Af borgarafundi á Akureyri um niðurskurð í heilbrigðisþjónustunni

Fundurinn var haldinn sl. miðvikudagskvöld (28. jan.) í Ketilhúsinu og byrjaði kl. 20:00 en var ekki lokið fyrr en langt gengin ellefu. Fundarstjóri var sá sami og síðast en í tilefni umræðuefnisins var Edward klæddur skyrtu og jakka og m.a.s. með bindi.  Frummælendur á þessum fundi um niðurskurðinn í heilbrigðisþjónustunni voru fimm.

Þeir voru forstjóri sjúkarhúsins, deildarforseti heilbrigðisdeildar Háskólans á Akureyri, meðlimur í aðstandandafélgi fyrrum íbúa á seli, forstöðumaður dagdeildar geðdeildarinnar hér á Akureyri og nemandi við Verkmenntaskólans á Akureyri. Það voru tvær ræður sem vöktu sérstaka athygli og er tenging í báðar hér í lok þessa pistils.

Halldór Jónsson, forstjóri Sjúkrahússins, flutti ekki aðeins framsögu heldur var hann líka í pallborði ásamt Þorvaldi Ingvarssyni, framkvæmdarstjóra lækninga, og Örnu Rún Óskarsdóttur, yfirlæknis öldrunarlækningasviðs Sjúkrahússins.

Tveir þingmenn kjördæmisins voru líka í pallborði en það voru þau: Þuríður Bachman og Kristján Þór Júlíusson.  Hann er líka forseti bæjarstjórnar á Akureyri. Sigrún Stefánsdóttir, sem er formaður félagsmálaráðs Akureyrarbæjar, og Kristín Sigursveinsdóttur, deildarstjóri búsetudeildar, voru líka í pallborði ásamt Þóri V. Þórissyni, yfirlæknis Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri, Þráni Lárussyni, bæjarfulltrúa Fljótsdalshéraðs, og Emmu Agnetu Björgvinsdóttur, sem er móðir barns með þroskahamlanir.

Hólmfríður Haraldsdóttir, einn frummælandinn, vildi láta titla sig sem húsmóður og nema. Við Sigurbjörg Árnadóttir gómuðum hana eiginlega á mótmælafundinum á Ráðhústorgi sl. laugardag. Ég held að enginn sýti það.
Borgarafundur á Akureyri 28.01.09
Þvílíkur skörungur sem býr í þessari fíngerðu konu! Henni lá greinilega mikið niðri fyrir og kom víða við í ræðu sinni. Hún kom þess vegna ekki aðeins að niðurskurðinum í heilbrigðisþjónustunni heldur líka orsökum, afleiðingum og lausnum!

Eðli málsins samkvæmt gerði hún lokunina á Seli og tímabundna lokun dagdeildar geðdeildarinnar að sérstöku umtalsefni í ræððu sinni. Þar velti hún fyrir sér ýmsum þáttum eins og þeim hvernig væri vegið að öldruðum og öðrum sem væru síður líklegir til að bera hönd yfir höfuð sér í þessum niðurskurði. En hún kom að fleiri þáttum þessa máls:

Þá velti ég því líka fyrir mér, sem margoft hefur heyrst í þessari umræðu, að það eigi hugsanlega að færa í einkarekstur þá þætti í heilbrigðisþjónustunni sem eitthvað gefa af sér í aðra hönd. Líklega má þá ríkið halda áfram að reka það sem engu skilar í arð, eða hvað?  Er þetta það sem við viljum?

Þá benti Hólmfríður á að sú sameining í þjónustu heilbrigðisstofnana á Austurlandi og í Þingeyjarsýslu, sem þegar hafa komið til framkvæmda, hefðu alls ekki skilað þeim sparnaði sem þeim var ætlað heldur þvert á móti! Þráinn Lárusson, bæjarfulltrúi Fljótsdalshéraðs, gerði athugasemd við þessa fullyrðingu Hólmfríðar og sagði það alls ekki rétt að kostnaður hefði aukist við sameiningu heilbrigðisstofnana á Austurlandi. Hólmfríður víkur að þessari athugasemd Þráins í sérstakri viðbót sem hún gerði við ræðu sína. (Eins og ég vék að áður þá hangir ræða hennar við þessa færslu.)

Ræða Hólmfríðar Haraldsdóttur hlaut verðskuldaðar undirtektir enda vék hún að mörgu því sem er efst í huga margra hvað varðar nýliðna atburði á vettvangi efnahagsmálanna og afleiðingar þeirra. Fundarstjórinn, sem var farinn að hafa áhyggjur af tímanum, ákvað að biðja hana að stytta mál sitt. Hólmfríður varð við því og stiklaði þess vegna aðeins á stóru í sambandi við hugmyndir sínar um sparnaðar- og fjármögnunarleiðir á sviði heilbrigðismála undir lok ræðu sinnar.

Annar frummælandi á þessum fundi, Kristján Jósteinsson, forstöðumaður dagdeildar geðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri, vakti ekki síður athygli fyrir innihald ræðu sinnar og skörungsskap í málflutningi. Þegar hann hafði lokið máli sínu ætlaði lófatakinu aldrei að linna og þó nokkrir risu upp úr sætum sínum til að votta honum virðingu sína og þakklæti!
WHO
Kristján vakti athygli á mörgu því sem hinn almenni borgari er alls ekki meðvitaður um í sambandi við geðheilbrigði og þjónustu við þá sem glíma við geðsjúkdóma. Hann benti m.a. á að samkvæmt tölum og spám Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar (WHO) þá sé sjúkdómabyrðin af völdum geðsjúkdóma hvað mest í heiminum og fer vaxandi.

Hann vakti líka athygli á því að heilbrigðisráðherrar aðildarríkja Evrópudeildar Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar hefðu skrifað undir aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum árið 2005 þar sem segir m.a: „ að brýnustu verkefni næstu ára verði að móta, innleiða og meta stefnu og löggjöf sem leiðir til aðgerða i geðheilbrigðismálum, draga úr geðrænum vandamálum og leggja áherslu á að fólk með geðraskanir sé virkir þáttakendur í samfélaginu.“

Auk þess minnti hann á að: „
Í heilbrigðisáætlun stjórnvalda 2001 – 2010 sem samþykkt var á Alþingi 20. maí 2001, eru tvö aðalmarkmið sem snúa að bættu geðheilbrigði. Annars vegar að dregið verði úr tíðni sjálfsvíga um 25% og hins vegar að dregið verði úr tíðni geðraskana um 10%. Þetta skuli m.a. gert með því að aðgangur að geðheilbrigðisþjónustu verði auðveldaður og meðferðarúrræðum fjölgað.“

Kristján minnti á að aukaverkanir efnahagshruns, eins og þess sem Íslendingar Borgarafundur á Akureyri 28.01.09hafa nú orðið, fyrir er versnandi geðheilsa. Máli sínu til áréttingar benti hann á þann veruleika sem Finnar hafa staðið frammi fyrir, og eru enn að bíta úr nálinni með, rúmum áratug eftir alvarlegt efnahagshrun þar í land. Í þessu samhengi er [...] mikilvægt að undir- strika [...] að engin þjóð á Vesturlöndum hefur orðið fyrir jafn alvarlegu áfalli og Íslendingar á síðari tímum.“ 

Þannig hélt Kristján áfram að draga fram ýmsar ályktanir og staðreyndir síðustu ára og mánaða sem undirstrika mótsögnina sem kemur fram í lokun dagdeildar, sem er undir geðdeild Sjúkrahússins hér á Akureyri, í sparnaðarskyni. Því til áréttingar vitnaði hann m.a. í orð landlæknis sem „beindi tilmælum til heilbrigðisráðherra [...] um að frumheilsugæslu og geðsviðum spítalanna skyldi hlíft er til niðurskurðar kæmi í heilbrigðiskerfinu.“

Um svipað leyti tilkynnti framkvæmdarstjóri lækninga á fundi stjórnar Sjúkrahússins hér „að sökum
efnahagsþrenginganna verði mikilvægt að efla dag- og göngudeildarþjónustu á sem flestum sviðum [...]. Nokkrum vikum síðar eða 29. desember sl. ákvað framkvæmdastjórn FSA fyrirvaralaust að loka dagdeild geðsviðs sjúkrahússins.

Heildarkostnaður við rekstur deildarinnar á árinu 2007 var um 26.9 milljónir, þar af launakostnaður um 19.7 milljónir. Eins og ég gat um í upphafi, var því borið við þegar ákvörðunin um lokun deildarinnar var tekinn að ætlunin væri að spara 17.5 milljónir. Til þess að setja þessar tölur í samhengi við annan kostnað innan Sjúkrahússins þá má geta þess að undir liðnum stjórnun og ýmiss þjónusta á árinu 2007, var kostnaður tæpar 730 milljónir króna, þar af launakostnaður rúmlega 420  milljónir. Allar þessar tölur má sjá í glæsilegri ársskýrslu sjúkrahússins frá árinu 2007.


Eins og ég gat um hér á undan var ræða Kristjáns ekki aðeins kraftmikil heldur afar upplýsandi. Ég hefði helst viljað birta alla ræðu hans en einhvers staðar verð ég að láta staðar numið. Ég hvet alla sem hafa hug á að setja sig inn í þessi mál að lesa hana alla. (Eins og ég hef vikið að áður þá er hún hengd við þennan pistil).

Áður en ég segi fyllilega skilið við ræðu Kristjáns Jósteinssonar, bráðum fyrrverandi forstöðumanns dagdeildar geðdeildar SA, verð ég að vekja athygli á einu til viðbótar sem kom fram í ræðu hans:

Geðhjálp hefur valið Akureyri sem fyrirmyndarsveitarfélag í geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi og af því tilefni verður haldin stór norræn ráðstefna á vegum Geðhjálpar og Norrænu ráðherranefndarinnar á Akureyri, í maí næsta vor. Þessi ákvörðun, að útnefna Akureyri sem fyrirmyndarsveitarfélag, var tekin áður en Geðhjálp frétti af lokun dagdeildarinnar og er nánast kaldhæðnisleg séð í því ljósi að helsta vaxtarbroddi geðheilbrigðisþjónustunnar, fyrir utan höfuðborgarsvæðið, er fyrirvaralaust lokað þegar skollin er á mesta kreppa í sögu þjóðarinnar frá Móðuharðindinum!

Eftir að framsögumenn höfðu lokið máli sínu fengu þeir sem sátu í pallborðinu tækifæri til að koma því að hvernig umræddur niðurskurður horfði við þeim. Þar vakti athugasemd Kristínar Sigursveinsdóttur, deildarstjóra búsetudeildarinnar, sennilega einna mesta athygli. Hún benti á að um leið og Sjúkrahúsið á Akureyri lokar deildum, eins og þeim sem hér um ræðir, kemur það harkalega niður á skjólstæðingum búsetudeildarinnar.

Sigrún Stefánsdóttir, formaður félagsmálaráðs, tók í sama streng og bætti því við að í þessu tilfelli þá flyttist sá kostnaður sem Sjúkrahúsið ætlaði sér að spara með aðgerðum að því tagi sem þeir hafa þegar gripið til yfir á bæjarfélagið. „Vandamálin hverfa ekki. Þau flytjast bara á milli.“ Þau koma ekki aðeins niður á rekstri búsetudeildarinnar heldur ekki síður fjölskyldudeildar Akureyrarbæjar.

Arna Rún Óskarsdóttir, yfirlæknir öldrunarlækningadeildar Sjúkrahússins á Akureyri, vakti athygli á því að endurhæfing aldraðra á Kristnesi skerðist á kostnað nýtilkominna hjúkrunarrýma. Ég ætla að skjóta því hér inn að á Kristnesi rekur Sjúkrahúsið á Akureyri bæði endurhæfingar- og öldrunarlækningadeild.

Öldrunarlækningadeildin miðar að útskrift allra sinna skjólstæðinga. Í sumum tilfellum hefur það verið í hjúkrunarrými sem eru ekki til staðar á Kristnesi. Það stendur heldur ekki til að bjóða upp á slík rými í framtíðinni enda hefur öll starfsemin þar legið niðri í einn mánuð yfir sumarið. Eðlilega vakna upp spurningar varðandi aukinn rekstrarkostnað Kristnesspítala vegna þess að tæplega verður af slíkri lokun hans á næstunni...

Eitt af því sem kom upp vegna ábendingar Emmu Agnetu Björgvinsdóttur, sem er móðir barns með þroskahamlanir, er að hér í bæ vantar tilfinnanlega þroskateymi. Eins og er þurfa foreldrar sem eiga börn með einhver þroskafrávik að ferðast til Reykjavíkur til að fá greiningu. Það net stuðningsaðila sem þessi börn þurfa á að halda er líka götótt. Nokkrir þeirra sem voru í pallborði vöktu athygli á þessu og lýstu yfir áhyggjum sínum vegna þessa.

Borgarafundur á Akureyri 28.01.09Þá var komið að fyrirspurnum úr sal. Það sem vakti mesta athygli af því sem þar kom fram kom frá tveimur starfandi læknum hér á Akureyri. Pétur Pétursson, heilsugæslulæknir, benti á að það væri afar hæpið að nokkur sparnaðu náist í gegn með þeim aðgerðum sem hefur verið gripið til af hálfu Sjúkrahússins hér. Hann tók undir þá skoðun sem áður hafi komið fram að hún fælist líka fyrst og fremst í því að velta kostanði yfir á aðra.

Hins vegar vildi hann vekja athygli á þróunina sem hefur orðið í lyfjaframleiðslunni hér á landi á undanfarandi árum. Hann vill meina hún hafi verið rekin mjög í anda nýfrjálshyggjunnar. Þannig benti hann á að gömul og ódýrari lyf hafa horfið af markaðinum en miklu dýrari lyf frá stórum lyfjaframleiðendum komið í þeirra stað. Ef raunverulegur sparnaður ætti að nást í heilbrigðiskerfinu væri nær að horfa til þessara staðreynda og gera eitthvað í þeim.

Páll Tryggvason, barna- og unglingageðlæknir, lagði líka orð í belg. Hann sagði sögu sem hann sagði að endurspeglaði vel þann fáránleika sem liggur í sparnaðarhugmyndunum, sem liggur tímabundinni lokun dagdeildarinnar, til grundvallar. Það er kannski rétt að taka það fram að lokun títtnefndar dagdeildar er ekki endanleg heldur á að opna hana aftur í nýuppgerðu húsnæði næsta haust. Sel sem áður hýsti aldraða á að gera upp og hýsa alla þjónustu geðdeildarinnar í framtíðinni.

Páll sagði að þessi áform minntu sig á sögu sem hann hefði nýverið heyrt um áfrom um nýbyggingu fangelsis í einhverju ótilgreindu fylki í Bandaríkunum. Gamla fangelsisbyggingin þjónaði ekki lengur kröfum sem gerðar eru til slíkst húsnæðis. Auk þess sem staðsetning hennar væri ekki nógu góð að mati fangelsisyfirvalda á staðnum. Þess vegna þarf að byggja nýtt. Á meðan nýja fangelsið er í byggingu verða fangarnir geymdir í því gamla. En til að ná niður byggingarkostnaðinum og spara á að nota efnið úr gamla fangelsinu í nýbygginguna. Eitthvað hefur staðið á því að byggingarframkvæmdir hafi getað hafist og er nú búið að skipa nefnd til að komast að því hvað tefur... 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Búin að lesa ræðu Hólmfríðar.  Mjög góð.

Sigrún Jónsdóttir, 1.2.2009 kl. 01:43

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Finnst þér ekki Mögnuð kona!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 1.2.2009 kl. 13:09

3 Smámynd: Haraldur Davíðsson

Svona fólk þurfum við í að byggja nýtt Ísland, hún er greinilega heil og heiðarleg manneskja.

Haraldur Davíðsson, 1.2.2009 kl. 13:48

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Sammála þér Haraldur!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 1.2.2009 kl. 19:56

5 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Sæl bara að tékka inn. Sé að þið eruð framtakssöm fyrir norðan.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 2.2.2009 kl. 19:35

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Og nú er enn einn borgarafundurinn í undirbúningi í samstarfi við borgarafundanefndina í Reykjavík Sá verður næsta sunnudag og ber yfirskriftina: Landráð af „gáleysi“.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 2.2.2009 kl. 19:49

7 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Já þetta verður spennandi fundur. Ég hefði fengið far með til ykkar ef ekki hefði verið fyrir stóran fund sem ég þarf að vera á fyrir sunnan.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 4.2.2009 kl. 23:43

8 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Þráinn fer einfaldelga með rangt mál þegar hann segir kosynað fyrir austan ekki hafa aukis.

Haraldur Bjarnason, 5.2.2009 kl. 18:01

9 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Jakobína: Mikið hefði ég viljað fá þig norður! en ég veit að þú ert að sinna mikilvægum málum fyrir sunnan og óska þér og þeim sem eru að vinna með þér velfarnaðar

Haraldur: Ég hef grun um að þú og Hólmfríður farið með rétt mál varðandi kostnaðinn!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 5.2.2009 kl. 18:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband