Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Mótmælafundir víða um land!

Núna um helgina verður mótmælt miklu víðar á landinu en í Reykjavík. Auk mótmælafundarins þar eru slíkir fundir einning boðaðir á: Akureyri, Ísafirði, Selfossi og  í Mývatnssveit en þar er mótmælt í fyrsta skipti þessa helgi. 

Á þessari bloggsíðu segir að í upphafi fundarins, sem haldinn verður í Mývatnssveit, muni gefast „kostur á að kasta (gúmmí)skóm í táknmynd spillingarinnar, hugleysis og vesældóms ráðamanna.  Losa um reiðina.“ Það er virkilega ánægjulegt að sjá að Mývetningar skuli ætla að slá sér í hóp þeirra sem mótmæla ólíðandi spillingu íslenskra banka-, auð- og stjórnmálamanna

Þeir gera það líka svo sannarlega með eftirtektarverðum og táknrænum hætt. Smugan birtir eftirfarandi tilkynningu frá þeim í dag: „Við erum persónur, hópur, heild sem Íslendingar. Á þeim forsendum og á þeim lýðræðislega rétti sem okkur er gefin, hafa nokkrir einstaklingar ákveðið að efna til mótmælastöðu 17. jan. í okkar heimabyggð í Mývatnssveit.“ Það er líka fjallað um þessi mótmæli og víðar á landinuá mbl.is

Mótmælin á Ísafirði og Selfossi eru hafa fest sig í sessi og greinilegt að á báðum stöðum er afar kraftmikið og dugandi fólk. Dáist mest að Selfyssingum fyrir að bera kúamykju á lóð Landbankans þar í bæ. Sennilega óvarlegt að treysta honum fyrir stærri ávöxtun...

Hér á Akureyri eru mótmælin með hefðbundnum hætti. Mæting við Samkomuhúsið kl. 15:00 og ganga þaðan inn á Ráðhústorg. Að þessu sinni beinast mótmælin einkum að niðurskurðinum í menntakerfinu. Ræðumenn verða væntanlega tveir: Þeir munu fjalla um niðurskurðinn en ekki síður leggja áherslu á mikilvægi menntunar. Af þessu tilefni stóð til að koma skilaboðum um gönguna til sem flestra framhaldsskóla- og háskólanemenda hér í bænum.

Formaður nemendaráðs Háskólann á Akureyri hafði frumkvæði af því að dreifa auglýsingunni til samstúdenta sinna. Þar sem haustannarpróf standa nú yfir í öðrum framhaldsskólanum ákváðu tveir nemendur hans að senda fjölpóst til skólasystkina sinna og tryggja þannig að tilkynning um fundinn næði til allra. Í  hinum var aftur á móti bannað að hengja upp auglýsingu um mótmælin. Sjá nánar þessa frétt á Smugunni
Tek undir það (Myndin er fengin að láni úr Fréttablaðinu frá 12. des. 2008)


mbl.is Mótmælin halda áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grafalvarlegt hættuástand

Þegar ég horfi til þess sem hefur komið fram um það sem var að gerast í efnahgsstjórnun landsins fyrir hrun íslensku bankanna síðastliðið haust og svo þess sem hefur gerst eftir það þá get ég ekki annað en fyllst skelfingu og kvíða. Það er ljóst að það sem leiddi til hruns bankanna var kolröng efnahagsstefna. Við vitum það að bankarnir voru orðnir alltof stórir og við vitum það að stjórnvöld bera ábyrgð á því þó Geir H. Haarde reyni að halda öðru fram.

Blindaður af græðgiÉg hef margsinnis spurt mig, eins og eflaust margir fleiri, hvort skýringin á því að eigendur þriggja stærstu bankanna í landinu komust upp með að rústa efnahag þjóðarinnar sé sú að stjórnmálamennirnir og starfsmenn innlendra fjármálaeftirlitsstofnanna séu svona vitlausir eða siðspilltir. Ég held að þeir séu hvort tveggja.

Ég er að komast að þeirri niðurstöðu að þeir séu svo gegnumsýrðir af eftirsókninni eftir völdum að það komist ekkert annað að í þeirra huga en tryggja sér þau áfram sama hvað það kostar. Hvaða önnur skynsamleg skýring kann að liggja að baki viðbrögðum þeirra við margendurteknum viðvörunum um það hvert ofvöxtur bankanna myndi leiða og svo aðgerðarleysi þeirra eftir hrunið síðastliðið haust?

Ég er alls ekki að gefa það í skyn að það sé skynsamlegt að leiða hjá sér viðvaranir sem hefðu átt að liggja í augum uppi fyrir þokkalega menntuðum embættismönnum og þverskallast svo við að viðurkenna eigin ábyrgð á því hvernig er komið fyrir efnahag landsins. Ég er þvert á móti að reyna að finna einhverja sæmilega rökrétta skýringu á slíkri framkomu. Mér gengur það svo sannarlega erfiðlega því háttalag stjórnmálamannanna opinbera fyrir mér eðli sem er í svo stjarnfræðilegri fjarlægð frá því sem ætti að einkenna embættismenn sem hafa hag heilla þjóða í höndum sér að mér fallast næstum því hendur.

Það kannast þó flestir við einhvern sem neitar að horfast í augu við staðreyndir og réttlætir alltaf eigin gjörðir með því að kenna öðrum um. Ég geri það því miður líka. Satt best að segja treysti ég ekki einstaklingum sem koma þannig fram enda kemur yfirleitt í ljós að þeir sem haga sér þannig eru annaðhvort andlega veikir eða það er stórhættulegt að umgangast þá, nema hvort tveggja sé.

Nú er ég að komast að þeirri niðurstöðu að íslenska þjóðin sé á valdi slíkra einstaklinga. Það er ekki aðeins það að þeir neita að horfast í augu við staðreyndir sem gerir þá hættulega heldur líka verk þeirra og málflutningur. Sjálfstæðisflokkurinn, sem er búinn að hreiðra svo vel um sig í valdastólunum innan alls stjórnkerfisins, er farinn að minna mig á áhrifamikinn sértrúarsöfnuð.

Margir sem ánetjast honum eru svo „frelsaðir“ að þeir neita að viðurkenna að boðskapurinn hefur verið gróflega misnotaður til að hygla einstaklingum á kostnað fjöldans með hörmulegum afleiðingum fyrir þjóðina. (Bendi hér á boðskap Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um flokkinn sem Lára Hanna Einarsdóttir hefur klippt saman.

Á undanförnum árum hafa þessir einstaklingar lagt undir sig samfélagið með því að hreiðra um sig í öllum helstu valda- og áhrifastofnunum landsins. Þaðan hafa þeir stýrt fjármagninu og upplýsingunum og þannig haft áhrif á skoðanir og lífsstíl fjöldamargra. Þeir sem reyna að æmta eru útilokaðir og jafnvel vikið frá störfum fyrir einstaklinga með „réttar“ skoðanir. Það eru því miður fjöldamargir sem geta vitnað um þetta með mér. Bæði lærðir og leikir innan íslenskrar stjórnsýslu og á fjölmiðlunum.

Þannig hefur skipulega verið unnið að þöggun bæði einstaklinga og þjóðarinnar allrar. Sumir hafa reynt að vekja athygli á þessu í nokkur undanfarin ár en þeir hafa talað fyrir daufum eyrum því flest okkar erum ekki svo illa innrætt að við eigum í erfiðleikum með að trúa að einhverjir eigi slíka illsku til. Síst af öllu að heill hópur beiti slíkum bolabrögðum til að mala undir sig og sína. En það er því miður ótrúlegustu grundþættir heilbrigðar skynsemi og góðs innrætis sem upprætast frammi fyrir gylliboðum um auð og völd. A.m.k. hjá sumum og því miður eru þeir of margir sem hafa gerst sekir um að kæfa alla hugsun um samkennd og bræðralag fyrir sína eigin hagsmuni.
EiginhagsmunaseggurÞetta hljómar e.t.v. eins og illa grundaðar aðdróttanir en ég byggi þær á svo mörgum þáttum sem allir sem hafa fylgst með á undanförnum mánuðum ættu að kannast við. Sumt af því hef ég birt eða vísað til í öðrum skrifum mínum á þessum vettvangi. Annað byggi ég á því sem hefur komið fram í fjölmiðlum, bæði háðum og óháðum. En ég byggi þær skoðanir sem ég birti hér einkum á því sem stjórnmálamennirnir hafa gert og sagt sjálfir og því sem „innvígðir“ hafa opinberað fyrir mér einni og fyrir alþjóð.

Ég læt nægja að vísa til þess sem kom fram á síðasta borgarafundi í Háskólabíói og þá einkum hjá Robert Wade og Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur (Krækjurnar vísa í ræðu Wades og ræðu Sigurbjargar. Þeir sem misstu af borgarafundinum geta séð hann inni á bloggsvæði Láru Hönnu Einarsdóttur)

Það sem ég á erfiðast með að skilja er það af hverju engin hefur sætt ábyrgð fyrir borðliggjandi embættisglöp. Mér finnst t.d. blasa við að það er lífsnauðsynlegt fyrir íslenskt efnahagslíf að gera ærlega hreingerningu í Seðlabankanum! Hver kemur í veg fyrir að það sé gert!? Sá sem hefur a.m.k. hæst í þeirri vörn er Geir H. Haarde sem mælti m.a. þessi ógleymanlegu og ótímanbæru orð í kjölfar bankahrunsins: „Nú er ekki rétti tíminn til að benda á sökudólga!“

Hvers vegna sagði hann þetta þrátt fyrir það að stór hluti þjóðarinnar var enn þá svo vankaður að honum datt ekki einu sinni í hug að einhverjir sérstakir einstaklingar bæru ábyrgð? Mitt svar er það að Geir er ekki svo vitlaus að hann viti ekki að sökudólgarnir eru hann sjálfur, flokksbræður hans og aðrir klíkubræður. Hann vill bara alls ekki að þeir verði sóttir til saka. Þessi orð hans eru eitt af þeim þöggunarvopnum sem hann og klíkubræður hans eru svo feykilega lagnir við að ota framan í þjóðina og beina athygli hennar eitthvað annað en að þeim sjálfum í leiðinni. Því miður virðast þau virka á allt of marga.

Við lifum á mjög viðsjárverðum tímum og í raun er hver einasta stund afar dýrmæt. Það er ákaflega brýnt að koma stóra klíkubandalaginu, sem er búið að sölsa undir sig allar mikilvægustu áhrifastöðurnar á Íslandi, frá völdum! Það er ekki bara mikilvægt vegna þess sem þeir hafa gert þjóðinni nú þegar heldur vegna þess sem þeir hafa í hyggju.

Og hvað hafa þeir í hyggju? Ég er að komast að þeirri niðurstöðu að það sé ekkert flóknara en það að þeir eru að einbeita sér að því að bjarga þeim sem geta tryggt þeim áframhaldandi völd. Hverjir vilja það? Þeir sem þegar eru í þægilegustu sætunum. Þess vegna taka þeir þátt í að þegja yfir því hvað gerðist, hvers vegna það gerðist og hverjir bera ábyrðg á því sem gerðist.

Þeir taka líka þátt í áróðursstríðinu gegn þeim sem krefjast svara við þessum spurningum! Við sem mótmælum erum mörg komin með svör við þessum spurningum. Bæði vegna þess að þau blasa við, mörg þeirra hafa reyndar blasað við lengi, og vegna þess hvernig þeir sem bera ábyrgð koma fram. Við hlustum og tökum vandlega eftir öllu sem er sagt og gert en ekki síður því hvað það er sem er látið ógert og ósagt. Við vegum og metum og sumir hafa m.a.s. lagst í rannsóknir upp á sitt einsdæmi og kafað ofan í þennan ljóta afætupytt sem hefur fengið að vaxa innan vébanda ríkis- og fjármálastofnanna. Þar er hefur ýmislegt komið í ljós og allt rökstyður það enn frekar grunsemdir um rotna og illa lyktandi spillingu.
Rotið eðliÞið sem trúið ekki að ráðherrarnir og aðrir embættismenn hinnar opinberu stjórnsýslu séu jafn sipspilltir og hér er gefið í skyn ættuð að opna augu ykkar og hlustir og taka vel eftir því sem sprenglærðir hagfræðingar segja annars vegar og íslensku embæætismennirnir hins vegar en ekki síður því sem þeir vísa á bug og neita að tala um. Þá ætti það að renna upp fyrir öllum, sem vilja á annað borð sjá og heyra, að það ber heilan hafsjó af fjarstæðukenndu bulli á milli. Þar er áróðurskenndur kjaftavaðall um sökudólga sem íslenskir embættis- og fjárglæframemm vilja meina að séu allir aðrir en þeir sjálfir.

Hvað meinar t.d. Geir þegar hann eftir þrjá og hálfan mánuð neyðist til að viðurkenna að ofvöxtur bankanna kunni að vera hluti skýringarinnar á alvarleikanum sem nú blasir við í íslensku efnahagslífi? Meinar hann að bankarnir hafi verið sjálfráðir og að eigendur bankanna hafi verið í sjálfsvald sett að stunda þá ofveiði sem þeir hafa orðið berir af í íslenskri og erlendri efnahagslögsögu? Meinar hann að þessi staðreynd sé ekki eitthvað sem hann og ríkisstjórn hans og eigendur bankanna þurfi að taka ábyrgð á heldur almenningur!?

Þetta gegnur engan veginn upp! Til hvers höfum við ríkisstjórn og fjármálaeftirlitsstofnanir? Eru einstaklingarnir sem gegna þessum embættum bara í áskrift af laununum sínum án þess að gegna neinni ábyrgð? Eru þeir bara svona til spari!? Hvernig getur siðspillt afætubandalag litið á sig sem eitthvert skraut? Hvernig getur líka nokkur fengið sig til að samþykkja slíkan endemis fáránleika?

Það fer sennilega ekki framhjá neinum að það sýður á mér núna. Þessa dagana sveiflast ég reyndar milli vanmáttar, sorgar, fyrilitningar og reiði. Ég get ekki unað því að einstaklingar sem hafa gerst sekir um þvílíka sjálfsgæsku, og þeir sem ég hef bent á hér að framan, skuli sitja óáreittir í embættum sínum og komast upp með það sem þeir eru að gera. Þeir beita öllum brögðum til að hrinda áætlunum sínum í framkvæmd. Þeir m.a.s. úthrópa þá sem reyna að benda á hversu grafalvarlegt hættuástand ríkir nú í íslensku samfélagi. Þeir gera í því að skapa sundrungu í samfélaginu til að fá frið til að vinna að þessum aðgerðaráætlunum sínum.

Getum við unað því? Auðvitað ekki og þess vegna verða allir að taka höndum saman við að bjarga þjóðinni, landinu og framtíðinni!! Kröfur okkar eru einfaldar. Við viljum skapa skilyrði fyrir okkur sjálf og afkomendur okkar til mannsæmandi lífs í þessu landi. Til þess að það sé mögulegt þurfum við að hreinsa til í íslenskri stjórnsýslu. Áttum okkur á því að á meðan þeir útmála réttlætissinnanna, sem henda öllum öðrum skyldum frá sér til að standa vörð um þá sanngirniskröfu að þjóðin þurfi ekki að bera tjónið sem þeir sjálfir ullu, þá eru þeir að vinna að því að hneppa íslensku þjóðina í þrældóm.
Almeningur heldur þeim ríku uppiÞeir halda því fram að mótmælendur hafi valdið eignatjóni og segjast jafnvel sumir hverjir óttast um líf sitt. Áttum okkur á því að þeir sem þannig tala eru hræddir af þeirri einföldu ástæðu að þeir vita upp á sig skömmina. Þeir vita að mótmælendur hafa rétt fyrir sér. Þeir vita að sannleikurinn er sá að þeir hafa gerst sekir um mjög alvarleg hryðjuverk sem hafa nú þegar leitt til margfalt stærra efnahagstjóns fyrir hvern einasta Íslending en einn brunninn sjónvarpskapall eða ein brotin rúða!!!

Þeir vilja bara ekki viðurkenna það! Þeir ætla sér að fela sig á bak við lygi og falskar ásakanir. Þeir þurfa að tryggja sér frið til að hrinda sinni ósvífnu framkvæmdaáætlun í framkvæmd. Ef þið eruð ekki búin að ná því hver hún er þá er það að tryggja að þeir sem steyptu þjóðinni út í þá alvarlegu efnahagskreppu, sem hún er nú stödd í, komist aftur til valda í íslensku viðskipta- og fjármálalífi.

Auðmennirnir sem íslenska embættismannamafían ver nú með kjafti og klóm eru þeir sem hún treystir best til að tryggja sér áframhaldandi völd. Það er ekki að ástæðulausu sem þessi mafía notar alla sína visku við að hindra framgang réttvísinnar með þögn og/eða lygum. Þeir trúa á mátt auðs og valda. Þeir trúa líka á mátt áróðursins og þöggunarinnar.  

Við megum ekki láta íslensk stjórnvöld komast upp með það sem þau eru að gera því þá munum við öll tapa. Ekki bara mótmælendur heldur öll íslenska þjóðin!


Segið mér hver þeirra er sjálfstæðismaður...

... og ég skal segja ykkur hver fær stöðuna. Það er e.t.v. ljótt að fullyrða svona en það hefur vakið athygli skólamanna að á undanförnum virðist flokkshollusta ráða meiru en færni þegar kemur að skipun skólameistara. Því er staðan orðin þannig að í langflestum framhaldsskólum landsins eru skólameistarar þeirra yfirlýstir Sjálfstæðismenn.

Í sjálfu sér ætti það ekki að skipta máli hvaða flokk viðkomandi skólameistari kýs en það má kannski spyrja sig hvaða skilaboð þetta vinnulag við mannaráðningar sendir til ungs fólks. Hitt er alvarlegra að þetta skiptir miklu máli í því sem snýr að kjaramálum þar sem kjör kennara eru nú að nokkru háð stofnanasamningum. 

Kennarar hafa ekki aðeins staðið frammi fyrir því að menntamálaráðherra reyni að fjarstýra skólastjórnendum hvað varðar kjör þeirra, sem skólastjórnendur hafa yfir að segja, heldur hefur Þorgerður Katrín unnið að því leynt og ljóst að rjúfa þá einingu sem hefur ríkt fram að þessu á milli kennara og stjórnenda. Það er mál margra að núorðið sé það eins víst að skólastjórnendur standi gegn kennarahópnum og með skipunum Menntamálaráðuneytisins hversu fagmannlegar eða heillavænlegar þær kunna að vera.

Miðað við þetta veðja ég á að það verði sá umsækjendi sem er yfirlýstur Sjálfstæðismaður sem fær skólameistarastöðuna við Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Nema þeir vilji losna við Lilju Mósesdóttur úr bænumWoundering

><>      ><>      ><>      ><>      ><>      ><>    ><>      ><>      ><>      ><>  

Es: Ég hef áður skrifað um framhaldsskólann. Bæði hér og hér. Báðar greinar fjalla fyrst og fremst um nýju framhaldsskólalögin sem vel að merkja stendur til að innleiða þrátt fyrir þann kostnað sem innleiðing þeirra mun óhjákvæmilega skapa.!


mbl.is Tíu sóttu um stöðu skólameistara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott framtak en betur má ef það á að duga

Ég hef litlu sem engu við þessa frétt að bæta en langar til að fagna framtaki foreldrafélags VMA. Það er full ástæða til að mótmæla þessari skerðingu á þjónustu geðdeildarinnar við FSA. Það er ótrúlegt að horfa upp á hvað ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru í lélegum tengslum við almenning í landinu þegar hún sker niður í þjónustu við þá sem glíma við andleg veikindi á sama tíma og hún leiðir yfir þjóðina myrkasta tímabil sem nokkur núlifandi Íslendingur hefur upplifað.

Ef við horfum til Finnlands þá er það borðliggjandi að allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru til þess fallnar að hér muni þó nokkur fjöldi standa frammi fyrir geðröskunum, glæpum mun fjölga, heimilisofbeldi verða alvarlegra og hvers kyns neysla mun aukast gífurlega. Sigurbjörg Árnadóttir, sem var búsett í Finnlandi, á tíma kreppunnar þar, hefur varað við því að á tímum sem nú hafa skapast í íslensku samfélagi muni holskefla fíkniefna ríða yfir landið.

Geðdeildin hér á Akureyri hefur verið í fjársvelti eins og aðrar slíkar á höfuðborgarsvæðinu. Það er til vitnis um það „góðæri“ sem reynt hefur verið að halda að þjóðinni að hafi ríkt í samfélaginu á undanförnum árum. Þeim sem eiga við geðraskanir af ýmsu tagi að stríða hefur því miður fjölgað en ekki fækkað á þessu tímabili sem er góður vitnisburður um lygina sem sem lá í öllu góðærishjalinu!

AngistFölsk skilaboð valdhafa um góðærið sem hér átti að ríkja fór illa með geðheilsu fólks. Afleiðingarnar voru þær að þeim sem þurftu á þjónustu geðdeilda fjölgaði. Er stjórnvöldum fyrirmunað að átta sig á því að á tímum atvinnuleysis og alvarlegrar kjaraskerðingar hafa þeir búið andlegri heilsu þjóðarinnar enn alvarlegri ógn? Það er því miður hætt við því að enn fleiri bogni eða brotni undan þunganum nú en endranær. Það er algert lágmark að krefjast þess að þeir sem þannig fer fyrir fái þá umönnun sem þeir eiga skilið á vel reknum geðdeildum eða öðrum meðferðarstofnunum!

Þess vegna er óskandi að stofnanir, samtök og félög um allt land taki undir með mótmælum foreldrafélags Verkmenntaskólans á Akureyri og mótmæli niðurskurði í þjónustu geðdeilda og áþekkra meðferðarstofnana yfirleitt!


mbl.is Mótmæla breytingum harðlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarar boðaðir til fundar á Akureyri

Grasrótarsamtökin, Bylting fíflanna, boða til fundar á Akureyri annað kvöld (14. janúar) kl. 20:00. Áætlað er að fundurinn standi til kl. 22:00. Fundurinn er haldinn á efstu hæð gamla Barnaskólans sem heitir núna Rósenborg. 

Í tilkynningu frá fundarstjóra segir: „Rætt verður um nánari skilgreiningu á Byltingu fíflanna auk þess sem þverpólitísk breiðfylking sem er að myndast um allt landið verður kynnt.

Núverandi skilgreining á Byltingu fíflanna er að að vera vettvangur þar sem fólk getur hist og leitað lausna án þess að tengja sig við nein samtök. Það er ágætt ef fólk sem vill taka til máls er búið að íhuga sitt mál fyrirfram til að fá fram málefnalega umræðu sem leiðir til skýrrar niðurstöðu. Vonumst til að sjá sem flesta! Bylting fíflanna.


Aðeins þakklæti

Frá bankahruninu síðastliðið haust hef ég leitað athvarfs í blogginu. Ég hef fengið útrás hér í tvennum skilningi. Ég hef fengið útrás fyrir alls kyns neikvæðar tilfinningar sem hafa leitað á hugann vegna þess sem mig grunar að hafi leitt þjóð mína inn í þann kolsvarta veruleika sem við erum nú stödd í. Ég hef líka fengið útrás fyrir skoðanir mínar og vangaveltur um það sem er að gerast úti í samfélaginu og þannig hlíft þeim sem ég umgengst. Fæstir þeirra hafa nefnilega nokkurn áhuga á því að ræða um það sem heyrir undir pólitík.

Bloggið mitt hefur dugað mér vel til þessarar útrásar og verið ein af leiðum mínum til geðræktar líka. Það hefur reyndar virkað mun betur til þess en mig grunaði í upphafi. Þar skipta bloggararnir sem ég hef kynnst í gegnum þessi skrif mestu máli. Ég hef eignast ótrúlega marga góða vini hérna sem halda mér upplýstri, gefa mér hvatningu, ljós, kraft, kjark og síðast en ekki síst hugmyndir.

Kannski var það einhver þeirra sem benti Jóni Karli Stefánssyni á skrif mín. Ég veit það ekki. Hann hafði samband á dögunum og útkoman út úr því er að núna hefur hann birt eina af þeim greinum sem ég hef birt hérna á blogginu. Þá sem ég er stoltust af. Þessa um baráttu góðs og ills. Það voru skrif tveggja bloggvina minna sem áttu einkum þátt í að blása mér henni í brjóst. Þeirra er beggja getið í greininni.

Skrif mín eru að sjálfsögðu samspil margra þátta en þáttur bloggvina minna er stór. Þess vegna brýt ég oddinn af ótta mínum við að vera væmin og þakka ykkar þátt í að fylla mig þeim eldmóði og kjarki sem liggur að baki mörgum bloggpistla minna. Án ykkar hefði þessi vettvangur heldur aldrei orðið mér það sem hann hefur orðið í reynd.

Mig langar til að þakka öllum þeim, sem hafa hvatt mig áfram til að skrifa á þessum vettvangi, alveg sérstaklega fyrir þeirra þátt.
Þakklæti


Hvarþátturinn úr hvatningarseið Láru Hönnu

Ó, þjóð mín þjóð

Hvar ertu?

Hvar eruð þið, sem skrifið svo fjálglega um ástandið og spillinguna?
Hvar eruð þið, sem ræðið um byltingu í heitu pottunum og á kaffistofunum?
Hvar eruð þið, sem fordæmið bankamenn og útrásarauðmenn?
Hvar eruð þið, sem skammið ríkisstjórn, alþingismenn og embættismenn?
Hvar eruð þið, sem hallmælið gróðærinu og viljið annað siðferði?
Hvar eruð þið, sem eruð ósátt við aðgerðir og aðgerðaleysi ráðamanna?
Hvar eruð þið, sem viljið réttlæti öllum til handa, ekki bara sumum?
Hvar eruð þið, sem hafið tapað á hlutabréfakaupum?
Hvar eruð þið, sem hafið tapað á peningamarkaðssjóðum?
Hvar eruð þið, sem hafið tapað lífeyrinum ykkar?
Hvar eruð þið, sem eruð ósátt við að bankarnir afskrifi skuldir auðmanna?
Hvar eruð þið, sem viljið ekki selja þeim fyrirtækin aftur skuldlaus?
Hvar eruð þið, sem horfið á aldraða foreldra flutta hreppaflutningum?
Hvar eruð þið, sem viljið jafnræði?
Hvar eruð þið, sem sjáið húsnæðislánin ykkar rjúka upp?
Hvar eruð þið, sem hafið misst vinnuna?
Hvar eruð þið, sem viljið kosningar og nýja stjórn?
Hvar eruð þið, sem teljið réttlætiskennd ykkar misboðið?
Hvar eruð þið, sem eruð að lenda í heljargreipum verðtryggingar - sumir aftur?
Hvar eruð þið, sem viljið láta frysta eigur auðmanna?
Hvar eruð þið, sem fordæmið leynd og ógegnsæi aðgerða stjórnvalda?

Hvar er samviska ykkar?

Eftir Láru Hönnu Einarsdóttur


mbl.is Íslensk stjórnvöld harðlega gagnrýnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við erum réttlætissinnar sem krefjumst ábyrgðar

Mótmælin á Akureyri í dag voru þau næststærstu frá upphafi. Fréttin á mbl.is segir samt að aðeins um 200 manns hafi mótmælt að þessu sinni. Þó ég sé sjálf orðin frekar þreytt á þessari talnaumræðu þá er hún sennilega nauðsynleg í ljósi þeirrar meðvituðu eða ómeðvituðu úrtöluáráttu sem kemur fram í talnafræði margra þeirra sem hafa fjallað um mótmælin að undanförnu. Ég ætla þess vegna að benda á að það er miklu nær að áætla að við höfum verið um 500.
Mótmælaganga á Akureyri 10.01.09 Þessi mynd sýnir hluta hópsins sem tók þátt í göngunni í dag en ég tók hana þegar u.þ.b. helmingur göngunnar var farinn hjá. Á leiðinni bætast svo alltaf einhverjir við sem annaðhvort eru eitthvað seinir fyrir, eins og ég í dag, eða treysta sér ekki til að ganga alla leiðina. Ég leyfi mér þess vegna að skjóta á að fjöldinn hafi verið a.m.k. 500.

Það var líka ánægjulegt að sjá hve margir nýir létu sjá sig á mótmælunum í dag. Mig langar til að benda ykkur á blogg Viðis Benediktssonar en þar er mjög skemmtileg mynd frá mótmælafundinum sem sýnir bæjarfulltrúa, yfirlýstan kommúnista og lögreglumann. Myndin ætti að gefa hugmynd um það hve mótmælendur eru fjölbreyttur hópur.

Annað sem vakti sérstaka athygli mína við mótmælin í dag er að nú voru miklu fleiri kröfuspjöld á lofti! Það var greinilegt að kröfuspjaldahópurinn, sem var skipaður á samráðsfundi Byltingar fíflanna fyrr í þessari viku, hefur staðið sig frábærlega. Hins vegar sásust fánar samtakanna hvergi sem getur stafað að því að einhver hefur tekið mark á því að fáninn þykir of rauður! Já, þau eru ótrúleg smáatriðin sem úrtöluraddirnar nenna að tuða yfir en kannski enn sorglegra að svona mjálm skuli hafa slík áhrif. Mótmælafundurinn á Akureyri í dag Á mótmælafundinum hélt Rósa Eggertsdóttir, sérfræðingur á skólaþróunarsviði, flotta ræðu þar sem hún kom að mörgum þeirra atriða sem hafa verið svo áberandi í umræðu okkar mótmælenda undanfarnar vikur en sagan hennar af gömlu konunni sem var flutt hreppaflutningum á milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar einhvern tímann á 19. öldinni, minnir mig, varð mér samt eftirminnilegust.

Þessi saga var hrópleg dæmisaga af hinum heimskulega og miskunnarlausa niðurskurði sem þjóðin stendur nú frammi fyrir af hálfu Heilbrigðisráðuneytisins. Gamla konan, sem Rósa tók dæmi af, var lömuð á höndum og fótum. Það þurfti því átta menn til að flytja hana á milli Saurbæjarhrepps í Eyjafjarði og Lýtingsstaðarhrepps í Skagafirði yfir hæsta fjall á Norðulandi. Ferðin tók þrjá daga en skömmu eftir þennan háskalega, mannfreka og dýra flutning lést gamla konan sem hét Karólína Guðmundsdóttir.

Edward H. Huijbens, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála, ávarpaði síðan viðstadda. Hann minnti á að mótmælin snúast ekki um það að skapa sundrungu heldur samstöðu um uppbyggingu betra samfélags. Hann benti líka á það að mótmælendur eru réttlætissinnar sem krefðjast þess að íslensk stjórnvöld taki ábyrgð. Ávarp hans var stutt, kraftmikið og snerist um kjarna málsins enda fengu orð hans góð viðbrögð allra viðstaddra.

Eftir þetta kraftmikla ávarp tókust viðstaddir í hendur og mynduðu þögulan hring á meðan þeir hugleiddu réttlæti. Ég bað alheiminn að hlusta á raddir okkar réttlætissinnanna sem krefjast ábyrgðar og sanngirni á öllum sviðum. Síðastliðinn laugardag mynduðum við líka slíkan hring en sá hringur var ekki eins stór og sá sem við mynduðum í dag. Síðastliðinn laugardag þurftum við að teygja á handleggunum til að ná utan um Ráðhústorgið. Í dag var hringurinn ekki aðeins stærri heldur miklu þéttari.
Við biðjum um réttlæti Þessa mynd tók ég af hugleiðsluhringnum sem mótmælendur á Akureyri mynduðu í dag.
Hugleiðsluhringur 3. jan. 2009Þessa um síðustu helgi. Ég veit ekki hvort þær sýni öllum það sem ég sé. Við vorum fleiri. Mynduðum stærri hring og stóðum þéttar saman. Síðastliðinn laugardag vorum við svo fá að við gátum myndað þéttan hring utan um Björn Þorláksson til að heyra ræðu hans. Í dag hefði þurft almennilegt hljóðkerfi til að ræðurnar skiluðu sér almennilega til allra áheyrenda. Ræðumenn dagsins notuðu gjallarhorn. Ég er ekki viss um að það hafi dugað til að málfutningur þeirra hafi skilað sér til þeirra sem stóðu aftast. Mér sýnist þess vegna að það að halda því fram að að þátttakendur á mótmælunum á Akureyri í dag hafi verið um tvö hundruð sé ekkert annað en úrtölur.

Mótmælin á Austurvelli hafa orðið fyrir áþekkri úrtöluárás en í umfjöllunum um þau er ég búin að rekast á tölurnar frá 1500 til 5000 manns. Ég er hins vegar ekki búin að rekast á neitt í fréttum um það sem mér finnst miklu athyglisverðara. En það er að mótmælin gegn ábyrgðarleysi og getuleysi ríkisstjórnarinnar eru að vaxa umtalsvert á landsvísu.

Mótmælin hér á Akureyri voru þau næst stærstu frá upphafi eins og ég gat um í upphafi. Þátttakendur í mótmælunum á Ísafirði eru sagðir hafa verið tæplega 200 og er það umtalsverð fjölgun frá síðustu helgi. Takið eftir því að þó við gerum ráð fyrir að tala mótmælenda þar hafi verið eitthvað hærri en 200 þá er hún mjög hátt hlutfall íbúa á Ísafirði! Af hverju er ekki vakin meiri athygli á því hve mótmælin fyrir vestan eru hlutfallslega stór. Þau stærstu á landinu geri ég ráð fyrir. Ísfirðingar ættu að fá orðu fyrir sitt framlag til mótmælanna!

Þrátt fyrir að mótmælin í Reykjavík hafi ekki verið að þeirri stærðargráðu sem margir vonuðu þá er ástæða til að gleðjast yfir því hvað mótmælin eru að stækka á landsvísu. Í því sambandi vil ég benda á fréttir af mótmælum í Hafnarfirði. Þar tóku mjög margir þátt í borgarafundi nú í dag til að mótmæla lokun St. Jósefsspítala.

Auk þessa hefur Starfsmannafélag Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi sent frá sér yfirlýsingu þar sem stórkostlegum niðurskurði í heilbrigðisþjónustunni er mótmælt. Bæjarráð Fjallabyggðar (Siglufjörður/Ólafsfjörður) hefur sent frá sér yfirlýsingu um vanþóknun á niðurskurðinum. Þannig má eflaust lengi telja. 

Það eru sennilega einhverjir sem finnst það ekki mikil nákvæmni að bendla mótmælin í Hafnarfirði og framantaldar yfirlýsingar við mótmælin gegn aðgerðum og/eða aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í heild. En mér sýnist það sanngjarnt að telja þetta með því sannarlega er boðaður niðurskurður í heilbrigðiskerfinu viðbrögð við efnahagshruninu sem við mótmælum að þjóðin þurfi að bera á meðan þeir sem ullu því sleppa undan sinni ábyrgð. Við mótmælum því öll að efnahagshruninu sé mætt með niðurskurði í þjónustu við aldraða og sjúka í landinu. Þannig mótmælum við óréttlætinu saman sem er aðalatriðið!

Ef allt er talið þá ætti að vea ljóst að mótmælin hafa stækkað umtalsvert! Fögnum því og látum ekki úrtöluraddirnar slá á gleði okkar yfir því.
mbl.is 200 mótmæltu á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Laugardagsmótmælin á Akureyri beinast gegn niðurskurði í heilbrigðisþjónustunni

Að venju verður hist við Samkomuhúsið hér á Akureyri á morgun klukkan 15:00 og gengið þaðan niður á Ráðhústorg. Að þessu sinni beinast mótmælin fyrst og fremst gegn niðurskurði heilbrigðisráðherra sem kemur niður á velferð og öryggi aldraðra og sjúkra hér á Akureyri. Í tilkynningu fundarstjóra segir:

 

Við mótmælum hreppaflutningum á eldri kynslóðinni, lokun dagdeildar geðsjúkra við Skólastíg, uppsögnum ljósmæðra og allri skerðingu á þjónustu Sjúkrahússins á Akureyri.

 

Á torginu mun Rósa Eggertsdóttir taka til máls en í lokin munum við takast í hendur og hugleiða réttlæti.

 
Eins og alþjóð veit ætlar heilbrigðisráðherra að ná fram umtaldverðri hagræðingu í rekstri heilbrigðisstofnana víðs vegar um landið. Fyrir Norðurland þýðir það að allar heilbrigðisstofnanir og heilsugæslustöðvar verða sameinaðar í eina undir forystu sjúkrahússins á Akureyri sem verður Heilbrigðisstofnun Norðurlands.
 
Á mannamáli þýðir þetta auðvitað að öll heilbrigisþjónusta á Norðurlandi verður fyrir stórkostlegum niðurskurði. Ég vek líka athygli á því að samkvæmt skipulagsbreytingu Heilbrigðisráðuneytisins stendur til að auka samstarf milli Heilbrigðisstofnunar Austurlands og Fjórðungssjúkrahúsins á Akureyri. (Sjá hér)
FSAÉg hef það fyrir satt að þessi sameining þýði það að eftir hana muni engin heilbrigðisstofnum landsins bera ábyrgð á jafnmörgum á jafnstóru svæði og heilbrigðisstofnunin sem verður hér á Akureyri. Það þýðir að hagræðingar-niðurskurður heilbrigðisráðherra ógnar hvergi jafnmörgum og á Norðurlandi. Ef Norðlendinga hefur vantað tilefni til að mæta á mótmælin hingað til ætti þessi staðreynd að þjappa þeim saman á þau á morgun.
 
Mig langar til að vekja sérstka athygli þeirra, sem ekki hafa lesið öll bloggin við fréttina sem ég tengi færslunni minni, á mjög skeleggum skrifum Þorsteins Tómasar Broddasonar sem ég hvet alla til að lesa. Hann fullyrðir, með vísun til laga, að framgangurinn í kringum skipulagsbreytingarnar á heilbrigðiskerfinu brjóti í bága við íslensk lög um heilbrigðisþjónustu.
 
Hann vekur líka athygli á því að það sem Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, kýs að kalla hagræðingu í rekstri heilbrigðisstofanna á Norðurlandi er beinlínis hættulegur niðurskurður fyrir íbúa Skagafjarðar og víðar á svæðinu.  Hér er brot af vel útfærðum rökum hans:
 

Hagfræðin kennir að hagræðing er ekki það sama og niðurskurður, hagræðing þýðir að veitt verði sama þjónusta og áður en með lægri kostnaði. Niðurskurður er hins vegar í þessu tilviki lækkun þjónustustigs samhliða lækkun kostnaðar. Samkvæmt tillögum ráðherra eru tvær aðgerðir af sex augljóslega niðurskurður en ekki hagræðing.[...]

Endurskoðun á rekstri sjúkraflutninga er ein undarlegasta aðgerðin í þessum flokki. Stærri þjónustusvæði, lengri vegalengdir á sjúkrahús og niðurskurður í sjúkraflutningum er einungis til þess fallinn að draga úr öryggi borgaranna og jafnvel stefna lífi þeirra í hættu.

Þessar aðgerðir heilbrigðisráðherra eru þannig til þess fallnar að minnka öryggi borgaranna, draga verulega úr þjónustu, auka kostnað íbúanna í heilbrigðisþjónustunni og hugsanlega stuðla að auknum þjóðhagslegum kostnaði.
 
Halldór Jónsson, forstjóri á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, var á blaðamannafundinum þar sem hagræðingaráform Heilbrigisráðuneytisins voru kynnt. Þeir sem þekkja til vita að hann er yfirlýstur Sjálfstæðismaður og þess vegna koma viðbrögð hans þeim alls ekki á óvart. Hann talar eins og sannur flokksmaður þegar hann segir: „Norðurland vissulega vera stórt heilbrigðisumdæmi og samlegðaráhrifin verði mismikil.“ Samlegðaráhrif!? þvílíkur klisjudulbúningur! Í framhaldinu er haft eftir honum á mbl.is:
 
„Að mínu mati eru möguleikarnir fyrir hendi innan hluta af svæðinu og milli ákveðinna staða. Við hljótum að eiga að líta jákvætt á þetta verkefni, þegar það verður sett í gang. Jafnframt þurfum við að átta okkur á því sem kann að verða neikvætt eða erfitt viðureignar og hvernig við bregðumst við því. Ég trúi að í þessu séu möguleikar sem geti bætt og styrkt þjónustuna á svæðinu, sérstaklega til lengri tíma. Núna búum við við þrengingar sem setja okkur vissulega takmörk,“
 
Miðað við flokkshollustuna, sem kemur fram í þessum orðum Halldórs og ekki síður í þessari yfirlýsingu framkvæmdastjórnar FSA, velti ég því fyrir mér hvort það sé ekki rétt að líta það sem  ég hef heyrt haft eftir heilbrigðisstarfsfólki á Fjórðungssjúkrahúsinu hér á Akureyri grafalvarlegum augum. Ég hef nefnilega frétt að sumir þar séu alveg sammála mörgu því sem við höfum verið að mótmæla en leggi ekki í að taka þátt í mótmælunum af ótta við að með því skipi það sér undir niðurskurðarhnífinn þegar kemur að uppsögnum innan heilbrigðisstofnananna hér fyrir norðan!
 
Mér finnst reyndar að þetta ætti að hafa þau þveröfugu áhrif að allt starfsfólk Sjúkrahússins taki sig saman og fjölmenni á hver einustu mótmæli hvar sem er!!! en a.m.k. þau sem eru hérna fyrir norðan.
 
Þeir sem hafa ekki þegar lesið þessa færslu Láru Hönnu Einarsdóttur ættu endilega að kíkja á kraftmikil rök hennar fyrir því að við mótmælum öll. Sumir komast reynar alls ekki á mótmæli af einhverjum ástæðum en langar til að mótmæla samt. Það er auðvitað hægt með því að óska eftir nýjum kosningum og skrá sig hér.
 
Það hefur hlaupið greinilegur fjörkippur í skráninguna á allra síðustu dögum. Í þessum skrifuðu orðum eru þeir orðnir 6034 sem eru tilbúnir að skrifa undir yfirlýsingu þar sem óskað er eftir nýjum kosningum vegna þess að þeir treysta ekki núverandi valdhöfum.

mbl.is Áformum ráðherra mótmælt á Sauðárkróki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er kominn tími til fá sér lögfræðing!

Ég fanga því að einhverjir sem fjölmiðlar taka mark á skuli stíga fram og spyrja þeirrar mikilvægu spurningar sem snýst um það hvort eigendur bankanna hafi blekkt starfsfólk sitt til að gabba þá sem treystu bönkunum fyrir ávöxtun sparifjár síns.

Spurningarnar, sem vakin er athygli á í fréttinni sem ég tengi þessari færslu, snúa reyndar ekki að almennum sparifjáreigendum heldur útflutningsfyrirtækjum og lífeyrissjóðunum í landinu. Þær eru:

  1. Hvöttu eigendur stóru viðskiptabankanna starfsfólk sitt vísvitandi til þess að selja útflutningsatvinnuvegunum og lífeyrissjóðum í landinu gjaldeyrisskiptasamninga þar sem staða var tekin með með krónunni?
  2. „Unnu þeir svo sjálfir að því að fella gengi krónunnar með verulegum hagnaði og vógu þannig að sjávarútvegsfyrirtækjum, lífeyrissjóðunum og íslensku þjóðinni um leið?"

Það er Eiríkur Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjarnar hf. í Grindavík og varaformaður LÍÚ, sem velti þessum spurningum upp í ræðu á fundi auðlindahóps Evrópunefndar Sjálfstæðisflokksins í Valhöll í gær. Við það tækifæri sagði hann það víðtæka skoðun þeirra sem gerðu þessa samninga við bankana að þar hefði verið „maðkur í mysunni.“ (Sjá fréttina í heild inni á vef LÍÚ. Mbl.is hefur tekið hana þaðan nær óbreytta til birtingar hjá sér) 

Það er ljóst að þó Eiríkur sé fyrst og fremst að fjalla um galdmiðlaskiptasamninga (sem ég hef aðeins óljósan skilning á um hvað snúast og hvernig virka) þá vekur hann athygli á því sem fyrst sló mig við hrun bankanna og kveikti á báli tortryggni minnar og vandlætingar gagnvart eigendum bankanna, ríkisstjórninni og öðrum fjármálaeftirlitsstofunum í landinu.

  • Ég get engan vegin keypt það að sá stórkostlegi gróði sem íslensku bankarnir státuðu sig af árfjórðungslega á síðastliðnum árum hafi bara gufað upp!
  • Ég get ekki keypt það að sparifé viðskiptavina bankanna hafi gufað upp öðru vísi en eigendur þeirra hafi verið að leika sér með fé sparifjáreigenda á einhverjum stórvafasömum áhættumörkuðum úti í heimi.
  • Ég get alls ekki keypt það að eigendur bankanna beri ekki ábyrgð á því að þessir peningar eru „horfnir“.
  •  Ég get heldur ekki keypt það að sparifjáreigendur eigi að líða fyrir það að þeir voru ekki upplýstir um að með einkavæðingu bankanna breytust gömlu ríkisbankarnir í peningaryksugur fyrir „rússnesk rúllettufyrirtæki“.

Við megum leika okkur með krónunaÉg get bara ekki skilið hvaða greind ráðherrarnir, sem afhentu siðblindum græðgisgosum úr röðum vina og ættingja sinna alla stærstu banka landsins, búa yfir. Þá skortir a.m.k. alla mannþekkingu! nema að við gerum ráð fyrir að þeir hafi vitað hvað þeir voru að gera?

Ég get heldur ekki skilið hvaða greind ráðherrar og aðrir opinberir starfmenn,sem áttu að hafa eftirlit með íslensku viðskipta- og efnahagslífi, búa yfir þegar aðrar eins peningaryksugur og raun ber vitni hafa sogað burt allan íslenskan peningaforða fyrir framan nefið á þeim. Þá skortir a.m.k. alla hagsýni og fyrirhyggju! nema að við gerum ráð fyrir því að þeir hafi vitað hvað þeir voru að gera?

Því er stóru spurningarnar þessar: Skortir ofantalda greind til að gegna þeim störfum sem þeim hefur verið trúað fyrir eða unnu þeir með glæpamönnunum sem þeir gáfu bankanna. Það skiptir ekki máli þeir eru fullkomlega vanhæfir í báðum tilfellum!! Siðblindan og hrokinn, sem kemur svo fram í því að þeir hylma yfir öllu saman í skjóli útþvælrar klisju um bankaleynd og neita að kalla nokkurn til ábyrgðar eða taka ábyrgð sjálfir á nokkrum hlut, er svo berasta dæmið um algera vanhæfni ofantaldra. 

Í mínum huga blasir það við að eigendur bankanna hafa gerst sekir um efnahagslagabrot. Fréttir af því að hluthafasamtök (eða hvað þessi fyrirbæri þykjast vera) eins og Kjölur og Exista geri kröfur í „sjálfan sig“ virkar þess vegna aðeins sem dropi í minn svikamæli en ekki „byr í vængi“ hugmynda um svikamyllu Kaupþings eins og formaður LÍÚ orðar vaxandi tortryggni meðal aðildarfélaga Landsambands íslenskra útflugningsmanna. (Sjá hér eða fréttina á mbl.is)

Sannfæring mín um sekt nýsprottins bankaauðvalds er svo sterk að þess vegna fullyrði ég að núverandi ríkisstjórn þarf að víkja skilyrðislaust! Skiptir ekki máli hvort þeir gáfu eigendum bankanna fullar veiðiheimildir í íslenskri peningamarkaðslögsögu fyrir heimsku sakir eða í vissunni um að hagnast þannig sjálfir. Skiptir en síður máli hvort heimska þeirra eða siðspilling villti starfsmönnum íslenskra peningaeftirlitsstofnanna sýn þannig að þeir sáu ekki afleiðingarnar af ofveiði þeirra fyrir. Þeir hafa, hvor sem staðreyndin er, allir gert sig seka um alvarlega vanhæfni í starfi.

Það að neita ábyrgð gerir brot þeirra gegn þjóðinni svo alvarlegt að það ætti að kæra þá! Mér finnst að íslenskir sparisjóðseigendur og aðrir sem töpuðu beinlínis fé í bankahruninu sjálfu ættu að leita allra leiða til að sækja eigendur bankanna til saka. Ráðherrum ríkisstjórnarinnar á heldur ekki að líðast að koma eigendum bankanna undan ábyrgðinni sem þeir bera gagnvart viðskiptavinum sínum.

Ríkisstjónin má ekki komast upp með að vernda fjárglæframennina sem hreiðruðu um sig í bönkunum á hennar ábyrgð og trampa í staðinn á íslenskum almenningi á jánhæluðum skóm. Í vægast sagt grunsamlegri áherslu sinni á að vernda sökudólgana níðast íslensk stjónvöld nefnilega ekki aðeins á þeim sem töpuðu sparifé sínu við bankahrunið heldur varpa þau afleiðingunum yfir á herðar allrar þjóðarinnar.

Glæpur ríkisstjónarinnar er ekki síst sá að fullrtrúar hennar neita að viðurkenna að hrun efnahagslífs landsins eru fyrst og fremst afleiðingar fjárglæfrastarfsemi bankaauðvaldsins og vægast sagt vafasamra og stórskaðlegra björgunaraðgerða hennar gagnvart fjárhættuspilafíklunum sem þeir höfðu gefið bankana. Með þessari afneitun réttlæta þeir áframhaldandi veru sína við stjórnvölinn og vernda alla glæpastarfsemina sem við, íslenskur almenningur, þurfum að blæða fyrir.

Íslenska þjóðin á að sækja alla þessa glæpamenn til saka fyrir marháttuð brot þeirra gegn efnahag lansins og lífskjörum þjóðarinnar! Ásetningur Jóns eða Jónu um að vinna efnahag einstaklings eða atvinnufyrirtækis tjón er glæpur! Heimska Jóns eða Jónu sem veldur efnahag einstaklings og atvinnufyrirtækis tjóni er ekki síður alvarlegur glæpur. Slík mál eru rekin fyrir dómstólunum og yfirleitt vinna þeir sem urðu fyrir tjóninu!

Hvort sem það er heimska eða ásetningur eigenda bankanna og íslenskra stjórnvalda sem lagði efnahag íslensku þjóðarinnar í rúst þá er slíkt stórglæpur! Ég lýsi þess vegna eftir lögfræðingum sem eru tilbúnir til að reka mál þeirra sem töpuðu beint við bankahrunið og líka allrar íslensku þjóðarinnar.

Þjóðin situr nefnilega uppi með ríkisstjórn sem leyfir ekki aðeins glæpum bankaauðvaldsins að viðgangast heldur varpar afleiðingum hrunsins yfir á allan almenning og tekur þannig þátt í margítrekuðum efnahagshryðjuverkum gegn þegnum þessa lands. Fulltrúar stjórnvalda, hvort sem þeir sitja á þingi eða í öðrum viðskipta- og fjármálaeftirlitsstofnunum landsins, eru því samsekir eigendum bankanna!

Seyttur hnefiÉg steyti hnefann á móti þessum einstaklingum til að leggja áheslu á vandlætingu mína og reiði þegar ég hrópa: Viljið þið drulla ykkur úr stólunum ykkar áður en vanhæfni ykkar, hrokafullt tilfinningaleysi og gerspilling vinnur íslensku þjóðinni meira tjón en orðið er! Viljið þið drulla ykkur svo að fólk sem hefur hæfileika, þekkingu og manndóm til að hreinsa út eftir ykkur skítinn og setja plástur á sárin komist að. Viljið þið drulla ykkur út á stundinni!!

Það getur verið að þá renni mér reiðin þannig að ég geti fyrirgefið einhverju ykkar en það verður ólíklegra með hverjum deginum sem líður! Ef þið drullið ykkur ekki þá neyðist ég til að fá mér lögfræðing gegn ykkur líka. Ég vinn! þannig að ég veit að þið borgið. Ekki aðeins tjónið sem þið hafið unnið mér og þjóð minni heldur málkostnaðinn líka. Þið þurfið að borga úr ykkar eigin vasa! Ekki mínum.


mbl.is Eiríkur Tómasson: Blekktu eigendur bankanna starfsfólk sitt?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband