Bloggfærslur mánaðarins, október 2011

Rautt neyðarkall fámennrar þjóðar út við nyrstu höf...

Myndir segja oft meira en þúsund orð enda hafa sumar þeirra margfalt meiri áhrif þar sem myndmálið er fjölþjóðlegt. Loftmyndin sem var tekin af rauða neyðarkallinu við Bessastaði í upphafi árs 2010 átti þannig ekki sístan þáttinn í að koma Icesave-deilunni á heimskortið. Hvort rauða neyðarkallið fyrir framan Hörpu sl. fimmtudag verður til þess að vekja athygli heimsbyggðarinnar á afleiðingunum af stamstarfi íslensku ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á velferðarkerfið og lífskjör almennings verður tíminn að leiða í ljós.

Rautt neyðarkall við Hörpu

Eins og áður hefur komið fram á þessu bloggi tók nokkur hópur Íslendinga sig til og skrifaði erlendu ræðumönnunum á þessari ráðstefnu bréf þar sem þeir lýstu áhyggjum sínum yfir því að ríkisstjórn Íslands reyndi að fegra ástandið. Draumurinn var að sjálfsögðu sá að ná athygli erlendu pressunnar sem mátti búast við að yrðu viðstaddur þessa ráðstefnu. Enn sem komið er ber lítið á árangri í þeim efnum. Hins vegar er ljóst að erlendu sérfræðingarinnar voru mun gagnrýnari en almennt var gert ráð fyrir.

Hópurinn sendi bréfið líka á íslensku ráðherrana þrjá sem sátu ráðstefnuna svo og innlenda fjölmiðlana. Það fékk m.a. ágæta umfjöllun á RUV eins og ég sagði frá hér. Það var svo ekki fyrr en sl. miðvikudagskvöld sem það lá ljóst fyrir að af rauða neyðarkallinu yrði og fengu íslensku fjölmiðlarnir fréttatilkynningu um það morguninn eftir. Sumir þeirra birtu fréttatilkynninguna orðrétta strax um morguninn og birtu síðan myndir frá atbuðinum síðar um daginn. Stöð 2 og mbl.is birtu viðtal við skipuleggjendur viðburðarins. Sjá hér og hér.

Tilgangurinn með þessari færslu er að birta nokkrar myndir af því sem fram fór fyrir framan Hörpuna á ráðstefnudaginn. Myndirnar eru frá: Andresi Zoran Ivanovic, Jóhanni Ágústi Hansen og Kristjáni Jóhanni Matthíassyni. Fyrst eru myndir af mjög táknrænum gjörningi:

Dauðinn stendur vörð um „gjafir“ AGS
Dauðinn við Hörpuna
 Doom by sunris Dauðans alvara

Dauðinn horfist í augu við sjálfan sigÞeir sem hafa kynnt sér sögu AGS og kafað ofan í það hvaða afleiðingar afskipti sjóðsins hafa haft á efnahag þjóða í Afríku, Suður-Ameríku og Asíu hafa fyrir löngu bent á að sjóðurinn skilur hvarvetna eftir sig sviðna jörð. Aðgerðaráætlun AGS fyrir Ísland er í meginatriðum ekkert frábrugðin módelinu sem sjóðurinn hefur stuðst við í öðrum löndum.

Þar, eins og hér, er byrjað á því að hneppa ríkisstjórnirnar í þvílíkar skuldir að öllu skynsömu fólki er ljóst að þær verða aldrei greiddar með öðru en helstu auðlindum land- anna. Áherslan er síðan öll lögð á fjármálakerfið en opinber þjónusta, eins og heilbrigðisþjónusta, menntun og samgöngur, skorin inn að beini enda er það stefna sjóðins að ryðja einkafyrirtækjum rúm á öllum sviðum.

Dauðinn og grafreitur hann var þannig einkar táknrænn fyrir þá sviðnu jörð sem sjóðurinn skilur hvarvetna eftir sig. Skilaboðin sem komu fram á andmælaskiltunum niður við Hörpu sl. fimmtudag voru ekki síður afdráttarlaus:

Alþingi: Þjófar gegn þjóð
AGS fyrir 1%-ið gegn 99%-unum
 Kapítalisminn eða framtíðin? Okkar val!

 Sama leið. Sama hrun!

Hápunkturinn var svo tendrun neyðarblysanna í hádeginu eða klukkan 12:20. Tímasetningin miðaðist við það að fólk næði að nýta hádegishléið sitt en ekki síður við það hvenær Ómar Ragnarsson, sem tók mynd af þessu úr lofti, næði á staðinn. Myndbandið sem hann tók upp var sýnt í vandlegri umfjöllun fréttastofu Sjónvarpsins um ráðstefnuna. Myndirnar hér að neðan eru hins vegar flestar frá Jóhanni Ágústi Hansen en ein er fengin að „láni“ frá visi.is
Rautt neyðarkall við Hörpu

Hér eru svo fleiri frá rauðu neyðarkalli fámennrar þjóðar út við nyrstu höf:

Rautt neyðarkall fámennrar þjóðar út við nyrstu höf
Rautt neyðarkall (visir.is)
 Rautt neyðarkall við Hörpu AGS gegn rauðu ljósi
 Þar rauður loginn brann Rautt neyðarkall við Hörpu

mbl.is Samið fyrirfram um ESB umsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðgerðarpakki AGS er ekki til útflutnings!

Mig langar til að vekja athygli á meðfylgjandi myndbandi sem Þórður Björn Sigurðsson tók upp strax eftir ráðstefnuna. Einnig langar mig til að nota þetta tækifæri og þakka honum fyrir framtakið. Í myndbandinu sýnir hann nokkrar svipmyndir frá andmælastöðunni við Hörpuna og ræðir við þann hóp ráðstefnugesta sem ég tel óhætt að telja meðal þeirra sem eru gagnrýnni en gengur og gerist á það sem fram vindur í samfélaginu.

Þeir sem Þórður ræðir við eru: Lilja Mósesdóttir, Salvör Kristjana, Marinó G. Njálsson, Jón Þórisson og Andrea Ólafsdóttir. Margrét Tryggvadóttir leggur líka orð í belg.


mbl.is Fámenn blysför
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rautt neyðarkall við Hörpu í hádeginu í dag

Ég hef sagt frá ráðstefnu íslensku ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Hörpunni í dag bæði hér og hér. Ég hef líka sagt frá bréfi sem nokkrir úr grasrótinni skrifuðu erlendu sérfræðingunum sem taka til máls á ráðstefnunni hér. Auk þess sem ég hef vakið athygli á andmælastöðu sem verður fyrir framan Hörpuna í dag. Hún byrjar um leið og ráðstefnan, eða klukkan 8:00, og það má búast við að stöðunni ljúki um svipað leyti og hún er úti, eða upp úr klukkan 17:00.

Hápunktur andmælastöðunnar verður í hádeginu en þá verður tendrað á yfir 50 neyðarblysum. Við gerum ráð fyrir að þeir sem eru í vinnu en vilji nota hádegishléið til að sína þessu stuðning fái svona korter til tuttugu mínútur til að koma sér á staðinn en markmiðið er að allir tendri sín ljós á sama tíma. Þetta er endurtekning á atburði sem sást fyrst fyrir framan alþingishúsið í desember 2009 eða við atkvæðagreiðslu þingsins á Icesave II.
1. í rauðu neyðarkalli
Nokkrum dögum síðar var atburðurinn endurtekinn en þá við afhendingu Indefence-hópsins á undirskriftarlistunum til forsetans þar sem farið var fram á það að hann vísaði ríkisskuldbindingum vegna Icesave II til þjóðaratkvæðagreiðslu.

2. í rauðu neyðarkalliRautt neyðarkall við Bessastaði varð til þess að koma Icesave á kortið hvarvetna í heiminum. Tilefnin nú eru ærin. Megintilgangurinn má þó segja a sé sá að vekja athygli alþjóðasamfélagsins að íslenskur almenningur er í sömu stöðu og vakandi almenningur út um heim. Við viljum vekja athygli á að „efnahagsbatinn“ hér á landi er ekki til fyrirmyndar og aðferðirnar við að ná þeirri útkomu út úr hagtölum Íslands í versa falli tilraun til svindls (Sjá t.d. þessa grein Gunnars Tómassonar, Michaels Hudsons og Ólafs Arnarssonar).

Almenningur þekkir það á eigin skinni að hér hefur orðið gríðarlega kjaraskerðing, fólk hefur misst atvinnuna, orðið gjaldþrota, missta heimili sínog jafnvel misst misst ástvini. Niðurskurðurinn á velferðarkerfinu hefur verið yfirgripsmikill enda tilfinnanlegur. Dapurlegast er að horfa upp á misskiptinguna sem eykst með degi hverjum. En þetta eru allt staðreyndir sem blasa við hvar sem AGS hefur komið að efnahagsaðstoð.

Að lokum má geta þess að það má gera ráð fyrir því að Ómar verði ekki skammt „ofan“ eins og á Bessastöðum og smelli mynd af öllu saman. 


mbl.is Góður stuðningur við Steingrím
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjum Harpan glymur...

Það hefur vart farið fram hjá neinum að framundan er ráðstefna sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og íslenska ríkisstjórnin efna til. Ráðstefnudagurinn er á morgun og fer fram í Hörpunni. Tilefnið er sá efnahagsbati sem báðir halda fram að hafi náðst hér í gegnum fyrirmyndarsamstarf gestgjafanna á ráðstefnunni.

„Efnahagsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur skilað miklum árangri við að koma á stöðugleika í íslenskum þjóðarbúskap og stuðla að efnahagsbata,“ sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri og bætti við: „Hér kunna að vera athyglisverðir lærdómar fyrir alþjóðasamfélagið.“

„Við hlökkum til að ræða opinskátt um hið „algera fárviðri“ sem skall á Íslandi árið 2008, um núverandi stöðu og þá lærdóma sem draga má af reynslu Íslendinga. Það gleður mig að geta sagt að gagnvirk samvinna við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn stuðlaði að því að Ísland hélt velli sem norrænt velferðarríki,“ segir Árni Páll Árnason, efnhags- [sic!] og viðskiptaráðherra. (sjá hér (feitletranir eru mínar))

Þetta svo og yfirskrift ráðstefnunnar sem er: Iceland's Recovery: Lessons and Challenges gefur til kynna hvert markmið ráðstefnuhaldara er. Grein sem var birt á vefsvæði AGS í fyrradag undirstrikar það enn frekar en greinin ber heitið: Iceland's Recovery: Can the Lessons be Applied Elsewhere? Inngangurinn svo og greinin sjálf ættu að taka af allan vafa: 

As the first country to experience the full force of the global economic crisis, Iceland is now held up as an example by some of how to overcome deep economic dislocation without undoing the social fabric. [...]

Key to Iceland’s recovery was an IMF-supported program worth $2.1 billion that was agreed in November 2008, shortly after the country’s three main banks collapsed in spectacular fashion. The program included controversial measures such as capital controls and a decision not to tighten fiscal policy during the first year. It also sought to ensure that the restructuring of the banks would not require Icelandic taxpayers to shoulder excessive private sector losses.  (sjá hér)

Manngildið hefur orðið auðgildinu að bráð
Það ætti að vera orðið ljóst að aðgerðaráætlun AGS á Íslandi er ætluð til útflutnings. Við þessi 300.000 sem byggjum þetta land berum þá ábyrgð gagnvart umheiminum að láta vita að undir sellófaninu leynist „maðkað mjöl“. 22 Íslendingar hafa tekið af skarið og skrifað erlendu sérfræðingunum á ráðstefnunni bréf þar sem þeir lýsa áhyggjum sínum yfir því að upplýsingarnar sem þeim hefði verið skammtaðar dragi upp þá mynd að staða Íslands sé önnur en raunin er.

Í bréfinu draga þeir fram stöðu ríkis og sveitarfélaga, kostnaðartölur vegna endurreisnar fjármálakerfisins og alvarlega stöðu almennings í kjölfarið. Í niðurlagi þess leggja þeir áherslu á að í raun skeri Ísland sig á engan hátt frá öðrum  nálægum löndum sem hafa staðið frammi fyrir hruni fjármálakerfisins á undanförnum misserum:

Því er svo komið að óréttlætið ógnar félagslegum stöðugleika í landinu þar sem kjörnir fulltrúar fara eftir kröfum fjármálaaflanna á kostnað hagsmuna almennings.

Íslenska bankakerfið hefur sett skuldir sínar yfir á almenning eins og gert hefur verið í Grikklandi, Írlandi, Portúgal og víðar. Ísland sker sig því ekkert úr hvað það varðar að lýðræðið hefur orðið fórnarlamb bankaveldisins. (sjá hér (feitletranir eru mínar))

Með bréfinu vildu bréfritarar vekja athygli á málstað íslensks almennings. Í þeim tilgangi sendu þeir bréfið, ásamt fréttatilkynningu, á erlenda og innlenda fjölmiðla. Að minnsta kosti einn erlendur vefmiðill hefur birt bréfið ásamt fréttatilkynningu á síðu sinni. (sjá hér) Það sem kemur hins vegar gleðilega á óvart er að tveir innlendir miðlar, sem hafa ekki gert mikið að því að vekja athygli á því sem fram fer í grasrótinni, fjölluðu um bréfið.

Gunnar Gunnarsson í Speglinum á RUV var með heiðarlega og vel framsetta samantekt þar sem hann blandaði saman umfjöllun um bréfið; innihald þess og tilgang, og viðtali við einn forsprakkann í bréfritarahópnum. (hér má hlusta á umfjöllun hans) Smugan gerði svo nokkra grein fyrir bréfinu sjálfu og sagði frá andmælastöðu sem hefur verið boðað til fyrir framan Hörpuna á morgun; ráðstefnudaginn (sjá hér)

Að þið skulið ekki skammast ykkar!

Margir bréfritanna hafa birt bréfið á bloggum sínum og í glósum á Facebook og hvatt aðra til að gera slíkt hið sama. Bréfið hefur því komið fyrir sjónir margra og vonandi blæs það fólki því í brjóst að mæta. Skipuleggjendur andmælastöðunnar niður við Hörpu hafa kvatt fólk til að mæta með andmælaskilti á erlendum tungumálum og hafa safnað nokkrum slagorðum sjálfir sem stendur til að setja á spjöld nú í dag í nýopnaðri Grasrótarmiðstöð sem er í Brautarholti 4. Ef þú vilt taka þátt ert þú velkomin/-inn.

Burt með hræfuglinnSkipuleggjendurnir eru að sækjast eftir slagorðum á sem flestum tungumálum og eru þegar komnir með slík á: ensku, spænsku, þýsku, finnsku, ítölsku, slóvensku og serbó-króatísku. Það vantar enn tilfinnanlega einhver á frönsku og á einhverju Norðurlandamálanna. Það væri líka gaman að fá einhver á grísku. Hnitmiðuð myndræn framsetning á því sem 99%-in um allan heim eru að vakna til vitundar um ætti líka að tryggja það að skilaboðin nái sér til allra.

Það má gera ráð fyrir að erlenda pressan muni fjölmenna á ráðstefnunna í því markmiði að reka áróður fyrir því að „afturbatamódel“ Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafi verið fínstillt hér á landi með þeim afleiðingum að fólk sé síður að missa atvinnuna, heimili sín og farartæki, fyrirtæki hafi síður farið á hausinn og niðurskruður í velferðarkerfinu hafi verðið minni háttar. Við sem vitum betur vonum auðvitað að þessir muni dragast að sæg af andmælaskiltum með skilaboðum út til alþjóðasamfélagsins um að Íslendingar eru í sömu sporum og þau. Íslendingar eru partur af 99%-unum og tilheyra sívaxandi hópi samfélagslegra einstaklinga.

SamstaðaFari svo að erlenda pressan hundsi andmælendur þá verður grasrótin líka með ljósmyndara og upptökumenn á sínum snærum sem munu taka myndir af andmælaskiltunum og taka viðtöl við þá sem bjóða sig fram í það. Sumir, sem skipuleggjendurnir hafa leitað til varðandi það, hafa færst undan með afsökunum um það að þeir búi yfir afar takmörkuðum orðaforða um hagfræðihugtök á öðrum tungumálum. Það er ekki málið.

Það má reikna með að almenningur víðs vegar um heiminn falli miklu frekar fyrir skilaboðum og sögum fólks sem forgangsraðar eins aðrir í sömu sporum. Þegar hann talar frá hjartanu stendur honum flest annað nær hjartanu en hugtök hagfræðinnar eða exel-skjöl full af tölum.

Þeir sem eiga upptökuvélar og eru tilbúnir að leggja því lið að taka upp viðtöl eru einnig hvattir til að gefa sig fram við Grasrótarmiðstöðina í Brautarholtinu í dag. Þ.e. frá kl 13:00 fram til svona 21:00 í kvöld. Tveir tæknimenn eru þegar búnir að gefa sig fram en þeir eru tilbúnir til að klippa viðtölin saman í hæfilega löng myndskeið fyrir You Tube og setja þau þangað en.

Eftir það þá geta allir tekið þátt í því að dreifa þeim út í heim því umheimurinn þarf að vita hvað er raunverulega að eiga sér stað hér. Því er nefnilega skipulega haldið að fólki að hér sé allt í lukkunnar velstandi. Bankastjórar gömlu bankanna sitji í fangelsi og að við búum við raunverulegt lýðræði og velferðarstjórn!

AGS gleypir í sig heiminnVið berum ábyrgð gagnvart okkur sjálfum, meðbræðrum okkar og framtíð. Við þurfum að standa saman og hjálpast að við að frelsa lýðræðið úr höndum peningavaldsins. Tækifærið er svo sannarlega niður við Hörpu á morgun því margar hendur vinna létt verk.

Stöndum saman og hjálpumst að við hrinda áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að leggja heiminn undir sig með því að gefa upp falsmynd af ástandinu hér á landi. Vinnum að því að opinbera falsmyndina sem þeir eru búnir að draga upp af okkur og komum sannleikanum út til þeirra sem annars verða fórnarlömb lyginnar sem við höfum kynnst svo vel.

Að lokum vil ég taka það fram að til stendur að vera með andmælastöðu niður við Hörpuna frá því að ráðstefnan hefst um morguninn og þar til henni lýkur seinni partinn. Það er frá klukkan 8:00 til 17:15. Skipuleggjendur eru að undirbúa stærri viðburð í hádeginu sem verður sagt nánar frá hér og víðar um leið og það liggur fyrir hvort af honum gerður orðið eða ekki. Auk þess vilja þeir sjá sem flesta þarna niður frá undir lok ráðstefnunnar. Þeir sem eru tilbúnir til að koma í viðtal við grasrótina eru beðnir um að koma því á framfæri í gegnum viðburðinn á Facebook eða með einkaskilaboðum á skipuleggjendurna sem ætti að vera auðvelt að finna þar.

Sjá andmælaviðburðinn hér
Sjá dagskrárkynningu ráðstefnunnar hér


mbl.is Stofna nýtt flugfélag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opið bréf sent á erlendu sérfræðingana sem taka þátt í ráðstefnunni í Hörpunni 27. okt. n.k

Næst komandi fimmtudag verður haldin dullítið merkileg ráðstefna í Hörpunni. (Sjá t.d. hér) Miðað við kynninguna á henni og aðra umgjörð virðist hún fyrst og fremst vera hugsuð til þess að miðla því yfirlýsta áliti íslensku ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðins að samstarfið á milli þeirra sé fordæmisgefandi fyrir önnur lönd. Fordæmisgefandi að því leyti að hér hafi „efnahagsbatinn“ gengið hraðar fyrir sig en annars staðar.

Nokkrir erlendir sérfræðingar í hagfræði og alþjóðaviðskiptum ásamt starfsfólki AGS taka til máls ásamt íslenskum valdhöfum og prófessorum frá háskólunum tveimur sem eru staðsettir hér í Reykjavík. Umgjörð ráðstefnunnar blés nokkrum grasrótarmeðlimum óhug í brjóst sem knúði þá til að skrifa erlendum gestunum bréf. Eftirtaldir fengu þetta bréf sent í tölvupósti seint í gærkvöldi:

Joseph Stiglitz, prófessor í hagfræði (ávarpar ráðstefnuna af bandi)
Julie Kozack, aðstoðardeildarstjóri aðgerðaráætluninnar IMF á Íslandi
Martin Wolf, fjármálasérfræðingur frá Financial Times (stýrir pallborðsumræðum)
Nemat Shafik, aðstoðarframkvæmdarstjóri IMF
Paul Krugman, prófessor hagfræðingur
Poul Thomsen, aðstoðarframkvæmdarstjóri evrópudeildar IMF
Simon Johnson, prófessor alþjóðaviðskiptum (fyrrum starfsmaður IMF)
Willem Buiter, prófessor í hagfræði

Í stuttu máli má segja að megintilgangurinn með ritun þessa bréfs sé sá að vekja athygli erlendra fjölmiðla svo þeir sjái um að koma því út til alþjóðasamfélagsins að staða Íslendinga er í engu frábrugðin öðrum illa settum löndum í heiminum. Samstarf íslensku ríkisstjórnarinnar við AGS hefur skilað íslensku þjóðinni því sama og öðrum samfélögum þar sem sjóðurinn hefur komið við sögu. Íslenskur almenningur tilheyrir 99%-unum sem hefur risið upp gegn 1%-inu sem hefur farið svo illa með sjálfskipuð forréttindi sín til eigna og valda að heimshrun fjármálamarkaðanna blasir nú við.

Á sama tíma og ráðstefnan fer fram er boðað til andmælastöðu niður við Hörpuna. Fólk er hvatt til að mæta með andmæli á erlendum tungumálum og ekki væri verra ef viðstaddir verða reiðubúnir til að tala við erlendu pressuna og/eða grasrótina sem verður með upptökumenn á þeim tímum sem búast má við mestri umferð andmælenda við ráðstefnuhúsið. Þetta er við upphaf ráðstefnunnar, í kringum hádegið og í lokin. Varðandi upplýsingar um tímasetningar og annað skaltu fylgja þessari slóð.

Svo hvet ég alla til að birta eftirfarandi bréf á bloggi eða í glósu inni á Fésbókinni eða krækja því á vegginn sinn þar. Ég mun setja krækjur á blogg þeirra sem hafa undirritað þetta bréf jafnóðum og þeir birta það þar.
_________________________________________________________________

Reykjavík 23. október 2011

Kæri herra/frú

Tilefni þessara skrifa er það að þú ert meðal þeirra sem munu taka til máls á ráðstefnunni Iceland´s Recovery—Lessons and Challenges, sem haldin verður í Reykjavík 27. október næst komandi. Við undirrituð höfum áhyggjur af því að þú hafir aðeins fengið valdar upplýsingar um efnahagsástandið á Íslandi frá hérlendum stjórnvöldum. Við viljum því benda þér á mikilvægar viðbótarupplýsingar varðandi fjármál ríkis og sveitarfélaga, fjármálakerfið og stöðu almennings í landinu.

Almennt

Ljóst er að staðan í íslensku efnahagslífi er nokkuð önnur í dag en upphaflegar áætlanir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) gerðu ráð fyrir þegar þeir komu hér að málum í lok árs 2008. Þannig voru erlendar skuldir þjóðarbúsins nærri tvöfalt meiri í árslok 2010 en upphaflega var áætlað; skuldir hins opinbera eru meiri, atvinnuleysi er meira, verðbólga á árinu 2010 var meiri og svo virðist sem samdrátturinn í efnahagslífinu ætli að verða dýpri og vara lengur.

Ríkisfjármálin

Fyrir hrun skuldaði ríkissjóður 26% af VLF. Opinberar tölur yfir skuldir ríkisins eru 111% af VLF en heildarskuldir þjóðarbúsins eru hins vegar 280% af VLF. Hrein peningaleg eign ríkissjóðs versnaði um 140 milljarða króna milli annars ársfjórðungs 2010 og 2011. Ef marka má þessar tölur þá er hægt að leiða að því líkum að íslenska ríkið hafi frá hruni tekið að láni fjárhæð sem nemur jafnvirði landsframleiðslu í eitt ár og þá eru lánin frá AGS ekki einu sinni talin með. Vaxtakostnaður ríkissjóðs af núverandi skuldabyrði er hátt í 20% af tekjum.

Sveitarfélög

Skuldir sveitarfélaganna og skuldbindingar voru 586 milljarðar um seinustu áramót. Ef skuldir Orkuveitu Reykjavíkur, sem eru vel á 300 milljarða, og 47 milljarða lífeyrisskuldbindingar sveitarfélaganna eru frátaldar standa samanlagðar skuldir sveitarfélaganna í 310 milljörðum kr. sem er 20% af VLF og 154% af tekjum þeirra.

Fjármálakerfið

Kostnaður íslenska ríkisins við endurreisn bankakerfisins í kjölfar hrunsins haustið 2008 var 64% af VLF sem er heimsmet. Nýju bankarnir fengu lánasöfn gömlu bankanna á 45-65% af raunvirði þeirra. Þessi niðurfelling á milli gömlu og nýju bankanna hefur þó ekki skilað sér til almennings þar sem lánin eru rukkuð inn á nafnvirði þeirra. Afleiðingarnar eru mikill hagnaður bankanna sem byggir á því að þeir eru að eignast stóran hluta af öllum eignum íslenskra fyrirtækja og heimila.

Almenningur

Nú er svo komið að 20% heimila í landinu geta ekki borgað af lánum sínum og 40% eru í miklum erfiðleikum. Í raun eru það bara 10% sem geta greitt af húsnæðislánum með eðlilegum hætti.

Ráðstöfunartekjur heimilanna hafa lækkað um 27,4% síðastliðin þrjú ár á meðan verðlag hefur hækkað um 40%. Af þessum ástæðum hefur neysla þjóðarinnar dregist saman. Á sama tíma hefur þörfin fyrir mataraðstoð margfaldast en engar opinberar tölur eru til yfir fjöldann. Það eru þó staðreyndir að biðraðirnar við hjálparstofnanir hafa lengst og fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna hefur aukist um 62% frá hruni.

Fram hefur komið í tölum ríkisskattstjóra að skuldir íslenskra fjölskyldna hafi vaxið meira en eignir en á síðasta ári rýrnuðu eignir í fyrsta skipti meira en skuldir. Fjölskyldum sem eiga meira en þær skulda hefur fækkað um 8,1% milli ára. Þeim sem voru með neikvæðan eignaskattstofn fjölgaði hins vegar um 12,1%.

Samkvæmt síðustu tölum Vinnumálastofnunar er atvinnuleysið 6,7%. Sú tala er hins vegar umtalsvert hærri þar sem markvisst er unnið að því að koma atvinnulausum í nám og margir hafa yfirgefið landið í leit að atvinnu og betri lífskjörum. Í þessu sambandi skiptir líka máli að hópur fólks sem er atvinnulaus en á ekki rétt á atvinnuleysisbótum skráir sig ekki atvinnulausa. Hvatinn til að skrá sig er ekki til staðar þar sem fólk fær engar bætur hvort eð er. Að lokum er rétt að benda á að samkvæmt tölum sem hafa verið í opinberri umræðu má ráða að störfum á Íslandi hafi fækkað um 22.500 sem er u.þ.b. 8,2% af skráðu vinnuafli árið 2010.

Niðurstaðan

Meginástæða hrunsins var ofvaxið bankakerfi. Það orkar því mjög undarlega á almenning að horfa upp á þá ofuráherslu sem stjórnvöld leggja á endurreisn þessa sama kerfis í stað þess að byggja upp raunhagvöxt samfélagsins. Byrðum fjármálakreppunnar hefur fyrst og fremst verið dreift á skuldsett heimili. Ríkisstjórnin hefur markvisst unnið gegn almennri leiðréttingu lána og innleitt sértæk skuldaúrræði sem gefa bönkunum sjálfdæmi varðandi það hverjir fá leiðréttingu og hversu mikla. Flest ef ekki öll úrræði við skuldavanda heimila og smærri fyrirtækja hafa miðast við að viðhalda greiðsluvilja.

Þessi afstaða ríkisstjórnarinnar og vinnubrögð bankanna hafa skapað aukna misskiptingu. Landsmenn horfa upp á að það er verið að afskrifa skuldir þeirra sem ullu hruninu. Þessir halda líka fyrirtækjum sínum og arði af ólöglegum fjármálagjörningum á sama tíma og almenningur er látinn sitja uppi með forsendubrestinn. Því er svo komið að óréttlætið ógnar félagslegum stöðugleika í landinu. Kjörnir fulltrúar fara eftir kröfum fjármálaaflanna á kostnað hagsmuna almennings.

Íslenska bankakerfið hefur sett skuldir sínar yfir á almenning eins og gert hefur verið í Grikklandi, Írlandi, Portúgal og víðar. Ísland sker sig því ekkert úr hvað það varðar að lýðræðið hefur orðið fórnarlamb bankaveldisins.

Virðingarfyllst,
Andrea Jóhanna Ólafsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna
Ásta Hafberg, nemandi í viðskiptastjórnun

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, fyrrverandi garðyrkjustjóri

Elínborg K. Kristjánsdóttir, fyrrverandi blaðamaður
Elías Pétursson, framkvæmdastjóri/háskólastúdent

Eyjólfur Kolbeinn Eyjólfsson, hugbúnaðarsérfræðingur
Björg Sigurðardóttir, fyrrverandi bankastarfsmaður

Björk Sigurgeirsdóttir, ráðgjafi
Guðbjörn Jónsson, ráðgjafi kominn á eftirlaun

Guðmundur Ásgeirsson, kerfisfræðingur
Guðrún Skúladóttir, sjúkraliði

Gunnar Skúli Ármannsson, læknir
Helga Garðarsdóttir, ferðamálafræðingur

Helga Þórðardóttir, kennari
Indriði Helgason, rafvirki

Jakobína I. Ólafsdóttir, stjórnsýslufræðingur
Rakel Sigurgeirsdóttir, íslenskukennari

Sigurjón Þórðarson, líffræðingur
Sigurlaug Ragnarsdóttir, listfræðingur

Vilhjálmur Bjarnason, ekki fjárfestir
Þórarinn Einarsson, aktívisti

Þórður Á. Magnússon,
framkvæmdarstjóri

Afrit sent á erlenda og innlenda fjölmiðla svo og ráðherrana þrjá sem eru í gestgjafahlutverkinu á ráðstefnunni: Iceland´s Recovery—Lessons and Challenges sem haldinn verður í Hörpunni n.k. fimmtudag eða þ. 27. október


mbl.is Harmar afsögn stjórnarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Harpan verður aftur í sviðsljósinu n.k. fimmtudag

Næst komandi fimmtudag verður haldin ráðstefna í Hörpunni undir yfirskriftinni: Iceland's Recovery - Lessons and Challenges. Ráðstefnuhaldarar eru Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ásamt íslensku ríkisstjórninni. Miðað við yfirskrift ráðstefnunnar og annað sem kemur fram í kynningu stendur til að draga fram mynd af góðum árangri góðs samstarfs gestgjafanna og leggja línur að framhaldinu. Samanber þessa tilvitnun: „the Icelandic authorities and the International Monetary Fund (IMF) are co-hosting this high-level conference to review Iceland’s achievements and examine the challenges that still lie ahead.“ (Sjá kynningu og dagskrá ráðstefnunnar hér)

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og Árni Páll Árnason, viðskiptaráðherra opna ráðstefnuna sem er skipt niður í þrjú þemu og endar á pallborðsumræðum. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra fær sitt rúm en hann flytur ræðu yfir ráðstefnugestum á meðan þeir næra sig í hádeginu. Ráðstefnan stendur nefnilega allan fimmtudaginn; byrjar klukkan 8:00 um morguninn en lýkur ekki fyrr en 17:15 síðdegis. Þemum þrjú bera þessar yfirskriftir: kreppustjórnun (Crisis Management), vegurinn til endurreisnar (The Road to Recovery) og áskoranirnar framundan (Challenges Ahead).

Helstefnan í efnahagsmálum Íslands Þrír fundarstjórar skipta þannig með sér verkum á ráðstefnunni: Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri stýrir fyrsta hlutanum, Katrín Ólafsdóttir, lektor við viðskiptafræðideild Háskólans í Reykjavík stýrir öðrum hlutanum og Þorvaldur Gylfason, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands þeim síðasta. Martin Wolf, aðalfréttaskýrandi hagfræðideildar Financial Times, mun svo stýra pallborðsumræðunum í lokin.

Það er ekki síður forvitnilegt að skoða hverjir sitja í pallborði og hverjir taka til máls undir ofantöldum dagskrárliðum. Auk forsætis-, viðskipta- og fjármálaráðherra eru það eftirtaldir: Friðrik Már Baldursson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands og Vilhjálmur Egilsson, formaður Samtaka atvinnulífsins gefa góð ráð um kreppustjórnun í fyrsta hlutanum. Eftirfarandi tilvitnun gefur tóninn: „Which policies were most successful? Topics to include capital controls, fiscal automatic stabilizers, and the handling of the banking system.“ Erlendu gestirnir sem taka til máls undir þessum lið eru: Willelm Buiter, hagfræðingur, og Poul Thomsen, framkvæmdarstjóri evrópudeildar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Joseph Stiglitz, hagfræðiprófessor, mun einnig flytja ávarp af bandi.

Í öðrum hlutanum, sem ber yfirskriftina: „Vegurinn til endurreisnar“, tala Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, Jón Daníelsson hagfræðiprófessor í London og Stefán Ólafsson, prófessor í félagsvísindum við Háskóla Íslands. Miðað við það sem stendur til að ræða hér má kannski gera ráð fyrir einhverju bitastæðu en miðað við það að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er annar gestgjafinn og á þrjá fulltrúa sem munu taka til máls á ráðstefnunni er mér það einhvern veginn til efs. Einn erlendur gestur tekur til máls undir þessum lið en það er Paul Krugman,  hagfræðiprófessor. Miðað við það sem kemur fram hér er hann að vinna að rannsóknum sínum nú fyrir þessa ráðstefnu.

Þeir sem ræða um áskoranirnar framundan eru svo: Gylfi Magnússon, dósent við hagfræði- og viðskiptadeild Háskóla Íslands og Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands. Hér stendur til að ræða hvað þurfi að gera til að fullkomna efnahagsbatann og samkvæmt kynningunni er það einkum þetta þrennt: „For example, reducing unemployment, unwinding capital controls, securing access to financial markets.“ Erlendu sérfræðingarnir sem taka til máls undir þessum lið eru: Simon Johnson, prófessor í alþjóðaviðskiptum (fyrrum starfsmaður AGS) og Julie Kozack sem er verkefnastjóri aðgerðaráætlunar AGS hér á Íslandi.

Bankarnir fyrst! Skítt með rest...

Ráðstefnunni lýkur á pallborðsumræðum. Þar taka tveir Íslendingar þátt og þrír erlendir gestir. Íslendingarnir eru Már Guðmundsson, seðlabanakstjóri, og Gylfi Zoëga, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands. Erlendu gestirnir eru: Simon Johnson og Paul Krugman, en þeir hafa verið kynntir áður, ásamt Nemat Shafik, nýskipuðum aðstoðarframkvæmdarstjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Það vekur athygli að í kynningu þessarar ráðstefnu segir að almenningur eigi fulltrúa meðal þeirra sem taka til máls á þessari ráðstefnu. Ég á erfitt með að koma auga á hann en grasrótin deyr ekki ráðalaus. Stofnaður hefur verið viðburðar inni á Fésbók sem ber yfirskriftina: Andmælum við Hörpuna 27. október n.k. og er ætlunin að nýta sviðljósið sem Harpan mun væntanlega njóta til að koma raunverulegum aðstæðum á Íslandi í kastljós erlendra fjölmiðla. Það má nefnilega búast við að þeir verði mjög áberandi þarna niður frá í tilefni ofangreindrar ráðstefnu.

Ef það verður ekki er grasrótin með plan B sem ég mun lýsa nánar þegar nær dregur en það má líka fylgja krækjunni inn á andmælaviðburðinn inn á Fésbókinni til að átta sig betur á því hvað skipuleggjendur hans hafa í hyggju. Grasrótin ætlar nefnilega að tryggja það að þarna niður frá verði fulltrúar almennings og sjá til þess að rödd hans heyrist út til alþjóðasamfélagsins. Ég leyfi mér að skora á þig að láta sjá þig en lýk þessu á orðum Vilhjálms Bjarnasonar, ekki fjárfestis: 

Rétti tíminn til að láta alþjóðasamfélagið, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Alþingi, ríkisstjórn og Seðlabankann vita hvað okkur finnst um stöðu íslenskra heimila er þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Seðlabankinn og íslenska ríkið ætla að halda alþjóðlega ráðstefnu. Montfund um hvað rosalega vel hafi til tekist hér á landi í samstarfi þessara aðila við að koma bankakerfinu af stað eftir hrun. Dagsetningin er 27. október næst komandi í Hörpunni. Held að þarna sé besta tækifærið fyrir venjulega Íslendinga til að segja þessu fólki hvað okkur finnst um hvernig þeim hafi til tekist í skuldamálum heimilanna.

Leiðin er að setja andmæli á einhverju erlendu tungumáli á skilti og taka með sér en svo ætlar grasrótin að taka upp munnleg skilaboð, setja inn á You Tube og dreifa þaðan inn á erlendar mótmælasíður. SJÁUMST!


mbl.is Mikið um að vera í Hörpu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

„Sigurvegari en ekki þræll“

Það hefur varla farið fram hjá neinum að það voru alheimsmótmæli síðastliðinn laugardag. Þann dag var mótmælt í yfir 1.000 borgum víðs vegar um heiminn. Ein þeirra var Reykjavík og eins og fyrri daginn voru Íslendingar svolítið öðru vísiWink

Hörður Torfa endurvakti Raddir fólksins á Austurvelli en á Lækjartorgi kallaði 15. októberhreyfingin fólk saman til að taka þátt í alheimsmótmælunum þennan dag.

Hörður Torfa 15. októbert 2011
15. októberhreyfingin

Á Austurvelli voru haldnar ræður eins og á laugardagsfundunum fyrstu tvo veturna eftir hrun en á Lækjartorgi var opinn hljóðnemi að fyrirmynd Wall Street-mótmælanna. Svo var það fíflafáninn!

Bylting fíflannaÞessi fáni varð til í kringum götuleikverk sem Kristján Ingimarsson setti upp á Akureyrarvöku sumarið 2007. Verkið fékk nafnið Bylting fíflanna en þar leiddu hirðfífl byltingu almennings gegn græðgisfirrtum yfirvöldum. Þegar þeim hafði verið steypt af stóli var þessi táknræni fáni dreginn að húni.

Fífillinn sem prýðir hann er ábyggilega útbreiddasta og harðgerðasta blóm landsins. Sumir líta á hann sem illgresi en aðrir rækta hann. Einhverjir reyna að eyða honum með eitri en þessi lífseigi vorboði kemur alltaf aftur. Lífskraftur fífilsins er svo öflugur að hann brýtur sér jafnvel leið upp í gegnum malbikið til að breiða úr sumarlituðum kolli sínum á móti vinkonu sinni; sólinni. (Sjá nánar um sögu fánans hér)

Fíflagangan 15. október 2011

Í reynd endurspeglar saga fífilsins fjarskalega vel kjarnann í kröfum alheimsmótmælanna og ekki síður úthald þeirra sem sætta sig ekki lengur við það að 1% mannkyns komi fram við hin 99%-in eins og fífl og/eða illgresi. Kannski er það einmitt fyrir þetta sem fánanum var svona vel tekið síðastliðinn laugardag. Hann hefur nefnilega aldrei vakið jafnmikla athygli í neinum mótmælum eins og þá. Samt hefur hann fylgt þeim frá því þau fóru af stað í kjölfar bankahrunsins haustið 2008.

Hann var nokkuð áberandi í upphafi mótmælanna á Akureyri en haustið 2009 fengum við Ásta Hafberg leyfi Kristjáns til að láta framleiða hann og tengja hann við samstöðu og von þeirra sem láta sig dreyma um breytta samfélagsgerð sem byggir á lýðræði óháð peningavaldinu. Við fengum Fánasmiðjuna  í samstarf með okkur sem prentar þessa fána í nokkrum stærðum. 

Við létum okkur að sjálfsögðu dreyma um það að fáninn yrði áberandi á bílum og fánastöngum um allt land en sá draumur hefur eitthvað látið á sér standa. Fáninn hefur þó skotið upp kollinum nánast í öllum heimshlutum enda hefur höfundur hans dreift honum og hugmyndafræðinni sem hann stendur fyrir á afar hugmyndaríkan hátt. (Sjá internetsíðu og fésbókarsíðu)

Flestir sem kynnast hugmyndunum, sem búa að baki þessum bjartlitaða samstöðufána, heillast líka af honum. Einn þeirra er Hörður Torfa sem hefur samið lag og texta sem miðlar hugmyndafræðinni sem hann stendur fyrir einkar vel. Textinn er hér:

Söngur fíflanna

með vindinum fýk ég sem fræ
mitt frelsi er að berast með honum
Bylting fílanna 15. október 2011við heiminum sólgulur hlæ
með hugann fullan af vonum

ég dafna allstaðar ögrandi
sem útskúfuð jurt á engi
fíflið sem segir alltaf satt
er sjaldan velkomið lengi

menn reyna oft að malbika
mig oní jörð en ég hvika
hvergi og kem alltaf aftur
í mér býr lífsgleði vilji og kraftur
ég hef margt að segja og sanna
ég er sigurtákn meðal manna
uni því sáttur og sæll
ég er sigurvegari en ekki þræll

ég er fíflið sem ást sína ól
á öllu sem skiptir máli
ég nýt þess að nærast á sól
neita öllu falsi og prjáli

ég tákna andstöðu alls
sem eyðir kúgar og svíkur
ég er kallaður fífill og fífl
af fegurð og baráttu ríkur

                            (hörður torfa)

Það eru ekki allir eins heppnir og Hörður Torfa að kunna að koma þeim tilfinningum sem fáninn vekur þeim í vel valin og áhrifarík orð. Það er þó ljóst að hann hefur vakið mörgum sem sáu hann síðastliðinn laugardag svipaðar tilfinningar. Myndavélar ljósmyndaranna sem voru staddar niður á Austurvelli drógust líka að honum. Hér eru nokkur sýnishorn:

FíflaganganFíflagangan
 Fíflagangan Fíflagangan
 Mannsæmandi kjör fyrir alla Alþingi out of order
 Fíflagangan Fíflafáninn á Lækjartorgi

Ljósmyndirnar hér að ofan eru fengnar að láni úr myndasöfnum: Andres Zoran Ivanovic, Ásgeirs Ásgeirssonar, Dóra Sig, Jóhanns Ágústar Hansens, Sigríðar Sirrýjar Dagbjartsdóttur og Sigurðar Sveins. Það voru líka tekin upp nokkur myndbönd þennan dag sem nú eru komin inn á You Tube. Ég læt eitt þeirra fylgja hér með en það er frá Lifandi mynd.  


Það mættu fleiri taka það upp eftir forsetanum að vera til staðar og hlusta

Ég leyfi mér að birta frétt Svipunnar af þessum fundi í heild hér að neðan:

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, átti í dag fund með fulltrúum grasrótarfélaga sem hafa meðal annars staðið fyrir mótmælum og borgarafundum á undanförnum þremur árum. Það var Rakel Sigurgeirsdóttir sem óskaði eftir fundi með forseta Íslands en hann var framhald af sambærilegum fundi í fyrra (Sjá hér) Með Rakel á fundinum í dag voru: Ásta Hafberg en þær tvær hafa staðið fyrir tunnumótmælum ásamt fleirum, Kristinn Már Ársælsson frá Öldu, félagi um sjálfbærni og lýðræði, og Daði Ingólfsson sem hefur unnið mikið að stjórnarskrármálum.
Þeir Daði Ingólfsson og Kristinn Már Ársælsson ræddu aðdraganda og fæðingarhríðir nýrrar stjórnarskrár ásamt viðtökum þingsins á stjórnarskrárfrumvarpinu við forsetann. Daði hefur af eigin frumkvæði látið prenta nýju stjórnarskrána og færði forsetaembættinu eintök.
Upphaflega stóð til að Gunnar Skúli Ármannsson yrði samferða Rakel og Ástu á fundimm en þar sem hann er úti í Svíþjóð vegna vinnu sinnar færði Rakel forsetanum bréf Gunnars Skúla og erindi hans um sögu peninganna, sem hann sendi til stjórnlagaráðs síðastliðið vor. Auk þessa færði hún forsetanum afrit af bréfasamskiptum Tunnanna við þingmenn síðastliðið ár en þar koma skýrar kröfur þeirra, meðal annars um samstarf við almenning, fram.
Í viðtali við Svipuna segir Rakel að á fundinum hafi fulltrúar grasrótarinnar lýst yfir áhyggjum sínum og vonbrigðum yfir því að þrátt fyrir þrotlausa baráttu, sem hefur verið keyrð áfram af hugviti ekki síður en háværum mótmælum, hafa kröfur og hugmyndir að lausnum þeirra verið að litlu hafðar og jafnvel hunsdaðar.
Hún sagði að það hafi oft verið bent á að kröfur búsáhaldabyltingarinnar hafi verið mjög beinskeyttar. „Krafan var meðal annars sú að stjórnin færi frá en það hefur í raun ekki skilað þeim sem mótmæltu því sem þá dreymdi um. Kröfur áframhaldandi viðspyrnu eru gjarnan sagðar óljósar en ástæða þess er sú að hún snýst um grundvallarbreytingar eða uppstokkun á öllu kerfinu. Þessi krafa er alþjóðleg eins og fram hefur komið í mótmælunum um allan heim á síðustu mánuðum. Krafan er alvöru lýðræði en það þýðir að það þarf gagngera uppstokkun á bæði stjórnsýslunni og fjármálakerfinu.“
Það var samdóma álit gesta forsetans að lýðræðið liði fyrir sívaxandi áhrifamátt fjármálakerfisins. Ólafur Rganar Grímsson tók undir áhyggjur gesta sinna varðandi lýðræðisið og hvatti þá til að kynna sér það sem kom fram um þetta efni í ræðu sem hann flutti á Evróðuþingi stjórnmálafræðinga sem fram fór í Reykjavík 25. ágúst síðastliðinn. (Ræðuna má nálgast hér)
Rakel sagði að gestirnir á Bessastöðum hefðu lagt ríka áherslu á nauðsyn þess að allir þjóðfélagshópar tali saman sem er í reynd alveg gerlegt í jafn litlu samfélagi og hér. „Tunnurnar gerður tilraun til að ná saman fulltrúum valda- og fræðasamfélagsins með fulltrúum almennings úr grasrótinni. Margir þar hafa lagt nótt við nýtan dag á síðast liðnum þremur árum við að ræða og þróa nothæfar hugmyndir að bættu samfélagi.“
Í lok fundarins var forsetanum bent á nýstofnaða Grarótarmiðstöð sem opnuð hefur verið í Brautarholti 4 en hún er prýðilegur vettvangur fyrir þá sem vilja miðla hugmyndum að lausnum og ræða málin. Forsetinn var afar jákvæður gagnvart þeirri miklu grósku sem hefur verið í grasrótarstarfi bæði hér heima og víðar í heiminum og sagði Rakel það ljóst að að hann fylgist mjög vel með því sem er að gerast þar.
Tengdar fréttir:
Ólafur Ragnar fundaði með mótmælendum á Bessastöðum

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, átti í dag fund með fulltrúum grasrótarfélaga sem hafa meðal annars staðið fyrir mótmælum og borgarafundum á undanförnum þremur árum. Það var Rakel Sigurgeirsdóttir sem óskaði eftir fundi með forseta Íslands en hann var framhald af sambærilegum fundi í fyrra. (Sjá hér) Með Rakel á fundinum í dag voru: Ásta Hafberg en þær tvær hafa staðið fyrir tunnumótmælum ásamt fleirum, Kristinn Már Ársælsson frá Öldu, félagi um sjálfbærni og lýðræði, og Daði Ingólfsson sem hefur unnið mikið að stjórnarskrármálum.

Grasrótin á fundi með forsetanum

Þeir Daði Ingólfsson og Kristinn Már Ársælsson ræddu aðdraganda og fæðingarhríðir nýrrar stjórnarskrár ásamt viðtökum þingsins á stjórnarskrárfrumvarpinu við forsetann. Daði hefur af eigin frumkvæði látið prenta nýju stjórnarskrána og færði forsetaembættinu eintök.

Upphaflega stóð til að Gunnar Skúli Ármannsson yrði samferða Rakel og Ástu á fundinn en þar sem hann er úti í Svíþjóð vegna vinnu sinnar færði Rakel forsetanum bréf Gunnars Skúla og erindi hans um sögu peninganna, sem hann sendi til stjórnlagaráðs síðastliðið vor. Auk þessa færði hún forsetanum afrit af bréfasamskiptum Tunnanna við alþingismenn síðastliðið ár en þar koma fram skýrar kröfur þeirra; meðal annars um samstarf við almenning.

Í viðtali við Svipuna segir Rakel að á fundinum hafi fulltrúar grasrótarinnar lýst yfir áhyggjum sínum og vonbrigðum yfir því að þrátt fyrir þrotlausa baráttu, sem hefur verið keyrð áfram af hugviti ekki síður en háværum mótmælum, hafa kröfur og hugmyndir að lausnum þeirra verið að litlu hafðar og jafnvel hundsaðar.

Hún sagði að það hafi oft verið bent á að kröfur búsáhaldabyltingarinnar hafi verið mjög beinskeyttar. „Krafan var meðal annars sú að stjórnin færi frá en það hefur í raun ekki skilað þeim sem mótmæltu því sem þá dreymdi um. Kröfur áframhaldandi viðspyrnu eru gjarnan sagðar óljósar en ástæða þess er sú að hún snýst um grundvallarbreytingar eða uppstokkun á öllu kerfinu. Þessi krafa er alþjóðleg eins og fram hefur komið í mótmælunum um allan heim á síðustu mánuðum. Krafan er alvöru lýðræði en það þýðir að það þarf gagngera uppstokkun á bæði stjórnsýslunni og fjármálakerfinu.“

Það var samdóma álit gesta forsetans að lýðræðið liði fyrir sívaxandi áhrifamátt fjármálakerfisins. Ólafur Ragnar Grímsson tók undir áhyggjur gesta sinna varðandi lýðræðið og hvatti þá til að kynna sér það sem kom fram um þetta efni í ræðu sem hann flutti á Evrópuþingi stjórnmálafræðinga sem fram fór í Reykjavík 25. ágúst síðastliðinn. (Ræðuna má nálgast hér)

Rakel sagði að gestirnir á Bessastöðum hefðu lagt ríka áherslu á nauðsyn þess að allir þjóðfélagshópar tali saman sem er í reynd alveg gerlegt í jafn litlu samfélagi og hér. „Tunnurnar gerðu tilraun til að ná saman fulltrúum valda- og fræðasamfélagsins með fulltrúum almennings úr grasrótinni. Margir þar hafa lagt nótt við nýtan dag á síðastliðnum þremur árum við að ræða og þróa nothæfar hugmyndir að bættu samfélagi.“

Í lok fundarins var forsetanum bent á nýstofnaða Grasrótarmiðstöð sem opnuð hefur verið í Brautarholti 4 en hún er prýðilegur vettvangur fyrir þá sem vilja miðla hugmyndum að lausnum og ræða málin. Forsetinn var afar jákvæður gagnvart þeirri miklu grósku sem hefur verið í grasrótarstarfi bæði hér heima og víðar í heiminum og sagði Rakel það ljóst að að hann fylgist mjög vel með því sem er að gerast þar.

Tengdar fréttir:

Ólafur Ragnar fundaði með mótmælendum á Bessastöðum


mbl.is Forsetinn ræðir við mótmælendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt prósent gegn níutíu og níu prósentum!

Peningar, losti og græðgiÁ meðan valda- og peningafíklar heimsins vinda síðustu dropana úr sápukúluveröldinni sinni rísa þjóðir heims upp til samstöðu og byggja upp styrkar stoðir fyrir bjartari framtíð. Framtíð sem gerir ráð fyrir breyttu fjármálakerfi og alvöru lýðræði. Almenningur um allan heim er nefnilega að átta sig á því að lénskerfið var aldrei afnumið og það var ekki nóg að ganga á milli bols og höfuðs á franska aðlinum.

Það er ekki nóg að skipta út fólki í brúnni þar sem allir sem þangað koma horfa niður til farþeganna ef þeir horfa yfir höfuð til þeirra eftir að þeir hafa verið settir einni hæð fyrir ofan þá. Fólkið í brúnni hefur aðeins innbyrðis samskipti og tekur eingöngu mið af hugmyndum þeirra sem deila gólfinu með þeim. Vegna stöðunnar á brúnni fer þessi fámenni hópur að líta á sig sem yfirstétt sem eigi sjálfskipuð forréttindi fram yfir farþeganna. Sambandsleysið sem orsakast af feluleiknum í kringum forréttindin verður til þess að fólkið í brúnni fer að telja sér trú um að fólkið á neðri hæðum skútunnar sé þarna þeirra vegna.

Sjálfskipað forréttindapakkSennilega er brú nauðsynleg í skipum en hún er greinilega til verulegrar óþurftar í samfélögum sem ættu að byggja á einu gólfi þar sem allir njóta sömu réttinda og grundvallarkjara. Ef við viljum lýðræði þarf að byrja á því að bylta byggingu kerfisins: bæði fjármála- og stjórnkerfinu. Lýðræði getur aldrei þrifist í kerfi sem byggir á forréttindum þeirra sem fólkið velur sem fulltrúa sína.

Alvöru lýðræði miðar að því að hagsmunir heildarinnar séu hafðir í fyrirrúmi. Þannig stríðir einkarekstur um bankarekstur, heilbrigðisþjónustu, menntun, samgöngur og auðlindir jarðarinnar gegn hugmyndafræðinni sem lýðræðið byggir á. Einkarekstur sem byggir á græðgi og eiginhagsmunum grundvallast á hugmyndafræði einræðisríkja og glæpagengja þar sem sverustu dólgarnir með lægstu siðferðisvitundina sölsa undir sig yfirráðin til að þjóna eigin duttlungum.

AlþjóðagjaldeyrissjóðurinnMeginþorri fólks er friðsamir og nægjusamir einstaklingar sem dreymir um það fyrst og fremst að búa sér og sínum þokkalegt líf undir öruggu þaki með örugga lífsafkomu. Þessi hópur á sér yfirleitt drauma um að veita sér eitthvað umfram fæði og klæði en það stríðir gegn réttlætiskennd hans og siðferðisvitund að aðrir líði fyrir það sem þeir gera kröfur til. Marga skortir m.a.s. hugmyndaflug til að láta sér detta það í hug að þeir sem komast til valda líti svo á að þeim séu sköpuð slík forréttindi að þau þoli ekki dagsins ljós.

Þó er það þetta sem almenningur um heimsbyggðina er að átta sig á í dag. Þeir sjá það að réttur þeirra til lífvænlega kjara er að engu hafður. Hann horfir upp á það að stofnanir sem er haldið uppi á hans kostnað þjóna valda- og eignastéttinni. Löggæsla, dómsvald og þing er ofurselt peningavaldinu sem vel að merkja eru einkarekin fyrirtæki sem almenningi var talin trú um að geymdu verðmætin sem hann skapar með vinnuframlagi sínu. Það hefur hins vegar komið æ, skýrar í ljós að bankastofnanir heimsins eru verðmætaryksugurnar sem sjúga til sín verðmætin, koma þeim fyrir í peningaskápum mafíuforingja sem útdeilda þeim til valda- og eignastéttarinnar í gegnum spilavítin sín.

Indíánaspeki
Grimmdarlega sagt? Of einfölduð mynd? Ég get svo sem viðurkenni það en í meginatriðum er þetta nógu nálægt hinum skuggalega sannleika til að standa eins og þessu er komið á framfæri hér! 


mbl.is Gagnaver Verne Global er komið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í perlu társ þíns fæ ég að lifa

Ég hef ekki enn náð almennilega úr mér kuldanum sem náði tökum á mér í tunnumótmælunum síðastliðið mánudagskvöld. Það var ekki fyrir það hve kalt var í veðri þetta kvöld heldur fyrir kuldann sem stafaði frá steinhúsinu sem var reist utan um störf þingfulltrúa íslenska lýðræðisins. Gamla steinhúsið niður við Austurvöll minnti nefnilega á myrkrastofnun þetta kvöld með fyrirdregna glugga og lögregluvarða skjaldborg sem staðfestir þá miklu gjá sem er á milli þings og þjóðar.

3. október 2011Skjaldborgin

Tunnurnar voru mættar fyrir framan þinghúsið rúmum klukkutíma áður en forsætisráðherra hóf upp raust sína innan veggja og lofaði þann árangur sem Jóhanna Sigurðardóttir vill trúa að hún og kollegar hennar inni á þingi hafi náð í endurreisninni. Svipur fólksins bak við varnargirðingarnar sem lögreglan reisti nokkrum metrum frá alþingishúsinu vitnaði um það að „árangurinn“ er vonbrigði.

3. október 20113. október 2011
3. október 20113. október 2011

Aftur ómaði hjartsláttur þjóðarinnar í taktföstum tunnuslættinum undir falsmyndinni sem forsætisráðherra dró upp af stöðu samfélagsins í stefnuræðu sinni.

Hjartsláttur þjóðarinnar
Á bak við gluggatjöldin

Það er algengur misskilningur að þeir sem berja tunnur eða hafa uppi aðra viðspyrnustarfsemi viti ekkert hverju þeir eru að mótmæla eða hvað þeir vilja í staðinn. Þessi misskilningur stafar e.t.v. af því að fjölmiðlarnir sem eru í eigu valda- og eignaelítunnar eru lítið fyrir það að gera slíku hátt undir höfði. Eins og eftirfaraandi myndir bera með sér var enginn skortur á skírum skilaboðum til þingsins frá þeim sem reyndu enn einu sinni að fá fulltrúa þess til að hlusta:

3. október 2011
3. október 2011
3. október 2011Alöru lýðræði
3. október 20113. október 2011
3. október 20113. október 2011

Öll þessi skilti voru áberandi í tunnumótmælunum sl. mánudagskvöld. Þau ásamt fleirum bergmáluðu kröfurnar sem Tunnurnar settu fram í fréttatilkynningu um viðburðinn (sjá hér), í opnu bréfi til þingmanna (sjá hér) svo og fréttatilkynningu sem þær sendu út eftir viðburðinn sjálfan (sjá hér).

Þó kröfur Tunnanna séu hundsaðar jafnt af stjórnmálastéttinni sem og langflestum fjölmiðlum þá þykjast þær sjá að kröfur þeirra eiga ekki aðeins hljómgrunn meðal þeirra sem berjast fyrir breytingum á íslensku samfélagi heldur líka meðal þess sívaxaandi hóps sem berst út um allan heim fyrir alvöru lýðræði!

****
Jóhann Ágúst Hansen, ljósmyndari Svipunnar, á langflestar myndirnar í þessari færslu.


mbl.is Mótmælt víða um Bandaríkin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband