Forsætisráðuneytið
11.8.2013 | 05:41
Þetta er framhald þess sem hófst á færslunni Loforð og efndir og svo Mönnun brúarinnar. Sú fyrri er hugsuð sem eins konar inngangur en þá seinni má líta á sem áframhaldandi innsetningu. Þessi færsla er þess vegna fyrsti hluti þess sem þeirri rannsóknarvinnu sem var upphaf þessara skrifa var ætlað að snúast um. Kveikjan er ekki síst hverjar afleiðingar íslenskrar stjórnmálamenningar hafa orðið og hvernig þær birtust þjóðinni haustið 2008.
Eins og áður hefur komið fram hefur það orðið að hefð í íslenskri stjórnskipan að það er í höndum æðstráðandi innan þeirra flokka sem mynda ríkisstjórn hverjir verða ráðherrar. Þannig hefur það orðið að einhvers konar ófrávíkjanlegri reglu að ráðherrar hverrar ríkisstjórnar eru úr röðum þingmanna ríkisstjórnarflokkanna. Samkvæmt þessari hefð hefur það fests í sessi að formenn viðkomandi flokka taka embætti forsætis- og fjármálaráðherra.
Einhverjir sjá það væntanlega í hendi sér hvurs lags álag hlýtur að hljótast af því að vera formaður fjölmenns stjórnmálaflokks, þingmaður löggjafarsamkundunnar á Alþingi og bæta svo embætti ráðherra ofan á þau margháttuðu hlutverk. Það má gera ráð fyrir að ný lög sem voru sett um Stjórnarráð Íslands á síðasta þingi hafi að einhverju leyti tekið mið af þessu en þar er ráðherrum gert heimilt að ráða til sín tvo til þrjá aðstoðarmenn í stað eins áður.
Samkvæmt lögunum verður hverjum ráðherra heimilt að ráða allt að tvo aðstoðarmenn til starfa í ráðuneyti sínu í stað eins áður. Auk þess getur ríkisstjórnin ákveðið að fjölga aðstoðarmönnum um þrjá til viðbótar ef þörf krefur. (sjá hér)
Miðað við umfang og samfélagslegt mikilvægi þeirra málefna sem ráðherrarnir sitja yfir er tæplega hægt að gera ráð fyrir öðru en þeir hafi aðstoðarmenn. Þó hlýtur að teljast eðlilegt að störf þeirra séu auglýst og þekking og færni þeirra sem eru ráðnir standi undir því sem eðlilegt er að gera ráð fyrir að kröfur séu gerðar um varðandi starfsemi og sérsvið hvers ráðuneytis. Hins vegar er ástæða til þess að velta því fyrir sér hvers vegna svo mörgum pólitískt mikilvægum verkefnum er hlaðið á einn einstakling og hvernig slíkt fyrirkomulag fari með þetta marglofaða lýðræði?
Það er hins vegar ekki lýðræðið sem slíkt sem stendur til að fjalla um sérstaklega hér heldur verður menntun og starfsreynsla hvers ráðherra fyrir sig dregin fram og lagt á það eitthvert mat hvort og hvernig þessir þættir standi undir þeim samfélagslega mikilvægu og sérhæfðu sviðum sem heyra undir ráðuneytin sem þeir sitja yfir.
Ég þarf væntanlega ekkert að taka það fram að þeir sem gegna ráðherraembætti eru í einu af valdamestu embættum landsins samkvæmt íslenskum valdastrúktúr. Miðað við það má gera ráð fyrir að mikillar vandvirkni sé gætt við skipun ráðherra og vandlega passað upp á það að þeir sem gegna þeim hafi menntun, þekkingu og reynslu sem samræmist þeim viðfangsefnum sem heyra undir þá. Það er a.m.k. eðlilegt að gera ráð fyrir því að skipun í æðstu embætti hvers ráðuneytis stýrðist af metnaði fyrir málaflokknum sem heyrir undir það svo og þeim almannahagsmunum sem þeim er ætlað að fara með.
Þeir ráðherrar sem verða bornir saman hér í framhaldinu eru alls sautján. Við samanburðinn er ferilskrá hvers og eins lögð til grundvallar en þar er tíunduð skólaganga og próf, reynsla af vinnumarkaði auk annarrar reynslu- og/eða þekkingarmyndandi samfélagsvirkni. Þeir sautján sem stendur til að skoða út frá þessum atriðum eru allir ráðherrar núverandi ríkisstjórnar og þeir átta ráðherrar ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna sem létu af embætti 23. maí sl. (sjá hér).
Til að stilla lengd hverrar færslu í eitthvert hóf verður hvert embætti tekið fyrir sig og byrjað á forsætisráðherraembættinu. Eins og áður hefur komið fram er tilgangurinn með þessu framtaki ekki síst sá að fá lesendur til að velta því fyrir sér hvort aðferðafræði flokkanna við skipun í ráðuneytin sé líklegust til að hagsmunir samfélagsheildarinnar séu best tryggður?
Forsætisráðherra
Jóhanna Sigurðardóttir var forsætisráðherra síðustu ríkisstjórnar. Hún er fædd 1942 og var því 67 ára þegar hún tók við embætti forsætisráðherra fyrir ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna árið 2009. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er nýorðinn forsætisráðherra í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Hann er fæddur 1975 og hefur því náð 38 ára aldri þegar hann tekur við einu æðsta embætti landsins. Þegar menntun þessara tveggja, starfsreynsla þeirra utan þings auk þing- og nefndarstarfa eru borin saman kemur ýmislegt forvitnilegt í ljós.
Menntun og starfsreynsla
Þegar Jóhanna var 18 ára lauk hún verslunarprófi frá Verslunarskóla Íslands. Tveimur árum síðar var hún ráðin sem flugfreyja hjá Loftleiðum og starfaði þar í níu ár áður en hún gerðist skrifstofumaður hjá Kassagerð Reykjavíkur þar vann hún í sjö ár en þá var hún kosin inn á þing fyrir Alþýðuflokkinn, þá 36 ára.
Sigmundur Davíð var stúdent frá MR árið 1995. Tíu árum síðar lauk hann BS-prófi frá viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands. Það kemur og fram á ferilskrá hans að hann hafi stundað hlutanám í fjölmiðlafræði við skólann og hann hafi farið út til Moskvu í skiptinám. Auk þessa hefur hann stundað nám við stjórnmálafræðideild Kaupmannahafnarháskóla í alþjóðasamskiptum og opinberri stjórnsýslu og framhaldsnám í hagfræði og stjórnmálafræði við Oxford-háskóla með áherslu á tengsl hagrænnar þróunar og skipulagsmála.
Eina starfsreynslan sem getið er á ferilskrá hans á alþingisvefnum er að hann hefur verið þáttastjórnandi og fréttamaður í hlutastarfi hjá Ríkisútvarpinu á árunum 2000-2007. Hann var kjörinn inn á þing vorið 2009 þá 34 ára.
Félagsstörf af ýmsu tagi
Jóhanna byrjaði snemma að taka þátt í ýmis konar félagsstarfi. 24 ára er hún orðin formaður stjórnar Flugfreyjufélags Íslands. Því embætti gegndi hún í fjögur ár. Eftir að hún lét að störfum sem flugfreyja hélt hún tengslum við félagsskapinn í gegnum góðgerðarsamtök á þeirra vegum þar sem hún var formaður í eitt ár. Frá 34 ára aldri átti hún sæti í stjórn VR þar sem hún sat til ársins 1983.
Eins og áður sagði var Jóhanna 36 ára þegar hún var kjörin inn á þing fyrir Alþýðuflokkinn. Sex árum eftir að hún tók sæti á þingi var hún kjörin varaformaður flokksins og gegndi því í níu ár. Árið 1995 stofnaði Jóhanna flokkinn Þjóðvaka (sjá hér) og var formaður hans uns þingflokkur hans gekk inn í Alþýðuflokkinn aftur ekki löngu eftir alþingiskosningar. Jóhanna var kjörin formaður Samfylkingarinnar árið 2009 og gegndi því embætti nær allt síðasta kjörtímabil.
Eftir að Jóhanna var kjörin inn á þing hefur hún setið í nokkrum nefndum og ráðum utan þings. Strax og Jóhanna varð þingmaður tók hún að hasla sér völl á vettvangi félags- og tryggingamála. Sama ár og hún komst inn á þing var hún í nefnd sem var falið að endurskoða lög um almannatryggingar auk þess að eiga sæti í tryggingaráði. Hún sat þar í níu ár. Þar af var hún formaður þess í eitt ár eða frá 1979 til 1980. Árið 1979 var hún líka formaður í stjórnarnefnd um málefni þroskaheftra og öryrkja. Því embætti gegndi hún í fjögur ár.
Á ferilskrá Sigmundar Davíðs kemur fram að hann hefur verið forseti Nordiska Ekonomie Studerandes Union í tvö ár eða frá því hann var 25 til 27. Árin 2008 til 2010 var hann fulltrúi í skipulagsráði Reykjavíkurborgar. Frá árinu 2009 hefur hann verið formaður Framsóknarflokksins.
Þingstörf og nefndarsetur á vegum þess
Jóhanna á langan þingferil að baki. Hún var einn þeirra þingmanna sem gaf ekki kost á sér til endurkjörs til síðustu alþingiskosninga. Þá hafði hún setið á þingi í alls 35 ár. Á þessum tíma hefur hún verið fulltrúi fjögurra flokka auk þess sem hún var utan flokka um hríð. Það er frá haustinu 1994 fram til alþingiskosninganna 1995 (sjá hér).
Þennan tíma hefur hún setið í nokkrum þingnefndum þ.á m. þrisvar sinnum í sérnefnd um stjórnarskrármál eða árin: 1995-1997 og 1999-2000 og 2004-2007, allsherjarnefnd á árunum 1996-1999 og kjörbréfanefnd þar sem hún sat á árunum 1999-2003. Þess má geta að Jóhanna hefur aðeins einu sinni átt sæti í félagsmálanefnd eða á árunum 2003-2007.
Sigmundur Davíð kom nýr inn á þing vorið 2009 og hefur því setið inni á þingi í fjögur ár. Á síðasta kjörtímabili var hann þingmaður fyrir Reykjavík norður nú fyrir Norðausturland. Allt síðasta kjörtímabil sat hann í utanríkismálanefnd.
Ráðherraembætti
Jóhanna hafði tvisvar gegnt ráðherraembætti áður en hún tók við forsetaembættinu í fyrsta skipti 1. febrúar 2010. Hún var félagsmálaráðherra á árunum 1987-1994 og 2007-2008, síðan félags- og tryggingamálaráðherra í eitt ár eða til stjórnarslita Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks í janúarlok 2009.
Jóhanna var 45 ára þegar hún tók við ráðherraembætti í fyrsta skipti en 67 ára þegar hún tók við embætti forsætisráðherra sem hún gegndi til 23. maí sl. Hún var því 71s þegar hún lét af embætti og hafði setið á Alþingi í 31 ár áður en það kom að því að hún tæki það sæti. (sjá nánar hér)
Sigmundur Davíð er núverandi forsætisráðherra. Eins og áður hefur komið fram þá hefur hann setið á þingi í fjögur ár, eða eitt kjörtímabil, og er 38 ára þegar hann tekur embætti forsætisráðherra. (sjá nánar hér)
Samantekt
Jóhanna var 18 ára þegar hún lauk verslunarprófi frá Verslunarskóla Íslands. Sigmundur þrítugur þegar hann lauk BS-námi frá Háskóla Íslands. Önnur próflok eru ekki skráð. Samkvæmt ofangreindri ferilskrá er Jóhanna tvítug þegar hún fer út á atvinnumarkaðinn þar sem hún vinnur í 16 ár; fyrst sem flugfreyja en síðan sem skrifstofumaður. Þennan tíma er hún virk í viðkomandi stéttarfélögum.
Hún er 36 ára þegar hún sest inn á þing. 71 þegar hún lætur af þingmennsku og hefur því setið inni á þingi í 35 ár eða þrjá og hálfan áratug! Á þeim tíma hefur hún verið formaður tveggja flokka og varaformaður þess þriðja.
Miðað við ferilskrá Sigmundar Davíðs er reynsla hans af atvinnulífinu bundin við Ríkisútvarpið þar sem hann hefur gengt hlutastarfi sem þáttastjórnandi og fréttamaður í sjö ár eða frá því að hann var 25 ára. Hann var kosinn formaður Framsóknarflokksins í upphafi ársins 2009 og settist inn á þing skömmu síðar. Hann hefur því setið á þingi í rétt rúm fjögur ár.
Sennilega eru skiptar skoðanir á því hvort þeirra er betur hæfara til að taka eitt af þremur æðstu embættum þjóðarinnar. Ef reynsla af pólitík er eini mælikvarðinn hlýtur það að vera Jóhanna sem er hæfari. Miðað við ánægjukönnun Callups frá því í febrúar 2009 voru miklar væntingar gerðar til hennar og mældist ánægja þátttakenda 65,4%. Í janúar 2013 var þessi tala komin niður í 25,9%. Fór lægst niður í 18,4% í mars 2012 (sjá hér).
Það vekur athygli í þessari könnun hvað ánægja þeirra sem segjast kjósa Samfylkinguna er í litlu samhengi við skoðun þeirra sem segjast styðja aðra flokka. Af því má gera ráð fyrir að kjósendur hennar séu enn þá á því að hún hafi staðið sig vel. Líklega eru þeir þó í töluverðum minni hluta sem væru tilbúnir til að mæla með henni aftur í þetta embætti. Miðað við ferilskrá hennar er nokkuð víst að engin hæfnisnefnd hefði mælt með henni til starfans.
Í þessu samhengi er rétt að vísa til Skýrslu um endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands þar sem segir m.a: Verklag við ráðningu æðstu embættismanna og annarra starfsmanna verði bætt s.s. með hæfnisnefndum og samræmt til þess að tryggja sem best að fagleg sjónarmið séu höfð að leiðarljósi. (sjá hér)
Þrátt fyrir akademískt nám þá verður ekki séð af ferilskrá Sigmundar Davíðs að þar séu afgerandi þættir sem mæli tvímælalaust með honum í embætti forsætisráðherra. Þar sem hann á aðeins stuttan þingferil að baki eru sennilega margir sem hafa ákveðið að gefa honum ekkert síður séns en Jóhönnu í upphafi síðasta kjörtímabils. Væntanlega geta margir tekið undir það að það er óskandi að hann standi betur undir þeim en Jóhönnu auðnaðist.
Þegar það er skoðað hversu frambærileg annaðhvort eða bæði eru í embættið þarf að huga að starfssviði og -skyldum forsætisráðherra. Miðað við það að þetta er ein af þremur valdamestu stöðum íslensks samfélags er vissulega eðlilegt að setja fyrst spurningarmerki við það hvort það sé eðlilegt að formenn stjórnmálaflokka gegni því?
Aðrar spurningar sem vert er að skoða nákvæmlega eru: Hvort eigi að ráða mestu þegar kemur að vali forstæðisráðherra árafjöldi í pólitík eða menntun? eða hvort aðrir þættir skipti jafnvel enn meira máli? svo sem: færni í mannlegum samskiptum, tungumálakunnátta eða víðtæk þekking á íslensku samfélagi?
____________________________________
Helstu heimildirRáherraskipan í síðara ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttir
Ráðherrar í núverandi ríkisstjórn
Þjóðarpúls Callups frá 6. október 2009: Ánægja með störf ráðherra (fyrsta könnun)
Þjóðarpúls Gallups 10. janúar 2013: Ánægja með störf ráðherra
Skýrsla nefndar um endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands - Samhent stjórnsýsla (13.12.2010)
Ný lög um Stjórnarráð Íslands (19.09.2011)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mönnun brúarinnar
9.8.2013 | 04:25
Eins og ég benti á í síðustu færslu er ætlunin að nota þennan vettvang til að bera saman menntun og reynslu ráðherranna í núverandi og síðustu ríkisstjórn. Tilgangurinn er að fylgja því eftir sem ég setti fram þar en líka sú bjartsýnislega von að samanburðurinn veki einhverja til umhugsunar um það hvort núverandi kerfi við skipun ráðherra sé heillavænleg leið til reksturs samfélags sem er ætlað að þjóna öllum einstaklingunum sem það byggja. (sjá hér)
Hér á landi hefur sá háttur verið hafður á að allir sem hafa náð kosningaaldri ganga til alþingiskosninga á fjögurra ára fresti til að kjósa á milli stjórnmálaflokka sem hafa stillt upp einstaklingum sem að þeirra mati eru frambærilegastir til að fara bæði með löggjafar- og framkvæmdavaldið á því kjörtímabili sem tekur við að kosningunum loknum. Eftir kosningarnar eru það svo formenn þeirra flokka sem koma sér saman um ríkisstjórnarsamstarf sem sjá um að velja og skipa þá fulltrúa sem fara með framkvæmdavaldið. Í langflestum tilvikum hefur val þeirra takmarkast við þau flokkssystkini sem náðu með þeim inn á þing.
Það er í sjálfu sér kannski lýðræðislegt að gera ekki stærri kröfur til þeirrra, sem koma sér áfram af eigin rammleik innan viðkomandi stjórnmálaflokks, en að þeir hafi eitthvað til þess að bera að geta lagt a.m.k. mat á og tekið afstöðu til frumvarpa til laga en er það eðlilegt að þeir sem fara með framkvæmdavaldið hafi fátt annað á ferilskránni en vera eitilharðir við að koma sér til metorða í stjórnmálum eða njóta velvildar innan síns eigin flokks? Hér má heldur ekki gleyma því hvaða áhrif það hefur ef það eru fyrst og fremst peningastyrkir og -stuðningur fjársterkra aðila úr fjármálaheiminum sem hafa komið viðkomandi einstaklingum áfram innan flokkanna.
Allir þessir þættir voru eitthvað í umræðunni í kjölfar bankahrunsins 2008 en nú er eins og hún sé öllum gleymd. Þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sagði af sér í janúarlok 2009 var Jóhönnu Sigurðardóttur falið að mynda minnihlutastjórn sem skyldi sitja fram að kosningum sem voru boðaðar í aprílok það sama ár. Það má væntanlega líta á það sem viðbrögð við þeirri gagnrýni sem var uppi á þessum tíma um skipun æðstu manna ráðuneytanna að tveir utanþingsráðherrar voru skipaðir. Þeir héldu þó ekki sætum sínum nema fyrsta árið eftir kosningar.
Það er sennilega mörgum í fersku minni hversu tíð ráðherraskiptin voru í síðustu ríkisstjórn. Af einhverjum ástæðum hafa ástæður þessara tíðu mannabreytinga nýliðins kjörtímabils aldrei farið neitt sérstaklega hátt í opinberri umræðu. Sennilega vita þó allir sem vilja kannast við það að ráðherrahrókeringarnar á kjörtímabilinu stöfuðu ekki aðeins af skilyrðislausri hlýðni formannanna við tilskipanir erlendra fjármálastofnana á borð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Evrópusambandið um niðurskurð á kostnaði við ríkisrekstrinum heldur var þeim gjarnan beitt sem refsiaðgerðum gegn óhlýðnum flokksmönnum sem höfðu verið álitnir nægilega hollir við upphaf kjörtímabilsins til að hljóta náð ráðherraskipunarinnar.
Ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur 23. maí 2009
Í upphafi síðasta kjörtímabils voru þessir skipaðir ráðherrar í eftirtalin embætti:
Strax haustið 2009 var gripið til fyrstu refsiaðgerðanna þegar Ögmundur Jónasson var sviptur ráðuneyti fyrir óhlýðni í fyrsta þætti Icesave-málsins. Í fjölmiðlum var það látið heita afsögn vegna málefnaágreinings en við lok Icesave-framhaldsþáttanna mátti vera ljóst að í raun var það ágreiningurinn sem reis upp sumarið 2009 í fyrsta Icesave-þættinum sem neyddi Ögmund til að láta af embætti heilbrigðisráðherra (sjá hér).
Álfheiður Ingadóttir tók við embætti Ögmundar Jónassonar 1. október 2009. Ári síðar eða 2. september 2010 var hann tekinn inn í ríkisstjórnina aftur en þá sem dóms- og mannréttindaráðherra. Fleiri breytingar voru reyndar gerðar á ráðuneytum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur þennan sama dag. Þær verða taldar hér síðar.
Eins og áður hefur komið fram stendur til að bera saman hvort og hvernig menntun og starfsreynsla ráðherra núverandi og síðustu ríkisstjórnar uppfylla eðlilegar kröfur um fagþekkingu í viðkomandi ráðuneytum. Hér verða þessir þættir skoðaðir hvað varðar þá ráðherra sem sátu ekki út kjörtímabilið eins og á við í tilfelli Álheiðar Ingadóttur sem sat aðeins eitt ár yfir heilbrigðisráðuneytinu.
Álfheiður er fædd 1951. Hún lauk stúdentsprófi tvítug frá MR og BS-prófi í líffræði fjórum árum síðar. Auk þess er hún með nám í þýsku og fjölmiðlum frá háskóla í Vestur-Berlín.
Á meðan á líffræðináminu stóð kenndi hún líffræði í MH og MR en heimkomin úr viðbótarnáminu í Berlín sneri hún sér aðallega að blaðamennsku.
Þegar á háskólaárunum byrjaði hún að koma fótunum undir sig í pólitík. Frá 22ja ára aldri til 35 ára sat hún m.a. í stjórn Alþýðubandalagsins í Reykjavík. Fimm árum eftir að hún var kosin í stjórnina er hún orðin varaborgarfulltrúi og gegnir því embætti innan flokksins næstu átta ár. Á sama tíma á hún sæti í nefndum borgarinnar. Fyrst umhverfisnefnd og þá jafnréttisnefnd þar sem hún var formaður um skeið.
Álfheiður tók þátt í stofnun Reykjavíkurlistans árið 1994 þá 43ja ára og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum á vegum hans. Sat m.a. í nefnd um mótun orkustefnu Reykjavíkurborgar 20022003 og í stjórn Landsvirkjunar 2003-2006.
Í beinu framhaldi af borgarstjórnarferlinum með Alþýðubandalaginu tekur alþingisferillinn við og þá sem varaþingmaður Alþýðubandalagsins í Reykjavík. Í fyrsta skipti sem hún sest inn á þing er hún 36 ára en svo verður nokkurt hlé. Hún kemur næst inn sem varamaður í lok áranna 2003, 2004 og 2005 en þá sem varafulltrúi Vinstri grænna í Reykjavík suður. Árið 2007 kemst hún svo inn á þing sem þingmaður Vinstri grænna þá 56 ára. Frá því að hún settist inn á þing hefur hún setið í nokkrum nefndum á vegum þess. M.a. heilbrigðisnefnd frá árinu 2007-2009. (sjá nánar hér)
BS-nám Álfheiðar í líffræði og væntanlega afleysingakennslan hennar við MH og MR á meðan á því námi stóð hefur vissulega tengingu við málefni heilbrigðisráðuneytisins en hún hefur enga starfsreynslu til að byggja undir fagreynslu hvorki á sviði líffræðinnar eða heilbrigðismála almennt. Það er því hæpið að nokkur ráðningarskrifstofa hefði kvittað undir það að menntun Álfheiðar og starfsreynsla stæðu undir því að henni væri treyst fyrir jafnstóru og viðamiklu verkefni eins og yfirumsjón heilbrigðismála í landinu.
Eftir breytingarnar 2. september 2010
Eins og áður hefur komið fram tók Álfheiður Ingadóttir við sæti heilbrigðisráðherra í tilefni af því að Ögmundur Jónasson var tilneyddur til að segja af sér ráðherraembættinu haustið 2009. Ári síðar var Álfheiður hins vegar látinn víkja fyrir Guðbjarti Hannessyni en Ögmundur Jónasson fékk nýtt embætti.
Fleiri breytingar voru gerðar á ráðherraskipaninni þetta á sama tíma. Báðir utanþingsráðherrarnir voru látnir fjúka svo og Álfheiður Ingadóttir og Kristján L. Möller. Árni Páll var færður til en Guðbjartur Hannesson tók við embætti hans og Álfheiðar. Ögmundur Jónasson tók við embætti Rögnu Árnadóttur. Frá og með 2. september 2010 voru ráðuneytin því þannig skipuð:
Það fór ótrúlega lítið fyrir umræðum um þessar mannabreytingar í fjölmiðlum og því eru engar aðrar aðgengilegar skýringar á þeim en þær að alltaf hafi staðið til að fækka ráðuneytunum í þeim tilgangi að draga saman í ríkisrekstrinum. Þeim spurningum hvers vegna Álfheiður og Kristján voru látin víkja fyrir þeim Guðbjarti og Ögmundi verður hins vegar ekki svarað með því að vísa til sparnaðar eingöngu.
Ef við gefum okkur að ánægjumælingar Gallups, hvað varðar störf ráðherra, hafi einhverju ráðið um það hverjum var fórnað í niðurskurðinum kemur reyndar í ljós að Álfheiður og Kristján eru meðal þeirra ráðherra sem minnst ánægja mældist með í könnun frá því í mars 2010; þ.e. tæpu hálfi ári áður en þessar breytingar voru opinberaðar.
Minnst ánægja er með störf Álfheiðar Ingadóttur, heilbrigðisráðherra, Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegsráðherra og Kristjáns L. Möller samgönguráðherra. Um og undir 14% segjast ánægð með þeirra störf og nýtur Kristján minnstra vinsælda þeirra þriggja. (sjá hér)
Niðurstöður umræddrar könnunar skýra hins vegar ekki að utanþingsráðherrunum var fórnað í stað þeirra sem komu miklu verr út úr mælingunni en þau tvö. Þeir sem þátttakendurnir í þessari könnun Gallups lýstu mestri óánægju með, fyrir utan þau þrjú sem eru talin hér á undan, eru: Árni Páll Árnason, Össur Skarphéðinsson og Svandís Svavarsdóttir. Utanþingsráðherrarnir eru hins vegar þeir sem mesta ánægjan ríkti með skv. þessari könnun:
Fram kom að 65% kjósenda eru ánægð með störf Rögnu Árnadóttur og hefur álit á henni aukist um 16 prósentustig frá því í könnun síðast liðið haust. Tæpur helmingur, eða 49%, segist ánægður með störf Gylfa Magnússonar efnahags- og viðskiptaráðherra. (sjá hér)
Hér verður ekki velt frekar vöngum yfir ástæðum þessara mannabreytinga heldur vakin athygli á ferilskrám þeirra þriggja, sem var vikið úr ríkisstjórninni um leið og Álfheiði Ingadóttur, til að skoða hvort menntun þeirra og starfsreynsla sé í samhengi við málefni ráðuneytanna sem þeim var ætlað að stýra. Í þessu sambandi mætti hafa það á bak við eyrað að ef til stæði að ráða eða skipa einstaklinga í viðlíka ábyrgðarstöður og framkvæmdastjóra eða andlit/rödd fyrirtækja með sambærilega veltu, umsvif og mannafla og ráðuneytin þá eru það einmitt þessi atriði sem yrðu skoðuð fyrst.
Kristján er fæddur 1953. Hann tók próf frá Iðnskóla Siglufjarðar 1971, þá 18 ára gamall, og kennarapróf frá Íþróttakennaraskóla Íslands fimm árum síðar. Í framhaldinu bætti hann við sig ýmsum námskeiðum á sviði félags- og íþróttamála í Noregi og Svíþjóð á árunum 1977 til 1982.
Frá 17 ára aldri til 21s árs gegndi hann stöðu æskulýðs- og íþróttafulltrúa Siglufjarðar og má gera ráð fyrir að til þess embættis hafi hann að einhverju leyti notið föður síns sem var bæjarfulltrúi fyrir Alþýðuflokkinn á Siglufirði á á árunum 1952-1982 (sjá hér).
Kristján var íþróttakennari í Bolungarvík í tvo vetur eða árin 1976-1978 en sneri þá aftur til Siglufjarðar og tók við embætti íþróttafulltrúa Siglufjarðar, þá 25 ára. Þessu embætti gegndi hann í 10 ár áður en hann sneri sér að verslunarrekstri næstu 11 árin.
Þegar Kristján er 33ja ára er hann orðinn bæjarfulltrúi sem er fjórum árum eftir að faðir hans hvarf úr embætti forseta bæjarstjórnarinnar. Sjálfur var Kristján forseti hennar þrisvar sinnum á 12 ára ferli sínum í bæjarmálunum á Siglufirði. Fyrst árið 1986 en síðast árið 1998.
Árið 1999 er Kristján kosinn inn á þing fyrir Samfylkinguna í fyrsta skipti, þá 46 ára. Fyrsta kjörtímabilið sitt inn á þingi átti hann sæti í samgöngunefnd. Árið áður en hann settist inn á þing átti hann sæti Í byggðanefnd forsætisráðherra. Átta árum eftir að hann settist inn á þing er hann gerður að samgönguráðherra, þá 54 ára, en því embætti gegndi hann í þrjú ár. (sjá nánar hér)
Það er erfitt að sjá hvað í ferli Kristjáns L. Möller mælir með því að hann hafi verið gerður að samgöngumálaráðherra ef undan er skilin seta hans í samgöngunefnd um fjögurra ára skeið. Slík nefndarseta skilar þó tæplega þeirri fagþekkingu sem horft væri eftir ef skipun í ráðherraembætti stjórnaðist af faglegum metnaði þeirra sem sjá um skipunina.
Það má auðvitað ætla að reynsla Kristjáns af verslunarrekstri og bæjarmálum á Siglufirði hafi gert það að verkum að hann hafi verið ágætlega inni í því hvað samgöngumálin skipta landsbyggðina miklu máli þar sem ýmsar stjórnsýsluákvarðanir síðustu ára og áratuga hafa miðað að því að gera höfuðborgarsvæðið að stöðugt mikilvægari miðju margs konar þjónustu sem þarf þá að sækja þangað.
Ragna er fædd árið 1966. Hún var því 43 ára þegar hún var skipuð dómsmálaráðherra í fyrsta ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur sem starfaði frá 1. febrúar 2009 til 10. maí það sama ár.
Ólíkt þeim stjórnmálamönnum sem var vikið úr ráðherrastóli á sama tíma og Rögnu þá ber ferilskrá hennar vitni um menntun og fagreynslu sem er í ágætu samhengi við málefni ráðuneytisins sem henni var trúað fyrir.
Menntun:
Stúdentspróf MA 1986.
Embættispróf í lögfræði HÍ 1991.
LL.M.-gráða í Evrópurétti frá Háskólanum í Lundi 2000.
Viðkomandi starfsreynsla:
Lögfræðingur við nefndadeild Alþingis 1991-1995.
Sérfræðingur við skrifstofu Norðurlandaráðs í Stokkhólmi og síðar Kaupmannahöfn 1995-1999.
Starfsmaður áfrýjunarnefndar samkeppnismála 2002-2003. Starfsmaður kærunefndar samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi 2003-2004.
Skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneyti 2002-2009, auk þess staðgengill ráðuneytisstjóra 2006-2009. Settur ráðuneytisstjóri í sama ráðuneyti apríl-október 2008.
Stundakennari við lagadeild Háskólans í Reykjavík 2006-2008.
Viðkomandi nefndarsetur:
Í stýrinefnd Evrópuráðsins um mannréttindi (CDDH) 2002-2005.
Formaður sendinefndar Íslands í GRECO, ríkjahópi Evrópuráðsins gegn spillingu 2002-2009.
Í sendinefndum Íslands við fyrirtökur hjá eftirlitsnefndum Sameinuðu þjóðanna: mannréttindanefnd (CCPR) 2005,
nefnd um framkvæmd samnings um afnám alls kynþáttamisréttis (CERD) 2005
nefnd SÞ um réttindi barnsins 2003 og 2006.
Formaður ritstjórnar Lagasafns frá 2004.
Varaformaður kærunefndar jafnréttismála 2004-2008.
Formaður nefndar um milliliðalausa sönnunarfærslu í sakamálum 2008.
Formaður vinnuhóps til að semja Handbók um frágang og undirbúning lagafrumvarpa, útg. 2007. Formaður starfshóps sem kynnti sér mismunandi löggjöf um vændi og fleira á Norðurlöndum og víðar 2004-2006.
Formaður nefndar til að endurskoða ákvæði laga um helgidagalöggjöf 2004.
Formaður vinnuhóps til að gera heildarendurskoðun á lögum og reglum um fullnustu refsidóma 2002-2003.
Í nefnd viðskiptaráðherra um aðgerðir gegn peningaþvætti 2005-2007.
Í nefnd forsætisráðherra til að fara yfir viðurlög við efnahagsbrotum 2004-2006.
Þetta er langur listi þó einhverju sé sleppt en ferilskrá Rögnu á vef Alþingis má kynna sér nánar hér. Yfirlitið hér að ofan hlýtur þó að sýna fram á að Ragna hefði verið mjög líkleg til að hljóta yfirmannsstöðuna yfir ráðuneyti dómsmála jafnvel þótt skipunin hefði farið í gegnum ráðningarskrifstofu. Það er hins vegar spurning um kirkjumálin.
Gylfi er jafnaldri Rögnu og var skipaður í ráðherraembætti í fyrsta ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur á sama tíma og hún. Rétt eins og Ragna átti hann líka sæti í örðu ráðuneyti hennar sem tók til starfa 23. maí vorið 2009 en var vikið úr því embætti 2. september 2010.
Ragna og Gylfi eiga það svo loks sameiginlegt að ferilskrá þeirra er í ágætu samræmi við ráðherraembættin sem þau voru skipuð til. Það liggur þó væntanlega í augum uppi að ef embættin væru á almennum vinnumarkaði þá er líklegra að Ragna væri hæf til að starfa sem dómsmálaráðherra en Gylfi hefði væntanlega aðeins komið til greina ef engin frambærilegri hefði sótti um viðskiptaráðherrann.
Þegar kemur að ánægjumælingu Gallups á störfum ráðherra skilur enn frekar á milli utanþingsráðherrana tveggja þar sem ánægja þátttakenda með störf Gylfa voru heldur á undanhaldi samkvæmt könnuninni á meðan Ragna hafði unnið töluvert á. Í mars 2010 sögðust 65% vera ánægðir með störf Rögn á meðan 49% voru ánægðir með störf Gylfa. Ánægjan með störf Gylfa hafði lækkað um rúm 10 prósentustig frá fyrstu könnun en Ragna hafði bætt við sig rúmum 15 stigum.
Miðað við þessa könnun voru þau tvö, ráðherrarnir sem þátttakendurnir voru ánægðastir með á meðan formenn ríkisstjórnarflokkanna, sem tóku ákvörðunina um að víkja þeim úr embættunum, voru dottnir niður í fjórða og fimmta sæti. 41% þátttakenda sögðust vera ánægðir með störf Steingríms sem ráðherra á meðan þeir voru aðeins sem voru aðeins 27% sem voru ángæðir með störf Jóhönnu (sjá hér).
Ferilskrá Gylfa Magnússonar á alþingisvefnum má skoða alla hér. Þegar óviðkomandi atriði hafa verið tekin út lítur hún þannig út:
Menntun:
Stúdentspróf MR 1986.
Cand. oecon.-próf HÍ 1990.
MApróf í hagfræði frá Yale University, Bandaríkjunum, 1991,
M.Phil. 1994.
Doktorspróf í hagfræði frá sama skóla 1997.
Viðkomandi starfsreynsla:
Sérfræðingur á Hagfræðistofnun 1996-1998.
Stundakennari við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands 19961998, aðjúnkt 1997-1998. Dósent við viðskiptaskor Háskóla Íslands 1998 og við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands 2008.
Viðkomandi nefndar- og stjórnarsetur:
Forseti viðskipta- og hagfræðideildar Háskóla Íslands 2004-2007.
Formaður stjórnar sjóða á vegum Háskóla Íslands 20012009.
Varaformaður stjórnar Kaupáss hf. 2000-2003.
Í stjórn Samtaka fjárfesta 2001-2007.
Í stjórn Eignarhaldsfélagsins Verðbréfaþings, Kauphallar Íslands og Verðbréfaskráningar Íslands 2004-2006.
Formaður stjórnar Samkeppniseftirlitsins 2005-2009.
Í úthlutunarnefnd útflutningsverðlauna forseta Íslands 2005 og 2006.
Varamaður í yfirfasteignamatsnefnd 2007-2009.
Það er rétt að halda því til haga að það voru formenn stjórnarflokkanna í minnihlutastjórninni sem tók við völdum 1. febrúar 2009 sem völdu og skipuðu utanþingráðherranna tvo. Þegar ferilskrár beggja eru skoðaðar nákvæmlega kemur í ljós að Ragna hafði verið mjög náin stjórnsýslunni í tæpan áratug, þar sem hún hafði gegnt stöðum í þremur ráðuneytum, áður en hún var skipuð. Ekki verður heldur betur séð en Gylfi hafi tekið þátt í því sem leiddi til þess samfélagshruns sem sér ekki fyrir endann á enn þá.
Það er reyndar hæpið að ef ráðningarskrifstofu/-um hefði verið falið að auglýsa þessi embætti á sínum tíma og fara yfir umsóknirnar, með það að markmiði að finna hæfustu einstaklingana til að taka þau að sér, að þar hefði það þótt mæla á móti Rögnu að hún hafði reynslu og þekkingu á störfum ráðuneyta; þar af sjö ára reynslu innan úr Dómsmálaráðuneytinu. Hins vegar er ég ekki viss um að það hefðu þótt meðmæli með Gylfa hvar hann átti sæti í nefndum og stjórnum síðustu árin fyrir hrun.
Varðandi spurninguna um það hvers vegna vinsælustu ráðherrunum var vikið úr ríkisstjórninni haustið 2010 þá má vissulega leiða að því líkum að formennirnir, sem lögðu línurnar fyrir næstu skref stjórnarsamstarfs síðustu ríkisstjórnar, hafi viljað launa utanþingsráðherrunum vel unnin störf áður en vinsældir þeirra tækju að dvína og skaða þannig möguleika þeirra á frekari frama í öðrum verkefnum.
Skipan ráðuneyta undir lok síðasta kjörtímabils
31. desember 2011 var Jóni Bjarnasyni og Árna Páli Árnasyni refsað með brottvikningu úr ráðuneytum þeirra. Við niðurskurð haustsins 2010 þótti staða þess síðarnefnda langt frá því að vera trygg enda altalað þá að: Innan Samfylkingarinnar [væri] mikil ólga í garð Árna Páls vegna mannaráðninga, bæði í embætti umboðsmanns skuldara og nú síðast í framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs. (sjá hér) Þessar ástæður lágu þó í þagnargildi þeirrar opinberu umræðu sem fór af stað í aðdraganda annars niðurskurðartímabilsins sem síðasta ríkisstjórn greip til á ráðherrum sínum.
Í máli Jóns Bjarnasonar var hins vegar engin launung eins og blaðafyrirsagnir mánuði fyrir brottvikningu þessara tveggja báru með sér. Hjá DV var það: Jóhanna hjólar í Jón Bjarnason og visi.is: Veruleg óánægja með Jón Bjarnason í ríkisstjórninni. Undir síðari fyrirsögninni er m.a. þetta haft eftir Jóhönnu Sigurðardóttur um refsivert athæfi Jóns Bjarnasonar:
Þetta er eitt stærsta mál ríkisstjórnarinnar og það gengur ekki að sjávarútvegsráðherra haldi því bara fyrir sig. Hann hefur unnið þessa vinnu án aðkomu stjórnarliða og heldur skipað í kringum sig fólki, sem tilheyrir stjórnarandstöðunni. Það eru vinnubrögð sem ekki er hægt að líða, segir Jóhanna og bætir því við að ráðherra sem starfi í umboði þingflokka ríkisstjórnarflokkanna en vilji ekki starfa með sé illa stætt í ríkisstjórn. (sjá hér)
Steingrímur J. Sigfússon tók við embættum bæði Árna Páls og Jóns Bjarnasonar en Oddný G. Harðardóttir var tekin inn í ríkisstjórnina og gegndi embætti fjármálaráðherra þar til Katrín Júlíusdóttir sneri úr barnseignarfríi haustið 2012. Síðasta þingvetur síðustu ríkisstjórnar var því ráðuneytisskipanin þessi:
Hér verða ferilskrár þeirra tveggja sem var vikið úr ríkisstjórninni í desemberlok árið 2011 og Oddnýjar G. Harðardóttur rýndar í sama tilgangi og þeirra sem hafa verið til skoðunar hér á undan.
Árni Páll er fæddur árið 1966. Þegar hann var 19 ára lauk hann stúdentsprófi frá MH. Hann lauk lögfræðipróf frá Háskóla Íslands sex árum síðar eða 1991. Í framhaldinu bætti hann við sig námi í Evrópurétti við Collège dEurope í Brugge í Belgíu skólaárið 1991-1992 og sumarnámi í Evrópurétti við Harvard Law School / European University Institute í Flórens sumarið 1999. Árið 1997 varð hann sér svo út um réttindi sem hæstaréttarlögmaður.
Árni Páll vann um fjögurra ára skeið sem ráðgjafi utanríkisráðherra í Evrópumálum eða á árunum 1992-1994. Frá árinu 1998 og þar til hann var kosinn inn á þing árið 2007 starfaði hann sem lögmaður með eigin rekstur og ráðgjafi.
Auk fyrrgreindra starfa var Árni Páll sendiráðsritari í fastanefnd Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu og Vestur-Evrópusambandinu í Brussel og fulltrúi Íslands í stjórnmálanefnd Atlantshafsbandalagsins á árunum 1995-1998. Starfsmaður ráðherraskipaðra nefnda, m.a. nefndar um endurskipulagningu utanríkisþjónustunnar 2004. Hann var stundakennari í Evrópurétti við Háskólann í Reykjavík 2004-2009 og sat í stjórn Evrópuréttarstofnunar skólans á sama tíma.
21s árs er Árni Páll kominn í miðstjórn og framkvæmdastjórn Alþýðubandalagsins þar sem hann sat í tvö ár. Næstu tvö ár var hann oddviti Æskulýðsfylkingar Alþýðubandalagsins 1989-1991. Fyrr á þessu ári var hann kjörinn formaður Samfylkingarinnar sem þýðir að hann yrði væntanlega forsætisráðherra ef Samfylkingin kemst í sömu aðstöðu og sköpuðust hér í upphafi ársins 2009. Miðað við þá hefð sem hefur fest í sessi hér á landi varðandi skipun ráðherra þá myndi það væntanlega ekki breyta neinu þó ánægja kjósenda með hans störf sem ráðherra hafi verið komin niður í 12% í aðdraganda þess að honum var sparkað út úr ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.
Árni Páll var 41s árs þegar hann var kosinn inn á þing. Hann átti sæti í nokkrum þingnefndum. Þar á meðal nefnd um heilbrigðismál og viðskiptanefnd þar sem hann sat þar til hann var skipaður Félags- og tryggingamálaráðherra 23. maí 2009. Þessu embætti gegndi hann til 2. september 2010 þegar Guðbjartur Hannesson tók við ráðuneyti hans en Árni Páll tók við efnahags- og viðskiptaráðuneytinu af Gylfa Magnússyni. (sjá nánar hér)
Fljótt á litið er ekki að sjá að Árni Páll hafi nokkuð það á ferilskránni sem getur hafa undirbúið hann undir þau krefjandi verkefni sem tilheyrðu ráðuneytunum sem honum voru falin. Það er þó sanngjarn að minna á að áður en hann var gerður að ráðherra þá hafði hann setið í þrjú ár í þingnefnum sem fjölluðu um sömu málefni og honum var ætlað að vera æðstráðandi yfir á síðasta kjörtímabili.
Jón Bjarnason er fæddur 1943. 22ja ára lauk hann stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík og tveimur árum síðar, eða árið 1967, búfræðiprófi frá Hvanneyri. Árið 1970 útskrifaðist hann svo sem búfræðikandídat frá Landbúnaðarháskólanum í Ási í Noregi, þá 27 ára.
Árið eftir að hann útskrifaðist sem stúdent starfaði hann sem kennari við Lækjarskóla í Hafnarfirði og eftir útskriftina í Noregi var hann kennari við Bændaskólann á Hvanneyri fjögur ár.
Frá 28 ára aldri var hann bóndi í Bjarnarhöfn en sleit búskap ári eftir að hann varð skólastjóri Bændaskólans á Hólum í Hjaltadal 1981. Því embætti gegndi hann til ársins 1999 eða í 18 ár. Sama ár var hann kosinn inn á þing, þá 56 ára.
Frá því að hann tók sæti á þingi hefur hann meðal annar setið í landbúnaðarnefnd á árunum 2003-2007 og sjávarútvegsnefnd árin 2006-2007. Hann var skipaður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 10. maí 2009 en leystur frá því embætti 31. des. 2011. (sjá nánar hér)
Miðað við menntun og starfsreynslu hlýtur Jón Bjarnason að teljast hafa töluvert með sér til embættis landbúnaðarráðherra. Hins vegar má efast um fagþekkingu hans hvað varðar sjávarútveginn. Eins og áður var vikið að er ljóst að Jóhanna Sigurðardóttir var langt frá því að vera ánægð með störf Jóns og ef mið er tekið af niðurstöðum ánægjumælinga Gallups frá því í mars 2010 var hann meðal þeirra ráðherra sem minnst ánægja ríkti með meðal kjósenda. Hins vegar var gerð ný könnun í nóvember sama ár sem sýndi aðrar og nokkuð breyttar niðurstöður.
Samkvæmt henni voru þátttakendur langóánægðastir með störf Árna Páls í ráðherraembætti. Einungis 12% sögðust ánægðir. 18% þátttakenda voru ánægðir með störf Jóns Bjarnasonar en það voru jafnmargir og sögðust ánægðir með störf Össurar Skarphéðinssonar. Öfugt við Össur hafði Jón bætt við sig um fjórum prósentustigum frá könnuninni á undan á meðan ánægjan með störf Össurar höfðu lækkað (sjá hér).
Oddný er fædd árið 1957. Samkvæmt ferilskrá hennar inni á vef Alþingis lauk hún stúdentspróf frá aðfaranámi Kennaraháskóla Íslands þegar hún var tvítug. Þremur árum síðar lauk hún svo B.Ed.-próf frá þeim sama skóla. Stærðfræðinám til kennsluréttinda á framhaldsskólastigi stundaði hún við Háskóla Íslands árið 1991. Frá þeim sama skóla útskrifaðist hún síðan með MA-próf í uppeldis- og menntunarfræði þegar hún var 44 ára eða árið 2001.
Eftir B.Ed.-prófið starfaði hún sem grunnskólakennari í fimm ár en var síðan kennari við Fjölbrautaskóla Suðurnesja á árunum 1985-1993 þar sem hún var var deildarstjóri stærðfræðideildar skólans í tvö ár og síðan sviðsstjóri stærðfræði- og raungreinasviðs á árunum 1990-1993.
Eftir stærðfræðinámið til kennsluréttinda árið 1991 var hún kennari við Menntaskólann á Akureyri í eitt skólaár en hlaut þá stöðu aðstoðarskólameistara við Fjölbrautaskóla Suðurnesja sem hún gegndi á árunum 1994-2003 en var síðar skólastjóri þess sama skóla í eitt ár. Þá var hún bæjarstjóri í Garði í níu ár eða á árunum 2006-2009.
Oddný hefur unnið við skipulag og stjórnun vettvangsnáms á vegum Endurmenntunar HÍ fyrir starfandi stjórnendur í framhaldsskólum 2001-2002. Hún var verkefnisstjóri í Menntamálaráðuneytinu 2003-2004. Auk þess hefur hún setið í ýmsum nefndum um mennta- og fræðslumál. Þ.á.m. var hún í stjórn Sambands iðnmenntaskóla 1994-1999. Í stjórn samstarfsnefndar atvinnulífs og skóla 1995-1998. Í stuðningshópi á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar um fullorðinsfræðslu á Norðurlöndum 1997-1999. Formaður Félags stjórnenda í framhaldsskólum 2002-2003. Í stjórn Kennarasambands Íslands 2002-2003 og stjórn Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum frá 2006.
Í framhaldi af þriggja ára bæjarstjórnarferli lá leið Oddnýjar inn á þing, þá 52ja ára. Þar hefur hún verið formaður þingflokks Samfylkingarinnar frá 2011 auk þess að sitja í nokkrum nefndum. M.a. fjárlaganefnd frá 2009-2011. Hún var formaður hennar frá 2010-2011.
Oddný hafði setið á þingi í rúm tvö ár þegar hún var skipuð fjármálaráðherra 31. desember. 2011. Heiti ráðuneytisins sem hún stýrði var breytt 1. september 2012 í fjármála- og efnahagsráðuneyti en hún var leyst frá embætti 1. október 2012. Þá tók Katrín Júlíusdóttir við embættinu. Helming tímans sem Oddný var ráðherra fór hún með tvö ráðuneyti þar sem hún leysti Katrínu Júlíusdóttur af frá 24. febrúar til 6. júlí á árinu 2012 eða þar til Steingrímur bætti iðnaðarráðuneytinu við ráðuneytið sem Jón Bjarnason hafði stýrt áður auk viðskiptahlutans í þeim ráðuneytismálum sem Árni Páll hafði farið með.
Þó ferilskrá Oddnýjar sé þéttsetin ýmsum afrekum á sviði menntamála og pólitíkur þá er skýrir það ekki þá ákvörðun að hún var gerð að fjármálaráðherra og síðar sett yfir iðnaðarráðuneytið í fæðingarorlofi Katrínar Júlíusdóttur. Það hefði hins vegar verið töluvert skiljanlegra miðað við feril hennar ef hún hefði verið fengin til að leysa Katrínu Jakobsdóttur af í Menntamálaráðuneytinu á meðan hún var í barnseignaleyfi á árinu 2011.
Ráðherrar núverandi ríkisstjórnar
Hér verður ekki farið frekar yfir ferilskrár ráðherranna í fyrrverandi né núverandi ríkisstjórn. Það verður geymt þar til í næstu færslum. Það er þó við hæfi að slá botninn í þetta hér með því að rifja upp hvernig ráðuneyti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem tóku til starfa 23. maí sl. líta út. Ráðherraskipanin er eftirfarandi:
Hér að neðan eru nokkrar þeirra heimilda sem stuðst var við þessa færslu og verður stuðst við í framhaldinu. Framhaldið verður samanburð á því hvernig menntun og starfsreynsla ráðherranna í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur annars vegar og ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hins vegar samræmis málefnum ráðuneytanna sem þessum hefur verið trúað fyrir. Þannig verður menntun og starfsreynsla núverandi forsætisráðherra borin saman við menntun þess fyrrverandi út frá því hversu vel hvoru tveggja stendur undir embættum þeirra og síðan fjármálaráðherranna og svo koll af kolli.
Þetta er vissulega seinlegt og tafsamt verkefni og eflaust engin skemmti- eða afþreyingarlestur heldur. Vonir mínar standa þó til þess að einhverjir sem eru tilbúnir til að hugsa það hvaða áhrif það hefur á rekstur samfélagsins að æðstu embættismenn þeirrar grunnþjónustu sem skatti okkar er ætlað að standa undir eru skipaðir með þeim hætti sem formenn stjórnmálaflokkanna hafa gert að hefð. Samkvæmt henni eru það formenn þeirra flokka sem koma sér saman um stjórnarsamstarf sem skipa sjálfa sig og þau flokkssystkina sinna sem náðu inn á þing til að ganga inn í hlutverk framkvæmdastjóra grunnstofnana samfélagsins.
Það er útlit fyrir að íslensk stjórnmálamenning hafi ekki hugmyndaflug til annars en viðhalda þessari hefð þrátt fyrir að síðasta efnahagshrun hefði átt að leiða það í ljós að í henni liggur stór hætta falinn. Með þeirri vinnu sem ég hef lagt í langar mig að gera tilraun til að vekja til umhugsunar um það hvort það er ekki kominn tími til að horfast í augu við það að núverandi fyrirkomulag er meðal annars sú meinsemd sem hefur skilað okkur til þess árangurs sem blasir við varðandi velflesta grunnþjónustu samfélagsins.
Áður en ég lýk þessum langa pistli langar mig til að taka það fram að tilgangur minn er alls ekki sá að gera viljandi lítið úr þeim einstaklingum sem gegndu embætti ráðherra á síðasta kjörtímabili eða þeim sem hafa nýtekið við slíkum á þessu. Ef einhver þeirra eða þeim nátengdur eiga eftir að sitja uppi með slíka tilfinningu þykir mér það virkilega leitt því ég veit að innst inni hljóta allir þeir sem taka á sig stóra ábyrgð að gera það því þá langar að gera vel.
Vonandi eru þó allir tilbúnir til að velta því fyrir sér hvort ekki megi gera betur með annarri aðferð. Ég er á því að það komi sér betur fyrir alla að þeir sem taka á sig stóra ábyrgð fyrir marga séu örugglega þeir sem eru hæfastir. Þar held ég að skipti meira máli góð undirstöðuþekking og víðtæk starfsreynsla á því sviði sem heyrir ábyrgðarhlutverkinu til heldur en pólitísk viðhorf eða flokkshollusta.
Heimildir:
Skipan ráðuneyta frá 1917-2013
Ráherraskipan í síðara ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttir
Þjóðarpúls Gallups frá mars 2010: Ánægja með störf ráðherra
Þjóðarpúls Gallups frá 4. júní 2010: Mikil meirihluti hlynntur fækkun ráðuneyta
Þjóðarpúls Gallups frá 6. desember 2010: Mat á störfum ráðherra
Frétt á Pressunni vegna ráðherrakapals haustsins 2010
Þjóðarpúls Gallups 2. febrúar 2012: Breytingar á ríkisstjórninni
Þjóðarpúls Gallups 23. mars 2012: Ánægja með störf ráðherra og stjórnarandstöðu
Þjóðarpúls Gallups 10. janúar 2013: Ánægja með störf ráðherra
Ráðherrar í núverandi ríkisstjórn
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.8.2013 kl. 22:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Loforð og efndir
6.8.2013 | 00:45
Það þarf ekki að minna á að nú í vor var mynduð ný ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Þetta var í annað skipti frá hruni sem kjósendur fengu tækifæri til að hafa áhrif á það hvaða flokkar héldu um stjórnartaumana frá efnahagshruninu haustið 2008. Síðast veðjaði meiri hluti kjósenda á Samfylkinguna og Vinstri græna.
Í báðum tilvikum þykir mér líklegt að ástæðan hafi legið í sterkri von um að kosningaloforð og landsfundasamþykktir allra þessara flokka væru eitthvað meira en orðin tóm. Að gamli fjórflokkurinn hefði ekki aðeins lært af þeirri reynslu sem bankahrunið skilaði heldur myndu þeir nýta þekkingu sína og ítök til að treysta tilveru sína með samvinnu við það samfélag sem kosningaloforðin gáfu til kynna að stæði til að byggja upp.
Allir sem hafa orðið fyrir áföllum hvort sem þau eru persónuleg eða tengd árangri í starfi þekkja að það tekur tíma að takast á við aðstæður og temja sér nýungar í samskiptum eða vinnutengdri færni. Þegar áfallið tengist alvarlegri áminningu sem varðar atvinnuna eru ekki allir svo heppnir að fá annað tækifæri eins og kjósendur gáfu þingmönnunum sem sátu við stjórnvölinn þegar stóra viðvörunin um skaðsemi núverandi efnahagsstefnu reið yfir samfélagið haustið 2008.
Á þeim fimm árum sem eru liðin síðan hefur einhver umræða farið fram um orsakir hrunsins og afleiðingar kreppunnar sem skall á í kjölfarið. Sú umræða hefur hins vegar hvorki verið djúp né virkilega ígrunduð enda hefur hún litlu skilað. Því miður varð árangur þeirrar bjartsýnu viðspyrnu sem spratt upp í kjölfar hrunsins aðeins skammvinnur. Aðgengilegasta skýringin er sú að hún varð fórnarlamb þeirra afla sem sáu tækifæri í upplausninni til að koma sjálfum sér og sínum til valda.
Með tilliti til mannkynssögunnar er það þekkt saga að slík verði örlög jafnvel stærstu byltinga. Almenningur setur traust sitt á þá sem hafa hæst og fylgir þeim í blindri trú um að markmið þeirra sé það sama og þeirra sem hafa upplifað misréttið og sjálfræðishallann á eigin skinni. Þegar upp er staðið er það almenningur sem hefur fórnað tíma sínum og jafnvel blóði til að koma þeim breytingunum á sem foringjarnir hönnuðu. Breytingum sem því miður hafa aldrei leiðrétt þann halla að það er almenningur sem heldur valdastéttinni uppi án þess að hafa neitt afgerandi yfir henni að segja.
Í kjölfar hrunsins varð vart við umræðu sem benti til að einhverjir efuðust um að núverandi stjórnkerfi þjónaði samfélagsheildinni til farsældar. Einhverjir gengu jafnvel svo langt að halda því fram að fjársterkir aðilar innan fjármálaheimsins kostuðu bæði flokka og stjórnmálamenn til hlýðni við hagmuni þeirra. Bent var á að þessi aðferðarfræði græfi svo alvarlega undan lýðræðinu að það væri jafnvel tómt mál að tala um slíkt lengur.
Það liggur væntanlega í augum uppi að lýðræðið hlýtur að standa afar völtum fótum ef hagsmunir þeirra sem geta borgað rata ávallt í forgang. Það hlýtur líka að liggja ljóst fyrir að þeir sem leyfa hlutunum að þróast í slíkan farveg eru tæplega réttu einstaklingarnir til að stýra málefnum samfélagsins sem byggir á einstaklingum með afar fjölbreytilegar þarfir svo ekki sé talað um mismunandi fjárráð.
Eitt af þeim grundvallaratriðum sem er mikilvægt að gera sér grein fyrir varðandi hvers konar samfélög, er að þau byggja á einhverju sem er sameiginlegt. Hversu sundrað sem íslenskt samfélag kann að virðast í augum bæði þeirra sem tilheyra því og hinna sem horfa á það utan frá þá eru óvefengjanlega býsna margir þættir sem eru sameinandi.
Þeir verða ekki allir taldir upp hér en minnt á að samfélaginu er ætlað að standa undir ákveðinni grunnþjónustu. Einstaklingarnir sem byggja samfélagið hafa tekið það á sig að standa undir kosnaðarþáttum þessarar grunnþjónustu til að þeir og aðrir geti notið hennar þegar þeir þurfa á henni að halda. Til að annast umsýslu og rekstur þessarar þjónustu hefur íslenskt samfélag þann háttinn á að þeir sem hafa náð tilsettum kosningaaldri kjósa á milli stjórnmálaflokka á fjögurra ára fresti til að sjá um þessa þætti .
Á síðustu árum hefur það sýnt sig að það er ekki trúnaðurinn við samfélagsheildina sem ræður því að einstaklingar leita frama innan stjórnmálaflokkanna til að komast til þeirra áhrifa að þeir eigi von um að stýra ráðuneytum þeirrar grunnþjónustu sem einstaklingarnir sem byggja samfélagið eiga tilkall til fyrir sitt framlag. Þegar menntun og starfsreynsla þeirra sem hafa setið á ráðherrastóli hingað til er skoðuð kemur jafnframt í ljós að það virðist heyra til undantekninga að þeir hafi nokkra fagþekkingu á því sviði sem ráðuneytið sem flokkarnir trúa þeim fyrir hefur yfir að segja.
Á tímum sérhæfingar og aukinnar menntunarkrafna hlýtur það að koma spánskt fyrir sjónir að ekki séu gerðar neinar kröfur til þeirra sem taka afdrifaríkar ákvarðanir sem varða grundvallarmál samfélagsins aðrar en þær að þeir hafi komist áfram í sínum eigin stjórnmálaflokki. Það þarf sennilega ekki að minna á það að eftir að það hefur verið talið upp úr kjörkössunum í lok hverra alþingiskosninga þá er það alfarið í höndum formanna þeirra flokka sem mynda ríkisstjórn hverjir setjast í ráðherrastólana.
Í langflestum tilvikum er það staða viðkomandi innan stjórnmálaflokksins og flokkshollusta sem ræður hver fær ráðherraembætti og hvaða embætti viðkomandi er settur í. Það má minna á það líka að þeir sem fá æðstu embættin eru gjarnan formenn viðkomandi flokka eða gegna einhverri annarri flokkstengdri ábyrgðarstöðu auk þess að vera þingmenn. Ég reikna með að flestir geri sér grein fyrir því að hvert þessara embætta fela í sér ríflega fullt starf. Líklegasta niðurstaðan er því sú að viðkomandi sinni engu af þessum verkefnum af árvekni heldur reiði sig á aðra launaða en flokksholla embættismenn sem kjósendur hafa ekkert um að segja hverjir eru.
Á næstu vikum er ætlunin að birta samanburð á menntun og starfsreynslu ráherranna í núverandi ríkisstjórn og þeirrar síðustu. Tilgangurinn er sá að fylgja því sem hér hefur verið sett fram eftir en líka sú bjartsýnislega von að samanburðurinn veki einhverja til umhugsunar um það hvort núverandi kerfi við skipun ráðherra sé heillavænleg leið til reksturs samfélags sem er ætlað að þjóna öllum einstaklingunum sem það byggja.
Mig grunar að þeir sem hafa komið nálægt mannaráðningum hafi það sem meginreglu að þeir sem þeir ráða til sérhæfðra starfa hafi annaðhvort haldgóða menntun eða viðamikla starfsreynslu á sama sviði. Það hlýtur því að koma fleirum en mér spánskt fyrir sjónir hvaða háttur er hafður á við skipun ráherra. Í þessu sambandi er rétt að undirstrika það einu sinni enn að ráðherrarnir eru æðstu embættismenn ráðuneyta sinna. Þegar það er haft í huga hlýtur það að vera lágmarkskrafa að þeir búi yfir fagþekkingu varðandi þá málefnaflokka sem þeim er trúað fyrir.
Í þessu sambandi má e.t.v. velta því fyrir sér hvort það er ekki kominn tími til að samfélagið komi sér saman um nýja aðferðafræði en þá sem flokkarnir hafa hannað utan um skipun ráðherra. Miðað við það hvernig íslenskt samfélag og margir einstaklinganna sem það byggja hafa liðið fyrir það hvernig fyrrverandi, og væntanlega núverandi ráðherrar líka, hafa farið með umboð sitt hlýtur það að teljast næsta brýnt verkefni!
*******************
Es: Ég biðst afsökunar á augljósum kynjahalla hvað varðar val á tilvitnunum með þessari færslu en ég ákvað að láta innihald þeirra ráða frekar valinu en hverjum þær eru eignaðar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tregðuafleiðingar
1.8.2013 | 02:34
Í kvöld rakst ég á tvær stöðuuppfærslur á Fésbókinni sem sögðu frá birtingarmyndum fátæktarinnar annars vegar í Ungverjalandi og hins vegar á Íslandi. Önnur sagan sagði frá fólki sem var að borða upp úr ruslatunnum í sorpgeymslu fjölbýlishúss í Ungverjalandi. Hin sagði frá hungruðum manni sem var að betla fyrir utan Nóatún.
Sögurnar eru einn af mörgum vitnisburðum um það að mannkynið er enn einu sinni komið á þann stað þar sem valda- og eignastéttin hefur misst sig svo í græðgi sinni að afleiðingarnar geta ekki farið fram hjá neinum. Í báðum tilvikum reyndu þeir sem áttu leið hjá að leiða þessar óþægilegu staðreyndir neyðarinnar hjá sér. Þeir sem sögðu sögurnar sveið undan og segja sögurnar í þeirri viðleitni að ná til samkenndar fólks og vekja það upp til viðbragða.
Mannkynssagan geymir fjölda slíkra sagna. Menningarsagan varðveitir myndbrotin einkum í sögnum og myndlist en eitthvað kemur í veg fyrir það að þessar heimildir verði lífinu að því gagni að sagan endurtaki sig ekki.
Það hafa nefnilega alltaf verið til einstaklingar sem finna til yfir áþekkum birtingarmyndum neyðarinnar og þeim sem er vísað til hér á undan. Sumum hefur meira að segja sviðið misréttið svo að þeir hafa gripið til aðgerða. Hingað til hefur valda- og eignastéttinni alltaf tekist að spila þannig á einstaklingseðlið og sérhyggjuna að samstaðan hefur aldrei skilað neinu nema endurtekningu á því sama.
Það hafa farið fram byltingar eins og rússneska byltingin, franska byltingin, menningarbyltingin í Kína og miklu fleiri. Niðurstaða þeirra varð kannski nýir herrar, nýtt kerfi, önnur valdastétt en frummyndin af samfélagsgerðinni sem eftirgerðin var byggð á í öllum þessum tilvikum braust fljótlega fram og í ljós kom að hún fól í sér sömu skekkju og sú úrsérgengna samfélagsgerð sem hrinti þessum byltingum af stað.
Í öllum tilvikum var það almenningur sem fórnaði blóði sínu til að koma nýju samfélagsmyndinni á. Í lok þessara byltinga kom það hins vegar í ljós að samfélagsmyndin sem það barðist fyrir að koma á, í stað þeirrar sem var fyrir, gerði líka ráð fyrir að vinna þess sama almennings héldi valdastéttinni uppi...
Það er vissulega spurning hvenær við sem manneskjur náum þeim þroska að læra af reynslu kynslóðanna sem fóru á undan okkur og bregðumst öðru vísi við því úrlausnarefni sem við eigum sameiginleg með þeim. Rétt eins og gengnar kynslóðir stöndum við nefnilega frammi fyrir þeirri sameiginlegu þraut sem einstaklingar að við búum í samfélagi við alla hina einstaklinganna sem eru samferða okkur í tíma og rúmi og þurfum að deila gæðunum með þeim.
Ég held að við séum öll sammála um það að einstaklingurinn þrífst ekki nema í samfélagi við aðra fyrir það að hann þarf alltaf einhvern tímann á öðrum að halda. Ég held að það geti heldur ekki verið óeining um það að til að komast af þurfa allir mat og drykk auk þess sem allir þurfa þak yfir höfuðið. En er það sanngjarnt að valda- og eignastéttin beinlínis þrífist á þessum nauðsynjum og/eða grundvallarskilyrðum til þess að halda lífinu við?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kratar allra flokka
12.7.2013 | 01:23
Þeir eru væntanlega fleiri en ég sem hafa velt því fyrir sér hverjir það eru sem standa sameinaðir á bak við nývaknaðar væringar í kringum nýtt veiðigjaldafrumvarp Framsóknar. Frumvarpið var samþykkt til eins árs af nýafstöðnu sumarþingi en hópur fólks hafði tekið sig saman um undirskriftarsöfnun þar sem skorað var á forsetann að vísa lögunum til þjóðaratkvæðagreiðslu.
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, hafnaði þessari kröfu með eftirfarandi rökum:
Þegar ég hef á grundvelli 26. greinar stjórnarskrárinnar vísað lögum til þjóðarinnar hafa þau varðað grundvallaratriði í lýðræðisskipan eða efnahagslegt sjálfstæði Íslendinga.
Nýting höfuðauðlinda þjóðarinnar er á vissan hátt hliðstætt grundvallarmál, bæði skipan fiskveiða og greiðslur vegna afnota.
Með lögum um veiðigjald, sem Alþingi hefur nú afgreitt, er ekki verið að breyta skipan fiskveiða og áfram verður greitt til þjóðarinnar bæði almennt veiðigjald og sérstakt veiðigjald; heildargreiðslur vegna nýtingar auðlindarinnar á næsta ári um 10 milljarðar króna.
Meginefni laganna er að áformuð hækkun kemur ekki til framkvæmda og breytt er hlutföllum milli uppsjávarveiða og botnfiskveiða; greiðslur einstakra fyrirtækja ýmist lækka eða hækka. Forsenda laganna er einnig að þessi gjöld verða endurskoðuð á næsta þingi.
Lögin fela því ekki í sér grundvallarbreytingu á nýtingu auðlindarinnar en kveða á um tímabundnar breytingar á greiðslum til ríkisins, sköttum vegna nýtingar. Að vísa lögum af því tagi í þjóðaratkvæðagreiðslu væri svo afdrifaríkt fordæmi að víðtækar umræður og afar breiður þjóðarvilji þyrfti að vera á bak við slíka nýskipan í meðferð skattlagningar, þjóðaratkvæðagreiðslur um hækkanir eða lækkanir á einstökum tekjuliðum ríkisins.
Ég hef þess vegna ákveðið að staðfesta lögin en árétta um leið hvatningu til stjórnvalda, Alþingis og ríkisstjórnar, um að kappkosta við boðaða endurskoðun að ná varanlegri og víðtækri sátt um skipan fiskveiða og arðgreiðslur til þjóðarinnar enda sýnir fjöldi undirskrifta vegna laganna um veiðigjald að almenningur hefur ríkan vilja og réttlætiskennd í þessum málum.
Sátt um nýtingu höfuðauðlindar Íslendinga er í senn forsenda farsældar í framtíðinni og siðferðileg skylda okkar allra.
Nú er að sjálfsögðu ofur eðlilegt að það sé rökrætt hversu haldbær ofangreind rök Ólafs Ragnars Grímssonar eru og skoða um leið hvort og þá hvernig þau samrýmast rökum sem hafa komið fram í máli hans áður og/eða annarra málsmetandi einstaklinga um þjóðaratkvæðagreiðslur. Hins vegar er það töluvert sérstakt að meðal háværustu gagnrýnenda ákvörðunar forsetans skuli fara þeir sem vildu takmarka og/eða binda þjóðaratkvæðagreiðslur við það sem sett var fram í 60. og 67. grein stjórnarskrártillagna stjórnlagaráðs (sjá t.d. hér og hér)
Þessar greinar stjórnarskrárdraganna gera nefnilega ekki aðeins ráð fyrir því að fjárlög, fjáraukalög, lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum né heldur um skattamálefni eða ríkisborgararétt séu undanskilin þjóðaratkvæðagreiðslu heldur líka að forseti taki ákvörðun um það hvort hann samþykki frumvarp til laga eða ekki. Hópurinn sem unir hvorki ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar eða rökum hans í því máli sem hér er til umræðu virðist við fyrstu sýn reyndar koma úr nokkrum áttum. Flestir hafa áður látið til sín heyra í sambandi við:
- óútskýranleg andúð á Ólafi Ragnari sem birtist best í einsleitu úrvali mótframbjóðenda sl. sumar.
- að lausn allra vandamála landans felist í því að týnast inn í ESB og taka upp evru.
- að stjórnarskrárdrög stjórnlagaráðsins fyrrverandi sé mikilvægari en lausn á skuldavanda heimilanna og snjóhengjuógninni sem vofir yfir íslenskum efnahag.
- að Íslendingum beri að taka á sig skuldir einkafyrirtækja þegar um banka er að ræða eins og í tilviki Icesave-skuldbindinga eigenda Landsbankans.
Samansafn gremjufullrar ófullnægju
Mörgum hefur þótt skorta á málefnalegar umræður og haldbær rök úr röðum þeirra sem hafa stillt sér upp með ofantöldum sjónarmiðum. Því miður virðist þetta einkenna háværasta hluta þeirra sem stóðu að undirskriftarsöfnuninni varðandi áskorunina um að vísa lögum um veiðigjaldið til þjóðaratkvæðagreiðslu og/eða hafa tjáð sig um ákvörðun og/eða rök forsetans í þessu sambandi.
Yfirgengilegust er framkoma þess hóps sem hefur hreinlega keyrt um þverbak eftir að ákvörðun forsetans um veiðigjaldafrumvarpið var gerð heyrinkunn. Meðlimirnir hafa ekki látið sér nægja að fá útrás fyrir gremju sína á Fésbók, bloggi og athugasemdakerfum ýmissa vefmiðla heldur settu þeir saman kaldar kveðjur til forsetans og bjóða öðrum að taka undir (sjá hér). Fyrsta útgáfa kveðjunnar hljóðaði svo:
Kæri Ólafur Ragnar Grímsson. Þú ert búinn að vera forseti helmingi lengur en þú ætlaðir þér þegar þú bauðst þig fram. Þú hefur sett þrjú mál í þjóðaratkvæðagreiðslu og hefur loks fengið til valda ríkisstjórn sem er þér svo þóknanleg að þú sérð ekki lengur ástæðu til slíkra æfinga. Þú ert orðinn sjötugur kominn á löglegan eftirlaunaaldur. Konan þín er búin að flytja lögheimili sitt til Bretlands. Kannski er kominn tími til að hætta, jafnvel hverfa úr landi. Þú sagðir þegar þú lýstir yfir framboði þínu í fyrra að þú myndir hugsanlega ekki sitja allt kjörtímabilið. Segðu af þér. Við skorum á þig.
Kæri Ólafur Ragnar Grímsson. Þú ert búinn að vera forseti helmingi lengur en þú ætlaðir þér þegar þú bauðst þig fram. Þú hefur sett þrjú mál í þjóðaratkvæðagreiðslu og hefur loks fengið til valda ríkisstjórn sem er þér svo þóknanleg að þú sérð ekki lengur ástæðu til slíkra æfinga. Þú ert orðinn sjötugur kominn á löglegan eftirlaunaaldur. Konan þín er búin að flytja lögheimili sitt til Bretlands. Þú sagðir þegar þú lýstir yfir framboði þínu í fyrra að þú myndir hugsanlega ekki sitja allt kjörtímabilið. Kannski er kominn tími til að gera alvöru úr þeim áformum þínum að hætta? Þeir sem undirrita þetta skora á þig, í fullri vinsemd, að gera það. (sjá hér)
Það er næstum því átakanlegt að horfa upp á það hvernig þokkalega vel gefið fólk getur misst sambandið við eigin dómgreind eins og í því tilviki sem þessi áskorun verður til fyrir. Ekki minnkar átakanleikinn þegar rennt er yfir þau rúmlega 100 innlegg sem hafa verið sett inn á svæði þessarar sérkennilegu undirskriftarsöfnunar. Það er sanngjarnt að geta þess að einhverjir sem tjá sig þar eru ekki að hnýta í Ólaf Ragnar heldur þá sem standa að undirskriftarsöfnuninni. Þeir gera það þó flestir með síst vandaðra orðavali en þeir sem tjá sig um persónu forsetans og falla þannig í sömu gryfju.
Dónaskapur er vörn hins veika
Það er eðlilegt að spyrja sig hverjir standa að baki þessum ærslagangi og í hvaða tilgangi? Þar mætti byrja á því að spyrja sig hvað sameinar þá hópa sem taldir voru upp hér að framan. Í fljótu bragði er e.t.v. útlit fyrir að hér sé aðeins um samansafn af gremjufullri ófullnægju að ræða en þegar betur er að gáð þá sýnist mér að nafngiftin Kratar allra flokka sé ekki alveg óviðeigandi. Kannski væri því við hæfi að kalla þann pólitíska leikþátt sem þessir eru þátttakendur í samstöðu-spuna kratismans en það er spurning í boði hvers hann er?
Mér sýnist tilgangurinn vera augljós en niðurstaðan verður tæplega önnur en framhald þeirrar sundrungar sem ofantöldum tókst að koma á það stig að vondirfskan sem kom fram í fjölskrúðugri viðspyrnu síðasta kjörtímabils brotnaði að endingu á skerjum einstaklingshyggju þess offramboðs sem annaðhvort meðvitað eða ómeðvitað bauð upp á sömu hugmyndafræði og er að finna í þeim kratisma sem Samfylkingin hefur gert út á.
Í stað þess að lengja mál mitt með rökum hvað þetta varðar þá bendi ég á að í aðdraganda síðustu alþingiskosninga setti ég saman ófáa bloggpistla þar sem ég velti því upp hvaða flokkar meðal offramboðsins væru eins og afrit eða skilgetin afkvæmi Samfylkingarinnar. Það væri að bera í bakkafullan lækinn að endurtaka það allt saman aftur. Því vísa ég þeim sem vilja kynna sér þær vangaveltur mínar frekar í bloggfærslur frá því í mars og apríl á þessu ári.
Ég vil hins vegar ljúka þessu hér með því að taka það fram að ég leyfi mér að efast um að það sé beinlínis tilgangur þeirra, sem hafa sig mest í frammi í þeim hópi, sem hér er til umræðu að auka á sundrunguna. Hins vegar er ég sannfærð um það að þeir sem fjármagna þá eru sér fullkomlega meðvitaðir um það hvað þeir eru að gera og hverjar afleiðingar þess eru. Sundrungin hefur nefnilega alltaf orkað sem skilvirkasti fráfælingarmáttur skynseminnar og um leið þrándur í götu samstöðu til almennrar farsældar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Snertur af brenglun
8.7.2013 | 03:29
Þegar ég lít til baka til haustsins 2008 óska ég þess stundum að ég hefði ákveðið að sitja heima í stað þess að rísa upp og fylgja viðspyrnubylgjunni. Ástæðurnar eru nokkrar en þær gætu þó rúmast undir einum hatti ef hatturinn héti vonbrigði. Hatturinn yrði hins vegar að vera býsna stór og rúma býsna margt.
Það mætti líka reyna að víkka skilgreiningarhattinn út og tala um vonbrigði yfir öllum þeim mannlegu brestum sem hafa gert þær vonir sem ráku mig af stað haustið 2008 að nánast engu. Þegar ég horfi til baka er ég nefnilega nokkuð sannfærð um að uppskeran er ekki í samræmi við það sem hefur tapast.
Haustið 2008 ákvað ég að fylgja í kjölfar þeirra landsmanna sem risu upp með þeim orðum að nú væri tími réttlætisins runninn upp. Tíminn sem hefur liðið síðan hefur leitt það í ljós að forsendur þess að fólk reis upp voru mjög misjafnar. Sjálf vildi ég mótmæla þeirri forgangsröðun og því misrétti sem bankahrunið opinberaði. Sannfæring mín varðandi þessi atriði höfðu hins vegar kviknað áður í samskiptum við heilbrigðiskerfið, af atvinnu minni innan menntakerfisins, návíginu við útkomuna af áherslunum í sjávarútvegsmálum, viðskiptum við fjármálastofnanir, opinberar stofnanir og aðrar þjónustustofnanir og líka fréttum af stefnu og áherslum í atvinnu- og umhverfismálum.
Haustið 2008 var mér löngu misboðið og stóð í þeirri meiningu að fleirum væri eins innanbrjóst. Í mínum huga var þetta aðeins spurning um að koma ákveðnum sjónarmiðum á framfæri sem ekki höfðu fengist að komast að áður. Sjónarmiðum sem snerust um það að manneskjan skipti meira máli heldur en sýndarveruleiki neyslusamfélagsins sem peningadrifin tilvera hafði sett í öndvegi.
Ég reis upp með það í huga að styðja við mótmæli sem ég hélt að grundvölluðust á sameiginlegri hugmyndafræði. Lengi vel var ég haldin þeim misskilningi að markalínan á milli þeirra sem tóku þátt í mótmælum og þeirra sem voru í aðstöðu til að bregðast við því sem aflaga hafði farið væri mismunandi hugmyndafræði. Hugmyndafræði sem byggðist á tveimur gerólíkum áherslupunktum. Annars vegar væru það þeir sem vildu viðhalda markaðsdrifinni samfélagsgerð með endurreisn þess sem hrundi og svo hinir sem vildu samfélag sem þjónaði velferð manneskjunnar.
Á þeim tæpu fimm árum sem eru liðin síðan hefur það hins vegar runnið upp fyrir mér að margir þeirra sem risu upp ætluðu sér ekkert nema koma sjálfum sér eða sínum til valda í óbreyttu kerfi. Þeir tóku upp frasa og tileinkuðu sér hugmyndafræði sem féll vel að félagshyggjumiðaðri stefnu en höfðu í reynd enga reynslu, þekkingu eða hæfni til að setja fram raunhæfar hugmyndir sem vörðuðu heill samfélagsins alls. Einhverjir fengu tækifæri til að sýna hvort hugur fylgdi máli sem leiddi þá sorglegu niðurstöðu í ljós að langflestir féllu á prófinu.
Af þessum ástæðum hef ég leyft mér að halda því fram að margir þeirra sem settu sig í forystu grasrótarinnar hafi ekki haft annað markmið en leiðrétta eigin egóhalla (sjá hér). Því miður hefur árangur margra þeirra orðið sá einn að gildisfella sjálfa sig en það sem verra er að með sjálfsupphefjandi aðgerðum og orðum hafa þeir ekki aðeins sundrað þeim sem gengu til liðs við viðspyrnuna í þeim tilgangi að leggja henni skynsemi sína og heilindi heldur treyst það kerfi sem meginöldunni var ætlað að vinna gegn.
Það er reyndar ekki bara við þá sem týndu sér í sjálfum sér að sakast því hugmyndir valdsins um að viðspyrnuna sárvantaði foringja féll í frjóa jörð meðal þeirra sem tóku aldrei þátt en fylgdust með úr fjarlægð og reyndar líka takmarkaðs hóps sem af einhverjum duldum ástæðum blönduðust viðspyrnunni. Þeir voru líka þó nokkrir sem fögnuðu því að aðrir sáu um viðspyrnuna fyrir þá. Sumir þeirra sem börðust týndu sér í hrósinu og hvatningunni sem þeir fengu í gegnum tölvupóst og símtöl. Þessir misstu sjónar á þeim hugsjónum sem snerust um almannahag og böðuðu sig í einstaklingshyggjunærandi hugmyndum um eigið mikilvægi.
Vonbrigði mín eru þess vegna ekki aðeins bundin þeim sem týndu sér í sjálfsupphafningunni heldur ekki síður hinum sem villtu þeim sýn. Ég hefði aldrei risið upp haustið 2008 nema vegna þess að ég stóð í þeirri meiningu að nú væri stund nýrrar hugmyndafræði runnin upp. Ég hélt að sú skynsemi sem ég fann í viðspyrnunni á Akureyri og heyrði í tali sumra sem komu fram haustið 2008 myndi laða að fleiri. Að okkur myndi takast með hógværðinni að laða að fulltrúa allra samfélagshópa sem myndu að endingu skapa breiðan samræðuvettvang sem myndi að lokum leiða okkur til farsællar niðurstöðu um breytt kerfi sem myndi þjóna samfélaginu öllu.
Á þeim tímamótum sem má segja að hafi skapast eftir aðrar alþingiskosningarnar eftir hrun hefur það runnið upp fyrir mér að þeir voru harla fáir sem ætluðu sér að hafa samráð við aðra; þ.e. þá sem stóðu fyrir utan þeirra eigin hóp. Hin nýkjörna ríkisstjórn hefur staðfest að skjaldborgin sem sú fyrri reisti í kringum sig er komin til að vera. Fræðimannastéttin hefur lokað sig af í pólitískum fílabeinsturni og talar tungum þeirra hagsmunaafla sem styrkir vinnustaðinn sem stóll þeirra og staða hefur skjólið af. Meirihluti almennings eltir rauð villuflögg og glannalegar gervigulrætur fjölmiðla sem hafa vikið fagmennskunni út af borðum sínum og tileinkað sér upphrópunarkennda villuljósarblaðamennsku í hennar stað.
Það hefur dregið verulega niður í vonarneistunum sem kviknuðu haustið 2008 en þar sem ég hef tamið mér að trúa fremur á það góða í manneskjunni lifir enn í glæðum vonarinnar um að skynsamur almenningur vakni til meðvitundar um það að óupplýst afstöðuleysi er öruggasta trygging þeirra sem vilja hafa almenning að ginningarfíflum. Bankahrunið hefði átt að vekja alla þjóðina til meðvitundar um að slíkir tímar eru enn einu sinni runnir upp í mannkynssögunni að almenningur er tilneyddur til að spyrna við fótum vilji hann viðhalda möguleikum sínum til að hafa áhrif á sitt eigið líf.
Það sem hefur komið í ljós frá bankahruninu hefur rennt stoðum undir það að sú siðblinda sem hafði hreiðrað um sig í fjármálaheiminum hefur sest að miklu víðar og þá aðallega í öllum helstu valda- og stjórnsýslustofnunum landsins og reyndar erlendis líka. Á meðan skynsamt fólk heldur sig til hlés fyrir yfirgangi siðblindunnar er það alveg klárt að hættir og aðferðafræði siðblindunnar verða viðmiðið sem mun ræna skynsemina öllum tækifærum til að hafa áhrif á framgang mála. Og skiptir þá engu hvort um er að ræða mál sem varða almannaheill eða samfélagsins.
Það þarf átak til að rísa upp gegn óskammfeilni siðblindunnar en alveg eins og skynsamur maður myndi setja það í forgang að gera við lekt þak áður en hýbýli hans yrðu fyrir frekara tjóni þá þarf að takast á við þá siðblindu peningahyggju sem ógnar öllum grunnstoðum manneskjulegs samfélags. Enn einu sinni hafa gjörðir fárra leitt okkur til slíkra tíma að skynsamt fólk þarf mjög nauðsynlega að gera það upp við sig hvort það ætlar að sitja þögult hjá með hendur í skauti.
Að þessu sinni þarf skynsemin að gera það upp við sig hvor hún ætlar að láta óseðjandi peningaöflum það eftir að móta framtíð alls mannkyns svo og komandi kynslóða. Sjálf mæli ég ekki með slíku aðgerðarleysi og það er ekki af svartsýni sem mér líst ekki á það heldur óbilandi bjartsýni á að það sé hægt að hafa áhrif á jafnvel blindustu markmið. Það er trúin á að það sé hægt að snúa neikvæðri þróun til jákvæðari vegar ef allir leggjast á eitt við að koma skynseminni að.
Ég trúi því enn að okkur sé öllum gefið að geta lært af fortíðinni. Þegar litið er til sögunnar þá vitum við öll að ef við sitjum aðgerðarlaus hjá þá munum við ekki aðeins kalla ógæfu yfir okkur sjálf heldur ókomna framtíð. Við vitum líka að dómur sögunnar verður ekki annar en sá að við höfum verið glórulausir hugleysingjar sem höfðum ekki einu sinni dug til að verja okkur sjálf eða börnin okkar. Að við höfum verið þrælar okkar eigin heimsku og/eða sjálfselsku...
Við höfum enn tækifæri til að sanna það fyrir framtíðinni að slíkur dómur á ekki við um okkur! Ef við viljum hljóta annan dóm en þeir sem létu t.d: galdrabrennurnar viðgangast, héldu uppi lénsherrafyrirkomulaginu í Evrópu eða vistarbandinu á Íslandi, létu sem gyðingaofsóknirnar væru eitthvað sem kom þeim ekki við, neituðu að taka afstöðu gegn Víetnamstríðinu, svo fátt eitt sé nefnt, þá er tíminn til að fyrirbyggja það núna en ekki eftir önnur fimm ár!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Að þurrka út stjórnmálaflokk
23.6.2013 | 06:00
SAMSTAÐA flokkur lýðræðis og velferðar birti ársreikninga sína fyrir árið 2012 í upphafi þessa mánaðar á heimasíðu flokksins. Í frétt sem sett var saman á síðunni af þessu tilefni segir:
Á árinu 2012 voru heildartekjur (með fjármagnstekjum) SAMSTÖÐU kr. 814.489 og heildarkostnaður kr. 425.269. Þegar landsfundur SAMSTÖÐU ákvað að draga fyrirhugað framboð flokksins til baka átti flokkurinn því kr. 389.220 inni á bankabók. (sjá hér)
Umræddur landsfundur var haldinn 9. febrúar á þessu ári en þá mældist fylgi flokksins innan við eitt prósent. Þess er þó rétt að geta að strax í apríl/maí í fyrra bárust forráðamönnum flokksins orðrómur um að nafn SAMSTÖÐU væri ekki á lista Gallups yfir valkosti þeirra flokka sem kjósendur gætu hugsað sér að styðja í alþingiskosningunum sem nú eru nýafstaðnar.
Gallup þurrkaði SAMSTÖÐU út fyrir rúmu ári
Þetta fékkst hins vegar ekki staðfest fyrr en í nóvember á síðasta ári þegar einn félagsmanna SAMSTÖÐU kom því til leiðar að hægt var að taka mynd af þeim valmöguleikum sem voru fyrir hendi.
Birgir Örn Guðjónsson, sem var formaður flokksins á þessum tíma, gerði tilraun til knýja fram siðferðisleg viðbrögð af hálfu forráðamanna Callups en fékk aðeins loðin svör (sjá hér). Fréttir sem voru birtar á heimasíðu flokksins þar sem segir af þessari framkomu fyrirtækisins vöktu reyndar nokkra athygli (sjá hér og hér) í umræðum manna á millum en engin opinber umræða varð um málið.
Það hafði líka komið í ljós að þessi aðferð Callups að taka SAMSTÖÐU út af listanum svínvirkaði. Þegar nafn flokksins var tekið út mældist fylgi hans í kringum 10% en fór hratt niður á við og var svo komið undir síðastliðið haust að Lilja Mósesdóttir ákvað að axla ábyrgð á fylgistapinu með því að gefa ekki kost á sér til formanns eða stjórnarkjörs á landsfundi sem þá var fyrirhugaður. Allt kom fyrir ekki og í desember á síðasta ári voru horfurnar orðnar slíkar að hún ákvað að draga fyrirhugað framboð sitt til baka.
Fjölmiðlar tóku þátt
Fjölmiðlar lögðu líka sitt á vogarskálarnar í viðleitninni við að þurrka út SAMSTÖÐU og koma þannig í veg fyrir að af framboði Lilju Mósesdóttur gæti orðið. Sú sem þetta skrifar benti á þetta í bréfi sem var skrifað fyrir hönd stjórnar og framkvæmdaráðs SAMSTÖÐU og sent á fjölmiðla um miðjan desember í fyrra (sjá hér). Þar segir m.a:
Nú þegar líður að næstu alþingiskosningum hafa ný framboð fengið aukið rými í öllum stærri fjölmiðlum landsins með viðtölum við forystuaðila og aðra fulltrúa þessara flokka. Öll nema SAMSTAÐA. Þrátt fyrir ítrekaðar athugasemdir við bæði dagskrárgerðarmenn og þáttastjórnendur einkum hjá RÚV hefur fulltrúum flokksins ekki verið gefinn kostur á að koma sjónarmiðum og stefnu flokksins á framfæri í þeim málaflokkum sem hafa verið til umræðu hverju sinni.
Eins undarleg og það hljómar þá voru viðbrögðin við því að ofantalið var opinberað sáralitlar meðal þeirrar grasrótar sem hafði fram að þessu kennt sig við baráttu fyrir réttlæti. Hins vegar kepptust margir þeirra einstaklinga sem höfðu fyllt þennan hóp við að hrófla upp stjórnmálaflokkum í kjölfar þess að SAMSTAÐA var stofnuð 15. janúar í fyrra.
Offramboðið hafði sín áhrif
Það voru reyndar aðeins: Björt framtíð, Dögun og Píratar sem höfðu náð að opinbera stofnun sína fyrir landsfund SAMSTÖÐU sem haldinn var þann 9. febrúar á þessu ári. Á þeim fundi var sú ákvörðun var tekin um það að draga framboð flokksins til baka af ástæðum sem mættu liggja ljósar fyrir af ofantöldu.
Eftir landfundinn var stofnun eftirtaldra flokka opinberuð: Alþýðufylkingin, Flokkur heimilanna, K-listi Sturlu Jónssonar, Landsbyggðarflokkurinn, Lýðræðisvaktin og Regnboginn. Það var því ekki ofmælt sem sú sem þetta skrifar setti fram í bloggpistli sem birtur var á þessum vettvangi um miðjan desember á síðasta ár. Þar segir m.a. þetta:
Þeir eru nokkrir sem vilja halda því fram að þeir berjist fyrir sömu málum og Lilja Mósesdóttir hefur barist fyrir inni á þingi allt þetta kjörtímabil en í stað þess að þeir styðji hana í verki þá ganga þeir til liðs við aðra flokka, stofna sína eigin eða eyða tímanum í að finna flöt á því hvernig þeir fái hana til sín eða sölsa bara blátt áfram hugmyndir hennar undir sig. (sjá hér)
Einhverjir nýttu tækifærið
Að undanförnu hefur hugmyndum Lilju Mósesdóttur um leiðir til lausnar efnahagsvanda samfélagsins verið haldið nokkuð á lofti í tilefni þess að nýskipuð ríkisstjórn hefur heitið því að vinna að leiðréttingum á skuldastöðu heimilanna. Þess ber hins vegar að geta að í þeirri umræðu sem hafin er nú í kjölfar nýafstaðinna kosninga eru hugmyndirnar eignaðar öllum öðrum en henni og ber þar mest á Hægri grænum.
Í því sambandi má minna á að það var ekki fyrr en í kjölfar þess að SAMSTAÐA birti stefnuskrá sína í byrjun febrúar á síðasta ári sem Hægri grænir opinberuðu sína stefnuskrá á heimasíðu sinni sem var opnuð síðastliðið vor (sjá hér). Þeirri sem þetta skrifar finnst engum blöðum um það að fletta að þar hefur sú efnahagsstefna sem Lilja Mósesdóttir er höfundurinn að verið kóperuð nánast óbreytt. Þeir sem hafa fylgst gleggst með síðu Hægri grænna hafa líka eflaust tekið eftir því að efnahagsstefna Hægri grænna hefur tekið nokkrum breytingum frá því að hún var birt þar fyrst.
Það er rétt að taka það fram að eftir því sem fleira kom fram frá SAMSTÖÐU um stefnuna í efnahagsmálum þá bættu Hægri grænir því sem þeim leist best inn í sína. Dögun var líka iðin við að taka það sem þeim fannst líklegast til fylgisaukningar inn í sína stefnuskrá. Þetta gilti reyndar um fleiri stjórnmálaflokka en allir áttu það sameiginlegt að finna hugmyndunum helst önnur heiti sem er útlit fyrir að einhverjir sjái nú tilgang í að viðhalda frekar en tengja þær þeirri sem aðlagaði þær að núverandi aðstæðum í íslensku efnahagsumhverfi.
Annað stig útþurrkunarinnar
Það þarf vart að minna lesendur á að Lilja Mósesdóttir er sérfræðingur í efnahagsáföllum og að allt síðastliðið kjörtímabil lagði hún sig fram um að vara við óskynsamlegum ráðstöfunum í efnahagsmálum þjóðarinnar. Þannig lagði hún sig fram um að vara við Icesave-samningunum og ráðgjöf Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Barátta hennar í Icesave hlaut liðstyrk miklu fleiri þó ekki ríkisstjórnarinnar sem hundsaði öll hennar ráð og lausnarmiðaðar hugmyndir varðandi skulda- og snjóhengjuvandann.
1. febrúar á þessu ári lagði Lilja Mósesdóttir fram þingsályktunartillögu þar sem hún dró saman hugmyndir sínar til lausnar hvorutveggju. Í þingsályktunartillögunni gerði hún nákvæma grein fyrir því hvaðan hugmyndirnar eru komnar, hvað hún hefur lagt til þeirra ásamt því að útskýra framkvæmd þeirra og verkan (sjá hér). Lyklafrumvarpið endurflutti hún líka í upphafi síðasta þings (sjá hér). Þess má geta að Sjálfstæðisflokkurinn tók það upp í breyttri mynd og kallar lyklalög.
Það er svo útlit fyrir að einstaklingar sem mætti kenna við þríburaframboðið, og þá einkum Dögun og Lýðræðisvaktina, ásamt Hægri grænum ætli að freista þess að gera það sem þeir tóku upp eitthvað aðlagað og gerðu að sínu í kosningabaráttunni endanlega að sínu undir nýjum nöfnum. Það er a.m.k. ekki annað að sjá af því sem Gunnar Tómasson o.fl. hafa látið frá sér fara í athugasemdum hinna ýmsu vefmiðla undanfarna tvo mánuði:
Eins og lesendur sjá þá merkir Gunnar Tómasson sig Lýðræðisvaktinni en hinir, sem taka undir með honum varðandi það að leiðin sem hingað til hefur verið kennd við Nýkrónu eða skiptigengisleið sé nákvæmlega sú sama og Vestur-Þjóðverjar fóru, tengdust framboði Dögunar á einn eða annan hátt eins og reyndar Gunnar gerði sjálfur framan af (sjá vettvanginn þaðan sem myndin er tekin hér).
Það er líka eftirtektarvert að í stað þess að vekja athygli á margendurteknum viðvörunum Lilju Mósesdóttur við því sem Gunnar Tómasson talar um sem aðsteðjandi vá nefnir hann Tryggva Þór Herbertsson sem sú sem þetta skrifar rekur ekki minni til að hafi lagt fram neina lausn á efnahagsvandanum né þess að hann hafi verið eitthvað áberandi í því að vara við því sem núverandi staða í efnahagsmálum gæti leitt af sér.
Bloggvettvangur Lilju Mósesdóttur ætti að vera prýðilegur vettvangur til að rifja upp innihaldið í viðvörunum hennar við afleiðingum efnahagsstefnu fyrrverandi ríkisstjórnar (sjá hér). Það má vera að Gunnar Tómasson geti vísað í einhvern slíkan vettvang þar sem Tryggvi Þór hefur sett fram efni sem réttlætir það að hann sé helst nefndur þegar talað er um sterkar viðvörunarraddir varðandi þá efnahagsstefnu sem hefur verið ríkjandi innanlands.
Skiptigengisleið Lilju Mósesdóttur
Í greinargerð með þingsályktunartillögunni sem Lilja lagði fram á Alþingi í byrjun febrúar á þessu ári segir:
Flutningsmaður ályktunarinnar lagði fyrst til í mars 2011 að tekin yrði upp nýkróna með mismunandi skiptigengi til að leysa gjaldmiðilskreppuna. Sú tillaga kom í framhaldi af umræðu Friðriks Jónssonar, ráðgjafa hjá Alþjóðabankanum, um slíka lausn í lok árs 2010. Upptaka nýkrónu með mismunandi skiptigengi mun ekki brjóta í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar þar sem einstaklingar fá ekki mismunandi meðhöndlun heldur eignir (sbr. aflandskrónurnar sem bannað er að flytja úr landi nema með leyfi Seðlabanka).
Kosturinn við upptöku nýkrónu er að með mismunandi skiptigengi er hægt að laga bæði innra ójafnvægi (skuldavandann) og ytra ójafnvægi (snjóhengjuna) hagkerfisins án þess að skerða lífskjör. Við upptöku nýkrónunnar yrði launum, húsaleigu og innstæðum skipt úr krónu (ISK) yfir í nýkrónu (NISK) á genginu 1 ISK= 1 NISK þannig að verðmæti þeirra yrði óbreytt.
Aflandskrónurnar og innlendar eignir þrotabúanna sem eru um 1200 milljarðar væri hægt að skipta úr krónu yfir í nýkrónu á genginu 1 ISK = 0,6 NISK. Verðmæti snjóhengjunnar færi þannig úr 1200 milljörðum kr. í 720 milljarða nýkróna. Mismunurinn er 480 milljarðar og hann gæfi ríkinu svigrúm til að fjármagna afskriftir á lánum lítilla og meðalstórra fyrirtækja og laga þannig innra jafnvægið í leiðinni. (sjá hér)
Áframhaldandi útþurrkunarviðleitni
Gunnar Tómasson hefur haldið því sem hann nefnir hugmyndir Hægri grænna mjög á lofti að undanförnu og m.a. gert tilraun til að vekja athygli Össurar Skarphéðinssonar á hugmyndum þeirra:
Leiðréttingarsjóðurinn sem Gunnar Tómasson vísar til hefur m.a. verið nefnd TARP-leiðin og er svo að skilja að Ólafur Arnarson hafi líka mælt með þessari leið. Þetta kemur fram í bloggi Gunnars frá 10. maí sl. en þar endurbirtir hann skrif Ólafs frá sama degi (sjá hér). Jóhannes Björn gerir eftirfarandi athugasemd við bloggfærsluna:
Peningamillifærsluleið Lilju Mósesdóttur
Það er útlit fyrir að það sem um ræðir hér að ofan sé einhvers konar útfærsla á peningamillifærsluleiðinni. Um hana segir í greinargerðinni með þingsályktunartillögunni sem Lilja Mósesdóttir lagði fram um lausn á skulda- og snjóhengjuvandanum:
Flutningsmaður þessarar ályktunar hefur lagt til að farin verði leið hagfræðingsins Steve Keen, eins og Ólafur Margeirsson hagfræðingur hefur útfært hana, við að leiðrétta ójafnvægið á efnahagsreikningum heimilanna af völdum forsendubrests. Meginkostir peningamillifærsluleiðarinnar eru að leiðrétting forsendubrestsins hefur ekki áhrif á stöðu lífeyrissjóðanna, eignarrétt kröfuhafa og skuldatryggingaálag ríkissjóðs.
Íslenska útfærslan á leiðinni, sem kalla má peningamillifærsluleiðina, tekur mið af því að innlán voru tryggð að fullu og gengistryggð lán dæmd ólögleg. Peningamillifærslan rennur því aðeins til heimila með verðtryggð lán. Hér er aðeins verið að taka á skuldavanda heimilanna en ekki skuldavanda fyrirtækjanna og snjóhengjuvandanum.
[...]
Fyrsta skrefið í peningamillifærsluleiðinni felst í því að Seðlabankinn gefur út skuldabréf að upphæð t.d. 200 milljarðar kr. sem hann síðan lánar eignarhaldsfélagi sínu. Ástæða þess að Seðlabankinn er látinn gefa út skuldabréfið en ekki ríkið er að aukin skuldsetning þess fyrrnefnda hefur ekki áhrif á skuldatryggingaálag ríkissjóðs (sbr. ástarbréfin sem fóru inn í eignarhaldsfélagið Sölvhól sem er í eigu Seðlabankans).
Í framhaldinu leggur eignarhaldsfélagið 200 milljarðana inn á innlánsreikning heimila með verðtryggð lán sem verða að nota greiðsluna strax til að borga niður höfuðstól verðtryggðra lána. Upphæðin sem hver og einn fær miðast við 20% leiðréttingu á skuld viðkomandi einstaklings. Eignarstaða heimilanna batnar því um 200 milljarða og vaxtabyrði þeirra af fasteignalánum minnkar.
Lánastofnunum verður síðan gert að leggja niðurgreiðsluna frá heimilunum inn á venjulegan innlánsreikning hjá Seðlabankanum. Seðlabankinn skuldar nú lánastofnunum 200 milljarða en á eign á móti hjá eignarhaldsfélagi sínu. Ríkið gæti lagt eigið fé inn í eignarhaldsfélagið og fjármagnað það með skatti á aflandskrónur og útgreiðslur úr þrotabúum gömlu bankanna til að gera eignarhaldsfélaginu kleift að greiða Seðlabankanum lánið til baka. Þannig er í engu hreyft við eignarrétti lánastofnana á útlánasafni sínu eins og raunin væri ef lánastofnanir væru þvingaðar til að afskrifa útlánasöfn sín um samtals 200 milljarða.
Vaxtatekjur lánastofnana, þ.m.t. Íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóðanna verða lægri eftir leiðréttinguna þar sem inneignin í Seðlabankanum er á lægri vöxtum en ef upphæðin hefði verið notuð til útlána. Á móti kemur að niðurfærslan gerir fleiri lántakendum kleift að standa í skilum af lánum sem þeir tóku hjá lífeyrissjóðunum og Íbúðalánasjóði og eykur almennt greiðsluvilja þeirra sem tóku verðtryggð lán.
Einn mikilvægasti kosturinn við peningamillifærsluleiðina er að engin verðbólga verður af völdum þessarar 200 milljarða skuldabréfaútgáfu Seðlabankans þar sem peningarnir fara í hring og enda aftur sem bundin innstæða hjá Seðlabankanum. Mikilvægt er að koma í veg fyrir að lánastofnanir auki ekki útlán í kjölfar niðurfærslunnar í þeirri von að Seðlabankinn lagi aftur skuldastöðu heimilanna þegar í óefni er komið (freistnivandi). Verðbólga mun hins vegar aukast eitthvað til skamms tíma vegna aukins kaupmáttar heimila. (sjá hér)
Peningamillifærsluleiðin er skýrð á myndinni hér fyrir neðan með svokölluðum T-reikningum. Gert er ráð fyrir að kostnaður vegna 20% leiðréttingar verðtryggðra fasteignaskulda muni nema tæpum 200 milljörðum. Hvaðan þeir koma og hver kostnaðurinn af því verður er skýrt hér að neðan.
Tilgangurinn
Þeir sem tóku þátt í því að þurrka út möguleika SAMSTÖÐU flokk lýðræðis og velferðar til framboðs, og um leið möguleika kjósenda til að velja Lilju Mósesdóttur inn á þing, verða að svara fyrir það sjálfir hver tilgangur þeirra hafi verið. Þeir sem halda enn uppteknum hætti og láta nú eins og verk Lilju Mósesdóttur á síðasta þingi séu dauð og ómerk ættu e.t.v. enn frekar að svara fyrir það hvað þeim gengur til.
Auðvitað er hægt að leiða að því einhverjar líkur hver tilgangurinn var með því að vinna fyrst gegn framboði SAMSTÖÐU og svo að freista þess að breiða hulinshjálm gleymskunnar yfir lausnarmiðaðar hugmyndir sérfræðingsins í efnahagsáföllum sem sat á síðasta þingi. Þess verður hins vegar ekki freistað hér heldur látið nægja að draga fram helstu stiklur varðandi aðferðina með fáum en væntanlega skýrum dæmum.
Það er rétt að árétta að hér er á engan hátt rakið allt það sem mætti nefna í ofangreindu sambandi heldur dregin fram nokkur dæmi sem sum hafa verið sett fram áður en þó ekki í því samhengi sem hér er gert. Tilgangur höfundar er lítilsháttar viðleitni til að svara spurningu sem fer ekki hátt en heyrist.
Spurningunni um það hvers vegna SAMSTAÐA flokkur lýðræðis og velferðar dró fyrirhugað framboð sitt til baka. Ákvörðun sem ég reikna þó með að mörgum reynsluboltanum í pólitík megi vera fullljós að var sú skynsamlegasta í stöðunni. Ástæðurnar liggja þó væntanlega skýrastar fyrir þeim sem lögðu því ríkulegast lið að framboðið hlyti ekki þann framgang sem mátti ætla af upphafinu.
Töluleg pólitík
25.5.2013 | 05:48
Sumir héldu því fram í aðdraganda kosninganna að besta leiðin til uppbyggingar væri sú að hreinsa fjórflokkinn svokallaða út af þinginu og skipa það algerlega upp á nýtt með nýjum og óreyndum einstaklingum nýrra og óreyndra flokka. Sumir þeirra hafa reyndar áhyggjur af því nú að nýskipuð ríkisstjórn búi ekki yfir nægilegri reynslu til að valda verkefninu framundan. Í þessu ljósi er vissulega forvitnilegt að skoða nokkrar tölur varðandi nýskipað þing.
Reynsluboltarnir á þingi
Úrslit síðustu alþingiskosninga urðu þau að flokkarnir sem hafa nú myndað stjórnarsamstarf fengu alls 38 þingmenn kjörna. Framsóknarflokkur 19 og Sjálfstæðisflokkur 19. Af þessum 38 eru 18 þingmenn með einhverja þingreynslu.
Þetta eru þau Ásmundur Einar Daðason (F), Birgir Ármannsson (S), Bjarni Benediksson (S), Einar K. Guðfinnsson (S), Eygló Harðardóttir (F), Guðlaugur Þór Þórðarson (S), Gunnar Bragi Sveinsson (F), Höskuldur Þórhallsson (F), Illugi Gunnarsson (S), Jón Gunnarsson (S), Kristján Þór Júlíusson (S), Pétur H. Blöndal (S), Ragnheiður E. Árnadóttir (S), Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S), Sigmundur Davíð Guðlaugsson (F), Sigurður Ingi Jóhannsson (F), Unnur Brá Konráðsdóttir (S) og Vigdís Hauksdóttir (F).
Sjö Framsóknarmenn og ellefu Sjálfstæðismenn. Það vekur reyndar athygli að af þessum 18 eru aðeins fimm konur. Kynjahlutfallið er aðeins skárra hjá stjórnarandstöðuflokkunum en hún er mynduð af fjórum flokkum sem fengu alls 27 þingmenn kjörna. Þar af eru 18 með einhverja þingreynslu.
Þetta eru þau: Árni Páll Árnason (Sf), Árni Þór Sigurðsson (VG), Birgitta Jónsdóttir (P), Guðbjartur Hannesson (Sf), Guðmundur Steingrímsson (BF), Helgi Hjörvar (Sf), Katrín Jakobsdóttir (VG), Katrín Júlíusdóttir (Sf), Kristján Möller (Sf), Lilja Rafney Magnúsdóttir (VG), Oddný G. Harðardóttir (Sf), Róbert Marshall (BF), Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf), Steingrímur J. Sigfússon (VG), Svandís Svavarsdóttir (VG), Valgerður Bjarnadóttir (Sf), Ögmundur Jónasson (VG) og Össur Skarphéðinsson (Sf).
Hér eru konurnar átta en reyndu þingmennirnir skiptast þannig milli stjórnarandstöðuflokkanna: að Píratar eiga einn þingmann með reynslu, Björt framtíð tvo, Vinstri grænir sex og Samfylkingin níu sem þýðir að þar varð engin endurnýjun eða með öðrum orðum allir þingmenn Samfylkingarinnar á þessu þingi áttu líka sæti á því síðasta.
Tekið saman: | karlar | konur | samtals |
Framsóknarflokkur | 5 | 2 | 7 |
Sjálfstæðisflokkur | 8 | 3 | 11 |
Stjórn | 13 | 5 | 18 |
Samfylking | 5 | 4 | 9 |
Vinstri grænir | 3 | 3 | 6 |
Björt framtíð | 2 |
| 2 |
Píratar |
| 1 | 1 |
Stjórnarandstaða | 10 | 8 | 18 |
Samtals | 23 | 13 | 36 |
Minnsta nýliðunin meðal stjórnarandstöðunnar
Einn þingmaður Vinstri grænna er nýr á þingi en hefur setið þar af og til sem varamaður frá árinu 2004 þannig að hann er ekki alveg óreyndur. Fjórir þingmenn Bjartar framtíðar eru nýir og tveir af þremur þingmönnum Pírata. Því má svo bæta við að átta af nítján þingmönnum Sjálfstæðisflokksins eru nýir inni á þingi en tólf af jafnmörgum þingmönnum Framsóknarflokksins.
Til að draga þetta enn skýrar fram er vert að benda á að engin nýliðun átti sér stað hjá Samfylkingu og sennilega hæpið að tala um slíka heldur hjá Vinstri grænum. Píratar og Björt framtíð leggja einir til alla nýliðun meðal stjórnarandstöðunnar sem er nærri því að vera 1/4 nýliðunarinnar á þinginu öllu. Þeir eiga samtals sex nýja þingmenn sem er tveimur færri en framlag Sjálfstæðisflokksins í þessum efnum en Framsóknarflokkurinn skarar fram úr hvað þetta varðar. Nánast helmingur nýliðunarinnar er fyrir þá þingmenn sem komust inn á þing undir merkjum hans eða alls tólf þingmenn.
Tekið saman: | með reynslu | nýir | samtals |
Framsóknarflokkur | 7 | 12 | 19 |
Sjálfstæðisflokkur | 11 | 8 | 19 |
Stjórn | 18 | 20 | 38 |
Samfylking | 9 |
| 9 |
Vinstri grænir | 6-7 | 0-1 | 7 |
Björt framtíð | 2 | 4 | 6 |
Píratar | 1 | 2 | 3 |
Stjórnarandstaða | 19 | 6 | 25 |
Samtals | 37 | 26 | 63 |
Miðað við umræðu síðustu daga er reyndar óvíst að það þyki lengur skynsamlegt að hreinsa út alla reynslu út af þinginu og skipa það nýjum og óþekktum einstaklingum. Það er a.m.k. ljóst að kjósendur féllu ekki fyrir sölutrixi nýju framboðanna sem spruttu fram eins og gorkúlur og héldu því fram að nýr flokkur og nýtt fólk væri vísasta leiðin til umbóta.
Miðað við útkomuna út úr síðustu kosningum er líklegra að offramboð á slíkri hugmyndafræði hafi ekki aðeins þótt ótrúverðug heldur líka fráhrindandi. Staðreyndin er a.m.k. sú að stærstur hluti kjósenda valdi að styðja þá stjórnmálaflokka sem eiga elstu stjórnmálasöguna. Hins vegar kemur ýmislegt athyglisvert í ljós þegar nánar er litið til þingreynslu þingmanna núverandi stjórnar og stjórnarandstöðu.
Kynlegt staðreyndatal
Það eru alls 36 þingmenn inni á núverandi þingi sem hafa reynslu 37 ef fyrrverandi varamaður Vinstri grænna er talinn með. Það þýðir að 26 nýir og óreyndir þingmenn munu taka þar sæti nú í þingbyrjun. Það er hins vegar forvitnilegt að rýna betur í talnafræðina á bak við reynsluboltana 36.
Steingrímur J. Sigfússon (VG) er með langmestu reynsluna á bakinu af þingstörfum eða 30 ár. Næstur honum er Össur Skarphéðinsson (Sf) með 22 ár. Þá Pétur H. Blöndal (S) og Ögmundur Jónasson (VG) með 18 ár og loks Einar H. Guðfinnsson (S) og Kristján Möller (Sf) með 14 ár.
Það vekur e.t.v. athygli að mestu reynsluboltarnir deilast jafnt á Samfylkingu, Sjálfstæðisflokk og Vinstri græna eða tveir þingmenn á hvern flokk. Það hlýtur líka að teljast merkilegt að þetta eru allt karlar.
Birgir Ármannsson (S), Bjarni Benediktsson (S), Guðlaugur Þór Þórðarson (S), Helgi Hjörvar (Sf) og Katrín Júlíusdóttir eru öll með tíu ára starfsreynslu af þingstörfum og hafa þar af leiðandi öll reynslu af því af því að vera bæði í stjórn og stjórnarandstöðu. Guðlaugur Þór og Katrín hafa gengt ráðherraembættum á þingferli sínum.
Hér eru sem sagt þrír þingmenn Sjálfstæðisflokks og tveir þingmenn Samfylkingar. Það er líka vert að benda á það sem blasir e.t.v. við að Katrín Júlíusdóttir er sú kona inni á núverandi þingi sem hefur mesta þingreynslu af núverandi þingkonum.
Þessi settust inn á þing vorið sem hrunstjórnin svokallaða tók við völdum og hafa því sex ára reynslu af þingstörfum. Þessi eru: Árni Páll Árnason (Sf), Árni Þór Sigursson (Vg), Guðbjartur Hannesson (Sf), Höskuldur Þórhallsson (F), Illugi Gunnarsson (S), Jón Gunnarsson (S), Katrín Jakobsdóttir (VG), Kristján Þór Júlíusson (S), Ragnheiður E. Árnadóttir (S) og Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S).
Höskuldur Þórhallsson hefur verið í stjórnarandstöðu frá því hann settist inn á þing en Árni Páll og Guðbjartur hafa hvorugur reynt að vera í stjórnarandstöðu áður. Báðir hafa gengt ráðherraembættum. Kynjahlutfallið hlýtur áfram að vekja athygli þar sem af tíu þingmönnum eru aðeins þrjár konur. Ein þeirra var ráðherra í síðustu ríkisstjórn og önnur er nýskipaður ráðherra í nýskipaðri ríkisstjórn.
Hér er sem sagt einn Framsóknarmaður, tveir Samfylkingarmenn, fimm Sjálfstæðismenn sem er helmingur þeirra þingmanna sem eiga tíu ára starfsreynslu að baki og tveir Vinstri grænir. Það hlýtur líka að vekja athygli að sá þingmaður sem hefur mesta reynslu af þingstörfum hefur aðeins setið sex ár á þingi eða eitt og hálft kjörtímabil.
Rúmur þriðjungur reynsluboltanna sem skipa næsta þing komu nýir inn við þar síðustu alþingiskosningar. Þessir eru: Ásmundur Einar Daðason (F), Birgitta Jónsdóttir (P), Eygló Harðardóttir (F) sem var reyndar varaþingmaður árið 2006 og tók sæti 2008 þannig að hún er með fimm ára þingreynslu), Guðmundur Steingrímsson (BF), Gunnar Bragi Sveinsson (F), Lilja Rafney Magnúsdóttir (VG), Oddný G. Harðardóttir (Sf), Róbert Marshall (Bf), Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F), Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf), Sigurður Ingi Jóhannsson (F), Svandís Svavarsdóttir (VG), Unnur Brá Konráðsdóttir (S), Valgerður Bjarnadóttir (Sf) og Vigdís Hauksdóttir (F).
Það sem vekur e.t.v. mesta athygli hér er að af þessum fimmtán eru níu konur og eru þar af leiðandi í meiri hluta í þessum hópi. Við upphaf síðasta þings voru átta framantaldra þingmanna í stjórn en sjö í stjórnarandstöðu. Áður en yfir lauk voru fimm þeirra í stjórn en tíu í stjórnarandstöðu. Sjö þeirra eru í nýmyndaðri ríkisstjórn en átta í stjórnarandstöðu.
Tveir hafa reynslu af því að vera ráðherra. Þrír eru ráðherrar í nýrri ríkisstjórn. Það er líka athyglisvert að þeir í þessum hópi sem voru ráðherrar í síðustu ríkisstjórn eru konur en þeir í þessum hópi sem eru ráðherrar í nýskipaðri ríkisstjórn eru karlar.
Námundað meðaltal | 14-30 ár | 10 ár | 6 ár | 4 (5) ár | meðaltal |
Framsóknarflokkur |
|
| 1 | 6 | 4 ár |
Sjálfstæðisflokkur | 2 | 3 | 5 | 1 | 9 ár |
Stjórn | 2 | 3 | 6 | 7 | 7 ár |
Samfylking | 2 | 2 | 2 | 3 | 9 ár |
Vinstri grænir | 2 |
| 2 | 2 | 11 ár |
Björt framtíð |
|
|
| 2 | 4 ár |
Píratar |
|
|
| 1 | 4 ár |
Stjórnarandstaða | 4 | 2 | 4 | 8 | 9 ár |
Þingmannafjöldi | 6 | 5 | 10 | 15 |
|
Kynleg talnafræði
Af því sem blasir við af myndunum hér að ofan þá er ljóst að Steingrímur J. Sigfússon verður mesti reynsluboltinn meðal þingkarla á næsta þingi en Katrín Júlíusdóttir á meðal þingkvenna. Það blasir líka við að konurnar í hópi reynsluboltanna sem sitja inni á nýskipuðu þingi hafa bæði minni þingreynslu og eru hlutfallslega færri.
Af 36 reyndum þingmönnum eru karlarnir 23 og konurnar 13 sem skiptist þannig á milli stjórnar og stjórnarandstöðu:
Tekið saman | karlar | konur | samtals |
Stjórn | 13 | 5 | 18 |
Stjórnarandstaða | 10 | 8 | 18 |
Samtals | 23 | 13 | 36 |
Það er líka forvitnilegt að skoða það enn nánar hvernig þingreynslan skitist á milli þingflokkanna sem skipa stjórn annars vegar og stjórnarandstöðu hins vegar. Þegar þetta er skoðað vekur það kannski athygli að það eru eingöngu karlar sem hafa þingreynslu sem spannar frá 4 til 8 kjörtímabil. Enginn þeirra eru þó í Framsóknarflokknum.
Karlar eru líka í yfirgnæfandi meirihluta þeirra sem hafa setið í þrjú kjörtímabil. Þar eru fjórir karlar en aðeins ein kona. Þrír karlanna eru í Sjálfstæðisflokknum. Konan er Katrín Júlíusdóttir (Sf) sem hefur lengstu starfsreynsluna meðal kvenna inni á núverandi þingi.
Karlarnir sem hafa átt sæti inni á þingi í tvö kjörtímabil eru rúmlega helmingi fleiri en konurnar. Þeir eru sjö en þær eru þrjár. Helmingur þeirra sem hafa verið inni á þingi í tvö kjörtímabil eru þingmenn Sjálfstæðisflokksins.
Þeir þingmenn sem hafa eingöngu reynslu af síðasta þingi eru alls 15. Tveir fimmtu eru þingmenn Framsóknarflokksins. Þingmenn núverandi stjórnarandstöðu sem eiga fjögurra ára þingreynslu að baki eru einum fleiri en stjórnarinnar.
Þrír fimmtu þessa hóps eru konur eða alls níu. Sex þeirra eru í stjórnarandstöðu og þrjár í stjórn. Karlarnir í þessum hópi skiptast þannig að fjórir eru í stjórn og tveir í stjórnarandstöðu.
Tekið saman út frá kyni | 14-30 ár | 10 ár | 6 ár | 4 (5) ár | ||||
karlar | konur | karlar | konur | karlar | konur | karlar | konur | |
Framsóknarflokkur |
|
|
|
| 1 |
| 4 | 2 |
Sjálfstæðisflokkur | 2 |
| 3 |
| 3 | 2 |
| 1 |
Stjórn | 2 |
| 3 |
| 4 | 2 | 4 | 3 |
Samfylking | 2 |
| 1 | 1 | 2 |
|
| 3 |
Vinstri grænir | 2 |
|
|
| 1 | 1 |
| 2 |
Björt framtíð |
|
|
|
|
|
| 2 |
|
Píratar |
|
|
|
|
|
|
| 1 |
Stjórnarandstaða | 4 |
| 1 | 1 | 3 | 1 | 2 | 6 |
Samtals | 6 |
| 4 | 1 | 7 | 3 | 6 | 9 |
Þegar meðaltalsstarfsreynsla á milli flokka og kynja er skoðuð kemur líka ýmislegt athyglisvert í ljós. Það markverðasta er e.t.v. það að sá flokkanna sem er yngstur fjórflokkanna hefur hæstu meðaltalsreynsluna og munar þar mestu um Steingrím J. Sigfússon, sem er með 30 ára þingreynslu að baki, og Ögmund Jónasson, sem er með 18 ára reynslu.
Annað sem vekur athygli er lítill sem enginn munur á milli meðaltalsstarfsreynslu Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Þar eru það Össur Skarphéðinsson, sem er með 22ja ára þingreynslu, Kristján Möller, sem er með 14 ára þingreynslu, og Helgi Hörvar og Katrín Júlíusdóttir, sem eru með 10 ára reynslu, sem hífa upp meðaltalið fyrir Samfylkinguna. En Pétur H. Blöndal, sem er með 18 ára reynslu af þingstörfum að baki, Einar K. Guðfinnsson, sem er með 14 ár, og Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson og Guðlaugur Þór, sem hafa setið 10 ár á þingi, sem hífa upp meðaltalsstarfsreynslu þingmanna Sjálfstæðisflokksins.
Það hlýtur og að vekja athygli að þingmenn annars tveggja elstu stjórnmálaflokkanna eru með litlu hærri starfsreynslu en tveir hinna nýju flokka sem fengu þingmenn kjörna inn á þing í nýliðnum kosningum.
Tekið saman | karlar | konur | meðaltal |
Framsóknarflokkur | 4,4 | 4,5 | 4,4 ár |
Sjálfstæðisflokkur | 10 | 5,3 | 8,7 ár |
Stjórn | 7,8 | 5 | 6,7 ár |
Samfylking | 11,6 | 5,5 | 8,8 ár |
Vinstri grænir | 18 | 4,7 | 11,3 ár |
Björt framtíð | 4 |
| 4 ár |
Píratar |
| 4 | 4 ár |
Stjórnarandstaða | 12 | 5 | 8,8 |
Meðaltalsreynsla | 9,6 | 5 | 8 |
Það ætti líka að vekja athygli að þegar meðaltalsreynsla þeirra sem hafa einhverja reynslu af þingstörfum er borin saman út frá kyni þá hafa þingkonurnar sömu meðaltalstölu bæði í stjórn og stjórnarandstöðu. Það er líka vert að vekja athygli á því að meðal stjórnarandstöðu er meiri munur á milli kynja hvað þingreynslu varðar en meðal stjórnarinnar. Þar munar heilu kjörtímabili.
Kynlegt brotthvarf
Það er næsta víst að skýringarnar á því að karlarnir meðal reynsluboltanna hafa almennt meiri reynslu og eru fleiri en konurnar eru margvíslegar. Hluti skýringarinnar liggur þó í þessu brotthvarfi.
Á síðasta þingi voru miklar sviptingar. Tvær konur sögðu af sér þingmennsku á kjörtímabilinu eða þær Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) og Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf). Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (VG) hvarf líka af þingi um síðustu áramót. Aðrar sem gáfu ekki kost á sér til endurkjörs af ýmsum ástæðum eru: Jóhanna Sigurðardóttir (Sf), Lilja Mósesdóttir (kjörin inn á þing fyrir VG og núverandi formaður SAMSTÖÐU), Ólöf Nordal (S), Siv Friðleifsdóttir (F), Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) og Þuríður Bachman (VG).
Með þessum konum hvarf mislöng þingreynsla en meðaltalið eru rétt rúm 12 ár eða þrjú kjörtímabil. Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) hafði setið níu kjörtímabil þegar hún lét af störfum nú í vor og Sif Friðleifsdóttir fimm. Þorgerður Katrín og Þuríður Bachman fjögur. Þrjár þessara kvenna höfðu gengt ráðherraembætti. Þorgerður Katrín og Siv gegndu báðar ráðherrastöðum; samtals í sex ár hvor.
Þessir karlar gáfu heldur ekki kost á sér til endurkjörs: Birkir Jón Jónsson (F), sem á 10 ára þingreynslu að baki, og Ásbjörn Óttarsson (S), Tryggvi Þór Herbertsson (S) og Þráinn Bertelsson (kosinn á þing fyrir Borgarahreyfinguna en gekk til liðs við VG skömmu eftir kosningar), sem allir komu nýir inn á þing í kjölfar alþingiskosninga vorið 2009.
Þegar Þuríður Bachman kvaddi vakti það athygli að hún hafði nokkrar áhyggjur af því hvernig þingstörfin hefðu mótast á síðasta þingi og um leið af þróun þeirra á því næsta. Þetta er haft eftir henni í viðtali við Austurgluggann:
Mikil endurnýjun varð í þingkosningunum 2009 og kom þá um þriðjungur þingmanna nýr inn. Þuríður hefur áhyggjur af því hvernig umhverfið undanfarin fjögur ár hafi mótað þessa þingmenn.
Á þessu kjörtímabili hefur þriðjungur þingmanna verið nýr á þingi. Hann hefur ekki kynnst neinu öðru en því starfsumhverfi sem nú hefur skapast. Mér finnst áhyggjuefni að horfa til næsta kjörtímabils þegar koma nýir þingmenn og læra það sem fyrir þeim er haft. (sjá hér)
Þetta er ekki síst áhugaverð athugasemd í því ljósi að Þuríður Bachman var annar varaforseti Alþingis sex síðastliðin ár en í kjölfar alþingiskosninganna vorið 2009 settust 27 nýir þingmenn inn á þing. Því má bæta við að 15 þeirra eru meðal þeirra sem taka sæti á nýju þingi, fimm þeirra gáfu ekki kost á sér aftur, þrír karlar og þrjár konur, en sjö náðu ekki endurkjöri.
Í lok þessa kynlega pistils, sem hefur snúist til kynjaðra vangaveltna um reynslu af þingstörfum, þykir mér við hæfi að vitna í afar athyglisverð svör Lilju Mósesdóttur sem var kosin inn á þing í kosningunum vorið 2009 fyrir Vinstri græna. Hún hlaut afburða kosningu ekki síst fyrir lausnarmiðaðar hugmyndir sínar sem hún hafði sett fram á Opnum borgarafundum og á útifundi Radda fólksins á Austurvelli í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 en sagði sig úr þingflokknum, ásamt Atla Gíslasyni, vorið 2011 eftir að útséð var um að lausnarmiðaður málflutningur hennar naut einskis stuðnings innan ríkisstjórnarinnar.
Í kjölfar þess að hún stofnaði flokkinn SAMSTÖÐU flokk lýðræðis og velferðar sem var tekinn út af lista í skoðanakönnunum Gallups og hlaut fádæma útreið í fjölmiðlum, sem fældi kjósendur frá stuðningi við flokkinn, dró hún fyrirhugað framboð sitt til baka. Af þessum ástæðum var hún ein þeirra þingkvenna sem DV lagði fyrir spurningar varðandi reynsluna af því að sitja á þingi. Viðtalið má lesa í heild hér
Konur dæmdar harðar en karlar
Telur þú að það skipti máli að konur séu í áhrifastöðum og af hverju?
Ísland sker sig úr hvað varðar atvinnuþátttöku kvenna og hlutfall þeirra meðal kjörinna fulltrúa á þingi og í sveitarstjórnum eftir hrun. Mikilvægt er að halda þessari sérstöðu en tiltölulega jöfn þátttaka kvenna og karla er forsenda þess að samfélagið fái notið ávinningsins af fjölbreyttum skoðunum og vinnulagi. Einsleitar skoðanir um ágæti óhefts markaðsbúskapar og vinnubrögð sem einkenndust af mikilli áhættuhegðun áttu sinn þátt í hruninu.
Hefur þú orðið vör við einhvern mun á því hvernig kynin nálgast völd og valdastöður?
Karlar eru gjarnan óhræddari en konur að nota valdastöður til að tryggja og jafnvel auka völd sín enn frekar. Völd kvenna eru oftar dregin í efa af öðrum í nefndum og jafnvel komið í veg fyrir að konurnar geti beitt þeim með sama hætti og karlar t.d. með því að hafna tillögum kvenna um breytingar á fyrirkomulagi funda og fundarefni. Dæmin sýna þó að kyn viðkomandi er ekki endilega trygging fyrir bættum og lýðræðislegri vinnubrögðum.
Er Alþingi karllægur vinnustaður og hefur þú merkt einhverjar breytingar þar á þeim tíma sem þú hefur setið á þingi?
Já, Alþingi er karllægur vinnustaður þar sem formenn flokka ráða mestu um störf þingsins, þ.e. hvaða mál komast í gegn fyrir jóla- og sumarfrí. Þegar slíkar samningaviðræður áttu sér stað fóru margir karlar á flug í allskonar plotti. Fæstar konur fundu sig í plottinu og áttu oft erfitt með að skilja hvað væri í gangi dögum saman á þingi. Þeir þingmenn (konur og karlar) sem stóðu fyrir utan samningaviðræðurnar gramdist hvernig farið var með fullkláruð frumvörp sem fórnað var í valdaspili formanna stærstu þingflokkanna. Engin breyting varð á þessu á meðan ég sat á þingi.
Eiga konur erfiðara uppdráttar á þingi en karlmenn?
Já, á meðan völd snúast um plott í bakherbergjum og samtryggingarkerfi karla en ekki þekkingu og hæfni. Fæstar konur kunna öll klækjabrögðin sem tíðkast í pólitík og valdaleysi þeirra í pólitík þýðir að þær geta ekki treyst á jafn víðtækt stuðningsnet og karlar þegar á þarf að halda. Konum hefur verið innrætt í meira mæli en körlum að þær þurfi að mennta sig til að ná árangri. Þær missa því margar fótanna þegar inn á þing er komið og í ljós kemur að hollusta við flokksforystuna ræður mestu um hvaða trúnaðarstörf þingmenn fá.
Standa konur jafnfætis körlum þegar það kemur að ákvarðanatöku á þingi eða öðrum störfum þingmanna? Hvar eru ákvarðanir teknar? Er munur á því hvernig kynin vinna saman og nálgast hvort annað?
Mín reynsla er að karlar voru oftar búnir að heyra hljóðið í öðrum þingmönnum þvert á flokka varðandi afstöðu til ákveðinna mála í umræðu eða vinnslu mála í þinginu. Mér fannst konurnar halda sig meira við samskipti við þingmenn í eigin flokki.
Er komið öðruvísi fram við þingkonur en þingmenn?
Ég upplifði mun meiri dómhörku gagnvart konum bæði í fjölmiðlum og meðal kjósenda. Þetta varð til þess að margar konurnar á þingi lögðu meiri áherslu á að kynna sér ítarlega mál í stað þess að eyða tíma í að kanna eða móta afstöðu annarra þingmanna til mála. Mér fannst kjósendur oft sýna konum sem ekki voru með eitthvað á hreinu meiri ósvífni en körlum á fundum.
Hefur þú orðið vör við að almenn umræða um þingkonur sé að einhverju leyti frábrugðin umræðunni um þingmenn? Hvernig þá? Hefur þú persónulega reynslu af því?
Mér hefur oft fundist þekkingu og málflutningi þingkvenna sýnd minni virðing en þingkarla. Menntun mín og hagfræðiþekking var mjög oft dregin í efa í umræðum um flókin efnahagsmál af fólki sem hafði afar litlar forsendur til að gera það.
Þekktir bloggarar og fjölmiðlar fjalla auk þess mun meira um ummæli og tillögur karla í pólitík en kvenna. Þöggunin takmarkar mjög möguleika kvenna til að eiga samtal við kjósendur með sama hætti og karlar í pólitík. Ég fór framhjá þessari hindrun með því að tjá mig á Facebook um hugmyndir mínar og tillögur ásamt því að leiðrétta rangfærslur og útúrsnúninga.
Nú í aðdraganda kosninga er nánast eingöngu fjallað um og vitnað í karla í almennri umræðu um kosningarnar. Það eru vonbrigði hvað þessi kynjahalli vekur litla athygli.
Voru gerðar aðrar væntingar til þín sem konu en þeirra karla sem þú hefur unnið með?
Mér fannst fleiri vænta þess að karlar sem voru nýir á þingi tækju að sér forystuhlutverk í stjórnmálum en konur. Ég heyrði t.d. oftar að einhver þingmaður væri efnilegur en þingkona. Þetta er hluti af þeirri karllægu menningu sem ríkir á Alþingi.
Finnst þér þú hafa verið metin að verðleikum á Alþingi?
Já, að einhverju leyti. Á meðan ég var í stjórnarmeirihlutanum hafði ég það hlutverk að koma stjórnarfrumvörpum í gegnum þingið. Ég hafði ekkert um efni frumvarpanna að segja en gat haft frumkvæði að því að breyta einstökum ákvæðum. Í því sambandi get ég nefnt frumvarp um breytingar á lögum um einkahlutafélag og hlutafélög en ég lagði mikið á mig sem formaður viðskiptanefndar til að tryggja að inn kæmi ákvæði um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja með yfir 50 starfsmenn.
Hlutverk mitt á Alþingi sem þingmaður utan þingflokka takmarkaðist fyrst og fremst við að koma fram með gagnrýni og tillögur um úrbætur á málum í vinnslu eða til umræðu í þinginu. Síðan réði hagsmunapólitík því hvort stóru þingflokkarnir tóku eitthvað upp af því sem ég varaði við eða lagði til. (sjá hér)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Áskorun á nýja ríkisstjórn
22.5.2013 | 22:53
Í aðdraganda nýafstaðinna kosninga var ekki annað að sjá en allir sem hafa látið sig pólitík einhverju varða væru svo uppteknir af því að berjast um atkvæðin að samstaðan hefði týnst. Það þarf ekki að vera og því líklegt að fólk með sama markmið geti tekið sig saman og myndað pólitískan þrýsting um brýn mál rétt eins og þegar kom að viðspyrnunni gegn Icesave á síðasta kjörtímabili.
Í gærkvöldi var þingmönnum nýstofnaðrar ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks send áskorun um að binda endi á aðlögun Íslands að Evrópusambandinu og standa þannig við ályktanir síðustu landsfunda flokkanna um stefnu í utanríkismálum. Umræður um Evrópusambandsaðild hafa risið mishátt allt síðasta kjörtímabil, valdið klofningi og deilum en hins vegar má finna andstæðinga aðilar í öllu litrófi pólitíkunnar.
Það er þannig hópur sem hefur skrifað undir áskorunina sem er birt hér fyrir neðan ásamt greinargerð og nöfnum þeirra 39 einstaklinga sem settu nafn sitt undir áskorunina. Þessir einstaklingar eiga það allir sameiginlegt að vilja að aðlögun Íslands að Evrópusambandinu verði hætt. Þeir hafa líka allir lagt sitt á vogarskálarnar í baráttunni gegn aðild að Evrópusambandinu á undanförnum árum.
Um helmingur þeirra, sem settu nöfn sín undir meðfylgjandi áskorun til nýskipaðrar ríkisstjórnar, eru frambjóðendur Regnbogans í nýliðnum kosningum, félagar í SAMSTÖÐU flokki lýðræðis og velverðar og félagar í öðrum samtökum sem hafa lýst sig andsnúna Evrópusambandsaðild. Þessi félög eru: Heimssýn - Hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, Ísafold - Félag ungs fólks gegn ESB aðild og Herjan - Félag stúdenta gegn ESB-aðild.
Reykjavík, 22. maí 2013
Við undirrituð skorum á ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks að binda enda á frekari aðlögun Íslands að Evrópusambandinu með formlegum hætti og standa þannig við síðustu landsfundarályktanir um stefnu flokkanna í utanríkismálum.
Greinargerð:
Eitt þeirra atriða sem má lesa út úr niðurstöðu nýafstaðinna alþingiskosninga, þar sem 51,1% kjósenda greiddu núverandi ríkisstjórnarflokkum atkvæði sitt, eru skýr skilaboð um aðrar málefnaáherslur en fyrrverandi ríkisstjórnar; m.a. varðandi Evrópusambandsaðild.
Evrópusambandið glímir sjálft við gjaldmiðils- og skuldakreppu sem ekki er séð fyrir endann á. Í þessu sambandi er vert að draga það fram að fyrrverandi fjármálaráðherrar bæði Bretlands og Þýskalands, sem mæltu með og stuðluðu að aðild landa sinna að Evrópusambandinu á sínum tíma, hafa lýst yfir þungum áhyggjum af stefnu ESB og þeirri áherslu sem sambandið leggur á viðhald evrunnar.
Nigel Lawson, fyrrverandi fjármálaráðherra Breta, staðhæfir að efnahag Bretlands sé betur komið utan ESB auk þess sem útganga úr sambandinu muni hafa jákvæðar afleiðingar innanlands í lýðræðisátt. Oskar Lafontaine, fyrrverandi fjármálaráðherra Þýskalands, gengur sínu lengra þar sem hann hefur hvatt til þess að evrusamstarfið verði leyst upp til að forða frekari efnahags- og samfélagshörmungum ýmissa ríkja Suður Evrópu (sjá hér).
Afstaða fyrrverandi fjármálaráðherra er í fullu samræmi við viðvörun Yves Daccord, framkvæmdastjóra Alþjóðaráðs Rauða krossins, frá upphafi ársins. Í viðtali við danska blaðið Politiken varaði hann við vaxandi fátækt í löndum Suður- og Austur-Evrópu vegna efnahags-kreppunnar (sjá hér). Með orðum sínum staðfestir Oskar Lafontaine ekki aðeins það sem kemur fram hjá framkvæmdastjóra Alþjóðaráðs Rauða krossins heldur dregur hann myntbandalagið fram sem orsakavald.
Aðlögunarferli Íslands að Evrópusambandinu hefur dregið dýrmætan tíma, fjármuni og orku fráfarandi stjórnvalda frá brýnni verkefnum. Nú er tækifæri til að snúa þessu við með því að binda endi á aðlögunina og byggja upp samstöðu um uppbyggingu fullvalda ríkis sem tekur sjálfstæðar ákvarðanir um grundvallarmálefni eins og efnahagsmál og milliríkjaviðskipti.
Undirskriftir:
Anna Ólafsdóttir Björnsson, frambjóðandi Regnbogans í nýliðnum kosningum
Atli Gíslason, frambjóðandi Regnbogans í nýliðnum kosningum
Árdís Magnúsdóttir, tækniteiknari
Ásgeir Geirsson, formaður Herjans, félags stúdenta gegn ESB-aðild
Baldvin H. Sigurðsson, oddviti Regnbogans í Norðausturkjördæmi í nýliðnum kosningum
Bjarni Bergmann
Bjarni Harðarson, bóksali á Selfossi og stjórnarmaður í Heimssýn
Björg Sigurðardóttir, frambjóðandi Regnbogans í nýliðnum kosningum
Björgvin Rúnar Leifsson, framhaldsskólakennari
Eiríkur Ingi Garðarsson, í stjórn SAMSTÖÐU
Elinborg K. Kristjánsdóttir, frambjóðandi Regnbogans í nýliðnum kosningum
Friðrik Atlason, oddviti Regnbogans í Reykjavíkurkjördæmi suður í nýliðnum kosningumGuðjón Halldór Höskuldsson, iðnaðarmaður
Guðni Karl Harðarson, félagi í SAMSTÖÐU
Guðmundur Brynjólfsson, rithöfundur og djákni
Guðrún Skúladóttir, sjúkraliði
Gunnar Skúli Ármannsson, læknir
Gunnar Guttormsson, vélfræðingur
Gunnar Waage, stjórnarmaður í Heimssýn
Gunnlaugur Ingvarsson ráðgjafi og stjórnarmaður í Heimssýn
Gústaf Skúlason, meðlimur í Heimssýn
Halldóra Hjaltadóttir, formaður Ísafoldar, félags ungs fólks gegn ESB
Hallgeir Jónsson, í stjórn SAMSTÖÐU
Haraldur Ólafsson, prófessor í veðurfræði
Helga Garðarsdóttir, félagi í SAMSTÖÐU
Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra
Hörður Guðbrandsson, stjórnarmaður í Heimssýn
Jón Bjarnason, oddviti Regnbogans í Norðvesturkjördæmi í nýliðnum kosningum
Jón Reginbald Ívarsson, nemi við tölvunarfræðideild Háskólans í ReykjavíkJónas Pétur Hreinsson, iðnrekstrarfræðingur og félagi í SAMSTÖÐU
Karólína Einarsdóttir, frambjóðandi Regnbogans í nýliðnum kosningum
Kristján Jóhann Matthíasson, fyrrverandi sjómaður
Rakel Sigurgeirsdóttir, varaformaður stjórnar SAMSTÖÐU
Rannveig Sigurðardóttir, skrifstofumaðurSif Cortes, viðskiptafræðingur
Sædís Ósk Harðardóttir, frambjóðandi Regnbogans í nýliðnum kosningum
Valdís Steinarsdóttir, oddviti Regnbogans í Suðvesturkjördæmi í nýliðnum kosningum
Þollý Rósmundsdóttir, stjórnarmaður í Heimssýn
Þórarinn Baldursson, vélamaður
Þórarinn Einarsson, aktívisti
Engar yfirlýsingar um ESB-atkvæði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.5.2013 kl. 00:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Af pólitískri tiltekt
19.5.2013 | 23:56
Undanfarna daga og vikur hef ég staðið í tiltekt í fleiri en einum skilningi. Sú fyrirferðarmesta hefur verið á pólitíska sviðinu. Umfang hennar hefur teygt sig töluvert langt út fyrir pappírsflóðið sem hefur safnast upp í nánasta umhverfi heimilistölvunnar.
Tilefni þess að ég sest við skriftir að þessu sinni er þó útprent sem ég rakst á í slíkum bunka. Um er að ræða innlegg sem ég setti saman í tilefni af því að ég var beðin um að ávarpa gesti á málþingi sem Rauður vettvangur boðaði til 9. október 2010. Þegar til kom var þó tæplega hægt að tala um málþing heldur frekar hringborðsumræður eða semínar.
Ég hafði verið boðuð sem fulltrúi almennings sem hafði spyrnt við fótum frá bankahruni og látið það skýlaust í ljós að heillavænlegasta leiðin til árangurs væri sú að auka á samvinnu. Ég hef hvorki fyrr né síðar orðið þess vör að það sem ég sagði á þessum vettvangi hafi skipt neinu máli en ég ætla samt að birta upphaf þess sem ég setti saman fyrir þetta tilefni áður en það fer í ruslið með mörgum af þeim pappírum sem hafa safnast saman á undanförnum þremur árum.
**********************************************
Upphaf erindis fyrir Rauðan vettvang þ. 9. október 2010
Það segir einhvers staðar að Vitræn auðmýkt kannast við að maður ætti ekki að þykjast vita meira en maður veit. Mér þykir rétt að minna á þetta hér til að undirstrika það að ég er ekki sérfræðingur í því hvernig ólíkir hópar geta unnið saman og hvernig er best að ná árangri. Hins vegar er ég búin að vinna að svo mörgum og ólíkum viðspyrnuverkefnum síðastliðin tvö ár að ég get vissulega lagt eitthvað gagnlegt fram í slíka umræðu. Margt af því liggur e.t.v. í augum uppi en stundum þarf að draga slík atriði fram til að gera þau gildandi.
Það vita t.d. allir að samvinnan er mikilvæg og að því fleiri sem vinna saman að því meiri verður árangurinn. Þetta er þó mjög háð markmiðum hópsins; þ.e. hvert verkefni hans er og í hverju hann ætlar að ná árangri. Í þessu sambandi langar mig til að nefna að ég hef bæði tekið þátt í undirbúningi á borgarafundum á Akureyri og mótmælaaðgerðum hér í Reykjavík. Ég kem svolítið nánar að þessu síðar.
[...]Á Akureyri tók ég þátt í laugardagsmótmælum og samstöðu við janúarbyltinguna sem skapaði núverandi stjórnvöldum [þ.e. ríkisstjórn Samfylkingar og VG] tækifærið til að komast til valda. Þó fjöldinn sem tók þátt í þessum aðgerðum fyrir norðan hafi aldrei orðið neitt viðlíka því sem gerðist hér í Reykjavík þá finnst mér þeir hafa verið mikilvægir ekki síst fyrir mig sjálfa svo og aðra sem tóku þátt. Mikilvægið liggur ekki síst í samstöðunni og þeirri samkennd sem hún vakti okkur þátttakendum.
Við stöndum nefnilega öll í sömu sporum gagnvart stjórnvöldum sem styðja bankana í því að bæta sér upp eignatjónið sem þeir halda fram að þeir hafi orðið fyrir við hrun bankanna. Það þarf ekki mikið fjármálavit til að átta sig á því að peningar gufa ekki upp. Okkur grunar líka hvað hefur orðið um þá en hversu undarlega sem það hljómar þá standa stjórnvöld í vegi fyrir því að eðlilegt uppgjör, sem er í samræmi við fyrrgreinda staðreynd, fari fram.
Vegna þess að við stöndum í sömu sporum er auðvitað mikilvægt að við stöndum saman. En hvað stendur í veginum fyrir því að af því verði? Mitt svar byggir á ályktunum sem ég hef dregið af því fjölbreytta grasrótarstarfi, sem ég hef tekið þátt í á undanförnum tveimur árum, bæði hér og fyrir norðan. Síðastliðin tvö ár hef ég rekist á hreint ótrúlega marga einstaklinga sem búa yfir frábærum hugmyndum um það hvernig megi bregðast við núverandi ástandi á mun árangursríkari hátt en mun nást með viðbrögðum núverandi stjórnvalda [ath. að þetta er úr erindi sem var flutt haustið 2010].
Því miður hafa nokkrir þeirra viljað taka alltof mikið að sér en líka viljað stjórna allri atburðarrásinni eftir að hún var farin af stað. Í þessu sambandi verður mér hugsað til tveggja einstaklinga sem stóðu að stofnun grasrótarsamtaka fyrir norðan sem fengu það skemmtilega heiti Bylting fíflanna. Ég vil ekki lýsa yfir andláti þessa grasrótarafls, það lifir a.m.k. í fánanum sem grasrótarsamtökin kenna sig við, en sama og engin starfsemi fer lengur fram innan samtakanna sjálfra.
Þetta hef ég líka horft upp á hér í Reykjavík. Ég hef líka horft upp á það að sumir eiga í erfiðleikum með að starfa með öðrum. Meginástæðan er eflaust sú að okkur skortir reynsluna af því að vinna saman undir sambærilegum kringumstæðum og þeim sem við stöndum frammi fyrir núna. Það verður þó ekki sagt að við höfum ekki reynt. Það hafa verið haldnir fjölmennir fundir þar sem markmiðið hefur verið það að hrinda af stað einhverju áhrifaríku verkefni sem því miður hefur sjaldnast tekist.
Mér sýnist að það væri hægt að leysa þetta með því að við byrjuðum á því að átta okkur á því öll að við búum yfir hæfileikum og eigum þess vegna erindi en við megum ekki gleyma því að við búum yfir mismunandi hæfileikum og það er ekki síst þess vegna sem það er mikilvægt að við vinnum saman.
Ég man eftir konu úr mótmælunum hér í Reykjavík sem er mjög mikilvirk í mómælum og þar sem það er við hæfi að rífa kjaft en hún á í erfiðleikum með að vinna að friðsamlegri verkefnum. Ég hef líka haft kynni af manni sem er mjög duglegur að koma sér á framfæri við fjölmiðla og áhrifamenn í samfélaginu, hafa áhrif á fólk og vekja það til athafna en hann rekst illa í hópi sem hann stjórnar ekki sjálfur.
Ég tel mikilvægt að við áttum okkur á hverjir hæfileikar okkar eru og hvar þeir nýtast best. Ég tel ekki síður mikilvægt að við áttum okkur á því að það búa ekki allir yfir sömu hæfileikunum en til að vinna að jafnstóru verkefni eins og það er að breyta ósanngjörnu kerfi, sem er varið af áhrifaríkri og þaulsetinni valdastétt, þurfum við einmitt margt fólk með fjölbreytta hæfileika.
[...]
**********************************************
Það er e.t.v. ekki úr vegi að taka það fram að erindið sem brotið hér að ofan er tekið úr var sett saman undir áhrifum þess að nokkrum dögum fyrr hafði ég séð hvernig hugmynd eins manns, sem mætti með olíutunnu fyrir framan alþingishúsið við þingsetninguna 1. október 2010, margfaldaðist nokkrum dögum síðar. Tunnumótmælin voru nefnilega samstarfsverkefni margra einstaklinga og þátta.
Í mínum huga verður 4. október 2010 alltaf mynd samstöðu sem því miður tókst að sundra og hefur ekki náðst að skapa síðan. Ég er á því að það sem ég benti á í orðum mínum hér að ofan sé stór þáttur. Tveimur árum eftir að ég flutti þessa tölu hafði ég reyndar gert mér enn gleggri grein fyrir því hvaða mannlegu brestir riðluðu samstöðunni hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég dró þessi atriði saman í tveimur bloggpistlum sem ég birti fyrir síðustu jól.
Annar fékk heitið: Þetta var aldrei einleikið en hinn Vegvillt viðspyrna. Það sorglegasta er að það sem gróf undan samstöðu grasrótarinnar voru innanmein hennar sjálfrar. Þau alvarlegustu voru þau að meðal grasrótarinnar voru frá upphafi einstaklingar sem voru of uppteknir af sjálfum sér til að ráða við það mikilvæga verkefni að vinna saman. Eftir á að hyggja er líka útlit fyrir að grunnaflið í grasrót höfuðborgarvettvangsins hafi miklu frekar verið áhrifagjörn og hávaðasöm hvatvísin en íhugul og grandvör skynsemin.
En vissulega naut gróskan í grasrótinni, sem lofaði svo góðu í lok árs 2010 og upphafi ársins 2011, dyggar aðstoðar utanaðkomandi sinnuelda til að brennast upp og tortíma sjálfri sér. Hvort upp af eldhafinu, sem náði hámarki nú undir síðustu kosningar, vaxi upp ný, öflugri og skynsamari grasrót er ómögulegt að segja. Tíminn verður að leiða það í ljós.
Vaxtarskilyrðin eru tæplega nokkuð skárri en reynsla síðustu missera ætti vissulega að vera víti til varnaðar þeim sam sækjast frekar eftir því að vinna að samfélagsumbótum en koma sjálfum sér á framfæri við kastljós athyglinnar og pólitísk metorð.