Við eigum auðvitað rétt á upplýsingum!

Sumir tala um að áróðursstríðið varðandi nýja Icesave-samninginn sé hafið og eflaust eru það einhverjir sem vilja meina að það sé allt fyrir tilveru þess hóps sem kallar sig Samstöðu þjóðar gegn Icesave. Þetta er auðvitað mikil einföldun og reyndar alls ekki rétt að hópurinn sem slíkur hafi staðið fyrir einhverju sem mætti líkja við stríð.

kjósum!

Ég og Sveinn Tryggvason vorum í Bítinu á Bylgjunni í morgun og þar hvöttum við alla sem hugsa sér að fara í áróðursstríð að skipta um kúrs og sýna væntanlegum kjósendum í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu þá virðingu að leggja áherslu á að upplýsa þá um nýja Icesave-samkomulagið. Stjórnmálamennirnir ættu að sjálfsögðu að draga sig í hlé. A.m.k. þeir sem hafa sýnt sig í því að fara beinlínis með rangt mál í yfirlýsingum sínum varðandi fyrri samninga en það er hæpið að þeir standist mátið og kannski enn hæpnara að þeir verði látnir í friði.

Við eigum færa lögfræðinga og hagfræðinga, við eigum einstaklinga sem hafa fylgst með samningaferlinu frá upphafi. Sumir hafa kynnt sér eðli allra samninganna og breytingarnar sem hafa orðið á þeim. Steingrímur J. Sigfússon sagði í Kastljósi sl. mánudagskvöld að þetta mál snerist fyrst og fremst um hagsmuni og eðlilega veltir maður fyrir sér hagsmuni hverra hann hann á við. Frá mínum bæjardyrum séð eru það hagsmunir fjármálafyrirtækjanna og þeirra sem bera hina raunverulegu ábyrgð.

Við í hópnum Samstaða þjóðar gegn Icesave viljum hins vegar verja hagsmunum almennings í þessu máli. Áskorunin um að nýi Icesave-samningurinn færi í þjóðaratkvæðagreiðslu var fyrsti áfanginn í því. Næst viljum við að samingurinn hljóti kynningu. Við ætlum að leggja okkar að mörkum til þess. Við erum með síðu inni á Fésbókinni þar sem við munum setja inn fréttir og greinar um þjóðaratkvæðagreiðsluna og Icesave-samningana. (Sjá hér)

Vefsvæðið kjósum.is verður hins vegar nýtt til að birta greinar og önnur skrif sem innihalda upplýsingar um það hvað mælir gegn hinum nýja Icesave-samningi. Væntanlega verður vefurinn tilbúinn fyrir slíkar birtingar fyrir vikulokin. Þeir sem hafa fylgst með kosningunni þar inni hafa sennilega fengið rækilegt veður af því að hópurinn sem stóð að baki henni er afar fjölbreyttur. Við erum þó sammála um það að okkur finnst nýi samningurinn ekki ásættanlegur.

Nei við IcesavePersónulega mun ég segja nei við þessum samningi. Fram að kosningum mun ég draga fram ástæður mínar fyrir því en hér ætla ég að nota tækifærið og ljúka við tvennt sem mér tókst ekki að ljúka við í viðtalinu sem ég vísaði í hér að ofan. Í fyrsta lagi langar mig til að ítreka það að 8. greinin, sem var í fyrsta Icesave-samkomulaginu, var felld út úr í Icesave II. Þeir sem höfnuðu lögunum um ríkisábyrgð af þeirri ástæðu skal bent á að í Icesave III er heldur ekkert sem kemur í stað hennar en þar stóð:

8. gr. Endurheimtur á innstæðum.
Ríkisstjórnin skal þegar í stað grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana sem þarf til að endurheimta það fé sem safnaðist inn á Icesave-reikningana. Í þeim tilgangi skal ríkisstjórnin fyrir 15. október 2009 hafa frumkvæði að samstarfi við þar til bæra aðila, m.a. yfirvöld í Bretlandi, Hollandi og Evrópusambandinu, og óska aðstoðar þeirra við að rekja hvert innstæðurnar af Icesave-reikningunum voru fluttar. Ríkisstjórnin skal fyrir árslok 2009 semja áætlun um hvernig reynt verður að endurheimta það fé sem kann að finnast.


Í því skyni að lágmarka ríkisábyrgð samkvæmt lögum þessum skal ríkisstjórnin einnig gera ráðstafanir, í samráði við þar til bæra aðila, til þess að þeir sem kunna að bera fjárhagsábyrgð á þeim skuldbindingum sem stofnast hafa vegna Icesave-reikninganna verði látnir bera það tjón. (leturbreytingar eru mínar)

Annað atriði sem mér tókst ekki að klára í viðtalinu varðar hinar mörgu hliðar Icesave-samkomulagsins. Sumir tala um að það snúist um hagsmuni annars vegar en réttlæti hins vegar. Það má líka skoða það út frá eftirtöldum þremur þáttum: Efnahagslegum, lagalegum og siðferðislegum.

Réttlætið er auðvitað nátengt þeirri siðferðislegu kröfu að almenningur eigi ekki að borga skuldir auðmanna. Icesave II og nýi samningurinn tekur af allan vafa um það hvar ríkisstjórnirnar, sem koma að þessum samningi, standa í þessu efnum. Í þeirra augum eru það hagsmunir fjármálakerfisins sem ríkja yfir réttlæti almennings. Ég leyfi mér að efast um að breskum og hollenskum almenningi verði neinn greiði gerður með því að íslenskur almenningur, sem fær ólíkt þeim tækifæri til að eiga síðasta orðið, færi þannig með það að hann tæki undir þetta sjónarmið!


mbl.is Óviðunandi ábyrgðarleysi forsetans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Ingi Hrólfsson

Þegar hrunið varð var búið að greiða niður erlendar skuldir ríkisins að langmestu leiti - ( skuldir þjóðarbúsins allt annað mál ) og fyrir stuttu birti Arion banki þetta -

 

Hreina skuldastaðan hefur aldrei verið betri

Hrein erlend skuldastaða þjóðarbúsins hefur ekki verið jafn hagfelld frá fyrstu mælingum Seðlabankans sem ná aftur til ársins 1989. Staðan í lok þriðja ársfjórðungs var „einungis" neikvæð um 24% VLF ef búið er að taka út áhrif föllnu bankanna (sjá mynd). Hrein erlend skuldastaða er mikilvæg stærð þar sem hún gefur okkur ágætis vísbendingu um hvort þjóðin geti staðið undir erlendum skuldbindingum sínum eða ekki.

Hagstæður vöruskiptajöfnuður ( þar sem fólk getur ekkert keypt ) er m.a. ástæðan. Þannig má segja að trassaskapur stjórnarinnar í atvinnumálum - eða andstaða hennar við endurreisnina hafi jákvæð áhrif að þessu leiti.

Skuldir þjóðarbúsins stafa m.a. af 775 milljarða skuldum Actavis sem eru bara þeirra skuldir og koma ríkinu ekkert við. Þesi upphæð mun vera um helmingur af ERLENDUM SKULDUM ÞJÓÐARBÚSINS. Skuldir orkufyrirtækjanna - sem mig minir að séu 528 milljarðar - eru bara þeirra skuldir. Í eðlilegum farvegi.

Ólafur Ingi Hrólfsson, 23.2.2011 kl. 05:57

2 identicon

Frábær pistill hjá þér Rakel. Það er algjört grundvallaratriði að skuldum einkafyrirtækis er ekki velt yfir á almenning.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 23.2.2011 kl. 08:41

3 identicon

Auðvitað eigum fullan rétt á upplýsingum frá starfsmönnum okkar. Við borgararnir eigum fullan rétt. Allan rétt. Málið varðar okkur ! 

Á þessari einföldu staðreynd verður að hamra.

Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 23.2.2011 kl. 09:36

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Góð eins og venjulega Rakel.  Og ég er ánægð með að þið ætlið að halda áfram að berjast með okkur hinum til að vekja fólk til umhugsunar í öllu þessu áróðursstríði.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.2.2011 kl. 12:03

5 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Heyr, heyr.  Ég er algjörlega sammál þér Rakel...

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 24.2.2011 kl. 00:06

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir innlit og innlegg auk viðbóta Það er dapurlegt að horfa upp á það í hvern farveg samfélagsumræðan er komin. Enn dapurlega að hún skuli ekki rata út úr þeirri blindgötu sem verður engu okkar til hagsbóta. Það kann að vera að það þjóni hagsmunum einhverra að halda umræðunni þar en það hlýtur að liggja í augum uppi að það þjónar hvorki almenningi né nýjum hugsunarhætti að orðræðan taki sífellt meiri lit af beinu hatri og útilokun andstæðra sjónarmiða.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 24.2.2011 kl. 02:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband