Sjávaraútvegs- og landbúnaðarráðuneytið

Þá er komið að sjöunda hluta samanburðarins á menntun og starfreynslu þeirra sem gegna ráðherraembættum í núverandi ríkisstjórn og þeirra sem fóru með sömu málaflokka í síðustu ríkisstjórn. Viðfangsefnið að þessu sinni er samanburður á ferilskrám Steingríms J. Sigfússonar og Sigurðar Inga Kristjánssonar. Steingrímur J. Sigfússon hefur áður komið fyrir í þessum samburði þar sem menntun hans og starfsreynsla var borin saman við ferilskrá Ragnheiðar Elínar Árnadóttur sem gegnir embætti iðnaðar- og viðskiptaráðherra í núverandi ríkisstjórn.

Þessi færsla hefur átt sér annan og ýtarlegri aðdraganda en þær sex sem fóru á undan með sambærilegum samanburði. Meginástæðan er sú að þar sem hér er fjallað um það ráðuneyti sem fer með málefni grundvallaratvinnuveganna tveggja  þótti við hæfi að kafa dýpra í málefni þess en annarra ráðuneyta. M.ö.o. þá er óhætt að segja að ef ekki væri fyrir landbúnaðinn þá ætti íslenska þjóðin sér væntanlega hvorki tilveru né sögu aftur til ársins 874 og ef ekki væri fyrir sjávarútveginn þá ættum við hvorki sjálfstæðið né það tæknisamfélag sem við byggjum nú.

Bóndinn og sjómaðurinn

Í aðdraganda þessarar færslu hefur það því verið skoðað sérstaklega með hvaða hætti stjórnmálaflokkarnir og sú pólitík sem hér hefur skotið rótum hefur umgengist grundvallaratvinnugreinarnar tvær og komið fram gagnvart þeim sem eiga allt sitt undir þeim. Það er langt frá því að hægt sé að halda því fram að þessi athugun hafi verið fullunnin eða kláruð en það er óhætt að segja að hún skilaði vissulega ljósari mynd af því hver niðurstaða þess samanburðar sem haldið var af stað með í upphafi verður. Ein niðurstaðan er sú að sú stjórnmálasaga sem er fléttuð sögu og þróun þessara tveggja grunnatvinnugreina þjóðarinnar með pólitískum afskiptum kallar á frekari umfjöllun þó af henni verði ekki fyrr en síðar.

Hér verður byrjað á því að draga saman helstu atriði varðandi þá framleiðslustýringu sem stjórnvöld hafa sniðið bæði landbúnaðinum og sjávarútveginum á næstliðnum þrjátíu/fjörutíu árum. Í þessari samantekt verður byggt á því sem er komið fram í færslunum fjórum sem voru aðdragandi þessarar en einhverju verður bætt við. Fyrsta færslan fékk heitið Til kvótastýringar í landbúnaði og þá komu þrjár um sjávarútveginn. Það er e.t.v. rétt að taka það fram áður en lengra er haldið að þessir málaflokkar tilheyrðu lengst af sínu ráðuneytinu hvor.

Í fyrsta hlutanum um sjávarútvegsmálin var rakið hverjir hefðu verið fyrstir til að fara með sjávarútvegsmálin og hverjir hefðu setið lengst yfir sjávarútvegsráðuneytinu. Í öðrum hlutanum var stiklað á stóru yfir stjórnsýslulegar ákvarðanir í sjávarútvegi frá tíma fyrstu innlendu ríkisstjórnarinnar fram undir lýðræðisstofnunina. Í þeim þriðja var farið yfir nokkrar helstu ákvarðanir sem urðu til þeirrar stefnumörkunar sem síðar leiddi til kvótastýringarinnar. Hér á eftir verður þess freistað að kafa svolítið dýpra niður í umræðurnar um kvótann á árunum 1983 - 2012.

Þrjú á sjó

Áður en lengra verður haldið er hins vegar freistandi að vitna í þingræðu Einars Olgeirsson um milliliðagróða frá árinu 1955. Þar segir hann m.a. þetta um stöðu landbúnaðarins og útgerðarinnar gagnvart því hagsmunastýrða markaðskerfi sem þessir grundvallaratvinnuvegir þjóðarinnar hafa liðið fyrir:

Öll þau eðlilegu lögmál í kapítalistísku þjóðfélagi eru gersamlega skert, sett út úr gildi, og sjálfir framleiðsluatvinnuvegirnir, sjávarútvegurinn, landbúnaðurinn, mikill hluti iðnaðarins, eru gerðir að styrkþegum og verzlunarauðvaldið raunverulega látið ráða því, hvort og að hve miklu leyti útgerðin er rekin. (sjá hér

Síðar í ræðu sinni heldur hann því fram að það séu verslunar- og fjármálaauðvaldið á Íslandi sem beiti ríkisvaldinu til að koma í veg fyrir að hér ríki „almennt kapítalistískt frelsi“. Með öðrum orðum heldur Einar Olgeirsson því fram þegar árið 1955 að markaðinum og því hvar hagnaðurinn af verðmætasköpuninni lendir sé handstýrt af ríkisvaldinu sem leggur sig í líma við að þóknast þeim ríkustu (sjá hér).

Handstýring matvælaframleiðslunnar

 

Eins og síðustu bloggfærslum var ætlað að undirstrika varð núverandi kvótastýring í landbúnaði og sjávarútvegi ekki til á einni nóttu heldur á hún sér aðdraganda í stjórnsýslulegri afstöðu áratugina á undan. Þar áttu aðgerðir og aðgerðarleysi nokkuð jafna hlutdeild í því að ójafnvægið jókst frekar en hitt. Kvótanum var ætlað að verða það verkfæri sem sæi um að leiðrétta það.

 

Fjórum árum eftir að fyrstu drög að kvótastýringu landbúnaðarframleiðslunnar var komið á var sams konar aðferðarfræði komið upp í sjávarútveginum. Tveimur áratugum síðar hafði þeim árangri verið náð að fækkun bænda var orðin staðreynd (sjá hér). Sá árangur sem náðist með kvótakerfinu í sjávarútveginum kom fram í gífurleg byggðaröskun samfara því að aflaheimildir höfðu safnast á sífellt færri útgerðarfyrirtæki. Sá tilgangur að sporna gegn ofveiði hefur hins vegar enn ekki náðst.

 

Það markmið að ná niður framleiðslukostnaði í báðum greinum hefur heldur ekki náðst. Skýringin liggur væntanlega að einhverju leyti í þeirri fjölgun stofnana og starfsmanna sem hefur verið ætlað að sjá til þess að kvótaverkfærin virkuðu. Áður en lengra er haldið er tímabært að draga það betur fram hverjir fóru með ráðuneyti þessara málaflokka þegar þeir voru settir undir kvótastýringakerfið og eru þar af leiðandi stærstu gerendurnir gagnvart þeirri þróun sem hefur orðið. Hér verður byrjað á landbúnaðinum.

 

Kvótafrömuðurnir í landbúnaðinum

 

Steingrímur Hermannsson, var landbúnaðarráðherra árin 1978-1979 í síðara ráðuneyti Ólafs Jóhannessonar (sjá hér). Árið 1978 mælti hann fyrir frumvarpi sem varð að lögum árið 1979 (sjá hér). Þar var í fyrsta skipti sett inn í íslenska löggjöf ákvæði til framleiðslustýringar með framleiðslutakmarkandi aðgerðum; svokallað búmark eða kvóti. 

 

Jón Helgason, var ráðherra landbúnaðarmála í fyrsta ráðuneyti Steingríms Hermannssonar á árunum 1983 til 1987 (sjá hér) og svo áfram í ráðuneyti Þorsteins Pálssonar 1987-1988 (sjá hér). Í lögunum nr. 46/1985 sem sett voru í ráðherratíð hans voru ýmsir stefnumarkandi þættir til framleiðslustýringar en stærsta og afdrifaríkasta breytingin var sú að með þeim varð landbúnaðarráðherra æðstráðandi í öllum málefnum landbúnaðarins (sjá hér).

 

Steingrímur J. Sigfússon, var landbúnaðarráðherra í öðru og þriðja ráðuneyti Steingríms Hermannssonar eða á árunum 1988-1991. Það var í ráðherratíð hans sem sjömannanefndin var skipuð fulltrúum aðila vinnumarkaðarins ásamt fulltrúum Stéttarsambands bænda og Landbúnaðarráðuneytisins. Búvörusamningurinn sem var undirritaður í mars 1991 markaði tímamót þar sem í honum var gengið enn lengra til kvótastýringar í landbúnaðinum auk þess sem útflutningsbætur á landbúnaðarafurðir voru felldar niður (sjá hér)

 

Halldór Blöndal, tók við embætti landbúnaðarráðherra í nýrri stjórn Davíðs Oddssonar vorið 1991 og gegndi því embætti til vorsins 1995 (sjá hér). Ári eftir að hann tók við embætti var mjólkurframleiðslan sett undir sama kvótastýringartækið og sauðfjárræktin hafði verið sett undir samkvæmt tillögum áðurnefndrar sjömannanefndar. Núgildandi lög um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvöru (99/1993) voru einnig að tillögum sjömannanefndarinnar sem starfaði undir forystu Steingríms J. Sigfússonar í Landbúnaðarráðuneytinu þó þær yrðu ekki að lögum fyrr en í embættistíð Halldórs Blöndals.

 

Hér að ofan hefur aðeins verið stiklað á allra helstu atriðum en þeim sem vilja kynna sér það enn frekar hvað liggur þessari samantekt til grundvallar skal bent á að ýtarlegri yfirferð er að finna í bloggfærslunni: Til kvótastýringar í landbúnaði. Þar kemur líka fram að einn þeirra sem hvað lengst hefur setið í landbúnaðarráðuneytinu er Guðni Ágústsson. Hann stýrði ráðuneytinu í alls átta ár eða á árunum 1999-2007 en þá var Davíð Oddsson forsætisráðherra (sjá hér).

 

Núgildandi búvörusamningar um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurðastarfsskilyrði sauðfjárræktar og starfsskilyrði mjólkurframleiðslu grundvallast á þeirri framleiðslustýringarleið sem Steingrímur Hermannsson, Jón Helgason, Steingrímur J. Sigfússon og Halldór Blöndal áttu þátt í að festa í sessi en samningarnir voru allir gerðir í ráðherratíð Guðna Ágústssonar í Landbúnaðarráðuneytinu.

 

Kvótafrömuðurnir í sjávarútveginum

 

Halldór Ásgrímsson, var sjávarútvegsráðherra á árunum 1983 til 1991 eða í öllum þremur ráðuneytum Steingríms Hermannssonar (sjá hér) og ráðuneyti Þorsteins Pálssonar. Þegar Steingrímur Hermannsson skipaði hann í fyrsta skipti yfir Sjávarútvegsráðuneytinu árið 1983 lagði hann honum kvótafrumvarpið til í veganesti. Þó hvorugur ríkisstjórnarflokkanna hefði haft það að stefnumáli „að taka upp kvótafyrirkomulag við stjórnun fiskveiða“ (sjá hér) beið Halldór ekki boðanna og lagði frumvarpið fram í desember sama ár og hann var skipaður. Tólf dögum síðar lá fyrir samþykki Alþingis á frumvarpinu og varð það að lögum í byrjun árs 1984 (sjá hér). 

 

Sex árum síðar lagði Halldór Ásgrímsson fram annað kvótafrumvarp undir lok embættisferils síns í Sjávarútvegsráðuneytinu. Þegar fyrsta frumvarpið var lagt fram var því m.a. ýtt áfram með fullyrðingum um að það væri aðeins til eins árs reynslu en yrði tekið til rækilegrar endurskoðunar í framhaldinu. Með seinna frumvarpinu var þó gegnið enn lengra í því að gera það löglegt sem einkum þótti koma illa út í því fyrra. Hér er átt við framseljanlegan kvóta og það að binda hann frekar við skip en byggðarlög (sjá lögin hér). Yfirlýst markmið fyrra frumvarpsins var m.a. að stemma stigu við ofveiði en og var því haldið til streitu í nýja frumvarpinu þó þetta markmið hefði fullkomlega mistekist fram að því.

 

Þorsteinn Pálsson, var sjávarútvegsráðherra á árunum 1991 til 1999 eða í tveimur fyrstu ráðuneytum Davíðs Oddssonar (sjá hér). Í lögum 83/1995 er framsal á kvóta gert endanlegt (sjá hér) og með lögum 75/1997 er heimilt að veðsetja afla (sjá hér).

 

Árni M. Mathiesen fór fyrir Sjávarútvegsráðuneytinu á árunum 1999 til 2005 eða í þriðja og fjórða ráðuneyti Davíðs Oddssonar (sjá hér) og ráðuneyti Halldórs Ásgrímssonar. Í hans ráðherratíð var kvótastýringin fest enn frekar í sessi með því að veiðar minni fiskiskipa (sjá hér) og fleiri fiskveiðitegunda (sjá hér) var sett undir sama handstýriverkfærið. Hér er átt við veiðar úr fiskveiðistofnum eins og: keilu, löngu, skötusel, kolmunna og veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum .

 

Miðað við það sem haft er eftir Árna M. Mathiesen í upphafi árs 1999 var hann einlægur aðdáandi kvótakerfisins þar sem hann segir að: „kvótakerfið á Íslandi [sé] eina fiskveiðistjórnunarkerfið við norðanvert Atlantshafið, sem [stendur] undir hagkerfi einnar þjóðar og stærsta og besta röksemdin fyrir því að Íslendingar [eigi] að byggja á núgildandi kerfi, [sé] árangurinn sem náðst hefur.“ (sjá hér)

 

Einar K. Guðfinnsson tók við Sjávarútvegsráðuneytinu á tíma Halldórs Ásgrímssonar í forsætisráðuneytinu. Hann fór með embættið í báðum ráðuneytum Geirs H. Haarde (sjá hér) og sat því yfir sjávarútvegsmálunum í fjögur ár eða frá 2005 til 2009. Á árunum 2007-2009 var hann líka yfir landbúnaðarmálunum eftir að ráðuneyti þessara málaflokka höfðu verið sameinuð árið 2007 (sjá hér). Núgildandi lög (116/2006) um stjórn fiskveiða voru lögð fram af honum.

 

Steingrímur J. Sigfússon var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í fyrsta ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur (sjá hér) og svo aftur frá 2012-2013 (sjá hér). Þrátt fyrir yfirlýsta stefnu beggja flokka, í síðustu ríkisstjórn, um rækilega endurskoðun og uppstokkun  á fiskveiðistjórnunarkerfinu um að „leggja grunn að innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda á 20 ára tímabili“ (sjá hér) varð árangurinn ekki annar en sá að festa kvótakerfið í sjávarútvegi enn frekar í sessi með því að „viðhalda forgangi þeirra sem fyrir eru í greininni“ eins og Jóhann Ársælsson fyrrum flokksbróðir ráðherrans orðaði það í grein sem hann skrifaði á eyjan.is í maí 2012 (sjá hér). Jóhann heldur áfram og segir:

Umræðan hefur ekki  snúist um grundvallarsjónarmiðin um það hvernig aðgangi að sameiginlegum gæðum skuli fyrir komið og það hvernig útgerðarmenn framtíðarinnar geti starfað á jafnræðisgrundvelli. Nei, hún hefur snúist um hve mikið eigi að láta útgerðina borga fyrir að fá að njóta forgangs [...]. Og samningaviðræður Steingríms J. við útgerðarmenn  eru farnar að fara fram í fjölmiðlum um hvað reikningurinn megi vera hár. Umræðan hefur  sannað að auðlindarentuleið Steingríms er handónýt. (sjá hér)

Gagnrýni á handstýringu matvælaframleiðslunnar 

Auðvitað voru þeir þó nokkrir sem gagnrýndu innleiðingu framleiðslustýringarinnar bæði í landbúnaði og sjávarútvegi. Í meginatriðum eru mörg atriðanna sem sett var út á varðandi búmarkið og aflamarkið mjög sambærileg. Þó vekur athygli hversu fáir þingmenn tóku raunverulega stöðu með málstað bænda í umræðunni um það að draga úr landbúnaðarframleiðslunni og fækka þar með bændum árið 1979 (sjá feril málsins hér hér).

Þetta er eflaust til marks um þá kúvendingu sem hafði orðið í samfélaginu þar sem bændur voru ekki lengur meðal þeirra stétta sem áttu sterk ítök á Alþingi enda þeir orðnir fáir meðal þingmanna sem áttu uppruna sinn í sveitum landsins. Frumvarp Steingríms Hermannssonar var þó gagnrýnt fyrir skort á bæði stefnumörkun og fyrirhyggju.

Réttir í Þistilfirði

Hún var aftur á móti töluvert líflegri andstaðan sem frumvarp Halldórs Ásgrímssonar um aflamarkið mætti fjórum árum síðar (sjá feril málsins hér). Það má einkum greina þrjú meginatriði í þeirri gagnrýni sem kom fram. Eitt þeirra var sami skortur og í frumvarpinu um búmarkið fjórum árum áður.

Stjórnarþingmaðurinn, Guðmundur H. Garðarsson, var einn þeirra sem varaði mjög við aflamarksfrumvarpinu og lýsti því yfir áður en kom að atkvæðagreiðslunni um það að hann gæti ekki samþykkt það. Rökin sem hann tilgreinir draga fram á skýran hátt helstu ástæður sem komu annars fram í málflutningi stjórnarandstöðunnar:

Þar sem ekki liggja fyrir nauðsynleg frumgögn né fastmótaðar hugmyndir um hugsanlega útfærslu veiða í fiskveiðilandhelgi Íslands samkv[æmt] framlögðu fr[um]v[arpi], 143. máli, þrátt fyrir miklar umr[æður] á Alþingi og eindregnar óskir margra h[átt]v[irtra] alþ[ingis]m[anna] þar um, og þar sem ekki liggur fyrir hvernig leysa skuli gífurleg óleyst rekstrarvandamál útgerðarinnar, sem munu verða enn meiri við kvótakerfi í veiðum, þá get ég ekki á þessu stigi veitt þessu fr[um]v[arpi] brautargengi og mun haga atkv[æði] mínu s[am]kv[æmt] því, (sjá hér)

Annað sem sætti harðri gagnrýni var tíminn sem kvótafrumvarpi Halldórs Ásgrímssonar var sniðinn. Þar var sett út á þann takmarkaða tíma sem umræðunum var ætlaður með síendurteknum næturfundum. Í því sambandi var ríkisstjórnin og þá einkum sjávarútvegsráðherra sökuð um að keyra málið fram af áður óþekktri hörku (sjá hér). Í þessu samhengi má minna á að þetta afdrifaríka frumvarp var ekki tekið til fyrstu umræðu í neðri deild fyrr en að áliðnu kvöldi. 

Ég held, herra forseti, að það sé ekkert dæmi í þingsögu síðari ára, og má þó fara langt aftur í tímann, þar sem hafin er umr[æða] svo síðla kvölds um jafnveigamikið stj[órnar]fr[um]v[arp] og síðan ætlast til þess að hún haldi áfram langt fram á morgun. Það er held ég megi fullyrða algerlega án nokkurs fordæmis í þingsögu. [...] Ég bið hæstv[irtan] ráðh[erra] að vera ekki að setja þ[ing]m[enn] í þær stellingar að þurfa að taka á þessu stórmáli með þessum hætti. Ef hæstv[irtur] ráðh[erra] gerir það vekur það óneitanlega grunsemdir um að það eigi að fara að þvinga þessa umr[æður] í gegn með óeðlilegum aðferðum. (sjá hér)

Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi þingmaður Alþýðubandalagsins, á þessi orð en hann átaldi ekki aðeins ítrekað þann þrönga tímaramma sem frumvarpinu var sniðinn heldur líka valdaframsalið sem það fól í sér og er það þriðja atriðið sem sætti harðri gagnrýni þeirra þingmanna sem settu út á frumvarpið.

Þess vegna er alveg ljóst að samkv[æmt] eðli þessa fr[um]v[arps] er verið að veita ríkisvaldinu mun meiri möguleika en það hefur haft nokkru sinni til að knýja fram breytingar á eigna- og rekstrarskipulagi í íslenskum sjávarútvegi. [...] aldrei fyrr hefur pólitískt vald fengið aðra eins viðspyrnu til þess að ráðskast með hagkerfi þjóðarinnar.

[...] þetta fr[um]v[arp] stefnir svo nærri ríkisdrottnun í sjávarútvegi [...] Ég sé ekki að stjórnunarvandi sjávarútvegsins nú sé með þeim hætti að Alþingi eigi að veita ráðh[erra] slíkt óskorað, ótakmarkað, óskilyrt vald sem hér er kveðið á um. [...] ég undrast nokkuð að einn ráðh[erra] skuli hafa áhuga á að fá slíkt vald, að einn maður skuli hafa áhuga á að fá vald sem leggur í lófa hans fjöregg flestra byggðarlaganna í kringum landið. Sá ráðh[erra] má vanda sig vel til þess að það egg falli ekki úr lófa hans og brotni með illum afleiðingum fyrir hvert byggðarlagið á fætur öðru. (sjá hér (leturbreytingar eru höfundar)

Fiskverkunarfólk

Alþýðuflokksþingmaðurinn, Guðmundur Einarsson, gagnrýndi frumvarpið harðlega. Í gagnrýni hans á frumvarpið bendir hann á að það sé viðbrögð til  „að aðlaga útgerð og fiskveiðar í landinu að vitleysum sem hafa verið gerðar á undanförnum árum.“ Hann leyfir sér hins vegar að efast um að yfirlýstur tilgangur þess náist frekar en með kvótalaginu í landbúnaðinum. 

Ef við lítum aðeins á aðra búgrein þar sem kvótakerfi var komið á, sem er landbúnaðurinn, þá virðist mér ljóst að kvótakerfi í landbúnaði leysti þar engan sérstakan vanda nema hluta af offramleiðsluvandanum. Það virðist ekki hafa leitt til lækkaðs framleiðslukostnaðar eða bættrar stöðu bændastéttarinnar. Það hefur ekki haft í för með sér þá hagræðingu. (sjá hér)

Búvörulögin sem voru innleidd árið 1985 festu það framleiðslustýringarkerfi sem kennt hefur verið við kvóta enn frekar í sessi. Við meðferð og afgreiðslu frumvarpsins á Alþingi var bent á ýmis  líkindi með aflamarksfrumvarpinu frá árinu 1983. Þar má nefna þann nauma tíma sem frumvarpinu var sniðinn en ekki liðu nema átta dagar frá því að frumvarpið kom til fyrstu umræðu í neðri deild Alþingis þar til það var samþykkt sem lög frá efri deild (sjá feril málsins hér).

Með lögunum var landbúnaðarráðherra fært sama vald yfir málefnum landbúnaðarins og aflamarksfrumvarpið hafði gefið sjávarútvegsráðherra í málefnum sjávarútvegsins tæpum tveimur árum áður. Á þetta var bent í þeirri gagnrýni sem kom fram á frumvarpið í umræðum um málið auk þess sem varað var við neikvæðum áhrifum framvarpsins á afkomu bænda og þróun byggðar í landinu.

Í meginatriðum voru þau atriði, sem tínd voru fram af gagnrýnendum frumvarpsins á Alþingi, mjög efnisskyld þeim sem höfðu komið fram í umræðunum um kvótakerfið í sjávarútveginum um einu og hálfu ári áður. Milliliðirnir, sem hafa frá því afurðasölulögin voru sett, í stjórnartíð Hermanns Jónassonar, blómstrað í þeim hlutverkum að fullvinna og miðla afurðum bænda til neytenda, fengu reyndar sinn skammt af gagnrýni líka (sjá hér).

Sláttur

Þegar rýnt er ofan í umræðuna um búvörulögin frá vorinu 1985 má gera ráð fyrir að það veki athygli hversu yfirgripslítil þekking þingmanna á málefnum landbúnaðarins eru ekki síður en sú fjarlægð sem er að finna í málflutningi þingmanna gagnvart kjörum bændastéttarinnar. Ragnar Arnalds, þingmaður Alþýðubandalagsins gerir reyndar heiðarlega tilraun til að draga saman einhverja mynd af þáverandi kjörum stéttarinnar og afleiðingum laganna á afkomu hennar:

[...] þegar haft er í huga í hvern vanda ríkisstj[órnin] hefur komið bændastéttinni [í] á þann hátt sem ég hef nú lýst og með vaxtastefnu sinni alveg sérstaklega, sem ekki á þarna minnsta sök þá sér maður ekki annað en að samþykkt þessa fr[um]v[arps] verði eitthvert mesta óhappaspor sem nokkurn tíma hefur verið stigið hér á landi gagnvart bændastéttinni og að það hljóti að leiða til gífurlegra þrenginga víða um land meðal bænda með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. (sjá hér

Það lifnaði hins vegar yfir umræðunni þegar kom að því að gera kvótakerfið að lögboðnu framleiðslustýringarkerfi við stjórn fiskveiða árið 1990 (sjá feril málsins hér). Gagnrýnin var að vonum nokkuð sambærileg því sem áður hafði komið fram en mesta athygli vakti hversu harðorður einn stjórnarþingmaður, Karvel Pálmason, var í garð frumvarpsins þar sem hann sagði m.a. að kvótakerfið væri: „helstefna gagnvart þeim landsvæðum sem fyrst og fremst byggja á sjávarútvegi og fiskvinnslu“ (sjá hér)

Guðmundur H. Garðarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem hafði verið svo mjög á móti frumvarpinu sex árum áður hafði algerlega snúist í afstöðu sinni til frumvarpsins en flokksbróðir hans, Þorvaldur Garðar Kristjánsson, var aftur á móti mjög gagnrýninn á kerfið. Hann hafði m.a. þetta út á framleiðslustýringarkerfið að setja:

Annmarkar kvótakerfisins færast meir og meir í aukana. Stöðugt verður augljósara að með kvótakerfinu næst ekki tilgangurinn með fiskveiðistefnu, hámarksafrakstur fiskveiða og verndun fiskstofnanna. Alltaf verður þungbærara að kvótakerfinu fylgir kostnaður langt umfram það sem þarf til þess að bera að landi það aflamagn sem kostur er á.

Af þessum ástæðum er ekki einungis sjómannshluturinn æ rýrari og útgerðin lakar sett en vera þarf. Þess vegna verður framleiðslukostnaður hráefnis til fiskvinnslunnar meiri en nauðsyn krefur. Af því leiðir að útflutningsframleiðslan kallar á sífellt lægra gengi krónunnar. Það leiðir hins vegar til hærra og hærra verðs á lífsviðurværi almennings. Þannig dregur kvótakerfið dilk á eftir sér. Það er þjóðin í heild sem verður að axla byrðarnar af kvótakerfinu í stöðugt lakari lífskjörum en vera þyrfti. (sjá hér (leturbreytingar eru höfundar)

Löndun

Það vakti athygli annarra þingmanna að Matthías Bjarnason, var ekki viðstaddur atkvæðagreiðslu frumvarpsins úr Efri deild og varð það til þess að ýmsir gáfu sér afstöðu hans í málinu. Hann tók tvisvar til máls við umræðurnar um frumvarpið. Þar tók hann það m.a. fram að honum þætti vanta að fiskvinnslustöðvum og verkafólki „og allir þeir sem eiga lífsafkomu sína undir þeim byggi á traustari atvinnugrundvelli“ (sjá hér). Afstaða hans til þeirrar framleiðslustýringar sem var innleidd með kvótakerfinu ætti ekki að dyljast neinum í þessum orðum:

Á sama tíma og frelsisalda fer um heiminn og öfl kúgunar sem hafa ráðið í fjölmörgum ríkjum eru að víkja úr vegi fyrir frelsi þá erum við að taka upp enn þá harðari skömmtun. Ég á ekki við það að hér sé verið að taka upp aðferðir við að kúga menn eða taka af þeim öll réttindi, eins og hefur verið hjá mörgum þessara þjóða, en hitt fer ekki á milli mála að það sem við höfum verið að fordæma á undanförnum árum, það sem við höfum verið að ganga út úr og stefna í frjálsræðisátt, frá því er nú verið að ganga með þessari miðstýringu allri í atvinnumálum þjóðarinnar, sérstaklega í sjávarútvegi og landbúnaði. (sjá hér)

Steingrímur J. Sigfússon var á þingi 1983 og 1985

Eins og kom fram í bloggfærslunni um Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið í þessu verkefni þá hefur Steingrímur J. Sigfússon setið inni á Alþingi frá vorinu 1983 en það var í desember það sama ár sem Halldór Ásgrímsson lagði fram frumvarp um nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi byggt á kvótaúthlutun. Steingrímur var í stjórnarandstöðu á þessum tíma ásamt Alþýðubandalaginu en Framsókn og Sjálfstæðisflokkur voru í stjórn (sjá hér).

 

Steingrímur J. var hins vegar ekki kominn inn á þing þegar Steingrímur Hermannsson lagði fram fyrsta frumvarpið til framleiðslustýringar í landbúnaðinum með aðferðum kvóta en hann var enn í stjórnarandstöðu þegar Jón Helgason lagði fram frumvarp til búvörulaga árið 1985.

 

Fiskvinnsla

Árið 1983 lagði Halldór Ásgrímsson fram það kvótafrumvarp sem átti að verða til reynslu í eitt ár. Það sem vekur athygli við umræðurnar um frumvarpið í neðri deild er að tvær breytingartillögur komu fram við það frá stjórnarandstöðunni. Hvorug þeirra fékk umfjöllun í sjávarútvegsnefndinni. Rökin voru þau að þær væru of seint fram komnar. Þegar kom til atkvæðagreiðslu um þær voru báðar felldar.

Fyrri breytingartillagan var frá Kjartani Jóhannssyni og voru meðflutningsmenn hans: Guðmundur Einarsson, flokksbróðir hans og Kristín Halldórsdóttir, þingmaður Kvennalistans. Önnur breytingartillagan var frá nýjum þingmanni Alþýðubandalagsins, Steingrími J. Sigfússyni og flokksbræðrum hans þeim Hjörleifi Guttormssyni (á þingi frá 1978 til 1999) og Geir Gunnarssyni (á þingi frá 1959 til 1991), en Steingrímur J. flutti.

Þriðja breytingartillagan við frumvarpið var gerð í efri deild og kom frá Skúla Alexanderssyni, flokksbróður Steingríms J., en meðflutningsmenn hans eru tveir þingmenn Alþýðuflokks og einn þingmaður Kvennalistans.

Í fljótu bragði er ekki að sjá allan mun á breytingartillögunum þremur og tæplega nokkuð sem stangast á. Það sem greinir tillögu Steingríms J. einkum frá hinum tveimur er að þar er lagt til að ráherra „skipi nefnd til að fjalla um framkvæmd fiskveiðistefnu“ sem er skipuð fulltrúum „fiskverkenda, útgerðarmanna, sjómanna og verkafólks í fiskvinnslu samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.“ (sjá hér)

Í grundvallaratriðum snerust breytingartillögurnar þrjár um að draga úr því alræði sem sjávarútvegsráðherra var gefið í fiskveiðistjórnunarmálum þjóðarinnar samkvæmt frumvarpi Halldórs Ásgrímssonar og setja kvótafyrirkomulaginu sjálfu skýrari lagaramma. Þetta voru líka þau meginatriði sem stjórnarandstaðan setti fram í gagnrýni sinni á frumvarpið. Afstaða þingmanna til frumvarpsins réðist reyndar ekki eingöngu af því hvar þeir stóðu í flokki heldur spiluðu aðrir þættir greinilega inn í.

Þannig var Alþýðubandalagsmaðurinn, Garðar Sigurðsson, einn af áköfustu málsvörum framvarpsins (sjá t.d. hér) en Sjálfstæðismaðurinn Guðmundur H. Garðarsson var hins vegar mjög mótfallinn því og þá einkanlega því alræðisvaldi sem sjávarútvegsráðherra var ætlað að hafa yfir málefnum sjávarútvegsins (sjá hér)

Fiskverkafólk á Raufarhöfn

Á öðrum degi fyrstu umræðu sem fram fór þ. 14. desember 1983 vekur Steingrímur athygli á valdatilfærslunni og gagnrýnir eins og fleiri höfðu gert á undan honum:

Alþingi er ekki með umr[æðum] um þetta fr[um]v[arp] að taka afstöðu til fiskveiðistefnu á Íslandi, heldur er hér farið fram á að ráðh[erra] verði falið mjög víðtækt vald til að móta stefnuna og nær undantekningarlaust vald í ljósi þeirra aðstæðna sem nú ríkja í fiskveiðum á Íslandi.  [...]

Það er mín persónulega skoðun að það sé Alþingis fyrst og fremst að móta heildarstefnu í auðlindanýtingu þjóðarinnar. Ég lít á auðlindirnar sem sameign íslensku þjóðarinnar og þá er ekki annar aðili betur til þess fallinn en Alþingi sjálft að fjalla þar um. Þess vegna finnst mér það alvarlegt skref ef Alþingi segir nú við hæstv[irtan] ráðh[erra]: Gjörðu svo vel, hér eru sjávarútvegsmál, hér er mikilvægasta auðlind íslensku þjóðarinnar, fiskveiðin, gjörðu svo vel, herra ráðherra. Það væru mikil tíðindi ef slíkt væri samþykkt á Alþingi Íslendinga. (sjá hér)

Við aðra umræðu í neðri deild mælir Steingrímur J. fyrir breytingartillögunni (sjá hér) sem áður hefur verið vísað til. Hann kom svo upp aftur við framhald hennar sama dag þar sem hann gerir tilraun til að útskýra í hverju munurinn á breytingartillögunum liggur auk þess að ítreka spurningar sínar sem hann hefur lagt fyrir þáverandi sjávarútvegsráðherra. Spurningarnar eru í tíu liðum og „vörðuðu að mestu leyti framkvæmdaatriði“ (sjá hér) þeirrar fiskveiðistefnu sem frumvarp Halldórs Ásgrímssonar gerði ráð fyrir að farin yrði  

Daginn eftir, eða 17. desember, var frumvarpið komið til þriðju umræðu í neðri deild og afgreitt þaðan sama dag. Steingrímur J. kom upp í ræðustól Alþingis og ítrekaði margt það sem hann hafði sagt áður. Þar segir hann m.a. um aflakvótann:

Ég hefði talið það eðlilegast og raunar alveg nauðsynlegt að aflakvóti yrði á einhvern hátt bundinn við löndunarstað eða atvinnusvæði, þannig að ekki gæti á tiltölulega skömmum tíma raskast verulega atvinnuástand og umsvif á einum stað vegna mikils flutnings á aflakvóta til eða frá staðnum. Væri óæskilegt og mjög hættulegt ef unnt væri að gera slíkt í krafti peningavalds. Þess vegna er það mín eindregin skoðun að varast beri slíkar hugmyndir. (sjá hér)

Kýr í haga

Þegar Jón Helgason lagði fram frumvarp að búvörulögunum einu og hálfu ári síðar var Steingrímur J. Sigfússon einn þeirra sem gagnrýndu frumvarpið þó hann gengi ekki jafnlangt og tveir þingmenn Alþýðuflokksins sem mæltust til þess að frumvarpinu væri hreinlega vísað frá (sjá hér). Í máli Steingríms J. er ekki að sjá að hann sé í sjálfu sér mótfallinn miðstýringu á landbúnaðarframleiðslunni en hann gagnrýnir að valdið yfir málaflokknum skuli allt eiga að vera í höndum landbúnaðarráðherra.

Valdið færist til landb[únaðar]r[áð]h[erra] frá öðrum aðilum. Þetta er ákaflega sérkennileg árátta hæstv[irts] ráðh[erra] í þessari ríkisstj[órn] og hér hefur hæstv[irtur] landb[únaðar]r[áð]h[erra] fetað dyggilega í spor flokksbróður síns, hæstv[irts] sj[ávar]útv[egs]r[áð]h[erra], sem eins og kunnugt er hefur róið að því öllum árum undanfarin tvö ár að ná til sín sem allra mestu einræðisvaldi í sjávarútvegi á Íslandi, dyggilega studdur af einkaframtaksmönnum Sjálfst[æðis]fl[okksins]. Hér er sem sagt uppi á teningnum það sama í landbúnaðarmálunum og er nokkuð merkilegt. (sjá hér)

Í þessari sömu ræðu lýsir hann líka yfir áhyggjum af því hvaða áhrif tilfærsla á útflutningsbótum til bænda muni hafa á byggðaþróun í landinu.

Eitt aðalatriðið í þessu fr[um]v[arpi] varðar framleiðslustjórnunina og þá ákvörðun að draga úr útflutningsuppbótum á landbúnaðarvörum. Að vísu á að verja þeim, eins og ég áður sagði, að hluta til í annað en á heildina litið verður mikill samdráttur í útflutningsbótum. Sá samdráttur kemur að sjálfsögðu, eins og fróðir menn vita, til viðbótar þeim mikla framleiðslusamdrætti sem þegar er orðinn. [...] Ég held að það sé á engan hátt séð fyrir endann á þeim afleiðingum sem það mun hafa fyrir búsetuna í landinu og fyrir íslenskan landbúnað. (sjá hér)

Í ræðum sínum gagnrýnir hann líka tímann og málatilbúnað allan þar sem hann bendir á að þingmenn og aðrir sem málið varðar hafi fengið lítinn tíma til að kynna sér frumvarpið. Hann margítrekar þann vilja sinn að skipuð verði „vinnunefnd allra flokka“ til að fara yfir frumvarpið „í samráði við bændur og aðra hagsmunaaðila“ og vinna það á því sumri sem er framundan (sjá t.d. hér)

Við aðra umræðu var mælt fyrir þremur nefndarálitum landbúnaðarnefndar þar sem hún reyndist þríklofin í afstöðu sinni til frumvarpsins. Steingrímur J. Sigfússon mælti fyrir allýtarlegu séráliti þar sem hann endurtók margt af því sem hann hafði látið koma fram við fyrstu umræðu um frumvarpið og las upp athugasemdir ýmissa umsagnaraðila. Áður en kom að álitinu sjálfu benti hann á eftirfarandi:

Mér finnst í þessu fr[um]v[arp] ekki fara mikið fyrir því að h[æst]v[irtur] stjórnarmeirihluti hafi peningavit. Það er nokkuð einkennilegt þegar þjóðin á allar þessar stofnanir og alla þessa sérfræðinga [...] að ekki skuli reynt að líta til þess hvaða fjárhagslegar stærðir eru á ferðinni, það skuli einstakir n[efndar]m[enn] þurfa að toga það upp úr mönnum utan úr bæ hve margra hundraða milljóna útgjaldaauka sé verið að tala um hér [...]

það er nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því að við búum við ákveðnar staðreyndir sem þýðir ekkert að horfa fram hjá. Það er þá spurningin hvernig best verður unnið úr þeirri stöðu sem fyrir liggur. [...] Það mun koma víðar við en í sveitunum og það mun sýna sig að víðar hefur verið fjárfest í tengslum við ákveðna framleiðslu og ákveðið munstur en bara í sveitunum. Skyldu ekki jafnvel hér á Reykjavíkursvæðinu sjást þess merki að landbúnaðurinn hefur staðið undir mikilli fjárfestingu og að byggst hefur upp utan um þá framleiðslu mikil þjónusta og mikil fjárfesting?[...]

Eins og ég áður sagði finnst mér ekki tekið tillit til þeirra raunverulegu aðstæðna sem við er að búa víða í sveitum þegar menn starfa að lagasmíð um átak í nýjum búgreinum og samdrátt í framleiðslunni. Það hefði einnig verið gaman ef stjórnarmeirihlutinn hefði haft meira vit á íslenskum iðnaði og hefði gert sér grein fyrir því að ein blómlegasta grein íslensks iðnaðar byggir á hráefnum frá landbúnaðinum. [...]

Það er ákaflega merkileg stund þegar Frams[óknar]fl[okkurinn] leggur það til, herra forseti, að fara að draga úr og næstum því falla frá útflutningsuppbótum á landbúnaðarafurðir. Ég er ekki að segja að það hefði verið hægt að búa þar við óbreytt ástand, en ég hefði reynt að hafa þennan stiga ekki svona brattan. [...] (sjá hér)

Kjötborð

Nafn Steingríms J. Sigfússonar kemur ekki frekar við sögu í umræðunni um þetta mál nema til að svara túlkun Halldórs Blöndal á málflutningi hans (sjá hér) og gera athugasemdir við orðalag einstakra greina sem bornar voru undir atkvæðagreiðslu (sjá t.d. hér). Frumvarpið var að lokum afgreitt út úr neðri deild með 20 atkvæðum á móti þremur.

Átta dögum eftir að frumvarpið til laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum var tekið til fyrstu umræðu í neðri deild var það afgreitt sem lög út úr neðri deild með 10 atkvæðum gegn sjö. Þó hér hafi verið horft til þeirra athugasemda sem Steingrímur J. Sigfússon gerði við innihald frumvarpsins og til sambærilegs framleiðslustýringarfrumvarps sem snertir sjávarútvegsins verður botninn sleginn í þetta með að vitna til ræðu flokksbróður Steingríms, Skúla Alexanderssonar, þar sem hann hefur eftir orðum Guðmundar P. Valgeirssonar, bónda í Bæ á Ströndum, í grein sem hann skrifaði um frumvarpið:

„Mér sýnist að með þessu fr[um]v(arpi], eins og það er, þá sé ekki einungis verið að staðfesta þann dóm Jónasar Kristjánssonar að bændur séu annars flokks fólk og skuli meðhöndlast skv. því mati, heldur engu að síður hitt: Að bændur séu dauðadæmd hjörð á „blóðvelli þjóðfélagsins“ og þeim hafi verið kveðinn upp sá dómur að leggja snöruna að eigin hálsi.“ (sjá hér)

Með þessari tilvitnun er ekki einungis minnt á hver afstaða margra bænda var til frumvarpsins sem varð að lögum heldur það líka að nú nær 30 árum síðar búum við ekki aðeins enn þá við þessi sömu lög heldur er útlit fyrir að margt annað hafi sest fast. Þar má vísa til þess að Steingrímur J. Sigfússon situr enn á þingi og Jónas Kristjánsson situr enn að viðhorfsmótandi skrifum um ýmis mál sem varða heill samfélagsins.  

Gagnrýni Steingríms J. Sigfússonar háð vindhraða

 

Steingrímur J. Sigfússon var landbúnaðar- og samgönguráðherra í þeirri ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar sem stóð að innleiðingu núgildandi laga um stjórn fiskveiða (sjá hér). Sú staðreynd veldur e.t.v. mestu um að Steingrímur J. tekur aldrei til máls undir umræðunum um frumvarpið (sjá hér). Það má svo minna á að á meðan hann sat í Landbúnaðarráðuneytinu undirritaði hann búvörusamning sem hafði stefnumarkandi áhrif varðandi kvótastýringu í sauðfjárrækt ásamt því að með honum voru útflutningsbætur til stuðnings landbúnaðinum felldar niður (sjá hér).

Það er snúnara að rekja þátt Steingríms J. Sigfússonar í umræðum um búvörufrumvarpið sem var að lögum nr. 99/1993 einfaldlega vegna þess að frumvarpið sem er sagt að hafi orðið að lögum 8. september það sama ár virðist hafa verið endurupptekið í desember 1993. Ef rétt er skilið þá hafa frumvörp um endurskoðun laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum verið lögð fram þrisvar sinnum á árinu 1993 (sjá hér og hér). Fyrst 30. mars (sjá hér), þá 1. apríl (sjá hér) og síðast 16. desember 1993 (sjá hér).

Meginbreytingin á þeim hefur þó verið gerð með frumvarpi sem var lagt fram í desember 1992 (sjá hér). Skýringin á því að Steingrímur J. tekur aldrei til máls í umræðunni um frumvarpið er væntanlega sú að breytingarnar röktu uppruna sinn til búvörusamningsins sem hann tók þátt í að undirrita í mars 1991 og tillagna sjömannanefndarinnar sem var skipuð í ráðherratíð hans í Landbúnaðarráðuneytinu (sjá hér) enda er hann einn þeirra sem samþykkja frumvarpið (sjá hér). Með lögunum varð tillaga aðila vinnumarkaðarins, Bændasamtakanna og fulltrúa Landbúnaðarráðuneytisins  um að sauðfjár- og mjólkurkvótinn yrðu framseljanlegur að lögum.

Breytingarnar sem lagðar voru fram í frumvarpi 30. mars 1993 fjallaði hins vegar  „um aðild Íslands að samningi um Evrópska efnahagssvæðið“ (sjá hér). Steingrímur J. tekur þrisvar sinnum til máls við aðra umræðu þess (sjá hér) og er ekki að sjá af málflutningi hans annað en honum þyki meira um vert að málið gangi sem hraðast í gegnum þingið en halda uppi málstað bænda. þó tekur hann fram að:

„Margt mætti segja um þátt landbúnaðarins í þessari blessaðri samningagerð og grautargerð allri sem tengist evrópsku efnahagssvæði [...] Enginn vafi er á því að einhver hluti fórnarkostnaðarins og verulegur hluti fórnarkostnaðarins af þessari samningagerð sem að okkur Íslendingum snýr er greiddur af landbúnaði. Um það deilir enginn. Oftar en einu sinni má segja, því miður, að hagsmunir landbúnaðarins hafa verið seldir fyrir ímyndaða eða e.t.v. að einhverju leyti raunverulega ávinninga annars staðar. (Sjá hér)

Þegar endanlega er gengið frá lögunum í desember 1993 tekur Steingrímur J. Sigfússon aðeins til máls við fyrstu umræðu málsins þar sem hann vill undirstrika það að öll mál sem snúa að búvörum heyri áfram undir forræði landbúnaðarráðherra: „Ég minni á að samkvæmt búvörulögum hefur landb[únaðar]r[áðu]n[eytið] farið með forræði hvað varðar ákvarðanir um innflutning búvara, alls þess sem telst búvara í skilningi búvörulaga, og að mínu mati er það sjálfgefið mál að svoleiðis á það að vera áfram.“ (sjá hér)

 

Fiskborð

 

Það sama á við um núgildandi lög um stjórn fiskveiða frá 2006 eða lög 116/2006 sem eru sögð hafa orðið að lögum 10. ágúst það ár. Breytingar á lögunum hafa verið lagðar fram í nokkrum áföngum árið 2006. Mikilvægust er þó umræðan frá 6. febrúar (sjá hér) en þar hefur Steingrímur aldrei tekið til máls og situr hjá við atkvæðagreiðslu um frumvarpið (sjá hér).

Sumir hafa haldið því fram að með lögunum 2006 hafi verið gengið lengst í því einkavæðingarferli sem haldið er fram að hafi verið innleitt með kvótanum. Í því sambandi er eftirtektarvert það sem fyrrum flokksbróðir Steingríms J., Jóhann Ársælsson, segir undir lok umræðunnar:

„Ég tel að hér sé á ferðinni afar undarleg ráðstöfun sem í ljósi allrar umræðu um fiskveiðimál og rétt manna til veiða hafi á sér ótrúlegan brag. Nú er ákveðið að menn þurfi ekki að hafa þau rök fyrir því að setja aflatakmarkanir að stjórna þurfi veiðum heldur er brugðið á það ráð að menn þurfi að fá að viðhalda aflarétti sínum þótt þeir veiði ekki. Þetta er mjög undarleg kúvending frá þeim rökum sem lágu til grundvallar á sínum tíma og notuð hafa verið í umræðunni allan tímann, þ.e. að þeir sem stundað hafa veiðar hafi veiðiréttinn og út á hann eigi þeir að fá einkarétt til að veiða úr viðkomandi stofni.

En þegar ekki liggur fyrir að takmarka þurfi veiðarnar skal veiðiréttinum samt sem áður viðhaldið og öðrum sem hefðu hugsanlega áhuga á að nýta sér veiðiréttinn ekki hleypt að, þótt hinir sem veiðiréttinn hafa nýti ekki veiðirétt sinn.

Þetta er hluti af einkavæðingarbröltinu í kringum fiskveiðar á Íslandi þar sem menn hafa með undarlegum hætti, án þess að segja það nokkurn tíma upphátt í ræðustól Alþingis, reynt að koma á fyrirkomulagi sem jafna mætti til einkavæðingar fiskimiðanna, sameignar þjóðarinnar. (sjá hér)

Það er svo e.t.v. rétt að minna á að hér er á ferðinni sami Jóhann Ársælsson sem gagnrýndi fyrrverandi ríkisstjórn fyrir að standa ekki við kosningaloforð sín um jafnræði til nýtingar á sameiginlegri þjóðareign heldur viðhalda forréttindum þerra sem eru fyrir í útgerð (sjá hér). Það má líka draga það fram hér að árið 1993 var Jóhann Ársælsson fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu sem kom frá Alþýðubandalaginu þess efnis að sjávarútvegsnefnd Alþingis yrði falið að endurskoða lög um stjórn fiskveiða og móta heildstæða sjávarútvegsstefnu. Tillögunni var vísað frá en í umræðu um hana benti Jóhann Ársælsson á:

„[...] að kostnaður vegna kvótakaupa hefði í sumum tilfellum verið dreginn frá skiptaverði til sjómanna og kvótalitlar útgerðir væru látnar fiska fyrir kvótaeigendur, sem sætu í landi og græddu peninga. "Sjómenn og kvótalitlar útgerðir eiga að borga auðlindaskattinn fyrir sægreifana," sagði Jóhann. Hann sagði að ekki væri hægt að koma upp nýrri útgerð vegna hins mikla kostnaðar við kvótakaup og því yrðu t.d. bæjarsjóðir að koma til skjalanna.

"Tími sægreifa, stórfyrirtækja og bæjarútgerða er að renna upp," sagði hann. "Endurskoðun fiskveiðistefnunnar, sem ekki tekur á verstu göllum kvótakerfisins, sem eru byggðaröskun, kjaraskerðing sjómanna og fiskverkafólks og óeðlilegir viðskiptahættir, er engin endurskoðun.
" (sjá hér)

Kaldar kveðjur

Árið 1994 setti ríkisstjórn Davíðs Oddssonar bráðabirgðalög á allsherjarverkfall sjómanna. Verkfallið hófst 1. janúar en lögin voru sett á 14. þess sama mánaðar. Þorsteinn Pálsson var þá sjávarútvegsráðherra. Næstu árin voru inngrip stjórnvalda í kjaradeildur sjómanna tíðari en nokkru sinni fyrr. Árið 2001 setti ríkisstjórn Davíðs Oddssonar enn eitt lögbannið á verkfall sjómanna en þá var Árni Mathiesen yfir Sjávarútvegsráðuneytinu. Í aðdraganda þess sendi Alþýðusamband Íslands frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

„Alþýðusamband Íslands minnir á að sjómannadeilan er orðin 10 ára. Það var árið 1991 sem fyrst fór að bera á því fyrir alvöru að sjómenn væru látnir taka þátt í kvótakaupum útgerðar með einhliða ákvörðunum skiptaverðs. Þar sem um er að ræða ákvarðanir um kjör sjómanna hefur þetta atriði verið kjarninn í öllum kjaradeilum útgerðarmanna og sjómanna í 10 ár og er enn.

Stjórnvöld hafa viðurkennt þennan alvarlega vanda og ítrekað sett lög sem eiga að leysa þetta viðkvæma deilumál, en án raunverulegs árangurs. Lagasetningar stjórnvalda hafa iðulega verið inngrip í yfirstandandi kjaradeilur svo raunveruleg lausn hefur ekki fengist fram með frjálsum samningum hagsmunaaðila. (sjá hér)

Í umræðum um setningu bráðabirgðalaganna á verkföll sjómanna kom til nokkurs orðaskaks á þingi þar sem þingmenn Alþýðubandalags, Frjálslynda flokksins og Samfylkingar fordæmdu lagasetninguna og málsmeðferð alla. Árni Mathiesen vísaði til þess að hér væri verið að „verja þjóðarheill“ á meðan þeir sem mótmæltu vildu meina að hér væri verið að brjóta á samningsrétti sjómannastéttarinnar:

„Steingrímur J. Sigfússon sagði ekki um að ræða lög heldur ólög og lýsti hann allri ábyrgð á hendur ríkisstjórninni og stjórnarmeirihlutanum. Sagði hann að um væri að ræða mannréttindabrot og valdníðslu og sérstaklega væri gagnrýnivert að þeir sem ekki væru aðilar að deilunni skuli samt sviptir grundvallarmannréttindum og stjórnarskrárbundnum réttindum. Slíkt væri mikil óhæfa. (sjá hér

Vanar fiskverkunarkonur

Í fyrra ráðuneyti Geirs H. Haarde var lögum 73/1969 breytt þannig að Sjávarútvegsráðuneytið og Landbúnaðarráðuneytið var sameinað (sjá hér). Tóku lögin gildi frá og með 1. janúar 2008. Guðni Ágústsson var því síðasti landbúnaðarráðherrann en Einar K. Guðfinnsson sem hafði verið sjávarútvegsráðherra var fyrsti ráðherrann í sameinuðu ráðuneyti. Þessu embætti gegndi hann til ársins 2009 (sjá hér)

Jón Bjarnason varð hins vegar nýr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í seinna ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttir. Árið 2009 skipaði hann nefnd í þeim tilgangi að endurskoða lögin um fiskveiðistjórnunarkerfið. Ástæða þess var vilji beggja ríkisstjórnarflokkanna til að

,,leggja grunn að innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda á 20 ára tímabili í samræmi við stefnu beggja flokka” og skapa þannig sátt í samfélaginu um nýtingu og eignarhald auðlindarinnar. Nefndin átti auk þess að endurskoða fiskveiðistjórnunarkerfið í því skyni að stuðla að vernd fiskistofna við Íslandsstrendur og hagkvæmri nýtingu auðlindarinnar, efla byggð á landinu og treysta atvinnu. (sjá hér)

Á meðan á vinnu nefndarinnar stóð lagði Jón Bjarnason fram frumvörp um stjórn fiskveiða sem styggðu nefndarmenn. Hér er einkum átt við skötuselsfrumvarpið svokallaða (sjá hér). Sumarið 2009 lagði Jón Bjarnason fram frumvarp til breytinga á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum frá árinu 1993. Frumvarpið gufaði upp í annarri umræðu (sjá hér). Um svipað leyti lagði hann fram frumvarp um strandveiðar sem var samþykkt (sjá hér).

Í lok árs 2011 var Jóni Bjarnasyni vikið úr Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu en Steingrímur J. Sigfússon tók við sæti hans. Heitinu var breytt með sameiningu fleiri ráðuneyta í september 2012 í Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Breytingin á embættisheitinu gekk í gildi í byrjun september fyrir ári síðan en þá hafði Steingrímur setið yfir Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu frá því á gamlársdag 2011. Við breytinguna var ráðuneytið sameinað viðskipta- og iðnaðarráðuneytinu. 

Það er hæpið að halda því fram að Steingrímur hafi verið farsælli í starfi sem Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra en forveri hans, Jón Bjarnason. Sem fjármálaráðherra hafði hann stuðlað að kjaraskerðingu sjómannastéttarinnar með afnámi sjómannaafsláttarins og sem nýskipaður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kynnti hann nýjan tekjulið ríkissjóðs sem innheimtur yrði með sérstöku veiðigjaldi á þær útgerðir sem lönduðu aflanum (sjá hér)

Sigurður Ingi Kristjánsson er eini ráðherrann í núverandi ríkisstjórn sem fer með stjórnarmálefni tveggja ráðuneyta miðað við þennan sáttmála hér. Auk sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins fer hann líka með málefni umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Það ráðuneyti verður til umfjöllunar í næstu færslu en hér verður skoðað hvort og hvernig menntun og starfsreynsla Sigurðar Inga og Steingríms J. standa með því að þeir hafa verið skipaðir æðstráðendur þess ráðuneytis sem fer með undirstöðuatvinnugreinarnar tvær, þ.e: landbúnaðinn og fiskveiðarnar.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherrar

Eins og áður hefur komið fram er Steingrímur fæddur 1955. Hann tók sæti á þingi 28 ára gamall og hefur setið þar nú í rétt rúma þrjá áratugi. Hann varð fyrst landbúnaðarráðherra eftir fimm ára setu á Alþingi,  þá 33 ára, og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í síðustu ríkisstjórn. Jón Bjarnason gegndi því fyrst en var leystur frá því embætti 31. desember 2011. 1. september 2012 var embættisheitinu breytt í atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra með því að eftirtaldir málaflokkar voru felldir saman í einn: landbúnaður, sjávarútvegur, iðnaður og viðskipti.

Sigurður Ingi er fæddur 1962 og var því 51 árs þegar hann tók við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu síðastliðið vor. Hann kom fyrst inn á þing árið 2009 og hefur því setið á þingi í eitt kjörtímabil og hálfu ári betur. Þetta er hans fyrsta ráðherraembætti.

Menntun og starfsreynsla:
Steingrímur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 21s árs og BS-prófi í jarðfræði frá Háskóla Íslands fimm árum síðar. Árið eftir, eða þegar hann var 27 ára, lauk hann uppeldis- og kennslufræði til kennsluréttinda frá sama skóla.

Meðfram háskólanáminu keyrði hann vörubíla á sumrin en eftir útskriftina þaðan vann hann í eitt ár við jarðfræðistörf jafnframt því sem hann var íþróttafréttamaður hjá Sjónvarpinu. Árið eftir var hann kosinn inn á þing fyrir Alþýðubandalagið, þá 28 ára

Sigurður Ingi  varð stúdent frá Menntaskólanum á Laugarvatni tvítugur. Hann er með
embættispróf í dýralækningum frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn. Hann fékk almennt dýralæknaleyfi í Danmörku 27 ára gamall og ári eldri á Íslandi.

Samkvæmt alþingisvefnum hefur hann stundað landbúnaðarstörf samhliða námi frá 1970 til ársins 1984. Eftir stúdentsprófið, árið 1982, vann hann líka í eitt ár við afgreiðslu- og verkamannastörf hjá Mjólkursamsölunni í Reykjavík.

Eftir að hann sneri heim frá dýralæknanáminu var hann bóndi í Dalbæ í Hrunamannahreppi í sjö ár eða frá 1987 til 1994. Frá árinu 1990 var hann sjálfstætt starfandi dýralæknir í uppsveitum Árnessýslu í fimm ár. Á árunum 1992 til 1994 var hann auk þess héraðsdýralæknir í Hreppa- og Laugarásumdæmi og um skeið í Vestur-Barðastrandarumdæmi. Frá árinu 1996 var hann dýralæknir hjá Dýralæknaþjónustu Suðurlands ehf. í 13 ár. Sjö síðustu árin áður en hann var kosinn inn á þing var hann  líka oddviti Hrunamannahrepps. Hann kosinn inn á þing fyrir Framsóknarflokkinn 47 ára.

Stjórnmálatengd störf og nefndarsetur:
Miðað við ferilskrá Steingríms liggja hans fyrstu pólitísku skref í nemendapólitíkinni í menntaskóla og svo áfram í háskólapólitíkinni í Háskólanum þar sem hann átti sæti í stúdentaráði á árunum 1978-1980. Frá því að hann var kjörinn inn á þing fyrir þremur áratugum hefur Steingrímur átt sæti í ellefu stjórnum, ráðum og nefndum utan Alþingis. Flestum ábyrgðarstöðunum af þessu tagi gegndi hann árin 1999 og 2000. Það sem vekur sérstaka athygli í þessum hluta ferilskrár hans er hve mörg þessara verkefna tengjast setum á samráðsþingum ráðamanna utan landssteinanna.

Steingrímur var varaformaður Alþýðubandalagsins um sex ára skeið eða frá árinu 1989 til ársins 1995. Fjórum árum síðar var hann kjörinn formaður Vinstri hreyfingarinnar- græns framboðs við stofnun flokksins í febrúar 1999. Steingrímur gegndi þessu embætti fram til síðasta landsfundar VG sem var í febrúar árið 2013. Þegar hann lét formannsembættið eftir hafði hann stýrt flokknum í fjórtán ár.

Sigurður Ingi gerðist virkur í sínu nærumhverfi eftir að hann sneri heim úr námi og tók þátt í stjórnun íþróttafélaga og sóknarnefnda á árunum milli þrítugs og fertugs. Þegar hann var 32ja ára var hann kjörinn í sveitarstjórn Hrunamannahrepps þar sem hann sat í 16 ár. Hann var varaoddviti í sveitarstjórninni á árunum 1994 til 1998 en síðar oddviti frá 2002 til 2009.

Frá því að Sigurður Ingi tók að snúa sér að félagsstörfum hefur hann verið virkur í félagsskap dýralækna. Þannig var hann í stjórn Dýralæknafélags Íslands á árunum 1994 til 1996 og í framhaldinu formaður stjórnar Dýralæknaþjónustu Suðurlands ehf. eða frá 1996 til 2011. Á þeim tíma átti hann sæti í  ráðherraskipaðri nefnd sem vann að breytingum á dýralæknalögum eða á árunum 1996 til 1998.

Þegar Sigurður Ingi var fast að fertugu var hann kosinn ritari stjórnar Framsóknarfélags Árnessýslu. Næsta áratug á eftir hefur hann verið áberandi virkur í ýmsum stjórnum og nefndum sem fara með hin fjölbreyttustu mál átthaganna; Árnessýslu og Suðurlands. 

Frá því að Sigurður Ingi hóf afskipti af nærumhverfi sínu og öðrum samfélagsmálum hefur hann átt sæti í tuttugu stjórnum og nefndum utan þings. Flest slík sæti átti hann á árunum 2002 til 2009 eða átta til tíu að meðaltali. Hann var kosinn varaformaður Framsóknarflokksins árið 2013.

Þingstörf og nefndarsetur á vegum þess:
Steingrímur hefur setið ósliðið á þingi frá árinu 1983 eða frá 28 ára aldri til dagsins í dag. Hann hefur því setið á þingi í rétt rúm 30 ár. Þennan tíma hefur hann starfað undir alls þremur þingflokkum. Fyrst þingflokki Alþýðubandalagsins (1983-1998), þá Óháðum (1998-1999) og svo Vinstri grænum undanfarin 14 ár. Upphaflega kom Steingrímur inn á þing sem alþingismaður Norðurlands en eftir breytingar á kjördæmaskiptingunni (sjá
hér) hefur hann verið  þingmaður Norðausturkjördæmis eða frá árinu 2003. 

Þegar litið er til setu Steingríms í þingnefndum kemur í ljós að hann sat í efnahags- og viðskiptanefnd á árunum 1991 til 1999, eða í átta ár, sem má gera ráð fyrir að hafi aflað honum einhverrar þekkingar- og reynslu af málflokknum sem hann stýrði sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra í síðustu ríkisstjórn. Á sama tíma átti hann sæti sjávarútvegsnefnd eða frá 1991 til 1998. Hann var formaður hennar frá 1995 til 1998.

Sigurður Ingi kom nýr inn á þing eftir alþingiskosningarnar vorið 2009 þá 47 ára. Hann hefur því setið inni á þingi í tæp 5 ár. Hann er þingmaður Suðurlands fyrir Framsóknarflokkinn.

Þegar litið er yfir setu Sigurðar Inga í þingnefndum þá átti hann sæti á árunum 2009 til 2011 í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og atvinnuveganefnd á árunum 2011 til 2013.

Ráðherraembætti:
Steingrímur var 33 ára þegar hann var skipaður ráðherra í fyrsta skipti. Þá var hann skipaður landbúnaðarráðherra í öðru ráðuneyti
Steingríms Hermannssonar (sjá hér). Átta árum síðar, með stjórnarsamstarfi Samfylkingar og Vinstri grænna, var hann lengst fjármálaráðherra en auk þess gegndi hann fjórum öðrum embættum í mislangan tíma. Síðast embætti atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra sem var nýtt heiti en með því voru málefni landbúnaðarins, sjávarútvegsins, iðnaðarins og viðskiptanna felld undir eitt ráðuneyti. Steingrímur var 56 ára þegar hann tók við ráðherraembætti sjávarútvegsins og landbúnaðarins. Það er rétt að taka það fram að hann hafði gegnt þessu sama embætti í fyrra ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur árið 2009
(sjá nánar hér).

Sigurður Ingi hefur ekki verið ráðherra áður en hann var 51s árs þegar hann var skipaður sjávar­útvegs- og landbúnaðarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra vorið 2013 (sjá nánar hér).

Samantekt
Þegar það er undanskilið að bæði Steingrímur J. og Sigurður Ingi eru fæddir og uppaldir í sveit eiga þeir fátt sameiginlegt. Ferill Steingríms J. hefur snemma hneigst til þátttöku í pólitík og hann er ekki nema 28 ára þegar hann er í fyrsta skipti kosinn inn á þing. Þar hefur hann síðan setið óslitið í rúma þrjá áratugi. 

Sigurður Ingi aflar sér sérfræðimenntunar sem stendur í nánum tengslum við uppruna hans og gerist síðan bóndi og haslar sér völl sem dýralæknir eftir að hann snýr heim. Hann er kominn yfir þrítugt þegar hann snýr sér að virkri þátttöku og afskiptum af nærumhverfinu. Það er ekki fyrr en um það leyti sem hann verður oddviti sveitarstjórnar Hrunamannahrepps sem hann tekur að hasla sér völl í pólitíkinni.

Þó því verði varla á móti mælt að Sigurður Ingi hefur töluvert betri grunn til að setja sig inn í stjórnsýsluleg málefni landbúnaðarins en Steingrímur J. þá er áberandi að hvorugur hefur trúverðugan grunn að byggja á hvað varðar sjávarútvegsmálin. Seta í sjávarútvegsnefnd þingsins hefur þó að öllum líkindum skilað báðum einhverri yfirsýn á málaflokkinn.

Þátttaka Sigurðar Inga í ýmsum félags- og stjórnsýslustörfum í sinni heimabyggð hefur væntanlega skilað honum nokkurri innsýn í stöðu landbúnaðarins á Suðurlandi. Það er þó hæpið að ætla að hún hafi verið jafn yfirgripsmikil og sú innsýn sem má ætla að Steingrímur J. hafði aflað sér þegar hann sat í Landbúnaðarráðuneytinu á árunum 1988 til 1991.

Göngur

Núgildandi búvörusamningar voru undirritaðir haustið 2012 en renna út á mismunandi tíma. Samningur um starfskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða rennur út 31. desember 2015. Samningurinn um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu gildir til 31. desember 2016. Samningurinn um starfsskilyrði sauðfjárræktar rennur hins vegar ekki út fyrr en yfirstandandi kjörtímabil er úti eða 17. desember 2017. Allir samningarnir eru skilyrtir með svohljóðandi fyrirvara:

Samningur þessi er gerður með fyrirvara um hugsanlegar breytingar á þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands sem kunna að leiða af niðurstöðum samningaviðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu (sjá hér)

Þessi fyrirvari ætti ekki að koma á óvart miðað við þá áherslu síðustu ríkisstjórnar að ná fram samningum um Evrópusambandsaðild. Hins vegar vekur athygli að í samningi ríkistjórnarinnar og Bændasamtakanna um starfsskilyrði til mjólkurframleiðslu  er talað um:

að hefja vinnu við stefnumótun fyrir greinina með því markmiði að efla samkeppnishæfi og treysta afkomu hennar til lengri tíma. Til undirbúnings þessu verði skipaður starfshópur samningsaðila til að meta þá reynslu sem komin er af framkvæmd samningsins, þ.á m. kostnaðarþróun í greininni, áhrif kvótakerfisins og stöðu verðlagningar og tolla. (sjá hér (leturbreytingar eru höfundar))

Starfshópurinn átti að skila niðurstöðu í síðasta lagi 31. desember 2013. Það er því líklegra að frétta af niðurstöðunni sé að vænta fljótlega en að öðru leyti er útlit fyrir að landbúnaðurinn muni ekki mæða verulega á Sigurði Inga í embætti fyrr en undir lok næsta árs. Aðra sögu er að segja af sjávarútveginum.

Síðustu ríkisstjórn brast kjark, áræði, hugmyndaflug og styrk til að standa við kosningaloforð um að vinda ofan af því kerfi sem Halldór Ásgrímsson lagði grunninn að með lögunum 1983. Strax í upphafi kom fram megn óánægja með kerfið en það var þó fest í sessi með lögum árið 1990. Allar aðgerðir síðan hafa síst verið til að slá á óánægjuraddirnar en þessar aðgerðir hafa m.a. heimilað sölu aflaheimilda og veðsetningu í veiðinni. Með lögunum árið 2006 var eignarétturinn yfir sjávarauðlindinni tryggður enn frekar með því að þeir sem veiddu ekki upp í aflaheimildirnar bar ekki lengur að bjóða þær öðrum.

Þegar síðasti fiskurinn hefur verið veiddur

Þrátt fyrir fögur fyrirheit síðustu ríkisstjórnar um að leggja fram framkvæmanlega leið við að færa þjóðinni aftur yfirráðin yfir landhelginni þá tókst ekki að binda endi á þær innanlandserjur sem hafa varað nær linnulaust um landhelgina í rúma þrjá áratugi; eða nánast frá því að síðasta þorskastríðinu við Breta lauk. Ýmsum alhæfingum hefur verið haldið á lofti eins og þeim að allir sem hafa aðgang að kvóta séu af stétt sægreifa. Þar hafa bæði smærri og stærri útgerðir ásamt áhafnarmeðlimum fiskveiðiflotans verið gerðir að óvininum sem arðrænir aðra meðal þjóðarinnar. Það er því mikið í húfi að leysa þennan hnút.

Því miður bar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar ekki gæfa til annars en auka enn á þessar deilur með tveimur aðskildum frumvörpum um stjórn fiskveiða og sérstakt veiðigjald. Frumvarpið um stjórn fiskveiða komst aldrei í gegnum þingið þannig að við búum við óbreytt fiskveiðistjórnunarkerfi en með veiðigjaldinu átti að tryggja að þeir sem veiddu upp í keyptan kvóta borguðu afnotarétt í ríkissjóð af forgangsréttinum og þannig var hann í raun viðurkenndur.

Eitt af fyrstu verkefnum þeirrar ríkisstjórnar sem tók við síðastliðið vor var að koma innheimtu veiðigjaldanna til framkvæmda. Aðgerðirnar sem hún taldi nauðsynlegar til að af því gæti orðið hleypti af stað nýrri ófriðaröldu þar sem ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks var sökuð um að ganga erinda “sægreifanna“ í LÍÚ. 

Þann 14. júní 2013 mælti nýr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, fyrir stjórnarfrumvarpi um veiðigjöld. Þar sagði hann að þær breytingar sem hefðu verið gerðar á veiðigjaldalögum Steingríms J. væru nauðsynlegar til að sníða af þeim helstu vankanta. Að öðrum kosti yrði ógerlegt að innheimta gjaldið fyrir næsta fiskveiðiár.

[...] lögin hafa reynst óframkvæmanleg fyrir veiðigjaldanefnd sem skal reikna sérstakt veiðigjald eins og rakið er í athugasemdunum með því frumvarpi sem ég mæli hér fyrir. Nefndin ræður ekki yfir nauðsynlegum upplýsingum til starfa sinna vegna þess að lögin voru ófullkomin og tæknilega gölluð hvað varðar heimildir til öflunar upplýsinga og að hluta til miðlunar þeirra til stjórnvalda, þ.e. á milli embættis ríkisskattstjóra, Hagstofu Íslands og veiðigjaldanefndar. [...] Þetta vissi fyrri ríkisstjórn en brást ekki við, þó ekki væri nema við þeim tæknilegu ágöllum sem hindra framkvæmd laganna. (sjá hér)

Auk þess að rekja tæknigallanna sem stóðu í vegi fyrir því að innheimta veiðigjalda gæti hafist rakti Sigurður Ingi annmarka sem hann sagði efnislega. Þar sagði hann aðferðafræðina við útreikninga veiðigjaldanna „sem með lögunum var lögfest ekki til þess fallin að búa sjávarútveginum starfsumhverfi sem stuðlar að nauðsynlegum framgangi og vexti greinarinnar. Eigi afrakstur auðlindar að skila sér til þjóðarinnar allrar er mikilvægt að stjórnvöld hafi það að markmiði að skapa atvinnuvegum vænlegt starfsumhverfi. (sjá hér)

Einhver umræða varð um tæknilegu vankantana sem Sigurður Ingi taldi upp en þeir fjöruðu út þegar við fyrstu umræðu en þeir efnislegu urðu eftir og entust fram í júlí. Í andsvörum var m.a. bent á að með aðferðum stjórnarfrumvarps Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks yrði ríkissjóður af umtalsverðum tekjum (sjá hér). Sigurður Ingi vildi meina að með lækkun veiðigjaldanna hefði m.a. verið markmiðið að koma á móts við minni og meðalstór sjávarútvegsfyrirtæki sem hefðu ratað í umtalsverðan rekstrarvanda að óbreyttu. 

Brosað yfir karfanum

Frumvarp Sigurðar Inga um veiðigjaldið var samþykkt með öllum atkvæðum stjórnarliða en allir þingmenn stjórnarandstöðunnar höfnuðu því (sjá hér). Væntanlega eru þetta ekki fyrstu “átök“ stjórnar og stjórnarandstöðu um fiskveiðarnar en núverandi stjórn hefur boðað frekari endurskoðun þess. Miðað við þátt Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins við innleiðingu kvótakerfisins bæði í landbúnaði og sjávarútvegi er hæpið að búast við því að ríkisstjórn þessara tveggja flokka hverfi frá því handstýrða markaðskerfi sem hefur fengið að festa rætur frá því í kringum 1980.

Þegar horft er til þess hvaða afleiðingar handstýringarkerfið, sem var lagt á tvo grundvallaratvinnuvegi landsins, hefur haft bæði til sjávar og sveita sætir það væntanlega furðu að Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur skuli hafa fengið það fylgi sem raun síðustu alþingiskosninga leiddi í ljós. Þegar það er hins vegar tekið með í reikninginn hvernig síðustu ríkisstjórn fórst í samskiptum sínum við sjávarútveginn og aðra kjósendur ætti það síður að koma á óvart. Þetta verður e.t.v. enn skiljanlegra þegar það er tekið inn í dæmið að nýjum framboðum tókst á engan hátt að setja upp sannfærandi markmið sem snertu raunveruleika þeirra kjósenda sem grundvalla afkomu sína á rótgrónustu atvinnugreinunum tveimur.

Þeir eru undarlega fáir sem hafa bent á það hversu hrapalega síðustu ríkisstjórn mistókst að framfylgja stefnu sinni um stjórn fiskveiða.  Eins og áður hefur komið fram var meginmarkmið hennar samkvæmt samstarfsyfirlýsingu „að gæta atvinnufrelsis og að tryggja að jafnræðis verði gætt við úthlutun afnotaréttarins“ í anda álits Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Auk þess er tekið fram í samstarfsyfirlýsingu flokkanna að úthlutun aflaheimilda er tímabundinn afnotaréttur og myndar ekki undir neinum kringumstæðum eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir heimildunum.“(sjá hér)

Þegar litið er til efnda blasir fátt annað við en það að aðgerðir síðustu ríkisstjórnar gerðu ekkert annað en viðurkenna og viðhalda forgangi þeirra sem fyrir eru í greininni. Afnám sjómannaafsláttarins var heldur ekki til að afla flokkunum atkvæða né lög um sérstakt veiðigjald. Veiðigjaldið er vissulega til að afla tekna í ríkissjóð en það er nýtt bitbein í það innlenda þorskastríð sem hefur geisað hér í bráðum 40 ár.

Aðgerðir síðustu ríkisstjórnar fyrir hönd atvinnuveganna tveggja gerðu í raun ekkert annað en viðhalda því handstýrikerfi sem Einar Olgeirsson gagnrýndi í þingræðu sinni um milliliðagráðann 1955. Kerfinu þar sem því er stýrt af ríkisvaldinu hvar hagnaðinum af verðmætasköpuninni lendir. Kerfi sem fyrst og síðast þjónar þeim sem hafa sterkustu ítökin í krafti forréttindanna sem auðurinn hefur skapað þeim. „Samningaviðræður Steingríms J. við útgerðarmenn [...] í fjölmiðlum um hvað reikningurinn [mætti] vera hár“ (sjá hér) er einn besti vitnisburðurinn um það hvernig Samfylking og Vinstri grænir gegna sömu herrum og Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur.

Það þarf því væntanlega meiri og víðsýnni bóga en bæði Steingrím J. Sigfússon og Sigurð Inga Jóhannsson til að leysa þann vanda sem handstýrikerfið í landbúnaði og sjávarútvegi hefur leitt yfir báða atvinnuvegi, fólkið og byggðarlögin sem byggðu afkomu sína á þeim svo og efnahag landsins. Að öllum líkindum þarf líka býsna mikið meira til en einn mann sem af blindum vilja til að láta til sín taka þiggur æðsta embætti landsins yfir ráðuneyti þessara undirstöðuatvinnuvega. Það alræði sem lögin leggja honum til yfir báðum atvinnuvegum koma að litlu haldi til lausnar vandanum sem við blasir. Handstýriverkfærið kvóti er þó til þess fallið að gera viðkomandi alræðið eitthvað meðfærilegra.

Þeir byggðu grunninn

Til að slá botninn í þessa umfjöllun um landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið og freista þess að draga fram um hvað er að ræða mun ég að þessu sinni ljúka á tilvitnun í Alþýðuflokksþingmanninn Guðmund Einarsson þar sem hann varar við þeirri leið sem var mörkuð við stjórn fiskveiða af Halldóri Ásgrímssyni í frumvarpi sem hann lagði fram um miðjan desember 1983.

Fiskveiðistefnan er undirstaða að íslenskum þjóðarbúskap. Allt annað, hvernig okkur gengur að fjármagna félagslega þjónustu, hvernig okkur gengur að útbúa skattamálin almennilega, er undir því komið að hér sé fylgt skynsamlegri stefnu í fiskveiðimálum. Hins vegar hefur Alþingi valið þann kostinn að hafa ekkert um fiskveiðistefnuna að segja og láta það vald algjörlega í hendur ráðh[erra] en halda sér við sinn leist og leysa hin minni málin.

Ég held því fram að stefnan í fiskveiðimálum sé langtum mikilvægari fyrir lífskjör í þessu landi en öll hin málin sem þetta þing hefur fjallað um frá því í haust. Það mál er miklu mikilvægara en öll þau mál sem þetta þing mun fjalla um fram til vors. Og samt afsalar Alþingi þjóðarinnar sér í raun og veru réttinum til að setja um þetta lög. Það heldur bara umsagnarrétti og rétti til samráðs við ráðh[erra]

Til viðbótar við þetta er hér líka verið að fjalla um stefnu í eignarréttarmálum, stefnu um það hvað ráði umgengninni við sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar. Þegar þessi þingdeild greiddi atkv[æði] í dag um br[eytingar]t[il]t[ögur] og þetta fr[um]v[arp] var í raun og veru verið að greiða atkv[æði] um afstöðu manna í þessum grundvallarmálum.

Ég vil ítreka að menn mega ekki líta svo á að þeir séu hér að greiða atkv[æði] um tæknileg atriði í sambandi við útfærslu á fiskveiðistjórnun. Menn eru að taka afstöðu í máli sem snýst um undirstöðuatriði lýðræðis og stjórnarfars. Ég tel það gunguskap af hálfu Alþingis að koma sér hjá því að taka þessa umr[æðu] um verkaskiptinguna hreina og klára upp. Menn segja: Það verður að gera eitthvað strax, það verður að finna áhrifamikla leið til að stjórna, þingið er svo seinvirkt og þ[ingd]ál[yktunartillaga] hefur ekki lagagildi. Hér er alls kyns úrsláttur, menn bara koma sér undan því að taka afstöðu til grundvallaratriða.

Þessi grundvallaratriði ganga í raun og veru að kviku lífsskoðunar þessara sömu manna. En svo virðist vera sem eina ferðina enn neyðumst við til að láta stjórnlyndið ráða, finna bara góðar leiðir til að stjórna þessu. Látum stjórnlyndið ráða og Alþingi kemst hjá því að takast á við það vandasama hlutverk að móta stefnuna, enda hefur það kannske aldrei mótað stefnu í fiskveiðimálum. Það er kannske þess vegna sem svona er komið. Og þá verður kannske ágætt fyrir h[æst]v[irt] Alþingi að fylgja bara í slóð hæstv[irts] ráðh[erra], láta ráðh[erra] um að marka stefnuna og láta ráðh[erra] um að ryðja brautina. Svo koma 60 alþ[ingis]m[enn] í röð á eftir í skjóli ráðh[erra] og haldast í hendur og elta.

Ef svo verða síðar meir skiptar skoðanir um aðgerðir ráðh[erra], ef deilur hefjast í þjóðfélaginu, ef átök verða milli stétta og milli byggðarlaga vegna þeirra ákvarðana sem eru teknar í r[áðu]n[eyti] í fiskveiðistefnu, þá er ágætt fyrir þ[ing]m[enn] að geta sagt: Sko, við samþykktum þetta aldrei. Það var ráðh[erra] sem samþykkti þetta. Ég skil ekkert í manninum að gera þetta. Það var alls ekki með mínu samþykki að hann færði kvótann frá ykkur og yfir á þennan fjörð. Ég skil ekkert í manninum, ég verð að fala við hann, þetta er ómögulegt.

Þannig geta alþ[ingis]m[enn] komið sér undan því að taka afstöðu í þessu máli. Þetta eru náttúrlega þeir lausu taumar sem þeir vilja hafa næst þegar þeir mæta kjósendum sínum. Við sáum í dag þá fyrirvara sem menn gerðu og þær afsakanir sem menn höfðu í frammi fyrir því að greiða atkv[æði] með þessu máli. Þetta verður síðan afsökunin sem verður látin gilda við næstu kosningar. Menn segja: Sko, ég samþykkti aldrei að leyft yrði að flytja kvótann hérna á milli fjarða, ég samþykkti það aldrei. Ég samþykkti bara að ráðh[erra] mætti stjórna þessu en ég hefði aldrei samþykkt þessar umgengnisreglur við kvótann. Þetta eru svo miklir peningar sem verið er að fjalla um að um það hefði átt að setja lög. Þannig hefur Alþingi hvítþvegið hendur sínar. (sjá hér)

Í næsta bloggi verður ferilskrá Sigurðar Inga Jóhannssonar borin saman við forvera hans í Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu; Svandísi Svavarsdóttur. Þar sem um tiltölulega ungt ráðuneyti er að ræða er óhætt að lofa að þar verður um töluvert styttri færslu að ræða. Þó er óhjákvæmilegt að víkja að ólíkri hugmyndafræði sem snýr að Íslandi sem stórkostlegum virkjunarkosti til útflutnings og þeim slysum sem af slíkum hugmyndum hafa hlotist nú þegar.

Helstu heimildir

Ráðherratal Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins
Ráðherratal: Landbúnaðarráðherrar 1944-2007
Ráherratal: Sjávarútvegsráðherrar 1963-2007
Ráðherratal: Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherrar 2008-2012

Ráherraskipan í síðara ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttir
Ráðherrar í núverandi ríkisstjórn

Ríkisstjórnir og ráðherrar frá 1904-1942
Ríkisstjórnartal frá stofnun lýðveldis

Ánægja með störf ráðherra: 6. október 2009 (fyrsta könnun)
Ánægja með storf ráðherra:
9. apríl 2010
Ánægja með störf ráðherra og stjórnarandstöðu: 23. mars 2012
Ánægja með störf ráðherra:
10. febrúar 2013

Skýrsla nefndar um endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands - Samhent stjórnsýsla (13.12.2010)
Ný lög um Stjórnarráð Íslands (19.09.2011)

Krækjur á lög sem varða sjávarútveginn

Lög um veiðigjöld. 2012 nr. 74, 26. júní
Lög um tekjuöflun ríkisins
(afnám sjómannaafsláttarins). 2009 nr. 129, 23. desember

Lög um stjórn fiskveiða. 2006 nr. 116, 10. ágúst
Lög um stjórn fiskveiða
. 1999 nr. 116, 10. ágúst
Lög um stjórn fiskveiða
. 1990 nr. 38, 15. maí

Sjávarútvegur: Lög og reglugerðir (yfirlit á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins)
Landbúnaður: Lög og reglugerðir (yfirlit á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins)

Lög samþykkt á Alþingi (stjórnartíðindanúmer laga)

Umræður á þingi um landbúnaðinn og sjávarútveginn

Breyting á ýmsum lögum á sviði fiskveiðistjórnar (163/2006)
Stjórn fiskveiða
(42/2006)
Búnaðarlög
(heildarlög) (70/1998)
Framleiðsla og sala á búvörum
(129/1993)
Framleiðsla og sala á búvörum
(112/1992)
Stjórn fiskveiða
(heildarlög) (38/1990)
Framleiðsla og sala á búvörum o.fl.
(46/1985)
Veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands
(82/1983)
Framleiðsluráð landbúnaðarins
(lög nr. 15/1979)

Ræður þingmanna (á árunum 1907-2014)
Einar Olgeirsson. Ræða flutt á sameinuðu þingi. 79. mál: Milliliðagróði. 17. fundur, 75. löggjafarþing. 1955-1956.  

Heimildir úr fjölmiðlum

Fréttaknippi: Kvótafrumvarp. mbl.is (fréttaknippi)

Vill endurskoða kvótastýringu á mjólk. mbl.is 5. desember 2013
Áhrif óbreyttra veiðigjalda á lítil samfélög útskýrð
. 3. desember 2013
Starfshópur skoði breytingar á kvótakerfinu
. Viðskiptablaðið 4. október 2013

Jóhann Ársælsson: Kvótafrumvarpið uppfyllir ekki kröfur um jafnræði til nýtingar. eyjan.is 27. maí 2012

Jóhann Hauksson. Kvótafrumvarpið til þingsins í vikunni. DV 9. maí 2011

Áætlun um innköllun aflaheimilda tekur gildi í september 2010. visir.is 11. maí 2009

Magnús Thoroddsen. Álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Morgunblaðið 30. janúar 2008

Auka kvóta til jafns við Norðmenn. visir.is 15. apríl 2005

Kvóti næsta fiskveiðiárs verður 190 tonn. mbl.is 6. júní 2001.

Sjávarútvegráðherra segir verið að verja þjóðarheill. mbl.is 17. maí 2001

Segir að tekist sé á um kvóta í kosningunum. mbl.is 19. janúar 1999.

Aðilar vinnumarkaðae ræði búvörusamning. mbl.is 14. september 1995

Umræður á Alþingi um sjávarútvegsmál. Morgunblaðið, 29. apríl 1993

Ragnar Arnalds. Einar Olgeirsson. Morgunblaðið, 14. febrúar 1993.

Þjóðarsátt um sauðkindina. Þjóðviljinn, 15. febrúar 1991
Jökull hf. vann mál sitt í Hæstarétti
. Morgunblaðið. 6. nóvember 1991
Starfa í sátt og samlyndi við bændur og aðila vinnumarkaðarins
. mbl.is 4. júlí 1991
Sjórnarandstæðingar vilja sjá öll skjöl um stjórnarmyndu
n. mbl.is 30. maí 1991

Gildistíminn í óvissu. Þjóðviljinn 25. apríl 1990

Kvótafrumvarpið að lögum. Morgunblaðið 9. janúar 1988

Heimildir úr háskólaritgerðum

Aron Örn Brynjólfsson. Þegar þjóðin eignaðist fiskinn. maí 2013 
Björg Torfadóttir: Breytingar á stjórn fiskveiða. júní, 2013
Friðrika Ásmundsdóttir. Framleiðslustýring í landbúnaði. júní 2012
Einar Pálsson: Strandveiðar í ljósi álits mannréttindanefndar SÞ nr. 1306/2004 um íslenska kvótakerfið. Haustið 2012
Skúli Hansen: Úrskurðarvald dómstóla um stjórnskipulegt gildi laga. desember, 2011

Aðrar Heimildir

Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið. Búvörusamningar
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Skýrsla starfshóps um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða. September 2010
Wikipedia: Sjávarútvegur á Íslandi. Síðast uppfært 14. janúar 2014Víkin: Sjóminjasafnið í Reykjavík. Saga hússins. 2005
Landssamband smábátaeigenda
(fréttayfirlit)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Þórðarson

Vá, hvað fá þeir sem lesa þetta alltsaman? Medalíu?

Hörður Þórðarson, 16.2.2014 kl. 08:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband