Loforð og efndir

Það þarf ekki að minna á að nú í vor var mynduð ný ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Þetta var í annað skipti frá hruni sem kjósendur fengu tækifæri til að hafa áhrif á það hvaða flokkar héldu um stjórnartaumana frá efnahagshruninu haustið 2008. Síðast veðjaði meiri hluti kjósenda á Samfylkinguna og Vinstri græna.

Í báðum tilvikum þykir mér líklegt að ástæðan hafi legið í sterkri von um að kosningaloforð og landsfundasamþykktir allra þessara flokka væru eitthvað meira en orðin tóm. Að gamli fjórflokkurinn hefði ekki aðeins lært af þeirri reynslu sem bankahrunið skilaði heldur myndu þeir nýta þekkingu sína og ítök til að treysta tilveru sína með samvinnu við það samfélag sem kosningaloforðin gáfu til kynna að stæði til að byggja upp.

Allir sem hafa orðið fyrir áföllum hvort sem þau eru persónuleg eða tengd árangri í starfi þekkja að það tekur tíma að takast á við aðstæður og temja sér nýungar í samskiptum eða vinnutengdri færni. Þegar áfallið tengist alvarlegri áminningu sem varðar atvinnuna eru ekki allir svo heppnir að fá annað tækifæri eins og kjósendur gáfu þingmönnunum sem sátu við stjórnvölinn þegar stóra viðvörunin um skaðsemi núverandi efnahagsstefnu reið yfir samfélagið haustið 2008. 

Thomas Hobbs

Á þeim fimm árum sem eru liðin síðan hefur einhver umræða farið fram um orsakir hrunsins og afleiðingar kreppunnar sem skall á í kjölfarið. Sú umræða hefur hins vegar hvorki  verið djúp né virkilega ígrunduð enda hefur hún litlu skilað. Því miður varð árangur þeirrar bjartsýnu viðspyrnu sem spratt upp í kjölfar hrunsins aðeins skammvinnur. Aðgengilegasta skýringin er sú að hún varð fórnarlamb  þeirra afla sem sáu tækifæri í upplausninni til að koma sjálfum sér og sínum til valda.

Með tilliti til mannkynssögunnar er það þekkt saga að slík verði örlög jafnvel stærstu byltinga. Almenningur setur traust sitt á þá sem hafa hæst og fylgir þeim í blindri trú um að markmið þeirra sé það sama og þeirra sem hafa upplifað misréttið og sjálfræðishallann á eigin skinni. Þegar upp er staðið er það almenningur sem hefur fórnað tíma sínum og jafnvel blóði til að koma þeim breytingunum á sem foringjarnir hönnuðu. Breytingum sem því miður hafa aldrei leiðrétt þann halla að það er almenningur sem heldur valdastéttinni uppi án þess að hafa neitt afgerandi yfir henni að segja.

Í kjölfar hrunsins varð vart við umræðu sem benti til að einhverjir efuðust um að núverandi stjórnkerfi þjónaði samfélagsheildinni til farsældar. Einhverjir gengu jafnvel svo langt að halda því fram að fjársterkir aðilar innan fjármálaheimsins kostuðu bæði flokka og stjórnmálamenn til hlýðni við hagmuni þeirra. Bent var á að þessi aðferðarfræði græfi svo alvarlega undan lýðræðinu að það væri jafnvel tómt mál að tala um slíkt lengur.

Thomas Jefferson

Það liggur væntanlega í augum uppi að lýðræðið hlýtur að standa afar völtum fótum ef hagsmunir þeirra sem geta borgað rata ávallt í forgang. Það hlýtur líka að liggja ljóst fyrir að þeir sem leyfa hlutunum að þróast í slíkan farveg eru tæplega réttu einstaklingarnir til að stýra málefnum samfélagsins sem byggir á einstaklingum með afar fjölbreytilegar þarfir svo ekki sé talað um mismunandi fjárráð.

Eitt af þeim grundvallaratriðum sem er mikilvægt að gera sér grein fyrir varðandi hvers konar samfélög, er að þau byggja á einhverju sem er sameiginlegt. Hversu sundrað sem íslenskt samfélag kann að virðast í augum bæði þeirra sem tilheyra því og hinna sem horfa á það utan frá þá eru óvefengjanlega býsna margir þættir sem eru sameinandi.

Þeir verða ekki allir taldir upp hér en minnt á að samfélaginu er ætlað að standa undir ákveðinni grunnþjónustu. Einstaklingarnir sem byggja samfélagið hafa tekið það á sig að standa undir kosnaðarþáttum þessarar grunnþjónustu til að þeir og aðrir geti notið hennar þegar þeir þurfa á henni að halda. Til að annast umsýslu og rekstur þessarar þjónustu hefur íslenskt samfélag þann háttinn á að þeir sem hafa náð tilsettum kosningaaldri kjósa á milli stjórnmálaflokka á fjögurra ára fresti til að sjá um þessa þætti .

Che Guevara

Á síðustu árum hefur það sýnt sig að það er ekki trúnaðurinn við samfélagsheildina sem ræður því að einstaklingar leita frama innan stjórnmálaflokkanna til að komast til þeirra áhrifa að þeir eigi von um að stýra ráðuneytum þeirrar grunnþjónustu sem einstaklingarnir sem byggja samfélagið eiga tilkall til fyrir sitt framlag. Þegar menntun og starfsreynsla þeirra sem hafa setið á ráðherrastóli hingað til er skoðuð kemur jafnframt í ljós að það virðist heyra til undantekninga að þeir hafi nokkra fagþekkingu á því sviði sem ráðuneytið sem flokkarnir trúa þeim fyrir hefur yfir að segja. 

Á tímum sérhæfingar og aukinnar menntunarkrafna hlýtur það að koma spánskt fyrir sjónir að ekki séu gerðar neinar kröfur til þeirra sem taka afdrifaríkar ákvarðanir sem varða grundvallarmál samfélagsins aðrar en þær að þeir hafi komist áfram í sínum eigin stjórnmálaflokki. Það þarf sennilega ekki að minna á það að eftir að það hefur verið talið upp úr kjörkössunum í lok hverra alþingiskosninga þá er það alfarið í höndum formanna þeirra flokka sem mynda ríkisstjórn hverjir setjast í ráðherrastólana.

Í langflestum tilvikum er það staða viðkomandi innan stjórnmálaflokksins og flokkshollusta sem ræður hver fær ráðherraembætti og hvaða embætti viðkomandi er settur í. Það má minna á það líka að þeir sem fá æðstu embættin eru gjarnan formenn viðkomandi flokka eða gegna einhverri annarri flokkstengdri ábyrgðarstöðu auk þess að vera þingmenn. Ég reikna með að flestir geri sér grein fyrir því að hvert þessara embætta fela í sér ríflega fullt starf. Líklegasta niðurstaðan er því sú að viðkomandi sinni engu af þessum verkefnum af árvekni heldur reiði sig á aðra launaða en flokksholla embættismenn sem kjósendur hafa ekkert um að segja hverjir eru.

John F. Kennedy

Á næstu vikum er ætlunin að birta samanburð á menntun og starfsreynslu ráherranna í núverandi ríkisstjórn og þeirrar síðustu. Tilgangurinn er sá að fylgja því sem hér hefur verið sett fram eftir en líka sú bjartsýnislega von að samanburðurinn veki einhverja til umhugsunar um það hvort núverandi kerfi við skipun ráðherra sé heillavænleg leið til reksturs samfélags sem er ætlað að þjóna öllum einstaklingunum sem það byggja.

Mig grunar að þeir sem hafa komið nálægt mannaráðningum hafi það sem meginreglu að þeir sem þeir ráða til sérhæfðra starfa hafi annaðhvort haldgóða menntun eða viðamikla starfsreynslu á sama sviði. Það hlýtur því að koma fleirum en mér spánskt fyrir sjónir hvaða háttur er hafður á við skipun ráherra. Í þessu sambandi er rétt að undirstrika það einu sinni enn að ráðherrarnir eru æðstu embættismenn ráðuneyta sinna. Þegar það er haft í huga hlýtur það að vera lágmarkskrafa að þeir búi yfir fagþekkingu varðandi þá málefnaflokka sem þeim er trúað fyrir.

Í þessu sambandi má e.t.v. velta því fyrir sér hvort það er ekki kominn tími til að samfélagið komi sér saman um nýja aðferðafræði en þá sem flokkarnir hafa hannað utan um skipun ráðherra. Miðað við það hvernig íslenskt samfélag og margir einstaklinganna sem það byggja hafa liðið fyrir það hvernig fyrrverandi, og væntanlega núverandi ráðherrar líka, hafa farið með umboð sitt hlýtur það að teljast næsta brýnt verkefni!

*******************
Es: Ég biðst afsökunar á augljósum kynjahalla hvað varðar val á tilvitnunum með þessari færslu en ég ákvað að láta innihald þeirra ráða frekar valinu en hverjum þær eru eignaðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband