Á kostnað framtíðarinnar

Það muna e.t.v. einhverjir eftir þeim gjörningi sem myndin hér að neðan sýnir en það var Katrín Snæhólm sem vakti athygli mína á honum á sínum tíma með bloggi og myndbirtingum.

Félagsgjaldið þitt í kapítalismanum

Það var í desember 2008 sem aðgerðarhópur, sem hafði tekið virkan hátt í mótmælaaðgerðum haustsins, tók sig til og bætti við andlitsmyndirnar sem skreyttu barnavegginn svokallaða. Á verðmiðunum sem voru límdir yfir andlitin er upphæðin sem reiknað var út að yrði gjaldið sem þessi og önnur íslensk börn þyrftu að bera vegna bankahrunsins.

Síðan þetta var hefur þjóðinni tekist að forða því að skuldir eigenda bankanna vegna Icesave félli á framtíðarkynslóðir landsins. Baráttan var oft og tíðum tvísýn ekki síst fyrir skefjalausan hræðsluáróður bæði stjórnmálamanna og ýmissa fræðimanna í háskólum landsins. 

Það er ekki ætlunin að fara í neina ýtarlega upprifjun á þessum ummælum hér. Þó finnst mér ástæða til að minna á það sem Ólína Þorvarðardóttir færði í orð á bloggi sínu. Ástæðan eru orðin sem hún lét falla á Alþingi í síðustu viku vegna þróunarinnar í stjórnarskrármálinu:

„Þetta er þyngra en tárum taki og ég lýsi sorg yfir því hvernig þetta mál er statt og andúð á vinnubrögðum Alþingis,“ sagði Ólína Þorvarðardóttir um stjórnarskrárfrumvarpið á Alþingi í dag. Ólína sagðist eiga erfitt með að taka til máls vegna sorgar yfir því hvernig farið hefði verið með málið í þinginu.

Hrikalegt væri að sitja undir andsvörum sjálfstæðismanna í skætingstóni eftir allt það sem á undan væri gengið. „Þessi atburðarás er öll í boði Sjálfstæðisflokksins,“ sagði Ólína. (sjá hér)

Í þessu samhengi þykir mér verra fullt tilefni til að rifja það upp sem hún sagði um Icesave haustið 2010. Þann 19. október það ár birti hún færslu á bloggvettvangi sínum á Eyjunni sem ber heitið: Þjóðinni hollt að taka á sig skuldbindingar vegna Icesave? Til að svara spurningunni í fyrirsögninni vitnar hún í niðurstöðu prófessors í heimspeki við Háskólann á Akureyri sem hann hafði opinberað í Silfri Egils deginum áður. Niðurstaða prófessorsins, sem samfylkingarkonan tók undir á blogginu sínu, er eftirfarandi:

Það er siðferðilega hollt fyrir íslenska þjóð að taka á sig Icesave-skuldbindingarnar. Þar með tekur almenningur þátt í því að þrífa til eftir hrunið og leggja drög að nýrri uppbyggingu. Þar með er einnig tryggt að þjóðin gleymir ekki því sem gerðist, a.m.k. ekki á meðan hún ber byrðarnar af því.

Þessi skrif þingkonunnar vöktu að vonum þó nokkur viðbrögð. Vegna hitans sem kom fram í sumum þeirra hefur þingkonan sennilega fundið sig nauðbeygða til að svara. Þá færslu nefndi hún Siðferði og sálarstyrkur. Í færslunni segir hún m.a. þetta:

[...] þegar hamfarir eiga sér stað, er þó skömminni skárra að taka þátt í björgunarstörfum, hreinsun á vettvangi og uppbyggingunni , heldur en að standa aðgerðalaus hjá. Það er siðferðilega og sálrænt séð betra heldur en að gnísta tönnum í bræði og finna engan farveg fyrir særða réttlætiskennd og sanngjarna reiði.

Sá sem aðstoðar á vettvangi er ekki í öfundsverðum sporum – en hann er þó betur settur en hinn sem gefur sig á vald reiðitilfinningum og aðgerðaleysi.

Þeir sem hafa horfst í augu við það sem fram fer meðal þeirra sem hafa komist til valda átta sig væntanlega á því hve varasamt það getur reynst að treysta þessum einstaklingum. Það blasir þess vegna væntanlega við mörgum að það er eitthvað annað sem býr að baki þeirri tilfinningastjórnun sem Ólína og fleiri hafa brugðið fyrir sig í stjórnarskrármálinu.

Það gæti reyndar verið mjög gagnlegt að rifja það upp sem haft er eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í þessari frétt: Stjórnarskrá breytt fyrir ESB-aðild og setja orð hennar í samhengi við þann atgang og örvæntingu sem hefur einkennt framgöngu stjórnarskrársinnanna að undanförnu.

Það gæti líka verið ganglegt að tengja það saman að margir þeirra sem hafa hæst um stjórnarskrárfrumvarpið nú eru ekki aðeins ESB-aðildarsinnar heldur  voru alls ekki fráhverfir þeirri skoðun, sem kemur fram í skrifum Ólinu Þorvarðardóttur, varðandi skyldur þjóðarinnar gagnvart Icesave.

Verða þau svipt réttinum til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilvæg mál?

Það sem situr eftir er þetta: Við björguðum framtíðarkynslóðum Íslands undan Icesave en tekst okkur að bjarga þeim undan stjórnarskrá sem sviptir þau réttinum til að fara fram á þjóðaratkvæðagreiðslur um málefni eins og Icesave?! (sjá hér) Það er líka ástæða til að vekja athygli á möguleikanum sem er opnaður á framsali ríkisvalds „til alþjóðlegra stofnana“ í umræddu stjórnarskrárfrumvarpi. (sjá hér)

**********************************************************************

Bloggið hér að ofan er að nokkru leyti byggt á eldri bloggfærslu frá því í október 2010


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Ég er ekki sammála þér varðandi framsal ríkisvalds Rakel. 111.grein í frumvarpi Stjórnlagaráðs sýnist mér giska góð en 113.gr meirihluta Stjórnskipunar-og Eftirlitsnefndar Alþingis gengur skrefinu lengra að óþörfu.  Málið er að ef við viljum taka þátt í alþjóðasamvinnu og gangast undir fjölþjóðlegt yfirvald þá verður að vera um það umgerð í stjórnskipunarlögum.  Annars gera stjórnvöld bara það sem þeim sýnist. sbr. EES samninginn.

Hins vegar er ég sammála gagnrýninni á 68.gr um
Framkvæmd undirskriftasöfnunar ogþjóðaratkvæðagreiðslu..

Þennan fyrirvara Þarf að fella út úr textanum áður en hægt er að samþykkja þessa grein:

Mál sem er borið undir þjóðaratkvæði að kröfu eða frumkvæði kjósenda samkvæmt ákvæðum 66. og67. gr. skal varða almannahag. Á grundvelli þeirra erhvorki hægt að krefjast atkvæðagreiðslu um fjárlög,fjáraukalög, lög sem eru sett til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum né heldur um skattamálefni eða ríkisborgararétt. Rísi ágreiningur um hvort máluppfylli framangreind skilyrði skera dómstólar þar úr.

 

 

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 9.3.2013 kl. 19:51

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

67. gr. Framkvæmd undirskriftasöfnunar og þjóðaratkvæðagreiðslu

Mál sem lagt er í þjóðaratkvæðagreiðslu að kröfu eða frumkvæði kjósenda samkvæmt ákvæðum 65. og 66. gr. skal varða almannahag. Á grundvelli þeirra er hvorki hægt að krefjast atkvæðagreiðslu um fjárlög, fjáraukalög, lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum né heldur um skattamálefni eða ríkisborgararétt. Þess skal gætt að frumvarp að tillögu kjósenda samrýmist stjórnarskrá. Rísi ágreiningur um hvort mál uppfylli framangreind skilyrði skera dómstólar þar úr. [...]

111. gr. Framsal ríkisvalds

Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu.[...]

113. gr. Stjórnarskrárbreytingar

[...]

Hafi 5/6 hlutar þingmanna samþykkt frumvarpið getur Alþingi þó ákveðið að fella þjóðaratkvæðagreiðsluna niður og öðlast þá frumvarpið gildi engu að síður.

Þetta er greinarnar sem við höfum tilgreint. Áður en lengra er haldið ætla ég að taka það fram að ég tilgreindi ekki allar greinar í bloggfærslunni minni sem ég set spurningarmerki. Þar á meðal er 113. greinin en ég tek undir áhyggjur þínar vegna hennar. Ástæða er textinn sem ég kóperaði úr stjórnarskrárdrögunum eins og þær liggja fyrir inni á vef stjórnlagaráðs. (sjá hér)

Af því sem ég kópara innan úr 111. greininni er ljóst að stjórnarskrárfrumvarpið var unnið til að af inngöngu í ESB gæti orðið. Ég er á móti henni. Ég er þess vegna á móti framsali ríkisvalds hvort sem er til  ESB eða annars fyrirbæris; skiptir ekki máli hvort um er að ræða alþjóðastofnun eða eitthvað annað.

Það má ráða það af þessu plaggi að þetta atriði sé það mestu skiptir enda er það í stil við orð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í upphafi árs 2010 þar sem þetta er haft eftir henni: „„Það þýðir að þjóðin getur ákveðið að deila fullveldi sínu með öðrum þjóðum á næsta kjörtímabili ef hún svo kýs án þess að boðað sé til kosninga í millitíðinni."“ (sjá hér

Rakel Sigurgeirsdóttir, 9.3.2013 kl. 21:14

3 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Það eru margar greinar sem ég geri athugasemdir við Rakel. Og það eru furðuleg vinnubrögð hjá þessari Stjórnskipunar-og Eftirlitsnefnd að leggja fram svona gjörbreytt frumvarp eftir að frestur til að gera athugasemdir er löngu liðinn.  Það er í raun ekki fyrr en núna sem við sjáum hvað raunverulega er að baki frumvarpinu hjá meirihluta nefndarinnar og þar með hjá ríkisstjórnarflokkunum.  Þetta er handarbakavinna og klúður fyrst og fremst.  Sama þótt menn gargi sig hása yfir málþófi stjórnarandstöðunnar þá þarf að stöðva þetta frumvarp.  Og það er umhugsunarvert að enginn af þeim sem beita núna málþófi gegn málþófinu hefur tjáð sig efnislega um þær breytingar frá tillögum Stjórnlagaráðs sem felast í þessu frumvarpi sem menn virðast vilja að verði böðlað í gegnum þingið órætt.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 9.3.2013 kl. 22:22

4 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Ef maður ber saman 111 gr. í stjórnarskrártillögum við hið svokallaða minnisblað ríkisstjórnarinnar frá 2009, þar sem (hótunar)-samþykkt var að "sækja um aðild að ESB", þá segir í því minnisblaði að eftir aðlögunarferlið sé ekki völ á öðru en ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

Verði þessari þjóð að góðu, ef hún lætur leiða sig blindandi fram af næsta hengiflugi bólu-bankaræningjanna í ESB!

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 9.3.2013 kl. 22:57

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Anna Sigríður, hvar eru þessir minnispunktar aðgengilegir?

Rakel Sigurgeirsdóttir, 10.3.2013 kl. 01:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband