„Sigurvegari en ekki þræll“

Það hefur varla farið fram hjá neinum að það voru alheimsmótmæli síðastliðinn laugardag. Þann dag var mótmælt í yfir 1.000 borgum víðs vegar um heiminn. Ein þeirra var Reykjavík og eins og fyrri daginn voru Íslendingar svolítið öðru vísiWink

Hörður Torfa endurvakti Raddir fólksins á Austurvelli en á Lækjartorgi kallaði 15. októberhreyfingin fólk saman til að taka þátt í alheimsmótmælunum þennan dag.

Hörður Torfa 15. októbert 2011
15. októberhreyfingin

Á Austurvelli voru haldnar ræður eins og á laugardagsfundunum fyrstu tvo veturna eftir hrun en á Lækjartorgi var opinn hljóðnemi að fyrirmynd Wall Street-mótmælanna. Svo var það fíflafáninn!

Bylting fíflannaÞessi fáni varð til í kringum götuleikverk sem Kristján Ingimarsson setti upp á Akureyrarvöku sumarið 2007. Verkið fékk nafnið Bylting fíflanna en þar leiddu hirðfífl byltingu almennings gegn græðgisfirrtum yfirvöldum. Þegar þeim hafði verið steypt af stóli var þessi táknræni fáni dreginn að húni.

Fífillinn sem prýðir hann er ábyggilega útbreiddasta og harðgerðasta blóm landsins. Sumir líta á hann sem illgresi en aðrir rækta hann. Einhverjir reyna að eyða honum með eitri en þessi lífseigi vorboði kemur alltaf aftur. Lífskraftur fífilsins er svo öflugur að hann brýtur sér jafnvel leið upp í gegnum malbikið til að breiða úr sumarlituðum kolli sínum á móti vinkonu sinni; sólinni. (Sjá nánar um sögu fánans hér)

Fíflagangan 15. október 2011

Í reynd endurspeglar saga fífilsins fjarskalega vel kjarnann í kröfum alheimsmótmælanna og ekki síður úthald þeirra sem sætta sig ekki lengur við það að 1% mannkyns komi fram við hin 99%-in eins og fífl og/eða illgresi. Kannski er það einmitt fyrir þetta sem fánanum var svona vel tekið síðastliðinn laugardag. Hann hefur nefnilega aldrei vakið jafnmikla athygli í neinum mótmælum eins og þá. Samt hefur hann fylgt þeim frá því þau fóru af stað í kjölfar bankahrunsins haustið 2008.

Hann var nokkuð áberandi í upphafi mótmælanna á Akureyri en haustið 2009 fengum við Ásta Hafberg leyfi Kristjáns til að láta framleiða hann og tengja hann við samstöðu og von þeirra sem láta sig dreyma um breytta samfélagsgerð sem byggir á lýðræði óháð peningavaldinu. Við fengum Fánasmiðjuna  í samstarf með okkur sem prentar þessa fána í nokkrum stærðum. 

Við létum okkur að sjálfsögðu dreyma um það að fáninn yrði áberandi á bílum og fánastöngum um allt land en sá draumur hefur eitthvað látið á sér standa. Fáninn hefur þó skotið upp kollinum nánast í öllum heimshlutum enda hefur höfundur hans dreift honum og hugmyndafræðinni sem hann stendur fyrir á afar hugmyndaríkan hátt. (Sjá internetsíðu og fésbókarsíðu)

Flestir sem kynnast hugmyndunum, sem búa að baki þessum bjartlitaða samstöðufána, heillast líka af honum. Einn þeirra er Hörður Torfa sem hefur samið lag og texta sem miðlar hugmyndafræðinni sem hann stendur fyrir einkar vel. Textinn er hér:

Söngur fíflanna

með vindinum fýk ég sem fræ
mitt frelsi er að berast með honum
Bylting fílanna 15. október 2011við heiminum sólgulur hlæ
með hugann fullan af vonum

ég dafna allstaðar ögrandi
sem útskúfuð jurt á engi
fíflið sem segir alltaf satt
er sjaldan velkomið lengi

menn reyna oft að malbika
mig oní jörð en ég hvika
hvergi og kem alltaf aftur
í mér býr lífsgleði vilji og kraftur
ég hef margt að segja og sanna
ég er sigurtákn meðal manna
uni því sáttur og sæll
ég er sigurvegari en ekki þræll

ég er fíflið sem ást sína ól
á öllu sem skiptir máli
ég nýt þess að nærast á sól
neita öllu falsi og prjáli

ég tákna andstöðu alls
sem eyðir kúgar og svíkur
ég er kallaður fífill og fífl
af fegurð og baráttu ríkur

                            (hörður torfa)

Það eru ekki allir eins heppnir og Hörður Torfa að kunna að koma þeim tilfinningum sem fáninn vekur þeim í vel valin og áhrifarík orð. Það er þó ljóst að hann hefur vakið mörgum sem sáu hann síðastliðinn laugardag svipaðar tilfinningar. Myndavélar ljósmyndaranna sem voru staddar niður á Austurvelli drógust líka að honum. Hér eru nokkur sýnishorn:

FíflaganganFíflagangan
 Fíflagangan Fíflagangan
 Mannsæmandi kjör fyrir alla Alþingi out of order
 Fíflagangan Fíflafáninn á Lækjartorgi

Ljósmyndirnar hér að ofan eru fengnar að láni úr myndasöfnum: Andres Zoran Ivanovic, Ásgeirs Ásgeirssonar, Dóra Sig, Jóhanns Ágústar Hansens, Sigríðar Sirrýjar Dagbjartsdóttur og Sigurðar Sveins. Það voru líka tekin upp nokkur myndbönd þennan dag sem nú eru komin inn á You Tube. Ég læt eitt þeirra fylgja hér með en það er frá Lifandi mynd.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Frábært.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 20.10.2011 kl. 08:24

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Það var skemmtilegt að taka þátt í þessari göngu með fíflafánana...

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 21.10.2011 kl. 01:57

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Tek undir það með þér og verð að viðurkenna það að þetta er í eina skiptið sem ég man eftir því að hafa séð jafn marga brosandi á mótmælum.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 23.10.2011 kl. 07:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband