Ráðherrasamanburður: Menntun

Þeir sem hafa verið úti á hinum almenna vinnumarkaði þekkja það væntanlega að einn af grunnþáttunum sem ráða úrslitum um það hvort viðkomandi telst hæfur til starfans sem um ræðir er að umsækjandi hafi aflað sér viðeigandi menntunar og starfsreynslu. Þetta á við hvort sem talað er um störf í einkageiranum eða hjá hinu opinbera.

Þegar það er svo sett í samhengi að lög og reglugerðir um menntun ýmissa starfsstétta eru á hendi ráðuneytanna, sem gefa auk þess út starfsleyfi að uppfylltum tilsettum skilyrðum, þá er ekki óeðlilegt að álykta sem svo að kröfurnar sem eru gerðar til menntunar og starfsreynslu þeirra sem eru skipaðir til æðstu embætta við stjórn landsins skuli vera áþekkar öðrum starfshópum eða a.m.k. ekki minni.

W.B. Yeats

Væntanlega er útilokað að setja fram einhlítar kröfur til menntunar- og starfsreynslu þeirra sem kunna að bjóða sig fram til þingmennsku. Þó er ekki óeðlilegt að gera einhverjar slíkar kröfur til þeirra sem raðast í efstu sæti hvers framboðslista en það er e.t.v. eðlilegast að hver stjórnmálaflokkur marki sér sína stefnu og starfsreglur hvað þetta varðar og hafi þær að sjálfsögðu opinberar og aðgengilegar. Öðru máli ætti þó að gegna um þá sem skipast til æðstu embætta innan ráðuneytanna sem fara með sameiginleg hagsmunamál alls samfélagsins.

Þar hlýtur að teljast eðlilegt að sá sem er skipaður ráðherra sé fremstur meðal jafningja innan viðkomandi  ráðuneytis hvað varðar þekkingu og reynslu af viðkomandi málaflokki. Mikill misbrestur hefur verið á þessu frá upphafi ráðherraskipunar á Íslandi og ekki ólíklegt að sá misbrestur hafi komið við hagsmuni allra hvort sem horft er til atvinnulífs, efnahagskerfisins eða annarra lífskjara einstaklinganna sem samfélagið byggja.
Alberta Einstein: Education is the training of the mind to thinkHér verður litið á menntun núverandi ráðherra og þeirra sem gegndu sambærilegum embættum undir lok síðasta kjörtímabils. Til að stytta þennan samanburð eitthvað verða ekki öll próf, skólar og ártöl talin heldur reynt að draga fram á hvaða sviði menntun hvers og eins liggur og hvaða prófgráðu viðkomandi hefur aflað sér í faginu sem hann hefur lagt stund á. Hér verða því fjölbrautar- og menntaskólar almennt ekki taldir heldur sú menntun sem viðkomandi hefur bætt við sig að framhalsskólanámi loknu.

Námskeið verða þó almennt ekki talin frekar en styttra nám sem ekki hefur verið lokið við. Þetta er þó talið ef námið er á því sviði að það auki við þekkingu á því sviði sem heyrir til því ráðuneyti sem viðkomandi var trúað fyrir á síðasta kjörtímabili eða í upphafi núverandi kjörtímabils. Þar sem lokapróf eru talin fylgir aldur viðkomandi, þegar hann lauk tilteknu prófi, innan sviga.

Þeir sem vilja fá gleggri yfirsýn yfir menntunarferil núverandi og fyrrverandi ráðherra er bent á að hægt er að komast inn á feril hvers ráðherra inni á alþingisvefnum með krækju sem er undir nafni hvers þeirra í töflunum hér að neðan. Þessi atriði er líka að finna í því heildaryfirliti sem var sett fram í síðustu færslu.

Ráherrar síðustu stjórnar yfirlit yfir nám og helstu prófgráður
 Jóhanna Sigurðardóttir,
 forsætisráðherra
Verslunarpróf (18 ára)
 Katrín Júlíusdóttir,
 fjármála- og efnahagsráðherra
Stúdent MK (20 ára)
Nám í mannfræði við HÍ (1995-1999)
 Guðbjartur Hannesson,
 velferðarráðherra
Kennsluréttindi KÍ (21s árs)
Viðbótarkennararéttindi í Danmörku (28 ára)
Framhaldsnám í skólastjórn við KHÍ (1992-1995)
Meistarapróf frá Institute of Education, University of London (55 ára)
 Katrín Jakobsdóttir,
 mennta- og menningarmála-
 ráðherra

BA-próf í íslensku (23 ára)
Meistarapróf í íslenskum bókmenntum (28 ára)
 Steingrímur J. Sigfússon,
 atvinnuvega- og nýsköpunar-
 ráðherra

B.Sc.-próf í jarðfræði HÍ (26 ára)
Kennsluréttindi HÍ (27 ára)
 Svandís Svavarsdóttir,
 umhverfis- og auðlindaráðherra
BA-próf í almennum málvísindum og íslensku HÍ (25 ára)
Stundaði framhaldsnám í íslenskri málfræði við HÍ (1989-1993)
 Össur Skarphéðinsson,
 utanríkisráðherra
BS-próf í líffræði HÍ (20 ára)
Doktorspróf í lífeðlisfræði frá Háskólanum í East Anglia (30 ára)
 Ögmundur Jónasson,
 innanríkisráðherra
MA-próf í sagnfræði og stjórnmálafræði frá Edinborgarháskóla (26 ára)


Það sem vekur e.t.v. mesta athygli þegar kastljósinu er beint að menntun þeirra sem voru ráðherrar í síðustu ríkisstjórn er að enginn, að Ögmundi Jónassyni undaskildum, er með menntun sem tengist beinlínis meginviðfangsefni alþingismanna; þ.e. stjórnmálum og/eða lögum. Enginn er heldur með menntun í þeim málaflokkum sem heyra til þeim ráðuneytum sem voru í þeirra forsjá. Ekkert þeirra er heldur með menntun í viðskiptagreinum eða hagfræði ef verslunarpróf Jóhönnu Sigurðardóttur er undanskilið.

Þar sem aðeins er um tveggja ára nám að ræða er þó hæpið að gera ráð fyrir að þar hafi verið lagður sá grunnur að þekkingu á efnahagsmálum sem má ætla að þeir sem knúðu fram nýjar kosningar vorið 2009 hafi verið að kalla eftir. Rétt er að geta þess að Gylfi Magnússon var skipaður viðskiptaráðherra í þeirri ríkisstjórn, sem tók við völdum eftir alþingiskosningarnar vorið 2009, og síðar efnahags- og viðskiptaráðherra. 

Gylfi er með doktorspróf í hagfræði en hann hefur hins vegar aðallega starfað við kennslu frá því að hann útskrifaðist þannig að það er eðlilegt að gera ráð fyrir að hann hafi haft litla reynslu af efnahagsmálum, út fyrir það að fjalla um þau fræðilega, þegar hann var skipaður. Gylfi fékk lausn frá ráðherraembætti haustið 2010 en Árni Páll Árnason tók við embætti hans og gegndi því fram til ársloka 2011 (sjá hér).

Árni Páll er með lögfræðimenntun frá HÍ, sem hann lauk 25 ára gamall, auk þess sem hann hefur stundað nám í Evrópurétti úti í Belgíu og á sumarnámskeiði í Flórens. Þess má geta að Árni Páll var ráðgjafi Jóns Baldvins Hannibalssonar í Evrópumálum þegar sá síðarnefndi fékk lagafrumvarpið um aðild Íslands að EES-samningnum samþykkt í upphafi árs 1993 (sjá hér).

 Ráðherrar núverandi stjórnar
 yfirlit yfir nám og helstu prófgráður
 Sigmundur Davíð Gunnlaugsson,
 forsætisráðherra
BS-próf í viðskipta- og hagfræði HÍ (30 ára)
Nám í stjórnmálafræði við Kaupmanna-hafnar- og Oxford-háskóla (ekkert kemur fram um það hvenær eða á hve löngum tíma)
 Bjarni Benediktsson,
 fjármála- og efnahagsráðherra
Lögfræðipróf HÍ (25 ára)
Meistarapróf (Master of Laws) frá University of Miami School of Law (27 ára)
Hdl. (héraðsdómslögmaður) (28 ára)
Löggiltur verðbréfamiðlari (28 ára)
 Kristján Þór Júlíusson,
 heilbrigðisráðherra
Skipstjórnarréttindi Stýrimannaskólinn í Reykjavík (21s árs)
Kennsluréttindi HÍ (27 ára)
 Illugi Gunnarsson,
 mennta- og menningarmála-
 ráðherra

BS-próf í hagfræði HÍ (28 ára)
Meistaragráða frá London Business School (33 ára)
 Ragnheiður Elín Árnadóttir,
 iðnaðar- og viðskiptaráðherra
BA-próf í stjórnmálafræði HÍ (24 ára)
Meistarapróf í alþjóðasamskiptum frá Georgetown University (27 ára)
 Eygló Harðardóttir,
 félags- og húsnæðisráðherra
BA-próf í listasögu frá Stokkhólmsháskóla (28 ára)
Framhaldsnám í viðskiptafræði við HÍ (frá 2007)
 Sigurður Ingi Jóhannsson,
 sjávarútvegs- og landbúnaðar-
 ráðherra
 umhverfis- og auðlindaráðherra

Embættispróf í dýralækningum frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðar-háskólanum í Kaupmannahöfn (án árs)
Almennt dýralæknaleyfi í Danmörku (27 ára) og á Íslandi (28 ára)

 Gunnar Bragi Sveinsson,
 utanríkisráðherra

Stúdent frá FNV (21s árs)
Nám í atvinnulífsfélagsfræði við HÍ (enginn tími gefinn upp)
 Hanna Birna Kristjánsdóttir,
 innanríkisráðherra
BA-próf í stjórnmálafræði HÍ (25 ára)
Meistarapróf í alþjóðlegum og evrópskum stjórnmálum frá Edinborgarháskóla (27 ára)


Í núverandi ríkisstjórn eru lögfræðingur, hagfræðingur og stjórnmálafræðingur auk eins alþjóðasamskiptafræðings. Það vekur þó ekkert síður athygli hér að ekkert beint samband virðist vera á milli menntunar viðkomandi ráðherra og þeirra málaflokka sem heyra undir það  ráðuneyti sem hann var skipaður yfir fyrir bráðum ári síðan.

Ef eingöngu er tekið tillit til þeirra þátta sem hafa verið dregnir fram hér varðandi menntun þá mætti draga þá ályktun að Illugi Gunnarsson hefði átt best heima í Fjármála- og efnahagsráðuneytinu eða Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu, Hanna Birna Kristjánsdóttir eða Ragnheiður Elín Árnadóttir yfir Utanríkisráðuneytinu og Bjarni Benediktsson yfir Innanríkisráðuneytinu.

Þegar mið er tekið af núverandi ráðuneytisskipan er helst hægt að draga þá ályktun að sú sérfræðiþekking sem Sigurður Ingi Jóhannsson, þó hún sé á mjög afmörkuðu sviði, hefur aflað sér komi honum að notum í einum þeirra málaflokka sem hann situr yrir; þ.e: málefnum landbúnaðarins.

Samdráttur

Menntun er alls ekki það eina sem skapar grunn að góðri þekkingu því þar kemur reynsla ekki síður að góðu haldi auk þess sem persónulegir þættir skipta oft gríðarlegu máli en eðli málsins samkvæmt er oftast erfiðast að setja fingurinn á þann þátt. Þess verður þó freistað að horfa eitthvað til þeirra í niðurstöðum sem verða settar fram þegar sá nákvæmi samanburður sem er hafinn hér verður afstaðinn.

Menntun, og þá einkum sú sem fer fram í háskólum, hefur hingað til verið ætlað það markvissa hlutverk að þjálfa fagleg vinnubrögð bæði til verklegra framkvæmda og munnlegrar og ritaðrar framsetningar. Þar af leiðandi er forvitnilegt að draga örlítið skýrar fram það sem liggur í þessum samanburði á menntun þeirra sem gegndu ráðherraembættum í síðustu ríkisstjórn og þeirra sem gera það nú.

Í töflunni hér að neðan er gerð tilraun til þess með því að hver ráðherra er talinn aðeins einu sinni. Miðað er við efstu prófgráðu hvers og eins en til að gera samanburðinn aðgengilegri er það sem á við um núverandi ríkisstjórn haft blátt en það sem á við um þá fyrrverandi rautt.

 Prófgráður
versl.pr.
stúdent
BA/BS
rétt.pr.
master
 doktor
 Framsóknarflokkur

1
 21


 Sjálfstæðisflokkur


 1
4

 Samfylkingin1
1
 
1
1
 Vinstri grænir


 11
2

Fjöldi
0/1
1/1
2/1
2/1 4/30/1


Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, er sá ráðherra sem á stystu skólagönguna að baki eða ekki nema tvö ár í framhaldsskóla. Gunnar Bragi Sveinsson, núverandi utanríkisráðherra, og Katrín Júlíusdóttir, fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, hafa ekki lokið öðru framhaldsnámi en stúdentsprófi.

Samkvæmt ferilskrá Gunnars Braga hefur hann stundað nám í atvinnufélagsfræði við Háskóla Íslands en það kemur ekki fram á hvaða tímabili (sjá hér). Katrín Júlíusdóttir sat nám í mannfræði í fjögur ár sem hún hefur ekki lokið. Það má taka það fram að á sama tíma var hún komin á fullt í stjórnmálastarf með Alþýðubandalaginu auk þess sem hún var í stúdentapólitíkinni og í starfi sem innkaupastjóri (sjá hér)

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, er sá sem er með mestu menntunina af þeim sem hér eru bornir saman en hann er doktor í lífeðlisfræði eldisfiska. Það er rétt að taka það fram að samkvæmt ferilskrá hans er ekki að sjá að hann hafi nýtt þessa menntun úti á atvinnumarkaðinum (sjá hér) og reyndar enn hæpnara að átta sig á beinum notum sérfræðiþekkingar hans til þess embættis sem hann var skipaður til.

Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi atvinnu- og nýsköpunarráðherra, og Kristján Þór Júlíusson, núverandi heilbrigðisráðherra, eru báðir með kennsluréttindi til framhaldsskólakennslu. Steingrímur til kennslu í jarðfræði og Kristján Þór til kennslu á vélstjórnar- og/eða skipstjórnarbrautum. Það má líka koma fram hér að auk þeirra tveggja er Kristján L. Möller, sem er meðal þeirra sem voru skipaðir til ráðherraembætta vorið 2009 en voru leystir frá störfum áður en kjörtímabilið var úti, með kennararéttindi frá Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni (sjá hér)

Það var vikið að því hér á undan að það má gera ráð fyrir að sú menntun sem Sigurður Ingi Jóhannsson, núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra, er með að baki reynist honum einhver grundvöllur til að setja sig inn í málefni bænda þar sem hann er með réttindapróf í dýralækningum.

Réttindanna aflaði Sigurður Ingi sér með námi úti í Danmörku en í framhaldinu fékk hann starfsleyfi til að stunda dýralækningar bæði þar og hér á landi. Það má taka það fram að hann starfaði sem dýralæknir í 18 ár áður en hann settist inn á þing en nánar verður fjallað um starfsreynslu í næstu færslu. Áður en botninn verður sleginn í þessa verður fjallað aðeins nánar um menntun þeirra sem eru með meistaragráðu af einhverju tagi en tæpur helmingur þeirra sem hér eru til samanburðar er með slíka gráðu.

Ráðherrar með meistaragráðu í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur

Eins og kom fram hér að framan þá er Ögmundur Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra, eini ráðherrann í síðustu ríkisstjórn sem er með menntun af því tagi sem sumir vilja meina að sé hverjum þeim nauðsynleg sem hefur í hyggju að byggja sjálfum sér stjórnmálaferil. Ögmundur er með MA-próf í sagn- og stjórnmálafræði frá Edinborgarháskóla.

Guðbjartur Hannesson sem aflaði sér réttinda til að kenna í grunnskóla 21s árs, auk viðbótarkennararéttinda í Danmörku sex árum síðar, bætti við sig framhaldsnámi í skólastjórnun og svo meistaraprófi frá kennaradeild Lundúnaháskóla fyrir níu árum, þá 55 ára að aldri. Katrín Jakobsdóttir útskrifaðist úr sínu meistaranámi ári á undan Guðbjarti en hún var 28 ára þegar hún útskrifaðist frá Háskóla Íslands með MA-gráðu í íslenskum bókmenntum.

Af þeim átta ráðherrum sem voru leystir undan embætti fyrir um ári síðan voru alls fjórir með framhaldsháskólamenntun: Þrír með meistaragráðu og einn með doktorspróf. Í núverandi ríkisstjórn eru fjórir af níu sem hafa útskrifast úr meistaranámi.

Samkvæmt ferilskrá Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, núverandi forsætisráðherra, hefur hann skráð sig í slíkt nám bæði við Kaupmannahafnar- og Oxford-háskóla. Það kemur hins vegar ekkert fram um það hvenær hann var skráður í þetta nám og ólíklegt að hann hafi lokið því þar sem námslok eru ekki tekin fram. 

Ráðherrar með meistaragráðu í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar

Þau fjögur sem eru talin á myndinni hér að ofan leituðu öll út fyrir landsteinana í framhaldshaldsháskólanám eftir útskrif með fyrstu háskólagráðu frá Háskóla Íslands. Bjarni Benediktsson, núverandi fjármálaráðherra, og Ragnheiður Elín Árnadóttur, núverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sóttu sitt meistaranám til Bandaríkjanna. Bjarni útskrifaðist með LL.M-gráðu frá lagadeild Háskólans í Miami en Ragnheiður Elín með MSc-gráðu í alþjóðasamskiptum frá Háskólanum í Georgetown.

Illugi Gunnarsson, núverandi mennta- og menningamálaráðherra útskrifaðist með MBA-próf frá London Business School og Hanna Birna Kristjánsdóttir, núverandi innanríkisráðherra, útskrifaðist með MSc-gráðu frá Edinborgarháskóla sem er sami háskóli og forveri hennar í Innanríkisráðuneytinu, Ögmundur Jónasson, hafði útskrifast frá tæpum tveimur áratugum á undan henni. 

Menntun er álitinn góður grunnur undir mörg störf úti á almennum vinnumarkaði en þar er líka gjarnan gerð krafa um reynslu í viðkomandi starfi. Það er líklegra að þó það megi gera ráð fyrir að háskólamenntun hafi lagt faglegri nálgun og framsetningu mikilsverðan grunn þá skapi starfsreynsla af viðkomandi málaflokkum síst mikilvægari þekkingargrunn þeim sem eru skipaðir yfir eða sækjast eftir að fara með þau hagsmunamál samfélagsins sem eru á hendi ráðuneytanna.

Í næstu færslu verður starfsreynsla þeirra, sem hafa verið bornir saman hér, af almennum launamarkaði dregin saman en þó nokkrir hafa líka reynslu af sveitarstjórnarmálum og öðrum pólitískum trúnaðarstörfum á vegum eldri ríkisstjórna. Um slíka reynslu verður fjallað í sérstakri færslu, þá trúnaðarstörf á vegum stjórnmálaflokkanna og síðast þingreynslu.

Aðrar færslur í þessum sama flokki:
Ráðherrasamanburður: Aldur við skipun


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fín grein. Takk.

Þór Saari (IP-tala skráð) 23.4.2014 kl. 22:06

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Athyglisverður punktur Rakel þetta með menntunina. Ef lögð væri áhersla á að þeir sem bjóða sig fram í forystu stjórnmálaflokks þyrftu að hafa náð á kveðnum áföngum í menntun sem gerði þá hæfari til stjórnunarstarfa, þá gæti það til lengri tíma litið orðið okkur til góðs, þó ber að geta að menntun er ekki allt. En eins og Einstein segir hér að ofan, Menntun er ekki að læra staðreyndir, heldur að æfa hugsunina. Svo vil ég þakka þér fyrir frábærar greinar undanfarið, það er auðséð að þú hefur lagt mikla vinnu í þær og svo sannarlega ættu þær að vekja meiri athygli, því þarna kristallast nefnilega meinsemdin í okkar stjórnmálasögu.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.4.2014 kl. 10:55

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Sæl Ásthildur, og takk fyrir innleggið. Ég hef ekki komist til neinnar niðurstöðu um það hvort þeir sem bjóða sig til forystu innan stjórnmálaflokkanna þurfi að hafa náð ákveðnum áföngum menntunar. Það væri þó ekkert óeðlilegt að stjórnmálaflokkarnir mörkuðu sér einhverja stefnu í þessu sambandi og þá líka í sambandi við starfsreynslu fulltrúa þeirra á framboðslistum.

Hins vegar tel ég það ekki farsælt að útiloka fjölbreytnina með því að setja fram of einsleitar kröfur til þeirra sem taka efstu sæti á framboðslistum. Stjórnmálaflokkarnir geta líka haft mismunandi stefnu í þessu efni eins og svo mörgu öðru. Það væri a.m.k. tilraunarinnar virði ekki síður en margt annað sem hefur verið reynt í stjórnmálum á síðustu misserum.

Ef sama aðferð og hefur verið notuð hingað til við skipun ráðherra þá skiptir það vissulega mestu máli að oddvitar framboðslistanna séu mögulegur valkostur til ráðherraembættis. Ég er nokkuð sannfærð um að þekkingar-, reynslu- og kunnáttuleysi þeirra sem hafa setið í æðstu embættum landsins í gegnum tíðina valdi miklu um það hvar samfélagið er statt í dag. Það er nefnilega töluvert auðveldara að afvegaleiða þá, sem enga þekkingu eða reynslu hafa í viðkomandi málaflokki, um að taka ákvarðanir sem samrýmast ekki því hlutverki að þjóna öllu samfélaginu þegar betur er að gáð, heldur þjóna fáum.

Að lokum þakka ég þér fyrir ummælin um eldri færslur um skylt efni. Ég skil það reyndar ágætlega sjálf að fólk hafi ekki nennt að lesa þær fyrir það hvað þær eru langar. Sú nálgun sem gefur að líta hér að ofan er að hluta til aðferð til að setja fókusinn á það sem ég tel að skipti mestu máli að vekja til umhugsunar um en það eru fleiri þættir eins og eru einhverjir þeirra taldir í lokin. Þessum þáttum verða gerð skil í sérstökum færslum sem birtast hér hver af annarri á næstu dögum.

Upphaflegur tilgangur þessara skrifa var að vekja til umhugsunar um það hvernig er staðið að skipun til ráðherraembætta. Það er sannarlega óskandi að kjósendur átti sig líka á eigin ábyrgð. Það erum jú, við sem kjósum flokkanna. Kjósendur hafa gengið til kosninga í trausti þess að ef þeirra flokkur komist til valda þá muni formaður hans vanda til valsins þegar kemur að skipun framkvæmdavaldsins yfir mikilvægustu málaflokkum samfélagsins.

Mér leikur forvitni á að vita hvort þeir sem eiga og reka fyrirtæki séu almennt svo kærulausir varðandi skipun og eða ráðningar æðstu stjórnenda þess eins og, við höfum verið mörg, um þá sem veljast til að stýra málefnum sjávarútvegarins, landbúnaðarins, heilbrigðiskerfisins og hagkerfinu svo fáeinir málaflokkar sem varða velferð okkar allra séu talin.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 24.4.2014 kl. 13:45

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já það er spurning Rakel. Held einmitt ekki, svona yfirleitt. Nema hjá fyrirtækjum sem rekin eru af klíkuskap og ættarfyrirgandi.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.4.2014 kl. 17:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband