Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Önnur gangan til lýðræðis á Akureyri

Næsta laugardag (15. nóvember) verður önnur gangan til lýðræðis á Akureyri. Mæting er við Samkomuhúsið (leikhúsið) kl. 15.00 þaðan verður svo gengið inn á Ráðhústorg. Í tilkynningu um þessa göngu segir: Tilgangurinn með göngunni er að bæjarbúar sýni samstöðu og samhug og láti í ljós skoðun sína á ástandinu og láti rödd sína heyrast. Talsmenn göngunnar leggja áherslu á að hér sé um óflokkspólitíska uppákomu að ræða, aðeins andsvar við því hvernig komið er fyrir íslensku samfélagi og áskorun um að hafist verði handa við að byggja upp nýtt samfélag þar sem mannauður verði í fyrirrúmi. Einnig er verið að sýna samstöðu með friðsælum mótmælum sem haldin verða á sama tíma í Reykjavík.
 
Látið boðin berast!

Nánari upplýsingar veitir Guðrún Þórs í síma 663 2949

Þegjandalegir græðgisvæðingarsinnar

Íslenska þjóðin getur ekki liðið framkomu stjórnvalda. Það er líka útlit fyrir að margir séu að vakna til þessarar vitundar þessa dagana. Ég upplifi það þannig að margir séu að komast upp úr geðlægðinni sem áfallið um þarsíðustu mánaðarmót leiddi yfir þá. Ég hef t.d. orðið vör við þetta á mínum vinnustað þar sem fólk er farið að ræða alvarleika málsins af einurð og festu eftir nokkurra vikna þögn.

graedgi_726470.jpgÞær raddir sem ég heyri þar, og yfirleitt alls staðar annars staðar, eru í aðalatriðum sammála um eitt grundvallaratriði: Íslenska ríkisstjórnin er rúin trausti. Það vita þetta allir og þeir eru alltaf fleiri og fleiri sem þora að horfast í augu við þá staðreynd að hún veldur ekki hlutverki sínu. Stjórnin ræður einfaldlega ekki við það verkefni að koma okkur út úr efnahagsþrengingunum og ávinna íslensku þjóðinni traust á ný. Þess vegna verður hún að víkja!

Því miður er eins og þeir sem stýra þjóðarskútunni ætli að verða síðastir til að viðurkenna þessa staðreynd. Almenningur hefur þó lagt sig fram um að koma þessum skilaboðum til stjónvalda á ýmsan hátt m.a. með reglulegum mótmælafundum á Austurvelli. Þrátt fyrir friðsamleg mótmæli og skynsamlegan málflutning hafa fulltrúar þeirra hundsað skilaboð mótmælenda og skýlt sér á bak við alls konar hártoganir og flimtingar.

Íslenskur almenningur er þó ekki af baki dottinn. Næsta laugardag er boðað til enn eins mótmælafundarins á Austurvelli. Fundurinn hefst klukkan 15 eins og undanfarna laugardaga. Ræðumenn eru ekki af verri endanum frekar en fyrri daginn en þeir eru:

Andri Snær rithöfundur,
Viðar Þorsteinsson heimspekingur,
Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundur

Margir spá því að mótmælafundurinn næsta laugardag verði enn fjölmennari en síðast eða sá fjölmennasti síðan íslensku bankarnir hrundu.

                 ___________   ___________   ___________

Ég er að velta því fyrir mér hvort einhver sjái um að safna ræðum þeirra sem flytja erindi á þessum mómælafundum saman líkt og þeim sem hafa verið fluttir á borgarafundunum í Iðnó. Þær eiga það nefnilega örugglega allar skilið að varðveitast.

Myndin hér að ofan er tekin úr myndasafni Jóhanns Þrastar Pálmasonar sem hann tók á mótmælafundinum sl. laugardag.


mbl.is Boða friðsamleg mótmæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

„Honum verður erfiður dauðinn“

Þegar Akureyringar gegnu til lýðræðis nú fyrr í haust söng Þórarinn Hjartarson við eigin undirleik nokkur ættjarðarljóð. Eitt þeirra fékk alveg nýja merkingu í mínum huga eftir flutning hans við þetta tækifæri. Þetta er Völuvísa sem er eftir Guðmund Böðvarsson. Af einhverjum ástæðum hljóma tvær síðustu hendingar hennar í huga mínum æ síðan.

Ég rakst á myndband inni á youtube.com þar sem þetta kvæði er flutt undir myndum og myndatexta sem leggja áherslu á verndun náttúru landsins. Þetta myndband var notað í síðustu kosningarbaráttu og það fer sennilega ekki á milli mála hvaða stjórnmálaflokkur lét gera það. Tilgangur minn með birtingu myndbandsins er ekki sá að flytja einhvern áróður fyrir þann fjallkonan.jpgflokk heldur hinn að deila flutningi lagsins með ykkur. Flutningur þess hér er töluvert hugljúfari en Þórarins fyrr í haust.

Það má þó benda á að lok myndbandsins eru mjög í stíl við þá nýju tengingu sem varð til í mínum huga hvað varðar hendingarnar sem hafa ómað í höfði mínu að undanförnu. Textinn er hér:

Völuvísa

Eitt verð ég að segja þér áður en ég dey,
enda skalt þú börnum mínum kenna fræði mín,
sögðu mér það álfarnir í Suðurey,
sögðu mér það dvergarnir í Norðurey,
sögðu mé það gullinmura og gleym mér ei
og gleymdu því ei:
Að hefnist þeim er svíkur sína huldumey
honum verður erfiður dauðinn.

 


Ekki ástæðulausar áhyggjur

hungur.jpgLeiðtogar hópsins, Ákall til þjóðarinnar, hafa sent bréf til félaga sinna þar sem það er fullyrt að OECD hafi nú nýverið bent á að ef ríkisstjórnin víkur ekki nú þegar sé staða íslensku þjóðar- innar sú skelfilegasta sem menn hafa séð gerast í vestrænu ríki síðan í seinni heims- styrjöldinni!

Vísa í frétt hjá RÚV þar sem talað er um að „viðamiklar endurbætur á stjórnmálaflokkum og stofnunum sem hafa brugðist“ séu nauðsyn- legar til að endurheimta orðsti Íslands á alþjóða- vettvangi að áliti OECD.


Eftirfarandi texti er að miklu leyti byggður á fyrrnefndu bréfi. Þar eru allir hvattir til að standa saman og láta allan heiminn vita af því að við Íslendingar látum ekki bjóða okkur meir en komið er. Við látum ekki bjóða okkur meira af spennunni og kvíðanum sem hörmungunarnar sem hafa gengið yfir íslenskt efnahagslíf hafa valdið okkur og framkoma stjórnvalda viðhaldið. Við getum ekki lengur búið við yfirvöld sem einkennast af spillingu, valdagræðgi, dómgreindarleysi og hroka. Með verkum sínum hafa yfirmenn þjóðarinnar komið þjóð sinni í mjög alvarlegar aðstæður en þeim er mest umhugað um að bjarga eigin skinni en ekki hagsmunum hins almenna borgar.

Viljum við leyfa yfirvöldum að halda þessu ÁFRAM? Er ekki komið nóg?

Erlend stjórnvöld og stofnanir vilja ekki lána Íslendingum peninga þar sem þeir treysta ekki núverandi ríkisstjórn. Þetta kostar íslenskan almenning gífurlegar fjárhæðir sem hleður utan á sig með hverri mínútu sem líður. Ríkisstjórnin vill hins vegar ekki víkja af ótta við að upp komist um spillinguna sem hún heldur utan um.

Hverju höfum við að tapa? Er þjóðin ekki nú þegar rúin trausti og orðin gjaldþrota? Er það ekki nóg? Eftir hverju erum við að bíða?
Tökum höndum saman og myndum SKJALDBORG utan um alþingishús okkar Íslendinga!

Friðsamleg mótmæli við alþingishúsið klukkan 12:00 á morgun! (miðvikudaginn 12 nóvember).

Hvetjið alla - ALLA - til að taka sér hádegishlé, mæta, og sýna samstöðu.

Burt með spillingarliðið NÚ ÞEGAR!

Es: Þessi texti er að miklu leyti byggður á bréfi frá hópi sem kallar sig Ákall til þjóðarinnar. Þessi hópur hefur komið að mótmælunum á Austurvelli sl. laugardaga ásamt fleiri hópum. Vona að það mæti nógu margir á morgun til að mynda a.m.k. einn hring utan um alþingishúsið. Vonandi fleiri.


Til verndar Alþingi

Var að fá eftirfarandi frá hópnum, Ákall til þjóðarinnar, og langaði til að vekja athygli á því hér:

Mikill áhugi er fyrir því að „slá“ skjaldborg utan um alþingishúsið þar sem fólk helst í hendur og myndar hring utan um húsið og garðinn. Helst marga hringi þannig að þingmenn þurfi að beygja sig undir hendur okkar til að komast inn og út.
althingishusid.jpg

Við meinum þeim ekki útgang en það verður erfitt fyrir þá að beygja sigWink

Þetta eiga að vera friðsamleg mótmæli en ákveðin.

Skilaboðin eru skýr:

  • Við stöndum vörð um lýðræðið.
  • Við stöndum saman.
  • Við eigum alþingishúsið.
  • Alþingismenn eiga að vinna fyrir okkur ekki gegn okkur.
  • Við ráðum hverjir eiga að vinna þar - ekki þeir.
  • Þeim er sagt upp en neita að hætta!
Klukkan 12:00 miðvikudaginn 12. nóvember.

Þeir sem ætla að mæta eru beðnir að skrá sig inn á skjalið Mótmæli á miðvikudag (sem ég geri ráð fyrir verði opnað inni á Facebook. Get þó ekki ímyndað mér annað en þeir sem ekki eru þar inni séu velkomnir til að taka þátt í þessum aðgerðum líka).

Cilla Ragnarsdóttir sem skrifar undir þessa orðsendinu lýkur henni með því að hvetja alla til að vera með og segir í lokaorðum sínum: „það verður að þrýsta þéttar á mannskapinn því nú er komin þögn aftur í kringum þá og þá erum við komin á byrjunarreit aftur. Það gengur ekki!“

Enginn handtekinn og ekki nema 2000 manns??

handtaka.jpgGeir Jón segir „að lögregla hafi ekki handtekið neinn í mótmælunum“. Þessi mynd Jóhanns Þrastar Pálmasonar segir aðra sögu.  Ég sé a.m.k. ekki annað út úr þessari mynd en að það sé verið að handtaka manninn. Ég geri líka ráð fyrir því að hann hafi verið að taka þátt í mótmælunum þegar hann var handtekinn. Hins vegar veit ég ekkert af hverju hann var tekinn fastur og get þess vegna ekkert sagt um réttmæti handtökunnar.

Hins vegar er ljóst að staðhæfing Geirs Jóns er tæplega rétt. Það sem mælir enn frekar með því að hann fari ekki með rétt mál hvað þetta varðar er að það er haft eftir honum í þessari sömu frétt að „um tvö þúsund manns [hafi tekið] þátt í mótmælum á Austurvelli nú síðdegis“. Ég reikna með að þessi mynd, sem líka er tekin úr myndasafni Jóhanns Þrastar frá mótmælunum í dag, sýni svo ekki verði um villst að annaðhvort lýgur Geir Jón vísvitandi motmaeli_722748.jpgeða að hann kann ekki að telja.

Að lokum langar mig til að lýsa yfir furðu minni, enn og aftur, á umfjöllun fjölmiðla á mótmælunum að undanförnu. Mig langar til að benda á mjög góða samantekt Láru Hönnu hvað þetta varðar. Í kvöldfréttum RÚV og Stöðvar 2 nú kvöld var t.d. mikið gert úr eggja- og mjólkurvörukasti á alþingishúsið sem Bifhjólasamtökin Ruddarnir stóðu fyrir. Það kemur fram á heimasíðu þeirra að þeir hafa ekki tekið þátt í mótmælunum áður en þar hvetja þeir líka félaga sína til þessa framlags til nýliðinna mótmæla.

Ég skil reiði Ruddanna en tel gjörðir þeirra ekki vera vænlegar til þess árangurs sem aðstandendur borgarafundanna í Iðnó og aðstandendur mótmælafundanna á Austurvelli eru að sækjast eftir. Það sem mér finnst þó fyrst og fremst gagnrýnivert í þessu sambandi er að fjölmiðlar skuli beina kastljósi sínu að aðgerðum þessa fámenna hóps en víkja ekkert að því sem ræðumenn dagsins höfðu að segja.

Sjálfri finnst mér miklu athyglisverðara hvað mótmælendur eru friðsamir miðað við þær efnahagshörmungar sem stjórnendur landsins hafa leitt yfir þjóðina. Þess vegna finnst mér vera kominn tími til að það sé hlustað á kröfur þeirra en ekki gert lítið úr þeim með því að draga vísvitandi úr fjölda þeirra annars vegar og láta líta út fyrir að þeir séu upp til hópa óagaður skríll þó einstaka verði ber af slíku.

Það er nefnilega löngu orðið tímabært að farið verði að kröfu okkar um að spillingarliðið verði látið víkja vegna þess að það er óvinur íslensks almennings!


mbl.is Geir Jón: Lítið má út af bregða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einræði í menntamálum er líka óþolandi

Þorgerður Katrín GunnarsdóttirFréttin sem ég tengi þessari færslu er frá sl. fimmtudegi (4. nóv). Þar segir Þorgerður Katrín að henni finnist „óþolandi að líða fyrir tortryggnina  í samfélaginu.“ Þessi orð lét hún falla í tilefni af því að fréttamaður mbl.is spurði hana út í afskriftir skulda nokkurra lykilstarfsmanna Kaupþings vegna hlutabréfakaupa í bankanum. Eins og alþjóð veit var Kristján Arason, eiginmaður Þorgerðar, einn af framkvæmdastjórum hans.

Þorgerður Katrín sagði í þessu viðtali að það hefði verið mjög mismunandi hvernig staðið var að málum varðandi hlutabréfakaup í Kaupþingi. „Engar skuldir hafi verið felldar niður hjá eiginmanni hennar. Þau hafi komið sínum sparnaði til áratuga fyrir í öðru félagi fyrir löngu síðan.“

Mig langar til að vitna til orða Gríms Atlasonar sem hann birtir á blogginu sínu um þann gjörning: „Ráðfrú var með allan sinn sparnað, sem að mestu samanstóð af bankabréfum, í einkahlutafélagi. Eiginmaður hennar ráðlagði viðskiptavinum bankans að halda í bréf sín í bankanum fram á síðasta dag. Sjálfur færði hann allt í einkahlutafélag auk þess sem persónulegar ábyrgðir toppanna í bankanum vegna lána voru felldar niður. Ráðfrúin eiginkona hans sat á sama tíma á ríkisstjórn þar sem m.a. var ákveðið að bjarga þessum banka frekar en öðrum.“

Af framansögðu ætti að vera ljóst að sú tortryggni sem menntamálaráðherra segir ólíðandi á fullkomlega rétt hjá sér. Hún talar reyndar um að „það verði allt að koma upp á borðið“ í þessu sambandi. Ég reikna með að hún eigi við að það eitt muni duga til að eyða meintri tortryggni. Ég tek fullkomlega undir það með henni og vona að hún eigi við að hún ætli að stuðla að því.

Það sem mér finnst hins vegar merkilegt í þessu samhengi er að í reynd hefur hún sýnt allri kennarastéttinni umtalsverða tortryggni og ekki bara tortryggni heldur yfirgang líka. Hún neitaði að hlusta, vinna með og taka tillit til ábendinga frá samtökum kennara og keyrði svo nýju fræðslulögin í gegn á síðasta vorþingi. Nú ætti alþjóð að vera orðið nokkuð ljóst hvernig afgreiðslu frumvarpa til laga er háttað þar þannig að ég ætla ekki að fara ítarlegar út í það ferli allt saman.

Hins vegar vil ég taka það fram að mér sem framhaldsskólakennara finnst ólíðandi að búa við tortryggni menntamálaráðherra gagnvart kennarastéttinni og skólastarfi í landinu almennt. Mig langar líka til að vekja sérstaka athygli á því sem margir þeirra sem hafa mælt með nýju framhaldsskólalögunum hafa tuggið á. En það er „frelsið“ sem skólarnir eiga að fá í kjölfar þeirra. Það eru margar ástæður fyrir því að ég tel að þetta meinta frjálsræði fáist engan veginn staðist. Því til rökstuðnings ætla ég að láta nægja að benda á að menntamálaráðherra ákvað strax að binda starf framhaldsskólanna með 23 reglugerðum. Nú hef ég það eftir áreiðanlegum heimildum að þeim hafi fjölgað í 37.

Ég er auðvitað tortryggin og finnst ég hafa fulla ástæðu til þess. Tortryggni mín hefur minnst með það að gera að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Kristján Arason eru hjón. Hún stafar nefnilega fyrst og síðast af framgöngu Þorgerðar Katrínar í starfi hennar sem ráðherra menntamála í landinu. Mér finnst ég líka hafa fulla ástæðu til að tortryggja menntamálaráðherra sem útilokar meginþorra kennara frá mikilvægri þróunarvinnu og breytingum sem varða þeirra sérfræðisvið. Að ekki sé talað um að Kennarsambandið hefur lítil sem engin svör fengið við mörgum grundvallarspurningum er varða framkvæmd nýju laganna.

Það hlýtur að teljast eðlileg tortryggni í ljósi þess að ég veit að ráðuneytið hefur skipað a.m.k. fimm „leyninefndir“ til að sníða ramma utan um framhaldsskólann um leið og það útilokar hagsmunasamtök kennara frá þeirri vinnu og neitar þeim um sjálfsagðar upplýsingar. Það má vel fylgja hérna með að þeir sem vinna í þessum nefndum er uppálagt af formönnum nefndanna, sem menntamálaráðherra hefur skipað, að þeir upplýsi ekki utanaðkomandi aðila um það sem fram fer á fundum þeirra.

Ég hef væntanlega fært rök fyrir því að það er alls ekki allt upp á borðinu í sambandi við framkvæmd nýju framhaldsskólalaganna og raunar langur vegur frá því. Ég leyfi mér þess vegna að efast um að gögn um fjármál þeirra hjóna rati upp á borðið nema með dómsúrskurði. Og talandi um fjármál þá langar mig til að vekja athygli á nokkrum mikilvægum atriðum til viðbótar sem mér finnst afar mikilvægar í ljósi núverandi aðstæðna í samfélaginu.

Það hlýtur að liggja í augum uppi að innleiðing nýrra laga sem á við allt skólakerfið kostar peninga. Lögin innihalda að mörgu leyti framsæknar og byltingarkenndar hugmyndir í sambandi við öll skólastigin þrjú; leik-, grunn- og framhaldsskóla. En það gefur auga leið að það er ekki hægt að hrinda þeim í framkvæmd nema með ærnum tilkostnaði. Ég hef t.d. heyrt talað um áætlun upp á 220 milljónir í sambandi við innleiðingu laganna í tengslum við framhaldsskólann en vil taka það fram að af mínu mati er sú kostnaðaráætlun of lág. Ég hef góðar ástæður til að halda að það vanti einhverja mikilvæga þætti inn í þennan útreikning.

Þrátt fyrir þær efnahagshörmungar sem hafa riðið yfir íslenskt samfélag hefur enginn vikið einu orði að þeim kostnaði sem hlýtur að fylgja þeim nefndarstörfum sem nú fara fram í Menntamálaráðuneytinu í sambandi við nýju fræðslulögin annars vegar og þeim kostnaði sem hlýtur að fylgja innleiðingu þeirra hins vegar. Það hefur heldur engin tilkynning borist út í skólana varðandi framkvæmd laganna til Kennarasamtakanna eða út í skólana eftir efnahagshrunið. Hins vegar hélt Þorgerður Katrín fund í Menntaskóla Akureyrar sl. miðvikudagskvöld (5. nóv) þar sem hún ræddi aðallega um samræmingu skólastiganna þriggja sem er ein hugmynd þessar nýju laga. Ég mætti ekki á þennan fund. Verð að játa það að ég hafði bara ekki list á þvíPinch

Ég hef reyndar þær fréttir af fundinum að þar kom ekkert nýtt fram. Svör við margendurteknum spurningum sem einstakar greinar laganna hafa kveikt þeim, sem til þeirra þekkja, voru ekki á borðinu. Þar var ekki minnst einu orði á annað en það að þessi lög voru samþykkt sl. vor og að það ætti að vinna að þeim eftir fyrri áætlunum. Það eina nýja sem kom fram er að reglugerðirnar sem verða settar framhaldsskólanum fyrir utan lögin verða 37 en ekki 23. Ég hef verulegar áhyggjur af þessu reglugerðarfargani og ekki að ástæðulausu. Áhyggjurnar stafa ekki síst af leyndinni sem ríkir í kringum vinnuna við þær og þögninni í sambandi við innihald þeirra. Mér finnst fullkomlega eðlilegt að þetta allt veki mér tortryggni og kvíða.

Mér finnst fullkomlega eðlilegt að spyrja: Hvers vegna er innleiðingu nýrra fræðslulaga er ekki frestað í ljósi núverandi efnahagsástands í samfélaginu? Það er ljóst að þessi nýju lög hafa valdið kennurum óvissu um langa hríð og það er fullt útlit fyrir að þau muni halda því áfram. Innleiðing þeirra mun ekki síður valda foreldrum og börnum óvissu en að mínu mati er síst á hana bætandi. Að síðustu er ljóst að kostnaður af innleiðingu laganna verður umtalsverður fyrir ríkið og þar af leiðandi skattgreiðendur. Það eitt og sér ætti auðvitað að vera fullnægjandi krafa um frestun innleiðingar laganna.

Sá kostnaður og sú óvissa sem framkvæmd nýju fræðslulaganna hefur í för með sér ættu að liggja í augum uppi. Þess vegna skil ég ekki af hverju innleiðingunni er ekki frestað í þeim tilgangi að stuðla að sparnaði í ríkisrekstrinum og vinna að því að draga heldur úr óvissu og kvíða en bæta við hvoru tveggja. Mér finnst rökin sem mæla með frestuninni blasa svo við að ég skil ekki hvernig menntamálaráðherra getur lokað augunum fyrir þeim. Ég skil þess vegna ekki í öðru en að henni gangi eitthvað það til með því að knýja innleiðingu þeirra til framkvæmda sem hún ætlar sér ekki að leggja upp á borðið. Þess vegna er ég tortryggin í garð menntamálaráðherra. Ég held reyndar að öll þjóðin hafi fulla ástæðu til að trotryggja hann líka.

><>      ><>      ><>      ><>      ><>      ><>    ><>      ><>      ><>      ><>        

 Hér eru krækjur í lög um leikskóla, - grunnskóla og - framhaldskóla ásamt lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda á skólastigunum þremur.

Ég vek sérstaka athygli á því hve orðalagið „ráðherra setur í reglugerð ákvæði“ er algengt í lögunum um framhaldsskólann.

Ég hef áður bloggað um þá undarlegu þögn sem ríkir um nýju fræðslulögin hér.


mbl.is Óþolandi að líða fyrir tortryggni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þorið, viljinn og getan!

Mikið finnst mér jákvætt að sjá hvað margir einstaklingar eru tilbúnir að standa fyrir aðgerðum til að mótmæla ástandinu sem ríkir í íslensku samfélagi í dag. Í gær og í dag stóðu nokkrir VR-félagar að mótmælum fyrir utan höfuðstöðar VR. Þeir krefjast þess að stjórn félagsins segi af sér því að formaður þess samþykkti að afnema persónulega ábyrgð stjórnenda Kaupþings á hlutabréfakaupum.

Gunnar Páll Pálsson, sem er formaður VR, sat í stjórn gamla Kaupþingsbanka fyrir hönd Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Hann samþykkti niðurfellingarnar lítk og aðrir í stjórn bankans. Einn mótmælendanna segir í samtali við mbl.is áframhaldandi setu hans í stjórn VR verði mótmælt í hádeginu hvern dag uns breytingar verði gerðar á stjórn félgasins

Ökumenn á Kringlumýrarbraut og öðrum stórum umferðaræðum hafa í dag og í gær verið hvattir til að þeyta bílflauturnar séu þeir ósáttir með efnahagsástandið. Katrín Oddsdóttir, laganemi, o.fl. hafa staðið fyrir þessu. Þau hafa komið sér fyrir á göngubrúm sem liggja yfir þessar götur með borða þar sem þau hvetja ökumenn til að þenja bílflautur sínar til að láta óánægju sína í ljós. (visir.is)

Svo er stóri dagurinn á morgunn (laugardagurinn 8. nóvember) en þá verður fjórði mótmælafundurinn haldinn á Austurvelli. Í ljósi þess að þetta er fjórði fundurinn er ég í raun alveg gáttuð á heyrnarleysi þeirra sem ættu að taka mótmælin til sín en vonandi verður mannmergðin svo mikil á morgun að þeir komast ekki hjá því að heyra og sjá. Mótmælafundurinn byrjar sem fyrr kl. 15:00 en það er ýmislegt fleira sem hefur verið skipulagt á morgun.

Annar borgarafundurinn sem haldinn er í Iðnó hefst hann kl. 13:00 á morgun. Fjórir frummælendur hefja umræðuna (5-10 mín hver) og eru þeir eftirtaldir:

Lilja Mósesdóttir hagfræðingur,
Pétur Tyrfingsson
sálfræðingur,
Ingólfur H. Ingólfsson
fjármálaráðgjafi og
Halla Gunnarsdóttir blaðamaður.

Það má kannski geta þess að fundurinn verður tekinn upp af RÚV og sendur út þriðjudaginn 11. nóv. kl. 21:00 á Rás 1 í þættinum Í heyrenda hljóði. Þátturinn er í umsjá Ævars Kjartanssonar.

Auðvitað skella sér svo allir á Austurvöll á eftir borgarafundinn og taka með sér kröfuspjöld sem verða tilbúin fyrir utan Iðnó (Sjá blogg Katrínar Snæhólms)

Ég veit ekki betur en einhverjir ætli að mæta á Hlemm og leiða mótmælagöngu niður Laugaveg sem endar á Austurvelli. Ég hef því miður engar heimildir fyrir þessu sem ég get vísað í beint. Hins vegar hef ég séð ábendingar um að hún sé fyrirhuguð í athugasemdum hér og hvar í bloggheimum. 

Svo ætlar hópur sem kallar sig  Reykjavík Tea Party líka að standa fyrir mótmælum á meðferð Breta með táknrænum hætti. Mótmælin fara fram við hafnarbakkann í Reykjavík (á móts við Kolaportið). Mæting er klukkan 14:40 og eru allir hvattir til að taka með sér einn tekpoka. Tepokunum á að henda í höfnina.

Þegar borgarafundinum og mótmælunum niður við höfnina er lokið geri ég ráð fyrir að fólk flæði í stríðum staumum á mótmælafundinn á Austurvelli sem hefst kl. 15:00. Ræðumenn þar eru:

Sigurbjörg Árnadóttir fyrrverandi fréttamaður RÚV í Finnlandi.
Arndís Björnsdóttir kennari
Einar Már Guðmundsson rithöfundur

Fundarstjóri: Hörður Torfason 

Morgundagurinn er stór dagur og ég trúi því að eftir hann geti stjórnvöld ekki neitað að tala, sjá og heyra.

neita að tala, heyra og sjáMig langar til að vekja athygli á því sem kemur fram  á bloggi Egils Helgasonar um að skilyrðið  sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setur fyrir lánveitingu til Íslands sé mjög skýr. Hún er einfaldlega sú að núverandi ríkistjórn segi af sér og kosið verði um nýja. Þar er líka sagt að orðið á götunni úti í Evrópu sé það að núverandi ríkistjórn er hættuleg, ótraustverðug og spillt. Þetta er haft eftir þeim fjölmörgu erlendu fréttamönnum sem hafa heimsótt Ísland að undanförnu og stutt af mörgum erlendum sérfræðingum í viðskipta- og efnahagsmálum.

Þetta ætti að stappa stálinu í þá sem finnst núverandi ástand og það sem blasir við í nánustu framtíð ekki vera nægileg ástæða til að taka þátt í einhverjum af aðgerðum morgundagsins. Það er nefnilega brýnt að þjóðin standi saman þannig að ríkisstjórnin geti ekki leitt það sem liggur í augum uppi hjá sér lendur. Það er nefnilega engum blöðum um það að fletta að hún er óhæf til að leysa úr þeim vanda sem hún hefur leitt yfir þjóðina. Þess vegna á ríkistjórnin að víkja tafarlaust!

Að lokum langar mig til að vekja athygli á því að hópurinn Neyðarstjórn kvenna, sem hittist sl. mánudagskvöld, mun hittast aftur n.k. mánudagskvöld, 10. nóvember, kl. 20:00 í stofu 131A í Háskólanum í Reykjavík. Í fundarboði hópsins segir: „Ætlum að vera tilbúnar með allt sem fram kom á síðasta fundi til úrvinnslu svo við getum búið til málefnahópa og komið okkur að verki.“

Það kemur fram í umræðunni á síðu hópsins inni á Facebook að það standi jafnvel til að hópurinn haldi fund á Akureyri. Þar hefur verið stungið upp á dagsetningunni 17. nóvember n.k. Ég vona að af þessu verði. Hér er umfjöllun sjónvarpsstöðvarinnar Inn um þennan hóp en þar er líka talað við einhverja fleiri sem hafa verið að stofna mótmælasíður inni á Facebook.

Sameinumst um að skapa landi okkar og þjóð bjarta framtíð. Sameinum krafta okkar til að koma núverandi stjórnendum frá svo það megi verða!

Spillingarliðið verður að víkja!

 


Frá nýliðnum borgarafundi á Akureyri

Nú í kvöld var haldinn annar Borgarfundurinn hér á Akureyri. Fundurinn var haldinn í sal Brekkuskóla og hófst kl. 20:00. Yfirskrift fundarins var: Ákall til þjóðarinnar – fundum til lýðræðis!!! Það eru akureysk grasrótarsamtök sem stóðu að þessum fundi en þau komu líka að undirbúningi mótmælagöngunnar hérna fyrir norðan sem var gengin laugardaginn 25. okt. sl. og borgarafundinum sem var haldinn í Deiglunni sl. fimmtudag.

Þessi grasrótarsamtök nefna sig Byltingu fíflanna-Revoltion of the dandelions en forsprakkar þeirra eru George Hollander og Sigurbjörg Árnadóttir*. Markmið borgarafundarins í kvöld var að fá svör við spurningum eins og:

sigrun_bjork_jakobsdottir_721057.jpgHvernig stendur bæjarfélagið okkar?
Hvaða aðgerða er að vænta þaðan?
Hvað er Almannaheillanefnd? Fyrir hverja, hvar og hvenær?

Eftirtaldir reyndu að svara þessum spurningum fyrst í framsöguerindum  en svo með því að sitja fyrir svörum fundargesta:

Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri
Hermann Jón Tómasson, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs
Gunnar Gíslason, Almannaheillanefnd

hermanntomasson_721140.jpgAkureyringar eru nú orðnir 17.500 manns. Á fundinum voru, þegar flestir voru, um 200 manns. Fundurinn fór í raun mjög friðsamlega fram, framan af a.m.k., og benti einn fundargesta á að honum þætti þessi fundur alveg ótrúlega krúttlegur miðað við þær alvarlegu aðstæður sem ríktu í íslensku samfélagi. Miðað við að það eru 400 á Akureyri á atvinnuleysisskrá, nú þegar og ljóst að þó nokkrir munu bætast við um næstu mánaðarmót og enn fleiri um mánaðarmót janúar/febrúar, þá er það svo sannarlega satt hjá honum. Andrúmsloftið breyttist reyndar nokkuð eftir að hann kom þessu og fleiru sem honum fannst gagnrýnisvert á framfæri við þá sem sátu fyrir svörum.

Ég get ekki ætlast til þess að fulltrúar Bæjarstjórnar Akureyrar svari fyrir gjörðir flokkssystkina sinna í ríkisstjórninni. Svör þeirra við ofangreindum spurningum voru m.a. annars þau að staða bæjarsjóðs er ágæt miðað við t.d. ýmis bæjar- og sveitarfélög á suðvesturhorninu. Þau voru spurð nánar út í það hvað það þýddi og kom þá meðal annars fram að þau þyrftu ekki að loka neinum leikskólum eða grunnskólum. Ég fékk gæsahúð...

Einhverjir gagnrýndu stefnu bæjaryfirvalda í atvinnumálum en fundur þeirra og fulltrúa atvinnulífsins hér fyrir norðan er fyrirhugaður á morgun. Það er spurning hvort einhverra stefnubreytinga er að vænta hjá Akureyrarbæ í þeim málaflokki núna. Það verður að segjast eins og er að það er reyndar mjög aðkallandi að svo verði.

Mig langar til að vekja athygli á því hér að Akureyrarbær hefur stofnað sérstaka Almannaheillanefnd. Nefndin var stofnuð 17. okt. sl. Nefndinni er ætlað að styðja og styrkja íbúa á Akureyri og nágrenni sem lenda í vandræðum vegna þeirra aðstæðna sem skapast hafa í efnahagslífi þjóðarinnar. Þeir sem eiga fulltrúa í þessari nefnd eru Akureyrarbær, Heilsugæslustöðin, Rauði krossinn, kirkjurnar, verkalýðsfélögin, framhaldsskólarnir, Háskólinn á Akureyri, Vinnumálastofnun og Sjúkrahúsið á Akureyri. (Tekið úr upplýsingum um nefndina sem er að finna inni á heimasíðu Akureyrarbæjar og heimasíðu Verkmenntaskólans á Akureyri)

Þetta er auðvitað lofsvert framtak en það er hins vegar spurning hvort og hvernig þetta framtak komi til með að nýtast þeim sem bíða tjón í þessum efnahagshörmungum sem ríða yfir þjóðina.

Áhyggjur mínar af landi mínu og þjóð aukast dag frá degi. Þessar áhyggjur hafa knúið mig til að standa upp á þessum og síðasta borgarfundi. Að þessu sinni var ég með undirbúna ræðu.

Ég ætla að birta tvö brot úr niðurlagi ræðu minnar sem ég flutti á fundinum í kvöld. Það er e.t.v. rétt að taka það fram að ég hef lagað hana örlítið að breyttum aðstæðum (Það sem tilheyrir ræðunni er blálitað):

Mér finnst ástæða til að vekja athygli á þeirri merkilegu staðreynd að ýmsir áhrifamenn og -konur í íslensku samfélagi, sem hafa látið í sér heyra af minna tilefni en því sem blasir við almenningi í dag, þegja nú þunnu hljóði. Ég spyr mig þess vegna margra spurninga í sambandi við það hvar þessir einstaklingar eru í dag og hvers vegna þeir kjósa að halda sig til hlés við þær alvarlegu aðstæður sem blasa við þjóðinni í dag. Ég bíð, og ég vona að einhver taki loks frumkvæðið og stígi fram og segi eitthvað sem má verða íslensku þjóðinni til varnar áður en allt verður farið til andskotans.

Ég lauk ræðu minni á því að stinga upp á því að Bæjarstjórn Akureyrar tæki þetta frumkvæði vegna þess að:

Það er nefnilega miklu líklegra að bæjarstjóri Akureyrarbæjar eða aðrir fulltrúar bæjarstjórnarinnar nái eyrum þeirra sem gegna stjórn landsins heldur en t.d. ég sem er bara ein smávaxin kona norður í landi. Ég beini þess vegna þeim vinsamlegu tilmælum mínum og einlægu ósk til ykkar, sem farið með stjórn Akureyrarbæjar, að þið komið eftirfarandi á framfæri við ráðherra ríkisstjórnarinnar fyrir mína hönd og annarra sem treysta sér til að taka undir með mér. Tilmælin eru þessi:

Að ráðherrar ríkisstjórnarinnar sýni heilindi í störfum sínum og framkomu.

Að þeir láti velferð almennings ganga fyrir einstaklingshagsmunum einstakra manna og kvenna.

Að þeir horfist í augu við að óeðlileg fjölskyldu- og hagsmunatengsl eru á milli þeirra sem sitja í ríkisstjórn og hinna sem stýra bönkunum og öðrum mikilvægum stofnunum efnahagslífsins.

Að þeir skipi rannsóknarnefnd skiðaða erlendum sérfræðingum nú þegar.

Ég reikna ekki með að Bæjarstjórn Akureryrar verði við þessu. Hins vegar vona ég og bið þess að ofantalið nái að lokum eyrum einhvers sem hefur áhrif og vill hlusta. Ég bið þess að það verði áður en það er of seint.

Svo það fari nú örugglega ekkert á milli mála þá ætla ég að taka það fram áður en ég lýk þessari færslu að sú skoðun mín að núverandi ríkisstjórn sé óhæf til að fara með forræði íslensku þjóðarinnar hefur alls ekkert breyst. Þvert á móti þá styrkist hún með hverjum deginum sem líður. Þess vegna ætla ég líka að kveðja að hætti Ólínu Þorvarðardóttur að þessu sinni:

Burt með spillingarliðið - hvar í flokki sem það stendur!

 

*Sigurbjörg Árnadóttir er okkar sérfræðingur í finnsku leiðinni. Sú sem stjórnmálamenn ættu að hlusta á til að skilja að sú leið er alls engin gæfuleið. Þvert á móti. Ef þið hafið ekki heyrt í henni áður þá hvet ég ykkur til að lesa þessa færslu Láru Hönnu þar sem hún hefur safnað saman útvarpsviðtölum og blaðaviðtali við Sigurbjörgu. Ég vek líka athygli á að Sibba (eins og hún er kölluð) verður í Silfri Egils núna á sunnudaginn (9.nóv)


Hamfararsaga útrásarinnar

 Ég rakst á eftirfarandi sögu a síðunni hans Egils; Silfri Egils. Hann getur þess ekki hver samdi hana þannig að ég veit ekkert meira um höfundinn en það sem eigandi hennar segir af sjálfum sér í upphafi sögu sinnar. Ég setti þetta hérna inn vegna þess að hér eru hörmungarnar sem hafa verið að ganga yfir þjóðina undanfarnar vikur settar fram á afar spaugilegan hátt en kaldhæðnin lekur líka af hverju orði.

Hin alvarlega atburðarrás sem leiddi til efnahagshruns þjóðarinnar og sú sem átti sér stað dagana í kringum bankahrunið eru sett þannig fram í þessari sögu að þeir verða grátbroslegir. Sögupersónurnar eru stjórnendur þjóðarskútunnar og útrásarvíkingarnir sem þeir gáfu lausan tauminn. Stíll sögunnar er skoplegur en efnið grafalvarlegt þannig að hann er alveg í stíl við alla tvíbendnina sem einkennir þá sem sagan fjallar um.

Hamfarasaga 

Mig langar til að segja þér dálitla sögu. Þetta er hamfarasaga, en ég er jarðfræðikennari og skútukarl, og það er einmitt traust reynsla þegar greina skal atburði þá er hér verður lýst. Þeir sem til þekkja munu staðfesta þessa frásögn eftir því sem þeir best vita. Það getur þó reynst hverjum manni ofraun að grafa upp sannleikskorn úr þeim harðskafli sem nú hylur landið þar sem flokkshollusta þykir meiri dyggð en almenn skynsemi og sannleiksást.

Á liðnu sumri hreppti þjóðarskútan brælu en sigldi þó beina stefnu fyrir fullum seglum með skerjagarðinn framundan. Stjórnendur töngluðust glaðbeittir á því hvað skipið væri gott og að skerin væru hró. Því miður sýnir reynslan að galgopaháttur af þessum toga er til marks um óhæfa stjórnendur og ósamkomulag í brúnni.

Lengi vel höfðu allar stefnubreytingar verið á stjórnborða en nú var svo komið að skipið var farið að sigla til baka eftir allar hægribeygjurnar. Auk þess voru nú áberandi sker komin upp stjórnborðsmegin. Þeim sem aðhylltust stjórnborðsstefnu þótti minnkunn af því að láta opinberlega af trú sinni. Því var áfram siglt beint og hátt. Í brúnni ríkti þögnin ein. Hásetarnir stóðu klárir við skautin en engin skipun barst um að breyta seglum. Kallarinn Hannes sem hafði gegnt því hlutverki að kalla „hægri snúúúú !“ fyrir skipstjórann var nú þagnaður.

Að lokum kom að því að menn tóku að ræða um það hverju ætti að bjarga ef allt færi á versta veg. Davíð skipstjóri, Geir undirsáti, Hannes kallari og fleiri úr stjórnborðsliðinu vildu bjarga sjóðum vina sinna þeirra Kjartans og Björgólfsfeðga. Þeir áttu þar greiða að gjalda því Kjartan og Björgólfsfeðgar höfðu um langa hríð fjámagnað sjóði stjórnborðstrúboðsins á laun. Einnig var rætt um að senda neyðarkall til breska flotans.

Sá galli var þó á þessari ráðagerð allri að bakborðsmönnum í brúnni þótti rétt að eitt skyldi yfir alla skipsverja ganga þegar kæmi að björgunaraðgerðum eins og kveður á um í sjóferðalögum. Einnig þótti það ókostur að þeir Kjartan og Björgólfsfeðgar höfðu farið með ránum og ófriði um strendur Bretlands og skilið þar eftir sviðna jörð. Því þótti víst að sjóðir þeirra yrðu gerðir upptækir sem hvert annað vogrek ef til björgunar kæmi. Einnig þótti líklegt að skipsbrotsmenn yrðu hengdir ef þeir féllu í hendur Bretum hvort sem þeir hefðu tekið þátt í sjóránum útrásarvíkinga eður ei. Því var enn siglt og ákveðið að láta reyna á skerin.

Nú kemur til sögunnar Þorsteinn nokkur Már. Hann var skipstjórnarmaður góður og þrautreyndur úr mörgum óveðrum. Þá var um borð í skútunni sjóðurinn Glitnir. Hann var hluti af ránsfeng Jóns víkings Ásgeirs úr Bónhúsum sem herjað hafði víða á vinveittar nágrannaþjóðir. Þorsteinn tók Davíð tali og lagði það til að sjóðnum Glittni yrði bjargað og hann hafður sem kjölfesta í björgunarbátnum.

Davíð tók þetta óstinnt upp enda var hann óvildarmaður Jóns og vildi hans sjóði til einskis góðs nýta. Hrifsaði hann sjóðinn úr höndum Þorsteins svo hart að fygldu með neglurnar. Það herma kunnugir að Þorsteinn hafi ei í annan tíma brugðið svo svip enda var hann handlama eftir. Eigi brást honum þó ákvæðaskáldskapurinn og kastaði hann fram vísu þessari:

sinking_ship_719934.jpgSárt er þann sjóð að missa
svíður í undir handa
stafnkvígs brot sé og blástur
beljandi Rán mun hrista
en svalbúinn sulluraftur
sökkva mun fjár í vanda
Björgúlfum báðum svikinn
botninn af hann mun gista.

Davíð vildi nú afhenda þeim Björgólfsfeðgum sjóðinn Glitni en þeir voru þá þegar rónir á björgunarbátnum. Bað hann þá snúa við og þiggja sjóðinn sem kjölfestu. Þeir töldu sig hafa ærna kjölfestu þegar og myndu þeir halda áfram sjóránum er veðrinu slotaði. Lét nú Davíð bera alla sjóði út á lunninguna og bað þá snúa við og hirða. Þeir vildu eigi þiggja enda var margt þar illa fengið og ekki gott að hafa innanborðs ef þeir leituðu griða hjá Bretum.

Kom þá til þess er vísir menn höfðu fyrir séð að Þjóðarskútunni hvolfdi, enda kjölfestan öll á lunningunni. Gekk þar allt eftir er Þorsteinn hafði fyrir séð. Réru þeir Björgólfsfeðgar við svo búið á brautu og vildu engum bjarga þó svo margir mætir stjórnborðsmenn veltust í brimgarðinum. Launuðu þeir þar með kinnhest þann er Björgólfur eldri hafði eitt sinn fengið í svallveislu þeirra stjórnborðsliða.

Það sást síðast til skipsbrotsmanna að sumir voru þá þegar drukknaðir í hafrótinu og flutu búkarnir víða. Allir sjóðir voru þá horfnir fyrir borð og þeir sem komist höfðu á kjöl áttu von á því að verða hengdir fyrir sjórán ef einhver hirti um að bjarga þeim. Mændu nú skipsbrotsmenn grátbólgnum augum upp til himnadísarinnar Evrópu, en hún var enn í sárum eftir samskiptin við Seif, dauf og lítt fallin til áheita. Vildi hún ekkert með þá hina blautlegu karla hafa nema ef þeir færðu henni þjóðarskútuna góðu á réttum kili. Reyndu nú skipsbrotsmenn sem ákafast að rétta við skútuna til þess að færa hana himnadísinni að gjöf.

Engar fregnir eru af því hvernig til tókst en mörgum líkum hefur þegar skolað á land. Þar á meðal eru flestir úr liði stjórnborðsmanna. Er til þess tekið hve rýrir búkar þeirra eru nú en þeir voru allir nokkuð þykkvir fyrir enda hafði Davíð alið þá vel. Skipsstjórnin er nú öll talin af enda héldu þeir of lengi í sjóðina þegar skútunni hvolfdi. Fé það er þeir vildu svo ákaft afhenda dró þá á botninn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband