Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Hættum að eyða tíma og kröftum í að fordæma mismunandi mótmælaaðferðir!

„Þegar löghlýðni getur valdið meiri skaða en óhlýðni er rétt að óhlýðnast“ (Immanúel Kant)

Það er frábært að fá fréttir af fjölmenni á nýliðnum borgarafundi í Reykjavík. Vildi að ég hefði tök á að komast á a.m.k. einn slíkan. Mér finnst frábært hvernig þessir fundir eru skipulagðir sem fræðslu- og hvatningafundir sitt á hvað og í bland. Fundurinn í kvöld sýnist mér að hafi verið góð blanda framsögumanna úr röðum mótmælenda og lögreglumanna.

Sumir virðast gleyma tilgangi mótmælanna og týna sér í umræðunni um samskipti mótmælenda og lögreglunnar. Einhverjir virðast m.a.s. halda að þessir hópar eigi í stríði. Í því sambandi langar mig til að benda á það mikilvæga atriði að málið snýst alls ekki um að mótmæla lögreglunni heldur vanhæfni ríkisstjórnarinnar sem þverkallast við að draga nokkurn til ábyrgðar á því alvarlega efnahagshruni sem reið yfir síðastliðið haust en vinnur skipulega að því að velta afleiðingunum yfir á herðar almennings í landinu.

Sigurbjörg Árnadóttir, sem sjálf upplifði kreppuna í Finnlandi í lok síðustu aldar, hefur frætt bæði embættismenn og aðra um afleiðingar hennar í ræðu á Austurvelli og í viðtölum í fjölmiðlum. Tilgangur hennar var að vara fulltrúa ríkisstjórnarinnar við að fara sömu leið og Finnar út úr þeirri alvarlegu efnahagslægð sem opinberaðist íslensku þjóðinni í bankahruninu í haust. Á borgarafundinum, sem var haldinn hér á Akureyri í gærkvöldi, benti Sigurbjörg á að sá niðurskurður sem nú á sér stað í velferðarkerfinu sé sniðin eftir finnska módelinu. Hún spáir því að ef við bregðumst ekki skjótt við þýði það ekkert annað en við göngum inn í sama framtíðarmyrkur og Finnar eru enn að glíma við 15 árum eftir efnahagshrunið þar í landi. 

Það ætti að vera öllum ljóst hversu brýnt það er að íslenska þjóðin taki höndum saman og láti í sér heyra. Við verðum að halda áfram að mótmæla ríkisstjórn sem er búin að margopinbera vanhæfni sína. Við eigum ekki að eyða kröftum okkar og tíma í argaþras um aðferðir heldur finna þann vettvang sem hentar okkur sjálfum. Það er þó mikilvægt að við stöndum saman en stuðlum ekki að sundrungu með japli, jamli og fuðri um smáatriði eins og það hvort þessi eða hin mótmælaaðferðin sé líklegri eða ekki til árangurs. Þegar allt kemur til alls þá er hæpið að borgaraleg óhlýðni skili síðri árangri en vikulegir borgara- og mótmælafundir.

Eva Hauksdóttir, einn frummælendanna á borgarfundinum í Iðnó í kvöld sagði m.a. þetta um borgaralega óhlýðni: „Tilgangur borgaralegrar óhlýðni væri leið almennings sem ekki hefði vald til að andmæla yfirvaldi og nefndi sem dæmi lög sem „segja að það sé ekki hægt að koma ríkisstjórn frá nema hún samþykki það. Þetta eru ólög, og ef það er glæpur að berjast gegn slíkum ólögum, þá er ég bara stoltur glæpamaður,“ sagði Eva og uppskar dúndrandi lófaklapp viðstaddra.“ (sjá þessa frétt á mbl.is)

Ég er of mikil gunga til að standa í eldlínunni eins og Eva. Ég hélt mér þess vegna til hlés við hana á gamlársdag. Mér dettur þó ekki í hug að fordæma aðgerðir þeirra sem eru hugrakkari en ég og höfðu sig meira í frammi. Margir þeirra sem setja sig upp á móti hópnum, sem treystir frekar á borgaralegri óhlýðni í mótmælum sínum gegn ríkisstjórninni, virðast vera haldnir þeim misskilningi að slík hegðun byggist á ofbeldi og sé um leið ólöglegt athæfi.

Vissulega getur slík hegðun verið á mörkum þess sem valdhafarnir telja löglegt en aðferðin sjálf byggist alls ekki á beitingu líkamlegs ofbeldis. Hér er e.t.v. rétt að vekja aftur athygli á tilvitnuninni sem ég birti í upphafi þessara skrifa: Hún er sótt í bókina Beinar aðgerðir og borgarleg óhlýðni sem kom út í lok árs 2007. Meiri upplýsingar um hana er að finna hér. en þar segir m.a: „Bók þessi fjallar um beinar aðgerðir og borgaralega óhlýðni, sem verkfæri þeirra sem vilja hafa áhrif í sínu samfélagi, en hafa hvorki opinber völd né áhuga á þeim.“

Mahatma GandhiBorgaralegri óhlýðni hefur verið beitt víða um heim. M.a. gegn breskri heimsvaldastefnu á Indlandi, aðskilnaðarstefnu Suður-Afríku og gegn nasismanum í seinni heimsstyrjöldinni. Bandaríski rithöfundurinn Henry David Thoreau ruddi braut nútíma hugmynda um borgaralega óhlýðni í ritgerð sinni Resistance to Civil Government árið 1849.

John Rawl er af mörgum álitinn merkasti stjórnamálaheimspekingur á síðari hluta 20. aldar. Hörður Ólafsson, hæstaréttardómari, þýddi grein hans „The justification of Civil Disobedience“ sem Rawl skrifaði árið 1969 samkvæmt því sem kemur fram á bloggi Kára Harðarsonar. Kári, sem Martin Luther Kinger sonur Harðar Ólafssonar, birti þýðingu hans hér.

Vefritið Leyniþjónusta götunnar fjallar um þessa tegund mótmæla í þremur stuttum geinum sem má finna hér.

Meðal þekktra mannréttindafrömuða sem beittu borgaralegri óhlýðni til að vekja athygli á málstað sínum eru Mahatma Gandhi og Martin Luther King. Það er því vel við hæfi að ljúka þessari hvatningu til mótmælenda um að standa saman í stað þess að fordæma mismunandi aðferðir með einni tilvitnun eftir hvorn.

Martin Luther King:I come to say to you this afternoon, however difficult the moment, however frustrating the hour, it will not be long, [...] How long? Not long, because "no lie can live forever." How long? Not long, because "you shall reap what you sow."“

Mahatma Gandhi: „First they ignore you. Then they ridicule you. Then they fight you. Then you win.“


mbl.is Fundi lokið í sátt og samlyndi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krafturinn í umræðunni

Það er víst að það hefur orðið ótrúleg pólitísk vakning í íslensku samfélagi frá 29. september síðastliðnum. Deginum sem hrun Glitnis var stærsta fréttin í öllum fjölmiðlum landsins síðastliðið haust. Í ljósi þess hvernig orðið pólitík hefur verið notað sem skammaryrði er kannski frekar við að hæfi að kalla þá þessa vakningu aukna samfélagsvitund.

Þetta kemur fram í því að einstaklingar hafa tekið höndum saman og hist í minni og stærri hópum og rætt um undangengna atburði um leið og orsakir þeirra og afleiðingar eru ígrunduð. Mótmælin í Reykjavík, á Akureyri og Ísafirði er einn vettvangurinn þar sem þessi vakning er hvað mest áberandi. Í Reykjavík og hér á Akureyri hafa líka verið haldnir reglulegir borgarafundir. Fundirnir í Reykjavík hafa sumir hverjir orðið mjög líflegir svo ekki sé meira sagt.
Tökum höndum saman
Í október varð til hópur hér á Akureyri sem hefur kennt sig við Byltingu fíflanna. Þetta er hópur réttlætissinnaðra einstaklinga sem getur ekki unað því að við þurfum að búa við óbreytt ástand. Við viljum breytingar en erum alls ekki öll sammála um hverju á að breyta eða með hvaða aðferðum. Ástæðan fyrir því að við viljum breytingar liggur þó ljós fyrir í augum okkar allra. Gamla kerfið hefur brugðist þannig að við treystum því ekki lengur.

Meðlimir í hópnum hafa skipt með sér verkum og komið að ýmsum þáttum. Mest hefur þó mætt á Guðrúnu Þórs sem hefur leitt mótmælin á laugardögum og George Hollander sem hefur haldið utan um borgarafundina. Hann stýrði einum slíkum nú í kvöld þar sem sterkur kjarni hittist til að ræða framhald þeirra.

Við vorum reyndar ekki nema u.þ.b. tuttugu sem mættum á þennan fyrsta fund ársins. Þarna voru einhverjir sem hafa tekið virkan þátt en aðrir voru að mæta í sitt fyrsta skipti. George stakk upp á því að við byrjuðum fundinn á því að segja hvað okkur fyndist um það sem samtökin hafa verið að gera hingað til og hvernig við vildum sjá framhaldið. Þar sem við vorum svona fá fengu allir tækifæri til að tjá sig.

Það finnst kannski einhverjum að það hljómi alls ekki aðlaðandi að svo fámennur hópur sé ekki sammála um alla hluti. Mér finnst það hins vegar frábært að það er ekki aðalmarkmiðið við verðum það. Það voru allir viðstaddir tilbúnir til að hlusta á mismunandi sjónarmið. Hver og einn fékk tækifæri til að bæta sinni sýn inn í umræðuna þannig að þegar upp var staðið vorum við komin með afar fjölbreytt sjónarhorn á það sem er liðið, núið og framtíðina. Við komumst reyndar að býsna mörgum sameiginlegum niðurstöðum en þær helstu voru þessar:

  • Það er nauðsynlegt að halda mótmælunum áfram.
  • Það þarf að kröfuspjaldavæða mótmælin.
  • Það er nauðsynlegt að halda borgarfundunum áfram.
  • Við viljum hafa þá sem fjölbreyttasta.
  • Við viljum fundi þar sem einstaklingar ræða saman eins og í kvöld en við viljum líka bjóða stjórnmálamönnum og sérfræðingum til að koma og svara spurningum og skýra út hugtök og reglugerðir. M.ö.o. við viljum svör um hvað gerðist hvernig það gat gerst og hvernig má bregðast við því.
Töluverð umræða hefur varð um heiti grasrótarhópsins. Það eru alls ekki allir sáttir við Bylting fíflanna. Sumir hafa áhyggjur af því að heitið kunni að fæla frá. Persónulega finnst mér heitið vera algert aukaatriði. Tilgangurinn er aðalatriðið. Sumir vilja þó að við kynnum betur hver hann er. Hann er í aðalatriðum sá að skapa vettvang
  • fyrir réttlætissinnað fólk.
  • þar sem hver sem er getur mætt á sínum eigin forsendum.
  • til að ræða mismunandi skoðanir um samfélagið sem við búum í.
  • fyrir alla sem vilja komast meðal annarra til að tjá og spegla sínar eigin skoðanir.
  • þar sem hver sem er getur komið og boðið fram krafta sína til þess sem nýtist í að skapa betri framtíð.

Annars dró Guðrún Þórs þetta ágætlega saman í sínum málflutningi. Hún sagði að meginmarkmið okkar væri það að koma núverandi valdhöfum frá og skapa björgunarleiðir. Það er þó rétt að taka það fram að það voru ekki allir fundarmenn sammála um það að hlutverk Byltingar fíflanna væri það að koma núverandi ríkisstjórn frá. Hinir sömu treysta því ekki að neitt betra taki við.

Hvað „björgunarleiðirnar“ varðar þá eru sumir sem vilja leggja áherslu á þær á meðan öðrum finnst það ekki vera hlutverk samtaka af þessu tagi. Rök andmæalendanna eru að það sé alls ekki víst að sú vinna sem yrði lögð í að hanna og þróa slíkar leiðir myndu nýtast þeim sem þyrftu á slíkum að halda. Hún muni því stela kröftum frá stærri og meira aðkallandi verkefnum grasrótarsamtaka af þessu tagi.

Það er kraftur í umræðu almennings um ýmis konar samfélagsmál og vaxtarbroddarnir í þeirri umræðu spegluðust ágætlega á fundinum hér á Akureyri í kvöld. Það sorglegasta í umræðunni úti í samfélaginu er sú staðreynd að þrátt fyrir margítrekuð afglöp valdhafanna sem bitna á okkur sem þjóð þá eru enn einhverjir sem neita að horfast í augu við vanhæfni þeirra.

Þeir sem taka þátt í að radda frasa eins og: „Gefum ríkisstjórninni frið til að leiða þjóðina út úr því ófremdarástandi sem alheimskreppan kom okkur í“ eru að sjálfsögðu að verja þá sem þeir trúa enn að séu þeirra menn. Hin djúpa efnahagslægð sem blasir við allri þjóðinni hefur ekki enn runnið almennilega upp fyrir þeim nema þeir trúi því að þeir séu útvaldir. Það er mér þó fullkomalega hulin ráðgáta hvernig þessir geta komist hjá því að horfast í augu við það að það eru þeir sömu, og þessi hópur segist treysta, sem kölluðu miklu alvarlegra efnahagshrun yfir Ísland en það sem blasir við annars staðar í heiminum. Myndin hér að neðan er ágætur vitnisburður um það.
gdp.jpg
Myndin sýnir líka að allt tal um alheimskreppu á engan veginn rétt á sér. Það er þvert á móti hagvöxtur í sumum löndum heimsins. 

Ég átta mig ekki á þeim sem verja ríkisstjórnina enn og trúir engum öðrum en henni til að leiða þjóðina út úr vandanum. Verja þeir kannski líka leiðirnar sem eru farnar til þess? Geta þeir réttlætt allar nýjustu fréttirnar af niðurskurðinum í heilbrigðiskerfinu t.d? Ef svo er þá hljóta hinir sömu að lifa í allt öðrum heimi en ég. Ég get ekki séð að þeir hafi heldur hæfileika til að sjá út um glugga síns eigin veruleika.

Svo er annar hópur sem áttar sig nokkuð á því að alvarleiki efnahagsástandins í landinu er af mannavöldum. Þeir eru fullir furðublandinnar vandlætingar og jafnvel reiðir. En í stað þess að beina þessum tilfinningum í farveg sem nýtist til að knýja fram breytingar sem gætu snúið ógæfunni við þá beinist hún gegn mótmælendum. Þar verða ótrúlegustu smáatrið að bitbeini. Ég ætla ekki að fara nánar út í þessi atriði að sinni en á örugglega eftir að gera það fljótlega.

Mig langar til að enda þetta að þessu sinni á því að vekja athygli á tveimur bloggum sem birta afar ólík sjónarhorn á mótmælin síðastliðinn gamlársdag. Það sem bloggararnir eiga þó sameiginlegt er að báðir voru í eldlínu átakanna þann dag. Annar meðal mótmælanda. Hinn meðal þeirra sem skipuðu sér í þá sveit sem varnaði mótmælendum inngöngu á Hótel Borg. Frásögnin sem segir frá hlið mótmælanda birtist inn á síðunni aftaka.org en hin er eftir þann sem sá um upptökusettið í kring um Kryddsíldina; þaulvanan sviðsstjóra.

Mig langar til að vekja athygli á frásögnum þessara tveggja hérna vegna þess að mér finnst báðar athyglisverðar heimildir. Fyrst og fremst vegna þess að þær sýna tvö andstæð sjónarhorn. Það sem mér finnst sjálfri fengur af inni á blogginu á Aftöku eru myndirnar sem sýna enn og aftur hvernig lögreglan sprautar svokölluðum „varnarúða“ í bakið á mótmælendum. Hin er snilldarlega skrifuð og laus við fordóma. Sviðsstjórinn er einstkur penni en það sem gerir frásögn hans ekki síst merkir lega er að hún birtir sjónarhorni þess sem stóð í þeim sporum að setja það að verja tæki og tól fyrir skemmdum í forgang þennan dag.


Drepa aðalatriðunum á dreif

Mótmæli við LandsbankannÞað er merkilegt hvernig er hægt að drepa aðalatriðum á dreif í araþrasi um smáatriði! Í alvöru talað þá skil ég ekki af hverju það er verið að jagast um hulin andlit eða ekki hulin andlit. Hvað með það sem er hulið með bankaleynd, nafnleynd, launaleynd, persónuvernd... sem eru nokkrar mikilvægar ástæður þess sem þjóðin þarf að líða í formi  stórfelldra kjara- og lífsgæðaskerðingu.

Er nóg að minna á atvinnuleysið og alvarlegan niðurskurð í velferðarkerfinu!? Þarf ég að segja meira til að útskýra að það eru þessir hlutir sem skipta máli ekki það hvort einhverjir mótmælendur kjósa að hylja andlit sín eða ekki!? Mér sýnist þeir sem það gera hafi útskýrt sínar ástæður með mjög góðum rökum.

Leyndin sem við erum að líða fyrir og mótmæla hefur hins vegar ekki verið útskýrð með neinu nema þögninni og áframhaldandi árásum á lífskjör allrar þjóðarinnar! Við þurfum öll að sameinast um að mótmæla þessu og hætta að mótmæla mismunandi aðferðum. Þær miða allar að sömu markmiðum og sameinuð nánum við markmiðum okkar! Notum bara hvert okkar mótmælaaðferð en verum ekki að sóa kröftum okkar gegn hvert öðru.


mbl.is Elín borin út úr bankanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Full ástæða til að spyrja fleiri spurninga en byrjun samt

Mér þætti reyndar eðlilegra að Heilbrigðisnefnd borgarinnar þyrfti ekki að óska eftir upplýsingum um innihald þessa úða. Eru lögreglumennirnir sem beita honum ekki á launum hjá Reykjavíkurborg? Má því ekki teljast eðlilegt að nefndin hefði haft eitthvað um ákvörðunina varðandi beitingu þessa efnavopns gegn mótmælendum í höfuðborginni að segja?

Það er líka rétt að minna á að lögreglan í Reykjavík hefur þrisvar sinnum á þessu ári beitt gasi gegn mótmælendum sem gerðust fyrst og fremst sekir um það að vera margir saman, sýna ágengni og vera með hávaða á almannafæri. Lögreglan hefur varið þessar gjörðir sínar gegn óvopnuðum almenningi með vísunum til þess að þetta háttalag sé dæmi um ólögleg mótmæli. 

Talsmenn lögreglunnar hafa síðan matreitt ýmsar réttlætingar í fjölmiðlum. Matreiðsla þeirra hefur staðist mjög illa gæðakröfur en því miður hefur þeim þó tekist að fá suma til að sjá hinn raunverulega óvin í mótmælendum en ekki ríkisstjórninni eða öðrum sem við erum að beina andófi okkar gegn. Í þessu samhengi langar mig til að benda á ótrúlega flott myndband sem ég rakst í núna rétt í þessu.

Myndbandið er að finna inni á veftímaritinu Nei en ég fann það í gegnum tilvísun Helga Jóhanns Haukssonar. Í umræddu verki „er margmiðlunartæknin færð til hæstu hæða á áhrifaríkan en fágaðan hátt.“ svo ég steli orðalagi Hlínar. Einnar sem „kommentar“ við það. Það er þess vegna full ástæða til að vekja athygli á myndbandinu sem listaverki en ég féll ekki síst fyrir boðskapnum...

Kíktu á það! Þú verður ekki fyrir vonbrigðum!


mbl.is Spyrja um efni í lögreglugasi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dæmisaga um valkosti, ákvarðanir og afleiðingar...

Eftir heilmiklar vangaveltur hef ég ákveðið að segja hér sögu um nágranna minn. Ástæðan fyrir því að ég ákvað að segja hana þrátt fyrir allt er að mér finnst ýmislegt í henni vera ágætt dæmi um þá krísu sem ég upplifi mig í gagnvart ástandinu í samfélaginu í dag. Það sem hefur hins vegar haldið aftur af mér er spurningin um það hvort einhver geti misskilið tilgang minn þannig að ég sé að vekja athygli á neyð viðkomandi og sverta mannorð hans í leiðinni.

Það stendur auðvitað ekki til að ég gefi upp nafn mannsins sem er aðalpersónan í eftirfarandi dæmisögu en það kemur ekki í veg fyrir það að þeir sem þekkja vel til geta e.t.v. fundið út úr því um hvern er að ræða. Ég ætla þess vegna að byrja á því biðja þá sem hugsanlega vita hver hann er að nefna hann ekki á nafn.

Ég bý í blokk. Í stigaganginum eru sjö íbúðir. Ég bý á annari hæð en undir minni íbúð er kjallaraíbúð sem Akureyrarbær keypti fyrir nokkrum árum en einn skjólstæðingur bæjarins leigir hana af þeim. Sá er drykkjumaður. Reyndar mjög langt leiddur drykkjumaður. Ég man ekki nákvæmlega hvað er langt síðan hann flutti hérna inn en það er a.m.k. að nálgast einn áratug.

Á því tímabili sem þessi maður hefur búið fyrir neðan mig hefur hann farið að meðaltali í fjórar til fimm meðferðir á ári en hann drekkur enn. Drykkja hans fer stigversnandi. Hann sem leit alltaf ótrúlega vel út þrátt fyrir hóflausa drykkju hefur látið verulega á sjá síðastliðið ár og það sem verra er þá virðist eitthvað fleira vera farið að bila miðað við ýmis óútreiknanleg uppátæki hans í vímunni.

ÁfengisnauðÉg sagði hér í upphafi að mér fyndist þessi saga vera ágætis dæmi um þá krísu sem ég upplifi vegna þess sem á sér stað nú um mundir í íslensku samfélagi. Ég ætla að nefna nokkur dæmi um áreitið sem umtalaður maður veldur mér og öðrum íbúum stigagangsins sem ættu að skýra þessa staðhæfingu.

Drykkja mannsins hefur lengst af verið háð ákveðnu mynstri. Hann kemur heim úr meðferð en það líður svo mislangur tími þar til hann dettur í það aftur. Allt frá tæpum sólarhring upp í hálft ár. Ég er sennilega oft sú fyrsta sem veit af því að hann er dottinn í það. Það er vegna þess að íbúðin mín er sú eina sem liggur að hans.

Hann fór gjarnan að spila á skemmtarann sinn, sem hann hefur annaðhvort selt eða eyðilagt núna því það hefur ekkert heyrst í honum lengi. Hann fer gjarnan að syngja eða spila plötur með tónlist sem minnir mig helst á að einhver standi í þungum skóm ofan á skotti á risastórum villiketti. Stundum stillir hann allt í botn, svona yfir eina og eina aríu...

Ég hef lifað þetta af og ekki látið það eftir honum að fara niður til hans að kvarta og veita honum félagsskapinn sem blessaður maðurinn er í raun að kalla eftir með svo aumlegum hætti. En hann hefur líka gengið enn lengra til að ná athygli minni og/eða annara í stigaganginum. 

Í eitthvert skiptið tók hann nefnilega upp á því að slá rafmagnið af öllum stigaganginum. Ég áttaði mig nú ekki alveg strax á því hvað var í gangi en þar sem ég átti von á vinkonu minni í mat þurfti ég sárlega á rafmagninu að halda þannig að þegar ég stóð í þriðja skiptið í kolsvarta myrkri inni í íbúðinni minni með öll ljós skínandi í gluggum nærliggjandi húsa var ég sneggri fram í rafmagnstöfluna en í hin skiptin. Um leið og ég opnaði hurðina að íbúðinni minni heyrði ég að hurðin niðri lokaðist og ég lagði saman tvo og tvo.

Þessi saga er ekki úti enn en hér er e.t.v. rétt að víkja að aðaltengingunni sem ég sé í því að segja þessa sögu í samhengi við atburðarrás undanfarandi vikna og mánuða. Mér finnst það liggja í augum uppi að eitthvað stórkostlegt hefur farið úrskeiðis í íslensku efnahagslífi og það gerðist ekki af sjálfu sér. Sökudólgarnir eru miklu fleiri og mennskari en alheimskreppan. Þess vegna finnst mér liggja í augum uppi að það verður að gera eitthvað í málunum en það er greinilegt að það eru ekki allir sammála um það hvað á að gera.

En hvað um drykkjumanninn? Eru allir sammála því að ég hafi átt að hringja í lögregluna þegar hann var búinn að slá út rafmagninu í öllum stigaganginum í fimmta skiptið? Eru einhverjir undrandi á því hvað ég var sein til þess og kannski líka á því að enginn úr hinum íbúðunum fimm, sem urðu fyrir þessu ekkert síður en ég, voru ekki heldur búnir að því? Sumum finnst kannski að einhver hefði átt að fara niður og berja hann en kannski finnst öðrum að svona atvik eigi maður bara að fyrirgefa og gleyma en mér líst á hvorugt...
Fyrirgefa og gleyma?Auðvitað hringdi ég ekki í lögregluna fyrr en ég var alveg viss í minni sök. Eins og áður sagði var ég að undirbúa matarboð og taka á móti gesti þannig að ég gat ekki verið að leggja mig alla í það að sitja fyrir manninum en hljóp alltaf niður og setti rafmagnið jafnóðum á aftur. Þegar maturinn var til og vinkona mín komin kveikti ég bara á kertum en rafmagnsleysi af þessu tagi kemur auðvitað ekki vel niður á t.d. ískápum og frystiskápum þannig að þegar vinkona mín var farin heim hringdi ég loks á lögregluna. Hún kom ekki. Hvað átti hún svo sem að gera því þó ég hefði heyrt til hans hafði ég ekki séð til hans... 

Lögreglan þekkir þennan mann líka miklu betur en ég í þeim ham sem alkóhólið hleypir í hann og sennilega hafa þeir litla ánægju af því að þurfa að eiga við hann í slíku ástandi. Þess vegna hafa þeir að öllum líkindum bara óskað þess að hann væri dottinn út og gerði ekki meira af sér þetta kvöldið. Þeim varð að ósk sinni því hann sló ekki rafmagninu út aftur að sinni. En óútreiknanleg hegðun hans sem hefur valdið íbúum stigagangsins alls kyns óþægindum og ónæði hefur því miður stigmagnast á undanförnum tveimur árum.

Frá því að hann flutti inn hefur hann fundist í víndái í forstofunni og víðar í sameigninni á öllum tímum sólarhringsins. Núorðið angar stigagangurinn oftast allur bæði af tóbaksreyk og vínanda. Upp í íbúðina mína heyri ég rödd hans glymja þegar hann talar í síma því hann talar í hann eins og hann sé að tala í gamla sveitasímann til Kína. Sennilega er hann líka mjög reiður við alla sem hann nær sambandi við miðað við það sem má greina af tóninum og einstaka orðum sem berast óbrengluð.
UppgjöfÓnæðið af drykkjumanninum í kjallaranum er reyndar að verða svo viðvarandi að fæstir íbúar stigagangsins geta leitt það lengur hjá sér. Það keyrði reyndar um þverbak síðastliðið vor enda fyllti hann mæli þolinmæðinnar hjá öllum nábúum sínum endanlega þá. Rafmagnstöflutrixið var rifjað upp þrjár nætur í röð. Ég hringdi á lögregluna í öll skiptin en þeir voru greinilega ekkert sérstaklega æstir í að sinna máli af þessu tagi. Reyndar áttaði ég mig á því að ef ég hringdi í gegnum 112 þá fékk ég mannaðan bíl á staðinn... en það var ekkert útlit fyrir að maðurinn ætlaði að hætta enda taldi hann rafmagnsleysið stafa af allt öðrum hlutum en því að hann væri viljandi að slá út rafmagninu.

Langtleiddi alkóhólistinn hefur alltaf annað slagið hringt bæði dyrabjöllunni minni og símanum mínum og það hefur jafnvel gerst á nóttunni. Blessaður karlinn er einmanna. Hann vantar einhvern til að tala við. Við unnum einu sinni saman og svo eru foreldrar hans úr einni þeirra sveita þar sem ég bjó í uppvextinum. Foreldrar mínir og hans þekktust þess vegna þó það væri nokkur aldursmunur á þeim. Nú svo sé ég um hússjóðinn fyrir stigaganginn þannig að það er eðlilegt að hann telji sig af og til eiga erindi við mig þó hann sé stundum svo fullur að hann á erfitt með að muna hvað hann ætlaði sér að segja og ég á inn á milli ákaflega erfitt með að skilja hann. Oftast eru það þó kvartanir yfir öðrum íbúum stigagangsins en þó einkum frammistöðu minni í hússjóðastarfinu sem hann vill koma á framfæri.

Síðastliðið vor þurfti hann þó óvenjumikið að tala við mig. Hann hringdi og bankaði og barði og skrifaði mér hótunarbréf því lögreglan sagði honum hver hefði kvartað. Aðrir íbúar stigagangsins samþykktu að settur yrði lás á rafmagnstöfluna. Ég talaði við yfirmann hjá Norðurorku og fékk svo blikksmiði til að setja upp lásinn. Kjallarabúinn hreinsaði hann af. Lásasmíðinn og uppsetning hans kostaði auðvitað sitt en það var verknaðurinn sem varð til þess að ég talaði við fulltrúa eiganda íbúðarinnar.

Í framhaldi af því fékk ég enn eitt hótunarbréfið og á sama tíma voru tvö dekk undir bílnum mínum götuð. Starfsmenn dekkjaverkstæðisins sem ég leitaði til treystu sér ekki til að staðfesta það að gatið á fyrra dekkinu væri eftir hníf og því seinna eftir eitthvert stunguverkfæri. Þeir þorðu ekki að fullyrða meira en það að það væri ekki útilokað. Ég hafði heldur engin vitni. Þess vegna get ég ekkert fullyrt að hinn drykkfelldi nágranni minn eigi sök á því að tvo daga í röð kom ég að bílnum mínum á felgunni. Gatið á öðru dekkinu var þumlungur á breidd með áberandi jafnt og hreint sár en á hinu voru þrjú pínulítil göt sem mörkuðu lítinn þríhyrning á úthlið dekksins. 

Eftir tvær heimsóknir á dekkjaverkstæðið fór ég á lögreglustöðina. Mig langaði til að fá ráðgjöf um það hvað ég gæti gert ef ofsóknir af því tagi sem ég hef týnt fram hér á undan héldu áfram. Lögreglumaðurinn sem ég talaði við var stór og stæðilegur maður. Það var líka greinilegt að hann þekkti viðkomandi og efaðist ekki um orð mín. Ég var líka með bréfin. Hann gat í rauninni lítið ráðlagt mér umfram það sem ég vissi en hann sagði mér þó að ef hann byggi við þetta myndi hann berja manninn... Ég skil hann vel en það er hvorki líklegt að ég ráðist í það að berja nágranna minn né að það myndi leysa neinn vanda. Líklegra að ég yrði undir í slíkri viðureign þar sem ég er lítil og létt og hann stór og sterklegur. Stóri lögreglumaðurinn gæti eflaust ógnað honum með stærð sinni einni saman og stundum vildi ég að ég gæti kallað á hann í það verk.

Ég get ekki dæmt um það hvað aðrir lesa út úr þessari sögu en ég er ekki vön að standa í útistöðum við fólk. En kannski finnst einhverjum að ég geri blessuðum manninum óþolandi óleik með því að segja þessa sögu hér. Ég vona þó að þeir verði fleiri sem átti sig á að með henni er ég að segja dæmisögu af óþolandi ástandi sem verður að fá heillavænlegan endi. Ég veit að drykkjumaðurinn í kjallaranum er manneskja eins og ég. Hins vegar fer drykkjuframkoma hans illa saman með hvers konar sambýli. Þess vegna þarf að finna honum annað búsetuúrræði. Eða liggur það ekki í augum uppi? Lögin vernda hins vegar búseturétt hans en ekki rétt þeirra sem hafa orðið fyrir óþægindum og tjóni af hans völdum. Ekkert af ofantöldu er ólöglegt nema að valda skemmdum á eignum annarra en þá þarf vitni til að sanna að hann hafi valdið tjóninu. Bæti hann eða leigusali hans fyrir tjónið telst málið hins vegar leyst.

Í leit að innri styrkMaðurinn á neðri hæðinni hefur valdið mér ónæði, óþægindum og sennilega líka fjárhagslegu tjóni. Ég óttast að samskiptum okkar sé ekki lokið. Það vildi nefnilega svo furðulega til að þegar ég var langt komin með þessi skrif þá hringdi aðalpersóna þessarar sögu og hann hringdi nokkrum sinnum áður en mér tókst að fá hann til að hætta. Hann heldur að ástæðan fyrir því að undan honum hefur verið kvartað við fulltrúa leigusalans hans sé persónuleg óvild mín.

Hann hótar mér enn með mönnum sem hann segir færustu lögfræðinga landsins. Hann rifjar upp allt sem hann telur sig hafa þurft að þola af minni hálfu og telur sig vera í fullum rétti til að drekka í sinni leiguíbúð. Mér komi það andskotann ekkert við... og minnir mig á að hann eigi það til að missa stjórn á sér ef hann sé beittur miklum og berum órétti.

Kannski verður bílinn minn á felgunni þegar ég á að mæta í vinnuna í fyrramálið en það verður bara að koma í ljós...

Þessi saga er orðin alltof löng en ef þú hefur lesið hana alla leið hingað þá reikna ég með að það sé vegna þess að þú ert annaðhvort sammála mér í því að þetta er óþolandi að búa við eða þá að þú ert að bíða eftir að ég komi henni í það samhengi sem ég sagði að ég vildi setja hana í.

Ég bý núna við drykkjumann í kjallaranum, sem ég skal alveg viðurkenna að ég er stundum hrædd við, en ég er tilneydd til að gera eitthvað í málinu. Ég get ekki vikist undan því þó ég fegin vildi þar sem ég sé um hússjóð stigagangsins. Það skiptir auðvitað ekki máli í því samhengi að ég er eingöngu með hann af því að enginn annar vill taka hann að sér. Ég lít hlutverk mitt í því að mótmæla ranglætinu sem viðgengst í þjóðfélaginu nú um þessar mundir að sumu leyti sömu augum. Ég get ekki vikist undan þeirri ábyrgð að andmæla því. Það er skylda mín sem þegn þessa lands.

Ég bý við ríkisstjórn sem ætlar að verja peningasukk örfárra peninga- og valdafíkla (mér skilst reyndar að sumir þeirra stríði við mun alvarlegri fíknir en hef engar haldbærar sannanir fyrir því). Ráðherrar undanfarandi - og núverandi ríkisstjórnar hafa hyglað þessum mönnum, mært þá og mulið undir þá. Gullkálfarnir launuðu ofdekrið með svívirðilegri ósvífni. Stungu af með peningakassana í gegnum flókið net gervifyrirtækja og skiptu um ríkisfang. Þeir voru svo klókir í að tryggja sér molana, sem var mulið undir þá, að þeir flæktu ráðherra og fleiri ábyrgðarmenn íslensks valdakerfis svo tryggilega í kóngulóarvef sínum að þeir sitja þar fastir.

Þeir sitja eftir í vef lyga, græðgi, svika og spillingar og þora sig hvergi að hreyfa nema gegn almenningi. Þeir beina öllu sínu þreki í að sannfæra hann um að allt sem þeir gerðu og gera sé löglegt og gott. Enginn hafi brotið nein lög og ef einhver gerði það er almenningur líka sekur um álíka glæpi og þeir og dekurbörnin þeirra. Minnir mig býsna mikið á röksemdafærslur og réttlætingar drykkjumannsins á neðri hæðinni sem eiga að skýra og útiloka ástæðurnar sem við nágrannar hans teljum okkur hafa fyrir því að kvarta undan nábýlinu við hann.

Þeir sem bera raunverulega ábyrgð á alvarleika efnahagsástandsins eru varðir með undarlegum vísunum til einhvers sem er kallað bankaleynd en almenningur á að fylla ríkiskassann aftur. Mér sýnist markmið þeirra vera svipað og alkóhólistans í kjallaranum. Þeir vilja halda í íverustaði sína sama hvaða ónæði og óþægindum það veldur öðrum. Þeir krefjast þess að fá frið til að halda sukkinu áfram óáreittir. Partýlætin voru reyndar búin að skella á mér áður en úr hófi keyrði. Jafnvel þá var hávaðinn svo mikill að ég upplifði þau sem óþolandi áreiti. Þá hét uppáhaldslagið þeirra ekki Bankaleynd eða Alheimskreppa heldur Góðæri. Það lét jafnpirrandi í mínum eyrum eins og þessi nýju. Þau hljóma bæði líkt og einhver stígi á þungum skóm á skottið á einhverju kattardýri með skerandi hljóðum.

Ég valdi ekki þessa ríkisstjórn frekar en nágranna minn. Þolinmæði mín hefði þó e.t.v. dugað eitthvað áfram ef skellirnir og dynkirnir, sem sukkið á henni hafa framkallað, væru ekki orðnir jafnærandi og raun ber vitni. Hversdagslegu rólyndi mínu og jafnaðargeði hefur margsinnis verið ofboðið. Það hefur orðið fyrir ítrekuðu ónæði og óþægindum af hátterni þeirra sem hafa verið handhafar íslenskra stjórnvalda á undanförnum einum til tveimur áratugum. Þeir hafa misboðið lýðræðishugmyndum mínum og réttlætiskennd hvað eftir annað. Mér fannst ég m.a.s. allan tímann þola fjárhagslegt tjón af þessu sambýli en þó aldrei eins og nú þegar vöruverð, vextir og opinber gjöld stefna upp í himinhæðir.

Nú er mér hins vegar nóg boðið! Ég vil láta mér líða vel heima hjá mér. Ég vil láta mér líða vel í landinum mínu. Ég vil ekki vera hrædd og full af kvíða. Ég vil ekki þurfa að skammast mín fyrir það að ég sé orðin svo samdauna áníðslunni að ég láti bjóða mér upp á hvað sem er! Þess vegna ætla ég að standa með sjálfri mér og mótmæla og krefjast breytinga á núverandi fyrirkomulagi. Ég vil ekki þurfa að búa við ónæði, óþægindi og fjárhagslegt tjón af völdum sjúkra einstaklinga. Ég vil vísa þeim, sem hafa búið mér þannig veröld, úr þægindum sínum og yfir í önnur þar sem þeir geta ekki valdið mér meiri skaða. Skiptir ekki máli hvort það er drykkjumaður sem býr í kjallaranum eða stjórnmálamenn sem búa í kóngulóarvefjum fílabeinsturna. 

(Ég vona að þú hafir fundið samhengið þó ég hafi ekki alls staðar dregið það fram. Fannst þetta vera orðið alltof langt til að lengja þetta enn frekar. En að lokum langar mig til að ítreka það: Að ef einhver áttar sig á því hver maðurinn í sögunni er að sýna honum þá tillitssemi að nafngreina hann ekki. Tilgangurinn með því að segja þessa sögu er alls ekki sá að benda á persónu hans. Ég veit að það eru miklu fleiri sem verða fyrir svipuðu ónæði af nágrönnum sem svipað er ástatt um.

Tilgangurinn með að segja þessa sögu er að draga upp mynd af ólíðandi ónæði sem maður neyðist til að bregðast við þó afleiðingarnar af því kunni að virðast ógnvænlegri en ónæðið sjálft um stund... Ég vona að allir sem lesa þetta átti sig á því. Þeir sem hafa búið við eitthvað svipað ættu að átta sig á líkingunni.)


Að beina vandlætingunni og reiðinni í réttan farveg

Stjórnvöld óskastÉg var í höfuðborginni um áramótin og þess vegna fékk ég tækifæri til að taka þátt í mótmælunum á gamlársdag. Ég er alltof mikil gunga til að ég legði í að vera þar sem þungi þeirra var mestur þannig að ég sá það ekki með eigin augum hvað varð til þess að lögreglan sprautaði piparúða yfir þá sem höfðu sig mest í frammi. Það sem ég frétti hins vegar jafnóðum af atburðarrásinni hef ég fengið meira og minna staðfest síðastliðna daga í frásögnum, á myndum og upptökum af vettvangi.

Eins og ég sagði frá hér þá var mér töluvert brugðið þegar ég sá hvað piparúðinn gerir þeim sem verða fyrir honum. Ég hef heyrt misjafnar sögur af mótmælunum en ekkert séð enn sem réttlætir notkun ertandi og étandi efnis í andlit og augu mótmælenda á gamlársdag. Mannfjöldi sem gerir hávaða er ekki hættulegur þó hann sé að sjálfsögðu pirrandi og ærandi. Lögreglan á hins vegar að hafa hlotið kennslu og þjálfun í að missa sig ekki við slíkar aðstæður.

Það að höfuðborgarlögreglan upplifi mótmælendur sem hættulegan óaldarlýð sem þarf að gera óvígan með vafasömum sjálfsvarnarbúnaði, sem mér sýnist réttlætanlegt að telja til efnavopna, þykir mér ákaflega dapurlegt svo ekki sé meira sagt! Mér var brugðið á gamlársdag að verða vitni að aðgerðum og öfgakenndum viðbúnaði lögreglunnar við Hótel Borg en ég geri mér grein fyrir því að þeir voru alls ekki þarna af eigin frumkvæði heldur voru þeir að hlýða yfirboðurum sínum. 

Ég hef heyrt að sumir í lögregluliði Reykjavíkur hafi látið það í ljós að þeim er það þvert um geð að vera att gegn mótmælendum enda standa þeir flestir frammi fyrir sömu ógn og verið er að mótmæla. Það gera líka sennilega langflestir sjálfskipaðir verðir ríkisstjórnarinnar sem finna sig knúna til að ráðast gegn mótmælendum í orði og jafnvel gjörðum. Ég er reyndar svo gáttuð á því sem sumir hafa látið út úr sér um mótmælin að undanförnu og þá sem taka þátt í þeim að mig skortir orð til að lýsa furðu minni... Mín helsta skýring á slíkum viðbrögðum er óttinn við að henda því sem maður þekkir fyrir eitthvað nýtt og óþekkt.

Ég hef tekið þátt í flestum mótmælagöngunum hér á Akureyri, mætt á þrjá borgarafundi en auk þess verið viðstödd einn mótmælafund á Austurvelli auk mótmælanna við hótel Borg síðastliðinn gamlársdag. Ég hef aldrei verið jafndugleg við að fylgjast með fréttum af íslensku efnahagslífi, kynna mér mál sem tengjast þeim og lesa þau ofan í kjölin eins og þrjá síðastliðna mánuði. Sá miðill sem hefur reynst mér einna bestur í þeirri viðleitni að halda mér upplýstri og til að kynna mér þessi mál rækilega er bloggið hennar Láru Hönnu Einarsdóttur.

Óttinn við nýjungarÉg geri þetta ekki mér til skemmtunar og viðurkenni að þetta tekur af tíma mínum sem ég gæti og langar stundum til að verja í annað. Ástæðan fyrir því að mér finnst ég tilneydd til að fylgjast betur með því sem er að gerast en hingað til og taka auk þess þátt er sú að ég hef horfst í augu við óréttlætið sem viðgengst í íslensku samfélagi. Ein birtingarmynd þess er sú afbökun og skrumskæling sem fréttir af mótmælaaðgerðum síðastliðna mánuði hafa gjarnan verið. Eina ástæðan fyrir slíku virðist vera sú að gera þá, sem ekki hafa látið til skarar skríða og mótmælt, hrædda við að slást í hópinn.

Það er a.m.k. ljóst að þeir eru þó nokkrir, sem aldrei hafa mætt á mótmæli, sem telja sig þó hafa ástæðu til að fyllast heilagri vandlætingu í garð mótmæla sem hafa það skýra markmið að krefjast þess að þeir sem gerðu sig seka um spillingu og leiddu það alvarlega efnahagshrun, sem við erum að upplifa, sæti ábyrgð. Við viljum ekki að íslenskur almenningur þurfi að líða fyrir það. Við viljum ekki sætta okkur við að spillingin viðgangist áfram. Við viljum ekki að þeir sem komu þjóðinni í þær hörmungar sem hún stendur frammi fyrir rannsaki sig sjálfir og komist upp með öll þau svik sem allir ættu að vita að hafa viðgengist hingað til.

Það þykir sennilega öllum fáránlegt ef innbrotsþjófurinn fengi umboð til að rannsaka eigið innbrot sjálfur, bróðir hans væri skipaður honum til varnar, frændur hans og venslamenn væru einu vitnin í málinu og dómarinn væri klíkubróðir hans. Það er þó það sem við erum að leggja blessun okkar yfir ef við þegjum. Það er slíkt réttlæti og vinnubrögð sem þeir, sem eru með með skítkast í garð hvers kyns mótmælaaðgerða, eru meðvitað eða ómeðvitað að verja.

Undanfarna daga hef ég furðað mig mjög á hinni heilögu vandlætingu sem kemur fram í orðum margra þeirra sem hafa gagnrýnt mótmælendur. Þessi heilaga vandlæting hefur m.a.s. komið fram í því að sumir taka allt hrátt eftir hverjum sem er og fetta fingur út í hvað eina sem viðkemur öllum mótmælum af hvaða tagi sem þau eru. Þetta hefur vakið mér vangaveltur og ég hef látið mér detta í hug að margir þeirra sem hafa beint reiði sinni gegn mótmælunum sjálfum séu hreinlega svo ráðalausir að þeir viti ekki hvert þeir eigi að beina reiði sinni. Það er a.m.k. engin spurning í mínum huga að þeir sem mótmæla hafa fulla ástæðu til þess og ég vona að enginn þeirra sem hefur tekið þátt hingað til láti deigan síga þrátt fyrir beinar hótanir einstakra vandlætingarpostula.

Í þessu sambandi langar mig til að minna á að þeir sem hafa barist fyrir réttlæti í gegnum aldirnar hafa gjarnan mætt heilagri reiði og fyrirlitningu en það hefur alls ekki dugað til kæfingar réttlætisraddanna. Konan sem varð fyrst til að krefjast kosningaréttar kvenna var tekin úr umferð og lokuð inni á geðveikrarhæli. Verkamaðurinn sem örkumlaðist í vinnuslysi og krafðist ábyrgðar atvinnurekenda síns, þar sem starfsöryggi og aðbúnaði var verulega ábótavant í verksmiðjunni hans, var algjörlega hundsaður. Bandaríska blökkukonan sem settist í sæti hvítra í langferðarbílnum, sem hún þurfti að ferðast með, mætti bæði aðdáun og fyrirlitningu.  Mandela sat árum saman í fangelsi fyrir skoðanir sínar og andóf gegn hvíta meirihlutanum í landi hans.

Það getur verið að einhverjum finnist of langt seilst í viðleitinni til að benda á að það að mótmæla því óréttlæti, sem viðgengst á Íslandi í dag, á fullan rétt á sér. Sá tilgangur að benda á að heilög vandlæting og fyrirlitning þarf alls ekki að þýða það að mótmælendur hafi rangt við ætti þó ekki að fara fram hjá neinum. Það kómískasta sem ég heyrði til lögreglunnar á gamlársdag var það þegar einn þeirra hrópaði að mótmælin væru ólögleg. Ég hef aldrei áður heyrt að það væri ólöglegt á Íslandi að hafa skoðun og koma henni á framfæri!

Við sem mótmælum höfum reynt með friðsömum hætti að koma skoðunum okkar á framfæri við stjórnvöld en fulltrúar þeirra neita að hlusta. Bæði leikir og lærðir, innlendir og erlendir hafa rökstutt skoðanir okkar með skrifum sínum og munnlegum flutningi í fjölmiðlum en allar skoðanir sem benda á vanhæfni stjórnvalda eru hundsaðar.

Dæmin sem ég gæti týnt til í þessu sambandi eru því miður mýmörg. Því læt ég nægja að benda á eitt nýjasta dæmið sem ég rakst á, á mbl.is, en það er í viðtali við Sigmund Davíð Gunnlaugsson skipulagshagfræðing.  Hann bendir á að kærufresturinn gegn Bretum vegna beitingar hryðjuverkalaganna rennur út n.k. miðvikudag. En litlar sem engar blikur eru á lofti um að reynt verði á réttmæti þeirrar beitingar fyrir dómstólum þar sem útlit er fyrir að „íslensk stjórnvöld láti tækifærið til málshöfðunar gegn breska ríkinu sér úr greipum ganga“.

ÓttaleysiÍ raun er okkur nauðugur sá eini kostur að mót- mæla. Það eru í raun fulltrúar núverandi ríkisstjórnar sem reka okkur út í mótmæla- aðgerðir með því að hunsa allar gagnrýnisraddir!

Ég mótmæli því sama og ég hef mótmælt hingað til og krefst virks lýðræðis fyrir alla íslensku þjóðina. Ég er tilbúin til að kveðja gamlar og úreltar aðferðir sem ala á dýrkun auðvaldsins og ójöfnuðinum sem verður til þess vegna. Ég get líka boðið  framtíðina hlaðna nýjum og réttlárari viðhorfum og viðmiðum velkomna fullkomlega óttalaust!

Kannski stafar óttaleysi mitt af því að ég hef lært að beina vandlætingu minni og reiði í réttan farveg...


Áframhaldandi borgarafundir á Akueyri

Hér á Akureyri hafa verið haldnir nokkrir borgarafundir í kjölfar hrunsins sl. haust. Þar hefur áherslan einkum legið á þeirri framtíð sem fólk vill byggja upp og stefna að. Helsti hvatamaður þessara funda er George Hollander. Nú í byrjun árs hefur hann blásið til nýrrar fundaherferðar með eftirfarandi orðum: „Byrjum nýja árið með því að hittast, ræða stöðuna og móta framkvæmdaáætlun fyrir næstu misseri.“

Þessi fyrsti borgarafundur ársins verður haldinn n.k. miðvikudagskvöld (7. janúar) í Rósenborg (gamla Barnaskólahúsinu hér á Akureyri) og hefst kl. 20:00. Það er gert ráð fyrir að honum ljúki um kl. 22:00. Það skal tekið fram að fundirnir eru haldnir í fundarsalnum á efstu hæð hússins.

George Hollander, sem hefur verið ötulasti skipuleggjandi borgarafundanna hérna fyrir norðan, segir m.a. í stuttu fréttabréfi sem fylgir tilkynningunni um fundinn: Fyrir áramót hefur fámennur kjarni staðið að því að skipuleggja starfsemi Byltingar fíflanna. Núna er tækifæri fyrir alla, sem hafa áhuga á að vera virkir á þeim vettvangi, að mæta á þennan fyrsta fund nýs árs og koma með tillögur um framhaldið. Eftirfarandi er svo haft beint eftir bréfinu hans:

Eigum við að hafa fleiri borgarafundi? (ef svo um hvað?) Á að stefna á fleiri vinnuhópa? Aðra en þann sem snýr að atvinnu- og handverksmenningu? Á að leita eftir samstarfi við Akureyrarakademíuna eða Háskólann á Akureyri um að setja á laggirnar umræðuhóp um nýja framtíð þar sem fræðimenn, sérfræðingar og leikmenn hittast reglulega og fara að vinna að lausnum og nýrri sýn?

Til að Bylting fíflanna geti þjónað hlutverki sínu verður félagið að vera málsvari og vettvangur fyrir virkan hóp af fólki en ekki átak örfárra áhugasamra einstaklinga. Ég hvet þess vegna alla til að taka þátt og mæta n.k. miðvikudag. Ef einhverjir áhugasamir komast ekki n.k. miðvikudagskvöld má líka senda mér tölvupóst á (netfangið stubbur@est.is) með tillögur sem fundurinn getur tekið fyrir.

Í lok bréfsins hvetur George Hollander svo alla til að láta boðin um þennan fund ganga áfram, sérstaklega til þeirra sem hafa áhuga á að vera „virkir í endurreisn samfélagsins“.

Í lokin langar mig líka til að vekja athygli  á því að ég hef frétt að fyrsti borgarafundur nýs árs í Reykjavík verði mánudagskvöldið 12. janúar kl. 20:00. Efni hans er Buiterskýrslan skv. því sem má lesa hér hjá Heiðu B. Heiðarsdóttur. Hvet ykkur til að lesa allan pistilinn hennar sem ég vísa á!


Mótmælin á Akureyri

Björn ÞorlákssonHann var ekki stór hópurinn sem mótmælti á Akureyri. Miðað við úrtöluraddirnar og aðra mótbyrji þá ber sennilega fyrst og fremst að fagna því að réttlætiskenndin skuli samt sem áður reka fólk áfram til að mótmæla ranglætinu sem hér hefur viðgegnist og ríkisstjórninni finnst eðlilegt að verja.

Mig langar til að vekja athygli á því að lögreglan hér á Akureyri hefur frá fyrstu mótmælagöngunni greitt þannig fyrir göngu mótmælenda að tveir lögregluþjónar stöðva umferð upp og niður Kaupangsstræti þannig að göngumenn komist klakklaust yfir gatnamótin sem leiða inn í göngugötuna. Mér þykir alltaf vænna og vænna um þetta. Þetta finnst mér skapa ákveðna samkennd enda standa þeir sem eru í lögreglunni frammi fyrir sama vanda og aðrir landsmenn.

Þegar við komum inn á Ráðhústorg þjappaði Björn Þorláksson okkur saman og flutti stutta hugvakningarræðu. Þar lagði hann út af orðum úr Sjálfstæðu fólki og hvatti okkur til að velta því fyrir okkur hverjum og hvaða hagsmunum við viljum þjóna. Á eftir mynduðu viðstaddir hring og tókust í hendur og hugleiddu í 10 mínútna þögn.
SamstöðuhringurViðbót: Vitnað er í ræðu Björns Þorlákssonar hér.


mbl.is Mótmælt á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það verður líka mótmælt á Akureyri á morgun

Að venju verður safnast saman við Samkomuhúsið og gengið þaðan inn á Ráðhústorg. Í tilkynningu frá Guðrúnu Þórs ítrekar hún að það sé greinilegt að það sé „full ástæða til“ að halda mótmælunum áfram. Ég tek undir það með henni.

Ég var í Reykjavík yfir áramótin og tók m.a. þátt í mótmælaaðgerðunum á Austurvelli. Ég er enn svolítið sjokkeruð eftir að ég sá fólkið sem var úðað. Ég varð aldrei vitni af því ofbeldi sem réttlætir slíkar ofbeldisaðgerðir lögreglu. Eftir að ég kom heim þá er ég búin að skoða á vefnum myndbönd og myndir sem voru tekin á vettvangi. Ég hef líka lesið frásagnir Birgittu Jónsdóttur, Heiðu B. Heiðarsdóttir og Helga Jóhanns Haukssonar sem voru miklu nær þungamiðju mótmælanna en ég.

Þetta rennir allt stoðum undir mína upplifun af því sem þarna átti sér stað. Það er sorglegt að sjá að ríkisstjórnin sem við viljum að viðurkenni mistök sín í efnahagsstjórn landsins skuli ofbeldisvæða lögregluna gegn þeim sem hafa kjark og þor til að reyna koma skoðunum sínum á framfæri við hana. Ég ætla að enda þessa færslu á nokkrum myndum sem ég tók upp við sjúkrabílana þennan dag.

Ég er samt hrædd um að þær nái ekki að skila því tilfinningalega áfalli sem ég varð fyrir af því að horfa upp á venjulega borgara sárkvalda. Mér finnst sorglegast að vita að þeir voru  sprautaðir af lögreglumönnum sem finnst háreysti og mannfjöldi réttlæta notkun stórhættulegra efna!
Venjulegir borgarar úðaðir 

Sviðinn af úðanum er greinilega rosalegur!

Kvalinn eftir úðann

Í raun verð ég svo sorgmædd og reið þegar ég fer í gegnum þessar myndir aftur að ég treysti mér ekki til að skrifa meira. Langar samt til að koma því áleiðis hvað ég finn mikið til með þeim sem þurfa að líða líkaamlegar þjáningar ofan á þær andlegu. Fyrir mér var það meira en nóg að horfa upp á andlegt- og efnahagslegt ofbeldi. Ég hélt ró minni samt en nú hef ég orðið vitni af líkamlegu ofbeldi sem er beitt til að verja þá sem eru sekir um að stefna andlegu og efnahagslegur öryggi mínu, og a.m.k. einhvers hluta þjóðarinnar..., í voða! Skilja ráðamenn ekki að ofbeldi kallar á ofbeldi? Eru þeir að biðja um slíkt? Viðbúnaðurinn benti a.m.k. til þess að þeir bjuggust við miklu meiru en raunin varð...
Viðbúnaður á við mörg þúsund manna ofbeldisfull mótmæliAð mínu viti misreikna þeir þolinmæði og þolgæði mótmælenda. Við erum í þessari baráttu til að sigra hana. Við vitum að þolinmæði og þolgæði er allt sem þarf! Ofbeldi er baráttutæki hinna hræddu og mér sýnist það sannast á því sem ég varð vitni að þennan dag! Þeir sem kynna sér atburðarrás hans sjá það jafnvel og ég að það var lögreglan sem átti upptökin og ég reikna með að yfirboðari þeirra hafi gefið út leyfi fyrir því!


mbl.is Mótmælt á Austurvelli á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband