Bloggfærslur mánaðarins, október 2011

Upphaf allra byltinga er þöggunin!

Þöggnin gerir þig að þrælTunnurnar sendu út fréttatilkynningu á alla stærstu fjölmiðlana á höfuðborgarsvæðinu. Enginn nema Útvarp Saga hefur birt hana. Tunnurnar deyja hins vegar ekki ráðalausar heldur ákváðu að nýta miðilinn sem þú er að lesa þessar línur af.

Við þurfum nefnilega ekkert að láta fjölmiðla þess eina prósents sem hefur efni á því að reka þá stjórna þekkingu okkar og skoðunum. Við þurfum heldur ekki að fara sömu leið og þeir við rekstur slíkra miðla. Við höfum okkar eigin miðil sem er Netið. Nýtum hann til að miðla því sem fjölmiðlar valda- og eignastéttarinnar hundsa til að upplýsa þau 99% sem þurfa að standa saman til að breyta heiminum.

Fréttatilkynning frá Tunnunum

Af gefnu tilefni viljum við taka það fram að tunnumótmælin, undir stefnuræðu forsætisráðherra síðastliðið mánudagskvöld, voru ekki að undirlagi neins stjórnmálaafls og krafa þeirra snerist á engan hátt um nýjar kosningar.

Kröfur okkar komu skýrt fram á viðburðinum sem var stofnaður á Facebook, í fréttatilkynningum sem voru sendar á fjölmiðla og svo í bréfi sem var sent á alla þingmenn. Kröfur okkar snúast í stuttu máli um leiðréttingu á stöðu lántakenda, verulegar lýðræðisumbætur, uppgjör gagnvart raunverulegum hrunvöldum og uppstokkun á fjármálakerfinu.

Frá því í fyrra höfum við mælt með lýðræðislegri samvinnu við að vinna að lausnum þess samfélagsvanda sem núverandi stjórnarkreppa í landinu viðheldur. Við hörmum útilokunina og undanbrögðin sem Tunnurnar hafa reynt og horft upp á í samskiptum stjórnvalda við Hagsmunasamtök heimilanna. Þessum augum lítum við þau viðbrögð forsætisráðuneytisins, við undirskriftarlistum Samtakanna, að kalla saman sama sérfræðingahóp og í kjölfar stóru tunnumótmælanna í fyrra. Við fordæmum þessi undanbrögð varðandi kröfur nær 35.000 Íslendinga ásamt því að hvorki Hagsmunasamtökin né Tunnurnar hafi verið höfð með í ráðum.

Við viljum nota tækifærið og senda umlykjandi kærleikskveðjuHeart til allra þeirra sem mynduðu kyrrláta en háværa samstöðu um kröfuna um uppbyggingu samfélags sem gerir ráð fyrir mannsæmandi kjörum fyrir alla og viljum skora á stjórnvöld að taka sig saman í andlitinu og fara að hlusta. Að öðrum kosti ætti stjórnmálastéttin öll að stíga hógvær til hliðar og gefa þjóðinni tækifæri til að skipa óflokksbundna sérfræðinga í bráðabirgða- og/eða verkefnisstjórn. Sú leið er fær undir þeirri stjórnskipunarhefð sem Sveinn Björnsson, fyrrverandi forseti, skapaði á sínum tíma með skipun tímabundinnar utanþingsstjórnar.


Tunnurnar skrifuðu opið bréf til þingmanna sem þær sendu þeim í undanfara tunnumótmælanna
sl. mánudagskvöld. Bréfið var sent á alla stærri fjölmiðla. Svipan er eini miðillinn sem hefur birt það. (Sjá hér)


mbl.is Engin samræða við stjórnvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnmálastéttin hefur ekkert lært!

4. október í fyrra boðuðu Tunnurnar til mótmæla í fyrsta skipti. Sá fjöldi sem mætti kom öllum skipuleggjendum þeirra gersamlega í opna skjöldu. Tölur um raunverulegan fjölda eru mjög á reiki en opinberar tölu segja að þarna hafi verið á bilinu 8.000-10.000manns . Miðað við reynslu þeirra sem hafa skipulagt ýmsa viðburði frá hruni er líklegt að það megi a.m.k. tvöfalda þessar tölur.

TunnumótmæliHávaðinn af tunnunum varð gríðarlegur og olli gífurlegum titringi ekki bara inni í þingsalnum þetta kvöld heldur víðar innan stjórnsýslunnar og inni í fjármálastofn- unum. Með sameiginlegu átaki tókst þessari fámennu valda- og eignaklíku samt að viðhalda því kerfi sem hún hefur byggt upp í kringum sjálfa sig. Kerfi sem byggir upp á svipuðu fyrirkomulagi og því sem leiddi til frönsku byltingarinnar þar sem almenningur í Frakklandi reis upp gegn arðrænandi græðgi aðalsins.

Loforð ríkistjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur til að bregðast við þessum mótmælum voru svikin og nú ári síðar er allt við það sama en afleiðingarnar koma alltaf skýrar og skýrar í ljós. Til að tryggja það að stjórnmálastéttin missti ekki af því hverjar eru raunverulegar kröfur boðara mótmæla í kvöld þá skrifuð Tunnurnar þingmönnum enn eitt bréfið og sendu þeim í tölvupósti. Fjölmiðlar fengu afrit af þessu bréfi, eins og hinum, en þar sem ég efast um að þeir treysti sér til að birta það ætla ég að setja það inn hér. Þið megið dreifa því að vild.

Reykjavík 3. október 2011

Góðan daginn!

Við undirrituð viljum tryggja það að tilefni tunnumótmælanna og kröfur þeirra fari ekki fram hjá kjörnum fulltrúum íslensku þjóðarinnar. Þjóðarinnar sem lagði allt sitt traust á að þeir sem hún greiddi atkvæði í síðustu kosningum myndu leggja alla sína vitsmuni í að vinna að kosingaloforðum eins og: skjaldborg um heimilin, uppbyggingu atvinnulífsins, aukið lýðræði, gagnsæi og uppgjör við hrunið.

Nú er ekki annað að sjá af orðum og framkomu margra ykkar, svo og allnokkurra meðal forvera ykkar, en að siðferðisstuðull þess hóps sem kemst inn á Alþingi sé almennt töluvert lægri en meðal meiri hluta almennings. Þess vegna geri ég ráð fyrir því að einhver ykkar séuð gallhörð á því að við þessi kosningaloforð hafi verið staðið með prýðilegum árangri.

Fjöldi gjaldþrota heimila og fyrirtækja, skrásettur hálfsannleikur og önnur afvegaleiðandi orðræða ráðherra og þingmanna í sambandi við auðlinda- og efnahagsmálin, meðferð dómstóla á málefnum sem varða lánamál og grunaðra fjárglæframanna draga allt annan veruleika í ljós. Það er af þessum ástæðum sem Tunnurnar koma saman aftur eins og 4. október í fyrra og minna á kröfur sínar í eftirfarandi upptalningu:

  • Við krefjumst þess að tekið verði á skuldavanda landsmanna með réttlætið að leiðarljósi en ekki sérhagsmunagæslu og klíkuskap.
  • Við krefjumst þess að þeir sem ekki hafa lært af reynslunni víki úr embættum fyrir nýrri hugmyndafræði sem er óbundin flokkspólitískri hagsmunagæslu.
  • Við krefjumst þess að þeir sem bera ábyrgð á því samfélagshruni sem ekki sér fyrir endann á verði dregnir fram undan tjöldunum og réttað í málum þeirra eins og annarra almennra borgara.
  • Við krefjumst gagngerrar endurskoðunar á stjórnsýslu og efnahagskerfi landsins.
  • Við bjóðum fram lýðræðislega samvinnu við að leita lausna og byggja upp samfélag sem gerir ráð fyrir mannsæmandi kjörum fyrir alla borgara þess.

Okkur þykir ástæða til að minna á bréf frá 4. nóvember í fyrra og 17. janúar sl. sem bárust ykkur í nafni Tunnanna. Þar settum við fram hugmynd að lausn á því kreppuástandi sem nú hefur varað hér á landi í þrjú ár. Þetta ástand mun viðhaldast á meðan núverandi þingmenn setja persónulegan og/eða flokkspólitískan metnað ofar heildarhagsmunum íslensku þjóðarinnar sem ykkur ber að verja í störfum ykkar.

Ykkur var trúað fyrir stóru verkefni á erfiðum tímum en fæst ykkar hafið einu sinni komið fram af þeirri umhyggju gagnvart þjóð ykkar að þið hafið talað til hennar eða auðsýnt kjósendum ykkar þá virðingu að umgangast hana af heiðarleika og sanngirni. Af ofantöldum orsökum hvetjum við ykkur til að stíga hógvær til hliðar og gefa þjóðinni tækifæri til að skipa óflokksbundna sérfræðinga í bráðbirgða- og/eða verkefnisstjórn. Sú leið er fær undir þeirri stjórnskipunarhefð sem Sveinn Björnsson skapaði á sínum tíma með skipun utanþingsstjórnar.

Í ofangreindum bréfum hvöttum við ykkur til að setja saman bráðabirgðalög til að skapa skipan slíkrar stjórnar lýðræðislegri umgjörð. Þið hlustuðu ekki heldur luguð því að þjóðinni að staða lántakanda yrði leiðrétt til að draga máttinn úr samstöðunni sem birtust ykkur í tunnumótmælunum í fyrra. Enn er þó tækifæri til að brúa bilið á milli þings og þjóðar og það liggur í samvinnu við fulltrúa 99% þjóðarinnar en ekki þess eina prósents sem fyrri ríkisstjórnir gáfu einkaleyfi til peningaprentunar í landinu.

                                                                 Fyrir hönd Tunnanna:
                                                                        Ásta Hafberg
                                                                        Gunnar Skúli Ármannsson
                                                                        Rakel Sigurgeirsdóttir

Hér má nálgast slóðir á bréfin sem vísað er til hér að ofan:

Bréfið frá 4. nóvember 2010
Bréfið frá 17. janúar 2011


mbl.is Ræða um lærdóma af kreppunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stundin er runnin upp!

Næst komandi mánudagskvöld ætlar Jóhanna Sigurðardóttir að bjóða þjóðinni upp á endurflutning söngsins um áunninn árangur eins og hann horfir við hennar ljósfælnu augum. Tunnunum þykir tilefni til að búa stefnuræðu forsætisráðherrans sömu umgjörð og í fyrra. Nú þegar hafa safnast um 50 tunnur og búið að draga fram eitthvað af ásláttartólunum frá í fyrra.

Viðburður hefur verið settur upp á Fésbókinni (sjá hér) þar sem rúmlega 500 manns hafa skráð sig. Í fyrra var viðburðurinn ekki settur upp fyrr en seinni part 1. október. Þremur dögum síðar troðfylltist Austurvöllur! Það sem kom þeim sem settu viðburðinn í loftið mest á óvart var það hvað allur sá fjöldi sem var talað við þá var í raun sammála. Flestir sögðust nefnilega ekki aðeins óánægðir með ríkisstjórnina heldur höfðu þeir glatað öllu trausti til stjórnmálastéttar- Hverjum TUNNAN glymurinnar!

Þeir sem fylgdust með vinnu og mál- flutningi Tunnanna, frá 4. október á síðasta ári fram til 17. janúar á þessu, er væntanlega fullkunnugt um að Tunnurnar snerust um miklu meira en bara það að  berja tunnur. Fyrir þá sem vilja rifja þetta upp bendi ég m.a. á þessa samantekt. Í eðlilegu framhaldi af kröfum Tunnanna í fyrra settu þær fram svohljóðandi kröfulista fyrir 3. október n.k:

* Við krefjumst þess að tekið verði á skuldavanda landsmanna með réttlætið að leiðarljósi en ekki sérhagsmunagæslu og klíkuskap.
* Við krefjumst þess að þeir sem ekki hafa lært af reynslunni víki úr embættum fyrir nýrri hugmyndafræði sem er óbundin flokkspólitískri hagsmunagæslu.
* Við krefjumst þess að þeir sem bera ábyrgð á því samfélagshruni sem ekki sér fyrir endann á verði dregnir fram undan tjöldunum og réttað í málum þeirra eins og öðrum Jónum Jónssonum.
* Við krefjumst gagngerrar endurskoðunar á stjórnsýslu og efnahagskerfi landsins.
* Við bjóðum fram lýðræðislega samvinnu við að leita lausna og byggja upp samfélag sem gerir ráð fyrir mannsæmandi kjörum fyrir alla.
(sjá hér)

 Þessum kröfulista lýkur svo með svhljóðandi ákalli:

Stundin er runnin upp þar sem 99% þjóðarinnar rís upp gegn því 1%-i sem hefur sölsað undir sig öll auðæfi landsins og nýta sér eignarhaldsvaldið til að gera það sem því sýnist án athugasemda löggjafans eða dómstólanna. Við skulum því sameinast, systur og bræður, úr öllum sveitum landsins og láta réttlætiskröfur okkar heyrast!

Mér þykir það við hæfi að ljúka þessari færslu með því að benda á að kröfur Tunnanna eru mjög í anda þeirra krafna sem hafa hljómað víðs vegar um jarðarkringluna frá síðastliðnu vori eins og kemur m.a. fram í þessu myndbandi:


mbl.is Hækka skatta á bensín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband