Nauðsynlegar aðgerðir áður en lengra er haldið

Sérstök þessi frétt. Ekki síst vegna orðavalsins „spillingarhausaveiðarinn“. Í mínum augum er Eva Joly nefnilega engill eins og ég hef sagt áður eða eftir að ég horfði á viðtalið við hana í Silfri Egils ekki alls fyrir löngu. Hún er réttlætisengill sem fær mig a.m.k. til að slaka svolítið á og líða líka örlítið betur. Hún gefur mér trú og ástæðu til að vænta einhverrar birtu í framtíðinni.
Fyrirgefningin getur verið nauðsynleg
Ég treysti nefnilega Evu Joly til að stýra rannsókninni á fjárreiðum græðgisklíkunnar og ekki síður gjörningum hennar sem leiddu mig og þjóð mína út í það efna- hagshrun sem ógnar okkur öllum og afkomendum okkar, nokkra ættliði fram í tímann. Mér finnst það auðvitað með ólíkindum að fyrstu viðbrögð undanfarandi forsætisráðherra við efnahagshruninu síðastliðið haust var að mæta í sjónvarp og telja þjóðina á það sjónarmið sitt að nú væri ekki rétti tíminn til að leiða fram sökudólga!

Ég veit ekki hvernig þessi orð hans virkuðu á aðra en þetta var eins og að hella olíu á minn grunsemdareld. Það var ljóst að það var ekki þjóðarhagur sem réði því að þetta voru mikilvægustu skilaboðin sem hann vildi koma til furðulostinnar þjóðar þessa fyrstu dagana eftir hrunið.

Í raun staðfesti hann eingöngu grun minn um að það væru ákveðnir einstaklingar sem bæru ábyrgð á öllu saman og það sem verra var hann vissi hverjir þeir eru. Hann þekkir þá og vildi koma þeim í skjól. Hann var með öðrum orðum að verja þá fyrir þjóðinni en ekki öfugt.

Ég þarf sennilega ekki að lýsa því hvernig mér leið. Ég þarf heldur ekki að segja neinum sem hefur fylgst með blogginu mínu hvað ég gerði og hvers vegna. En auðvitað mótmælti ég þessu hrópandi óréttlæti og geri enn! Ég viðurkenni þó alveg að stundum verð ég þreytt. Ég hugsa stundum um það hvað ég þrái líf mitt aftur en réttlætiskenndin er harður húsbóndi og ég uni mér ekki hvíldar fyrr en sökudólgarnir sem settu líf mitt upp í loft verða fundnir!

Þátttaka mín í mótmælunum er það eina sem hefur gefið mér einhvern sálarfrið. Ég hef líka kynnst alveg hreint frábæru fólki í gegnum mótmælin á liðnum mánuðum sem stjórnast af sömu réttlætiskenndinni og ég sjálf. Margir mótmælendur og aðrir andæfendur eru hetjurnar mínar í dag. Þessir einstaklingar hleypa birtu inn í líf mitt þrátt fyrir allt. Bjartasta hetjan mín er þó Eva Joly. Hún er eins og sól sem lýsir upp þann kalda og dimma græðgisspillingardal sem þjóðin vaknaði til síðastliðið haust. 

Hún er mín stærsta von. Hún gefur mér von um að einhvern tímann í náinni framtíð geti ég slakað á og endurheimt líf mitt. Hún gefur mér von um að sá dagur renni upp að ég geti treyst, lagt baráttuna til hliðar og snúið til míns venjulega lífs aftur.

Það er ekki gott að búa í samfélagi þar sem allt gefur manni tilfinningu fyrir því að maður sé hafður að ginningarfífli af siðpilltum græðgishundum. Það er heldur ekki gott að búa við grunsemdir um það að stjórnsýslan sé eingöngu til að stýra mér og mínum gjörðum en láti eiginhagsmunaseggi, sem í krafti auðæfa sinna tryggja leppum sínum sæti innan hennar, vaða óhefta yfir hvað sem er. Að, löggæslan og dómgæslan sé hér aðeins til að vakta og dæma mínar gjörðir en láti sig engu varða það sem peningamafían aðhefst.

Íslenska þjóðin þarf nauðsynlega á réttlætisengli eins og Evu Joly að halda. Fluggáfaðri konu sem lætur sér fátt fyrir brjósti brenna annað en elda réttlætis og sanngirni. Konu sem vílar hlutina ekki fyrir sér heldur lætur verkin tala. Þeir sem sáu viðtalið við hana í Silfri Egils vita að hún hefur alla burði til að finna sökudólgana og þá en ekki fyrr treysti ég mér til að gera það fyrir sjálfa mig að friðmælast, leggja að baki og halda áfram.
Move on


mbl.is Eva Joly hreinsar út á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband