Þetta er bara ekki að gera sig!

Eftirfarandi er ræða sem ég flutti á laugardagsmótmælunum á Austurvelli síðastliðinn laugardag. Myndin frá mótmælunum er úr myndasafni Andress Zorans Ivanovics.

Kæru byltingarsystkin!

Þið eruð tilkomumiklir tilheyrendur! enda þingmenn á ALÞINGI GÖTUNNAR!

Rakel SigurgeirsdóttirOg ég er svakalega stolt af ykkur! þó ég hafi ekki fengið tækifæri til að exxa við ykkur á neinum kjörseðli.

Ég er ekki síður stolt af því að fá tækifæri til að ávarpa ykkur því að ég treysti betur á lýðræðisvitund ykkar en fulltrúanna sem exx kjósenda í þessu landi komu inn í alþingishúsið hérna handan götunnar. Fulltrúa sem atkvæðin okkar komu inn á þing af því við treystum þeim til að vinna að hagsmunum íslensku þjóðarinnar.

Það er ef til vill rétt að taka það fram strax að í mínum huga eru einstaka þingmenn sem standa á móti hagsmunastraumunum sem þar eru ráðandi og með hagsmunum okkar en þeir mega sín lítils einir. Ég leyfi mér því að fullyrða að þeir fagna stofnun ALÞINGIS GÖTUNNAR ekki síður en ég.

Ég dáist af ykkur fyrir framtakið svo og stefnuskrána. Hún endurspeglar ekki bara það réttlæti sem ég styð hundrað prósent heldur líka það ENDURMAT SEM ER SVO NAUÐSYNLEGT AÐ HÉR FARI FRAM.

Haustið 2008 klifaði þáverandi ríkisstjórn í sífellu á mikilvægi björgunarstarfsins sem þeir voru að vinna að. Við það að Samfylkingin hafði makaskipti í ríkisstjórnarsamstarfinu skipti um heiti og nú heitir það ENDURREISN sem er í forgangi.

Við sem stöndum hér höfum áttað okkur á því að í þeirri endurreisn er ekkert sem kemur okkur að gagni. Kannski stjórnmálamönnunum sjálfum og oföldu gæludýrunum þeirra, auðmönnunum, en alls ekki okkur almenningi!

Ég leyfi mér að fullyrða að eitt stærsta vandamál samfélagsins sé það sem ég kalla „sérhæfða vanhæfingu“. Sú hættulegasta er eiginhagsmunagæslan. Verða sérfræðingur í því að fá sem mest út úr sem minnstu. Eða með öðrum orðum verða ríkur og koma sér vel fyrir í samfélaginu á kostnað annarra.

Þessir hafa og eru því miður þeir sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar lögðu áherslu á að bjarga í björgunaraðgerðum sínum. Það er líka staða þessara í íslensku efnahags- og atvinnulífi sem Samfylking og Vinstri grænir leggja áherslu á að reisa við.

Við almenningur vorum aldrei inni í björgunaráætlun fyrri ríkisstjórnar og erum það ekki heldur inni í endurreisnaráætlun þeirrar núverandi. Ekki nema sem fjárfestingarkostur fyrir banka, lána- og innheimtustofnanir.

Af því sem við höfum horft upp á síðastliðið ár ætti okkur líka að vera orðið ljóst að þeir eru þó nokkrir sem starfa í alþingishúsinu handan götunnar sem eru meira að segja tilbúnir til að gefa erlendum fjármálastofnunum fullar veiðiheimildir í því sem við öflum okkur til lífsviðurværis.

Getum við treyst þessu fólki? Getum við treyst þessu Alþingi handan götunnar?

Ég tek undir með ykkur og segi: NEI! Alþingið handan götunnar leiðir okkur aðeins til GLÖTUNAR!

Sumir segja að búsáhaldabyltingin hafi ekki verið til neins. Að hún hafi ekki skilað okkur neinu nema ef vera skyldi meira af því sama.

Ég er ekki sammála því. Í mínum augum var búsáhaldabyltingin nauðsynleg. Við sýndum og sönnuðum að við, almenningur, kjósendur í þessu landi, getum haft áhrif. Gleymum því ekki! þó þeir sem þóttust ætla að vinna að endurbótum hafi svo brugðist okkur.

Þeir misnotuðu tækifærið sem þeir fengu til að vinna með okkur!

Sumir sem tóku fullan þátt í búsáhaldabyltingunni hafa því miður gefist upp. Aðrir hafa dregið sig í hlé. Þeir trúðu því að svokallaðri hægri stefnu í stjórnmálum hefði verið vikið frá völdum og við hefði tekið vinstri stjórn. Sumir kjósa að trúa því enn.

Flokksblinda er sorgleg hvort sem hún er til vinstri eða hægri. Það má ef til vill kalla blindu þeirra, sem trúa því að núverandi ríkisstjórn sé að vinna að velferðarmálum heildarinnar, vinstra light-heilkennið. En það skiptir kannski ekki máli hvað það er kallað.

En það gerið þið sem standið hér! Ykkur vil ég kalla réttlætissinna. Þið hafið ekki látið kasta ryki í augu ykkar! Þið hvikið hvergi! og sýnið óbilandi styrk í viðspyrnunni og baráttunni fyrir réttindum ykkar og samborgaranna.

John LockeEinn þeirra átjándu aldar spekinga, sem hugmyndir núverandi stjórnskipulags byggir á, sagði að ríkið sé grundvallað á þegjandi samkomulagi milli borgar- anna sem nefnt er samfélagssáttmálinn. Í grófum dráttum snýst þessi sáttmáli um það að einstakl- ingar gefi eftir tilkall sitt til tiltekinna réttinda en feli ríkisvaldi í hendur valdstjórn til þess að viðhalda reglu í samfélaginu og tryggja öryggi þegnanna.

Heimspekingurinn sem ég er að vitna til hét John Locke en ég geri ráð fyrir því að margir hérna kannist við þessar kenningar hans. En hann sagði líka að þegar valdhafar ryfu þetta samkomulag og virtu lítils eða einskis réttindi borgaranna, væri það réttur þeirra að rísa upp og hrinda þeim af höndum sér!

Búsáhaldabyltingin var til vitnis um það að samkomulagið sem ríkið er grundvallað á hafði verið rofið. Flokkarnir sem fengu umboð þjóðarinnar til að endurnýja þetta samkomulag í síðustu kosningum hafa líka brugðist þegnum þessa lands og þess vegna er alþingi götunnar nauðsynlegt!

Stefnuskrá þess tekur til mikils hluta af því endurmati sem hér þarf að fara fram. Í liðinni viku voru svo stigin fyrstu skrefin að því að stofna stjórnlagaþing fólksins.

Ég hef löngum dáðst að þolinmæði og langlundargeði íslensku þjóðarinnar sem getur líka komið fram í þrautseigju! Þið sem standið hér á þessari stundu hafið sýnt óbilandi þrautseigju.

Þið eruð sáningarmenn sem sáið í grýtta jörð en undir urðinni leynist jarðvegur og einhver fræjanna munu falla í hann. Skjóta rótum og vaxa upp sem harðgerð tré og bera ykkar sterku réttlætissýn fagurt vitni.

Látið þess vegna ekki hugfallast. Verið stolt af sjálfum ykkur og því sem þið hafið þegar áorkað. Það kann að virðast lítið en þegar þið tínið það allt saman þá vona ég að þið áttið ykkur á því hvað sá grunnur sem þið hafið byggt er framtíðinni mikilvægur.

Eyðum ekki tímanum í að hafa áhyggjur af þeim sem hafa ekki enn þorað að taka afstöðu.

Berjumst áfram fyrir alvöru lýðræði!

Upphafið er hér í alþingi götunnar og stjórnlagaþinginu! sem mun starfa án afskipta þingmanna gömlu hagsmunaklíkunnar sem hefur misnotað umboð sitt og fótumtroðið lýðræðið.

Ég hef fyglst náið með því sem hefur farið fram inni í þessu húsi þarna handan götunnar frá hruni. Sat meira að segja á þingpöllum milli jóla og nýárs. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að það þing sem þar starfar er ónýtt.

Alþingið handan götunnar er illa haldið að firringu eiginhagsmunagæslunnar. Það þurfa allir að horfast í augu við það að sú ríkisstjórn sem situr þar nú mun ekki vinna að þeim endurbótum sem eru nauðsynlegar samfélagi okkar frekar en sú sem fékk tækifæri til þess á undan henni.

Þeir sem hafa leitt ríkisstjórnarsamstarfið undanfarin misseri hafa grafið gjá milli þings og þjóðar.

En hvað er til ráða?

Við getum staðfest þessa gjá og lýst yfir sjálfstæði þjóðarinnar gagnvart Alþingi líkt eins og forfeður okkar gerðu gagnvart Dönum.

Ég treysti að minnsta kosti frekar á þann kraft sem býr í viðspyrnu ykkar en þeim úrelta hugsunarhætti sem gömlu stjórnmálamennirnir byggja á.

Þess vegna ætla ég að exxa við það endurmat og endurbætur sem alþingi götunnar og stjórnlagaþing fólksins hafa kynnt um leið og ég lýsi því yfir að ég hafna götóttri endurreisn eiginhagsmunagæslunnar sem Alþingi býður okkur almenningi að fórna framtíð okkar og lífsviðurværi fyrir!

Ég styð ykkur hundrað prósent og er þess vegna ósegjanlega stolt af því að fá þetta tækifæri til hvetja ykkur áfram hér í dag.

Höldum baráttunni ótrauð áfram!

Langar líka til að vekja athygli á ræðum hinna sem héldu ræðu sl. laugardag en það er ræða Vésteins Valgarðssonar og Einars Björns Bjarnasonar. Ræða Vésteins er að finna hér en ræða Einars Björns er hér.


mbl.is Gengur hægt að koma á fundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Mér þykir miður að ég komst ekki á fundinn á Austurvelli í gær.  Ég hafði svo marga gesti að ég gat ekki gengið út, öll börnin mín og barnabörn voru hérna hjá mér og minn fyrrverandi líka.  

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 15.3.2010 kl. 02:04

2 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Takk Rakel það býr kraftur í þér nýttu hann og ég mun standa með þér lifi lýðræðið niður með fjórflokkinn! Innkoma þín á Austurvelli var frábær.

Sigurður Haraldsson, 15.3.2010 kl. 02:37

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir innlitið bæði og takk fyrir kraftmikla kveðju Sigurður

Rakel Sigurgeirsdóttir, 15.3.2010 kl. 03:07

4 Smámynd: Þór Saari

Þetta var flott ræða hjá þér. Kraftmikil og beitt. Hvað svo sem líður mótmælum og Borgarafundum á Akureyri þá rennur enn blóðið í æðum sumra.

Þór Saari, 15.3.2010 kl. 08:24

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Mikið er ég ánægð með þessa ræðu, ég tek undir hvert orð.  Ég vil líka tilheyra alþingi götunnar.  Við þurfum að losna við eiginhagsmunaaðilana bæði úr viðskiptalífinu og hinu pólitíska. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.3.2010 kl. 08:27

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þór: Spurning hvort það er eldur eða blóð sem rennur í æðum mér

Ásthildur: Ég tel þig með þingmönnum alþingis götunnar!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 15.3.2010 kl. 13:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband