Byltingarhetjur og aðrir mótmælendur

Það var fámennur en harðgerður hópur sem gekk í áttunda skiptið til lýðræðis hér á Akureyri í dag. Ég reikna með að það sé ekkert annað en jólaannirnar sem draga úr þátttökunni en þó getur það líka verið frostið. Þeir sem mæta leggja allt annað til hliðar vegna þess að þeir geta ekki hrundið þeim ógnum sem þjóðinnni og lýðræðinu stafar af núverandi stjórnvöldum úr huga sér.

Þórarinn Hjartarson framleiðir mótmælaspjöld sem við fáum að láni og fánarnir, merki Byltingar fíflanna, gefa mótmælagöngunum á Akureyri ákveðin svip líka. Þrátt fyrir fámennið voru öll spjöldin og fánarnir hafðir með frá Samkomuhúsinu inn á Ráðhústorg.
ByltingafíflarRæðumenn dagsins urðu fjórir. Þeir viku allir á einn eða annan hátt að jólabögglunum sem ríkisstjórnin er nú að útbúa og færa þjóðinni í umbúðum endurskoðaðs fjárlagafrumvarps. Ég get ekki litið þessar jólagjafir hennar öðruvísi en svo að þær séu „táknræn“ yfirlýsing um það að ráherrar ríkisstjórnarinnar viðra vilja og þarfir þjóðarinnar að vettugi. Auk þess er það ljóst að flokkarnir, sem sitja nú í stjórn, líta eingöngu á kosningarloforð sem aðgöngumiða að völdum.

Huginn Þorsteinsson, heimspekingur, vék einmitt að þessu í ræðu sinni en hann benti á að báðir stjórnarflokkarnir hefðu ekki aðeins svikið loforðin sem þeir gáfu í síðustu kosningum heldur snúið þeim algerlega á hvolf. Þetta sýndi sig best í endurskoðuðuðum fjárlögum.

Embla Eir Oddsdóttir, íslensk kona, kom skemmtilega á óvart. Hún náði strax athygli minni því hún sagðist tilheyra „sófategundinni“. Hún hefði lengi setið fyrir framan sjónvarpið og rifist við það en nú væri hún mætt til að leggja baráttunni lið. Ég vildi að fleiri hefðu heyrt það sem hún hafði að segja því ræða hennar var alveg frábær! Miðað við ræðu hennar í dag þá á þessi kona ekkert með að sitja ein í sófa að rökræða við sjónvarpið. Hún ætti miklu betur heima í ráðherrastól með sína skýru og heilbrigðu hugsun!

Jökull Guðmundsson, lífeyrisþegi, var líka skelleggur þegar hann leit yfir farinn veg. Veg þar sem margt hefur breyst. Í fortíðinni sá hann pólitíkusa og verkalýðsforingja berjast fyrir málstað sínum og sinna af hugsjón en í dag hafa atvinnumenn tekið við sem sækjast eftir þessum embættum fyrir launin og hlunnindin. Samtakamáttur fólkisins sofnaði og hefur sofið fram á þennan dag en hefur nú vaknað upp við þann illa veruleika að það eru ekki lengur þjóðarhagsmunir sem stýra ferðinni heldur eiginhagsmunir spilltra auð- og embættismanna.
 
George Hollander lokaði mælendaskránni. Hann minnti á tilgang mótmælanna og það að þó skoðanir og hugmyndir skilji marga eflaust að þá eigi þjóðin það öll sameiginlegt að henni er ætlað að borga tjónið sem auðvaldsstefnan olli landi og þjóð. Hann ítrekaði það að við ættum ekki að láta ómerkilegan skoðanaágreining hindra það að við sameinuðustum á móti slíku óréttlæti. Hann lauk máli sínu með því að minna á að við skildum standa saman að því að byggja upp nýtt Ísland!
 
Áður en lengra er haldið langar mig til að nota tækifærið og leiðrétta þann misskilning minn að George sé tengdur Stubbasmiðjunni. Það rétta er að hann á og rekur Leikfangasmiðjuna Stubb.
Jökull Guðmundsson Ræðumennirnir í dag voru allir afar kraftmiklir og ræðurnar þeirra stórkostlegar. Þess vegna er það auðvitað töluverð synd að fleiri skuli ekki hafa gefið sér tóm til að mæta og hlýða á málfltuning þeirra. Ég hef reyndar velt því nokkrum sinnum fyrir mér hvort það sé ekki ástæða til að safna ræðunum af mótmælafundunum saman og birta þær t.d. hér á Netinu. Það getur nefnilega fleira bundið en tímaleysi og það væri a.m.k. ástæða til að gefa þeim sem eiga litla sem enga möguleika á að taka þátt í mótmælunum tækifæri til að fylgjast með.
 
Þegar ég var á heimleið í dag fór ég að velta þessu fyrir mér eina ferðina enn og það leiddi hugann að því hvað þetta væru í raun merkilegir tímar sem við lifum á einmitt núna. Þegar ég gekk fram hjá bókabúðinni í Hafnarstrætinu var ég að hugsa um það hvar við yrðum stödd í þessari baráttu á næstu jólum. Stórar og áberandi bókaauglýsingarnar í  gluggunum kveiktu þá spurningu í huga mér hvort að þá yrði kannski búið að taka þessa sögu saman á bók.
 
Ég sá fyrir mér plaköt í þessum sömu gluggum þar sem stór og glæsileg bók undir titlinum Endurreisn íslenska lýðveldsins var auglýst. Í huganum blaðaði ég í þessari bók og skoðaði myndir af borgara- og mótmælendafundum í Reykjavík, Akureyri og víðar um landið. Þessi bók geymdi gersemar í orðum og myndum. Sýndi bæði í svart/hvítu og lit hetjurnar sem komu þjóðinni til bjargar og reistu lýðræði Íslands við úr því myrkrvi sem því hefur verið stefnt í núna.
 
Ég fann til gleði og stolts. Ég fann líka til öryggis því að þrátt fyrir þau efnahagshryðjuverk sem hafa verið unnin á íslenska þjóðarbúinu og þrátt fyrir spillingarsveitina sem stendur að baki henni þá hef ég staðfestan grun um að á Íslandi búi hetjur sem eru reiðubúnar til að berjast á móti og snúa spillinguna niður. Glíman er erfið þar sem spillingin teygir sig víða um samfélagið og hefur sest að á æðstu stöðum. Spillingarsveitin er svo útsmogin og ósvífin að hún telur sig hafna yfir allar reglur og öll lög. Þess vegna telur þessi sveit sig örugga í skjóli valda og auðs. Þetta er hins vegar ekki nema innan við hundrað manns en á móti henni er öll íslenska þjóðin!
 
Ég velti þessu öllu saman fyrir mér á leiðinni heim og þá rann það upp fyrir mér að það væri hæpið að við næðum því að vinna bæði baráttuna og skrifa söguna af henni fyrir næstu jól. Það er þess vegna líklegra að hún komi ekki út fyrr en fyrir jólin 2010. Kannski hún fái ekki heldur heitið Endurreisn íslenska lýðveldisins heldur Byltingarárið. Heiti þessarar bókar skiptir reyndar ekki máli en ég veit um marga sem eiga skilið að verða getið þar. Ég veit líka að ræðurnar sem ég hlustaði á í dag ættu að vera þar allar!

mbl.is Mótmælafundur á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Við mótmælum þingheimi sem heldur þjóðinni í gíslingu.

l (IP-tala skráð) 21.12.2008 kl. 00:35

2 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Sæl Rakel mín... ég hef sagt það áður og ætla að segja það í síðasta sinn... í bili minnsta kosti....

ég er ekki frá því að það gæti fjölgað ef menn losa sig við þá Vinstri grænu ásýnd sem þessi samkoma hefur.... ég tala nú ekki um af því formaður þess ágæta flokks lýsti yfir samsekt í eftirlaunafrumvarpinu á sínum tíma.

Jón Ingi Cæsarsson, 21.12.2008 kl. 12:17

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég hugsaði til þess þegar ég setti myndina inn af Hlyni og Dillu að þeir sem þekktu þau og vissu hvar þau standa í flokki gætu einmitt bent á þetta atriði. Það brást ekki en eins og George benti á í lok mótmælafundarins í gær þá eigum við það öll sameiginlegt að ríkisstjórnin hefur opinberað þann vilja sinn að við, þjóðin, eigum að borga þann ógnvænlega fjárlagahalla sem eigendur bankanna og útrásarvíkingarnar, vinir þeirra, sköpuðu. Það ætti að að vera næg ástæða til að þjappa allri þjóðinnis saman í sameiginleg mótmæli. Ég skil ekki að það hvar við stöndum í flokki ætti að aftra neinum frá því að taka þátt í að mótmæla slíku óréttlæti.

En svona að lokum þá vita allir sem þekkja Hlyn og Dillu að þetta eru einstklega hjartahlýjar og yndislegar manneskjur. Það að þau taki þátt í mótmælum ætti þess vegna frekar að setja gæðastimpil á þau en fæla fólk frá þeim!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 21.12.2008 kl. 14:06

4 Smámynd: Hlynur Hallsson

Takk fyrir fögur orð í okkar garð kæra Rakel og takk fyrir ljómandi yfirlit í þessum pistli.

Bestu baráttukveðjur,

Hlynur Hallsson, 21.12.2008 kl. 19:38

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ekkert að þakka Hlynur. Hefði viljað segja frá svo miklu meira af því sem kom fram í ræðum þessara frábæru ræðumanna. En það er alltaf hætta á því að þannig fari maður að leggja fólki orð í munn. Svo vona ég að Bylting fíflanna láti verða af því að opna heimasíðu og birti þessar og aðrar ræður af mótmælafundunum þar.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 21.12.2008 kl. 19:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband