Við þurfum að skapa skilyrði fyrir bjarta framtíð

Eins og einhverjir vita var haldinn borgarafundur í Deiglunni á Akureyri sl. fimmtudagskvöld (þ.e. 30. okt.). Þeir sem þekkja til þar vita að Deiglan rúmar ekki marga í sæti enda hef ég grun um að skipuleggjendur þessa fundar hafi ekki búist við neitt sérstaklega mörgum. Veit reyndar ekki hvernig þessi fundur var auglýstur en ég rakst sjálf á auglýsingu inni á Facebook.

Reyndin varð sú að það var setið í flestum sætum. Tveir frummælendur voru á fundinum en það kom í ljós að það voru fleiri með undirbúna ræðu sem þeir vildu miðla fundargestum. Þegar upp var staðið höfðu rúmlega tíu tekið til máls. Það er greinilegt að flestir þeirra sem tóku til máls vilja horfa til framtíðar og byggja upp betra og réttlátara samfélag. 

Ég get auðvitað tekið undir það en ég bað um orðið til að koma eftirfarandi á framfæri. Ég ætla að taka það fram að þetta er ekki orðrétt það sem ég sagði á fundinum. Þar talaði ég bara eins og andinn blés mér í brjóst á þeirri stundu. Efnislega er það sem er skáletrað þó það sama en aðlagað að öðrum aðstæðum:

Sjálfsmynd mín sem Íslendings hefur orðið fyrir alvarlegu áfalli vegna þess sem hefur dunið á þjóðinni að undanförnu. Ég er reyndar viss um að það eru margir í sömu sporum og ég hvað það varðar. Framkoma stjórnvalda gagnvart íslensku þjóðinni í kjölfar nýliðinna atburða veldur því að sjálfsvirðing mín heldur áfram að molna niður.

Það er hollt og gott að horfa til framtíðarinnar og gera það upp við sig hvernig maður vill að hún verði. Það er líka gott að hafa hugmyndir um það hvernig á að fara að því að byggja upp til að framtíðin verði björt. Til að skapa þau skilyrði að það birti yfir framtíðinni tel ég hins vegar nauðsynlegt að byrja á því að koma sitjandi ríkisstjórn og óreiðumönnum á hennar vegum frá. Mér líst ekki á að bíða fram að næstu kosningum. Það verður bara til þess að það bættist enn frekar ofan á óreiðuna.

Ef þjóðin væri barn í umsjá foreldra sem kæmi fram við það eins og stjórnvöld gagnvart þjóðinni núna myndu barnaverndaryfirvöld vera kölluð til. Foreldrarnir eru óreiðufólk sem er ekki fært um að skapa barninu skilyrði til að þroskast eðlilega og beita barnið andlegu ofbeldi. Þess vegna yrðu þeir dæmdir óhæfir og barnið tekið af þeim. En hvert getur þjóðin leitað?

Við verðum að standa vörð um okkur sjálf og að mínu viti gerum við það með því að dæma núverandi ríkistjórn óhæfa til að fara með forræði íslensku þjóðarinnar. Hvernig komum við þessum skilaboðum áleiðis? Ég ætla að leggja fram nokkrar tillögur sem ég lagði fram á fundinum, bæta við einni sem kom utan úr sal og nefna eina enn sem mér var að detta í hug.

Ég stakk upp á fjöldamótmælum í Reykjavík sem landsbyggðin myndi taka þátt í líka og/eða borgarafundi sem sendi frá sér ályktun til ríkistjórnarinnar eða umboðsmanns Alþingis þar sem þessari kröfu væri komið á framfæri. Einn fundarmanna benti á undirskriftarlistann kjósa.is sem er inni á Netinu. Þar segir:

Við undirrituð viljum kjósa til Alþingis

Kjósendur á Íslandi telja ekki fært að hefja uppbyggingarstarf eftir bankahrunið nema með endurskoðuðu umboði stjórnvalda.

Í lýðræðisþjóðfélagi er það aðeins hægt með kosningum til Alþingis og myndun ríkisstjórnar byggða á þeim meirihluta sem þá nær saman eða þjóðstjórn fái enginn flokkur skýrt umboð kjósenda.

 
Í þessum skrifuðu orðum eru þeir 2905 sem eru búnir að skrifa undir þennan lista. Vonandi er ástæðan fyrir því að þeir eru ekki fleiri sú að hann vantar kynningu þannig að ég skora á alla að vekja athygli á honum. Það sem mér var svo að detta í hug er að mótmælafundir og borgarafundir myndu beina þeirri áskorun til  forsetans að hann leysti upp þingið þannig að hægt væri að boða til nýrra kosninga.

Þetta eru aðeins hugmyndir sem ég set hérna fram. Mér finnst staðan í samfélaginu ískyggileg. Það eru margir sem segja að við berum öll ábyrgð eins og það sé réttlæting þess að fámenn auðmannaklíka setti landið á hausinn í skjóli núverandi stjórnvalda. Þó einhverjir hafi fengið peningaglýju í augun og tekið lán til að lifa um efni fram réttlætir það ekki að stórglæpamennirnir komist upp með að láta íslenskum almenningi það eftir að borga upp hryðjuverkin sem þeir hafa unnið íslensku efnahagslífi.

Ég fyllist skelfingu við að fylgjast með forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Ég fyllist skelfingu við að heyra þá tala um að einkavæða bankanna aftur. Ég fyllist skelfingu við að heyra þá tala um að setja nú allt á fullt í byggingu fleiri álvera. Síðast en ekki síst þá kikna ég undan virðingarleysi stjórnarforustunnar og forystumanns Seðlabankans fyrir mér og þjóðarsystkinum mínum.

Ég vil að við mótmælum öll!!! Ef við viljum endurheimta virðingu okkar sem þjóð og fá að bera okkur með reisn inn í bjartari framtíð þá þarf núverandi ríkisstjórn, stjórn Seðlabankans og þeir sem stýra Fjármálaeftirlitinu að víkja. Ástæðan er einföld. Þessir brugðust Íslandi og þjóðinni allri. Þeir hafa sýnt það og sannað að þeir valda ekki þeim trúnaðarstörfum sem við sem þjóð trúðum og treystum þeim fyrir.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Johann Trast Palmason

Amen ! Ég er rosalega ánægður með ykkur norðanmenn. Málefnanleg og vel sett framm hjá ykkur og ég er svo sammála. þið gerðuð góða hluti í gær endilega haldið áfram og styrkið böndin í norðlensku samfélagi.

Ykkar huxanir og orð og athafnir skifta mjög mikklu máli.

Ég vil bara hafa það á hreinu.

Stöndum Saman

Sameinað Ísland

Johann Trast Palmason, 31.10.2008 kl. 06:52

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir það Jóhann Þröstur Maður finnur svo virkilega fyrir því að það er þungt að róa á móti straumnum. Draumur minn er sá að skilningurinn á samfélagi sé að það virki fyrir alla ekki bara örfáa útvalda. Ég stend í þeirri meiningu að það sé meiningin á bak við lýðræðisþjóðfélag. Mér finnst það svolítið sorglegt hvað það eru í raun margir sem týna sér í einhverjum sérhagsmunum og/eða smáatriðum þegar það er ljóst að langflestir eru sammála um þetta grundvallaratriði.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 31.10.2008 kl. 20:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband