Forsætisráðuneytið

Þetta er framhald þess sem hófst á færslunni Loforð og efndir og svo Mönnun brúarinnar. Sú fyrri er hugsuð sem eins konar inngangur en þá seinni má líta á sem áframhaldandi innsetningu. Þessi færsla er þess vegna fyrsti hluti þess sem  þeirri rannsóknarvinnu sem var upphaf þessara skrifa var ætlað að snúast um. Kveikjan er ekki síst hverjar afleiðingar íslenskrar stjórnmálamenningar hafa orðið og hvernig þær birtust þjóðinni haustið 2008.

Eins og áður hefur komið fram hefur það orðið að hefð í íslenskri stjórnskipan að það er í höndum æðstráðandi innan þeirra flokka sem mynda ríkisstjórn hverjir verða ráðherrar. Þannig hefur það orðið að einhvers konar ófrávíkjanlegri reglu að ráðherrar hverrar ríkisstjórnar eru úr röðum þingmanna ríkisstjórnarflokkanna. Samkvæmt þessari hefð hefur það fests í sessi að formenn viðkomandi flokka taka embætti forsætis- og fjármálaráðherra.

Ráðherrar 2013Núverandi ráðherraskipan

Einhverjir sjá það væntanlega í hendi sér hvurs lags álag hlýtur að hljótast af því að vera formaður fjölmenns stjórnmálaflokks, þingmaður löggjafarsamkundunnar á Alþingi og bæta svo embætti ráðherra ofan á þau margháttuðu hlutverk. Það má gera ráð fyrir að ný lög sem voru sett um Stjórnarráð Íslands á síðasta þingi hafi að einhverju leyti tekið mið af þessu en þar er ráðherrum gert heimilt að ráða til sín tvo til þrjá aðstoðarmenn í stað eins áður. 

Samkvæmt lögunum verður hverjum ráðherra heimilt að ráða allt að tvo aðstoðarmenn til starfa í ráðuneyti sínu í stað eins áður. Auk þess getur ríkisstjórnin ákveðið að fjölga aðstoðarmönnum um þrjá til viðbótar ef þörf krefur.  (sjá hér)

Miðað við umfang og samfélagslegt mikilvægi þeirra málefna sem ráðherrarnir sitja yfir er tæplega hægt að gera ráð fyrir öðru en þeir hafi aðstoðarmenn. Þó hlýtur að teljast eðlilegt að störf þeirra séu auglýst og þekking og færni þeirra sem eru ráðnir standi undir því sem eðlilegt er að gera ráð fyrir að kröfur séu gerðar um varðandi starfsemi og sérsvið hvers ráðuneytis. Hins vegar er ástæða til þess að velta því fyrir sér hvers vegna svo mörgum pólitískt mikilvægum verkefnum er hlaðið á einn einstakling og hvernig slíkt fyrirkomulag fari með þetta marglofaða lýðræði?

Franklin D. Roosevelt

Það er hins vegar ekki lýðræðið sem slíkt sem stendur til að fjalla um sérstaklega hér heldur verður menntun og starfsreynsla hvers ráðherra fyrir sig dregin fram og lagt á það eitthvert mat hvort og hvernig þessir þættir standi undir þeim samfélagslega mikilvægu og sérhæfðu sviðum sem heyra undir ráðuneytin sem þeir sitja yfir.

Ég þarf væntanlega ekkert að taka það fram að þeir sem gegna ráðherraembætti eru í einu af valdamestu embættum landsins samkvæmt íslenskum valdastrúktúr. Miðað við það má gera ráð fyrir að mikillar vandvirkni sé gætt við skipun ráðherra og vandlega passað upp á það að þeir sem gegna þeim hafi menntun, þekkingu og reynslu sem samræmist þeim viðfangsefnum sem heyra undir þá. Það er a.m.k. eðlilegt að gera ráð fyrir því að skipun í æðstu embætti hvers ráðuneytis stýrðist af metnaði fyrir málaflokknum sem heyrir undir það svo og þeim almannahagsmunum sem þeim er ætlað að fara með. 

Þeir ráðherrar sem verða bornir saman hér í framhaldinu eru alls sautján. Við samanburðinn er ferilskrá hvers og eins lögð til grundvallar en þar er tíunduð skólaganga og próf, reynsla af vinnumarkaði auk annarrar reynslu- og/eða þekkingarmyndandi samfélagsvirkni.  Þeir sautján sem stendur til að skoða út frá þessum atriðum eru allir ráðherrar núverandi ríkisstjórnar og þeir átta ráðherrar ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna sem létu af embætti 23. maí sl. (sjá hér). 

Til að stilla lengd hverrar færslu í eitthvert hóf verður hvert embætti tekið fyrir sig og byrjað á forsætisráðherraembættinu. Eins og áður hefur komið fram er tilgangurinn með þessu framtaki ekki síst sá að fá lesendur til að velta því fyrir sér hvort aðferðafræði flokkanna við skipun í ráðuneytin sé líklegust til að hagsmunir samfélagsheildarinnar séu best tryggður?

Forsætisráðherra

Forsætisráðherrar

Jóhanna Sigurðardóttir var forsætisráðherra síðustu ríkisstjórnar. Hún er fædd 1942 og var því 67 ára þegar hún tók við embætti forsætisráðherra fyrir ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna árið 2009. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er nýorðinn forsætisráðherra í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Hann er fæddur 1975 og hefur því náð 38 ára aldri þegar hann tekur við einu æðsta embætti landsins. Þegar menntun þessara tveggja, starfsreynsla þeirra utan þings auk þing- og nefndarstarfa eru borin saman kemur ýmislegt forvitnilegt í ljós.

Menntun og starfsreynsla
Þegar Jóhanna var 18 ára lauk hún verslunarprófi frá Verslunarskóla Íslands. Tveimur árum síðar var hún ráðin sem flugfreyja hjá Loftleiðum og starfaði þar í níu ár áður en hún gerðist skrifstofumaður hjá Kassagerð Reykjavíkur þar vann hún í sjö ár en þá var hún kosin inn á þing fyrir Alþýðuflokkinn, þá 36 ára.

Sigmundur Davíð var stúdent frá MR árið 1995. Tíu árum síðar lauk hann BS-prófi frá viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands. Það kemur og fram á ferilskrá hans að hann hafi stundað hlutanám í fjölmiðlafræði við skólann og hann hafi farið út til Moskvu í skiptinám. Auk þessa hefur hann stundað nám við stjórnmálafræðideild Kaupmannahafnarháskóla í alþjóðasamskiptum og opinberri stjórnsýslu og framhaldsnám í hagfræði og stjórnmálafræði við Oxford-háskóla með áherslu á tengsl hagrænnar þróunar og skipulagsmála.

Eina starfsreynslan sem getið er á ferilskrá hans á alþingisvefnum er að hann hefur verið þáttastjórnandi og fréttamaður í hlutastarfi hjá Ríkisútvarpinu á árunum 2000-2007. Hann var kjörinn inn á þing vorið 2009 þá 34 ára.

Félagsstörf af ýmsu tagi
Jóhanna byrjaði snemma að taka þátt í ýmis konar félagsstarfi. 24 ára er hún orðin formaður stjórnar Flugfreyjufélags Íslands. Því embætti gegndi hún í fjögur ár. Eftir að hún lét að störfum sem flugfreyja hélt hún tengslum við félagsskapinn í gegnum góðgerðarsamtök á þeirra vegum þar sem hún var formaður í eitt ár. Frá 34 ára aldri átti hún sæti í stjórn VR þar sem hún sat til ársins 1983.

Eins og áður sagði var Jóhanna 36 ára þegar hún var kjörin inn á þing fyrir Alþýðuflokkinn. Sex árum eftir að hún tók sæti á þingi var hún kjörin varaformaður flokksins og gegndi því í níu ár. Árið 1995 stofnaði Jóhanna flokkinn Þjóðvaka (sjá hér) og var formaður hans uns þingflokkur hans gekk inn í Alþýðuflokkinn aftur ekki löngu eftir alþingiskosningar. Jóhanna var kjörin formaður Samfylkingarinnar árið 2009 og gegndi því embætti nær allt síðasta kjörtímabil.

Eftir að Jóhanna var kjörin inn á þing hefur hún setið í nokkrum nefndum og ráðum utan þings. Strax og Jóhanna varð þingmaður tók hún að hasla sér völl á vettvangi félags- og tryggingamála. Sama ár og hún komst inn á þing var hún í nefnd sem var falið að endurskoða lög um almannatryggingar auk þess að eiga sæti í tryggingaráði. Hún sat þar í níu ár. Þar af var hún formaður þess í eitt ár eða frá 1979 til 1980. Árið 1979 var hún líka formaður í stjórnarnefnd um málefni þroskaheftra og öryrkja. Því embætti gegndi hún í fjögur ár.

Á ferilskrá Sigmundar Davíðs kemur fram að hann hefur verið forseti Nordiska Ekonomie Studerandes Union í tvö ár eða frá því hann var 25 til 27. Árin 2008 til 2010 var hann fulltrúi í skipulagsráði Reykjavíkurborgar. Frá árinu 2009 hefur hann verið formaður Framsóknarflokksins.

Þingstörf og nefndarsetur á vegum þess
Jóhanna
á langan þingferil að baki. Hún var einn þeirra þingmanna sem gaf ekki kost á sér til endurkjörs til síðustu alþingiskosninga. Þá hafði hún setið á þingi í alls 35 ár. Á þessum tíma hefur hún verið fulltrúi fjögurra flokka auk þess sem hún var utan flokka um hríð. Það er frá haustinu 1994 fram til alþingiskosninganna 1995 (sjá hér).

Þennan tíma hefur hún setið í nokkrum þingnefndum þ.á m. þrisvar sinnum í sérnefnd um stjórnarskrármál  eða árin: 1995-1997 og 1999-2000 og 2004-2007, allsherjarnefnd á árunum 1996-1999 og kjörbréfanefnd þar sem hún sat á árunum 1999-2003. Þess má geta að Jóhanna hefur aðeins einu sinni átt sæti í félagsmálanefnd eða á árunum 2003-2007.

Sigmundur Davíð kom nýr inn á þing vorið 2009 og hefur því setið inni á þingi í fjögur ár. Á síðasta kjörtímabili var hann þingmaður fyrir Reykjavík norður nú fyrir Norðausturland. Allt síðasta kjörtímabil sat hann í utanríkismálanefnd.

Ráðherraembætti
Jóhanna
hafði tvisvar gegnt ráðherraembætti áður en hún tók við forsetaembættinu í fyrsta skipti 1. febrúar 2010. Hún var félagsmálaráðherra á árunum 1987-1994 og 2007-2008, síðan félags- og tryggingamálaráðherra í eitt ár eða til stjórnarslita Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks í janúarlok 2009. 

Jóhanna var 45 ára þegar hún tók við ráðherraembætti í fyrsta skipti en 67 ára þegar hún tók við embætti forsætisráðherra sem hún gegndi til 23. maí sl. Hún var því 71s þegar hún lét af embætti og hafði setið á Alþingi í 31 ár áður en það kom að því að hún tæki það sæti. (sjá nánar hér)

Sigmundur Davíð er núverandi forsætisráðherra. Eins og áður hefur komið fram þá hefur hann setið á þingi í fjögur ár, eða eitt kjörtímabil, og er 38 ára þegar hann tekur embætti forsætisráðherra. (sjá nánar hér)

Samantekt
Jóhanna var 18 ára þegar hún lauk verslunarprófi frá Verslunarskóla Íslands. Sigmundur þrítugur þegar hann lauk BS-námi frá Háskóla Íslands. Önnur próflok eru ekki skráð. Samkvæmt ofangreindri ferilskrá er Jóhanna tvítug þegar hún fer út á atvinnumarkaðinn þar sem hún vinnur í 16 ár; fyrst sem flugfreyja en síðan sem skrifstofumaður. Þennan tíma er hún virk í viðkomandi stéttarfélögum.

Hún er 36 ára þegar hún sest inn á þing. 71 þegar hún lætur af þingmennsku og hefur því setið inni á þingi í 35 ár eða þrjá og hálfan áratug! Á þeim tíma hefur hún verið formaður tveggja flokka og varaformaður þess þriðja.

Miðað við ferilskrá Sigmundar Davíðs er reynsla hans af atvinnulífinu bundin við Ríkisútvarpið þar sem hann hefur gengt hlutastarfi sem þáttastjórnandi og fréttamaður í sjö ár eða frá því að hann var 25 ára. Hann var kosinn formaður Framsóknarflokksins í upphafi ársins 2009 og settist inn á þing skömmu síðar. Hann hefur því setið á þingi í rétt rúm fjögur ár.

Sennilega eru skiptar skoðanir á því hvort þeirra er betur hæfara til að taka eitt af þremur æðstu embættum þjóðarinnar. Ef reynsla af pólitík er eini mælikvarðinn hlýtur það að vera Jóhanna sem er hæfari. Miðað við ánægjukönnun Callups frá því í febrúar 2009 voru miklar væntingar gerðar til hennar og mældist ánægja þátttakenda 65,4%. Í janúar 2013 var þessi tala komin niður í 25,9%. Fór lægst niður í 18,4% í mars 2012 (sjá hér).

Það vekur athygli í þessari könnun hvað ánægja þeirra sem segjast kjósa Samfylkinguna er í litlu samhengi við skoðun þeirra sem segjast styðja aðra flokka. Af því má gera ráð fyrir að kjósendur hennar séu enn þá á því að hún hafi staðið sig vel. Líklega eru þeir þó í töluverðum minni hluta sem væru tilbúnir til að mæla með henni aftur í þetta embætti. Miðað við ferilskrá hennar er nokkuð víst að engin hæfnisnefnd hefði mælt með henni til starfans.

Í þessu samhengi er rétt að vísa til Skýrslu um endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands þar sem segir m.a: „Verklag við ráðningu æðstu embættismanna og annarra starfsmanna verði bætt s.s. með hæfnisnefndum og samræmt til þess að tryggja sem best að fagleg sjónarmið séu höfð að leiðarljósi.“ (sjá hér)

Þrátt fyrir akademískt nám þá verður ekki séð af ferilskrá Sigmundar Davíðs að þar séu afgerandi þættir sem mæli tvímælalaust með honum í embætti forsætisráðherra. Þar sem hann á aðeins stuttan þingferil að baki eru sennilega margir sem hafa ákveðið að gefa honum ekkert síður séns en Jóhönnu í upphafi síðasta kjörtímabils. Væntanlega geta margir tekið undir það að það er óskandi að hann standi betur undir þeim en Jóhönnu auðnaðist.

Þegar það er skoðað hversu frambærileg annaðhvort eða bæði eru í embættið þarf að huga að starfssviði og -skyldum forsætisráðherra. Miðað við það að þetta er ein af þremur valdamestu stöðum íslensks samfélags er vissulega eðlilegt að setja fyrst spurningarmerki við það hvort það sé eðlilegt að formenn stjórnmálaflokka gegni því?

Aðrar spurningar sem vert er að skoða nákvæmlega eru: Hvort eigi að ráða mestu þegar kemur að vali forstæðisráðherra árafjöldi í pólitík eða menntun? eða hvort aðrir þættir skipti jafnvel enn meira máli? svo sem: færni í mannlegum samskiptum, tungumálakunnátta eða víðtæk þekking á íslensku samfélagi?

____________________________________

Helstu heimildir

Ráherraskipan í síðara ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttir
Ráðherrar í núverandi ríkisstjórn

Þjóðarpúls Callups frá 6. október 2009: Ánægja með störf ráðherra (fyrsta könnun)
Þjóðarpúls Gallups 10. janúar 2013: Ánægja með störf ráðherra

Skýrsla nefndar um endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands - Samhent stjórnsýsla (13.12.2010)
Ný lög um Stjórnarráð Íslands (19.09.2011)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Fagna þessum bloggfærslum og samantektinni.Margt sem ég hef ekki vitað áður t.d."Verklag við ráðningu æðstu embættismanna og annarra starfsmanna verði bætt s.s. með hæfnisnefndum og samræmt til þess að tryggja sem best að fagleg sjónarmið séu höfð að leiðarljósi.".Ég hef grun um að fleiri séu sammála þessum skoðunum en mig og þig grunar svo ég hvet þig til að halda áfram.Hafði sjálfur hugsað mér að skrifa um þetta pisla á minni bloggsíðu eftir áramót þegar ég hef rýmri tíma og kannski geri ég það.En byrjunin er að velta fyrsta steininum.Þetta mál skiptir gífurlegu máli fyrir þjóðina í baráttu hennar fyrir bættum lífskjörum.Bendi á að ef Ráðnir eru ópólitískir Ráðherrar sem eru hæfir í starfi þarf ekkert endilega að skipta þeim út eftir alþingiskosningar og hálft starfsliðið með í ráðuneytunum og umturna þeim eins og nú er .Sem gefur færi á markvissari stefnumörkun til lengri tíma.En haltu áfram og ég styð þig í baráttunni Rakel.

Jósef Smári Ásmundsson, 11.8.2013 kl. 06:24

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þakka þér fyrir hvatninguna. Tilvitnunin er tekin héðan og er punktur úr samantekt á innihaldi skýrslu nefndar sem:

„forsætisráðherra skipaði í desember árið 2009 og falið [...]  það verkefni að gera tillögur um endurskoðun laga nr. 73/1969, um Stjórnarráð Íslands, og eftir atvikum aðrar lagareglur sem lúta að starfsemi Stjórnarráðsins og stjórnsýslu hér á landi“

Hér er lokaskýrslan sem hún skilaði 13. desember 2010. Þetta segir um skipun hennar:

„Í upphafi áttu sæti í nefndinni Anna Kristín Ólafsdóttir stjórnsýslufræðingur, formaður, Gunnar Helgi Kristinsson prófessor, Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur og Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, og Hafdís Ólafsdóttir, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu. Sú breyting varð á nefndarskipaninni í júní 2010 að Anna Kristín Ólafsdóttir sagði sig úr nefndinni og tók Arnar Þór Másson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, sæti í hennar stað og varð formaður nefndarinnar.“ (sjá hér)

Mér líst vel á það að þú takir upp þráð þessarar umræðu hvort sem það verður núna eða eftir áramótin. Markmið mitt með þessum skrifum er einmitt það að vekja til umhugsunar og umræðu svo auðvitað fanga ég því þegar það tekst.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 11.8.2013 kl. 18:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband