Þingmennirnir sem segja NEI

Ég reikna með að lesendum sé það enn í fersku minni hverjir það voru sem höfnuðu nýju Icesave-lögunum í atkvæðagreiðslunni á Alþingi um miðjan febrúar sl. Það voru 16 þingmenn úr öllum flokkum nema Samfylkingunni. Þrír sátu hjá.

Það er rétt að telja þá upp sem sögðu nei en það eru: Ásmundur Einar Daðason, Birgir Ármannson, Birgitta Jónsdóttir, Birkir Jón Jónsson, Eygló Harðardóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Höskuldur Þórhallsson, Lilja Mósesdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Pétur H. Blöndal, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Sigurður Kári Kristjánsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Vigdís Hauksdóttir og Þór Saari. 

Samstaða þjóðar gegn Icesave fékk fjóra fulltrúa úr þessum hópi til að svara spurningunni: „Af hverju ætlar þú að segja NEI við nýju Icesave-lögunum í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu?“ Viðtölin fóru fram á Austurvelli en auk þingmannanna var þessi sama spurning lögð fyrir bæði lærða og leika. Viðtölin hafa öll verið birt á undanförnum vikum inni á You Tube ýmis í syrpum eða stök. 

Viðtölin við þingmennina fjóra fara hér á eftir en rætt var við einn fulltrúa þeirra flokka sem áttu þingmenn sem sögðu NEI í atkvæðagreiðslu þingsins um Icesave-frumvarpið. Þeir sem rætt var við eru: Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Vinstri grænna, Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks og Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar. Viðtalið við Ásmund var tekið upp miðvikudaginn 6. apríl en hin þrjú 11. mars.

                                     ><>  ><>  ><>

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Vinstri Grænna, bendir á að hræðsluáróðurinn sem viðhafður hefur verið af já-sinnum eigi ekki við nein rök að styðjast og hvetur væntanlega kjósendur til að segja nei við löglausum hótunum Evrópusambandsins, Breta og Hollendinga og tekur það fram að þá muni framtíðin verða miklu bjartar.

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, ætlar að segja NEI vegna þess að Íslendingum ber engin lagaleg skylda til að taka á sig skuldir einkafyrirtækis. Hann segir jafnframt að hag okkar sé best borgið með því að málið fari fyrir dómstóla. 

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur trú á málstað okkar Íslendinga. Hún segir samningana bæði óskýra og ósanngjarna og mikla óvissa í þeim fólgna. Hún bendir jafnframt á að það sé minni óvissa í því fólgin að láta reyna á það hvað Bretar og Hollendingar muni gera þegar við segjum NEI.

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, segir það fráleitt að velta skuldum einkafyrirtækis yfir á almennings í landinu ekki síst í ljósi þess að Landsbankinn hafi sennilega verið rekinn sem einhvers konar glæpafyrirtæki. Auk þess tekur hann það fram að mikil áhætta fylgi þessum samningi og bendir á að miðað við ekkert svo ólíklegar forsendur geti núverandi samningur hæglega farið upp í 233 milljarða.


mbl.is Gylfi: Ekki afstaða ASÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

10 góðar ástæður til að segja NEI!

10 ástæður!
mbl.is Formlegar viðræður hefjast í júní
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeim er bara engan veginn treystandi!

Eins og ég benti á hér þá eru það sömu spillingaröflin og leiddu bankahrunið yfir þjóðina, haustið 2008, sem reyna að afvegaleiða okkur nú. Hér var nefnilega bara gerð rannsókn á því hvernig fjármagn og stjórnmálalíf hafði unnið saman að fléttunni fyrir hrun. Niðurstöðurnar komu út í níu binda skýrslu sem varð tilefni þó nokkurra hanasýninga í steinhúsinu niður við Austurvöll. Enginn hefur hins vegar verið látinn bera ábyrgð nema þá helst almenningur sem líður fyrir vanhæfa stjórnmálastétt sem kann ekkert nema að sýnast.

Meiri hluta þeirrar elítu, sem hefur hertekið alþingishúsið niður við Austurvöll, þykir líka sjálfsagt að almenningur borgi skuldir þeirra sem lögðu grunninn að þessari elítu með fjárglæfrastarfsemi á heimsvísu. Við höfum fengið að sjá framan í þó nokkra sem tilheyra þessum hópi í þó nokkrum auglýsingum þeirra sem í blindni sinni kalla sig Áfram-hópinn. Hér er m.a. átt við svokallaða ráðherraauglýsingu hópsins:

Ráðherraauglýsingin

Sama dag og þessi auglýsing birtist sem heilsíða í stærstu prentmiðlum landsins, eða 2. apríl, gerði Jakobína Ingunn Ólafsdóttir mjög góða grein fyrir því hvernig þessi hópur tengist „spillingu og sjálftöku“. Ég vona að fólk sé ekki svo gleymið að það sé búið að gleyma því hvernig mörg þessara lögðu grunninn að því hruni sem samfélagið rataði í haustið 2008.

Fyrir þá sem eru farnir að ryðga í því hvernig þessi unnu gegn grunnstoðum samfélagsins en möluðu undir eigna- og valdastéttina með verkum sínum má benda á þessa sem eru af sama sauðahúsi „spillingar og sjálftöku“. Því miður eru það þessir sem hafa lagt undir sig alla helstu fjölmiðla landsins undir áróður sinn sem er reyndar í aðalatriðum endurtekið efni frá því fyrir ári síðan...

Hver treystir þessu fólki?

Að lokum er hér upprifjun á því hvað þingmennirnir sem styðja Icesave III, meðal annars með þeim rökum hvað þessi samningur á að vera „mikið betri en Icesave II, sögðu í umræðum og við atkvæðagreiðslu á Icesave-samningnum sem þjóðin hafði vit á að forða sér undan í þjóðaratkvæðagreiðslunni fyrir u.þ.b. ári síðan.

Þetta eru stjórnarþingmennirnir: Þráinn Bertelsson, Björn Valur Gíslason, Steingrímur J. Sigfússon, Þuríður Bachman, Árni Páll Árnason, Oddný G. Harðardóttir, Helgi Hjörvar, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Magnús Orri Schram, Sigmundur Ernir Rúnarsson og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir. 

Það ætti að liggja í augum uppi að ekkert þessara er þess umkomið að ráða þjóð sinni heilt!


mbl.is Minnka þarf óvissu í efnahagslífi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vilt þú borga skuldir einkafyrirtækja?

NEI við Icesave III


mbl.is Margir hafa kosið um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkavæðing gróðans og þjóðnýting tapsins

Frá bankahruninu haustið 2008 hefur það blasað við öllum sem vilja skilja að krafa fjármálaelítunnar á kostaða stjórnmálastétt er sú að hún tryggi það að gróði hennar verði einkavæddur en tapið þjóðnýtt. Þetta er kjarni þess sem skilur að hinar andstæðu fylkingar sem hafa verið kenndar við JÁ-ið og NEI-ið.
 
Einhverjir hafa reynt að halda því fram að Icesave-málið væri alltof flókið fyrir „venjulegt“ fólk. Ég bið fólk um að varast slíkan áróður. Í reynd snýst málið fyrst og síðast um tvo andstæða póla sem má kalla A og B.
 

A) Snýst þá um það hvort hagsmunir fjármagnseigenda eru settir á oddinn með því að herða að kjörum almennings í gegnum skatta- og velferðarkerfið.

B) Snýst um það hvort réttlætið verður látið ráða ríkjum þannig að sömu lög gildi um hvítflibbaglæpi og aðra auðgunarglæpi eins og bókhaldssvik og innbrot.

Það er okkar almennings að gera upp hug okkar hvað þetta varðar. Ef við segjum JÁ erum við þar með að viðurkenna að almenningi beri að taka á sig skuldir einkafyrirtækja en ef við segjum NEI erum við að kalla eftir því að þeir sem stofnuðu til Icesave-skuldanna verði látnir bera tjónið af sinni glæfrastarfsemi sjálfir.

Hér er stutt tveggja mínútna myndband sem skýrir Icesave-málið á myndrænan og einfaldan hátt:

 

Ég bið kjósendur að hafa það hugfast að íslenskur almenningur nýtur þeirra öfundsverðu forréttinda að fá að segja til um það sjálfur hvort hann tekur á sig skuldir Landsbankans eða ekki. Ég bið kjósendur líka um að hafa það hugfast að þeir sem reka stífan áróður fyrir því að almenningur eigi að taka þessar skuldir á sig er sama eigna- og valdastétt sem leiddi okkur í hrunið haustið 2008.

Hér hefur nefnilega ekkert uppgjör farið fram þannig að það eru sömu spillingaröflin sem reyna að afvegaleiða okkur nú og þau sem töldu okkur trú um að allt væri í himnalagi í aðdraganda hrunsins. Þetta eru þeir sem vilja viðhalda því kerfi sem er dregið upp í þessu breska myndbandi:



Að lokum bið ég lesendur að spyrja sig þessara spurninga:

Auðvitað segjum við NEI

 


mbl.is Bretar og Hollendingar sagðir óttast dómstólaleiðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir sem hafa ekkert að verja nema lífið

Það hefur verið merkilegt að uppgötva það að þeir sem JÁ-sinnarnir tefla fram eru langflestir framkvæmdastjórar og eða fyrrum ráðherrar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Þegar allt er skoðað er ljóst að hér, eins og í langflestum þeirra mála sem gengur hvorki né rekur með, er hyldýpi á milli þeirra sem svífast einskis til að verja eignir sínar og völd og þeirra sem hafa ekkert að verja nema líf sitt.

Langstærstur hluti þeirra sem sem útskýra af hverju þeir ætla að segja NEI við nýju Icesave-lögunum í myndböndunum hér að neðan draga fram óeigingjörn réttlætisrök sem taka mið af meðbræðrum og -systrum í öðrum löndum svo og kynslóðum framtíðarinnar.

Á fyrra myndbandinu sem ég birti hér tala þau: Hákon Einar Júlíusson, Björg Fríður Elíasdóttir, Viktor Vigfússon og Tholly Rosmunds.



Á seinna myndbandinu heita þeir sem tala: Þórarinn Einarsson, Lísa Björk Ingólfsdóttir, Kristján Jóhann Matthíasson, Jóna Kolbrún Garðarsdóttir og Jakob Þór Haraldsson.



Ég hef þegar birt fyrsta og annan hluta þessarar viðtalasyrpu hér á blogginu mínu en læt fylgja krækjur í þau líka fyrir þá sem hafa ekki séð þau. Hér er 1. hlutinn og hér 2. hlutinn.
mbl.is Tvöfalt fleiri atkvæði utan kjörfundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þess vegna segjum við NEI!

 Það eru margir sem styðja NEI-ið en það vekur athygli að fæstir þeirra eiga peninga til að kaupa heilsíðuauglýsingar í dagböðum. Þess vegna verðum við sem viljum kynna rökin fyrir NEI-inu að nota blogg, Fés og aðra fría netmiðla til að koma þeim á framfæri.

Flott NEI-auglýsing


mbl.is Íhuga mál á hendur fyrrverandi stjórnarmönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vilji íslenskra ráðamanna til að greiða Icesave er mjög sérstakur

Helga Þórðardóttir og Rakel Sigurgeirsdóttir„Vilji íslenskra ráðamanna til að greiða Icesave er mjög sérstakur“ er blaðagrein eftir þær Helgu Þórðardóttur og Rakel Sigurgeirsdóttur sem þær birtu í Morgunblaðinu 1. apríl 2011. Í blaðagreininni vísa þær í bréf sem hópur Íslendinga sendi þann 18. mars sl. forseta Evrópusambandsins Herman Van Rompuy. Tveimur vikum síðar hefur Rompuy ekki svarað bréfinu. Hér að neðan er blaðagrein Helgu og Rakelar og íslensk þýðing af bréfinu til Rompuy.

Vilji íslenskra ráðamanna til að greiða Icesave er mjög sérstakur

eftir Helgu Þórðardóttur og Rakel Sigurgeirsdóttur

Við ásamt nokkrum öðrum Íslendingum sendum bréf til forseta Evrópusambandsins með nokkrum spurningum um Icesave. Spurningum sem við teljum að nauðsynlegt sé að fá svör við áður en þjóðin ákveður sig hvernig hún greiðir atkvæði þann 9. apríl n.k.

Aðalatriði þeirra mótmæla sem eiga sér stað í Evrópu í dag er hvort ríkisvæða eigi mistök einkabanka og um það stendur Icesave-deilan. Sú pólitík er kölluð pilsfaldakapítalismi. Hvorki sannir frjálshyggjumenn né vinstrimenn vilja tilheyra þeim hópi. Þess vegna er barátta íslenskra alþingismanna mjög sérkennileg.

Í stað þess að berjast með kjafti og klóm fyrir hagsmunum almennings á Íslandi, eins og þeir voru kosnir til, vilja margir þeirra leggja enn meiri skuldir á almenning sem gæti leitt til greiðsluþrots. Þar er illa farið með umboðið að okkar mati. Bankasamsteypan hagnast augljóslega mest þar sem kjörnir fulltrúar fólksins berjast fyrir hagsmunum hennar en ekki almennings. Því hefur orðið forsendubrestur milli þings og þjóðar.

Við höfum fengið nokkur viðbrögð frá erlendum aðilum við bréfinu sem við sendum forseta Evrópusambandsins. Nigel Farage, Evrópuþingmaður, svarar okkur á þann hátt að við höfum rétt fyrir okkur. Auk þess er ljóst að nei við Icesave mun gefa mönnum styrk til að andmæla pilsfaldakapítalismanum á vettvangi Evrópuþingsins.

Michael Hudson, heimsþekktur hagfræðingur og sagnfræðingur, hefur einnig svarað okkur. Í þeim bréfaskrifum kemur glöggt fram að Icesave-skuldin er ólögvarin skuld. Icesave-reikningarnir eru mistök óheiðarlegra bankamanna og á að meðhöndla sem slík. Þar sem hvorki er lagaleg né siðferðileg skylda til að greiða Icesave er vilji íslenskra ráðamanna til að greiða Icesave mjög sérstakur. Hann varpar fram þeirri spurningu hvort um sé að ræða yfirhylmingu hjá þeim alþingismönnum sem styðja Icesave. Yfirhylmingu á þeirra mistökum eða þátttöku í kúlulánafylliríi bólunnar fyrir hrun. Á almenningur að borga fyrir slíkt sukk?

„Glöggt er gests augað“ og það er mjög sérkennilegt þegar þessir aðilar úti í heimi sjá enga aðra raunverulega skýringu á greiðsluvilja íslenskrar valdastéttar en spillingu. Reyndar er sú niðurstaða í takt við upplifun almennings á Íslandi því við finnum að ekkert hefur í raun breyst. Hið nýja Ísland er enn langt utan seilingar. Það er fullkomlega ljóst að stinga þarf á þeirri spillingu sem þrífst í skjóli leyndar og hleypa soranum út. Að samþykkja Icesave-skuldina eru enn einar umbúðirnar utan um spillinguna en nei við Icesave heggur skarð í völd sérhagsmunahópa. Nei við Icesave er varða á leiðinni að hinu nýja Íslandi sem við ætluðum að koma á eftir búsáhaldabyltinguna.


mbl.is Sakar fjármálaráðuneytið um spuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

RUV hefur ekki áhuga á ferskum hugmyndum varðandi kynningu á Icesave

Rakel Sigurgeirsdóttir og Gunnar Skúli ÁrmannssonÞað kom mér gleðilega óvart að visir.is vakti athygli á þessu efni með birtingu meðfylgjandi greinar. Ég hef ekki séð hana annars staðar og ákvað því að birta hana hér líka þar sem mér er í mun að vekja athygli á því starfi og þeirri hugmyndaauðgi sem blómstrar niður í grasrótinni:

Það ætti að vera til marks um lýðræðisumbætur í samfélaginu að á rétt rúmu ári hafa verið haldnar hér tvær þjóðaratkvæðagreiðslur og sú þriðja er framundan. En er nóg að halda þjóðaratkvæðagreiðslur eingöngu til að hægt sé að tala um lýðræðisumbætur? Þarf ekki að ganga alla leið og kynna það sem kjósendum er gefinn kostur á að velja um til að hægt sé að tala um raunverulegar lýðræðisumbætur?

Íslenskir kjósendur fá tækifæri til að skera úr um nýju Icesave-lögin í þjóðaratkvæðagreiðslu þ. 9. apríl n.k. eða rétt rúmu ári eftir að þeir höfnuðu Icesave II. Nú eins og þá voru það réttlætissinnaðir eldhugar sem unnu að því í sjálfboðavinnu að upplýsa kjósendur um raunverulegt innihald og þýðingu samkomulagsins fyrir réttar- og efnahagsstöðu landsins.

Eftir að forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, vísaði Icesave III í þjóðaratkvæðagreiðslu hefur öflug grasrót unnið að því hörðum höndum að vekja upp málefnalega umræðu um ýmis spursmál varðandi þetta samkomulag um meintar skuldir ríkissjóðs við innstæðutryggingakerfi Breta og Hollendinga vegna gjaldþrots Icesave-útibúanna í löndum þeirra.

Ein hugmyndin sem kviknaði í því sambandi var að bjóða RUV samstarf við tvo fulltrúa sem stóðu að borgarafundum í kjölfar bankahrunsins; annar á Akureyri og hinn í Reykjavík. Í þessum tilgangi var dagskrárstjóra skrifað bréf þar sem hugmynd að borgarfundi var kynnt. Útvarpsstjóra ásamt innanríkis- og menntamálaráðherra svo og þingmanninum, Margréti Tryggvadóttur, var sent afrit af þessu bréfi.

Í bréfinu, sem er dagsett þ. 8. mars sl.,segir m.a:

Hugmyndin er til komin fyrir það að mikið vantar upp á að þjóðin hafi verið upplýst um kosti og galla samningsins. Það vantar líka mikið upp á málefnalega og upplýsandi umræður um það hvaða hættur og hvaða ávinningar það eru sem skipta máli varðandi mismunandi afstöðu þeirra sem vilja hafna samningum og hinna sem vilja samþykkja hann.

Það er skylda kjósenda að taka upplýsta ákvörðun varðandi þessar og aðrar kosningar en það er ekki síður skylda stjórnvalda að veita upplýsingar og gera þær aðgengilegar. Hvaða vettvangur er betur til þessa fallinn en einmitt Ríkissjónvarpið?


Í framhaldinu er hugmyndin kynnt en í meginatriðum gengur hún út á það að í kjölfar stuttra framsöguerinda og enn styttra innleggs frá pallborði, sem skiptist jafnt á milli já- og nei-sinna, fái gestir í sjónvarpssal að varpa fram spurningum til framsögumanna og annarra í pallborði. Bréfritari óskaði eftir fundi með þeim sem hefðu með málið að gera ásamt fulltrúunum tveimur úr grasrótinni.

Dagskrárstjóri RUV svaraði þessu erindi nær samstundis en benti á að málið væri ekki í hans höndum heldur fréttastjóra. Orðrétt segir Sigrún Stefánsdóttir:

Ég veit að Óðinn Jónsson er búinn að búa til aðgerðaráætlun vegna málsins. Hann verður með tvo upptekna þætti, með og á móti og síðan umræðuþátt í sjónvarpssal á fimmtudegi fyrir kosningarnar. Síðan umfjöllun þegar niðurstaða liggur fyrir.

Óðinn Jónsson, staðfesti þessi orð Sigrúnar í svarbréfi sínu nokkrum dögum síðar, þ.e. 11. mars sl., þar sem hann segir:

RÚV verður með kynningu á þeim kostum sem þjóðin stendur frammi fyrir,bæði með sérstökum JÁ og NEI-þáttum og umræðuþætti í vikunni á undan atkvæðagreiðslunni. Þar að auki er fjallað sérstaklega um málið í tveimur fréttaskýringum á sunnudagskvöldum - næst á sunnudaginn kemur. Til viðbótar er umfjöllun í fréttum og dægurmálaþáttum.

 

Fulltrúarnir sem settu sig í samband við yfirmenn RUV óskuðu eftir leyfi til að vitna í svör fréttastjórans sem ítrekaði þetta enn frekar í svarbréfi sínu frá 28, mars sl: Eins og fram hefur komið, þá annast RÚV sjálft málefnalega og vandaða kynningu á Icesave-málinu en felur það ekki öðrum.“ (feitletrun mín)

Nú er það sjónvarpsáhorfenda að meta það hvort þeim finnst Ríkissjónvarpið hafa staðið sig vel eða illa í því að upplýsa þá um gagnstæð sjónarmið já- og nei-sinna á málefnalegan og upplýsandi hátt og hvort borgarafundur í sjónvarpssal með aðkomu grasrótarinnar hefði verið heppilegur vettvangur til slíks. Það er þó rétt að minna á það að enn eru u.þ.b. tvær vikur fram að þjóðaratkvæðagreiðslunni um nýju Icesave-lögin þ. 9. apríl n.k.

Gunnar Skúli Ármannsson, læknir og
Rakel Sigurgeirsdóttir, framhaldsskólakennari

Neyðarkall frá íslenskum borgurum til AGS og ESB

Að frumkvæði Gunnars Tómassonar, hagfræðings og fyrrverandi ráðgjafa hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, og fleiri Íslendinga var meðfylgjandi bréf sent til Dominiques Strauss-Khans, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, og José Manuels Barrosos, forseta Framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins. Bréfið var sent til þeirra í ljósi þess lykilshlutverks sem AGS og ESB skipuðu í nóvember 2008 þegar samningaviðræðurnar vegna Icesave hófust.

Á þessum tíma setti AGS fram spár um efnahagshorfur Íslands og gengið var frá samkomulagi um að ef efnahagsþróun landsins yrði umtalsvert verri en þessar spár gerðu ráð fyrir þá gæti Ísland farið fram á viðræður við Bretland og Holland vegna þeirra þátta sem liggja til grundvallar frávikinu og um sjálft viðfangsefnið Icesave. Nýlegt mat AGS á þróuninni á árunum 2009 til 2010 og spár fyrir 2011 til 2013 gefa mun verri mynd en fyrri spár.

Bréfritarar hafa áhyggjur af því að núverandi frumvarp um Icesave-samninginn, sem verður lagt fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslunni 9. apríl n.k., endurspegli ekki þessa neikvæðu þróun. Því fara bréfritarar þess á leit við AGS og ESB að þessar stofnanir „geri ítarlegt og sjálfstætt endurmat á skuldaþoli Íslands annars mun vanhugsuð úrlausn Icesave-málsins þröngva Íslandi í ósjálfbæra erlenda skuldagildru.“

Reykjavík 28. mars 2011

Hr. Dominique Strauss-Kahn
framkvæmdarstjóri
Alþjóðagjaldeyrissjóðsins
Washington
, DC 20431
USA

/
Hr. José Manuel Barroso
forseti Framkvæmdarstjórnar Evrópusambansins
1049 Brussels, Belgium

Kæri, hr. Strauss-Kahn. / Kæri, hr. Barroso.

Eftir hrun íslenska bankakerfisins í október 2008 féll verg landsframleiðsla (VLF) um 25% á næstu tveimur árum eða úr 17 milljörðum bandaríkjadala niður í 12‚8 milljarða bandaríkjadala (USD). Ef spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um 14,8% vöxt vergrar landsframleiðslu næstu þrjú árin gengur eftir mun hún nema 14,7 milljörðum bandaríkjadala árið 2013 og vera 13% lægri en árið 2008.

Horfurnar eru aðeins skárri ef mið er tekið af vergri landsframleiðslu á stöðugu verðlagi í íslenskum krónum . AGS spáir að árið 2013 verði verg landsframleiðsla um 2-3% lakari en árið 2008 sem þýðir að hún verður 4-6% lægri en AGS spáði í nóvember 2008.

Með öðrum orðum þá eru efnahagshorfur Íslands umtalsvert lakari en gengið var út frá við gerð svokölluðu Brussels viðmiða fyrir ICESAVE samninga sem aðilar málsins samþykktu undir handleiðslu viðkomandi stofnunar Evrópusambandsins (ECOFIN) í nóvember 2008.

Jafnframt telur AGS að vergar erlendar skuldir Íslands í lok ársins 2009 hafi verið um 308% af vergri landsframleiðslu. Það þýðir nærri tvöfalt það 160% hlutfall sem sjóðurinn spáði í nóvember 2008. Í skýrslu AGS um Ísland, dagsettri 22. desember 2010, er því spáð að vergar erlendar skuldir Íslands muni nema 215% af vergri landsframleiðslu í árslok 2013 (sjá töflu 3, bls. 32 í umræddri skýrslu) eða liðlega tvöfalt það 101% hlutfall sem spáð var í nóvember 2008 (sjá töflu 2, bls. 27 í sama riti).

Vergar erlendar skuldir Íslands í lok 2009 voru langt umfram það 240% hlutfall  af vergri landsframleiðslu sem starfsmenn AGS mátu sem „augljóslega ósjálfbært” í skýrslu þeirra sem er dagsett 25. nóvember 2008 (sjá bls. 55 í þessari skýrslu).

Meginmarkmið þess samningaferils um ICESAVE sem hleypt var af stokkunum í nóvember 2008 var að tryggja uppgjör á flóknum málum sem viðkomandi aðilar, að meðtöldum ESB og AGS, voru einhuga um að leiða til farsællar lausnar samhliða endurreisn íslenska hagkerfisins. 

Við undirritaðir Íslendingar höfum verulegar áhyggjur af því að fyrirliggjandi drög að samkomulagi um ICESAVE samrýmist ekki þessu meginmarkmiði, og vísum í því sambandi til umsagna AGS um þróun og horfur varðandi innlendar hagstærðir og erlenda skuldastöðu Íslands hér að ofan.  

Því förum við þess virðingarfyllst á leit við ESB og AGS að þessar stofnanir takist á hendur ítarlegt og sjálfstætt endurmat á skuldaþoli Íslands svo að vanhugsuð úrlausn ICESAVE-málsins þröngvi ekki Íslandi í ósjálfbæra erlenda skuldagildru.

Virðingarfyllst,

Gunnar Tómasson, hagfræðingur

 

Ásta Hafberg, háskólanemandi

Gunnar Skúli Ármannsson, læknir

Helga Þórðardóttir, kennari

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, stjórnsýslufræðingur

Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna

Rakel Sigurgeirsdóttir, framhaldsskólakennari

Sigurjón Þórðarson, formaður Frjálslynda flokksins

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar

Þórður Björn Sigurðsson, starfsmaður Hreyfingarinnar


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband