Hamfararsaga útrásarinnar

 Ég rakst á eftirfarandi sögu a síðunni hans Egils; Silfri Egils. Hann getur þess ekki hver samdi hana þannig að ég veit ekkert meira um höfundinn en það sem eigandi hennar segir af sjálfum sér í upphafi sögu sinnar. Ég setti þetta hérna inn vegna þess að hér eru hörmungarnar sem hafa verið að ganga yfir þjóðina undanfarnar vikur settar fram á afar spaugilegan hátt en kaldhæðnin lekur líka af hverju orði.

Hin alvarlega atburðarrás sem leiddi til efnahagshruns þjóðarinnar og sú sem átti sér stað dagana í kringum bankahrunið eru sett þannig fram í þessari sögu að þeir verða grátbroslegir. Sögupersónurnar eru stjórnendur þjóðarskútunnar og útrásarvíkingarnir sem þeir gáfu lausan tauminn. Stíll sögunnar er skoplegur en efnið grafalvarlegt þannig að hann er alveg í stíl við alla tvíbendnina sem einkennir þá sem sagan fjallar um.

Hamfarasaga 

Mig langar til að segja þér dálitla sögu. Þetta er hamfarasaga, en ég er jarðfræðikennari og skútukarl, og það er einmitt traust reynsla þegar greina skal atburði þá er hér verður lýst. Þeir sem til þekkja munu staðfesta þessa frásögn eftir því sem þeir best vita. Það getur þó reynst hverjum manni ofraun að grafa upp sannleikskorn úr þeim harðskafli sem nú hylur landið þar sem flokkshollusta þykir meiri dyggð en almenn skynsemi og sannleiksást.

Á liðnu sumri hreppti þjóðarskútan brælu en sigldi þó beina stefnu fyrir fullum seglum með skerjagarðinn framundan. Stjórnendur töngluðust glaðbeittir á því hvað skipið væri gott og að skerin væru hró. Því miður sýnir reynslan að galgopaháttur af þessum toga er til marks um óhæfa stjórnendur og ósamkomulag í brúnni.

Lengi vel höfðu allar stefnubreytingar verið á stjórnborða en nú var svo komið að skipið var farið að sigla til baka eftir allar hægribeygjurnar. Auk þess voru nú áberandi sker komin upp stjórnborðsmegin. Þeim sem aðhylltust stjórnborðsstefnu þótti minnkunn af því að láta opinberlega af trú sinni. Því var áfram siglt beint og hátt. Í brúnni ríkti þögnin ein. Hásetarnir stóðu klárir við skautin en engin skipun barst um að breyta seglum. Kallarinn Hannes sem hafði gegnt því hlutverki að kalla „hægri snúúúú !“ fyrir skipstjórann var nú þagnaður.

Að lokum kom að því að menn tóku að ræða um það hverju ætti að bjarga ef allt færi á versta veg. Davíð skipstjóri, Geir undirsáti, Hannes kallari og fleiri úr stjórnborðsliðinu vildu bjarga sjóðum vina sinna þeirra Kjartans og Björgólfsfeðga. Þeir áttu þar greiða að gjalda því Kjartan og Björgólfsfeðgar höfðu um langa hríð fjámagnað sjóði stjórnborðstrúboðsins á laun. Einnig var rætt um að senda neyðarkall til breska flotans.

Sá galli var þó á þessari ráðagerð allri að bakborðsmönnum í brúnni þótti rétt að eitt skyldi yfir alla skipsverja ganga þegar kæmi að björgunaraðgerðum eins og kveður á um í sjóferðalögum. Einnig þótti það ókostur að þeir Kjartan og Björgólfsfeðgar höfðu farið með ránum og ófriði um strendur Bretlands og skilið þar eftir sviðna jörð. Því þótti víst að sjóðir þeirra yrðu gerðir upptækir sem hvert annað vogrek ef til björgunar kæmi. Einnig þótti líklegt að skipsbrotsmenn yrðu hengdir ef þeir féllu í hendur Bretum hvort sem þeir hefðu tekið þátt í sjóránum útrásarvíkinga eður ei. Því var enn siglt og ákveðið að láta reyna á skerin.

Nú kemur til sögunnar Þorsteinn nokkur Már. Hann var skipstjórnarmaður góður og þrautreyndur úr mörgum óveðrum. Þá var um borð í skútunni sjóðurinn Glitnir. Hann var hluti af ránsfeng Jóns víkings Ásgeirs úr Bónhúsum sem herjað hafði víða á vinveittar nágrannaþjóðir. Þorsteinn tók Davíð tali og lagði það til að sjóðnum Glittni yrði bjargað og hann hafður sem kjölfesta í björgunarbátnum.

Davíð tók þetta óstinnt upp enda var hann óvildarmaður Jóns og vildi hans sjóði til einskis góðs nýta. Hrifsaði hann sjóðinn úr höndum Þorsteins svo hart að fygldu með neglurnar. Það herma kunnugir að Þorsteinn hafi ei í annan tíma brugðið svo svip enda var hann handlama eftir. Eigi brást honum þó ákvæðaskáldskapurinn og kastaði hann fram vísu þessari:

sinking_ship_719934.jpgSárt er þann sjóð að missa
svíður í undir handa
stafnkvígs brot sé og blástur
beljandi Rán mun hrista
en svalbúinn sulluraftur
sökkva mun fjár í vanda
Björgúlfum báðum svikinn
botninn af hann mun gista.

Davíð vildi nú afhenda þeim Björgólfsfeðgum sjóðinn Glitni en þeir voru þá þegar rónir á björgunarbátnum. Bað hann þá snúa við og þiggja sjóðinn sem kjölfestu. Þeir töldu sig hafa ærna kjölfestu þegar og myndu þeir halda áfram sjóránum er veðrinu slotaði. Lét nú Davíð bera alla sjóði út á lunninguna og bað þá snúa við og hirða. Þeir vildu eigi þiggja enda var margt þar illa fengið og ekki gott að hafa innanborðs ef þeir leituðu griða hjá Bretum.

Kom þá til þess er vísir menn höfðu fyrir séð að Þjóðarskútunni hvolfdi, enda kjölfestan öll á lunningunni. Gekk þar allt eftir er Þorsteinn hafði fyrir séð. Réru þeir Björgólfsfeðgar við svo búið á brautu og vildu engum bjarga þó svo margir mætir stjórnborðsmenn veltust í brimgarðinum. Launuðu þeir þar með kinnhest þann er Björgólfur eldri hafði eitt sinn fengið í svallveislu þeirra stjórnborðsliða.

Það sást síðast til skipsbrotsmanna að sumir voru þá þegar drukknaðir í hafrótinu og flutu búkarnir víða. Allir sjóðir voru þá horfnir fyrir borð og þeir sem komist höfðu á kjöl áttu von á því að verða hengdir fyrir sjórán ef einhver hirti um að bjarga þeim. Mændu nú skipsbrotsmenn grátbólgnum augum upp til himnadísarinnar Evrópu, en hún var enn í sárum eftir samskiptin við Seif, dauf og lítt fallin til áheita. Vildi hún ekkert með þá hina blautlegu karla hafa nema ef þeir færðu henni þjóðarskútuna góðu á réttum kili. Reyndu nú skipsbrotsmenn sem ákafast að rétta við skútuna til þess að færa hana himnadísinni að gjöf.

Engar fregnir eru af því hvernig til tókst en mörgum líkum hefur þegar skolað á land. Þar á meðal eru flestir úr liði stjórnborðsmanna. Er til þess tekið hve rýrir búkar þeirra eru nú en þeir voru allir nokkuð þykkvir fyrir enda hafði Davíð alið þá vel. Skipsstjórnin er nú öll talin af enda héldu þeir of lengi í sjóðina þegar skútunni hvolfdi. Fé það er þeir vildu svo ákaft afhenda dró þá á botninn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jahá helv...gott....

Res (IP-tala skráð) 5.11.2008 kl. 18:10

2 identicon

Jáhá. Þetta var góð saga!

En er ekki framhald? Mér finnst eins og sögulokin séu enn óskrifuð.

Eggert Vébjörnsson (IP-tala skráð) 5.11.2008 kl. 19:08

3 Smámynd: Johann Trast Palmason

iss það vantar endinn...

hvernig skildi hann vera...

hehe

Johann Trast Palmason, 5.11.2008 kl. 20:47

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Gott að ykkur líkar sagan Mg langar líka til að sjá útleggingu höfundarins, sem á þessa sögu, á atburðunum sem hafa gerst í framhaldi þeirrar atburðarrásar sem hér er lýst.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 5.11.2008 kl. 20:56

5 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Góð saga og vel skrifuð eins og við er að búast af þessum manni.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 5.11.2008 kl. 23:34

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Veist þú hver höfundurinn er? Þú verður endilega að biðja að skrifa framhald

Rakel Sigurgeirsdóttir, 5.11.2008 kl. 23:43

7 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Góð saga en ég vildi gjarnan fá meira.-eða hvað varð um þrælana undir árum?

María Kristjánsdóttir, 6.11.2008 kl. 01:07

8 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Eigum við ekki bara að lýsa eftir höfundi sögunnar og biðja hann góðfúslega um að skrifa fyrir okkur framhaldið? Sagan virðist skrifuð fyrir u.þ.b. mánuði síðan þó hún hafi ekki birst á bloggi Egils Helgasonar fyrr en í fyrradag (eða 3. nóv) en samt sýnist mér vera komið nóg efni í annan kafla

Ég kann ekki að skýra það en einhvern vegin finn ég líkn í því að lesa um þessa ljótu sögu í búningi skopsögunnar. Ég verð eitthvað svo yfirþyrmt af lestri þessara ljótu frétta af græðginni, spillingunni, siðblindunni, hrokanum og valdníðslunni sem hefur viðgengist og komið þjóðinni í þá hræðilegu stöðu sem hún er í núna. Ég sótti mér þess vegna hvíld í þessa sögu í dag. 

Rakel Sigurgeirsdóttir, 6.11.2008 kl. 01:34

9 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hvernig sem framhaldið verður, þá spái ég að það endi illa...

Guðmundur Ásgeirsson, 6.11.2008 kl. 01:57

10 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þar tókst þér alveg að drepa bjartsýnina sem ég var að reyna að byggja upp með hlátrinum sem lestur þessarar sögu vakti mér Þér er samt fyrirgefið af því að það væri afneitun að reyna að halda öðru fram en að allar forsendur bendi til annars en þes að þú hafir rétt fyrir þér.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 6.11.2008 kl. 02:04

11 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það eru bara Hollywoodmyndir og slíkt fals sem enda undantekningalaust alltaf vel...  en svo eru líka til heimsbókmenntir sem fást við raunverulegri málefni og merkustu sögurnar eru ekki endilega alltaf gamansögur.

Guðmundur Ásgeirsson, 6.11.2008 kl. 03:02

12 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Heimsbókmenntirnar Háðið hefur verið einkar vinsæl aðferð til að fjalla um samtímann. Mér finnst greinilegt á þessari sögu eða sögubroti að það á enn vel við. Verður kannski líka alltaf besta tækið til að fjalla um hann.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 6.11.2008 kl. 13:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband