Áður en þolinmæðin verður banvæn!

Við Sigurlaug Ragnarsdóttir, betur þekkt sem Cilla Ragnars, höfum verið í Bítinu á Bylgjunni tvo síðastliðna fimmtudagsmorgna. Þar höfum við rætt það sem aflaga hefur farið í samfélaginu, hvernig það hefur farið með okkur og hvað við getum gert til að breyta því. Við verðum þar aftur í fyrramálið upp úr kl 7:30.

Allir sem hafa tekið þátt í viðspyrnunni frá haustinu 2008 hljóta að þekkja Cillu Ragnars eða heyrt á hana minnst. Fyrir þá sem eru að sjá nafn hennar í fyrsta skipti skal bent á að Cilla var ein þeirra sem bauð sig fram til stjórnlagaþings en í kynningu sinni fyrir kosningarnar til þess segir hún:

Ég lít svo á að stjórnarskráin eigi að endurspegla í hvernig samfélagi við viljum búa og hvernig stjórnsýslan eigi að virka. Þá er mikilvægt að við skilgreinum hvaða kröfur við gerum til valdhafanna og hver ábyrgð þeirra er gagnvart hinum almenna borgara.

Haustið 2008 bjó ég sjálf á Akureyri þar sem ég byrjaði  viðspyrnuna með því að taka þátt í reglulegum mótmælagöngum sem voru gengnar þar á hverjum laugardegi. Sigurbjörg Árnadóttir stóð að nokkrum borgarafundum þetta haust en ég og fleiri fórum inn í utanumhald þeirra með henni í upphafi ársins 2009. Þeir sem hafa fylgst með þessu bloggi frá þessum tíma kannast væntanlega við ýtarlegar fundargerðir sem ég tók saman fyrir þennan vettvang.

Cilla Ragnars var hins vegar hér. Ég fylgdist með henni úr fjarlægð og undraðist kraft hennar og afköst. Ég hitti hana fyrst í desember 2008 og það var engu líkara en við hefðum alltaf þekkst. Leiðir okkar hafa margsinnis legið saman síðan í ýmis konar viðspyrnuverkefnum enda hugmyndir okkar og skoðanir í meginatriðum af sama meiði.

Hér að neðan eru krækjur í báðar heimsóknir okkar í Bítið. Í fyrstu heimsókninni byrjuðum við á að rekja það í stuttu máli hvar við vorum haustið 2008 og hvert fyrstu viðbrögð okkar þá hafa leitt okkur. Við minnum á þær kröfur sem komu fram mjög snemma í mótmælunum um neyðar- og/eða utanþingsstjórn. Slíkri stjórn var ætlað að bregðast við því alvarlega ástandi sem blasti við okkur þá. Þá minnum við á svar stjórnvalda sem voru kosningar sem var auðvitað öruggasta flóttaleiðin undan þessari kröfu.

Kosningabaráttan 2009 bar öll merki þess sem koma skyldi. Það hefur líka komið á daginn að stjórnvöld ætla engu að breyta. Hagsmunir fjármálakerfisins eru svo samofnir þeirri stjórnmálastétt sem hefur lagt undir sig alþingishúsið að það hvarflar ekki að þeim að breyta neinu. Raunveruleg stefna vel flestra þingmanna gömlu flokkanna er að einkavæða gróðann og þjóðnýta tapið. Þegar litið er til baka yfir það sem hæst hefur borið í pólitíkinni frá haustinu 2008 rekur líka hvert dæmið annað þessu til staðfestingar.

Nýtt Ísland

Það er ekkert nýtt að kosningarloforð hafi verið brotin en ein stærsta krafan í mótmælunum haustið 2008 var sú að hér færi fram uppgjör. Það vantaði ekki að hér væri skipuð nefnd til að rannsaka það sem aflaga fór og leiddi til efnahagshrunsins. Afraksturinn var Rannsóknarskýrslan sem kom út fyrir tæpu ári síðan.  Það fer hins vegar lítið fyrir uppgjörinu þó af og til komi fram nær þriggja ára gamlar fréttir um það hvernig bankar og fjármálafyrirtæki voru rekin í aðdraganda hrunsins.

Það hefur blasað við hverjum hugsandi manni í a.m.k. tvö og hálft ár að þessi fyrirtæki voru að miklu leyti rekin eins og þau hafi verið í höndum mafíóista. Miðað við þær litlu afleiðingar sem þessi staðreynd hefur haft á afkomu og líf gerandanna þá er eðlilegt að gera ráð fyrir gagnkvæmum hagsmunatengslum gömlu flokkanna og viðskiptalífsins. Margir núverandi þingmenn hafa styrkt  þessa ályktun bæði með orðum sínum og gjörðum.

Margir vinstri menn bundu við það vonir að sú „vinstri stjórn sem nú situr við völd“ myndi  rétta við hlut almennings en þeim fer stöðugt fækkandi sem ráða við að horfa fram hjá þeirri staðreynd að dekur núverandi stjórnar við forkólfa efnahags- og viðskiptalífs er síst minna en í stjórnartíð hægri stjórna. Stjórn og stjórnarandstaða virðast líka afar samstíga hvað þessa forgangsröðun varðar þó vissulega séu það alltaf einhverjir sem reyna að beita sér fyrir hagsmunum almennings.

Undir lok viðtalsins sl. fimmtudag vikum við aðeins að því hvað er til ráða en við fjöllum ítarlegar um það á morgun. Þeir sem misstu af upphafinu geta hlustað á báðar upptökurnar hér fyrir neðan þar sem krækjurnar leiða inn á þær.

Bylgjan | 24. Febrúar. 2011

Í Bítið - Rakel Sigurgeirsdóttir og Sigurlaug Ragnarsdóttir um betra samfélag, nýtt Ísland

Bylgjan | 3. Mars. 2011

Í Bítið - Rakel Sigurgeirsdóttir og Sigurlaug Ragnarsdóttir áhugamanneskjur um betra Ísland 

Þeir sem hafa ekki enn kynnt sér kröfuna um utanþingsstjórn geta gert það hér.


mbl.is Látnir lausir á 8. tímanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir góða samantekt - oft var þörf en nú er nauðsynlegt að láta í sér heyra.

Sjáumst hressar í fyrramálið á Bylgjunni, klukkan 7:30

Cilla

Cilla (IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 23:03

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ef einhver vill hlusta á framhaldið þá er það hér: http://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP2744 Í morgun ræddum við um það hvernig öllum málum er drepið á dreif og nefndum dæmi því til áréttingar. Við komum enn og aftur að leið Færeyinga sem skipuðu utanþingsstjórn til að taka á spilltri stjórnsýslu en meira um skipun og verkefni slíkrar stjórnar næsta fimmtudag.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 10.3.2011 kl. 08:40

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Fyrir klaufaskap komst ég sennilega ekki inn á linkana sem þú settir inn.  En ég er full aðdáunar á ykkur og kraftinum í ykkur að halda áfram, þið eruð hetjur.  Og mér líður vel að vita af ykkur í frontinum á baráttunni.  Ég styð við bakið á ykkur eins og ég get.  Innilega takk.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.3.2011 kl. 10:46

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir kveðjurnar Ásthildur mín Ég tékkaði á krækjunum sem eru undir þáttarheitunum og þær virka. Kannski kemur það ekki nógu skírt fram að þær séu akkúrat þar.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 10.3.2011 kl. 12:22

5 Smámynd: Magnús Ágústsson

Takk fyrir thetta

thad mun taka mg time til ad hlada nidur linkunum thar sem tengingin herna er svo haeg 

Magnús Ágústsson, 15.3.2011 kl. 02:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband