Þegar ljósin slokkna

Maður ætti kannski aldrei að birta neitt opinberlega sem maður skrifar í tilfinningalegu uppnámi en ég ætla samt að gera það núna. Reyndar sýnist mér að tilfinningum mínum á þessum degi verði best lýst með þessari mynd
Stundumer ekkert í stöðunni annað en gefast upp

Stundum er nefnilega ekkert í stöðunni annað en að horfast í augu við að maður hefur reynt allt en án árangurs! Þá er ekkert annað að gera en snúa sér að öðru.

Frá upphafi þessa Icesave-máls, sem teygir rætur sínar nokkuð aftur í tímann, hef ég haft stórar áhyggjur. Stigvaxandi áhyggjur. Og á ákveðnum tímapunkti lofaði ég sjálfri mér því að ef stjórnvöld myndu ekki standa á rétti mínum og samlanda minna þá myndi ég finna mér annan stað að búa á en Ísland.

Ég fæddist hvorki með gull- eða silfurskeið í munni. Ég er dóttir fátækra bændahjóna sem byrjuðu með tvær hendur tómar. Þau efnuðust aldrei en kenndu mér að lifa spart. Þau kenndu mér líka að lifa ekki um efni fram.

Þessi lærdómur hefur verið einn sá dýrmætasti sem ég hlaut í arf frá foreldrum mínum og ömmum. Þegar ég varð móðir sjálf varð ég að sjá um mig og dætur mínar ein og óstudd. Það var oft og tíðum þraut.
Það fá ekki allir jafntÉg hef vitað það alla tíð að við erum ekki jöfn gagnvart tækifærunum sem snúa að lífsgæðum. Ég hef heldur aldrei sóst eftir auði og fundist sjálfsagt að neita mér um margt það sem aðrir telja sjálfsagt. Ég tók þó lán til að eignast íbúð. Lán sem sér ekki fyrir endann á. Ég ákvað líka að mennta mig í háskóla þó ég hefði ekki efni á því en ég hafði heldur ekki efni á því að framfleyta mér og dætrum mínum á þeim launum sem voru í boði fyrir einstæða móður með ekkert nema stúdentspróf.

Það sér ekki heldur fyrir endann á námslánunum en vissulega höfum við haft það svolítið betra síðan ég lauk námi. Ég upplifði þó aldrei þetta svokallaða góðæri. Hef reyndar skömm á þessu orði því ég tel að það hafi aldrei verið annað en fals. Dúsa sem var haldið að fólki svo það tryði því virkilega að veruleiki þeirra væri annar en hann raunverulega var. Ég tók aldrei við þessari dúsu.

Enda sá ég enginn merki um að kjör mín breyttust neitt án þess að ég hefði unnið að því hörðum höndum sjálf. Lánin mín lækkuðu ekki neitt. Ég gat aldrei veitt mér og dætrum mínum neitt af því sem er talið til munaðar að undanskyldu því að við ferðuðumst tvisvar til útlanda. En það eru líka einu skiptin sem ég hef tekið þá áhættu að veita mér slíkan munað.
Það birtir e.t.v. tilÉg hef aldrei sóst eftir því að aðrir tækju af mér byrðarnar sem því hafa fylgt að ég og dætur mínar eignuðumst þak yfir höfuðið, að ég gæti keypt bíl, að ég gæti menntast, að dætur mínar gætu menntast eða við hefðum í okkur og á og gætum jafnvel notið tannlæknis- og læknisþjónustu, haldið húsnæðinu og ökutækinu við eða af því að við kæmumst í ferðalög saman.

Stærstan hluta fullorðinsára minna hef ég þurft að berjast, nurla og spara til að við hefðum eitthvað umfram lífsnauðsynjarnar. Í dag eru dætur mínar komnar yfir tvítugt. Fluttar að heiman og það var útlit fyrir það að ég gæti farið að slaka svolítið á og við gætum snúið okkur að því að njóta ávaxtanna af baráttu minni. En hvað gerist þá....

Nú er mér sagt af stjórnvöldum að ég sé ekkert of góð til að bera kostnaðinn af taumlausri græðgi örfárra útrásardólga! Ég er orðlaus yfir óréttlætinu en ég get samt sagt NEI! Ég íhuga það líka alvarlega að finna mér bústað annars staðar en í því landi sem bændum hefur verið úthýst frá því á síðustu öld, þar sem börnum er mismunað eftir fjölskyldugerð og þar sem það þykir sjálfsagt að almenningur beri auðvaldið á herðum sér.

Ég bið afsökunar á því hvað ég hef gerst persónuleg í þessu bloggi en vona að þið áttið ykkur á því að ástæðan er djúpstæð vonbrigði konu sem finnur sig knúna til að útskýra í hverju henni finnst sú lítilsvirðing liggja sem meiri hluti þingmanna sýnir mér og þjóð minni.

Í stuttu máli líður mér eins og þeir, sem greiddu því atkvæði að ég og annar almenningur skuli eiga að bera skuldir þessara græðgisbólgnu oflátunga sem stofnuðu til Icesave, hafi drullað yfir okkur. Svo það sé á hreinu þá er ég líka ósátt við þá sem sátu hjá í þessu máli.


mbl.is Eini lúserinn í kúrekamyndinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir þetta.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 28.8.2009 kl. 19:40

2 identicon

Væri þessi færsla þín undirskriftarlisti þá myndi ég skrifa undir.

Helga (IP-tala skráð) 28.8.2009 kl. 19:47

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Þetta er sorgardagur, gróðinn var einkavæddur en skuldirnar þjóðnýttar. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 28.8.2009 kl. 22:34

4 Smámynd: Helga Þórðardóttir

Þú þarft ekki að afsaka neitt, Það er hollt fyrir mann að lesa svona hugrenningar. Það var svolítið einkennileg tilviljun að á meðan ég las þessar hugleiðingar þínar hlustaði ég á sorgarmars sem var spilað ur á útvarpi Sögu eftir að atkvæðagreiðslunni á Alþingi í dag lauk.Ég ákvað að hlusta á útsendinguna í kvöld þar sem ég var að kenna í morgun. Mér líður líka hálf undarlega, maður er svo lengi búinn að berjast gegn þessari vitleysu. Við verðum að vona það besta og ekki gefast upp. Höldum áfram að berjast fyrir bættum hag okkar allra á Íslandi. Gangi þér vel kæra bloggvinkona.

Helga Þórðardóttir, 28.8.2009 kl. 22:51

5 Smámynd: Þór Saari

Þakka þér kærlega fyrir færsluna Rakel. 

Þór Saari, 28.8.2009 kl. 23:42

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þakka ykkur fyrir innlit og hlýjar kveðjur. Mig langar að þakka Helgu Þórðar. sérstaklega hennar einlæga og hughreystandi innlegg

Rakel Sigurgeirsdóttir, 29.8.2009 kl. 00:22

7 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Vildi bæta þessu við vegna athugasemdar númer tvö. Helga: Ég ákvað eftir nokkrar vangaveltur að láta vaða og birta þetta hér. Ástæðan er sú að ég reiknaði með að þessi saga mín væri ekki svo ólík sögu margra þeirra Íslendinga sem eiga nú að upplifa skort og skerðingu fyrir fámennan forréttindahóp. Þess vegna er öllum sem kannast við þessa sögu meira en velkomið að skrifa undir

Rakel Sigurgeirsdóttir, 29.8.2009 kl. 12:13

8 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Mér finnst þú bara vera að segja sögu tugþúsunda Íslendinga sem hafa lifað svipað og upplifa þetta núna eins og þú.

Ég hef verið að vinna nokkuð upp á síðkastið við leikmyndasmíði ma. fyrir fangavaktina og ýmsar auglýsingar. Bankarnir, góðærið og glæpamennirnir sem sviku land og þjóð virka á mig eins og leikmyndirnar. Flott framhlið en ekkert á bakvið. Umbúðir án innihalds.

Ævar Rafn Kjartansson, 29.8.2009 kl. 13:14

9 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Gott að fá staðfestingu á því frá þér Ævar Góð samlíking að meint „velmegunarbóla“ hafi ekki verið neitt nema leikmynd

Rakel Sigurgeirsdóttir, 29.8.2009 kl. 23:45

10 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Þakka þér fyrir þessa einlægu lýsingu. Það er einmitt tilhugsunin um þá sem hafa þurft að hafa verulega fyrir tilverunni og eiga nú að taka á sig glæpi þeirra fjölskyldna sem misnotað hafa völd sínum um aldir á Íslandi sem vekur manni reyði og baráttuhug.

það er ekki hægt að réttlæta framferði núverandi ríkisstjórnar í þessu máli.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 30.8.2009 kl. 03:37

11 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þakka þér líka fyrir einlægni þína Jakobína! Það hreyfir virkilega við tilfinningalífinu að sjá hvað þú skilur vel tilefni og tilgang færslunnar minnar

Rakel Sigurgeirsdóttir, 30.8.2009 kl. 13:27

12 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Flott hugleiðing, áts þarna fékk ég eitthvað í augað.

Kveðja

Jenný Stefanía Jensdóttir, 31.8.2009 kl. 00:52

13 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir innlitið Jenný Stefanía. Ég fylgist spennt með framhaldssögunni þinni um peningaþvættið og hef sent krækjur inn á færslurnar þínar um það inn á Fésið jafnóðum.

Es: Vona að þú sést búin að jafna þig í auganu

Rakel Sigurgeirsdóttir, 31.8.2009 kl. 01:02

14 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Takk Rakel. Þú ert að segja sögu þúsunda íslendinga sem nú eru iceslavers en ekki íslendingar.

kv, ari

Arinbjörn Kúld, 2.9.2009 kl. 23:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband