Eitt prósent gegn níutíu og níu prósentum!

Peningar, losti og græðgiÁ meðan valda- og peningafíklar heimsins vinda síðustu dropana úr sápukúluveröldinni sinni rísa þjóðir heims upp til samstöðu og byggja upp styrkar stoðir fyrir bjartari framtíð. Framtíð sem gerir ráð fyrir breyttu fjármálakerfi og alvöru lýðræði. Almenningur um allan heim er nefnilega að átta sig á því að lénskerfið var aldrei afnumið og það var ekki nóg að ganga á milli bols og höfuðs á franska aðlinum.

Það er ekki nóg að skipta út fólki í brúnni þar sem allir sem þangað koma horfa niður til farþeganna ef þeir horfa yfir höfuð til þeirra eftir að þeir hafa verið settir einni hæð fyrir ofan þá. Fólkið í brúnni hefur aðeins innbyrðis samskipti og tekur eingöngu mið af hugmyndum þeirra sem deila gólfinu með þeim. Vegna stöðunnar á brúnni fer þessi fámenni hópur að líta á sig sem yfirstétt sem eigi sjálfskipuð forréttindi fram yfir farþeganna. Sambandsleysið sem orsakast af feluleiknum í kringum forréttindin verður til þess að fólkið í brúnni fer að telja sér trú um að fólkið á neðri hæðum skútunnar sé þarna þeirra vegna.

Sjálfskipað forréttindapakkSennilega er brú nauðsynleg í skipum en hún er greinilega til verulegrar óþurftar í samfélögum sem ættu að byggja á einu gólfi þar sem allir njóta sömu réttinda og grundvallarkjara. Ef við viljum lýðræði þarf að byrja á því að bylta byggingu kerfisins: bæði fjármála- og stjórnkerfinu. Lýðræði getur aldrei þrifist í kerfi sem byggir á forréttindum þeirra sem fólkið velur sem fulltrúa sína.

Alvöru lýðræði miðar að því að hagsmunir heildarinnar séu hafðir í fyrirrúmi. Þannig stríðir einkarekstur um bankarekstur, heilbrigðisþjónustu, menntun, samgöngur og auðlindir jarðarinnar gegn hugmyndafræðinni sem lýðræðið byggir á. Einkarekstur sem byggir á græðgi og eiginhagsmunum grundvallast á hugmyndafræði einræðisríkja og glæpagengja þar sem sverustu dólgarnir með lægstu siðferðisvitundina sölsa undir sig yfirráðin til að þjóna eigin duttlungum.

AlþjóðagjaldeyrissjóðurinnMeginþorri fólks er friðsamir og nægjusamir einstaklingar sem dreymir um það fyrst og fremst að búa sér og sínum þokkalegt líf undir öruggu þaki með örugga lífsafkomu. Þessi hópur á sér yfirleitt drauma um að veita sér eitthvað umfram fæði og klæði en það stríðir gegn réttlætiskennd hans og siðferðisvitund að aðrir líði fyrir það sem þeir gera kröfur til. Marga skortir m.a.s. hugmyndaflug til að láta sér detta það í hug að þeir sem komast til valda líti svo á að þeim séu sköpuð slík forréttindi að þau þoli ekki dagsins ljós.

Þó er það þetta sem almenningur um heimsbyggðina er að átta sig á í dag. Þeir sjá það að réttur þeirra til lífvænlega kjara er að engu hafður. Hann horfir upp á það að stofnanir sem er haldið uppi á hans kostnað þjóna valda- og eignastéttinni. Löggæsla, dómsvald og þing er ofurselt peningavaldinu sem vel að merkja eru einkarekin fyrirtæki sem almenningi var talin trú um að geymdu verðmætin sem hann skapar með vinnuframlagi sínu. Það hefur hins vegar komið æ, skýrar í ljós að bankastofnanir heimsins eru verðmætaryksugurnar sem sjúga til sín verðmætin, koma þeim fyrir í peningaskápum mafíuforingja sem útdeilda þeim til valda- og eignastéttarinnar í gegnum spilavítin sín.

Indíánaspeki
Grimmdarlega sagt? Of einfölduð mynd? Ég get svo sem viðurkenni það en í meginatriðum er þetta nógu nálægt hinum skuggalega sannleika til að standa eins og þessu er komið á framfæri hér! 


mbl.is Gagnaver Verne Global er komið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Stundum þarf að setja myndina fram á einfaldan hátt, heitir líka að tala á mannamáli, svo fólk skilji.  FLott grein og gæti ekki verið betur orðuð. 

Nú vil ég að þið grasrótin sem hafið staðið saman að útifundum, mótmælum, borgarafundum og ég veit ekki hvað, talið ykkur saman um sameinað framboð, Frjálslyndflokkurinn, Hreyfingin og Borgarahreyfingin og óháðir.  Gera kosningabandalag, það þarf ekki að leggja flokkana niður, heldur sameinast um að ná til þeirra sem deila áhyggjum sínum með okkur og vilja alvöru breytingar. 

Það mun auðvitað mæta hörkulegri gagnrýni og allt vera gert til að þagga slíkt niður, því fjórflokkurinn áttar sig á því að slíkt bandalag gæti orðið þeim ansi skeinuhætt.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.10.2011 kl. 10:30

2 Smámynd: Aðalsteinn Agnarsson

Sammála Ásthildi.

Aðalsteinn Agnarsson, 16.10.2011 kl. 13:40

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Algjörlega sammála...

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 16.10.2011 kl. 23:46

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þakka ykkur fyrir innlit og komment. Ég tek undir það með Ásthildi að ef það er leiðin sem við verðum sammála um að krefjast eða bíða eftir kosningum þá ættu minni flokkar og grasrót að bjóða fram saman. Út frá mínum bæjardyrum séð væri það óvitlaust að gera það undir formerkjum verkefnisstjórnar. Það er að hópurinn kæmi sér saman um brýnustu mál eins og efnahagsaðgerðir, kerfisbreytingar, utanríkismál og auðlindamál og setti fram skýr markmið og verkáætlun í þessum málaflokkum. Þetta eru líka í aðalatriðum þau mál sem brýnast er að taka á eins og staðan er í dag.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 18.10.2011 kl. 03:08

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já einmitt það væri frábært, fá í liðið Hagsmunasamtök heimilanna og fleiri slík sem hafa unnið þrekvirki í að benda á það sem miður má fara.  Þetta krefst samvinnu og teymisvinnu þar sem fólk þarf fyrst og fremst að hugsa um hag almennings en ekki sinn eigin. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.10.2011 kl. 10:45

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Sammála

Rakel Sigurgeirsdóttir, 18.10.2011 kl. 11:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband