Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Hugsanir mínar í fáum orðum

Stormurinn þýtur og veggina ber.

Regnið lemur gluggans gler.
Rennur niður rúðuna í stríðum táraflaumum.

Saman þau hvísla: „Hvar er byltingin sem þú lofaðir mér?

Mikil er neyð þín ef hún ekki kennir þér
að sameinast í hópi og spyrna á móti.“

Ég hvísla út í tómið: „Ég hygg að það sé kominn tími á skynsama neyðarstjórn.“
Hugleiðsla
mbl.is Leið Buchheits ekki fær
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Takið sérstaklega eftir rósamáli utanríkisráðherrans!

Það var í júní sem þeirri voveiflegu hugmynd skaut upp í kollinum á mér að það hlyti að vera eitthvað hættulegt samband á milli einstefnumiðaðrar áætlunar Samfylkingarinnar inn í ESB og einstrengsins varðandi Icesave-samningsins. Ég viðraði þessa hugmynd við fáa því þeir sem ég talaði við tóku henni sem hverri annarri bábilju en nú get ég ekki annað en opinberað hana hér.

Ástæðan er það sem Össur Skarphéðinsson segir í lok þessarar fréttar og það að ég rakst á það hér á blogginu að þeir eru fleiri sem hafa greinilega komist að sömu niðurstöðu. Axel Jóhann Axelsson er einn þeirra en hann segir 18. júlí síðastliðinn:

[...] Líklega er búið að fá vilyrði frá ESB um að sambandið kaupi Ísland inn í ESB með loforði um að yfirtaka Icesave skuldirnar gegn aðgangi að auðlindum Íslands.

Þegar aðildarsamningur Íslands að ESB mun liggja fyrir verður hann kynntur þannig að íslenska þjóðin geti ekki hafnað honum því með honum munum við losna undan Icesave, og eins og allir muni þá eiga að vita þá geti Íslendingar alls ekki borgað, enda hafi verð gerð mistök við útreikningana.

Þetta er í aðalatriðum það samhengi sem mér flaug í hug fyrr í sumar um það hvaða samband væri á milli ESB-aðildareinstefnunnar sem og Icesave-einstrengsins. En hvað rökstyður þetta í tengdri frétt? Það eru eftirfarandi orð Össurar Skarphéðinssonar í tengdri frétt:

Össur sagði að það hefði alvarleg áhrif fyrir landið að fella samninginn. Fórnarkostnaðurinn yrði talsvert meiri þegar upp væri staðið heldur [en] kostnaður vegna samningsins. Þá sé samningur við Evrópusambandið sem felist í svokölluðum Brussel - viðmiðum um að aðstoða Íslendinga síðar í þessu ferli. Hann segist þegar hafa rætt þennan samning við ESB og það séu engin vanbrögð á því að sambandið beiti sér eins og þar hafi verið lagt upp með. (leturbreytingar eru mínar)

Því miður er útlit fyrir að fréttamanninum, sem tók þetta viðtal við Össur, hafi ekki hugkvæmst að spyrja utanríkisráðherrann út í það hvaða samning hann væri að vísa í og hverjir hefðu staðið að þessum samningi við Evrópusambandið eða hvenær þessi samningagerð hefði farið fram. Hins vegar er ljóst af þessu sama viðtali að Össur er ákaflega upptekinn af því að upplýsa utanríkisráðherra Evrópusambandsríkjanna um það hverju fram vindur í umræðunum um Icesave. Orðrétt segir í féttinni:

Hann segist vera í stöðugum samskiptum við Breta og Hollendinga um óánægju íslenskra þingmanna með samninginn. Þeir séu algerlega upplýstir og hann hafi ekkert undan dregið. Hann hafi rætt við allt að 25 utanríkisráðherra Evrópusambandsríkjanna á undanförnum vikum.

Í þeirra samtölum hafi þetta mál komið upp og hann hafi gert þeim grein fyrir óánægjunni og því að staða málsins hafi þyngst. Íslendingar telji að þetta séu þröngir, erfiðir og ranglátir samningar. Það sé stemmningin á Alþingi Íslendinga þar sem málið sé til meðferðar. Þá hafi komið fram að ekkert hafi skort á að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafi gert það sem þeir geta til að koma samningnum í gegn vegna þess að þeir trúi því að það sé það rétta þegar horft sé til framtíðarhagsmuna þjóðarinnar. (leturbreytingar eru mínar)

Aftur láist fréttamanninum að spyrja hvernig utanríkisráðherra geti talið það þjóna framtíðarhagsmunum þjóðarinnar að sliga hana af slíkum okurvaxtasamningi eins og Icesave-samkomulagið er. Axel Jóhann Axelsson vekur athygli á hvaða ályktun má draga af ofangreindum orðum ráðherrans:

Össur var sem sagt alls ekki að tala máli þjóðarinnar fyrir þessum kollegum sínum í ESB, þvert á móti var hann að sannfæra þá um að ríkisstjórnin væri undirlægja ESB og berðist fyrir hagsmunum Breta og Hollendinga og reyndi allt sem hún gæti til að fá þessa ríkisábyrgð samþykkta, þrátt fyrir andstöðu þings og þjóðar.

En það er ekki bara Axel sem hefur áhyggjur af því að það samband sem vakin er athygli á hér kunni að vera á milli Icesave og ESB. Egill Jóhannson komst að þessari niðurstöðu á bloggi sínu þegar 25. júní sl. en þar segir hann:

Ég lofa ykkur, lesendur góðir, einu. Þegar búið verður að skrifa undir ICESAVE og ríkistryggja ruglið þá verður ICESAVE-samningurinn notaður sem eitt af sölutrikkunum til að selja okkur hugmyndina um ESB.

Þá verður sagt að eina leiðin til að losna við ICESAVE-samninginn eða milda hann þannig að hann hafi lítil sem engin áhrif sé að ganga í ESB. Ég yrði ekki hissa þó nú þegar væri búið, með baktjaldamakki, að leggja línurnar í þessa átt.

Í staðinn yrðum við að gefa eftir í öllum öðrum stórum auðlindamálum þ.e. sjávar-, orku-, náttúru- og vatnsauðlindum. (Sjá alla færslu Egils hér)

Egill bloggaði líka við fréttina, sem ég tengi þessari færslu minni, og vekur athygli á samningnum sem Össur vísar í en þarf ekki að standa nein skil á hvað inniheldur. Sjá hér. Í athugasemd við færsluna vekur Gunnar Skúli Ármannson athygli á því sem lífið hefur kennt mér en það er það að EKKERT FÆST FYRIR EKKI NEITT! enda bætir Gunnar Skúli við að: „Auðlindir okkar eru greinilega hálfseldar ESB nú þegar.

Eitthvað fleira sem rökstyður það að eitthvað sé til í því sem vakin er athygli á hér? Já, reyndar! Það er dagsetningin sem Páll Hreinsson, formaður Rannsóknarnefndar Alþingis, hefur gefið upp að þjóðinni verði birtar niðurstöður nefndarinnar. 1. nóvember. Af hverju sú dagsetning? Það skyldi ekki vera að það hangi eitthvað saman við það að þá verði Icesave örugglega í höfn og þá um leið ESB-aðildin. - Almenningur má tryllast en plásturinn verður tilbúinn...

Ég veit ekki, kannski er þetta of langt gengið í samsæriskenningunum? Ég vona það! en því miður hefur alltof margt að því sem maður vonaði að væri ekki rétt í sambandi við spillinguna sem hefur viðgengist í íslenskum fjármálaheimi og opinberu stjórnsýslunni komið á daginn að var síst ofsögum sagt! Þess vegna finnst mér a.m.k. full ástæða til að vekja athygli á þessum hugmyndum um voveiflegt samband á mill Icesave-samningsins og ESB-aðildar.


mbl.is Ríkisstjórn á suðupunkti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er áríðandi að standa fast í fæturna!

Barátta góðs og illsUndir lok síðasta árs skrifaði ég pistil sem ég nefndi Baráttu góðs og ills. Mér hefur oft síðan flogið sú hugmynd í hug þegar ég fylgist með því sem fram fer í kringum okkur.

Hvað er hræðsluáróður annað en aðferð hins illa? Hvað er andlegt ofbeldi annað en aðferð illra innrættra einstaklinga til að ná sínu fram sama hvað það kostar? Þessi aðferð virðist því miður vera orðin býsna algeng í samfélaginu og þykir m.a.s. sjálfsögð inni á Alþingi!

Nú er hræðsluáróðurinn enn einu sinni yfir stormviðrismörkum. Efniviðurinn er Icesave. Það er höfðað til ábyrgðarkenndar. Vakin upp sekt. Þeir sem halda ró sinni og benda á hina einföldu staðreynd að landið verði sligað af tröllvöxn- um skuldabagga ef samkomulagið verði að veruleika eru lokaðir af úti í hornum.

Hildarleikurinn er svo ósvífinn að mönnum er jafnvel stillt upp á forsíðum blaðanna sem ábyrgðarmönnum lífs eða dauða stjórnarinnar. Í því sambandi er rétt að benda á að það er engin ríkisstjórn svo dýrmæt að það réttlæti það að þjóðin taki á sig þann okursamning sem Icesave er! (Vitnað óbeint í orð Margrétar Tryggvadóttur, þingmanns Borgarahreyfingarinnar).

Ég hlustaði á fyrirlestur Ragnars Hall, hef setið á fundum þar sem meðlimir Indefence-hópsins hafa talað, lesið og hlustað á Jónanna tvo í fjölmiðlum. Lesið blogg skynsamra manna eins og Marinós G. Njálssonar, Frosta Sigurjónssonar og Haraldar Hanssonar og rætt við Þór Saari sem hafa allir fært fyrir því gild rök hvurslags óráð Icesave-samkomulagið er í núverandi mynd.

Í mínum huga er dæmið ekki flóknara en það að ég neita að borga skuld sem ég stofnaði ekki til! Ég geri mér þó grein fyrir því að ég sem meðlimur í íslensku þjóðfélagi þarf að taka einhvers konar ábyrgð. En á meðan sumir sleppa við óvéfengjanlega ábyrgð á því að koma þjóðinni í þau spor, sem hún stendur í núna gagnvart þeim skuldum sem Icesave-samningurinn snýst um, þá reynist mér það ógerlegt að taka á mig annan eins okurlánasamning og þann sem hér um ræðir! Og lái mér það hver sem vill!!

Samningurinn í núverandi mynd er nauðungarsamningur, saminn annars vegar af herrum þjóða sem eru vanir því að beygja lítilmangann undir sinn vilja og hins vegar af íslenskum fulltrúum sem höfðu ekki til þess neina burði að koma að þessu samkomulagi. Samningurinn sjálfur er besti vitnisburðurinn um það!
Peningarnir vaxa ekki á trjánum
Ég vona svo sannarlega að Ögmundur Jónasson láti ekki beyjga sig með því stormviðri hræðslu- áróðurins sem á honum dynur þessar klukku- stundirnar heldur standi með sinni heilbrigðu skynsemi og réttlætinu fyrir okkur; íslenska þjóð. Við vitum það öll að peningarnir taka ekkert upp á því að vaxa á trjánum á næstu sjö árum. Okkur grunar það mörgum að Icesave-samningurinn sé tilraunaverkefni í því að finna út hversu langt er hægt að beygja okkur til hlýðni.

Þess vegna er mikilvægt að við stöndum í lappirnar og fellum þennan samning í núverandi mynd! Ég treysti því að innan um þingmannahópinn séu nógu margir rökhugsandi einstaklingar sem hafa reiknað dæmið til enda, kjósi með hliðsjón af þeirri dökku útkomu sem rökheldar tölur gefa út úr því dæmi og felli þennan samning í núverandi mynd!

Ég lýk svo þessari færslu með tilvitnun í Bjart í Sumarhúsum sem mér finnst einkar viðeigandi á þessum tímum: „Meðan ég sækist ekki eftir annarra manna gróða kæri ég mig ekki um að bera annarra manna skuld.“


mbl.is Stjórnarsamstarf undir Ögmundi komið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svartanótt

Konan og glugginnÉg horfi í kringum mig og leita svara. Ég reyni að fá botn í tilveruna. Hlusta vandlega. Les. Velti vöngum. Spurning- arnar eru margar en svörin liggja ekki á lausu.

Ég reyni að horfa lengra. Inn í framtíðina jafnvel. Á þessum tímum er það stundum þægilegra en horfa á fortíðina og nútíðina. Glundroðann. Falsið. Svikin. Að ég tali ekki um afleiðingarnar. Hvað þá getuleysið til að bregðast við þeim.

Framtíðin, já. Hver er hún? Jóhanna segir að það sé „ekki öll nótt úti enn“. Miðað við reynsluna hingað til af málnotkun gömlu stjórnmála- refanna. Miðað við orðaleiki þeirra og orðhengilshátt þá held ég að hún sé ekki að tala um vonina.

Ég horfi út til framtíðarinnar og það fer eftir því hvorn gluggann ég vel hvað ég sé. Ef ég vel gluggann hennar Jóhönnu sé ég sömu nóttina og skall hér á 29. september 2008.

Í þeirri nótt er áframhaldandi fals og feluleikur. Svik. „Hnípin þjóð í vanda“. Við stöndum í stað en miðar þó aðeins aftur á bak. Ég kemst að þeirri niðurstöðu að Jóhanna hafi valið sér vitlausan glugga að horfa út um.

Ég vildi að hún legði niður frasana sína og talaði til mín eins og kona sem viðurkennir mistök sín og tekur ábyrgð á hlutverki sínu. Á meðan horfi ég út um gluggann sem snýr út í vonbjartari heim en glugginn hennar og velti fyrir mér hvað ég geti gert til að týnast ekki í nóttinni hennar Jóhönnu.


mbl.is Ekki öll nótt úti enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er dómgæslan ófær um að verja hagsmuni almennings?

Er það nema von þó almenningur, og þá kannski sérstaklega viðskiptavinir Kaupþings, séu reiðir! Við hin sem vorum og erum í viðskiptum við hina bankanna höfum líka ástæðu til að vera reið en okkur hefur kannski ekki verið ögrað jafnfreklega og viðskiptavinum Kaupþings. Ekki enn þá a.m.k.

Ég skrifaði pistil hér í gær þar sem ég lýsti yfir vandlætingu minni yfir því hrópandi óréttlæti sem kemur fram í lögbanninu sem Kaupþingsmenn fengu framgengt gagnvart RÚV. Það verður að segjast eins og er að það setti að mér óraunveruleika tilfinningu þegar ég varð vitni að því að meintum hagsmunun glæpamannanna var gert svo hátt undir höfði! Í þessu sambandi langar mig til að vekja athygli á þessum umhugsunarverða pistli Harðar Svavarssonar.

Ég hef velt því upp áður hvort það sé engin leið fyrir okkur, fórnarlömbin sem eigum að bera kostnaðinn af glæpum fjárglæframannanna sem settu efnahag þjóðarinnar í uppnám, að höfða mál. Nú vík ég að þessu enn einu sinni. Mér þykir það auðvitað mjög eðlilegt að viðskiptavinir Kaupþings íhugi það alvarlega að skipta um banka en ég er að velta því fyrir mér hvort það er ekki komið fullt tilefni til að höfða mál á hendur eigendum bankans.

Mér sýnist að það liggi ljóst fyrir að fyrrum eigendur bankanna hafi látið greipar sópa um innviði bankans og hirt út úr honum öll verðmæti. Verðmætin voru innistæður viðskiptavinanna. Þegar til gjaldþrotanna kom voru það þeir sem höfðu tapað en ekki eigendurnir. Sparifjáreigendur sáu það fyrst í netbankanum sínum að innistæður inni á reikningunum þeirra höfðu lækkað umtalsvert.

Peningar á flugiMargir hafa spurt sig hvert þessir peningar hafi farið. Sumir voru með það á hreinu frá fyrstu stundu að pening- arnir hefðu ekki gufað upp eins og fyrir galdra heldur hefðu eigendur bankanna rænt viðskiptavini sína. Núna hafa viðskiptavinir Kaupþings glærupakkann sem sönnunargagn máli sínu til stuðnings! Er þess vegna ekki komið tilefni til að kæra eigendur bankans?

Auðvitað áttu lífeyrissjóðirnir að fara í slíkt mál við bankanna strax í haust en þar sem forráðamenn þeirra spiluðu með í fjárhættuspili bankanna þá hafa þeir látið það ógert. Þetta er a.m.k. sú niðurstaða sem ég fæ út úr spilunum sem okkur hafa verið rétt. Ég sé þess vegna ekki fyrir mér að mikils stuðnings sé að vænta úr þeirri átt. En hvað um lög- og dómsgæsluna í landinu?

Sýslumaðurinn í Reykjavík var ótrúlega fljótur að komast að þeirri niðurstöðu að hann þyrfti að verja Kaupþingsmenn þegar þeir leituðu til hans en hvað myndi hann gera ef viðskiptavinir bankans leituðu til hans? Myndi hann verja þá? Hvernig getum við látið á það reyna?

Er enginn tilbúinn til að bjóða sig fram til að sækja mál fyrir hönd viðskiptavina Kaupþings á hendur eigendum þeirra. Það er nefnilega ekki bara orðið ljóst að þeir rændu þá heldur er til gagn sem á sér óvéfengjanlegar rætur og sýnir það svart á hvítu hvernig það var gert! Ég hengi glærupakkann við þessa færslu.

En í alvöru talað er það nokkuð vitlaus hugmynd að þeir viðskiptavinir Kaupþings sem vilja höfða mál stofni hóp á Facebook og lýsi eftir lögmönnum sem eru tilbúnir til að taka málið að sér? Er ekki a.m.k. ástæða til að láta á þetta reyna? eða eigum við að trúa því að óreyndu að dómgæslan sé ófær um að verja hagsmuni almennings? Það er auðvitað margt sem bendir til þess að almannahagsmunir vegi ekki þungt þar á bæ en gæti dæmið ekki snúist við ef breiður hópur almennings leitaði réttar síns!

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:


mbl.is Netverjar æfir yfir lögbanni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Almannahagsmunum ögrað freklega!

Á hverjum degi vakna ég vongóð um það að ég geti frá og með deginum í dag snúið mér til míns venjubundna lífs. Treyst stjórnvöldum fyrir velferð minni og meðbræðra minna þannig að ég geti lifað áhyggjulaus um framtíð lands og þjóðar. Á hverjum degi vona ég að stjórnarherrar þessa lands vakni til skynseminnar og skyldunnar gagnvart þjóðarhagsmunum...

En dagarnir líða án þess að von mín verði að veruleika. Reyndar líða þeir þannig að hver þeirra færir mér enn betur heim sanninn um það ranglæti sem okkur, almenningi í þessu landi, er ætlað að sitja undir. Af þessum orsökum hef ég gengið í gegnum hafsjó ægilegs tilfinningaróts og nú hyllir undir málalyktir sem mig óraði aldrei fyrir!

Ég velti því nefnilega orðið fyrir mér hvers vegna ég ætti að hemja mig gagnvart löggjafar- og dómsvaldi sem þjónar ofbeldismönnum mínum og þjóðar minnar af þvílíkri forblindaðri þrælslund að jaðrar við gerræði illskunnar! Hvað annað er hægt að segja þegar hagsmunir glæpamannanna sem settu okkur á hausinn eru settir í svo himinhrópandi forgangsröð yfir okkur fórnarlömb þeirra!

Tak fram hest þinn og brynjuEr ég orðljót? Tja, mér finnst það a.m.k! enda verður núverandi líðan minni helst líkt við eldfjall rétt fyrir gos! Ég vona að þeir sem fara með forræði í málum dóms og laga fyrir Íslands hönd átti sig á því hvurs lags ofbeldi þeir bjóða þjóðinni upp á dag eftir dag! Ég vona líka að þeir átti sig á því hvað þeir kalla yfir sig með þvílíkri rangsleitni.

Þolinmæði mín er a.m.k. að verða uppurin! Hún er reyndar komin í þvílíkt þrot að ég er byrjuð að velta því alvarlega fyrir mér hvernig ég geti varið sjálfa mig gegn hinu endalausa óréttlæti sem mér og þjóð minni er boðið upp á dag eftir dag! Spurning hvort það er ekki kominn tími á að taka fram hest, brynju og sverð og berjast fyrir lífvænlegri framtíð okkur öllum til handa!

Það eru ekki málalyktir sem ég óska eftir en það er svo sannarlega spurning til hvaða ráða maður grípur þegar vopn skynsamlegrar og yfirvegaðra orðræðu duga ekki til!

Ég ætla að enda þennan reiðilestur með því að verða við tilmælum Láru Hönnu Einarsdóttur um að birta gögnin sem Kaupþingsmenn hafa komið í veg fyrir að RÚV fjalli frekar um í krafti lögbanns frá hendi sýslumannsins í Reykjavík. Þau eru hengd við þessa færslu eins og hennar.

Hér er tilvísun í færslu Láru Hönnu en ég fékk leyfi hennar til að birta hana í heild og fer hún hér á eftir fyrir þá sem hafa ekki þegar lesið hana:

Við fengum staðfest áðan að hér ríkir ekki upplýsinga-, mál- eða tjáningarfrelsi og fjölmiðlar eru múlbundnir af hagsmunaaðilum ef þeim þykir ástæða til. Yfirlýsing Kaupþings er með ólíkindum. Þar segir m.a.: "Nýja Kaupþing og skilanefnd Kaupþings leggja áherslu á að með þessum aðgerðum séu bankarnir að bregðast við skyldum sínum til að tryggja trúnað við viðskiptavini sína og koma í veg fyrir að óviðkomandi hafi aðgang að upplýsingum um viðskipti þeirra..."

Trúnað við viðskiptavini, jamm. Trúnaður þeirra við Ólaf Ólafsson, Bakkabræður, Jón Ásgeir, Robert Tchenguiz og fleiri slíka er semsagt meiri og mikilsmetnari en trúnaður við íslenskan almenning. Og mér finnst ekki úr vegi að spyrja hvaða peninga var verið að höndla með og útbýta til valinna viðskiptavina og eigenda bankans. Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld kom fram að tíu hæstu lánin voru tæplega þreföld fjárlög ríkissjóðs, hvorki meira né minna.

En hvaða peningar voru þetta? Hvaðan komu þeir og ekki síst - hvert fóru þeir? Og hve stór hluti af gjaldþroti gamla Kaupþings eru þessi lán? Hver þarf að borga brúsann? Hvaða eignir íslensku þjóðarinnar þarf að leggja að veði til að friða kröfuhafa í þrotabú bankans? Hvað þarf íslenskur almenningur að þola t.d. í formi niðurskurðar og skattahækkana vegna græðgi, sukks og spillingar þessara eðalviðskiptavina og eigenda Kaupþings? Í yfirlýsingu Kaupþings frá í gær segir: "Nýja Kaupþing og skilanefnd Kaupþings telja að upplýsingar um viðskiptavini Kaupþings eigi ekki erindi til almennings..." Þetta er mergjað kjaftæði. Auðvitað eiga þessar upplýsingar erindi til almennings! Er það ekki sá sami almenningur sem situr uppi með efnahagslegt hrun landsins sem einmitt þessir viðskiptavinir ollu - ásamt ýmsrum öðrum? Það hefði ég haldið.

Ég vil ítreka áskorun mína til netmiðla og bloggara frá síðasta pistli um að allir sem tök hafa á birti sem mest af þessu á netinu - á bloggsíðum, netmiðlum, Facebook, Twitter og hvað þetta heitir allt saman. Eða slóðir að umfjöllun ef ekki vill betur til. Allir saman nú! Látum Kaupþing hafa fyrir því að krefjast lögbanns á alla netverja ef því er að skipta. Með því móti leggjum við okkar af mörkum til að mótmæla þeirri þöggun sem nú hefur verið samþykkt af embætti Sýslumanns. Ég hengi eintak af lánabókinni aftur neðst í þessa færslu og ítreka slóðina að WikiLeaks.

Fréttir RÚV - 1. ágúst 2009

 

Fréttir Stöðvar 2 - 1. ágúst 2009

 

Viðbót:  Kannski kemur þetta málinu ekkert við, en er ekki beint traustvekjandi og vægast sagt umhugsunarvert. Ég var að fá upplýsingar - og kannaði þær nánar - að tengsl eru milli Sýslumannsins í Reykjavík og Kaupþings. Sýslumaður er Rúnar Guðjónsson (f. 1940). Rúnar var sýslumaður í Borgarnesi og rótarýfélagi Ólafs, föður Ólafs Ólafssonar. Sonur Rúnars er Frosti Reyr Rúnarsson, fyrrverandi forstöðumaður verðbréfamiðlunar Kaupþings. Eins og sjá má t.d. hér og hér var Frosti Reyr einn af kúlulánþegum Kaupþings.

Annar sonur Rúnars er Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja. Búið er að loka vef samtakanna, að því er virðist, og ég finn þau ekki í símaskránni. En lauflétt gúgl leiðir ýmislegt í ljós, m.a. að þessi samtök virðast hafa gengið einna lengst í að koma Íbúðalánasjóði fyrir kattarnef eins og sjá má t.d. hér og hér. Gúglið leiðir ýmislegt fleira í ljós um samtökin, eins og t.d. þetta.

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

mbl.is Telur ríkari hagsmuni víkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband