Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010
Borgarafundur: Samheldnin í akureysku samfélagi
31.3.2010 | 14:45
Næst síðasti borgarafundurinn á þessum vetri var haldinn fimmtudagskvöldið 18. mars sl. Efni fundarins var samfélgssamheldni sem er nýtt hugtak innan félagsvísindanna og einhvers konar nálgun við merkingu enska hugtaksins intergration innan sömu fræða.
Framsögumenn þessa fundar voru:
- Þóroddur Bjarnason, prófessor við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri
- Hilda Jana Gísladóttir, dagskrármaður hjá N4-sjónvarpi
- Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur í Akureyrarkirkju.
Embla Eir Oddsdóttir sá um fundarstjórn. Pallborðið var skipað núverandi fulltrúum í bæjarráði. Gestir á þessum fundi voru hátt í fjörutíu. Fyrirkomulag fundarins var með hefðbundnu sniðið. Þ.e. framsögumenn byrjuðu að flytja framsögur í ofantalinni röð. Þar reyndu þeir m.a. að svara því hvort samheldnin getur orðið samfélagi okkar til tjóns eða hvort við getum virkjað hana okkur til bjargar á tímum eins og þeim sem nú eru uppi í samfélaginu?
Því næst fengu bæjarfulltrúarnir tækifæri til að bregðast við því sem fram kom í framsögunum og/eða yfirskrift fundarins en í lokin sátu þeir fyrir svörum við spurningum áheyrenda eða tóku við ábendingum frá þeim.
Þóroddur Bjarnason, prófessor við félagsvísindadeildina hér á Akureyri, reið á vaðið með fyrirlestri sem hann kallaði Félagslegur auður Akureyrar: Brýr eða bönd? Ég vil vekja athygli á að glærur Þórodds, sem eru mjög skemmtilega myndskreyttar, fylgja þessari færslu. Krækja sem leiðir inn á þær er að finna hérna neðst.
Framsaga Þórodds Bjarnasonar
Þóroddur byrjaði á því að útskýra hvað hugtakið samfélagssamheldni stendur en það eru: fjárhagslegur auður, mannauður (menntun, hæfileikar, reynsla) og félagslegur auður og tók það fram að í meginatriðum myndi framsaga hans fjalla um það sem sneri að því sem felst í hugmyndinni um félagslegan auð eða auðnum sem er fólginn í tengslunum á milli fólks.
Í því sambandi talaði hann um að þegar fólk hjálpast að gangi hlutirnir hraðar fyrir sig eins og þegar ráðist er í stórframkvæmdir líkt og það að að byggja hlöðu. Slík samhjálp kostar ekkert nema stuðninginn. Þá vék hann að því að peningar geta orðið jafnt til góðs eða ills og að menntun gerir engan góðan. Hana má nota bæði til góðra og illra verka.
Í framhaldinu nefndi Þóroddur nokkur dæmi um það hvernig þessir þættir nýttust í mismunandi verkefnum en sneri sér þá aftur að aflinu sem byggi í hinum félagslega auði. Þar nefndi hann búsáhaldabyltinguna sem gott dæmi um það hverju samvinna og samstaðan getur skilað. Samstaðan sem skapaðist þar varð til þess að koma heilli ríkisstjórn frá.
Hann tók það fram að ýmis samfélög eða hópar verða til þar sem aðilar hjálpast að. Sumir til góðs aðrir til ills. Sem dæmi um jákvæða samhjálp nefndi hann íbúa stúdentagarða sem hlaupa undir bagga hver með öðrum. T.d. í sambandi við barnapössun. Hins vegar benti hann á að hópurinn sem hefur orðið til getur upplifað samstöðuna og hlunnindin sem hann nýtur af tengslunum innan hans sem eitthvað jákvætt.
Upplifun hópsins á gæðum samstöðunnar segir hins vegar ekkert til um það hvernig hún kemur út fyrir þá sem standa utan hans. Sem dæmi um þetta nefndi Þóroddur m.a. Hells Angles og hópinn sem er samankominn á myndinni hér fyrir neðan.
Næst sneri Þóroddur sér að því að skýra hugtakið félagslegan auð enn frekar en það samanstendur að eftirtöldum þáttum: trausti, samstöðu og gagnkvæmum stuðningi. Í gegnum hópinn verður svo til ákveðið tengslanet sem getur einkennst af tvennu. Annars vegar böndum innan hópa en hins vegar brúm á milli hópa.
Félagslegu böndunum sagði Þóroddur fylgir eftirtalið:
- Fjöltengsl styrkja innviði samfélagsins.
- Langvarandi samskipti byggja traust.
- Viðhald sameiginlegra viðmiða.
- Virkt félagslegt taumhald.
- Heildin er sterkari en summa hlutanna
Félagslegu brúunum aftur þetta:
- Veik tengsl stækka tengslanet.
- Fjölbreytt tengsl virkja margar bjargir.
- Nýsköpun og miðlun nýrra hugmynda.
- Frelsi til að byggja sitt eigið net.
- Heildin er sterkari en summa hlutanna.
Í framhaldi þessara skilgreininga varpaði Þóroddur fram spurningunni um það að hve miklu leyti akureyskt samfélag einkenndist af böndum og brúm? Í því samhengi byrjaði hann að skoða hvar íbúar Akureyrar eru fæddir.
Eins og sjá má á glæru 19 (sjá viðhengi með glærum Þórodds neðst í þessari færslu) þá eru 61% Akureyringar fæddir hér en 39% eru fæddir annars staðar. Samkvæmt skilgreiningu Þórodds mynda þessir 39% félagslegar brýr vegna þess að þeir hafa tengsl út fyrir virkið.
Þá vísaði Þóroddur í heimild frá Birgi Guðmundssyni (sjá glæru 20 í glærupakkanum sem er krækt neðst við þessa færslu) sem er samantekt frá árinu 2006 á því hversu lengi akureyskir kjósendur hafa búið á Akureyri. Niðurstöður Birgis sýna að árið 2006 hafði um þriðjungur Akureyringa alltaf búið hér en annar þriðjungur hafið líka búið annars staðar en á Akureyri í meira en 20 ár.
Akureyringar sem eru fæddir á Akureyri eru 10.000 en alls eru íbúar bæjarins 17.000 á móti 250.000 sem búa á Suðvesturhorninu. Ef við lítum á sveitarfélögin við Eyjafjörðinn þá verður við 24.000. Ef við víkkum sjóndeildarhringinn enn frekar og samsömum okkur með þeim sem búa í nágrenni við okkur þá telur heildin 36.000 íbúa.
Þóroddur endaði framsögu sína á því að benda á að brýr liggja í báðar áttir og því fleiri sem standa saman þeim mun líklegra er að sameiginlegir hagsmunir heildarinnar nái fram að ganga. Hins vegar varpaði hann fram þeirri spurningu hvort annað þyrfti endilega að útiloka hitt? Þ.e. að ef við kjósum að byggja félagslegar brýr yfir til nágrannabyggðarlaganna þá þarf það ekki að þýða að við þurfum að henda kostum félagslegra banda.
Framsaga Hildu Jönu Gísladóttur
Hilda Jana byrjaði á því að velta upp mörgum hliðum samheldninnar eða réttara sagt því að hún getur komið fram á ýmsum sviðum. T.d. í samvinnu, fjölskyldum eða innan annars konar hópa. Þá vék hún að sinni upplifun að því að flytja til Akureyrar og komast inn í akureyskt samfélag.
Hún hafði heyrt ýmsar sögur af því að það gæti reynst erfitt að komast inn í samfélagið hér en það var samt ekki hennar reynsla. Akureyringar standa aftur á móti saman þegar eitthvað bjátar á. Þeir koma líka saman til að styðja akureyskt íþróttalið. Auk þess er ljóst að það er bannað að tala illa um eitthvað sem er Akureyringum kært eins og t.d. Hlíðarfjall.
Hilda Jana skemmti sér yfir því að það er engu líkara en samstaðan hér komi ekki síður fram í þegjandi samkomulagi um að standa saman um það að halda því fram að hér sé alltaf gott veður. Þó samstöðunni fylgi ýmsir kostir eins og þeir að akureyskt samfélag virkar eins og ein fjölskylda við ofangreindar aðstæður benti Hilda Jana á að á þessu væru líka neikvæðar hliðar.
Í litlum samfélögum er t.d. rík tilhneiging til að móta alla í sama form. Þeir sem beygja sig ekki undir það komast ekki inn í hópinn og hverfa þess vegna í burtu. Það er líka erfitt að misstíga sig í litlum samfélögum eins og Akureyri. Eitt hliðarspor getur fylgt þér alla ævi því hópurinn man eftir mistökunum og telur þau alltaf með þannig að viðkomandi á í sumum tilvikum ekki séns á að halda áfram eða fá annað mat en hópurinn hefur gefið honum í ljósi hliðarsporsins.
Þá vék Hilda Jana að því hvernig samheldni eða samvinna hefði ekki verið til staðar á milli aðstandenda Fiskidaga á Dalvík og Handverksmarkaðar á Hrafnagili . Í stað þess að vinna saman voru þeir í samkeppni til að byrja með en síðan þegar þeir tóku sig saman njóta báðir atburðir góðs af.
Að mati Hildu Jönu geta margir lært af þeim. Sem dæmi nefndi hún annars vegar verslunarkjarnann í miðbænum og verslunarmiðstöðina á Glerártorgi og hins vegar ýmis veitingahús. Í framhaldi benti hún á að samheldnin gæti líka haft neikvæðar hliðar. Þeir sem líta t.d. á sig sem heild eða það að þeir eru saman í liði forðast gjarnan að ræða það sem er slæmt eða erfitt eða m.ö.o. það sem er fyrirfram vitað að spillir friðnum innan einingarinnar.
Samfélagið þarf nefnilega líka gangrýni. Endalaus jákvæðni leiðir til stöðnunar. Lokar á nýsköpun og aðrar jákvæðar hliðar gagnrýninnar samræðu. Ef samheldnin er orðin að aðalatriði þá getur hún leitt til stöðnunar. Þess vegna verður að forðast það að samheldnin komi í veg fyrir heilbrigð átök eins og t.d. í pólitíkinni.
Framsaga Svavars Alfreðs Jónssonar
Svavar hóf framsögu sína á vangaveltu um það hversu erfitt mörgum reynist að vera öðruvísi og varpaði eftirfarandi fram í því sambandi: Það er svo merkilegt hve fáir eru eins og fólk er flest. Að öðru leyti fjallaði Svavar um samheldnina út frá fjölskylduhugmyndinni. Í því sambandi sagði hann að samheldið samfélag væri eins og ein stórfjölskylda.
Hann sagði að það gæti vel verið að Akureyri hafi einhvern tímann verið þannig samfélag áður en hann kynntist því. Sjálfur ólst hann upp á Ólafsfirði og samfélagið þar var svo sannarlega eins og ein stór fjölskylda. Þeir stóðu saman í gleði og sorg en í því sambandi nefndi Svavar bæði það að við jarðarfarir hefði allur bærinn flaggaði í hálfa stöng og svo það þegar einhver varð foreldri uppskar sá hinn sami hamingjuóskir frá öllum íbúunum.
Samheldni af þessu tagi er miklu fátíðari í stærri bæjum eins og á Akureyri en þó viðurkennir Svavar að hafa heyrt það að samheldnin í akureysku samfélagi sé óþarflega mikil. Hann sagði ennfremur að mjög mikil samheldni væri heldur ekki alltaf æskileg þar sem átök séu líklegri til að leiða til breytinga.
Þá vék Svavar nánar að samheldni innan fjölskyldna sem hann sagði mikilvæga og vitnaði í því samhengi í Stanley Hauerwas. Hann hefur bent á að samheldni fjölskyldunnar hafi verið fórnað fyrir þjóðfélagslega samheldni. Þessu til útskýringar nefndi Svavar sem dæmi að í fjölskyldum væri lögð rækt við ýmis sérkenni eins og sérstakt tungumál eða önnur trúarbrögð en er ríkjandi í þjóðfélaginu sem fjölskyldan býr í.
Það hvernig fjölskyldusamheldninni hefur verið fórnað fyrir þá samfélagslegu kemur ekki síst fram í því að foreldrum er ekki lengur treyst til að ala upp börnin sín. Foreldrar nútímans eru því eins og framkvæmdastjórar í vel smurðu framleiðslufyrirtæki.
Svavar vitnaði í Milton Friedman í þessu samhengi sem sagði að þjóðfélagið hefði ekkert með það að gera hvernig einstaklingurinn nýtir sér sitt persónulega frelsi. Þessi hugmyndafræði hefur leitt það af sér að hver einstaklingur á helst ekki að vera upp á neinn kominn nema sjálfan sig. Foreldrar eiga heldur ekki að vera að innræta barninu neitt af sínum viðhorfum. Barnið á að hafa frelsi til að finna út úr því sjálft hvað hentar því sjálfu best.
Svavar vildi meina að tregða foreldra við að leiðbeina börnunum sínum benti til þess að þeir hafi misst trúna á gildunum sem þeir ólust upp við sjálfir. Hann lauk svo máli sínum með því að benda á að ef við höfum ekki kjark til að leiðbeina börnunum okkar varðandi það hvað felst í því að vera manneskja mun ekki líða á löngu fyrr en hér ríkir algjör upplausn í stað samheldni
Pallborðið
Í pallborði sátu eftirtaldir fulltrúar í bæjarráði Akureyrar:- Erlingur Kristjánsson, varabæjarfulltrúi Framsóknarflokks
- Hermann Jón Tómasson, bæjarstjóri og bæjarfulltrúi Samfylkingar
- Kristín Sigfúsdóttir, bæjarfulltrúi Vinstri Grænna
- Oddur Helgi Halldórsson, bæjarfulltrúi L-lista fólksins
- Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks
Það var komið að því að pallborðið fengi orðið en fyrst fengu þau sem þar sátu tækifæri til að bregðast við því sem kom fram í framsögunum og yfirskrift fundarins. Það varð strax ljóst á viðbrögðum þeirra að margt að því sem hafði komið fram hjá framsögumönnunum hafði vakið þau til umhugsunar um hugtakið samheldni sem er sennilega viðtekið að fólk upplifi sem eingöngu jákvætt.
Oddur Helgi: Fékk orðið fyrstur og vék máli sínu sérstaklega að erindi Þórodds og lagði það út af því að mannauðurinn væri dýrmætari en peningar.
Sigrún Björk: Vék eitthvað að öllum framsögunum og benti á að það hefði verið virkilega athyglisvert að hlusta á fræðimanninn, fjölmiðlamanninn og guðsmanninn og taka þátt í því að upplifa þeirra sýn á akureyskt samfélag svo og hugtakið samheldni frá þessum mismunandi sjónarhornum. Sjálf sagði hún upplifa Akureyringa sem traust og samheldið fólk sem hefði áhuga á samfélaginu.
Hermann: Sagði að leið samstöðunnar og samheldninnar sem farin hefði verið í bæjarpólitíkinni hérá á kjörtímabilinu hefði skilað akureysku samfélagi mun meiru en átökin inni á þingi hefðu skilað íslensku samfélagi. Hann sagði jafnframt að átök ættu við á tilteknum tímum. Þau ættu t.d. vel við í sókn en samheldnin væri líklegri til árangurs í vörn.
Erlingur: Var sérstaklega hugsi yfir því sem kom fram í máli Þórodds en vék líka að því sem Hilda Jana hafði sagði varðandi minnihlutahópa sem hann sagði að hann gæti vel tekið undir með henni að ættu lítinn séns hér.
Kristín: Sagði að það væri sín upplifun að hér á Akureyri ríkti samstaða og samheldni. Annars þakkaði hún Svavari sérstaklega fyrir hans fyrirlestur og tók undir það að fjölskyldubönd hefðu trosnað mikið. Hún vék líka að því að þeir sem vildu verja fjölskylduna ættu gjarnan undir högg að sækja og nefndi skammaryrði eins og forræðishyggjumæður sem væri notað til að gera lítið úr mæðrum sem vildu hafa of mikil afskipti af því hvernig börnin þeirra væru alin upp af stofnunum og félögum sem hefðu eitthvað með þau að gera.
Fyrirspurnir
Gestir á þessum fundi voru tæplega fjörutíu. Þegar opnað var fyrir fyrirspurnir var ljóst að margir meðal áheyrenda voru líka hugsandi yfir því sem fram kom í framsögunum og var fyrstu fyrirspurninni beint til Þórodds sem hann svaraði greiðlega. Í framhaldinu benti fundarstjórinn á að fyrirspurnum skyldi beina til gesta í pallborði. Fyrsta spurningin til þeirra snerist um það hvort fulltrúar í núverandi bæjarráði væru hlynntir stækkun bæjarfélagsins eða einhvers konar samvinnu við nágrannasveitarfélögin sem miðaði að því að byggja brýr á milli þeirra og Akureyrar. Auk þess voru þau spurð að því hvort samheldnin sem samvinna þeirra á yfirstandandi kjörtímabili myndi ekki týnast í kosningabaráttunni.
Kristín: Sagði að hún hefði áhuga á að gera Eyjafjörðinn að einu sveitarfélagi. Hún taldi það m.a. geta stuðlað að því að það mætti verja betur velferðarkerfið á svæðinu.
Erlingur: Sagðist vera fylgjandi stækkun og benti á í því sambandi að þegar maður hefur verið lengi inni í einhverjum tilteknum hópi þá væri maður farinn að hafa það mjög gott þar þess vegna væri líka e.t.v. ástæða til að breyta til.
Hermann: Sagðist vera fylgjandi stækkun því það myndi leiða af sér hagræðingu á ýmsum sviðum. Varðandi samvinnuna á kjörtímabilinu sem nú er að líða undir lok benti hann á að þeim hefði tekist að setja niður meginlínur sem þau urðu sammála um til að verjast. Línan skilaði sér fyrir bæjarfélagið og akureyskt samfélag.
Sigrún: Telur sameiningu jákvæða en er ekki bjartsýn á að hún takist. Sigrún tók undir það með Hermanni að samvinnan hefði skilað sér en efast um að hún verði til staðar í kosningabaráttunni. Hún benti á að samvinnan þýddi ekki að engin átök hefðu orðið. Þau hefðu hins vegar ekki verið gerð opinber.
Hún bætti því við að það hefði verið mjög slæmt að missa svæðisútvarpið því það skipti máli við að viðhalda samheldninni á svæði þess.
Oddur Helgi: Sagðist vilja sameiningu sveitarfélaga frá Vopnafirði til Hrútafjarðar. Hann sagðist vilja 36 fulltrúa í bæjarstjórn en færri bæjarstjórnarfundi. Í stað bæjarstjóra vill hann að ráðinn verði framkvæmdarstjóri.
Hvað varðaði þá samstöðu sem tókst að mynda í bæjarstjórnarpólitíkin hér, sem viðbrögð við hruninu haustið 2008, vildi hann þakka það veru sinni í bæjarráði og þá fyrirmynd sem störf hans þar hafa skapað. Hann sagði að frá því að hann kom inn í bæjarráð þá væri hann búinn að hrista svo duglega upp í hefðbundnu stjórnmálastarfi þar sem meirihluti og minnihluti stæðu gegn hver öðrum. Þetta hefði hann gert með því að standa alltaf með sannfæringu sinni í hverju máli óháð því hvort málin sem tekist var á um voru upprunninn frá meirihlutanum eða minnihlutanum.
Hann hrósaði bæði Hermanni og Sigrúnu fyrir það hvernig þau hefðu tekist á við vandann sem þau stóðu frammi fyrir haustið 2008 en hugmyndin að því að allir ynnu saman að lausn mála hefði sennilega verið óhugsandi nema fyrir það að hann hafði rutt óflokksbundnum vinnubrögðum braut með sínu verklagi.
Rúnar Þór Björnsson, sem er einn þeirra sem vann að stofnun Grasrótar: Iðngarða og nýsköpunar hér á Akureyri, var meðal áheyrenda. Hann sagði að hann hefði áhyggjur af þeim sem eru atvinnulausir og ekki í neinni virkni. Hann benti á að það væri nauðsynlegt að byggja brýr til þeirra.
Birgir Guðmundsson, deildarformaður félagsvísindadeildar Háskólans á Akureyri, benti á að hér á Akureyri væri nær að tala um samstöðupólitík en átakapólitík en spurði eftir fjölmiðlastefnu bæjarins. Í því sambandi sagði hann að samtalið sem færi fram í fjölmiðlum byggi til samfélagið
Kristín: Vill hlúa að ríkisútvarpinu. Ábendingu Rúnars Þórs svaraði hún á þá leið að Almannaheillanefnd og Vinnumálastofnun fylgjast með atvinnulausum og öðrum nauðstöddum en þrátt fyrir það gengur illa að ná til jaðarhópa.
Erlingur: Tók undir með Rúnari Þór varðandi það að það væri ástæða til að hafa áhyggjur af atvinnulausum en benti á að Akureyrarbær stendur sig þó nokkuð vel samanborið við ýmis önnur sveitarfélög.
Hvað fjölmiðlastefnu sagði hann hana ekki hafa verið mikið rædda en hins vegar væri það í höndum Akureyrarstofu að annast ímynd bæjarins í fjölmiðlum.
Hermann: Sagði athugasemd Rúnars Þórs réttmæta þó það bæri að athuga að hér fer fram heilmikil vinna við það að virkja atvinnulausa. Hvað fjölmiðlastefnu bæjarins varðar viðurkenndi hann að engin slík væri fyrir hendi en tók undir það að núverandi ástand væri illþolanlegt.
Sigrún: Sagði það nánast engan sparnað að leggja niður svæðisútvarpið. Hún benti á það að til að byggja upp sterkan norðlenskan fjölmiðil teldi hún árangursríkast að sameina Vikudag og Dagskrána.
Hvað ábendingu Rúnars Þór varðaði taldi hún það ekki auðvelt að ná til þessa hóps. Tengingin væri þó Vinnumálastofnun.
Oddur Helgi: Gerði að umtalsefni að það fylgdi atvinnuleysinu að draga sig í hlé. Hann benti á að hans stefna í fjölmiðlamálum væri að koma L-listanum í fjölmiðla en þar hefur hann átt mjög undir högg að sækja.
Þá kom fyrirspurn sem varðaði áhrif neikvæðrar samheldni sem kemur m.a. fram í klíkuskap og hugsanleg viðbrögð við slíku af bæjarins hálfu.
Oddur Helgi: Sagði að þegar hann kom fram með framboð sitt, L-listann, hefði hann svo sannarlega fundið fyrir afleiðingum klíkuskaparins þar sem allir flokkar hefðu þá tekið sig saman um að standa á móti framboði hans.
Sigrún, Hermann og Erlingur svöruðu fyrirspurninni ekki beint en könnuðust þó öll við það að neikvæð samheldni væri fyrir hendi hér eins og annars staðar.
Kristín: Lá svo mikið á hjarta varðandi þetta efni að hún sagði að það þyrfti hreinlega annan fund til að ræða þetta tiltekna málefni en að hennar sögn er þetta alveg óþolandi oft og tíðum. Hún hefur upplifað það að finnast eins og allt hafi verið ákveðið fyrirfram: verkið, verktakinn og undirverktakar. Hún sagði að borgarafundir og íbúalýðræðið væri helsta vopnið til að berjast gegn því að klíkuskapur af slíku tagi vaði uppi.
Þá var komið að lokum fundarins og lokaði Embla Eir, fundarstjóri, fundinum með því að taka saman efni fundarins þar sem hún sagði að efni framsögumannanna hefði greinilega verið mjög hugvekjandi. Það væri ljóst að samheldni væri flókið fyrirbæri sem hefði á sér ýmsar hliðar; bæði jákvæðar og neikvæðar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.4.2010 kl. 02:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Áframhaldandi áhættufjárfestingar
15.3.2010 | 15:44
Hún er svo sannarlega undarleg forgangsröðunin þegar herðir að. Í stað þess að hlúa að því sem fyrir er, er skorið niður þar en rokið út í byggingu lúxus-sjúkrahúss. Það er ekki velferð íbúanna sem ræður hér för heldur sama firrta gróðahyggjan og setti hér allt á hausinn.
Á meðan heilsugæslum og öðrum sjúkrastofnunum er lokað úti á landsbyggðinni vegna þeirrar aðhaldsstefnu sem er sögð nauðsynleg á núverandi samdráttartímum er rokið út í margra milljarða byggingu fyrir forréttindasjúklinga peningaveldisins. Íbúar landsins eru settir út í kuldann á sama tíma í tvennum skilningi.
Annars vegar eru það þeir sem þurfa á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda sem finna verulega fyrir skertri þjónustu en það er líka heilbrigðisstarfsfólkið sem líður fyrir auranna sem á að kreista út úr heilbrigðisgeiranum svo excel-skjalið yfir hagræðingu og ný útgjöld líti sannfærandi út. Allir skjólstæðingar heilbrigðiskerfisins finna fyrir verðhækkunum á þjónustu en það sem er þó enn tilfinnanlegra fyrir þá sem þurfa virkilega á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda eru lokanirnar og fækkun starfsfólks.
Þeir sem búa út á landi þurfa margir hverjir að sækja alla heilbrigðisþjónustu um langan veg. Þeir sem glíma við sértækari heilbrigðisvandamál þurfa allir að sækja hana til Reykjavíkur. Álagið á starfsfólk, einkum sjúkrahúsa, hefur líka stórum aukist vegna lokanna úti á landsbyggðinni og svo því að stöðugt færri er ætlað að standa vaktina inni á deildum sjúkrahúsanna. Ef einhver sem á vakt er veikur er engin afleysing.
Álagið á heilbrigðisstarfsfólk er þess vegna tvöfalt. Annars vegar er sívaxandi álag í vinnunni sem kemur niður á líkamlegri -, félagslegri- og andlegri líðan. M.ö.o. þá er starfsfólkið undir slíku álagi að heilsa þess er í beinni hættu. Ef og þegar það veikist getur það tæplega leyft sér að vera veikt því það veit að fjarvera þeirra bitnar á nánasta samstarfsfólki þeirra.
Það ætti að liggja í augum uppi að krepputímum, eins og þeim sem blasa við okkur í dag, fylgja ýmsar hliðarverkanir sem koma fram í heilbrigðiskerfinu. Það er því mjög brýnt að hlúa sérstaklega að því. Styrkja stoðirnar og bæta við þar sem á þarf að halda. Þess í stað finnst stjórnvöldum eðlilegt að ráðast út í byggingu lúxussjúkrahúsa!
Í tengdri frétt segir:
Áætlaður kostnaður við nýbyggingu Landspítalans er um 33 milljarðar króna á verðlagi í mars 2009. Standa vonir til að framkvæmdir við hana geti hafist sumarið 2011 og er áætlað að þær standi fram á árið 2016.
Gunnar Svavarsson, formaður verkefnisstjórnar nýs Landspítala, segir að miðað við verkáætlunina sé raunhæft að hefja framkvæmdirnar næsta sumar því gert sé ráð fyrir því að hvorki hönnunarteymin né dómnefndin fái frest. Þannig að 5. ágúst á að vera hægt að gera samninga við hönnunarteymið upp á 700-800 milljónir. Fyrir þann tíma þarf að vera tryggt að fjármögnunin fyrir hönnunarhluta verksins liggi og lífeyrissjóðirnir hafa lýst því yfir að þeir vilji fjármagna það. Næsta vor þarf síðan fjármögnun upp á þessa 33 milljarð og lífeyrissjóðirnir hafa einnig lýst því yfir að þeir séu tilbúnir í þá fjármögnun.(leturbreytingar eru mínar)
Eins og kemur fram í fréttinni á ekki aðeins að skera niður við okkur, almenna launþega, heilbrigðisþjónustuna heldur á líka að setja sparnaðinn sem við leggjum fyrir af laununum okkar í forréttindaspítalann sem stendur til að byggja í stað þess að tryggja sem besta grundvallarþjónustu inni á núverandi heilbrigðisstofnunum.
Það eru reyndar fleiri ekki síður ógáfulegar stórframkvæmdir sem gert er ráð fyrir að lífeyrissparnaðurinn okkar verði settur í enda lítur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn á hann sem eign ríkisins!
Ef þú ert á móti áhættufjárfestingum af því tagi sem hér hefur verið vakin athygli á ættir þú að kíkja við inni á kjosa.is og skrifa þar undir.
Keppin um Landspítala hafin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæjarstjórinn verður á næsta borgarafundi
15.3.2010 | 14:36
Það er komið að næsta borgarafundi hérna á Akureyri. Sjá fréttatilkynningu hér að neðan:
Samheldnin í akureysku samfélagi
Getur samheldnin orðið samfélagi okkar til tjóns eða getum við virkjað hana okkur til bjargar á tímum sem þessum?
Næsti borgarafundur verður haldinn fimmtudagskvöldið 18. mars n.k. Fundurinn fer fram í Deiglunni og hefst klukkan 20:00. Í tilefni komandi bæjarstjórnar- kosninga verður akureykst samfélag meira í brennidepli en áður.
Fundarstjóri: Embla Eir Oddgeirsdóttir
Framsögumenn:
- Þóroddur Bjarnason, prófessor við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri
- Hilda Jana Gísladóttir, dagskrármaður hjá N4-sjónvarpi
- Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur í Akureyrarkirkju
Pallborð:
- Erlingur Kristjánsson, varabæjarfulltrúi Framsóknarflokks
- Hermann Jón Tómasson, bæjarstjóri og bæjarfulltrúi Samfylkingar
- Kristín Sigfúsdóttir, bæjarfulltrúi Vinstri Grænna
- Oddur Helgi Halldórsson, bæjarfulltrúi L-lista fólksins
- Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks
Borgarafundanefndin
Akureyri: Bæjarstjórinn leiðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þetta er bara ekki að gera sig!
15.3.2010 | 01:45
Eftirfarandi er ræða sem ég flutti á laugardagsmótmælunum á Austurvelli síðastliðinn laugardag. Myndin frá mótmælunum er úr myndasafni Andress Zorans Ivanovics.
Kæru byltingarsystkin!
Þið eruð tilkomumiklir tilheyrendur! enda þingmenn á ALÞINGI GÖTUNNAR!
Og ég er svakalega stolt af ykkur! þó ég hafi ekki fengið tækifæri til að exxa við ykkur á neinum kjörseðli.
Ég er ekki síður stolt af því að fá tækifæri til að ávarpa ykkur því að ég treysti betur á lýðræðisvitund ykkar en fulltrúanna sem exx kjósenda í þessu landi komu inn í alþingishúsið hérna handan götunnar. Fulltrúa sem atkvæðin okkar komu inn á þing af því við treystum þeim til að vinna að hagsmunum íslensku þjóðarinnar.
Það er ef til vill rétt að taka það fram strax að í mínum huga eru einstaka þingmenn sem standa á móti hagsmunastraumunum sem þar eru ráðandi og með hagsmunum okkar en þeir mega sín lítils einir. Ég leyfi mér því að fullyrða að þeir fagna stofnun ALÞINGIS GÖTUNNAR ekki síður en ég.
Ég dáist af ykkur fyrir framtakið svo og stefnuskrána. Hún endurspeglar ekki bara það réttlæti sem ég styð hundrað prósent heldur líka það ENDURMAT SEM ER SVO NAUÐSYNLEGT AÐ HÉR FARI FRAM.
Haustið 2008 klifaði þáverandi ríkisstjórn í sífellu á mikilvægi björgunarstarfsins sem þeir voru að vinna að. Við það að Samfylkingin hafði makaskipti í ríkisstjórnarsamstarfinu skipti um heiti og nú heitir það ENDURREISN sem er í forgangi.
Við sem stöndum hér höfum áttað okkur á því að í þeirri endurreisn er ekkert sem kemur okkur að gagni. Kannski stjórnmálamönnunum sjálfum og oföldu gæludýrunum þeirra, auðmönnunum, en alls ekki okkur almenningi!
Ég leyfi mér að fullyrða að eitt stærsta vandamál samfélagsins sé það sem ég kalla sérhæfða vanhæfingu. Sú hættulegasta er eiginhagsmunagæslan. Verða sérfræðingur í því að fá sem mest út úr sem minnstu. Eða með öðrum orðum verða ríkur og koma sér vel fyrir í samfélaginu á kostnað annarra.
Þessir hafa og eru því miður þeir sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar lögðu áherslu á að bjarga í björgunaraðgerðum sínum. Það er líka staða þessara í íslensku efnahags- og atvinnulífi sem Samfylking og Vinstri grænir leggja áherslu á að reisa við.
Við almenningur vorum aldrei inni í björgunaráætlun fyrri ríkisstjórnar og erum það ekki heldur inni í endurreisnaráætlun þeirrar núverandi. Ekki nema sem fjárfestingarkostur fyrir banka, lána- og innheimtustofnanir.
Af því sem við höfum horft upp á síðastliðið ár ætti okkur líka að vera orðið ljóst að þeir eru þó nokkrir sem starfa í alþingishúsinu handan götunnar sem eru meira að segja tilbúnir til að gefa erlendum fjármálastofnunum fullar veiðiheimildir í því sem við öflum okkur til lífsviðurværis.
Getum við treyst þessu fólki? Getum við treyst þessu Alþingi handan götunnar?
Ég tek undir með ykkur og segi: NEI! Alþingið handan götunnar leiðir okkur aðeins til GLÖTUNAR!
Sumir segja að búsáhaldabyltingin hafi ekki verið til neins. Að hún hafi ekki skilað okkur neinu nema ef vera skyldi meira af því sama.
Ég er ekki sammála því. Í mínum augum var búsáhaldabyltingin nauðsynleg. Við sýndum og sönnuðum að við, almenningur, kjósendur í þessu landi, getum haft áhrif. Gleymum því ekki! þó þeir sem þóttust ætla að vinna að endurbótum hafi svo brugðist okkur.
Þeir misnotuðu tækifærið sem þeir fengu til að vinna með okkur!
Sumir sem tóku fullan þátt í búsáhaldabyltingunni hafa því miður gefist upp. Aðrir hafa dregið sig í hlé. Þeir trúðu því að svokallaðri hægri stefnu í stjórnmálum hefði verið vikið frá völdum og við hefði tekið vinstri stjórn. Sumir kjósa að trúa því enn.
Flokksblinda er sorgleg hvort sem hún er til vinstri eða hægri. Það má ef til vill kalla blindu þeirra, sem trúa því að núverandi ríkisstjórn sé að vinna að velferðarmálum heildarinnar, vinstra light-heilkennið. En það skiptir kannski ekki máli hvað það er kallað.
En það gerið þið sem standið hér! Ykkur vil ég kalla réttlætissinna. Þið hafið ekki látið kasta ryki í augu ykkar! Þið hvikið hvergi! og sýnið óbilandi styrk í viðspyrnunni og baráttunni fyrir réttindum ykkar og samborgaranna.
Einn þeirra átjándu aldar spekinga, sem hugmyndir núverandi stjórnskipulags byggir á, sagði að ríkið sé grundvallað á þegjandi samkomulagi milli borgar- anna sem nefnt er samfélagssáttmálinn. Í grófum dráttum snýst þessi sáttmáli um það að einstakl- ingar gefi eftir tilkall sitt til tiltekinna réttinda en feli ríkisvaldi í hendur valdstjórn til þess að viðhalda reglu í samfélaginu og tryggja öryggi þegnanna.
Heimspekingurinn sem ég er að vitna til hét John Locke en ég geri ráð fyrir því að margir hérna kannist við þessar kenningar hans. En hann sagði líka að þegar valdhafar ryfu þetta samkomulag og virtu lítils eða einskis réttindi borgaranna, væri það réttur þeirra að rísa upp og hrinda þeim af höndum sér!
Búsáhaldabyltingin var til vitnis um það að samkomulagið sem ríkið er grundvallað á hafði verið rofið. Flokkarnir sem fengu umboð þjóðarinnar til að endurnýja þetta samkomulag í síðustu kosningum hafa líka brugðist þegnum þessa lands og þess vegna er alþingi götunnar nauðsynlegt!
Stefnuskrá þess tekur til mikils hluta af því endurmati sem hér þarf að fara fram. Í liðinni viku voru svo stigin fyrstu skrefin að því að stofna stjórnlagaþing fólksins.
Ég hef löngum dáðst að þolinmæði og langlundargeði íslensku þjóðarinnar sem getur líka komið fram í þrautseigju! Þið sem standið hér á þessari stundu hafið sýnt óbilandi þrautseigju.
Þið eruð sáningarmenn sem sáið í grýtta jörð en undir urðinni leynist jarðvegur og einhver fræjanna munu falla í hann. Skjóta rótum og vaxa upp sem harðgerð tré og bera ykkar sterku réttlætissýn fagurt vitni.
Látið þess vegna ekki hugfallast. Verið stolt af sjálfum ykkur og því sem þið hafið þegar áorkað. Það kann að virðast lítið en þegar þið tínið það allt saman þá vona ég að þið áttið ykkur á því hvað sá grunnur sem þið hafið byggt er framtíðinni mikilvægur.
Eyðum ekki tímanum í að hafa áhyggjur af þeim sem hafa ekki enn þorað að taka afstöðu.
Berjumst áfram fyrir alvöru lýðræði!
Upphafið er hér í alþingi götunnar og stjórnlagaþinginu! sem mun starfa án afskipta þingmanna gömlu hagsmunaklíkunnar sem hefur misnotað umboð sitt og fótumtroðið lýðræðið.
Ég hef fyglst náið með því sem hefur farið fram inni í þessu húsi þarna handan götunnar frá hruni. Sat meira að segja á þingpöllum milli jóla og nýárs. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að það þing sem þar starfar er ónýtt.
Alþingið handan götunnar er illa haldið að firringu eiginhagsmunagæslunnar. Það þurfa allir að horfast í augu við það að sú ríkisstjórn sem situr þar nú mun ekki vinna að þeim endurbótum sem eru nauðsynlegar samfélagi okkar frekar en sú sem fékk tækifæri til þess á undan henni.
Þeir sem hafa leitt ríkisstjórnarsamstarfið undanfarin misseri hafa grafið gjá milli þings og þjóðar.
En hvað er til ráða?
Við getum staðfest þessa gjá og lýst yfir sjálfstæði þjóðarinnar gagnvart Alþingi líkt eins og forfeður okkar gerðu gagnvart Dönum.
Ég treysti að minnsta kosti frekar á þann kraft sem býr í viðspyrnu ykkar en þeim úrelta hugsunarhætti sem gömlu stjórnmálamennirnir byggja á.
Þess vegna ætla ég að exxa við það endurmat og endurbætur sem alþingi götunnar og stjórnlagaþing fólksins hafa kynnt um leið og ég lýsi því yfir að ég hafna götóttri endurreisn eiginhagsmunagæslunnar sem Alþingi býður okkur almenningi að fórna framtíð okkar og lífsviðurværi fyrir!
Ég styð ykkur hundrað prósent og er þess vegna ósegjanlega stolt af því að fá þetta tækifæri til hvetja ykkur áfram hér í dag.
Höldum baráttunni ótrauð áfram!
Langar líka til að vekja athygli á ræðum hinna sem héldu ræðu sl. laugardag en það er ræða Vésteins Valgarðssonar og Einars Björns Bjarnasonar. Ræða Vésteins er að finna hér en ræða Einars Björns er hér.
Gengur hægt að koma á fundi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Ætla ekki allir að taka þátt í kröfugöngunni á morgun?
5.3.2010 | 22:42
Dagurinn á morgun stefnir í það að vera sögulegur fyrir margra hluta sakir. Ekki aðeins fyrir það að þá verður fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan haldin heldur verður farin kröfuganga niður Laugarveginn þar sem Alþingi götunnar verður stofnað.
Ætlar þú ekki örugglega að taka þátt í þessum sögulegu atburðum: Kjósa og ganga?! Ég kemst ekki sjálf þar sem ég bý á Akureyri en ég ætla að flagga samstöðufánanum mínum. Sjá hér
Það er búið að stofna síðu utan um þennan atburð á Fésbókinni. Sjá hér En tilkynningin um gönguna og útifundinn sem er við endastöð hennar, Austurvöll, birti ég hér:
Nú hafa nokkrir grasrótarhópar ákveðið að standa fyrir kröfugöngu frá Hlemmi laugardaginn 6. mars kl 14. Gengið verður niður Laugaveginn og að lokinni göngu verður haldinn útifundur á Austurvelli kl. 15.
Ræðumenn verða: Andrés Magnússon, læknir og Júlíus Valdimarsson, húmanisti.
Magnús Þór Sigmundsson mun syngja og hljómsveitin Stjörnuryk mun flytja lag.
Á fundinum verður Alþingi götunnar stofnað.
Helstu áhersluatriði Alþingis götunnar eru:
- Leiðrétting höfuðstóls lána
- afnám verðtryggingar
- fyrning lána við þrot
- jöfnun ábyrgðar og að fjárglæframenn Íslands séu hvorki stikkfrí né endurreistir
- AGS í úr landi
- manngildið ofar fjármagni
- aukin völd til almennings
- bættur neytendaréttur
Trommusláttur og lúðrablástur mun fylgja með niður Laugaveginn. Mælst er til þess að göngumenn taki með sér potta, pönnur, flautur eða annað sem getur framkallað hóflegan hávaða. Takið með kröfuspjöld.
Gerum laugardaginn 6. mars að sögulegum degi. Fjölmennum við formlega stofnun Alþingis götunnar. Gefum skýr skilaboð til umheimsins: Lýðræðið er númer eitt! Valdið er fólksins!
Gerum Alþingi götunnar að stórviðburði. Ekki láta þig vanta. Tölum einum rómi með samtökunum okkar. Látum það ekki fara neitt á milli mála hver vilji okkar er. Kjósum með fótunum í göngunni niður Laugaveg.
Hagsmunasamtök heimilanna
Nýtt Ísland
Attac samtökin á Íslandi
Siðbót
Húmanistafélagið
Rauður vettvangur
Vaktin
Aðgerðahópur háttvirtra öryrkja
12.297 atkvæði skráð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Merkilegt innlegg inn í umræðuna
5.3.2010 | 21:37
Það hafa margir tjáð sig um Icesave á því rúma ári sem er liðið síðan ógnir þeirrar græðgisfífldirfsku gleyptu starfsorku íslenskrar stjórnmálastéttar. Í meginatriðum má skipta þeim sem hafa tjáð sig í tvo hópa. Hópinn sem vill verja umboð gamla fjármálakerfisins yfir peningamörkuðunum annars vegar og hins vegar hópinn sem vill hrinda því skuldaoki sem gamli fjármálheimurinn hefur komist upp með að varpa yfir á almenning.
Vésteinn Valgarðsson, sem skrifar gjarnan á eggin.is, heyrir undir síðari hópinn. Hann birti athyglisverða grein á þeim vettvangi fyrr í dag sem mér finnst ástæða til að vekja athygli á. Ekki síst fyrir þá sök að hann dregur fram athyglisvert sjónarhorn á þessa umræðu sem hefur lítið farið fyrir.
Hér að neðan birti ég útdrátt úr grein Vésteins en greinina má lesa í heild hér.
Það er ranglátt að íslenskur almenningur borgi fyrir fjárglæframenn. Þess vegna er það óásættanlegt. Umræðan er á villigötum á meðan hún snýst um eitthvað annað en það. Lagaklækir eru aukaatriði. Spurningin sem máli skiptir er hvort fjármálaauðvaldið fær sínu framgengt í þessu máli eins og öðrum, eða hvort spyrnt verður við fæti og vörn snúið í sókn.
Þessi spurning snýst um það hver fer með völdin í landinu. Þegar það fær sitt á undan heimilunum í landinu, þegar kröfur erlendra fagfjárfesta ganga fyrir fjármögnun heilbrigðiskerfisins, þegar ríkisstjórnin bíður milli vonar og ótta eftir því að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þóknist að endurskoða einhverja áætlun þá fer ekki milli mála að það er fjármálaauðvaldið sem fer ennþá með völdin. [...]
Í IceSave-hneykslinu var almenningur rændur af fjármálaauðvaldinu. [...] Í stað þess að sækja Landsbankamenn persónulega til saka, þá er sótt að ríkissjóði Íslands og þess krafist að við tökum ábyrgð á ráninu. En það vorum ekki við, það var fjármálaauðvaldið. [...]
Núverandi ríkisstjórn Íslands mun ekki ganga á hólm við auðvaldið vegna þess að hún er sköpuð til að þjóna því. Það eru tóm orð og merkingarsnauð, að kenna ríkisstjórn við vinstri eða tala um að byggja upp velferð. Stefnan verður ávallt mörkuð af ríkjandi stétt, og í okkar stéttskipta þjóðfélagi er það auðvaldið sem ræður og svo mun vera þangað til almenningur tekur völdin í sínar eigin hendur. Það verður ljósara og ljósara að það er raunhæfur möguleiki að svo fari. Ég segi ekki að það sé eini möguleikinn það er jú vissulega líka mögulegt að Ísland verði þrælanýlenda fjármálaauðvaldsins svo lengi sem það er byggt en það er eini ásættanlegi möguleikinn.
Öreigastétt og auðvald birtast skýrast í dag sem skuldarar og okurlánarar. Hagsmunirnir eru ósamrýmanlegir já, sjálf tilveruskilyrðin eru ósamrýmanleg. Annað hvort verður að víkja. Fjármálaauðvaldið mun ekki gera það átakalaust. En hvað með almenning?
Tilbúnir til frekari viðræðna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kjörið tækifæri til að standa upp fyrir alvöru lýðræði
5.3.2010 | 19:21
Það er svo margt sem hefur dunið á okkur þjóðinni á undanförnum misserum að við erum kannski að verða ónæm. Það er svo margt sem hefur misboðið réttlætiskennd okkar að við erum kannski byrjuð að missa tilfinninguna fyrir muninum á réttu og röngu. Við erum búin að fá svo margar staðfestingar á því að þegnar þessa lands eru ekki jafnir fyrir landslögum og dómstólum að við höfum flest glatað traustinu.
Það er ekkert eðlilegra en allt það sem á okkur hefur dunið sé farið að grafa undan andlegum styrk okkar og dómgreind. Skilaboðin sem við fáum í gegnum fjölmiðla frá stjórnarforystunni eru ekki til að byggja undir okkur og skapa okkur öryggiskennd nema síður sé. Við höfum margstaðið hvern stjórnmálamanninn á fætur öðrum svíkja beinlínis öll þau kosningaloforð sem komu honum til valda.
Við höfum horft upp á það aftur og aftur að það er ekki hagur almennings sem brennur þeim fyrir brjósti. Við höfum hlustað á þá mistúlka, rangfæra og beinlínis ljúga upp í opið geðið á okkur um fyrirætlanir og gjörðir. Við höfum heyrt þá hringsnúa sannleikanum og því sem þeir sögðu áður. Þeir hafa unnið skipulega að því að afvegaleiða okkur, rugla okkur í ríminu og slá okkur út af laginu.
Sú vinstri stjórn sem á að heita að farið með valdið hér á landi núna er enginn undantekning. Fulltrúar hennar hafa margsannað að það er ekki málstaður almennings í landinu eða íslensku þjóðarinnar sem þeir eru að berjast fyrir. Þvert á móti þá hafa þeir sett inngöngu inn í ESB á oddinn til að skapa sjálfum sér og ört stækkandi gæludýrasafni, sem er að sprengja utan af sér ráðuneytin, virðulegar stöður inni í Brussel-veldinu.
Og svo er það endaleysan sem Icesave er orðið. Icesave er skjaldborgin sem hefur verið slegin utan um raunveruleg vandamál þjóðarinnar. Þar hafa þau verið lokuð af. Sett í einangrun. Icesave hefur verið stillt upp sem ókleifum virkisvegg milli þings og þjóðar. Ríkisstjórnin hefur reynt að telja þjóðinni trú um að Icesave sé eitthvert fyrirbæri sem þjóðin hafi ekki vitsmuni til að taka afstöðu til. Hún hefur reynt að telja þjóðinni trú um að þetta sé svo yfirgripsmikið mál að það taki upp allan þeirra tíma þannig að ekkert rúm sé til að sinna þeim verkefnum sem bíða innanlands.
Því miður fyrirfinnast enn alltof margir sem eru fastir í meðvirknipyttunum sem ríkisstjórnin hefur grafið kjósendum sínum. Þeir eru enn sorglega margir sem taka undir með Jóhönnukórnum og segja að þjóðaratkvæðagreiðslan, sem er fyrsta sinnar tegundar, sé markleysa. Þeir eru svo týndir í staðreyndavilluþokunum sem Jóhanna og Steingrímur hafa magnað upp í kring um Icesave að þeir átta sig ekki á því að þau eru ekki að verja neitt nema núverandi kerfi þar sem auðvaldið trónir efst.
Það er auðvitað sorglegast fyrir þá sjálfa ef þeir sitja þannig týndir og fastir og missa þess vegna af þessu tækifæri sem við höfum til að standa upp fyrir alvöru lýðræði. Nú höfum við tækifæri til að koma því á framfæri sem mörg okkar sem stóðum upp í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 vildum koma áleiðis. Við viljum hugarfarsbreytingu. Við viljum réttlæti. Við viljum jafnræði. Við viljum skapa skilyrði fyrir virðingu og jafnari kjörum. Við viljum afnema þá auðvaldshyggju sem hefur hent öllum lífvænlegum gildum fyrir róða og sett eiginhagsmunamiðaða græðgina í hásætið.
Það er von mín og ósk að nógu stór hluti þjóðarinnar átti sig á þessu tækifæri og standi upp. Komi sér á kjörstað og segi NEI! (Að lokum bendi ég á eldri færslur um þetta sama efni hér og hér)Tek þetta ekki til mín | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Borgarafundur: Eitthvað jákvætt?
5.3.2010 | 01:42
Fimmtudaginn 23. febrúar var haldinn enn einn borgarafundurinn hér á Akureyri. Þetta var líka annar fundurinn á þessu ári. Þessi var hugsaður sem framhald þess síðasta sem fjallaði um Sálarheill þjóðar á krepputímum. Þar var m.a. komið inn á mikið atvinnuleysi meðal ungs fólks og svo karlmanna á besta aldri.
Fundurinn sl. fimmtudag var því hugsaður sem kynning á því hvað stæði þessum hópum til boða eða m.ö.o. hvort og hvernig væri reynt að mæta afleiðingum efnahagskreppunnar hér á Akureyri. Það var ekki síður markmið þessa fundar að leiða þá sem vinna að slíkum úrræðum saman. Fundinum var þess vegna ekki bara kynningar- og upplýsingafundur heldur var honum ekki ætlað að kveikja hugmyndir. M.a. hugmyndir að auknu samstarfi.
Umgjörð þessa fundar var með töluvert öðru sniði en þeir sem hafa verið haldnir hér fyrir norðan hingað til. Átta fulltrúum samtaka, nefnda og/eða stofnana var boðin þátttaka. Þeir kynntu þá starfsemi sem þeir voru fulltrúar fyrir og hefur orðið til sem viðbragð við hruninu. Þetta voru fulltrúar grasrótarhópa, nefnda og stonana sem hafa á einn eða annan hátt komið að því að bregðast við þeim staðreyndum sem akureyskt samfélag hefur staðið frammi fyrir vegna efnahagskreppunnar.
Tveir boðuðu forföll þannig að kynningarnar urðu sex og fékk hver 15-20 mínútur til að segja frá og taka við fyrirspurnum. Gestir þessa fundar urðu reyndar ekki nema rúmlega tuttugu en þrátt fyrir það spunnust gjarnan fjörugar umræður þannig að fundarstjórinn, sem var ég sjálf, neyddist stundum til að skera á umræðurnar til að tryggja að allir kæmust að.
Er eitthvert grasrótarstarf á Akureyri?
Fyrst sagði Guðrún Þórs, sem leiddi mótmælin hér á Akureyri sl. vetur, frá Byltingu fíflanna. Guðrún leit til baka og rifjaði upp sjokkið sem fyrstu fréttir af efna- hagshruninu ollu henni en sagði að það sem hefði kveikt hana til athafna hefði verið fræðsla sem hún fékk hjá kunningja sínum um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
Eftir það var hún óstöðvandi og dreymdi um að virkja fólk í kringum sig til viðbragða. Hún hitti svo nokkra sem voru sama sinnis sem leiddi til fyrsta mótmælafundarins hér á Akureyri en hann var haldinn þ. 25. október 2008. Á sama tíma voru mótmæli á Ísafirði, Seyðisfirði og í Reykjavík. Þessar göngur voru farnar á hverjum laugardegi uns ríkisstjórnin sem sat þá fór frá í lok janúar.
Það varð að hefð hér á Akureyri að mótmælendur hittust fyrir framan Leikhúsið og þrömmuðu svo inn á Ráðhústorg þar sem þeir hlýddu á ræður. Guðrún sagði að þegar hún liti til baka þá gæfu minningarnar frá þessum tíma henni kraft. Það er nefnilega hægt að koma ýmsu til leiðar ef fólk stendur saman.
Eftir fyrstu gönguna hér á Akureyri varð til grasrótarhópur sem kallaði sig Byltingu fíflanna eftir leiksýningu sem Kristján Ingimarsson setti upp á Akureyrarvöku sumarið 2007 (Sjá hér). Meðal meðlima voru Sigurbjörg Árnadóttir og George Hollanders. Fljótlega eftir stofnun skiptu hún og þau tvö með sér verkum þannig að Guðrún sá um mótmælin, Sibba Árna. um borgarafundina og George um grasrótina og fundi grasrótarhópsins.
Mig langar til að bæta því við þetta að þó starf Byltingar fíflanna liggi niðri um þessar mundir þá er þessi vettvangur til. Þess vegna er hægt að endur- vekja hann. Það má líka segja að hann lifi enn í fánanum hans Kristjáns sem setti svip sinn á mótmælin hér fyrir norðan.
Fáninn er nefnilega tekinn að dreifa sér um landið þó dreifing hans gangi hægt þá hefur hann skotið upp kollinum á nokkrum stöðum og þar á meðal nokkrum sinnum í Reykjavík. Ef þú vilt panta þér fána þá gerir þú það hér.
Næstur á mælendaskrá var Edward H. Huijbens en hann sagði frá borgarafund- unum hér á Akureyri. Hann sagði líkt og Guðrún að þegar hann liti til baka þá fyndist honum tíminn frá hruni búinn að vera magnað tímabil ekki síst fyrir þá vakningu sem hefur orðið í samfélaginu síðan þá. Borgarafundirnir er einn vitnisburður þeirrar vakningar.
Edward rifjaði upp frumkvöðlastarf Sigurbjargar Árnadóttur þegar hún hratt borgarafundunum af stað hér fyrir norðan og hvernig hún fékk hann til að stýra fundi en það varð svo að hefð enda hefur hann stýrt langflestum fundunum síðan.
Edward velti því fyrir sér hvaða þýðingu fundirnir hefðu haft fyrir hann persónulega og fullyrti að þeir hefðu orðið honum vakning til pólitískrar meðvitundar. Nú er hann sjálfur kominn á lista til bæjarstjórnarkosninga hér á Akureyri þannig að hann á ekki eftir að stýra fleiri borgarafundum. A.m.k. ekki í bráð.
Hann benti líka á að með borgarafundunum hefði verið skapaður merkilegur samræðuvettvangur en þeir hafa ekki síður orðið til að skapa samkennd um leið og þeir hafa verið útrás fyrir reiðina þar sem fundargestum hefur m.a. gefist tækifæri til að tala beint við stjórnmálamennina. Að lokum hrósaði Edward okkur sem höfum haldið utan um fundina fyrir það að hafa ávallt leitast við að skapa sem breiðastan umræðuvettvang með því að leiða saman andstæð sjónarmið og ólíkar stefnur þar sem það hefur átt við.
Það er e.t.v. við hæfi hér að þakka Edward fyrir fundarstjórnina og óska honum velfarnaðar í pólitíkinni. Mig langar svo að bæta því við að hann hefur staðið sig frábærlega sem stjórnandi fundanna. Ég leyfi mér að fullyrða það að það hefur ekki verið síst fyrir fundarstjórn hans sem fundirnir hér fyrir norðan hafa haldið velli.
Kristinn H. Þorsteinsson er verkefnastjóri Grasrótar: Iðngarða og nýsköpunar og sagði frá starfsemi sem er á þeirra vegum. Þetta verkefni var fyrst í höndum Georges Hollanders og Rúnars Þórs Björnssonar en það hefur vaxið svo á því rúma ári frá því það fór af stað að það er núna komið með húsnæði og verkefnastjóra. Ég vek athygli á því að glærur sem Kristinn útbjó fyrir þessa kynningu eru í viðhengi neðst í þessari færslu. Kristinn hóf mál sitt á því að benda á að Grasrótin: Iðngarða og nýsköpunar væri sameiginlegur vettvangur til að skapa atvinnutækifæri. Þar væri horft mikið til vistvænna þátta og endurnýtingar. Kristinn er nýfluttur til Akureyrar til að taka við starfinu sem hann gegnir nú. Hann lýsti því hvernig hann kom uppfullur af hugmyndum tilbúinn til að taka til hendinni og hreifa við hlutunum.
Það sem kom honum hins vegar á óvart er það hve margt er í gangi hér á Akureyri. Frá hans bæjardyrum séð er margt jákvætt þegar litið er til þeirrar starfsemi sem er í boði fyrir atvinnulausa og á vettvangi nýsköpunar. Hann benti hins vegar á að sá hópur, þ.e. atvinnulausir, sem hann vildi þjóna biði ekki beinlínis í röðum eftir því að taka þátt eða koma hugmyndum á framfæri. Eina ráðið var því að fara af stað og sækja þetta fólk.
Það hefur tekist að einhverju leyti með samstarfi við m.a: Vinnumiðlunarstofnun, Akureyrarstofu, Símey, Rósenborg, Menntasmiðju unga fólksins, Fjölsmiðjuna, Punktinn og Sigurhæðir. Fleiri eru að bætast við en það gleðilegasta við þetta allt saman er að ýmsir hafa lýst sig tilbúna til að styðja við þá starfsemi sem fram fer í Grasrót: Iðngarða og nýsköpunar. Það eru einkum fyrirtæki og einstaklingar sem eru tilbúnir til að miðla af þekkingu sinni og hugviti.
Það verkefni sem hefur farið mest fyrir er kajaksmíði en auk þess eru eftirtalin verkefni farin af stað eða um það bil að verða að veruleika: margmiðlunarsmiðja sem Sóley Björg Stefánsdóttir (einn fyrrverandi fulltrúa í borgarafundanefndinni) sér um, umhverfisverkefni: breytt verklag, hljóðfærasmiðja, raftækjasmiðja, heimilissmiðja og úrskurðarsmiðja. Kristinn nefndi að það væru Símey og Rósenborg sem hefðu komið með sum þessara verkefna til þeirra en sum hefðu orðið til þannig að fólk fengi hreinlega hugmynd, kæmi henni á framfæri og hann ásamt fleirum sæju til þess að hún yrði að veruleika.
Verkefni Grasrótar: Iðngarða og nýsköpunar hafa vakið athygli fjölmiðla og þannig hafa þeir náð í enn fleiri sem nýta sér það sem þar er í boði. Kristinn nefndi t.d. að eftir Kastljósþáttinn þar sem sagt hefði verið frá starfsemi þeirra þá hefði verið stríður straumur gesta sem vildi kynna sér starfsemi þeirra. Margir gestanna eru nú þátttakendur í verkefnunum þeirra.
Kristinn talaði sérstaklega um verkefnið Ungt fólk til athafna sem hann sagði tilkomið vegna samstarfs margra aðila. Hann hrósaði þætti Vinnumálastofnunar sérstaklega í því efni og sagði að hér á Akureyri væri verið að vinna mjög gott starf í samstarfi margra aðila í því markmiði að koma atvinnulausum í virkni.
Undir lokin benti Kristinn á að það væri þó enn áhyggjuefni hvernig ætti að ná í óvirka hópinn. Hann talaði um að samkvæmt nýlegri rannsókn þá mætti rekja ástæður lélegrar virkni til uppeldisins eða þess að foreldrar hefðu ekki fylgt þeim nægilega vel eftir. En það er ekki bara ungt fólk sem hefur fallið niður í óvirkni í því atvinnuleysi sem nú ríkir. Það er líka ástæða til að hafa áhyggjur af fullorðnu fólki sem þannig er ástatt fyrir. Kristinn undirstrikaði það að brýnasta spurningin nú væri sú hvernig væri hægt að ná til þessa hóps.
Hvernig er hlúð að atvinnulausum og einstaklingum í vanda á Akureyri?
Gunnar Gíslason, verkefnastjóri, Almannaheillanefndar tók næstur til máls. Kynning hans var studd glærum. Þær eru aðgengilegar með því að fylgja krækju sem er að finna neðst í þessari færslu.
Gunnar byrjaði á því að segja frá því hver viðbrögð bæjarins voru við efnahagshruninu haustið 2008 sem voru þau að boða til samráðsfundar í byrjun október skömmu eftir hrunið. Á þessum fundi sátu fulltrúar frá skólanefnd og félagsmálaráði, bæjarstjóri, bæjarritari ásamt fleiri starfsmönnum Akureyrarbæjar. Í framhaldinu var skipaður stýrihópur með fulltrúum frá skóla-, búsetu- og fjölskyldudeild ásamt bæjarritara og fulltrúa frá heilsugæslunni.
Fyrstu skref stýrihópsins voru að halda tvo fundi. Annan með fulltrúum kirkna á svæðinu, sjúkrahússins, Rauða krossins, verkalýðsfélag- anna og háskólans. Hinn með bankastjórum stóru bankanna. Auk þess stóð hópurinn fyrir námskeiðum í sálrænni áfallahjálp sem var annars á vegum Rauða krossins. Tæplega 200 starfsmenn Akureyrarbæjar sóttu þessi námskeið.
17. október 2008 var svo Almannaheillanefndin stofnuð. Hana skipa fulltrúar frá hinum ýmsu deildum og stofnunum sem starfa að fjölskyldu og félagsmálum á vegum Akureyrarbæjar auk fulltrúa frá Sjúkrahúsinu, Háskólanum, Rauða krossinum, Vinnumálastofnun, kirkjunum, framhaldsskólunum og verkalýðsfélögunum. Til að byrja með fundaði nefndin hvern föstudag. Í dag hittist nefndin þriðja hvern föstudag.
Gunnar fór því næst yfir hlutverk nefndarinnar sem hann sagði vera m.a. það að greina sögusagnir frá staðreyndum og bregðast við og koma staðreyndum á framfæri. Auk þess vann nefndin og vinnur enn að því að efla þá þjónustu sem er til staðar og fylla upp í þar sem eru göt í þjónustunni. Gunnar sagði að margar bjargir hefðu verið til staðar en Almannaheillanefndin stóð frammi fyrir því verkefni að samhæfa þær og auka samstarfið á milli þeirra sem buðu upp á þær.
Mig langar til að vekja athygli á glæru númer 6 í glærupakkanum frá Gunnari. Þar er finna net yfir þá þjónustu sem stofnanirnar sem eiga fulltrúa í Almannaheillanefndinni standa fyrir.
Verkefni Almannaheillanefndar hefur verið og er mjög víðtækt. Gunnar sagði að í aðalatriðum væri það að fylgjast með öllum breytingum sem má tengja efnahagshruninu og bregðast við þeim. Uppsagnir á þjónustu á vegum bæjarins til barna, unglinga, öryrkja og aldraðra eða brottfall úr skóla og/eða íþróttum gæti verið vísbending um vandamál sem sprottið er af versnandi efnahag. Aukin eftirspurn eftir fjárhagsaðstoð er það tvímælalaust.
En það hefur ekki bara verið hlutverk nefndarinnar að bíða átekta og fylgjast með. Gunnar sagði að nefndarmenn hefðu velt því fyrir sér hvaða ráðgjöf væri nauðsynleg við slíkar aðstæður sem nú eru uppi í samfélaginu. Fjölskyldudeild Akureyrarbæjar brást t.d. við með því að bjóða upp á lengri opnunartíma. Ráðgjafastofa um fjármál bauð um tíma upp á ókeypis ráðgjöf í samstarfi við fjölskyldudeild bæjarins. Boðið var upp á leiðbeiningar um fjármál heimilanna á fimmtudögum milli kl. 17:00 og 19:00. Í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju var líka starfandi ókeypis lögmannavakt á þessum tíma en á mánudögum. (Sjá glærur 10 til 13 í glærupakkanum hans Gunnars).
Þessi þjónusta var hins vegar lítið sem ekkert nýtt þannig að hún er ekki lengur til staðar. Gunnar velti því fyrir sér hvað það þýddi að þessi þjónusta hefði ekki verið meira nýtt en raun varð á. Kannski þurfti fólk ekki á henni að halda þá. Kannski vissi það ekki af því að hún var fyrir hendi. Í framhaldinu benti hann á heimasíðu Akureyrarbæjar þar sem er að finna upplýsingar á Ráðgjafartorgi. Hins vegar velti hann því fyrir sér hvort þessi síða nægði til kynningar á þeim úrræðum sem Almannaheillanefndin heldur utan um.
Einn fundargesta benti á að honum þætti það ekki líklegt að fólk sem væri í vanda færi inn á akureyri.is til að leita eftir úrræðum. Hann spurði jafnframt eftir því hve margir í Almannaheillanefndinni hafa verið eða eru atvinnulausir? Gunnar svaraði að það væri enginn. Fyrirspyrjandi spurði þá hvort það veikti ekki trúverðugleika og traust til nefndarinnar að enginn sem væri að fjalla um og reyna að bregðast við stöðu þeirra sem efnahagsástandið bitnaði verst á hefði reynslu af því að t.d. að missa vinnuna?
Gunnar þakkaði fyrir þessa ábendingu og bætti því við að þau í Almannaheillanefndinni reyndu að hlusta og læra. Hann benti jafnframt á að þau stæðu gjarnan frammi fyrir spurningunni um það hvað sveitarfélagið ætti að gera og hvað ríkið ætti að gera. Að lokum sagði hann að þau mál sem væru á könnu Almannaheilanefndar væru samfélagsmál sem þyrfti að ræða á miklu breiðari grundvelli.
Álheiður Kristjánsdóttir er verkefnastjóri átaksins Ungt fólk til athafna hér á Akureyri. Hún studdi kynninguna sína með glærum og fylgja þær þessari færslu eins og hinna. Krækja inn á þær er neðst í þessari færslu.
Verkefnið, Ungt fólk til athafna, fór af stað hér á Akureyri 11. janúar sl. (Sjá t.d. hér). Álfheiður benti á að hið eiginlega upphaf væri það að Félags- og tryggingamálaráðuneytið fól Vinnumálastofnun að tryggja það markmið að aldrei skyldi líða meira en þrír mánuðir frá því að einstaklingur verður atvinnulaus þar til honum er boðið starf, námstækifæri, starfs- þjálfun eða þátttaka í öðrum verðugum verk- efnum. Þessu markmiði skyldi náð gagnvart fólki á aldrinum 18-24 ára fyrir 1. apríl 2010 í nánu samstarfi við stéttarfélög, fyrirtæki og sveitarfélög.
Næst setti Álfheiður upp glæru sem sýnir hlutfall atvinnulausra á aldrinum 16 til 24 ára af heildarfjölda. Þessar tölur eru frá því í desember á síðasta ári. Ég leyfi mér að birta hana hér (sjá glæru 3 í glærupakkanum hennar Álfheiðar).
Eins og sjá má þá er hlutfallið hvergi hærra en á Suðurnesjum en næst á eftir kemur Norðurland eystra. Það vekur hins vegar athygli að hlutfallið á Suðurnesjum er helmingi hærra. Af því tilefni varpaði einn fundargesta fram eftirfarandi spurningu: Hefur það verið kannað hvort lágt íbúðaverð á Keflavíkurflugvelli ýkir e.t.v. þessar atvinnuleysistölur á þessu svæði? Álfheiður þorði ekkert að fullyrða í því sambandi en taldi þó að það hefði ekki verið gert.
Þá hélt hún áfram að rekja aðdraganda þessa atvinnuátaks. Hún benti á að rýnihópagreining hefði leitt í ljós að frumkvæði þessa hóps, þ.e. atvinnulausra ungmenna, væri nánast ekkert. Hópurinn fengi heldur enga hvatningu frá kerfinu. Fæstir höfðu t.d. heyrt frá Vinnumálastofnun frá því þeir misstu vinnuna. Það væri heldur ekki um að ræða neina kynningu á úrræðum eða hvatningu til að breyta ástandinu sem þessir byggju við.
Langflestir í þessum hópi eru einungis með grunnskólapróf og meiri hlutinn býr enn í foreldrahúsum. Frá þeirra bæjardyrum séð búa þeir við þokkalegan fjárhag. Atvinnuleysisbæturnar eru nefnilega ágætur vasapeningur fyrir ungling sem býr í foreldrahúsum og þarf ekki að standa straum af matarkaupum, leigu eða öðrum kostnaði í kringum það að halda heimili.
Niðurstaða skýrslunnar sem varð til í kringum þessa rannsókn voru m.a. þær að: Aðgerðarleysi gæti haft svipaðar afleiðingar og í Finnlandi þar sem heil kynslóð týndist með hörmulegum afleiðingum fyrir fjölmarga einstaklinga og samfélagið í heild.
Álfheiður sagði að meginmarkmið aðgerða gegn atvinnuleysi ungs fólks á að vera skipulögð virkni eða sjálfboðaliðastörf og aukin menntun fremur en afskiptaleysi á atvinnuleysisbótum. Verkefnið snýst um þá sem eiga rétt á bótum. Hér á Akureyri er þetta samstarfsverkefni margra aðila. Þar má nefna: Grasrót: Iðngarða og nýsköpunar, Menntasmiðju ungs fólks, Akureyrarstofu, Rauða krossinn, Símey, Fjölsmiðjuna og Verkmenntaskólann á Akureyri.
Hún lýsti ferlinu hér á Akureyri sem er það að ungir atvinnuleitendur fá sent bréf þar sem þeir eru boðaðir til fundar í Rósenborg. Þar fer fram kynning á þeim úrræðum sem eru í boði síðan velja ungmennin virkniúrræði í samráði við ráðgjafa Vinnumálastofnunar. Þau hafa hins vegar ekki val um að gera ekki neitt. Þeir fáu sem velja þá leið missa bótarétt.
Í lok kynningar sinnar minnti Álfheiður á það að Akureyri væri frumkvöðull hvað þetta verkefni varðaði. Hún sagði að það hefði kallað á mjög jákvæð viðbrögð víða að og líka töluverða athygli fjölmiðla. Að hennar mati er þess vegna óhætt að segja það að það er ýmislegt jákvætt að gerast. Svo vildi hún nota tækifærið til að hrósa Kristni H. Þorsteinssyni, verkefnastjóra Grasrótar: Iðngarða og nýsköpunar sérstaklega og sagði að það væri hægt að hrinda ótrúlegustu hugmyndum í framkvæmd ef fólk kæmi þeim á framfæri við hann.
Ég ætla að taka það fram hér að ég átti von á fulltrúum frá Starfsendurhæfingu Norðurlands og Rósenborg: Möguleikamiðstöð á þennan fund en þeir afboðuðu sig því miður báðir. Skilaboðin frá þeim komu seint til að ég gæti brugðist við þeim með því að boðið einhverjum öðrum að taka þátt.
Er hægt að binda vonir við nýsköpun eða ný atvinnutækifæri í Eyjafirði?
Síðastur á mælendaskrá var Hjalti Páll Þórarinsson, verkefnastjóri hjá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar. Hann var með glærusýningu með sinni kynningu sem er í viðhengi neðst í þessari færslu.
Hann byrjaði á að kynna Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar (AFE); starfsvæði, rekstrargrundvöll og markmið. Starfssvæðið er allur Eyjafjörðurinn. Þ.e. frá Siglufirði til Grenivíkur. Efnahagskreppan hefur haft sín áhrif á rekstrargrundvöll Atvinnuþróunarfélagsins sem kemur m.a. fram í því að framlög frá ríkinu og sveitarfélögum á svæðinu fara minnkandi.
Markmið AFE er að bæta búsetuskilyrði og samkeppnishæfni,og auka aðdráttarafl Eyjafjarðarsvæðisins fyrir núverandi og tilvonandi íbúa, ferðamenn og atvinnulíf svo fátt eitt sé talið (sjá glæru 3 í glærupakkanum frá Hjalta Páli). Hjalti Páll sagði að árangurinn af starfi þeirra væri m.a. sá að þeir hefðu fengið Becromal hingað sem hefði reist hér aflþynnuverksmiðju og það væri nýbúið að skrifa undir rammasamning um koltrefjaverksmiðju sem væri líka að hluta til á þeirra vegum (sjá t.d. hér).
Ég má til að skjóta því hérna inn í að því miður var enginn á fundinum sem gerði neina athugasemd varðandi Becromal eða þeirra umsvif á svæðinu. Það má auðvitað gagnrýna það að ég hafi ekki gert það sjálf en einhvern veginn fannst mér það ekki alveg við hæfi þar sem ég var fundarstjórinn á þessum fundi.
Næst vék Hjalti Páll að vaxtasamningi Eyjafjarðar sem tók gildi í upphafi árs 2008 en rennur út í árslok 2010. Markmið samningsins er að efla nýsköpun atvinnulífsins á starfssvæði Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar og auka hagvöxt með virku samstarfi fyrirtækja, háskóla, sveitarfélaga og ríkisins. Þegar hefur verið úthlutað 48 milljónum til fjörutíu og tveggja verkefna. Verði verkefnin, sem um ræðir, að veruleika má gera ráð fyrir að þau skapi 116 störf.
Sem dæmi um verkefni nefndi Hjalti Páll: tilraunir með framleiðslu lífeldsneytis, fiskvinnsluklasa á Dalvíkursvæðinu, nýjungar í lyfjaframleiðslu á Grenivík, duftlökkun með bakteríudrepandi efnum og þyrluskíðun á Tröllaskaga (sjá nánar glæru 7 í glærupakka Hjalta Jóns)
Mig langar sérstaklega að vekja athygli á síðasta verkefninu sem ég taldi upp hér að framan en það er Jökull Bergmann sem stendur á bak við það. Verkefni hans er að ganga upp og hefur eftirspurnin eftir þyrluskíðaferðunum á Tröllaskaganum aukist jafnt og þétt. En þetta er ekki það eina sem hann býður upp á í fjallaferðum. Þeim sem hafa áhuga á að kynna sér þetta betur bendi ég á að fylgja þessari krækju á heimasíðu Bergmanna. Myndin er einmitt fengin að láni af síðu þeirra. Hún gefur væntanlega einhverja hugmynd líka.
Þá vék Hjalti Páll að Sprotasetri Vaxeyjar sem er angi af fyrrnefndum vaxtasamningi. Þar er hægt að sækja um aðstöðu og handleiðslu hjá AFE til að koma atvinnuskapandi hugmynd á laggirnar. Núna er full nýting á aðstöðu Sprotasetursins en reglulega er auglýst eftir þátttakendum eftir því sem húsrúm leyfir (Sjá nánar hér).
Undir lok kynningar sinnar fór Hjalti Jón yfir stöðuna eins og hún er í dag og dró þar saman það helsta sem fram kom í kynningu hans varðandi nýtilkomin störf í aflþynnuverksmiðju Becromals og væntanleg störf ef endanlegur samningur um koltrefjaverksmiðju verður að veruleika. Þar sagði hann líka frá því að starfsmenn Atvinnuþróunarfélagsins hefðu farið í fjölda fyrirtækjaheimsóknir á Eyjarfjarðarsvæðinu undanfarna mánuði til að kanna stöðu og horfur.
Miðað við það sem kom út úr þessum heimsóknum er staðan utan Akureyrar yfirleitt ekki verri en hún hefur verið undanfarin ár. Atvinnurekendur á þessu svæði voru sammála um að kreppan á þessum stöðum hafi byrjað miklu fyrr eða fyrir 5 til 10 árum. Þar af leiðandi er staða þeirra síst verri nú en þessi ár aftur í tímann. Sumir fullyrtu m.a.s. að þeir hefðu það betra nú en fyrir haustið 2008. Hins vegar kom það fram í þessari yfirreið starfsmanna AFE að kreppan bitnar verulega á verslun og þjónustu hér á Akureyri.
Einn fundargesta spurði sérstaklega eftir því hvort þeir hefðu heimsótt byggingarfyrirtæki sem hann nefndi á Dalvík. Hjalti Páll kannaðist við það og minntist þess að þeir hefðu borið sig vel og sagst hafa verkefni átta mánuði fram í tímann. Fundargesturinn benti honum á að nú væri þetta fyrirtæki samt sem áður búnir að segja upp öllum sínum starfsmönnum.
Margir fleiri höfðu áhuga á að spyrja Hjalta Pál út í það sem fram kom í kynningu hans. Ekki síst varðandi það sem hafði komið fram í fyrirtækjaheimsóknum Atvinnuþróunarfélagsins og ekki síður hvaða spurningar höfðu verið lagðar fram í þessum heimsóknum. Þar sem tíminn var kominn nokkuð fram yfir áætluð fundarlok var fundi slitið en gestum boðið að koma spurningum sínum á framfæri við Hjalta Pál eftir fundinn.
Það varð úr að það mynduðust umræðuhópar vítt og breitt um salinn þannig að það var ljóst að efni fundarins vakti marga til umhugsunar og kveikti hugmyndir. Það er a.m.k. jákvætt ekki satt? Þeir sem þekkja skrif mín hér vita að ég geri mér fulla grein fyrir þeirri myrku ógn sem efnahagshrunið 2008 leiddi yfir íslenskt samfélag. Við verðum hins vegar að bregðast við og byggja upp. Jákvæðnin er sennilega besta verkfærið til slíkrar uppbyggingar.
Það jákvæðasta sem ég heyrði þetta fimmtudagskvöld kom reyndar fram eftir lok fundarins. Það var hugmynd um enn stærri fund eða ráðstefnu þar sem þeir sem höfðu verið með kynningar á þessum fundi, og allir þeir sem eru að vinna að uppbyggingu af því tagi sem var kynnt á þessum fundi, kæmu saman til að kynna sig og kynnast innbyrðis. Markmiðið væri ekki bara kynning heldur líka það að vinna betur saman og bæta þjónustuna við þá sem þyrftu á henni að halda.
Goðgá í nærveru þjóðar
1.3.2010 | 22:40
Þessi kona gerir mig brátt orðlausa! Sambandsleysi hennar við þjóðina er reyndar bara dapurlegt. Verst að það bitnar ekki bara á henni sjálfri heldur líðum við svo fyrir það að það jaðrar við angist! Angist sem er að snúast yfir í reiði. Reiði sem verður að heift. Heift sem mun brjótast út á meðan Jóhanna sefur enn aflokuð í sínum óraunveruleikaheimi...
Bendi annars á síðustu færslu mína sem fjallar um þýðingu þjóðaratkvæða- greiðslunnar með stuðningi af orðum breska hagfræðingsins Johns Kays.
Marklaus þjóðaratkvæðagreiðsla? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)