Af hverju NEI við Icesave? (myndband)

nei-m.pngHópurinn sem stóð á bak við áskorunina til forsetans um að vísa Icesave III til þjóðaratkvæðagreiðslu ef þau yrðu samþykkt sem lög frá Alþingi er enn að. Nú eru hóparnir tveir. Þeir kalla sig Advice og Samstaða þjóðar gegn Icesave og halda báðir uppi ástæðum þess að segja nei við nýju Icesave-lögunum. Samkvæmt því sem kom fram í sjónvarpsfréttum á RUV í gærkvöldi hafa þessir hópar verið áberandi (sjá hér)

Hóparnir eiga það sameiginlegt að vera á móti núverandi samningum. Myndbandið sem ég birti hér á þessu bloggi í síðustu viku hefur ekki átt hvað sístan þátt í því. Þegar þessi orð eru skrifuð eru þeir að smella í 4.000 sem hafa séð það en orðspor þess hefur spurst út víða. Þess má geta að útkoma þess varð m.a. til þess að einn skapara Icesave sá ástæðu til að atyrða Þór Saari í heilli bloggfærslu fyrir það sem kom fram í svari hans við spurningunni: Hvers vegna ætlar þú að segja nei við nýju Icesave-lögunum í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu? Þetta hefur hann eftir Þór:

„Þetta er ekki byrði sem almenningur á að bera, ég tala nú ekki um í svona tilfelli, þar sem Landsbankinn var sennilega rekinn sem einhvers konar glæpafyrirtæki og Björgólfsfeðgar eiga einfaldlega að borga þetta.“

Í framhaldinu segir gerandinn:

Háttvirtur þingmaðurinn telur sig greinilega ekki þurfa að færa rök fyrir máli sínu, þegar hann sakar menn um glæpi. Í þessu tilviki er ljóst, að þingmaðurinn telur mig og föður minn hafa notið ávaxtanna af „einhvers konar glæpafyrirtæki“ og í þeim orðum hans að við eigum „einfaldlega að borga þetta“ felst auðvitað að við berum ábyrgð á þessum meintu glæpum.

Ærumeiðandi fullyrðingar af þessu tagi eru engum sæmandi og það kemur sérstaklega á óvart að þær séu ættaðar frá manni, sem situr á Alþingi Íslendinga. Þór Saari kærir sig hins vegar kollóttan og dreifir óstaðfestum gróusögum og rakalausum fullyrðingum að vild [...] (sjá hér (leturbreytingar eru mínar))

Nú hefur þetta tiltekna viðtal verið klippt út úr viðtalasyrpunni og birt sér. Það má sjá það hér. Ég vek athygli á því að notandinn kjosumis hefur nú þegar sett inn 6 myndbönd þannig að þeir eru fleiri sem hafa verið klipptir út og settir sér. Ég hvet ykkur endilega til að fara þarna inn og hlusta og skoða og taka svo þátt í að deilda og dreifa lengri myndskeiðunum og þeim styttri hvarvetna þar sem þess er kostur.

Megintilgangurinn er að kynna NEI-hliðina sem hefur átt afar erfitt uppdráttar í hefðbundnum prent- og ljósvakamiðlum. Hér fyrir neðan er svo 2. hlutinn tilbúinn til netmiðlunar:


mbl.is Kannar afstöðu lesenda til Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mér dettur ekki hug að bregðast svo stórum væntingum!

Hópur Íslendinga sendi Herman Van Rompuy, forseta ESB, bréf með spurningum varðandi Icesave sl. föstudag.  Í kjölfarið voru fréttatilkynningar sendar á innlenda og erlenda fjölmiðla ásamt bréfinu. Hér heima voru það Morgunblaðið og Svipan sem birtu það (sjá hér og hér) og Smugan fjallaði um það líka (sjá hér) Nokkrir þeirra sem settu nöfn sín undir það birtu bréfið á bloggsvæðum sínum í upphafi vikunnar.

Eins og er höfum við rekist á bréfið á þremur erlendum miðlum. Þ.e. Irish Left Review, á síðu Max Keiser’s og bloggi Dave Harrisson’s. Þetta eru þó ekki einu viðbrögðin sem bréfið hefur fengið. Sendandi bréfsins hefur verið að fá svör og viðbrögð við bréfinu víða að síðastliðna daga m.a. frá einum þingmanni Evrópupingsin og, Michael Hudson. Hann hefur óskað eftir leyfum þeirra til að birta það sem frá þeim hefur komið opinberlega.

Svörin sem hafa borist eru öll til vitnis um mikinn stuðning bréfritara við málstað þeirra Íslendinga sem setja sig upp á móti því að hérlendur almenningur þurfi að bera þungan af skuldum einkarekinna banka. Sumir taka það fram að þeir vænta mikils af  viðspyrnu íslensku þjóðarinnar og sjá fyrir sér víðtæk og jákvæð áhrif í þeirra heimalöndum ef okkur ber gæfa til að hafna þessum samningum.

Hér fyrir neðan fara fjögur fyrstu svörin sem við birtum:

Hressileg baráttukveðja að utan frá einum lesanda bréfsins:

I agree... why should the UK & NL hold the IS people hostage, on behalf
of dodgy banksters!!

Graham Kelly CEO

Michael Hudson, hag- og sagnfræðingur, ætti að vera Íslendingum að góðu kunnur. Hann hafði þetta um bréfið að segja:

Thank you for this letter.

    Actually, Iceland has the authority NOT to pay these debts. It is a basic principle of eocnomic law — and indeed, of moral society — that no economy should be forced into a situation where the public takes such great responsibility for lawbreakers that it must submit to emigration to escape debt.

    There is no reason for Iceland to revert to feudalism, depopulation, emigration. The basic economic principle is that “A debt that cannot be paid under normal circumstances, should not be paid.”

    There also is a basic principle that creditors should take responsibility for bad loans.
    So what amazes me is how Iceland is not pressing its natural rights in this case — not to speak of its legal rights, that already exist.

    Evidently that requires a replacement of many current members of the Althing. I wish I could be brought there to help you.

Sincerely,
Michael Hudson


Kveðja frá Portúgal:

Hello,


Greatings from Portugal, Madeira Island.


I support your cause and I hope you can see in the attached document what portuguese politicians are doing to portuguese People in the last 10 years: they spent more that the Law of the Budget 90.000 bilion euros (between 2000 and 2009).


They call it "international crisis".
The Icelend's People mouvement is censored in Portugal.


Please give notice.


Kind regards,
Pedro Sousa


Kveðja frá Havaí:

good luck, the world is watching your bravery and standing up against the bankers

aloha from hawaii,


what iceland has done....without fighting so far is remarkable on the world scene.
iceland shows peace is possible


if the responsible parties take their responsibilities of greed and dishonesty
so NOT paying back is your best policy.


please see if max keiser or stacy herbert can give you an interview about both:


standing up and not being afraid


being peaceful in your actions


thanks for your bravery
mahalo nui loa carley

 


mbl.is Stuðningsmenn Icesave boða til fundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægar spurningar um Icesave sendar út til ESB

 Við tókum okkur saman nokkur hópur og skrifuðum forseta Evrópusambandsins meðfylgjandi bréf. Í bréfinu förum við stuttlega yfir það sem varðar Icesave-málið í nútíð og fortíð og vörpum fram spurningum til embættismanna ESB og EFTA varðandi lagalegu hlið samningsins, fordæmisgildi hans og viðbrögð ef núverandi samningi verður hafnað.

Hópurinn sem stendur að þessu bréfi á það sameiginlegt að vilja spyrna við fótum gegn því að skuldir einkafyrirtækja verði velt yfir á almenning; bæði hér á Íslandi og annars staðar í heiminum. Bréfið er skrifað í þeim tilgangi að vekja athygli á því sem Icesave-málið snýst raunverulega um en ekki síður hvaða fordæmisgildi það hefur fyrir allan almenning, hér heima og um alla jarðarkringluna, ef þessi nýjasti Icesave-samningur verður samþykktur.

**************************************************************

Íslandi 18.03 2011

Mr Herman Van Rompuy     

European Council
Rue de la Loi 175
B-1048 Brussels

 

Kæri  herra Van Rompuy

 

Haustið 2008 hrundi nánast allt íslenska bankakerfið (90%) á nokkrum dögum og þar með Landsbankinn og útibú hans í London og Amsterdam (Icesave-reikningarnir). Samkvæmt grundvallarreglu EES samningsins virðist jafnréttishugtakið um jafna stöðu allra á markaði vera undirstaða alls samstarfs innan Evrópusambandsins. Það kemur skýrt fram í 1. hluta samningsins um EES eins og hann birtist í íslenskum lögum nr. 2/1993 en þar segir svo í e. lið 2. töluliðar 1. gr:

„að komið verði á kerfi sem tryggi að samkeppni raskist ekki og að reglur þar að lútandi verði virtar af öllum“ (Áhersluletur er bréfritara)

Þarna er beinlínis sagt að ein af grundvallarreglum EES samstarfsins sé að raska ekki samkeppni. Í ljósi þessa verður ekki betur séð en breskum og hollenskum stjórnvöldum hafi borið skylda til að sjá til þess að útibú Landsbanka, í London og Amsterdam, hefði fullgildar tryggingar innlána í Tryggingasjóðum innistæðueigenda í viðkomandi löndum. Annað hefði verið mismunun á markaði annars vegar í óhag fjármagnseigenda en hins vegar til hagsbóta fyrir Landsbankann.

Bretar og Hollendingar tóku Icesave einhliða úr eðlilegum farvegi réttarfars yfir í hið pólitíska umhverfi. Á þeim grundvelli krefja þeir íslenska skattgreiðendur af mikilli hörku um endurgreiðslu þeirra innlána sem tryggð áttu að vera í bresku og hollensku innistæðutryggingakerfi eins og EES reglurnar kveða skýrt á um.

Fyrstu viðbrögð íslenskra stjórnvalda voru að þau hefðu verið beitt ofríki og vildu því fara með málið fyrir dómstóla. Bretar og Hollendingar höfnuðu því en áður höfðu Bretar sett hryðjuverkalög á Ísland og Landsbankann. Bretar stöðvuðu í framhaldinu starfsemi Kaupþings-banka (Singer & Friedlander) í London og féll þá stærsta fjármálafyrirtæki Íslands.

Vegna harkalegra viðbragða Breta og Hollendinga lokaðist fyrir flæði fjármagns til og frá Íslandi. Með því voru ríkisfjármál Íslands tekin í gíslingu. Þess vegna urðu Íslendingar að samþykkja að semja um Icesave-skuldina til að fá aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Krafa AGS um þetta atriði kom fyrir samstilltan þrýsting Breta, Hollendinga og ESB-þjóðanna að gangast undir Icesave-kröfurnar.

Núverandi Icesave-samningar geta kostað okkur hálf fjárlög íslenska ríkisins. Ef neyðarlögin frá því í október 2008 verða dæmd ógild verða Icesave-kröfurnar tvöföld fjárlög ríkissjóðs. Íslenskur almenningur á erfitt með að sætta sig við að bera þessar byrðar vegna fjárglæfrastarfsemi einkabanka. Byrðar sem í raun tilheyra tryggingasjóðum Breta og Hollendinga samkvæmt grunnreglum EES um jafna samkeppnisstöðu útibúa Landsbankans í þessum löndum við aðra banka á sama markaðssvæði.

Íslenska þjóðin mun kjósa um nýjasta Icesave-samninginn þann 9. apríl næst komandi. Við höfnuðum þeim síðasta. Þess vegna finnst okkur undirrituðum áríðandi að fá svör við eftirfarandi spurningum fyrir þann tíma.

1.      Hvers virði eru þríhliða samningar (Icesave samningarnir) þar sem tveir aðilar samningsins hafna eðlilegri málsmeðferð og í krafti aðstöðu sinnar neyða þriðja aðilann að samningaborði til að fjalla um málefni sem allar líkur benda til að séu uppgjörsmál Landsbankans við innistæðutryggingakerfi Breta og Hollendinga?

2.      Hvers vegna var Íslendingum meinað að verja sig fyrir þar til bærum dómstólum um réttmæti krafna Breta og Hollendinga haustið 2008?

3.      Í ljósi þess að Landsbankinn varð að fara eftir breskum lögum hvers vegna var honum þá heimilað að taka við innlánum áður en bankinn var búinn að tryggja sig hjá breska innistæðutryggingasjóðnum?

3.1  Veitti það bankanum ekki óeðlilegt forskot á markaði að vera undanskilinn þeirri kröfu?

3.2  Var hagur breskra neytenda ekki fyrir borð borinn með því að leyfa Landsbankanum að tryggja sig með minni kostnaði en aðrir á markaði?

3.3  Ætlar ESB að láta Breta og Hollendinga komast upp með að brjóta grunnreglur EES samningsins um jafna stöðu fyrirtækja á sama markaði ?

4        Samrýmist það stefnu ESB að þegar einkabanki verður gjaldþrota myndist krafa á skattfé almennings?

5        Er innistæðutryggingakerfi einhvers Evrópulands nógu öflugt til að standa undir falli 90% af bankakerfinu í landi sínu?

6        Hver verða viðbrögð ESB ef íslenskur almenningur hafnar nýjustu Icesave samningunum þann 9. apríl n.k?

 

Virðingarfyllst og með ósk um góð svör

Ásta Hafberg, háskólanemi
Baldvin Björgvinsson, raffræðingur/framhaldsskólakennari
Björn Þorri Viktorsson, hæstaréttarlögmaður
Elinborg K. Kristjánsdóttir, fyrrverandi blaðamaður, nú nemi
Elías Pétursson, fyrrverandi framkvæmdarstjóri
Guðbjörn Jónsson, fyrrverandi ráðgjafi
Guðmundur Ásgeirsson, kerfisfræðingur
Gunnar Skúli Ármannsson, læknir
Haraldur Baldursson, tæknifræðingur
Helga Garðarsdóttir, háskólanemi
Helga Þórðardóttir, kennari
Inga Björk Harðardóttir, kennari/myndlistakona
Karólína Einarsdóttir, líffræðingur og kennari
Kristbjörg Þórisdóttir, kandídatsnemi í sálfræði
Kristján Jóhann Matthíasson, fyrrverandi sjómaður
Pétur Björgvin Þorsteinsson, djákni í Glerárkirkju
Rakel Sigurgeirsdóttir, framhaldsskólakennari
Sigurjón Þórðarson, líffræðingur
Sigurlaug Ragnarsdóttir, listfræðingur
Steinar Immanúel Sörensson, hugmyndafræðingur
Þorsteinn Valur Baldvinsson Hjelm, eftirlitsmaður
Þórður Björn Sigurðsson, starfsmaður Hreyfingarinnar

Afrit sent til ýmissa ráðamanna ESB og EFTA, viðkomandi ráðuneyta Bretlands, Hollands og Íslands auk evrópskra fjölmiðla.


mbl.is Hafnaði boði um að segja af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju NEI við Icesave?

Nei við IcesaveSkoðanir eru skiptar á því hvort sé viturlegra að hafna eða samþykkja nýju Icesave-lögunum. Mikill meiri hluti eigna- og valdastéttarinnar er á því að Íslendingar eigi enga úrkosti aðra en greiða fyrir Icesave-sprell þeirra Björgólfsfeðga. Margt bendir hins vegar til þess að stór hluti almennings ætli sér að segja NEI við Icesave III eins og Icesave II.

Ein þeirra já-raka sem hafa verið endurnýtt í Icesave-þáttunum þremur er að dómstólaleiðin sé ekki fær enda gæti hún reynst skeinuhætt. Auk þess hefur því verið haldið mjög á lofti í öllum þessum þáttum að útilokað sé að ná hagstæðari samningi. Þeir sem halda þessum rökum fram eiga greiðan aðgang að fjölmiðlunum sem langflestir eru í eigu þeirra aðila sem hafa beinna hagsmuna að gæta varðandi það að Icesave-sukkið dæmist á þjóðina en ekki á þá sjálfa eða hagsmunatengda aðila.

Þeir sem vilja vara við rökum eins og þeim sem eru tilgreind hér að ofan eiga síður aðgang að fjölmiðlum enda tilheyra margir þeirra aðeins „sauðsvörtum“ almúganum. Meðlimir Samstöðu þjóðar gegn Icesave, sem allir eru á móti núverandi samningum, svíður undan því að horfa upp á það  ójafnvægi sem kemur fram á milli já- og nei-viðhorfana varðandi Icesave III í öllum stærstu miðlum landsins og gripu því til sinna ráða.

Í samstarfi við Lifandi mynd boðuðum við bæði lærða og leika, sem hafa opinberað það að þeir muni hafna nýju Icesave-lögunum í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu, niður á Austurvöll. Þar voru þeir spurðir út í það hvað grundvallaði afstöðu þeirra. Afraksturinn eru tvö myndbönd. Það fyrra var sett inn á heimasíðu samstöðuhópsins í gær (Sjá hér) Það seinna er væntanlegt þar um eða upp úr næstu helgi. Næstu daga munu líka valin viðtöl birtast stök á heimasíðunni samstöðunnar.

Hér fyrir neðan er 1. hlutinn en spurningin sem var lögð fyrir viðmælendur er einfaldlega: „Hvers vegna ætlar þú að segja NEI við nýju Icesave-lögunum í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu?“ Mig langar til að nota tækifærið og hvetja alla, sem áhuga hafa, til að deila og dreifa þessari upptöku hér á Netinu.

 



Ég bendi á að Svipan er búin að birta frétt af útkomu þessa myndbands og vinna lista yfir helstu rök sem koma fram í svörum viðmælenda. (Sjá hér)
mbl.is Á annað hundrað kusu í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áður en þolinmæðin verður banvæn!

Við Sigurlaug Ragnarsdóttir, betur þekkt sem Cilla Ragnars, höfum verið í Bítinu á Bylgjunni tvo síðastliðna fimmtudagsmorgna. Þar höfum við rætt það sem aflaga hefur farið í samfélaginu, hvernig það hefur farið með okkur og hvað við getum gert til að breyta því. Við verðum þar aftur í fyrramálið upp úr kl 7:30.

Allir sem hafa tekið þátt í viðspyrnunni frá haustinu 2008 hljóta að þekkja Cillu Ragnars eða heyrt á hana minnst. Fyrir þá sem eru að sjá nafn hennar í fyrsta skipti skal bent á að Cilla var ein þeirra sem bauð sig fram til stjórnlagaþings en í kynningu sinni fyrir kosningarnar til þess segir hún:

Ég lít svo á að stjórnarskráin eigi að endurspegla í hvernig samfélagi við viljum búa og hvernig stjórnsýslan eigi að virka. Þá er mikilvægt að við skilgreinum hvaða kröfur við gerum til valdhafanna og hver ábyrgð þeirra er gagnvart hinum almenna borgara.

Haustið 2008 bjó ég sjálf á Akureyri þar sem ég byrjaði  viðspyrnuna með því að taka þátt í reglulegum mótmælagöngum sem voru gengnar þar á hverjum laugardegi. Sigurbjörg Árnadóttir stóð að nokkrum borgarafundum þetta haust en ég og fleiri fórum inn í utanumhald þeirra með henni í upphafi ársins 2009. Þeir sem hafa fylgst með þessu bloggi frá þessum tíma kannast væntanlega við ýtarlegar fundargerðir sem ég tók saman fyrir þennan vettvang.

Cilla Ragnars var hins vegar hér. Ég fylgdist með henni úr fjarlægð og undraðist kraft hennar og afköst. Ég hitti hana fyrst í desember 2008 og það var engu líkara en við hefðum alltaf þekkst. Leiðir okkar hafa margsinnis legið saman síðan í ýmis konar viðspyrnuverkefnum enda hugmyndir okkar og skoðanir í meginatriðum af sama meiði.

Hér að neðan eru krækjur í báðar heimsóknir okkar í Bítið. Í fyrstu heimsókninni byrjuðum við á að rekja það í stuttu máli hvar við vorum haustið 2008 og hvert fyrstu viðbrögð okkar þá hafa leitt okkur. Við minnum á þær kröfur sem komu fram mjög snemma í mótmælunum um neyðar- og/eða utanþingsstjórn. Slíkri stjórn var ætlað að bregðast við því alvarlega ástandi sem blasti við okkur þá. Þá minnum við á svar stjórnvalda sem voru kosningar sem var auðvitað öruggasta flóttaleiðin undan þessari kröfu.

Kosningabaráttan 2009 bar öll merki þess sem koma skyldi. Það hefur líka komið á daginn að stjórnvöld ætla engu að breyta. Hagsmunir fjármálakerfisins eru svo samofnir þeirri stjórnmálastétt sem hefur lagt undir sig alþingishúsið að það hvarflar ekki að þeim að breyta neinu. Raunveruleg stefna vel flestra þingmanna gömlu flokkanna er að einkavæða gróðann og þjóðnýta tapið. Þegar litið er til baka yfir það sem hæst hefur borið í pólitíkinni frá haustinu 2008 rekur líka hvert dæmið annað þessu til staðfestingar.

Nýtt Ísland

Það er ekkert nýtt að kosningarloforð hafi verið brotin en ein stærsta krafan í mótmælunum haustið 2008 var sú að hér færi fram uppgjör. Það vantaði ekki að hér væri skipuð nefnd til að rannsaka það sem aflaga fór og leiddi til efnahagshrunsins. Afraksturinn var Rannsóknarskýrslan sem kom út fyrir tæpu ári síðan.  Það fer hins vegar lítið fyrir uppgjörinu þó af og til komi fram nær þriggja ára gamlar fréttir um það hvernig bankar og fjármálafyrirtæki voru rekin í aðdraganda hrunsins.

Það hefur blasað við hverjum hugsandi manni í a.m.k. tvö og hálft ár að þessi fyrirtæki voru að miklu leyti rekin eins og þau hafi verið í höndum mafíóista. Miðað við þær litlu afleiðingar sem þessi staðreynd hefur haft á afkomu og líf gerandanna þá er eðlilegt að gera ráð fyrir gagnkvæmum hagsmunatengslum gömlu flokkanna og viðskiptalífsins. Margir núverandi þingmenn hafa styrkt  þessa ályktun bæði með orðum sínum og gjörðum.

Margir vinstri menn bundu við það vonir að sú „vinstri stjórn sem nú situr við völd“ myndi  rétta við hlut almennings en þeim fer stöðugt fækkandi sem ráða við að horfa fram hjá þeirri staðreynd að dekur núverandi stjórnar við forkólfa efnahags- og viðskiptalífs er síst minna en í stjórnartíð hægri stjórna. Stjórn og stjórnarandstaða virðast líka afar samstíga hvað þessa forgangsröðun varðar þó vissulega séu það alltaf einhverjir sem reyna að beita sér fyrir hagsmunum almennings.

Undir lok viðtalsins sl. fimmtudag vikum við aðeins að því hvað er til ráða en við fjöllum ítarlegar um það á morgun. Þeir sem misstu af upphafinu geta hlustað á báðar upptökurnar hér fyrir neðan þar sem krækjurnar leiða inn á þær.

Bylgjan | 24. Febrúar. 2011

Í Bítið - Rakel Sigurgeirsdóttir og Sigurlaug Ragnarsdóttir um betra samfélag, nýtt Ísland

Bylgjan | 3. Mars. 2011

Í Bítið - Rakel Sigurgeirsdóttir og Sigurlaug Ragnarsdóttir áhugamanneskjur um betra Ísland 

Þeir sem hafa ekki enn kynnt sér kröfuna um utanþingsstjórn geta gert það hér.


mbl.is Látnir lausir á 8. tímanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svarbréf frá Gylfa Arnbjörnssyni við opnu bréfi

Þ. 23. febrúar sl. sendu eftirtaldir: Ásta Hafberg, Björk Sigurgeirsdóttir, Gunnar Skúli Ármannsson, Elías Pétursson, Jón Lárusson, Kristbjörg Þórisdóttir, Ragnar Þór Ingólfsson og Rakel Sigurgeirsdóttir, Gylfa Arnbjörnssyni og Guðbjarti Hannessyni opið bréf (sjá hér) Erindi bréfsins var svohljóðandi spurning: Hvernig myndir þú, ágæti Guðbjartur/Gylfi, ráðleggja fólki að ná endum saman með áðurnefndum hundrað og sextíuþúsund króna tekjum á mánuði?

Svar hefur borist frá Gylfa Arnbjörnssyni, forseta Alþýðusambands Íslands, sem við höfum fengið leyfi til að birta. Væntanlega mun allur hópurinn birta það á bloggunum sínum auk þess sem fjölmiðlum verður sent þetta svar en hér er svarbréfið frá Gylfa:

Reykjavík, 28.febrúar 2011

Ágætu viðtakendur.

Ég vil byrja á að þakka ykkur fyrir bréfið og tek heilshugar undir mikilvægi þess að fram fari vönduð og góð umræða um stöðu þeirra hópa sem veikast standa í okkar samfélagi og með hvaða hætti við getum tryggt að allir landsmenn búi við mannsæmandi kjör og hafi tækifæri til virkrar samfélagþátttöku.

Umræðan um neysluviðmið og framfærsluþörf er flókin og vekur upp ýmsar áleitnar spurningar sem erfitt er að svara með algildum hætti, oftast er hér um að ræða huglægt og persónulegt mat manna sem seint verður óumdeilt. Skoðun mín hefur verið sú að rétt væri í þessu samhengi að horfa til alþjóðlegra mælikvarða og meta umfang vandans þannig að horft sé til þess hversu stór hluti þjóðarinnar hefur ráðstöfunartekjur sem eru lægri en gengur og gerist í því samfélagi sem um ræðir. Evrópusambandið skilgreinir þann hóp sem er undir s.k. lágtekjumörkum sem þau heimili sem hafa lægri ráðstöfunartekjur en sem nema 60% af miðgildi ráðstöfunartekna. Í þessu flest tilraun til þess að bæði meta umfang fátæktar í samfélagi út frá tekjum fremur en að meta þörf fólks fyrir ýmsa neyslu og einnig setja fram skilgreint markmið fyrir bæði stjórnvöld og aðila vinnumarkaðar að vinna eftir við ákvörðun lægstu launa og bóta.   

Öllum má vera ljóst að þau heimili sem þurfa að framfleyta sér á bótum eða lágmarkslaunum búa mörg við kröpp kjör. Hér er fyrst og fremst um samfélagslegt viðfangsefni að ræða, sem snýst um það með hvaða hætti við skiptum þeim lífsgæðum sem þjóðin býr yfir. Vissulega hefur verkalýðshreyfingin veigamikið hlutverk í þeim efnum í gegnum aðkomu sína að gerð kjarasamninga en pólitísk sýn og aðgerðir stjórnvalda í efnahags- og félagsmálum ráða hér úrslitaáhrifum um hvernig til tekst. Verkalýðshreyfingin hefur í baráttu sinni lagt áherslu á að stjórnvöld nýti þá möguleika sem í skattkerfinu felast til þess að hafa áhrif á tekjuskiptingu í samfélaginu og tryggi með pólitískri stefnu sinni félagslegt jafnrétti á sem flestum sviðum s.s. í mennta- og heilbrigðismálum svo ekki sé talað um það sem snýr að velferð og uppvexti barna og ungmenna. Allt eru þetta þættir sem varða miklu möguleika fólks til virkni og velfarnaðar í nútíma samfélagi.

 Á síðustu árum hefur góð samstaða verið um það innan verkalýðshreyfingarinnar að leggja megin áherslu á að bæta kjör þeirra hópa sem lakast standa, þetta hefur endurspeglast í áherslum í kjarasamningum og í kröfum gagnvart stjórnvöldum. Samið hefur verið um hækkanir á lægstu laun talsvert umfram almennar launahækkanir og kröfur gerðar á stjórnvöld í tengslum við kjarasamninga um hækkun á bótum almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga auk þess sem rík áhersla hefur verið á að auka tekjujöfnunarhlutverk skattkerfisins m.a. í gegnum hækkun persónuafsláttar og hækkanir á barna- og húsnæðisbótum.

Í nýlegum samanburði á stöðu lægstu launa innan Evrópusambandsins kom í ljóst að Ísland er enn í hópi þeirra ríkja sem hafa hæst lágmarkslaun. Fyrir hrun krónunnar árið 2008, í kjölfar alvarlegustu hagstjórnarmistaka sem sögur fara af, var raungildi lægstu launa enn hærra og vorum við hæst í Evrópu. Einnig kom fram í þessari könnun, að ef lægstu laun eru sett í hlutfall við meðallaun í viðkomandi löndum, var það hlutfallið hæst hér á landi. Þetta sýnir betur en nokkuð annað þann mikla árangur sem stefna verkalýðshreyfingarinnar um að hækka lægstu laun umfram almennar launahækkanir hefur skilað. Í yfirstandandi kjaraviðræðum er ljóst, að þrátt fyrir áherslu á að tryggja aukin kaupmátt með almennum launahækkunum, er uppi þessi sama áhersla á jöfnun kjara. Í síðasta kjarasamningi tókst okkur að tryggja óbreyttan kaupmátt lágtekjuhópanna þrátt fyrir mestu efnahagskreppu Íslandssögunnar. Nú getum við byggt ofan á þann grunn og aukið kaupmátt lágtekjuhópanna þannig að við endurheimtum stöðu okkar í fremstu röð.

Virðingarfyllst,

Gylfi Arnbjörnsson

Forseti Alþýðusambands Íslands


Ég bendi áhugasömum á krækju í fréttabréf ASÍ sem Gylfi benti  en það fjallar um lögbundin lágmarkslaun í Evrópu árið 2011 og frétt sem Eyjan byggir á því. Hópurinn sem stóð að opna bréfinu, sem er tilefni bréfsins frá Gylfa hér að ofan, undirbýr viðbrögð við svarbréfi hans sem munu líka vera gerð opinber.


Opið bréf til Guðbjarts og Gylfa

Undanfarin misseri hafa fjölmargir einstaklingar reynt að ná eyrum valdsins með afar fjölbreytilegum aðferðum. Sumir hafa aðhyllst fundarhöld  en einhverjir halda því fram að beinar aðgerðir séu mun líklegri til að skila árangri. Loks eru það þeir sem telja að blogg og greinarskrif séu líklegust til að ná árangri í þeim tilgangi að koma sjónarmiðum á framfæri þannig að eftir þeim verði tekið.

Nú hafa nokkrir þeirra sem hafa ítrekað reynt að ná eyrum valdhafa og forystumanna samfélagsins tekið sig saman og ákveðið að fara að fordæmi AGS-hópsins sem tók sig saman haustið 2009 og átti í bréfasamskiptum við Dominique Strauss (sjá t.d. hér). Markmið þeirra einstaklinga sem hafa tekið sig saman að þessu sinni er að fá svör frá ráðamönnum við áleitnum spurningum um ýmis konar málefni sem varða líf og kjör íslensks almennings.

Þeir eru átta sem skrifa undir þetta fyrsta bréf en það hefur verið sent á velferðarráðherra og forseta ASÍ.

Reykjavík 23. febrúar 2011

Ágæti, Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra.

Viss hluti samlanda okkar þarf að lifa á lágmarkskjörum frá einum mánaðamótum til þeirra næstu. Til þessa hóps teljast: öryrkjar, ellilífeyrisþegar, atvinnulausir, félagsbótaþegar og starfsmenn á lágmarkslaunatöxtum. Flestallir sem koma að ákvörðun um hversu mikið einstaklingar í þessum hópum hafa úr að spila hafa margfalt hærri tekjur og eru sökum þess illa búnir til að meta aðstæður skjólstæðinga sinna rétt.

Heildartekjur upp á 160 þúsund krónur á mánuði er staðreynd fyrir stóran hóp Íslendinga. Bæði rannsóknir þinna eigin starfsmanna, sérfræðinga og hyggjuvit meðalmannsins benda ótvírætt til þess að nánast ómögulegt sé að ná endum saman með fyrrnefndri upphæð.

Eftir umfangsmikla vinnu á vegum velferðarráðuneytisins var nýlega lögð fram ákaflega gagnleg skýrsla um neysluviðmið (sjá hér). Hún er vel unnin í alla staði og gefur góða vísbendingu um hvað fólk þarf að lágmarki til að framfleyta sér.

Vegna þessarar skýrslu var sett upp reiknivél (sjá hér) á vef ráðuneytisins. Samkvæmt henni þarf einstaklingur í leiguíbúð 300.966 krónur í ráðstöfunarfé til þess að eiga fyrir nauðþurftum og öðru sem telst til mannréttinda eins og húsnæði og virkri þátttöku í samfélaginu.

Í ljósi alls þessa leitum við til þín með eftirfarandi spurningu:

Hvernig myndir þú, ágæti Guðbjartur, ráðleggja fólki að ná endum saman með áðurnefndum hundrað og sextíuþúsund króna tekjum á mánuði?

Ráðleggingar þínar gætu orðið upphafið að bættri umræðu um núverandi vandamál þeirra einstaklinga sem glíma við þessa spurningu 12 sinnum á ári.

Virðingarfyllst og með ósk um svör,

Ásta Hafberg
Björk Sigurgeirsdóttir
Gunnar Skúli Ármannsson
Elías Pétursson
Jón Lárusson
Kristbjörg Þórisdóttir
Ragnar Þór Ingólfsson
Rakel Sigurgeirsdóttir


Bréf með sömu fyrirspurn var send á Gylfa Arnbjörnsson, forseta Alþýðusambands Íslands, og afrit á alla fjölmiðla.


Við eigum auðvitað rétt á upplýsingum!

Sumir tala um að áróðursstríðið varðandi nýja Icesave-samninginn sé hafið og eflaust eru það einhverjir sem vilja meina að það sé allt fyrir tilveru þess hóps sem kallar sig Samstöðu þjóðar gegn Icesave. Þetta er auðvitað mikil einföldun og reyndar alls ekki rétt að hópurinn sem slíkur hafi staðið fyrir einhverju sem mætti líkja við stríð.

kjósum!

Ég og Sveinn Tryggvason vorum í Bítinu á Bylgjunni í morgun og þar hvöttum við alla sem hugsa sér að fara í áróðursstríð að skipta um kúrs og sýna væntanlegum kjósendum í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu þá virðingu að leggja áherslu á að upplýsa þá um nýja Icesave-samkomulagið. Stjórnmálamennirnir ættu að sjálfsögðu að draga sig í hlé. A.m.k. þeir sem hafa sýnt sig í því að fara beinlínis með rangt mál í yfirlýsingum sínum varðandi fyrri samninga en það er hæpið að þeir standist mátið og kannski enn hæpnara að þeir verði látnir í friði.

Við eigum færa lögfræðinga og hagfræðinga, við eigum einstaklinga sem hafa fylgst með samningaferlinu frá upphafi. Sumir hafa kynnt sér eðli allra samninganna og breytingarnar sem hafa orðið á þeim. Steingrímur J. Sigfússon sagði í Kastljósi sl. mánudagskvöld að þetta mál snerist fyrst og fremst um hagsmuni og eðlilega veltir maður fyrir sér hagsmuni hverra hann hann á við. Frá mínum bæjardyrum séð eru það hagsmunir fjármálafyrirtækjanna og þeirra sem bera hina raunverulegu ábyrgð.

Við í hópnum Samstaða þjóðar gegn Icesave viljum hins vegar verja hagsmunum almennings í þessu máli. Áskorunin um að nýi Icesave-samningurinn færi í þjóðaratkvæðagreiðslu var fyrsti áfanginn í því. Næst viljum við að samingurinn hljóti kynningu. Við ætlum að leggja okkar að mörkum til þess. Við erum með síðu inni á Fésbókinni þar sem við munum setja inn fréttir og greinar um þjóðaratkvæðagreiðsluna og Icesave-samningana. (Sjá hér)

Vefsvæðið kjósum.is verður hins vegar nýtt til að birta greinar og önnur skrif sem innihalda upplýsingar um það hvað mælir gegn hinum nýja Icesave-samningi. Væntanlega verður vefurinn tilbúinn fyrir slíkar birtingar fyrir vikulokin. Þeir sem hafa fylgst með kosningunni þar inni hafa sennilega fengið rækilegt veður af því að hópurinn sem stóð að baki henni er afar fjölbreyttur. Við erum þó sammála um það að okkur finnst nýi samningurinn ekki ásættanlegur.

Nei við IcesavePersónulega mun ég segja nei við þessum samningi. Fram að kosningum mun ég draga fram ástæður mínar fyrir því en hér ætla ég að nota tækifærið og ljúka við tvennt sem mér tókst ekki að ljúka við í viðtalinu sem ég vísaði í hér að ofan. Í fyrsta lagi langar mig til að ítreka það að 8. greinin, sem var í fyrsta Icesave-samkomulaginu, var felld út úr í Icesave II. Þeir sem höfnuðu lögunum um ríkisábyrgð af þeirri ástæðu skal bent á að í Icesave III er heldur ekkert sem kemur í stað hennar en þar stóð:

8. gr. Endurheimtur á innstæðum.
Ríkisstjórnin skal þegar í stað grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana sem þarf til að endurheimta það fé sem safnaðist inn á Icesave-reikningana. Í þeim tilgangi skal ríkisstjórnin fyrir 15. október 2009 hafa frumkvæði að samstarfi við þar til bæra aðila, m.a. yfirvöld í Bretlandi, Hollandi og Evrópusambandinu, og óska aðstoðar þeirra við að rekja hvert innstæðurnar af Icesave-reikningunum voru fluttar. Ríkisstjórnin skal fyrir árslok 2009 semja áætlun um hvernig reynt verður að endurheimta það fé sem kann að finnast.


Í því skyni að lágmarka ríkisábyrgð samkvæmt lögum þessum skal ríkisstjórnin einnig gera ráðstafanir, í samráði við þar til bæra aðila, til þess að þeir sem kunna að bera fjárhagsábyrgð á þeim skuldbindingum sem stofnast hafa vegna Icesave-reikninganna verði látnir bera það tjón. (leturbreytingar eru mínar)

Annað atriði sem mér tókst ekki að klára í viðtalinu varðar hinar mörgu hliðar Icesave-samkomulagsins. Sumir tala um að það snúist um hagsmuni annars vegar en réttlæti hins vegar. Það má líka skoða það út frá eftirtöldum þremur þáttum: Efnahagslegum, lagalegum og siðferðislegum.

Réttlætið er auðvitað nátengt þeirri siðferðislegu kröfu að almenningur eigi ekki að borga skuldir auðmanna. Icesave II og nýi samningurinn tekur af allan vafa um það hvar ríkisstjórnirnar, sem koma að þessum samningi, standa í þessu efnum. Í þeirra augum eru það hagsmunir fjármálakerfisins sem ríkja yfir réttlæti almennings. Ég leyfi mér að efast um að breskum og hollenskum almenningi verði neinn greiði gerður með því að íslenskur almenningur, sem fær ólíkt þeim tækifæri til að eiga síðasta orðið, færi þannig með það að hann tæki undir þetta sjónarmið!


mbl.is Óviðunandi ábyrgðarleysi forsetans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir vinna skipulega gegn lýðræðinu

Það er undarlegt að búa í samfélagi þar sem ráðandi stéttir; s.s. stjórnmálamenn og fjármagnseigendur, leggjast af öllum sínum þunga gegn lýðræðinu. Það er dapurlegt að horfa upp á subbulegar aðferðir þeirra. Það er virkilega sorglegt að sjá hve margir skíta sjálfa sig út á því að gegna erindum þessara stétta í þeim tilgangi að hindra það beinlínis að þjóðin geti haft afgerandi áhrif á tilveru sína og framtíð.

Það er ekki bara stjórnlagaþingið sem hefur orðið fórnarlamb þess konar skæruhernaðar heldur hvers konar viðleitni fjölmargra einstaklinga sem leggja sumir hverjir nótt við dag við að sporna gegn því einræði sem stjórnvöld hafa snúist til á undanförnum árum. Ein þeirra leiða er að ná til fólks með undirskriftarlistum. Með því móti er gjarnan sett fram krafa og/eða áskorun sem stríðir gegn hugmyndum stjórnvalda. Áskoruninni er þá gjarnan beint til stjórnmálamanna og/eða forsetans.

kjosum.is

Þetta á t.d. við um áskorunina sem hópurinn Samstaða þjóðar gegn Icesave setti fram nú á dögunum undir slóðinni kjósum.is Það er greinilegt að þeir eru margir sem styðja þessa áskorun enda varla við öðru að búast miðað við það að nýleg skoðanakönnun MMR sýndi að 62% aðspurðra vildu að íslenska þjóðin fengi „að segja álit sitt á nýjasta Icesave-samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu.“ (Sjá frétt á mbl.is hér)

„Tillaga um að bera Icesavesamninginn undir atkvæði þjóðarinnar var felld á Alþingi með 33 atkvæðum gegn 30.“ (sjá hér) Þrátt fyrir þennan litla mun er ljóst að það eru valdamiklir einstaklingar og ráðandi öfl sem óttast ekkert meira en það að lagafrumvarið um Icesave-samninginn verði fellt ef það ratar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Frá því að áskorunin um þjóðaratkvæði kom fram á kjosum.is  hefur meiri hluti þingheims verið í spretthlaupi undan lýðræðinu. Þessir hafa algerlega hundsað þann hluta áskorunarinnar sem er beint til þeirra og beitt ýmis konar vopnum til að draga úr gildi þess að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um lagafrumvarpið.

Áróðursrefir og alltof margir fjölmiðlar hafa lagst á sveif með þeim og reynt að draga úr trúverðugleika undirskriftarsöfnunarinnar. Það er vissulega sorglegt að horfa upp á það að fulltrúar valdsins, sem ættu ávallt að hafa hag þjóðarinnar í fyrirrúmi, skuli leggja allt sitt hugvit í það að grafa undan tækifærum almennings til að hafna samningi sem mun hafa verulegar og afgerandi afleiðingar á lífskjör hans í framtíðinni.

Jónas KristjánssonMerkilegast hefur verið að fylgjast með tveimur bloggurum sem hafa áunnið sér þann vafasama sess að stýra skoðunum lesenda sinna. Hér á ég við þá Teit Atlason og Jónas Kristjánsson sem hafa gert sig seka um allt annað en það að umgangast þann sess af virðingu við þá meginreglu að „hafa það sem sannara reynist“. Upphrópanirnar og sleggjudómarnir, sem þeir viðhafa án þess að vísa til heimilda eða geta þess hvað gerir þá að sérfræðingum í þeim málefnum sem þeir gerast æðstu dómarar í, bera hvorki vott um virðingu fyrir sannleikanum né fólki almennt. 

Í reynd hafa þeir lesendur sína að ginningarfíflum og þess vegna virkilega umhugsunarvert hvers vegna fólk yfirleitt hefur fyrir því að fylgjast með þeirri sorpblaðamennsku sem þeir viðhafa á bloggum sínum. Þeim er sennilega báðum fullkunnugt um vald sitt sem þeir beita af svívirðilega lítilli virðingu fyrir lesendum sínum. Óneitanlega veltir maður markmiðum þeirra fyrir sér þar sem það liggur í augum uppi að þeir kunna hvorki að koma fram af yfirvegun eða heiðarleika. Þetta mátti m.a. sjá í Kastljósinu í gærkvöldi þar sem Teitur opinberaðist í þeim eina tilgangi sínum að eyðileggja fyrir því að þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave III næði fram að ganga. (sjá hér)

Teitur AtlasonEf Teitur hefði útskýrt það fyrir mér hvað gerði hann að sérfræðingi í undirskriftarsöfnunum af þessu tagi. Ef hann hefði sleppt öllum upphrópununum og sleggjudómum. Ef hann hefði einhvern tímann hlustað á Frosta í öðrum tilgangi en snúa út úr einstaka orðalagi sem andmælandi hans viðhafði.  Ef hann hefði verið málefnalegur í gagnrýni sinni. Ef hann hefði útskýrt tilgang sinn þá gæti hann gert þá kröfu að á hann sé hlustað en í augnablikinu verður hann að horfast í augu við það að hann er búinn að skjóta sjálfan sig út af borðinu sem álitsgjafi sem mark er takandi á

Allt hugsandi fólk ætti að vera búið að sjá í gegnum það að Teitur og Jónas eru ekkert annað en áróðursvélar. Þetta hafa skynsamir og málefnalegir menn sýnt fram á á yfirvegaðan og málefnalegan hátt. Sjá þessa færslu Marinós G. Njálssonar og þessa frá Viggó H. Viggóssyni. Marinó segir á sínu bloggi varðandi það sem Teitur hefur einkum gagnrýnt.

Sumir eru bara ekki stærri persónur en svo, að þeir hafa þörfina til að skemma fyrir öðrum.  Þeir verða að eiga það við sína siðgæðisvitund.  Ekkert ferli stoppar einstakling í þeim eindregna ásetningi sínum að koma fram illum vilja.  Hlutverk öryggisráðstafana í þessu tilfelli er ekki að koma í veg fyrir bullskráningar heldur að uppgötva þær áður en listinn er sendur forseta Íslands.

Viggó bendir á það augljósa þegar hann segir: „Þeir sem halda því fram að aðrar undirskriftasafnanir hafi verið "betri" þurfa að sýna fram á það, ekki dugir að slengja því fram án stuðnings.“ en mig langar til að bæta því við að þó hægt væri að sýna fram á það að aðrar „undirskriftarsafnanir hafi verið betri“ þá teljast það engan vegin gild rök varðandi það að þeir sem standa að baki kjosum.is hafi viðhaft eitthvert svindl.

Teitur hefur hins vegar verið staðinn að slíku sjálfur. Honum virðist nefnilega vera svo umhugað um öryggi skoðanakannanna að hann gleymir að til að koma upp um  „falsarana“ þá gengur ekki að nota fölsuð gögn sjálfur (sjá hér) nema tilgangurinn sé áróður sem getur leitt til múgæsingar...


mbl.is Sjálfstæðismenn í Kópavogi skora á forsetann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að þeir skuli voga sér!

Menn hafa velt því fyrir sér bæði innan og utan veggja alþingishússins hvort sú flýtimeðferð sem Icesave-frumvarpið gengur í gegnum núna stafi af þeim góðu undirtektum sem undirskriftarsöfnunin inni á kjosum.is

Í þessum skrifuðu orðum eru þeir að komast upp í 28.000 sem hafa skrifað undir áskorun til forsetans um að vísa því til þjóðaratkvæðagreiðslu hvort almenningur eigi að greiða Icesave-reikninga Landsbankans. Undirtektir eru framast björtustu vonum en það var þó ljóst strax og undirskriftarsíðan fór í loftið að langstærsti hluti almennings tók henni fagnandi.

Hinir sem hafa hag af dekri stjórnvalda við fjármagnseigendur og stofnanirnar sem þeir stýra hafa reynt að reka alls kyns áróður varðandi þá sem höfðu frumkvæðið að því að koma henni í loftið. Þeirra á meðal er Björn Valur Gíslson sem kallar þá sem standa að baki henni m.a. hægri öfgamann en virðist um leið algerlega fyrirmunað að átta sig á öfgunum í því sem hann stendur fyrir með orðum sínum og gjörðum inni á þingi þessa daganna. (Sjá hér)

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir hefur tekið að sér að benda honum á öfganna í því sem hann gerir sig beran af fyrir framgöngu hans bæði á þingi og öðrum opinberum vettvangi. Jakobína segir m.a: „Fátt hef ég rekist á öfgafyllra um daganna en eindreginn vilja til þess að verða við ólögmætum kröfum Breta og Hollendinga.

Ég hef starfað í mörgum aðgerðar- og/eða viðspyrnuhópum en engum sem er eins stór og þessi. Það sem vekur sérstaka athygli mína við þennan hóp er það hve fjölbreyttur hann er en um leið fókuseraður á meginmarkið sitt sem er það að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um svo afdrifaríkan samning sem Icesave-samingurinn er. Það er líka annað sem vekur sérstaka athygli mína en það er hversu lýðræðislega meðvitaðir allir í hópnum eru sem kemur best fram í því hvernig við vinnum saman þrátt fyrir ólíkan bakgrunn, aðstæður og skoðanir til jafnvel annarra þátta sem viðvíkur Icesave.

Auðvitað þarf að hafa fyrir því að koma skoðun sinni að í svona stórum hópi en þannig virkar lýðræðið. Það þarf nefnilega að ræða málin til að komast að niðurstöðu. Slíkt tekur ekki aðeins tíma heldur reynir líka á þolinmæðina oft og tíðum. Þessi vinna er það sem hvert og eitt okkar verður að læra til að við sitjum ekki uppi með spillta stjórnmálamenn sem voga sér að „leggja þjóð sína í klafa fyrir [...] glæpahunda og þjófa.“ Hlustið á þessa áttræðu konu sem ég hef þessi orð eftir en hún hringdi inn á Útvarp Sögu á dögunum og las bæði þingi og þjóð pistilinn:

 

Að lokum vil ég benda öllum að lesa þessa færslu Völu Andrésdóttur. Mig langar mest til að birta hann allan fyrir það hvað hvað hann er kynngimagnaður en ákvað að fara millileiðina og vísa í tvo valda kafla úr þessari kynngimögnuðu færslu hennar:

Hvort núverandi Icesave tilbúningur er örlítið "betri" en einhver fyrri tilbúningur skiptir mig nánast engu máli því ég er einnig þeirrar skoðunar að allir erlendir einkabankaskuldafjötrar sem Alþingi reynir að setja á íslenskan almenning (án þess að skuldaþrælarnir íslensku gefi fyrir því skýrt samþykki með þjóðaratkvæði eða stjórnarskrárbreytingu) eru ekki bara siðlausir heldur ganga þeir þvert á náttúrurétt einstaklinga sem búa í stjórnarformi því sem við köllum lýðveldi.

Náttúruréttur einstaklinga eru hin óafsalanlegu mannréttindi sem við fáum frá skaparanum/náttúrunni.  Í lýðveldi heldur þjóðin þessum grundvallarréttindum utan stjórnvaldsins og því getur stjórnvaldið hvorki veitt þau né tekið.  Þessi grundvallarréttindi saklauss manns til lífs (sem er tími hans á þessari jörð), frelsis og eigna eru þó ekki nema stafur í bók ef ódæmdur einstaklingur getur, án síns samþykkis, verið neyddur af stjórnvaldi til þess að gefa líf sitt og eigir (í hluta eða heild) til aðila sem eru honum réttarfarslega ótengdir.

Pistlinum lýkur hún á þessum sterku lokaorðum:

Ég get ekki spáð fyrir um afleiðingar þess að hafna samningnum en ég tel síðustu mánuði og ár hafa sýnt það að gagnaðilarnir ýkja þær stórum.  Ég tel einnig að þó þær verði slæmar geta þær seint verið jafn slæmar og það fordæmi að hægt sé fyrir vel tengda menn að fara til útlanda, láta greipar sópa, skeina sig á stjórnarskránni og senda skuldirnar á saklausa íslenska skattgreiðendur, börn þeirra og barnabörn. Né heldur það fordæmi að leyfa almannaþjónunum á Alþingi að breyta hinni heilögu goggunarröð íslensks lýðveldis:

1. Skaparinn/Náttúran

2. Maðurinn

3. Stjórnarskráin

4. Stjórnkerfið

Það er alveg sama hvernig Icesave er pakkað inn, innihaldið er alltaf það sama - frekari kollvörpun stjórnarskrárinnar og íslensks lýðveldis í þágu erlends skuldaþrældóms af þriðjaheimsklassanum.  Íslendingar eru betri þjóð en svo að láta jafn blygðunarlaust óréttlæti líðast hvort sem heldur innanlands eða utan.

Versta frelsi er betra en besti þrældómur. (Vala Andrésdóttir (leturbreytingar eru mínar)


mbl.is Gagnrýna leynd um skuldastöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband