Bloggfærslur mánaðarins, október 2013

Til kvótastýrðs sjávarútvegs II

Þetta verður annar hlutinn af þremur færslum þar sem meiningin er að draga fram það helsta sem liggur stöðu sjávarútvegsmála þjóðarinnar til grundvallar. Í síðustu færslu var farið yfir það hverjir hafa setið lengst í Sjávarútvegsráðuneytinu auk þess sem það var dregið fram hvort þessir höfðu einhverja reynslu eða þekkingu varðandi sjávarútveginn. Hér verður áhersla lögð á að draga fram söguleg atvik og helstu ákvarðanir sem liggja núverandi stöðu atvinnugreinarinnar til grundvallar. Umfangsins vegna verður þó ekki farið yfir nema fyrstu fjóra áratugi síðustu aldar.

Það er reyndar líklegt að einhverjir sjái það skýrt og greinilega í þessu yfirliti hvernig hefðir og ýmis konar bönd sem binda menn saman hafa átt stærstan þáttinn í því að grafa undan því samfélagi sem kynslóðirnar létu sig dreyma um að sjálfstæðið myndi færa íslenskum almenningi. Þegar betur er að gáð þá er ekki annað að sjá en að um það bil sem smábændurnir og vinnulýðurinn slapp undan oki bændaaðalsins og dönskum yfirráðum hafi annar verið tilbúinn til að tryggja sér hagnaðinn af vinnuframlagi þeirra.

Af einhverjum ástæðum er stundum erfiðast að útskýra það sem blasir við

Í stað bændaaðalsins tók útvegsaðallinn við og fór alveg eins að og stórbændastéttin áður. Smáútgerðarmenn og verkalýðurinn við sjávarsíðuna átti ekkert sælla líf undir stórútgerðarmönnunum en smábændur og vistarbundinn vinnulýður hafði átt inn til dala áratugina á undan. Í stað óðalsbændafyrirkomulagsins með dönskum konungi og danskri einokunarverslun voru komnir nýríkir stórútgerðarmenn með einkareknum hluthafabönkum og einokunarsamtökum stærstu útgerðanna sem sölsuðu undir sig alla verslun með íslenska skreið og hákarlalýsi við útlönd.

Upphaf íslensks útvegsaðals

Ef mark er takandi á íslenskum fornbókmenntaarfi þá var Þuríður sundafyllir fyrsti útgerðarmaðurinn hér á landi. Hún nam land í Bolungarvík og setti Kvíarmið sem eru í mynni Ísafjarðardjúps. Að öðru leyti segir fátt af sjósókn á þjóðveldisöld. Þó má gera ráð fyrir að efnaðri bændur hafi komið fyrir þurrabúðarfólki á gjöfulustu fiskveiðijörðunum í þeirra eigu samanber t.d. Egils sögu. Þar segir að Skalla Grímur hafi m.a. búið jarðirnar Munaðarnes í Borgarfirði og Álftanes á Mýrum trúum þjónum sínum til nytja þeim veiðihlunnindum sem jörðunum fylgdu (sjá t.d. hér).

Það er alls ekki útilokað að landnámsmennirnir og afkomendur þeirra hafi síðan leigt öðrum útróðraleyfi af þessum jörðum eða selt hluta aflans sem kom í land. Samkvæmt sagnfræðinni var það þó ekki fyrr en á 13. og 14. öld sem Íslendingar tóku almennt að gera út á hin gjöfulu fiskimið sem umlykja landið. Á þessum tíma var reyndar fyrst og fremst gert út frá utanverðu Snæfellsnesi, Dölunum, Vestfjarðarkjálkanum öllum og suðvesturhorni landsins. Einhverjar verstöðvar voru þó fyrir norðan og austan en engar á Suðurlandi. Stærsta verstöðin var hins vegar í Vestmannaeyjum.

Á þessum tíma fjölgaði þurrabúðarfólki eitthvað en verstöðvarnar voru almennt í eigu biskupsstólanna, kirkjujarða eða stóreignabænda sem hafa að öllum líkindum leigt áhöfnum aðstöðu til útróðra í verstöðinni. Þrátt fyrir að fiskveiðar ykjust á þessum tíma var landbúnaðurinn áfram „kjölfestan í lífsafkomu þjóðarinnar.“ (Sjá Íslenskan söguatlas, I. bd: 115). Á 14. og 15. öld voru skreið og lýsi verðmætustu útflutningsvörur Íslendinga. Stærsta útflutningshöfnin var í Hvalfirði en þangað sóttu Norðmenn sem áttu í viðskiptum við Hansakaupmenn sem voru hollenskir kaupmenn. 

Ein verðmætasta útflutningsvaran á 14. og 15. öld

Á 13. og 14. öld voru það einkum þrjár ættir sem efnuðust gífurlega á þessum útflutningi en valda- og eignajafnvægi raskaðist nokkuð við eignaupptöku dönsku krúnunnar hér á landi við siðaskiptin. Bændur héldu þó áfram að senda verklausa vinnumenn á vertíð sem náði frá febrúar og fram í maí. Á 18. öld dró hins vegar saman í þeim vísi að sjávarútvegi sem var tekinn að festa rætur hér á landi en á sama tíma efldist sauðfjárrækt hér á landi vegna uppgangs í útflutningi á sauðfé.

Til að tryggja sér vinnuaflið og arðinn að vinnu þess hafði íslenska efnastéttin ýmis ráð og hafa þau löngum verið nefnd einu nafni „vistarbönd“. Þetta er samheiti yfir þær lagasetningar sem hömluðu fólki því að setjast að við sjávarsíðuna og framfleyta sér á sjávarfangi eingöngu (sjá hér). Með vistarbandinu var ekki aðeins komið í veg fyrir alvöru þéttbýlismyndun hér á landi heldur tryggði bændaaðallinn sig gagnvart samkeppninni til eignamyndunar með forréttindum til vinnuaflsins sem þeir þurftu á að halda til að viðhalda stöðu sinni og eignum. Þetta fyrirkomulag hélt til loka 19. aldar.

Verklag bæði til sjávar og sveita breyttist hægt og stóð nánast í stað jafnt í landbúnaði og sjávarútvegi þar til kom fram á 19. öld. Vermennirnir jafnt og bændur sem sóttu sjóinn reru á opnum bátum hvort sem það var til bolfisks- eða hvalveiða og gert var að aflanum við frumstæðar aðstæður þegar komið var í land. 

Verstöðvarlíf fyrr á öldum

Á 19. öld varð aftur uppgangur í útflutningi á sjávarafurðum. Fyrstu þilskipin voru keypt hingað til lands en þau voru gerð út til hvalveiða. Hákarlalýsi var þá orðið að dýrmætri verslunarvöru. Í framhaldinu má segja að sú breyting hafi orðið á að útgerðin var ekki lengur eingöngu í höndum auðugra bænda heldur fluttist að nokkru yfir til íslenskra kaupmanna sem voru að byrja að koma undir sig fótunum á svipuðum tíma. Þeir reiddu sig ekki síður á salfisksútflutning en bændur héldu líka áfram að vera stórtækir í útflutningi sjávarafurða fram undir lok aldamóta 19. og 20. aldar.

Í upphafi 19 aldar tóku að myndast nýir þéttbýliskjarnar og þá einkum við Faxaflóa, á Ísafirði og Akureyri. Mannfjölgun á þessum stöðum var þó hæg framan af sem má rekja til þess að stjórnvöld, t.d. í Reykjavík, bönnuðu þeim sem „uppfylltu ekki ákveðin skilyrði um heilsuhreysti og eign“ að setjast að í bænum. Þessir voru reknir aftur heim í sína sveit (sjá Íslenskan söguatlas, bd. II: 77).

Undir aldamótin brustu hins vegar allar flóðgáttir sem hélst í hendur við það að vistarbandið var afnumið (sjá hér) en ekki síður við hrun sauðasölunnar skömmu síðar (sjá hér). Margir þeirra sem fluttu á mölina tóku með sér einhverjar skepnur og ræktuðu kálgarða en lífsafkomuna byggði meiri hluti aðfluttra á sjónum.

Saltfiskur var það heillin

Áratugina í kringum þar síðustu aldamót hélst mannfjölgunin í bæjunum þremur; þ.e: Akureyri, Ísafirði og Reykjavík, í hendur við eftirspurnina eftir vinnuafli við sjávarútvegsgreinar. Ísafjörður tók forskotið vegna kjöraðstæðna til saltfiskverkunar. Ísfirskir kaupmenn tóku að kaupa fiskinn óverkaðan af bændum. Gott dæmi um verslunarfyrirtæki sem breyttist þannig í það að verða framleiðslufyrirtæki er Ásgeirsverslun. Til að anna eftirspurninni til útflutnings urðu þeir fyrstir til að hefja vélbátaútgerð en það var árið 1902. 

Þetta markaði upphaf kapítalískra framleiðsluhátta á Íslandi. Í stað þess að smáframleiðendurnir, bændurnir og fjölskyldur þeirra veiddu fiskinn, söltuðu hann og flyttu í kaupstað, kom nú annað fyrirkomulag. Kaupmenn og útgerðarmenn keyptu fiskinn óverkaðan og keyptu verkafólk til að salta hann og þurrka. Þessi verkaskipting varð til að auka mjög á hagkvæmni framleiðslunnar og nýta betur vinnuaflið (sjá Íslenskan söguatlas, II. bd: 136)

Fyrsti togarinn sem kom hingað til lands árið 1905 var keyptur í félagi sex karlmanna sem bjuggu allir við Faxaflóann. Einhverjir í Hafnarfirði en hinir í Reykjavík (sjá nánar hér). Einn kaupendanna var Björn Kristjánsson sem var á þessum tíma bæjarfulltrúi í Reykjavík en varð síðar bankastjóri Landsbankans og fjármálaráðherra í fyrstu innlendu ríkisstjórninni sem var skipuð árið 1917 (sjá hér). Með komu fyrsta togarans hingað til lands var hafinn stóriðnaður í útgerð á Faxaflóasvæðinu.

Mikilvæg forsenda stórrekstrar togara frá Reykjavík var að kapítalísk rekstrarform í fiskvinnslu voru þegar fyrir hendi, þ.e. umfangsmikil verkun á saltfiski. Þessi starfsemi hafði brotið af sér bönd bændasamfélagsins, boð þess og bönn, og því voru togarar leyfðir hér en ekki bannaðir eins og í Noregi. (sjá Íslenskan söguatlas, II. bd: 116)

Á næstu árum tók Reykjavík við meginstraumi þess fólks sem flutti úr sveitunum og samfara varð hún að þeirri miðstöð þjóðlífsins sem hún er nú. Við Eyjafjörðinn hafði íbúum á Akureyri fjölgað jafnt og þétt frá því um 1880.

Meginatvinnuvegur nýrra íbúa var saltfisksverkun sem varð umfangsmikill atvinnuvegur í þorpum sem tóku að rísa víðar við Eyjafjörðinn í kjölfar þess að þilskipin sem áður höfðu gert út á hákarl voru gerð út til þorskveiða. Um 1910 tóku Norðlendingar svo við af Norðmönnum og tóku að gera út á síld. Í kjölfarið tók Siglufjörður að vaxa „með amerískum hraða.“ (sjá Íslenskan söguatlas, II. bd: 115). 

Síldarstúlkur

Þegar fyrsta íslenska ríkisstjórnin var skipuð árið 1917 hafði uppgangurinn í sjávarútveginum ekki aðeins átt stóran þátt í einum af stórkostlegri breytingum á íslensku samfélagi heldur var hann orðinn önnur stærsta atvinnugrein landsmanna og sá sem skapaði Íslendingum mestar útflutningstekjurnar. Með sjávarútveginum sköpuðust skilyrði fyrir kapítalíska framleiðsluhætti sem leiddi til þéttbýlismyndunarinnar þar sem sjávarútvegsfyrirtækin urðu til.

Það hefur þegar verið vikið að uppgangi Ásgeirsverslunar á Ísafirði (st. 1852) á níunda áratug 19. aldar. Áður en lengra er haldið er rétt að nefna tvö fyrirtæki sem voru stofnuð á fyrstu árum síðustu aldar í Reykjavík og gerðust stórtæk í togaraútgerð.

Alliance var útgerðarfyrirtæki sem Thor Jensen og fleiri stofnuðu í byrjun síðustu aldar og létu smíða fyrsta togarann sem Íslendingar eignuðust. [...] Thor Jensen sagði skilið við Alliance 1910, vildi vera sjálfstæður og stofnaði sitt eigið fyrirtæki, Kveldúlf, árið 1912 og reisti útgerðarstöð sína í Skuggahverfi við Skúlagötu. (sjá hér)

Það má kynna sér sögu Thors Jensonar víða og lesa m.a. um það hvernig hagnaðurinn af Kveldúlfi var nýttur til að reisa hið umfangsmikla mjólkurbú hans að Korpúlfsstöðum en hér verður látið nægja að vísa í þessa heimild hér (sjá hér)

Undirstöðuatvinnuvegirnir í samkeppni

Hér að framan hefur það verið dregið fram hvernig sjávarútvegurinn var orðinn að annarri mikilvægustu atvinnugrein landsins þegar fyrsta ríkisstjórn landsins var skipuð hér árið 1917. Þó það hafi ekki verið undirstrikað sérstaklega þá má vera ljóst að í fámennu landi þá voru meginatvinnuvegirnir tveir; landbúnaðurinn og sjávarútvegurinn, í kappi hvor við annan um vinnuaflið sem streymdi á mölina í leit að frelsi undan oki vistarbandsins.

Reykjavík sennilega upp úr miðri 19. öld

Landbúnaðurinn hafði verið meginatvinnuvegur þjóðarinnar í margar aldir og bjó því að ríkari hefð og djúpstæðari rótum. Hliðargrein stóreignabændanna var hins vegar orðinn að sjálfstæðri atvinnugrein sem ógnaði hefðinni. Ýmis konar þjóðfélagsátök endurspegla togstreituna sem var á milli þessara tveggja atvinnugreina á fyrstu áratugum síðustu aldar. Þessi átök komu líka fram í pólitíkinni. Elsti stjórnmálaflokkur landsins (st. 1916) var í upphafi flokkur bænda sem gaf sig út fyrir það að vilja standa vörð um hagsmuni bænda. 

Fyrsti atvinnumálaráðherrann, Sigurður Jónsson, bóndi í Ystafelli í Þingeyjarsýslu, var einn stofnanda hans og er því líka fyrsti ráðherra Framsóknarflokksins (sjá hér). Eins og áður hefur komið fram var embættisheitið lagt niður árið 1949 en kjörtímabilið á undan hafði fyrsti landbúnaðarráðherrann verið skipaður (sjá hér). Það var Framsóknarmaðurinn, Bjarni Ásgeirsson, sem hlaut embættið. Áður var komin samtals um ellefu ára hefð fyrir því að landbúnaðarmálin væru í höndum annars en þess sem fór með atvinnumálaráðuneytið.

Það var Hermann Jónasson sem kom þessari hefð á með því að hann skipaði sjálfan sig yfir þessum málaflokki þegar hann varð forsætisráðherra í fyrsta skipti árið 1934. Hermann var forsætisráðherra næstu átta árin eða fram til ársins 1942. Allan þennan tíma var hann líka yfir landbúnaðarmálunum ásamt dóms- og kirkjumálaráðuneytinu (sjá hér).

Fyrsti sjávarútvegsráðherrann var hins vegar ekki skipaður fyrr en embættisheitið atvinnumálaráðherra hafði verið lagt niður árið 1949. Þetta var í ríkisstjórn Ólafs Thors sem tók við völdum 6. desember en sat aðeins til 14. mars árið eftir eða í þrjá mánuði. Eins og kom fram í síðustu færslu var það  Jóhann P. Jósefsson, útgerðarmaður úr Vestmannaeyjum, sem varð fyrstur til að gegna þessu embætti. Næsta kjörtímabil á eftir var Ólafur Thors skipaður í embættið en hann gengi því næstu sex ár á eftir. Helming þess tíma var hann líka forsætisráðherra (sjá hér).

Íslendingar togaravæddust í byrjun síðustu aldar

Þegar fyrsti sjávarútvegsráðherrann var skipaður árið 1949 höfðu sjávarútvegsmálin í tvígang verið tekin út úr atvinnumálaráðuneytinu og verið skipuð undir annan ráðherra. Fyrst árið 1932 en þá var Magnús Guðmundsson settur yfir málaflokkinn. Ólafur Thors leysti hann reyndar af undan embættisskyldum sínum undir lok ársins 1932. Í fyrstu ríkisstjórninni sem Ólafur fór fyrir árið 1942 fór hann yfir sjávarútvegsmálunum öðru sinni. Auk þess var hann yfir utanríkisráðuneytinu og fór með landbúnaðar- og vegamálin (sjá hér). 

Það er ekki komið að því enn að draga saman meginniðurstöður þessara eða annarra skrifa um íslensku ráðuneytin og afleiðingarnar af aðferðunum sem hafa fests í sessi við skipun í embætti æðstu yfirmanna þeirra. Hér verður þó vakin athygli á því sem ætti að blasa við og hafa stundum verið kölluð „helmingaskipti“ sem vísar til þess sem hefur verið ýjað að áður að Framsóknarflokkurinn var flokkur bænda en Sjálfstæðisflokkurinn útgerðarmanna.

Alþýðuflokkurinn, sem var stofnaður sama ár og Framsóknarflokkurinn; þ.e. 1916, hélt á lofti viðhorfum sem var ætlað að höfða til verkalýðsins. Í málgagni þeirra Alþýðublaðinu mátti því oft sjá gagnrýni á aðgerðir forystuflokkanna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, gagnvart almenningi í landinu. Í grein sem birtist í blaðinu 27. nóvember 1929 er dregin fram ágæt mynd af þeim þjóðfélagsátökum sem íslensk pólitík átti vissulega sinn þátt í að skapa og viðhalda með aðgerðum sínum.

Eftirfarandi orð eru höfð eftir Árna Jónssyni frá Múla sem þá var ritstjóri Varðar sem var málgang forvera Sjálfstæðisflokksins; Íshaldsflokkinn. Pétur H. Guðmundsson er hins vegar skrifaður fyrir greininni þar sem þessi tilvitnun í Árna er dregin fram. Greinin er svar Péturs við skrifum Magnúsar Jónssonar sem var kennari við Háskóla Íslands á þessum tíma; líkur benda til að það hafi verið við lögfræðideild skólans.

„Er það ærið umhugsunarefni þeim, sem altaf eru að ala á ríg milli útgerðarmanna og bænda, að hér hefir stærsti útgerðarmaðurinn á Íslandi lagt í langstærstu jarðræktarframkvæmdir, sem hér hafa verið gerðar síðan land bygðist. Sami stórhugurinn, sem birtist í því, þegar Thor Jensen lagði hér fyrstur manna út í togaraútgerð, hefir nú fengið sér viðfangsefni við ræktun jarðarinnar. Fjandskapur útgerðarinnar til landbúnaðarins birtist á Korpúlfsstöðum í því, að hver eyrir af öllum þeim hundruðum þúsunda króna, sem þar hefir verið varið til framkvæmda, hefir fengist af afrakstri útgerðarinnar."(sjá hér)

Glöggir lesendur sjá það væntanlega af tilvitnuðum orðum að einhverjir þeirra sem ruddu brautina og skópu hefðina í útgerðinni greiddu sjálfum sér arð út úr rekstri útgerðarinnar upp á „hundruð þúsunda króna“. Þeir voru líka til sem fannst það eðlilegt að þeir sem höfðu fjármagn til kaupa og reksturs þess búnaðar sem þurfti til að draga fiskinn í tonnatali að landi nytu umtalsverðra fríðinda og forréttinda. 

Sjómenn um aldamót 19. og 20. aldar

Einokunarbandalög í útflutningi sjávarafurða verða til

Strax á tíma fyrstu ríkisstjórnarinnar (1917-1922) reyndi á það fyrir hverja íslensku ráðherrarnir hygðust vinna þegar hin nýríka stétt útvegsmanna krafðist fyrirgreiðslu í krafti þess hlutfalls sem sjávarútvegurinn aflaði af þjóðartekjum landsins. Ráðherrar á þessum tíma, auk atvinnumálaráðherrans: Sigurðar Jónssonar í Ystafelli, voru Sigurður Eggerz og Jón Magnússon.

Málalyktir leiddu fram spurninguna um það hvorir stjórnuðu Íslandi: útgerðaraðallinn eða landsstjórnin? Spurningin var sett fram á forsíðu málgangs Alþýðuflokksins þ. 8. ágúst árið 1920. Þar segir m.a. þetta:

Vitanlega er við öfluga að etja, fyrir landsstjórnina, þar eð fiskhringsmennirnir, þó fáir séu, eru nokkrir af helstu auðmönnum landsins, en þeir aftur studdir af Íslandsbanka, að svo miklu leyti sem stuðningur getur verið af banka með bankastjórum, sem auglýstir hafa verið vísvitandi ósannindamenn um fjárhag bankans, svo sem nú er kunnugt orðið um bankastjórana í Íslandsbanka.

En samt mun þetta ekki vera erfiðara fyrir landsstjórnina en það ætti að vera að þora ekki að gera rétt, þó auðugir séu í móti, og skal landsstjórnin vita, að almenningur bíður þess nú með óþreyju að fá að sjá hvort það er sú stjórn sem þingið hefir sett sem ræður, eða hvort það er fiskhringurinn sem í raun og veru stjórnar Íslandi.
(sjá hér

Fiskhringurinn var félagsskapur stærstu útgerðarmannanna á Faxaflóasvæðinu sem nutu fyrirgreiðslu Íslandsbanka. Þeir sem koma einkum við sögu eru Geo Copland fiskkaupmaður og Eggert Claessen, þáverandi bankastjóri Íslandsbanka. 15 árum síðar, eða árið 1935,  rifjaði Verkalýðsblaðið málsatvikin upp vegna sambærilegra aðstæðna sem voru komnar upp í efnahagsmálum landsins vegna einokunar Landsbankans og fiskverkunarfyrirtækisins Kveldúlfs í málefnum sjávarútvegsins.

Þar segir um afleiðingar þess að ráðherrar fyrstu landsstjórnarinnar létu undan hagsmunum hins nýríka útvegsaðals og bankans sem hann hafði átt í skiptum við:

Landsstjórnin hélt áfram uppi vernd fyrir bankann. Bankinn verndaði miljónaspekúlantana. Allt var látið fljóta sofandi að feigðarósi.

Enda kom að því að kýli spillingarinnar sprakk. Íslandsbanki fór á höfuðið. Fiskhringurinn kútveltist. — Fátækir bændur og verkamenn á Íslandi, vinnandi stéttir landsins, fá í dag að greiða miljónatöp gjaldþrotsins. (sjá hér)
 

Árið 1935 hafði fiskverkunarfyrirtækið Kveldúlfur komið sér upp sambærilegri einokunaraðstöðu í útflutningi sjávarafurða og Copland fimmtán árum áður. Í stað Íslandsbanka var líka kominn annar banki; Landsbankinn. Á þessum tíma var Hermann Jónasson forsætisráðherra í sínu fyrsta ráðuneyti, Eysteinn Jónsson var fjármálaráðherra og Haraldur Guðmundsson atvinnumálaráðherra (sjá hér).

Útifundur í Reykjavík sumarið 1932 Þessi stjórn var sett saman af þingmönnum Framsóknar- og Alþýðuflokks. Þetta var í fyrsta skipti sem Alþýðuflokkurinn kom að ríkisstjórnarmyndun. Stjórninni gáfu þeir heitið: Stjórn hinna vinnandi stétta. Sennilega er það vegna þess að Alþýðuflokkurinn var kominn í stjórn sem það er Verkalýðsblaðið, málgagn Kommúnistaflokksins, sem vekur athygli á málsatvikum og hugsanlegum afleiðingum þeirra:

Landsbankinn er með því að hafa lánað Kveldúlfi fimm milljónir króna,- orðinn háður þessu fyrirtæki. Thorsararnir sitja inni með helztu núverandi verzlunarsambönd í saltfiski á Spáni og Ítalíu — og fá menn til að trúa því, að enginn geti selt þar fisk nema þeir. Þeir hóta að láta Kveldúlf hætta, ef þeir ekki fái fisksöluna einir. Landsbankinn hlýðir og beygir ríkisstjórnina. — Þannig er svívirðilegasta svikamylla landsins skipulögð. Kveldúlfur hefir sett Landsbankann í sömu klípu og Copland forðum Íslandsbanka. (sjá hér)

Þeir sem komu einkum við sögu að þessu sinni voru Magnús Sigurðsson, bankastjóri Landsbankans og Richard Thors fyrir hönd Kveldúlfs. Þess má geta að Magnús Sigurðsson var skipaður í bankaráð af Framsóknarflokknum en Richard Thors var bróðir Ólafs Thors sem hafði setið á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í 9 ár þegar þetta var (sjá hér).

Það er líka vert að benda á það að á þessum árum voru öll helstu samningamál þjóðarinnar erlendis í höndum þessara tveggja (sjá krækjuna hér að ofan í minningargrein um Magnús Sigurðsson og þess hér varðandi þetta hlutverk Richards). Þetta kom sennilega ekki síst til af því að þegar Sölusamband íslenskra fiskframleiðenda var stofnað árið 1932 varð Richard formaður sölunefndar þess en Magnús meðstjórnandi (sjá hér).

Tveimur árum síðar lagðist Sölusambandið ásamt bankastjórnum bæði Landsbanka og Útvegsbanka alfarið gegn frumvarpi um það að ríkið tæki upp einkasölu á sjávarafurðum (sjá hér) sem var sú leið sem nágrannaþjóðirnar fóru til að bregðast við afleiðingum kreppunnar á sjávarútvegsfyrirtækin (sjá hér). Á þeim tíma var Thor Thors einn framkvæmdastjóra Kveldúlfs og forstjóri Sölusambandsins en seinna embættinu gegndi hann til ársins 1940 eða nær allan sinn þingferil (sjá hér).

Það má líka minna á það í þessu sambandi að Ólafur Thors var einn framkvæmdastjóra togarafélagsins Kveldúlfs hf. á árunum 1914—1939, hann var formaður Félags íslenskra botnvörpuskipaeigenda frá árinu 1918 til ársins1935 og sat í landsbankanefnd frá 1928 til 1938 og í bankaráði Landsbankans á árunum 1936 til 1944 og svo frá árinu 1948 til æviloka (sjá hér)

Togarinn Snorri goði sem var í eigu Kveldúlfs h/f

Nýríkur útvegsaðall vindur bönd

Útgerðarmennirnir höfðu sterk ítök hvort sem það sneri að stjórnendum bankanna eða íslensku ríkisstjórninni. Böndin voru margvísleg en það má benda á ættar-, vináttu- og hagsmunabönd auk stéttarbanda sem er e.t.v. ónákvæmt hugtak en ætti þó að skiljast í þessu samhengi. Þegar horft er til þess hvernig nýríkur útvegsaðall landsins með fulltingi banka og landsstjórnar skipuðu sjálfa sig til þeirra forréttinda að ráðstafa sjávaraflanum og hagnaðinum af honum af eigin geðþótta er útilokað að finna nokkur skynsamleg rök önnur en bönd sem binda menn saman í hópa vensla og/eða hagsmuna.

Þegar sögulegar staðreyndir frá fyrstu áratugum síðustu aldar um lánafyrirgreiðslu tveggja banka til stærstu fiskverkunarfyrirtækjanna eru rifjuð upp og það að það voru þessi sömu fiskverkunarfyrirtæki sem ullu því að báðir bankarnir hrundu á einum og hálfum áratug þá er ljóst að það er ekki skynsemin sem hefur stjórnað hvorki í bankanum eða fiskverkunarfyrirtækjunum.

Þegar það er svo rifjað upp að landsstjórnirnar, sem gáfu sig út fyrir að vilja þjóðinni aukið sjálfstæði með því að gera stjórnsýsluna innlenda, höfðu hneppt alla þjóðina í skuldir útvegsins við bankanna áður en landið varå  sjálfstætt ríki þá þrjóta öll rök skynseminnar og það eitt stendur eftir að það var eitthvað annað sem réði ákvörðunum þeirra en hagsmunir þeirrar þjóðar sem átti sér drauma um bætt kjör með sjálfstæðinu.

Reykjavík ~1930

Árið 1929 knúðu stærstu útgerðarfélögin, Alliance og Kveldúlfur, fram samninga við þáverandi ríkisstjórn um ívilnanir af hennar hálfu varðandi lækkun tekjuskatts af hagnaði fyrirtækjanna þannig að þeir gætu mætt verkfallskröfum sjómanna. Rök útgerðarmannanna fyrir þessum ívilnunum, sem er útlit fyrir að hafi fengist í gegn, voru þau að þannig ættu þeir frekar möguleika á að mæta kauphækkunarkröfum sjómannanna.

Skipin [í eigu Kveldúlfs] máttu liggja og sjómenn máttu ganga atvinnulausir hálfan annan til tvo mánuði, þangað til útgerðarmenn gátu neytt ríkisstjórnina til þess að veita sér hlunnindi — ívilnun í tekjuskatti, skatti af hreinum gróða — svo þeir gætu greitt sjómönnum tæpan helming af kröfunni sem um var deilt, eða um 15% kauphækkun.

Og þessi hlunnindi fá aðeins þau útgerðarfélög, sem bezt eru stæð, sem græða. Hin, sem ekki græða og kynnu að þarfnast hjálpar, þau njóta einskis góðs af þessu. (sjá hér)

Tryggvi Þórhallsson Árið 1929 var Ólafur Thors framkvæmdastjóri Kveldúlfs, formaður Félags íslenskra botnvörpuskipaeigenda eins og áður hefur komið og hafði þá setið á þingi fyrir Íhaldsflokkinn (forvera Sjálfstæðisflokksins) í þrjú ár. Framsóknarflokkurinn var hins vegar í stjórn og var Tryggvi Þórhallsson forsætisráðherra á þessum tíma ásamt því að fara með atvinnu- og samgönguráðuneytið. Hann fór líka með embætti fjármálaráðherra á þessum tíma (sjá hér). Jónas Jónsson frá Hriflu var dómsmálaráðherra. Þess má geta hér í framhjáhlaupi að Tryggva hefur verið eignaður frasinn: „Allt betra en Íhaldið.“ (sjá hér). Af hvaða tilefni hann lét sér þessi orð um munn fara fylgir ekki sögunni.

Í forsætisráðherratíð Tryggva Þórhallssonar jukust opinber hagstjórnarafskipti ríkisins verulega. Þau komu fram með ýmsu móti. Þar má nefna innflutningshöft (sjá t.d. hér), samgönguumbætur (sjá hér) og uppbyggingu atvinnufyrirtækja. Meðal þeirra var Síldarverksmiðja ríkisins reist á Siglufirði.

Síldin er einn helsti örlagavaldur Íslendinga á [tuttugustu öldinni] og án hennar er vafasamt að hér hefði byggst upp það nútímasamfélag sem við þekkjum í dag. [...] á þriðja áratugnum átti síldarútvegurinn erfitt uppdráttar. Á fjórða áratugnum var yfirleitt mikil síldveiði og fjöldi nýrra síldarbræðslna tók til starfa. Líklegt má telja að ef síldarinnar hefði ekki notið við þá hefði kreppan upp úr 1930 orðið mun dýpri  en raunin varð á og hugsanlega gengið af sjávarútveginum dauðum og þar með íslensku efnahagslífi. (sjá Íslenskan söguatlas, II. bd: 40)

Tryggi Þórhallsson féll í ónáð í sínu kjördæmi vegna fyrirhugaðra breytinga á kosningakerfinu en Hermann Jónasson var kosinn nýr þingmaður Strandamanna árið 1934. Eins og áður hefur komið fram varð hann forsætisráðherra um leið og hann kom inn á þing og skipaði sjálfan sig sérstakan talsmann landbúnaðarins með því að taka málaflokkinn út úr atvinnumálaráðuneytinu. Tími stjórnar hinna vinnandi stétta var runnin upp.

„Blessuð síldin“ bjargaði efnahag landsins frá hruni

Þetta var tíminn sem Afurðasölulög voru sett á Alþingi. Samkvæmt opinberum gögnum var þeim ætlað að tryggja bændum sama verð fyrir sínar afurðir án tillits til búsetu í landinu. Sumir vildu þó meina að þeim hefði verið ætlað að koma höggi á Thorsarana þar sem þessum lögum fylgdu önnur um mjólkursamlög sem var tryggt einkasöluleyfi á mjólkurafurðum. Þetta kippti rekstargrundvellinum undan rjómabúinu sem Thor Jensen hafði látið reisa á Korpúlfsstöðum nokkrum árum áður (sjá hér).

Það var kreppa á Íslandi á þessum tíma og sjómenn fóru tvisvar sinnum í verkfall. Fyrst í árslok 1935 og lauk því með samningum einum og hálfum mánuði síðar. Síðara verkfallið hóst í upphafi árs 1938 og lauk með lagasetningu frá Alþingi tveimur og hálfum mánuði síðar (sjá hér) Í framhaldinu voru sett lög um stéttarfélög og vinnudeilur sem enn eru í gildi.

Lögin um stéttarfélög og vinnudeilur eða vinnulöggjöfin eins og hún er oftast kölluð var lögtekin árið 1938. Vinnulöggjöfin mótar samskipta- og leikreglur á íslenskum vinnumarkaði. Helsta markmið hennar er að tryggja vinnufrið í landinu, lögin eiga að tryggja að vegna árekstra sem kunna að skapast á milli aðila vinnumarkaðarins hljótist sem minnst tjón fyrir atvinnulífið í landinu. Verkalýðshreyfingin hefur ekki séð ástæðu til breytinga á vinnulöggjöfinni í gegnum tíðina og hefur ekki sýnt frumkvæði í þá veru (sjá hér).

Miðað við það sem segir hér að ofan er tilgangur laganna um verkfallsréttin ekkert síður sett fram til varnar atvinnurekendum. Þegar rýnt er ofan í lögin er líka ljós að skilin er eftir möguleiki stjórnvalda til að grípa inn í verkföll. Sjómenn hafa reyndar gjarnan kvartað undan því að íslensk stjórnvöld hafi of ríka tilhneigingu til að grípa inn í verkföll þeirra til varnar hagsmunum útgerðarmanna (sjá hér).

Það er rétt að taka það fram að lögin sem voru sett á verkfall sjómanna urðu til þess að ráðherra Alþýðuflokksins dró sig út úr stjórninni, sem hafði gefið sjálfri sér heitið: Stjórn hinna vinnandi stétta, en flokkurinn veitti Framsóknarflokknum þó áfram hlutleysi sitt (sjá hér). Reyndar var aðeins hálfur mánuður eftir af kjörtímabilinu þegar þetta varð. Eftir kosningarnar tók Framsóknarflokkurinn við stjórnartaumunum og lögfesti m.a. ofangreind lög um stéttarfélög og vinnudeilur (sjá hér).

Gunnlaugur Scheving

Úr böndum óðalsbænda í fjötra stórútgerðarinnar 

Það hefur þegar komið fram að stærstu útgerðaraðilarnir áttu trygga bakhjarla í bönkunum. Í krafti þeirra hafði tekist að samtíðavæða sjávarútveginn á undraverðum hraða ásamt því að byggja utan um starfsemina í landi. Vélvæðingin og fjöldi vinnufúsra handa sem streymdu á mölina tryggði eigendum stærri skipa og fiskverkunarstöðva í landi meira magn sjávarafurða en þeir gátu alltaf selt.

Offjárfestingar og önnur óábyrg fjármálahegðun hins nýríka útvegsaðals steypti Íslandsbanka í gjaldþrot árið 1930 en Útvegsbankinn var stofnaður á rústum hans. Árinu áður var Búnaðarbankinn stofnaður en honum var ætlað það hlutverk að styðja bændur sérstaklega (sjá hér).

Á rústum hans [Íslandsbanka], hins stærsta þrotabús, sem enn hefir þekkst á Íslandi, var Útvegsbankinn reistur, snemma á sama ári [1930]. Hlutverk hans er, eins og nafnið bendir til, að efla og styðja sjávarútveg landsmanna.

Ári áður var Búnaðarbankinn stofnaður með það höfuðhlutverk að styðja og efla hinn aðalatvinnuveg þjóðarinnar, landbúnaðinn. Þannig eiga þessar tvær bankastofnanir að vera meginstoðir undir atvinnulífi landsins, sín til hvorrar handar þjóðbankanum [Landsbankanum] (sjá hér).

Það er ekki meiningin að rekja sögu bankastarfsemi í landinu sérstaklega hér þó sagan sé vissulega forvitnileg og þá ekki síst fyrir það hvernig hún fléttast inn í þann grundvöll sem núverandi valdastrúktúr; verklag og hefðarreglur stjórnsýslunnar byggja á. Af því sem að framan er rakið ætti það að vera ljóst að fyrstu bankarnir tryggðu ekki aðeins ákveðnum aðilum yfirburðastöðu meðal nýrrar útvegsmannastéttar heldur er útlit fyrir að þeir hafi líka lagt þeim lið við að fara framhjá stjórnvöldum hvað varðar viðskiptasambönd og aðrar stórtækar efnahagsákvarðanir sem snertu hagsmuni allrar þjóðarinnar.

Nelson Mandela

Þetta hafði þær miskunnarlausu afleiðingar að fyrstu íslensku bankarnir; bæði Landsbanki og Íslandsbanki, komust í þrot áður en landið varð fullvalda. Fyrst Íslandsbanki sem var lýstur gjaldþrota árið 1930. Fimm árum síðar riðaði Landsbankinn til falls en ríkissjóður hljóp undir bagga og forðaði honum frá opinberu uppgjöri með því að taka við rekstri hans. Þetta gerðist þegar stjórn hinna vinnandi stétta fór með völdin yfir landsmálunum.

Í aðdraganda þess að Íslandsbankinn hrundi var Alþýðublaðið, málgagn Alþýðuflokksins, helsti vettvangurinn til að vekja athygli á því hvernig almenningur var leikinn fyrir samantekin ráð; Fiskhringsins, bankans og landsstjórnarinnar, um að fría sig ábyrgðinni af því hvernig var komið. Þegar Landsbankinn riðaði til falls árið 1935 var Alþýðuflokkurinn kominn í stjórn en þá er það Verkalýðsblaðið, málgagn Kommúnista, sem heldur því á lofti hvernig í pottinn var búið.

Landsbankinn hefir haft aðaleftirlit með gjaldeyrinum og úrslitaráðin. Eftirlit hans hefir verið ófullkomið og vítavert og full ástæða til að álíta að mikill fjárflótti hafi átt sér stað. Og auk þess hefir bankinn greitt í erlendum gjaldeyri allar múturnar til Spánar, 1,5 milljón kr., þó ekki séu nú til peningar fyrir matnum handa íslenzkri alþýðu.

Aðaltekjur landsins í erlendum gjaldeyri eru af fisksölunni. Landsbankinn knýr fram, að Kveldúlfur hafi fisksöluna. Kveldúlfur verzlar við firmu í Genua og Barcelona, sem Thorsararnir eru með í. Á þennan hátt er þeim gefið tækifæri til stórkostlegs fjárflótta. (sjá hér)

Eftir því sem næst verður komist voru aðrir fjölmiðlar þögulir um þessa hlið málanna og fáir utan Verkalýðsblaðsins dirfðust að bera saman stöðu Íslandsbanka um 1920 við vandræði Landsbankans á þessum tíma. Landsbankinn var fyrsti innlendi bankinn en Íslandsbanki hafði verið í eigu Dana. Niðurstaðan varð líka sú að Landsbankanum var forðað frá sömu örlögum og Íslandsbanka. Skuldir beggja voru þó færðar inn í reikning ríkissjóðs og þannig velt yfir á skattborgarana.

Karlar sitja á tunnum á meðan konur salta ofan í tunnur í gríð og erg

Árið 1937 birtist grein í Þjóðviljanum, málgangi Sósíalistaflokksins, þar sem þessi mál eru rifjuð upp og þau tengd rækilega saman ásamt því sem vakin er athygli á því hvaða afleiðingar þessi mál höfðu á lífskjörin í landinu:

Íslenska þjóðin vill ekki þola þetta ástand lengur. Hún veit að sukkið fer versnandi, ef því er hlíft. Hefði Íslandsbanki verið gerður upp 1921, þá hefði þjóðinni verið sparað stórfé.

Verði sú óreiða, sem nú hefir skapast kringum Kveldúlf, látin haldast áfram þá verður hrunið enn þá ógurlegra, þegar loksins kemur að skuldadögunum. Það ríður því á að skera strax á kýlinu, hreinsa til og skapa traustan grundvöll fyrir heilbrigt fjármálalíf. En í sökkvandi dýi getur engin traust bygging staðið.

Íslenska þjóðin hefir horft upp á að bankarnir, síðan 1920, hafi tapað milli 40—50 miljónum króna, eða 3 miljónum á ári að meðaltali. Það er næstum eins há upphæð og alt sparifé þjóðarinnar, sem búið er að fleygja þannig í braskara með óstjórn bankanna, meðan alþýðan líður skort.
(sjá hér)

Greinin sem þessi tilvitnun vísar til er vel þess virði að lesa hana alla. Það er líklegt að einhverjir vilji taka því sem þar stendur með fyrirvara, þ.á m. upphæðinni sem er nefnd þar. Þess vegna skla bent á að í grein sem birtist í Tímanum árið 1939, og fjallar um þá tíu ára starfsemi Búnaðarbankans, er gert ráð fyrir að samanlagt tap bankanna tveggja hafi ekki verið undir 35-40 milljónum íslenskra króna (sjá hér).

Það er líka vert að benda á grein sem birtist í Alþýðublaðinu einum mánuði eftir Þjóðviljagreinina. Greinin heitir „Orð og athafnir Alþýðuflokksins“. Þar kemur fram að það hefur verið boðað til kosninga árið eftir enda kjörtímabilið þá á enda. Greinin er afar berorð um það sem vart verður kallað annað en fjármálasukk Thorsfjölskyldunnar með stuðningi bankastjórnar Landsbankans. Hér verður vitnað til þess sem segir undir lok þessarar ýtarlegu greinar:

Hví skyldu smáútgerðarmennirnir, sem neitað er um rekstursfé, telja það forsvaranlegt að láta stórútgerðarfélögin komast upp með það að greiða ekki vexti af því fé, sem þeim hefir verið lánað, en myndu nægja smáútgerðinni til framdráttar í meðalári? Og hví skyldi allur almenningur, sem undanfarin ár hefir stunið undir drápsklifjunum, sem Íslandsbankasvindlið á sínum tíma lagði á þjóðina, ekki krefjast þess að slíkt endurtaki sig ekki framvegis? (sjá hér bls. 3)

Verkafólk á mölinni

Það er ekki útilokað að sumir lesendur þessara orða séu löngu búnir að missa þráðinn í því hvernig þessum skrifum um sjávarútveginn er ætlað að tengjast samanburði á þekkingar- og reynsluferlum ráðherra núverandi ríkisstjórnar við þá sem fóru með framkvæmdarvaldið í þeirri síðustu. Þó geri ég frekar ráð fyrir að þeir sem hafi lesið þennan texta, sem stöðugt teygist úr miðað við upphaflegt markmið, átti sig á að þegar uppruna hefðarinnar að núverandi fyrirkomulagi við skipun ráðherra er leitað þarf að rýna vel til fortíðarinnar.

Uppruni íslenskra stjórnmálahefða liggur í umbrotatímum síðustu áratuga 19. aldar og fyrstu áratuga þeirrar 20. Tímans þegar vondjarfur almenningur braust undan oki vistarbandsins, sem hafði tryggt efnuðustu bændunum vinnukrafta kynslóðanna, og þyrptist niður að sjávarsíðunni og freistaði þess að lifa af því sem sjórinn gaf. Í afurðavon sjávarins sáu margir tækifæri til að geta séð sjálfum sér og fjölskyldu sinni farborða. Þeir veiddu fisk, fæddu fjölskylduna og lögðu umframaflann inn hjá kaupmanninum og trúðu því að brátt myndu þeir vinna sér sjálfstæði.

En fyrr en varði urðu til nýir fjötrar og ný einokun fyrir það að niður við sjávarsíðuna fundust þeir líka sem áttu sér svo stóra drauma um eignir og yfirráð að þeir þurftu vinnuafl til að láta drauma sína rætast. Hinn nýfrjálsi verkalýður sveitanna hafði hvorki stéttarvitund né forsendur til að setja fram kröfur um kaup og önnur kjör. Á vissan hátt má segja að nýju vinnuveitendurnir niður við sjóinn hafi gengisfellt virði einstaklingsins og vinnuframlag hans enn frekar en tíðkaðist til sveita þar sem vinnuaflið hafði í það minnsta fæði og húsnæði allan ársins hring.

Vinnufólkí sveit

Hér er ekki verið að reyna að horfa fram hjá því að vissulega var aðbúnaður vinnuaflsins í gamla bændasamfélaginu æði misjafn og stundum vart til að halda lífi í nema þeim sterkbyggðustu. Hins vegar er vart hægt að horfa fram hjá því að forræðishyggja bændasamfélagsins dó ekki út með því að sjávarútvegurinn dró vinnuaflið yfir til sín. Brauðmolahagfræði bændasamfélagsins leið engan vegin undir lok með þéttbýlismynduninni og áður en Ísland varð fullvalda hafði verklýðurinn og aðrir landsmenn verið hnepptur í skuldafjötra fyrstu útgerðarrisanna og bankastjóranna sem höfðu farið þannig með ráðstöfunarfé bankanna að því hafði verið veitt í fyrirtæki þeirra frekar en önnur brýn framfaraverkefni sem snertu lífsgæði allra landsmanna.

Þegar saga ráðherra heimastjórnartímabilsins er skoðuð verður ekki hjá því vikist að horfast í augu við það að brauðmolakenningin var sú hagfræði sem stuðst var við í efnahagsstjórn landsins. Þrátt fyrir yfirlýst markmið um það að Ísland yrði sjálfstætt ríki með fullvalda þjóð þá studdu ráðherrarnir stærstu útvegsaðilana og bankastjórana sem þeir höfðu bundist í einokuninni á útflutningi sjávarafurða. Sömu aðilum var falið og/eða treyst fyrir viðskiptasamböndunum erlendis og aðrir útilokaðir frá því að versla með afurðirnar.

Sú aldagamla hefð að þeir sem ættu mest undir sér töluðu fyrir hönd þjóðarinnar hvarf þar af leiðandi alls ekki með uppgangi sjávarútvegsins um þar síðustu aldamót. Forræðishyggja bændasamfélagsins sat á þjóðfundinum árið 1851 og sat áfram á þingi allt landshöfðingjatímabilið. Þegar heimastjórnartímabilið rann upp var hugmyndafræði brauðmolakenningarinnar langt frá því að vera útdauð.

Kannski var það þess vegna sem niðurstaðan varð sú að bæði bankastjórar fyrstu bankanna hér á landi og vildarvinir þeirra og eigendur stærstu útgerðarfyrirtækjanna var hlíft við ábyrgðinni af skuldsetningunni sem þeir höfðu stofnað til í þeim tilgangi að tryggja fiskverkunarfyrirtækjunum sínum yfirburðastöðu. Kannski var það hugmyndin um það að almenningur nýtti það sem flæddi út af ofdekkuðu borði þeirra efnaðri sem gerði það að verkum að skuldum Coplands við Íslandsbanka og Kveldúlfs við Landsbanka  var steypt yfir þjóð sem dreymdi um frelsi fullvalda þjóðar í sjálfstæðu ríki. 

Konur sem unnu erfiðisvinnu af þessu tagi í kringum þar síðustu aldamót voru kallaðar áburðarkonur

Hér verður látið staðar numið að sinni en í næsta hluta verður farið yfir helstu lagasetningar sem varðar sjávarútveginn auk þess sem þess verður freistað að draga fram einhverjar heimildir um afleiðingar þeirra. Þar verður einkum horft til afleiðinga á vinnuafl, landsbyggð og efnahagsmál samfélagsins eftir því sem heimildir duga til. 

Heimildir um ráherra og ráðuneyti

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið: Ráðuneyti: Sögulegt yfirlit

Ríkisstjórnir og ráðherrar frá 1904-1942
Ríkisstjórnartal frá stofnun lýðveldis

Ráherraskipan í síðara ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttir
Ráðherrar í núverandi ríkisstjórn

 Krækjur á lög sem varða sjávarútveginn

Lög um hvíldartíma háseta á íslenskum botnvörpuskipum (Vökulögin). 1921 nr. 53 27. júní

Lög um stéttarfélög og vinnudeilur. 1938. nr. 80 11. júní

Heimildir sem varða sögu og þróun í sjávarútveginum

Hilmar Stefánsson. Búnaðarbankinn eftir tíu ára starf. Tíminn. 15. júní 1939.

Samvinnuslit stjórnarflokkanna. Alþýðumaðurinn. 19. maí 1937.

Orð og athafnir Alþýðuflokksins. Alþýðumaðurinn. 23. mars 1937.

Landsbanka- og Kveldúlfshneykslið. Þjóðviljinn. 2. febrúar 1937. 

Hvaða völd hefir Magnús Sigurðsson? Verkalýðsblaðið. 18. nóvember 1935. 

Hver stjórnar Íslandi? Fiskhringurinn eða landsstjórnin? Verkalýðsblaðið. 5. nóvember 1935 (vísað í mál frá árinu 1920): 3

Samsæri Kveldúlfs og Landsbankans. Verkalýðsblaðið. 5. nóvember 1935.

Alræði fjármálaauðvaldsins á Íslandi. Verkalýðsblaðið. 5. júní 1935.

Kjör sjómanna. Verkalýðsblaðið. 10. desember 1934.

Sölusamband íslenskra fiskframleiðenda stofnað. Ægir. 1. ágúst 1932.

Fiskihringurinn Copland og Claessen. Alþýðublaðið. 31. maí 1932.

Pétur H. Guðmundsson. Háskólakennarinn á undanhaldi. Alþýðumaðurinn. 11. nóvember 1929.

Hver stjórnar Íslandi? Fiskhringurinn eða landsstjórnin? Alþýðumaðurinn. 20. ágúst 1920.


mbl.is Smábátar komu með yfir 82 þúsund tonn að landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til kvótastýrðs sjávarútvegs I

Í síðustu færslu var farið yfir þá embættissögu og stjórnsýslulegu ákvarðanir sem liggja núverandi stöðu í  landbúnaðarmálum til grundvallar. Hér er meiningin að fara svipaða leið hvað varðar sjávarútveginn með þeirri undantekningu þó að umfjölluninni um sjávarútvegsmálin verður skipti í tvennt. Hér verður því farið yfir embættissöguna en í næstu færslu verður farið yfir þær ákvarðanir sem liggja núverandi stöðu í málefnum sjávarútvegsins til grundvallar.

Færslurnar þrjár eru undanfarar að framhaldi á þeim samanburði sem þetta blogg hefur verið lagt undir síðastliðnar vikur þar sem menntun, reynsla og þekking ráðherranna í núverandi og síðustu ríkisstjórn hafa verið bornar saman. Þessi og síðasta færsla eru sem sagt undanfarar að sjöundu færslunni í því verkefni sem snýr að Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytinu.

Það var Steingrímur J. Sigfússon sem gegndi þessu embætti undir lok síðasta kjörtímabils en Sigurður Ingi Jóhannsson gegnir því nú. Eins og kom fram í síðustu færslu hefur Steingrímur samtals verðið æðstráðandi í Landbúnaðarráðinu í u.þ.b. sex ár.

Undirstöðuatvinnuvegirnir

Embættissaga sjávarútvegsmála

Það var sagt frá því í síðustu færslu að Sigurður Jónsson, gjarnan kenndur við bæinn Ystafell í Köldukinn, er elsti atvinnumálaráðherrann í ríkisstjórnarsögu Íslands. Atvinnumálaráðherra var eitt þeirra þriggja ráðherraembætta sem skipað var til í fyrstu íslensku ríkisstjórninni og hélst sú hefð þar til heitið var lagt niður árið 1949. Þá höfðu viðskipta-, iðnaðar-, landbúnaðar- og sjávarútvegsmálin fest sig í sessi sem málaflokkar sem komu fram í embættisheitum þeirra ráðherra sem fóru með viðkomandi málefni. 

Magnús Guðmundsson Magnús Guðmundsson, sem hefur komið áður við sögu, var fyrsti ráðherrann til að fara með sjávarútvegsmálin. Þetta var í sjöundu ríkisstjórninni sem var mynduð hér á landi. Hún var sett saman árið 1932 af Ásgeiri Ásgeirssyni (síðar forseta). Ásgeir skipaði Magnús dómsmálaráðherra í þessari fyrstu og einu ríkisstjórn sem hann fór fyrir en Magnús fór einnig með sjávarútvegs-, iðnaðar-, samgöngu- og félagsmálin.

Magnús fékk lausn frá embætti 11. nóvember 1932.  Ólafur Thors tók við embættinu til 23. desember 1932 en þá tók Magnús við að nýju (sjá um ástæður þessa hér). Það vekur líka athygli að ráðuneyti Ásgeirs fékk lausn 16. nóvember 1933 en gegndi þó störfum til 28. júlí 1934.

Ferilskrá Magnúsar er sannarlega athyglisverð miðað við tímann og tækifærin sem sögulegar heimildir benda til að hafi verið hér í upphafi fjórða áratugarins.  Áður en Skagfirðingar kusu hann inn á þing hafði hann verið aðstoðarmaður í atvinnu- og samgönguráðuneytinu í fimm ár. Af þessum tíma var hann reyndar þrjá mánuði í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Tveimur árum eftir að hann var kosinn inn á þing, þar sem hann sat í 21 ár eða frá 38 ára aldri til dauðadags, var hann skipaður skrifstofustjóri Fjármálaráðuneytisins.

Annað sem vekur athygli í ferilskrá Magnúsar er að hann var sýslumaður Skagfirðinga á árunum 1912-1918 en hann var kosinn inn á þing árið 1916. Á meðan hann starfaði sem aðstoðarmaður á ráðuneytisskrifstofunum í Stjórnarráðinu var hann jafnframt fulltrúi Eggerts Claessens, yfirréttarmálaflutningsmanns  og málaflutningsmaður Landsbankans. Árið 1912 var hann skipaður til að „takast á hendur rannsókn á gjaldkeramáli Landsbankans“ (sjá hér og nánar um gjaldkeramálið hér).

Jóhann Þ. Jósefsson Jóhann Þ. Jósefsson var sá fyrsti sem var skipaður sjávarútvegsráðherra en hann gegndi því embætti ekki nema í rúma þrjá mánuði. Á sama tíma var hann líka æðstráðandi í Iðnaðarráðuneytinu auk þess að fara með bæði heilbrigðis- og flugmál. Þetta var á tíma þriðja ráðuneytis Ólafs Thors sem var starfandi frá því í desember 1949 fram í miðjan mars árið eftir. Kjörtímabilið á undan (1947-1949) var Jóhann fjármála- og atvinnumálaráðherra (sjá hér)

Ekki er getið um neina skólagöngu í ferilskrá Jóhanns sem er að finna inni á alþingisvefnum. Aftur á móti kemur það fram annars staðar að hann hafi aflað „sér [...] góðrar menntunar að mestu án skólagöngu.“ (sjá hér) Af ferilskrá hans má ráða að hann var umsvifamikill bæði í nærsamfélaginu í Vestmannaeyjum og á vettvangi félagssamtaka útvegsmanna en auk þess var hann í ýmsum opinberum samskiptum við erlenda pólitíkusa og viðskiptaaðila; einkum þýska (sjá nánar hér).

Jóhann rak verslun og útgerð í Vestmannaeyjum í nær hálfa öld í félagi við annan alþingismann. Þetta var á árunum 1909 til 1955. „Höfðu þeir umsvifamikinn atvinnurekstur bæði í verslun og útgerð.“ (sjá hér) Árið 1918 var Jóhann kjörinn í fyrstu bæjarstjórn Vestmannaeyja þar sem hann sat í tuttugu ár eða fram til ársins 1938. Hann var kjörinn inn á þing árið 1923 og var alþingismaður til ársins 1959 eða alls í 36 ár.

Í upphafi fjórða áratugarins var Jóhann í milliþinganefnd í sjávarútvegsmálum og á sama tíma gerðist  hann afar atkvæðamikill innan ýmissa félagssamtaka á sviði útgerðarmála. Þar má nefna að hann var í stjórn Sölusambands íslenskra fiskframleiðenda frá stofnun þess árið 1932. Útgerðarmenn kusu hann í síldarútvegsnefnd árið 1938. Við stofnun Samlags skreiðarframleiðenda árið 1953 var Jóhann svo skipaður framkvæmdastjóri þess. Því embætti gegndi hann næstu sjö árin eða til ársins 1960. Þess má svo geta að nánast allan fjórða áratuginn var Jóhann fulltrúi ríkisstjórnarinnar við verslunarsamninga í Þýskalandi (sjá nánar hér).

Eins og áður hefur komið fram staldraði Jóhann Þ. Jósefsson stutt við í sæti sjávarútvegsráðherra en engu að síður hefur hann lagt grunn að umgjörð sjávarútvegsins í öðrum embættisbundnum verkefnum. Þó er líklegt að hann sé flestum gleymdur í dag svo og margir þeirra sem gegndu embætti sjávarútvegsráðherra á síðustu öld. Þó verður það að teljast líklegra að einhverjir þeirra sem gegndu embættinu í meira en eitt kjörtímabil séu þeim sem hafa fylgst með innlendum sjávarútvegsmálum enn í fersku minni.

Nokkrir sjávarútvegsráðherrar frá 20. öld

Ólafur Thors er væntanlega öllum sem hafa sett sig eitthvað inn í íslenska pólitík þokkalega kunnugur þó þeir séu líklega færri sem hafa sett það á sig að hann sat í sex ár yfir sjávarútvegsráðuneytinu. Fyrst var það á árunum 1950 til 1953 en þá var Steingrímur Steinþórsson forsætisráðherra. Á þessum tíma fór Ólafur líka með iðnaðarráðuneytið. Næsta kjörtímabil á eftir var Ólafur forsætisráðherra í þriðja skipti og fór þá líka yfir Sjávarútvegsráðuneytinu.

Þess má geta að enginn nema Hermann Jónasson hefur verið forsætisráðherra jafnoft og Ólafur Thors. Alls fimm sinnum báðir. Í þessu samhengi er forvitnilegt að staldra ögn við og bera þá tvo lítillega saman. Hermann Jónasson var fæddur 1896 í Skagafirði. Ólafur í Borgarnesi árið 1892.

Ólafur varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1912. Í framhaldinu las hann lög við Hafnarháskóla og Háskóla Íslands en lauk aldrei náminu. Hermann varð stúdent frá sama skóla og Ólafur árið 1920. Fjórum árum síðar tók hann lögfræðipróf frá Háskóla Íslands. Hann varð hæstaréttarlögmaður árið 1945.

Hermann var 37 ára þegar hann var fyrst kosinn inn á þing fyrir Framsóknarflokkinn þar sem hann átti sæti í 33 ár. Það sem vekur ekki sísta athygli í sambandi við feril Hermanns er að hann varð forsætisráðherra sama ár og hann var kjörinn inn á þing í fyrsta skipti árið 1934. Þessu embætti gegndi hann alls fimm sinnum eða í átta ár. Samhliða forsætisráðherraembættinu fór hann allan tímann með dóms- og kirkjumálaráðuneytið ásamt fleiri málefnum. Oftast landbúnaðarmálunum. Alls gegndi Hermann fjórum ráðherraembættum og fór með 9 ólíka málaflokka fyrir utan málefni forsætisráðherra (sjá nánar hér).

Ólafur var 33ja ára þegar hann var kosinn inn á þing í fyrsta skipti fyrir Íhaldsflokkinn (síðar Sjálfstæðisflokkinn) árið 1926. Ólafur hafði því setið inni á þingi í 8 ár þegar Hermann kom þar fyrst. Fyrsta ráðherraembættið sem Ólafur gegndi var afleysing í Dómsmálaráðuneytinu á meðan flokksbróðir hans, Magnús Guðmundsson, stóð í málaferlum þar sem Hermann Jónasson kom nokkuð við sögu (sjá hér). Magnús var fjarrverandi í hálft ár eða þar til hann var sýknaður. Þá sneri hann aftur og tók við embætti dómsmálaráðherra að nýju (sjá nánar hér ofar þar sem fjallað er um þetta atriði).

Skreiðarstulkan starir á hafið

Í þriðja ráðuneyti Hermanns Jónassonar (1939-1941) var Ólafur Thors skipaður atvinnu- og samgönguráðherra og aftur í því fjórða (1941-1942). Á þeim tíma tók hann líka við Utanríkisráðuneytinu þegar hálft ár var eftir af kjörtímabilinu. Ólíkt Hermanni hafði Ólafur setið á Alþingi í 16 ár þegar hann varð forsætisráðherra í fyrsta skipti árið 1942. Hann varð hins vegar forsætisráðherra jafnoft og hann eða í fimm skipti en sat alls í 10 ár sem slíkur. Að síðasta forsætisráðherratímabili hans undanskildu þá fór hann ávallt með fleiri ráðuneyti og málaflokka en forsætisráðuneytisins.

Sjávarútvegsmálin voru einn þeirra málaflokka en hann stýrði því í fyrsta skipti á árunum 1950-1953 eins og hefur komið fram hér áður. Á þeim tíma fór Hermann Jónasson með landbúnaðarmálin. Þann tíma sem Ólafur sat inni á þingi fór hann með alls fimm ráðherraembætti og níu málaflokka (sjá nánar hér).

Það er svo vel við hæfi að ljúka þessum samanburði á því að benda á að Hermann Jónasson var formaður Framsóknarflokksins í 18 ár eða á árunum 1944 til 1962. Ólafur Thors var formaður Sjálfstæðisflokksins frá 1934 til 1961 eða í 27 ár!

Líkt og flokksbróðir Ólafs Thors, Jóhann Þ. Jósefsson, hafði Ólafur verið í útgerð áður en hann var kosinn inn á þing. Hann var framkvæmdastjóri togarafélagsins Kveldúlfs hf. í Reykjavík frá árinu 1914 til ársins 1939. Lengst af var hann líka formaður Félags íslenskra botnvörpuskipaeigenda eða á árunum 1918 til ársins 1935.

Á einæringi gegn ógnum hafsins

Emils Jónsonar hefur verið getið áður (sjá hér) þar sem hann var fyrsti iðnaðarráðherrann (sjá hér). Emil, sem var með verkfræðipróf frá Kaupmannahöfn, var æðstráðandi í alls sex málaflokkum á þeim samtals 18 árum sem hann var ráðherra. Hann var skipaður ráðherra í fyrsta skipti árið 1944 en lét af sínu síðasta ráðherraembætti árið 1971. Í fyrsta skipti sem hann var skipaður til ráðherraembættis var hann settur yfir Samgönguráðuneytið í öðru ráðuneyti Ólafs Thors

Árið 1958 hlaut Alþýðuflokkurinn stjórnunarmyndunarumboðið. Samkvæmt þeirri hefð sem hafði orðið til við fyrri ríkisstjórnarmyndanir tók Emil Jónsson, sem var  formaður Alþýðuflokksins á árunum 1956 til 1968 (12 ár), stól forsætisráðherra (sjá hér). Og samkvæmt þeirri venju sem er útlit fyrir að hafi skapast frá tíð fyrstu ríkisstjórnanna fór hann með fleiri mál samhliða ríkisráðsforystunni. Þ.á m. sjávarútvegsmálin. Ríkisstjórn Emils sat ekki nema í eitt ár en þá tók við 12 ára stjórnartíð Sjálfstæðis- og Alþýðuflokks. Emil Jónsson var ráðherra allan þann tíma. Þar af sex ár í Sjávarútvegsráðuneytinu.

Emil á ekki síður athyglisverðan feril, bæði utan og innan þings, en margir þeirra sem hafa verið skoðaðir hér á undan. Hann sat á þingi frá árinu 1934 til ársins 1971 eða hátt á fjórða áratug. Átta árum áður en hann settist inn á þing stofnaði hann Iðnskólann í Hafnarfirði, eða árið 1926, samkvæmt ferilskrá hans hefur hann verið embættissækinn og gegnt mörgum opinberum ábyrgðarstörfum á sama tímanum. Einkum er þetta áberandi á fjórða áratugnum.

Þá hefur hann verið skólastjóri Iðnskólans í Hafnarfirði, bæjarstjóri þar frá 1930 til 1937 og alþingismaður frá 1934. Eftir að Emil lét af bæjarstjórastöðunni tók hann við stöðu vita- og hafnamálastjóra. Fyrst á árunum 1937 til 1944 og síðar frá 1949 til 1957. Það er rétt að benda á það að þó Emil hafi ekki verið í embætti bæjarstjóra í Hafnarfirði eftir 1937 þá var hann fulltrúi í bæjarstjórn þar fram til ársins 1962. Annað sem vekur athygli er að Emil hefur verið bankastjóri Landsbankans á sama tíma og hann sat inni á þingi eða frá 1957 til 1958. Hann sat síðan í bankaráði Seðlabankans 1968—1972. (sjá hér).

Það er útlit fyrir að sú þekking og reynsla sem skipun Emils í embætti sjávarútvegsráðherra hafi grundvallast á stöðu hans sem  vita- og hafnamálastjóri á árunum 1937 til 1944 og 1949 til 1957 en auk þess hafði hann setið í fiskimálanefnd á árunum 1938 til 1939. Af þessu og fleiri dæmum sem hér hafa verið talin má vera ljóst að sú hefð hefur fest snemma í sessi að skipun í embætti ráðherra byggir ekki á staðgóðri þekkingu í þeim málaflokkum sem framkvæmdavaldinu er ætlað að fara með í umboði íslenskra kjósenda.

Síldin kom og gaf og tók

Eggert G. Þorsteinsson var flokksbróðir Emils Jónssonar og tók við sjávarútvegsráðuneytinu af honum þegar Emil var færður yfir í annað ráðuneyti í forsætisráðherratíð Bjarna Benedikssonar eldri (sjá hér). Eggert hefur komið við þessa sögu tvisvar sinnum áður. Fyrst þar sem Heilbrigðisráðuneytið var til umfjöllunar og síðar í umfjöllun um Félagsmálaráðuneytið.

Eggert sat inni á þingi fyrir Alþýðuflokkinn í 25 ár. Af þeim tíma var hann ráðherra í 6 ár. Eins og áður kom fram var hann settur yfir Sjávarútvegsráðuneytið í stað Emils í tilefni þess að hann var færður yfir annað ráðuneyti. Þetta var árið 1965. Eggert var sjávarútvegsráðherra í sex ár en fór auk þess m.a. yfir þeim ráðuneytum sem þegar hafa verið talin á sama tíma.

Eggert á sannarlega athyglisverðan feril eins og aðrir sem hafa verið skoðaðir hér en það er ekkert á ferli hans sem rökstyður það að hann hafi haft nokkra reynslu eða þekkingu á sjávarútvegsmálum að því undanskildu að hann er skipstjórasonur sem er fæddur og væntanlega uppalinn í Keflavík. Sex árum áður en hann settist inn á þing, eða þegar hann var 28 ára gamall, hafði hann útskrifast frá Iðnskólanum í Reykjavík í múrsmíði (sjá hér).

Gunnlaugur Scheving

Af þeim sem hér eru taldir átti Norðfirðingurinn og Alþýðubandalagsmaðurinn, Lúðvík Jósepsson, stystu viðdvölina í Sjávarútvegsráðuneytinu. Hann var fyrst skipaður sjávarútvegsráðherra í fimmtu og síðustu forsætisráðherratíð Hermanns Jónssonar sem stóð frá árinu 1956 til ársins 1958 (sjá hér) og síðar í fyrra ráðuneyti Ólafs Jóhannessonar (sjá hér) sem sat á árunum 1971 til 1974. Ef að líkum lætur eru þeir þó fleiri sem muna eftir Lúðvík í Sjávarútvegsráðuneytinu en þeim sem hafa verið taldir hér á undan.

Eina menntunin sem tekið er fram að Lúðvík hafi lokið er gagnfræðapróf sem hann lauk 19 ára gamall. Í framhaldinu starfaði hann sem kennari við Gagnfræðaskólann á Norðfirði í 9 ár. Hann var 29 ára gamall þegar hann var kosinn inn á þing þar sem hann sat í 37 ár. Þar af var hann sjávarútvegsráðherra í 5 ár eins og áður hefur komið fram en með því fór hann með Viðskiptaráðuneytið líka. 

Lúðvík átti það sameiginlegt með Eggert G. Þorsteinssyni að vera sjómannssonur. Hann átti það svo sameiginlegt með Jóhanni Þ. Jósefssyni og Ólafi Thors að standa í útgerð meðfram þingstörfunum. Í ferilskrá hans segir að hann hafi starfað að útgerð í Neskaupsstað á árunum 1944 til 1948 en þá orðið forstjóri Bæjarútgerðar kaupstaðarins og gegnt því embætti fram til ársins 1952 (sjá hér).

Hann á það svo sameiginlegt með Emil að meðfram þingmennskunni hefur hann haldið í stöðu sína í bæjarmálum sinnar heimabyggðar. Lúðvík var bæjarfulltrúi í Neskaupstað í 42 ár eða frá 1938 til 1970. Þar af var hann forseti bæjarstjórnar á árunum 1942 til 1943 og 1944 til 1956. Það má vekja athygli á því að þetta var eftir að hann var kosinn inn á þing. Þess má svo geta þess að Lúðvík varð ekki formaður Alþýðubandalagsins fyrr en undir lok þingferils síns eða á árunum 1977 til 1980.

Af ferilskrá Lúðvíks má ráða að hann hefur staðið opinn fyrir því sem sneri að útvegsmálum. Auk þess að standa að útgerð sjálfur á árunum 1944 til 1952 var hann í stjórn Fiskimálasjóðs á árunum 1947 til 1953 og í bankaráði Útvegsbanka Íslands frá 1957 til 1971. Hann starfaði tvisvar í milliþinganefnd Alþingis í sjávarútvegsmálum eða árin 1942 og 1956. Auk þessa má nefna að hann var kosinn í togaranefnd árið 1954 og var fulltrúi á Genfar-ráðstefnu um réttarreglur á hafinu árin: 1958, 1960 og síðan frá árinu 1975 til ársins 1982.

Ayn Rand

Halldór Ásgrímsson var kosinn inn á þing fyrir Framsóknarflokkinn árið 1974 og sat þar í 32 ár. Samkvæmt ferilskrá hans sem er að finna inni á vef Alþingis  er hann með samvinnuskólapróf frá árinu 1965. Árið 1970 hefur hann öðlast réttindi sem löggiltur endurskoðandi og í framhaldinu haldið út í framhaldsnám við verslunarháskólana í Björgvin og Kaupmannahöfn á árunum 1971 til 1973. Þess er ekki getið að hann hafi lokið námi frá hvorugum skólanum.

Halldór var 26 ára þegar hann var kosinn inn á þing í fyrsta skipti. Tíu árum síðar var hann skipaður sjávarútvegsráðherra í fyrsta ráðuneyti Steingríms Hermannsson (sjá hér). Þessu embætti gegndi hann næstu átta árin eða frá árinu 1983 til ársins 1991. Af þeim 32ur árum sem Halldór Ásgrímsson sat inni á þingi var hann ráðherra í 19 ár.

Halldór var varaformaður Framsóknarflokksins frá 1980 til 1994 en þá varð hann formaður flokksins. Þeirri stöðu gegndi hann til ársins 2006. Halldór hafði því setið í stjórn Framsóknarflokksins í ríflega aldarfjórðung þegar hann lét af formennsku flokksins. Það vekur líka athygli í ferilskrá Halldórs að hann sat í  bankaráði Seðlabanka Íslands í sex ár eða frá árinu 1976 til 1983. Þrjú síðustu árin var hann formaður þess.

Ólíkt þeim Jóhanni Þ. Jósefsyni, Ólafi Thors og Lúðvík Jósepssyni, sem hafa að öllum líkindum þótt vænlegir kostir í stöðu sjávarútvegsráðherra fyrir það að þeir stóðu í útgerð sjálfir, er útlit fyrir að Halldór Ásgrímsson hafi komist yfir þrjú útgerðarfyrirtæki vegna stöðu sinnar sem ráðherra. Þetta varð reyndar ekki opinbert fyrr en síðar (sjá t.d. hér) en sameining þeirra útgerðarfyrirtækja sem hann á hlut í fór fram árið 1999 en þá var Halldór utanríkisráðherra (sjá t.d. um sameininguna hér).

Þeir róa ekki alltaf sem fiska

Þorsteinn Pálsson var kosinn inn á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn árið 1983 og sat þar í 16 ár. Hann varð stúdent frá Verzlunarskólanum 21s árs að aldri. Sex árum síðar útskrifaðist hann með lögfræðipróf frá Háskóla Íslands og tveimur árum síðar hefur hann öðlast réttindi héraðsdómslögmanns. Ferill Þorsteins í pólitíkinni hófst í Háskólanum  þar sem hann var formaður Vöku í eitt ár, eða árið 1969-1970. Hann var svo í stúdentaráði skólans frá 1971 til 1973 og í háskólaráði á sama tíma.

Áður en hann settist inn á þing átti hann líka sæti í ýmsum nefndum en engin þeirra tengist sjávarútvegi. Árið 1981 settist hann í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins en varð formaður hans sama ár og hann var kosinn inn á þing þá 36 ára. Formennskunni gegndi hann til ársins 1991.

Af þeim 16 árum sem Þorsteinn sat á þingi sat hann á ráðherrastóli í 11 ár þar sem hann fór samtals með fjögur ólík ráðherraembætti. Þar af sat hann átta ár sem sjávarútvegsráðherra en fór með dóms- og kirkjumálaráðuneytið samhliða því. Þetta var á árunum 1987 til 1999.

Í lok þessa yfirlits má svo geta þess að árið 2007 var landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið sameinað með breytingu á lögum 73/1969. Lögin tóku gildi 1. janúar 2008 (sjá hér). Einar K. Guðfinnsson var fyrsti ráðherrann til að fara með mál þessa sameinaða ráðuneytis.

Stutt samantekt

Það er margt sem vekur athygli í yfirlitinu hér á undan þó það verði ekki dregið fram fyrr en síðar eða þegar kemur að úrvinnslu þess efnis sem hefur verið aflað í því verkefni að vekja athygli á því m.a. að í hefðinni sem hefur orðið til við skipun ráðherra liggur að öllum líkindum sá Akkilesarhæll sem hefur rúið íslensku stjórnmálaflokkanna trausti og stjórnsýsluna virðingunni. Þeir ráðherrar sem hafa gegnt stöðu sjávarútvegsráðherra hingað til hafa að jafnaði haft litla ef nokkra þekkingu á sjávarútvegsmálun.

Þeir sem hafa haft reynslu af sjávarútvegi gegndu jafnvel embætti sjávarútvegsráðherra í hagsmunaárekstri við sína eigin útgerð ásamt því að sitja í ýmsum stjórnum og ráðum útgerðarmanna. Af þessum ástæðum hefur löngum verið grunnt á tortryggni landsmanna gagnvart meintum tengslum útgerðarinnar við aðallega stærstu stjórnmálaflokkana í landinu.

Af yfirlitinu hér að framan er ekki annað að sjá en ástæðan sé fyrir hendi og hætt við að frekari rannsóknarvinna varðandi embættisfærslur liðinna áratuga í sjávarútvegsmálum þjóðarinnar eigi eftir að draga ástæður tortryggninnar enn skýrar fram.

Horft til vinstri og hægri

Heimildir um ráherra og ráðuneyti

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið: Ráðuneyti: Sögulegt yfirlit

Ríkisstjórnir og ráðherrar frá 1904-1942
Ríkisstjórnartal frá stofnun lýðveldis

Ráherraskipan í síðara ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttir
Ráðherrar í núverandi ríkisstjórn


mbl.is Tekjur af loðnu gætu snarminnkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband