Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Undir lok ársins

Þessu merkilega ári er senn að ljúka. Árinu með ártalinu sem er hægt að leggja saman og fá út töluna einn. Árið sem ég heyrði svo oft, svo víða og frá svo mörgum að myndi boða eitthvað sérstakt... man það ekki allt í smáatriðum enda bar ekki öllum saman... 

 

Sumir sögðu að þetta yrði ár uppgjörs og breytinga. Aðrir að þetta yrði uppskeruár þeirra sem höfðu lengi unnið hörðum höndum að því að ljúka stórum verkefnum. Einhverjir sögðu að þetta væri árið sem markaði upphafið á einhverju mikilvægu og nýju. Völva Vikunnar spáði umbrotaári á sviði efnahags- og stjórnmála:

"Það kæmi mér alls ekki á óvart þótt allt springi í loft upp hjá ríkisstjórninni á árinu og boðað verði til nýrra kosninga. Mér sýnis sambræðingur vinstri aflanna verði fyrir valinu„ [...]

Völvan er ekki bjartsýn þegar kemur að efnahagsmálum. Hún segir fjármálakreppu framundan og spáir miklum sveiflum á gengi krónunnar. Völvan segir að óráðlegt sé að taka upp evru en leggur frekar til að á Íslandi verði tekin upp sænsk króna eða kanadískur dollar.

Þá spáir Völvan því að eitt stórt svikamál í fjármálaheiminum komi upp á yfirborðið á árinu [...].

Að lokum má nefna að Völvan spáir því að Ólafur Ragnar muni hætta sem forseti á næsta ári [...] (sjá nánar hér)

 

16. október sl. var þessi spá rifjuð upp í DV og áhersla lögð á að Völvan hafði líka sagt að: „Það mun næða um Seðlabankann. Ég sé stríð milli Davíðs og fjármálamanna. Mér finnst líka hluti ríkisstjórnar blandast í það.“ Sama hverju maður trúir í sambandi við spádóma og annað þvíumlíkt er ljóst að margt af því sem völva Vikunnar sagði fyrir um þetta ár hefur komið fram.

 

VölvaÉg veit að ég á eftir að muna eftir þessu ári. Ég man eftir mánudeginum 29. september þegar matartíminn í vinnunni logaði í umræðunum um hrun Glitnis. Í kjölfarið gerðist eitthvað hjá sjálfri mér sem sér ekki fyrir endann á.

 

Ég hafði sem sagt lengi alið innra með mér sjálfri vonlausa óánægju yfir þeirri stefnu sem hefur verið ofan á í íslensku samfélagi undangengna áratugi. Ég hafði byrgt þessa óánægjurödd inni í búri minnar eigin þagnar því ég fann henni ekki nægilega sterkan samhljóm.

 

Fréttir mánudagsins 29. september kveiktu með mér margar blendnar tilfinningar. Það var þó engin þeirra góð. Raunveruleiki þessara frétta og fréttanna í kjölfarið voru líka verri en það sem ég hafði óttast.

 

Ég hafði óttast að vegurinn sem efnahags- og samfélagsmálin höfðu troðið yrði engum til góðs en ég þorði aldrei að leiða hugann að því að hann myndi beinlínis svipta hóp fólks grundvellinum að mannsæmandi lífi og þjóðina ærunni.

 

Árið varð vissulega viðburðarríkt í heimi íslenskra fjár- og stjórnmála en það sem gerir þetta ár eftirminnilegast í mínum huga er sú samstaða sem atburðir seinni hluta ársins hratt af stað. Það er þess vegna ekki efnahagshrunið í sjálfu sér sem situr efst í huga mínum þegar ég lít yfir árið sem er nú senn á enda heldur þeir kraftar sem það leysti úr læðingi.

 

Það er ljóst að þeir eru miklu fleiri en ég sem hafa byrgt inni óánægju sína yfir því hvert við stefnum. Sumir höfðu vissulega látið í sér heyra. Voru m.a.s. iðnir við að vara við stefnu stjórnvalda á ýmsum sviðum bæði í ræðu og riti og hafa jafnvel mótmælt og þá helst stefnunni í stóriðjumálum þjóðarinnar. Því miður voru þeir fáir sem veittu þessum röddum nokkra athygli en atburðir haustsins hafa leitt stóran hluta þessa hóps til virkrar samstöðu.

 

Sumir hafa lyft grettistaki og leitt borgara- og mótmælafundi viku eftir viku frá miðjum október. Ótrúlega margir hafa birt hug sinn og afstöðu í ræðu á þessum fundum. Þó nokkrir hafa komið fram í fjölmiðlum og sagt hug sinn þar. Það sem vekur auðvitað furðu í þessu sambandi er að flest stendur þetta fólk fyrir utan beina þáttöku í efnahags- og stjórnmálum þjóðarinnar. Þeir sem gegna forystu á þessu sviði þegja hins vegar þunnu hljóði og í versta falli taka þeir þátt í að hylma yfir þá spillingu sem hefur leitt þjóðina út í núverandi þrotabússtöðu.

 

Það má ekki gleyma þeim sem hafa mætt á mótmælenda- og borgarafundi ársins sem er að líða því þessir fundir hefðu aldrei orðið það sem þeir hafa orðið í reynd án þátttökunnar. Við höfum staðið vaktina á ýmsum vígstöðvum en vaka alls þessa hóps leyfir mér að vera bjartsýnni þrátt fyrir allt. Ástæðan er ekki síst sú að ég veit núna að það eru svo miklu fleiri en ég sem láta sér ekki standa á sama.

 

Ég hef heyrt og lesið bergmál minna eigin hugsanna hjá svo mörgum og þess vegna veit ég að ég hef aldrei, er ekki og mun aldrei vera ein um skoðanir mínar um aukin jöfnuð og réttlæti. Í raun erum við svo mörg að ég skil tæpast í því að við skulum búa í samfélagi sem er eins og það sem við lifum í, í dag. En það er önnur saga...

 

Þegar ég horfi yfir atburði ársins 2008 þá er svo margt sem kemur upp í hugann. Það sem stendur þó upp úr er allt það stórkostlega fólk sem ég hef hlustað á og kynnst í gegnum mótmæla- og borgarafundina. Þess vegna kveð ég þetta ár með þakklæti og bjartsýni í huga. Það er enginn tregi þó vissulega sæki að mér nokkur sorg.

 

Tár af himnumSorgin stafar þó ekki af því að þetta ár sé senn á enda heldur því sem það leiddi í ljós. Það eru þó fyrst og fremst aðgerðir og aðgerðarleysi stjórnvalda og forystumanna í þjóðfélaginu sem valda mér hryggð. Ég ætla hins vegar að trúa því að samtakamáttur þjóðarinnar uppfylli spádóm völvu Vikunnar um að ríkisstjórnin fari von bráðar frá. Það gerist tæplega á þessu ári en það gerist vonandi fyrir næsta vor. Sennilega taka þau fleiri spillingarefi með sér í fallinu.

 

Ég ætla ekki að draga úr því að blikurnar sem liggja í loftinu við lok þessa árs eru ákaflega svartar og drungalegar en ég vil ekki leyfa mér að láta þær draga úr mér kjarkinn. Sannleikurinn er nefnilega sá að ég hef fundið til endurnýjaðs kjarks í gegnum þá mótmælendur sem ég hef kynnst bæði á fundum ársins og hér á blogginu. Allar þær mótmælahetjur sem ég hef borið gæfu til að kynnast á síðustu mánuðum þessa árs fylla mig hetjulund og endurnýjaðri von.

 

Þess vegna ætla ég að vera bjartsýn fyrir næsta ár. Þó ég treysti mér ekki til að spá fyrir um atburði þess þá tel ég að við munum halda áfram að mótmæla. Við megum ekki gefast upp. Við verðum að halda áfram ef við ætlum að eiga einhverja von um sanngirni og breytingar. Ég hef kynnst þolgóðum mótmælendum sem ég treysti til að halda baráttunni um þetta á lífi.

 

Ég vil trúa því að við höfum markað mikilvæg spor á árinu 2008. Mörg okkar hafa staðið frammi fyrir ákveðnu uppgjöri í kjölfar bankahrunsins. Ég fann samhljóm skoðanna minna og ákvað að taka þátt í aðgerðum sem miða að því að krefjast ábyrgðar, sanngirni og breytinga. Sumir stóðu frammi fyrir því að neyðast til að taka afstöðu og tóku þeirri áskorun. Einhverjir endurskoðuðu stefnuna sem þeir höfðu fylgt hingað til, kvöddu hana og tóku upp algjörlega nýja.

 

Það sem er þó mikilvægast í þessu öllu saman er það að stór hópur fólks tók ákvörðun um að krefjast þess að forystumenn þjóðarinnar taki ábyrgð. Þessi hópur hefur mótmælt ósanngirninni og siðleysinu sem þjóðinni hefur verið boðið upp á. Í sem stystu máli þá viljum við henda út því gamla sem virkar ekki lengur og taka upp nýtt kerfi til að byggja upp réttlátara samfélag.

 

Næsta ár höldum við áfram á þessari leið. Það mun reyna á þol okkar eins og hingað til. Ég treysti mér ekki til að segja hversu lengi við þurfum að mótmæla en það er útlit fyrir að okkur muni fjölga. Fjöldinn hlýtur að auka vægi krafna okkar og leiða okkur til sigurs. Ég trúi því þess vegna að sporin sem við mörkuðum á þessu ári muni leiða okkur að betri tímum.

 

Árið 2008 leiddi það svo sannarlega í ljós að við getum ekki treyst núverandi stjórnvöldum fyrir hagsmunum allrar íslensku þjóðarinnar. Þetta er vissulega afar sorgleg staðreynd en hún varð að koma upp á yfirborðið og þess vegna ber að fagna því að af því hafi nú orðið. Ég fagna þó einkum viðbrögðunum sem þessar staðreyndir kölluðu fram hjá stórum hluta þjóðarinnar.

 

Það er vegna þessa hóps sem ég er þakklát fyrir þetta ár og það er þess vegna sem mig langar til að nota þennan vettvang hér til að þakka fyrir árið sem er að líða. Ég er þeim sérstaklega þakklát sem hafa sýnt óbilandi dug og óeigingirni við að undirbúa og halda utan um borgara- og mótmælendafundi liðins ár og ég vona að þeir haldi starfi sínu eins lengi áfram og þörf krefur.

 

Ég er líka þakklát þeim sem hafa stutt hag þjóðarinnar í ræðu og riti bæði þar og á öðrum opinberum vettvangi. Ég er ekki síður þakklát þeim staðföstu og þolgóðu mótmælendum sem hafa staðið vörð um þjóðarhaginn með nærveru sinni á liðnum fundum. Ég vona að þessir haldi allir áfram að sýna málstaðnum stuðning sinn og að fleiri bætist við.

 

Að lokum langar mig til að nota þennan vettvang til að senda bloggvinum mínum sérstaklega hlýjar áramótakveðjur og þakkir fyrir einstaka viðkynningu á árinu sem er að líða. Það hefur verið ómetanlegt að kynnast þessum vettvangi á þessum tímum. Ég þakka ykkur fyrir skrifin ykkar, athugasemdir og hlýjar kveðjur og hvatningu sem ég hef fengið frá ykkur og öðrum sem hafa rekist inn á bloggið mitt.

 

Á nýju ári óska ég ykkur dugs, þors, styrks og kjarks! Ég óska okkur öllum gæfu og gengis í þeirri sanngirnis- og réttlætisbaráttu sem við eigum fyrir höndum. Baráttan er bara rétt hafin. Það sem af er höfum við sýnt að við getum staðið saman. Við höfum sýnt að við við sættum okkur ekki við hvað sem er. Við höfum sýnt að við höfum viljann og staðfestuna til að mótmæla og fylgja kröfum okkar eftir. 

 

Við vitum að íslenskur almenningur á það sameiginlegt að hann á að borga falsgóðæri fámennrar auðmannastéttar sem ríkisstjórnin hefur slegið skjaldborg sinni utan um. Þó okkur kunni að greina á um einstök atriði hvað varðar aðgerðir og leiðir ætti öll íslenska þjóðin að sameinast um að mótmæla slíku óréttlæti! Næsta ár verður baráttuár þannig að okkur veitir ekki af liðstyrknum og öllum góðum óskum til gæfu og gengis!

Áramótaflugeldar

Megi árið 2009 verða árið þar sem skilningurinn á lýðræðinu verður reistur úr öskustónni. Þar sem kröfur um ábyrgð og siðferði embættismanna þjóðarinnar verða festar í lög. Þar sem íslensk lög verða notuð til að verja réttlætið en ekki ranglætið. Þar sem sanngirnin og réttlætið verður endurvakið. Þar sem mannauðurinn verðu settur ofar auðmagninu.

 

Megi þetta verða svo íslenska þjóðin eigi framundan mörg gæfurík og gleðileg ár!


Þögul mótmæli á Akureyri

Á morgun, laugardaginn 28. desember, er boðað til þögulla mótmæla á Akureyri. Að venju verður hist við Samkomuhúsið og gengið þaðan kl. 15:00. Gangan leiðir inn á Ráðhústorg þar sem mótmælendur taka höndum saman og mynda hring.

Mótmælendur munu standa þannig saman í 10 mínútna þögn en samkvæmt skipuleggjanda mótmælanna, Guðrúnu Þórs, er hugmyndin sú að þátttakendur hugleiði um frið og samkennd þessar mínútur.

Ég verð því miður fjarri þessari mögnuðu samverustund þar sem ég verð á suðurleið á þessum sama tíma. Ég er nefnilega að fylgja dóttur minni fyrsta spölinn í fjögurra mánaða reisu sem hún er að leggja upp í um Suður-Ameríku. Samfylgd mín nær þó ekki lengra en til Keflavíkur en þaðan flýgur hún til New York n.k. mánudag.


Jólakveðja

Fógetinn í jólabúningiNú ætla ég að standa við það að taka jólafrí frá vangaveltum og tilfinningalegri útrás vegna efnahagsástandsins í þjóðfélaginu. Af því tilefni langar mig til að senda öllum bloggvinum og öðrum sem rekast hingað inn mínar ljúfustu óskir um friðsæl og gefandi jól.

Dómkirkjan í jólabúningi

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Vegna ástandsins sem við stöndum öll frammi fyrir núna undir lok ársins má með sanni segja að Jólakransframtíðin er í mikilli óvissu. Látum ekki ofbeldismennina sem kölluðu þessa óvissu yfir landið og þjóðina komast upp með að eyðileggja fyrir okkur jólastemminguna. Sýnum styrk okkar með því að gefa okkur og fjölskyldum okkar algjört frí frá áhyggjum og kvíða yfir því hvernig hún á eftir að ráðast.

Megir þú svo og allir aðrir landsmenn eiga gleðiríka og endurnærandi jólahátíð!
Beðið eftir jólunum


Byltingarhetjur og aðrir mótmælendur

Það var fámennur en harðgerður hópur sem gekk í áttunda skiptið til lýðræðis hér á Akureyri í dag. Ég reikna með að það sé ekkert annað en jólaannirnar sem draga úr þátttökunni en þó getur það líka verið frostið. Þeir sem mæta leggja allt annað til hliðar vegna þess að þeir geta ekki hrundið þeim ógnum sem þjóðinnni og lýðræðinu stafar af núverandi stjórnvöldum úr huga sér.

Þórarinn Hjartarson framleiðir mótmælaspjöld sem við fáum að láni og fánarnir, merki Byltingar fíflanna, gefa mótmælagöngunum á Akureyri ákveðin svip líka. Þrátt fyrir fámennið voru öll spjöldin og fánarnir hafðir með frá Samkomuhúsinu inn á Ráðhústorg.
ByltingafíflarRæðumenn dagsins urðu fjórir. Þeir viku allir á einn eða annan hátt að jólabögglunum sem ríkisstjórnin er nú að útbúa og færa þjóðinni í umbúðum endurskoðaðs fjárlagafrumvarps. Ég get ekki litið þessar jólagjafir hennar öðruvísi en svo að þær séu „táknræn“ yfirlýsing um það að ráherrar ríkisstjórnarinnar viðra vilja og þarfir þjóðarinnar að vettugi. Auk þess er það ljóst að flokkarnir, sem sitja nú í stjórn, líta eingöngu á kosningarloforð sem aðgöngumiða að völdum.

Huginn Þorsteinsson, heimspekingur, vék einmitt að þessu í ræðu sinni en hann benti á að báðir stjórnarflokkarnir hefðu ekki aðeins svikið loforðin sem þeir gáfu í síðustu kosningum heldur snúið þeim algerlega á hvolf. Þetta sýndi sig best í endurskoðuðuðum fjárlögum.

Embla Eir Oddsdóttir, íslensk kona, kom skemmtilega á óvart. Hún náði strax athygli minni því hún sagðist tilheyra „sófategundinni“. Hún hefði lengi setið fyrir framan sjónvarpið og rifist við það en nú væri hún mætt til að leggja baráttunni lið. Ég vildi að fleiri hefðu heyrt það sem hún hafði að segja því ræða hennar var alveg frábær! Miðað við ræðu hennar í dag þá á þessi kona ekkert með að sitja ein í sófa að rökræða við sjónvarpið. Hún ætti miklu betur heima í ráðherrastól með sína skýru og heilbrigðu hugsun!

Jökull Guðmundsson, lífeyrisþegi, var líka skelleggur þegar hann leit yfir farinn veg. Veg þar sem margt hefur breyst. Í fortíðinni sá hann pólitíkusa og verkalýðsforingja berjast fyrir málstað sínum og sinna af hugsjón en í dag hafa atvinnumenn tekið við sem sækjast eftir þessum embættum fyrir launin og hlunnindin. Samtakamáttur fólkisins sofnaði og hefur sofið fram á þennan dag en hefur nú vaknað upp við þann illa veruleika að það eru ekki lengur þjóðarhagsmunir sem stýra ferðinni heldur eiginhagsmunir spilltra auð- og embættismanna.
 
George Hollander lokaði mælendaskránni. Hann minnti á tilgang mótmælanna og það að þó skoðanir og hugmyndir skilji marga eflaust að þá eigi þjóðin það öll sameiginlegt að henni er ætlað að borga tjónið sem auðvaldsstefnan olli landi og þjóð. Hann ítrekaði það að við ættum ekki að láta ómerkilegan skoðanaágreining hindra það að við sameinuðustum á móti slíku óréttlæti. Hann lauk máli sínu með því að minna á að við skildum standa saman að því að byggja upp nýtt Ísland!
 
Áður en lengra er haldið langar mig til að nota tækifærið og leiðrétta þann misskilning minn að George sé tengdur Stubbasmiðjunni. Það rétta er að hann á og rekur Leikfangasmiðjuna Stubb.
Jökull Guðmundsson Ræðumennirnir í dag voru allir afar kraftmiklir og ræðurnar þeirra stórkostlegar. Þess vegna er það auðvitað töluverð synd að fleiri skuli ekki hafa gefið sér tóm til að mæta og hlýða á málfltuning þeirra. Ég hef reyndar velt því nokkrum sinnum fyrir mér hvort það sé ekki ástæða til að safna ræðunum af mótmælafundunum saman og birta þær t.d. hér á Netinu. Það getur nefnilega fleira bundið en tímaleysi og það væri a.m.k. ástæða til að gefa þeim sem eiga litla sem enga möguleika á að taka þátt í mótmælunum tækifæri til að fylgjast með.
 
Þegar ég var á heimleið í dag fór ég að velta þessu fyrir mér eina ferðina enn og það leiddi hugann að því hvað þetta væru í raun merkilegir tímar sem við lifum á einmitt núna. Þegar ég gekk fram hjá bókabúðinni í Hafnarstrætinu var ég að hugsa um það hvar við yrðum stödd í þessari baráttu á næstu jólum. Stórar og áberandi bókaauglýsingarnar í  gluggunum kveiktu þá spurningu í huga mér hvort að þá yrði kannski búið að taka þessa sögu saman á bók.
 
Ég sá fyrir mér plaköt í þessum sömu gluggum þar sem stór og glæsileg bók undir titlinum Endurreisn íslenska lýðveldsins var auglýst. Í huganum blaðaði ég í þessari bók og skoðaði myndir af borgara- og mótmælendafundum í Reykjavík, Akureyri og víðar um landið. Þessi bók geymdi gersemar í orðum og myndum. Sýndi bæði í svart/hvítu og lit hetjurnar sem komu þjóðinni til bjargar og reistu lýðræði Íslands við úr því myrkrvi sem því hefur verið stefnt í núna.
 
Ég fann til gleði og stolts. Ég fann líka til öryggis því að þrátt fyrir þau efnahagshryðjuverk sem hafa verið unnin á íslenska þjóðarbúinu og þrátt fyrir spillingarsveitina sem stendur að baki henni þá hef ég staðfestan grun um að á Íslandi búi hetjur sem eru reiðubúnar til að berjast á móti og snúa spillinguna niður. Glíman er erfið þar sem spillingin teygir sig víða um samfélagið og hefur sest að á æðstu stöðum. Spillingarsveitin er svo útsmogin og ósvífin að hún telur sig hafna yfir allar reglur og öll lög. Þess vegna telur þessi sveit sig örugga í skjóli valda og auðs. Þetta er hins vegar ekki nema innan við hundrað manns en á móti henni er öll íslenska þjóðin!
 
Ég velti þessu öllu saman fyrir mér á leiðinni heim og þá rann það upp fyrir mér að það væri hæpið að við næðum því að vinna bæði baráttuna og skrifa söguna af henni fyrir næstu jól. Það er þess vegna líklegra að hún komi ekki út fyrr en fyrir jólin 2010. Kannski hún fái ekki heldur heitið Endurreisn íslenska lýðveldisins heldur Byltingarárið. Heiti þessarar bókar skiptir reyndar ekki máli en ég veit um marga sem eiga skilið að verða getið þar. Ég veit líka að ræðurnar sem ég hlustaði á í dag ættu að vera þar allar!

mbl.is Mótmælafundur á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við þörfnust stuðnings...

Vegsemd... í hvaða búningi sem hann birtist. Í mínum huga hefur það alltaf verið ljóst að Steingrímur J. er stuðnings- maður réttlætisins. Sumir hafa snúist gegn honum þess vegna og jafnvel lagt sig fram við að finna göt á réttsýni hans í þeim tilgangi að koma á hann höggi.

Hvað um það þá er hann einn af fáum þingmönnum sem ég treysti enn þó mér finnist reyndar að hann hefði mátt beita sér af meiri krafti í varnarbaráttu fyrir þjóðina á undanförnum vikum. Ég hef reyndar verið svolítið gáttuð á því hvað mér virðist hann rólegur og í raun atkvæðalítill miðað við það sem maður hefur séð til hans oft áður.

Ég hef aldrei skilið af hverju margir óttast skoðanir Steingríms og stefnu. Auðvitðað eru þær ekki hafnar yfir alla gagnrýni enda hef ég gagnrýnt sumt í málflutningi hans sjálf. Hins vegar er ég virkilega ánægð með hann núna því hann dregur fram góðar tillögur til að afla ríkissjóði tekna.

Ég vona að þingheimur samþykki þær og geri um leið nauðsynlegar endurbætur á því endurskoðaða fjárlagafrumvarpi sem nú liggur fyrir þinginu. Annars rakst ég á fleiri ágætar umræður um tillögur sem lúta að sparnaði í ríkisrekstrinum hér. Það er heldur ekki loku fyrir það skotið að fleiri þingmenn feti í fótspor Steingríms og leggi fram frumvörp sem lúta að hagræðingu og sparnaði.

Við þörfnust stuðnings til að snúa við ranglætinu sem birtist svo berlega í endurskoðuðu fjárlagafrumvarpi og öðru því sem hefur komið frá ríkisstjórninni undanfarið. Við biðjum um réttlæti. Við viljum ekki blæða fyrir fjárglæframennina sem ríkisstjórnin lét komast upp með að settu land okkar og eiginir að veði í græðgisútrásarleiðöngrum sínum. 

Ég hefði auðvitað viljað sjá að einhver risi upp og mótmælti þessum gjörningi háværum, umbúðarlausum orðum. Ég fagna þó allri viðleitni sem miðar í þá átt að draga úr þjónustu velferðarsamfélagsins líka! Ég fanga því að Steingrímur J. Sigfússon skuli koma með tillögur sem eiga að stuðla að því að koma í veg fyrir að ríkisstjórnin komist upp með að dreifa salti í sár þjóðarinnar.


mbl.is Vinstri grænir kynna þrjú frumvörp um skattabreytingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áframhaldandi mótmæli á Akureyri

Áttunda lýðræðisgangan verður farin á Akureyri n.k. laugardag (20. desember) kl. 15:00. Gengið verður frá Samkomuhúsinu inn á Ráðhústorg. Í kynningunni segir að þar muni ýmsir mætir borgarar taka til máls. Þeirra á meðal:

Huginn Þorsteinsson, heimspekingur.
Jökull Guðmundsson, lífeyrisþegi.
Embla Eir Oddsdóttir, íslensk kona.
 
Myndin hér að neðan er tekin í upphafi fyrstu göngunnar á Akureyri.
Mótmæli á Akureyri
Þessa mynd tók Guðrún Þórs hins vegar á síðasta mótmælafundi en þá gaf lögreglan mótmælendum heitt kakó að ylja sér á.
kako.jpg

Sannast sagna hef ég átt einstaklega erfitt með að einbeita mér að jólaundirbúningnum þetta árið og ég efast um að samviskan láti mig í friði ef ég mæti ekki í þessa síðustu mótmælagöngu fyrir jólin. Svo ætla ég að taka mér tak. Skrúfa aðeins niður í samkenndinni sem rekur mig áfram í það að fylgjast með því sem fram fer í fjölmiðlum og hér á blogginu í sambandi við afdrif lands og þjóðar. Mér finnst að ég megi til. Ekki síst sjálfrar mín vegna og minna nánustu.

Eftir mótmælin n.k. laugardag ætla ég að gefa mig óskipta að jólunum og undirbúningi þeirra. Vona að mér takist það þó ég hafi svo sannarlega áhyggjur af afdrifum fjárlagafrumvarpsins í höndunum á þessari ríkisstjórn... Finnst þess vegna vel við hæfi að enda að þessu sinni með athugasemd af kjósa.is:

ég er mjög óánægð með hvernig stjórnvöld halda á öllu eftir hrun bankanna og því miður verðum við sem höfum alltaf gætt okkur í fjármálum og ekki lifað í lúxus látin gjalda fyrir fólk sem hefur ekki bara komið öllu þjóðfélaginu á hausin heldur einnig svert mannorð okkar út um allan heim


Táknræn mynd af landi og þjóð

Ég rakst á myndina hér að neðan í Fréttablaðinu og þó ég reikni með að flestir hafi séð hana þar líka má ég til með að vekja athygli á henni hér með því að tengja hana þessari frétt. Myndin segir eiginlega allt sem segja þarf um innihald fréttarinnar sem ég tengi þessari færslu. Hún sýnir reyndar allt sem ég kem ekki í orð einmitt núna um þann veruleika sem þjóðin stendur frammi fyrir og má m.a. rekja til þagnar Davíðs um innihald skýrslunnar sem hann fékk í hendur í júní síðastliðnum!
Vandamál þjóðarinnar


mbl.is Seðlabankinn varaður við í júní
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorgarþáttur í D-moll

IMGÞað er gott að fá staðfestingu á því að aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru að skapi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þetta var það sem við höfðum áhyggjur af en höfum nú fengið staðfestCrying Það er líka merkilegt að sjá hagfræðing sjóðsins, P. Thomsen, hamra á því að við megum ekki gera lítið úr þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir núna! Innihaldslaus klisja þar sem allir gera sér fyllilega grein fyrir honum en aðgerðir ríkisstjórn- arinnar miðast að því að lágmarka vanda þeirra sem komu okkur út í hann með því að hámarka skaða þeirra sem fengu engu ráðið!

Það er líka afar ósmekklegt að sjá það haft eftir umræddum hagfræðingi að áætlunin gangi vel í ljósi þess að nú þegar eru á tíunda þúsund landsmanna atvinnulausir og í ljósi frétta af því að öll neyðaraðstoð og félagslega þjónustan eru að komast í þrot. Það er þess vegna ekki hægt að túlka þessi orð hagfræðingsins öðruvísi en svo að það sé að hans skapi að almenningur sé blóðmjólkaður á kostnað auðvaldsins í landinu!

Við þurfum enga hagfræðinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til að segja okkur að vandamálin sem við stöndum frammi fyrir eru erfið og stór. Það blasir við öllum þeim sem raunverulega vilja sjá, heyra og skilja. Við viljum hins vegar alls ekki þurfa að horfa upp á það að þeir sem bera stærstu ábyrgðina séu frýjaðir henni! Það má hins vegar skilja á orðum Poul Thomsen að það sé í takt við væntingar sjóðsins.“

Sem betur fer eru þeir alltaf fleiri og fleiri sem opna augun fyrir því að það hefur og er eitthvað stórkostlegt að íslenska hagstjórnarumhverfinu og stjórnkerfinu almennt. Þetta eru sorglegar staðreyndir en það er þó nauðsynlegt að vera meðvitaður um þær. Mig langar í þessu sambandi að benda á færslur tveggja bloggara sem hafa átt drjúgan þátt í því að viðhalda vöku minni hvað þetta varðar og sennilega miklu fleiri.

Þetta eru annars vegar Jakobína Ingunn Ólafsdóttir og Lára Hanna Einarsdóttir. Lesið endilega þessa færslu Láru Hönnu um loftbóluna sem íslenska hagkerfið byggðist á (myndin sem fylgir þessari færslu er fengin að láni hjá henni) og hugleiðingar Jakobínu í kjölfar þess að hún kynnti sér lögin um rannsóknina sem á að fara fram á aðdraganda og orsök bankahrunsins nú í haust.

Mig langar til að taka það fram að þeir eru miklu fleiri sem eiga drjúgan þátt í að halda vöku minni og styrkja mig á þessum erfiðu tímum. Það væri alltof langt mál að telja alla upp hér en mikið er ég þakklát þeim öllum! Ég ætla að ljúka þessari færslu með því að vekja athygli á myndbandi sem ég var að rekast á inni á bloggi Egils Helgasonar. Myndbandið heitir Íslenska spilaborgin:


mbl.is Áætlunin gengur vel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áskorun til forseta Íslands!

Það eru margir gáttaðir á endurskoðuðu fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Það er auðvitað ljóst að einhvers staðar þurfti að skera niður en niðurskurðurinn sem er boðaður skýtur víða skökku við og annað orkar beinlínis tvímælis. Auk þess sem margar tekjuöflurnarleiðirnar eru í hæsta máta auðvirðilegar. Það er líka sláandi að horfa upp á það að á sama tíma og hátekjuskattur þykir of „táknrænn“ til að taka hann upp í þessu árferði þá þykir það sjálfsagt að krunka í kjör örykja og þeirra sem þurfa að leggjast inn á sjúkrahús!

En það er greinilegt að það ætla ekki allir að sitja aðgerðalausir í furðulostinu. Það er búið að semja áskorun sem allir eru hvattir til að senda á forseta Íslands um að samþykkja ekki þetta fjárlagafrumvarp. Þar segir m.a:

Fjárlagafrumvarpið mun velta gríðarlegum skuldaklafa yfir á almenning í landinu til margra ára. Skuldum sem til var stofnað af óheilindum af hálfu athafnamanna sem störfuðu í skjóli stjórnmálaflokka, stjórnsýslu og stofnanaumhverfis sem hafa algerlega brugðist hlutverki sínu.

Frumvarpið er mesta aðför sem nokkru sinni hefur verið gerð að sjúkrahúsum, heilbrigðisstofnunum, öldrunarheimilum, framhaldsskólum, háskólum og flestum öðrum þeim stofnunum sem almennt gera Ísland að vestrænni menningarþjóð. Það eykur misskiptingu í samfélaginu, leggur auknar álögur á þá sem minnst mega sín og neyðir fleiri en ella til að draga fram lífið á bótum sem ekki duga til framfærslu.

Frumvarpið festir í sessi þá ætlun ríkstjórnarinnar að láta almenning í landinu borga brúsann fyrir fjármálaóreiðu, ábyrgðarleysi og óheilindi fjárglæframanna og vina þeirra í núverandi og fyrrverandi ríkisstjórn í stað þess að sækja þá til saka sem raunverulega ábyrgð bera.

Frumvarpið mun einnig staðfesta hagstjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins yfir Íslandi næstu árin og binda börn okkar og jafnvel barnabörn á skuldaklafa um langt árabil.

Mig langar til að minna á orð Björns Bjarnasonar hér um þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar segir hann að hann styðji þjóðaratkvæðagreiðslu í sambandi við hugsanlega aðildarumsókn að ESB þar sem slíkt  „snerti svo víðtæka þjóðarhagsmuni“. Það er ljóst að fjárlagafrumvarpið mun snerta hagsmuni þjóðarinnar verulega þar sem í því felst umtalsverð aðför að lífsgæðum hennar!

Það er líka vert að undirstrika þá staðfestingu sem í frumvarpinu felst á þeirri ætlan ríkisstjórnarinnar að láta almenning í landinu um það að borga upp gjaldþrotið. Gjaldþrotið sem er fyrst og fremst afleiðing gráðugra útrásarvíkinga sem mötuðu króka sína svo gráðugt að það kippti stoðunum undan efnahag allrar þjóðarinnar. Það má heldur alls ekki gleymast í skjóli hverra þeir komust upp með að haga hlutunum á þann veg!

Fjárlagafrumvarpið snertir alla þjóðina og er kúvending á mörgum þeim kosningaloforðum sem stjórnarflokkarnir gáfu þjóðinni í síðustu kosningabaráttu. Það eru þess vegna mjög ríkar ástæður fyrir því að við minnum á umboð okkar og greiðum frumvarpinu mótatkvæði með því að senda forsetanum áskorun um að hafna því eins og Heiða B. Heiðars hvetur til hér.


Hverju myndi það breyta ef þeir segðu af sér?

Efnahagshrunið sem þjóðin varð vitni af um mánaðarmót september/október átti sér að sjálfsögðu einhvern aðdraganda. Þeir fáu sem vildu ekki horfast í augu við það þá eru sennilega búnir að átta sig á því núna að bankahrunið kom ekki eins og þruma úr heiðskíru lofti sunnudaginn 28. september.  Við höfum m.a.s. fengið að sjá upprifjanir um aðvaranir sérfræðinga sem birtust í sjónvarpi og dagblöðum mörgum vikum, mánuðum og jafnvel einhverjum árum fyrir gjaldþrot bankanna.

Hverjir áttu að hlusta? Voru það ekki þeir sem gegna embættum við að stýra og vaka yfir efnahag þjóðarinnar? Mér finnst það gefa auga leið að þeir sem áttu að standa þessa vakt eru a.m.k. fjórir eftirtaldir: fjármálaráðherrann, seðlabandastjórinn, forstjóri Fjármálaeftirlitsins og viðskipta- og bankamálaráðherrann.
Við styðjum við efnahag landsins Þeir eru greinilega ekki á sama máli þar sem enginn þeirra hefur axlað neina ábyrgð. Þeir eru m.a.s. búnir að koma sér í var fyrir fjölmiðlum nema helst Björgvin. Mér sýnist reyndar að honum hafi verið kastað út á leikvanginn og kannski er það hluti af leikritinu. Ljónin verða jú að fá eitthvað og þá er kannski best að fórna veikasta hlekknum eða jafnvel nýgræðingi sem kann ekki alveg leikreglurnar og fékk þess vegna aldrei fullan aðgang að bræðrafélaginu.

Það er hins vegar ekki aðalatriðið hér hvaða leikreglur gilda í samskiptum þeirra innbyrðis. Það sem skiptir meginmáli er það að enginn hinna fyrrnefndu sinnti hlutverki sínu sem vaktmaður efnahagslífsins, eins og þeim bar að gera, heldur leyfðu eða áttu jafnvel þátt í því að gráðugir fésýsluúlfar sölsuðu íslenska fjármálamarkaðinn undir sig og fluttu hann út! Afleiðingarnar eru þær að nú er þjóðarbúið ein rjúkandi rúst. Í þessu ljósi er það sjálfsögð og eðlileg krafa að þeir: Árni M. Mathiesen, Björgvin G. Sigurðsson, Davíð Oddsson og  Jónas Fr. Jónsson segi tafarlaust af sér. Allir fjórir!

Hverju myndi það breyta? Í fyrsta lagi myndu þeir vaxa sjálfir sem menn með afsögn sinni. Í öðru lagi mundu þeir draga úr spennunni í samfélaginu. Í þriðja lagi myndu þeir auka tiltrú þjóðarinnar á að það sé raunverulegur vilji, og jafnvel geta, meðal ríkisstjórnarinnar til að vinna að viðreisn íslensks efnahagslífs. Í fjórða lagi myndi skapast möguleiki á að endurvinna traust erlendra fjármálastofnanna. Í fimmta lagi yrði það trúverðugt að spillingiunni, sem leiddi þjóðina út í þá djúpu efnahagslægð sem við sitjum nú í, verði útrýmt. Í sjötta lagi...

Nei, í alvöru talað! Listinn gæti orðið endalaus! Afsögn þessara fjögurra myndi að sjálfsögðu breyta mjög miklu þó við hrykkjum auðvitað ekki aftur til veruleikans eins og hann leit út í mars/apríl síðastliðinn þá væri afsögn þeirra stórt skref í rétta átt.

Þetta liggur reyndar svo í augum uppi að það má heita stórundarlegt að þeir skuli ekki sjá þetta sjálfir og gera sjálfum sér og þjóðinni þann stórkostlega greiða að stíga þetta skref!


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband