Áframhaldandi áhættufjárfestingar

Hún er svo sannarlega undarleg forgangsröðunin þegar herðir að. Í stað þess að hlúa að því sem fyrir er, er skorið niður þar en rokið út í byggingu lúxus-sjúkrahúss. Það er ekki velferð íbúanna sem ræður hér för heldur sama firrta gróðahyggjan og setti hér allt á hausinn.

Á meðan heilsugæslum og öðrum sjúkrastofnunum er lokað úti á landsbyggðinni vegna þeirrar aðhaldsstefnu sem er sögð nauðsynleg á núverandi „samdráttartímum“ er rokið út í margra milljarða byggingu fyrir forréttindasjúklinga peningaveldisins. Íbúar landsins eru settir út í kuldann á sama tíma í tvennum skilningi.

Annars vegar eru það þeir sem þurfa á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda sem finna verulega fyrir skertri þjónustu en það er líka heilbrigðisstarfsfólkið sem líður fyrir auranna sem á að kreista út úr heilbrigðisgeiranum svo excel-skjalið yfir hagræðingu og ný útgjöld líti sannfærandi út. Allir skjólstæðingar heilbrigðiskerfisins finna fyrir verðhækkunum á þjónustu en það sem er þó enn tilfinnanlegra fyrir þá sem þurfa virkilega á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda eru lokanirnar og fækkun starfsfólks.

Þeir sem búa út á landi þurfa margir hverjir að sækja alla heilbrigðisþjónustu um langan veg. Þeir sem glíma við sértækari heilbrigðisvandamál þurfa allir að sækja hana til Reykjavíkur. Álagið á starfsfólk, einkum sjúkrahúsa, hefur líka stórum aukist vegna lokanna úti á landsbyggðinni og svo því að stöðugt færri er ætlað að standa vaktina inni á deildum sjúkrahúsanna. Ef einhver sem á vakt er veikur er engin afleysing.

Álagið á heilbrigðisstarfsfólk er þess vegna tvöfalt. Annars vegar er sívaxandi álag í vinnunni sem kemur niður á líkamlegri -, félagslegri- og andlegri líðan. M.ö.o. þá er starfsfólkið undir slíku álagi að heilsa þess er í beinni hættu. Ef og þegar það veikist getur það tæplega „leyft“ sér að vera veikt því það veit að fjarvera þeirra bitnar á nánasta samstarfsfólki þeirra.

Það ætti að liggja í augum uppi að krepputímum, eins og þeim sem blasa við okkur í dag, fylgja ýmsar hliðarverkanir sem koma fram í heilbrigðiskerfinu. Það er því mjög brýnt að hlúa sérstaklega að því. Styrkja stoðirnar og bæta við þar sem á þarf að halda. Þess í stað finnst stjórnvöldum eðlilegt að ráðast út í byggingu lúxussjúkrahúsa!

Í tengdri frétt segir:

Áætlaður kostnaður við nýbyggingu Landspítalans er um 33 milljarðar króna á verðlagi í mars 2009. Standa vonir til að framkvæmdir við hana geti hafist sumarið 2011 og er áætlað að þær standi fram á árið 2016.

Gunnar Svavarsson, formaður verkefnisstjórnar nýs Landspítala, segir að miðað við verkáætlunina sé raunhæft að hefja framkvæmdirnar næsta sumar því gert sé ráð fyrir því að hvorki hönnunarteymin né dómnefndin fái frest. „Þannig að 5. ágúst á að vera hægt að gera samninga við hönnunarteymið upp á 700-800 milljónir. Fyrir þann tíma þarf að vera tryggt að fjármögnunin fyrir hönnunarhluta verksins liggi og lífeyrissjóðirnir hafa lýst því yfir að þeir vilji fjármagna það. Næsta vor þarf síðan fjármögnun upp á þessa 33 milljarð og lífeyrissjóðirnir hafa einnig lýst því yfir að þeir séu tilbúnir í þá fjármögnun.“(leturbreytingar eru mínar)

Eins og kemur fram í fréttinni á ekki aðeins að skera niður við okkur, almenna launþega, heilbrigðisþjónustuna heldur á líka að setja sparnaðinn sem við leggjum fyrir af laununum okkar í forréttindaspítalann sem stendur til að byggja í stað þess að tryggja sem besta grundvallarþjónustu inni á núverandi heilbrigðisstofnunum.

Það eru reyndar fleiri ekki síður ógáfulegar stórframkvæmdir sem gert er ráð fyrir að lífeyrissparnaðurinn okkar verði settur í enda lítur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn á hann sem eign ríkisins!

Ef þú ert á móti áhættufjárfestingum af því tagi sem hér hefur verið vakin athygli á ættir þú að kíkja við inni á kjosa.is og skrifa þar undir.


mbl.is Keppin um Landspítala hafin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hélt að þetta ætti að vera hátæknisjúkrahús ekki lúxussjúkrahús. Með tilkomu þessa sjúkrahúss eiga biðlistar eftir minnka, heilbrigðisstarfsmenn fá betri aðstöðu til að gera ýmiskonar aðgerðir og stunda rannsóknir. Sjúkrarúmum á eftir að fjölga þannig að þeir sem eru veikir eru ekki sendir heim eftir nokkra daga út af plássleysi, þetta á líka eftir að skapa ákveðið hagræði í rekstrinum þannig að þeir litlu peningar sem eru til eiga eftir að nýtast betur. Líka fínt að Lífeyrissjóðirnir taki þátt í þessu, þetta eru alvöru fjárfestingar sem skapa alvöru verðmæti fyrir land og þjóð, sérstaklega fyrir veika lífeyrisþega. Ég vill frekar að lífeyrinn minn fari í sjúkrahús en í áhættufjárfestingar í bönkum eða eitthverju álíka. 

Það má örugglega gagnrýna margt í byggingu og skipulagi þessa sjúkrahús, en ég held að þú sért að misskilja allsvakalega eða þú ert bara ein af þessum sem vill vera á móti.

Bjöggi (IP-tala skráð) 15.3.2010 kl. 17:00

2 identicon

Já svo hafa fjárfestingar í Sjúkrahúsum, Skólum og örðum mikilvægum innviðum samfélagsins aldrei talist til áhættufjárfestinga, heldur eru þetta fjárfestingar sem eru nauðsinlegar fyrir almenna hagsæld og framfarir samfélaga.

Þú villt kannski fá eitt Austurevrópskt sjúkrahús hingað í staðin fyrir það sem við eigum núna?

Bjöggi (IP-tala skráð) 15.3.2010 kl. 17:04

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Bjöggi: Það er gott að einhver er blindur og bjartsýnn eins og þú. Annars hefðir þú e.t.v. átt að horfa á heimildamyndina The big shell out til að átta þig á að heimurinn er ekki bara góður. Það væri líka séns að ég tæki þig alvarlega og svaraði þér málefnalega ef þú hefðir ekki skotið svo hraustlega yfir markið í þínum eigin málflutningi eins og þú gerir í lokamálsgreininni í seinna innlegginu þínu.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 15.3.2010 kl. 20:56

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Búin að skrifa undir Rakel mín. Ég er alveg sammála þér með að þetta hátæknisjúkrahús Lúxus er vitlaus forgangsröðun.  Það finnst mér líka um tónlistarhöllina og marg fleira sem forsvarsmenn okkar hafa í forgangi.  Það er alveg ljóst að þetta fólk er ekki ó nokkru sambandi við þjóðina og því sem hún þarfnast.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.3.2010 kl. 11:43

5 identicon

Fyrirgefðu, en vitlaus blogg fá vitlausar athugasemdir. Reyndar held ég að þú vitir ekki hvernig þú eigir að svara mér af því að þú veist að ég hef miklu meira vit á þessu en þú. 

Hvað viltu þá gera fyrir þessa peninga? Borga IceSave?

Víst ég er hérna, í hverju er áhættan fólgin að fjárfesta í hátæknisjúkrahúsi. 

Bjöggi (IP-tala skráð) 16.3.2010 kl. 19:48

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég nenni ekki að taka þátt í þínum skítuga leðjuslag. Skil þess vegna við þig í þínum heimatilbúna forarpytti eigin sjálfsupphafningar. Vona að þú hafir tekið með þér spegil þangað svo að þú getir a.m.k. dáðst að eigin yfirburðum í honum.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 16.3.2010 kl. 21:34

7 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæl Rakel,

takk fyrir frábæra ræðu á laugardaginn var. Er hann fæddur??

Ég hef alla tíð verið mikill áhugamaður um nýjan Landspítala. Í dag er ég reyndar mjög mótfallinn þeim hugmyndum sem eru uppi um byggingu hans. Ég tel það mikla áhættu að lána ríkinu ellilífeyrinn minn. Tel mig ekki hafa nokkra tryggingu fyrir því að fá hann endurgreiddan, og hvað þá? Það sem gleymist í allri þessari umræðu að endurgreiðslur ríkisins til lífeyrissjóðanna eru töluverðar upphæðir og bætast ofaná slæma stöðu ríkissjóðs. 

Við verðum að spara og byggja sjúkrahús þegar til eru afgangs peningar.

Bið alla að nota ekki orðið "hátæknisjúkrahús", svipað og að kalla Flugleiðir hátækniflugfélag því þeir byggja sér nýtt flugskýli.

Ekki kalla Landspítalann Lúxus, hann er nauðsyn hvoru megin Ártúnsbrekkunnar þú býrð.

Gunnar Skúli Ármannsson, 16.3.2010 kl. 21:41

8 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Blessaður Gunnar Skúli! og þakka þér sömuleiðis fyrir tækifærið. Hann er ekki fæddur. Lætur bíða eftir sér þessi elska

Ég myndi ekki hafa áhyggjur af byggingu nýs Landspítala og reikna ekki með að ég kallaði hann lúxus heldur nema vegna aðstæðnanna sem stendur til að byggja. Þegar heilbrigði landsbyggðarinnar er ógnað með niðurskurði og gamalt fólk á öldrunarheimilum þarf að líða fyrir það sama þá er ekki rétti tíminn til að fara út í fjárfrekar nýframkvæmdir.

Það er álíka gáfulegt og ég t.d. ákveddi að sleppa því að gera við stóru sprunguna á stofuglugganum vegna blankheita en réðist samt sem áður út í byggingu á nýjum bílskúr

Rakel Sigurgeirsdóttir, 17.3.2010 kl. 01:05

9 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Þessi draumur íslenskra stjórnmálamanna að byggja hátæknisjúkrahús, finnst mér vera úreltur draumur.  Húsbygging getur ekki talist alvöru fjárfesting, á meðan fólkið í landinu þarf að neita sér um læknisþjónustu vegna fjarlægðar frá sérfræðingum eða vegna fátæktar sjúklinganna.  Kerfið hérna verður að vernda, bæði heilbrigðisþjónustuna og menntakerfið. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 17.3.2010 kl. 01:36

10 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Jaja, mannin skal reyna, bara ná í tappatogara og kippa piltinum á skattskýrsluna.

Jóna,

ekki nota orðið hátæknisjúkrahús, okkur á Landspítalanum finnst það svo neikvætt og niðrandi. Landspítalinn hefur verið hátæknisjúkrahús frá 1930 og við ætlum að vera það þó í gömlu húsi sé.

Gunnar Skúli Ármannsson, 17.3.2010 kl. 13:23

11 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Þeir eru ornir hræddir fyrir sunnan ég bloggaði sem öryggisvörður á móti ofurbónusakerfi sem Landsbankinn er væntanlega að fara að innleiða og var mér uppálagt að taka það út vegna þess að öryggisverðir eru í bankanum fyrir sunnan og hætt við að þeir missi vinnuna ef eitthvað er sagt.

Það voru jú bankarnir og bónuskerfi þeirra sem áttu stóran hlut að hruni okkar þess vegna segi ég að við verðum að nota alla þá möguleika sem við eigum til að stöðva bankana í þeirra hættulega leik!

Sigurður Haraldsson, 17.3.2010 kl. 23:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband