Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011
Það er til leið út úr þessu rugli!
13.4.2011 | 16:46
Í lok október lögðu Tunnurnar til leið sem er ekki síður fær nú. Tunnurnar settu í loftið undirskriftarlista sem má finna hér. Mikillar tortryggni hefur gætt um þessa leið en eins og má sjá á síðustu færslum hefur verið reynt að benda þingmönnum á að þeir eru í bestri aðstöðu til að skapa skipun slíkrar stjórnar lýðræðislegri ramma. Þeir sem hafa ekki kynnt sér þessa leið nú þegar bendi ég á þessa færslu hér þar sem er varpað fram spurningum og svörum um utanþingsstjórn.
Ég hvet lesendur til að velta því vandlega fyrir sér hvort þeir vilji heldur fá að kjósa um sömu gömlu flokkana eða fá tækifæri til að kjósa um fólk sem yrði settur fyrir verkefnalisti á við þann sem settur var fram í tilefni áskorunarinnar á forsetann. Þessi hópur myndi verða skipaður til bráðabirgða til að vinna að lausnum á því neyðarástandi sem blasir við í samfélaginu. Hámarkstíminn yrði tvö ár og þá yrði gengið til kosninga skv. nýrri stjórnarskrá.
Umræður um vantraust | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Boð grasrótarinnar um samvinnu hefur lítil viðbrögð fengið
12.4.2011 | 15:34
Aðfararnótt sl. sunnudags sendi ég bréf á alla þingmenn. Bréfið var skrifað 17. janúar sl. og sent í nafni Tunnanna í aðdraganda þess að þær komu saman á Austurvelli þann dag. Bréfið var birt á svipan.is. Sjá hér: http://www.svipan.is/?p=23272
Sex þingmenn svöruðu þessu bréfi og fengu í kjölfarið meðfylgjandi svar. Auk þeirra var bréfið líka sent á þá þingmenn sem hafa brugðist við skyldum erindum frá sl. hausti. Þeir sem fengu þetta svar eru allir þingmenn Hreyfingarinnar og tveir þingmenn úr hverjum hinna flokkanna. Þetta eru: Björn Valur Gíslason, Eygló Harðardóttir, Höskuldur Þórhallsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Pétur Blöndal, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Þráinn Bertelsson.
Forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni, var sent afrit af þessu bréfi.
************************************************************
Góðan daginn!
Ég sendi þetta bréf á ykkur sex þar sem það voru aðeins þessir sem svöruðu mér. Hins vegar sendi ég afrit á þá sem hafa brugðist við öðrum skilaboðum svipaðs efnis frá sl. hausti. Ég þakka ykkur sem svöruðuð síðasta bréfi kærlega fyrir viðbrögð ykkar þó ég viðurkenni að ég hefði viljað sjá eitthvað sem benti til að þið væruð tilbúin til að bregðast við meginerindi þess sem var tilboð um samstarf við grasrótina í því skyni að finna lausn á núverandi samfélagsástandi.
Ég trúi ekki öðru en að þingmenn séu allir meðvitaðir um þá stjórnmálakreppu sem blasir við mér og svo miklu fleirum. Þjóðstjórn eða kosningar munu ekki leysa hana, því miður. Það segir sig sjálft að þeim sem hefur ekki tekist að finna leiðir að lausnum hingað til munu ekkert frekar takast það við það að vera steypt saman í þjóðstjórn eða með nýjum kosningum.
Eins og þið vitið auðvitað þá höfum við þrjár leiðir til að rífa okkur upp úr þessari stjórnmálakreppu sem sumir vilja kenna núverandi stjórnvöldum eingöngu um. Tvær þeirra hafa þegar verið nefndar en sú þriðja er utanþingsstjórn.
Án þess að fara út í störf Alþingis á undanförnum árum fram til nútímans og án þess að kafa ofan í það í hverju munur og/eða ábyrgð þeirra ríkisstjórna, sem hafa setið hér á sl. tuttugu árum, liggja þá vil ég ítreka að ég stílaði upphaflega bréfið á alla þingmenn. Það gerði ég án tillits til þess hvaða stjórnmálaafli þeir tilheyra eða hvort þeir hafi einhvern tímann átt sæti í ríkisstjórn/-um. Enda hefur engu þeirra stjórnmálaafla sem nú sitja á þingi tekist að auka traust þjóðarinnar til starfa þingsins. Það ætti reyndar að valda öllum starfandi þingmönnum sameiginlegum áhyggjum hvað Alþingi nýtur lítils trausts.
Eins og áður hefur verið vikið að munu hvorki þjóðstjórn né kosningar leysa núverandi stjórnmálakreppu. Það er ekki síst vegna vantrausts stórs hluta þjóðarinnar til starfandi stjórnmálaflokka svo og Alþingis sem það verður að finna aðra leið.
Utanþingsstjórn er eina leiðin sem okkur býðst í þeirri stöðu þegar þjóðstjórn og kosningar eru út úr myndinni. Hins vegar er ljóst að sú stjórnskipunarhefð sem Sveinn Björnsson skapaði í sinni forsetatíð með skipun utanþingsstjórnar er langt frá því að vera fullkomin. Meginerindi bréfsins sem ég endursendi á alla þingmenn nú um helgina var að bjóða samstarf/óska eftir samstarfi til að búa skipun slíkrar stjórnar, sem væri kannski nær að kalla neyðar- eða bráðabirgðastjórn, ramma sem væri líklegri til að bæta úr því ófremdarástandi sem hefur lagt samfélag okkar undir sig.
Ég bið ykkur að skoða tillögu um einhvers konar samstarf af fullri alvöru. Í þessu sambandi vil ég taka það skýrt fram að ég er alls ekki að sækjast eftir því að ég komist til áhrifa heldur að leggja mitt að mörkum til að hér sé hægt að koma á sáttum. Mín ósk er sú að fulltrúar allra þingflokka, fulltrúar fræðimannafélagsins og fulltrúar þeirrar grasrótar sem hafa ekki eingöngu tekið þátt í viðspyrnunni frá haustinu 2008 heldur hafa margir unnið þar að því að setja fram hugmyndir að lausnum til að hér megi byggja upp nýtt og framsækið samfélag.
Ég leyfi mér að fullyrða að án slíkrar samvinnu mun okkur ekkert miða áfram. Við sitjum föst í sama farinu nema við tökum höndum saman og vinnum saman að uppbyggilegri lausn. Verði það ekki gert mun gjáin sem hefur skapast á milli þings og þjóðar eingöngu breikka og heiftin í samfélaginu aukast með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Með einlægri von um að ykkur auðnist að hlusta og opna hug ykkar fyrir nýjum leiðum til árangurs.
Tillaga um vantraust lögð fram | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Að einkavæða skuldirnar og þjóðnýta tapið
9.4.2011 | 03:03
Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu í gær og mér þykir við hæfi að tengja hana við þessa frétt. Ég tek það fram að fréttin sló mig verulega þar sem Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, hefur ekki tjáð sig fyrr um það sem fram hefur farið í samfélaginu frá hruninu haustið 2008. Það hefur hún ekki gert þrátt fyrir að á hana hafi verið gengið en hún kýs að gera það nú degi fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um þetta viðkvæma Icesave-mál.
Frá bankahruninu haustið 2008 hefur það blasað við öllum sem vilja skilja að krafa fjármálaelítunnar á kostaða stjórnmálastétt er sú að hún tryggi það að gróði hennar verði einkavæddur en tapið þjóðnýtt. Þetta er kjarni þess sem skilur að hinar andstæðu fylkingar sem hafa verið kenndar við JÁ-ið og NEI-ið.
Einhverjir hafa reynt að halda því fram að Icesave-málið sé alltof flókið fyrir venjulegt fólk að skilja. Ég bið fólk um að varast slíkan áróður. Í reynd snýst málið fyrst og síðast um tvo andstæða póla sem má kalla A og B.
A) Snýst um það hvort hagsmunir fjármagnseigenda eru settir á oddinn með því að herða að kjörum almennings í gegnum skatta- og velferðarkerfið.
B) Snýst um það hvort réttlætið verður látið ráða ríkjum þannig að sömu lög gildi um hvítflibbaglæpi og aðra auðgunarglæpi eins og bókhaldssvik og innbrot.
Það er okkar almennings að gera upp hug okkar hvað þetta varðar. Ef við segjum JÁ erum við þar með að viðurkenna að almenningi beri að taka á sig skuldir einkafyrirtækja en ef við segjum NEI erum við að kalla eftir því að þeir sem stofnuðu til Icesave-skuldanna verði látnir bera tjónið af sinni glæfrastarfsemi sjálfir.
Ég bið kjósendur að hafa það hugfast að íslenskur almenningur nýtur þeirra öfundsverðu forréttinda að fá að segja til um það sjálfur hvort hann tekur á sig skuldir einkabanka, eins og Landsbankans, eða ekki. Ég bið kjósendur jafnframt að taka sérstaklega eftir því að þeir sem reka stífan áróður fyrir því að almenningur eigi að bera byrðarnar af Icesave er sama eigna- og valdastéttin og leiddi okkur í hrunið haustið 2008.
Hér hefur nefnilega ekkert uppgjör farið fram þannig að það eru sömu spillingaröflin sem reyna að afvegaleiða okkur nú og þau sem töldu okkur trú um að allt væri í himnalagi í aðdraganda hrunsins. Það ætti öllum að vera í fersku minni hvert það leiddi samfélagið að taka mark á orðum þeirra þá.
Rakel Sigurgeirsdóttir, framhaldsskólakennari
og meðlimur í Samstöðu þjóðar gegn Icesave
Vigdís styður samninginn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Icesave-ælan
9.4.2011 | 00:04
Við Helga Þórðardóttir erum meðal þeirra sem hafa starfað undir merkjum Samstöðu þjóðar gegn Icesave undanfarnar vikur. Eitt af því sem við höfum lagt til baráttunnar gegn því að þessi nýi Icesave-samningur verði lagður á þjóðina er þátttaka í ritun bréfs til forseta Evrópusambandsins og stuðningur við bréf Gunnars Tómasonar til framkvæmdarstjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og forseta Framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins.
Erindunum sem var komið á framfæri í þessum bréfum hefur lítt eða ekkert verið sinnt. Það sem er enn sorglegra er að íslenskir ráðmenn svo og nær öll fjölmiðlastéttin hafa tæpast virt brýn erindi þessara bréfa viðlits. Við Helga lögðumst því í það að skrifa greinar til að draga frekari athygli að innihaldinu. Allt kom fyrir ekki.
Greinarnar urðu alls fjórar. Morgunblaðið birti eina þeirra (ég birti hana líka hér) en Fréttablaðið sniðgekk tvær og pressan.is þá fjórðu. Ein þessara greina birtist á svipan.is í morgun, önnur á kjosum.is nú undir kvöld en sú fjórða birtist hér. Það er sú sem pressan.is sniðgekk en eins og fyrirsögnin og innihaldið bera leggjum við út af þessum orðum Tryggva Þórs Herbertssonar. En hér er greinin:
><> ><> ><> ><>
Æla er magainnihald sem líkaminn hefur ákveðið að losa sig við vegna þess að það er líkamanum skaðlegt. Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður, hefur líkt Icesave við ælu en ætlar samt að kyngja henni. Gunnar Tómasson, hagfræðingur, telur aftur á móti að hún sé best komin í dallinum.
Gunnar skrifaði bréf til framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Dominiques Strauss-Khan og forseta Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, José Manuels Barrosos. Við vorum ellefu sem skrifuðum undir þetta bréf. Þar bendir Gunnar Tómasson á að Icesave-ælan gæti reynst þjóðinni hættuleg.
Í bréfinu kemur fram að horfur Íslands séu verri en menn gerðu ráð fyrir við gerð hinna svokölluðu Brussels-viðmiða í nóvember 2008. Þar var gert ráð fyrir að taka ætti tillit til efnahagsaðstæðna Íslands við gerð Icesave-samninganna.
Nú hefur komið fram að á næstu árum verða tekjur landsins minni og skuldir hærri en gert var ráð fyrir. Gunnar Tómasson bendir á að í núverandi Icesave-samningi er ekki tekið mið af þessu staðreyndum. Álit sitt byggir hann á nýútkominni skýrslu AGS. Hann vann þar árum saman og skilur því manna best tungutak þeirrar stofnunar.
Gunnar bendir á þá staðreynd að skuldir Íslands eru það miklar að ekki er hægt að standa við Icesave-samninginn. Hann bendir reyndar á að skuldirnar gætu vel verið ósjálfbærar og það án Icesave. Þess vegna telur Gunnar Tómasson að Icesave-ælan sé best komin í dallinum og ekki sé á það hættandi að kyngja henni. Timburmennirnir eftir fylliríið fyrir 2008 eru Tryggva Þór hins vegar svo þungbærir að honum virðist Icesave-ælan jafnvel svalandi.
Að ætla okkur hinum að kyngja ælunni með honum er engan veginn við hæfi!
Átt þú í vandræðum með að gera upp hug þinn?
8.4.2011 | 21:12
Ef svo er gæti framsetning þessa myndbands e.t.v. hjálpað þér:
Kjörsókn nálgast 10% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Okkur hefur verið gefið alveg einstakt tækifæri!
8.4.2011 | 02:40
Í síðustu færslu vakti ég athygli á rökum fjögurra þingmanna sem liggja til grundvallar því að þeir ætla að segja NEI í þjóðaratkvæðagreiðslunni um nýju Icesave-lögin. Hér ætla ég að vekja athygli á svörum tveggja ungra Íslendinga sem benda á það einstaka tækifæri sem þjóðinni hefur verið gefið til að breyta sögunni. Við höfum nefnilega tækifæri til að segja NEI við því að skuldum einkafyrirtækja sé velt yfir á almenning!
Það eru Björg Fríður Elíasdóttir og Hákon Einar Júlíusson sem útskýra hvers vegna þau ætla að segja NEI við við nýju Icesave-lögunum á morgun. Í lokin flytur svo Andreas frá Sviss íslensku þjóðinni skilaboð sem eru mjög í anda þeirra hugmynda sem koma fram hjá hinum tveimur um að íslenskt NEI muni koma almenningi í örðum löndum best í sameiginlegri baráttu.
Hákon Einar Júlíusson, sem er m.a. einn umsjónarmanna gagnauga.is, segir NEI vegna þess að það þjónar frelsinu og réttlætinu. Það að skella skuldum alþjóðlegu bankaelítunnar á almenning gerir það hins vegar ekki. Hákon undirstrikar að Íslendingar hafi tækifæri til að sýna bankaelítunni fingurinn með því að segja NEI í þjóðaratkvæðagreiðslunni á morgun.
Björg Fríður Elíasdóttir, byrjar á því að vísa í Brussel-viðmiðin sem kveða á um það að allir eiga að bera jafna ábyrgð. Þ.e. Bretar, Íslendingar og Hollendingar en í þessum samningi bera Íslendingar einir ábyrgðina. Hún minnir líka á að Bretar og Hollendingar neituðu að samþykkja fyrirvara um að þeir myndu ekki ganga að auðlindum okkar ef við getum ekki borgað. Björg segir að það séu sterkar líkur á að við getum ekki greitt og spyr: Og hvað þá?!
Í framhaldinu segir hún að í grunninn sé Icesave-málið spurning um rétt eða rangt. Hún bendir á að það sé ekki rétt að láta almenning greiða skuldir einkaelítunnar. Í lokin undirstrikar Björg að þjóðin hafi einstakt tækifæri til að segja NEI fyrir allan heiminn enda finnum við það í hjarta okkar að það er rangt að viðhalda svo óréttlátu hagkerfi.
Almenningur víða í Evrópu, og utan hennar líka, hefur risið upp og flykkst út á götur til að mótmæla ósanngjarni efnahagsstefnu landa sinna. Í aðalatriðum snýst hún um það sama og hér en í meginatriðum gengur hún út á það að einkavæða gróðann og þjóðnýta tapið.
Það er auðvitað misjafnt hvað þessir horfa út fyrir eigin lögsögu en þó eru þeir allnokkrir sem horfa eftirvæntingar- og vonaraugum hingað til Íslands og bíða þess hvernig við förum með það tækifæri sem forsetinn gaf okkur með því að vísa nýju Icesave-lögunum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Íslenskur almenningur hefur nefnilega fengið einstakt tækifæri til að segja NEI við þeirri rangsleitni að almennir borgarar skuli bera tap fjármálaelítunnar.
Andreas frá Sviss, er einn þeirra sem bíður í ofvæni eftir því að sjá hvernig íslenska þjóðin fer með þetta tækifæri. Hann flytur þjóðinni þjóðinni þau skilaboð að Icesave verði að hafna með skýru NEI-i til að Íslendingar endurheimti virðingu sína og reisn meðal annarra þjóða. Andreas hvetur íslensku þjóðina til að sýna heiminum að hún sé ekki leikfang fjárglæframanna og biður hana um að láta óttann ekki stjórna sér í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu heldur segja afdráttarlaust NEI!
Atli og Lilja setja x við nei | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þingmennirnir sem segja NEI
7.4.2011 | 04:45
Ég reikna með að lesendum sé það enn í fersku minni hverjir það voru sem höfnuðu nýju Icesave-lögunum í atkvæðagreiðslunni á Alþingi um miðjan febrúar sl. Það voru 16 þingmenn úr öllum flokkum nema Samfylkingunni. Þrír sátu hjá.
Það er rétt að telja þá upp sem sögðu nei en það eru: Ásmundur Einar Daðason, Birgir Ármannson, Birgitta Jónsdóttir, Birkir Jón Jónsson, Eygló Harðardóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Höskuldur Þórhallsson, Lilja Mósesdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Pétur H. Blöndal, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Sigurður Kári Kristjánsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Vigdís Hauksdóttir og Þór Saari.
Samstaða þjóðar gegn Icesave fékk fjóra fulltrúa úr þessum hópi til að svara spurningunni: Af hverju ætlar þú að segja NEI við nýju Icesave-lögunum í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu? Viðtölin fóru fram á Austurvelli en auk þingmannanna var þessi sama spurning lögð fyrir bæði lærða og leika. Viðtölin hafa öll verið birt á undanförnum vikum inni á You Tube ýmis í syrpum eða stök.
Viðtölin við þingmennina fjóra fara hér á eftir en rætt var við einn fulltrúa þeirra flokka sem áttu þingmenn sem sögðu NEI í atkvæðagreiðslu þingsins um Icesave-frumvarpið. Þeir sem rætt var við eru: Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Vinstri grænna, Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks og Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar. Viðtalið við Ásmund var tekið upp miðvikudaginn 6. apríl en hin þrjú 11. mars.
><> ><> ><>
Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Vinstri Grænna, bendir á að hræðsluáróðurinn sem viðhafður hefur verið af já-sinnum eigi ekki við nein rök að styðjast og hvetur væntanlega kjósendur til að segja nei við löglausum hótunum Evrópusambandsins, Breta og Hollendinga og tekur það fram að þá muni framtíðin verða miklu bjartar.
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, ætlar að segja NEI vegna þess að Íslendingum ber engin lagaleg skylda til að taka á sig skuldir einkafyrirtækis. Hann segir jafnframt að hag okkar sé best borgið með því að málið fari fyrir dómstóla.
Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur trú á málstað okkar Íslendinga. Hún segir samningana bæði óskýra og ósanngjarna og mikla óvissa í þeim fólgna. Hún bendir jafnframt á að það sé minni óvissa í því fólgin að láta reyna á það hvað Bretar og Hollendingar muni gera þegar við segjum NEI.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, segir það fráleitt að velta skuldum einkafyrirtækis yfir á almennings í landinu ekki síst í ljósi þess að Landsbankinn hafi sennilega verið rekinn sem einhvers konar glæpafyrirtæki. Auk þess tekur hann það fram að mikil áhætta fylgi þessum samningi og bendir á að miðað við ekkert svo ólíklegar forsendur geti núverandi samningur hæglega farið upp í 233 milljarða.
Gylfi: Ekki afstaða ASÍ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10 góðar ástæður til að segja NEI!
6.4.2011 | 21:51
Þeim er bara engan veginn treystandi!
6.4.2011 | 03:51
Eins og ég benti á hér þá eru það sömu spillingaröflin og leiddu bankahrunið yfir þjóðina, haustið 2008, sem reyna að afvegaleiða okkur nú. Hér var nefnilega bara gerð rannsókn á því hvernig fjármagn og stjórnmálalíf hafði unnið saman að fléttunni fyrir hrun. Niðurstöðurnar komu út í níu binda skýrslu sem varð tilefni þó nokkurra hanasýninga í steinhúsinu niður við Austurvöll. Enginn hefur hins vegar verið látinn bera ábyrgð nema þá helst almenningur sem líður fyrir vanhæfa stjórnmálastétt sem kann ekkert nema að sýnast.
Meiri hluta þeirrar elítu, sem hefur hertekið alþingishúsið niður við Austurvöll, þykir líka sjálfsagt að almenningur borgi skuldir þeirra sem lögðu grunninn að þessari elítu með fjárglæfrastarfsemi á heimsvísu. Við höfum fengið að sjá framan í þó nokkra sem tilheyra þessum hópi í þó nokkrum auglýsingum þeirra sem í blindni sinni kalla sig Áfram-hópinn. Hér er m.a. átt við svokallaða ráðherraauglýsingu hópsins:
Sama dag og þessi auglýsing birtist sem heilsíða í stærstu prentmiðlum landsins, eða 2. apríl, gerði Jakobína Ingunn Ólafsdóttir mjög góða grein fyrir því hvernig þessi hópur tengist spillingu og sjálftöku. Ég vona að fólk sé ekki svo gleymið að það sé búið að gleyma því hvernig mörg þessara lögðu grunninn að því hruni sem samfélagið rataði í haustið 2008.
Fyrir þá sem eru farnir að ryðga í því hvernig þessi unnu gegn grunnstoðum samfélagsins en möluðu undir eigna- og valdastéttina með verkum sínum má benda á þessa sem eru af sama sauðahúsi spillingar og sjálftöku. Því miður eru það þessir sem hafa lagt undir sig alla helstu fjölmiðla landsins undir áróður sinn sem er reyndar í aðalatriðum endurtekið efni frá því fyrir ári síðan...
Að lokum er hér upprifjun á því hvað þingmennirnir sem styðja Icesave III, meðal annars með þeim rökum hvað þessi samningur á að vera mikið betri en Icesave II, sögðu í umræðum og við atkvæðagreiðslu á Icesave-samningnum sem þjóðin hafði vit á að forða sér undan í þjóðaratkvæðagreiðslunni fyrir u.þ.b. ári síðan.
Þetta eru stjórnarþingmennirnir: Þráinn Bertelsson, Björn Valur Gíslason, Steingrímur J. Sigfússon, Þuríður Bachman, Árni Páll Árnason, Oddný G. Harðardóttir, Helgi Hjörvar, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Magnús Orri Schram, Sigmundur Ernir Rúnarsson og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.
Það ætti að liggja í augum uppi að ekkert þessara er þess umkomið að ráða þjóð sinni heilt!
Minnka þarf óvissu í efnahagslífi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vilt þú borga skuldir einkafyrirtækja?
6.4.2011 | 02:03