Neyðarkall frá íslenskum borgurum til AGS og ESB

Að frumkvæði Gunnars Tómassonar, hagfræðings og fyrrverandi ráðgjafa hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, og fleiri Íslendinga var meðfylgjandi bréf sent til Dominiques Strauss-Khans, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, og José Manuels Barrosos, forseta Framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins. Bréfið var sent til þeirra í ljósi þess lykilshlutverks sem AGS og ESB skipuðu í nóvember 2008 þegar samningaviðræðurnar vegna Icesave hófust.

Á þessum tíma setti AGS fram spár um efnahagshorfur Íslands og gengið var frá samkomulagi um að ef efnahagsþróun landsins yrði umtalsvert verri en þessar spár gerðu ráð fyrir þá gæti Ísland farið fram á viðræður við Bretland og Holland vegna þeirra þátta sem liggja til grundvallar frávikinu og um sjálft viðfangsefnið Icesave. Nýlegt mat AGS á þróuninni á árunum 2009 til 2010 og spár fyrir 2011 til 2013 gefa mun verri mynd en fyrri spár.

Bréfritarar hafa áhyggjur af því að núverandi frumvarp um Icesave-samninginn, sem verður lagt fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslunni 9. apríl n.k., endurspegli ekki þessa neikvæðu þróun. Því fara bréfritarar þess á leit við AGS og ESB að þessar stofnanir „geri ítarlegt og sjálfstætt endurmat á skuldaþoli Íslands annars mun vanhugsuð úrlausn Icesave-málsins þröngva Íslandi í ósjálfbæra erlenda skuldagildru.“

Reykjavík 28. mars 2011

Hr. Dominique Strauss-Kahn
framkvæmdarstjóri
Alþjóðagjaldeyrissjóðsins
Washington
, DC 20431
USA

/
Hr. José Manuel Barroso
forseti Framkvæmdarstjórnar Evrópusambansins
1049 Brussels, Belgium

Kæri, hr. Strauss-Kahn. / Kæri, hr. Barroso.

Eftir hrun íslenska bankakerfisins í október 2008 féll verg landsframleiðsla (VLF) um 25% á næstu tveimur árum eða úr 17 milljörðum bandaríkjadala niður í 12‚8 milljarða bandaríkjadala (USD). Ef spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um 14,8% vöxt vergrar landsframleiðslu næstu þrjú árin gengur eftir mun hún nema 14,7 milljörðum bandaríkjadala árið 2013 og vera 13% lægri en árið 2008.

Horfurnar eru aðeins skárri ef mið er tekið af vergri landsframleiðslu á stöðugu verðlagi í íslenskum krónum . AGS spáir að árið 2013 verði verg landsframleiðsla um 2-3% lakari en árið 2008 sem þýðir að hún verður 4-6% lægri en AGS spáði í nóvember 2008.

Með öðrum orðum þá eru efnahagshorfur Íslands umtalsvert lakari en gengið var út frá við gerð svokölluðu Brussels viðmiða fyrir ICESAVE samninga sem aðilar málsins samþykktu undir handleiðslu viðkomandi stofnunar Evrópusambandsins (ECOFIN) í nóvember 2008.

Jafnframt telur AGS að vergar erlendar skuldir Íslands í lok ársins 2009 hafi verið um 308% af vergri landsframleiðslu. Það þýðir nærri tvöfalt það 160% hlutfall sem sjóðurinn spáði í nóvember 2008. Í skýrslu AGS um Ísland, dagsettri 22. desember 2010, er því spáð að vergar erlendar skuldir Íslands muni nema 215% af vergri landsframleiðslu í árslok 2013 (sjá töflu 3, bls. 32 í umræddri skýrslu) eða liðlega tvöfalt það 101% hlutfall sem spáð var í nóvember 2008 (sjá töflu 2, bls. 27 í sama riti).

Vergar erlendar skuldir Íslands í lok 2009 voru langt umfram það 240% hlutfall  af vergri landsframleiðslu sem starfsmenn AGS mátu sem „augljóslega ósjálfbært” í skýrslu þeirra sem er dagsett 25. nóvember 2008 (sjá bls. 55 í þessari skýrslu).

Meginmarkmið þess samningaferils um ICESAVE sem hleypt var af stokkunum í nóvember 2008 var að tryggja uppgjör á flóknum málum sem viðkomandi aðilar, að meðtöldum ESB og AGS, voru einhuga um að leiða til farsællar lausnar samhliða endurreisn íslenska hagkerfisins. 

Við undirritaðir Íslendingar höfum verulegar áhyggjur af því að fyrirliggjandi drög að samkomulagi um ICESAVE samrýmist ekki þessu meginmarkmiði, og vísum í því sambandi til umsagna AGS um þróun og horfur varðandi innlendar hagstærðir og erlenda skuldastöðu Íslands hér að ofan.  

Því förum við þess virðingarfyllst á leit við ESB og AGS að þessar stofnanir takist á hendur ítarlegt og sjálfstætt endurmat á skuldaþoli Íslands svo að vanhugsuð úrlausn ICESAVE-málsins þröngvi ekki Íslandi í ósjálfbæra erlenda skuldagildru.

Virðingarfyllst,

Gunnar Tómasson, hagfræðingur

 

Ásta Hafberg, háskólanemandi

Gunnar Skúli Ármannsson, læknir

Helga Þórðardóttir, kennari

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, stjórnsýslufræðingur

Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna

Rakel Sigurgeirsdóttir, framhaldsskólakennari

Sigurjón Þórðarson, formaður Frjálslynda flokksins

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar

Þórður Björn Sigurðsson, starfsmaður Hreyfingarinnar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég tek undir þetta bréf ykkar....

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 31.3.2011 kl. 01:31

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Það líst mér á

Rakel Sigurgeirsdóttir, 31.3.2011 kl. 01:53

3 Smámynd: Benedikta E

Frábært hjá ykkur - Takk fyrir þetta.

Benedikta E, 31.3.2011 kl. 02:27

4 Smámynd: Berglind Nanna Ólínudóttir

Snilldarlega skrifað bréf, og svo sannarlega orð í tíma töluð! Takk fyrir þetta!

Berglind Nanna Ólínudóttir, 31.3.2011 kl. 03:12

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Það er Gunnar Tómasson sem á frumkvæðið að þessu bréfi. Það vekur vonandi verðskuldaða athygli svo og tilætluð viðbrögð.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 31.3.2011 kl. 03:27

6 Smámynd: Sigurður Hrellir

Gott að vekja athygli á þessu. Takk kærlega.

Sigurður Hrellir, 31.3.2011 kl. 09:11

7 identicon

Ég er að leita raka með og móti Icesave samkomulaginu - þessu allra nýjasta. Hef talsverðan áhuga á stjórnmálum (ekki endilega flokkapóltík), enda tel ég þann mann félagslega dauðan, sem engan áhuga hefur á þannig málum. Í Silfri Egils nýverið, sagði viðmælandi Egils, að skuldir ríkissjóðs væru 72% af vergri landsframleiðslu, sem er mun lægri tala, en ég hefði búist við. Jafnframt var nýlega "upplýst", að skuldastaða Íslands (væntanlega samanlögð skuldastaða einka- og hins opinbera geira) væri betri nú en fyrir hrun. Þetta síðasttalda segir mér reyndar ekki mikið, enda afskrifuðu erlendir lánadrottnar dugi milljarða dollara af skuldum hinna föllnu banka í kjölfar hrunsins. Hrunið var með öðrum orðum löngu tímabært og hefði betur orðið fyrr. Lengi vel virtist sem enginn hefði hugmynd um, hver skuldastaða þjóðarbúsins eða ríkissjóðs væri. Nú virðist eitthvað að skýrast um það. Samt ber tölum illa saman. Eru menn kannski að tala um ýmist skuldir ríkisins eða heildarskuldir þjóðarbúsins - við útlönd?

Eins væri gott að fá upplýst, hverjar líkur eru á að ríkissjóður yrði dæmdur til að greiða innistæðueigendum (eða ríkissjóðum Breta og Hollendinga fyrir þeirra hönd) uppí topp allar innistæður, einnig umfram lágmarkstryggingu, ef við höfnum Icesave.

Sigvaldi Ásgeirsson (IP-tala skráð) 31.3.2011 kl. 12:07

8 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Flott bréf og hafið þakkir fyrir.

Sigurður Haraldsson, 31.3.2011 kl. 14:29

9 Smámynd: Margrét Elín Arnarsdóttir

Sigvaldi, Icesave III gengur einmitt út á það að greiða innistæðueigendum allt upp í topp!

Margrét Elín Arnarsdóttir, 5.4.2011 kl. 19:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband