Við erum réttlætissinnar sem krefjumst ábyrgðar

Mótmælin á Akureyri í dag voru þau næststærstu frá upphafi. Fréttin á mbl.is segir samt að aðeins um 200 manns hafi mótmælt að þessu sinni. Þó ég sé sjálf orðin frekar þreytt á þessari talnaumræðu þá er hún sennilega nauðsynleg í ljósi þeirrar meðvituðu eða ómeðvituðu úrtöluáráttu sem kemur fram í talnafræði margra þeirra sem hafa fjallað um mótmælin að undanförnu. Ég ætla þess vegna að benda á að það er miklu nær að áætla að við höfum verið um 500.
Mótmælaganga á Akureyri 10.01.09 Þessi mynd sýnir hluta hópsins sem tók þátt í göngunni í dag en ég tók hana þegar u.þ.b. helmingur göngunnar var farinn hjá. Á leiðinni bætast svo alltaf einhverjir við sem annaðhvort eru eitthvað seinir fyrir, eins og ég í dag, eða treysta sér ekki til að ganga alla leiðina. Ég leyfi mér þess vegna að skjóta á að fjöldinn hafi verið a.m.k. 500.

Það var líka ánægjulegt að sjá hve margir nýir létu sjá sig á mótmælunum í dag. Mig langar til að benda ykkur á blogg Viðis Benediktssonar en þar er mjög skemmtileg mynd frá mótmælafundinum sem sýnir bæjarfulltrúa, yfirlýstan kommúnista og lögreglumann. Myndin ætti að gefa hugmynd um það hve mótmælendur eru fjölbreyttur hópur.

Annað sem vakti sérstaka athygli mína við mótmælin í dag er að nú voru miklu fleiri kröfuspjöld á lofti! Það var greinilegt að kröfuspjaldahópurinn, sem var skipaður á samráðsfundi Byltingar fíflanna fyrr í þessari viku, hefur staðið sig frábærlega. Hins vegar sásust fánar samtakanna hvergi sem getur stafað að því að einhver hefur tekið mark á því að fáninn þykir of rauður! Já, þau eru ótrúleg smáatriðin sem úrtöluraddirnar nenna að tuða yfir en kannski enn sorglegra að svona mjálm skuli hafa slík áhrif. Mótmælafundurinn á Akureyri í dag Á mótmælafundinum hélt Rósa Eggertsdóttir, sérfræðingur á skólaþróunarsviði, flotta ræðu þar sem hún kom að mörgum þeirra atriða sem hafa verið svo áberandi í umræðu okkar mótmælenda undanfarnar vikur en sagan hennar af gömlu konunni sem var flutt hreppaflutningum á milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar einhvern tímann á 19. öldinni, minnir mig, varð mér samt eftirminnilegust.

Þessi saga var hrópleg dæmisaga af hinum heimskulega og miskunnarlausa niðurskurði sem þjóðin stendur nú frammi fyrir af hálfu Heilbrigðisráðuneytisins. Gamla konan, sem Rósa tók dæmi af, var lömuð á höndum og fótum. Það þurfti því átta menn til að flytja hana á milli Saurbæjarhrepps í Eyjafjarði og Lýtingsstaðarhrepps í Skagafirði yfir hæsta fjall á Norðulandi. Ferðin tók þrjá daga en skömmu eftir þennan háskalega, mannfreka og dýra flutning lést gamla konan sem hét Karólína Guðmundsdóttir.

Edward H. Huijbens, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála, ávarpaði síðan viðstadda. Hann minnti á að mótmælin snúast ekki um það að skapa sundrungu heldur samstöðu um uppbyggingu betra samfélags. Hann benti líka á það að mótmælendur eru réttlætissinnar sem krefðjast þess að íslensk stjórnvöld taki ábyrgð. Ávarp hans var stutt, kraftmikið og snerist um kjarna málsins enda fengu orð hans góð viðbrögð allra viðstaddra.

Eftir þetta kraftmikla ávarp tókust viðstaddir í hendur og mynduðu þögulan hring á meðan þeir hugleiddu réttlæti. Ég bað alheiminn að hlusta á raddir okkar réttlætissinnanna sem krefjast ábyrgðar og sanngirni á öllum sviðum. Síðastliðinn laugardag mynduðum við líka slíkan hring en sá hringur var ekki eins stór og sá sem við mynduðum í dag. Síðastliðinn laugardag þurftum við að teygja á handleggunum til að ná utan um Ráðhústorgið. Í dag var hringurinn ekki aðeins stærri heldur miklu þéttari.
Við biðjum um réttlæti Þessa mynd tók ég af hugleiðsluhringnum sem mótmælendur á Akureyri mynduðu í dag.
Hugleiðsluhringur 3. jan. 2009Þessa um síðustu helgi. Ég veit ekki hvort þær sýni öllum það sem ég sé. Við vorum fleiri. Mynduðum stærri hring og stóðum þéttar saman. Síðastliðinn laugardag vorum við svo fá að við gátum myndað þéttan hring utan um Björn Þorláksson til að heyra ræðu hans. Í dag hefði þurft almennilegt hljóðkerfi til að ræðurnar skiluðu sér almennilega til allra áheyrenda. Ræðumenn dagsins notuðu gjallarhorn. Ég er ekki viss um að það hafi dugað til að málfutningur þeirra hafi skilað sér til þeirra sem stóðu aftast. Mér sýnist þess vegna að það að halda því fram að að þátttakendur á mótmælunum á Akureyri í dag hafi verið um tvö hundruð sé ekkert annað en úrtölur.

Mótmælin á Austurvelli hafa orðið fyrir áþekkri úrtöluárás en í umfjöllunum um þau er ég búin að rekast á tölurnar frá 1500 til 5000 manns. Ég er hins vegar ekki búin að rekast á neitt í fréttum um það sem mér finnst miklu athyglisverðara. En það er að mótmælin gegn ábyrgðarleysi og getuleysi ríkisstjórnarinnar eru að vaxa umtalsvert á landsvísu.

Mótmælin hér á Akureyri voru þau næst stærstu frá upphafi eins og ég gat um í upphafi. Þátttakendur í mótmælunum á Ísafirði eru sagðir hafa verið tæplega 200 og er það umtalsverð fjölgun frá síðustu helgi. Takið eftir því að þó við gerum ráð fyrir að tala mótmælenda þar hafi verið eitthvað hærri en 200 þá er hún mjög hátt hlutfall íbúa á Ísafirði! Af hverju er ekki vakin meiri athygli á því hve mótmælin fyrir vestan eru hlutfallslega stór. Þau stærstu á landinu geri ég ráð fyrir. Ísfirðingar ættu að fá orðu fyrir sitt framlag til mótmælanna!

Þrátt fyrir að mótmælin í Reykjavík hafi ekki verið að þeirri stærðargráðu sem margir vonuðu þá er ástæða til að gleðjast yfir því hvað mótmælin eru að stækka á landsvísu. Í því sambandi vil ég benda á fréttir af mótmælum í Hafnarfirði. Þar tóku mjög margir þátt í borgarafundi nú í dag til að mótmæla lokun St. Jósefsspítala.

Auk þessa hefur Starfsmannafélag Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi sent frá sér yfirlýsingu þar sem stórkostlegum niðurskurði í heilbrigðisþjónustunni er mótmælt. Bæjarráð Fjallabyggðar (Siglufjörður/Ólafsfjörður) hefur sent frá sér yfirlýsingu um vanþóknun á niðurskurðinum. Þannig má eflaust lengi telja. 

Það eru sennilega einhverjir sem finnst það ekki mikil nákvæmni að bendla mótmælin í Hafnarfirði og framantaldar yfirlýsingar við mótmælin gegn aðgerðum og/eða aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í heild. En mér sýnist það sanngjarnt að telja þetta með því sannarlega er boðaður niðurskurður í heilbrigðiskerfinu viðbrögð við efnahagshruninu sem við mótmælum að þjóðin þurfi að bera á meðan þeir sem ullu því sleppa undan sinni ábyrgð. Við mótmælum því öll að efnahagshruninu sé mætt með niðurskurði í þjónustu við aldraða og sjúka í landinu. Þannig mótmælum við óréttlætinu saman sem er aðalatriðið!

Ef allt er talið þá ætti að vea ljóst að mótmælin hafa stækkað umtalsvert! Fögnum því og látum ekki úrtöluraddirnar slá á gleði okkar yfir því.
mbl.is 200 mótmæltu á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlynur Hallsson

Takk fyrir þetta Rakel. Þú ert dugnaðarforkur. Flottar myndir og yfirferð.

Bestu baráttukveðjur

Hlynur Hallsson, 10.1.2009 kl. 21:29

2 Smámynd: Víðir Benediktsson

Skemtileg færsla og myndir.

Víðir Benediktsson, 10.1.2009 kl. 22:52

3 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Mér sýnist sömuleiðis að mótmælendur hafi verið fleiri en 200.

Sigurjón Þórðarson, 11.1.2009 kl. 00:09

4 Smámynd: Hallmundur Kristinsson

Því miður sýnist mér myndir sem Hugi Hlynsson tók af hugleiðsluhringnum benda til þess að fjöldinn hafi verið mikið yfir tvö hundruð. Það er ekkert mjög stór hluti bæjarbúa og því fyllilega ástæða til að gaumgæfa bloggfærslu Láru Hönnu: http://larahanna.blog.is/blog/larahanna/entry/767334/

Hallmundur Kristinsson, 11.1.2009 kl. 01:08

5 Smámynd: Hallmundur Kristinsson

....hafi ekki verið mikið yfir tvö hundruð átti að standa.....

Hallmundur Kristinsson, 11.1.2009 kl. 01:11

7 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þakka ykkur öllum fyrir innlitið Mér finnst myndin af þremenningunum inni á síðunni hans Víðis toppa allar mínar myndir. Alla vega hvað skemmtanagildi varðar!

Ég ætla ekkert að tala meira um tölur í bili. Langar þó til að ítreka að eftir þessa helgi er meiri ástæða til fagna þeirri staðreynd að mótmælin eru farin að berast víðar að af landinu.

Ég var búin að sjá hvatningarseiðinn hennar Láru Hönnu. Hann er magnaður og það er full ástæða til að vekja athygli á honum sem víðast. Hvar-þáttur hans ætti að kirja síðustu dagana fyrir hver mótmæli þangað til hver einn og einasti Íslendingur vaknar til verka.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 11.1.2009 kl. 01:41

8 Smámynd: Sóley Björk Stefánsdóttir

Sæl, mig langaði bara að nefna það að tveir þátttakendur sem ég veit til töldu fólið í hringnum og báðir töldu 170-180 manns. Þessi tala, 200 kemur frá mótmælendum sjálfum. Það er ekkert fallegra að ýkja í aðra áttina en hina :)

Sóley Björk Stefánsdóttir, 12.1.2009 kl. 14:06

9 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þá er það á hreinu. En er það víst að allir þeir sem tóku þátt í göngunni og voru á fundinum hafi tekið þátt í myndun hans? Skiptir kannski ekki höfuðmáli en allt í lagi að taka það til greina að það voru einhverjir sem létu sig hverfa áður en fólk tókst í hendur.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 12.1.2009 kl. 16:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband