Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Tíminn er að renna upp

Haustið hefur tekið völdin í veðráttunni hér á Akureyri. Miðað við veðurspána fyrir næstu viku er lítið útlit fyrir að það breytist nokkuð á næstunni. Kuldinn í vindinum og vætan úr þungbúnum skýjunum hafa tekið völdin og hrakið sumarið á flótta. Það er þess vegna ekki hægt að ylja sér lengur í hlýrri hásumarsólinni og gleyma Horft til vetrarsér í unaði hins íslenska sumars.

Haustið er boðberi vetrarins en það er einmitt hann sem mér er efst í huga núna. Ég treysti mér samt ekki til að spá fyrir um veðurfar þessa vetrar frekar en annarra árstíða sem taka við af honum. Ástæðan fyrir því að mér verður hugsað til komandi vetrar tengist heldur ekki veðrinu í náttúrunni heldur velti ég því fyrir mér hvernig muni viðra á mörgum öðrum sviðum í þjóðfélaginu á komandi vetrarmánuðum.

Þegar ég horfi fram til vetrarins, sem er nú rétt ókominn, er ekki laust við að ég fyllist svolitlum kvíða en samt bind ég við hann nokkra von líka. Vonin er byggð á þér og mér. Okkur; fólkinu í landinu. Ég bind von mína við það að við fáum vetrarstorminn í lið með okkur og hreinsum almennilega til innan spillingarbælanna sem hafa verið reist út um allt samfélag á okkar kostnað.

Spillingarbælunum sem voru ekki aðeins reist á okkar kostnað heldur voru þau mönnuð af illa innrættum einstaklingum sem breytust óðar í græðgisgamma og peningaháka þegar þeir komust þangað inn. Græðgi þeirra óx út yfir öll takmörk og lagði undir sig öll skilningarvit þessara einstaklinga. Þrælar græðginnar soguðu til sín allt handbært fjármagn af þvílíkri áfergju að efnahagur alls íslensks samfélags hrundi yfir þjóðina. Þeir höguðu sér í rauninni ekki ósvipað og veggjatítlur...
Innanétin fjármálahöllÍslenskur almenningur sat eftir í losti. Skyndilega átti hann ekkert. Menn misstu ekki aðeins spariféð sitt, lífeyrissparnaðinn, atvinnuna, húsnæðið, bílinn, börnin sín úr landi, sjálfsvirðinguna, baráttuþrekið, vonina... heldur hefur framtíðartekjum þeirra verið ráðstafað í að endurbyggja gömlu spillingarbælin og byggja upp ný og jafnvel enn rammgerðari.

Þetta er einfölduð mynd en í henni er fólginn ískaldur sannleikskjarni. Ég reikna með að þeir sem hafa sett sig vel inn í það sem fór fram í stjórnsýslunni í aðdraganda hrunsins og framvindunni á því tæpa ári sem er liðið síðan fjárglæfraspilaborgin hrundi átti sig líka á samsvörun myndarinnar við veruleikann.
Eldhjarta
Ég veit að sá réttlætiseldur sem hrinti mörgum af stað út í mótmælin síðastliðið haust er langt frá því að vera slokknaður. Ég veit líka að það eru margir til viðbótar búnir að opna augu sín fyrir þeirri spilltu fjárhættuvæðingu efnagslífsins sem setti hér allt á hvolf. M.ö.o. þá er stór hópur þjóðarinnar sem veit og skilur hvað orsakaði hrun íslensks efnahags og ofbýður alltaf meir og meir allt það sem viðvíkur þeim hrunadansi.

Við breytum ekki fortíðinni en við getum breytt framtíðinni. Allt sem til þarf er sameiginlegt átak. Ég vona þess vegna að þeir sem hafa ekki enn kynnt sér aðdragandann og orsakirnar taki sig nú saman í andlitinu og vinni sig út úr lostástandinu. Til þess þurfa þeir að horfast í augu við það sem setti hér allt úr jafnvægi. Það er reyndar mjög nauðsynlegur undirbúningur áður en tekist er á við þau öfl sem hafa hingað til og ætla sér að halda áfram að misnota sér doða þjóðarinnar.

Það verða allir að átta sig á því að efnahagshrunið síðastliðið haust var miklu alvarlegra hér en í löndunum í kringum okkur! Það verða allir að átta sig á því að umfang þess var af mannavöldum! Það voru íslenskir fjármagnseigendur, eigendur bankanna, íslenskir embættis- og stjórnmálamenn sem höfðu hagað sér þannig að hér fór allt á sjóðbullandi kaf. Það er heldur ekkert sem bendir til þess að þeir ætli ekki að halda áfram...

Það verða allir að átta sig á því að bæði fyrir og eftir hrun buðu bæði erlendir og innlendir sérfræðingar fram aðstoð sína til björgunar íslenskum efnahag. Það verða líka allir að átta sig á því hvaða stjórnmálamenn gerðu þetta allt mögulegt, hverjir sátu hjá og leyfðu hruninu að verða og hverjir lofuðu björgun og hverja þeir settu svo í forgang og á hverra kostnað.

Það verða allir að spyrja sig spurninga eins og:

  • Hvers vegna viðvörunum um væntanlegt hrun var stungið undir stól?
  • Hvers vegna mátti ekki benda á sökudólga hrunsins?
  • Hvers vegna hugvitið var sett í það að þétta felutjöldin og fara með ósannindi um það sem raunverulega gerðist?
  • Hvers vegna lyginni hefur verið viðhaldið og haldið áfram síðan?
  • Hvers vegna var ekki strax lagst í alvarlega og sannfærandi rannsókn á því hvað hafði farið fram innan bankanna?
  • Hvers vegna sagði enginn af sér?
  • Hvers vegna sætti enginn ábyrgð?
  • Hvers vegna var enginn ákærður?
  • Yfirheyrður?
  • Handtekinn?
  • Hvers vegna komu sökudólgarnir fram í drottningarviðtölum?
  • Hvers vegna er öll áherslan lögð á að bjarga fjármála-, embættismanna- og sjtórnmálaelítunni?
  • Hvers vegna er vilji þekktra kúgunarþjóða og -stofnana settur ofar vilja íslenskra kjósenda? Framtíðin sem börnunum okkar er boðið upp á er svo sannarlega kvíðvænleg

Þær eru reyndar svo margar spurningarnar sem almenningur ætti að spyrja sjálfan sig í því markmiði að vinna sig upp úr því andlega ástandi sem áföll liðins ár hafa skapað honum. Við verðum nefnilega að átta okkur á því að núverandi ástand er ekki eðlilegt ástand! Ytri aðstæðurnar eru það alls ekki heldur! Þær eru í raun engan veginn boðlegar! Þó einhver sé tilbúinn til að halda því fram að hann geti vel boðið sjálfum sér upp á þessi erfiðu skilyrði þá leyfi ég mér að efast um að hann sé tilbúinn til að bjóða börnunum sínum upp á þau!

  • Ég trúi því ekki að nokkur vilji viðurkenna að hann sé tilbúinn til að ala börnin sín upp í þeim veruleika að þau verði að sætta sig við mun verri skilyrði en við sjálf hvað varðar menntun og heilbrigðisþjónustu.
  • Ég trúi því ekki að nokkur sé tilbúinn til að útskýra það fyrir börnunum sínum að það séu bara börn efnaðra foreldra sem geti notið alvöru framhaldsmenntunar.
  • Ég trúi því ekki að nokkur sé tilbúinn til að standa í þeim sporum að hafa ekki efni á því að fara með börnin sín til læknis eða tannlæknis til að lina þjáningar þeirra.
  • Ég trúi því ekki að nokkur sé  tilbúinn til að undirbúa börnin sín undir þann veruleika að þau muni aldrei eignast neitt því tekjur þeirra muni fara í það að borga skuldir örfárra græðgisdólga sem fengu að sópa til sín öllum þjóðarauðnum á þremur til fjórum áratugum í kringum síðustu aldamót.
  • Ég trúi því ekki að nokkur sé tilbúinn til að útskýra fyrir börnunum sínum þá skýru stéttarskiptingu sem mun blasa við og hvers vegna þau geta ekki einu sinni látið sig dreyma um þann munað sem þau horfa upp á að börn auðvaldsstéttarinnar velta sér upp úr.
  • Ég trúi því ekki að nokkur sé tilbúinn til að horfa upp á börnin sín skemmast vegna óréttlætisins sem þeim var búið af skúrkum sem skipta aðeins nokkrum tugum...

Börnin mín eru reyndar orðin fullorðin en ég get ekki hugsað mér að þau þurfi að ala börnin sín upp við veruleika eins og þennan! og ég efast um að þú treystir þér til þess heldur! Þess vegna bind ég ekkert síður von mína við þig en sjálfa mig. Sjáumst í byltingunni í vetur!

                             ><>   ><>    ><>    ><>   

Að lokum langar mig til að benda á tvær nýlegar færslur sem eru mjög góðar og allir ættu að lesa. Það er grein Gunnars Skúla Ármannssonar um þá hættu sem framtíð íslensks efnahags er búinn af völdum AGS. Ekki gleyma hverjir gerðu leynisamning við þau þann glæpasöfnuð. Svo er það grein Egils Jóhannssonar um þá sögufölsun sem er hafin varðandi Icesave. Af henni má draga þá ályktun að það eina sem ráðandi öflum í samfélaginu hefur lærst af hruninu er „öflugri sérhagsmunagæsla með aðstoð fjölmiðla“. (haft eftir Agli sjálfum)

Svo vil ég benda öllum, sem ekki eru þegar búnir að því, að skrifa undir á kjósa.is en þar er áskorun til forseta Íslands um að leggja frumvarpið um ríkisábyrgð vegna Icesave-skuldanna undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Undirskriftalistinn verður prentaður út klukkan 13:30 á morgun (mánudag) og afhentur forsetanum síðar um daginn eða á sama tíma og hann fær frumvarpið í. Sjá um annan atburð þessu tengd hér.


Þegar ljósin slokkna

Maður ætti kannski aldrei að birta neitt opinberlega sem maður skrifar í tilfinningalegu uppnámi en ég ætla samt að gera það núna. Reyndar sýnist mér að tilfinningum mínum á þessum degi verði best lýst með þessari mynd
Stundumer ekkert í stöðunni annað en gefast upp

Stundum er nefnilega ekkert í stöðunni annað en að horfast í augu við að maður hefur reynt allt en án árangurs! Þá er ekkert annað að gera en snúa sér að öðru.

Frá upphafi þessa Icesave-máls, sem teygir rætur sínar nokkuð aftur í tímann, hef ég haft stórar áhyggjur. Stigvaxandi áhyggjur. Og á ákveðnum tímapunkti lofaði ég sjálfri mér því að ef stjórnvöld myndu ekki standa á rétti mínum og samlanda minna þá myndi ég finna mér annan stað að búa á en Ísland.

Ég fæddist hvorki með gull- eða silfurskeið í munni. Ég er dóttir fátækra bændahjóna sem byrjuðu með tvær hendur tómar. Þau efnuðust aldrei en kenndu mér að lifa spart. Þau kenndu mér líka að lifa ekki um efni fram.

Þessi lærdómur hefur verið einn sá dýrmætasti sem ég hlaut í arf frá foreldrum mínum og ömmum. Þegar ég varð móðir sjálf varð ég að sjá um mig og dætur mínar ein og óstudd. Það var oft og tíðum þraut.
Það fá ekki allir jafntÉg hef vitað það alla tíð að við erum ekki jöfn gagnvart tækifærunum sem snúa að lífsgæðum. Ég hef heldur aldrei sóst eftir auði og fundist sjálfsagt að neita mér um margt það sem aðrir telja sjálfsagt. Ég tók þó lán til að eignast íbúð. Lán sem sér ekki fyrir endann á. Ég ákvað líka að mennta mig í háskóla þó ég hefði ekki efni á því en ég hafði heldur ekki efni á því að framfleyta mér og dætrum mínum á þeim launum sem voru í boði fyrir einstæða móður með ekkert nema stúdentspróf.

Það sér ekki heldur fyrir endann á námslánunum en vissulega höfum við haft það svolítið betra síðan ég lauk námi. Ég upplifði þó aldrei þetta svokallaða góðæri. Hef reyndar skömm á þessu orði því ég tel að það hafi aldrei verið annað en fals. Dúsa sem var haldið að fólki svo það tryði því virkilega að veruleiki þeirra væri annar en hann raunverulega var. Ég tók aldrei við þessari dúsu.

Enda sá ég enginn merki um að kjör mín breyttust neitt án þess að ég hefði unnið að því hörðum höndum sjálf. Lánin mín lækkuðu ekki neitt. Ég gat aldrei veitt mér og dætrum mínum neitt af því sem er talið til munaðar að undanskyldu því að við ferðuðumst tvisvar til útlanda. En það eru líka einu skiptin sem ég hef tekið þá áhættu að veita mér slíkan munað.
Það birtir e.t.v. tilÉg hef aldrei sóst eftir því að aðrir tækju af mér byrðarnar sem því hafa fylgt að ég og dætur mínar eignuðumst þak yfir höfuðið, að ég gæti keypt bíl, að ég gæti menntast, að dætur mínar gætu menntast eða við hefðum í okkur og á og gætum jafnvel notið tannlæknis- og læknisþjónustu, haldið húsnæðinu og ökutækinu við eða af því að við kæmumst í ferðalög saman.

Stærstan hluta fullorðinsára minna hef ég þurft að berjast, nurla og spara til að við hefðum eitthvað umfram lífsnauðsynjarnar. Í dag eru dætur mínar komnar yfir tvítugt. Fluttar að heiman og það var útlit fyrir það að ég gæti farið að slaka svolítið á og við gætum snúið okkur að því að njóta ávaxtanna af baráttu minni. En hvað gerist þá....

Nú er mér sagt af stjórnvöldum að ég sé ekkert of góð til að bera kostnaðinn af taumlausri græðgi örfárra útrásardólga! Ég er orðlaus yfir óréttlætinu en ég get samt sagt NEI! Ég íhuga það líka alvarlega að finna mér bústað annars staðar en í því landi sem bændum hefur verið úthýst frá því á síðustu öld, þar sem börnum er mismunað eftir fjölskyldugerð og þar sem það þykir sjálfsagt að almenningur beri auðvaldið á herðum sér.

Ég bið afsökunar á því hvað ég hef gerst persónuleg í þessu bloggi en vona að þið áttið ykkur á því að ástæðan er djúpstæð vonbrigði konu sem finnur sig knúna til að útskýra í hverju henni finnst sú lítilsvirðing liggja sem meiri hluti þingmanna sýnir mér og þjóð minni.

Í stuttu máli líður mér eins og þeir, sem greiddu því atkvæði að ég og annar almenningur skuli eiga að bera skuldir þessara græðgisbólgnu oflátunga sem stofnuðu til Icesave, hafi drullað yfir okkur. Svo það sé á hreinu þá er ég líka ósátt við þá sem sátu hjá í þessu máli.


mbl.is Eini lúserinn í kúrekamyndinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við vorum fá en hávaðinn var ærandi

Við vorum fá sem mættum á Ráðhústorgið hérna á Akureyri til að mótmæla Icesave. Klukkan tólf vorum við ekki nema þrjár en áður en yfir lauk fjölgaði mótmælendum um helming. George Hollander kom með sonum sínum ofan úr Lystigarði og sagði okkur að hávaðinn sem við framleiddum heyrðist alla leið þangað. Þeir sem eru kunnugir vita að það er þokkalegur spotti á milli Torgsins og Lystigarðsins.
Mótmæli gegn Icesave Akureyri 27. ágúst 2009Við þrjár vorum með fjölbreytt hljóðfæri en þau voru: kúabjalla, kastarolla og lítil stálpanna. Ásláttarverkfærin voru hamar og sleif. Nokkrir sem keyrðu fram hjá þeyttu bílflautur og það var greinilegt að mótmælin vöktu athygli inni í Landsbanka. Þar virtust þeir jafnvel bíða eftir því að einhverjir mættu. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá er rétt að taka það fram að útibú Landsbankans hér á Akureyri er við Ráðhústorgið.

Þó mótmælin væru ekki fjölmennari en raun ber vitni þá komust þau í fréttirnar bæði á RÚV og akureyri.net. Þess vegna segi ég að það er ekki fjöldinn sem skiptir öllu máli heldur það að sýna lit og taka þátt! Það að rísa upp og standa með sjálfum sér og mótmæla því óréttlæti og þeirri svívirðu sem felst í þessum samningi.

Ég er ekki tilbúin til að vera hneppt í skuldafangelsi fyrir óstjórn og vanrækslu sem gáfu örfáum græðgisböðlum tækifæri til að keyra hér allt í kaf. Það eru þeir sem fóru þannig að ráði sínu sem eiga að borga! Ég er ekki tilbúin til að samþykkja það að samlandar mínir og afkomendur okkar líði skerðingu og skort af því að einkavinir og/eða venslamenn íslensku stjórnmálaelíturnar komast upp með að skáka sér í því skjólinu. Við eigum rétt á þingi sem þjónar heildinni en ekki fáum útvöldum!!!

Það eru alltof mörgum skynsamlegum spurningum ósvarað enn í sambandi við samninginn sjálfan og fyrirvarana svokölluðu til að það sé réttlætanlegt að þessi samningur sé lagður fyrir þingið til atkvæðagreiðslu nú. Í þessu ljósi segi ég NEI við Icesave og vona að þingheimur geri það líka!

Viðbót: Hér er ávarpið sem var flutt á undan hávaðamótmælunum á Austurvelli í dag. 


mbl.is Hávaði gegn Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og allir saman nú!

Eins og fram kemur í tengdri frétt þá hefur verið boðað til mótmæla á Austurvelli á morgun (fimmtudaginn 27. ágúst) kl. 12:00. Til stendur að skapa hávaða í þeim tilgangi „að andmæla því að þjóðin verði látin borga skuldir fjárglæframanna og einkabanka þeirra.“ Sjá þessa bloggfærslu Frosta Sigurjónssonar um þessi mómæli. Þar segir hann líka:

Ef þú kemst ekki á Austurvöll getur þú samt tekið þátt með því að gera sem mestan hávaða hvar sem þú ert. Gott er að þeyta bílflautu ef hún er við höndina, hækka græjurnar í botn og opna út á götu, berja potta úti á svölum, blása í lúður eða stappa og öskra. Fáðu alla í lið með þér, því fleiri því meira gaman og þetta verður holl og góð útrás fyrir sálartetrið.

Nýverið var stofnaður inni á Fésbókinni hópurinn Viðspyrna. Þar segir:

Hugmyndin á bak við stofnun þessa hóps er að safna saman fólki sem er misboðið og finnst það einangrað í afstöðu sinni. Hópurinn er ekki síður hugsaður til þess að skapa vettvang fyrir þá sem hafa langað til að bregðast við núverandi ástandi og síðast en ekki síst fyrir þá sem langar til að vinna með öðrum við að hrinda hugmyndum sínum, um það hvernig megi sporna á móti, í framkvæmd.

Ég hef þegar sent tilkynningu um mótmælin á morgun þangað inn en mig langar til að nota tækifærið og bjóða fleirum að ganga til liðs við okkur. Einkum landsbyggðarfólki sem hefur áhyggjur af því sem fram fer í samfélaginu, ekki síst vibrögðum/viðbragðaleysi og ákvörðunum stjórnvalda, en hefur ekki fundið vettvang til að opinbera þær. Ég leyfi mér líka að lýsa eftir hugmyndum um það hvernig þeir sem ekki komast á mótmæli geta sýnt samstöðu.

Við búum dreift en við getum kannski komið okkur upp tákni eða sérstökum fána sem við hengjum upp á áberandi staði þegar mótmæli eða borgarafundir, sem við af einhverjum ástæðum komumst ekki á, standa yfir. Ég bý sjálf á Akureyri þannig að ég get að sjálfsögðu mætt í miðbæinn í mínum bæ, eins og Frosti stingur upp á, en segjum sem svo að ég væri bundinn í vinnu eða byggi langt frá þéttbýli með einhvern miðbæjarkjarna en langaði samt að sína samstöðu við þessi mótmæli, hvað gerði ég þá? Hugmyndir?


mbl.is Boða hávaða á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þverrandi von

Ég segi það satt að ég er skítlogandi hrædd! Icesave er meginástæðan. Ef við sem óttumst þennan samning svo mjög höfum rangt fyrir okkur af hverju er þá ekki búið að gera vandaðan fréttaskýringarþátt um Icesave-samninganna? Það getur ekki verið mikið mál að kalla saman valda sérfræðinga úr hópi þeirra sem segjast vera fylgjendur þessa samnings og hinna sem vara við honum og skýra ágreiningsefnin vandlega út fyrir okkur sem eigum að standa undir þessum ósköpum

Það er alveg sama hvernig ég velti þessu máli fyrir mér, ég get ekki séð annað en að það sé eitthvað mikið „loðið“ við þennan samning. Hvernig til hans er stofnað, hvernig að honum er staðið og hvernig er staðið að lýtaaðgerðunum á honum. Svo ekki sé minnst á það að þessi meingallaða samningsdrusla skuli hafa forgang fram yfir öll önnur verkefni þingsins.

Ef fyrsta afborgun er ekki fyrr en eftir sjö ár, af hverju liggur þá svona lífið á að skrifa undir hann? Ef Bretar og Hollendingar eru slíkir öðlingar að þeir hafi gert við okkur þennan „glæsilega samning“ (bein tilvitnun í viðtalið við Steingrím J. Sigfússon hér á eftir) af hverju geta þeir þá ekki gefið íslenska þinginu svigrúm til að sinna brýnum neyðarverkefnum heima fyrir? Fyrir mér liggur svarið í augum uppi. Það býr eitthvað annað undir og það er svo haugdrullugt að það er betra að vera búinn að keyra þennan fjanda í gegn áður en það uppgötvast!

Ég rakst á meðfylgjandi samantekt inni á youtube.com þar sem Steingrímur, og reyndar Jóhanna líka, fara greinilega nokkrum sinnum rangt með. Var það vísvitandi? Var það gert til að blekkja? Takið til dæmis eftir því þar sem Steingrímur segir: „að þessi lánasamningurinn hafi engin áhrif á skuldastðu ríkisstjóðs“! Hvað meinar maðurinn eiginlega?! Hvernig getur hann haldið öðru eins fram?! Tja, ég verð að segja að þó það væri ekki nema vegna þessara óheilindafullyrðingar þá get ég ekki annað en tekið undir áskorun myndbandshöfundar í lokin.

Mér finnst reyndar að áskorunin mætti beinast að fleirum núverandi þingmönnum bæði innan og utan stjórnar. Þingmönnum sem hafa með aðgerðum sínum og/eða aðgerðarleysi í fortíð og nútíð komið þjóðinni í þá blindgötustöðu sem hún er í núna.  

En ef ég held mér við sitjandi ríkisstjórn þá lít ég til baka frá því að Samfylking og VG mynduðu bráðabirgðastjórn. Rifja upp kosningaloforðin. Horfi yfir það hvaða verkefni hafa þótt svo mikilvæg að þau hafa verið sett framar öllum öðrum á dagskrá sumarþingsins. Og takið eftir: á sama tíma og við horfum upp á skuggalegar afleiðingar núverandi kreppu sem þykir sú alvarlegasta á Vesturlöndum og þótt víðar væri leitað.

Hvaða brýnu verkefni voru sett í forgang á þessu sumri og hvaða stórkostlegu afrek hafa komið út úr þeim? Fyrst vil ég telja ójafnaðarsamninginn sem hlaut hið ísmeygilega heiti: stöðugleikasáttmáli. Tilgangurinn með nafngiftinni er sá að breiða yfir ójöfnuðinn sem þar er kveðið á um eins og þann að laun í landinu hafa verið fryst fram til 1. nóvember 2010 og stóru atvinnurekendunum verkefnum á við virkjanaframkvæmdir og byggingu álverasem verða fjármögnuð í gegnum lífeyrissjóðina okkar. Svo er það  umsókn um aðild að ESB og líka Icesave-nauðungin.

Stærstu verkefnin á þessu sumri hafa öll lotið að því að bjarga hinni heilögu bankaþrenningu og stærstu fyrirtækjunum í landinu eða m.ö.o. þeim einstaklingum sem teljast til auðmanna landsins. Mér finnst það ekki einu sinni illgirni að segja að í leiðinni hefur verið unnið að því að tryggja erlendum auðmönnum að þeir geti gengið að innlendum verðmætum. Það er m.a. gert á „mjög góðum og upplýsandi“ fundum sem komast örugglega ekki allir í hérlenda fjölmiðla. 

Að lokum langar mig til að hveja alla til að lesa þessa færslu Frosta Sigurjónssonar og þessa færslu Jóns Lárussonar mjög vandlega.


mbl.is Óvíst um sjálfstæðisatkvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er að verða komið ár...

Þegar nóttin tekur við af deginum og myrkrið þéttist utan um kennileitin. Þegar árstíðaskiptin færast yfir og kólnar í veðri verður mér hugsað ár aftur í tímann. Það er að verða komið ár síðan efnahagur landsins varð fyrir alvarlegu áfalli. Áfalli sem íslenska þjóðin hefur mætt á afar mismunandi vegu.

En enginn er ósnortinn þó sumir vilji ekki kannast við það enn. Erlendur gestur sagði að honum hefði brugðið í brún þegar hann kom til landsins í sumar; fimmta árið í röð. Það sem stakk hann mest var að Íslendingarnir sem hann hitti víðs vegar um landið brostu ekki lengur með augunum. Brosið, sem honum fannst einkenna alla sem hann hafði hitt á fyrri ferðum sínum, var slokknað.

Þeir sem þekkja til, vita að slokknuð augu er eitt megineinkenni þeirra sem hafa orðið fyrir alvarlegu áfalli. Doðinn og afneitunin eru það líka. Hins vegar er það svolítið persónubundið hvernig fólk tekst á við afleiðingar áfalla. Sumir reyna að flýja raunveruleikann og gleyma sér í einhverju þægilegra. Einhverjir verða ofsareiðir þó það sé ekkert víst að reiði þeirra beinist að réttu tilefni. Enn aðrir reyna að hafa áhrif á líðan síðan með því að vinna sig út úr ástandinu.

Hrannar Baldursson skrifaði þennan pistil um það hvort ætti að virkja reiðina eða bæla hana niður. Margrét Sigurðardóttir setti þessa skynsamlegu athugasemd við færslu Hrannars:

Ég held að þeir sem taka þátt í baráttunni með almenningi fyrir réttlæti, nái að vinna betur úr reiðinni. Þeim bregður ekki lengur við fréttir af sukkinu en margir eru að fá áfall núna við fréttir af ofurlaunum skilanefnda o.þ.h. En þeir sem nota reiðina til framkvæmda, mæta á mótmæli, skrifa, lesa, mæta á upplýsingafundi og tala við náungann um stöðu mála, þeir eru ekki að byrgja inni tilfinningar heldur láta þær í ljós á þennan hátt. Innibyrgðar tilfinningar gera okkur veik. En reiði er kraftur sem má nota til uppbyggilegra hluta.

Nú hafa regluleg mótmæli legið niðri um alllangt skeið. Enginn borgarafundur hefur heldur verið haldinn nýlega. Ég hef því engan vettvang til að vinna úr tilfinningum mínum nema í mesta lagi þetta blogg. Mér hefur reyndar alltaf fundist tónlist vera fyrirtaks vettvangur til að vinna úr innri átökum en ekki síður góðar ævintýrasögur.

Í dag rakst ég á myndband inni á youtube.com þar sem þessu tvennu er blandað saman að nokkru leyti. Tónlistin er alls ekki dæmigerð fyrir þá sem ég hlusta á að öllu jöfnu en það er samt eitthvað við hana sem orkar mjög útleysandi fyrir þær innibyrgðu tilfinningar sem ég finn brjótast innra með mér í hvert skipti sem ég hugsa til þess í hvaða sporum við erum vegna örfárra dekurbarna spilltra stjórnvalda. Það er ekki aðeins textinn, sem ég læt fylgja með, heldur er það eitthvað í radd- og hljóðfærasetningunni líka.

The Magic of the Wizard&#39;s Dream

In those silent shades of grey
I will find a place
to escape the endless night
to find a new sun

I know which is my fate
bond to Erian&#39;s old tale
I&#39;ll be always there
fighting the ancient sin
Moon shine in this eternal night

ANGELS ARE CALLING
FROM DIVINE LOST CRYSTAL REALMS
RIDING FROM HEAVEN
FOR THE MAGIC OF THE WIZARD&#39;S DREAM

In the misty lights of dawn
between heart and soul
Elgard&#39;s calling for new hope
to avoid our fall

I know which is my fate
bond to Erian&#39;s old tale
I&#39;ll be always there
fighting the ancient sin
Moon shine in this eternal night

ANGELS ARE CALLING
FROM DIVINE LOST CRYSTAL REALMS
RIDING FROM HEAVEN
FOR THE MAGIC OF THE WIZARD&#39;S DREAM


Það verður auðvitað að vera á hreinu!

Það er ekkert leyndarmál að ég hef verulegar áhyggjur af Icesave-samningunum og ekki bætir úr skák það sem haft er eftir Össuri Skarphéðinssyni þessari frétt hér. Mér finnst reyndar allur hans málflutningur í kringum þetta mál ískyggilegar blikur um að eitthvað mjög svo óhreint búi undir öllum málatilbúnaðinum í kringum þennan samning.

Takið eftir að utanríkisráðherrann segir að: „Þeir fyrivarar sem Alþingi setur með meirihluta hér á þingi, þeir hljóta að halda.“ [leturbreytingar eru mínar] Ef það er einhver spurning þá hljóta það ekki aðeins að teljast eðlileg vinnubrögð að fá úr því skorið áður en það er fjallað frekar um þennan samning heldur grundvallaratriði. Það liggur a.m.k. í augum uppi fyrir þeim sem bera þjóðarhag fyrst og fremst fyrir brjósti, !

Ég undirstrika að ég er að tala um það að ef ríkisstjórnin ákveður að leggja samninginn undir atkvæðagreiðslu áður en það er tryggt að fyrirvararnir haldi þá hefur hún svikið þjóð sína. Þá hefur hún viðurkennt með formlegum hætti að vinir þeirra ríkisstjórna sem þáðu bankanna að gjöf gangi fyrir öllum öðrum í íslensku samfélagi. Hún hefur þá staðfest það að þeir, sem settu bankana á hausinn og landið um leið, séu þeir sem hún ætlar sér að bjarga úr snörunni sama hvað það kostar! Almenningur í landinu hefur þá fengið úr því skorið að í augum hennar er hann ekkert of góður til að gangast undir það að bæta tjónið sem dekurbörn fyrrverandi ríkisstjórna ullu okkur öllum.

Ef ríkisstjórnin leggur þessa samninga ásamt fyrirvörunum til atkvæðagreiðslu án þess að fá úr því skorið áður hvort Bretar og Hollendingar muni taka mark á þeim og/eða hvort þau hafi eitthvert gildi fyrir breskum lögum þá eru það skilaboð um það að okkur beri að samþykkja ofangreinda forgangsröðun þingsins þegjandi og hljóðalaust! enda segir utanríkisráðherra:

Össur sagðist taka undir þau ummæli að fyrirvararnir „muni ekki renna ljúflega niður“ hjá aðilum málsins. „Alþingi er fullvalda,“ sagði hann. „Alþingi er fulltrúi þjóðarinnar allrar. Það ræður fyrir Íslendingum.“

Það er Alþingi sem tekur ákvarðanir um þetta mál fyrir hönd Íslendinga og enginn annar getur það. Ef þessir fyrirvarar eru þannig að þeir takmarka með einhverjum hætti ábyrgð íslenska ríkisins, þá hlýtur niðurstaða íslenska þingsins um það að gilda. Ég tel sjálfur að það þurfi engan sérstakan aðila til að skera úr um það,“ sagði Össur.(leturbreytingar eru mínar)

Hrokinn, yfirlætið og leyfist mér að segja heimskan? í þessum orðum Össurar Skarphéðinssonar er svo yfirgengileg að maður getur ekki annað en spurt sig hvaða hagsmuni hann sé að verja!?!? Ég fæ á engan hátt séð að það sé íslensku þjóðarinnar því ef honum væri umhugað um þjóðarhag okkar þá myndi hann að sjálfsögðu leita álits sérfræðinga í alþjóðarétti til að eyða þeim vafa sem hann viðurkennir sjálfur að séu á því að fyrirvararnir sem voru gerðir við samninginn muni halda! Ég get því ekki fengið annað út úr orðum utanríkisráðherra en að hann hafi vondan málstað að verja og sennilega veit hann það líka sjálfur!
Ólafur Elíasson
Ég hef setið á fundi með Indefence-hópnum og þar tók ég sérstaklega eftir málflutningi Jóhannesar Þ. Skúlasonar og Ólafs Elíassonar. Þeir eru ekki á neinum launum við að verja þjóðarhag eins og Össur eða aðrir í núverandi ríkisstjórn en þeir hafa mikar áhyggjur af eigin afkomu og afkomenda sinna eins og við flest. Þeir hafa líka vakið verðuga athygli almennings fyrir ótrúlega eljusemi og gagnlegar athugasemdir varðandi það sem viðkemur Icesave-samkomulaginu. Jóhannes Þór Skúlason

Það sem kom mér mest á óvart á fyrrgreindum fundi, sem ég ásamt fleirum úr Borgarahreyfingunni sátum, var það hvað meðlirmir Indefence-hópsins voru öfga- lausir í málflutningi sínum hvað varðar stjórnmálamennina sem hafa tekið þátt í því að leiða yfir okkur þessa nauðungarsamninga.

Þó meðlimir Indefence-hópsins væru að tala við hóp fólks þar sem stór orð um vanhæfni, getuleysi, heimsku, spillingu eða hvað eina í þeim dúr hefði fallið í góðan jarðveg létu þeir allt slíkt vera. Margar spurninganna sem komu fram á fundinum snerust þó um það að þeir viðurkenndu heimsku og/eða óheilindi þeirra sem hafa reynt að knýja fram samþykki við þennan samning með þeim aðferðum sem flestir ættu að þekkja af fréttum sumarsins.

Nú hefur þessi hópur borið fyrirvarana undir sérfræðing í alþjóðarétti sem telur það fullkomlega óvíst að fyrirvararnir sem hafa verið settir við Icesave-saminginn hafi nokkurt gildi fyrir breskum lögum!

Þar sem bresk lög gilda um Icesave samningana er afar mikilvægt að fyrirvarar sem Alþingi setur við ríkisábyrgðina hafi ótvírætt gildi gagnvart þeim. Um það ríkir óvissa.

InDefence hópurinn hefur borið fyrirvarana undir Dr. Michael Waibel, sérfræðing í alþjóðarétti við Cambridge háskóla. Bráðabirgðaálit hans er að óvíst sé hvort fyrirliggjandi fyrirvarar hafi gildi samkvæmt breskum lögum. Slík afgreiðsla málsins beri því í sér mikla áhættu fyrir Íslendinga. Sé það raunin að fyrirvarar Alþingis hafi ekki gildi samkvæmt breskum lögum eru Alþingismenn í raun að samþykkja Icesave samningana óbreytta, samninga sem meirihluti þjóðarinnar og þingmanna telur óviðunandi.

Í ljósi þessarar óvissu er nauðsynlegt að Alþingi afli formlegs álits óháðra sérfræðinga í breskum lögum til að fá úr því skorið hvort fyrirvararnir við ríkisábyrgð hafi gildi fyrir breskum dómstólum. Slíkt sérfræðiálit þarf að berast Alþingi áður en frumvarp um ríkisábyrgð á Icesave samningnum er afgreitt.

Að hundsa þessa grundvallarspurningu gætu reynst afdrifarík afglöp, því um er að ræða óvissu sem getur kostað Íslensku þjóðina hundruð milljarða. InDefence hópurinn skorar á Alþingismenn þjóðarinnar að eyða óvissu um lagalegt gildi fyrirvaranna með því að kalla tafarlaust eftir formlegu áliti óháðra sérfræðinga í breskum lögum," að því er segir í tilkynningu. (leturbreytingar eru mínar)

Að lokum langar mig að benda á það sem Jakobína Ingunn Ólafsdóttir segir um þetta mál en Jakobína er einn ákafasti talsmaður þjóðarinnar meðal bloggara um þessar mundir.


Loksins, loksins!

Ég vona að Lilja Mósesdóttir fyrirgefi mér það að ég skuli nýta þessa frétt til að vekja athygli á því að myndin Zeitgeist Addendum verður sýnd í sjónvarpinu annað kvöld. Hún verður á dagskrá RÚV kl. 23:20 miðvikudagskvöldið 19. ágúst en margir hafa beðið lengi eftir því að þessi mynd verði tekin til sýningar hér á landi. Stofnaður var hópur á Facebook til að þrýsta á um að myndin væri sýnd í sjónvarpi allra landsmanna og núna loksins er komið að því að allir geta séð hana. Efni hennar á nefnilega svo sannarlega erindi við okkur núna.
Zeigeist Addendum


mbl.is Alvarleg skilaboð felast í minni greiðsluvilja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þýðing á grein Michaels Hudsons

Sennilega er flestum kunnugt um að Michael Hudsson skrifaði grein um Icesave-málið sem birtist í Financial Times sl. sunnudag. Gunnar Tómasson hefur nú þýtt þessa grein yfir á íslensku og ákvað ég að vekja athygli á henni hér:

Ísland og Lettland geta ekki borgað, og borga því ekki

Michael Hudson

            Geta Ísland og Lettland greitt erlendar skuldir fámenns hóps einkavina valdhafa? Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa sagt þeim að umbreyta einkaskuldum í opinberar skuldbindingar og endurgreiða þær með hækkun skatta, niðurskurði ríkisútgjalda og eyðingu sparifjár almennings. 

            Reiði fer vaxandi ekki einungis í garð þeirra sem söfnuðu skuldunum – Kaupþing og Landsbanki í gegnum Icesave og einkaaðilar í löndunum við Eystrasalt og í mið-Evrópu sem veðsettu fasteignir og einkavæddar ríkiseignir langt úr hófi fram – heldur líka gagnvart erlendum lánardrottnum sem þrýstu á stjórnvöld að selja banka og aðra helztu innviði hagkerfa til innherja.

            Stuðningur við aðildarumsókn Íslands að ESB hefur minnkað í um þriðjung þjóðarinnar og Harmony Center flokkurinn, sem studdur er af stórum hluta rússnesku-mælandi Letta, hefur náð meirihluta í Riga og stefnir í að verða vinsælasti flokkurinn á landsvísu. Í báðum tilfellum hafa mótmæli almennings skapað vaxandi þrýsting á stjórnmálamenn að takmarka skuldabyrði við eðlilega greiðslugetu landanna.

Um helgina skipti þessi þrýstingur sköpum á Alþingi Íslendinga.   Þar varð samkomulag, sem kann að verða frágengið í dag, um skilyrði fyrir verulegum endurgreiðslum til Bretlands og Hollands vegna útborgana þeirra á innistæðum þarlendra eigenda Icesave reikninga.

            Mér vitanlega er þetta fyrsta samkomulagið frá þriðja áratug síðustu aldar sem takmarkar afborganir af skuldum við greiðslugetu viðkomandi lands. Greiðslur Íslands takmarkast við 6% af vexti vergrar landsframleiðslu miðað við 2008.  Ef aðgerðir lánardrottna keyra íslenzka hagkerfið niður með óvægnum niðurskurði ríkisútgjalda og skuldaviðjar kynda undir frekari fólksflutninga úr landi, þá verður hagvöxtur enginn og lánardrottnar fá ekkert greitt.

            Svipað vandamál kom til umræðu fyrir liðlega 80 árum vegna skaðabótagreiðslna Þýzkalands vegna fyrri heimsstyrjaldar. En margir stjórnmálamenn átta sig enn ekki á því að eitt er að merja út afgang á fjárlögum og annað að geta greitt erlendar skuldir. Hver sem skattheimta stjórnvalda kann að vera þá er vandinn sá að breyta skatttekjum í erlendan gjaldeyri. Eins og John Maynard Keynes útskýrði, ef skuldsett lönd geta ekki aukið útflutning sinn verða greiðslur þeirra að byggjast á lántökum eða eignasölu.  Ísland hefur núna hafnað slíkum eyðileggjandi valkostum.

            Greiðslugetu hagkerfis í gjaldeyri er takmörk sett. Hærri skattar þýða ekki að stjórnvöld geti umbreytt auknum skatttekjum í erlendan gjaldeyri. Þessi staðreynd endurspeglast í afstöðu Íslands gagnvart Icesave skuldum, sem áætlað er að nemi helmingi af vergri landsframleiðslu þess. Með þessari afstöðu sinni mun Ísland væntanlega leiða önnur hagkerfi í pendúlssveiflu frá þeirri hugmyndafræði sem telur endurgreiðslu allra skulda vera helga skyldu.  

            Fyrir hagkerfi landa sem losnuðu undan stjórn Sovétríkjanna felst vandinn í því að vonir brugðust um að sjálfstæði 1991 hefði í för með sér vestræn lífsgæði.  Þessi lönd jafnt sem Ísland eru enn háð innflutningi. Hnattræna eignabólan fjármagnaði hallann á viðskiptajöfnuði – lántökur í erlendri mynt gegn veði í eignum sem voru skuldlausar þegar löndin urðu sjálfstæð. Nú er bólan sprungin og komið að skuldadögum. Lán streyma ekki lengur til Eystrasaltslanda frá sænskum bönkum, til Ungverjalands frá austurrískum bönkum, eða til Íslands frá Bretlandi og Hollandi. Atvinnuleysi eykst og stjórnvöld skera niður útgjöld til heilbrigðis- og menntamála. Í kjölfarið fer efnahagslegur samdráttur og meðfylgjandi neikvæð eignastaða fjölda fyrirtækja og heimila.

Óvægnar niðurskurðaráætlanir voru algengar í löndum þriðja heims frá 8. til 10. áratugar síðustu aldar, en evrópsk lýðræðisríki hafa takmarkað þolgæði gagnvart slíku verklagi. Eins og málum er nú háttað eru fjölskyldur að missa húsnæði sitt og fólksflutningar úr landi eru vaxandi. Þetta voru ekki fyrirheit nýfrjálshyggjunnar.

            Þjóðir spyrja ekki bara hvort greiða eigi skuldir, heldur líka – eins og á Íslandi – hvort hægt sé að greiða þær. Ef það er ekki hægt, þá leiðir tilraun til að greiða þær einungis til frekari efnahagssamdráttar og hindrar lífvænlega þróun hagkerfisins.

            Munu Bretland og Holland samþykkja skilyrði Íslands? Keynes varaði við því að tilraun til að knýja fram erlenda skuldagreiðslu umfram greiðslugetu krefðist stjórnarfars á sviði fjárlaga og fjármála sem er þjakandi og óvægið og gæti hvatt til þjóðernissinnaðra viðbragða til að losna undan skuldakröfum erlendra þjóða.  Þetta gerðist á þriðja áratug 20. aldar þegar þýzka hagkerfið var kollkeyrt af harðri hugmyndafræði um ósnertanleika skulda.

            Málið varðar praktíska meginreglu: skuld sem er ekki hægt að greiða verður ekki greidd. Spurningin er einungis hvernig slíkar skuldir verða ekki greiddar. Verða þær afskrifaðar að miklu leyti? Eða verður Íslandi, Lettlandi og öðrum skuldsettum löndum steypt í örbirgð til að merja út afgang í tilraun til að komast hjá vanskilum?

            Síðarnefndi valkosturinn getur knúið skuldsett lönd til stefnubreytingar. Eva Joly, franski saksóknarinn sem aðstoðar við rannsókn á íslenzka bankahruninu, hefur varað við því að svo gæti farið að Ísland stæði uppi með náttúruauðlindir og mikilvæga staðsetningu sína: „Rússlandi gæti til dæmis fundist það áhugavert.” Kjósendur í löndum sem losnuðu undan stjórn Sovétríkjanna gerast æ meira afhuga Evrópu vegna eyðileggjandi hagstjórnarstefnu sem nýtur stuðnings ESB.

Eitthvað verður undan að láta. Mun ósveigjanleg hugmyndafræði víkja fyrir efnahagslegum staðreyndum, eða fer það á hinn veginn?

 

Höfundur er hagfræðiprófessor við University of Missouri

 


mbl.is Býst ekki við gagntilboði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við verðum að standa saman!

Mér þykir hann alltaf jafn undarlegur þessi rígur um smámuni þegar stórar ógnir steðja að. Ég skil ekki að það sé aðalatriðið hvaðan sanngirnin kemur. Kannski vegna þess að ég hef aldrei verið haldin þeirri þörf að eiga hugmyndir. Ég er m.a.s. svo „þroskaheft“ á þessu eignaráráttusviði að ég ástunda það frekar að lauma góðum hugmyndum að hjá öðrum því reynslan sýnir mér að hópur nær alltaf betri árangri við að hrinda þeim í framkvæmd en einn einstakur.

Ég skil heldur ekki að þeir sem hafi gert sig seka um eitthvað, sem hefur komið öðrum illa, megi ekki sjá að sér. Ég skil auðvitað reiði fólks gagnvart gerendunum sem komu okkur í núverandi aðstæður eða sátu hjá og gerðu græðgisrefunum það mögulegt að koma okkur í þá stöðu sem við erum í, í dag. Það var þó ekki erindi mitt að fara yfir það einu sinni enn hverja ég tel seka og um hvað.

Mig langaði til að minna á það sem ég ítrekaði nokkrum sinnum í vetur en það var að við verðum að standa saman! Allur almenningur í þessu landi stendur frammi fyrir því að þurfa að borga skuldir sem örfáir stofnuðu til. Aðalatriðið er að stjórnvöld, skiptir ekki máli hvaða flokki þau tilheyrðu eða tilheyra nú, vinna að því að velta þeim yfir á almenning. Ekki bara þær kynslóðir sem eru uppi núna heldur komandi kynslóðir líka!

Við stöndum frammi fyrir gífurlegri efnahagskreppu. Sum okkar eru farin að finna áþreifanlega fyrir henni. Sjá t.d. hér. En fleiri eiga eftir að finna fyrir henni á sama hátt í nánustu framtíð og þó nokkur komandi ár ef fram fer sem horfir. Lögreglan í Reykjavík, sem var stillt upp gegn mótmælendum sl. vetur, hefur m.a.s. gefið út óbeina yfirlýsingu um að hún muni taka þátt í þeirri byltingu sem virðist því miður nauðsynleg. Sjá hér.

Í mínum augum er aðalatriðið það að við spyrnum á móti því óréttlæti sem stjórnvöld vinna að, að neyða upp á okkur um þessar mundir. Óréttlætið er fólgið í því að við eigum að gangast undir ójafnaðarsamninga úr ýmsum áttum á meðan efnahagsböðlarnir sitja óáreittir hvort sem um er að ræða þá sem sitja að eignunum sem þeir skutu undan eða þá sem gerðu þeim þetta mögulegt.
Frá mótmælum á Austurvelli 13. ágúst 2009 (Mynd: Helgi Jóhann Hauksson)

Hættum að rífast og stöndum saman því sameinuð getum við breytt einhverju en sundruð viðhöldum við núverandi ástandi. Stöndum upp fyrir okkur sjálf, börnin okkar, barnabörn og þær kynslóðir sem afkomendur okkar eigar eftir að ala af sér. Sýnum samstöðu sama hvaða flokki eða þjóðfélagshópi við tilheyrum. Sýnum styrk og knýjum fram réttlæti og lífvænleg skilyrði okkur og öllum þegnum þessa lands til handa.

Ég aðhyllist neyðarstjórn við þessar aðstæður en það er ekkert víst að þú sést sammála mér. Hins vegar er ég viss um að við erum öll sammála um að við viljum geta lifað af tekjunum okkar og að þeir sem settu okkur á hausinn sæti ábyrgð. Við getum byrjað þar!


mbl.is Kommar, íhald og guðsmenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband