Af borgarafundi á Akureyri sl. miðvikudagskvöld

Atvikin hafa hagað því þannig að nú er ég, sem ætlaði bara að fá að taka þátt, komin í undirbúningsnefnd borgarafundanna hér á Akureyri. Fyrsti almenni borgarafundurinn varð svo að veruleika núna síðastliðið miðvikudagskvöld. Fundarefnið var niðurskurðurinn í menntamálum.

Gestir á borgarafundi á Akureyri 21.01.09Fundurinn var haldinn í Deiglunni og byrjaði klukkan 20:00. Fundarstjóri var Edward H. Huijbens og stóð hann sig frábærlega í því hlutverki. Rétt áður en fundurinn byrjaði fékk ég símtal frá einum skipu- leggjanda fundanna í Reykjavík. Hann bað fyrir kveðju undirbúningsnefndarinnar í Reykjavík. Edward flutti fund- inum kveðjuna. Hún hlaut afar góðar viðtökur viðstaddra sem voru u.þ.b. 150 manns.

Þrír frummælendur voru á fundinum. Þeir voru:

Ragnar Sigurðsson, nemandi við Háskólann á Akureyri. Hann gaf okkur innsýn inn í veruleika háskólastúdenta í nútíð og framtíð.

Rakel Snorradóttir, nemandi við Verkmenntaskólann á Akureyri. Hún flutti erindi sitt ásamt vinkonu sinni, Sólveigu, og gáfu þær okkur innsýn inn í veruleika framhaldsskólanemenda. Þær koma báðar annars staðar frá til að stunda nám við skólann og vöktu athygli á því m.a. hvað jöfnunarstyrkurinn, sem er ætlaður þeim sem þurfa að sækja sér framhaldsskólanám fjarri heimabyggð, er í litlu samræmi við það sem kostar að framfleyta sér.

Ragnar, Rakel og Sólveig fjölluðu öll um þann veruleika sem nemendur í framhaldsnámi hér á landi standa frammi fyrir í dag. Við hækkandi verðlag og aukið atvinnuleysi er áframhaldandi námi þeirra ógnað. Haskólastúdentar hafa alls ekki verið of sælir af þeim smánarlega lágum námslánum sem þeim hefur verið úthlutað hingað til. Þau hafa dugað illa fyrir framfærslu og bókakaupum. Hvað þá við núverandi aðstæður.

Vaxandi atvinnuleysi veldur því að framhaldsskólanemendur missa möguleikann á að framfleyta sér og mæta kostnaðinum í tengslum við námið með aukavinnu. Það eru þau sem missa fyrst vinnuna. Möguleikar á sumarvinnu verða líka afar takmarkaðir ef nokkrir. Ragnar vakti sérstaklega athygli á fyrirætlunum Lánastjóðs íslenskra námsmanna um að lækka námslánin næsta haust.

Rúnar Sigþórsson, dósent við Háskólann á Akureyri, var þriðji frummælandinn. Hann flutti fyrirlestum um menntun og gildi hennar. Framsaga hans var í stuttu máli frábær enda höfðu orð hans áhrif á alla viðstadda. Ég vek athygli á því að ræða hans fylgir þessari færslu en ég má þó til að vitna í nokkra staði í ræðu hans. Í byrjun ræðunnar sagði hann m.a:

Ég ætla sem sagt að reyna að tala við ykkur um menntun. Ekki um fræðslu í þröngum skilningi; ekki um þekkingu og færni sem hægt er að beita jöfnum höndum til góðra eða siðlausra verka, heldur menntun í merkingunni að verða meira maður. Já, takið eftir því: til að verða meira maður, ekki meiri maður; menntun sem styrkir manngildi og siðvit og tryggir eftir föngum að við notum Paulo Freireþekkingu okkar og hæfni til góðra verka en ekki illra.

Við vorum einstaklega heppin að fá Rúnar til að fjalla um þetta efni á fundinum. Orð hans fengu afar góðan hljómgrunn hjá öllum fundargestum; bæði áheyrendum og þeim sem sátu í pallborði. Undir lokin vitnaði Rúnar í Paulo Freire og sagði m.a. þetta sem uppskar ákaft lófatak allra viðstaddra:

Freire kallaði nálgun sína „kennslufræði hinna kúguðu“.  Það skyldi þó aldrei vera að við þyrftum einmitt núna á vænum skammti af kennslufræði hinna kúguðu að halda; menntandi, upplýstri samræðu og sköpun þekkingar sem gerir okkur kleift að greina sannleik frá lygi, heiðarleika frá spillingu og blekkingu frá veruleika nú síðast kannski landráð frá þjóðhollustu; þekkingu sem gerir okkur kleift að gera á upplýstan hátt upp við þá sem teymdu okkur út í fenið, þrautseigju til að gefast ekki upp á kröfunni um að slíkt uppgjör fari fram, hugrekki til að láta til okkar taka í fjölmiðlum og á fundum, sýn á hvers konar framtíð við viljum skapa í þessu landi og hæfni til að taka þátt í að byggja hana upp.

Eftirtaldir sátu í pallborði: Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri, Jón Már Héðinsson skólameistari Menntaskólans á Akureyri, Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri, Gunnar Gíslason fræðslustjóri Skóladeildar Akureyrarbæjar, Kristín Björk Gunnarsdóttir forstöðufreyja Menntasmiðjunnar á Akureyri, Elín Margrét Hallgrímsdóttir fulltrúi skólanefndar Akureyrarbæjar og Höskuldur Þórhallsson þingmaður kjördæmisins en hann á sæti í menntamálnefnd Alþingis. Einar Már Sigurðsson, sem er einnig þingmaður kjördæmisins og er líka í menntamálefnd, boðað forföll.

Það kom margt afar forvitnilegt og fróðlegt fram í málflutningi þeirra er sátu fyrir svörum ekki síður en þeirra sem komu með fyrirspurnir og/eða innlegg utan úr sal. Það er ljóst að það hefur orðið niðurskurður í fjárframlögum hins opinberra til menntamál sem hefur verið mætt með ýmsum hætti. Niðurskurðurinn bitnar auðvitað á gæðum náms og kennslu.

Niðurskurðurinn hér á Akureyri er frá 3% upp í 20%. Menntasmiðjan hefur orðið að þola mestan niðurskurðinn. Kristín Björk Gunnarsdóttir, sem var í forsvari fyrir hana, benti á að aukin eftirspurn er nú eftir námskeiðum á hennar vegum hjá atvinnulausum körlum. Það má kannski vekja athygli á að Menntasmiðjan var stofnuð til að mæta auknu atvinnuleysi kvenna upp úr 1980. Menntasmiðjan getur illa orðið við þeirri eftirspurn heldur fara allir hennar kraftar í að halda lífi.

Niðurskurðurinn er minnstur í framhaldsskólunum eða 3% sem hljómar sennilega ósköp meinlaust en þegar maður skoðar tölurnar sem standa á bak við prósenturnar lítur málið allt öðru vísi út. Sem dæmi má nefna að niðurskurðurinn sem Verkmenntaskólinn á Akureyri þarf að mæta er upp á þrjátíu og sex milljónir króna!

Það vakti athygli mína að í hópi spyrjenda voru nemendur við Háskólann á Akureyri sérstaklega áberandi. Innlegg Húna Heiðars Hallssonar, lögfræðinema við skólann, má kannski segja að hafi verið baráttu- og hvatningarkveðja til skólans en ekki síður til samfélagsins. Hann benti á að Háskólinn á Akureyri væri vanur fjársvelti af hendi ríkisins. Samt hefði hann vaxið og dafnað. Hann benti líka á að sú hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar sem hefði kollkeyrt landinu væri lítt áberandi innan Háskólans á Akureyri

Húni Heiðar HallssonHúni minnti á að skólinn hefði svo lengi þurft að búa við fjársvelti að hann tryði því að hann fyndi leiðir til að lifa þennan niðurskurð af. Jafnframt spáði hann því að nemendur Háskólans á Akureyri yrðu margir meðal leiðtoga nýrra tíma af þeirri einföldu ástæðu að hann væri sá háskóli í landinu sem hefði ekki smitast af hinni hættulegu hugmyndafræði sem hefði tekið sér bólfestu í öðrum slíkum hér á landi.

Ragnar Sigurðsson, einn frummælandanna, benti á hina kaldhæðnislegu staðreynd sem fælist í fyrirhuguðari lækkun LÍN á námslánum til háskólastúdenta. Þessi lækkun myndi sjálfkrafa skapa sparnað í háskólunum. Lækkunin og nær útilokaðir möguleikar nemenda til að verða sér úti um sumarvinnu, hvað þá vinnu með skóla, myndi stuðla að umtalsverðri fækkun nemanda í háskólanámi strax næsta haust. „Sparnaðurinn“ kæmi þannig sjálfkrafa og niðurskurðurinn í fjárlögunum þess vegna fullkomlega óréttlætanlegur.

Frumælendurnir úr röðum framhaldsskólanemenda höfðu líka áhyggjur af framtíð háskólamenntunar í landinu. Þeir voru heldur ekki bjartsýnir hvað varðar framtíðarmöguleika þeirra til náms. Þeir bentu líka á að núverandi aðstæður ógnuðu því að þeim tækist að ljúka yfirstandandi önn. Skólameistarar beggja framhaldsskólanna tóku í sama streng. Efnahagsástandið setur möguleikum nemenda verulegar skorður hvað það varðar að ljúka yfirstandandi námi. Enginn þeirra sem sátu fyrir svörum kannaðist hins vegar við að niðurskurðurinn bitnaði á kennurum nema háskólarektor. Hann benti á í því sambandi að fjárveiting til allrar þróunar- og rannsóknarvinnu við skólann var skorin niður.

Það forvitnilegasta sem kom fram á þessum fundi er að niðurskurðurinn í menntakerfinu er bara rétt hafinn. Hinn eiginlegi niðurskurður verður ekki fyrr en á næsta ári. Það er því ástæða til að benda á að skólarnir rétt halda sjó með núverandi niðurskurði. Allir sem þekkja til menntamála og sæmilega glöggskyggnir einstaklingar ættu að sjá það í hendi sér að sá niðurskurður sem þegar hefur orðið bitnar vissulega á gæði náms sem nemendum er boðið upp á. Boðaður niðurskurður næsta árs mun því valda verulegri röskun á öllu skólastarfi í landinu að ég tali ekki um þá gengisfellingu sem verður honum samfara á námi í íslenskum skólum.

Jón Már HéðinssonJón Már Héðinsson, skólameistari MA, minnti á að menntun ætti ekki að vera einkamál skólafólks heldur þyrftu kennara, nemendur, foreldrar jafnt og aðrir að standa vörð um hana. Það var mál manna á fundinum að það þyrfti að útrýma þeirri markaðshyggju sem nú væri ríkjandi í hugmyndafræðinni sem tengist bæði menntuninni sjálfri svo og rekstri skólanna. Auk þess var bent á að það væri nær að efla menntun á þvílíkum krísutímum, og nú blasa við í samfélaginu, en að skera hana niður.

Miðað við núverandi aðstæður í menntamálum er ljóst að skólarnir eru að berjast við að verja störf kennara og nám þeirra nemenda sem þegar eru komnir inn í skólanna. Það er einsýnt að sú barátta verður mun erfiðari þegar hinn eiginlegi niðurskurður verður í menntakerfinu í byrjun næsta árs. Það er þó ljóst að hún fer ekki öðru vísi en einhverjum verður sagt upp störfum, færri fá inngöngu og námið sjálft gengisfellur.

Það er í meginatriðum ljóst að framtíð menntunar á Íslandi er ekki björt. Niðurskurðurinn sem hefur orðið nú þegar í skólunum bitnar á gæðum menntunar. Rekstur skólanna er í hættu. Vinnuálag á kennara hefur vaxið auk þess sem starfsskilyrði þeirra hafa versnað. Þetta bitnar á nemendum. Bæði hvað varðar námsframboð og gæðum námsins sem þau eiga völ á. Aukinn niðurskurður í menntamálum á næsta ári er því hrein aðför að framtíð menntunar í landinu.

Það er líka önnur alvarleg hlið á þessum málaflokki sem eru möguleikar nemenda til náms. Möguleikar nemenda til framhaldnáms er nú þegar í mikilli hættu vegna samdráttar í atvinnulífinu og verulegrar skerðingar á möguleikum þeirra til vinnu með námi og yfir sumartímann. Þátttaka nemenda í atvinnulífinu hefur lengi verið grundvallarforsenda þess að ungt fólk hér á Íslandi hafi haft ráðrúm til að afla sér menntunar. Á sama tíma og lokast á þenan mikilvæga möguleika til tekjuöflunar útilokast stór hópur ungra einstaklinga á Íslandi frá tækifæri til framhaldsmenntunar. Borgarafundur á Akureyri 21.ö1.09Það voru margar spurningar sem vöknuðu á þessum fundi án þess að við þeim fengist nokkuð svar. Það var líka áberandi að þeir sem sátu í pallborði vissu lítið meira um framtíð skólamála í landinu og aðrir viðstaddir. Þessi skortur á upplýsingum til skólamanna hefur verið mjög áberandi í allri skólaumræðu undanfarin misseri. Fulltrúar menntamálaráðuneytisins hafa legið á upplýsingum um fyrirætlanir sínar eins og hernaðarleyndarmálum nú um nokkurt skeið þannig að hvorki skólarnir né fulltrúar í menntamálanefnd geta svarað sjálfsögðum spurningum um framtíðina í menntamálum.

Ég held að ég megi fullyrða að borgarafundurinn hér á Akureyri um niðurskurðinn í menntamálum hafi í öllum aðalatriðum verið vel heppnaður. Það er mikilvægt að skapa umræðu um þetta málefni. Það tókst svo sannarlega með þessum borgarafundi. Vonandi lifir hún áfram og smitar út frá sér. Það er líka full ástæða til að vekja athygli á þeirri dökku framtíð sem blasir við hvað þennan málaflokk varðar og upphugsa leiðir til að bregðast við henni. Markmið fundarins var auðvitað að vekja athygli á því og skapa umræður sem leiða vonandi til bjartari framtíðar í menntamálum en þá sem nú blasir við.

Ég ætla að enda þetta á nokkrum spurningum sem var varpað fram á fundinum varðandi framtíðarmöguleika nemenda til menntuna:

  • Hvað gerist þegar nemendur hafa enga möguleika á aukavinnu með skóla?
  • Hvað gerist ef foreldrar þeirra missa vinnuna?
  • Hvað gerist þegar þeir hafa enga möguleika á að verða sér út um sumarvinnu?
  • Hvaða möguleika eiga nemendur til háskólanáms í framtíðinni?
  • Hvað verður um landsbyggðina ef háskólar hennar þurrkast út?
  • Hvað verður um það fólk sem er að afla sér menntunar núna?
  • Verður einhver vinna fyrir það?
  • Hvað verður um nám þess?
Hefur einhver svar við þessum spurningum?


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Flottur pistill. Því miður get ég ekki svarað spuningum þeim sem þú varpar fram í lokin. Sannarlega ekki bjart framundan í þeim efnum. En við verðum að halda í landsbyggðarháskólana því eins og þú segir þá hefur markaðshyggjan ekki ráðið för þar heldur hefur t.d. Háskólinn á Akureyri þurft að berjast fyrir hverri krónu meðan t.a.m. Háskólinn í Reykjavík hefur haft nánast óheftan aðgang að fjármunum.

En við munum finna lausnir og leiðir þegar við erum komin til valda og áhrifa í sumar er það ekki?

Arinbjörn Kúld, 23.1.2009 kl. 13:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband