Borgarafundur: Samheldnin í akureysku samfélagi

Næst síðasti borgarafundurinn á þessum vetri var haldinn fimmtudagskvöldið 18. mars sl. Efni fundarins var „samfélgssamheldni“ sem er nýtt hugtak innan félagsvísindanna og einhvers konar nálgun við merkingu enska hugtaksins intergration innan sömu fræða. 

Framsögumenn þessa fundar voru:

  • Þóroddur Bjarnason, prófessor við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri
  • Hilda Jana Gísladóttir, dagskrármaður hjá N4-sjónvarpi
  • Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur í Akureyrarkirkju.

Embla Eir OddsdóttirEmbla Eir Oddsdóttir sá um fundarstjórn. Pallborðið var skipað núverandi fulltrúum í bæjarráði. Gestir á þessum fundi voru hátt í fjörutíu. Fyrirkomulag fundarins var með hefðbundnu sniðið. Þ.e. framsögumenn byrjuðu að flytja framsögur í ofantalinni röð. Þar reyndu þeir m.a. að svara því hvort samheldnin getur orðið samfélagi okkar til tjóns eða hvort við getum virkjað hana okkur til bjargar á tímum eins og þeim sem nú eru uppi í samfélaginu? 

Því næst fengu bæjarfulltrúarnir tækifæri til að bregðast við því sem fram kom í framsögunum og/eða yfirskrift fundarins en í lokin sátu þeir fyrir svörum við spurningum áheyrenda eða tóku við ábendingum frá þeim.

Þóroddur Bjarnason, prófessor við félagsvísindadeildina hér á Akureyri, reið á vaðið með fyrirlestri sem hann kallaði Félagslegur auður Akureyrar: Brýr eða bönd? Ég vil vekja athygli á að glærur Þórodds, sem eru mjög skemmtilega myndskreyttar, fylgja þessari færslu. Krækja sem leiðir inn á þær er að finna hérna neðst.

Framsaga Þórodds Bjarnasonar

Þóroddur byrjaði á því að útskýra hvað hugtakið samfélagssamheldni stendur en það eru: fjárhagslegur auður, mannauður (menntun, hæfileikar, reynsla) og félagslegur auður og tók það fram að í meginatriðum myndi framsaga hans fjalla um það sem sneri að því sem felst í hugmyndinni um félagslegan auð eða auðnum sem er fólginn í tengslunum á milli fólks.
Félagslegur auður
Í því sambandi talaði hann um að þegar fólk hjálpast að gangi hlutirnir hraðar fyrir sig eins og þegar ráðist er í stórframkvæmdir líkt og það að að byggja hlöðu. Slík samhjálp kostar ekkert nema stuðninginn. Þá vék hann að því að peningar geta orðið jafnt til góðs eða ills og að menntun gerir engan góðan. Hana má nota bæði til góðra og illra verka. 

Í framhaldinu nefndi Þóroddur nokkur dæmi um það hvernig þessir þættir nýttust í mismunandi verkefnum en sneri sér þá aftur að aflinu sem byggi í hinum félagslega auði. Þar nefndi hann búsáhaldabyltinguna sem gott dæmi um það hverju samvinna og samstaðan getur skilað. Samstaðan sem skapaðist þar varð til þess að koma heilli ríkisstjórn frá.

Hann tók það fram að ýmis samfélög eða hópar verða til þar sem aðilar hjálpast að. Sumir til góðs aðrir til ills. Sem dæmi um jákvæða samhjálp nefndi hann íbúa stúdentagarða sem hlaupa undir bagga hver með öðrum. T.d. í sambandi við barnapössun. Hins vegar benti hann á að hópurinn sem hefur orðið til getur upplifað samstöðuna og hlunnindin sem hann nýtur af tengslunum innan hans sem eitthvað jákvætt. 

Upplifun hópsins á gæðum samstöðunnar segir hins vegar ekkert til um það hvernig hún kemur út fyrir þá sem standa utan hans. Sem dæmi um þetta nefndi Þóroddur m.a. Hells Angles og hópinn sem er samankominn á myndinni hér fyrir neðan. 

Þekktir útrásarvíkingarNæst sneri Þóroddur sér að því að skýra hugtakið félagslegan auð enn frekar en það samanstendur að eftirtöldum þáttum: trausti, samstöðu og gagnkvæmum stuðningi. Í gegnum hópinn verður svo til ákveðið tengslanet sem getur einkennst af tvennu. Annars vegar böndum innan hópa en hins vegar brúm á milli hópa.

Þóroddur BjarnasonFélagslegu böndunum sagði Þóroddur fylgir eftirtalið:

  • Fjöltengsl styrkja innviði samfélagsins.
  • Langvarandi samskipti byggja traust.
  • Viðhald sameiginlegra viðmiða.
  • Virkt félagslegt taumhald.
  • Heildin er sterkari en summa hlutanna 

Félagslegu brúunum aftur þetta:

  • Veik tengsl stækka tengslanet.
  • Fjölbreytt tengsl virkja margar bjargir.
  • Nýsköpun og miðlun nýrra hugmynda.
  • Frelsi til að byggja sitt eigið net.
  • Heildin er sterkari en summa hlutanna.

Í framhaldi þessara skilgreininga varpaði Þóroddur fram spurningunni um það að hve miklu leyti akureyskt samfélag einkenndist af böndum og brúm? Í því samhengi byrjaði hann að skoða hvar íbúar Akureyrar eru fæddir.

Eins og sjá má á glæru 19 (sjá viðhengi með glærum Þórodds neðst í þessari færslu) þá eru 61% Akureyringar fæddir hér en 39% eru fæddir annars staðar. Samkvæmt skilgreiningu Þórodds mynda þessir 39% félagslegar brýr vegna þess að þeir hafa tengsl út fyrir „virkið“.

Þá vísaði Þóroddur í heimild frá Birgi Guðmundssyni (sjá glæru 20 í glærupakkanum sem er krækt neðst við þessa færslu) sem er samantekt frá árinu 2006 á því hversu lengi akureyskir kjósendur hafa búið á Akureyri. Niðurstöður Birgis sýna að árið 2006 hafði um þriðjungur Akureyringa alltaf búið hér en annar þriðjungur hafið líka búið annars staðar en á Akureyri í meira en 20 ár.

Akureyringar sem eru fæddir á Akureyri eru 10.000 en alls eru íbúar bæjarins 17.000 á móti 250.000 sem búa á Suðvesturhorninu. Ef við lítum á sveitarfélögin við Eyjafjörðinn þá verður við 24.000. Ef við víkkum sjóndeildarhringinn enn frekar og samsömum okkur með þeim sem búa í nágrenni við okkur þá telur heildin 36.000 íbúa.

Þóroddur endaði framsögu sína á því að benda á að brýr liggja í báðar áttir og því fleiri sem standa saman þeim mun líklegra er að sameiginlegir hagsmunir heildarinnar nái fram að ganga. Hins vegar varpaði hann fram þeirri spurningu hvort annað þyrfti endilega að útiloka hitt? Þ.e. að ef við kjósum að byggja félagslegar brýr yfir til nágrannabyggðarlaganna þá þarf það ekki að þýða að við þurfum að henda kostum félagslegra banda.

Framsaga Hildu Jönu Gísladóttur 

Hilda Jana byrjaði á því að velta upp mörgum hliðum samheldninnar eða réttara sagt því að hún getur komið fram á ýmsum sviðum. T.d. í  samvinnu, fjölskyldum eða innan annars konar hópa. Þá vék hún að sinni upplifun að því að flytja til Akureyrar og komast inn í akureyskt samfélag.

Hilda Jana 
GísladóttirHún hafði heyrt ýmsar sögur af því að það gæti reynst erfitt að komast inn í samfélagið hér en það var samt ekki hennar reynsla. Akureyringar standa aftur á móti saman þegar eitthvað bjátar á. Þeir koma líka saman til að styðja akureyskt íþróttalið. Auk þess er ljóst að það er „bannað“ að tala illa um eitthvað sem er Akureyringum kært eins og t.d. Hlíðarfjall.

Hilda Jana skemmti sér yfir því að það er engu líkara en samstaðan hér komi ekki síður fram í þegjandi samkomulagi um að standa saman um það að halda því fram að hér sé alltaf gott veður. Þó samstöðunni fylgi ýmsir kostir eins og þeir að akureyskt samfélag virkar eins og ein fjölskylda við ofangreindar aðstæður benti Hilda Jana á að á þessu væru líka neikvæðar hliðar.

Í litlum samfélögum er t.d. rík tilhneiging til að móta alla í sama form. Þeir sem beygja sig ekki undir það komast ekki inn í hópinn og hverfa þess vegna í burtu. Það er líka erfitt að misstíga sig í litlum samfélögum eins og Akureyri. Eitt hliðarspor getur fylgt þér alla ævi því hópurinn man eftir mistökunum og telur þau alltaf með þannig að viðkomandi á í sumum tilvikum ekki séns á að halda áfram eða fá annað mat en hópurinn hefur gefið honum í ljósi hliðarsporsins.

Þá vék Hilda Jana að því hvernig samheldni eða samvinna hefði ekki verið til staðar á milli aðstandenda Fiskidaga á Dalvík og Handverksmarkaðar á Hrafnagili . Í stað þess að vinna saman voru þeir í samkeppni til að byrja með en síðan þegar þeir tóku sig saman njóta báðir atburðir góðs af. 

Að mati Hildu Jönu geta margir lært af þeim. Sem dæmi nefndi hún annars vegar verslunarkjarnann í miðbænum og verslunarmiðstöðina á Glerártorgi og hins vegar ýmis veitingahús. Í framhaldi benti hún á að samheldnin gæti líka haft neikvæðar hliðar. Þeir sem líta t.d. á sig sem heild eða það að þeir eru saman í liði forðast gjarnan að ræða það sem er slæmt eða erfitt eða m.ö.o. það sem er fyrirfram vitað að spillir friðnum innan einingarinnar.

Samfélagið þarf nefnilega líka gangrýni. Endalaus jákvæðni leiðir til stöðnunar. Lokar á nýsköpun og aðrar jákvæðar hliðar gagnrýninnar samræðu. Ef samheldnin er orðin að aðalatriði þá getur hún leitt til stöðnunar. Þess vegna verður að forðast það að samheldnin komi í veg fyrir heilbrigð átök eins og t.d. í pólitíkinni.

Framsaga Svavars Alfreðs Jónssonar

Svavar hóf framsögu sína á vangaveltu um það hversu erfitt mörgum reynist að vera öðruvísi og varpaði eftirfarandi fram í því sambandi: „Það er svo merkilegt hve fáir eru eins og fólk er flest.“ Að öðru leyti fjallaði Svavar um samheldnina út frá fjölskylduhugmyndinni. Í því sambandi sagði hann að samheldið samfélag væri eins og ein stórfjölskylda.

Svavar Alfreð JónssonHann sagði að það gæti vel verið að Akureyri hafi einhvern tímann verið þannig samfélag áður en hann kynntist því. Sjálfur ólst hann upp á Ólafsfirði og samfélagið þar var svo sannarlega eins og ein stór fjölskylda. Þeir stóðu saman í gleði og sorg en í því sambandi nefndi Svavar bæði það að við jarðarfarir hefði allur bærinn flaggaði í hálfa stöng og svo það þegar einhver varð foreldri uppskar sá hinn sami hamingjuóskir frá öllum íbúunum.

Samheldni af þessu tagi er miklu fátíðari í stærri bæjum eins og á Akureyri en þó viðurkennir Svavar að hafa heyrt það að samheldnin í akureysku samfélagi sé „óþarflega mikil“. Hann sagði ennfremur að mjög mikil samheldni væri heldur ekki alltaf æskileg þar sem átök séu líklegri til að leiða til breytinga.

Þá vék Svavar nánar að samheldni innan fjölskyldna sem hann sagði mikilvæga og vitnaði í því samhengi í Stanley Hauerwas. Hann hefur bent á að samheldni fjölskyldunnar hafi verið fórnað fyrir þjóðfélagslega samheldni. Þessu til útskýringar nefndi Svavar sem dæmi að í fjölskyldum væri lögð rækt við ýmis sérkenni eins og sérstakt tungumál eða önnur trúarbrögð en er ríkjandi í þjóðfélaginu sem fjölskyldan býr í.

Það hvernig fjölskyldusamheldninni hefur verið fórnað fyrir þá samfélagslegu kemur ekki síst fram í því að foreldrum er ekki lengur treyst til að ala upp börnin sín. Foreldrar nútímans eru því eins og framkvæmdastjórar í vel smurðu framleiðslufyrirtæki.

Svavar vitnaði í Milton Friedman í þessu samhengi sem sagði að þjóðfélagið hefði ekkert með það að gera hvernig einstaklingurinn nýtir sér sitt persónulega frelsi. Þessi hugmyndafræði hefur leitt það af sér að hver einstaklingur á helst ekki að vera upp á neinn kominn nema sjálfan sig. Foreldrar eiga heldur ekki að vera að innræta barninu neitt af sínum viðhorfum. Barnið á að hafa „frelsi“ til að finna út úr því sjálft hvað hentar því sjálfu best.

Svavar vildi meina að tregða foreldra við að leiðbeina börnunum sínum benti til þess að þeir hafi misst trúna á gildunum sem þeir ólust upp við sjálfir. Hann lauk svo máli sínum með því að benda á að „ef við höfum ekki kjark til að leiðbeina börnunum okkar varðandi það hvað felst í því að vera manneskja mun ekki líða á löngu fyrr en hér ríkir algjör upplausn í stað samheldni“

Pallborðið

Í pallborði sátu eftirtaldir fulltrúar í bæjarráði Akureyrar:
  • Erlingur Kristjánsson, varabæjarfulltrúi Framsóknarflokks
  • Hermann Jón Tómasson, bæjarstjóri og bæjarfulltrúi Samfylkingar
  • Kristín Sigfúsdóttir, bæjarfulltrúi Vinstri Grænna
  • Oddur Helgi Halldórsson, bæjarfulltrúi L-lista fólksins
  • Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks

Borgarafundur á Akureyri 18.03.10Það var komið að því að pallborðið fengi orðið en fyrst fengu þau sem þar sátu tækifæri til að bregðast við því sem kom fram í framsögunum og yfirskrift fundarins. Það varð strax ljóst á viðbrögðum þeirra að margt að því sem hafði komið fram hjá framsögumönnunum hafði vakið þau til umhugsunar um hugtakið samheldni sem er sennilega viðtekið að fólk upplifi sem eingöngu jákvætt.

Oddur Helgi: Fékk orðið fyrstur og vék máli sínu sérstaklega að erindi Þórodds og lagði það út af því að mannauðurinn væri dýrmætari en peningar.

Sigrún Björk: Vék eitthvað að öllum framsögunum og benti á að það hefði verið virkilega athyglisvert að hlusta á fræðimanninn, fjölmiðlamanninn og guðsmanninn og taka þátt í því að upplifa þeirra sýn á akureyskt samfélag svo og hugtakið samheldni frá þessum mismunandi sjónarhornum. Sjálf sagði hún upplifa Akureyringa sem traust og samheldið fólk sem hefði áhuga á samfélaginu.

Hermann: Sagði að leið samstöðunnar og samheldninnar sem farin hefði verið í bæjarpólitíkinni hérá á kjörtímabilinu hefði skilað akureysku samfélagi mun meiru en átökin inni á þingi hefðu skilað íslensku samfélagi. Hann sagði jafnframt að átök ættu við á tilteknum tímum. Þau ættu t.d. vel við í sókn en samheldnin væri líklegri til árangurs í vörn.

Erlingur: Var sérstaklega hugsi yfir því sem kom fram í máli Þórodds en vék líka að því sem Hilda Jana hafði sagði varðandi minnihlutahópa sem hann sagði að hann gæti vel tekið undir með henni að ættu lítinn séns hér. 

Kristín: Sagði að það væri sín upplifun að hér á Akureyri ríkti samstaða og samheldni. Annars þakkaði hún Svavari sérstaklega fyrir hans fyrirlestur og tók undir það að fjölskyldubönd hefðu trosnað mikið. Hún vék líka að því að þeir sem vildu verja fjölskylduna ættu gjarnan undir högg að sækja og nefndi skammaryrði eins og „forræðishyggjumæður“ sem væri notað til að gera lítið úr mæðrum sem vildu hafa of mikil afskipti af því hvernig börnin þeirra væru alin upp af stofnunum og félögum sem hefðu eitthvað með þau að gera.

Fyrirspurnir

Gestir á þessum fundi voru tæplega fjörutíu. Þegar opnað var fyrir fyrirspurnir var ljóst að margir meðal áheyrenda voru líka hugsandi yfir því sem fram kom í framsögunum og var fyrstu fyrirspurninni beint til Þórodds sem hann svaraði greiðlega. Í framhaldinu benti fundarstjórinn á að fyrirspurnum skyldi beina til gesta í pallborði. Fyrsta spurningin til þeirra snerist um það hvort fulltrúar í núverandi bæjarráði væru hlynntir stækkun bæjarfélagsins eða einhvers konar samvinnu við nágrannasveitarfélögin sem miðaði að því að „byggja brýr“ á milli þeirra og Akureyrar. Auk þess voru þau spurð að því hvort samheldnin sem samvinna þeirra á yfirstandandi kjörtímabili myndi ekki týnast í kosningabaráttunni.

Kristín: Sagði að hún hefði áhuga á að gera Eyjafjörðinn að einu sveitarfélagi. Hún taldi það m.a. geta stuðlað að því að það mætti verja betur velferðarkerfið á svæðinu.

Erlingur: Sagðist vera fylgjandi stækkun og benti á í því sambandi að þegar maður hefur verið lengi inni í einhverjum tilteknum hópi þá væri maður farinn að hafa það mjög gott þar þess vegna væri líka e.t.v. ástæða til að breyta til.

Hermann: Sagðist vera fylgjandi stækkun því það myndi leiða af sér hagræðingu á ýmsum sviðum. Varðandi samvinnuna á kjörtímabilinu sem nú er að líða undir lok benti hann á að þeim hefði tekist að setja niður meginlínur sem þau urðu sammála um til að verjast. Línan skilaði sér fyrir bæjarfélagið og akureyskt samfélag.

Sigrún: Telur sameiningu jákvæða en er ekki bjartsýn á að hún takist. Sigrún tók undir það með Hermanni að samvinnan hefði skilað sér en efast um að hún verði til staðar í kosningabaráttunni. Hún benti á að samvinnan þýddi ekki að engin átök hefðu orðið. Þau hefðu hins vegar ekki verið gerð opinber.

Hún bætti því við að það hefði verið mjög slæmt að missa svæðisútvarpið því það skipti máli við að viðhalda samheldninni á svæði þess.

Oddur Helgi: Sagðist vilja sameiningu sveitarfélaga frá Vopnafirði til Hrútafjarðar. Hann sagðist vilja 36 fulltrúa í bæjarstjórn en færri bæjarstjórnarfundi. Í stað bæjarstjóra vill hann að ráðinn verði framkvæmdarstjóri.

Hvað varðaði þá samstöðu sem tókst að mynda í bæjarstjórnarpólitíkin hér, sem viðbrögð við hruninu haustið 2008, vildi hann þakka það veru sinni í bæjarráði og þá fyrirmynd sem störf hans þar hafa skapað. Hann sagði að frá því að hann kom inn í bæjarráð þá væri hann búinn að hrista svo duglega upp í hefðbundnu stjórnmálastarfi þar sem meirihluti og minnihluti stæðu gegn hver öðrum. Þetta hefði hann gert með því að standa alltaf með sannfæringu sinni í hverju máli óháð því hvort málin sem tekist var á um voru upprunninn frá meirihlutanum eða minnihlutanum.

Hann hrósaði bæði Hermanni og Sigrúnu fyrir það hvernig þau hefðu tekist á við vandann sem þau stóðu frammi fyrir haustið 2008 en hugmyndin að því að allir ynnu saman að lausn mála hefði sennilega verið óhugsandi nema fyrir það að hann hafði rutt óflokksbundnum vinnubrögðum braut með sínu verklagi.

Borgarafundurá Akureyri18.03.10Rúnar Þór Björnsson, sem er einn þeirra sem vann að stofnun Grasrótar: Iðngarða og nýsköpunar hér á Akureyri, var meðal áheyrenda. Hann sagði að hann hefði áhyggjur af þeim sem eru atvinnulausir og ekki í neinni virkni. Hann benti á að það væri nauðsynlegt að byggja brýr til þeirra. 

Birgir Guðmundsson, deildarformaður félagsvísindadeildar Háskólans á Akureyri, benti á að hér á Akureyri væri nær að tala um samstöðupólitík en átakapólitík en spurði eftir fjölmiðlastefnu bæjarins. Í því sambandi sagði hann að samtalið sem færi fram í fjölmiðlum byggi til samfélagið

Kristín: Vill hlúa að ríkisútvarpinu. Ábendingu Rúnars Þórs svaraði hún á þá leið að Almannaheillanefnd og Vinnumálastofnun fylgjast með atvinnulausum og öðrum nauðstöddum en þrátt fyrir það gengur illa að ná til jaðarhópa.

Erlingur: Tók undir með Rúnari  Þór varðandi það að það væri ástæða til að hafa áhyggjur af atvinnulausum en benti á að Akureyrarbær stendur sig þó nokkuð vel samanborið við ýmis önnur sveitarfélög. 

Hvað fjölmiðlastefnu sagði hann hana ekki hafa verið mikið rædda en hins vegar væri það í höndum Akureyrarstofu að annast ímynd bæjarins í fjölmiðlum.

Hermann: Sagði athugasemd Rúnars Þórs réttmæta þó það bæri að athuga að hér fer fram heilmikil vinna við það að virkja atvinnulausa. Hvað fjölmiðlastefnu bæjarins varðar viðurkenndi hann að engin slík væri fyrir hendi en tók undir það að núverandi ástand væri illþolanlegt.

Sigrún: Sagði það nánast engan sparnað að leggja niður svæðisútvarpið. Hún benti á það að til að byggja upp sterkan norðlenskan fjölmiðil teldi hún árangursríkast að sameina Vikudag og Dagskrána.

Hvað ábendingu Rúnars Þór varðaði taldi hún það ekki auðvelt að ná til þessa hóps. Tengingin væri þó Vinnumálastofnun.

Oddur Helgi: Gerði að umtalsefni að það fylgdi atvinnuleysinu að draga sig í hlé. Hann benti á að hans stefna í fjölmiðlamálum væri að koma L-listanum í fjölmiðla en þar hefur hann átt mjög undir högg að sækja.

Þá kom fyrirspurn sem varðaði áhrif neikvæðrar samheldni sem kemur m.a. fram í klíkuskap og hugsanleg viðbrögð við slíku af bæjarins hálfu.

Oddur Helgi: Sagði að þegar hann kom fram með framboð sitt, L-listann, hefði hann svo sannarlega fundið fyrir afleiðingum klíkuskaparins þar sem allir flokkar hefðu þá tekið sig saman um að standa á móti framboði hans. 

Sigrún, Hermann og Erlingur svöruðu fyrirspurninni ekki beint en könnuðust þó öll við það að neikvæð samheldni væri fyrir hendi hér eins og annars staðar.

Kristín: Lá svo mikið á hjarta varðandi þetta efni að hún sagði að það þyrfti hreinlega annan fund til að ræða þetta tiltekna málefni en að hennar sögn er þetta alveg óþolandi oft og tíðum. Hún hefur upplifað það að finnast eins og allt hafi verið ákveðið fyrirfram: verkið, verktakinn og undirverktakar. Hún sagði að borgarafundir og íbúalýðræðið væri helsta vopnið til að berjast gegn því að klíkuskapur af slíku tagi vaði uppi.

Þá var komið að lokum fundarins og lokaði Embla Eir, fundarstjóri, fundinum með því að taka saman efni fundarins þar sem hún sagði að efni framsögumannanna hefði greinilega verið mjög hugvekjandi. Það væri ljóst að samheldni væri flókið fyrirbæri sem hefði á sér ýmsar hliðar; bæði jákvæðar og neikvæðar.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Vá en frábært hjá þér að koma þessum fundi svona skilmerkilega að hér.  Innilega takk fyrir þetta Rakel mín. Það er smávon svona einhversstaðar meðan fólk er að tala sig saman og ræða málin.  Og gott að vita af því líka.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.4.2010 kl. 16:30

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég held að ástæðan fyrir því hve litla umfjöllun þessir fundir fá sé einmitt sú að þetta er of jákvætt

Rakel Sigurgeirsdóttir, 7.4.2010 kl. 02:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband