Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Er þetta stefnan sem þjóðin þarf á að halda núna?

Þeir hafa skjalfest það hjá Sjálfstæðisflokknum að það sé fólkið sem hafi brugðist en ekki stefnan. Við skulum þess vegna átta okkur á því að það er engrar stefnubreytingar að vænta hjá þeim flokki. Ég hef reyndar ekki orðið vör við neinar afgerandi mannabreytingar þar heldur.

Það vita það flestir, sem eru tilbúnir til að horfast í augu við það á annað borð, að það var fyrst og fremst stefna Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum sem leiddi yfir þjóðina það alvarlega efnahagsástand sem hún stendur frammi fyrir núna. Það er þess vegna í hæsta máta undarlegt að Sjálfstæðisflokkurinn skuli telja það sæmandi að bjóða upp á óbreytt ástand við núverandi aðstæður.

Það er afar fróðlegt að hlusta á orð Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar til að átta sig á því hvað Sjálfstæðisflokkurinn átti við með uppáhaldslagorði sínu í síðustu kosningabaráttu. Það er heldur ekki úr vegi að hugsa um Enron-málið í Bandaríkjunum þegar Hannes lýsir þessu „frábæra efnahagsundri“ sem hann og flokksfélagar hans fengu svigrúm til að vinna brautargengi á síðasliðnum tveimur áratugum.

Til glöggvunar skal það tekið fram að þetta viðtal er tekið í september árið 2007. Það er kannski líka rétt að minna á uppáhaldsslagorð Sjálfstæðismanna úr kosningabaráttunni vorið 2007. Það var: Þegar öllur er á botninn hvolft er traust efnahagsstjórn stærsta velferðarmálið!

Hér læt ég líka fylgja myndband frá Láru Hönnu Einarsdóttur þar sem hún hefur tekið saman Gullkorn Hannesar Hólmsteins Gissurarasonar um fólkið sem brást og stefnuna sem heldur enn...


mbl.is Atkvæði talin í fyrramálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar öllu er á botninn hvolft

Sjálfstæðisflokkurinn er ekki eini flokkurinn sem þarfnast alvarlegrar nafla- skoðunar. Þingfulltrúar hans eru heldur ekki þeir einu sem þurfa að horfast í augu við afleiðingar eigin gjörða og/eða aðgerðarleysis. Það er þó satt og rétt að enginn hinna flokkanna hefur setið við stjórnvölinn í jafnlangan tíma og þeir. Þeir hafa leitt stjórnarsamstarfið tvo síðastliðna áratugi og þar af leiðandi verið í lykilstöðu til að vinna sínum stefnumálum brautargengi og fylgja þeim eftir.
 
Myndlistarmaðurinn og bloggarinn Jónas Viðar Sveinsson birtir afstöðu sína gjarnan í formi skopteikninga eins og þessari hérna. Hún á vel við skrif mín í þessum pistli.Söluvænlegt Miðað við framgöngu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í gegnum tíðina skil ég ekki að nokkrum þeim sem hafa sanngirni, réttsýni og heiðarleika að leiðarljósi, svo ekki sé tekið dýpra í árinni, geti talið hag þjóðar sinnar best borgið með því að styðja þá til forystu. Sjálfstæðisflokkurinn eru hagsmunasamtök þeirra hópa sem telja eðlilegt að þeir njóti forréttinda í krafti ætternis, auðs og valda. Ég hef aldrei skilið hvernig er hægt að styðja slíkar hugmyndir.
 
Þær grafa ekki aðeins undan jafnrétti heldur lýðræðinu um leið. Ég held reyndar að það viti þetta allir innst inni þó þeir láti aðeins skína í það í orði en ekki á borði. Það er a.m.k. ljóst af því sem á undan er gengið að sumir hafa orðið „jafnari“ en aðrir og „frjálsari“ líka. Það er líka ljóst að klisjumeistarar Sjálfstæðisflokksins róa á mið hugmynda um öryggi, traust, jafnrétti o.fl. grunngilda sem þeir vita að kjósendum finnst skipta máli þó þeir vinni svo ekki að þessum þáttum nema fyrir örfáa útvalda.BlekkingargrímaSlagorðin fyrir kosningar og í stjórnmálaumræðunni renna úr munni þeirra eins og á færibandi en þegar betur er að gáð reynast þau líka aðeins loftbólur í skrautumbúðum líkt eins og misvísandi auglýsingaslagorð sem eru eingöngu til þess ætluð að selja áhrifagjörnum neytendum vöruna sem er verið að auglýsa.
 
Það er þess vegna ekki að undra þegar einhverjir spyrja hvort frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins álíti kjósendur heimska? Það má nenfinlega segja að þeir byggi annars vegar á tryggum peningaatkvæðum en hins vegar á atkvæðum áhrifagjarnra neytenda sem falla iðulega fyrir áhrifamætti vel heppnuðustu auglýsingarinnar.
 
Þeir sem hafa lært eitthvað um auglýsingafræði og afþreyingarmarkaðinn vita að því miður þá tryggja auglýsingaskrifstofur viðskiptavinum sínum gjarnan árangur með því að höfða til þess sem er stundum kallað „heimska neytenda“. Afþreyingarmenningin hefur verið sökuð um það sama en þeir afsaka sig gjarnan með því að þetta sé „það sem fólkið vill“. Þar hefur grunngildum eins og gæðum, hollum boðskap, jákvæðum áhrifum og fleirum í þeim dúr algerlega verið ýtt til hliðar fyrir aðgegnilegt, auðvelt og átakalaust. 
 
Ég ætla ekki að fara lengra út í þessi fræði að sinni en undirstrika að kveikjan að þessum skrifum er nýjasta klisjan úr klisjuverksmiðju Sjálfstæðisflokksins en hún hljómar þannig: Það var ekki fólkið sem brást heldur stefnan. Þegar öllu er á botninn hvolft þá er það fólk sem mótar stefnur. Það er líka fólk sem heldur þeim á lífi.
 
Stefnan er þess vegna ekkert sjálfstætt fyrirbæri sem er hægt að segja að standi eftir þegar fólkið hefur tekið ábyrgðina á því hvernig hún var útfærð og/eða beitt. M.ö.o. þessi klisja er jafn marklaus eins sú um trausta efnahagsstjórn sem kjósendum hans var lofað við síðustu kosningar. Það kemur best fram í því að þeir ætla ekkert að skipta út neinu fólki þrátt fyrir yfirlýsingar um breiskleika þeirra sem keyrðu stefnuna í strand.

Að mínu viti þurfa þingfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í meðferð næsta kjörtímabil. Allir þeir sem hafa setið á þingi fyrir flokkinn undanfarið þurfa að læra að taka heilbrigða og heiðarlega ábyrgð á gjörðum sínum. Þeir þurfa í rauninni að læra svo margt. Þeir þurfa að læra hvað hugtök eins og jafnrétti og lýðræði merkja. Þeir þurfa að læra að setja sig í spor almennings og koma fram við kjósendur á tímabilunum sem líða á milli kosninga. Þeir þurfa að læra að hlusta og að orða kosningarloforðin sín með öðru en marklausum og innhaldslausum auglýsingastofuklisjum.
Einstigi
Ég þykist vita að í Sjálfstæðisflokknum eru einstaklingar sem trúa því í alvöru að hinn þröngi vegur markaðshyggjunnar sé breiðstræti sem býður upp á tækifæri fyrir alla en í 300.000 manna samfélagi eru fatlaðir, börn, unglingar, atvinnu- lausir, sjúkir, aldraðir o.s.frv. Eða m.ö.o. einstaklingar og hópar sem hafa litla sem enga möguleika í hreinu markaðssamfélagi
 
Í mínum augum er einstigi peningahyggj- unnar sérhannað fyrir karlmenn í jakka- fötum með skjalatösku. Í mínum augum hefur stefna Sjálfstæðisflokksins dæmst handónýt á síðastliðnum mánuðum. Full- trúar hans þurfa að horfast í augu við þetta og leggja af innihaldslaus og mark- laus auglýsingaslagorð.
 
Ef flokkurinn vill halda áfram sem stjórnmálaafl þá verða þeir að horfast í augu við það að tími hagsmunasamtaka græðgis- og sérsinnaðara auðjöfra er liðinn í íslenskri póltík. Þjóðin þarf óeigingjarna einstaklinga inn á þing sem setja hagsmuni hennar á oddinn en fórna þeim ekki fyrir fámenn hagsmunasamtök ætternis, auðmagns og valda.

Klisjumeistararnir er enn að

Hvítþvottur déisins
mbl.is Fólkið brást, ekki stefnan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hetjur þurfa líka hvíldarhlé

Batterín hlaðinMér finnst það ákaflega leitt að sýnilegt andóf hafi verið lagt niður. Eins og Hörður segir í þessari frétt þá hafa laugardagsmótmælin verið vettvangur fyrir félagslegan og andlegan stuðning fjölda fólks. Þar á meðal mín. Þau hafa líka verið áminning til stjórnvalda en ekki síður ákveðið aðhald. Samt eiga þær umbætur enn langt í land sem flest okkar, sem stóðum mótmælavaktina, kölluðum eftir.

Það er reyndar mjög eðlilegt að þeir sem hafa leitt baráttuna að þvílíkum krafti og Hörður Torfason þurfi hvíld. Það tekur örugglega á að vera í framvarðarsveitinni og þess vegna þurfa þeir tíma sem þar hafa staðið til að hlaða batteríin.

Það er reyndar ástæðulaust að örvænta þó hlé hafi verið gert á laugardagsmótmælunum. Í bili að minnsta kosti. Meginkröfur dyggustu mótmælendanna hafa nefnilega fundið sér farveg í stefnuskrá nýstofnaðs stjórnmálaafls. Ég er að sjálfsögðu að tala um Borgarahreyfinguna. Á stefnuskrá hennar má finna margt af því sem endurómaði í framsögum vetrarins bæði á mótmælum víða um land svo og borgarafundum.
Útrýmum græðginni áður en hún útrýmir okkur
Þar hefur krafan um breytingar verið margítrekuð. Við höfum krafist þess að það væri tryggt að lýðræðið virki. Við viljum koma í veg fyrir það að réttur almennings sé fótumtroðin af bræðra- klíkum sem þrífast á völdum sem er grundvallað með græðgisfullri auðsöfnum. Við viljum breytingar til að tryggja það að ekkert líkt því sem opinberaðist okkur síðasliðið haust endurtaki sig. 

Ég hef sagt það áður og segi það enn að ég treysti hreinlega ekki þeim sem sátu á þingi og þögðu og síst af öllu þeim sem voru í ríkisstjórnum liðinna ára og mótuðu þennan græðgissvelg. Ég get einfaldlega ekki treyst þessum einstaklingum til að bjarga mér og þjóðinni frá því sem við blasir. Ég treysti þeim ekki heldur til að vinna að nauðsynlegum breytingum til að tryggja okkur réttlátt lýðræðissamfélag í framtíðinni.

Ég neita því ekki að ég hef áhyggjur af því hvaða niðurstöður koma út úr kosningunum. Ég vona þó að kjósendur sýni vilja sinn um aukið lýðræði og réttlæti í verki og kjósi þá sem þeir treysta best til að leggja alúð í slíkar breytingar. Ef niðurstöður kosninganna leiða til óbreytts ástands þá sýnist mér einsýnt að mótmælin munu brjótast út aftur. Þá þurfum við svo sannarlega á einstaklingum eins og Herði Torfasyni að halda að nýju.

Sannur styrkur

 


mbl.is Hlé á fundum Radda fólksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfirlit yfir borgarafundina í vetur og næstu framundan

Ég er stolt af því að tilheyra borgarafundarnefndinni sem varð til hérna á Akureyri upp úr áramótunum. Það var Sigurbjörg Árnadóttir sem reið á vaðið og skipulagði nokkra slíka fundi fyrir áramótin. Ég mætti á tvo þeirra. Þann fyrsta sem var haldinn í Deiglunni og þann stærsta sem var haldinn í Brekkuskóla.

Eftir áramótin gengum við þrjár konur, sem höfðum verið viðloðandi grasrótarsamtökin Bylting fíflanna, til liðs við Sibbu til að halda utan um áframhaldandi borgarafundi. Síðan hefur ein bæst við þannig að í þessum hópi eru nú eftirtaldar: Siburbjörg Árnadóttir, Sóley Björk Stefánsdóttir, Embla Ýr Oddsdóttir, ég og Fanney Kristjánsdóttir. Þetta erum við en því miður fann ég ekki nothæfa mynd af Fanneyju.
Borgarfundarnefndin á AkureyriFrá því að ég kom inn í nefndina hef ég sett inn einhvers konar fundargerðir hér inn á bloggið mitt. Það eru greinilega einhverjir sem nenna að lesa þær en mig langar til að telja upp fundina sem hafa verið haldnir hérna eftir áramótin og vísa í færslurnar sem ég hef gert í sambandi við hvern þeirra. Mig langar til að geta þess að ég hef beðið þá sem eru með framsögur að senda mér ræðurnar sínar og hafa sumir getað orðið við því. Ræður þeirra hef ég svo tengt viðeigandi færslum

  1. Sá fyrsti var haldinn 23. janúar og fjallaði um niðurskurðinn í menntamálum.
  2. Næsti var haldinn 28 janúar og fjallaði um niðurskurðinn í heilbrigðismálum.
  3. Þriðji fundurinn var haldinn þann 8. febrúar og fékk yfirskriftina „Landráð af gáleysi“. Sá fundur var haldinn í samstarfi við borgarafundarnefndina í Reykjavík.
  4. Sá fjórði var haldinn 12. febrúar og hlaut yfirskriftina „Heimilin á hrakhólum“.
  5. Síðasti fundur var haldinn 1. mars sl. og fjallaði um það hverjum fjölmiðlar þjóna.

Nú í kvöld er svo enn einn fundurinn. Hann verður haldinn í Deiglunni og byrjar kl. 20:00. Fundurinn í kvöld fjallar um stöðu innflytjenda í íslensku samfélagi á krepputímum. Hér er auglýsing með upplýsingum um frummælendur og aðra í pallborði.

Við erum svo byrjaðar að leggja drög að enn einum fundinum sem verður haldinn í byrjun apríl. Hann hefur fengið yfirskriftina „Við viljum breytingar“. Þangað ætlum við að bjóða efstu mönnum á þeim listum sem bjóða fram í kjördæminu svo og einum frá Borgarahreyfingunni. Það er reyndar ekki ljóst enn þá hvort hreyfingunni takist að koma saman lista hér fyrir norðan en við viljum samt fá þeirra rödd inn á þennan fund.

Hugmyndin er að tveir til þrír ræðumenn úr hópi þeirra sem hafa látið til sín taka í andófi síðastliðinna mánaða flytji framsögu þar sem þeir setja fram kröfur um breytingar og væntanlegir þingmenn bregðist síðan við þeim. Áheyrendur fá svo að sjálfsögðu tækifæri til að setja fram sínar kröfur og krefja frambjóðendur svara við þeim spurningum sem brenna á þeim.


Draumur þeirra er sannkölluð martröð

Lára Hanna EinarsdóttirMig langar til að vekja athygli á grein Láru Hönnu Einarsdóttur, „Meira en trúgjörn atkvæði“, sem birtist á vefmiðlinum Smugunni í dag. Lára Hanna er einn af þeim réttlætis- englum sem hafa lýst upp myrkið það sem af er þessum vetri.

Hún hefur verið ötul við að draga fram í dagsljósið hin ýmsu mál sem snerta efnahags- hrunið. Hún hefur gjarnan sett mál í sögulegt samhengi og bent á ýmis vafasöm tengsl og fléttur á milli stjórnsýslu og þeirra sem stýra efnahagslífinu. Hún byrjaði hins vegar að blogga til að vekja athygli á málefnum sem snerta virkjunar- og stóriðjuframkvæmdir á undangengnum árum.

Mörg ykkar þekkja sennilega skoðanir hennar í þeim efnum miklu betur en ég sem kynntist blogginu hennar Láru Hönnu ekki fyrr en í kjölfar efnahagshrunsins síðastliðið haust. Þess vegna ætla ég ekki að fara ýtarlegar í þær en það að taka fram að ég finn samhljóm í skoðunum hennar í þessum efnum eins og öðrum sem hún hefur sett fram í skrifum sínum.

Í grein Láru Hönnu á Smugunni skrifar hún um stöðuna í samfélaginu í dag og horfir inn í framtíðina. Hún vekur athygli á því hvað álverin hafa skilað litlu inn í íslenskt hagkerfi og á því hvað margt í kringum stóriðjuáróðurinn hefur og er vafasamt og vert nánari athugunar. Hún minnir líka fjölmiðla á hlutverk sitt í þeim efnum og hvetur þá til að rannsaka slík efni.

Ég vona, eins og Lára Hanna, að þegar kjósendur gera upp hug sinn í sambandi við það hverjum þeir ætla að gefa atkvæði sitt, í komandi kosningum, að þeir hugsi vandlega um það hverjir eru líklegir til að eyða upp öllum verðmætum landsins í eiginhagsmuna- og skyndigróðaskyni. Ég bið kjósendur að sniðganga brennuvargana og kjósa einstaklinga með heilbrigða hugsun og heildar- hagsmuni lands og þjóðar á stefnuskrá sinni. Ég minni á það að ég meina heildarhagsmuni allrar þjóðarinnar og afkomenda okkar líka.

Ég ætla að ljúka þessari færslu á myndbandi sem er kynning á myndinni Draumalandið sem er unnin út af samnefndri bók Andra Snæs Magnasonar. Lára Hanna birtir líka kynningarmyndband  fyrir þessa sömu mynd í lok greinar sinnar á Smugunni en þetta er ekki það sama. Þetta er lengra og undir hugvekjandi myndunum hljómar samúðarfullur söngur Bjarkar Guðmundsdóttur.


mbl.is Gegn Helguvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er eitthvert samhengi?

Mér finnst ég alltaf vera að lesa fréttir af því að fíkniefni hafi verið gerð upptæk í heimahúsun. Síðastliðnar vikur hefur hver fréttin um slíkt rekið aðra. Annaðhvort er fíkniefnalögreglan í Reykjavík orðin svona öflug eða þá fíkniefnafaraldurinn er stóraukið vandamál.

Það er gott til þess að vita að lögreglan stendur sig vel í því að hafa hendur í hári þeirra sem stunda framleiðslu á þessum efnum. Hins vegar vekja allar þessar fréttir upp spurningu í mínum huga um það hvers vegna það eru svona margir að framleiða og selja fíkniefni? Ég spyr mig líka hvort það er eitthvert samhengi á milli efnahagsástandsins í samfélaginu og þess fjölda sem brýtur fíkniefnalöggjöfina?

Var þessum mönnum gert viðvart um það í hvað stefndi? Reiknuðu þeir dæmið þannig út að nú væri lag til að græða á neyð fólks og selja þeim dóp? Það er gott að lögreglan stendur sig vel í að stöðva þessa menn hvort sem þeir hafa stundað dópsölu um lengri eða skemmri tíma. Það síðasta sem við þurfum á að halda núna eru stórskemmdir fíkniefnasalar sem stjórnast af engu nema græðgi og losta. Við höfum ekkert að gera með menn sem dreymir um völd í krafti illa fengins gróða.
GræðgispúkiVið höfum svo sannarlega fengið yfir okkur nóg af slíkum! Þess vegna langar mig til að þakka fíkniefnalögreglunni fyrir atorkuna og vona að starfsmenn efnahagsbrotadeildarinnar taki þá sér til fyrirmyndar.


mbl.is Umfangsmikil kannabisræktun stöðvuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nauðsynlegar aðgerðir áður en lengra er haldið

Sérstök þessi frétt. Ekki síst vegna orðavalsins „spillingarhausaveiðarinn“. Í mínum augum er Eva Joly nefnilega engill eins og ég hef sagt áður eða eftir að ég horfði á viðtalið við hana í Silfri Egils ekki alls fyrir löngu. Hún er réttlætisengill sem fær mig a.m.k. til að slaka svolítið á og líða líka örlítið betur. Hún gefur mér trú og ástæðu til að vænta einhverrar birtu í framtíðinni.
Fyrirgefningin getur verið nauðsynleg
Ég treysti nefnilega Evu Joly til að stýra rannsókninni á fjárreiðum græðgisklíkunnar og ekki síður gjörningum hennar sem leiddu mig og þjóð mína út í það efna- hagshrun sem ógnar okkur öllum og afkomendum okkar, nokkra ættliði fram í tímann. Mér finnst það auðvitað með ólíkindum að fyrstu viðbrögð undanfarandi forsætisráðherra við efnahagshruninu síðastliðið haust var að mæta í sjónvarp og telja þjóðina á það sjónarmið sitt að nú væri ekki rétti tíminn til að leiða fram sökudólga!

Ég veit ekki hvernig þessi orð hans virkuðu á aðra en þetta var eins og að hella olíu á minn grunsemdareld. Það var ljóst að það var ekki þjóðarhagur sem réði því að þetta voru mikilvægustu skilaboðin sem hann vildi koma til furðulostinnar þjóðar þessa fyrstu dagana eftir hrunið.

Í raun staðfesti hann eingöngu grun minn um að það væru ákveðnir einstaklingar sem bæru ábyrgð á öllu saman og það sem verra var hann vissi hverjir þeir eru. Hann þekkir þá og vildi koma þeim í skjól. Hann var með öðrum orðum að verja þá fyrir þjóðinni en ekki öfugt.

Ég þarf sennilega ekki að lýsa því hvernig mér leið. Ég þarf heldur ekki að segja neinum sem hefur fylgst með blogginu mínu hvað ég gerði og hvers vegna. En auðvitað mótmælti ég þessu hrópandi óréttlæti og geri enn! Ég viðurkenni þó alveg að stundum verð ég þreytt. Ég hugsa stundum um það hvað ég þrái líf mitt aftur en réttlætiskenndin er harður húsbóndi og ég uni mér ekki hvíldar fyrr en sökudólgarnir sem settu líf mitt upp í loft verða fundnir!

Þátttaka mín í mótmælunum er það eina sem hefur gefið mér einhvern sálarfrið. Ég hef líka kynnst alveg hreint frábæru fólki í gegnum mótmælin á liðnum mánuðum sem stjórnast af sömu réttlætiskenndinni og ég sjálf. Margir mótmælendur og aðrir andæfendur eru hetjurnar mínar í dag. Þessir einstaklingar hleypa birtu inn í líf mitt þrátt fyrir allt. Bjartasta hetjan mín er þó Eva Joly. Hún er eins og sól sem lýsir upp þann kalda og dimma græðgisspillingardal sem þjóðin vaknaði til síðastliðið haust. 

Hún er mín stærsta von. Hún gefur mér von um að einhvern tímann í náinni framtíð geti ég slakað á og endurheimt líf mitt. Hún gefur mér von um að sá dagur renni upp að ég geti treyst, lagt baráttuna til hliðar og snúið til míns venjulega lífs aftur.

Það er ekki gott að búa í samfélagi þar sem allt gefur manni tilfinningu fyrir því að maður sé hafður að ginningarfífli af siðpilltum græðgishundum. Það er heldur ekki gott að búa við grunsemdir um það að stjórnsýslan sé eingöngu til að stýra mér og mínum gjörðum en láti eiginhagsmunaseggi, sem í krafti auðæfa sinna tryggja leppum sínum sæti innan hennar, vaða óhefta yfir hvað sem er. Að, löggæslan og dómgæslan sé hér aðeins til að vakta og dæma mínar gjörðir en láti sig engu varða það sem peningamafían aðhefst.

Íslenska þjóðin þarf nauðsynlega á réttlætisengli eins og Evu Joly að halda. Fluggáfaðri konu sem lætur sér fátt fyrir brjósti brenna annað en elda réttlætis og sanngirni. Konu sem vílar hlutina ekki fyrir sér heldur lætur verkin tala. Þeir sem sáu viðtalið við hana í Silfri Egils vita að hún hefur alla burði til að finna sökudólgana og þá en ekki fyrr treysti ég mér til að gera það fyrir sjálfa mig að friðmælast, leggja að baki og halda áfram.
Move on


mbl.is Eva Joly hreinsar út á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útverðirnir eru enn á vakt

Síðastliðinn laugardag var ég við enn ein laugardagsmótmælin á Austurvelli í Reykjavík. Ég vissi fyrirfram að Hörður Torfason yrði fjarrverandi þennan laugardag. Hann hefur staðið í eldlínunni og mikið á honum mætt undanfarnið hálft ár. Hann þurfti því eðlilega að hlaða batteríin.

Umræddan laugardag var blautt og kalt. Það rigndi og Austurvöllur var nánast einn pollur. Ég veit ekki hvort það var veðrið eða það að batteríin eru að tæmast hjá mörgum þeirra sem stóðu svo þétt saman í upphafi mótmælanna og nokkuð fram á þetta ár. Það voru a.m.k. ekki margir mættir þennan dag. Hugur þeirra sem þarna voru er þó greinilega enn hinn sami og hingað til.
Frá mótmælunum á Austurvelli 14.03.2009Ræðumenn síðasta laugardags voru frábærir. Annar var Hjálmar Sveinsson, umsjónarmaður þáttarins Krossgötur sem er á dagskrá hjá RÚV. Ræða Hjálmars var virkilega flott. Hann benti á merkilegar tölulegar staðreyndir eins og þá að samkvæmt skoðunarkönnun Gallups þá ber 13% þjóðarinnar traust til Alþingis, þjóðarþings okkar Íslendinga. Mér finnst þetta ekki síst merkileg staðreynd í ljósi þess hve margir virðast samt hafa gefist upp á því að standa saman og minna kjörna þingfulltrúa þjóðarinnar á það fyrir hverja þessir fulltrúar starfa.
Hjálmar Sveinsson
Önnur merkileg töluleg staðreynd sem Hjálmar minnti á er að 80% þeirra þingmanna sem eru nú á þingi sækjast eftir endurkjöri. Ég minni á að þessir þingmenn hafa langflestir verið inni á þingi frá árinu 2004 eða frá árinu sem öllum sem höfðu aðgang að upplýsingum um stöðu fjármála þjóðarbúsins, bankanna og annarra fjármála- stofnana átti að vera ljóst að það stefndi í óefni. (Sjá t.d. þetta línurit á heimasíðu Seðlabankans)

Þessir þingmenn þögðu og sögðu okkur sem kusum þá ekki neitt. Kannski þögðu þeir vegna þess að þeir vissu ekki neitt? En ég spyr til hvers að endurráða þing- mann sem vinnur ekki vinnuna sína og ver hagsmuni þeirra sem réðu hann til starfans? Mér finnst það ekki skipta máli hvort umræddur þingmaður er vanhæfur vegna þess að hann skilur ekki línurit af því tagi, sem ég vísa í hér að ofan, eða nennir ekki að skoða þau. Hvort tveggja er tvímælalaus vanhæfni að mínum dómi og þess vegna hefur hann greinilega ekkert inn á þing að gera.

En svo ég haldi mig við orð Hjálmars sem minnti á eftirfarandi:

Gleymum því ekki að þingmennirnir sem við kjósum taka að sér að vera okkar rödd á þingi. Rödd og atkvæði er nánast sama orðið í mörgum evrópskum tungumálum. Það er mikilvægt að minna þingmenn á þetta  reglulega og ekki bara þegar eru kosningar til þings. Það er nefnilega ekki þannig að við borgararnir höfum alfarið afsalað okkur rödd okkar með því að greiða atkvæði. Við höfum rödd til að tjá okkur - heima hjá okkur, út á götu, á internetinu, í fjölmiðlum - já, og hér á Austurvelli fyrir utan þinghúsið.

Þá kom Hjálmar að þeirri ríku tilhneigingu sem hefur verið til þöggunar á liðnum árum og þá einkum í fjölmiðlum. Í þessu samhengi vék hann að útvarpsþættinum Speglinum sem var rakkaður niður af því hann þótti of gagnrýninn. Hann minnti okkur á orðin sem hafa verið notuð í þeim tilgangi þagga niður í hverjum þeim sem vogaði sér að reyna að rísa upp á afturfæturna og koma að gagnrýni og/eða ábendingum um það sem var að. Þetta eru orð eins og "öfgamenn, hælbítar, kverúlantar og afturhaldskommatittir". 

Ég reikna með að þeir séu þó bæði meðal bloggarar og mótmælenda sem kannast við þessi orð í sambandi við ýmis konar niðurrif hvað varðar ábendingar þeirra og gagnrýni. Ég spyr mig gjarna þeirrar spurningar hvort það séu þeir sömu og hafa og eru enn að reyna að þagga niður í þeim sem mótmæla sem hafa haft hvað hæst um einelti í undanfarandi mótmælum? Ég leyfi mér bara að spyrja vegna þess að það er skoðun mín að þessi ályktun eigi við nokkuð góð rök að styðjast.

Hjálmar Sveinsson hélt áfram ræðu sinni og fjallaði meira um fjölmiðla sem að hans mati hafa brugðist hlutverki sínu:

Nú er talað um að allir sem áttu að fylgjast með og gæta hagsmuna almennings hér á landi, hafi brugðist undanfarin ár. Það er alveg rétt. Fjölmiðlar hafa brugðist, á því er ekki nokkur vafi og í raun ætti að koma fram krafa um endurnýjun í heimi fjölmiðla alveg eins á Alþingi. En þegar litið er yfir sviðið má segja að sú endurnýjun sé furðulega lítil. Ritstjórar, fréttastjórar, ritstjórnafulltrúar og útvarpsstjórar eiga ekki að vera undanþegnir gagnrýni. Það er meðal annars þeirra hlutverk að styðja blaðamenn, fréttaskýrendur og dagskrárgerðarfólk sem er tilbúið að leggja á sig að fjalla á vandaðan, málefnalegan en gagnrýninn hátt um samfélagsmál. Tilhneigingin er hins vegar stundum sú, að vilja dempa gangrýna umfjöllun til að hafa gott veður.

Í lok ræðu sinnar varaði Hjálmar svo við því að við létum þagga niður í okkur aftur. Hann hvatti okkur til að vera á varðbergi. Sérstaklega eftir næstu kosningar. Ég tek undir orð hans og fagna þeim um leið. Ég tel nefnilega að það sé full ástæða til að hvetja fólk til að halda vöku sinni og vera gagnrýnið. Sérstaklega í kjölfar næstu kosninga.

Áður en ég sný mér að næsta ræðumanni, síðastliðins laugardags, langar mig til að vekja athygli á þrennu. Fyrst því að Lára Hanna Einarsdóttir birti ræðu Hjálmars Sveinssonar í heild. Mig langar líka að vekja athygli á fundargerð minni sem ég birti hér á blogginu mínu frá borgarafundi sem var haldinn hér á Akureyri um hlutverk fjölmiðla. Mig langar þó sérstaklega að vekja athygli á hreint frábærri ræðu Þorbjörns Broddasonar sem hann flutti á þessum fundi. Það má hlutsta á Aðalheiður Ámundardóttirhana hér.

Næst tók Aðalheiður Ámundardóttir til máls. Hún hóf mál sitt á þessum orðum: „Íslenska þjóðin er í andlegri vakningu. Það er ljósið í myrkrinu. Breytinga er krafist, endurreisnar er krafist. Við viljum nýja stjórnarskrá. Stjórnarskrá sem tryggir að Alþingi haldi sínum völdum, sem tryggir aðhald og valddreifingu.“

Í framhaldinu fór Aðalheiður yfir nokkrar greinar Sjórnarskráinnar og benti á hvernig þau hefðu verið brotin og/eða sniðgengin á undanförnum árum. Ég hvet alla til að lesa dæmin sem hún tiltók  blogginu hennar. Ég ætla hins vegar að leyfa mér að birta niðurlagsorðin á ræðu hennar hér:

Mannréttindabarátta og barátta gegn spillingu er að miklu leyti sama baráttan. Ég bið ykkur að hafa vakandi auga með mér og passa mannréttindin okkar. Nú þegar spillingaröflin virðast hafa náð ítökum í samfélagi okkar er mannréttindabaráttan mikilvægari sem aldrei fyrr. Aðhaldið á stjórnvöld er mikilvægara nú en nokkru sinni.

Og þrátt fyrir að gott grasrótarfólk gefi nú kost á sér til að knýja fram breytingar, þá fer byltingin ekki í framboð! Við sem stöndum hér á Austurvelli þurfum að halda áfram að standa vaktina. Sofnum ekki á verðinum!

Ræður bæði Aðalheiðar og Hjálmars voru hreint frábærar en það var athyglisvert að bæði luku máli sínu með áminningu til þjóðarinnar um að halda vöku sinni. Ég tek undir það með þeim. Við megum ekki sofna á verðinum. Við verðum að standa saman áfram. Við höfum náð fram einhverjum breytingum en er einhver sem trúir því að ný stjórn mynduð með þeim sömu og sátu á þingi í aðdraganda hrunsins eigi eftir að vinna að þeim grundvallarbreytingum sem nú eru nauðsynlegar? Það er fátt sem mér finnst benda til þess núna a.m.k. 


Borgarafundur um stöðu innflytjenda í samfélaginu á krepputímum

Núna á fimmtudagskvöldið verður enn einn borgarafundurinn haldinn hér á Akureryri. Hann hefst kl. 20:00 og fer fram í Deiglunni. Öllum fulltrúum í bæjarstjórn svo og þingmönnum kjördæmisins hefur verið boðið að venju. Efni fundarins að þessu sinni er staða innflytjenda í samfélaginu á tímum sem þessum sem við stöndum nú frammi fyrir. Eftirfarandi er auglýsing á fundinum:

Er Ísland bara fyrir Íslendinga?

Rambar þjóðin á barmi fasisma? Hefur viðmót Íslendinga í garð útlendinga breyst eftir efnahagashrun? Finna útlendingar búsettir á Íslandi fyrir óvild í sinn garð? Eru margir útlendingar í efnahagsfjötrum á Íslandi?

Borgarafundur í Deiglunni fimmtudagskvöldið 19. mars klukkan 20:00 -22:00

Framsaga:
Héðinn Björnsson, Íslendingur
Sigurður Kistinsson, dósent við Háskólann á Akureyri
Radek B. Dudziak, starfsmaður Alþjóðastofu

Pallborð
Paul Nikolov, varaþingmaður VG
Ágúst Torfi Hauksson,framkvæmdastjóri Brims
Soffía Gísladóttir, forstöðumaður Vinnumálastofnunar

Fundarstjóri verður Björn Þorláksson.


mbl.is Útlendingum þakkað fyrir að auðga samfélagið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband