylfi Þ. Gíslason fór yfir ráðuneyti menntamála eða í einn og hálfan áratug.

Allan tímann sem Gylfi gegndi þessu embætti var hann viðskiptaráðherra líka. Árin 1958 og 1959 fór hann jafnframt með iðnaðarmál. Það er reyndar rétt að taka fram að heimildunum þremur, sem eru hafðar til hliðsjónar hér, ber ekki saman hvað þetta varðar en þessar upplýsingar eru teknar héðan.

Á árunum 1980 til 2009 verður það að hefð að sá sem fer með menntamálaráðuneytið fer ekki með önnur mál enda um umfangsmikinn málaflokk að ræða þar sem skólastigin eru mörg, aldurshópurinn sem sækir skóla afar breiður og menntunin sem hann sækist eftir margvísleg. Auk nemenda eru það svo foreldrar nemenda upp til 18 ára og starfsfólk skólanna sem eru ótvíræðastir skjólstæðingar Menntamálaráðuneytisins.

Framan af blandaðist fáum innan þessa fjölbreytta hóps hugur um að hlutverk Menntamálaráðuneytisins væri að veita skólunum og menntuninni sem þar fer fram ákveðið skjól. Miðað við þróun síðustu ára eru þeir þó væntanlega sífellt fleiri sem vita tæplega hvaðan á sig stendur veðrið.

Forgangsröðunin í mennta- og skólamálum

Í ráðherratíð Ólafs G. Einarssonar, sem var menntamálaráðherra á árunum 1991 til 1995, skipaði hann nefnd um mótun menntastefnu. Nefndin skilaði af sér skýrslu í júní 1994. Skýrslan markaði upphaf þerrar stefnu sem menntamálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins, þau Björn Bjarnason (gegndi embættinu frá 1995 til 2002), Tómas Ingi Olrich (ráherra frá 2002-2003) og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (menntamálaráðherra frá 2003-2009), unnu að að hrinda í framkvæmd með lögum sem urðu að veruleika sumarið 2008.

Strax árið 1996 var reyndar tekinn stór áfangi með því að rekstur grunnskólanna var færður frá ríki til sveitarfélaga. Þessi aðgerð er í fullu samræmi við það sem kemur fram í skýrslunni frá 1994 samber þennan texta:

Ríki og sveitarfélög reka nú grunnskóla í sameiningu. Sveitarfélög greiða allan rekstrarkostnað grunnskóla, annan en laun vegna kennslu og stjórnunar sem eru greidd af ríkinu. Skólastjórar eru ríkisstarfsmenn, en hafa forræði fyrir starfsfólki sem ýmist er ráðið af sveitarstjórnum (s.s. ræstingarfólk og húsverðir) eða ríki (kennarar). Þeir ráðstafa því fjármunum sem ýmist koma frá sveitarfélagi eða ríki.

Augljóst hagræði er að því að rekstur grunnskóla verði fullkomlega í höndum eins aðila. Slíkt einfaldar stjórnun, auk þess sem hægt verður að líta á grunnskólahald sem hluta af þjónustu sveitarfélaga og tengja það þannig öðrum verkefnum sveitarfélagsins, t.d. á sviði ýmiss konar sérfræðiþjónustu eða annarrar þjónustu sveitarfélaga við ungt fólk (svo sem vinnuskóla og tómstundastarf). (sjá hér)

Í skýrslunni er líka lögð til lenging skólaársins bæði í grunn- og framhaldsskólum, samræmd próf, styttingu framhaldsskólans niður í þrjú ár auk margs annars sem var lögfest með nýjum fræðslulögum í júní 2008. Að sjálfsögðu voru og eru viðhorf kennara og annars skólafólks til laganna mismunandi en margir vöruðu við og vara við enn. Þrátt fyrir háværar gagnrýnisraddir þann tíma sem lögin voru í mótun fór Þorgerður Katrín ásamt starfsfólki Menntamálaráðuneytisins sínu fram og hrinti kjarna þess í framkvæmd sem lagt var til af nefndinni um mótun menntastefnu árið 1994.

Margir töldu að með því að Katrín Jakobsdóttir tæki við Menntamálaráðuneytinu í byrjun árs 2009 hefði menntunin eignast málsvara þar innandyra að nýju. Það væri ósanngjarnt að halda því fram að viðmótið hafi ekki breyst eitthvað en lausnin á þeim erfiðleikum sem menntuninni í landinu var sett, með nýjum lögum um skóla, er óleyst. Ástæðan er ekki síst sú að lögin bera þess merki að vera sett saman af hópi sem er uppteknari af rekstri skólanna en menntunarhlutverki þeirra.

Marian Wright Edelman

Hér áður var vikið að því þegar rekstur grunnskólanna var færður frá ríki yfir til sveitarfélaga árið 1996. Með nýju lögunum um skólaskyldustigið var stjórnvöldum gert kleift að fara sömu leið og nýju lögin um heilbrigðisþjónustu opnuðu fyrir varðandi heilbrigðisstofnanir. Dæmið er tekið úr 10. kafla laga um grunnskóla

45. gr. Samrekstur.
Sveitarfélögum, tveimur eða fleiri, er heimilt að hafa með sér samvinnu um rekstur grunnskóla, sbr. VIII. kafla sveitarstjórnarlaga. [...]
Sveitarfélögum er heimilt að reka saman grunnskóla, leikskóla og tónlistarskóla undir stjórn eins skólastjóra að fenginni umsögn skólanefnda. [...] Sveitarstjórn getur ákveðið að skólaráð, sbr. 8. gr., og foreldraráð, sbr. 11. gr. laga um leikskóla, starfi sameiginlega í einu ráði. [...]  

Niðurskurðurinn í menntamálunum var sannarlega hafinn fyrir efnahagshrunið þannig að foreldrar grunnskólabarna í dreifðari byggðum landsins kusu jafnvel að búa aðskildir yfir vetrartímann þannig að annað foreldrið gæti haldið börnunum heimili í nágrenni við a skóla í stað þess að láta þau búa inni á ókunnugum. Við efnahagshrunið var gengið enn lengra í niðurskurðinum og fleiri skólar sameinaðir þó niðurskurðurinn hvað þetta varðar hafi ekki náð að ganga eins langt og í heilbrigðisþjónustunni.

Það er hins vegar fleira sem vekur athygli í 10. kafla grunnskólalaganna frá 2008. Annað vísar til einkareksturs, ekki síður en ýmislegt í lögunum um heilbrigðisþjónustuna, og líklegra að seinni greinin geri það líka.

43. gr. Viðurkenning grunnskóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum.
Ráðherra er heimilt að viðurkenna grunnskóla eða hluta grunnskóla, sbr. 1. gr., sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum í formi sjálfseignarstofnunar eða hlutafélags eða samkvæmt öðru viðurkenndu rekstrarformi, enda liggi fyrir samþykki sveitarfélags um stofnun skólans. [...] Um slíka grunnskóla gilda sömu lög og reglur og um grunnskóla skv. 1. gr., eftir því sem við á. Þar á meðal skal af hálfu viðkomandi skóla fylgt ákvæðum stjórnsýslulaga við töku ákvarðana sem kæranlegar eru skv. 47. gr. Það á þó ekki við um ákvarðanir um gjaldtöku.[...]

46. gr. Undanþágur.
Ráðherra er heimilt að viðurkenna grunnskóla eða námsbraut innan almenns grunnskóla sem starfar samkvæmt viðurkenndri erlendri eða alþjóðlegri námskrá og námsskipan. [...] (sjá hér)

Það væri vissulega full ástæða til að fjalla ýtarlegar um markmið og afleiðingar þeirrar menntastefnu sem var komið á með lögunum um skólastigin í upphafi sumars árið 2008. Hér verður þó látið staðar numið en minnt á að menntamál hafa verið undir sérstöku ráðuneyti frá árinu 1980. Það varð hins vegar breyting á þessu með ríkistjórn Jóhönnu Sigurðardóttir með því að 1. október 2009 var menningarmálunum aukið við embættið og er Katrín Jakobsdóttir því fyrsti mennta- og menningamálaráðherrann.

Um þessa stjórnkerfisbreytingu segir þetta á vef Stjórnarráðsins: „Nýtt ráðuneyti mennta- og menningarmála fær auk fyrri verkefna umsjón menningarstofnana og verkefna er nú heyra undir forsætisráðuneyti.“ (sjá hér) Tíminn mun væntanlega leiða það í ljós á hvorum staðnum fer betur um menninguna en vissulega er menntun og menning náskyld enda bæði komin af orðinu maður.

Mennta- og menningarmálaráðherra

Mennta- og menningarmálaráðherrar

Katrín Jakobsdóttir var skipuð menntamálaráðherra síðustu ríkisstjórnar. Auk þess að fara með menntamálaráðuneytið var hún samstarfsráðherra Norðurlanda frá upphafi síðasta kjörtímabils. Frá Eins og áður hefur komið fram var ábyrgð hennar aukin 1. október 2009 og embættisheiti hennar breytt í mennta- og menningarmálaráðherra. Katrín er fædd 1976 og var því 33 ára þegar hún var skipuð ráðherra í ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna.

Illugi er nýskipaður ráðherra mennta- og menningarmála í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Hann er fæddur árið 1967 og er því 46 ára. Bæði komu ný inn á þing árið 2007. Katrín hafði því tveggja ára þingreynslu þegar hún tók við ráðherraembætti en Illugi er með sex ára reynslu af þingstörfum.

Menntun og starfsreynsla:
Katrín varð stúdent frá Menntaskólanum við Sund tvítug að aldri. Þremur árum síðar lauk hún BA-prófi í íslensku með frönsku sem aukagrein frá Háskóla Íslands. Í beinu framhaldi var hún ráðin sem málfarsráðunautur hjá RÚV og starfar sem slíkur næstu fjögur ár. Ári síðar lýkur Katrín meistaraprófi í íslenskum bókmenntum, þá 28 ára.

Að meistaraprófinu loknu vann hún að dagskrárgerð fyrir ljósvakamiðla og ritstörf fyrir ýmsa prentmiðla auk kennslu fyrir endurmenntunarstofnanir og símenntunarmiðstöðvar. Þau þrjú ár sem liðu frá því að Katrín lauk meistaraprófinu og þar til hún var kosin inn á þing annaðist hún líka ritstjórnarstörf fyrir Eddu- og JPV-útgáfu og stundakennslu við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Menntaskólann í Reykjavík. Katrín var 31s þegar hún var kosin inn á þing vorið 2007.

Illugi útskrifaðist frá Menntaskólanum í Reykjavík tuttugu ára gamall. Frá 16 ára aldri og næstu tíu árin vann hann við fiskvinnslu hjá Hjálmi hf á Flateyri eða til ársins 1993. Eftir stúdentspróf starfaði Illugi sem leiðbeinandi við Grunnskóla Fateyrar í eitt ár. Þá sneri hann sér að námi í hagfræði við Háskóla Íslands þaðan sem hann útskrifaðist árið 1995.

Eftir útskriftina var hann skrifstofumaður hjá Vestfirskum skelfiski á Flateyri í tvö ár en stundaði síðan rannsóknir í fiskihagfræði við Háskóla Íslands í eitt ár. Árið 2000 lauk Illugi MBA-prófi (Master of Business Administration) frá London Business School, þá 33ja ára. Í framhaldinu starfaði hann sem aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar forsætisráðherra í fimm ár eða til ársins 2005. Hins vegar er þess ekki getið í ferilskrá Illuga við hvað hann starfaði næstu tvö árin eða þar til hann var kosinn inn á þing 40 ára gamall.

Stjórnmálatengd störf og nefndarsetur:
Katrín byrjaði stjórnmálaþátttöku sína í Háskólanum og var bæði í stúdentaráði og háskólaráði á árunum 1998 til 2000. Tveimur árum síðar var hún kjörinn formaður Ungra vinstri grænna og gegndi því embætti í eitt ár eða þar til hún var kjörinn varaformaður Vinstri grænna. Frá árinu 2002 var Katrín fulltrúi í fræðsluráði, síðar menntaráði, Reykjavíkur, formaður nefndar um barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkurborgar og varaborgarfulltrúi fyrir Reykjavíkurlistann. Þessum embættum gegndi hún í þrjú til fjögur ár. Árið 2004 var hún auk þessa formaður bæði samgöngunefndar og umhverfis- og heilbrigðisnefndar Reykjavíkur.

Miðað við ferilskrá Katrínar hefur árið sem Katrín varð 28 ára, þ.e. 2004, því verið afar annasamt. Auk útskriftar úr meistaranámi í íslenskum bókmenntum hefur hún verið varaformaður Vinstri grænna, varaborgarfulltrúi, formaður þriggja nefnda og fulltrúi í þeirri þriðju. Auk þessa hefur hún sinnt dagskrárgerð, ritstörfum og kennslu. Katrín var kjörin formaður Vinstri grænna í febrúar á þessu ári. Þá hafði hún gegnt embætti varaformanns flokksins í tíu ár eða frá því hún var 27 ára.

Eins og Katrín hóf Illugi stjórnmálþátttöku sína í gegnum stúdentapólitíkina í Háskólanum. Hann sat í  stjórn Vöku á árunum 1989 til 1990 og var oddviti þeirra í eitt ár eða frá 1993 til 1994. Hann sat í stúdentaráði á svipuðum tíma eða frá 1993 til 1995 auk þess sem hann var fulltrúi stúdenta í háskólaráði á sama tíma.

Þegar Illugi var þrítugur var hann kjörinn formaður Heimdallar og gegndi hann því embætti í eitt ár. Eins og áður hefur komið fram var hann aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar á árunum 2000 til 2005. Davíð var þá forsætisráðherra. Eftir að Illugi var kosinn inn á þing átti hann sæti í nefnd um eflingu græna hagkerfisins síðastliðin þrjú ár. Illugi var formaður þingflokks Sjálfstæðismanna árin 2009-2010 og 2012 og 2013.

Þingstörf og nefndarsetur á vegum þess:
Katrín var kjörinn inn á þing fyrir Reykjavík norður árið 2007 og hefur því setið inni á þingi í sex ár. Þennan tíma hefur hún átt sæti í þremur þingnefndum. Þar af sat hún í menntamálanefnd í tvö ár eða á árunum 2007 til 2009.

Illugi var líka kjörinn inn á þing árið 2007. Fyrstu tvö árin sat hann inni á þingi fyrir Reykjavík suður en frá árinu 2009 hefur hann setið inni á þingi fyrir hönd sama kjördæmis og Katrín. Illugi hefur því líka setið inni á þingi í sex ár. Frá því að hann settist inn á þing hefur hann átt sæti í þremur til fjórum nefndum á hvoru kjörtímabili. Þar af átti hann sæti í menntamálanefnd árin 2007 til 2009.

Hann og Katrín voru því samtíða í nefndinni sem fór með frumvörpin að núgildandi lögum um skólastigin sem voru samþykkt á Alþingi í júnímánuði ársins 2008.

Ráðherraembætti:
Katrín gegndi stöðu menntamálaráðherra frá árinu 2009 en heiti embættisins var breytt haustið 2009 í mennta- og menningarmálaráðherra. Katrín gegndi auk þess embættinu samstarfsráðherra Norðurlanda á síðasta kjörtímabili. Þegar hún tók við þessum embættum hafði hún setið inni á þingi í tvö ár. Katrín var 33ja þegar hún var skipuð mennta- og menningarmálaráðherra (sjá nánar hér).

Illugi var skipaður í þetta embætti í núverandi ríkisstjórn. Eins og áður hefur komið fram á hann sex ára þingreynslu að baki og er 46 ára þegar hann er skipaður mennta- og menningarmálaráðherra (sjá nánar hér).

Samantekt
Þó tíu ára aldursmunur skilji þau Illuga og Katrínu að er ferilskrá þeirra ekki ósvipuð í mörgum atriðum. Bæði útskrifuðust sem stúdentar þegar þau voru tvítug. Í framhaldinu lá leið beggja í Háskóla Íslands þar sem þau tóku virkan þátt í stúdentapólitíkinni þó annað hafi fylgt Röskvu en hitt Vöku. Bæði hafa svo gengt forystuhlutverkum í ungliðahreyfingum þeirra flokka sem komu þeim til áhrifa.

Katrín hafði unnið að kennslu og öðrum menningartengdum verkefnum áður en hún settist inn á þing enda bundu margir vonir við að vera hennar í Menntamálaráðuneytinu myndi breyta bæði viðmótinu og stefnunni sem hefur þótt bitna á bæði menntuninni og menningunni í landinu. Þær vonir brugðust að mestu en rétt er að geta þess að Katrín var sá flokksbundni ráðherra sem mest ánægja var með meðal kjósenda á síðasta kjörtímabili ef marka má mælingar Gallups. Lægst mældist ánægja kjósenda með störf hennar í nóvember 2010 eða 32% (sjá hér) en í fyrstu könnuninni og þeirri síðustu sagðist helmingur kjósenda ánægður með hennar störf.

Nú er Illugi tekinn við ráðuneytinu og ljóst að sá niðurskurður sem var á stefnuskrá menntamálayfirvalda fyrir hrun hefur í engu hopað. Katrín fór sér vissulega hægar og sýndi málstað bæði nemanda og kennara sannarlega meiri skilning í orði en sá sem sat á undan henni en hún gerði hins vegar lítið til að leiðrétta það flækjustig sem menntastefnan er rötuð í eftir innleiðingu laganna sumarið 2008.

Illugi er með menntun í hagfræði en hefur starfað sem leiðbeinandi í grunnskóla í eitt ár. Katrín og Illugi voru samtíða í menntamálanefnd árin sem ný fræðslulög voru lögfest þar sem gert er ráð fyrir verulegri uppstokkun á samsetningu og skipulagi náms. Kennarar hafa ítrekað bent á ýmsa galla nýju laganna en bæði foreldrar og nemendur hafa að mestu verið hljóðir hingað til.

Við mótun menntastefnu þarf að taka afstöðu til þess hvaða hlutverki skólarnir skuli gegna. Samfélagið þarf að gera það upp við sig hvort það ætlar skólunum að vera geymslu-, uppeldis-, þjónustu- eða fræðslustofnanir. Menntamálayfirvöld þurfa ekki síður að gefa út skýr skilaboð um það hvort þau ætli skólunum frekar að vinna að innrætingu eða menntun sem lýtur að þekkingu og mennsku eða hvort áherslan á fyrst og fremst að miða að útgáfu prófskírteina. Sumir sem hafa gagnrýnt lögin frá 2008 hafa reyndar bent á að með þeim sé stigið stórt afturfararskref varðandi menntunarhlutverk skólanna um leið og innrætingar - og framleiðnihlutverkið hafi verið gert að forgangsverkefnum.

Bókvitið

Það er engum vafa undirorpið að embætti mennta- og menningarmálaráðherra er ekki síður umfangsmikið en heilbrigðisráðherrans. Í tilviki beggja er grundvallarspurningin samt sú hvort þeim er frekar ætlað að þjóna peningunum eða fólkinu. Rétt eins og langflestir sem starfa innan heilbrigðisstofnana telja sitt meginhlutverk vera það að sinna heilsu landsmanna við sæmandi aðstæður sem stuðla að góðum árangri til bættrar heilsu þá berjast kennarar og námsráðgjafar við að skapa skilyrði til þess að nemendur skólanna njóti menntunar og útskrifist með hagnýta þekkingu sem nýtist þeim til góðra verka. 

Þegar það er haft í huga að fagþekking þeirra sem stjórna innan Menntamálaráðuneytisins lýtur miklu fremur að hagræðingu í rekstri en því að styðja við mannvænleg skilyrði til menntunar nemenda er líklegt að menntamálin haldi áfram að vera í þeim hnút sem þau eru í nú. Það má svo árétta að áreksturinn milli heilbrigðisráðuneytisins og fagvitundar heilbrigðisstarfsfólks er ekki af óskyldum toga og því ekki ofmælt að það er líkt komið fyrir menntuninni og heilsugæslunni í landinu. 

Það er líka rétt að undirstrika það að menntamálin, líkt og  heilbrigðismálin, eru afar yfirgripsmikill grundvallarþáttur sem varða alla sem byggja samfélagið. Langflestir skattgreiðendur eru þess vegna á þeirri skoðun að það beri að hlífa menntuninni og heilsugæslunni umfram ýmsa aðra þætti samfélagsþjónustunnar sem snerta færri og minni hagsmuni. Varðandi menntamálin þurfa allir sem vilja hlúa að þessum grunni heilbrigðs samfélags að átta sig á að rekstur skóla og menntun nemenda er sitt hvað.

Aristoteles

Þegar á allt er litið er líklega ljóst að mennta- og menningarmálaráðherra þarf ekkert síður en heilbrigðisráðherrann að hafa hæfileika til samvinnu við þann fjölbreytilega hóp, sem skjólstæðingar ráðuneytisins eru, og kunna að setja hagsmuni þeirra í forgang frekar en fjármagnsins. Vænlegur kostur er því að hafa skilning á gildi menntunar (og reyndar menningar líka) ekki aðeins fyrir samfélagið allt heldur ekki síður fyrir mennskuna sem býr í hverjum einstaklingi.

Helstu heimildir

Ríkisstjórnir og ráðherrar frá 1904-1942
Ríkisstjórnartal frá stofnun lýðveldis

Ráherraskipan í síðara ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttir
Ráðherrar í núverandi ríkisstjórn

Stjórnkerfisbreytingar

Þjóðarpúls Callups frá 6. október 2009: Ánægja með störf ráðherra (fyrsta könnun)
Þjóðarpúls Gallups frá 6. desember 2012: Mat á störfum ráherra
Þjóðarpúls Gallups 10. janúar 2013: Ánægja með störf ráðherra

Skýrsla nefndar um endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands - Samhent stjórnsýsla (13.12.2010)
Ný lög um Stjórnarráð Íslands (19.09.2011)

Nokkrar heimildir varðandi flutning á rekstri grunnskóla yfir til sveitarfélaga:

Nefnd um mótun menntastefnu (skýrsla nefndarinnar útgefin í júní 1994)

Flutningur á rekstri grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga. Skýrsla KPMG Endurskoðun hf gefin út í nóvember 2000.
Yfirfærsla grunnskólans til sveitarfélaga. Rannsóknarstofnun KÍ. 1. nóvember 2004
Skólamálastefna Sambands íslenskra sveitarfélaga
(frá 2008)

Krækjur í ný lög um skólastigin frá því í júní 2008:

Lög um leikskóla
Lög um grunnskóla
Lög um framhaldsskóla

Lög um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla

Mástofa um menntafrumvörpin (aðgengileg samantekt sem gefur örlitla innsýn í ábendingar KÍ frá 10. apríl 2008 varðandi núgildandi lög)

Kynning á frumvarpi til laga um tónlistarskóla (janúar 2013)


Heilbrigðisráðuneytið

Hér verður haldið áfram að bera saman ferilskrár þeirra sem sátu á ráðherrastóli á síðasta kjörtímabili og þeirra sem sitja þar nú. Áður hefur verið settur fram einhvers konar inngangur og í framhaldi hans það sem mætti kalla aðdraganda þar sem tíðar breytingar á ráðuneytunum í forsætisráðherratíð Jóhönnu Sigurðardóttur voru rifjaðar upp og minnt á hverjir eru ráðherrar núverandi ríkisstjórnar.

Í síðustu færslum voru svo ferilskrár fyrrverandi og núverandi forsætisráðherra bornar sama, þá fjármála- og efnahagsráðherranna en hér verða það heilbrigðisráðherrarnir. Eins og áður hefur komið fram er það von mín að þessi samanburður megi vekja til umhugsunar og umræðna um það hvernig ráðherrar eru skipaðir og hvað liggur skipuninni til grundvallar. Hver færsla hefst því og lýkur á einhverju sem mætti líta á sem umhugsunarpunkta. Þegar samanburðinum á ferilskrám ráðherra allra ráðuneytanna verður lokið kemur hins vegar að umfjöllun og loks einhverri tilraun að niðurstöðu.

Marthin Luther King jr.

Það er líka forvitnilegt að líta til baka yfir sögu ráðuneytanna og velta því jafnframt fyrir sér hvort núverandi aðferðafræði í stjórnsýslunni byggi ef til um of á hefðum og venjum sem urðu til á fyrstu árum ráðuneytanna. Þ.e. áður en Íslendingar fengu full yfirráð yfir málefnum landsins. Það sem vekur sérstaka athygli í sambandi við heilbrigðismálin er að þau fá ekki rúm innan ráðuneytanna fyrr en tæpum tveimur áratugum eftir að það fyrsta var stofnað.

Þegar horft er til baka er líka greinilegt að heilbrigðismál landsmanna hafa ekki þótt nægilega stór eða merkilegur málaflokkur til að setja þau undir sérstakt ráðuneyti. Á þessu eru reyndar þrjá undantekningar sem eru meðal ráðuneyta síðustu ríkisstjórna.

Haraldur GuðmundssonMeð fyrsta ráðuneyti Hermanns Jónassonar árið 1934 komust heilbrigðismál í fyrsta skipti á dagskrá sérstaks ráðherra. Haraldur Guðmundsson (sjá hér) var  atvinnumála- og samgönguráðherra í þessari áttundu ríkisstjórn sem hefur gjarnan verið kennd við stjórn hinna vinnandi stétta (sjá hér). Hann fór einnig með utanríkis-, heilbrigðis- og kennslumál. Haraldur fékk lausn frá ráðherraembætti sínu mánuði áður en kjörtímabilinu lauk og tók þá Hermann Jónasson við embætti hans og væntanlega málefnaflokkum líka.

Það má láta það fylgja hér með að Hermann Jónasson (sjá hér), sem var forsætisráðherra, fór líka með dóms- og kirkjumálaráðuneytið ásamt landbúnaðar- og vegamálum. Hann fór með embætti Haraldar í tvær vikur þannig að þennan hálfa mánuð var hann yfir þremur ráðuneytum og fimm málefnaflokkum að auki.

Hermann var aftur á móti forsætis- og dóms- og kirkjumálaráðherra auk þess að fara með landbúnaðarmálin í átta ár eða frá 1934-1942. Þennan tíma stóð hann að myndun fjögurra ríkisstjórna. Í tveimur fyrstu hafði sá, sem var skipaður atvinnumálaráðherra, heilbrigðismálin líka á sinni könnu en enginn í næstu tveimur.

Heimildum Alþingis og Stjórnarráðsins virðist ekki bera saman varðandi það hvenær heilbrigðismálin voru sett undir ráðherra. Samkvæmt því sem kemur fram á stjórnarráðsvefnum var fyrsti heilbrigðisráðherrann skipaður í utanflokkastjórn Björns Þórðarsonar (sjá hér). Frá miðjum desember 1942 var hann forsætis-, heilbrigðis- og kirkjumálaráðherra en eftir 19. apríl 1943 fór hann auk þess með félagsmálaráðuneytið en lét af því síðasta mánuðinn sem stjórnin sat en tók við dómsmálaráðherra- og menntamálaráðherraembættinu í  staðinn.

Samkvæmt heimildum Stjórnarráðsins fór Björn Þórðarson því með með fimm ráðuneyti síðasta mánuðinn sem utanflokkastjórnin sat (sjá hér). Samkvæmt heimildum Alþingis heyra heilbrigðismálin alltaf undir einhvern ráðherra á árunum 1947 til 1958 þó þeim séu ekki ætlað ráðuneyti.

Eggert G. ÞorsteinssonÞetta breytist hins vegar 1. janúar 1970 en þá var Eggert G. Þorsteinsson skipaður fyrsti heilbrigðis- og tryggingamála-ráðherrann. Hann fór líka með sjávarútvegsráðuneytið (sjá hér). Næstu kjörtímabil á eftir er ekki óalgengt að sá ráðherra sem fer með heilbrigðis- tryggingamálaráðuneytið sé settur yfir annað alveg óskylt ráðuneyti líka eins og sjávarútvegs- iðnaðar- eða samgönguráðuneytið. Kjörtímabilið 1980-1983 heyrir til undantekninga en þá eru félagsmálin sett undir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið.

Það var ekki fyrr en 1. janúar 2008 sem heilbrigðismálunum var skipaður sérstakur ráðherra í fyrsta skipti. Það var Guðlaugur Þór Þórðarson sem gegndi embættinu (sjá hér). Í stjórnartíð síðustu ríkisstjórnar var félags- og tryggingaráðuneytinu ásamt heilbrigðisráðuneytinu svo aftur skipað undir einn ráðherra, eins og kjörtímabilið 1980-1983, með því að Guðbjartur tók við báðum ráðuneytunum 2. september 2010. Þessir málaflokkar voru svo settir undir nýtt ráðuneyti, Velferðarráðuneytið, 1. janúar 2011 og fór Guðbjartur fyrir því. Með nýrri ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks eru heilbrigðismálin aftur komin undir sérstakt ráðuneyti.

Það á eftir að koma í ljós hvort það verður heilbrigðisþjónustunni til framdráttar. Hér er rétt að hafa í huga að í tíð síðustu ríkisstjórnar var engin viðleitni uppi um að bæta ný lög um heilbrigðisþjónustu sem tóku gildi í mars 2007 (sjá hér). Þegar Guðlaugur Þór var gerður að heilbrigðisráðherra eingöngu af þeirri ríkisstjórn sem sat þegar lögin voru innleidd voru uppi kenningar um að tilefnið væru stóraukin afskipti ráðuneytisins af heilbrigðisþjónustunni í þeim tilgangi að leiða hana til meiri einkavæðingar.

Þeir sem gangrýndu nýju heilbrigðislögin þóttust lesa þar á milli lína að framundan væri aukinn niðurskurður í opinberri heilbrigðisþjónustu. Tilefnið er t.d. 5. grein þessara laga sem er svohljóðandi: „Ráðherra getur, að höfðu samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög og Samband íslenskra sveitarfélaga, ákveðið að sameina heilbrigðisstofnanir innan heilbrigðisumdæmis með reglugerð.“

Auðvitað má túlka þessa grein á a.m.k. tvo vegu og nota orðið hagræðingu í stað niðurskurðar en þeir sem gleggst þekkja til í heilbrigðismálunum blandast vart hugur um það að þær aðgerðir sem hefur verið gripið til í kjölfar efnahagshrunsins hafa m.a. sótt stoð í þessa lagagrein. Sá tónn sem hefur verið gefinn í upphafi nýs kjörtímabils varðandi aukna einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar styðst einnig við í lögin frá vorinu 2007:

Ráðherra er heimilt að bjóða út rekstur heilbrigðisþjónustu og kaup á heilbrigðisþjónustu samkvæmt lögum þessum. (úr 30. grein)

Heilbrigðisstofnunum sem ríkið rekur er heimilt að gera samninga um afmörkuð rekstrarverkefni samkvæmt ákvæðum laga um fjárreiður ríkisins. (úr 31. grein. Sjá nánar hér)

Ég reikna með að allir leggi þann skilning í skattskyldu allra, sem hafa tekjur og eiga eignir, að hún sé nauðsynleg þannig að hægt sé að byggja undir skatttekjur ríkisins til að halda uppi rekstri samfélagsins. Í þeim rekstri eru svo mismikilvægir þættir. Væntanlega ætla margir að þeir sem stýra tekjustofnum ríkisins hafi  það ávallt að leiðarljósi að þeim hafi verið trúað fyrir því að ráðstafa sameignarsjóði allra sem byggja samfélagið. Flestir gera þar af leiðandi ráð fyrir að bæði ráðherrar og aðrir sem sýsla með þessa sjóði deili sömu hugmyndum og aðrir skattgreiðendur um það hver forgangsverkefnin eru.

Markaðs- og skrifstofuvæðing heilbrigðisþjónustunnar

Í mínum huga er eitt af þessum forgangsverkefnum að viðhalda góðri heilbrigðisþjónustu sem þjónar öllum almenningi jafnt. Reyndar tel ég að þeir séu allnokkrir sem deila þeirri hugmynd að þetta sé sú grunnþjónusta sem skatttekjur ríkisins ber að halda uppi á meðan skattgreiðendur skila sínu í þennan sameiginlega sjóð. Það er þess vegna líklegt að þeir séu allnokkrir sem geta tekið undir orð Martins Luthers Kings hér í upphafi þar sem hann segir: „Of all the forms of inequality, injustice in health care is the most shocking and inhumane.“ (sjá líka hér)

Heilbrigðisráðherra

Heilbrigðisráðherrar

Í síðustu ríkisstjórn var Ögmundur Jónasson fyrst skipaður heilbrigðisráðherra, þá Álfheiður Ingadóttir og svo Guðbjartur Hannesson frá 2. september 2010. Guðbjartur er fæddur 1950 og var því sextugur þegar hann tók við heilbrigðisráðherraembættinu. Reyndar gegndi hann embætti félags- og tryggingaráðherra samhliða en þeim var síðan steypt saman í eitt 1. janúar 2011 og hét upp frá því velferðarráðherra.

Við það að Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur tóku við völdum hafa heilbrigðismálin aftur fengið sérstakt ráðuneyti. Það er Kristján Þór Júlíusson sem gegnir ráðherraembætti þessa málflokks. Kristján er fæddur 1957 og er því 56 ára þegar hann tekur við sínum fyrsta ráðherrastóli.

Menntun og starfsreynsla:
Guðbjartur er með nokkuð fjölbreytta menntun á sviði kennslufræða og skólamála. Þegar hann er 21s árs öðlast hann grunnskólakennararéttindi með prófi frá Kennaraskóla Íslands og sjö árum síðar lauk hann tómstundakennarapróf frá Seminariet for Fritidspædagoger í Vanløse í Danmörku. 41s árs settist Guðbjartur aftur á skólabekk og þá í framhaldsnám í skólastjórn við Kennaraháskóla Íslands. Hann var skráður í það nám næstu þrjú árin. Síðast lauk hann svo meistaraprófi frá kennaraskóla Lundúnaháskóla (Institute of Education, University of London) árið 2005, þá 55 ára.

Í framhaldi af kennaraprófinu frá Kennaraskólanum kenndi Guðbjartur við Grunnskóla Akraness. Þar var hann í þrjú ár en varð þá erindreki Bandalags íslenskra skáta næstu tvö árin. Eftir að hann lauk tómstundakennaraprófi í Danmörku kenndi hann við Peder Lykke Skolen á Amager í Kaupmannahöfn í eitt ár en sneri þá aftur heim þar sem hann réðst aftur að Grunnskóla Akraness. Hann kenndi þar í tvö ár en var þá ráðinn skólastjóri við skólann 31s árs og gegndi þeirri stöðu uns hann var kosinn inn á þing árið 2007. Guðbjartur hafði þá verið skólastjóri í 26 ár. Guðbjartur var 57 ára þegar hann var kosinn inn á þing fyrir Samfylkinguna.

Kristján Þór varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri tvítugur að aldri. Einu ári síðar tók hann skipstjórnarpróf (1. og 2. stig) frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík. 24 ára skráði hann sig í nám í íslensku og almennum bókmenntum sem hann hefur stundað næstu þrjú árin en próflok úr þessu námi eru ekki skráð í ferilskrá hans. Þegar Kristján Þór er 27 ára lauk hann kennsluréttindaprófi frá Háskóla Íslands.

Eftir að Kristján lauk skipstjórnarprófinu vann hann sem stýrimaður og skipstjóri á skipum frá Dalvík eða þar til hann innritaðist í Háskólann, þá 24. Á meðan hann var í Háskólanum heldur hann þó þessum stöðum yfir sumarið en er kennari við Stýrimannaskólann á Dalvík á veturna. Eftir að hann lauk kennsluréttindanáminu er hann líka almennur kennari við Dalvíkurskóla eða frá 1984 til 1986. 

Árið 1986 var Kristján kosinn bæjarstjóri á Dalvík, þá 29 ára. Næstu tuttugu árin var hann bæjarstjóri á þremur stöðum á landinu: Á Dalvík frá 1986 til 1994, þá á Ísafirði frá 1994 til 1997 og loks á Akureyri frá 1998 til 2006. Ári síðar var Kristján kosinn inn á þing, þá 50 ára.

Stjórnmálatengd störf og nefndarsetur:
Guðbjartur sat í bæjarstjórn og bæjarráði Akraness í 12 ár. Á þessum tíma var hann tvisvar sinnum formaður bæjaráðs, fyrst 1986 og síðast 1997, eða alls í fimm ár, og þrisvar sinnum forseti bæjarstjórnar, fyrst 1988 og síðast 1998, eða alls í þrjú ár. Á þessum tíma sat Guðbjartur í fjölda stjórna og nefnda á sviði stjórnsýslu og ákvarðanatöku sem varða ýmist nærumhverfið eða samfélagið allt.

Þessi þáttur í ferilskrá Guðbjarts nær frá því að hann verður skólastjóri Grunnskóla Akraness þar til hann sest inn á þing. Áberandi þáttur í þessum hluta ferilskráar hans eru skóla- og félagsmál ungmenna. Allan tímann sem Guðbjartur er skólastjóri Grunnskólans á hann sæti í einni til tólf stjórnum eða ráðum. Flest sæti af þessu tagi átti hann á þeim tíma sem hann var í bæjarstjórnarmálunum á Akranesi auk þess að stýra skólanum.

Á þeim tíma átti Guðbjartur 9 nefndar- og stjórnarsæti að meðaltali á ári; þ.e. á árunum 1986 til 1998. Stjórnirnar og nefndirnar þar sem Guðbjartur átti sæti urðu flestar árið 1994 og 1998 eða 12 talsins. Árið 1994 átti hann sæti í eftirtöldum stjórnum og nefndum:

Í bæjarstjórn Akraness 1986-1998.
(Forseti bæjarstjórnar þrisvar sinnum. M.a. 1994-1995.)
Í bæjarráði 1986-1998.
Í ýmsum framkvæmdanefndum um byggingu Grundaskóla og leikskólans Garðasels 1981-2001.
Fulltrúi skólastjóra í skólanefnd Akranesbæjar 1981-2007.
Fulltrúi á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi 1986-1994.
Í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga 1986-1998.
Í stjórn Rafveitu Akraness tvisvar sinnum. Í seinna skiptið 1994-1995.
Í stjórn Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar 1994-1998.
Í samstarfsnefnd um svæðisskipulag sunnan Skarðsheiðar 1990-1996.
Í starfshópi um vinnu við mótun markmiða og stefnu í málefnum leikskóla á Akranesi 1992-1994,
í samstarfsnefnd um mótun tillagna um uppbyggingu og rekstur íþróttamannvirkja á Akranesi 1993-1994.
Í stjórn útgerðarfélagsins Krossavíkur hf. 1994-1996.

Árið 1998 átti Guðbjartur aftur sæti 12 í ýmsum stjórnum og nefndum. Sex þeirra voru þau sömu og árið 1994. Hinn helmingurinn var nýr. Það sem vekur e.t.v. athygli í yfirlitinu hér að framan er að engin þeirra nefnda eða stjórna þar sem hann átti sæti tengist heilbrigðismálum. Eina tengingin við heilbrigðismál í þessari sögu Guðbjarts er að hann sat í stjórn Sjúkrahúss og Heilsugæslustöðvar Akraness á árunum 1996-1998.

Árið 1998 var Guðbjartur líka formaður Akraneslistans, sem var forveri Samfylkingarinnar á Akranesi skv. því sem segir hér. Hann gegndi því embætti frá árinu 1998 til 2000. Þegar Guðbjartur kemst ekki að í bæjarstjórnarkosningunum á Akranesi fækkar nefndar- og stjórnarsetum hans verulega. Hann var reyndar formaður skipulagsnefndar Akranesbæjar frá 1998-2002 en samkvæmt ferilskrá hans á alþingisvefnum er eina staðan sem hann heldur á sviði stjórnmála fram til þess að hann er kosinn inn á þing sú að hann er fulltrúi skólastjórnenda í skólanefnd Akranesbæjar.

Það er þó rétt að benda á að skv. því sem kemur fram hér sat hann í miðstjórn og framkvæmdastjórn Alþýðubandalagsins og gegndi þar formennsku. Það kemur ekki fram hvenær þetta var eða hversu lengi. Því má svo bæta við að eftir að bæjarstjórnarferli Guðbjarts lauk var hann í bankaráði Landsbanka Íslands í fimm ár eða frá  árinu 1998 til 2003 og bankaráði Heritable-bankans í London (eign Landsbankans síðan 2000) í eitt ár eða frá 2002 til 2003.

Kristján Þór hefur líka  setið í afar mörgum nefndum og ráðum á sviði stjórnsýslu og ákvarðanatöku sem snerta ýmist nærumhverfið eða samfélagið allt. Þessi þáttur í ferilskrá Kristjáns nær frá því að hann verður bæjarstjóri á Dalvík og til ársins 2009. Í byrjun þessa ferils eru sjávarútvegsmálin áberandi málaflokkur eða á meðan hann er bæjarstjóri á Dalvík og Ísafirði en eftir að hann sest í bæjarstjórastólinn á Akureyri á hann einkum sæti í stjórnum og ráðum sem fara með fjármál.

Þessi ferill Kristjáns nær yfir 22 ár eða frá 1987 til ársins 2009. Á þessu tímabili sat hann í einni til tólf nefndum yfir árið. Flestar urðu stjórnar- og nefndarsetur hans á árunum 1999 til 2007 en þá voru þær á bilinu 8-12 eða 9 að meðaltali. Árið 2002 var toppár í þessum efnum en þá sat hann í eftirtöldum stjórnum og ráðum:

Formaður stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna Akureyrarbæjar 1998-2007.
Í stjórn Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélags Íslands 1999-2008.
Í stjórn Landsvirkjunar 1999-2007.
Í stjórn Fjárfestingabanka atvinnulífsins 1999-2000.
Í Ferðamálaráði Íslands 1999-2003.
Formaður stjórnar Lífeyrissjóðs Norðurlands 2000-2007.
Í stjórn Fasteignamats ríkisins 2000-2007.
Í stjórn Íslenskra verðbréfa 2002-2009.
Formaður stjórnar Eyþings 1998-2002.
Í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga 1998-2007.
Í bæjarstjórn Akureyrar 1998-2009.
Í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins síðan 2002.
Formaður sveitarstjórnarráðs Sjálfstæðisflokksins 2002-2009.

Árið sem Kristján Þór var kosinn inn á þing var hann í 9 stjórnum og ráðum en það dregur verulega úr strax árið eftir. Það vekur hins vegar athygli að hann á áfram sæti í bæjarstjórn Akureyrar eftir að hann var kosinn inn á þing eða fram til ársins 2009. Kristján var kosinn annar varaformaður Sjálfstæðisflokksins árið 2012.

Þingstörf og nefndarsetur á vegum þess:
Guðbjartur kom nýr inn á þing vorið 2007, þá 57 ára gamall. Hann situr inni á þingi fyrir Samfylkinguna sem þingmaður Norðvesturlands. Hann hefur setið á þingi í 6 ár. Á þessu tímabili hefur hann átt sæti í fjórum þingnefndum. Þ.á m. sat hann í félags- og tryggingamálanefnd á árunum 2007 til 2010. Árið 2009-2010 var hann formaður hennar.

Kristján Þór kom líka inn á þing vorið 2007, þá fimmtugur að aldri. Hann er þingmaður Norðausturlands og hefur setið inni á þingi í sex ár. Frá því hann kom inn á þing hefur hann setið í þremur þingnefndum. Engin þeirra tekur til heilbrigðismála sérstaklega.

Ráðherraembætti:
Guðbjartur var skipaður félags- og trygginga- og heilbrigðisráðherra 2. september 2010. Ráðuneytin voru svo sameinuð 1. janúar 2011 og við sama tilefni nefnt velferðarráðherra. Guðbjartur gegndi þessu embætti til loka síðasta kjörtímabils. Hann hafði setið í þrjú ár á þingi þegar hann var skipaður til embættisins. Guðbjartur var 60 ára þegar hann tók við embætti heilbrigðisráðherra (sjá nánar hér).

Kristján Þór er núverandi heilbrigðisráðherra. Eins og áður hefur komið fram hefur hann setið á þingi í sex ár eða eitt og hálft kjörtímabil. Kristján var 56 ára þegar hann tók við embætti heilbrigðisráðherra. (sjá nánar hér)

Samantekt
Það hlýtur að vekja athygli hversu margt er áþekkt í ferilskrám Guðbjarts Hannessonar og Kristjáns Þórs Júlíussonar. Báðir eru t.d. með kennaramenntun og einhverja kennslureynslu. Þeir eru á svipuðum aldri þegar þeir ljúka kennsluréttindanáminu en síðan hefur Guðbjartur aukið við menntun sína á sviði kennslu- og skólastjórnunar.

Guðbjartur og Kristján byrjuðu báðir að hasla sér völl á atvinnumarkaðinum samhliða námi. Kristján við sjómennsku en Guðbjartur m.a. virkjanastörf. Þeir byrja svo báðir að kenna rúmlega tvítugir. Guðbjartur er kennari í sjö ár áður og verður síðan skólastjóri við Grunnskóla Akraness. Því embætti gegnir hann í 16 ár. Kristján er kennari í fimm ár áður en bæjarstjóraferill hans tekur við en hann var bæjarstjóri í 20 ár á þremur stöðum á landinu; Þ.e. Dalvík, Ísafirði og Akureyri. Þar af 16 ár á heimaslóðum í Eyjafirðinum.

Guðbjartur hefur reyndar líka umtalsverða reynslu af bæjarstjórnarmálum. Þó Guðbjartur hafi aldrei verið bæjarstjóri eins og Kristján hefur hann 12 ára reynslu af bæjarstjórnarmálum. Báðir sátu samtals í rúmlega 20 stjórnum og nefndum á þeim tíma sem þeir fara með embætti í bæjarstjórnum. Guðbjartur og Kristján sátu m.a. báðir  í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga þó það hafi ekki verið á sama tíma.   

Báðir komu inn á þing á sama tíma og hafa setið þar jafnlengi eða í sex ár. Guðbjartur hafði verið þingmaður í þrjú ár þegar hann var skipaður heilbrigðisráðherra en Kristján í sex. Hvorugur hefur neina menntun sem lýtur að rekstri eða skipulagi heilbrigðismála en vissulega má þó gera ráð fyrir að störf beggja á sviði bæjarmála geri þá hæfari til ráðherraembættis en marga samráðherra sína.

Miðað við menntun og reynslu mætti reyndar ætla að ráðuneyti menntamála hefði hæft Guðbjarti betur og sennilega Kristjáni líka. Það er líka spurning hvort sjávarútvegsráðuneytið standi þekkingu hans og reynslu nær en heilbrigðisráðuneytið. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga hvert markmið heilbrigðisþjónustunnar á að vera. Það má líka spyrja sig hvort markmið stjórnvalda og þeirra sem vinna að heilbrigðismálum fer saman.

Það er ekki spurning að embætti heilbrigðisráðherra er mjög umfangsmikið en grundvallarspurningin er hvort ráðuneytinu er  ætlað að þjóna fjármagninu eða fólkinu. Þegar þeirri spurningu hefur verið svarað er hægt að setja niður hvaða hæfileikar skipta mestu við skipun ráðherra heilbrigðismála í landinu.

Ég reikna með að meiri hluti almennings og þeirra sem starfa innan heilbrigðisstofnananna líti svo á að verkefnið snúist um að að veita öllum sem þurfa jafna og góða þjónustu. Hins vegar er ansi margt sem bendir til að stjórnvöld vilji reka heilbrigðisþjónustuna eins og hvert annað markaðsfyrirtæki þar sem megináherslan liggur á því að skila peningalegum hagnaði. Af þessum ástæðum er líklegt að hugmyndir meirihluta almennings og stjórnvalda um það hvaða hæfileikum heilbrigðisráðherra þarf að vera búinn fari alls ekki saman.

Væntanlega lítur meirihluti skattgreiðenda svo á að rekstrargrundvöllur heilbrigðisþjónustunnar sé þegar tryggður í gegnum skattlagningu ríkisins á tekjur þeirra og eignir. Þess vegna er líklegt að flestir séu sammála um að það ætti að vera eitt af forgangsverkefnum stjórnvalda að tryggja að ætlað hlutfall skattteknanna fari til þessarar nauðsynlegu grunnþjónustu en ekki í eitthvað annað sem þjónar minni hagsmunum.

Af þessu leiðir að heilbrigðisráðherra þarf að hafa hæfileika til samvinnu við starfsfólk og skjólstæðinga heilbrigðisþjónustunnar til að tryggja góða sátt á milli almennings og heilbrigðisyfirvalda. Vænlegur kostur er því frekar hugsjón sem er bundinn velferð og hagsmunum samfélagsins en flokkspólitískum hagsmunum eða eigin frama innan stjórnmálaflokka.

Setjum heilbrigðisþjónustuna í forgang

Því má svo við þetta bæta að einhverjir þeirra sem hafa varað við þróuninni sem er að verða í heilbrigðismálum hér á landi hafa lýst yfir þungum áhyggjum af því að með nýjum heilbrigðislögum frá 2007 (sjá hér) hafi markið verið sett á aukna markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustunnar. Þessir hafa jafnframt varðað við því hvert þetta muni leiða heilbrigðisþjónustuna sem muni í framtíðinni snúast í enn meira mæli um fjármagn en ekki aðhlynningu. Teiknin eru væntanlega orðin öllum ljós nú þegar.

____________________________________

Helstu heimildir

Ríkisstjórnir og ráðherrar frá 1904-1942
Ríkisstjórnartal frá stofnun lýðveldis

Ráherraskipan í síðara ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttir
Ráðherrar í núverandi ríkisstjórn

Þjóðarpúls Callups frá 6. október 2009: Ánægja með störf ráðherra (fyrsta könnun)
Þjóðarpúls Gallups 10. janúar 2013: Ánægja með störf ráðherra

Skýrsla nefndar um endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands - Samhent stjórnsýsla (13.12.2010)
Ný lög um Stjórnarráð Íslands (19.09.2011)

Örfáar heimildir um umræðuna um markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustunnar

Tillaga til þingsályktunar um rannsókn á áhrifum markaðsvæðingar samfélagsþjónustu. Lagt fram á 135. löggjafarþinginu (2007-2008) af þingmönnum VG. Flutningsmenn: Ögmundur Jónasson.
Markaðsvæðing mannslíkamans. mbl.is: 31. janúar 2012.
Vilhjálmur Ari Arason: Neyðarþjónustan, þegar lífið sjálft er í húfi. Bloggpistill á eyjan.is: 15. ágúst 2013.


Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Þetta er annar þáttur af tíu af samanburði á menntun og starfsreynslu þeirra sem voru ráðherrar undir lok síðasta kjörtímabils og þeirra sem gegna þessum embættum nú.  Í síðasta pistli voru forsætisráðherrarnir bornir saman. Hér verða það fjármála- og efnahagsráðherrarnir.

Björn KristjánssonFjármálaráðherra er eitt af elstu embættisheitum núverandi stjórnarfyrirkomulags. Fyrsti fjármálaráðherrann var Björn Kristjánsson (sjá hér) en hann gegndi embættinu aðeins í eitt ár eða árið 1917. Þetta var í fyrstu innlendu ríkisstjórninni sem sat á árunum 1917 til 1920. Auk fjármálaráðuneytisins voru þar  forsætis-, og dóms- og kirkjumála- og atvinnumálaráðuneyti (sjá hér) eða alls fjórir málefnaflokkar þar sem dóms- og kirkjumálin voru saman.

Fram til ársins 1939 voru þeir sem gegndu stöðu ráðherra aldrei fleiri en tveir eða þrír. Það var því ekkert óvanalegt að sami ráðherra færi með tvö ráðuneyti. Þó málefnunum sem ráðherrarnir höfðu á sinni könnu taki að að fjölga upp úr 1932 þá er það ekki fyrr en við hernámið sem ráðherrum tekur að fjölga og eru almennt fjórir til fimm næstu kjörtímabil á eftir. 

Jón ÞorlákssonFrá upphafi hefur það verið langalgengast að sá ráðherra sem fer með fjármálin hafi ekki fleiri málefnaflokka á sinni könnu en þó kom það fyrir á fyrstu árum ráðuneytanna að forsætisráðherra færi líka með fjármálaráðherraembættið. Þessi háttur var hafður á í fyrsta skipti árið 1926 en þá var Jón Þorláksson bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra (sjá hér).

Það er vissulega forvitnilegt að skoða menntun og starfsreynslu þeirra manna sem áttu sæti sem ráðherrar í fyrstu innlendu ráðuneytunum á árunum 1917 til 1944 sem mætti ef til vill kalla fullveldistímabilið þar sem lýðveldið var ekki stofnað fyrr en árið 1944. Þar sem Íslendingar öðluðust ekki full yfirráð yfir eigin málum fyrr en við lýðveldisstofnunina er ekki fráleitt að tala um þennan tíma sem einhvers konar æfingartímabil.

Að öllu gamni slepptu þá er rífleg ástæða til að velta því fyrir sér af fullri alvöru hvaða áhrif hefðir og venjur, sem urðu til á þeim mótunartíma áður en Íslendingar höfðu öðlast full yfirráð yfir sínum eigin málum, eru hafðar í heiðri enn í dag varðandi embættisskipan og annað sem lýtur að stjórnskipan landsins. Það verður þó ekki staldrað við þetta atriði frekar að sinni en það er ekki ólíklegt að því verði velt upp síðar í þessu verkefni og meira gert úr því þá.

Benjamin Franklin

Eins og áður segir er fjármálaráðherra eitt af elstu embættisheitunum innan ráðuneyta íslenskrar stjórnsýslu. Frá upphafi hefur það líka verið algengast að sá sem gegnir ráðherraembættinu í fjármálaráðuneytinu fari ekki með fleiri málaflokka.

Í desember 2009 skipaði þáverandi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, nefnd sem var „falið [...] það verkefni að gera tillögur um endurskoðun laga nr. 73“ sem eru frá árinu1969, „um Stjórnarráð Íslands, og eftir atvikum aðrar lagareglur sem lúta að starfsemi Stjórnarráðsins og stjórnsýslu hér á landi“ (sjá hér).

Nefndin skilaði tillögum sínum ári síðar þar sem eftirfarandi kemur m.a. fram:

Nefndin telur að fella eigi brott ákvæði laganna [frá 1969] þar sem heiti ráðuneyta eru tilgreind og að með því skapist svigrúm fyrir ríkisstjórn hverju sinni, einkum við stjórnarmyndun, að ákveða fjölda ráðuneyta og heiti þeirra. (sjá sama)

Ný lög um Stjórnarráð Íslands voru svo samþykkt frá Alþingi í september 2011 (sjá hér). Þar er að finna lagagrein sem byggir á ofangreindri tillögu nefndarinnar um þetta atriði:

Stjórnarráð Íslands skiptist í ráðuneyti. Ráðuneyti eru skrifstofur ráðherra og æðstu stjórnvöld framkvæmdarvaldsins hvert á sínu málefnasviði. Ákveða skal fjölda ráðuneyta og heiti þeirra með forsetaúrskurði, sbr. 15. gr. stjórnarskrárinnar, samkvæmt tillögu forsætisráðherra. (sjá hér)

15. grein Stjórnarskrárinnar er svohljóðandi: „Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim.“ (sjá hér)

Ári síðar, eða 1. september 2012, voru þær breytingar gerðar á embætti þáverandi fjármálaráðherra, sem á þeim tíma var Oddný G. Harðardóttir, að það var aukið í fjármála- og efnahagsráðherra. Þess má geta að þessar breytingar fóru fram við fjórðu og næstsíðustu breytingarnar sem voru gerðar á mönnun og málefnaskiptingu innan ráðuneytanna á síðasta kjörtímabili.

Fjármála- og efnahagsráðherra

Fjármála- og efnahagsráðherraEmbætti fjármálaráðherra var fyrst í höndum Steingríms J. Sigfússonar (hann tók við öðrum ráðuneytum í desember 2011), þá Oddnýjar G. Harðardóttur (hún vék fyrir Katrínu Júlíusdóttur 1. október 2012) en síðasta þingvetur kjörtímabilsins var það Katrín Júlíusdóttir sem gegndi því. Katrín er fædd 1974 og var því 38 ára þegar hún tók við embætti fjármála- og efnahagsráðherra á síðasta ári. Áður hafði hún verið iðnaðarráðherra en hún tók við því embætti í upphafi síðasta kjörtímabils þá 35 ára að aldri. Á síðasta landsfundi Samfylkingarinnar var hún svo kjörin varaformaður flokksins.

Bjarni Benediktsson er fæddur 1970 og er því 43 ára. Hann er fjármála- og efnahagsráðherra í nýskipaðri ríkisstjórn. Hann hefur verið formaður Sjálfstæðisflokksins frá því hann var 39 eða frá árinu 2009. 

Menntun og starfsreynsla:
Katrín útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum í Kópavogi árið 1994. Ári síðar innritaðist hún í mannfræði við Háskóla Íslands. Næstu fjögur árin var hún skráð í mannfræðina en hefur ekki lokið prófi. Annað nám sem kemur fram á ferilskrá hennar á vef Alþingis er námskeið sem hún hefur tekið hjá Endurmenntun Háskóla Íslands í hugbúnaðargerð. Það var árið 2001.

Sama ár og hún útskrifaðist sem stúdent frá MK var hún ráðin sem innkaupastjóri hjá G. Einarsson & co. ehf. „Fyrirtækið flytur inn barnafatnað aðallega frá Þýskalandi.“ (sjá hér). Hún var í þessari stöðu næstu fimm árin. Þar af fjögur samhliða háskólanáminu. Síðasta árið sem Katrín var skráð í mannfræðina var hún framkvæmdastjóri stúdentaráðs Háskóla Íslands, þá 24 ára.

Árið eftir, eða árið 1999, tók hún við framkvæmdastjórastöðu hjá innflutningsfyrirtækinu G. Einarsson & co. ehf en ári síðar var hún ráðin sem verkefnastjóri og ráðgjafi hjá ráðgjafar- og hugbúnaðarhúsinu Innn hf (sjá hér um fyrirtækið). Þessari stöðu gegndi hún næstu þrjú árin eða þar til hún var kosin inn á þing árið 2003, þá 29 ára.

Bjarni er stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík. Hann útskrifaðist þaðan 19 ára gamall. Þegar hann var 25 útskrifaðist hann úr lögfræðinámi frá Háskóla Íslands. Árið eftir var hann í þýsku- og lögfræðinám í Þýskalandi en í framhaldinu tók hann sérhæfða meistaragráðu í lögum (LL.M.-gráðu) frá University of Miami School of Law í Bandaríkjunum. Árið 1998 bætir hann við sig réttindum hæstaréttarlögmanns og löggilts verðbréfamiðlara, þá 28 ára.

Árið sem hann útskrifaðist úr lögfræðinni vann hann sem fulltrúi hjá sýslumanninum í Keflavík. Heimkominn frá Bandaríkjunum, árið 1997, gerist hann lögfræðingur hjá Eimskip og var þar í tvö ár. Þá fór hann út í eigin rekstur sem lögmaður hjá Lex lögmannsstofu og viðheldur þeim rekstri fram til þess að hann er kosinn inn á þing árið 2003, þá 33 ára.

Félagsstörf af ýmsu tagi:
Katrín byrjaði snemma að feta sig upp metorðastigann í pólitíkinni. Sama ár og hún varð stúdent var hún í stjórn Verðandi, ungliðahreyfingar Alþýðubandalagsins, og ritari Alþýðubandalagsins í Kópavogi. Þessum embættum gegndi hún þar til hún varð framkvæmdastjóri stúdentaráðs Háskóla Íslands. Hins vegar var hún áfram í miðstjórn Alþýðubandalagsins, fulltrúi Röskvu í stúdentaráði og háskólaráði Háskóla Íslands og kennslumálanefnd Háskóla Íslands 1997-1999.

Sama ár og hún tók við verkefnastjóra- og ráðgjafastöðunni hjá ráðgjafar- og hugbúnaðarhúsinu Innn hf. var hún komin í framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar, stjórn Evrópusamtakanna og orðin varaformaður ungra jafnaðarmanna. Þess má geta að hún sat í framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar og stjórn Evrópusamtakanna þar til hún var kosin á þing. Auk þess má geta þess að hún var formaður ungra jafnaðarmanna árin 2000-2001 og varaformaður í framkvæmdaráði Samfylkingarinnar árin 2001-2003. Hún var kjörin varaformaður Samfylkingarinnar í febrúar á þessu ári.

Miðað við ferilskrá Bjarna á hann sér svolítið fjölbreyttari bakgrunn á sviði félagsstarfa. Hann var t.d. framkvæmdastjóri lögfræðiaðstoðar Orators, félags laganema síðasta árið sitt í lögfræðinni við Háskólann og formaður knattspyrnudeildar Ungmennafélagsins Stjörnunnar í Garðabæ fyrstu tvö árin eftir að hann var kosinn inn á þing.

Líkt og Katrín byrjaði Bjarni ungur að feta sig upp pólitíska metorðastigann. Þegar hann var 21s árs var hann kominn í stjórn Hugins, félags ungra sjálfstæðismanna í Garðabæ og átti þar sæti næstu þrjú árin. Síðast sem formaður þess. 

Frá 28 ára aldri og fram til 32 átti hann sæti í stjórn Heilsugæslu Garðabæjar og þá í skipulagsnefnd sama bæjar um skamma hríð. Eftir að hann settist inn á þing var hann varaformaður Flugráðs á árunum 2003-2007 og átti sæti í stjórnarskrárnefnd á árunum 2005-2007. Hann var kosinn formaður Sjálfstæðisflokksins árið 2009, þá 39 ára.

Þingstörf og nefndarsetur á vegum þess:
Katrín kom ný inn á þing vorið 2003 og hefur því setið inni á þingi í einn áratug. Hún hefur verið þingmaður suðvesturkjördæmis frá upphafi. Á ferlinum hefur hún átt sæti í fjölmörgum nefndum; eða tveimur til þremur á hverjum tíma að undanskildu síðasta kjörtímabili þar sem hún var ráðherra.

Meðal þeirra nefnda sem hún hefur átt sæti í eru allsherjarnefnd þar sem hún sat fyrsta þingárið, fjárlaganefnd þar sem hún sat á árunum 2005-2007, iðnaðarnefnd á árunum 2005-2009 og umhverfisnefnd árin 2007-2009. Þess má svo geta að hún var formaður iðnaðarnefndar árin 2007-2009.

Bjarni kom inn á þing á sama tíma og Katrín og hefur því líka setið inni á þingi í einn áratug. Eins og Katrín hefur hann verið þingmaður suðvesturkjördæmis frá upphafi. Frá því að hann kom inn á þing hefur hann átt sæti í fjölda þingnefnda; eða þremur til fjórum á hverjum tíma að undanskildu síðasta kjörtímabili. Þá átti hann eingöngu sæti í utanríkismálanefnd þar sem hann hefur setið frá árinu 2005.

Aðrar nefndir sem hann hefur átt sæti í, og verða dregnar hérna fram, er allsherjarnefnd þar sem þau Katrín voru samtíða í eitt ár. Bjarni átti sæti í þessari nefnd á árunum 2003-2007 og var formaður hennar líka. Á sama tíma sat hann í fjárlaganefnd. Árin 2004-2005 átti hann sæti í heilbrigðis- og trygginganefnd og svo efnahags- og skattanefnd í stjórnartíð Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks eða árin 2007-2009.

Ráðherraembætti:
Katrín var 35 ára þegar hún var skipuð iðnaðarráðherra í upphafi síðasta kjörtímabils. Því embætti gegndi hún til haustsins 2012. Það er þó rétt að geta þess að hún var í fæðingarorlofi frá 24. febrúar 2012 til þess tíma að hún var skipuð fjármála- og efnahagsráðherra 1. október 2012. Katrín var því 38 ára þegar hún tók við fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Þess má geta að Oddný G. Harðardóttir gegndi ráðherraembætti hennar frá 24. febrúar til 6. júlí 2012 en þá tók Steingrímur J. Sigfússon við því embætti og gegndi því til til 1. september 2012. Við það tækifæri var þriðja og síðasta verulega breytingin á ráðuneytunum í forsætisráðherratíð Jóhönnu Sigurðardóttur sem fólst m.a. í því að Steingrímur J. Sigfússon var gerður að atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra og tók þannig yfir ráðuneytið sem Katrínu hafði verið úthlutað. 

Þegar Katrín sneri aftur úr fæðingarorlofinu fékk hún ráðuneytið sem hann hafði stýrt áður í staðinn en Oddný G. Harðardóttir, sem tók við ráðuneyti Steingríms 31. desember 2011, vék fyrir Katrínu (sjá hér). Katrín hafði setið í níu ár á þingi þegar hún tók við stjórn efnahags- og fjármála í landinu (sjá nánar hér).

Með nýrri stjórn tók Bjarni við fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Eins og áður hefur komið fram hefur hann setið á þingi í 10 ár eða tvö og hálft kjörtímabil (hér er vísað til kjörtímabilsins sem ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokkur sátu bara hálft). Bjarni er 43ja ára þegar hann tekur við embætti fjármála- og efnahagsráðherra (sjá nánar hér).

Samantekt
Katrín var tvítug þegar hún lauk stúdentsprófi. Strax að stúdentsprófi loknu gerðist hún innkaupastjóri hjá innflutningsfyrirtæki sem flutti inn barnafatnað. Á sama tíma byrjaði hún að hasla sér völl í pólitíkinni. Hún var skráð í mannfræði við Háskóla Íslands á árunum 1994-1999 en hefur ekki útskrifast úr því námi enn.

Áður en hún settist inn á þing, 29 ára gömul, var hún framkvæmdastjóri stúdentaráðs Háskóla Íslands í eitt ár og annað hjá innflutningsfyrirtækinu G. Einarsson & co. auk þess sem hún starfaði sem verkefnisstjóri og ráðgjafi hjá Ráðgjafar- og hugbúnaðarhúsinu Innn hf. í þrjú ár. Á sama tíma vann hún sig áfram upp metorðastigann á sviði stjórnmála. Fyrst innan Alþýðubandalagsins og svo Samfylkingarinnar.

Frá því að hún settist inn á þing hefur hún verið í tveimur til þremur þingnefndum á hverju kjörtímabili að síðasta kjörtímabili undanskyldu en þá var hún fyrst iðnaðarráðherra og síðar fjármála- og efnahagsráðherra. Þegar hún tók við embætti iðnaðarráðherra hafði hún setið á þingi í sex ár. Þremur árum síðar tók hún við embætti fjármála- og efnahagsráðherra.

Bjarni var 19 ára þegar hann lauk stúdentsprófi en ólíkt Katrínu útskrifaðist hann úr sínu námi í Háskólanum og bætti við sig gráðu og réttindum að því loknu. Þegar hann var 28 ára var hann kominn með réttindi sem löggiltur verðbréfamiðlari og héraðsdómslögmaður.

Árið sem Bjarni varð 25 ára starfaði hann sem fulltrúi hjá lögmanninum í Keflavík en frá 1997 til 1999 var hann lögfræðingur hjá Eimskip. Næstu fjögur ár var hann lögmaður með eigin rekstur á Lex lögmannsstofu en var þá kosinn inn á þing sama ár og Katrín Júlíusdóttir eða árið 2003.

Frá því að hann settist inn á þing hefur hann verið í þremur til fjórum þingnefndum á kjörtímabili ef það síðasta er undanskilið en þá átti hann aðeins sæti í utanríkismálanefnd. Eftir að Bjarni settist inn á þing gerðist hann virkur í viðskiptalífinu og var stjórnarformaður N1 og BNT á árunum 2005 – 2008 en BTN var það sem hefur verið kallað „móðurfélag“ N1s (sjá sérstakan heimildalista hérna neðst varðandi þennan þátt á ferli Bjarna).

Bæði, Katrín og Bjarni, hafa stundað einhverja atvinnu samhliða námi ásamt stjórnmálatengdum félagsstörfum. Katrín er þó öllu stórtækari á því sviði en Bjarni þar sem hún vann við innflutning hjá  G. Einarssyni & co. ehf allan tímann sem hún er skráð í nám í háskólanum auk þess að sitja í ýmsum pólitískum stjórnum, ráðum og nefndum öll háskólaárin. Mest fimm á sama tíma.

Árin 1998 var Katrín í sex hlutverkum þar sem hún var innkaupastjóri innflutningsfyrirtækisins sem hún vann hjá, framkvæmdastjóri stúdentaráðs HÍ, í miðstjórn Alþýðubandalagsins, fulltrúi í stúdentaráði - og háskólaráði HÍ og í kennslumálanefnd sama skóla. Af ferilskrá Katrínar inni á vef Alþingis að dæma hefur hún verið ólétt á þessum tíma þannig að það er útlit fyrir að hún hafi fyllst einhverjum ofurkrafti með meðgöngunni. Það er ef til vill sanngjarnt að minna á að á þessum tíma var Katrín á 25. aldursári og þess vegna ung og væntanlega vel frísk.

Þegar kemur að mati á því hvort þessara tveggja, Katrín eða Bjarni, er hæfara til að gegna stöðu fjármála- og efnahagsráðherra þá hlýtur skortur beggja á námi í efnahagstengdum greinum að vekja sérstaka athygli. Ef hins vegar pólitískur metnaður skiptir meginmáli varðandi embættisskipunina þá eru þau væntanlega bæði metin vel hæf.

Þegar menntunarþátturinn er skoðaður nánar er líklegra að Bjarni geti sótt eitthvað, sem kemur honum að notum í embættinu, í átta ára nám í lögfræði en Katrín hafi fundið eitthvað úr háskólakúrsunum, sem hún tók í mannfræðinni, sem hafi verið hald í. Starfsreynslulega séð er það heldur ekki ólíklegt að Bjarni geti sótt fleira í sinn reynslubanka sem nýtist honum í núverandi embætti en Katrín gat á meðan hún gegndi þessu sama embætti.

Þegar kemur að trausti er líklegra að Katrín hafi vinninginn en sennilega vegur trúverðugleikinn eitthvað á móti þannig að ef til vill koma þau jafnt út hvað þennan þátt varðar þegar upp er staðið. Ef marka má ánægjumælingar Gallups mældist ánægja þátttakanda með störf Katrínar sem ráðherra hæst 29,9%. Þessi mæling er frá því í mars 2012 eða þegar Katrín var í fæðingarorlofi.

Á meðan hún gegndi embætti fjármála- og efnahagsráðherra mældist ánægjan með hennar störf hæst 29% en það var undir lok kjörtímabilsins eða í janúar 2013. Katrín var þá í fimmta sæti en miðað við könnunina voru þátttakendur ánægðastir með störf Katrínar Jakobsdóttur en 49,7% aðspurðra sögðust ánægðir með hennar störf.

Miðað við þá miklu ábyrgð sem hvílir á herðum fjármála- og efnahagsráðherra þá hlýtur að liggja beinast við að velta menntunarþættinum alvarlega fyrir sér. Væntanlega dytti engum í hug að ráða einhvern í stöðu fjármálastjóra hjá öðrum stofnunum eða fyrirtækjum ef umsækjandi væri hvorki með menntun eða reynslu af fjármálastjórn. Þegar það er haft í huga að hér er verið að tala um ráðuneyti sem er yfir rekstri heils samfélags þá er það vissulega stór spurning: Af hverju eru ekki gerðar meiri kröfur til æðsta yfirmanns þess en raun ber vitni?

Að öllum líkingum má gera ráð fyrir að þeir séu mjög margir sem gera sér grein fyrir því að útkoman út úr núverandi fyrirkomulagi við skipunina í embættið getur tæplega orðið önnur en slysakennd. Það þarf reyndar ekki að horfa mörg ár aftur í tímann til að finna stórslys sem hlaust af þessu og bitnaði á öllu samfélaginu með hörmulegum afleiðingum. Það sér reyndar ekki fyrir endalok hörmunganna enn.

____________________________________

Helstu heimildir

Ráherraskipan í síðara ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttir
Ráðherrar í núverandi ríkisstjórn

Þjóðarpúls Callups frá 6. október 2009: Ánægja með störf ráðherra (fyrsta könnun)
Þjóðarpúls Gallups 10. janúar 2013: Ánægja með störf ráðherra

Skýrsla nefndar um endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands - Samhent stjórnsýsla (13.12.2010)
Ný lög um Stjórnarráð Íslands (19.09.2011)

Heimildir sem varða viðskiptasögu Bjarna Benediktssonar 

Bjarni Benediktsson: Lætur af stjórnarformennsku í N1. vb.is: 10. desember 2008
Stýrði og átti í BTN. dv.is:
9. desember 2009
BTN lagði milljarð í Vafningsfléttu
. dv.is:
24. mars 2010
Viðskiptasaga Bjarna Benediktssonar
. eyjan.is:
15. ágúst 2011
4,3 milljarða gjaldþrot BTN
. mbl.is: 22. janúar 2013
Milljarðaafskriftir vegna gjaldþrots BTN
. dv.is: 22. janúar 2013
Ekkert fékkst upp í milljarðakröfur í BTN. ruv.is: 22. janúar 2012

Wikipedia: Bjarni Benediktsson


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband