Hverju myndi það breyta ef þeir segðu af sér?

Efnahagshrunið sem þjóðin varð vitni af um mánaðarmót september/október átti sér að sjálfsögðu einhvern aðdraganda. Þeir fáu sem vildu ekki horfast í augu við það þá eru sennilega búnir að átta sig á því núna að bankahrunið kom ekki eins og þruma úr heiðskíru lofti sunnudaginn 28. september.  Við höfum m.a.s. fengið að sjá upprifjanir um aðvaranir sérfræðinga sem birtust í sjónvarpi og dagblöðum mörgum vikum, mánuðum og jafnvel einhverjum árum fyrir gjaldþrot bankanna.

Hverjir áttu að hlusta? Voru það ekki þeir sem gegna embættum við að stýra og vaka yfir efnahag þjóðarinnar? Mér finnst það gefa auga leið að þeir sem áttu að standa þessa vakt eru a.m.k. fjórir eftirtaldir: fjármálaráðherrann, seðlabandastjórinn, forstjóri Fjármálaeftirlitsins og viðskipta- og bankamálaráðherrann.
Við styðjum við efnahag landsins Þeir eru greinilega ekki á sama máli þar sem enginn þeirra hefur axlað neina ábyrgð. Þeir eru m.a.s. búnir að koma sér í var fyrir fjölmiðlum nema helst Björgvin. Mér sýnist reyndar að honum hafi verið kastað út á leikvanginn og kannski er það hluti af leikritinu. Ljónin verða jú að fá eitthvað og þá er kannski best að fórna veikasta hlekknum eða jafnvel nýgræðingi sem kann ekki alveg leikreglurnar og fékk þess vegna aldrei fullan aðgang að bræðrafélaginu.

Það er hins vegar ekki aðalatriðið hér hvaða leikreglur gilda í samskiptum þeirra innbyrðis. Það sem skiptir meginmáli er það að enginn hinna fyrrnefndu sinnti hlutverki sínu sem vaktmaður efnahagslífsins, eins og þeim bar að gera, heldur leyfðu eða áttu jafnvel þátt í því að gráðugir fésýsluúlfar sölsuðu íslenska fjármálamarkaðinn undir sig og fluttu hann út! Afleiðingarnar eru þær að nú er þjóðarbúið ein rjúkandi rúst. Í þessu ljósi er það sjálfsögð og eðlileg krafa að þeir: Árni M. Mathiesen, Björgvin G. Sigurðsson, Davíð Oddsson og  Jónas Fr. Jónsson segi tafarlaust af sér. Allir fjórir!

Hverju myndi það breyta? Í fyrsta lagi myndu þeir vaxa sjálfir sem menn með afsögn sinni. Í öðru lagi mundu þeir draga úr spennunni í samfélaginu. Í þriðja lagi myndu þeir auka tiltrú þjóðarinnar á að það sé raunverulegur vilji, og jafnvel geta, meðal ríkisstjórnarinnar til að vinna að viðreisn íslensks efnahagslífs. Í fjórða lagi myndi skapast möguleiki á að endurvinna traust erlendra fjármálastofnanna. Í fimmta lagi yrði það trúverðugt að spillingiunni, sem leiddi þjóðina út í þá djúpu efnahagslægð sem við sitjum nú í, verði útrýmt. Í sjötta lagi...

Nei, í alvöru talað! Listinn gæti orðið endalaus! Afsögn þessara fjögurra myndi að sjálfsögðu breyta mjög miklu þó við hrykkjum auðvitað ekki aftur til veruleikans eins og hann leit út í mars/apríl síðastliðinn þá væri afsögn þeirra stórt skref í rétta átt.

Þetta liggur reyndar svo í augum uppi að það má heita stórundarlegt að þeir skuli ekki sjá þetta sjálfir og gera sjálfum sér og þjóðinni þann stórkostlega greiða að stíga þetta skref!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorgrímur Gestsson

Geturðu bent mér á hvar í netheimum er að finna bréfið sem þú nefnir í athugasemd við blogg Maríu Kristjáns? Þessir heimar eru stórir og ég hef ekki rekist á bréfið en er mjög forvitinn enda ævagamall blaðamaður, óvirkur sem stendur, en hvenær getur blaðamaður eiginlega verið óvirkur? Líklega enginn á þessum tímum, með aðra eins möguleika og bloggið, þennan einkamiðil hvers og eins og óþrjótandi möguleika á að láta að sér kveða. Mér líst annars mjög vel á niðurlagið í æviágripi þínu! Leyfi mér að óska eftir "bloggvináttu þinni" enda eigum við nokkra sameiginlega vini!

Bestu kveðjur

Þorgrímur Gestsson, 17.12.2008 kl. 11:39

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Það er reyndar Elín sem vísar í þetta bréf en ég kannast við þetta bréf. Þú getur t.d. lesið það hér Ég skemmti mér virkilega vel yfir því að þér skuli lítast vel á niðurlag æviágripsins míns Það bendir til þess að þú hafir jafn dularfullan húmor og ég þannig að auðvitað líst mér stórvel á að vera bloggvinur þinn!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 17.12.2008 kl. 14:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband