Harpan verður aftur í sviðsljósinu n.k. fimmtudag

Næst komandi fimmtudag verður haldin ráðstefna í Hörpunni undir yfirskriftinni: Iceland's Recovery - Lessons and Challenges. Ráðstefnuhaldarar eru Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ásamt íslensku ríkisstjórninni. Miðað við yfirskrift ráðstefnunnar og annað sem kemur fram í kynningu stendur til að draga fram mynd af góðum árangri góðs samstarfs gestgjafanna og leggja línur að framhaldinu. Samanber þessa tilvitnun: „the Icelandic authorities and the International Monetary Fund (IMF) are co-hosting this high-level conference to review Iceland’s achievements and examine the challenges that still lie ahead.“ (Sjá kynningu og dagskrá ráðstefnunnar hér)

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og Árni Páll Árnason, viðskiptaráðherra opna ráðstefnuna sem er skipt niður í þrjú þemu og endar á pallborðsumræðum. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra fær sitt rúm en hann flytur ræðu yfir ráðstefnugestum á meðan þeir næra sig í hádeginu. Ráðstefnan stendur nefnilega allan fimmtudaginn; byrjar klukkan 8:00 um morguninn en lýkur ekki fyrr en 17:15 síðdegis. Þemum þrjú bera þessar yfirskriftir: kreppustjórnun (Crisis Management), vegurinn til endurreisnar (The Road to Recovery) og áskoranirnar framundan (Challenges Ahead).

Helstefnan í efnahagsmálum Íslands Þrír fundarstjórar skipta þannig með sér verkum á ráðstefnunni: Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri stýrir fyrsta hlutanum, Katrín Ólafsdóttir, lektor við viðskiptafræðideild Háskólans í Reykjavík stýrir öðrum hlutanum og Þorvaldur Gylfason, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands þeim síðasta. Martin Wolf, aðalfréttaskýrandi hagfræðideildar Financial Times, mun svo stýra pallborðsumræðunum í lokin.

Það er ekki síður forvitnilegt að skoða hverjir sitja í pallborði og hverjir taka til máls undir ofantöldum dagskrárliðum. Auk forsætis-, viðskipta- og fjármálaráðherra eru það eftirtaldir: Friðrik Már Baldursson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands og Vilhjálmur Egilsson, formaður Samtaka atvinnulífsins gefa góð ráð um kreppustjórnun í fyrsta hlutanum. Eftirfarandi tilvitnun gefur tóninn: „Which policies were most successful? Topics to include capital controls, fiscal automatic stabilizers, and the handling of the banking system.“ Erlendu gestirnir sem taka til máls undir þessum lið eru: Willelm Buiter, hagfræðingur, og Poul Thomsen, framkvæmdarstjóri evrópudeildar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Joseph Stiglitz, hagfræðiprófessor, mun einnig flytja ávarp af bandi.

Í öðrum hlutanum, sem ber yfirskriftina: „Vegurinn til endurreisnar“, tala Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, Jón Daníelsson hagfræðiprófessor í London og Stefán Ólafsson, prófessor í félagsvísindum við Háskóla Íslands. Miðað við það sem stendur til að ræða hér má kannski gera ráð fyrir einhverju bitastæðu en miðað við það að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er annar gestgjafinn og á þrjá fulltrúa sem munu taka til máls á ráðstefnunni er mér það einhvern veginn til efs. Einn erlendur gestur tekur til máls undir þessum lið en það er Paul Krugman,  hagfræðiprófessor. Miðað við það sem kemur fram hér er hann að vinna að rannsóknum sínum nú fyrir þessa ráðstefnu.

Þeir sem ræða um áskoranirnar framundan eru svo: Gylfi Magnússon, dósent við hagfræði- og viðskiptadeild Háskóla Íslands og Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands. Hér stendur til að ræða hvað þurfi að gera til að fullkomna efnahagsbatann og samkvæmt kynningunni er það einkum þetta þrennt: „For example, reducing unemployment, unwinding capital controls, securing access to financial markets.“ Erlendu sérfræðingarnir sem taka til máls undir þessum lið eru: Simon Johnson, prófessor í alþjóðaviðskiptum (fyrrum starfsmaður AGS) og Julie Kozack sem er verkefnastjóri aðgerðaráætlunar AGS hér á Íslandi.

Bankarnir fyrst! Skítt með rest...

Ráðstefnunni lýkur á pallborðsumræðum. Þar taka tveir Íslendingar þátt og þrír erlendir gestir. Íslendingarnir eru Már Guðmundsson, seðlabanakstjóri, og Gylfi Zoëga, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands. Erlendu gestirnir eru: Simon Johnson og Paul Krugman, en þeir hafa verið kynntir áður, ásamt Nemat Shafik, nýskipuðum aðstoðarframkvæmdarstjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Það vekur athygli að í kynningu þessarar ráðstefnu segir að almenningur eigi fulltrúa meðal þeirra sem taka til máls á þessari ráðstefnu. Ég á erfitt með að koma auga á hann en grasrótin deyr ekki ráðalaus. Stofnaður hefur verið viðburðar inni á Fésbók sem ber yfirskriftina: Andmælum við Hörpuna 27. október n.k. og er ætlunin að nýta sviðljósið sem Harpan mun væntanlega njóta til að koma raunverulegum aðstæðum á Íslandi í kastljós erlendra fjölmiðla. Það má nefnilega búast við að þeir verði mjög áberandi þarna niður frá í tilefni ofangreindrar ráðstefnu.

Ef það verður ekki er grasrótin með plan B sem ég mun lýsa nánar þegar nær dregur en það má líka fylgja krækjunni inn á andmælaviðburðinn inn á Fésbókinni til að átta sig betur á því hvað skipuleggjendur hans hafa í hyggju. Grasrótin ætlar nefnilega að tryggja það að þarna niður frá verði fulltrúar almennings og sjá til þess að rödd hans heyrist út til alþjóðasamfélagsins. Ég leyfi mér að skora á þig að láta sjá þig en lýk þessu á orðum Vilhjálms Bjarnasonar, ekki fjárfestis: 

Rétti tíminn til að láta alþjóðasamfélagið, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Alþingi, ríkisstjórn og Seðlabankann vita hvað okkur finnst um stöðu íslenskra heimila er þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Seðlabankinn og íslenska ríkið ætla að halda alþjóðlega ráðstefnu. Montfund um hvað rosalega vel hafi til tekist hér á landi í samstarfi þessara aðila við að koma bankakerfinu af stað eftir hrun. Dagsetningin er 27. október næst komandi í Hörpunni. Held að þarna sé besta tækifærið fyrir venjulega Íslendinga til að segja þessu fólki hvað okkur finnst um hvernig þeim hafi til tekist í skuldamálum heimilanna.

Leiðin er að setja andmæli á einhverju erlendu tungumáli á skilti og taka með sér en svo ætlar grasrótin að taka upp munnleg skilaboð, setja inn á You Tube og dreifa þaðan inn á erlendar mótmælasíður. SJÁUMST!


mbl.is Mikið um að vera í Hörpu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband