Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Mér finnst það svo sárt...

... að horfa upp á hrokann gagnvart einlægninni. Af hverju endist fólk til að mæta aftur og aftur til að koma þeim skilaboðum til hrokafullra ráðherra að það treysti þeim ekki fyrir hagsmunum sínum og þjóðarinnar? Af hverju nennir fólk að standa frammi fyrir einkennisklæddum lögreglumönnum sem skipa því að standa fyrir utan gula borðann og hóta því handtöku ef það heldur ekki aftur af sér?

Svarið er einfalt! Allt sem þessi ríkisstjórn hefur gert frá bankahruninu segir okkur blákalt að það standi ekki til að vernda hag þjóðarinnar en hún þarf vinnufrið til að bjarga sjálfri sér og koma öllu í fyrra horf. Til þess þarf að kýla þjóðina niður með ýmsum efnahagsaðgerðum því það töpuðust jú peningar en það er ekki látið nægja. Það er líka talað niður til hennar.

ÍslandFulltrúar ríkisstjórnarinnar segja að mótmælendur hindri þá í því að vinna vinnuna sína en hvað með fólkið sem hefur misst vinnuna sína fyrir aðgerðir og/eða aðgerðaleysi hennar? Áróður þeirra er sá að þeir séu í fullum rétti og að þeir séu að reyna að leysa vandann en við vitum betur. Við höfum haft 10 vikur til að sjá að það eina sem þessi stjórn er fær um er að auka neyð almennings!

Við höfum heyrt í sérfræðingum í innlendum og erlendum fjölmiðlum, á mótmælenda- og borgarafundum sem við treystum miklu betur til að leysa úr efnahagsvanda þjóðarinnar en ríkisstjórninni. Það sem við höfum séð af aðgerðum hennar undanfarnar vikur virðist miða að því að velta vandræðunum, sem þau og vinir þeirra orsökuðu af stórum hluta, yfir á almenning en skuldhreinsa sjálf sig í leiðinni.

Það stendur ekki til að neinn verði látinn axla ábyrgð nema almenningur. Þeir sem léku sér með verðmæti fyrirtækja, fjármálafyrirtækja og, að ég talin nú ekki um, krónunnar þurfa að komast að fjármálastofnunum aftur og þess vegna ríður á að ríkisstjórnin fái vinnufrið. Æra þeirra er í húfi annars. Þennan dóm dreg ég eingöngu af því sem þjóðin hefur fengið að sjá, heyra og finna undanfarnar vikur.

Það þarf engan að undra að einhverjum þyki ástæða til að verja sig við núverandi aðstæður. Fólk er að missa vinnuna, eignirnar og einhverjir eru byrjaðir að flýja land. Undarlegast að það skuli ekki vera enn fleiri sem sjá sig knúna til að grípa til einhverra slíkra varnaraðgerða. Undarlegt líka hvað þeir sem finna sig knúna til að rísa upp gegn óréttlætinu, sem er verið að matreiða ofan í þjóðina, eru yfirvegaðir og einlægir. Ekki síst þegar þeir mæta engu nema hroka og yfirlæti frá stjórnmálamönnunum.

SársaukiMér finnst svo sárt að horfa upp á myndbandið með þessari frétt. Hrokinn í Ingibjörgu Sólrúnu, Einari Kr. og Guðlaugi Þór gagnvart fólki sem er búið að hrópa á 11. viku: Við treystum ykkur ekki! Víkið burt! og svo segir Einar að hann sé búinn að tala við fólkið... Ég segi það ekki að þögn er ákveðin tjáning og aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn fólkinu er það ekki síður. En jafnvel Einar Kr. ætti að skilja að þær eru síst til þess fallnar að þagga niður í þessu þolgóða fólki.

Við erum ekki fífl! Við höfum hlustað á fjölda sérfræðinga og ráðgjafa, bæði innlenda og erlenda, og við vitum að þið eruð að tryggja fjármálastofnunum áframhaldandi tekjur á kostnað launþega í landinu. Við vitum að þið ætlið að tryggja sjálfum ykkur og vinum ykkar áframhaldandi brautargegni í sömu stöðunum og þið höfðuð áður og til að undirstrika enn frekar hollustu ykkar við þá sem viðhalda tilveru ykkar þá hlífðuð þið þessum vinum ykkar við hátekjuskattinum, glottuð og sögðuð: „Sko, þið hélduð að við kæmust ekki upp með annað en setja á hátekjuskatt núna en við erum svo klár að við fundum aðra miklu aðgengilegri leið. Táknar þetta ekki að við getum enn verið vinir?“ 

Ef þið hefðuð sett hátekjuskattin á þá hefði það táknað að ykkur hefði verið hent út af listisnekkjunni og ekki fengið að vera með lengur. Eiðar og svardagar hefðu ónýst og þið hefðuð þurft að standa ein og óstudd. Rúin stuðningi peningamarkaðarins og þeirra sem þið í blindu ykkar teljið að hafi keypt stólana undir ykkur til óskorðaðrar fjögurra ára eignar. Stólana sem þið látið eins og líf okkar sé komið undir því að einmitt þið haldið þeim...

Já, Það er sannarlega sárt að horfa á hreinræktaða einlægni mætt af slíkum hroka!
Mótmæli


mbl.is Ríkisstjórnin inn um bakdyrnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvíbendni stjórnvalda gagnvart menntun

Menntun er svo skemmtilegt hugtak enda ljóst að mörgum, þó einkum stjórnmálamönnum, þykir sérstaklega gaman að leika sér með það. Á tyllidögum er gildi menntunar lofað með stórum orðum og upphrópunarmerkjum en í reynd er fátt sem bendir til að þeir sem tala hæst um gildi hennar skilji yfir höfuð inntak orðsins. Ég gæti skrifað langt mál og ítarlegt um mótsagnirnar sem hafa komið fram á undanförnum misserum frá menntamálaráðuneytinu í þessu sambandi en læt kyrrt liggja í bili.

Hins vegar langar mig til að vekja athygli á því að um leið og ríkisstjórnin boðar niðurskurð í fjárframlögum til menntamála þá hafa framhaldsskólarnir a.m.k. fegnið formleg tilmæli frá menntamálaráðherra um að taka við öllum umsækjendum. Það er auðvitað ljóst að framhaldsskólarnir geta ekki tekið við fleirum en húsrúm þeirra leyfir. Einhverjir skólameistarar hafa líka ákveðið að halda sínu striki þar sem það er sýnt að það er fleira en húsrýmið sem mun skilyrða nemendafjöldann á næstu önn.

VerkefnafjallÉg veit ekki hvort háskólarnir hafi fengið slík tilmæli frá menntamálaráðherra en það er a.m.k. ljóst að ráðherrann hefur látið það berast út að nú sé mikilvægt að hlúð verði að menntun og að skólarnir skili sínu svo að af því megi verða. Þetta er það sem við sem störfum við skólana höfum fengið að kynnast í æ ríkari mæli í stjórnartíð Sjálfstæðis- flokksins. Það er stöðugt alið á ábyrgðarkennd kennara. Við megum ekki bregðast þó það sé ljóst að valdhafinn ætli ekki að styðja við bakið á skólastarfinu með fjárframlögum til reksturs skólanna eða til að bæta kjör kennara.

Í mínum augum heitir þetta að ala á meðvirkni kennara. Til að tryggja það að skólarnir hlýði yfirboðurum sínum hefur Sjálfstæðisflokkurinn skipað flokksbundna félaga í stöður skólastjórnenda og eru framhaldsskólarnir sem hafa annan en yfirlýstan stuðningsmann Sjálfstæðisflokksins í skólameistarastólnum orðnir teljandi á fingrum annarrar handar.

Þetta hefur þýtt það í sumum skólum að skólastjórnendur sem áður spyrntu við fótum gagnvart Mennta- og Fjármálaráðuneytinu eru nú orðnir fjarskalega gæflyndir og þægilegri í taumi. Þessir skólastjórnendur standa þess vegna ekki með starfsfólki sínu á móti því þegar einhverjar fjarstæður koma að ofan heldur standa þeir í versta falli á móti starfsfólki sínu og styðja flokkssystkini sín sem stýra þessum ráðuneytum. 

Ég ætla að vera svo leiðinleg að fullyrða það að tilmæli menntamálaráðherra um að skólarnir taki við öllum umsækjendum sé að hluta til aðgerð til að fela atvinnuleysið. Það verður falið þannig að skólarnir verða yfirfylltir. Það stendur þó alls ekki til að fjölga kennurum enda myndi það leiða til aukins launakostnaðar. Maður þarf ekki að vera neittt sérstaklega mikið inni í skólastarfi til að átta sig á því að með þessu lagi minnka gæði námsins og ég tala ekki um þegar það á að skera niður fjárframlög til skólanna á sama tíma líka.

Þarf að segja meira til að benda á tvíbendina sem ríkir í hugum stjórnvalda til menntunar?


mbl.is Óafturkræf spjöll?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betra að skattleggja sjúka en fullfrískt hálaunafólk

Þetta er auðvitað með ólíkindum! Hvað ætlar þetta lið að verða sér út um marga vanhæfnisstimpla áður en yfir lýkur! Ég skrifaði um það hér að mér sýndist að þjóðin ætti í baráttu við ill öfl. Mér finnst fréttir um hækkun á allri almennri þjónustu í þeim tilgangi að afla ríkinu tekna í stað hátekjuskatts  réttlæta slíka ályktun.

Nú hefur verið lagt fram frumvarp um að taka upp komugjald á sjúkrahúsum sem ég geri ráð fyrir að sé til að stuðla að því að þau geti rekið sig meira sjálf. Með þessu móti er gert ráð fyrir að ríkið hagnist um 360 milljónir. Nú væri forvitnilegt að vita hvað hátekjuskattur hefði skilað miklum tekjum inn í ríkissjóð. Það eina sem við vitum um þá tölu er að Ingibjörg Sólrún sagði hana táknræna.

Fullkomin sorg

Mér finnst það reyndar afar táknrænt að hafna hátekjuskatti á sama tíma og það stendur til að taka upp komugjald á sjúkrahúsum. Ég get eiginlega ekki tekið svona öfugsnúnum vinnubrögðum öðruvísi en sem táknrænum sölusamningi við hið illa. Spurning hvort það er þá við hæfi að enda þessa færslu með orðum eins og: Ég bið allt það góða í heiminum að hjálpa íslenskri þjóð áður en það illa sem hefur hana á valdi sínu núna nær að hirða af henni allt og murka úr henni lífsviljann!


mbl.is Komugjald vegna innlagnar á sjúkrahús
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baráttan er bara rétt hafin!

Ég vildi að græðgin og systir hennar spillingin færu í jólafrí! En það virðist engin von til þess. Þær eru búnar að vaða svoleiðis yfir þjóðina á skítugum gaddaskónum á undanförnum vikum þannig að hún liggur eftir í sárum. Systurnar eru þó ekki hættar enn og á meðan þetta viðgengst þá höldum við áfram að mótmæla. Því við megum ekki við neinu öðru!
Barátta er bara rétt hafin Ég fagna fjölbreytninni í mótmælaaðgerðum íbúa höfuðborgarsvæðisins en furða mig alltaf meir og meir á þeim sem segja ekki neitt. Ég held að ég sé búin að missa álitið á öllum forystumönnum þjóðarinnar. Enginn þeirra hefur sýnt þann manndóm og þá samkennd að stíga fram og segja nokkurn skapaðan hlut í sambandi við þá aðför sem hefur verið gerð að afkomumöguleikum íslenskra þjóðfélagsþegna. Þeir hafa haft til þess rúmar tíu vikur! og nú eru að koma jól... Þeir hafa greinilega einhverju allt öðru að sinna en því að standa vörð um hagsmuni almennings!

Þjóðin, íslenskur almenningur, er þó ekki af baki dottin. Við berjumst! Við styðjum réttlætið! Við höfum séð framan í þær systur græðgina og siðspillinguna og við þurfum að losna við þær sem allra, allra fyrst. Við ætlum að hafa þær undir, binda þær og kefla og helst eyða þeim báðum í eldi. Hvernig sem fer þá vitum við að réttlætið er okkar megin þannig að sigurinn verður okkar áður en yfir lýkur!

Baráttan er bara rétt að hefjast!

Viðbót: Flottar myndir frá mótmælunum fyrir framan Stjórnarráðið í dag á Smugunni.


mbl.is Óvenjuleg mótmæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndin sem svo margir eru að tala um

Ég heyrði fyrst af Zeitgeist-myndunum í sumar þegar dóttir mín horfði á aðra þeirra í tölvunni sinni. Hún sagði mér að þetta væri eitthvað sem ég ætti að horfa á. Næst rakst ég á umfjöllun um Zeigeist hjá Katrínu Snæhólm en heitar umræður vöknuðu á blogginu hennar í framhaldi þess að hún mælti með Zeitgeist: The Movie.

Dóttir mín hafði sagt mér að þarna væru dregin fram ýmis atriði sem þættu svo tortryggileg í sambandi við 11. september að þau hefðu alið af sér kenningar um að atburðarrásin í kringum flugvélarnar fjórar væri allt önnur en sú sem borin var á borð í fjölmiðlum á sínum tíma. Ég hafði heyrt eitthvað á þessar kenningar minnst áður.

Ég treysti mér ekki til að hafna þeim alfarið en ég treysti mér ekki til að meðtaka þær fullkomlega heldur. Auk þessa setti hún mig inn í þá kenningu myndarinnar að það væru óprúttnir græðgisvæðingarsinnar sem stjórnuðu bandarískum fjármála- mörkuðunum sem hefðu staðið á bak við atburði þessa örlagaríka dags og svo margt annað í sögu Bandaríkjanna sem hefði svo haft áhrif á peningastreymið þar og víða annars staðar í heiminum

Zeitgeist

Þegar dóttir mín sagði mér frá Zeitgeist hugsaði ég aðeins með mér að þetta væri ein þeirra mynda sem væri gaman að gefa sér tíma til að horfa á, og helst fyrr, en seinna en svo varð ekkert úr. Þegar Katrín mælti svo með myndinni á blogginu sínu áttaði ég mig á því að þetta væri sama myndin. Viðbrögðin, sem þessi ábending Katrínar olli, urðu svo til þess að ég ákvað að ég yrði bara að láta verða af því að sjá þessa mynd.

Ég vissi ekki þá að þetta eru í raun tvær myndir. Þær eru Zeitgeist: The Movie og Zeitgeist: Addendum. Ég er ekki alveg klár á því í hvaða röð þær eru en held að ég hafi raðað þeim í rétta tímaröð. Ég átta mig ekki á því hvort þær eru báðar jafnumdeildar en sú fyrri er það alveg örugglega. Það er sú sem var sýnd á borgarafundinum hér á Akureyri sl. fimmtudag. Reyndar stóð til að sýna þá seinni en vegna einhvers misskilnings þá var myndin sem forsvarsmaður fundarins fékk í hendurnar Zeitgeist: The Movie.

Í framhaldi af því að Katrín vakti athygli á myndinni á blogginu sínu var eins og það skylli á mér alda af umfjöllunum um myndirnar. Það var stofnaður hópur inni á Facebook í lok október til að þrýsta á RÚV að sýna Zeitgeist: Addendum. Ég gekk í hann og hef því fylgst með því hve brösulega það hefur gengið að fá þá þar til að falla fyrir hugmyndinni um að taka myndina til sýningar. Þetta eru þó mjög umtalaðar myndir sem hafa fengið mikið áhorf um allan heim og líka unnið til verðlauna (sjá t.d. hér)

Zeitgeist: The MovieZeitgeist: Addendum

Fólk virðist alveg skiptast í tvo hópa í  afstöðunni til þessara mynda og ekki bara til myndanna sem slíkra heldur í því líka hvort þær séu þess verðar að á þær sé horft yfir höfuð. Það er a.m.k. sá skilningur sem ég hef fengið út úr þeim heitu umræðum sem hafa skapast um þessar myndir (sjá t.d. hér).

DV birti grein um þessar myndir þar sem segir að meginspurningar þeirra séu þessar: Stofnaði Alþjóðleg valdaklíka bankamanna bandaríska seðlabankann til þess að hneppa þjóðina í ánuð eilífra skulda? Bjuggu þessar klíkur til kreppuna miklu til að öðlast aukin völd? Það fór auðvitað um mann og ég leiddi hugann að því sem hefur verið að gerast hér á landi undanfarin misseri.  Greinin í DV leiðir alls ekki taum þessara mynda en hana má finna hér.

Síðustu fréttir frá hópnum, sem var stofnaður inni á Facebook til að skora á ríkisstjónvarpið til að taka Zeitgeitst: Addendum til sýninga, herma að búið sé að skrifa umboðsmanni myndarinnar og nú sé bara beðið eftir skriflegu leyfi frá honum. Það er því mögulegt að hún verði sýnd í Sjónvarpi allra landsmanna í byrjun næsta árs.

Bakhliðin á kápu Zeitgeist: The Movie

Sá hluti myndarinnar sem ég er búin að horfa á er mjög sláandi. Myndin setti mig reyndar svo út af laginu að ég átti í erfiðleikum með að halda meðvitund yfir þriðja og síðasta hluta hennar. Ég ætla að taka það fram að ég sofna aldrei yfir myndum, sem ég er að horfa á, en þegar ég verð fyrir yfirgengilegu ytra áreiti sem reynir mjög á andlegt þol mitt þá eru viðbrögð mín oft þau að ég verð altekin yfirþyrmandi þreytutilfinningu.

Þó mér þyki hugmyndirnar sem þarna eru settar fram margar sláandi þá þýðir það alls ekki að ég hafi fallið fyrir þeim öllum. Ég get t.d. ekki fallist á það að maðurinn Jesú hafi aldrei verið uppi og allt sem um hann hefur verið sagt og skrifað sé byggt á fölsunum og lygi. Hins vegar hef ég alla tíð verið svo hrifin af samanburðartrúarbragðafræði að ég vissi áður að margt í sögu hans og trúarbrögðunum sem byggja á tilveru hans er tekið beint úr heiðni.

Flest það sem kom fram í öðrum hluta myndarinnar um 11. september vekur svo sannarlega upp spurningar og um leið tortryggni um að sagan sé langt frá því öll sögð. Ég á hins vegar erfitt með að meðtaka það að hún geti verið sú sem kemur fram í myndinni. Ef kenning myndarinnar er rétt þá hefur þurft býsna stóran hóp illmenna til að setja þessa atburðarrás alla á svið. Ég á mjög erfitt með að trúa að illskan geti verið svo yfirgengileg að það hafi verið mögulegt en það er samt ýmislegt við útgáfu bandarískra stjórnvalda á þessari atburðarrás sem stemmir vissulega ekki heldur.

Það var í þriðja hlutanum sem ég var svo yfirkomin að ég byrjaði að missa úr. Annar hluti myndarinnar vakti mér svo mikla sorg því hún minnir svo sannarlega á atriði sem þarfnast viðhlítandi skýringa. Atburðarrásin sem árásin á Tvíburaturnana hratt af stað er ekki síður dapurleg og þetta allt saman setti mig svo út af laginu að ég átti erfitt með að halda meðvitund. Þar sem ég missti þó nokkuð úr þessum síðasta hluta myndarinnar af þessum sökum er ljóst að ég þarf að horfa á hann aftur.

Þessi síðasti hluti myndarinnar fjallar um þá sem eru í aðstöðu til að stýra fjármálamörkuðunum og koma honum jafnvel í þrot til að græða enn meira. Þarna voru settar fram nokkrar ógnvekjandi hugmyndir sem læddust inn í hálfmeðvitundarlausan huga minn en ein tilvitnunin í einn þessara amerísku auðjöfra sló mig sérstaklega. Sá sagði eitthvað á þessa leið: Auður minn er svo mikill að hann hefur mig yfir lögin! En getur það verið að fjármálamorkuðunum um allan heim sé meira og minna stýrt af fingralöngum spillingaröflum?

Ég er sannfærð um að dýpt efnahagslægðarinnar hér á landi er af mannavöldum! Ég leyfi mér þó að efast um að þeir hafi staðið á bak við gluggatjöldin og skipulagt núverandi kreppu. Það er samt engum vafa undirorpið í mínum huga að það voru útrásaröflin og þeir sem skýldu þeim í krafti laga og opinberra embætta sem bera ábyrgðina á dýpt hennar. Það er líka ljóst að það eru þessir sömu einstaklingar sem eru í þeirri aðstöðu að þeir geta grætt á þessu ástandi. Og ekki nóg með það heldur eru þeir í aðstöðu til að færa tapið inn í þjóðarreksturinn á þann hátt að það lendir á almenningi að borga upp tapið fyrir þá.

PeningagræðgiÞað má svo alls ekki gleyma því allra, allra yfirgengilegasta sem er það að þessir menn eru líka í aðstöðu til að afskrifa skuldir sínar og við vitum að það hefur verið gert og enn fleiri sækjast eftir að fá þá sömu fyrirgreiðslu (sjá t.d. þessa færslu hjá Jens Guð). En hvað verður um þessar afskriftir? Í mínum haus þá gengur það ekki upp að þær skuldir sem fjármálagreifarnir fá afskrifaðar séu þar með úr sögunni. En getur það þá verið þannig að þeir, sem í krafti síns embættis geta haft bein áhrif á efnahagslíf landsins, séu að færa skuldir sínar í bönkunum yfir á lán almennings í landinu í formi vaxta og verðtrygginga? Ég bara spyr?

Að öllu samanlögðu þá leyfi ég mér að mæla með myndinni Zeitgeist: The Movie. Ég treysti þeim sem sjá hana til að mynda sér sína skoðun á henni en ég er sannfærð um að hún vekur alla til umhugsunar! Að mínu viti er það bara af hinu góða.


Stuðningurinn er alltaf góður

... og ekki veitir okkur af honum núna þegar hagur þjóðarinnar er jafnafskiptur og raun ber vitni. Núverandi aðstæður í samfélaginu benda til myrkar framtíðar með verulegri kjaraskerðingu. Þjóðinni er ætlað að borga óráðsíu samsærissystkina úr röðum stjórnvalda og ríkustu manna landsins.

Undir þessum kringumstæðum veitir okkur ekki af stuðningi. Jafnvel þó hún komi bara frá einum, breskum blaðamanni sem segir að Gordon Brown hafi komið fram við okkur eins og skólastrákur sem sparkar í liggjandi félaga sinn í þeim misskilningi að slíkt muni ganga í augun á stelpunum.

Hann segir líka að hann haldi að við munum spjara okkur. „Þetta er þjóðin sem stofnaði fyrsta lýðræðislega þingið, Alþingi, þjóðin sem barðist við breska sjóherinn til að koma á fyrsta sjálfbæra sjávarútveginum á norðurhveli jarðar, þjóðin sem eignaðist þrjár ungfrúr heim og eitt Nóbelsskáld - og vann síðan silfur í handbolta. Menn eru metnir eftir því hvernig þeir bregðast við óheppni ekki eftir því hvernig menn sóa heppni.“

DraumurKannski við megum leyfa okkur að vera bjarsýn og vona það besta. Þeir mótmælendur sem ég hef borið gæfu til að kynnast bæði hér fyrir norðan og fyrir sunnan fylla mig a.m.k. bjartsýni. Sú einurð, réttlætiskennd og viska sem ég sé skína út úr skrifum margra þeirra hérna á blogginu elur mér vonarfulla drauma.

Ég trúi því að okkur takist að snúa óréttlætinu við í farvegi sínum þó farvegur þess sé vissulega breiður og uppruni og umfang spillingarelfunnar ekki fullkomalega ljós. Ég trúi á réttlætið og á mér draum um að það nái fram að ganga. Ég leyfi mér ekki annað!


mbl.is Brown sparkaði í Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landsflóttinn er hafinn

... og um leið fækkar þeim sem bera byrðarnar.
Einmanna sorg
mbl.is Íslendingar stefna til Noregs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðaratkvæðagreiðsla af hinu góða en...

Auðvitað ætti maður að fagna því að Björn Bjarnason aðhyllist þjóðaratkvæða- greiðslu um ESB-aðild en ég treysti bara ekki blessuðum manninum. Mér finnst líka eitthvað afar meinlegt og mótsagnakennt felast í þessum orðum hans:

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, segist hallast að því, að hugsanleg aðild að Evrópusambandinu snerti svo víðtæka þjóðarhagsmuni, að leita eigi umboðs hjá þjóðinni í atkvæðagreiðslu, áður en aðildarumsókn sé  lögð fram.

Það er ljóst að sú stefna sem hann hefur stutt og þeir málaflokkar sem hann hefur unnið beint og óbeint að undanfarnin 17 ár hafa ekki síður snert víðtæka þjóðarhagsmuni. Af hverjum fékk þjóðin ekki að kjósa um þessa málaflokka. Hér má t.d. nefna: kvótakerfið, einkavæðingu bankanna, einkavinavæðinguna í atvinnulífinu, virkjunarframkvæmdirnar, álversvæðinguna o.s.frv. o.s.frv?

Og síðast en ekki síst af hverju er það ekki lagt undir þjóðaratkvæðagreiðslu hvernig er tekið á núverandi efnahagsástandi? Hefur hann verið tilbúinn til að hlusta á vilja þjóðarinnar í því sambandi? Mitt svar er nei. En af hverju vill hann þá leggja það undir þjóðaratkvæðagreiðslu hvort við viljum ganga inn í ESB eða ekki? Ég hreinlega átta mig ekki á því og þess vegna tortryggi ég hann nú sem endranær. Og ekki bætir það sem haft er eftir honum í lok fréttarinnar úr:

Hann segir, að  innan Sjálfstæðisflokksins sé djúp sannfæring manna fyrir því, að ekki eigi að skerða fullveldið meira en orðið er. Auk þess sé ótti við, að áhugi ESB á, að Ísland gerist aðili, byggist á ásælni í auðlindir og áhrif á Norður-Atlantshafi.  „Hinn almenni félagi í Sjálfstæðisflokknum bregst illa við telji hann, að vegið sé að þessari sannfæringu," segir Björn.

Ég tel nokkuð ljóst að skilningur minn og Björns á orðinu fullveldi fari illa saman. Sjálfstæðisflokkurinn nýtur vissulega fullveldis í landinu og e.t.v. óttast hann að það skerðist við inngöngu landsins í ESB. Miðað við framhaldið í orðum Bjarnar, hér að ofan, er a.m.k. ekki erfitt að álykta sem svo að hann sé fyrst og fremst að tala um fullveldi síns flokks. Á eftir fullveldinu víkur hann orðum sínum að auðlindum landsins og mér sýnist að skilningur okkar á „ásælni“ og ráðstöfun þeirra fari heldur engan veginn saman

Mér virðist nefnilega á öllu, sem Björn og hans flokkur hafa unnið að hingað til, að hann meini að Sjálfstæðisflokkurinn vilji alls ekki missa umboð sitt yfir því hverjir eignist þessar auðlindir. Ég tel að hann vilji umfram allt tryggja það að hann og flokksfélagar hans haldi umboði sínu til að stunda eiginhagsmunaviðskipti með öll verðmæti landsins áfram. Það sem þjóðin veit nú þegar um það hvernig auðlindum landsins hefur verið ráðstafað ætti að vera besti rökstuðningur þess að það er í raun þetta sem Björn á við.

Kannski vill Björn Bjarnason þjóðaratkvæðagreiðslu því hann heldur að tillagan um aðildina verði felld. Ég er ein þeirra sem myndi segja nei því ég get ekki fengið mig til að styðja ESB-aðild. A.m.k. ekki miðað við núverandi aðstæður. Ástæðan er fyrst og fremst sú að efnahagsstefna ESB byggist á þeirri nýfrjálshyggju sem hefur nýlagt efnahagslíf þjóðarinnar í rúst. Ég treysti ekki heldur Evrópusamband- inu fyrir mér og mínum eða öðru sem mér finnst skipta mestu máli.

Það getur vel verið að ég hafi rangt fyrir mér en ég bið þá um ýtarlega og vandaða kynningu á kostum og göllum þess að landið sæki um og gangi inn í ESB áður en að þjóðaratkvæðagreiðslu kemur. Ætli það sé hægt að fara fram á ópólitíska kynninguWink


mbl.is Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarumsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Græðgismanía

Flestir í kringum mig hafa einhverja skoðun á bankahruninu en margir eru svo sjokkeraðir að ég hef ekki náð að átta mig á því hvað þeim finnst eða hvað mér á að finnast um það sem þeir segja að þeim finnist. Svo er það hópur sem ætlar bara ekkert að horfast í augu við það sem gerðist eða afleiðingar þess. Sennilega kemst ekkert okkar hjá því að rekast á afleiðingarnar fyrr eða síðar...

PeningafjallÞeir eru líka margir sem eru enn í losti. Kannski svolítið langt lost í ljósi þess að hrunið átti sér stað fyrir rúmum tíu vikum en svona er þetta nú samt. Eða hvernig á að túlka viðbrögð fólks sem er enn að spyrja sig að því hvernig þetta gat gerst og hvað varð um alla peningana?

Kannski er lengd áfallsins ekkert svo mikil miðað við stærðargráðu þess sem olli því. Svo eru alltaf að bætast við fleiri og fleiri atriði sem valda jafnvel nýju sjokki ofan í það gamla. Þeir sem hafa upplifað alvarleg áföll í lífinu finna það sennilega greinilega á sjálfum sér og sjá það á öðrum í kringum sig að við erum langflest meira og minna í losti enn þá. Áfallið sem við göngum í gegnum núna er að því leyti óvenjulegt og sérstakt að stöðugt bætist við það sem hrinti okkur út í það.

Sögur af spillingu og græðgi, ekki bara auðmannanna, heldur sögur af krosstengslum, mútum, yfirhylmingum og auðgunarbrotum meðal þeirra og hinna sem áttu að hafa eftirlit með þeim, íslensku efnahagslífi almennt svo og stöðu krónunnar. Ég rakst á nýjustu söguna um spillingu og græðgi meðal þingmannananna á blogginu hjá Jakobínu Ingunni Ólafsdóttur í gær og í dag sá ég hana svo aftur í einni athugasemdinni á blogginu hans Arinbjarnar Kúlds. Þar eru allar persónurnar i sögunni nafngreindar.

Þar er ekki bara nafn Davíðs dregið fram en hann er sagður halda öllu samfélaginu í járngreipum vegna allar vitneskjunnar sem hann býr yfir um spillingu hinna. Hver hefur ánetjast henni og hvernig. Það má svo spyrja sig hvaða stigi spillingin hefur náð hjá Seðalbankastjóranum sjálfum? Hann situr nefnilega í einu æðsta embætti landsins fyrir hönd þjóðarinnar en notar það sem hann á að fylgjast með í eigin þágu; kannski Hannes fái einhverja hagnaðarmola af því líka... og gleymir svo algerlega þeim hagsmunum sem hann þiggur laun fyrir að verja?

Má til með að enda á meinlegu nótunum í þetta skiptið og benda á að ég held að það sé búið að skipta Gróu á Leiti út fyrir Dabba í HoltiShocking


Við sem mótmælum, okkur miðar áfram!

Ég hlakka til að lesa meira um mótmælin á Austurvelli. Ég held að þetta hljóti að hafa verið mögnuð upplifun fyrir þá sem voru þarna viðstaddir. Flott hugmynd og táknræn. Eins og hinsta kveðja... með viðeigandi niðurtalingu og þögn á milli.

Hér á Akureyri var safnast saman við Samkomuhúsið að venju og gengið þaðan inn á Ráðhústorg. Ég hef minnst á það áður að það hefur vakið athygli mína að lögreglan hér hefur greitt fyrir mótmælendum með því að stöðva umferð upp og niður Kaupangsstrætið við gatnamótin næst upphafi göngugötunnar. Þeir gerðu það líka í dag en þeir gerðu fleira til að greiða fyrir mótmælunum núna.

Það er búinn að vera brunagaddur hérna fyrir norðan í allan dag. Það var m.a.s. svo kalt í hádeginu að ég þurfti að þýða upp læsinguna á bílstjórahurðinni á bílnum mínum þannig að hurðin lokaðist aftur. Kuldinn beit líka á mótmælendum í göngunni en þegar við komum inn á Ráðhústorg beið lögreglan okkar með heitt kakó, kaffi og piparkökur. Þjónustan var slík að þeir voru m.a.s. með mjólk fyrir þá sem þoldu ekki fullan hita.
LöggukakóKaldir mótmælendur nýttu sér þetta að sjálfsögðu og verðir laganna slógu því fram í hálfkæringi að sælla væri að gefa en taka. Ræðumenn dagsins voru tveir. Það voru þeir Guðmundur Ármann Sigurjónsson, myndlistarmaður og -kennari, og Þorsteinn Pétursson, lögregluþjónn. Betur þekktur sem Steini P. hérna fyrir norðan.

Guðmundur Ármann lýsti yfir áhyggjum sínum af lymskufullri aðgerðaráætlun stjórnvalda undanfarnin ár sem hefur miðast að því að sölsa undir sig öll svið samfélagsins og vinna þannig að algerlega einsleitri upplýsingamiðlun og skoðanamyndun. Hann tók nokkur dæmi þar að lútandi en lauk máli sínu með mjög fróðlegum ábendingum um það hvernig mætti lesa í líkamstjáningu ráðherranna.
Þetta þýðir lygi

Ég veit að myndin hér til hliðar er alls ekki nógu góð en þó sýnir hún eina af þessum algengu handa- hreyfingum sem Guðmundur tók dæmi um að ráðherrar noti mikið í viðtölum og túlkaði fyrir okkur. Þessi staða handanna sagði hann að táknaði það að ráðherra gerði sér fulla grein fyrir því að málflutningur hans væri fullkomlega óheiðarlegur.

M.ö.o. það sem við eigum að lesa út úr þessari handahreyfingu er það að það sem ráðherrann er að segja, á meðan hann beitir höndunum þannig, er fullkomin lygi. Það er einmitt mjög fróðlegt að skoða líkamstjáningu Ingibjargar Sólrúnar í viðtalinu „Blóðug fjárlög“ og ekki síst handahreyfingar hennar í þessu samhengi!

Steini P. var næstur á stokk og þar sem þó nokkur umræða hefur verið um stöðu lögreglunnar gagnvart mótmælendum þá var ákaflega jákvætt að fá að heyra rödd eins úr þeirra hópi. Í stuttu máli þá bergmálaði ræða hans það sama og við sem mótmælum höfum ítrekað hvað eftir annað.

Ástæðan fyrir því að svona er komið í íslenskum efnahagsmálum er engin tilviljun heldur stafar það af mannavöldum. Stjórnvöld verða að taka ábyrgð á núnverandi ástandi og skipa rannsóknarnefnd sem nýtur trausts og rannskar aðdragandann ítarlega. Þeir sem bera ábyrgð eiga að sæta henni. Allt, auðvitað, eitthvað sem liggur í augum uppi fyrir öllum heilbrigðum einstaklingum en það er samt jákvætt að einn úr hópi lögreglunnar skuli hafa burði til að standa upp og taka undir réttlætiskröfur sístækkandi hluta þjóðarinnar.

Steini P. lauk svo máli sínu með því að ítreka að við erum þjóðin. Við erum ein fjölskylda og við verðum þess vegna að standa saman. Sagði hann til að knýja fram réttlæti? Held þaðWoundering en ég vona að hann fyrirgefi mér ef ég er að skeyta því við málflutning hans.

Í lok fundarins boðaði Guðrún Þórs, sem stýrði fundinum í dag, áframhaldandi mótmælaaðgerðir hér á Akureyri n.k. laugardag kl. 15:00.


mbl.is Vekjaraklukka fyrir stjórnvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband