Áskorun til forseta Íslands!

Það eru margir gáttaðir á endurskoðuðu fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Það er auðvitað ljóst að einhvers staðar þurfti að skera niður en niðurskurðurinn sem er boðaður skýtur víða skökku við og annað orkar beinlínis tvímælis. Auk þess sem margar tekjuöflurnarleiðirnar eru í hæsta máta auðvirðilegar. Það er líka sláandi að horfa upp á það að á sama tíma og hátekjuskattur þykir of „táknrænn“ til að taka hann upp í þessu árferði þá þykir það sjálfsagt að krunka í kjör örykja og þeirra sem þurfa að leggjast inn á sjúkrahús!

En það er greinilegt að það ætla ekki allir að sitja aðgerðalausir í furðulostinu. Það er búið að semja áskorun sem allir eru hvattir til að senda á forseta Íslands um að samþykkja ekki þetta fjárlagafrumvarp. Þar segir m.a:

Fjárlagafrumvarpið mun velta gríðarlegum skuldaklafa yfir á almenning í landinu til margra ára. Skuldum sem til var stofnað af óheilindum af hálfu athafnamanna sem störfuðu í skjóli stjórnmálaflokka, stjórnsýslu og stofnanaumhverfis sem hafa algerlega brugðist hlutverki sínu.

Frumvarpið er mesta aðför sem nokkru sinni hefur verið gerð að sjúkrahúsum, heilbrigðisstofnunum, öldrunarheimilum, framhaldsskólum, háskólum og flestum öðrum þeim stofnunum sem almennt gera Ísland að vestrænni menningarþjóð. Það eykur misskiptingu í samfélaginu, leggur auknar álögur á þá sem minnst mega sín og neyðir fleiri en ella til að draga fram lífið á bótum sem ekki duga til framfærslu.

Frumvarpið festir í sessi þá ætlun ríkstjórnarinnar að láta almenning í landinu borga brúsann fyrir fjármálaóreiðu, ábyrgðarleysi og óheilindi fjárglæframanna og vina þeirra í núverandi og fyrrverandi ríkisstjórn í stað þess að sækja þá til saka sem raunverulega ábyrgð bera.

Frumvarpið mun einnig staðfesta hagstjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins yfir Íslandi næstu árin og binda börn okkar og jafnvel barnabörn á skuldaklafa um langt árabil.

Mig langar til að minna á orð Björns Bjarnasonar hér um þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar segir hann að hann styðji þjóðaratkvæðagreiðslu í sambandi við hugsanlega aðildarumsókn að ESB þar sem slíkt  „snerti svo víðtæka þjóðarhagsmuni“. Það er ljóst að fjárlagafrumvarpið mun snerta hagsmuni þjóðarinnar verulega þar sem í því felst umtalsverð aðför að lífsgæðum hennar!

Það er líka vert að undirstrika þá staðfestingu sem í frumvarpinu felst á þeirri ætlan ríkisstjórnarinnar að láta almenning í landinu um það að borga upp gjaldþrotið. Gjaldþrotið sem er fyrst og fremst afleiðing gráðugra útrásarvíkinga sem mötuðu króka sína svo gráðugt að það kippti stoðunum undan efnahag allrar þjóðarinnar. Það má heldur alls ekki gleymast í skjóli hverra þeir komust upp með að haga hlutunum á þann veg!

Fjárlagafrumvarpið snertir alla þjóðina og er kúvending á mörgum þeim kosningaloforðum sem stjórnarflokkarnir gáfu þjóðinni í síðustu kosningabaráttu. Það eru þess vegna mjög ríkar ástæður fyrir því að við minnum á umboð okkar og greiðum frumvarpinu mótatkvæði með því að senda forsetanum áskorun um að hafna því eins og Heiða B. Heiðars hvetur til hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Eyjólfur Jóelsson

Það vill nú svo til að þessir herrar hafa skrifað undir samning fyrir okkar hönd til 3-4 ára við gjaldeyrissjóðinn og þar er þetta allt tekið fram hvað gera þarf ,þ.e. niðurskurður ,hækkunn á sköttum og fl í þeim dúr ég er ekki svo viss um að forsetinn geti gert eitthvað því gengi lánið til baka .

ég held að fólk geti kynnt sér þær á síðu seðlabankans :           

http://www.sedlabanki.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=6606

Guðmundur Eyjólfur Jóelsson, 17.12.2008 kl. 21:21

2 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Held eins og guðmundur að enn og aftur sé Davíð vandamálið. Ekki víst að Ólafur Ragnar geti gert neitt út af skuldbindingum sem búið er að gera.

Haraldur Bjarnason, 17.12.2008 kl. 21:37

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Við getum a.m.k. reynt og sýnt vilja okkar um leið, ekki satt?

Rakel Sigurgeirsdóttir, 17.12.2008 kl. 22:31

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Við getum reynt.  Það sagði við mig maður í dag að forsetinn gæti leyst upp þingið, skipað utanþingsstjórn og boað til kosninga.  Þetta ætti Ólafur Ragnar að gera fyrir þjóðina núna þó að það yrði hans síðasta verk.

Magnús Sigurðsson, 17.12.2008 kl. 23:12

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Magnús, ef ég á að segja eins og er þá er ég alveg gáttuð á þögn hans og fleiri. Mér finnst vera virkilegt tilefni fyrir forsetann til að beita sér við þær aðstæður sem eru komnar upp í samfélaginu núna en hann steinþegir

Rakel Sigurgeirsdóttir, 17.12.2008 kl. 23:25

6 identicon

Ég ætla að leyfa mér að vera ósammála Guðmundi Eyjólfi og gott betur en að vera ósammála honum, því ég bið fólk vinsamlegast um að gefast ekki upp fyrr en í fulla hnefnana. Vefsíðan sem Guðmundur gefur upp er ekki vefsíða inn á samning Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ríkisstjórnar Íslands, þar að auki þá veit égt ekki betur en að ríkisstjórnin sé enn ekki búin að skrifa undir samning við AGS, þótt hún sé komin með heimild frá Alþingi til þess. Þessu til viðbótar þá veit ég ekki betur en að samningur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ríkisstjórnarinnar (undirritaður eða ekki undirritaður) sé leyniskjal sem jafnvel þingmenn hafa ekki fengið að sjá.

Ólafur Ragnar hefur verið ótrúlega hljóður síðustu vikur og þess vegna verður að neyða hann til að segja skýrt hvar hann stendur: með þjóðinni eða stjórnvöldum?

Það er viðeigandi að senda honum áskorun um að skrifa ekki undir fjárlögin: Fjárlög þessi eru mun meiri ógn við lýðræðið en fjölmiðlalögin voru sem hann skrifaði ekki undir. Auk þess að vera ógn við lýðræðið eru fjárlögin ógn við tilvist fjölmargra Íslendinga: Þau ógna flestu því sem í mínum huga er íslenskt vegna þess að 300.000 manna samfélag á ekki kost á því að borga "skuldirnar" sem fjárlögin byggast á: Með þessum fjárlögum verða næstu kynslóðir Íslendinga þrælar þeirra sem munu ráða yfir íslenskum auðlindum, þ.e.a.s. Alþjóðagjaleyrissjóðurinn og Evrópusambandið. Hver á að koma í veg fyrir að það gerist ef ekki forsetinn?

Helga (IP-tala skráð) 18.12.2008 kl. 01:08

7 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Helga: Ég þakka þér fyrir skörungslegt innlegg! Ég er líka alveg hjartanlega sammála því sem þú segir um afstöðu forsetans og afleiðingar fjárlaganna.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 18.12.2008 kl. 10:58

8 Smámynd: Sigurveig Eysteins

Ólafur Ragnar á svo marga óvini, að ég held að hann sé í mjög erfiðri stöðu, en hann var í viðtali við Ingva Hrafn á INN stöðinni í gær, (og marg endursýnt)  Þetta viðtal var mjög áhugavert. Hægt er að sjá viðtalið á síðu Forseta Íslands undir dagskrá, ég kann ekki að setja það inn fyrir þig, ég fæ síðuna upp með því að slá inn Fálkaorða á Google. þar er líka hægt að sjá allt sem Forsetinn er að gera alla daga ársins.

Sigurveig Eysteins, 18.12.2008 kl. 18:31

9 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir ábendinguna Sigurveig

Rakel Sigurgeirsdóttir, 18.12.2008 kl. 22:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband