Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Löggæsla má ekki snúast upp í andhverfu sína

Lögreglumaður í fullum herklæðum:-/

Það virkar svo fjarlægt að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu beiti mótmælendur álíka ofbeldi og því sem hún hefur gert sig margseka um í mótmælunum á síðastliðnu ári og við alþingishúsið núna. En því miður er það samt staðreynd!

Við erum búin að fá margítrekaðar frásagnir í máli og myndum sem sýna það svart á hvítu að ofbeldisfull viðbrögð lögreglunnar eru í engu samræmi við athafnir mótmælenda. Mótmælendur eru óvopnaðir. Þeir eru eðlilega reiðir, gjarnan háværir og margir saman gætu þeir virst hættulegir þeim sem hafa aldrei þurft að eiga við reiðan hóp.

Ég var sjálf viðstödd atburðina við Hótel Borg þar sem viðbrögð lögreglu og viðbúnaður var einhvern veginn súrealískur miðað við tilefnin. Myndin hér til hliðar er tekin í Lækjargötunni eftir að mótmælendur voru flestir farnir heim. Nokkur okkar þustu yfir í Lækjargötu því þau boð bárust að ráðherrarnir færu þá leiðina út.

Ég varð alveg gáttuð þegar ég kom þar og sá alla lögreglubílana (sjá hér) og útbúnað þeirra lögreglumanna sem þar voru. Myndin ber honum vitni. Sumir sem þarna voru gátu ekki á sér setið yfir fáránleikanum og fóru að hlægja. Svona útbúnaður gerir eiginlega ekkert annað en senda skilaboð um að viðkomandi sé mættur í slagsmál!

Ég spyr mig þess vegna hvað lögreglunni gangi eiginlega til með því að koma fram við mótmælendur á þann hátt sem hún hefur gert sig seka um að undanförnu? Skyldu lögreglumennirnir læra þessa framkomu í Lögregluskólanum? Hvernig er þeim þá kennt að koma fram við fólk sem er í annarlegu ástandi; kannski ofsabrjálað eða sturlað af vímuefnanotkun? Ég tek það fram að ég leyfi mér að efast um að lögreglan kenni að beita hávaðasaman mannfjölda efnavopnum, kylfum eða ofbeldi yfir höfuð.

Langar til að benda á mjög góða og upplýsandi bloggfærslu Helga Jóhanns Haukssonar um aðgerðir gegn mótmælendurm. Svo má benda á athugasemd „Lögga“ á síðunnu hennar Heiðu B. Heiðarsdóttur. (hún er 56. athugasemdin við færsluna hennar Heiðu)

Ég veit þó að innan lögreglunnar er misjafn sauður í mörgu fé, rétt eins og alls staðar annars staðar. Ég geri hins vegar fastlega ráð fyrir því að það séu yfirvöld sem beita lögreglunni fyrir sig á þann hátt sem við höfum orðið vitni að frá mótmælum vörubílsstjóra sl. vor. Slíkt er auðvitað bara enn ein staðfestingin á algjörri vanhæfni stjórnvalda. Hvaða sanngirni er í því að beita lögregluofbeldi gegn sanngjarni kröfu um réttlæti og lýðræði!

Ég hef sagt það áður, og segi það einu sinni enn, að ég finn til með lögreglumönnunum á höfuðborgarsvæðinu en ég furða mig samt á því hvað þeir ætla að láta ota sér langt gegn mótmælendum. Ég furða mig á því að þeir skuli ekki neita að koma fram með þessu ofbeldi. Ekki síst í ljósi þess að reynsla þeirra ætti að hafa kennt þeim að ofbeldi kallar bara á meira ofbeldi eins og dæmin sanna.


mbl.is Táragasi beitt á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarafundur um niðurskurðinn í menntamálum í Deiglunni á Akureyri í kvöld kl. 20:00

NIÐURSKURÐUR Í MENNTAMÁLUM

Borgarafundur í Deiglunni miðvikudaginn 21. janúar kl. 20:00

Framsögu flytja:

Ragnar Sigurðsson, formaður Félags stúdenta við Háskólann á Akureyri
Rakel Snorradóttir, framhaldsskólanemi
Rúnar Sigþórsson, dósent við Háskólann á Akureyri

Í pallborði:
Gunnar Gíslason, fræðslustjóri
Karl Frímannsson, skólastjóri Hrafnagilsskóla
Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri
Jón Már Héðinsson, skólameistari Menntaskólans á Akureyri
Þorsteinn Gunnarson rektor Háskólans á Akureyri
Kristín Björk Gunnarsdóttir, forstöðufreyja Menntasmiðjunnar
Geirlaug G. Björnsdóttir, framkvæmdarstjóri Starfsendurhæfingar Norðurlands

Fulltrúum menntamálanefndar Alþingis og skólanefndar Akureyrarbæjar hefur einnig verið boðið til fundarins. Þeir sem hingað til hafa tilkynnt komu sína eru:
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður
Einar Már Sigurðarson, þingmaður

Fundarstjórar:
Björn Þorláksson, fréttamaður og Edward H. Huijbens, forstöðumaður RMF


Já, auðvitað stend ég með hetjunum á Austurvelli!

Klukkan korter í níu fékk ég svohljóðandi SMS: „Mæta á Torgið NÚNA!“ og auðvitað mætti ég! Í kuldagallanum með gamla pönnu og lítinn hamar til að slá taktinn fyrir nýju lýðræði. Ég var mætt rétt rúmu korteri eftir að kallið kom.
Takturinn sleginn ITildrög þess að við söfnuðumst saman voru þau að einni blöskraði svo það sem hún sá og heyrði af hundsuninni og ofbeldinu sem mótmælur á Austurvelli þurftu að þola að hún ákvað að gera eitthvað í málunum. Hún ákvað að leggjast í símann og kalla fólk saman til að sýna þeim þar samstöðu. Auðvitað voru einhverjir tilbúnir til þess! Þar á meðal ég.

Takturinn sleginn IIÞað voru um tíu manns þegar mættir þegar mig bar að. Margir höfðu tekið með sér ílát eða pottlok og eitthvað ásláttaráhald. Ég eftirlét Þórarni Hjartarsyni hljómgjafana mína og mundaði símann og ljósmyndavélina á meðan hann fann hljómkviðu nýrra tíma.

Við vorum fá í byrjun en það skipti okkur ekki máli. Við vorum saman komin til að sinna brýnu erindi. Erindi þjóðarinnar sem fulltrúar ríkisstjórnarinnar beita þvílíkum rangindum að það er farið að vekja athygli í nágrannalöndum okkar. (Sjá t.d. hér)

Ég ætti kannski frekar að segja „ekki þjóðarinnar“ því enn eru það einhverjir sem halda því fram að við sem mótmælum göngum ekki erinda þjóðarheildarinnar. Þrátt fyrir sístækkandi hóp afvinnulausra, niðurskurð í heilbrigðisþjónustu, niðurskurð í menntakerfinu og 15 vikna aðgerðaleysi stjórnvalda gagnvart þeim sem settu landið á hausinn þá eru það enn einhverjir sem reyna að telja sjálfum sér trú um að það séu mótmælendur sem fari fram af ósanngirni.

Þeir hinir sömu eru enn að verja afstöðu sína með árórðrinum sem fulltrúar stjórnvalda hafa miðlað í gegnum fjölmiðlanna um þennan stórhættulega þjóðflokk. „Ekki þjóðina“ sem hefur djörfung og dug til að krefja lýðræðiskjörna fulltrúa landsins um að axla þá ábyrgð sem þeim var fólgin. Fulltrúa sem hafa sýnt það og sannað að þeir eru gjörsamlega vanhæfir til að verja hag þjóðarheildarinnar á ögurstundu. Þess vegna ber þeim að víkja!

Fulltrúar ríkisstjórnarinnar fegnu tækifæri til að hreinsa til í stjórn Seðlabankans, Fjármálaeftirlitsins og stóru bankanna þriggja. Þeir gripu það ekki og þess vegna verða þeir allir að fara! Það eru engin skrílslæti í slíkri kröfu. Það er lýðræðisleg krafa! Það er réttlætiskrafa! Það er krafa hugsandi einstaklinga sem eru orðnir úrkula vonar um að þingið ætli að taka á efnahagsvandanum með velferð heimilanna í landinu að leiðarljósi.

Hver var líka dagskrá þingsins í dag? Hver voru viðbrögð forsætisráðherra við gagnrýni stjórnarandstöðuþingmannanna sem nenntu að hafa fyrir því að setja út á framkomu hans gagnvart lýðræðinu? Það eru tveir þingmenn sem mér finnst að eigi skilið virðingu þjóðarinnar eftir daginn í dag. Það eru þær Katrín Jakobsdóttir og Álfheiður Ingadóttir. Það voru einu þingmennirnir sem sýndu hug sinn í verki og komu fram sem gegnheilar manneskjur þegar þær gegnu út úr þinghúsinu og sameinuðust mótmælendunum sem söfnuðust saman á Austurvelli í dag.
Takturinn sleginn IIIMótmælendurnir sem söfnuðust saman á Ráðhústorginu á Akureyri í kvöld sýndu ekki aðeins samstöðu sína með því að safnast saman og berja hljómbær búsáhöld. Þeir kveiktu líka varðeld.
Lýðræðiseldurinn Við sungum líka saman undir stjórn Þórarins. Við sungum Fram, fram fylking og Maístjörnuna. Einhverjir hringdu suður og náðu sambandi við mótmælendur þar. Við vildum láta þá vita að við stæðum með þeim. Einn sem ég hringdi í hélt að ég væri mætt á Austurvöll.

Það sem hann heyrði í gegnum símtólið bar honum sömu stemmingu og var þar. Það gladdi mig. Það gladdi mig að ein okkar hafði af eigin frumkvæði kallað okkur saman. Að við höfðum hlýtt kalli hennar. Að við vorum samtaka. Það gefur mér vissulega von hvað við sem mótmælum stóðum þétt saman í kvöld.

Þegar leið á kvöldið fréttum við að fólk var farið að safnast saman á Ísafirði og á Egilsstöðum. Það hlýtur að segja sig sjálft að það þarf eitthvað mikið til, til að fólk stökkvi upp úr sófunum sínum á þriðjudagskvöldi til að safnast saman með litlum sem engum fyrirvara. Það þarf líka eitthvað mikið til, til að fólk standi í kringum 14 tíma mótmælavakt eins raunin varð á í Reykjavík. Einhverjir töluðu m.a.s. um að standa vaktina þar í nótt. Það ætti að blasa við að „ekki þjóðin“ hefur verulegar áhyggjur enda fullt tilefni til!

Upp úr klukkan tíu fjölgaði verulega í hópi mótmælenda sem stóðu vaktina á Ráðhústorginu hér á Akureyri. Einhver sagði að mannfjöldinn væri kominn yfir hundrað. Hópurinn stóð hringinn í kringum eldinn sló taktinn, söng og hrópaði á víxl. Við hrópuðum eftir lýðræði.Mótmæli á Akureyri 20.01.09 Þegar leið á kvöldið komu líka þessir tveir og bættu taktinn sem var sleginn nær sleitulaust þá tæpu þrjá klukkutíma sem við vorum á Torginu. Búsáhaldahljómsveitin hljómaði vissulega betur með þeirra viðbót.Takturinn sleginn IVSvo hélt Sigurbjörg Árnadóttir, eða Sibba eins og við köllum hana hér fyrir norðan hélt ræðu. Og þvílík ræða! Hún fékk líka frábærar undirtektir. Hún sagði svo margt af því sem okkur liggur á hjarta þessa daganna. Krafturinn í flutningi hennar og undirtektir hópsins leystu ábyggilega einhverja krafta úr læðingi.
Valgerður Bjarnadóttir og Sigurbjörg ÁrnadóttirRúmlega hálftólf þakkaði Valgerður Bjarnadóttir öllum viðstöddum fyrir skjót viðbrögð við þessu brýna erindi. Hún kvaddi alla með því að segja að ef ríkisstjórnin verði ekki búin að segja af sér fyrir klukkan 17:00 á morgun þá verður mótmælunum framhaldið á þeim tíma á morgun. Auðvitað mætum við.
Þorvaldur Örn DavíðssonÁ rúmum tveimur og hálfum tíma höfðu rúmlega hundrað manns safnast saman á Torginu því er viðbúið að við verðum fleiri á morgun þar sem fyrirvarinn er lengri. Það eru auðvitað allir velkomnir að leggja okkur lið við að ná athygli ríkisstjórnarinnar og fá fulltrúa hennar til að hlusta.


mbl.is Samstöðumótmæli á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef þú hefur skilning sýndu það þá í verki!

Orðagjálfur og klisjur eru það eina sem við höfum fengið frá fulltrúum þessarar ríkisstjórnar. Þorgerður Katrín er sérstakur snillingur í því að svara fyrir sig með slíku. Sumir eru m.a.s. svo ginkeyptir fyrir tungulipurð hennar að þeir sjá hana fyrir sér sem nýjan formann Sjálfstæðisflokksins eftir næstu andlitsupplyftingu. En ég segi og stend við það að þó Þorgerður Katrín komi óskaplega vel fyrir þá er hún í raun pólitískt flagð.

Kynnið ykkur bara framgöngu hennar í sambandi við nýju fræðslulögin. Munið þegar hún sagði með ískaldri fyrirlitningu að sprenglærður hagfræðingur sem spáði hruni íslensku bankanna fyrir u.þ.b. ári síðan þarfnaðist endurmenntunar. Jú, jú, hún kann að biðjast afsökunnar. Skárra væri það nú! Hún veit nákvæmlega hvert hún stefnir og hvernig hún á að fá því framgengt. Það að kunna að biðjast afsökunnar og láta líta út fyrir að hún iðrist er liður í þeirri áætlun.

Hún segir það skrýtið að vera haldið í herkví inni í þinghúsinu í dag. Þjóðinni finnst líka skrýtið að vera hneppt í skuldafangelsi fyrir ættingja, venslamenn og vini ríkisstjórnarinnar. Henni finnst það skrýtið að enginn þeirra sem lét greipar sópa í íslenskri efnahagslögsögu hafi verið sóttur til saka. Henni finnst skrýtið að þeir sleppi á meðan það er þrengt að kjörum almennings úr öllum áttum.

Þjóðinni finnst það skrýtið hvernig menntamálaráðherrann sem lofaði að grunsamlegar fjármálatilfærslur þeirra hjóna yrðu upp á borðinu svíkur það loforð. Henni finnst það líka skrýtið að hann skuli ekki sýna neina tilburði til að standa við loforðið sem hann gaf í Háskólabíói um að allt sem vekti grunsemdir í sambandi við aðdraganda og viðbrögð efnahagshrunsins yrði upp á borðinu.

Mér finnst það sérstaklega skrýtið hvernig Þorgerður Katrín misbeitir tungumálinu og snýr öllu við! Hvað er t.d. andhverfa mótmæla! Er það ekki ríkisstjórnin? Er hún að meina að við megum ekki fara að haga okkur eins og fulltrúar hennar? Við ætlum að reyna það í lengstu lög. Við ætlum að reyna að koma málstað okkar á framfæri. Við viljum ekki ofbeldi en ætlar Þorgerður Katrín þá að hlusta og sjá til þess í leiðinni að löggæsla snúist ekki upp í andhverfu sína


mbl.is Mótmæli mega ekki snúast upp í andhverfu sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Akureyringar safnast saman á Ráðhústorginu NÚNA

Núna er kallað á alla Akureyringa og nærsveitarmenn að safnast saman á
Torginu. Þannig stöndum við með þeim sem standa vaktina við
alþingishúsið! Ég læt ekki mitt eftir liggja og er rokin!
mbl.is Enn mótmælt við þinghúsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skjálfandi röddu segir hún: „nei“

Mátti til að vekja athygli á því hvað rödd Jóhönnu skelfur. Hvernig hún leikur sér með tunguna uppi í munninum. Hvað hún er óörugg... Hvers vegna er hún svona taugaóstyrk í þessu viðtali? Er hún hrædd eða veit hún að hún er að ljúga? Veit hún að hún er að bregðast samvisku sinni og öllu því sem hún hefur verið vegsömuð fyrir sem þingmaður hingað til? Veit hún að hún kemur ekki hreint og heiðarlega fram lengur? 

Hún gerði það a.m.k. ekki í þessu viðtali. Það er augljóst!


mbl.is Ekki stjórnarslit í augnablikinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumir telja að þeir séu útvaldir til að stjórna

Ég er svo orðvana, máttvana og hugstola um þessar mundir. Kannski er það vegna þess að mér liggur svo margt á hjarta. Það er svo margt sem mig langar til að segja en ekkert af því hefur ekki verið sagt áður. Við mótmælendur erum búin að endurtaka sömu orðin í mismunandi tónhæð og tilbrigðum í bráðum fjóra mánuði! Þrátt fyrir að skilaboð okkar eigi hljómgrunn í áliti lærðra hagfræðinga hlusta valdhafar landsins ekki á rödd okkar. A.m.k. ekki enn.

Á morgun verða enn ein mótmælin. Ég er því miður norður á Akureyri þannig að ég kemst ekki til að hafa hátt við Alþingishúsið. Þeim sem mæta á morgun sendi ég þakklæti mitt og virðingu fyrir að standa vaktina. Ef ég væri galdranorn þá myndi ég senda ykkur vestfirskan Hornstrandarkyngikraft til að magna upp hávaðan og láta ykkur virka stærri, fleiri, reiðari og hættulegri. En læt nægja að óska ykkur heilla og árangurs!

Ég er mikið búin að velta því fyrir mér hvernig á að orða núverandi staðreyndir um ógnina sem við stöndum frammi fyrir. Ógnina sem blasir svo við okkur mótmælendum að við fórnum ótrúlegum tíma og orku í að koma þeim á framfæri við fulltrúa íslensks valds. Fulltrúana sem telja sig útvalda til að stjórna í þessu landi en eru slíkar mannleysur að þeir kunna ekkert með valdið að fara! Þeir eru ekki þroskaðri en svo að þeir virðast telja að valdið hefji þá yfir allt og alla. Að valdið hafi þeim hlotnast til eignar og megi þess vegna fara með það að eigin vild sama hvað einhverjar þúsundir mótmælenda segja.

Það er ofvaxið mínum skilningi hvernig valdhafarnir í þessu landi leyfa sér að haga sér, svo ofvaxið að mig langar til að ryðja út úr mér löngum fúkyrðaflaumi um innræti þeirra og gjörðir. Mín vegna ætla ég samt að sleppa því að gera mig seka um að missa mig frekar yfir þeim heldur láta Guðmundi Andra Thorssyni eftir orðið í hans frábæru grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag.

Hann kann svo sannarlega að virkja gremjuna í hárbeitta hæðni en segja samt allt sem segja þarf!Hámark hrokans (Fréttablaðið 19. janúar 2009)


mbl.is Hvetja til mótmælastöðu við Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yndislega margbrotin mynd

Villtu vinna milljarðTíminn líður svo hratt að ég man ekki lengur hvort það er eitt eða tvö ár síðan ég las bókina Viltu vinna milljarð? eftir Vikas Swarup. Bókin er alveg yndisleg eins og allir vita sem hafa lesið hana. Ég mælti þess vegna með henni við alla á sínum tíma. Þeir sem hafa unun af lestri góðra bóka en hafa enn ekki lesið þessa sögu hvet ég til að gera það.

Sagan er nú orðin að kvikmyndinni Slumdog Millionare. Ég fór að sjá hana í Borgarbíói á Akureyri í kvöld og þvílík upplifun! Þessi mynd er bókstaflega hlaðborð af öllu því besta sem maður getur krafist af góðri bíómynd. Það sem kemur mér e.t.v. mest á óvart er að mér fannst myndin að sumu leyti áhrifaríkari en sagan sjálf.

Hvernig á líka venjulegur Íslendingur, eins og ég, að sjá fyrir sér það sem hann þekkir ekki eins og fátækrahverfið og mannmergðina í Mumbai? Myndin bætir úr því og þó sagan í myndinni sé töluvert breytt frá þeirri í bókinni þá skiptir það ekki máli. Þær eru yndislegar báðar.

Aðalleikararnir í Slumdog MillionaireAðalleikarinn, Dev Patel, er líka ákaflega sannfærandi sem hinn hreinlyndi og gegnheili Jamal Malik. Myndin er veisla fyrir skynfærin. Hún snerti svo sannarlega við mér. Þar var margt sem hjálpaðist að en tónlistin átti ekki sístan þátt í því.

Bókin fékk afar góða dóma bæði hér og erlendis. Myndin hefur líka þegar hlotið góðar viðtökur og fjögur Golden Globe-verðlaun. „Myndin var meðal annars kosin besta dramatíska kvikmynd liðins árs. Leikstjórinn, Danny Boyle, fékk verðlaun fyrir besta leikstjórn og myndin var einnig verðlaunuð fyrir besta handritið og bestu tónlistina.“ (Sjá hér)

Í krækjunni sem ég setti inn á vef Borgarbíós er hægt að sjá sýnishorn úr myndinni. Takið sérstaklega eftir því að í lok þess heyrist lag Sigur Rósar; Hoppaípolla.

Eins og ég sagði er þetta ákaflega vel gerð mynd. Sagan er góð. Leikstjórnin meiri háttar og tónlistin sérstaklega vel valin. Ég vil meina að myndin hafi allt til að bera sem hægt er að krefjast af góðri mynd. Þeir sem vilja fara í bíó til að sjá vel gerða mynd sem snertir við tilfinningunum ættu  alls ekki að láta þessa fara fram hjá sér.

Þó myndin eigi að gerast í Indlandi, sé tekin þar og leikararnir séu flestir af indverskum uppruna þá er myndin ekki indversk í þeirri merkingu. Í afkynningu hennar er samt dans- og söngvaatriðið sem er svo einkennandi fyrir margar þarlendar kvikmyndir. Með skemmtilegri afkynningum sem ég hef séð. 


Mótmælafundurinn á Akureyri

Það hefur skapast hefð fyrir því að mótmælendur hér á Akureyri safnast saman fyrir framan Samkomuhúsið þar sem Leikfélag Akureyrar er til húsa. Miðað við þann fjölda sem var mættur þar þegar mig bar að þá varð ég bjartsýn á að við yrðum óvenjumörg sem myndum sameinast um að mótmæla í dag. Vonir mínar í því efni brugðust en fjöldinn varð svipaður og sl. laugardag.Safbast samanFrá Samkomuhúsinu ganga mótmælendur flykktu liði inn á Ráðhústorg. Fáni Byltingar fíflanna hefur yfirleitt alltaf verið með. Auk hans var Þráinn Karlsson með fána Tryggva Emilssonar úr Fátæku fólki og einhver gekk með fána íslenska lýðveldisins. Mótmælendaspjöldunum er líka alltaf að fjölga. Í dag hafði nokkrum spjöldum með slagorðum gegn niðurskurði í menntakerfinu verið bætt við. Fókusinn í mótmælunum í dag var nefnilega settur á hann.
Við mótmælumÞað eru ekki allir jafnstundvísir þannig að gjarnan bætist í hóp þeirra sem taka þátt í mótmælunum á leiðinni niður á Torg. Í dag tók ég sértstaklega eftir hópi karlmanna sem helltu sér inn í hópinn en þeir töluðu saman á ensku. Þeir nýkomnu spurðu félaga sína hverju væri verið að mótmæla og hvað stæði á spjöldunum? Í framhaldi af svörunum sem þeir fengu spurðu þeir af hverju mótmælin væru svona þögul?

Það er sennilega ofur eðlileg spurning? Af hverju erum við svona þögul? Af hverju göngum við saman í þessari þögn? Við höfum ærna ástæðu til að hafa hátt og hrópa eftir réttlætinu þar sem við erum réttlætissinnar í baráttu gegn ranglátri siðspillingu. Okkur er ætlað að bera fórnarkostnaðinn af útrásargóðærinu í fomi margháttaðrar kjaraskerðingar. Við þurfum ekki aðeins að sporna gegn þessu ósvífna ranglæti. Við þurfum líka að varpa af okkur því andlega oki sem þessi dólgslega framkoma hefur lagt á okkur.

Í þögninni liggur okið á herðum okkar þar sem við göngum saman. Við gætum kannski varpað því af okkur með því að kyrja saman kyngimagnaða texta þessa leið frá Samkomuhúsinu inn á Ráðhústorg? Sá einn ágætan hér á blogginu um daginn sem ætti e.t.v. vel við ef einhver treystir sér til að semja við hann lag. Hérna er textinn:

Var það þess virði
þú víkingur útrásarinnar
að láta land þitt að veði
svo legið þú gætir á allsnægtabeði
og kjamsað á ávöxtum ágirndar þinnar?

Var það þess virði
að veðsetja allt sem er dýrast
hneppa þjóð þína í helsi
hrifsa burt stolt hennar, manndóm og frelsi
svo aleinn þú fengir í höllum að hírast?

Var það þess virði
að veita þér allt sem þú þráðir
ánetjast gleði og glaumi
gjálífið þreyja í óminnisdraumi
– uppskeru njóta, þó engu þú sáðir?

Var það þess virði
að verða svo sjúklega ríkur
– að eignast allt þetta glingur?
Er ekk'í hjarta þér dulítill stingur?
Því sá á jú ekkert sem yndið sitt svíkur.

Mótmælafundur á Ak. 17.01.09 Á Torginu flutti Þráinn Karlsson, leikari, stutt hvatningarávarp og Ragnar Sigurðsson, formaður Félags stútdenta við Háskólann á Akureyri, flutti ræðu þar sem hann vakti athygli á framkomu menntamálayfirvalda og fulltrúa Lánasjóðsins við íslenska háskólastúdenta.

Vissuð þið t.d. að neyðarlánin, sem námsmönnum var lofað í kjölfar bankahrunsins sl. haust, komu fram í því að aðeins sjö af 140 umsækjendum fengu úthlutað slíkum lánum!?! Hvernig ætli þessir sjö hafi verið valdir úr? Ætli valið hafi farið eftir því hvaða sjö voru verst staddir? Eða ætli þessir sjö, sem fengu úthlutun, hafi verið valdir eftir flokks- og ættartengslum?

Það væri a.m.k. forvitnilegt að vita hverjir þessir sjö eru til að ganga úr skugga um það hvort slíkir hagsmunir skipta líka máli þegar kemur að möguleikum til náms...


mbl.is Víða mótmælt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er það einhverjum vafa undirorpið!?

Ég tek undir með svo mörgum sem hafa kvartað sáran undan því hvernig núverandi ástand fer með sálarlífið. Daglega heyrir maður fréttir af spillingu og ranglæti. Spillingu sem setti Ísland á hausinn og því reginranglæti að ENGIN er látin sæta ábyrgð! Þvílíkar fréttir reyna svo sannarlega á sálarþrekið!

Í dag rakst ég inn á bloggið hans Egils Helgasonar og las m.a. þetta:

Undanfarna daga hef ég fengið margar ábendingar um að Straumur standi í vafasömum gjaldeyrisviðskiptum sem valda því að erlendur gjaldeyrir berst ekki til landsins. [...]

Björgólfar láta sér ekki nægja að eiga stóran þátt í því að setja Ísland á hausinn, því að skuldsetja fullorðna, börn og gamalmenni, heldur nota þeir sér líka neyðarástandið sem nú ríkir og koma í veg fyrir að þjóðin geti rétt úr kútnum með hækkandi gengi krónunnar.

Fyrst ég kemst upp með þaðÍ framhaldinu birtir hann tilvitnanir í margar ábendingar sem honum hafa borist um þetta. Þær bera allar að sama brunni. Straumur fjárfestingarbanki er að stunda gjaldeyrisviðskipti fram hjá Seðlabankanum! Heldur einhver að Björgólfarnir geti þetta án þess að nokur taki eftir því?

Farið inn á bloggið hans Egils og lesið um þá sem eru svo siðlausir að þeir hafa smekk fyrir að nota ástandið, sem þeir settu þjóðina í með græðgi sinni, til að græða enn meira. Takið sérstaklega eftir því hver það er sem leyfir þeim að komast upp með það!

Er skrýtið þó útlendingar líti á íslenska fyrirtækjaeigendur með ríkið í broddi fylkingar sem ótínda glæpamenn!

Ég orka ekki að segja meira í biliShocking


mbl.is Telja að óreiðumenn stjórni bönkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband