Boð grasrótarinnar um samvinnu hefur lítil viðbrögð fengið

Aðfararnótt sl. sunnudags sendi ég bréf á alla þingmenn. Bréfið var skrifað 17. janúar sl. og sent í nafni Tunnanna í aðdraganda þess að þær komu saman á Austurvelli þann dag. Bréfið var birt á svipan.is. Sjá hér: http://www.svipan.is/?p=23272

Sex þingmenn svöruðu þessu bréfi og fengu í kjölfarið meðfylgjandi svar. Auk þeirra var bréfið líka sent á þá þingmenn sem hafa brugðist við skyldum erindum frá sl. hausti. Þeir sem fengu þetta svar eru allir þingmenn Hreyfingarinnar og tveir þingmenn úr hverjum hinna flokkanna. Þetta eru: Björn Valur Gíslason, Eygló Harðardóttir, Höskuldur Þórhallsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Pétur Blöndal, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Þráinn Bertelsson.

Forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni, var sent afrit af þessu bréfi.

************************************************************

Góðan daginn!

Ég sendi þetta bréf á ykkur sex þar sem það voru aðeins þessir sem svöruðu mér. Hins vegar sendi ég afrit á þá sem hafa brugðist við öðrum skilaboðum svipaðs efnis frá sl. hausti. Ég þakka ykkur sem svöruðuð síðasta bréfi kærlega fyrir viðbrögð ykkar þó ég viðurkenni að ég hefði viljað sjá eitthvað sem benti til að þið væruð tilbúin til að bregðast við meginerindi þess sem var tilboð um samstarf við grasrótina í því skyni að finna lausn á núverandi samfélagsástandi.

Ég trúi ekki öðru en að þingmenn séu allir meðvitaðir um þá stjórnmálakreppu sem blasir við mér og svo miklu fleirum. Þjóðstjórn eða kosningar munu ekki leysa hana, því miður. Það segir sig sjálft að þeim sem hefur ekki tekist að finna leiðir að lausnum hingað til munu ekkert frekar takast það við það að vera steypt saman í þjóðstjórn eða með nýjum kosningum.

Eins og þið vitið auðvitað þá höfum við þrjár leiðir til að rífa okkur upp úr þessari stjórnmálakreppu sem sumir vilja kenna núverandi stjórnvöldum eingöngu um. Tvær þeirra hafa þegar verið nefndar en sú þriðja er utanþingsstjórn.

Án þess að fara út í störf Alþingis á undanförnum árum fram til nútímans og án þess að kafa ofan í það í hverju munur og/eða ábyrgð þeirra ríkisstjórna, sem hafa setið hér á sl. tuttugu árum, liggja þá vil ég ítreka að ég stílaði upphaflega bréfið á alla þingmenn. Það gerði ég án tillits til þess hvaða stjórnmálaafli þeir tilheyra eða hvort þeir hafi einhvern tímann átt sæti í ríkisstjórn/-um. Enda hefur engu þeirra stjórnmálaafla sem nú sitja á þingi tekist að auka traust þjóðarinnar til starfa þingsins. Það ætti reyndar að valda öllum starfandi þingmönnum sameiginlegum áhyggjum hvað Alþingi nýtur lítils trausts.

Eins og áður hefur verið vikið að munu hvorki þjóðstjórn né kosningar leysa núverandi stjórnmálakreppu. Það er ekki síst vegna vantrausts stórs hluta þjóðarinnar til starfandi stjórnmálaflokka svo og Alþingis sem það verður að finna aðra leið.

Utanþingsstjórn er eina leiðin sem okkur býðst í þeirri stöðu þegar þjóðstjórn og kosningar eru út úr myndinni. Hins vegar er ljóst að sú stjórnskipunarhefð sem Sveinn Björnsson skapaði í sinni forsetatíð með skipun utanþingsstjórnar er langt frá því að vera fullkomin. Meginerindi bréfsins sem ég endursendi á alla þingmenn nú um helgina var að bjóða samstarf/óska eftir samstarfi til að búa skipun slíkrar stjórnar, sem væri kannski nær að kalla neyðar- eða bráðabirgðastjórn, ramma sem væri líklegri til að bæta úr því ófremdarástandi sem hefur lagt samfélag okkar undir sig.

Ég bið ykkur að skoða tillögu um einhvers konar samstarf af fullri alvöru. Í þessu sambandi vil ég taka það skýrt fram að ég er alls ekki að sækjast eftir því að ég komist til áhrifa heldur að leggja mitt að mörkum til að hér sé hægt að koma á sáttum. Mín ósk er sú að fulltrúar allra þingflokka, fulltrúar fræðimannafélagsins og fulltrúar þeirrar grasrótar sem hafa ekki eingöngu tekið þátt í viðspyrnunni frá haustinu 2008 heldur hafa margir unnið þar að því að setja fram hugmyndir að lausnum til að hér megi byggja upp nýtt og framsækið samfélag.

Ég leyfi mér að fullyrða að án slíkrar samvinnu mun okkur ekkert miða áfram. Við sitjum föst í sama farinu nema við tökum höndum saman og vinnum saman að uppbyggilegri lausn. Verði það ekki gert mun gjáin sem hefur skapast á milli þings og þjóðar eingöngu breikka og heiftin í samfélaginu aukast með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Með einlægri von um að ykkur auðnist að hlusta og opna hug ykkar fyrir nýjum leiðum til árangurs.


mbl.is Tillaga um vantraust lögð fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband